Print

Mál nr. 474/2012

Lykilorð
  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi

Miðvikudaginn 4. júlí 2012.

Nr. 474/2012.

Sýslumaðurinn á Akureyri

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

X

(Arnar Sigfússon hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. júlí 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 1. júlí 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 5. júlí 2012 klukkan 15 og einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími svo og sá tími sem hann sæti einangrun.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili er talinn hafa framið brot þau sem hann er sakaður um 30. júní 2012. Í ljósi þess tíma sem liðinn er, verður ekki séð af gögnum málsins að sóknaraðili hafi sýnt nægilega fram á að ætla megi, að varnaraðili muni torvelda rannsókn málsins eins og áskilið er í a. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Að þessu virtu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.

Það athugist að í forsendum hins kærða úrskurðar eru ekki færð að því viðhlítandi rök með hverjum hætti varnaraðili hefði getað torveldað rannsókn málsins hefði hann verið frjáls ferða sinna.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra sunnudaginn 1. júlí 2012.

Mál þetta barst dóminum fyrr í dag, með bréfi sýslumannsins á Akureyri, og var það tekið til úrskurðar eftir fyrirtöku.

Krafa sýslumannsins á Akureyri er sú, að X, kt. [...], [...] [...], verði úrskurðaður í gæsluvarðhald til föstudagsins 6. júlí nk.  Jafnframt verði kærða gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldsvistinni stendur.

Kærði mótmælir kröfunni.  Hann krefst þess aðallega að henni verði hafnað, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími en krafist er. 

Í greinargerð sýslumanns segir að lögreglan á Akureyri rannsaki nú annars vegar líkamsárás kærða X gegn A, fæddum [...], að [...], [...], en hins vegar frelsissviptingu kærða gegn B, fæddri [...], að [...] á sama staða. 

Staðhæft er að hin kærðu brot hafi átt sér stað að morgni 30. júní sl.

Kveður sýslumaður málsatvik þau að laugardaginn 30. júní sl., kl. 06:18, hafi lögregla verið kvödd að [...] í [...] vegna tilkynningar um að brotaþolinn A hefði verið stunginn þar með hnífi.  Sagt er að við komu lögreglu á vettvang hafi A legið fyrir á gangi inn af forstofu og hafi hann verið alblóðugur og með fjögur sýnileg stungusár.  Hann hafi þegar verið fluttur á Sjúkrahúsið á Akureyri til aðhlynningar.  Vísað er til þess að fyrir liggi bráðabirgðavottorð læknis um áverka brotaþola, en þar segi m.a. að hann hafi verið með stungusár, m.a. á brjóstkassa, en einnig hægri síðu og er sagt að það síðarnefnda hafi farið í gegnum kviðvegginn.

Fram kemur í lögregluskýrslum að grunsemdir hafi strax beinst að kærða í máli þessu, en hann hafi verið handtekinn á heimili brotaþolans B umræddan morgun, um kl. 08:30, að [...] í [...].  Er staðhæft að lögreglan sé að rannsaka það hvort að kærði hafi haldið B nauðugri á heimili sínu frá kl.06:30 uns hann var handtekinn.

Í greinargerð sýslumanns segir að í ljósi framangreinds sé verið að rannsaka ætluð brot kærða gegn 2. mgr. 218. gr. og 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, en bæði brotin geti varðað fangelsisrefsingu.

Sýslumaður staðhæfir að rannsókn málsins sé enn á frumstigi og megi ætla að kærði geti torveldað hana haldi hann frelsi sínu, þ. á m. með því að afmá merki eftir brotin og skjóta undan munum og ennfremur hafa áhrif á  vitni.  Bent er á að enn hafi ekki verið unnt að yfirheyra brotaþolann A, en að auki eigi eftir að yfirheyra vitni enn frekar og rannsaka vettvang.  Þá hafi ekki verið unnt að yfirheyra kærða fyrr en skömmu áður en hann var leiddur fyrir dóm nú í morgunn vegna ástands hans.  Þá telur sýslumaður að háttsemi kærða bendi til þess að hann sé líklegur til að beina háttsemi sinni að hverjum sem.

Sýslumaður kveðst byggja kröfu sína á a- og d- lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008 svo og 2. mgr. 98. gr. sömu laga.

Niðurstaða.

Fyrir dóminn hafa verið lagðar fram lögregluskýrslur og önnur gögn. Eru þar á meðal bráðbirgðalæknisvottorð, dagsett 30. júní sl. svo og skýrslur af nokkrum vitnum. 

Í rannsóknargögnum kemur m.a. fram að kærði hafi verið handtekinn að morgni 30. júní sl. á heimili B. Nefnd gögn eru í aðalatriðum í samræmi við framangreinda málavaxtalýsingu, en fram kemur að brotaþolinn A er ekki í lífshættu.

Fyrir liggur að kærði hefur við yfirheyrslur lögreglu játað að hafa átt í atgangi við nána ættingja brotaþolans A á heimili hans umræddan morgunn.  Verður ráðið að hann hafi í vímuástandi veitt brotaþolanum A stunguáverka er hann hugðist skerast í leikinn.  Kærði hefur þannig lýst atvikum að nokkru, en jafnframt borið við minnisleysi um nánari atvik.  Hann hefur neitað sakargiftum að því er varðar ætlað brot gegn 226. gr. hegningarlaganna.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008 er heimilt að úrskurða í gæsluvarðhald sakborning, sem er undir rökstuddum grun um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við og má ætla að hann muni torvelda rannsókn máls. 

Að ofangreindu virtu verður á það fallist að rannsókn málsins sé enn skammt á veg komin, en m.a. hefur enn ekki verið unnt að yfirheyra brotaþola um málsatvik.  Í ljósi þessa og að öðru leyti með hliðsjón af ofangreindum rökstuðningi þykja efni til þess að fallast á kröfu sýslumanns og úrskurða kærða í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna, sbr. a-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála.  Tilvísun til d-liðar sömu lagagreinar þykir ekki nægjanlega rökstudd eins og hér stendur á.

Verður kærða í ljósi alls ofangreinds gert að sæta gæsluvarðhaldi, en rétt þykir í ljósi lýstra gagna að varðhaldið standi allt til fimmtudagsins 5. júlí n.k. kl. 15:00. 

Fallist er á að meðan á gæsluvarðhaldsvist kærða stendur skuli hann látinn vera í einrúmi, sbr. b-lið 99. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála.

Úrskurð þennan kveður upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kærði, X, kt. [...], [...] [...], sæti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 5. júlí n.k. kl. 15:00.  Skal vistin vera í einrúmi, sbr. b-lið 99. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála.