Print

Mál nr. 534/2012

Lykilorð
  • Handtaka
  • Frelsissvipting
  • Miskabætur
  • Aðfinnslur

Fimmtudaginn 28. febrúar 2013.

Nr. 534/2012.

A

(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Óskar Thorarensen hrl.)

Handtaka. Frelsissvipting. Miskabætur. Aðfinnslur.

A krafði Í um miskabætur vegna handtöku og frelsissviptingar á heimili fyrrum eiginkonu hans, B. Rétt sinn til bóta reisti A á ákvæðum 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í dómi Hæstaréttar kom fram að rökstuddur grunur hafi verið um að A hefði framið brot sem sætt gat ákæru sbr. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008. Fullt tilefni hafi því verið til handtökunnar. Jafnframt taldi Hæstiréttur það hafa verið heimilt og rétt að færa A á lögreglustöð. Þegar litið væri til atvika málsins var ekki talið að frelsissvipting A hafi staðið lengur en efni stóðu til eða að hún hafi verið óþarflega særandi eða meiðandi. Þá var talið ósannað að lögregla hafi beitt meira harðræði umrætt sinn en óhjákvæmilegt var. Í ljósi atvika málsins var A talinn sjálfur hafa stuðlað að þeim aðgerðum er hann reisti kröfur sínar á í skilningi síðari málsliðar 2. mgr. 228. gr. áðurnefndra laga og fyrirgert rétti sínum til bóta samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins. Á hinn bóginn taldi Hæstiréttur að brotið hafi verið gegn rétti A er honum var ítrekað synjað um aðstoð lögmanns en eins og atvikum var háttað hafi A ekki orðið fyrir réttarspjöllum af þessum sökum. Væru því ekki skilyrði til að dæma A miskabætur af þessu tilefni hvorki á grundvelli 228. gr. laga nr. 88/2008 né samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sýknu Í.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. ágúst 2012. Hann krefst þess að stefndi greiði sér 2.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. júní 2009 til 8. desember 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

I

Áfrýjandi var handtekinn klukkan 00.50 aðfaranótt föstudagsins 19. júní 2009 á heimili fyrrum eiginkonu sinnar, B, að [...] í Reykjavík. Í málinu krefur hann stefnda um miskabætur vegna handtökunnar og frelsissviptingar í framhaldinu sem áfrýjandi telur hafa staðið í tæpar sautján klukkustundir. Aðdraganda handtökunnar og atvikum á vettvangi er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Ágreiningur málsaðila snýst í megindráttum um eftirgreind atriði: Í fyrsta lagi hvort tilefni hafi verið til handtökunnar. Í öðru lagi hvort hún hafi verið nauðsynleg. Í þriðja lagi hvort áfrýjandi hafi verið sviptur frelsi lengur en efni stóðu til. Í fjórða lagi hvort frelsissviptingin hafi verið framkvæmd á óþarflega særandi og móðgandi hátt og í fimmta lagi hvort áfrýjanda hafi með ólögmætum hætti verið synjað um lögmannsaðstoð.

Rétt sinn til bóta vegna handtökunnar og þeirrar frelsissviptingar sem áfrýjandi sætti reisir hann á ákvæðum 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi var tilefni handtökunnar það að fyrrum eiginkona áfrýjanda hringdi í fjarskiptamiðstöð lögreglu og bað um aðstoð vegna þess að áfrýjandi væri á heimili hennar í hennar óþökk, hann væri ölvaður og hefði lagt á hana hendur. Samkvæmt þessu og í ljósi atvika á vettvangi eins og þeim er nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi lék rökstuddur grunur á að áfrýjandi hefði framið brot sem sætt gat ákæru, sbr. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008. Var því fullt tilefni til handtökunnar.

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi útskýrði lögreglan það fyrir áfrýjanda á vettvangi að húsráðandi óskaði ekki nærveru hans í húsakynnum sínum. Áfrýjandi, sem samkvæmt vætti vitna var verulega ölvaður, var beðinn um að klæða sig og yfirgefa íbúðina. Því sinnti hann í engu, heldur æstist upp við tilmælin, hafði í heitingum við lögreglumenn og veittist að einum þeirra með því að snúa upp á vinstri hönd hans. Við svo búið var áfrýjandi settur í lögreglutök en streittist mjög á móti og var í framhaldinu handjárnaður og fluttur með valdi út úr íbúðinni. Er fallist á með héraðsdómi að leggja verði vætti lögreglumanna til grundvallar um aðdraganda handtökunnar, ölvunarástand áfrýjanda og ofstopa hans umrætt sinn. Verður samkvæmt þessu við það að miða að handtaka áfrýjanda hafi í skilningi 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 verið nauðsynleg til þess að varna því að hann dveldi áfram í íbúð fyrrum eiginkonu sinnar að hennar óvilja. Er í þessu sambandi til þess að líta að ekki verður sá skilningur lagður í skýrslu B hjá ríkissaksóknara 28. apríl 2010, sem rakin er í hinum áfrýjaða dómi, að hún hafi á vettvangi fallið frá þeirri ósk að lögreglan fjarlægði áfrýjanda af heimili sínu.

II

Eins og áður greinir var áfrýjandi handtekinn klukkan 00.50 aðfaranótt föstudagsins 19. júní 2009 og fluttur á lögreglustöð. Er fallist á með héraðsdómi að lögreglu hafi í ljósi atvika verði bæði heimilt og rétt að færa áfrýjanda á lögreglustöð í stað þess að flytja hann til síns heima, enda lék samkvæmt því sem áður er rakið rökstuddur grunur á að hann hefði framið refsivert brot sem sætt gat ákæru, auk þess sem handtaka hans var nauðsynleg til að varna áframhaldandi broti og til að tryggja bæði öryggi hans sjálfs og fyrrum eiginkonu hans. Þegar á lögreglustöð kom var áfrýjandi færður fyrir varðstjóra sem mat það svo að ekki væri unnt að taka af honum skýrslu vegna ölvunar hans og staðfesta myndbandsupptökur réttmæti þess mats varðstjórans. Í framhaldinu tók hann þá ákvörðun að áfrýjandi skyldi vistaður í fangageymslu til að sofa úr sér áfengisvímuna og átti sú ákvörðun, eins og högum áfrýjanda var komið, sér stoð í þriðja málslið 94. gr. laga nr. 88/2008.  Er áfrýjandi skyldi færður til fangageymslu sýndi hann á nýjan leik af sér ofstopa í samskiptum við lögreglumenn og sneri upp á þumalfingur eins þeirra þannig að tognun hlaust af svo sem nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir fékk áfrýjandi að fara á salerni klukkan 03.08 og vegna erfiðleika við þvaglát var kallaður til læknir, sem mat það svo að rétt væri að áfrýjandi skyldi fluttur á sjúkrahús, og var það gert klukkan 04.23. Á sjúkrahúsið var áfrýjandi fluttur í lögreglubíl og fylgdi einn lögreglumaður honum til lækna. Greinir aðila á um hvort lögreglumaðurinn hafi yfirgefið sjúkrahúsið þegar eftir að áfrýjandi var kominn í umsjá lækna, eins og stefndi heldur fram, eða hvort lögreglumaðurinn hafi fylgst með áfrýjanda á sjúkrahúsinu í um það bil eina klukkustund, eins og áfrýjandi heldur fram. Stendur þar orð gegn orði og nýtur um þetta atriði ekki annarra gagna við í málinu. Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi skráði lögregla í vistunarskýrslu, þegar hún fékk vitneskju um að áfrýjandi hefði verið sendur heim að lokinni læknisrannsókn, að hann hafi verið látinn laus á þeim tíma, klukkan 17.38.

Þegar metið er hvort áfrýjandi hafi í framhaldi handtökunnar verið sviptur frelsi lengur en ástæða var til verður eins og atvikum málsins háttar að leggja til grundvallar frásögn hans fyrir dómi. Samkvæmt henni var áfrýjandi laus úr haldi lögreglu ekki síðar en klukkan 05.30, en þá var lögreglumaður sá er fylgdi honum á sjúkrahúsið farinn þaðan og hafði áfrýjandi eftir það tímamark ekkert tilefni til að líta sjálfur svo á að hann væri ekki frjáls ferða sinna.Verður samkvæmt þessu við það að miða að frelsissvipting áfrýjanda hafi ekki staðið lengur en efni stóðu til.

