Print

Mál nr. 92/2009

Lykilorð
  • Vátrygging
  • Vátryggingarsamningur
  • Gáleysi

Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. september 2009.

Nr. 92/2009.

Vátryggingafélag Íslands hf.

(Hákon Árnason hrl.)

gegn

Erlu Sigurðardóttur

(Guðjón Ármann Jónsson hrl.)

 

Vátrygging. Vátryggingarsamningur. Gáleysi.

Í málinu krafðist E viðurkenningar á bótaskyldu V á grundvelli Al-kaskótryggingar vegna tjóns sem E hafði orðið fyrir þegar brotist hafði verið inn í bifreið hennar, henni stolið og hún eyðilögð. Í dómi Hæstaréttar kom fram að leggja bæri til grundvallar frásögn umráðamanns bifreiðarinnar, sonar E, um að hann hefði læst bifreiðinni er hann skildi við hana og að aukalyklar að kveikjulás hennar hefðu verið í hanskahólfinu. Með því að geyma kveikjuláslyklana í hanskahólfi bifreiðarinnar hefðu lyklarnir ekki verið geymdir á öruggum geymslustað, jafnvel þótt bifreiðin hefði verið læst. Hefði umráðamaður bifreiðarinnar því brotið varúðarreglu í vátryggingaskilmálum V þess efnis að „geyma ... lykla á öruggum stað“ og gæti ábyrgð félagsins því fallið niður í heild eða að hluta, sbr. 26. gr. laga um vátryggingasamninga nr. 30/2004. Samkvæmt ákvæðinu væri það þó skilyrði að sök vátryggjanda væri ekki óveruleg og að orsakatengsl væri milli brots og þess að vátryggingaratburður varð. Talið var að með háttseminni hefði umráðamaðurinn sýnt af sér gáleysi, sem telja yrði verulegt, en ekki væri áskilið að stórkostlegt gáleysi þyrfti til. Yrði E að sæta því að réttur hennar til bóta myndi skerðast. Við mat á því hve mikil sú skerðing ætti að vera bæri að líta til þess að þótt gáleysið væri verulegt, átti vátryggingaratburður sér stað nokkrum klukkutímum eftir að bifreiðinni var lagt í bifreiðastæði við heimili umráðamanns hennar og að honum hefði ekki verið unnt að sporna við því að þeir sem tóku bifreiðina, brytu sér leið inn í hana. Var bótaskylda V því viðurkennd á helmingi þess tjóns sem E varð fyrir.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. febrúar 2009. Hann krefst aðallega ómerkingar héraðsdóms og heimvísunar málsins, en til vara sýknu af kröfum stefndu, en að því frágengnu að bótaskylda hans verði aðeins viðurkennd að hluta. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Krafa áfrýjanda um ómerkingu hins áfrýjaða dóms og heimvísun málsins er á því reist, að héraðsdómari hafi ekki tekið afstöðu til einnar meginmálsástæðu hans. Áfrýjandi teflir fram þeim málsástæðum að umráðamaður bifreiðarinnar KH 901 hefði brotið tvær varúðarreglur í skilmálum húftryggingar bifreiðarinnar. Annars vegar að bifreiðin skyldi vera læst, þegar enginn væri í henni, og hins vegar að geyma skyldi lykla að henni á öruggum stað, en svo hafi ekki verið þar sem lyklar að kveikjulás hennar hafi verið í hanskahóflinu, sem áfrýjandi telur að ekki geti talist öruggur geymslustaður. Áfrýjandi telur að héraðsdómari hafi ekki tekið afstöðu til síðari málsástæðunnar og það eigi að leiða til ómerkingar héraðsdóms og heimvísunar málsins.

