- Bifhjól
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Vextir
- Fyrning
- Sakaskipting
- Stórkostlegt gáleysi
- Uppgjör
- Varanleg örorka
|
Fimmtudaginn 18. nóvember 2010. |
Nr. 100/2010. |
Heimir Karlsson (Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.) gegn Sjóvá Almennum tryggingum hf. (Kristín Edwald hrl.) |
Bifhjól. Líkamstjón. Skaðabætur. Vextir. Fyrning. Sakaskipting. Stórkostlegt gáleysi. Uppgjör. Varanleg örorka.
H krafðist skaðabóta úr hendi S vegna tjóns sem hann varð fyrir við akstur bifhjóls á Hafnargötu í Reykjanesbæ í júní 2004. Deila aðila laut einkum að því hvort H hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi við akstur bifhjólsins og hvort miða ætti árslaun H, við ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku hans, við ákvæði 1. eða 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Um hið fyrrnefnda segir meðal annars í dómi Hæstaréttar að H hefði gert sér að leik að láta bifhjól sitt „prjóna“ og að slíkt aksturslag við þær aðstæður sem uppi voru fælu í sér stórkostlegt gáleysi. H hefði ekki sýnt fram á að hann hefði ekki misst stjórn á bifhjólinu af þessari ástæðu og að slysið yrði þannig ekki rakið til þessarar háttsemi hans. Bætur til H yrðu því lækkaðar og honum gert að bera sjálfur þriðjung tjóns síns vegna slyssins, með vísan til 2. mgr. 18. gr. þágildandi laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga. Um hið síðarnefnda segir meðal annars í dómi Hæstaréttar að á slysdegi hefði H verið 22 ára, hann hefði ekki lagt grunn að sérstökum starfsréttindum en hefði verið í föstu skiprúmi. Fyrir lægju upplýsingar um tekjur H áður en hann fékk fast skiprúm og þann tíma sem hann reyndi fyrir sér við eigin útgerð. Taldi dómurinn að H hefði sýnt fram á að tekjur hans hefðu hækkað til muna eftir að hann fékk fast skiprúm. Féllst Hæstiréttur á að beita ákvæði 2. mgr. 7. gr. við ákvörðun árslauna H og miðaði í því skyni við meðalatvinnutekjur manna við fiskveiðar á árinu 2004.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. febrúar 2010. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 24.736.244 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 2. júní 2004 til 28. maí 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. júní 2006 til greiðsludags, að frádregnum nánar tilgreindum innborgunum stefnda samtals að fjárhæð 12.857.545 krónur. Til vara krefst hann greiðslu á 22.655.484 krónum, en að því frágengnu 17.351.519 krónum, í báðum tilvikum, með vöxtum svo sem í aðalkröfu greinir og að frádregnum sömu innborgunum. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms en til vara lækkunar á kröfu áfrýjanda. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Áfrýjandi slasaðist við akstur bifhjóls 2. júní 2004 á Hafnargötu í Reykjanesbæ og krefur stefnda um bætur af því tilefni á grundvelli slysatryggingar ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Við uppgjör bóta kom upp ágreiningur á milli aðila annars vegar um hvort áfrýjandi hefði sýnt af sér stórkostleg gáleysi við akstur bifhjólsins og yrði af þeim sökum að bera sjálfur einn þriðja af tjóni sínu og hins vegar hvort miða bæri bætur vegna varanlegrar örorku áfrýjanda við 1. eða 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Aðilar eru sammála um að úrlausn þess, hvort áfrýjandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi við akstur bifhjólsins í umrætt sinn, ráðist eingöngu af 2. mgr. 18. gr. þágildandi laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga.
