- Ávana- og fíkniefni
- Hjálparskylda
- Ósæmileg meðferð á líki
- Vopnalagabrot
- Upptaka
|
Fimmtudaginn 28. apríl 2005. |
Nr. 510/2004. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn Grétari Sigurðarsyni (Brynjar Níelsson hrl.) Jónasi Inga Ragnarssyni og(Sveinn Andri Sveinsson hrl. Ingi Tryggvason hdl.) Tomasi Malakauskas(Björgvin Jónsson hrl. Ágúst Sindri Karlsson hdl.) |
Ávana- og fíkniefni. Hjálparskylda. Ósæmileg meðferð á líki. Vopnalagabrot. Upptaka.
G, J og T voru sakfelldir fyrir brot á lögum um ávana- og fíkniefni, brot gegn lífi og líkama og fyrir ósæmilega meðferð á líki, með því að hafa í ágóðaskyni, staðið að innflutningi á 223,67 grömmum af metamfetamíni hingað til lands. Hafði V flutt efnið til landsins í 61 pakkningu innvortis í líkama sínum, en veikst daginn eftir komu sína vegna stíflu í mjógirni af völdum pakkninganna. Létu G, J og T farast fyrir að koma V til hjálpar, sem lést þremur dögum síðar. Fluttu þeir lík hans til og sökktu því í sjó. Var refsing hvers þeirra ákveðin fangelsi í 2 ár og 6 mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 7. desember 2004 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu og upptöku, en þyngingar á refsingum.
Ákærði Grétar Sigurðarson krefst sýknu af sakargiftum samkvæmt I. og II. kafla ákæru og að refsing verði milduð.
Ákærði Jónas Ingi Ragnarsson krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð.
Ákærði Tomas Malakauskas krefst sýknu af sakargiftum samkvæmt II. kafla ákæru og að refsing verði milduð.
Með vísun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Ákærðu greiði allan kostnað við áfrýjun málsins, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærðu, Grétar Sigurðarson, Jónas Ingi Ragnarsson og Tomas Malakauskas, greiði hver um sig verjanda sínum, hæstaréttarlögmönnunum Brynjari Níelssyni, Sveini Andra Sveinssyni og Björgvin Jónssyni, 350.000 krónur í málsvarnarlaun. Annan áfrýjunarkostnað sakarinnar greiði ákærðu óskipt.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. nóvember 2004.
Málið er höfðað með ákæru Ríkissaksóknara, dagsettri 3. júní sl., á hendur ákærðu, Grétari Sigurðarsyni, [...], Jónasi Inga Ragnarssyni, [...] og Tomasi Malakauskas, [...], “fyrir eftirgreind brot framin í febrúar 2004:
I.
Gegn ákærðu öllum fyrir brot á lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa, í ágóðaskyni, staðið að innflutningi á 223,67 g af metamfetamíni hingað til lands, en Vaidas Jucevicius, fæddur 20. nóvember 1974 í Litháen, flutti efnið í 61 pakkningu innvortis í líkama sínum með flugi frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur mánudagskvöldið 2. febrúar.
Ákærði Tomas útvegaði fíkniefnið frá Litháen og fékk Vaidas til verksins, en efnið ætluðu ákærðu til sölu hér á landi og hugðist ákærði Grétar annast söludreifingu. Ákærðu héldu saman í bifreið sem ákærði Grétar ók til Keflavíkurflugvallar fyrrgreint kvöld til að sækja Vaidas er hann kom til landsins með fíkniefnin og fór ákærði Jónas Ingi í því skyni inn í flugstöðina og hélt þar á lofti spjaldi sem á var ritað nafn Vaidasar. Eftir að Vaidas hafði farið á mis við ákærðu í flugstöðinni héldu þeir til Reykjavíkur, sóttu hann við Hótel Loftleiðir og óku með hann að heimili Tomasar að Furugrund 50, Kópavogi.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 60, 1980, sbr. lög nr. 13, 1985, sbr. lög nr. 82, 1998, sbr. lög nr. 68, 2001 og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233, 2001, sbr. reglugerð nr. 248, 2002.
II.
Gegn ákærðu öllum fyrir brot gegn lífi og líkama með því að láta farast fyrir að koma Vaidasi Jucevicius til hjálpar í lífsháska á tímabilinu 3. til 6. febrúar með því að koma honum ekki undir læknishendur eftir að hann veiktist þriðjudaginn 3. febrúar á heimili ákærða Tomasar vegna stíflu í mjógirni af völdum fíkniefnapakkninganna sem sátu fastar í maga og mjógirni. Veikindi Vaidasar ágerðust á næstu dögum með sárum magaverkjum og síðan þani á kvið og uppköstum. Að morgni föstudagsins 6. febrúar óku ákærðu með Vaidas áleiðis til Keflavíkur með fyrirætlun um að koma honum með flugi úr landi, en ákærði Grétar yfirgaf bifreiðina við Dalveg í Kópavogi. Var Vaidas mjög veikur og kvalinn á leiðinni til Keflavíkur, með endurtekin blóðuppköst og kvaðst ekki treysta sér í flugferð. Sneru ákærðu bifreiðinni við á móts við Grindavíkurafleggjara og sóttu ákærða Grétar á heimili hans. Ákærðu fóru með Vaidas í íbúðina við Furugrund þar sem hann lést skömmu síðar af völdum mjógirnisstíflu samfara miklum samvexti í kviðarholi.
Telst þetta varða við 1. mgr. 221. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. lög nr. 82, 1998.
III.
Gegn ákærðu öllum fyrir ósæmilega meðferð á líki Vaidasar Jucevicius með því að hafa, föstudagsmorguninn 6. febrúar, sett líkið í plastpoka, vafið í filtteppi, bundið um það með bandi og límt og komið líkinu fyrir í farangursgeymslu jeppabifreiðar, sem ákærðu höfðu tekið á leigu. Ákærðu Jónas Ingi og Tomas óku síðan bifreiðinni austur til Neskaupstaðar, með viðkomu á Djúpavogi þar sem þeir dvöldust vegna ófærðar og vonskuveðurs frá föstudagskvöldi til sunnudagsmorguns. Ákærðu hittust á heimili móður ákærða Grétars í Neskaupstað síðdegis sunnudaginn 9. febrúar og óku saman í bifreiðinni um bæinn og nágrenni. Laust eftir miðnætti fóru ákærðu á bifreiðinni niður að netagerðarbryggjunni við Strandgötu 1, Neskaupstað, fjarlægðu þar líkið úr farangursgeymslunni, tóku teppið utan af því, bundu kaðli um háls, búk og fætur, festu keðju við háls og bundu gúmmíbobbing við fætur, ákærði Grétar stakk líkið með hnífi fimm stungum í háls, brjóstkassa og kvið og þvínæst sökktu ákærðu líkinu í sjóinn við bryggjuna.