Samkvæmt fyrri málslið 2. mgr. 93. gr. laga nr. 88/2008 skal við handtöku forðast að valda hinum handtekna tjóni eða baka honum meiri óþægindi en nauðsyn krefur. Áður er rakinn aðdragandi þess að áfrýjandi var handtekinn, gerð grein fyrir ölvunarástandi hans og ofstopafullri framkomu og hver viðbrögðin urðu þegar lögregla bað hann um að klæða sig og yfirgefa heimili fyrrum eiginkonu sinnar. Er í því ljósi ekki unnt að fallast á með áfrýjanda að frelsissviptingin hafi verið framkvæmd á óþarflega særandi og meiðandi hátt. Þá er staðfest sú niðurstaða héraðsdóms  að ósannað sé að lögregla hafi beitt meira harðræði umrætt sinn en óhjákvæmilegt var. Er þá til þess litið að fram er komið í málinu, meðal annars í skýrslu B hjá ríkissaksóknara, að lögreglumenn virðast ekki hafa fellt áfrýjanda í gólfið áður en hann var handjárnaður, heldur hafi hann sjálfur látið sig falla.

III

Áfrýjandi heldur því fram að sér hafi verið synjað á ólögmætan hátt um lögmannsaðstoð þegar hann kom fyrir varðstjóra í kjölfar þess að hann var tekinn höndum. Á upptökum af því sem þá átti sér stað kemur fram að áfrýjandi hafi óskað eftir slíkri aðstoð í tvígang, en verið synjað um hana í bæði skiptin. Í fyrsta málslið 2. mgr. 28. gr. laga nr. 88/2008 er svo fyrir mælt að sakborningur sem handtekinn hefur verið í þágu rannsóknar máls eigi rétt á að hafa samband við lögmann þegar eftir handtöku. Markmið þessa ákvæðis er að tryggja að réttindi sakbornings sem sviptur hefur verið frelsi séu virt í hvívetna og hann fái svo fljótt sem kostur er tækifæri til að ráðgast við löglærðan mann um réttarstöðu sína. Samkvæmt því er það á valdi sakaðs manns, en ekki lögreglu, að ákveða hvort leitað skuli aðstoðar lögmanns þegar svo stendur á sem hér um ræðir. Þótt ekki sé unnt að taka formlega skýrslu af handteknum manni vegna þess að hann er undir áhrifum áfengis, sbr. þriðja málslið 94. gr. sömu laga, skerðir það ekki skýlausan rétt hans eftir fyrrgreindu ákvæði 28. gr. laganna til að leita sér lögmannsaðstoðar kjósi hann það. Á hinn bóginn verður að skýra ákvæðið svo að við þær aðstæður geti lögreglu verið rétt að synja sakborningi um að hafa sjálfur samband við lögmann, en bjóða honum að gera það þess í stað fyrir hann, enda sé þá orðið við þeirri ósk án tafar. Að þessu virtu var brotið gegn lögvörðum rétti áfrýjanda umrætt sinn þegar honum var ítrekað synjað um aðstoð lögmanns.

IV

Áfrýjandi sætti ekki ákæru vegna þeirra atburða er leiddu til handtöku hans og var mál hans fellt niður í skilningi 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt sömu lagagrein á maður sem borinn hefur verið sökum í sakamáli rétt til bóta samkvæmt 2. mgr. hennar ef mál hans hefur verið fellt niður. Þar kemur fram að dæma skuli bætur vegna aðgerða samkvæmt IX. til XIV. kafla laganna, ef skilyrði 1. mgr. 228. gr. eru fyrir hendi, en fella má niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á. Áður er komist að þeirri niðurstöðu að fullt tilefni hafi verið til að handtaka áfrýjanda umrætt sinn og að handtakan hafi verið nauðsynleg. Þegar það er virt þykir áfrýjandi sjálfur hafa í skilningi síðari málsliðar 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á og eins og atvikum háttar fyrirgert rétti til bóta samkvæmt 1. mgr. sömu lagagreinar. Verður samkvæmt þessu staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að sýkna beri stefnda af kröfu áfrýjanda um miskabætur vegna handtökunnar og þeirrar frelsissviptingar sem hann sætti í framhaldinu.

Eins og áður greinir var áfrýjanda ítrekað synjað um aðstoð lögmanns eftir að hann var leiddur fyrir varðstjóra á lögreglustöð. Með því var virtur að vettugi skýlaus réttur hans samkvæmt fyrsta málslið 2. mgr. 28. gr. laga nr. 88/2008 og er það ámælisvert. Eins og atvikum var háttað verður þó ekki séð að áfrýjandi hafi orðið fyrir réttarspjöllum af þessum sökum. Eru samkvæmt því ekki skilyrði til að dæma áfrýjanda miskabætur af þessu tilefni eins og hann krefst, hvorki á grundvelli 228. gr. laga nr. 88/2008 né samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Samkvæmt öllu því er að framan greinir verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður hvor aðili látinn bera sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var 23. maí 2012, er höfðað af A, [...], [...], á hendur íslenska ríkinu með stefnu áritaðri um birtingu 16. maí 2011.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 2.000.000 króna, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. júní 2009 til 8. desember 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati réttarins, eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Stefndi gerir þær kröfur aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að mati réttarins.

Til vara krefst stefndi þess að stefnukrafan verði lækkuð verulega og að málskostnaður verði felldur niður.

Með bréfi innanríkisráðuneytisins, dagsettu 28. febrúar 2011, var stefnanda veitt gjafsókn við rekstur málsins fyrir héraðsdómi.

I.

Stefnandi lýsir málavöxtum á þann veg að 18. júní 2009 hafi hann verið staddur á heimili fyrrverandi eiginkonu sinnar, B, að [...] í Reykjavík. Rétt fyrir miðnætti hafi komið til nokkurs orðaskaks á milli hans og B, sem hafi endað á þann veg að hún hafi haft samband við lögreglu. Í kjölfarið hafi fimm lögreglumenn komið á staðinn þar sem stefnandi hafi þá setið á nærbuxunum einum fata í eldhúsi. Hafi lögreglumennirnir ráðist fyrirvaralaust á stefnanda, sem þá var tæpra 67 ára og 75% öryrki, skellt honum með látum í gólfið, tekið hann tökum og handjárnað fyrir aftan bak. Aðfarir lögreglu við handtökuna hafi verið harkalegar og hafi stefnandi hlotið högg í andlit, höfuð, búk og kynfæri. Samkvæmt skýrslu lögreglu hafi stefnandi verið handtekinn kl. 00.50 greinda nótt. Stefnandi hafi því næst verið fluttur á nærbuxunum einum fata í gegnum sameign fjölbýlishússins og út á bílastæði þess. Þaðan hafi hann verið fluttur í lögreglubifreið á lögreglustöðina við Hverfisgötu í Reykjavík þar sem hann hafi verið færður fyrir varðstjóra, sem eftir stutt samtal við stefnanda hafi fyrirskipað að hann skyldi vistaður í fangageymslu. Stefnanda hafi auk þess verið neitað um lögmannsaðstoð, þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar að lútandi.

Eftir stuttu dvöl í fangageymslu hafi stefnandi þurft að hafa þvaglát og hafi honum verið hleypt á salerni í því skyni. Vegna áverka á þvagfærum, sem rekja megi til aðgerða lögreglu fyrr um nóttina, hafi stefnanda reynst ókleift að hafa þvaglát. Af því tilefni hafi stefnandi verið skoðaður af lækni, sem í kjölfarið hafi látið flytja hann á sjúkrahús þar sem settur hafi verið upp þvagleggur í þeim tilgangi að hann gæti komið frá sér þvagi.

Stefnandi kveðst enn hafa verið í haldi lögreglu meðan á dvöl hans á sjúkrahúsinu stóð og undir stöðugu eftirliti hennar. Hafi hann ekki verið látinn laus úr haldi lögreglu fyrr en klukkan17.38 hinn 19. júní 2009, líkt og ráða megi af skýrslu lögreglu, og hafi hann því verið sviptur frelsi sínu í 16 klukkustundir og 48 mínútur.

Stefnandi kveðst hafa verið 75% öryrki áður en umrædd atvik hafi átt sér stað. Hafi hann ekki náð fyrri heilsu aftur og sé enn í meðferð hjá læknum vegna áverka sem hann hafi hlotið við aðfarir lögreglu. Þannig hafi stefnanda verið ómögulegt að hafa þvaglát nema að nota þvaglegg, auk þess sem hann eigi við eymsli að stríða, einkum í baki og hné. Þá hafi andlegri heilsu hans hrakað til muna eftir umræddan atburð og hann glími við aukinn kvíða og depurð.

Stefndi mótmælir málavaxtalýsingu stefnanda þar sem hún sé í ósamræmi við það sem stefndi haldi fram í málinu. Mótmælir stefndi því, að lögreglumenn hafi ráðist fyrirvaralaust á stefnanda og skellt honum með látum í gólfið sem og að aðfarir lögreglu hafi verið harkalegar og að stefnandi sé illa á sig kominn vegna þeirra. Jafnframt sé því mótmælt að hann hafi hlotið þau högg sem lýst sé í stefnu. Ósannað sé að stefnandi hafi verið dreginn á nærbuxunum einum fata í gegnum sameign og út á bílastæði en hins vegar hafi stefnandi ítrekað neitað að verða við tilmælum lögreglu um að klæða sig. Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi hlotið áverka á þvagfærum við aðgerðir lögreglu og að stefnandi hafi verið enn í haldi lögreglu á meðan á sjúkrahúsdvöl hans stóð og þar af leiðandi frelsissviptur í tæpar 17 klukkustundir. Þá sé ósannað að versnandi heilsu stefnanda megi rekja til umræddrar handtöku.

Lögregla hafi verið kölluð að heimili B umrætt sinn og hafi hún óskað eftir aðstoð vegna gests á heimili hennar. Hafi viðbúnaður lögreglu verið í samræmi við tilkynninguna. Þegar lögregla hafi komið á staðinn, hafi konan verið í miklu uppnámi og sagt að inni væri maður, stefnandi máls þessa, sem væri ölvaður og hefði lagt á hana hendur. Aðspurð hafi hún ekki viljað leggja fram kæru vegna líkamsárásar á hendur stefnanda en hafi viljað að honum yrði vísað út.

Í lögregluskýrslu sé aðkomu lýst þannig að þegar lögregla hafi gengið inn í íbúðina hafi stefnandi komið á nærbuxunum einum fata á móti henni og hafi hann augsýnilega verið ölvaður. Lögregla hafi innt stefnanda eftir nafni og kennitölu en hann hafi neitað að gefa þær upplýsingar. Stefnandi hafi verið beðinn um að fara í föt áður en hann ræddi við lögreglu en það hafi hann ekki viljað gera, heldur sest niður í eldhúsi íbúðarinnar. Lögregla hafi útskýrt fyrir honum að húsráðandi hafi viljað hann út hið fyrsta og ítrekuð hafi verið beiðni um að klæðast. Hafi stefnandi þá tekið síma sinn og farið að hringja. Lögregla hafi án árangurs beðið hann um að hætta að tala í símann. Eftir að símtali hans var lokið, hafi hann aftur verið beðinn um að yfirgefa íbúðina. Í lögregluskýrslu segi, að stefnandi hafi við þetta orðið æstari í skapi og hegðun, auk þess sem hann hafi ógnað einum lögreglumanninum. Þá hafi stefnandi sest aftur og ætlað sér að hringja á nýjan leik. Þá hafi lögregla gengið að honum og skipað honum að leggja frá sér símann. Við það hafi stefnandi gripið í vinstri hönd lögreglumannsins C og snúið upp á hana. Hafi stefnandi þá verið tekinn í lögreglutök, honum skipað að leggjast á gólfið og hann hafi síðan verið handtekinn. Stefnandi hafi neitað að leggjast á gólfið og hafi streist á móti við handtökuna. Hafi lögregla loks náð að setja á hann handjárn en sökum þess hversu stórvaxinn stefnandi er, hafi lögregla tengt tvö handjárn á hann til þess að spenna hendur hans ekki óþarflega mikið. Hafi stefnandi verið æstur og barist um og hafi lögregla auk þess þurft að kalla eftir aðstoð annarra lögreglumanna til að koma stefnanda út í lögreglubifreið.

Á lögreglustöð hafi stefnandi verið færður fyrir varðstjóra og honum hafi þar verið kynnt upplýsingablað dóms- og kirkjumálaráðuneytisins fyrir handtekinn mann, sem stefnandi hafi ekki getað lesið vegna ölvunar. Varðstjóri hafi síðan ákveðið að stefnandi skyldi gista fangageymslu sökum ástands síns. Stefnandi hafi neitað að koma með lögreglu í fangageymslu. Þegar C lögreglumaður hafi ætlað að færa stefnanda þangað, hafi hann gripið í þumalfingur hægri handar lögreglumannsins og snúið upp á hann. Hafi lögreglumaðurinn náð að losa sig með því að grípa um bringu stefnanda og þrýsta honum upp að vegg. Komið hafi í ljós við læknisskoðun að lögreglumaðurinn tognaði á fingrinum.

Stefndi kveður það fyrst og fremst hafa verið ölvunarástand stefnanda sem hafi leitt til þess að hann var fjarlægður með valdi og færður í fangageymslu. Af hálfu lögreglu hafi staðið til að aðstoða Gerði með því að vísa manninum út og láta við svo búið standa. Viðbrögð hans og hegðun, sem hafi verið einkennandi fyrir ölvaðan mann, hafi orðið til þess að afráðið var að flytja stefnanda heldur á lögreglustöð. Hann hafi verið beittur hefðbundnum lögreglutökum og þau óverulegu átök, sem hafi orðið, séu rakin til þess að hann hafi sýnt lögreglumönnum ógnandi framkomu. Eftir nokkra dvöl í fangageymslu hafi stefnandi borið fram kvartanir og hafi skömmu síðar verið fluttur á spítala, eða um kl. 04.23, þar sem hann hafi dvalið fram eftir degi. Stefnandi hafi ekki komið til baka á lögreglustöð heldur skráður laus um kl. 17.38 sama dag.

II.

Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að handtaka hans umrætt sinn og áframhaldandi frelsissvipting hafi verið ólögmæt og að framkvæmd hennar hafi þar að auki verið bæði óþarflega harkaleg og meiðandi í sinn garð. Hvorki hafi verið tilefni né nauðsyn til að handtaka hann greint sinn og því hafi brostið lögmæt skilyrði til handtökunnar, sbr. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Þá hafi frelsissviptingin staðið mun lengur en efni stóðu til og þörf hafi verið á. Enn fremur hafi framkvæmd handtökunnar verið með þeim hætti að hann eigi eftir sem áður rétt til bóta, með vísan til XXXVII. kafla laga nr. 88/2008 og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, jafnvel þótt tilefni og nauðsyn hafi staðið til handtökunnar og hún teljist ekki hafa staðið lengur en nauðsyn krafði. Með bréfi til ríkislögmanns, dagsettu 8. nóvember 2010, hafi stefnandi gert kröfu um að honum yrðu greiddar bætur úr hendi íslenska ríkisins vegna áðurnefndra aðgerða lögreglu en þeirri kröfu hafi verið hafnað með bréfi ríkislögmanns, dagsettu 3. janúar 2011.

Samkvæmt 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 sé lögreglu rétt að handtaka mann ef rökstuddur grunur leikur á að hann hafi framið brot sem sætt geti ákæru, enda sé handtakan nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot, til að tryggja návist hans eða öryggi hans eða annarra ellegar til að koma í veg fyrir að hann spilli sönnunargögnum. Stefnandi byggir á því að skilyrði greinarinnar hafi ekki verið uppfyllt þegar stefnandi hafi verið handtekinn á heimili fyrrverandi eiginkonu sinnar aðfaranótt 19. júní. Hafi handtakan verið tilefnislaus með öllu, enda hafi ekkert bent til þess að stefnandi hafi brotið af sér gagnvart henni eða að hann væri líklegur til þess gera það.

Stefnandi bendir á að B hafi hringt í lögreglu eftir að til orðaskaks hefði komið milli hennar og stefnanda. Hvorki hafi brotist út áflog milli þeirra né hafi stefnandi gefið henni tilefni til þess að halda að hætta hafi stafað af honum. Gögn málsins beri ekki með sér að stefnandi hafi lagt hendur á B eða haft upp hótanir um slíkt ofbeldi. Þessu til stuðnings bendir stefnandi á að þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi B neitað að leggja fram kæru á hendur honum. Þá hafi hún beðið lögreglumenn að hafa sig hæga og sleppa stefnanda þegar hann hafi verið, með mikilli hörku, snúinn niður og settur í handjárn. Stefnandi telji erfitt að túlka þess afstöðu B þannig að henni hafi stafað ógn af honum. Ljóst sé að fyrir lögreglu hafi ekki legið neinar vísbendingar um að háttsemi stefnanda gæti varðað við verknaðarlýsingu í lögum sem teldist refsinæm.