Í skýrslu fyrir héraðsdómi lýsti áfrýjandi aðdraganda slyssins svo að hann hefði stöðvað bifhjól sitt hjá pósthúsinu. Hefði vinur hans verið með honum á öðru sambærilegu bifhjóli. Þeir hefðu svo ekið niður eftir Hafnargötu í átt að hringtorgi á mótum hennar, Faxabrautar og Víkurbrautar. Hefði hann lyft hjólinu upp á afturdekkið og ekið þannig. Í skýrslu áfrýjanda, sem fylgdi bréfi lögmanns hans 28. október 2005 til stefnda, lýsti áfrýjandi því að þannig hafi hann ekið um 50 metra og látið þá framdekkið niður á götuna. Í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi taldi hann aftur á móti að þannig hefði hann ekið bifhjólinu 15 til 20 metra. Í lögregluskýrslu kemur fram að hann hefði þá ekið á 60 til 70 kílómetra hraða á klukkustund en í fyrrnefndri skýrslu kvaðst hann hafa ekið á löglegum hraða sem væri 50 kílómetra hraði á klukkustund. Aðilar deila um í hversu langan tíma áfrýjandi hafi ekið bifhjóli sínu eftir að hann hætti að „prjóna“ og áður en hann missti stjórn á því. Í skýrslu vitnisins Eiríks Bjarka Eysteinssonar fyrir héraðsdómi kom fram að frá því að áfrýjandi lenti framhjólinu og þar til hann féll af bifhjólinu hafi aðeins verið „augnablik“. Síðar í skýrslu sinni kvaðst hann ekki geta fullyrt að áfrýjandi hafi náð að lenda framhjólinu. Áfrýjandi heldur því hins vegar fram að hann hafi ekið nokkurn spöl með bæði hjólin á jörðu áður en hann missti stjórn á bifhjólinu. Framburður áfrýjanda hefur verið nokkuð á reiki um það sem næst gerðist. Í lögregluskýrslu er haft eftir honum að eldsneytisgjöf bifhjólsins hafi fests í botni og að hann hafi í framhaldinu misst stjórn á bifhjólinu. Í fyrrnefndri skýrslu áfrýjanda, sem fylgdi bréfi lögmanns hans til stefnda 28. október 2005, kom fram að áfrýjandi hefði sett framhjólið niður aftur og bremsað með bæði aftur- og frambremsu og þá runnið til í vettlingnum, eins og komist var að orði, og gefið bensíngjöfina í botn óviljandi með þeim afleiðingum að hann missti stjórn á hjólinu. Í stefnu málsins í héraði er því á hinn bóginn haldið fram að áfrýjandi hafi fest hanska sinn í bensíngjöf hjólsins með þeim afleiðingum að í stað þess að bremsa hafi hann gefið hjólinu aukið bensín og þannig misst stjórn á því. Við munnlegan málflutning voru aðilar sammála um að vegalengdin frá þeim stað þar sem áfrýjandi ók inn á Hafnarstræti og að fyrrnefndu hringtorgi væri um 130 metrar. Óumdeilt er að eftir að áfrýjandi missti stjórn á bifhjóli sínu ók hann á umferðareyju við hringtorgið, féll af hjólinu og slasaðist.
Stefndi byggir á því að það teljist til stórkostlegs gáleysis að láta bifhjól „prjóna“ en með því missi bifhjólið veggrip og ökumaður hafi enga stjórn á því þar sem stýri og hemlar verði óvirk auk þess sem jafnvægi bifhjóls raskist. Telur stefndi að áfrýjandi hafi misst stjórn á bifhjóli sínu í umrætt sinn vegna þessa aksturslags.
Fyrir liggur að áfrýjandi gerði sér að leik að láta bifhjól sitt „prjóna“. Slíkt aksturslag við þessar aðstæður telst fela í sér stórkostlegt gáleysi. Áfrýjandi hefur ekki fært fram sönnun um að hann hafi ekki misst stjórn á bifhjólinu af þessari ástæðu og að slysið verði þannig ekki rakið til þessarar háttsemi. Með vísan til 2. mgr. 18. gr. þágildandi laga nr. 20/1954 verða því bætur til hans lækkaðar og honum gert að bera sjálfur ⅓ af tjóni sínu vegna slyssins.
II
Í málinu ber áfrýjandi því við að meðalatvinnutekjur hans þrjú síðustu almanaksárin fyrir slysdag, ákveðnar eftir reglum 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, gefi ekki rétta mynd af þeim tekjum, sem hann hefði haft í framtíðinni ef slysið hefði ekki borið að höndum. Ástæðan sé sú að síðustu níu mánuði fyrir slysið hafi áfrýjandi verið í föstu skiprúmi og síðast á m.b. Erni þar sem hann hafi verið kominn í pláss til framtíðar. Árin 2000 til 2002 hafi hann á hinn bóginn ekki haft fast skiprúm og árin 2002 til 2003 gert út trillubát, en nettótekjur hafi þá verið litlar sem engar vegna stofnkostnaðar við útgerðina. Sé því fullnægt skilyrðum 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga til að meta árslaun hans sérstaklega.
Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga gildir sú meginregla við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku að lagðar verði til grundvallar meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag, sem tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við. Með þessum mælikvarða er í senn tekið tillit til þess hvernig tjónþoli hefur í reynd nýtt getu sína til að sinna launuðum störfum um tiltekinn tíma fyrir tjónsatburð og hverra tekna hann hefur aflað á þann hátt. Til þess að vikið verði frá þessu með heimild í 2. mgr. 7. gr. laganna verður tjónþoli að sýna fram á að fyrir hendi séu óvenjulegar aðstæður og að annar mælikvarði sé réttari til að meta hverjar framtíðartekjur hans hefðu orðið.
Í 2. mgr. 7. gr. er gert ráð fyrir að dómstólar meti hvenær atvik eru með þeim hætti að ákvæðinu verði beitt. Við það mat verður litið til athugasemda við 6. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 37/1999, sem breyttu 7. gr. laga nr. 50/1993. Þar er tekið fram að launatekjur liðinna ára séu ekki góður mælikvarði ef breytingar hafi orðið á högum tjónþola skömmu áður en slys varð eða þegar fullyrða má að slíkar breytingar standi fyrir dyrum. Sem dæmi er nefnt að tjónþoli hafi skipt um starf þannig að breyting hafi orðið á tekjum. Í slíku tilviki sé eðlilegra að ákveða viðmiðunarlaunin miðað við nýjar aðstæður.