Í héraðsdómi er gerð grein fyrir þessari málsástæðu áfrýjanda og umfjöllun úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum um hana. Að því búnu segir meðal annars: ,,Í grein 6.3 í vátryggingarskilmálum umræddrar ökutækjatryggingar segir að ökutæki skuli vera læst þegar enginn er í því og að geyma skuli lykla á öruggum stað. Í 7. gr. þeirra segir að skylt sé að fara eftir varúðarreglum í skilmálum þessum. Sé varúðarreglum ekki fylgt geti ábyrgð félagsins fallið niður í heild eða að hluta, sbr. 26. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004.“ Í framhaldi af þessu er fjallað um 26. gr. laga nr. 30/2004 og heimild samkvæmt því ákvæði til þess að meta rétt hins vátryggða til bóta þótt hann hafi brotið varúðarreglur með hliðsjón af nánar tilgreindum atvikum.  Þá segir að hvarf bifreiðarinnar hafi verið tilkynnt strax og umráðamanni hennar hafi orðið það ljóst. Það er niðurstaða héraðsdóms að nægilega sé sýnt fram á það í málinu að bifreiðin hafi verið læst og að brotist hafi verið inn í hana. Þá segir: ,,Er því ekki við umráðamann bifreiðarinnar að sakast, sbr. 26. gr. laga nr. 30/2004, og getur stefndi því ekki borið fyrir sig ákvæði 6.3 í umræddum tryggingarskilmálum.“ Miða verður við, að sú afstaða héraðsdóms að hafna því að bifreiðin hafi verið ólæst og því geti áfrýjandi ekki borið fyrir sig ákvæði 6.3 í vátryggingarskilmálum feli í sér, að því sé hafnað að það teljist brot á varúðarreglu að geyma lykla að kveikjulás bifreiðarinnar í hanskahólfi hennar, þegar bifreiðin sé læst. Verður því að telja að í héraðsdómi sé tekin rökstudd afstaða til síðari málsástæðu áfrýjanda og er ómerkingarkröfu áfrýjanda því hafnað.

II

Bifreiðin KH 901 var í umráðum Arnar Ingólfssonar, sonar stefndu er atvik málsins áttu sér stað, en stefnda er eigandi bifreiðarinnar. Í gr. 9.1 í skilmálum húftryggingar þeirrar er stefndi hafði tekið hjá áfrýjanda vegna bifreiðarinnar er tekið fram að félaginu sé heimilt að bera fyrir sig háttsemi manns, sem með samþykki vátryggðs er ábyrgur fyrir hinu vátryggða ökutæki. Ákvæði þetta hefur stoð í a. lið 2. mgr. 29. gr. laga nr. 30/2004. Ber stefnda því ábyrgð á háttsemi Arnar Ingólfssonar.

Áfrýjanda hefur ekki tekist að hnekkja þeirri frásögn Arnar Ingólfssonar að hann hafi, eftir að hafa sótt bifreiðina á verkstæði, lagt henni um klukkan 23:30 í bifreiðastæði fyrir utan heimili sitt. Verður að leggja til grundvallar frásögn hans um að hann hafi læst bifreiðinni er hann skildi við hana, en aukalyklar að kveikjulás hennar hafi verið í hanskahólfinu. Ástæða þess hafi verið sú, sem Örn Ingólfsson lýsir í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi, að starfsmenn á verkstæði þar sem bifreiðin hafði verið til viðgerðar hafi að henni lokinni sett kveikjuláslyklana í hanskahólfið, en hann sótt bifreiðina og notað til þess aðra lykla. Hann hafi svo, er hann kom heim, gleymt að taka lyklana úr hanskahólfinu og því hafi þeir verið þar um nóttina. Verður að miða við að sá eða þeir sem tóku bifreiðina um nóttina hafi brotið sé leið inn í hana. Er upplýst að bifreiðin fannst síðar sama dag mikið skemmd skammt fyrir ofan Hafnarfjörð.

Í gr. 6.3 í skilmálum vátryggingarinnar er lögð sú skylda á þann sem fer með umráð bifreiðarinnar að ,,geyma ... lykla á öruggum stað.“ Um er að ræða varúðarreglu sbr. e. lið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 30/2004. Því er ekki haldið fram að um þessa varúðarreglu hafi ekki verið árétting í vátryggingarskírteini svo sem boðið er í 2. mgr. 10. gr. laganna.

Áfrýjandi heldur því fram að stefnda, sem eins og fyrr greinir er samsömuð umráðamanni bifreiðarinnar, hafi brotið framangreinda varúðarreglu með því að hann skildi kveikjuláslykla bifreiðarinnar eftir í hanskahólfinu um nóttina. Telur áfrýjandi með vísan til 26. gr. laga nr. 30/2004, að þetta brot á varúðarreglunni eigi að leiða til þess að stefnda glati rétti til vátryggingarbóta.