Telst þetta varða við 1. mgr. 124. gr. almennra hegningarlaga.
IV.
Gegn ákærða Grétari fyrir brot á vopnalögum með því að:
1. Eiga loftriffil og skambyssu án þess að hafa fengið útgefið skotvopnaleyfi.
2. Hafa í vörslum sínum ofangreind skotvopn sem ákærði geymdi á heimili sínu í tösku ofan á fataskáp og tvær haglabyssur sem ákærði geymdi bakvið hurð.
3. Hafa tvo lásboga í vörslum sínum.
4. Hafa 14 stunguhnífa, 3 fallhnífa, 2 fjaðurhnífa og kasthníf í vörslum sínum.
5. Hafa gormakylfu í vörslum sínum.
Lögregla fann vopnin við leit á heimili ákærða að Keldulandi 9, Reykjavík, laugardaginn 21. febrúar og lagði hald á þau.
Telst 1. liður varða við 1. mgr. 12. gr., 2. liður við 23. gr., 3. liður við f. lið, 4. liður við a., b. og e. liði og 5. liður við c. lið 2. mgr. 30. gr., allt sbr. 36. gr. vopnalaga nr. 16, 1998, 2. liður jafnframt við 1. og 2. mgr. 33. gr., sbr. 59. gr. reglugerðar um skotvopn, skotfæri o.fl. nr. 787, 1998.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til að sæta upptöku á 223,67 g af metamfetamíni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna.
Ákærði Grétar sæti jafnframt, samkvæmt 1. mgr. 37. gr. vopnalaga, upptöku á vopnum sem talin eru í IV. kafla ákæru og lögregla lagði hald á við rannsókn málsins (sbr. skýrslu um haldlagningu nr. IV/I-2.7, munir merktir nr. GS 4-5, 14-35, 37, 81-82).”
Málavextir
Fyrir liggur í málinu að Vaidas Jucevicius kom hingað til lands með flugvél frá Kaupmannahöfn mánudagskvöldið 2. febrúar sl. og var þá að koma frá heimalandi sínu, Litháen. Var hann með innvortis 223,67 g af metamfetamíni í 61 pakkningu sem hann hafði gleypt áður en hann lagði upp í ferðina. Fóru ákærðu akandi suður á Keflavíkurflugvöll til þess að taka á móti Vaidasi, þar sem ákærði Jónas Ingi hélt uppi spjaldi með nafni sínu og Vaidasar, en fóru á mis við hann þar og fór Vaidas með flugrútunni til Reykjavíkur þar sem ákærðu hittu hann og óku með hann heim til ákærða Tomasar í Furugrund 50 í Kópavogi. Dvaldi Vaidas þar næstu daga en daginn eftir komuna til landsins veiktist Vaidas vegna þess að pakkningarnar stífluðu mjógirni mannsins og gengu ekki niður af honum eins og að var miðað. Veikindi Vaidasar ágerðust svo næstu daga og lést hann í íbúð Tomasar föstudagsmorguninn 6. febrúar sl. Höfðu ákærðu þá ætlað að koma Vaidasi í flugvél úr landi fyrr um morguninn en snúið við þegar hann hætti við að fara vegna uppsölu og vanlíðunar. Þá liggur það fyrir að lík Vaidasar var sett í plastpoka og vafið í teppi og að ákærðu Jónas Ingi og Tomas óku með það austur á Djúpavog í jeppa sem tekinn hafði verið á leigu í þessu skyni. Ákærði Grétar hélt austur á Neskaupstað til foreldra sinna með flugi. Ákærðu Jónas Ingi og Tomas urðu veðurtepptir á Djúpavogi en komust þaðan til Neskaupstaðar sunnudagsmorguninn 9. febrúar. Þar hittu þeir Grétar og var líki Vaidasar sökkt í sjóinn við netagerðarbryggjuna þar eftir að það hafði verið þyngt með keðju og bobbing og eftir að ákærði Grétar hafði stungið á það göt með hnífi til þess að það flyti síður upp.
Miðvikudaginn 11. febrúar sl. var kafari að störfum við bryggjuna og fann þá líkið þar sem það var á u.þ.b. sex metra dýpi. Hófst þá þegar lögreglurannsókn í málinu sem leiddi í ljós af hverjum líkið var og til handtöku ákærðu. Verður ekki gerð heildargrein fyrir þeirri miklu eftirgrennslan, en vikið verður að einstökum atriðum hennar eftir því sem nauðsynlegt þykir. Líkið af Vaidasi Juceviciusi var krufið í rannsóknastofu Háskóla Íslands í meinafræði. Í skýrslu Þóru Steffensen réttarmeinafræðings, sem krufði líkið, segir um áverka á því:
“Fimm (5) stungusár eru á líkinu. Þau eru hér eftir kölluð af handahófi sár A, B, C, D og E. Röð sáranna í skýrslunni segir ekki til um í hvaða röð sárin voru veitt.
Sár “A”: Vinstra megin á hálsi, 23 cm neðan við hvirfil, 4cm vinstra megin við miðlínu og 2,7 cm neðan við vinstra kjálkabarð er gapandi stungusár. Gapandi mælist sárið 1,4x0,9cm. Þegar barmarnir eru lagðir saman mælist sárið um 2,4 cm (en strekkja þurfti á húð til að sárbarmar féllu saman). Það er skálaga, um 70° með vinstri hlið upp. Sljór endi greinist ekki en í efri brún sársins eru tvö samhliða grunn skurðsár, 0,2 cm á lengd og 0,15 cm á milli þeirra. Sárið gengur skarpt niður á við og lítillega til hægri, mest 5,2 cm. Sárið gengur í gegnum undirliggjandi húðfitu, að og lítillega í undirliggjandi vöðva framanvert á hálsinum vi. megin. Engin blæðing er í sárbörmunum eða í undirliggjandi mjúkvefjum. Sárið gengur ekki inn í barka, hálsslagæð eða hálsbláæð. Sárið gengur skarpt niður á við og lítillega til hægri og er dýpst 5,2 cm.