Stefnandi vísar til þess að stefnandi hafi verið hinn rólegasti þegar lögreglu hafi borið að garði að heimili B. Jafnvel þó stefnandi hafi verið lítillega drukkinn, hafi ekkert í fari hans eða öðrum aðstæðum á heimilinu bent til þess að hann hafi framið brot gegn ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eða annarra laga eða hafi haft uppi hótanir um að fremja slík brot. Af skýrslu lögreglu virðist ljóst að engar athugasemdir hafi verið gerðar við aðkomuna á heimilinu eða ástand B. Þar af leiðandi verði að telja með ólíkindum að lögreglan hafi ákveðið að handtaka stefnanda og færa hann á lögreglustöð greint sinn.

Af hálfu stefnanda sé vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 67. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands megi engan svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum. Sú meginregla sé áréttuð í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Stefnandi telji að í ljósi þeirra grundvallarréttinda, sem borgurunum séu tryggð í framangreindum ákvæðum, verði að skýra allar heimildir lögreglu til handtöku þröngt og gera þurfi skýrar kröfur til þess að fyrir liggi rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi, sbr. 90. gr. laga nr. 88/2008. Handtaka feli enda í sér slíkt inngrip í stjórnarskrárvernduð mannréttindi einstaklinga að mikið þurfi að koma til svo að þeir verði sviptir frelsi sínu að tilstuðlan lögreglu.

Með vísan til framangreinds byggi stefnandi á því að ekki hafi legið fyrir rökstuddur grunur í skilningi 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 um ætlaða refsiverða háttsemi stefnanda þegar hann var handtekinn. Hafi handtakan því verið ólögmæt og eigi stefnandi því rétt á bótum, sbr. 228. gr. sömu laga, 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar og 5. mgr. 5. gr. laga nr. 62/1994.

Stefnandi vekur athygli á því að samkvæmt lögregluskýrslu hafi ástæða handtökunnar verið sögð sú, að koma í veg fyrir áframhaldandi brot. Engin ákæra hafi þó verið gefin út vegna meints brots stefnanda og því sé ekki ljóst hvaða eða hvers konar brot lögregla hugðist koma í veg fyrir með handtöku hans. Þá virðist rannsókn á ætluðu broti stefnanda ekki hafa verið hafin við handtöku hans eða eftir hana. Hafi stefnandi aldrei verið yfirheyrður um þau ætluðu brot sem hann átti að hafa framið á heimili B. Sé því ekki unnt að líta öðruvísi á en að lögregla hafi ekki talið tilefni til rannsóknar eða í öllu falli að ekki hafi komið fram nægilegar sannanir fyrir því að stefnandi hafi framið refsivert brot greint sinn. Verði því að líta svo á að málið hafi verið fellt niður, sbr. 228. gr. laga nr. 88/2008, og að stefnandi eigi því rétt á bótum vegna handtökunnar.

Stefndi gerir athugasemdir við fullyrðingar í bréfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettu 25. nóvember 2009. Í bréfinu sé vísað til þess að handtaka stefnanda og vistun í fangageymslu „hafi verið nauðsynleg, m.a. i þágu rannsóknar á ætluðu broti hans gagnvart lögreglumönnum.“ Þá komi þar fram að „hefð sé fyrir því að ofurölvi menn sem ekki sé unnt að tjónka við séu látnir sofa úr sér í fangageymslu, ekki síst ef þeir eru jafnframt kærðir fyrir brot eins og í þessu tilviki“. Með tilvitnuðum ummælum sé að öllum líkindum vísað til staðhæfinga í lögregluskýrslu um að stefnandi hafi gripið í þumalfingur hægri handar lögreglumanns og snúið upp á fingur hans þegar hann hafi verið færður í fangageymslu.

Stefnandi hafnar framangreindum fullyrðum með öllu. Um sé að ræða einhliða staðhæfingar í lögregluskýrslu sem ekki hafi verið staðreyndar. Jafnvel þótt talið yrði að hann hafi beitt lögreglumanninn ofbeldi, hefði það átt sér stað löngu eftir að stefnandi var handtekinn og færður á lögreglustöð. Þannig verði af lögregluskýrslu ráðið að hið ætlaða ofbeldi stefnanda gegn lögreglu hafi fyrst átt sér stað þegar færa átti hann til fangageymslu síðar um nóttina og þá eftir að honum hafði verið synjað um lögbundna aðstoð lögmanns. Í ljósi þessa telji stefnandi að fullyrðingar í bréfinu um að handtaka hans hafi verið nauðsynleg í þágu rannsóknar á ætluðu broti gagnvart lögreglumönnum, sem hafi átt að eiga sér stað eftir handtöku stefnanda, séu með öllu órökstuddar. Ætluð rannsókn á ætluðu broti gegn lögreglu tengist því í engu handtöku og frelsissviptingu stefnanda og geti því ekki haft áhrif á mat á því hvort aðgerðir lögreglu aðfararnótt 19. júní 2009 hafi verið lögmætar. Því næst bendi stefnandi á að kæra lögreglumanns, sem taldi á sér brotið, hafi verið lögð fram kl. 06.24 umrædda nótt. Athafnir lögreglu á öðrum stað og af öðru tilefni fyrr sömu nótt verði því ekki réttlætanlegar með vísan til umræddrar kæru líkt og gert sé í bréfi lögreglustjórans. Stefnandi byggi auk þess á því að ólögmæt handtaka og frelsissvipting í tæpar 17 klukkustundir verði á engan hátt réttlætt með því að „hefð sé fyrir því að ofurölvi menn sem ekki sé unnt að tjónka við séu látnir sofa úr sér í fangageymslu“ eins og komi fram í bréfi lögreglustjórans. Sjónarmið um venju í þessum efnum geti ekki vikið til hliðar skýrum fyrirmælum 67. gr. stjórnarskrárinnar, 5. gr. laga nr. 62/1994 og 90. gr. laga nr. 88/2008.

Ekkert sé komið fram í málinu sem styðji það að stefnandi hafi verið ofurölvi og þá verði ekki séð að áfengismagn hafi verið mælt í blóði stefnanda eða lofti. Við mat á öðrum gögnum málsins, þar á meðal myndbandsupptökum á lögreglustöð, verði að hafa í huga að um sé að ræða roskinn mann í miklu andlegu áfalli eftir harkalegar aðgerðir lögreglu.

Með vísan til alls framangreinds geti stefndi ekki byggt á því að handtaka stefnanda hafi verið nauðsynleg vegna rannsóknar á síðar ætluðu broti hans gagnvart lögreglu. Þá vísar stefnandi á bug tilvísunum í umræddu bréfi lögreglustjórans, sem og bréfi ríkislögmanns, í ákvæði 14. og 16. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Athafnir lögreglu umrætt kvöld verði með engu móti réttlættar með vísan til hinnar almennu handtökuheimildar lögreglu. Sé ljóst að enginn af þeim töluliðum, sem taldir séu upp í 16. gr. laganna, geti átt við í máli stefnanda.

Verði talið að nægjanlegt tilefni hafi verið til handtökunnar umrætt sinn, byggir stefnandi á því að handtakan hafi í öllu falli ekki verið nauðsynleg eins og á stóð, svo sem áskilið sé í 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt nefndu ákvæði sé ekki eingöngu áskilið að uppi sé rökstuddur grunur um að framið hafi verið brot, sem sætt geti ákæru, heldur sé það líka gert að skilyrði að handtaka teljist nauðsynleg til að tryggja þá hagsmuni sem upp séu taldir í ákvæðinu. Stefndi haldi því fram að handtaka stefnanda hafi verið nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot. Stefnandi telji hins vegar að ekki sé hægt að réttlæta handtöku hans með þeim rökum að hún hafi verið nauðsynleg. Ekkert hafi bent til þess að stefnandi hefði framið refsivert brot og því síður að hann hefði verið líklegur til þess að fremja slíkt brot. Jafnvel þótt lögregla hefði talið nauðsynlegt að koma stefnanda út úr íbúð B, hafi ekki verið nauðsynlegt að handtaka hann og færa á lögreglustöð. Verði heldur ekki séð að lögregla hafi gert raunverulegar tilraunir til þess að tala stefnanda til eða koma honum út án ofbeldis. Af hálfu lögreglu hafi hvorki verið sýnt fram á að ekki hafi verið unnt að beita öðrum vægari úrræðum við að koma stefnanda í burtu né að nauðsyn hafi borið til að ráðast þyrfti fyrirvaralaust á stefnanda með jafn harkalegum hætti og raunin var. Því síður hafi verið sýnt fram á að nauðsynlegt hafi verið að flytja stefnanda á lögreglustöð og vista hann í fangageymslu í stað þess að aka honum heim til sín eða gera aðrar ráðstafanir í þeim efnum. 