Hanskahólf bifreiðar telst ekki öruggur geymslustaður kveikjuláslykla hennar þótt bifreiðin sé læst. Er fallist á með áfrýjanda að varúðarreglan hafi verið brotin. Um réttaráhrif þess segir í 26. gr. laga nr. 30/2004 að félagið skuli laust úr ábyrgð í heild eða að hluta. Áskilið er þó að sök sé ekki óveruleg og að orsakatengsl séu milli brotsins og þess að vátryggingaratburður varð. Við mat á því hvort og þá að hve miklu leyti félagið eigi að losna undan ábyrgð ber að hafa hliðsjón af því hvers konar varúðarregla hefur verið brotin, sakarstigi og hvernig vátryggingaratburð bar að og atvikum að öðru leyti. Með því að gleyma kveikjuláslyklunum í hanskahólfi bifreiðarinnar og láta þá liggja þar um nótt sýndi umráðamaðurinn af sé gáleysi, sem telja verður að sé verulegt, en ekki er áskilið í tilgreindu lagaákvæði að um stórkostlegt gáleysi þurfi að vera að ræða. Verður stefnda þess vegna að sæta því að réttur hennar til vátryggingarbóta skerðist. Við mat á því hve mikil sú skerðing eigi að vera ber að líta til þess að þótt gáleysið megi telja verulegt, átti vátryggingaratburður sér stað nokkrum klukkutímum eftir að bifreiðinni var lagt í bifreiðastæði við heimili  umráðamanns hennar og honum var ekki unnt að sporna við því að þeir sem tóku bifreiðina brytu sér leið inn í hana.

Með hliðsjón af framangreindu verður viðurkennd bótaskylda áfrýjanda á helmingi þess tjóns, sem stefnda varð fyrir við vátryggingaratburðinn 13. nóvember 2007. Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Viðurkennd er bótaskylda áfrýjanda, Vátryggingafélags Íslands hf., á grundvelli Al-kaskótryggingar, á helmingi þess tjóns sem stefnda, Erla Sigurðardóttir, varð fyrir er bifreiðinni KH 901 af gerðinni Suzuki Jimny, var stolið 13. nóvember 2007 og hún skemmd.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. febrúar 2009.

Mál þetta, sem þingfest var 19. júní 2008, var dómtekið 15. janúar 2009.

                Stefnandi er Erla Sigurðardóttir, Hringbraut 62, Hafnarfirði.

                Stefndi er Vátryggingarfélag Íslands, Ármúla 3, Reykjavík.

Dómkröfur

                Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði að stefndi sé bótaskyldur gagnvart stefnanda, á grundvelli Al-kaskótryggingar, vegna tjóns er stefnandi varð fyrir, er brotist var inn í bifreið hennar KH-901 þann 13. nóvember 2007 og bifreiðinni stolið og hún eyðilögð.

                Þá krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt mati dómsins og virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

                Dómkröfur stefnda eru þær að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara er þess krafist að bótaskylda hins stefnda félags verði einungis viðurkennd að hluta. Í öllum tilvikum er þess krafist að stefnda verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda, að mati dómsins.

Málavextir

                Málsatvik eru þau að hinn 13. nóvember 2007 kl. 08:05 kærði Örn Ingólfsson stuld á bifreiðinni KH-901, Suzuki Jimny til lögreglu. Kærandi sagði bifreiðina hafa verið læsta en að varalyklar að kveikjulás bifreiðarinnar hefðu verið geymdir í hanskahólfi bifreiðarinnar. Bifreið þessi var skráð eign stefnanda, sem er móðir Arnar Ingólfssonar, en Örn hafði umráð bifreiðarinnar. Bifreiðin var tryggð með svokallaðri Al-kaskótryggingu hjá stefnda. Stefnandi var einnig tryggður með svokallaðri F+ fjölskyldutryggingu hjá stefnda.

Um hádegi þennan sama dag fannst bifreiðin mannlaus og mikið skemmd við moldartipp í Hamranesi. Kveikjuláslyklar bifreiðarinnar voru í henni. Hljómflutningstæki, bassakeila, magnari og geislaspilari, sem samkvæmt kæruskýrslu Arnar Ingólfssonar voru í bifreiðinni, fundust ekki á staðnum en farsími kæranda fannst hins vegar á jörðinni við bifreiðina.