Sár “B”: Neðanvert og utanvert á hægri brjóstkassa, 52,8 cm neðan við hvirfil og 7,6 cm hægra megin við miðlínu er gapandi stungusár. Gapandi mælist sárið 3,7 cm en þegar barmarnir eru lagðir aðlægt hvor öðrum mælist sárið 4,1 cm. Sárið er lárétt. Vinstri endi sársins hefur sljóa brún sem mælist 0,15 cm á breidd. Við vinstri enda sársins eru tvær punktlaga skrámur (minni en 0,1 cm) og á milli þeirra eru 0,4 cm. Sárið gengur gegnum undirliggjandi brjóstvegg og veldur þar 3,5cm sári. Sárið gengur inn í brjóskhlutann á hægra 7. rifi. Vinstri endi sársins sem er í brjóskinu hefur 0,5 cm króklaga enda sem vísar upp á við. Sárið gengur gegnum samvexti í hægra brjóstholi en virðist ekki fara inn í hægra lunga. Sárið gengur í gegnum hægri þindarhluta og mælist þar 3,8 cm. Sárið fer inn í kviðarhol og í gegnum framhluta lifrar neðan til. Þar sem sárið gengur inn í lifur mælist það 3,3 cm og þar sem það gengur út mælist það 3,0 cm. Það fer í gegnum lifrina þar sem hún er 3,0 cm á þykkt. Sárið fer áfram gegnum neðsta hluta magans framan til (við pylorus) og mælist þar 1,9 cm. Ekki sést stungusár á afturvegg magans á samsvarandi svæði. Engin blæðing sést í sárbörmum eða undirliggjandi mjúkvefjum. Engin blæðing sést umhverfis stungusárið í þind, lifur eða maga og frítt blóð sést ekki í kviðarholi. Í kviðarholi eru 370 ml af rauðbrúnum vökva (með sama útliti og maga- og garnainnihald). Sárið mælist dýpst 9-9,5 cm. Það gengur frá hægri til vinstri og niður á við.
Sár “C”: Vinstra megin á brjóstkassa neðan til, 49 cm neðan við hvirfil, 12,5 cm vinstra megin við miðlínu og 8,7 cm frá geirvörtu kl. 4:30-5:00 er stungusár. Sárið er gapandi og mælist 2,6 cm. Þegar sárbarmarnir eru lagðir saman mælast þeir einnig 2,6 cm. Sárið er lárétt. Ekki sést með vissu sljór endi. Við hægri enda sársins er 0,85x0,4 cm skráma og 0,2 cm frá henni er lóðrétt 0,7 cm línulaga skráma. Sárið fer í gegnum undirliggjandi brjóstvegg í 6. millirifjabili og í gegnum vinstra þindarblað þar sem það mælist 2,7 cm. Sárið fer í gegnum efsta hluta magaveggjar og mælist þar 2,5 cm. Það sést ekki ganga út úr maganum aftur. Engin blæðing er í sárbörmum, undirliggjandi mjúkvefjum, vi. þindarblaði eða magavegg. Engin blæðing sést í kviðarholi. Efnafræðilegar mælingar sýna að vökvinn í vi. brjóstholi er ekki blóðblandaður. Stefna sársins er frá vinstri til hægri og niður á við. Sárið er að minnsta kosti 5,5 cm á dýpt.
Sár “D”: Á vinstri hluta brjóstkassa, neðan til, 48,7 cm neðan við hvirfil, 18,8 cm vinstra megin við miðlínu og 11,2 cm frá geirvörtu um kl 4 er 2,4 cm dálítið gapandi stungusár. Sárið er lárétt. Við hægri enda sársins er 0,15x0,2 cm skráma. Vinstri hluti sársins er dýpstur (2,7 cm) og sárið liggur á ská frá hægri til vinstri. Engin blæðing sést í sárbörmum eða undirliggjandi mjúkvef. Sárið gengur ekki inn í undirliggjandi brjóstkassa.
Sár “E”: Á efri hluta kviðar vinstra megin, 65 cm neðan við hvirfil, 3,5 cm vinstra megin við miðlínu og 5,5 cm ofan við nafla um kl. 2 er gapandi stungusár. Gapandi mælist sárið 3,0 cm að lengd. Þegar sárbarmar eru lagðir saman mælist sárið 3,2 cm á lengd. Sárið er skálaga, um 25° með hægri enda upp. Sljó brún sést ekki með vissu. Við vinstri enda sársins, neðan til er 0,4x0,2 cm grár blettur þar sem húðin hefur flest af. Sárið gengur inn í kviðarhol og í gegnum mjógirnishengið, alveg við festu þess í hrygg og mælist sárið þar 2,0 cm. Það setur engin göt á garnir. Engin blæðing sést í sárbörmun eða undirliggjandi mjúkvefjum. Engin blæðing sést í lífhimnu þar sem sárið gengur inn í kviðinn og ekkert frítt blóð sést í kvið. Engin blæðing er kringum sárið í mjógirnishenginu. Sárið gengur frá vinstri til hægri og lítillega upp á við. Það mælist 9 cm á dýpt.”
Um rannsókn á kviðarholi og líffærum í því segir svo í skýrslu sérfræðingsins:
“Tunga er án áverka. Vélinda er án athugasemda. Maginn er þaninn. Við handfjötlun á maga lekur vökvakennt ljósbrúnt innihaldið út í kviðinn gegnum stungusárin (sem áður er lýst). Í magasekk eru sautján (17) heilir belgir/sívalningar/pakkningar. Ellefu (11) þeirra eru úttútnaðir (uppblásnir) (5x3 cm) og sex (6) eru það ekki (4x1,5 cm). Fjórir (4) belgir eru rifnir og einnig sjást dræsur af fjórum (4) pakkningum. Pakkningarnar (með innihaldi) vega samtals 150g. Ein þeirra er opnuð og samanstendur af tveimur ytri lögum af heimilisgúmmíhanskaputtum, lokaðir með teygju á endanum, þar fyrir innan hvítt latex og innst svört plastpakkning. Þetta umlykur hvítt duft sem skv. forprófi tæknideildar reynist amfetamín (sjá skýrslu tæknideildar). Magaslímhúð er áberandi dökkrauð nema í kringum neðra magaopið. Gríðarlegir samvextir eru milli mjógirnislykkja og mjög víða eru þær grónar hvor við aðra þannig að víða myndast skarpar “U”-laga lykkjur. Skeifugörnin og mjógirnið eru mjög úttútnuð og útvíkkuð. Um 138cm neðan við neðra magaop fara að sjást stöku pakkningar af sömu tegund og í maga. Alls finnast fjörtíu (40) pakkningar í mjógirninu en all flestar þeirra (37) sitja í fjærhluta mjógirnisins, í tveimur mjógirnislykkjum, næst 10cm frá tengingu mjógirnis við ristil. Pakkningarnar hafa safnast saman aðallega í tveimur samvöxnum mjógirnislykkjum og er þar mesta útvíkkunin á görninni. Ofan við pakkningarnar er görnin einnig mjög útvíkkuð en nokkuð misvíð. Ummálið mælist 7,5 og upp í 9 cm (mælt eftir að mjógirnið var klippt upp og vökva- og lofttæmt). Ummál mjógirnis handan við pakkningarnar er 5,0 cm. Mjógirnislykkjurnar hafa glansandi lífhimnu. Ekki sést rof á görninni en víða er veggurinn orðin pappírsþunnur (0,1 cm). Mikið ljósrauðbrúnt innihald er í mjógirni umhverfis og ofan við pakkningarnar. Handan við pakkningarnar er mjógirnið hins vegar af eðlilegum gildleika og með mjög litlu vökvakennndu innihaldi. Ristillinn er samfallinn, grannur og loftlaus með lítils háttar nánast vökvakenndum gulbrúnum og rauðbrúnum hægðum. Pakkningarnar í mjógirni (með innihlaldi) vega alls 295 g. Botnlangi er til staðar og er eðlilegur. Lifur vegur 1610 g. Yfirborðið er slétt. Áverkum er áður lýst. Skurðfletir eru að öðru leyti án athugasemda. Skurðfletir eru ljósbrúnir og sami litur er á skurðflötum umhverfis stungusárið og annars staðar. Gallblaðra er án steina. Gallvegir og bris eru án athugasemda.”
