- Kærumál
- Kæruheimild
- Áfrýjunarfjárhæð
- Frávísun frá Hæstarétti
|
Þriðjudaginn 23. ágúst 2011. |
Nr. 488/2011. |
Magnús Ingiberg Jónsson (Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda (enginn) |
Kærumál. Kæruheimild. Áfrýjunarfjárhæð. Frávísun frá Hæstarétti.
M kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hans um ógildingu aðfarargerðar sýslumanns sem fram hafði farið að kröfu S. Um var að ræða fjárnám vegna kröfu að höfuðstól 144.000 krónur. Í dómi Hæstaréttar sagði að þegar málið hefði verið kært til réttarins hefði áfrýjunarfjárhæð numið 669.938 krónum. Samkvæmt því brysti skilyrði til kæru í málinu. Var málinu því vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. ágúst 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 21. júlí 2011, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um ógildingu aðfarargerðar sýslumannsins á Selfossi sem fram hafði farið 11. apríl 2011 að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að fjárnámsgerðin verði felld úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Sýslumaðurinn á Selfossi gerði umrætt fjárnám hjá sóknaraðila fyrir kröfu varnaraðila að höfuðstól 144.000 krónur. Skilyrði um áfrýjunarfjárhæð í 1. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður beitt um kæru sem þessa, sbr. 4. mgr. 150. gr. laganna og 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989. Þegar málið var kært til Hæstaréttar var áfrýjunarfjárhæð 669.938 krónur. Samkvæmt þessu brestur skilyrði til kæru í málinu og ber að vísa því sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 21. júlí 2011
Sóknaraðili er Magnús Ingiberg Jónsson, kt. 030570-3169, Spóarima 14, Selfossi, en varnaraðili er Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda, kt. 450181-0489, Borgartúni 29, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að aðfarargerð Sýslumannsins á Selfossi í aðfararmálinu nr. 033-2010-01902 sem fram fór hinn 11. apríl 2011 að kröfu varnaraðila verði felld úr gildi. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að aðfarargerð nr. 033-2010-01902 sem framkvæmd var af Sýslumanninum á Selfossi þann 11. apríl 2011, verði staðfest, og að honum verði tildæmdur málskostnaður samkvæmt mati dómsins eða síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Mál þetta var þingfest 23. maí sl. og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi þann 23. júní sl.
Málavextir
Í kröfugerð sóknaraðila er engin lýsing á málavöxtum en hann vísar til greinargerðar sinnar til sýslumanns sem hefur verið lögð fram í málinu, en þar er heldur ekki sérstök lýsing málavaxta.
Samkvæmt gögnum málsins og greinargerð varnaraðila eru málavextir þeir að sóknaraðili var sjálfstætt starfandi einyrki við eigin atvinnurekstur. Á skattframtali 2009, fyrir tekjuárið 2008, taldi hann fram reiknað endurgjald að fjárhæð kr. 1.200.000. Ekki hafði hann greitt neitt í lífeyrissjóð af framtöldum launum sínum samkvæmt framtalinu og sendi ríkisskattstjóri rafrænt yfirlit vegna sóknaraðila til varnaraðila vegna þessa, í lok október 2009. Reyndi varnaraðili að innheimta lífeyrissjóðsiðgjöld hjá sóknaraðila, en án árangurs. Fékk þá varnaraðili Intrum á Íslandi ehf., sem í dag heitir Motus kröfuþjónusta ehf., til að innheimta kröfuna hjá sóknaraðila, en ekki lánaðist sú innheimta heldur og var þá krafan send til lögfræðiinnheimtu. Var sóknaraðila sent innheimtubréf og síðar birt greiðsluáskorun. Eftir það var aðfararbeiðni send sýslumanni 18. nóvember 2010 og eftir það gert árangurslaust fjárnám hjá sóknaraðila þann 11. apríl 2011.
Varnaraðili kveður kröfu sína samanstanda af lágmarksiðgjaldi sem sé 12% af reiknuðu endurgjaldi kr. 1.200.000, eða kr. 144.000, en auk þess sé krafist þóknunar kr. 4.320 sem heimilt sé að innheimta skv. 8. gr. laga nr. 155/1998. Sé álagi þessu ætlað að standa undir kostnaði af sérstöku innheimtuhlutverki varnaraðila til að ekki komi til skerðingar á réttindum annarra sjóðfélaga vegna kostnaðar varnaraðila við almennar innheimtutilraunir hans sjálfs gagnvart þeim sem ekki hafa staðið skil á lífeyrissjóðsiðgjöldum til nokkurs lífeyrissjóðs.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili kveðst leggja á það áherslu að varnaraðili byggi fjárnámskröfu sína á upplýsingum frá ríkisskattstjóra sem hann leggi hins vegar ekki fram við fjárnámsgerðina og brjóti það gegn 10. gr. aðfararlaga, en ekki sé nægilegt að leggja gögnin fram í héraðsdómi þar sem þau hafi átt að vera grundvöllur fjárnámsgerðarinnar.