Ekki er upplýst í málinu hverjir námu bifreiðina á brott.

                Stefnandi taldi að hún fengi tjón sitt bætt úr Al-kaskótryggingu sem hún hafði hjá stefnda og krafði stefnda um bætur úr tryggingunni. Með bréfi stefnda, dags. 4. janúar 2008, var bótaskyldu úr kaskótryggingu bifreiðarinnar endanlega hafnað á þeirri forsendu að ósannað væri að bifreiðin hefði verið læst. Þá var á það bent að það væri skilyrði í skilmálum tryggingarinnar að lyklar bifreiðar væru geymdir á öruggum stað. Taldi stefndi að þetta ákvæði hefði ekki verið uppfyllt. Stefnandi skaut ágreiningi þessum til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum með bréfi dags. 22. janúar 2008.

Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum skilaði áliti sínu þann 4. mars 2008 og komst að þeirri niðurstöðu að varúðarregla hefði verið brotin og að stefnandi ætti einungis rétt á greiðslu á helmingi tjóns síns úr kaskótryggingu bifreiðarinnar með vísan til 26. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga.

                Stefndi tilkynnti með bréfi, dags. 12. mars 2008, til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum að hann hygðist ekki una úrskurði nefndarinnar. Afrit bréfsins var sent stefnanda.

Málsástæður stefnanda og lagarök

                Stefnandi byggir kröfur sínar í málinu á því að bifreiðin hafi verið læst þegar henni var stolið.  Samkvæmt öllum gögnum málsins hafi bifreiðinni verið læst þegar gengið var frá henni að kvöldi. Rétt sé að ítreka að í lögregluskýrslu komi fram að bifreiðinni hafi verið læst.  Lögreglan hafi ekki séð ástæðu til að koma á vettvang og stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hafi hvorki framkvæmt sína eigin rannsókn, né heldur óskað sérstaklega eftir rannsókn lögreglu.  Verði stefndi að bera sönnunarbyrði um það.  Í því sambandi megi benda á að í lögregluskýrslu komi fram að bifreiðin hafi verið læst, en að lyklar hafi verið í hanskahólfi.  Ef stefndi telji að sonur stefnanda hafi logið að lögreglu, eins og haldið sé fram í bréfum stefnda, þá megi velta fyrir sér hvers vegna hann hafi upplýst að lyklar hafi verið í hanskahólfi.  Þá megi benda á að í bifreiðinni hafi verið mjög fullkomin hljómflutningstæki sem stefndi telji um 250.000 króna virði og því hafi bifreiðinni ávallt verið læst.

Ekkert í skilmálum trygginga segi að ekki megi geyma lykla í bifreið.  Ekki séu fyrirliggjandi skilgreiningar á því hvað telst vera öruggur staður.  Almennt verði að líta svo á að heimili og bílar, sem eru læst, teljist vera öruggur staður.  Ef litið væri svo á að læstur bíll væri ekki öruggur staður, verði að telja að læst hús væri ekki öruggur staður.  Það myndi þá þýða að almenningur gæti ekki geymt aukalykla að bílum sínum heima, þar sem slíkt teldist ekki öruggur staður.

Stefnandi mótmæli þessari túlkun stefnda og telur að með því að ganga frá bifreiðinni með því að læsa henni hafi stefnandi gengið nægilega tryggilega frá bifreiðinni.  Með því að leggja meiri skyldur á tryggingartaka sé verið að leggja óeðlilega mikið á herðar tryggingartökum.  Þá sé í raun ómögulegt að uppfylla skilyrði vátryggingafélaga um geymslu lykla á öruggum stað, enda þurfi að geyma þá væntanlega í læstum hirslum og þá helst í öðrum húsum eða jafnvel bankahólfum.  Læst hús og læstur bíll eigi að vera öruggur staður.