Að lokum segir læknirinn þetta:
“Dánarorsök Vaidas Jucevicius er mjógirnisstífla af völdum fíkniefnapakkninga og fylgikvillar hennar. Samverkandi þáttur er miklir samvextir í kviðarholi.
Í krufningunni fundust samtals 61 pakkning af efni í líkama mannsins. Af þeim sátu 21 í maga og 40 í mjógirni. Af 40 pakkningum í mjógirni sátu 37 í tveimur aðlægum mjógirnislykkjum hægra megin í kvið og voru mjógirnislykkjurnar mjög úttútnaðar og vökvafylltar og víða var mjógirnisveggurinn verulega þynntur. Handan við þessar lykkjur voru mjógirnið og ristillinn samfallin og lofttæmd. Ofan við þessar lykkjur var mjógirnið einnig verulega útvíkkað með verulegu vökvainnihaldi. Samskonar vökvainnihald sást í maga. Er þetta útlit dæmigert fyrir það sem sést við garnastíflu, óháð því hvað stíflar görnina. Miklir samvextir voru í kviðarholi, einkum milli mjógirnislykkja og áttu samvextirnir aðalþáttinn í því að því að pakkningarnar festust í mjógirninu. Samvextirnir eru líklega afleiðingar kviðarholsaðgerðar þeirrar er Vaidas hafði áður gengist undir (sbr. ör á kviðvegg) en ekki sást hvers vegna aðgerðin var framkvæmd.
Vegna afbrigðilegs útlits einnar pakkningarinnar í maga mannsins (sbr. röntgenniðurstöður) var (í lok krufningar) viss grunur um að pakkning hefði getað lekið innihaldi sínu út í görnina og valdið eða átt þátt í andláti mannsins. Einnig var ljóst að bíða þyrfti niðurstaðna lyfja- og eiturefnamælinga til að staðfesta eða útiloka slíkt. Ljóst var einnig útfrá útliti garna mannsins að maðurinn hafði verið veikur fyrir andlátið. Var það tilkynnt til Jónasar Wilhelmssonar, yfirlögregluþjóns á Eskifirði þann 14. febrúar af próf. Gunnlaugi Geirssyni og lögreglu bent á að leita að ælu á hugsanlegum verustöðum mannsins.
Dæmigerður sjúkdómsgangur við stíflu í fjærhluta mjógirnis eru mjög sárir, kveisukenndir verkir í kvið, sem a.m.k. til að byrja með koma með endurteknu millibili. Er lengra líður í ferlinu verða verkirnir oft stöðugri og þungir. Þessu fylgir síðan þan á kvið og endurtekin uppköst, sem oft eru ekki mikil að magni í hvert skipti. Stíflaða görnin safnar í sig síauknum vökva ofan stíflunnar og þenst út. Eftir að uppköst hefjast er sama útlit á vökvanum í maga og fjær í mjógirninu. Þessi mikla vökvasöfnun í görnina leiðir til truflana á vökvajafnvægi líkamans. Vökvinn úr blóðrásinni leitar út í görnina, blóðþrýstingur lækkar og hvort tveggja leiðir til nýrnabilunar og blóðsaltatruflana og endanlega til losts. Vegna ytri aðstæðna (rotnunar og legu í sjó) er ekki unnt að túlka saltmælingar er gerðar voru í krufningunni. Hækkun á niðurbrotsefnum nýrna sýnir hins vegar svo ekki verður um villst að Vaidas var kominn í nýrnabilun er hann dó. Ekki er ljóst hvers vegna maðurinn leitaði ekki læknishjálpar en telja má víst að hann hafi verið með kviðverki og uppköst klukkustundum saman fyrir andlátið og ljóst að hann þurfti á læknishjálp að halda.
Krufningin sýndi áberandi magn af magainnihaldi sem Vaidas hafði andað ofaní lungu og hefur það líklega gerst skömmu fyrir eða í þann mund er hann lést, þar sem ekki er að sjá bólgusvörun í lungnavef. Útbreiðsla og magn magainnihaldsins í lungum er of mikið til að það gæti skýrst af endurlífgunartilraunum og ekki sáust ella merki um að endurlífgun hefði verið reynd á manninum. Ekki er hægt að segja til um hvort Vaidas hafi ælt pakkningum. Magaslímhúðin var mjög rauð og ert við krufninguna og er líklegt að frá henni hafi blætt og það komið fram í uppköstunum. Ertingin stafar væntanlega af núningi eiturlyfjapakkninganna við slímhúðina við endurtekin uppköst. Við krufninguna var þó ekki að sjá veruleg merki magablæðingar, og er ekki líklegt að það hafi haft áhrif á endanlegu útkomuna.
Engin merki sáust um að mjógirnisveggurinn hefði brostið og engin merki sáust um drep í mjógirninu, né bólguviðbrögð á yfirborði garna, lífhimnu né innri líffæra. Af því má álykta að Vaidas hefði haft mjög góðar líkur á því að lifa, hefði hann komist undir læknishendur fyrr á sjúkdómsferlinu. Heimildir hafa lýst (tilv. 1) að við garnastíflu, ef ekkert drep er komið í görnina, getur dánartíðni verið svo lág sem 1,5 % ef viðkomandi kemst undir læknishendur. Aðrar heimildir (tilv. 2) hafa nefnt dánartíðni 0,3-6 % við stíflu án dreps.