Að öðru leyti vísar sóknaraðili til fyrrnefndrar greinargerðar sinnar og er málsástæðum hans þar lýst í 5 köflum og verður þeirri kaflaskiptingu fylgt hér.
A. Sóknaraðili kveðst byggja á því að hið umkrafða iðgjald sé ekki samsett gjald, heldur eitt gjald, eða 12% af launum eða reiknuðu endurgjaldi sínu. Að halda því fram að um sé að ræða samsett gjald sé fölsun sem varði við 1. mgr. 156. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Önnur sjónarmið eigi við um eigin atvinnurekstur manns eða sjálfstæða starfsemi en eigi við um launþega sem starfi hjá öðrum. Gagnvart sjálfstætt starfandi mönnum sé um að ræða eitt gjald, 12% sem lagt sé á þá, en með þessu sé verið að krefja þá um 8% hærra gjald í lífeyrissjóð en aðra meðlimi slíkra sjóða sem yfirleitt séu launþegar.
Þá sé það meginatriði að ekki sé um að ræða iðgjald til lífeyrissjóðs sem sóknaraðila beri samkvæmt kjarasamningum og lögum að halda eftir af útgreiddum launum til starfsfólks, ásamt eigin iðgjaldahluta, heldur gjald sem ákvarðað sé af ríkisskattstjóra með heimild í 6. gr. laga nr. 129/1997. Gerðarþoli hafi ávallt neitað að greiða í lífeyrissjóð af einyrkjastarfsemi sinni og falli þar með í þann flokk sem lýst sé í 5. mgr. 6. gr. laga nr. 129/1997 og sé krafinn um gjaldið með valdboði en engu samkomulagi sem eigi rót sína að rekja til kjarabaráttu.
Það sé því útilokað að aðfararheimild sem vísað sé til eigi við gagnvart gerðarþola þar sem ekki sé um að ræða slíkt vörslufé hjá atvinnurekanda sem hafi verið tilefni 11. tl. 1.gr. laga nr. 29/1887 um lögtak og fjárnám án undangengins dóms eða sáttar. Hvorki sé um að ræða umsamdar greiðslur í lífeyrissjóð né greiðslu sem atvinnurekanda beri að halda eftir fyrir launþega.
Sóknaraðili áréttar vegna 10. tl. 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 að það ákvæði gildi um gjöld sem notið hafi lögtaksréttar við setningu aðfararlaganna og ákvæðið nái því ekki til iðgjalda sjálfstætt starfandi atvinnurekenda varðandi gjöld þeirra í lífeyrissjóð samkvæmt lögum nr. 129/1997 eða lögum um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda nr. 155/1998.
B. Sóknaraðili kveður aðkomu ríkisskattstjóra að málinu ekki hafa verið nægilega upplýsta. Telur sóknaraðili ríkisskattstjóra hafa brotið lög með því að senda um sig upplýsingar til varnaraðila án þess að láta sig vita um það og gefa sér kost á að gæta hagsmuna sinna. Hefði ríkisskattstjóri gert þetta þá hefði hann strax séð að verið væri að krefja sig um 8% hærra gjald en aðra launþega og getað kært þá ákvörðun til fjármálaráðherra sem sé það stjórnvald sem varnaraðili heyri undir. Þá sé ekki útilokað að iðgjaldið hefði verið lækkað af fjármálaráðherra niður í 4%.
Þá kveðst sóknaraðili byggja á því að sér sé mismunað með innheimtunni, sem
brjóti gegn jafnræðisreglu auk þess að ekki sé skýr lagaheimild fyrir hendi til gjaldálagningarinnar, sbr. lagaáskilnaðar- eða lögmætisreglu. Jafnræðisreglan sé efnisregla sem feli það í sér að alla mismunun verði að rökstyðja. Engin skýring sé á því gefin í lögum hvers vegna iðgjaldastofn manns með eigin atvinnurekstur skuli vera 6% hærri en iðgjald launþega. Öllum þessum sjónarmiðum hefði hann getað komið að í stjórnsýslumálinu. Þá vísar hann til þess að þar sem gjaldið hafi verið ákveðið af stjórnvaldi þá falli innheimta þess ekki undir 10. tl. 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989.
C. Sóknaraðili kveður eina meginröksemd sína vera þá að gjaldið sé innheimt samkvæmt ákvörðun ríkisskattstjóra en ekki samkvæmt kjarasamningum um samsett gjald annars vegar launþega og hins vegar atvinnurekenda. Af því leiði það að aðfararheimild skorti skv. 10. tl. 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989. Sé um að ræða úrskurð stjórnvalds og aðför byggð á 5. tl. 1. gr. aðfararlaga þá hafi borið að fá úrskurð héraðsdóms um aðför, en sé um að ræða ákvörðun stjórnvalds þá geti 5. tl. 1. gr. aðfararlaga ekki átt við. Þá sé ljóst að 6. tl. 1. gr. aðfararlaga nái tæpast til innheimtu nema 4% innheimtugjaldsins skv. 8. gr. laga nr. 155/1998 um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda. Falli gjaldið undir 9. tl. 1. gr. aðfararlaga sé ljóst að Lögheimtan hf. sé ekki réttur innheimtuaðili. Sé því óhjákvæmilegt að dómurinn taki afstöðu til þess hvort um sé að ræða skatt eða ekki. Ekki standist það að Lögheimtan hf. innheimti gjaldið þar sem Söfnunarsjóðinum beri sjálfum að gera það, en mikill kostnaður sé samfara innheimtu Lögheimtunnar hf., sem ekki sé lagaheimild fyrir.
