- Kærumál
- Haldlagning
|
Miðvikudaginn 19. mars 2014. |
Nr. 188/2014. |
Sérstakur saksóknari (Björn Þorvaldsson saksóknari) gegn X (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) |
Kærumál. Haldlagning.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um að fella úr gildi ákvörðun sérstaks saksóknara um haldlagningu inneignar á nánar tilteknum bankareikningi í hennar eigu. Vísað var til þess að sérstakur saksóknari hefði til rannsóknar ætluð brot eiginmanns X á almennum hegningarlögum, skatta- og bókhaldslögum og að rannsóknin beindist meðal annars að fjármunum sem hefðu verið millifærðir á bankareikning X. Talið væri að þeirra hafi verið aflað á refsiverðan hátt og að þeir kynnu að vera gerðir upptækir. Því væri fullnægt skilyrðum haldlagningar samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. mars 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. mars 2014, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að fella úr gildi ákvörðun sóknaraðila um haldlagningu inneignar á nánar tilteknum bankareikningi. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að framangreind haldlagning verði felld úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. mars 2014.
Hinn 24. febrúar sl. barst Héraðsdómi Reykjavíkur krafa sóknaraðila, X, kt. [...], [...], [...], um að úrskurðað verði að felld verði úr gildi ákvörðun sérstaks saksóknara um haldlagningu inneignar á bankareikningi sóknaraðila nr. [...]. Er krafan höfð uppi með vísan til 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar sér til handa, sem greiðist úr ríkissjóði.
Varnaraðili, sérstakur saksóknari, krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað.
Málið var tekið til úrskurðar að loknum málflutningi 6. mars sl.
Málsatvik
Með bréfi, dagsettu 22. febrúar 2013, vísaði skattrannsóknarstjóri til sérstaks saksóknara máli vegna meintra brota eiginmanns sóknaraðila, [...], gegn skatta- og bókhaldslögum og eftir atvikum almennum hegningarlögum.
Í bréfi sérstaks saksóknara til Landsbankans, dagsettu 6. mars 2013, kemur fram að ákveðið hafi verið, með vísan til 1. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008, að leggja hald á fé á reikningi sóknaraðila nr. [...] í tengslum við rannsókn máls varðandi meint skattalagabrot „aðila og félaga honum tengdum“. Ákvörðun um haldlagningu þessara fjármuna sé tekin á grundvelli þess að í refsimáli á hendur kærða muni verða gerð krafa um að þeir verði gerðir upptækir þar sem þeirra hafi verið aflað með refsiverðum hætti, sbr. 1. mgr. 69. gr. og 69. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Sóknaraðili var yfirheyrð af embætti sérstaks saksóknara 7. mars 2013 og var henni við upphaf skýrslutöku kynnt sakarefnið samkvæmt kæru skattrannsóknarstjóra. Henni var jafnframt kynnt að við rannsókn málsins hefðu komið fram upplýsingar sem leiddu til þess að ákveðið hefði verið að veita henni réttarstöðu sakbornings við rannsókn málsins og beindust því sakargiftir samkvæmt kæru skattrannsóknarstjóra að henni ásamt ætluðum brotum gegn XXVI. kafla almennra hegningarlaga og eftir atvikum 264. gr. almennra hegningarlaga.
Fram kemur í greinargerð varnaraðila að rannsókn málsins standi enn yfir og taki til níu félaga sem tengist eiginmanni sóknaraðila og persónulegum skattskilum hans og sóknaraðila.
Helstu málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili reisir kröfu sína í fyrsta lagi á því að skilyrðum 1. mgr. 68. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 til haldlagningar hafi ekki verið fullnægt, enda teljist innstæða á bankareikningi ekki „munur“ í skilningi ákvæðisins.
Þá byggir sóknaraðili á því að rannsókn málsins hjá skattrannsóknarstjóra og sérstökum saksóknara hafi beinst að eiginmanni sóknaraðila og hafi því, samkvæmt 2. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008, verið óheimilt að leggja hald á inneign á bankareikningi hennar án úrskurðar dómara. Þá komi ekki fram í gögnum málsins að rannsókn beinist að einkahlutafélaginu [...], en samkvæmt yfirliti yfir bankareikning sóknaraðila hafi það félag millifært fjármunina sem um ræðir á reikning hennar.
Loks byggir sóknaraðili á því að svo virðist sem rannsókn málsins hafi verið hætt, eða hún legið niðri frá 7. mars 2013, en þann dag hafi sóknaraðili verið yfirheyrð hjá embætti sérstaks saksóknara. Því beri að aflétta haldi, sbr. 72. gr. laga nr. 88/2008.
