Print

Mál nr. 185/2016

Ákæruvaldið (Ólafur Þ. Hauksson héraðssaksóknari)
gegn
X (Helgi Sigurðsson hrl.), Y (Gestur Jónsson hrl.), Z (Óttar Pálsson hrl.) og Þ (Helgi Birgisson hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Vitni
Reifun

X og Y voru ákærðir fyrir umboðssvik, og Z og Þ fyrir hlutdeild í því broti, með því að hafa farið út fyrir heimildir sínar til lánveitingar þegar þeir samþykktu að veita einkahlutafélaginu A lán án fullnægjandi trygginga. Lánið hafi verið veitt til að fjármagna kaup A á 25,7% hlut í öðru félagi. Í málinu lágu fyrir bæði undir- og yfirmatsgerð dómkvaddra manna, sem aflað hafði verið í tilgreindu einkamáli, þar sem lagt var mat á verðmæti umrædds eignarhlutar. Héraðsdómur hafnaði kröfu Á um að matsmennirnir gæfu skýrslu við aðalmeðferð málsins. Í dómi Hæstaréttar var rakið að undirmatsgerðin hefði verið meðal þeirra gagna sem lágu ásamt öðru til grundvallar ákæru í málinu. Yrði að skýra þá aðstöðu á þann veg að með henni hafi Á verið veitt sérfræðileg aðstoð við rannsókn málsins og ákvörðun um saksókn í skilningi 2. málsliðar 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá hafi með yfirmatsgerðinni verið endurmetin þau atriði sem undirmatsgerðin tók til. Þar sem framburður matsmannanna var talinn geta skipt máli um gildi matsgerðanna sem sönnunargagna var krafa Á tekin til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Hjördís Hákonardóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. mars 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. mars 2016, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Bjarni Frímann Karlsson, Gylfi Magnússon, Bjarki Andrew Brynjarsson, Erlendur Davíðsson og Smári Rúnar Þorvaldsson gefi skýrslu við aðalmeðferð málsins. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að áðurgreind krafa sín verði tekin til greina.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Í máli þessu eru varnaraðilarnir X og Y ákærðir fyrir umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa 8. eða 9. júlí 2008 misnotað aðstöðu sína og stefnt hagsmunum B banka hf. í verulega hættu með því að fara út fyrir heimildir sínar til lánveitinga er þeir hafi samþykkt að veita einkahlutafélaginu A, eignalausu félagi með takmarkaða ábyrgð, lán að fjárhæð 6.000.000.000 krónur, án fullnægjandi trygginga fyrir endurgreiðslu lánsins, sem hafi verið í andstöðu við reglur bankans um lánveitingar og markaðsáhættu. Hafi lánið verið veitt til að fjármagna að fullu kaup A ehf. á 25,7% hlut D hf. í C, en hlutabréf þess félags hafi ekki verið skráð í kauphöll. Þá eru varnaraðilarnir Z og Þ ákærðir fyrir hlutdeild í hinu ætlaða broti, sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga. Til vara er hinn fyrrnefndi ákærður fyrir brot gegn 254. gr. sömu laga, en að því frágengnu 264. gr. laganna.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi málsins, slitastjórn B banka hf., aflaði í tilgreindu einkamáli matsgerðar Bjarna Frímanns Karlssonar og Gylfa Magnússonar, en með henni mátu þeir markaðsvirði 25,7% eignarhlutar D hf. í C, miðað við 9. júlí 2008, eða sama dag og B banki hf. veitti það lán sem mál þetta snýst um. Matsgerðin barst sérstökum saksóknara 26. apríl 2012 með bréfi lögmanns fyrrgreinds kæranda og var lögð fram við þingfestingu málsins.

Ákæra í málinu var gefin út 12. desember 2012. Í röksemdum með henni, sbr. d. lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008, sagði meðal annars að þriðja og ítarlegasta verðmatið á eignarhluta D hf. í C væri matsgerð fyrrgreindra manna, en þar væri komist að tiltekinni niðurstöðu um verðmæti eignarhlutar D hf. í C umræddan dag. Eftir að matsgerðin lá fyrir var óskað yfirmats af hálfu gagnaðila slitastjórnar B banka hf. í áðurnefndu einkamáli og voru þeir Bjarki Andrew Brynjarsson, Erlendur Davíðsson og Smári Rúnar Þorvaldsson dómkvaddir til starfans. Yfirmatsgerðin var lögð fram í þinghaldi 7. nóvember 2013, en dómsmeðferð máls þess sem hér um ræðir hafði verið frestað að beiðni verjenda frá og með 11. febrúar sama ár.