Fimm stungusár voru á líkinu. Voru þau öll veitt eftir dauða því engin merki sáust um blæðingu, hvorki í mjúkvefjunum umhverfis hnífsstungurnar, né í lífhimnu, þind, magavegg eða mjógirnishengi, sem öll urðu fyrir áverka. Engin merki sáust um blóð í kviðarholinu en mikið hefði átt að blæða frá sárinu í lifrinni hefði Vaidas verið á lífi er hann hlaut stunguna. Aðeins á einu stungusáranna sást með vissu sljó brún, sem samrýmist eineggja eggvopni. Á sama sári, þar sem það gekk í gegnum undirliggjandi brjósk, var annar endinn króklaga, sem bendir til skörðótts blaðs, en athyglisvert er að skörðin eru sömu megin í sárinu og sljóa brúnin. Ekki er hægt að segja til um hvort allar stungurnar voru veittar með sama hnífnum. Ekki er hægt að segja til um í hvaða röð sárin voru veitt. Greinilegt er að sár B (í hægri brjóstkassa og inn í lifur) var veitt í útafliggjandi stöðu. Engir áverkar sáust á höndum mannsins, hvorki af því tagi sem kalla má varnaráverka né aðrar tegundir áverka. Ekki sáust merki um að afli hafi verið beitt á höfuð eða herðar mannsins. Engin merki sáust um að maðurinn hefði drukknað.
Réttarefnafræðilegar mælingar útilokuðu að maðurinn hefði látist af völdum eitrunar og því ljóst að fíkniefni hefur ekki lekið úr pakkningunum. Rofnu pakkningarnar í maga eru því væntanlega afleiðingar hnífstungu í maga. Engin merki sáust um eitranir af völdum annarra fíkniefna eða lyfja. Ekki sáust heldur merki þess að maðurinn hefði neytt lyfja skömmu fyrir andlát. Að beiðni lögreglu var séstaklega athugað hvort lyfið Contalgin (sem er morfín) fyndist í sýnum frá hinum látna. Niðurstöður þeirrar rannsóknar var sú að morfín væri ekki í mælanlegu magni (<5 ng/ml) í útæðablóði, hjartablóði, vökva úr kviðarholi eða þvagskoli. Við venjulega verkjameðferð hjá fólki, sem hefur ekki myndað þol gegn morfíni er í byrjun venjulega gefin 30 mg af Contalgin á 12 tíma fresti. Gera má ráð fyrir að morfín í blóði sé greinanlegt í a.m.k. 5 klst. eftir inntöku á einum slíkum skammti með aðferð þeirri sem hér var notuð. Má því telja líklegt að maðurinn hafi ekki fengið morfínskammt af þeirri stærð síðustu 5 klst. fyrir andlátið.
...........
Ljóst er að maðurinn var látinn er hann var settur í höfnina á Neskaupstað og ljóst er að hann var ekki nýlátinn er það var gert. Rotnunarbreytingar í líkinu eru það miklar að hann gæti hafa verið látinn í fáeina daga. Líkblettirnir eru greinilegastir framantil og ljóst að líkið hefur lengst af legið á grúfu. Ekki er hægt að segja til um hversu lengi líkið lá í höfninni en þar var kalt og líkið hefur varðveist vel í köldum sjónum. Ekki er hægt að segja til um dánartíma en út frá rotnunarbreytingum virðist það hafa verið nokkrum dögum fyrir líkfund.”
Læknirinn kom fyrir dóm og gerði nánari grein fyrir rannsókninni, eins og rakið verður.
Eftir tilvísun ákærða Grétars, en eftir nokkra leit, fannst hnífur í höfninni á Neskaupstað um 30 metrum sunnan við netagerðarbryggjuna.
Lagt var hald á byssur, boga, kylfu og hnífa hjá ákærða Grétari í Keldulandi 9 við leit þar og í bíl ákærða, 21. febrúar sl., og er þetta góss talið upp í ákærunni. Þá var lagt hald á margvíslega muni og skjöl sem ekki eru efni til þess að gera sérstaka grein fyrir.
Þá er þess að geta að gerð var leit að munum samkvæmt tilvísan ákærða Tomasar, sbr. hér á eftir. Í og við læk skammt fyrir ofan Víðistaðaspítala fannst lyklakippa og hlutar af farsíma.
Fyrir liggur að Vaidas Jucevicius átti bókað far héðan af landi brott 6. febrúar. Bókuninni var breytt 4. febrúar og brottförinni seinkað til 8. febrúar. Var þá greitt sérstakt gjald fyrir þá breytingu, 10.200 krónur. Daginn eftir, þ. e. 5. febrúar var aftur haft samband við söluskrifstofu Flugleiða og leitað hófanna um að brottförinni yrði flýtt til 6. febrúar en ekki var gengið frá þeirri breytingu.
Rannsókn málsins hefur m. a. beinst að bankaviðskiptum ákærðu í málinu um nokkurt skeið á undan atburðum málsins. Fyrir liggur að mjög litlar hreyfingar hafa verið á persónulegum reikningum Grétars þennan tíma. Við athugun á einum reikningi Jónasar Inga sást að 28. ágúst og 15. september í fyrra lagði Grétar samtals 684 þúsund krónur inn á þann reikning. Hinn 7. nóvember eru færðar af honum 200 þúsund krónur á reikning Tomasar og 2. desember er greiddur af honum rafmagnsreikningur fyrir Tomas.
Reikningur Tomasar ber það með sér að 7. nóvember til 1. desember, eru átta sinnum teknar út í Litháen með debetkorti hans, nokkurn vegin jafn háar fjárhæðir af reikningnum, samtals tæpar 300 þúsund krónur. Þá sést að Jónas Ingi leggur inn á reikninginn í peningum 200 þúsund krónur 7. nóvember og aftur 200 þúsund krónur 24. sama mánaðar.