D. Sóknaraðili kveðst vísa til þess að skylduaðild hans að Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda brjóti gegn ákvæðum stjórnarskrár um neikvæða félagaskyldu. Ekki sé unnt að knýja menn til aðildar að slíku félagi sem Söfnunarsjóðurinn sé þar sem þá sé um að ræða skattheimtu eða ólögmæta greiðsluþvingun. Ekki sé unnt að gera greiðsluskyldu hans til Söfnunarsjóðsins að skilyrði fyrir sjálfstæðri atvinnustarfsemi hans. Um sé að ræða lífeyrissjóð sem ekki veiti neina vissu fyrir því að greiðslurnar renni seinna til sóknaraðila með ákveðnum hætti. Sé um að ræða ákveðna óvissu og ljóst að við andlát falli réttur sóknaraðila niður að mestu leyti. Endurgreiðslur til sóknaraðila verði háðar því hversu margir sjóðsfélaga hljóti örorku og hversu margir lifi lengi. Vegna hækkandi meðalaldurs og fjölgunar öryrkja þurfi að hækka iðgjöldin. Eðlilegra sé að menn sjái sjálfir um sínar lífeyristryggingar með frjálsum samningum. Samfélagið veiti mikla og góða þjónustu og hann greiði fús sína skatta og skyldur, en þetta sé aukaskattheimta þar sem ákveðnir „furstar“ ráði ríkjum sem hann vilji ekki greiða laun, sem séu að mestu sjálftekin og engar upplýsingar séu gefnar um. Vilji hann ekki vera þvingaður til greiðslna í slíkan sjóð en það stríði gegn lífsviðhorfum hans og hugsjónum. Kveðst sóknaraðili vísa til jafnræðisreglu stjórnskipunarréttar, stjórnsýsluréttar og til eignarréttarákvæða stjórnarskrár enda sé um að ræða ólögmæta eignaupptöku.
E. Um dráttarvexti kveðst sóknaraðili vísa til þess sem fram komi í beiðni sinni en engin lagaákvæði séu um gjalddaga slíks gjalds sjálfstætt starfandi atvinnurekenda.
Um lagarök kveðst sóknaraðili vísa til meginreglna laga um að lögtak eða fjárnám án dóms sé svokallað réttarfarshagræði þar sem skýr lagaheimild þurfi að vera fyrir hendi. Nauðsynlegt sé að túlka þá lagabálka sem mest sé vísað til með hliðsjón af meginreglum stjórnsýsluréttar og út frá lagaheimildareglum.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili mótmælir því sem röngu að aðfararbeiðni hafi ekki fylgt gögn sem varnaraðili byggði kröfu sína á. Með aðfararbeiðninni hafi fylgt yfirlit með upplýsingum frá ríkisskattstjóra um ógreidd lífeyrissjóðsiðgjöld sóknaraðila sem og birt greiðsluáskorun þar sem einnig hafi verið gerð grein fyrir kröfunni. Þess utan hafi sóknaraðila borist fjölmörg innheimtubréf þar sem hann hafi verið upplýstur um kröfuna en auk þess hafi verið hringt í hann vegna innheimtunnar á fyrri stigum.
Varnaraðili kveður aðfararhæfi kröfunnar byggja á 10. tl. 1. mgr. 1. gr. og 2. mgr. 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989, en skv. 11. tl. 1. gr. laga um lögtak og fjárnám án undanfarins dóms eða sáttar nr. 29/1885 kveður varnaraðili iðgjaldagreiðslur í lífeyrissjóð njóta lögtaksréttar. Með 3. tl. 35. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla hafi verið fellt niður ákvæði i 2. tl. 1. mgr. 11. gr. aðfararlaga um skyldu til að senda héraðsdómara aðfararbeiðni ef krafist væri aðfarar á grundvelli 10. tl. 1. mgr. 1. gr. laganna. Hafi verið fjallað um aðfararhæfni sambærilegra krafna varnaraðila í nokkrum tilteknum úrskurðum héraðsdóms sem varnaraðili vísar til.
Varnaraðili mótmælir sérstaklega þeirri málsástæðu sóknaraðila að þar eð hann sé sjálfstæður atvinnurekandi þá sé krafan ekki aðfararhæf samkvæmt framangreindum lagaheimildum. Sé ljóst að hugtakið atvinnurekandi nái til þeirra sem stunda atvinnurekstur og þeirra sem stunda sjálfstæða starfsemi hvort heldur sé um að ræða einyrkja með reiknað endurgjald eða aðila sem einnig greiði öðrum laun.