Stefnandi leggur í þessu sambandi áherslu á að þegar um sé að ræða jafn harkalega og íþyngjandi skerðingu á mannréttindum einstaklinga og frelsissvipting sé, verði lögregla að gæta þess að beita þeim heimildum, sem henni séu fengnar í því skyni, af varkárni og einungis þegar ýtrustu nauðsyn beri til. Þá beri ekki að beita slíkum heimildum nema á grundvelli málefnalegra sjónarmiða og að gættu meðalhófi, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, 2. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 2. mgr. 16. gr. laga nr. 90/1996 og 3. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt fyrrgreindu megi vera ljóst að lögregla hafi ekki beitt því úrræði sem vægast hafi verið til að ná því markmiði sem stefnt hafi verið að greint sinn. Stefnandi bendi á að jafnvel þótt talið yrði að handtakan hafi verið nauðsynleg hafi frelsissvipting hans í tæpar 17 klukkustundir verið ónauðsynleg. Með háttsemi sinni hafi lögreglan brotið þessa meginreglu um meðalhóf í aðgerðum lögreglu. Stefnandi telji sig því eiga rétt á bótum sökum þessa, sbr. 228. gr. laga nr. 88/2008.

Stefnandi byggir á því að ef talið verði að tilefni og nauðsyn hafi staðið til að svipta stefnanda frelsi hafi frelsissviptingin varað mun lengur en efni stóðu til. Stefnandi veki athygli á því að hann hafi verið handtekinn kl. 00.50 aðfararnótt 19. júní 2009 og í kjölfarið færður á lögreglustöð. Honum hafi þó ekki verið sleppt lausum fyrr en kl. 17.38 sama dag eða tæpum 17 klukkustundum eftir að hann var handtekinn, eins og skýrlega komi fram í lögregluskýrslu um vistun stefnanda. Sé ekki við önnur gögn að miða þótt lögregla vilji nú meina að frelsissvipting stefnanda hafi varað mun skemur en fram komi í skýrslunni. Breyti hér engu þótt stefnandi hafi vegna áverka, sem hann hlaut af völdum lögreglu, legið á sjúkrahúsi stóran hluta þess tíma sem frelsissvipting hans stóð yfir. Hann hafi eftir sem áður verið sviptur frelsi sínu og verið í vörslu lögreglu og á ábyrgð hennar á sjúkrahúsinu. Engar fullnægjandi skýringar hafi komið fram af hálfu lögreglu um hver nauðsyn hafi verið á frelsissviptingu stefnanda allan þennan tíma.

Stefnandi byggir á því að tímabært hafi verið að láta hann lausan um leið og hann var færður út úr íbúð B. Hefði lögregla þá getað ekið stefnanda heim eða gert aðrar ráðstafanir til að koma honum þangað. Verði ekki fallist á þessa málsástæðu stefnanda, telji hann að það hafi átt að leysa hann úr haldi eftir komu á lögreglustöð, enda hafi frekari frelsissvipting hans ekki verið réttlætt með því að þörf hafi verið á að hann svæfi úr sér ætlaða ölvunarvímu. Jafnvel þótt talið yrði að stefnandi hafi brotið gegn lögreglu, sé þess að geta að ætlað brot hafi átt sér stað eftir að ákvörðun var tekin um vistun stefnanda í fangageymslum. Þá hafi kæra vegna ætlaðs brots stefnanda ekki verið lögð fram fyrr en kl. 06.24 sömu nótt. Í öllu falli hafi meintir rannsóknarhagsmunir vegna ætlaðs brots ekki getað leitt til þess vista hefði þurft stefnanda í fangageymslum og alls ekki svo lengi sem raun bar vitni. Nærvera stefnanda hafi á engan hátt verið nauðsynleg til þess að varpa skýrara ljósi á málsatvik, enda hafi meint brot stefnanda gagnvart lögreglu verið til á myndbandsupptöku lögreglu.

Stefnandi byggir á því að veita hafi átt honum frelsi þegar hann var færður á sjúkrahús til læknismeðferðar vegna áverka af völdum lögreglu. Af lögregluskýrslu megi ráða að stefnandi hafi verið fluttur á sjúkrahús kl. 04.23 og hafi ekki verið sýnt fram á að nauðsynlegt hafi verið að stefnandi yrði áfram sviptur frelsi sínu eftir að hann yfirgaf lögreglustöðina og hvaða ástæður hafi búið þar að baki. Jafnvel þótt réttmætt ástæða hefði verið til þess að hann yrði áfram frelsissviptur eftir komu sína á sjúkrahús, hafi sú frelsissvipting varað mun lengur en rök voru fyrir. Lögregla hafi ekki sýnt fram á það, hvaða hagsmunir hafi búið að baki ákvörðuninni.

Stefnandi byggir jafnframt á því að handtaka hans og frelsisskerðing hafi verið framkvæmd með óþarflega særandi og móðgandi hætti. Ráðist hafi verið fyrirvaralaust að honum þar sem hann sat á nærbuxunum einum fata í eldhúsi fyrrverandi eiginkonu sinnar. Stefnandi hafi í engu mátt búast við það að ráðist yrði að honum með svo harkalegum hætti og hann hafi við aðfarir lögreglu fallið í gólfið og hlotið högg á höfuð, búk og kynfæri og hafi æ síðan þurft að nota þvaglegg. Þá eigi stefnandi með veruleg eymsli í baki og hné að stríða eftir meðferð lögreglu þessa nótt, auk þess sem kvíðaröskun hans hafi aukist til muna. Lögreglumennirnir fimm, sem kallaðir höfðu verið til umrædda nótt, hafi farið offari og sýnt af sér slíkan ruddaskap að sjálfsvirðing hans hafi beðið alvarlegan hnekki. Stefnandi hafi verið handjárnaður og færður með ofbeldi um sameign og bílastæði fjölbýlishússins á nærbuxunum og þá hefði hann verið látinn liggja hálfber á gólfi lögreglubifreiðar og færður svo búinn fyrir varðstjóra. Lögregla hafi í engu sýnt fram á að ekki hafi verið unnt að færa stefnanda í buxur eða hylja með öðrum hætti nekt hans. Verði því ekki séð að þörf hafi verið á slíku harðræði við handtökuna. Eigi stefnandi þar af leiðandi rétt á bótum af því tilefni, sbr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Verði ekki fallist á rétt stefnanda á þessum grundvelli, byggir stefnandi á því að sú meðferð, sem hann sætti af hálfu lögreglu, feli í sér ólögmæta meingerð gegn frelsi hans, friði, æru og persónu, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Eigi hann rétt til bóta af þeim sökum.

Stefnandi byggir auk þess á því að lögregla hafi gengið þvert á lögbundin mannréttindi hans með því að neita honum um lögmannsaðstoð þegar hann hafði verið handtekinn. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 88/2008 eigi sakborningur, sem handtekinn hefur verið í þágu rannsóknar máls, rétt á að hafa samband við lögmann þegar eftir handtöku. Sé almennt litið svo á að meðal mikilvægustu réttinda sakborninga sé að njóta aðstoðar verjanda og að skylda lögreglu um að verða við slíkri ósk sakbornings sé skýr og skilyrðislaus. Þrátt fyrir þetta hafi stefnanda ítrekað verið neitað um aðstoð lögmanns umrætt kvöld, þótt hann hafi haft uppi eindregnar óskir þess efnis. Hafi lögregla með þessari háttsemi sinni farið á svig við fyrrnefnt ákvæði sem og skýr fyrirmæli c-liðar 3. mgr. 6. gr. laga nr. 62/1994 og eigi hann því sjálfstæðan rétt til bóta vegna þessa á grundvelli 228. gr. laga nr. 88/2008. Verði ekki fallist á það, sé á því byggt að ólögmæt synjun lögreglu á lögbundnum rétti stefnanda til aðstoðar lögmanns hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn frelsi hans, friði, æru og persónu. Sé það mat stefnanda að hann eigi rétt til bóta af þeim sökum.

Til stuðnings bótakröfum sínum vísar stefnandi til XXXVII. kafla laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, einkum 228. gr. Þá vísar hann til 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 33/1944, og til 5. mgr. 5. gr. laga nr. 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu.

Um skilyrði fyrir handtöku vísar stefnandi til XIII. kafla laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála og þá einkum 90. gr. þeirra. Þá byggir stefnandi einnig á ákvæðum 67. gr. stjórnarskrárinnar og 5. gr. laga nr. 62/1994. Stefnandi vísar jafnframt til 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, 3. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008, lögreglulaga nr. 90/1996, einkum 13., 14., og 16. gr. Jafnframt er vísað til almennu sakarreglunnar, svo og b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Krafa stefnanda um vexti er byggð á 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og krafa um dráttarvexti á 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og kröfu um virðisaukaskatt við ákvæði laga nr. 50/1988. Um varnarþing vísast til 3. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991.