Áfrýjandi var aðeins 22 ára er slysið átti sér stað og hafði ekki lagt grunn að sérstökum starfsréttindum. Fyrir liggja upplýsingar um tekjur áfrýjanda áður en hann fékk fast skiprúm og einnig þann tíma sem hann reyndi fyrir sér við eigin útgerð á trillu. Áfrýjandi hefur fært fram gögn er sýna að eftir að hann fékk fast skiprúm hafi tekjur hans hækkað til muna. Samkvæmt gögnum málsins er áfrýjandi enn fastráðinn hjá sömu útgerð og nú sem netamaður og stýrimaður í afleysingum á m.b. Erni eftir að hann lauk prófi frá Stýrimannaskólanum vorið 2007. Er fallist á með áfrýjanda að skilyrði séu til að beita viðmiðum 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga þannig að miða verði við meðalatvinnutekjur manna við fiskveiðar árið 2004 að meðtöldu 6% framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs. Verður varakrafa áfrýjanda þannig tekin til greina þótt hún sé lítillega lægri en niðurstaða útreiknings samkvæmt framangreindri viðmiðun þar sem áfrýjandi breytti varakröfu sinni í héraði 17. nóvember 2009. Verður stefndi þannig dæmdur til að greiða áfrýjanda 2/3 af 22.655.484 krónum eða 15.103.656 krónur með dráttarvöxtum í samræmi við kröfu áfrýjanda fyrir Hæstarétti.
Fallist er á með stefnda að vextir, sem til féllu fjórum árum fyrir birtingu stefnu í málinu 7. apríl 2009, séu fyrndir, sbr. 2. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.
Í ljósi úrslita málsins verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem verður ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndi, Sjóvá Almennar tryggingar hf., greiði áfrýjanda, Heimi Karlssyni 15.103.656 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 7. apríl 2005 til 28. maí 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. júní 2006 til greiðsludags, að frádregnum innborgunum 20. ágúst 2004 að fjárhæð 50.000 krónur, 27. ágúst 2004 að fjárhæð 776.903 krónur, 1. október sama ár að fjárhæð 445.845 krónur, 25. febrúar 2005 að fjárhæð 547.080 krónur og 9. júní 2006 að fjárhæð 11.037.717 krónur, sem dragast frá kröfunni miðað við stöðu hennar á innborgunardögum.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 17. nóvember 2009, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Heimi Karlssyni, kt. 111281, Bjarkartúni 1, Garði, gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík, með stefnu sem birt var í apríl 2009.
Dómkröfur stefnanda eru aðallega að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda 31.091.802 kr. með 4,5% ársvöxtum frá 2. júní 2004 til 28. maí 2006, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. maí 2006 til greiðsludags. Inn á skaðabótakröfuna voru greiddar innborganir þann 20. ágúst 2004 50.000 kr., þann 27. ágúst 2004 776.903 kr., þann 1. október 2004 445.845 kr., þann 25. febrúar 2005 547.080 kr. og þann 9. júní 2006 11.037.717 kr., sem dragast frá skaðabótakröfunni m.v. stöðuna á innborgunardegi. Til vara er þess krafist að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda 22.655.484 kr. með 4,5% ársvöxtum frá 2. júní 2004 til 28. maí 2006, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. maí 2006 til greiðsludags. Inn á skaðabótakröfuna voru greiddar innborganir þann 20. ágúst 2004 50.000 kr., þann 27. ágúst 2004 776.903 kr., þann 1. október 2004 445.845 kr., þann 25. febrúar 2005 547.080 kr. og þann 9. júní 2006 11.037.717 kr., sem dragast frá skaðabótakröfunni m.v. stöðuna á innborgunardegi. Til þrautvara er þess krafist að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda 17.351.519 kr. með 4,5% ársvöxtum frá 2. júní 2004 til 28. maí 2006, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. maí 2006 til greiðsludags. Inn á skaðabótakröfuna voru greiddar innborganir þann 20. ágúst 2004 50.000 kr., þann 27. ágúst 2004 776.903 kr., þann 1. október 2004 445.845 kr., þann 25. febrúar 2005 547.080 kr. og þann 9. júní 2006 11.037.717 kr., sem dragast frá skaðabótakröfunni m.v. stöðuna á innborgunardegi. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda eru aðallega að vera sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins. Til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður.