Bendir varnaraðili á orðalag í 11. tl. 1. gr. laga nr. 29/1885 en ekki sé þar áskilið að iðgjaldagreiðslur í lífeyrissjóð þurfi að vera umsamdar og geti þær því verið lögbundnar. Ennfremur komi það berlega fram í frumvarpi sem varð að lögum nr. 21/1979, sem breyttu lögum nr. 29/1885, að ákvæðinu sé ætlað að ná til allra greiðslna í lífeyrissjóð. Komi fram í frumvarpinu að ekki sé gerður greinarmunur á því sem atvinnurekanda beri að halda eftir af launum starfsmanna og mótframlagi atvinnurekandans í lífeyrissjóð. Hvort tveggja megi taka lögtaki og falli bæði undir hugtakið „iðgjaldagreiðslur í lífeyrissjóð“.
Þá bendir varnaraðili á að hagfelldast sé fyrir alla að lögbundnar lífeyrissjóðsgreiðslur sjálfstætt starfandi atvinurekenda séu innheimtar í einu lagi.
Um skyldu sóknaraðila til að greiða 12% lágmarksiðgjald í lífeyrissjóð vísar varnaraðili til 4. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 2. gr. laga nr. 129/1997 og 2. og 5. gr. laga nr. 155/1998. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 129/1997 skuli lágmarksiðgjald í lífeyrissjóð vera 12% af iðgjaldastofni. Um skiptingu iðgjaldsins milli launamanns og launagreiðanda fari eftir kjarasamningnum hverju sinni, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 129/1997. Af 3. gr. nefndra laga sé alveg ljóst að lágmarksiðgjald vegna vinnu manns við eigin atvinnurekstur skuli miða við iðgjaldastofn sem sé jafnhár og reiknað endurgjald við eigin atvinnurekstur skv. 2. mgr. 1. tl. A liðar 7. gr., sbr. 58. tekjuskattslaga nr. 90/2003.
Kveður varnaraðili skiptingu gjaldsins í 4% hluta og 8% hluta helgast af skattareglum. Samkvæmt 5. tl. A liðar 30. gr. tekjuskattslaga nr. 90/2003 megi sóknaraðili draga frá skattstofni sínum (hinu reiknaða endurgjaldi) 4% af iðgjaldastofni vegna öflunar lífeyrisréttinda, en frá rekstrartekjum sínum í atvinnurekstri megi hann draga frá iðgjöld til öflunar lífeyrisréttinda starfsmanna sinna, sbr. 1. tl. 31. gr. laga nr. 90/2003, en þetta eigi einnig við um þau iðgjöld sem hann greiði vegna sjálfs sín, þ.e. 8%. Þannig sé það svo að sóknaraðili greiði ekki skatt af iðgjaldinu sem honum beri að standa skil á til varnaraðila, en 8% komi til frádráttar rekstrartekjum og 4% komi til frádráttar atvinnutekjum hans (hinu reiknaða endurgjaldi).
Varnaraðili kveður aðkomu ríkisskattstjóra vera lögbundna. Samkvæmt 5. mgr. 6. gr. laga nr. 129/1997 beri ríkisskattstjóra að senda upplýsingarnar til varnaraðila. Ekki sé um að ræða neina stjórnvaldsákvörðun hjá ríkisskattstjóra en hann sé bundinn af nefndum ákvæðum og sé aðeins að miðla til varnaraðila þeim upplýsingum sem komi fram í skattframtali sóknaraðila sjálfs. Telji sóknaraðili upplýsingarnar rangar geti hann hægast lagt fram staðfest endurrit af skattframtali sínu.
Sóknaraðili sé framtalsskyldur og beri honum að greina í framtali sínu frá iðgjaldagreiðslum í lífeyrissjóð og í hvaða sjóð hafi verið greitt. Ennfremur beri honum, sem sjálfstæðum atvinnurekanda, að tilgreina á launamiðum fyrir 28. janúar ár hvert þá fjárhæð sem iðgjöld miðuðust við ásamt heildariðgjaldi sem skilað hafi verið til lífeyrissjóðs.
Hafi ríkisskattstjóri eftirlitshlutverk gagnvart því að tilteknir aðilar sinni lagaskyldu sinni að greiða í almennan lífeyrissjóð, en ríkisskattstjóri taki með því enga kæranlega stjórnvaldsákvörðun, enda sé hann ekki að áætla skattstofn sóknaraðila eða neitt slíkt. Það sé hvorki á valdi ríkisskattstjóra né varnaraðila að ákveða hversu mikið sóknaraðili skuli greiða í lífeyrissjóð enda sé það lögbundið. Til grundvallar fjárhæð iðgjaldsins liggi upplýsingar frá sóknaraðila sjálfum sem fram komi á skattframtali hans sjálfs. Ekki hvíli nein skylda á ríkisskattstjóra að tilkynna fyrirfram um alkunna og lögbundna upplýsingamiðlun sína til varnaraðila, en jafnframt bendir varnaraðili á að lagaskyldan um að greiða í lífeyrissjóð eigi að vera öllum kunn.