Á nokkrum stöðum í málinu kemur fram að ákærðu höfðu stofnað saman og skráð félög. Ber þar hæst Menntastofuna og einkahlutfélagið MMRO (Marine Mammals Rights Organization, sem dómurinn ætlar að þýði Réttindasamtök sjávarspendýra), Keldulandi 9, Reykjavík (einnig heimili Grétars). Engin starfsemi var sögð fara fram í þessu félagi, sbr. hér á eftir, en þó liggur fyrir afrit af boðsbréfi félagsins á ensku til Kestutis Eidintas, litháísks manns, undirritað af öllum ákærðu og dagsett 20. nóvember í fyrra. Þar er manni þessum boðið hingað til lands að heimsækja stöð félagsins hér á landi og til þess að “samhæfa málefni R. s. s. á Íslandi og ræða um það að stofna R. s. s. í Litháen (coordinate matters of MMRO Iceland and discuss the establishment of MMRO in Lithuania)”. Í bréfinu er einnig látin í ljós sú von bréfritaranna að Kestutis sjái sér fært að koma fyrir mánaðarlokin því smala eigi í félagið í desember (membership drive), en ella að hann geti komið og verið með þeim yfir hátíðarnar. Kemur fram í bréfinu að félagið muni greiða ferðakostnað og uppihald mannsins. Bréf þetta var einnig sent danska sendiráðinu í Vilnius til þess að greiða fyrir vegabréfsáritun til handa manninum, en sendiráðið mun hafa synjað um áritunina. Þrátt fyrir það mun Kestutis þessum með einhverjum ráðum hafa tekist að komast inn í landið með fjölskyldu sína 2. desember, en svo farið af landinu aftur 22. sama mánaðar. Samkvæmt gögnum málsins virðist fólk þetta þó hafa verið hér á þjóðskrá 16. febrúar sl.
Fyrir liggur að inn á reikning félagsins MMRO lagði Jónas Ingi 500 þúsund krónur 24. nóvember og sama dag eru færðar af honum 200 þúsund krónur inn á reikning Tomasar. Þennan sama dag eru greiddar af reikningnum 53.760 krónur til Flugleiða. Þá eru 2. desember millifærðar rúmar 50 þúsund krónur á bankareikning hér í eigu Kestudis Eidintas, og sama dag er greidd húsaleiga fyrir Tomas. Hinn 5. janúar leggur Jónas Ingi 600 þúsund krónur í peningum inn á þennan reikning og samdægurs eru færðar af honum rúmar 358 þúsund krónur inn á reikning Arnunas nokkurs Ignotas í Litháen og enn sama dag færðar rúmar 179 þúsund krónur inn á reikning Birute Eidintiene, eiginkonu fyrrnefnds Kestudis Eidintas, í Landsbankanum.
Í málinu eru gögn um það að 4. desember hafi ákærði sent með milligöngu fyrirtækisins Western Union 80 þúsund krónur til manns að nafni Arturas Packauskas í Litháen og 16. janúar hafi hann á sama hátt sent rúmar 453 þúsund krónur til Kestudis fyrrnefnds Eidintas í Litháen.
Talsverð rannsókn var gerð á símtölum úr og í farsíma ákærðu. Meðal annars var samband þeirra við tiltekinn farsíma í Litháen athugað sérstaklega. Kom þá í ljós að sími ákærða Tomasar hafði tengst eða reynt hafði verið að tengja hann við þetta númer 88 sinnum frá 2. til 17. janúar og var nærri alltaf hringt héðan út. Önnur hrina hófst 2. febrúar og stóð fram á kvöldið 6. febrúar, samtals 65 skipti. Næstu daga var svo nokkrum sinnum hringt og reynt að hringja í þetta númer, síðast 11. febrúar, daginn sem líkið fannst í höfninni. Þá var leitt í ljós að sími ákærða Grétars tengdist eða verið reynt að tengja hann við þetta númer 13 sinnum seinni hluta janúar. Loks liggur fyrir að óskráður farsími, sem hringt var úr í kærustu Vaidasar Juceviciusar 3. febrúar, hafði frá 30. janúar til 2. febrúar 39 sinnum tengst eða reynt hafði verið að tengja hann við þetta númer. Í síma Grétars mátti sjá nafnið Kestas við þetta númer en samkvæmt gögnunum er það gælunafn fyrir Kestutis.
Í skýrslu sem ákærði Grétar gaf hjá lögreglu 27. febrúar, að viðstöddum verjanda, bar hann að hann hefði ekki vitað mikið um fíkniefnainnflutninginn en þó hefði hann vitað að Tomas tengdist honum. Hann neitaði því að hafa átt í efnunum en hann hefði þó hugleitt hvort hann gæti gert sér pening úr þessu. Hann hefði vitað að maðurinn væri með efnin innvortis og að hann ætti að dveljast hjá Tomasi í íbúð hans á Furugrund í Kópavogi. Kvaðst hann hafa flækst í mál þetta en Jónas Ingi hefði ekki átt hlut í þessum efnum og hefði rússnesk-litháískur mafíuhópur staðið að þessum innflutningi. Ákærði kvaðst hafa hringt á hótel til þess að spyrjast fyrir um verð á gistingu en ekki hefði orðið úr því að maðurinn dveldist á hóteli. Hann kvaðst ekki vita hvernig þessi innflutningur var kostaður en vissi þó að Jónas Ingi hefði oft sent peninga út og mikið aðstoðað Tomas við peningamillifærslur. Um þessar millifærslur vissi hann hins vegar ekki fleira. Hann kannaðist við að Tomas hefði hringt í hann eitt sinn, fyrir þessa atburði alla, til þess að spyrja um Jónas Inga og sagt að einhver hefði verið að hringja “brjálaður” yfir því að greiðsla hefði ekki skilað sér. Ekki vissi hann hvaða greiðsla þetta hefði verið. Hann kvaðst álíta að Tomas hafi átt þessi efni eða yfirboðarar hans. Ekki vissi hann hvernig hefði átt að dreifa þessum þeim en hann kvaðst hafa verið búinn “að ræða það”, hvort hann “ætti að gera það”, hvort hann “ætti að reyna það, að reyna að redda peningum. Það kom aldrei til þess”.