Stutt yfirlit um atvik að baki máli og ágreiningsefni í því: Hinn 2. júní 2004 slasaðist Heimir í bifhjólaslysi. Haft er eftir honum í lögregluskýrslu að hann hafi verið að aka Hafnargötu í Keflavík til norðurs, ekið út af bifreiðastæði við Hafnargötu 89 og að hringtorginu á mótum Hafnargötu, Faxabrautar og Víkurbrautar á um 60 til 70 km/klst. og prjónað aðeins. Eldsneytisgjöf bifhjólsins hefði fest í botn og hann misst stjórn á bifhjólinu og ekið á umferðareyju sunnan megin við hringtorgið. Þar hafi hann fallið af bifhjólinu en bifhjólið haldið áfram og staðnæmst á hringtorginu. Hann hafi strax staðið upp og tekið af sér hjálminn en fljótlega lagst í götuna aftur.
Í skýrslu lögreglunnar er haft eftir Jóhannesi Inga Sigurðssyni að hann hafi ekið á eftir Heimi þegar slysið varð. Hann hafi séð reyk koma frá afturdekki bifhjólsins eins og það hefði læst. Heimir hefði þá misst stjórn á hjólinu, ekið á umferðareyju sunnan við hringtorgið og dottið af því en hjólið haldið áfram að hringtorginu og staðnæmst á því. Heimir hafi strax staðið upp, tekið af sér hjálminn og gengið að bifhjólinu og lagst þar niður. Kvaðst Jóhannes ekki vita hvað Heimir hefði ekið hratt.
Í skýrslunni er haft eftir Eiríki Bjarka Eysteinssyni að hann hafi ekið norður Hafnargötu, sunnan við hringtorgið á mótum Hafnargötu, Faxabrautar og Víkurbrautar á undan Heimi þegar slysið varð. Kvaðst hann hafa séð atburðarásina í baksýnisspegli bifreiðar sinnar. Kvaðst hann hafa heyrt þegar bifhjólamennirnir, Heimir og Jóhannes Ingi, gáfu mikið inn og hafi hann þá litið í baksýnisspegilinn hjá sér og séð að Heimir kom á miklum hraða aftan að honum. Hann hafi þá aukið hraðann af ótta við að fá bifhjólið aftan á bifreið sína. Er hann kom að hringtorginu hafi hann séð Heimi missa stjórn á bifhjólinu og aka á umferðareyju sem er sunnan við hringtorgið. Þar hafi Heimir dottið af hjólinu og rúllað yfir eyjuna en hjólið haldið áfram að hringtorginu þar sem það stöðvaðist. Heimir hafi strax staðið upp og tekið af sér hjálminn en lagst fljótlega aftur niður. Eiríkur kvaðst hafa farið til Heimis og Heimir tjáð sér að hann hefði fest eldsneytisgjöfina í botn og því ekki getað stöðvað hjólið. Kvaðst Eiríkur telja að Heimir hefði prjónað en þó ekki geta fullyrt það.
Í skýrslunni er að lokum haft eftir Guðmundi Stefánssyni að hann hefði verið við Hafnargötu 88 og séð Heimi gefa mikið í, prjóna, og síðan aka á umferðareyju sunnan við hringtorgið og detta af hjólinu, en hjólið halda áfram að hringtorginu þar sem það stöðvaðist.
Heimir lýsir slysinu í bréfi, er fylgdi bréfi lögmanns hans til Sjóvá-Almennra trygginga hf., dags. 28. október 2005, þannig: „Ég ásamt vini mínum sem var á öðru hjóli komum útaf bílastæðisplani hjá pósthúsinu þegar ég kom á Hafnargötu gaf ég hjólinu inn þannig að framdekkið lyftist frá malbiki þegar hjólið hafði keyrt á afturdekkinu ca 50 metra setti ég framhjólið niður aftur og bremsaði bæði aftur- og frambremsu en um leið og ég tek í frambremsuna renn ég til í vettlingnum og gef bensíngjöfina í botn óviljandi með þeim afleiðingum að ég missi stjórn á því og hjólið skautar á umferðareyju sem er fyrir framan hringtorgið á Hafnargötunni og ég kastast af hjólinu og uppá hringtorgið. Ekið var á löglegum hraða sem er 50/km.“
Í stefnu er slysinu lýst á þann veg að Heimir hefði ekið bifhjólinu á 50 km hraða og látið framhjól bifhjólsins lyftast frá jörðu stutta stund. Er hann var að koma að hringtorgi á mótum Hafnargötu, Faxabrautar og Víkurbrautar hafi hann látið framhjólið niður og ekið þannig nokkurn spöl til móts við hringtorgið og ætlað þar að hægja á ferðinni en þá hafi hanski hans verið fastur í bensíngjöfinni og í stað þess að bremsa hafi hann aukið bensíngjöfina, misst stjórn á hjólinu og ekið upp á umferðareyju sunnan við hringtorgið, fallið af hjólinu og slasast.
