- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Föstudaginn 1. október 2010. |
|
Nr. 565/2010. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Ómar Örn Bjarnþórsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. september 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. október 2010 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og að einangrun verði aflétt.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2010.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 8. október n.k. kl. 16.00.
Þá er gerð krafa um að sakborningur sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að til rannsóknar sé stórfellt skattalagabrot, þar sem sviknar hafi verið út með skipulögðum og kerfisbundnum hætti 274.000.000 króna úr virðisaukaskattkerfi ríkisins, á árunum 2009 og 2010, með því að framvísað hafi verið fölsuðum og tilefnislausum skjölum í tengslum við virðisaukaskattskylda starfsemi tveggja einkahlutafélaga.
Í tengslum við rannsóknina hafi verið framkvæmd húsleit á heimili kærða og sambýliskonu hans, Y, þann 14. september sl., þar sem m.a. hafi fundist rúm 11 kíló af kannabisefni, sem kærði hafi viðurkennt hjá lögreglu að hafa geymt fyrir nafngreindan aðila, þ.e. Z. Hafi kærði verið í kjölfarið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 20. september og svo aftur til dagsins í dag kl. 16, með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 544/2010.
Rannsókn málsins hafi leitt í ljós að sambýliskona kærða, Y, sem sætir einnig gæsluvarðhaldi vegna málsins, tók að sér, að beiðni Z, að vera prókúruhafi félags sem notað var við svikin. Samkvæmt athugun lögreglu tók hún út af bankareikningum félagsins um 130.000.000 króna. Í yfirheyrslum hjá lögreglu greindi Y frá því að hún hafi komið umræddum fjármunum til Z og þegið fyrir það ákveðna greiðslu sem hún taldi nema um 1.000.000 króna.
Í yfirheyrslum yfir kærða, X, hafi hann greint frá því að honum hafi verið kunn aðild sambýliskonu hans í brotum Y, þ.e. að Y hafi komið á heimili þeirra tvisvar til þrisvar í viku þar sem hann sótti peninga. Hann kvaðst jafnframt hafa séð Y afhenda Y peninga. Hann greindi jafnframt frá því að Z hafi sjálfur sagt að hann þekkti starfsmann hjá skattinum og að þau þyrftu ekki að óttast að félögin yrðu tekin í úttekt þar.
Þá hafi lögregla fundið á heimili kærða 550.000 krónur. Misræmi gætir í framburðum kærða og kærðu, Y, um tilvist þeirra peninga.
Það sé mat lögreglu að kærði, X, sé nú undir rökstuddum grun um aðild að stórfelldu fíkniefnabroti, enda hefur hann játað aðild sína þar. Þá er hann og undir rökstuddum grun um peningaþvættisbrot. Eru brot hans talin varða við 173. gr. a. og 264. gr. almennra hegningarlaga.
Rannsókn málsins sé margþætt og umfangsmikil. En auk kærða sæti fimm aðrir einstaklingar gæsluvarðhaldi. Gögn og upplýsingar bendi til að hlutverkum hefur verið skipt á milli einstaklinganna í brotum þessum. Þá virðist rannsókn málsins hafa leitt í ljós að Z hafi einn, eða ásamt öðrum, skipt verkum á milli aðilanna, gefið þeim fyrirmæli og móttekið fjármunina frá umræddum einstaklingum. Þá liggi og fyrir að sakborningar málsins hafi þegið hluta afrakstursins frá Z.
Margir fleiri aðilar tengjast málinu og á lögregla enn eftir að yfirheyra fjölda manns, fara yfir umfangsmikil tölvugögn og rekja slóð þeirra peninga sem sviknir voru úr ríkissjóði. Z, sem verið hefur eftirlýstur, var í fyrrakvöld að íslenskum tíma handtekinn í [...]. Nú liggur fyrir að fá hann framseldan og að yfirheyra hann. Að mati lögreglu er mikilvægt að tryggja að Z verði yfirheyrður áður en hann á þess kost að komast í samband við þá sem nú sitja í gæsluvarðhaldi. Má ætla að ef sakborningur verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því hafa samband við samverkamenn eða með því að koma undan fjármunum og gögnum. Lögregla telur það brýnt fyrir framgang málsins að fallist verði á kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna svo unnt sé að ljúka nauðsynlegri rannsókn án þess að sakborningur geti spillt rannsókninni. Af framangreindum ástæðum er einnig farið fram á að sakborningur sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.
Í málinu liggi fyrir mat Hæstaréttar Íslands um að lagaskilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu fullnægt í máli þessu og ekkert nýtt fram komið í málinu sem breytt getur því mati.
Meint sakarefni séu stórfellt fíkniefnabrot og peningaþvætti en brotin séu talin geta varðað við almenn hegningarlög nr. 19/1940. Við þessum brotum liggur allt að 12 ára fangelsisrefsing. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Um heimild til einangrunar á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur er vísað til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga.
Til rannsóknar eru ætluð fíkniefnabrot og peningaþvætti sem geta varðað við almenn hegningarlög og er rökstuddur grunur um háttsemi kærða sem getur varðað allt að 12 ára fangelsi. Fallist er á með lögreglu að brýnir hagsmunir séu fyrir því að kærða verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, enda er rannsókn málsins, sem er allumfangsmikil, á því stigi að líklegt má telja að kærða geti torveldað hana gangi hann laus. Með vísan til framangreinds, hjálagðra gagna og a- liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, er krafa ríkislögreglustjóra tekin til greina þannig að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi til föstudagsins 8. október nk. kl. 16.00. Þá er með sömu rökum fallist á að kærða sæti einangrun skv. b- lið 1. mgr. 99. gr. laganna.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...], skal sæta áfram gæsluvarðhaldi til föstudagsins 8. október n.k. kl. 16.00.
Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.