Ákærði kvað Tomas hafa hringt á þriðjudeginum þegar dróst að efnin gengju niður af manninum. Hefði hann farið heim til Tomasar og maðurinn þá verið með kviðverki. Hefðu “þeir” sagt að maginn á manninum væri “stútfullur” eiturlyfjum. Kvaðst ákærði hafa farið í verslunina Lyfju og keypt þar parafínolíu og fleiri hægðalyf handa manninum. Hann hefði svo vakað yfir manninum meira eða minna fram á miðvikudagsmorgun en honum hefði aðeins versnað. Kvaðst hann hafa lagt til við manninn að hann færi á spítala út af þessu en það hefði “verið þvertekið fyrir það”. Um daginn kvaðst hann hafa keypt stólpípu og fleiri hægðalyf. Hann hefði sumpart lagt út fyrir þessu og sumpart fengið peninga hjá Tomasi. Maðurinn hefði engu komið niður og verið með iðrakrampa. Hann hefði ekki verið með hita og liðið þolanlega þennan dag en að vísu kastað upp um kvöldið. Hefði verið ákveðið þá um kvöldið að maðurinn flygi út aftur því búið væri að útvega lækni erlendis. Jónas Ingi hefði reynt að fá farseðli mannsins breytt svo hann kæmist út á fimmtudeginum en það ekki verið hægt og far pantað út á föstudeginum. Hefði Tomas lagt út fyrir kostnaðinum af þessari breytingu. Ákærði kvaðst ekki muna hvernig ferðum Jónasar Inga var háttað meðan á þessu stóð en hann hefði komið við hjá Tomasi, þó ekki oft á miðvikudeginum, að hann taldi. Kvaðst hann hafa farið úr íbúðinni á Furugrund og dvalist annars staðar aðfaranótt fimmtudagsins. Um morguninn hefði Tomas hringt í miklu óðagoti og beðið sig koma til sín. Þegar þangað kom hefði maðurinn verið orðinn mjög þjáður. Hann kvaðst hafa spurst fyrir um það hvort Vaidas gæti komist með flugi út þann dag. Hefði þeim verið sagt að það væri ekki hægt. Hann kvaðst hafa farið og fengið keypt á svörtu sterkt verkjalyf, contalgin og gefið Vaidasi af því. Hefði Vaidas orðið hressari eftir þetta og orðið viss um að hann kæmist úr landi daginn eftir. Hann hefði verið með uppköst á fimmtudeginum en blóð ekki sést í ælunni. Þá hefði hann verið með lítils háttar hita, nokkrar kommur. Um kvöldið hefði honum hrakað mjög og vottur af blóði hafi farið að sjást í uppsölunni. Hafi hann engu getað haldi niðri, ekki einu sinni vatni og kominn með hita. Verkjalyfin hafi þó virst slá verulega á þrautirnar, þótt hann væri samt þjáður. Hann hefði verið staðráðinn í því að komast til útlanda og undir læknishendur. Tomas hefði verið þarna þetta kvöld og einnig hefði Jónas Ingi komið þarna seinnipartinn eða um kvöldið. Hefði Jónas Ingi lýst því yfir að ekki væri ástæða til þess að hafa áhyggjur af þessu. Hann þekkti til þessara hluta því fóstursonur hans stíflaðist stundum og þetta væri ekki hættulegt, þótt það væri að vísu kvalafullt, og liði þetta hjá. Tomas hafi verið mikið í símanum og talað litháísku. Hefði hann svo talað um að “menn skildu” þessa erfiðleika en vildu að Vaidas færi úr landi til þess að fá læknishjálp. Hann segir Vaidas ekki hafa talað ensku og því ekki hafa skilið hann vel. Hann hefði eitt sinn spurt hvort hann gæti ekki komist til læknis hér á landi en þá verið sagt að það væri búið að undirbúa að hann fengi læknishjálp úti og hann sætt sig við það. Um nóttina, aðfaranótt föstudagsins, hefði Vaidas verið orðinn töluvert veikur og þjáður en ákærði kvaðst ekki hafa þorað að gefa honum meira af verkjalyfinu. Hefði Vaidas samt verið staðráðinn í því að fljúga út um morguninn og koma sér undir læknishendur ytra. Um morguninn hefði Tomas farið út og sótt Jónas Inga og þeir tveir farið með Vaidas í flugið en sjálfur hefði hann verið orðinn örmagna og hætt við að fara með þeim. Hefði hann farið með þeim áleiðis en farið úr bílnum við Smáralind. Þar hefði hann tekið leigubíl og haldið aftur heim til Tomasar, þar sem hann hefði verkað upp eitthvað af ælunni og öðrum slíkum óþverra, sett í poka og líklega sett í sorplúguna þarna í húsinu. Hann hefði svo farið heim til sín í Kelduland 9 og reynt að sofna. Eftir hálfa eða eina klukkustund hefðu þeir hinir hringt og nú sagt að maðurinn væri farinn að æla talsverðu af blóði og vildi nú ekki fara í flugið, heldur heim til Tomasar að jafna sig og fá meiri verkjalyf. Hefðu þeir komið við hjá ákærða og hann farið með þeim í bílnum á Fururgrund. Hefðu þeir komið manninum í rúmið. Virtist ákærða hann mestmegnis vera með iðrakrampa, en að vísu einnig með blóðlita uppsölu. Hefði hann gefið honum meira af kontalgin-lyfinu og svo farið úr herberginu sem maðurinn lá í. Hann hefði svo heyrt kvein úr herberginu og einnig “að það slettist á gólfið”, að hann hélt mikil æla. Þegar hann kom inn hefði hann séð Vaidas detta fram úr rúminu og gefa upp öndina. Þá hefði hann séð að á gólfinu var mjög stór blóðpollur. Hann hefði reynt að lífga manninn við með því að blása í hann og hnoða en það hefði verið til einskis. Hefði meira blóð komið upp úr manninum þegar hann var að reyna að lífga hann við. Hann hefði haldið áfram þessum tilraunum en hætt þeim veitt manninum nábjargir þegar hann var farinn að stirðna. Hann hefði svo farið að biðja fyrir manninum. Þeir hinir hefðu verið inni í stofu á meðan þessu fór fram, dauðskelkaðir, og svo farið fljótlega út. Hann hefði svo lagst fyrir einhverja stund og líklega getað gleymt sér um stund. Þeir hinir hefðu farið í byggingavöruverslun þar sem þeir keyptu teppi, poka, límband, snæri og fleira sem þeir hefðu komið með eftir langa stund. Hefðu þeir þá verið komnir á jeppa frá bílaleigu. Hefði Tomas verið hálf-móðursjúkur og sagt að honum hefði verið sagt í síma að hann yrði að sjá um þetta og skildi ákærði hvað það þýddi, þ. e. að líf þeirra væri að veði. Kvað ákærði þá Tomas hafa sagt við sig að það yrði