Print

Mál nr. 40/2016

Lykilorð
  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

                                            

Þriðjudaginn 19. janúar 2016.

Nr. 40/2016.

Ákæruvaldið

(Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Jóhannes Ásgeirsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. janúar 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 15. janúar 2016 þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengi í máli hans en þó ekki lengur en til föstudagsins 12. febrúar 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 15. janúar 2016.

Héraðssaksóknari hefur krafist þess fyrir dóminum í dag að X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 12. febrúar nk. kl. 16:00.

Í greinargerð með kröfunni segir að mál þetta hafi borist héraðssaksóknara frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 7. janúar sl. og með ákæruskjali dagsettu í dag, 15. janúar 2016, sé höfðað sakamál á hendur X, ásamt tveimur meðákærðu, fyrir rán sem framið var í skartgripaverslun [...] við [...] í [...], þann 22. október 2015. Kærði X sé einnig ákærður fyrir tilraun til sérstaklega hættulegrar líkamsárásar, en til vara hættubrot, brot gegn valdstjórninni, lögreglulagabrot, vopnalagabrot og brot gegn lögum ávana- og fíkniefni, að kvöldi 22. október 2015 utan dyra við Faxabraut í Reykjanesbæ, er lögregla hugðist hafa afskipti af kærða vegna ránsins. Þá sé kærði ákærður fyrir umferðarlagabrot í kjölfar ránsins og ennfremur fyrir þjófnað að morgni 26. september 2015. Um málavaxtalýsingu vísast nánar til meðfylgjandi ákæruskjals.

Brot kærða séu heimfærð undir 252. gr., 1. mgr. 106. gr., 2. mgr. 218. gr., sbr., 20. gr., og 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ákvæði lögreglulaga, vopnalaga, laga um ávana-og fíkniefni og umferðarlaga. Ákæran, ásamt rannsóknargögnum málsins, hafi verið send Héraðsdómi Reykjavíkur með bréfi, dags. í dag. Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 23. október sl., fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna, en frá 6. nóvember á grundvelli almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Að mati héraðssaksóknara sé kærði undir sterkum grun um að hafa framið ofangreind brot. Brot þau sem kærði sé ákærður fyrir geti varðað allt að 16 ára fangelsi. Með hliðsjón af alvarleika sakarefnis og þess að ríkir almannahagsmunir standi til þess að menn gangi ekki lausir þegar svo stendur á sé þess krafist að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan mál hans sé til meðferðar hjá dómstólum.

                Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Kærði hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 23. október sl., fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna, en frá 6. nóvember sl. á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Kærði hefur játað fyrir lögreglu að hafa framið rán í verslun [...] í [...] 22. október sl. í félagi við Y og Z. Kærði er undir sterkum grun að hafa brotið gegn 106. gr., 2. mgr. 218. gr., sbr. 20. gr., 4. mgr. 220. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Háttsemi kærða getur varðað allt að 16 ára fangelsi sannist sök en ákæra barst dóminum í dag ásamt rannsóknargögnum. Með tilliti til almannahagsmuna er á það fallist að brot kærða sé þess eðlis að nauðsynlegt sé að tryggja að hann gangi ekki laus á meðan að mál hans er til meðferðar fyrir dómi. Er skilyrðum fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldi kærða því fullnægt og verður krafa Héraðssaksóknara tekin til greina svo sem í úrskurðarorði greinir.

                Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til  föstudagsins 12. febrúar nk. klukkan 16.00 .