III.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að tilefni hafi verið til handtöku stefnanda aðfararnótt 19. júní 2009 og að skilyrði 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 hafi verið uppfyllt.

Stefndi mótmælir fullyrðingum stefnanda um afstöðu B, fyrrverandi eiginkonu hans og húsráðanda að [...] í Reykjavík. Í lögregluskýrslu komi fram að kona hafi hringt í fjarskiptamiðstöð vegna manns sem hafi verið gestkomandi hjá henni. Konan hafi sagt manninn vera ölvaðan og að hann hefði lagt á hana hendur. Þegar lögregla hefði komið þangað, hafi konan verið í miklu uppnámi en  hún hafi ekki viljað leggja fram kæru vegna líkamsárásar, heldur beðið lögreglu um að vísa stefnanda út. Lögregla hafi lýst því svo í þessari skýrslu, að stefnandi hafi augsýnilega verið töluvert ölvaður. Í framburðarskýrslu B hjá ríkissaksóknara komi meðal annars fram að hún hafi sagt við lögreglumennina: „ekki fara illa með hann, látið hann vera.“ Hún hafi síðan lýst því að stefnandi hafi látið sig detta út á hlið og í gólfið en að lögregla hafi ekki skellt honum í gólfið.

Stefndi mótmælir fullyrðingu stefnanda um að þegar lögreglumenn hafi komið að heimili B, hafi stefnandi verið hinn rólegasti og einungis lítillega drukkinn. Sú lýsing sé ekki í samræmi við gögn málsins og vísar stefndi til tilefnis þess að B hringdi á lögreglu. Fyrir liggi skýrslur lögreglu um ástand stefnanda og vísar stefndi til þess að stefnandi hafi verið ófær um að lesa upplýsingar fyrir handtekna menn sökum ástands. Þá sé ástandi hans jafnframt lýst í vistunarskýrslu lögreglu. Auk þess sé lýsing stefnanda á eigin ástandi í ósamræmi við upptökur úr eftirlitsmyndavélum á lögreglustöð umrædda nótt. Loks sé í læknabréfi lýst að stefnandi hafi verið vel drukkinn og að erfitt hafi verið að meta hann neurologiskt vegna ölvunar.

Stefndi mótmælir tilvísun stefnanda til 67. gr. stjórnarskrárinnar og 5. gr. laga nr. 62/1994, enda hafi umræddar aðgerðir lögreglu hvorki farið í bága við stjórnarskrá, lög né aðrar réttarheimildir.

Stefndi mótmælir þeim málatilbúnaði stefnanda að ekki hafi legið fyrir rökstuddur grunur í skilningi 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 og því hafi handtaka stefnanda verið ólögmæt. Stefndi byggir á því að handtakan hafi verið lögmæt og eðlileg sem og að fyrirhuguð vistun stefnanda í fangageymslu hafi verið nauðsynleg, meðal annars í þágu rannsóknar á ætluðu broti hans gegn lögreglu. Sé vísað í því sambandi til 15. og 16. gr. laga nr. 90/1996 og til almennu handtökuheimildarinnar í 90. gr. laga nr. 88/2008. Þá vekur stefndi athygli á því að áratugahefð sé fyrir því að ofurölvi menn, sem ekki sé unnt að tjónka við og hlýði ekki fyrirmælum lögreglu og séu auk þess hættulegir sjálfum sér, séu látnir sofa úr sér í fangageymslum, ekki síst ef þeir eru jafnframt kærðir fyrir brot eins og í þessu tilviki.

Lögmæti handtöku og framkvæmd hennar hafi verið til rannsóknar hjá ríkissaksóknara í framhaldi af kæru stefnanda, sbr. 35. gr. laga nr. 90/1996, og hafi ríkissaksóknari með bréfi, dagsettu 13. ágúst 2010, ákveðið að rannsókninni skyldi hætt og málið fellt niður þar sem grunur væri um refsiverða hegðun viðkomandi lögreglumanna.

Stefndi vísar til þess að stefnandi hafi fundið að því að hann hafi verið í haldi lögreglu langt fram eftir degi hinn 19. júní 2009, án tilefnis, og telji það lið í meintu harðræði lögreglu gagnvart honum. Samkvæmt gögnum málsins hafi stefnandi verið handtekinn rétt fyrir kl. 01.00 um nóttina og færður í fangageymslu. Hann hafi farið á salernið kl. 03.08 og kl. 03.38 hafi verið kallaður til læknir. Læknirinn hafi komið á lögreglustöð kl. 04.05 og kl. 04.23 hafi stefnandi verið fluttur á sjúkrahús. Þar hafi hann verið fram eftir degi og hafi verið útskrifaður þaðan seinni hluta dags. Hafi stefnandi þá farið til síns heima og þegar lögreglan hafi fengið fregnir af því, hafi hann verið skráður laus kl. 17.38. Stefnandi hafi því verið í haldi lögreglu frá um kl. 01.00 til kl. 04.30 eða í þrjár og hálfa klukkustund. Þar af leiðandi sé því mótmælt að stefnandi hafi verið í haldi lögreglu í 17 klukkustundir umræddan dag.

Stefndi mótmælir fullyrðingum stefnanda um að handtakan hafi verið ónauðsynleg. Stefndi byggir á því að handtaka og þær þvingunarráðstafanir sem stefnandi hafi verið beittur hafi verið fyllilega lögmætar og í samræmi við 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 og 16. gr. laga nr. 90/1996 sem og aðrar réttarheimildir. Stefnandi vísi í stefnu til 12. gr. stjórnsýslulaga; 13., 14., og 16. gr. laga nr. 90/1996 og 53. gr. laga nr. 88/2008 en lögregla hafi ekki brotið gegn þessum ákvæðum greint sinn.

Stefndi mótmælir fullyrðingum í stefnu um að ekki verði séð að lögregla hafi gert raunverulegar tilraunir til að tala stefnanda til og að lögregla hafi beitt stefnanda ofbeldi við handtökuna. Þá sé rangt að stefnandi hafi verið haldi lögreglu í tæpar 17 klukkustundir eins og stefnandi haldi fram. Stefndi mótmælir því einnig, að tímabært hafi verið að láta stefnanda lausan eftir að hann hafði verið færður úr íbúð B.

Því sé mótmælt að frelsisskerðing stefnanda hafi verið framkvæmd á særandi eða móðgandi hátt og þá sé lýsingu stefnanda í stefnu að þessu leyti mótmælt sem rangri með öllum, sem og skýringum stefnanda um ofbeldi og harðræði lögreglu. Stefndi mótmælir því, að lögregla hafi farið offari í störfum sínum en stefnandi hafi ítrekað neitað að fylgja fyrirmælum lögreglu. Auk þess sé því mótmælt að sú meðferð, sem hann sætti, hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn frelsi hans, friði, æru og persónu.

Stefndi mótmælir því að stefnanda hafi verið synjað um aðstoð lögmanns en lögregla hafi talið það þýðingarlaust að kalla til lögmann á því stigi málsins, enda hafi stefnandi þá verið verulega ölvaður og ekki hafi verið unnt að taka af honum skýrslu sökum þess. Þá hafi komið fram að stefnandi myndi fá að hafa lögmann viðstaddan þegar skýrsla yrði tekin af honum. Ekki hafi komið til þess að hann væri yfirheyrður morguninn eftir þar sem hann hefði farið á sjúkrahús um nóttina. Stefndi telji því ekki lagaskilyrði til þess að dæma bætur þótt stefnandi hafi ekki fengið til sín lögmann strax við komu á lögreglustöð. Stefndi haldi því fram að 228. gr. laga nr. 88/2008 og 26. gr. skaðabótalaga eigi ekki hér við. Því sé mótmælt að framkvæmd lögreglu hafi farið í bága við 228. gr. fyrrnefndra laga eða ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu, enda verði að ætla lögreglu lágmarkssvigrúm í störfum sínum. Ástand stefnanda hafi verið slæmt og því séu engin skilyrði til þess að dæma hér bætur.

Stefndi vísar til þess að stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir öllu, sem viðkomi bótakröfu hans, m.a. sök, ólögmæti, orsakasambandi og sennilega afleiðingu. Séu hvorki uppfyllt skilyrði bótaákvæða 228. gr. laga nr. 88/2008, b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga né almennu sakarreglunnar til að dæma bætur í þessu máli.