Helstu málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili telur skilyrði 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008 til haldlagningar hafa verið fullnægt í málinu. Ákvörðun um haldlagningu hafi verið tekin á grundvelli þess að ef til refsimáls kæmi á hendur sóknaraðila eða annarra myndi varnaraðili krefjast upptöku fjármunanna sem um ræðir, þar sem þeirra hefði verið aflað með refsiverðum hætti. Fjármunirnir hafi verið millifærðir á reikning sóknaraðila af [...], sem sé eitt þeirra félaga sem rannsókn varnaraðila lúti að. Á reikningsyfirliti komi fram að á tímabilinu 1. febrúar til 5. mars 2013 hafi fjármunir samtals að fjárhæð 9.146.482 krónur verið lagðir inn á reikninginn, en á sama tímabili hafi fjármunir samtals að fjárhæð 4.575.148 krónur verið teknar út af reikningnum af eiginmanni sóknaraðila. Haldlagning hafi því verið nauðsynleg vegna hættu á undanskoti fjármunanna sem um ræðir.
Varnaraðili kveður rannsókn málsins vera umfangsmikla, en hún sé í fullum gangi. Málið hafi verið endursent skattrannsóknarstjóra til frekari rannsóknar og séu skýrslutökur fyrirhugaðar á næstunni. Þá hafi gagnaöflun reynst tímafrek. Rannsókn málsins verði hraðað eins og kostur er og verði kappkostað að ljúka henni innan þess tíma sem kveðið er á um í fyrirmælum ríkissaksóknara um málshraða.
Niðurstaða
Samkvæmt 3. mgr. 69. gr., sbr. 2. mgr. 102. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 getur eigandi eða vörsluhafi munar, sem lögregla hefur lagt hald á, borið lögmæti haldlagningar undir dómara.
Af framangreindu bréfi sérstaks saksóknara til Landsbankans 6. mars 2013 verður ráðið að rannsókn málsins hafi beinst að eiginmanni sóknaraðila og félögum honum tengdum á þeim tíma sem lagt var hald á inneign á bankareikningi í hennar eigu. Fram kemur í greinargerð varnaraðila að sóknaraðili hafi við skýrslutöku hjá embætti sérstaks saksóknara 7. mars 2013 borið að hún hafi ekki vitað af fjármununum á bankareikningi sínum, en eiginmaður hennar hefði haft aðgang að reikningnum í gegnum heimabanka. Verður lagt til grundvallar að eiginmaður sóknaraðila hafi haft vörslur innstæðunnar ásamt henni. Var því ekki nauðsynlegt að haldlagning væri ákveðin með úrskurði dómara samkvæmt 2. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008.
Sem að framan er rakið hefur varnaraðili til rannsóknar mál vegna meintra brota sóknaraðila, eiginmanns hennar og félaga á hans vegum, gegn almennum hegningarlögum, skatta- og bókhaldslögum. Við flutning málsins fyrir dómi kom jafnframt fram af hálfu varnaraðila að [...] væri eitt þeirra félaga sem rannsókn beindist að, en samkvæmt gögnum málsins voru fjármunir millifærðir frá því félagi á bankareikning sóknaraðila. Varnaraðili hefur vísað til þess að lagt hafi verið hald á fjármunina þar sem ætla megi að þeirra hafi verið aflað á refsiverðan hátt og að þeir kunni að verða gerðir upptækir. Heimilt er, að öðrum lagaskilyrðum uppfylltum, að leggja hald á inneign á bankareikningi, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 21. maí 2010 í málinu nr. 301/2010. Með vísan til framangreinds þykir fullnægt skilyrðum 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008 til haldlagningar fjármunanna sem um ræðir á bankareikningi sóknaraðila. Haldlagningin laut að peningaeign, sem unnt er að færa af reikningnum á skömmum tíma. Af fyrirliggjandi gögnum verður jafnframt ráðið að rannsókn málsins er nokkuð umfangsmikil og er henni ólokið. Verður því ekki fallist á það með sóknaraðila að varnaraðila sé skylt að aflétta haldi, sbr. 72. gr. laga nr. 88/2008.
Samkvæmt framansögðu er hafnað kröfu sóknaraðila um að fella úr gildi ákvörðun varnaraðila um að leggja hald á inneign á bankareikningi sóknaraðila.
Ekki eru efni til að kveða á um málskostnað.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, X, um að fella úr gildi ákvörðun sérstaks saksóknara um haldlagningu inneignar á bankareikningi í Landsbankanum hf. nr. [...].