Varnaraðili mótmælir þeirri málsástæðu sóknaraðila að innheimta varnaraðila feli í sér brot á jafnræðisreglu gagnvart sóknaraðila. Sóknaraðila sé ekki mismunað með lögum nr. 129/1997 sem séu almenn. Ekkert í innheimtu iðgjalda gagnvart sóknaraðila geti falið í sér brot á jafnræðisreglu gagnvart honum.
Lífeyrissjóðsiðgjöld séu innheimt í samræmi við lög og iðgjaldastofninn og lágmarksiðgjaldið sé lögbundið. Engin stjórnvaldsákvörðun búi að baki innheimtunni og kveðst varnaraðili mótmæla öllum málsástæðum sóknaraðila í þá átt. Hvorki sé iðgjald í lífeyrissjóð skattur né gjald til opinberra aðila, enda myndi iðgjaldið réttindi og eign fyrir sóknaraðila. Njóti lífeyrissjóðsiðgjöldin lögtaksréttar skv. því sem áður hafi verið um það sagt.
Vegna fullyrðinga sóknaraðila um að Lögheimtan ehf. geti ekki verið réttur innheimtuaðili lífeyrissjóðsiðgjalda fyrir varnaraðila tekur varnaraðili fram að hann reyni alltaf, skv. lagaskyldu sinni, að innheimta gjöldin sjálfur eins og gert hafi verið gagnvart sóknaraðila og sjá megi af framlögðum gögnum. Beri þær innheimtutilraunir ekki árangur feli varnaraðili Intrum á Íslandi, sem nú sé Motus, að annast frekari lögfræðiinnheimtu. Sé varnaraðili að þessu leyti ekki frábrugðinn öðrum lífeyrissjóðum, enda verði ekki séð að það væri akkur í því fyrir sjóðfélaga að hver og einn lífeyrissjóður hefði þetta sjálfur með höndum. Varnaraðili sé aðeins frábrugðinn öðrum lífeyrissjóðum að því leyti, að honum sé skylt að innheimta lífeyrissjóðsiðgjöld hjá þeim sem ekki greiði af launum sínum í lífeyrissjóð og sé varnaraðila markaðar sértekjur til að rísa undir þessu hlutverki, sbr. 8. gr. laga nr. 155/1998. Varnaraðili sendi ekki kröfur frá sér í innheimtu fyrr en innheimtutilraunir hans sjálfs hafi reynst árangurslausar. Kröfur Lögheimtunnar um innheimtuþóknun og málskostnað eftir atvikum séu gerðar fyrir hönd varnaraðila og séu vegna útlagðs kostnaðar varnaraðila vegna innheimtunnar. Sá kostnaður eigi ekki að leggjast á varnaraðila frekar en aðra þá sem innheimti réttmætar kröfur sínar í samfélaginu. Eigi sjóðfélagar ekki að þurfa að sæta því að innheimtukostnaður vegna lögmætra krafna rýri réttindi þeirra í sjóðnum. Framkvæmd og fyrirkomulag innheimtunnar sé á ábyrgð viðkomandi lífeyrissjóðs, sbr. 29,. gr. reglugerðar nr. 391/1998 sbr. b lið 1. gr. reglugerðar nr. 224/2001.
Varnaraðili kveður skylduaðild sóknaraðila að almennum lífeyrissjóði vera lögbundna. Ekki sé sóknaraðili skyldur til að greiða lífeyrissjóðsiðgjöld til varnaraðila nema því aðeins að hann hafi ekki greitt í almennan lífeyrissjóð og ekki tilgreint neinn lífeyrissjóð á skattframtali sínu, en þá sé hins vegar varnaraðila skylt að innheimta iðgjaldið hjá honum. Þeir sem greiði til varnaraðila fái langoftast meira greitt úr sjóðnum en þeir greiddu til hans. Sjóðurinn sé fjárhagslega sterkur og þurfi sóknaraðili ekki að hafa af því neinar áhyggjur að sjóðurinn muni ekki verða gjaldfær þegar sóknaraðili muni eiga rétt til greiðslna úr sjóðnum. Þá bendir varnaraðili á það að ekki sé aðeins greiddur út ellilífeyrir úr almennu lífeyrissjóðunum, heldur líka makalífeyrir, örorkulífeyrir og barnalífeyrir.
Vegna málsástæðna sóknaraðila um að vilja ekki vera í lífeyrissjóði bendir varnaraðili á að um skylduaðild að lífeyrissjóðum hafi verið fjallað í Hæstarétti. Þá mótmælir varnaraðili sem haldlausum þeim málsástæðum sóknaraðila að jafna lífeyrissjóðsgreiðslum við skattheimtu og sömuleiðis það að sóknaraðili óttist að fá ekki til baka neitt af því sem honum sé gert að greiða í sjóðinn. Bendir varnaraðili á dóm Hæstaréttar í málinu nr. 187/1995 þar sem komist sé að þeirri niðurstöðu að skylduaðild að lífeyrissjóði sé ekki andstæð mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar og leið löggjöf um það til almannaheilla. Af dómi þessum megi ráða að skylduaðild að lífeyrissjóði feli ekki í sér slíka skerðingu á ákvörðunarrétti þegnanna um ráðstöfun tekna sinna að það sé andstætt stjórnarskránni. Þá bendir varnaraðili á að í frumvarpi sem varð að lögum nr. 129/1997 hafi verið gert ráð fyrir því að almennur lífeyrissparnaður ætti að draga úr skattheimtu og kostnaði fyrir almannatryggingakerfið og málefnaleg sjónarmið liggi til grundvallar lífeyrissjóðakerfinu, en leiða megi að því líkur að allir landsmenn hafi og muni hagnast á því m.a. í formi lægri skattheimtu.