Í læknisvottorði frá 15. ágúst 2005, er liggur fyrir í málinu sem dskj. nr. 10, segir undir fyrirsögninni Niðurstaða: „Heimir datt af mótorhjóli sínu þegar hann var að láta það "prjóna" þann 02.06.2004. Við samdægurs komu á Slysadeildina var hann með óþægindi frá vinstri öxl og fimmta úlnliðs og miðhandarlið vinstra megin. Við fyrstu skoðun á öxlinni kom "ekkert athugavert" í ljós annað en eymsli og hreyfisársauki sem samrýmdist mari og/eða tognun. Hins vegar var kurlabrot í fimmta úlnliðs og miðhandarlið (Rolando líkt brot) sem þurfti aðgerð. Við síðustu skoðun er Heimir með hreyfiskerðingu, kraftminnkun og dofa í vinstri öxl, sem rekja má til mars á mjúkvefjum og þar með talið taug sem valdið hefur lömun í axlarvöðvanum. Þá er hann með hreyfiskerðingu og hreyfisársauka frá vinstri úlnlið vegna kurlbrots. Gera má ráð fyrir að hreyfiskerðing á báðum stöðum verði varanleg og jafnvel meiri. Hætta er á slitgigt með tilheyrandi sársauka og nauðsyn á annarri aðgerð (staurliðsaðgerð) í úlnliðnum. Ljóst er að lífsgæði Heimis eru skert sem stendur og mjög líklega til frambúðar.“
Hinn 5. ágúst 2004 var af hálfu Sjóvá-Almennra trygginga hf. ákveðið að fallast á bótarétt Heimis úr slysatryggingunni þó þannig að hann bæri sjálfur þriðjung tjóns síns vegna eigin sakar. Þessu mótmælti Heimir þar sem það væri ekki stórkostlegt gáleysi að festa hanska í bensíngjöf bifhjóls síns, heldur óhapp.
Hinn 8. desember 2005 óskuðu aðilar eftir að Ingvar Sveinbjörnsson hrl. og Júlíus Valsson læknir mætu afleiðingar slyssins á heilsufar Heimis. Matsgerðin er dagsett 2. mars 2006 og er niðurstaða hennar að heilsufar teljist stöðugt 1. nóvember 2004, tímabundin óvinnufærni 100% til 1. nóvember 2004, tímabil þjáninga án rúmlegu til 1. nóvember 2004, þar af rúmliggjandi í þrjá daga, varanlegur miski 20% og varanleg örorka 25%.
Með bréfi, hinn 28. apríl 2006, krafðist Heimir bóta með hliðsjón af matinu sem tölulega er þannig greind:
1. Tímabundið atvinnutjón 2.6 til 1.1.2004 |
2.744.931 kr. |
2. Þjáningabætur 3 x 2.000 + 150 x 1.070 |
166.500 kr. |
3. Varanlegur miski 20% af 6.141.500,- |
1.228.300 kr. |
4. Varanleg örorka 25% af 6.661.000,- x 16.345 |
27.218.511 kr. |
Samtals |
31.358.242 kr. |
Af hálfu Sjóvá-Almennra trygginga hf. segir að félagið hafi boðið bætur í samræmi við kröfugerð Heimis að öðru leyti en því að við uppgjör bóta vegna varanlegrar örorku miði félagið við árslaun Heimis, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og vegna allra bótaliða væri miðað við að stefndi bæri þriðjung tjóns síns sjálfur vegna stórfellds gáleysis.
Heimir tók við bótum með fyrirvara um sakarskiptingu og viðmiðunarlaun vegna varanlegrar örorku hinn 17. maí 2006.
Helstu málsástæður stefnanda og réttarheimildir er hann byggir á: Heimir byggir á að greiðsluskylda Sjóvá-Almennra trygginga hf. sé óumdeild. Félaginu sé skylt að greiða honum fullar og óskiptar bætur enda hafi hann alls ekki sýnt af sér stórkostlegt gáleysi þegar hann slasaðist. Hann hafi gætt fyllsta öryggis; bæði verið með hjálm á höfði og í þykkum leðurgalla. Slysið hafi orðið vegna óhappatilviks; hann hafi fest hanska í bensíngjöf bifhjólsins þegar hann ætlaði að bremsa. Þá sé ljóst að sönnunarbyrði um hvort hann hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi hvíli á Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Sú sönnun liggi ekki fyrir. Bent er á að í vátryggingarétti þurfi gáleysi að vera á mjög háu stigi til þess að teljast stórfellt. Umferðarslys, líkt og slys hans, verði yfirleitt vegna þess að ökumenn leggja ekki rétt mat á aðstæður. Að hann festi hanska í bensíngjöf sé alls ekki sé hægt að telja óheppni eða mistök svo óvenjuleg eða sérstök að þau teljist stórkostleg óháð þeim afleiðingum sem slysið hafði fyrir hann.
Um réttarheimildir vísar Heimir til 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, skaðabótalaga nr. 50/1993 og meginreglu skaðabótaréttar um fullar bætur til handa tjónþola. Þá er vísað til 2. mgr. 18. gr. laga um vátryggingasamninga nr. 20/1954 og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga. Vaxtakrafa er byggð á 16. gr. skaðabótalaga en krafa um dráttarvexti á 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu og málskostnaðarkrafa á 1. mgr. 129 gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er byggð á lögum nr. 50/1988.