                Stefnandi byggir á því að hann hafi uppfyllt alla skilmála sem settir voru af hálfu stefnda til að trygging sú, sem hann keypti hjá félaginu og borgaði fyrir, skuli teljast í gildi og að stefnda beri að bæta stefnanda tjón það sem hún varð fyrir.  Stefnandi bendir á að hún hafi aldrei verið sérstaklega upplýst um að óheimilt væri að geyma lykla í læstri bifreið og reyndar sé bent á að slíkt sé ekki bannað samkvæmt lögum um vátryggingarsamninga.  Ef stefndi túlki skilmála sína þannig, beri honum að setja slíkt fram með einföldum og skýrum hætti, sbr. 4. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004.  Samkvæmt 26. gr. sömu laga sé heimilt að fella niður ábyrgð tryggingafélags í heild eða hluta, ef varúðarreglum er ekki fylgt.  Stefnandi telur að slíku hafi ekki verið til að dreifa í því tilviki sem hér um ræði, enda lyklar í hanskahólfi læstrar bifreiðar. Verði vátryggingaratburður því ekki rakinn til brota stefnanda.

Þá sé í sömu grein gert ráð fyrir að leggja megi ábyrgð á tryggingafélag að hluta með hliðsjón af atvikum að öðru leyti.

                Stefnandi bendi á að mál þetta hafi fengið umfjöllun hjá Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum sem hafi komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi skyldi greiða stefnda 50% af tjóni því sem varð.  Stefndi hafi kosið að hafna niðurstöðu úrskurðarnefndar og sé stefnanda því nauðugur einn kostur að höfða mál þetta.  Sé þess óskað, við ákvörðun málskostnaðar í máli þessu, að tekið verði tillit til þess hvernig stefndi hafi gert stefnanda erfitt fyrir að fá rétt sinn viðurkenndan og þann kostnað sem stefnandi hafi haft af málinu á öllum stigum til að fá rétt sinn viðurkenndan.

                Stefnandi byggir mál sitt á lögum um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004 og almennum reglum samningaréttar.  Mál þetta sé rekið á grundvelli laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála í héraði, m.a. d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. 

Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, en krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

Málsástæður stefnda og lagarök

                Dómkröfur sínar byggir stefndi á því að ósannað sé að tjón það, sem tjónþoli telji sig hafa orðið fyrir, sé af völdum atburðar er falli undir bótasvið kaskótryggingar bifreiðarinnar.

Kröfu sína um bætur úr kaskótryggingu bifreiðarinnar KH-901 byggi stefnandi að öllum líkindum á greinum 4.7, 4.11 og 4.12 í vátryggingarskilmálum þeim sem um trygginguna giltu. Í nefndum greinum segi að vátrygging á ökutækinu bæti tjón vegna þjófnaðar og tilraunar til þjófnaðar, skemmdarverka sem unnin séu af ásettu ráði af öðrum en vátryggðum og að vátryggingin bæti einnig þjófnað á hljómflutningstækjum hins vátryggða ökutækis, þó að hámarki þá fjárhæð sem tiltekin sé í vátryggingarskírteini eða endurnýjunarskírteini.

                Í lögregluskýrslu, dags. 13. nóvember 2007, komi fram að kveikjuláslyklar bifreiðarinnar hafi verið í henni er hún fannst. Enn fremur liggi engin gögn fyrir um ummerki eða annað sem renni stoðum undir þá fullyrðingu stefnanda að brotist hafi verið inn í bifreiðina. Rannsókn lögreglu hafi ekki leitt til þess að meintur tjónvaldur hafi fundist.

                Þau gögn sem liggi fyrir í málinu dugi því ekki til sönnunar á því að atvik hafi verið með þeim hætti að tjón stefnanda falli undir bótasvið Al-kaskótryggingar bifreiðarinnar KH-901, sbr. 4. kafla vátryggingarskilmála Al- kaskótryggingar.

                Fjallað sé um heimild vátryggjanda til að setja vissar varúðarreglur, og afleiðingar af brotum vátryggðs á slíkum reglum, í 26. grein laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga.

                Stefndi geti samkvæmt þessari grein gert fyrirvara í skilmála sína um að það skuli laust úr ábyrgð í heild eða að hluta ef varúðarreglum sé ekki fylgt.

                Stefndi hafi gert slíkan fyrirvara með setningu varúðarreglna í 6. kafla vátryggingarskilmála Al- kaskótryggingar. Afleiðingar brota á varúðarreglum þessum séu sérstaklega brýndar fyrir vátryggingartaka í 7. kafla skilmálanna.