Vegna dráttarvaxtakröfu sinnar tekur varnaraðili fram að reglur í 7. gr. laga nr. 155/1998 kveði á um það hvernig reikna beri dráttarvextina.
Niðurstaða
Sóknaraðili byggir á því að við fyrirtöku aðfararbeiðninnar hjá sýslumanni hafi ekki legið fyrir þær upplýsingar frá ríkisskattstjóra sem fjárnámsbeiðni hafi verið grundvölluð á. Í endurriti úr gerðabók sýslumanns við fyrirtöku fjárnámsbeiðninnar kemur fram að lagt hafi verið fram nr. 1 aðfararbeiðni og nr. 2 greiðsluáskorun. Við fyrirtökuna mætti gerðarþoli (sóknaraðili þessa máls) sjálfur. Kemur ekki fram í endurritinu að hann hafi gert neina athugasemd í þessa veru. Í aðfararbeiðninni sjálfri kemur fram að henni fylgi „Lífeyrissjóðsiðgjöld RSK“ sem skjal lagt fram nr. 2. Verður að ætla að yfirlit þetta hafi verið lagt fram við fyrirtöku beiðninnar hjá sýslumanni, en sóknaraðili fékk í lok fyrirtökunnar afhent endurrit skjala aðfaramálsins til framlagningar fyrir héraðsdóm eins og segir í endurritinu. Er yfirlitið meðal þeirra gagna sem fylgdu kröfu hans í þessu máli. Þá er þess að geta að á umræddu yfirliti koma aðeins fram upplýsingar sem leiddar verða af skattframtali sóknaraðila sjálfs en ljóst er af öllum framgangi málsins að hann gekk þess ekki dulinn hvað var á ferðinni. Ber því að hafna þessari málsástæðu.
Sóknaraðili byggir á því að ekki sé skýr lagaheimild fyrir innheimtu eða „álagningu“ lífeyrissjóðsiðgjaldsins. Á þetta fellst dómurinn ekki og nægir í því efni að benda á 4. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 2. gr laga nr. 129/1997 og 2. og 5. gr. laga nr. 155/1998.
Sóknaraðili byggir á því að aðfararheimild sé ekki fyrir hendi fyrir kröfum varnaraðila. Í 10. tl. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 segir að aðför megi gera fyrir kröfum, áður ótöldum, sem njóti lögtaksréttar samkvæmt fyrirmælum laga. Eftir þá breytingu sem gerð var á 1. mgr. 11. gr. aðfararlaganna þegar 2. tl. málsgreinarinnar var felldur brott með 3. tl. 35. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998 er ljóst að ekki þarf að senda slíka aðfararbeiðni til héraðsdóms heldur má senda hana beint til sýslumanns, sbr. 1. mgr. 16. gr. aðfararlaganna. Í 11. tl. 1. gr. laga um lögtak og fjárnám án undanfarins dóms eða sáttar nr. 29/1885 er kveðið á um það að lögtaki megi taka „Umsamdar greiðslur atvinnurekanda í sjúkra-, orlofs- og styrktarsjóði, svo og iðgjaldagreiðslur í lífeyrissjóði.“ Verður orðalag ákvæðisins ekki skilið svo að áskilið sé að iðgjaldagreiðslur þurfi að vera umsamdar til að gera megi lögtak fyrir þeim, en orðið „umsamdar“ vísar til þess sem talið er upp í fyrri hluta töluliðarins. Er þetta í samræmi við frumvarp að lögum nr. 21/1979 sem breyttu umræddu ákvæði, en þar kemur fram að ákvæðið skuli ná til allra iðgjaldagreiðslna í lífeyrissjóði. Fer ekki á milli mála að aðfararheimild er þannig fyrir hendi fyrir umræddum lífeyrissjóðsiðgjöldum. Þá er haldlaus sú röksemd sóknaraðila að 10. tl. 1. mgr. 1. gr aðfararlaganna eigi aðeins við um þær kröfur sem nutu lögtaksréttar samkvæmt fyrirmælum laga við gildistöku þeirra, en þess er jafnframt að geta að iðgjaldagreiðslur í lífeyrissjóð hafa notið lögtaksréttar frá gildistöku laga nr. 21/1979.