Í 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 komi fram að fella megi niður bætur ef sakborningur hafi valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisi kröfur sínar á. Stefndi vísi einnig til 228. gr. laganna í heild.  Komi til greina að dæma bætur í málinu sé á því byggt af hálfu stefnda að stefnandi hafi sjálfur valdið og stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisi kröfu sína á og eigi því að fella niður bætur. Í þessu sambandi vísist til gagna málsins en jafnframt til þess að húsráðandi, þar sem stefnandi hafi verið gestkomandi, hafi þurft aðstoð lögreglu til koma honum út úr íbúð sinni eftir að hafa haldið því fram að stefnandi hafi lagt á hana hendur. Stefnandi hafi neitað að yfirgefa íbúðina. Fram komi í lögregluskýrslu að lögreglumaður hafi talið sér ógnað af stefnanda og að stefnandi hafi reynt að sparka í hann. Auk þess hafi stefnandi streist á móti við handtöku og ítrekað neitað að fara að fyrirmælum lögreglu. Þegar á lögreglustöð hafi verið komið, hafi einn lögreglumaður slasast við að fara með stefnanda í fangageymslur en stefnandi hafði neitað því að fara þangað. Lögreglumaður lýsi því svo að þegar hann hafi tekið um vinstri hönd stefnanda, hafi stefnandi gripið í þumalfingur hægri handar hans og snúið upp á. Hafi lögreglumaðurinn fundið fyrir sársauka í fingri og vöðvum í kringum hann. Hann hafi því leitað sér læknisaðstoðar á slysadeild LSH þar sem kom í ljós að hann var tognaður á fingri.

Stefndi byggir á því, að ekkert bendi til þess að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni eða miska á þeim þremur og hálfu klukkustund sem hann var í vörslu lögreglu aðfaranótt 19. júní 2009. Þá bendi heldur ekkert til þess að aðgerðir lögreglu hafi verið andstæðar lögum og reglum og hafi ríkissaksóknari sérstaklega kannað það atriði líkt og fyrr greini. Ekkert liggi fyrir um miska stefnanda og langvarandi heilsubrestur, svo sem þvagteppa, verði ekki með neinu móti rakinn til ætlaðra áverka af völdum lögreglu. Í framlögðu læknisvottorði komi fram, að 10. júlí 2009 hafi verið framkvæmd blöðruhálsspeglun, sem hafi komið eðlilega út og að engin merki hafi verið um áverka. Í sjúkraskrá stefnanda komi fram að segulómskoðun af hrygg og röntgenmyndir af lendarhrygg og pelvis hafi ekki leitt í ljós neina beináverka en að stefnandi sé aftur á móti með slitbreytingar. Jafnframt komi þar fram að sérfræðingur telji að þvagteppueinkenni þau, sem stefnandi hafi nú, tengist ekki þeim áverkum sem hann telji sig hafa orðið fyrir 19. júní 2009. Einkenni þvagtregðu séu mun eldri og ekki sé annað að sjá en að yfirþensla á blöðru umrætt sinn tengist að öllum líkindum áfengisneyslu, auk þess sem stefnandi sé með veikleika fyrir í blöðrusamdrætti.

Stefndi styður varakröfu sína um lækkun við sömu málsástæður og sjónarmið og aðalkrafan byggir á. Stefnukröfu sé mótmælt sem of hárri og ekki í samræmi við dómvenju en stefnanda hafi aðeins verið haldið í þrjár og hálfa klukkustund og hafi verið látinn laus um leið og hann kom á sjúkrahúsið. Hafi stefnanda ekki getað dulist það.

Stefndi vísar til þess að í 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 sé heimild til þess að lækka bætur ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum, sem hann reisir kröfu sína á, og eigi að lækka bætur til stefnanda vegna þessa.

Loks mótmælir stefndi dráttarvaxtakröfu stefnanda og telur engin skilyrði til að dæma dráttarvexti.

IV.

Í máli þessu gerir stefnandi kröfu um miskabætur vegna ólögmætrar handtöku og frelsissviptingar í tæpar 17 klukkustundir hinn 19. júní 2009, auk þess sem byggt er á því að frelsisskerðing stefnanda hafi verið framkvæmd á óþarflega særandi og móðgandi hátt. Af hálfu stefnda er sýknukrafa byggð á því að handtaka og frelsissvipting stefnanda hafi verið lögmæt og nauðsynleg og að ekki hafi verið beitt óþarflegu harðræði af hálfu lögreglu umrædda nótt.

Fyrir liggur að lögregla var kölluð að heimili, B, fyrrverandi eiginkonu stefnanda að [...] í Reykjavík aðfaranótt 19. júní 2009. B hafði hringt í fjarskiptamiðstöð lögreglu og beðið um aðstoð vegna þess að stefnandi, sem staddur var í íbúð hennar, var ölvaður og hafði lagt á hana hendur.

Í lögregluskýrslu, undirritaðri af C kl. 05:44, kemur fram að þegar lögreglumenn komu á vettvang umrædda nótt hafi stefnandi verið á nærbuxunum einum fata og greinilega ölvaður. Hann var spurður um nafn,  kennitölu og heimilisfang en hann neitaði að veita þær upplýsingar. Lögregla útskýrði fyrir stefnanda að nærveru hans væri ekki óskað af húsráðanda og hann var beðinn um að klæða sig og yfirgefa íbúðina. Stefnandi sinnti ekki tilmælum lögreglu í neinu, æstist mjög og veittist að einum lögreglumannanna með því að snúa upp á vinstri hönd hans. Hann hafði auk þess uppi einhverjar hótanir við lögreglumenn. Stefnandi var þá tekinn í lögreglutök og er handtaka hans skráð kl. 00:50 í gögnum málsins. Streittist hann mjög á móti við handtökuna. Stefnandi var síðan færður á lögreglustöð þar eð ekki reyndist hægt að ræða við hann sökum ölvunarástands og staðfesta myndbandsupptökur úr eftirlitsmyndavélum það. Varðstjóri á vakt tók því þá ákvörðun að stefnandi skyldi gista fangageymslur og sofa úr sér áfengisvímuna. Þegar færa átti stefnanda í fangageymslu, greip hann á nýjan leik í lögreglumann og sneri upp á þumalfingri hægri handar hans. Lögreglumaðurinn leitaði síðar á slysadeild LSH þar sem læknir komst að þeirri niðurstöðu að hann hefði tognað á þumalfingri. Í lögregluskýrslu kemur fram að sakarefni sé heimilisofbeldi og ofbeldi og hótun um ofbeldi gagnvart opinberum starfsmanni.

Af vistunarskýrslu má ráða að stefnandi fékk að fara á salerni kl. 03.08 en þar sem hann gat ekki haft þvaglát var brugðið á það ráð að kalla til lækni. Í kjölfar læknisskoðunar var ákveðið, að læknisráði, að senda stefnanda á sjúkrahús til frekari rannsóknar kl. 04.23. Í læknisvottorði Elfars Úlfssonar, heila-og taugaskurðlæknis sem hefur haft stefnanda til meðferðar, dagsettu 12. janúar 2010, kemur fram að samkvæmt sjúkraskrá stefnanda hafi verið erfitt umrætt sinn að ná góðri sögu af honum vegna ölvunar sem og að skoða og meta ástand taugakerfis hans. Hann hafi mælst með áfengi í blóði. Við skoðun hafi hann verið með eymsli yfir þvagblöðru og í baki við að lyfta upp fótleggjum. Blöðruhálskirtillinn hafi verið mjúkur við þreifingu, eymslalaus og ekki sérstaklega stækkaður. Hann hafi upplifað dofa í ristum og sagst hafa fengið högg þar frá lögreglumanni. Frekari skoðun hafi leitt í ljós að einn lítri af þvagi var í þvagblöðrunni sem síðan hafi verið tæmd. Segulómskoðun hafi verið framkvæmd af mjóbaki sama dag sem sýndi miklar slitbreytingar sem valdi þrengslum fyrir taugasekki. Röntgenmyndir af mjóbaki og mjaðmagrind hafi ekki sýnt beináverka og hafi stefnandi verið útskrifaður með þvaglegg og poka um læri. Mat læknisins var að stefnandi þjáðist af verkjum frá stoðkerfi fyrst og fremst sem orsakist af slitbreytingum sem hafi komið með tímanum og ekki við átökin í júní 2009. Það sé hins vegar þekkt að verkir út frá baki geta versnað við áverka og að slæmir verkir geta valdið þvagteppu í einstaklingum með enga fyrri sögu um þvagvandamál.