                Stefndi telji að stefnandi hafi brotið gegn þeirri varúðarreglu sem sett er fram í grein 6.3 í vátryggingaskilmálum Al-kaskótryggingar. Í greininni segi:

„Ökutæki skal vera læst þegar enginn er í því og geyma skal lykla á öruggum stað.“

Stefndi telji í fyrsta lagi ósannað að bifreiðin hafi verið læst. Þegar lögregla fann bifreið stefnanda hafi kveikjuláslyklar hennar verið í bifreiðinni. Þessi staðreynd bendi eindregið til þess að bifreiðin hafi verið opin og kveikjuláslyklarnir í henni. Varalyklar sem geymdir séu í hanskahólfi bifreiðar þjóni illa tilgangi sínum enda ljóst að ekki væri hægt að nálgast né nýta þá án þess að vera með aðallyklana í hendi eða með því að brjóta sér leið inn í bifreiðina.

                Engin gögn liggi fyrir sem sýni fram á að ummerki eftir innbrot hafi verið að finna á þeim stað sem stefnandi vilji meina að brotist hafi verið inn í bifreiðina. Þau vitni að brothljóðum eða glerbrotum sem nefnd séu í stefnu séu öll nátengd stefnanda og verði að hafa það í huga við mat á sönnunargildi staðhæfinga þeirra.

                Í stefnu greini að tveir aðilar nátengdir stefnanda og Erni Ingólfssyni, kæranda málsins til lögreglu, hafi komið að glerbrotum á þeim stað sem bifreiðin átti að hafa staðið. Þessir aðilar eru sagðir vera Örn Ingólfsson eldri og Steinar Páll Ingólfsson. Í lögregluskýrslu frá 23. nóvember 2007 komi hins vegar fram að Ingólfur Örn Arnarson, og Örn Ingólfsson, kærandi málsins til lögreglu, hafi komið að þessum glerbrotum strax um morguninn og hreinsað þau umsvifalaust upp. Þrátt fyrir þetta minnist Örn Ingólfsson, kærandi málsins til lögreglu, ekki einu orði á þessi glerbrot í kæruskýrslu sinni. Þeir sem komið hafi að hinum meintu sönnunargögnum, hverjir sem það í raun voru, hafi engan reka gert að því að tilkynna lögreglu um tilvist þeirra fyrr en tíu dögum eftir atburðinn. 

                Í öllu falli telur stefndi að framangreindar staðreyndir, aðstæður og misvísandi frásagnir af atburðum leiði svo sterkar líkur að því að ökutækið hafi ekki verið læst að það falli á stefnanda að sanna að svo hafi í raun verið.

                Í öðru lagi telur stefndi ljóst að kveikjuláslyklar bifreiðarinnar hafi ekki verið geymdir á öruggum stað.

                Í áliti Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum segi að miðað  við fyrirliggjandi gögn sé ekki unnt að fallast á að það hafi verið fullnægjandi vörslur að geyma kveikjuláslykla bifreiðarinnar í hanskahólfi hennar. Varúðarreglan hafi því verið brotin.

                Stefndi telur ljóst að hanskahólf bifreiðar geti ekki talist öruggur staður til að geyma kveikjuláslykla bifreiðar. Breyti þar engu hvort bifreiðin sé læst. Hafi verið brotist inn í bifreið stefnanda hefði henni ekki verið ekið í burt nema vegna þess að kveikjuláslyklarnir voru aðgengilegir í bifreiðinni.

                Stefndi telur þetta brot á varúðarskyldu stefnanda enn alvarlegra í ljósi þess að samkvæmt kæruskýrslu Arnar Ingólfssonar hafi ýmis hljómflutningstæki, alls að verðmæti 250.000 krónur, verið í bifreiðinni, og að öllum líkindum sjáanlegt að utan að um mikil verðmæti væri að ræða. Hafi því, að mati stefnda, verið auknar líkur á innbroti í bifreiðina og sérstaklega gálaust að geyma kveikjuláslykla bifreiðarinnar í henni undir slíkum kringumstæðum.