Eins og áður greinir var undirmatsgerðin, sem aflað var af hálfu kæranda málsins, meðal þeirra gagna sem lágu ásamt öðru til grundvallar ákæru í málinu. Verður að skýra þá aðstöðu á þann veg að með henni hafi sérstökum saksóknara verið veitt sérfræðileg aðstoð við rannsókn málsins og ákvörðun um saksókn í skilningi 2. málsliðar 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008, sbr. dóm Hæstaréttar 4. nóvember 2011 í máli nr. 560/2011. Með yfirmatsgerðinni voru endurmetin þau atriði sem undirmatsgerðin tók til. Samkvæmt þessu kann framburður matsmannanna að skipta máli um gildi matsgerðanna sem sönnunargagna. Verður krafa sóknaraðila því tekin til greina.

Dómsorð:

Ákæruvaldinu er heimilt að leiða fyrir dóm sem vitni við aðalmeðferð málsins Bjarna Frímann Karlsson, Gylfa Magnússon, Bjarka Andrew Brynjarsson, Erlend Davíðsson og Smára Rúnar Þorvaldsson.                           

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. mars 2016.

                Mál þetta er höfðað með ákæru sérstaks saksóknara 12. desember 2012 á hendur ákærðu X og Y fyrir umboðssvik, sbr. 249. gr. almennra hegningarlaga, á hendur ákærða Z aðallega fyrir hlutdeild í umboðssvikum hinna tveggja fyrrgreindu en til vara fyrir hylmingu, sbr. 254. gr. almennra hegningarlaga, og til þrautavara fyrir peningaþvætti, sbr. 264. gr. sömu laga, og á hendur ákærða Þ fyrir hlutdeild í umboðssvikum ákærðu X og Y.

                Málið var þingfest 7. janúar 2013 og dómur kveðinn upp 5. júní 2014. Dóminum var áfrýjað og samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið flutt um formhlið þess 13. apríl 2015. Dómur var kveðinn upp 22. sama mánaðar þar sem hinn áfrýjaði dómur var ómerktur ásamt meðferð málsins frá upphafi aðalmeðferðar og málinu vísað heim í hérað til úrlausnar á ný af þeirri ástæðu að sérfróður meðdómandi hefði verið vanhæfur til meðferðar málsins. Í þinghaldi 5. júní 2015 krafðist sækjandi þess að dómsformaður viki sæti í málinu. Með úrskurði dómsins 23. september 2015 var kröfunni hafnað, en með dómi Hæstaréttar 13. október 2015 í málinu nr. 655/2015 var dómsformanni gert að víkja sæti með vísan til g-liðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Núverandi dómsformaður fékk málinu úthlutað 21. október sl. en hafði fram að þeim tíma engin afskipti af því.

                Við fyrirtöku málsins 4. febrúar sl. krafðist sækjandi þess að ákæruvaldinu yrði heimilað að leiða sem vitni við aðalmeðferð málsins Gylfa Magnússon, Bjarna Frímann Karlsson, Bjarka Andrew Brynjarsson, Erlend Davíðsson og Smára Rúnar Þorvaldsson, matsmenn í máli nr. E-2977/2010. Til vara er þess krafist að heimilað verði að matsmennirnir Gylfi Magnússon og Bjarni Frímann Karlsson verði leiddir fyrir dóminn. Verjendur ákærðu mótmæltu kröfunum. Málið var tekið til úrskurðar um framangreindar kröfur 12. febrúar sl. er málflytjendum hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um þær.

                                                                                              I

                Ákæruvaldið vísar til 110. gr. og 2. málsliðar 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008 til stuðnings þeirri kröfu sinni að því verði heimilað að leiða Gylfa Magnússon, Bjarna Frímann Karlsson, Bjarka Andrew Brynjarsson, Erlend Davíðsson og Smára Rúnar Þorvaldsson, matsmenn úr máli nr. E-[...]/2010, sem vitni við aðalmeðferð málsins.