Aðalstefnukrafa sundurliðast þannig:
1. Tímabundið atvinnutjón |
2.744.931 kr. |
2. Þjáningabætur |
166.500 kr. |
3. Bætur vegna varanlegs miska |
1.228.300 kr. |
4. Bætur vegna varanlegrar örorku |
26.952.071 kr. |
Samtals |
31.358.242 kr. |
Varastefnukrafa sundurliðast þannig:
1. Tímabundið atvinnutjón |
2.744.931 kr. |
2. Þjáningabætur |
166.500 kr. |
3. Bætur vegna varanlegs miska |
1.228.300 kr. |
4. Bætur vegna varanlegrar örorku |
18.515.753 kr. |
Samtals |
22.655.484 kr. |
Þrautavarastefnukrafa sundurliðast þannig:
1. Tímabundið atvinnutjón |
2.744.931 kr. |
2. Þjáningabætur |
166.500 kr. |
3. Bætur vegna varanlegs miska |
1.228.300 kr. |
4. Bætur vegna varanlegrar örorku |
13.212.604 kr. |
Samtals |
17.352.335 kr. |
Helstu málsástæður stefnda og réttarheimildir er hann byggir á: Sjóvá-Almennar tryggingar hf. byggja á því að með þegar greiddum bótum sé tjón Heimis að fullu bætt og eigi hann ekki lögvarinn rétt til frekari bóta. Annars vegar hafi Heimir sýnt af sér stórfellt gáleysi með akstri sínum 2. júní 2004, þannig að rétt sé að hann beri þriðjung tjóns síns sjálfur, og hins vegar beri að miða bætur vegna varanlegrar örorku við tekjur stefnanda sjálfs síðastliðin þrjú almanaksár fyrir slysið.
Vísað er til þess að stefnandi viðurkenni að hafa látið bifhjólið prjóna í umrætt sinn þegar hann ók því eftir umferðargötu innan um aðra umferð. Það hafi verið stórkostlegt gáleysi. Þegar ökumaður bifhjóls láti framdekkið missa allt veggrip, hafi hann enga stjórn á hjólinu, stýri og hemlar verði óvirk, auk þess sem jafnvægi bifhjólsins raskist. Stefnandi hafi brotið gegn fjölmörgum hátternisreglum umferðarlaga. Hann hafi ekki farið varlega heldur aukið stórlega á að hætta skapaðist fyrir hann og aðra vegfarendur og ekki sýnt sérstaka aðgát eins og honum bar að gera, þar sem hann var að koma að hringtorgi; ekki miðað ökuhraða við aðstæður. Ljóst væri að ökuhraði var meiri en svo að hann hefði fullt vald á bifhjólinu. Þá megi ljóst vera að viðbrögð stefnanda voru röng. Hefði hann kúplað frá hefði bifhjólið misst afl og við það hefði hann fengið betra færi á að ná stjórn á bifhjólinu að nýju.
Um réttarheimildir vísar stefndi til 2. mgr. 18. gr. laga nr. 20/1954, 2. mgr. 27. gr. laga nr. 30/2004, 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og 4. gr., 25. gr. og 36. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Niðurstaða: Heimir Karlsson bar fyrir rétti að hann og annar maður hafi stoppað á samskonar hjólum við pósthúsið í Keflavík og farið síðan aftur inn á Hafnargötuna og stefnt niður Hafnargötu. Þegar hann kom þar út þá hafi hann lyft hjólinu upp á afturdekkið og keyrt þannig stuttan spöl og lent síðan hjólinu. Síðan hafa hann keyrt svona 50 metra til viðbótar og verið að koma að hringtorgi. Þá hafi hann misst vald á hjólinu, sennilega þegar hann var að hægja niður fyrir hringtorgið, og rifið í bensíngjöf um leið og hann reif í handbremsu. Þar af leiðandi hafi hann misst allt vald á hjólinu og lent á hringtorginu. Hann kvaðst hafa ekið fyrst svona 15 til 20 metra með framhjólið uppi án snertingar við veginn, síðan lent hjólinu og ekið svo ákveðinn spöl sem eftir var og misst stjórn á hjólinu.
Heimir kvaðst hafa verið með bensíngjöfina á sama stað. Þetta hafi verið klaufaskapur. Þegar hann reif í handbremsuna þá hafi hanskinn fest í bensíngjöfina og hann rifið hann til baka.
Heimir sagði að mótorar í þessum hjólum snúist mjög hratt. Hann hafi verið í fyrsta gír allan tímann. Pústið á hjólinu hafi ekki verið upprunalegt og hafi það gefið frá sér meiri hávaða en það, um leið og það var komið í fimm, sex, sjö til átta þúsund snúninga. Það heyrist mjög hátt í því í lausagangi.