Fyrir dómi sagðist D lögreglumaður hafa fylgt stefnanda á sjúkrahús og skilið hann þar eftir í umsjá lækna. Stefnandi staðfestir þetta og segir lögreglumanninn hafa beðið hjá honum í um það bil klukkustund en síðan farið. Þegar lögregla fékk fregnir af því að stefnandi hefði verið sendur heim að lokinni læknisrannsókn, var skráð í vistunarskýrslu að hann væri látinn laus, eða kl. 17.38. Ekkert hefur komið fram í málinu um að stefnandi hafi verið undir eftirliti lögreglu á meðan sjúkrahúsvist hans stóð og verður því miðað við að stefnandi hafi verið í haldi lögreglu frá kl. 00:50 til kl. 04:23 þegar hann var fluttur á sjúkrahús. Breytir engu um þá niðurstöðu þótt lögregla hafi fært í bækur sínar að stefnanda hafi verið sleppt úr haldi síðar en gert var í raun.

Í kjölfar kröfu stefnanda um opinbera rannsókn vegna líkamsárásar og ólögmætrar handtöku, dagsettri 23. september 2009, var tekin lögregluskýrsla af honum í nóvember sama ár. Þar neitaði stefnandi sök um ofbeldi gagnvart opinberum starfsmanni og sagðist ekki minnast þess að hafa tekið utan um þumalfingur lögreglumannsins en ef hann hafi gert það hafi það verið óviljandi.

Samkvæmt skýrslu ríkissaksóknara var á skrifstofu hans hinn 28. apríl 2010 tekin vitnaskýrsla af B vegna kæru stefnanda á hendur lögreglu. Þar lýsti hún því að stefnandi hefði verið heima hjá henni ölvaður umrædda nótt. Hún hafi verið hrædd við hann í því ástandi og vildi að hann færi. Fram kom hjá B að stefnandi hafi lagt á hana hendur. Stefnandi hafi ekki viljað fara og því hringdi B í lögreglu með beiðni um aðstoð. Hún segir að fimm lögreglumenn hafi komið heim til hennar og reynt að fá stefnanda með sér út úr íbúðinni en hann hafi þá verið í símanum. Hún hafi þá spurt hvort hann vill ekki bara fara með lögreglumönnunum og farið fram til að finna föt hans. Stefnandi hafi hins vegar haldið símtali sínu áfram. B kveður lögreglumennina hafa sagt við stefnanda að þeir ætluðu að taka hann og hafi þeir handjárnað hann í því skyni þar sem hann sat á eldhússtól. Að sögn B hafi stefnandi æst mjög við þetta og hafi hún lögreglumennina um að fara ekki illa með hann og að láta hann vera. B lýsir því svo að stefnandi hafi látið sig detta út á hlið og í gólfið og staðfesti hún að lögreglumennirnir hefðu ekki skellt honum í gólfið. Þegar þarna var komið sögu, hefðu tvær lögreglukonur farið með hana inn í stofu og hún því ekki séð meira af afskiptum lögreglu af stefnanda en þó heyrt að hann var dreginn í burtu.

Í bréfi ríkissaksóknara, dagsettu 13. ágúst 2010, er varðaði fyrrnefnda kæru stefnanda, var komist að þeirri niðurstöðu að með vísan til læknisvottorða, sem lögð hefðu verið fram, yrði ekki séð að unnt væri að tengja líkamlega áverka eða líkamstjón stefnanda við aðgerðir lögreglu umrætt sinn. Þá fengi lýsing hans ekki stuðning í vitnaframburði B, svo langt sem hann næði. Taldi ríkissaksóknari að þeir lögreglumenn, sem stóðu að umræddri handtöku stefnanda, hefðu ekki gengið harðar fram við valdbeitingu en nauðsynlegt var til að vinna bug á mótþróa hans. Þóttu ekki efni til frekari aðgerða af hálfu ríkissaksóknara á grundvelli kærunnar, sbr. 2. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008, enda lægi ekki fyrir grunur um refsiverða háttsemi viðkomandi lögreglumanna. Hefði rannsókn málsins því verið hætt.

Áður hefur verið rakið að B leitaði aðstoðar lögreglu við að fjarlægja stefnanda úr íbúð hennar en með fylgdu staðhæfingar um að hann hefði lagt á hana hendur. Til skýrslugjafar fyrir dómi komu, auk framangreinds D, lögreglumennirnir C, E og F en þau komu öll að umræddri handtöku. Einnig gaf vitnaskýrslu G lögreglumaður, sem tók ákvörðun um vistun stefnanda í fangageymslu. Báru þau öll vitni um það að stefnandi hefði verið verulega ölvaður og æstur greint sinn og að hann hefði neitað öllum tilmælum lögreglu. Enginn lögreglumannanna, sem að handtökunni stóðu, kannaðist við að meira harðræði hefði verið beitt en nauðsyn bar til. Jafnframt vitnuðu þau um það, að vegna ógnandi hegðunar stefnanda hefðu þau talið nauðsynlegt að handtaka hann og færa hann á lögreglustöð í stað þess að aka honum heim til sín. Kom fram í skýrslu D að ákvörðun lögreglu um að fara frekar með stefnanda á lögreglustöð en heim til sín, hefði byggst á því m.a. að stefnandi hefði hótað lögreglumönnunum og þá hefðu þar einnig legið að baki öryggissjónarmið vegna þess að miðað við ástand stefnanda og ógnandi hegðunar hefði mátt búast við að hann færi strax aftur heim til B. Verður að leggja vætti lögreglumannanna til grundvallar um aðdraganda að handtöku stefnanda og ölvunarástand hans og óróleika. Þegar til alls framanritaðs er litið sem og þess, að ástæða fyrir afskiptum lögreglu í upphafi var ósk B um að stefnandi yrði fjarlægður af heimili hennar þar sem hann hefði lagt á hana hendur, verður að telja að tilefni hafi verið til handtöku stefnanda umrætt sinn, sbr. ákvæði 1. mgr. 90. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Með sömu rökum og einkum með vísan til þess, sem fram kom í skýrslu lögreglumannsins D og áður er rakið, um að búast hafi mátt við því að stefnandi héldi strax aftur heim til B þegar hann losnaði úr haldi, verður jafnframt talið að lögreglu hafi verið bæði heimilt og rétt að færa stefnanda á lögreglustöð í stað þess að aka honum heim til sín.

Í ljósi framangreindrar skýrslu B hjá ríkissaksóknara, annarra gagna málsins, auk vættis vitna um mótspyrnu stefnanda gagnvart lögreglu og hótana hans í hennar garð, verður að fallast á með stefnda að ósannað sé að lögregla hafi beitt meira harðræði umrætt sinn en óhjákvæmilegt var. Þá kom fram að stefnandi hefði oftar en einu sinni neitað að klæða sig þrátt fyrir óskir lögreglu á þann veg. Loks tók stefnandi sérstaklega fram í skýrslu sinni fyrir dóminum, að hann hefði ekki verið á nærbuxunum einum fata heldur í joggingbuxum þegar hann var leiddur á brott úr íbúð B.

Við komu á lögreglustöð reyndist ókleift að taka af stefnanda þá skýrslu, sem til stóð, vegna ástands hans. Ákvað lögregla þá að vista hann í fangaklefa og láta hann „sofa úr sér.“ Eins og áður er rakið var stefnandi í haldi lögreglu í sem næst þrjár og hálfa klukkustund þar til hann var sendur á sjúkrahús um nóttina. Þegar litið er til ástands stefnanda, sem hér að framan er lýst og sem kom í veg fyrir að skýrsla yrði tekin af honum án tafar, verður ekki talið að það feli í sér ólögmæta synjun á lögmannsaðstoð þótt ekki hafi verið kallaður til lögmaður honum til aðstoðar þá þegar. Verður ekki séð að með því hafi verið brotinn á honum réttur samkvæmt ákvæðum 1. málslið 2. mgr. 28. gr. laga nr. 88/2008 og c-liðar 3. mgr. 6. gr. laga nr. 62/1994. Í ljósi ástands stefnanda og tilefnis aðkomu lögreglu, þ.e. tilkynningar um ofbeldi gagnvart fyrrverandi eiginkonu, verður heldur ekki fallist á með stefnanda að hann hafi verið sviptur frelsi lengur en efni stóðu til.

Að öllu framanrituðu virtu verður ekki talið að stefnanda hafi tekist að sanna að hann eigi rétt á miskabótum úr hendi stefnda eins og byggt er á í stefnu. Verður stefndi því sýknaður af bótakröfu stefnanda í máli þessu.

Málskostnaður verður ekki dæmdur. Stefnandi nýtur gjafsóknar í málinu og verður allur kostnaður af rekstri þess lagður á ríkissjóð, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Egils Stephensen hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 700.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, A, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Egils Stephensen hdl., 700.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.