Print

Mál nr. 603/2016

Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari)
gegn
X (Jón Bjarni Kristjánsson hdl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. ágúst 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. ágúst  2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans, en þó eigi lengur en til fimmtudagsins 22. september 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili hefur með dómum Hæstaréttar 7. júní 2016 í máli nr. 425/2016, 5. júlí 2016 í máli nr. 496/2016 og 3. ágúst 2016 í máli nr. 551/2016 verið gert að sæta gæsluvarðhaldi óslitið frá 2. júní 2016 á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Með ákæru héraðssaksóknara 18. júlí 2016 voru varnaraðila í sextán liðum gefin að sök ýmis brot gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940, þar á meðal í tveimur liðum nauðgun samkvæmt 1. mgr. 194. gr. laganna. Hefur aðalmeðferð málsins verið ákveðin 13. september 2016. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.                

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. ágúst 2016

Héraðssaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 22. september 2016, kl. 16.00.

                Í greinargerð héraðssaksóknara kemur fram að með ákæru héraðssaksóknara dagssettri 18. júlí sl. hafi ákærða, X, verið gefið að sök ítrekuð brot gegn eiginkonu sinni A og stjúpdætrum sínum B og C og vísist til meðfylgjandi ákæru með lýsingu á þeim brotum sem ákærða séu gefin að sök.

Eins og fram komi í gögnum málsins hafi ákærða verið með ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 7. mars sl., sem staðfest hafi verið með úrskurði héraðsdóms í máli nr. R-86/2016, gert að sæta nálgunarbanni og brottvísun af heimili gagnvart A, B og C, þannig að lagt hafi verið bann við því að hann kæmi á eða í námunda við lögheimili sitt og þeirra að [...] í Reykjavík, á svæði sem hafi afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið, mælt frá miðju hússins. Jafnframt hafi verið lagt bann við því að X veitti A, B og C eftirför, nálgaðist þær á almannafæri eða setti sig í samband við þær með öðrum hætti. Úrskurður héraðsdóms hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar í máli nr. 198/2016.

Ákærða hafi verið með ákvörðun lögreglustjóra, dags. 4. apríl sl., gert að sæta áframhaldandi nálgunarbanni og brottvísun af heimili í kjölfar þess að þær mægður höfðu ítrekað tilkynnt um brot X gegn nálgunarbanninu og lagt fram kæru á hendur honum vegna brotanna. Ákvörðun lögreglustjóra hafi verið staðfest með úrskurði héraðsdóms í máli nr. R-120/2016 og hafi úrskurður héraðsdóms verið staðfestur með dómi Hæstaréttar í máli nr. 258/2016.

Með ákvörðun lögreglustjóra, dags. 2. maí, sl. hafi X aftur verið gert að sæta áframhaldandi nálgunarbanni og brottvísun af heimili í kjölfar ítrekaðra brota hans gegn nálgunarbanninu. Hafi ákvörðunin verið staðfest með úrskurði héraðsdóms í máli nr. R-149/2016. Með ákvörðun lögreglustjóra, dags. 30. maí sl., hafi X enn aftur verið gert að sæta nálgunarbanni og brottvísun af heimili gagnvart þeim B og C og hafi ákvörðunin verið birt fyrir honum kl. 22:45 að kvöldi 30. maí sl. Í framangreindum úrskurðum héraðsdóms og dómum Hæstaréttar séu efnisatriði málanna rakin með nánari hætti og atriði sem fram hafi komið við skýrslutökur af aðilum og vitnum málsins og sé einnig vísað til þess til stuðnings kröfu þessari.