                Mál þetta hafi verið kært til embættis sérstaks saksóknara með kæru slitastjórnar B banka 7. maí 2010. Með kærunni hafi fylgt stefna B banka á hendur þremur ákærðu og fleirum, en í stefnunni hafi stefnandi áskilið sér rétt til þess að krefjast dómkvaðningar matsmanna. Það hafi verið gert undir meðferð máls nr. E-[...]/2010 en þann 29. mars 2011 hafi Gylfi Magnússon og Bjarni Frímann Karlsson verið dómkvaddir sem matsmenn til að meta markaðsverðmæti hlutabréfa í félaginu C sem voru í eigu D hf. Matsgerðin, dags. 23. apríl 2012, hafi verið send embætti sérstaks saksóknara og hún hafi fylgt gögnum máls þessa. Þann 14. september 2012 hafi Bjarki Andrew Brynjarsson, Erlendur Davíðsson og Smári Rúnar Þorvaldsson verið dómkvaddir yfirmatsmenn í máli nr. E-[...]/2010. Verjendur í máli þessu hafi óskað eftir því að málinu yrði frestað þar til niðurstaða yfirmatsins lægi fyrir. Yfirmatsgerðin, dags. 16. október 2013, hafi verið lögð fram í þessu máli.

                Við fyrri aðalmeðferð máls þessa hafi verið fallið frá kröfu um að leiða matsmennina sem vitni þar sem verjendur hafi ekki ætlað að leiða yfirmatsmenn. Sækjandi hafi því talið að niðurstöðurnar væru óumdeildar en komið hafi í ljós við aðalmeðferðina að svo væri ekki.

                Sækjandi telur öll skilyrði uppfyllt til þess að heimila framangreinda skýrslugjöf. Framangreindar matsgerðir hafi verið lagðar fram í málinu án athugasemda og málinu hafi verið frestað að beiðni verjenda til þess að unnt væri að leggja yfirmatið fram. Það sé meginregla að vitni skuli hafa skynjað atvik máls af eigin raun en í 2. málslið 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008 sé að finna undantekningu frá því, sem sækjandi telji eiga við í málinu. Slitastjórn B hafi sent ákæruvaldinu matsgerðina áður en rannsókn málsins lauk og hafi verið horft til hennar við ákvörðun um útgáfu ákæru. Því sé um að ræða sérfræðilega aðstoð sem hafi verið veitt lögreglu, sbr. framangreint lagaákvæði. Þá telur sækjandi að yfirmatsgerð sé órjúfanlegur hluti af matinu þótt hennar hafi verið aflað eftir útgáfu ákæru. Ekki sé því annað tækt en að heimila skýrslugjöf bæði undir- og yfirmatsmanna.

                Varakrafan lúti að því að einungis verði heimiluð skýrsla undirmatsmanna en enginn vafi leiki á því að matsgerð þeirra hafi verið hluti gagna sem voru grundvöllur ákæru og því séu uppfyllt skilyrði fyrir skýrslugjöf þeirra.

                                                                                              II

                Ákærðu andmæla því allir að sækjanda verði heimilað að leiða framangreind vitni. Það sé meginregla að bara þeir sem geti borið um málsatvik verði leiddir sem vitni. Ljóst sé að matsmennirnir geti það ekki. Ákvæði 2. málsliðar 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008 sé undantekning frá meginreglunni og beri að túlka þröngt. Ekkert liggi fyrir í málinu um að framangreindir matsmenn uppfylli skilyrði ákvæðisins. Þeir hafi ekki veitt ákæruvaldinu sérfræðilega ráðgjöf og engin samskipti hafi verið þar á milli. Það sé ekki nægjanlegt að matsgerð undirmatsmanna hafi borist embætti sérstaks saksóknara. Rannsókn málsins hafi nánast verið lokið þegar matsgerðin barst embættinu. Meðal annars hafi verið búið að taka skýrslur af öllum ákærðu og vitnum. Því hafi ekki verið haldið fram að matsgerðin væri grundvöllur ákærunnar.

                Jafnvel þótt fallist yrði á að skilyrði laga væru uppfyllt til þess að undirmatsmenn kæmu fyrir dóminn standi eftir að matsgerð þeirra hafi verið hnekkt með yfirmati þriggja manna, en skilyrðin séu alls ekki uppfyllt varðandi þá. Það sé ljóst að þeir hafi ekki veitt ákæruvaldinu sérfræðilega ráðgjöf. Það gangi því ekki að heimila skýrslugjöf undirmatsmanna eða yfirmatsmanna.