                Varakröfu sína, um að bótaskylda verði einungis viðurkennd að hluta, byggir stefndi sömu rökum og reifuð séu varðandi aðalkröfu stefnda um sýknu og varða brot á varúðarskyldu stefnanda. Samkvæmt 26. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 sé heimilt, hafi varúðarreglum ekki verið fylgt, að leggja á stefnda ábyrgð að hluta með hliðsjón af því hvers konar varúðarreglu var ekki sinnt, sök vátryggðs, hvernig vátryggingaratburð bar að og atvikum að öðru leyti.

                Í þessu sambandi sé sú staðreynd sérstaklega ítrekuð að hafi verið brotist inn í bifreið stefnanda hefði henni ekki verið ekið í burt nema vegna þess að kveikjuláslyklarnir voru aðgengilegir í bifreiðinni.

Kröfu sína um málskostnað úr hendi stefnanda byggir stefndi á 1.-3. mgr. 131. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. 

Niðurstaða

                Fyrir liggur að stefnandi var með  Al-kaskó ökutækjatryggingu hjá stefnda þegar umræddur atburður átti sér stað. Samkvæmt grein 4.7 í tryggingarskilmálunum bætir vátryggingin tjón á ökutækinu vegna þjófnaðar eða ef tilraun er gerð til þjófnaðar.

                Að morgni hinn 13. nóvember 2007 lagði Örn Ingólfsson fram kæru hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vegna þjófnaðar á bifreiðinni KH-901. Hafði Örn haft umráð yfir bifreiðinni en hún var í eigu stefnanda. Í lögregluskýrslu sem tekin var af Erni við þetta tækifæri segir að bifreiðin hafi staðið fyrir utan húsið Hringbraut 62 í Hafnarfirði. Hann hafi skilið við bifreiðina um kl. 23.30 kvöldinu áður og hafi hann læst bifreiðinni. Kvað hann lykil að bifreiðinni hafa verið í hanskahólfi hennar. Þá hafi hljómflutningstæki verið í bifreiðinni að verðmæti 250.000 krónur eða þar um bil.

                Fyrir dómi bar Örn Ingólfsson að kvöldinu áður en bifreiðinni var stolið hafi hann sótt hana á verkstæði þar sem hún var til viðgerðar. Búið hafi verið að loka verkstæðinu þegar hann kom þangað en aðallyklar bifreiðinnar hafi verið settir í hanskahólfið. Hann hafi komið með aukalyklana og ekið bifreiðinni síðan heim til sín. Hann kveðst hafa læst henni, eins og hann sé vanur, en verðmætir hlutir hafi verið í henni. Bar Örn að lyklar bifreiðarinnar væru alltaf geymdir inni í húsinu. Hann hafi hins vegar gleymt lyklunum í hanskahólfinu í umrætt sinn. Morguninn eftir hafi hann uppgötvað að bifreiðin var horfin. Hann hafi hringt til lögreglunnar og tilkynnt þjófnaðinn. Lögreglan hafi ekki talið ástæðu til að koma á staðinn þar sem bifreiðin var horfin og bað hann að koma á lögreglustöðina þar sem hann gaf skýrslu. Bifreiðin fannst um hádegi sama dag og var hún þá nánast ónýt. Bar Örn fyrir dómi að þegar bifreiðin var fundin hefði hann og afi hans og alnafni sópað saman glerbrotum sem voru á þeim stað sem bifreiðin var. Taldi Örn að þjófurinn hefði brotið framrúðuna bílstjóramegin til þess að komast inn í bifreiðina.

                Afi Arnar og alnafni bar fyrir dómi að þeir hefðu búist við að lögreglan kæmi á vettvang. Þegar það gerðist ekki hafi þeir nafnarnir sópað glerbrotunum saman um hádegisbilið. Vitnið Svavar Friðrik Smárason, vinur Arnar, bar að hann hefði komið í bifreið með Erni um hádegisbil þennan umrædda dag og staðfesti hann að hann hefði séð afann, Örn, vera að sópa glerinu saman og hafi Örn yngri farið og hjálpað honum.

