Print

Mál nr. 321/2014

Lykilorð
  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald

                                                                                              

Þriðjudaginn 13. maí 2014.

Nr. 321/2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Saga Ýrr Jónsdóttir hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. maí 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. maí 2014, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 15. maí 2014 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að vægara úrræði verði beitt eða að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Fallist er á með héraðsdómi að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við, sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru uppfyllt skilyrði a. liðar sömu málsgreinar til að verða við kröfu sóknaraðila og standa ákvæði 5. mgr. greinarinnar því ekki í vegi. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur. 

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. maí 2014.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði [...], kt. [...], til að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 15. maí nk. kl. 16. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Í greinargerð kemur fram að 7. maí hafi 16 ára stúlka lagt fram kæru hjá lögreglu vegna kynferðisbrots sem muni hafa átt sér stað aðfaranótt sunnudagsins 4. maí sl. Nánar tiltekið hafi hún kært nauðgun af hálfu 5 manna í íbúð við [...] í [...], m.a. kærða. Kærunni hafi fylgt myndbandsupptaka af hinni meintu nauðgun sem tekin hafi verið upp á síma eins hinna kærðu og styðji upptakan framburð kæranda um atvik máls.

Í kjölfar kærunnar hafi hinir grunuðu í málinu verið handteknir og símar þeirra og tölvur haldlagðar. Kærðu hafi allir gengist við því að hafa haft samfarir við stúlkuna umrætt sinn. Þeir telji að kærandi hafi verið því samþykk að þeir ásamt fjórum öðrum hefðu við hana kynferðismök í umrætt sinn í íbúðinni. Kærðu beri þó ekki saman um atburðinn og atburðarás tengda atburðinum

Fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi ásamt fjórum öðrum karlmönnum þvingað kæranda, sem sé 16 ára stúlka, til þess að þola að þeir allir hefðu við hana samfarir í svefnherbergi í íbúðinni í [...] í [...]. Þá þyki ekki vafi um að þeir hafi verið allir á sama tíma í svefnherberginu og hjálpast að við að færa stúlkuna úr fötum áður og á meðan þeir höfðu við hana samfarir.

Rannsókn máls þessa er á frumstigi og sé ljóst að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi en meðal annars eigi eftir að yfirheyra sakborninga frekar og hafa uppi á vitnum og yfirheyra þau. Jafnframt eigi eftir að rannsaka síma- og tölvugögn sakborninga. Mál þetta sé því enn á það viðkvæmu stigi að hætt sé við því að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins gangi hann laus.

Ætluð brot teljist varða við 194. gr. og 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða

Með vísan til greinargerðar lögreglu og rannsóknargagna málsins er vafalaust að uppi er rökstuddur grunur um að sakborningur hafi gerst sekur um brot sem fangelsis­refsing er lögð við. Hann er grunaður um að hafa í félagi við fjóra aðra framið alvar­legt brot sem varðar við 194. og 209. gr. laga nr. 19/1040. Sannist brot getur það varðað allt að 16 ára fangelsi samkvæmt fyrrnefnda ákvæðinu. Eru því uppfyllt skil­yrði fyrri málsliðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Lögreglan byggir kröfu sína um gæsluvarðhald á því að um ríka rann­sóknar­hags­muni sé að ræða og vísar til heimildar í a-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Ljóst er að rannsókn máls þessa er á frumstigi en kæra barst þann 7. maí sl. og rann­sókn hófst þá þegar. Af fyrirliggjandi skýrslum af sakborningum og kæranda verður ráðið að enn sem komið er liggi ekki fyrir glögg mynd af atburðarrás hins kærða atviks. Þá kunna að vera nokkuð mörg vitni sem geta gefið nánari upplýsingar um mikilvæg atriði málsins sem enn hafa ekki verið teknar skýrslur af.

Í ljósi fyrirliggjandi gagna er fallist á það með lögreglu að ríkir rann­sóknar­hagsmunir felist í því að sakborningur sæti gæsluvarðhaldi. Gangi sakborningur laus á þessu stigi rannsóknar verður að telja að uppi sé raunveruleg hætta á að hann kunni að hafa áhrif á vitni og/eða aðra sakborninga í málinu. Sakborningur er undir 18 ára aldri og verður því ekki úrskurðaður í gæsluvarðhald nema telja megi víst að önnur úrræði sem vísað er til í 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 eða mælt er fyrir um í barna­verndar­lögum getið komið í þess stað. Í ljósi atvika og þeirra rannsóknarhagsmuna sem eru í málinu og með hliðsjón af alvarleika brotsins sem sakborningur er grunaður um, verður að telja að önnur úrræði en gæsluvarðhald, með þeim takmörkunum á sam­skiptum sem krafist er, komi ekki að gagni. Er því fallist á með lögreglustjóra að skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 séu uppfyllt og stendur 5. mgr. greinarinnar ekki því í vegi að krafa lögreglunnar nái fram að ganga. Miðað við umfang málsins verður ekki talið að sá tími sem krafist er að gæsluvarðahaldið vari sé óhæfilegur.

Er krafa um gæsluvarðahald því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

[...], kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtu­dagsins 15. maí nk. kl. 16.

Sakborningur skal sæta einangrun á meðan á gæslu­varðhaldinu stendur.