Heimir sagði að hjólið hefði lent á lítilli umferðareyju áður en það kom inn í hringtorg. Þaðan hafi hann flogið af því og hjólið á hringtorgið.
Fyrir slysið kvaðst Heimir hafa unnið sem sjómaður. Hann hafi alltaf verið sjómaður en á tímabili hefði hann unnið í byggingavinnu í þrjá mánuði. Hann hafi byrjað á sjónum eftir skólann og tekið eitt ár í framhaldsskóla en farið á sjóinn aftur og alltaf verið á sjó. Á árunum 2002 og 2003 hafi hann verið með lægri tekjur en árin þar á undan. Þetta hafi verið á því tímabili sem hann keypti sér trillu og gerði hana út sjálfur. Þess vegna hefði hann haft lægri tekjur. Þegar eitthvað fiskaðist þá hafi lítið verið eftir þegar búið var að greiða kvótaleigu og útgerð á bátnum. Rétt áður en hann slasaðist hefði hann verið kominn í fast skipsrúmi á bátnum Erni í Keflavík.
Heimir kvaðst hafa reynslu af akstri bifhjóla. Hann hafi teikið prófið átján ára og átt mótorhjól alla tíð síðan og einnig ekið mótorhjóli eftir slysið.
Heimir sagði að til að fá mótorhjól til að prjóna þá væri gefið aðeins meira í en venjulega og hjólið látið lyftast og þeirri gjöf haldið. Frá því að lagt er af stað væri metri eða tíu metrar eknir áður en gefið væri í, allt eftir hverjum og einum ökumanni.
Vísað var til skýrslu Heimis, sem fylgdi bréf lögmanns hans til Sjóvá-Almennra trygginga hf., dags. 28. október 2005, dskj. nr. 19, þar sem segir: „Ég ásamt vini mínum sem var á öðru hjóli komum útaf bílastæðaplani hjá pósthúsinu þegar ég kom á Hafnargötuna gaf ég hjólinu inn þannig að framdekkið lyftist frá malbiki þegar hjólið hafði keyrt á afturdekkinu ca. 50 metra setti ég framhjólið niður aftur og bremsaði með bæði aftur- og frambremsu. “ Bent var á að hann hefði borið að þetta hefðu verið 15 til 20 metrar. Heimir sagði að rétt væri að um 20 metra hefði verið að ræða. Þegar hann sagði lögmanninum þetta hefði hann komið til að sækja laun, ætlað að fá greidd laun vegna vinnutaps og hafi hann tekið niður skýrsluna og spurt hann hvernig þetta hefði verið. Þá hafi hann [Heimir] sagt að hann hefði bara prjónað þarna. Þetta hafi verið sirka fimmtíu metrar. Svo þegar hann fór aftur og skoðaði þetta og var að velta þessu fyrir sér, fyrst þetta skipti máli, þá haldi hann frekar að þetta hafi verið 20 metrar. Lögmaður stefnda benti á að í umræddri skýrslu Heimis komi einnig fram að hann hefði runnið til í vettlingnum en ekki sé byggt á því fyrr en í stefnu að hann hafi fest hanska eða vettling í bremsunni. Heimir kvaðst ekkert geta fullyrt um hvað skeði þar. Um getgátur væri að ræða, hvort hann hafi runnið í vettlingnum, vettlingurinn fest eða hann tekið í bensíngjöfina sjálfur þegar hann tók í frambremsun. Hann kvaðst ekki hafa kúplað frá vegna þess að hann var búinn að missa vald á hjólinu. Hann kvaðst halda að hann hefði verið í byggingavinnu um áramótin 2001.
Jóhannes Ingi Sigurðsson bar fyrir rétti símleiðis að hann og Heimir hefðu beygt út frá pósthúsinu í Keflavík og ekið niður Hafnargötu og gefið aðeins í. Hjólið hjá Heimi hefði lyfst örlítið stuttan spöl en síðan hafi bæði hjólin farið niður og þeir komið að hringtorgi þarna og báðir hægt á sér og allt litið eðlilega út. Allt í einu hefði hjólið hjá Heimi rokið af stað og í því hafi hann séð reyk koma annað hvort úr fram- eða afturdekki, en ekki gert sér grein fyrir frá hvoru. Í sama mund hafi Heimir dottið á hliðina og runnið. Þeir hafi alls ekki verið á miklum hraða þegar þetta gerðist.