Sóknaraðili byggir á því að hið umkrafða gjald sé ekki samsett gjald, heldur eitt gjald, eða 12% af launum eða reiknuðu endurgjaldi sínu. Gegni öðru máli um launþega sem starfi hjá öðrum en þá sem starfi við eigin atvinnurekstur. Sé það fölsun að halda öðru fram og varði við 1. mgr. 156. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Á þetta verður ekki fallist. Ljóst er samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 155/1998 að iðgjald til varnaraðila skal að lágmarki vera 12% af iðgjaldsstofni og skiptist þannig að launþegi greiðir 4% og launagreiðandi 8%. Fer þetta ekki á milli mála. Gildir þetta jafnt þó að um sé að ræða mann sem vinnur við eigin rekstur, en samkvæmt 5. tl. A liðar 30. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003 er 4% hlutinn frádráttarbær frá skattstofni sóknaraðila (hinu reiknaða endurgjaldi) en 8% hlutinn frádráttarbær frá rekstrartekjum hans í atvinnurekstrinum sbr. 1. tl. 31. gr. sömu laga. Er þannig gjaldið tvískipt í eðli sínu, annars vegar framlag launþega og hins vegar framlag launagreiðanda, þó að sóknaraðila finnist það falla í eina heild þar sem hann vinnur sjálfur við eigin rekstur. Gilda hins vegar sömu sjónarmið um þetta hvort sem um er að ræða launamann sem vinnu hjá öðrum eða mann sem vinnur við eigin atvinnurekstur. Ber þá sá sem rekur eigin atvinnurekstur 4% hlutann af launaþætti sínum, en reksturinn ber hinn hlutann og verður ekki undan honum vikist frekar en öðrum rekstrarkostnaði. Er því málsástæðum sóknaraðila um þetta hafnað. Er ástæða til að geta þess jafnframt að óljós áburður um brot gegn 1. mgr. 156. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er með öllu tilhæfulaus og rennir í engu stoðum undir málatilbúnað sóknaraðila.
Sóknaraðili hefur í málatilbúnaði sínum vísað til aðkomu ríkisskattstjóra í málinu. Í 5. mgr. 6. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997 er kveðið á um það að ríkisskattstjóri skuli, að tekjuári liðnu, senda hverjum lífeyrissjóði yfirlit vegna þeirra sem eru aðilar að viðkomandi sjóði. Á yfirlitinu skuli koma fram iðgjaldsstofn og greitt iðgjald sem og mótframlag launagreiðanda. Segir svo að sé enginn lífeyrissjóður tilgreindur á framtölum eða skilagreinum skuli senda yfirlitið til varnaraðila. Segir jafnframt í 1. mgr. 6. gr. laganna að ríkisskattstjóri skuli hafa eftirlit með því að lífeyrisiðgjald sé greitt vegna hvers manns sem skyldutrygging lífeyrisréttinda nái til. Ljóst er að lögbundið er það hlutverk ríkisskattstjóra að senda umræddar upplýsingar til þess lífeyrissjóðs sem viðkomandi er aðili að, en ella til varnaraðila. Hefur ríkisskattstjóri ekkert val um þetta heldur er um að ræða lögbundna skyldu. Er ekki um að ræða neina stjórnsýsluákvörðun í því sambandi, heldur aðeins lögskylda upplýsingagjöf sem er aðeins byggð á framtali viðkomandi sjálfs. Ríkisskattstjóri tekur enga ákvörðun um iðgjaldið sjálft enda ræðst það af atriðum sem ríkisskattstjóri ákveður ekki, en um er að ræða lögákveðið hlutfall af launum eða reiknuðu endurgjaldi viðkomandi manns. Skiptir heldur engu máli að iðgjaldið sjálft eða fjárhæð þess sem hlutfall af launum eða reiknuðu endurgjaldi sé ekki ákveðið með samkomulagi. Bar þannig ríkisskattstjóra engin skylda til að upplýsa um það sérstaklega til sóknaraðila að hann sinnti lagaskyldu sinni að þessu leyti, enda kemur fram í lögum að ríkisskattstjóri skuli senda umræddar upplýsingar til varnaraðila. Eiga reglur stjórnsýsluréttar um andmælarétt og fleira ekki við hér, enda ekki um stjórnsýsluákvörðun að ræða. Gat þannig ekki verið um að ræða neitt stjórnsýslumál sem varðaði sendingu umræddra upplýsinga. Þá verður ekki séð að um sé að ræða neina mismunun eða brot á jafnræðisreglu gagnvart sóknaraðila í samanburði við aðra sem eins er ástatt um. Iðgjaldið er ekki ákvarðað af ríkisskattstjóra heldur samkvæmt lögum og byggir á upplýsingum úr framtali sóknaraðila sjálfs. Verður þannig að hafna öllum málsástæðum sóknaraðila sem lúta að ákvörðun iðgjaldsins og aðkomu ríkisskattstjóra. Er ljóst, eins og áður var lýst, að gjald þetta er aðfararhæft samkvæmt 10. tl. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaganna, sbr. 11. tl. 1. gr. laga nr. 29/1885.
Sóknaraðili byggir jafnframt á því að það standist ekki að Lögheimtan hf. innheimti umrætt lífeyrissjóðsiðgjald enda sé um að ræða iðgjald sem varnaraðili eigi sjálfur að innheimta samkvæmt lögum og mikill kostnaður sé samfara innheimtu Lögheimtunnar hf., sem ekki sé lagaheimild fyrir. Í 5. mgr. 6. gr. laga nr. 129/1997 er kveðið á um það að ríkisskattstjóri skuli senda lífeyrissjóðum yfirlit vegna hvers manns sem er aðili að sjóðnum. Sé enginn lífeyrissjóður tilgreindur á framtalinu eða skilagreinum skuli „senda yfirlitið til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda sem skal þá innheimta iðgjaldið.“ Þetta þykir ekki verða skilið á annan veg en þann að nauðsynlegt sé að tilgreina hver skuli innheimta gjaldið þegar þannig stendur á að enginn lífeyrissjóður er tilgreindur á framtölum eða skilagreinum. Er að mati dómsins fráleitt að skilja þetta ákvæði svo að varnaraðila sé óheimilt að fela innheimtuna öðrum þegar svo háttar til að innheimtutilraunir hans sjálfs hafa reynst árangurslausar eins og í tilviki sóknaraðila. Er málsástæðum sóknaraðila um þetta hafnað.
Sóknaraðili kveðst mótfallinn skylduaðild að lífeyrissjóði og telur hana brjóta gegn ákvæðum stjórnarskrár. Sé andstætt stjórnarskrá að þvinga hann til aðildar að Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda. Þá sé um að ræða aukaskattheimtu þar sem ákveðnir „furstar“ ráði ríkjum og vilji hann ekki greiða þeim laun. Allt er þetta með öllu haldlaust. Um skylduaðild að lífeyrissjóðum hefur verið fjallað í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 187/1995 og þar komist að því að hún brjóti í engu gegn ákvæðum stjórnarskrár. Þarf ekki að fjölyrða um þetta. Þá hefur sóknaraðili val um það að greiða gjöldin ekki til varnaraðila ef hann kysi heldur að greiða til almenns lífeyrissjóðs. Samlíking sóknaraðila við skatta á sér heldur enga stoð. Lífeyrissjóðsgreiðslur mynda ákveðin réttindi og eign í viðkomandi sjóði, en þannig hagar ekki til um skattgreiðslur. Verður iðgjaldagreiðslum í lífeyrissjóði ekki á nokkurn handa máta jafnað til skattheimtu. Sama máli gegnir um hugleiðingar sóknaraðila um það hversu mikils hann muni njóta af lífeyrisgreiðslum í framtíðinni, laun stjórnenda lífeyrissjóða, fjölgun öryrkja og almennar hugleiðingar hans um lífsviðhorf. Ekkert af þessu getur leitt til þess að undanþiggja sóknaraðila þeirri skyldu að standa skil á lögboðnum iðgjaldagreiðslum í lífeyrissjóð.
Ekki er tölulegur ágreiningur um útreikning kröfu varnaraðila.
Ekki gerir sóknaraðili sérstakar athugasemdir um þann þátt kröfu varnaraðila sem byggir á þóknun skv. 8. gr. laga nr. 155/1998, en ekki verður betur séð en að heimild sé fyrir innheimtu hennar og að þóknunin sé jafn aðfararhæf og höfuðstóllinn.
Vegna dráttarvaxtakrafna varnaraðila kveðst sóknaraðili vísa til þess að engin lagaákvæði gildi um gjalddaga lífeyrissjóðsiðgjalda sjálfstætt starfandi atvinnurekenda. Um gjalddaga lífeyrissjóðsiðgjalda er fjallað í 7. gr. laga nr. 155/1998 og raunar einnig í 7. gr. laga nr. 129/1997. Kemur fram í ákvæðunum að greiða skuli lífeyrissjóðsiðgjald mánaðarlega og skuli gjalddagi skuli vera tíundi dagur næsta mánaðar á eftir en eindagi síðasti dagur þess sama mánaðar og iðgjaldið er á gjalddaga. Ekki liggur fyrir hvenær á árinu 2008 teknanna var aflað og er því rétt að miða við að þeirra hafi verið aflað í desember það ár. Er þá rétt samkvæmt framangreindum ákvæðum að gjalddagi lífeyrissjóðsiðgjaldsins hafi verið 10. janúar 2009 og eindagi 31. janúar 2009, en dráttarvextir reiknist frá gjalddaga enda ekki greitt á eindaga. Verður því að hafna málsástæðum sóknaraðila um þetta.
Samkvæmt 94. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, ber að dæma sóknaraðila til að greiða varnaraðila málskostnað, sem telst hæfilega ákveðinn kr. 437.000 að meðtöldum virðisaukaskatti.
Sigurður G. Gíslason, héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Magnúsar Ingibergs Jónssonar, um að aðfarargerð Sýslumannsins á Selfossi í aðfararmálinu nr. 033-2010-01902, sem fram fór hinn 11. apríl 2011, að kröfu varnaraðila, Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda, verði ógild.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kr. 437.000 í málskostnað.