                Þá er sérstaklega bent á að ákærðu hafi ekki allir verið aðilar að framangreindum matsgerðum, auk þess sem þeirra hafi ekki verið aflað í tilefni af þessu máli heldur vegna þess að því hafi verið borið við í máli nr. E-[...]/2010 að tjón stefnanda væri ósannað.

                                                                                              III

                Samkvæmt fyrri málslið 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008 er hverjum manni skylt að koma fyrir dóm og svara spurningum sem beint er til hans um málsatvik. Vitnaskyldan er því bundin við það að maður geti borið um málsatvik sem hann hefur skynjað af eigin raun. Af þessu leiðir að maður verður ekki leiddur sem vitni í sakamáli til að svara spurningum um sérfræðileg atriði nema hann hafi verið dómkvaddur sem matsmaður í málinu. Undantekning er gerð frá þessari meginreglu í síðari málslið 1. mgr. 116. gr. þegar um er að ræða þann sem hefur veitt ákæruvaldi eða lögreglu sérfræðilega aðstoð eða ráðgjöf áður en mál er höfðað.

                Upphaf máls þessa var kæra slitastjórnar B banka, dags. 7. maí 2010, til embættis sérstaks saksóknara, nú héraðssaksóknara. Með kærunni fylgdi stefna máls nr. E-[...]/2010 sem þingfest var við Héraðsdóm Reykjavíkur [...]. apríl 2010 en þrír ákærðu eru meðal stefndu í því máli. Málið var tekið til rannsóknar hjá embættinu og ákæra gefin út 12. desember 2012. Undir meðferð máls nr. E-[...]/2010, þann 29. mars 2011, voru að kröfu stefnanda, slitastjórnar B banka, dómkvaddir tveir matsmenn, Gylfi Magnússon og Bjarni Frímann Karlsson, til þess að meta markaðsverðmæti hlutabréfa í eigu hlutafélagsins D í félaginu C þann 9. júlí 2008. Matsgerð þeirra, dags. 23. apríl 2012, var send embætti sérstaks saksóknara með bréfi, dags. 25. sama mánaðar. Óumdeilt er að embættið átti engin samskipti við matsmennina. Matsgerðin fylgdi gögnum lögreglu með ákæru í máli þessu.

                Ljóst er að rannsókn máls þessa var langt á veg komin þegar embætti sérstaks saksóknara barst framangreind matsgerð. Matsgerðin var ekki samin í tilefni af þessu máli heldur vegna einkamáls sem rekið er fyrir dóminum. Ekkert liggur fyrir um að embættið hafi óskað eftir því að fá matsgerðina afhenta og hefur sækjandi ekki gefið neinar skýringar á því á hvaða hátt matsgerðin hafi nýst við rannsókn málsins eða töku ákvörðunar um saksókn, en embættið hafði önnur verðmöt á C undir höndum. Þá liggur fyrir að þann 14. september 2012 voru dómkvaddir þrír yfirmatsmenn, Bjarki Andrew Brynjarsson, Erlendur Davíðsson og Smári Rúnar Þorvaldsson, til þess að framkvæma yfirmat vegna matsgerðarinnar. Eins og að framan greinir var ákæra í málinu gefin út 12. desember 2012, en þá lá fyrir að óskað hefði verið yfirmats. Yfirmatsgerðin lá hins vegar ekki fyrir fyrr en í nóvember 2013. Af framangreindu verður ekki séð að dómkvaddir matsmenn í máli nr. E-[...]/2010 geti talist hafa veitt ákæruvaldi eða lögreglu sérfræðilega aðstoð eða ráðgjöf í skilningi síðari málsliðar 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008. Verður því hafnað bæði aðal- og varakröfu ákæruvaldsins um að leiða framangreinda menn sem vitni í máli þessu.

                Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

                                                               Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

                Kröfu ákæruvaldsins um að Gylfi Magnússon, Bjarni Frímann Karlsson, Bjarki Andrew Brynjarsson, Erlendur Davíðsson og Smári Rúnar Þorvaldsson gefi skýrslu við aðalmeðferð þessa máls er hafnað.