Eiríkur Bjarki Eysteinsson bar fyrir rétti að hann hefði komið akandi eftir Hafnargötunni í Keflavík hinn 2. júní 2004. Á hægri hönd hafi hann séð tvo mótorhjólastráka þar úti í kanti eða við pósthúsið í Keflavík. Hann hafi tekið eftir þeim af því að þeir voru mjög áberandi í leðurgöllum; sjálfur væri hann mótorhjólamaður og hefði hann fylgst með þeim. Þeir hafi ætlað út á veginn, hætt við og hann keyrt fram hjá þeim. Kvaðst hann hafa fylgst með þeim í baksýnisspeglinum og þegar hann átti um það bil 300 metra eftir að hringtorginu þá hafi hann séð þá koma. Annar þeirra hafi gefið í eða farið hraðar en hinn. Hann hafi séð að ljós mótorhjólsins hvarf og þar með hafi það prjónað svo að hann hafi gefið í, því að svo stutt var í það. Hann hafi ekið inn í hringtorgið og þá hafi mótorhjólið lent á eyju sem var til hliðar við bifreiðina og haldið áfram inn í grjóthrúgu á hringtorginu. Hjólið hafi komið fljúgandi í metra hæð og hefði hann ekki gefið í þá hefði hjólið komið inn í bílinn. Eiríkur Bjarki sagði að þetta hafi gerst á örskömmum tíma, hjólið hafi komið og ökumaðurinn henst í hrúguna við hliðina og áfram á gangstéttina. Kvaðst Eiríkur Bjarki strax hafa lagt bílnum til hliðar og farið út úr honum. Ökumaðurinn hafi staðið upp og fleiri komið strax að; ökumaðurinn hafi ráfað um, tekið hjálminn af sér og síðan hnigið niður.
Eiríkur Bjarki taldi að vegalengdin sem mótorhjólinu var ekið, eftir að lagt var af stað, hafi verið 300 til 400 metrar. Lögmaður stefnda benti á að í skýrslu Heimis, sem fylgdi bréfi lögmanns hans til tryggingarfélagsins 28. október 2005, greini frá því að vegalengdin frá bílastæðum pósthússins að hringtorginu sé 130 metrar. Eiríkur Bjarki sagði að hann hefði giskað á vegalengdina en ekki mælt hana. Hann hafi ekið fram hjá mótorhjólamönnunum og horft á þá, en þeir hefðu lagt af stað þegar hann var kominn að hringtorginu. Aðeins nokkur augnablik hafi liðið frá því hann sá þá leggja af stað og þar til þeir voru komnir í námunda við hann. Hann hafi dregið úr ferðinni, þegar hann kom að hringtorginu, en gefið í þegar hann áttaði sig á hvað var að gerast og sá að mótorhjólamaðurinn náði ekki stjórn á hjólinu.
Eiríkur Bjarki kvaðst vera vanur mótorhjólamaður, þekkja mótorhjólamál. Ef bensíngjöf á mótorhjóli verður föst, sagði Eiríkur að sleppa yrði hjólinu eða kúpla því frá. En væri bensíngjöfinni fest í botni, færi hjól, eins og hér um ræðir, á 100 km hraða á fimm sekúndum í fyrsta gír.
Eiríkur Bjarki sagði að mikil umferð hefði verið á Hafnargötunni um þetta leyti. Enginn bíll hafi þó verið nálægt honum fyrir framan og aftan þegar þetta gerðist, en bifreið hafi verið inni í hringtorginu og önnur nýlega farin fram úr honum.
Til að festa bensíngjöf í botn á mótorhjóli kvað Eiríkur Bjarki ökumann verða að ákveða það. Hann kvaðst sjálfur aldrei hafa gera það. Til væru dæmi um að bensíngjöf mótorhjóls hafi verið fest í botn en hann þekkti engan sem það hefði gert. Um 320 manns séu í mótorhjólafélagi, þar sem hann er félagi. Meðal félaga hafi verið rætt um þetta slys og minnst hafi verið á annað tilvik í Keflavík 1982 þar sem ökumaður tjáðist hafa fest bensíngjöf í botn. Kvaðst Eiríkur Bjarki ekki vita fyrir víst hvort rétt væri.
Samkvæmt skýrslu Heimis, sem hann gaf lögmanni sínum 28. október 2005 - er liggur fyrir í málinu sem fylgiskjal með dómskjali nr. 19., bréfi lögmannsins til Sjóvá-Almennra trygginga hf., dagsettu sama dag - er vegalengdin frá bílastæðum pósthússins að hringtorginu 130 metrar. Þá verður frásögn Eiríks Bjarka af akstri Heimis á mótorhjóli sínu þennan vegarspotta ekki dregin í efa. Óumdeilt er að Heimir "prjónaði" hjóli sínu hluta leiðarinnar á þeim hraða, sem til þess þurfti, á veglengd ekki lengri en 130 metra, rétt fyrir aftan bifreið Eiríks Bjarka. Verður að telja það stórkostlegt gáleysi af Heimi að aka mótorhjóli á umferðargötu innanbæjar með þessum hætti.
Stefnandi hefur hvorki sannað að óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi né að ætla megi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur hans en ákvæði 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993, sbr. 6. gr. laga nr. 37/1999, kveða á um.
Samkvæmt framangreindu verður stefndi sýknaður af kröfum og stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað eins og í dómsorði greinir.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Heimis Karlssonar.
Stefnandi greiði stefnda 200.000 krónur í málskostnað.