                Eins og rakið er hér að framan, hélt stefnandi að hún fengi tjón sitt bætt úr Al-kaskó tryggingu þeirri er hún hafði hjá stefnda og krafði stefnda um greiðslu.  Með bréfi stefnda, dags. 28. nóvember 2007, var bótaskyldu hafnað á þeim forsendum að ósannað væri að bifreiðin hefði verið læst. Þá teldist það, að geyma lykil í hanskahólfi, ekki öruggur staður, sbr. gr. 6.3.í skilmálum Al-kaskótryggingar.

                Stefnandi lagði mál sitt fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum. Niðurstaða nefndarinnar var sú að stefndi skyldi greiða helming þess tjóns sem varð en skerða beri rétt stefnanda til bóta sem nemi helmingi þess tjóns sem varð vegna þess að varúðarreglu hafi ekki verið fylgt. Í áliti nefndarinnar segir að sú varúðarregla eigi við í þessu máli samkvæmt vátryggingarskilmálum að bifreið skuli vera læst og geyma eigi kveikjuláslykla bifreiðarinnar á öruggum stað. Ekki hafi komið fram nein skýring á því af hverju kveikjuláslyklar bifreiðarinnar voru geymdir í hanskahólfi bifreiðarinnar umrætt sinn. Miðað við fyrirliggjandi gögn sé ekki unnt að fallast á að það hafi verið fullnægjandi vörslur að geyma kveikjuláslykla bifreiðarinnar í hanskahólfi hennar. Umrædd varúðarregla hafi því verið brotin. Á það er bent að engin sýnileg ummerki séu um innbrot í bifreiðina og hvorugur málsaðila fjalli um það atriði í umfjöllun sinni um málið.

                Í grein 6.3 í vátryggingarskilmálum umræddrar ökutækjatryggingar segir að ökutæki skuli vera læst þegar enginn er í því og að geyma skuli lykla á öruggum stað. Í 7. gr. þeirra segir að skylt sé að fara eftir varúðarreglum í skilmálum þessum. Sé varúðarreglum ekki fylgt geti ábyrgð félagsins fallið niður í heild eða að hluta, sbr. 26. gr. laga um vátryggingasamninga nr. 30/2004

                Í 26. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga sem fjallar um brot á varúðarreglum segir að félagið geti gert fyrirvara um að það skuli laust úr ábyrgð í heild eða að hluta ef varúðarreglum sé ekki fylgt. Slíkan fyrirvara geti félagið þó ekki borið fyrir sig ef ekki sé við vátryggðan að sakast eða sök hans sé óveruleg eða það að vátryggingaratburður hafi orðið verði ekki rakið til brota hans. Þótt félagið geti samkvæmt þessari grein borið fyrir sig að varúðarreglum hafi ekki verið fylgt megi samt leggja á það ábyrgð að hluta með hliðsjón af því hvers konar varúðarreglu var ekki sinnt, sök vátryggðs, hvernig vátryggingaratburð bar að og atvikum að öðru leyti.   Örn Ingólfsson tilkynnti lögreglu strax um hvarf bifreiðarinnar. Þrátt fyrir að Örn hefði, í skýrslu sinni hjá lögreglu, skýrt svo frá að bifreiðin hefði verið læst, virðist lögregla ekki hafa talið ástæðu til að rannsaka vettvang. Með því að tilkynna lögreglu strax um hvarf bifreiðarinnar verður að telja að umráðamaður bifreiðarinnar, Örn Ingólfsson, hafi gert það sem af honum mátti ætlast. Þykir jafnframt að með framburði hans, afa hans Arnar Ingólfssonar og vinar Svavars Friðrikssonar, hafi verið nægilega sýnt fram á það í málinu að bifreiðin hafi verið læst og að brotist hafi verið inn í hana. Er því ekki við umráðamann bifreiðinnar að sakast, sbr. 26. gr. laga nr. 30/2004, og getur stefndi því ekki borið fyrir sig ákvæði 6.3 í umræddum tryggingarskilmálum.

Ber samkvæmt framansögðu að taka til greina kröfur stefnanda í málinu.

Eftir þessari niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 400.000 krónur.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Viðurkennd er bótaskylda stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., gagnvart stefnanda, Erlu Sigurðardóttur, á grundvelli Al-kaskótryggingar, vegna tjóns er stefnandi varð fyrir er brotist var inn í bifreið hennar KH-901 þann 13. nóvember 2007 og bifreiðinni stolið og hún eyðilögð.

Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.