Þann 1. júní sl. hafi B haft samband við lögreglu í miklu uppnámi og kvaðst  vera hrædd um líf sitt. Hún hafi kvæðist vera nýkomin í vinnuna og að X hafi verið kominn með enn eitt símanúmerið og hafi verið að brjóta nálgunarbannið með því að senda henni líflátshótanir í smáskilaboðum. Hafi hún kvæði hann einnig hafa byrjað að senda henni hótanir um leið og honum hafi verið sleppt úr haldi lögreglu daginn áður, eftir að hann hafi verið handtekinn fyrir meint brot gegn nálgunarbanninu. Skömmu síðar hafi C hringt í lögreglu frá heimili sínu og sagt að X væri að senda henni hótanir frá nýju símanúmeri. Kærði hafi verið handtekinn vegna þessa og þann 2. júní sl. hafi hann verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli c. og d. liða 1. mgr. 95. gr laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-173/2016. Hæstiréttur hafi staðfest úrskurð héraðsdóms að því leyti að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr.  88/2008 um meðferð sakamála. Hæstiréttur hafi nú staðfest síðast úrskurð héraðsdóms Reykjavíkur um áframhaldandi gæsluvarðhald á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. sakamálalaga, með dómi í máli 551/2016.

Líkt og fram hafi komið í ákæruskjali sé ákærða m.a. gefið að sök að hafa ítrekað brotið gegn nálgunarbanni m.a. með sendingu smáskilaboða sem innihaldi grófar hótanir og kynferðislega áreitni í garð stjúpdætra sinna.

Að mati ákæruvalds séu yfirgnæfandi líkur fyrir því að ákærði muni halda áfram afbrotum gangi hann frjáls ferða sinna. Það sé því talið nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi meðan málum hans sé ólokið. Hann hafi sýnt einbeittan brotavilja og ekki látið af háttsemi sinni þrátt fyrir  ítrekuð afskipti lögreglu og fyrirmæli þar um. Þá hafi lögreglan á höfuðborgarsvæðinu upplýst að ákærði hefur reynt að senda brotaþolum í málinu bréf en fangelsisyfirvöld hafa ekki sent þeim bréfin heldur framsent lögreglu þau til skoðunar. Jafnframt hafi ákæruvaldið talið ljóst að ákærði  muni ekki fá skilorðsbundinn dóm vegna fjölda mála sem um ræðir og alvarleika þeirra.

Með vísan til alls framangreinds, framlagðra gagna og c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

 Niðurstaða

        Með vísan til greinargerðar Héraðssaksóknara og ákæru á hendur X, dags. 18. júlí sl., sem þingfest hefur verið og að virtum rannsóknargögnum málsins liggur fyrir rökstuddur grunur um að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing liggur við. Í ákæru er honum gefið að sök ítrekuð brot gegn eiginkonu sinni A og stjúpdætrum sínum B og C.

 Í ljósi sakargifta, alvarleika brotanna og fjölda þeirra þykir alls ekki sýnt að þau brot sem ákærði er sakaður um muni aðeins hafa í för með sér sektir eða skilorðsbundna fangelsisrefsingu miðað við aðstæður.

         Samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja í gögnum málsins hélt ákærði áfram brotum sínum með skilaboðum sem m.a. fólu í sér hótanir eftir að hann hóf að sæta gæsluvarðhaldi. Af hálfu Héraðssaksóknara var við meðferð málsins lög fram upplýsingaskýrsla, dags. 24. ágúst sl. þar sem fram kemur að lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafi borist þrjú bréf sem ákærði hafi reynt að senda eiginkonu sinni og stjúpdætrum. Fangelsis yfirvöld hafi ekki sent bréfin en framsent þau lögreglu til skoðunar. Með hliðsjón af gögnum málins verður ekki framhjá því litið að  ákærði hafi virðist hafa sýnt af sér einbeittan brotavilja. Með hliðsjón af því og afstöðu ákærða sjálfs til þeirra alvarlegu sakarefna sem honum eru gefin að sök má ætla að ákærði muni halda áfram brotum sínum gagnvart þeim mæðgum fari hann frjáls ferða sinna. Það er mat dómsins að uppfyllt séu skilyrði til að ákærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli c- liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála þangað til dómur fellur í máli hans en þó ekki lengur en greinir í kröfu Héraðssaksóknara.

Ekki þykir verjandi hafa fært fram haldbær rök fyrir því að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími en krafist er. Er því fallist á kröfu héraðssaksóknara eins og hún er fram sett og verður ákærða gert að sæta gæsluvarðhaldi áfram eins og nánar greinir í úrskurðarorði

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákærði, X, kt. [...], skal  sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 22. september 2016, kl. 16.00.