að koma manninum fyrir einhvers staðar. Hefði Tomas ámálgað það að fjarlægja efnin úr líkinu en ákærði kvaðst hafa tryllst við að heyra þetta og þá ekki rætt um það frekar. Hann kvað þá Jónas Inga hafa farið inn í herbergið og strokið framan úr líkinu með handklæði, eins og hægt var, en á meðan hefði honum heyrst Tomas vera að tala í símann, “meira og minna”. Þeir Jónas Ingi hefðu svo klætt efri og neðri hluta líksins í tvo poka og fest með lími og síðan vafið líkið í teppið. Hefði Jónas Ingi einnig vafið límbandinu um það og sjálfur hefði hann bundið um með snæri. Tomas hefði mest talað meðan á þessu gekk og tönnlast á því að nú væri úti um hann. Kvaðst ákærði hafa hastað á hann harkalega. Hefði hann búið sig að fara en þeir hinir þá sagt að þeir gætu ekki komið líkinu í bílinn án hans hjálpar. Hefði hann þá sagt þeim að lyfta líkinu upp á öxlina á sér og þannig hefði hann borið það út meðan þeir hinir, aumingjar, hefðu haldið í endana á stranganum og stýrt. Áður hefði Tomas verið búinn að opna bílinn og “leggja til sætin” og kvaðst ákærði hafa lagt líkið inn, aftur í bílnum. Hann kvaðst hafa kvatt þá og sagt þeim að hann ætlaði austur á land til móður sinnar, þar sem hann ætti heimboð, og yfirgefið þá. Hann kvaðst hafa haft fataskipti heima hjá sér og fleygt óhreinu fötunum í sorpið. Þeir hinir hefðu svo lagt af stað austur með líkið og hringt þegar þeir voru á leiðinni og tilkynnt sér það. Hefði hann bannað þeim að koma á eftir sér með líkið og sagt að þeir skyldu losa sig við það einhvers staðar á leiðinni. Hefði hann margsagt þetta við þá en þeir komið austur með líkið og höfðu þá elt frændur hans, Dag og Hlyn, sem þeir hefðu hitt af tilviljun. Þeir hefðu orðið innlyksa í tvær nætur á Djúpavogi vegna ófærðar en svo birst í heimreiðinni hjá ákærða á Neskaupstað með líkið í bílnum. Hann hefði farið út til þeirra í bílinn og þar hefði orðið rifrildi með þeim vegna þessa tiltækis þeirra. Hann hefði séð að teppið með líkinu hefði verið með sömu ummerkjum og þegar hann setti það í jeppann. Þeir hefðu svo ákveðið að koma líkinu einhvers staðar fyrir þarna fyrir austan. Hefðu þeir ekið um til þess að sjá út heppilegan stað. Að endingu hefði verið ákveðið að sökkva líkinu í höfnina við Netagerðina, enda hafi þar verið allt sem til þurfti, sökkur, snæri og hvað eina. Hefðu þeir þrír farið þangað um miðnættið á sunnudagskvöldið og hann ekið jeppanum. Þar hefðu þeir tekið líkið út og velt því úr teppinu. Tomas hefði sett teppið aftur inn í bílinn en sjálfur hefði hann fest við það keðju og skoppara, sem þarna voru, til þess að sökkva líkinu. Hann hefði fengið skeiðarhníf hjá Tomasi og stungið í líkið til þess að ekki myndaðist í því loft. Hnífnum hefði hann svo hent í höfnina. Hann hefði svo tekið um axlir líkinu en Jónas Ingi um fæturna og þeir hent því í sjóinn.
Ákærði Grétar var yfirheyrður að nýju, mánudaginn 1. mars sl. að viðstöddum verjanda sínum. Hann var þá spurður af hverju hann hefði látið blanda sé í þetta mál. Kvað hann Tomas hafa sagt sér að von væri á manni með amfetamín innvortis áður en hann fór suður á flugvöll með þeim tveimur til þess að taka á móti manninum. Kvaðst hann hafa gert þetta af greiðasemi við vin sinn, Tomas að skutla honum suður eftir. Í öðru lagi hefði Tomas beðið hann að hjálpa sér daginn eftir þegar efnin gengu ekki niður af honum og honum þá fundist að hann yrði að hjálpa þeim þar til maðurinn hefði losað sig við efnin eða kominn undir læknishendur. Tomas hefði einnig komið þeim skilaboðum til sín að ef hann ekki aðstoðaði þá yrði honum og hans fólki gert mein. Hefði hann tekið þetta sem hótun og vitað að Tomasi hefði einnig verið hótað af sömu mönnum. Til marks um þetta sagði hann að 4. febrúar þegar hann hefði verið hjá Tomasi og manninum hefði Tomas komið og sagst hafa fengið þau skilaboð frá “þeim” að ef ákærði ekki aðstoðaði Vaidas við að skila frá sér efnunum myndi hann hafa verra af og væri ekki víst að hefndin kæmi niður á ákærða sjálfum. Hefði hann þá óttast að sambýliskonu hans yrði gert mein og ákveðið að veita aðstoð eins og um var beðið. Hann hefði síðar fengið skilaboð með sams konar hótun varðandi aðstoð við að koma manninum í flug til útlanda og í þriðja lagi hefði hann fengið skilaboð af þessu tagi varðandi hjálp við að losna við líkið af manninum. Hefði hann álitið þessi skilaboð koma frá yfirboðurum Tomasar. Hann áleit þessa menn eiga fíkniefnin sem Vaidas flutti inn og að Tomas hefði átt að sjá um að taka á móti manninum. Hefði hann örugglega vitað það ef Jónas Ingi ætti í fíkniefnunum. Aftur á móti hefði Jónas Ingi vitað að maðurinn var að flytja inn efnin innvortis í sér því Tomas hefði sagt þeim það báðum. Hlutverk Jónasar Inga í þessu hefði verið það að fara í flugstöðina og taka á móti Vaidasi, eins og hann hefði tekið á móti mörgum útlendingum sem hann hefði aðstoðað við að fá hér dvalar- eða atvinnuleyfi og fleira. Ekki hefði hann þó verið að aðstoða Vaidas við slíkt, þótt það hefði átt að líta svo út, en hann hefði sem sagt vitað að Vaidas var með fíkniefni. Þeir Jónas Ingi og Tomas hefðu ákveðið að svona skyldi tekið á móti manninum. Um það hvort hann sjálfur hefði ætlað að koma efnunum í dreifingu hér á landi sagði hann að hann hefði hugleitt það og að verða sér þannig úti um peninga. Hann hefði hinsvegar ekki rætt þetta við þá hina.
Ákærði kvaðst vera gjaldþrota og eignalaus. Hann kannaðist við að hafa farið í tvær ferðir til Noregs í desember til þess að kanna möguleika á því að markaðssetja hús frá Litháen í Noregi. Í síðari ferðinni hefði hann hitt Litháa sem heiti Arturis, eða eitthvað líkt því, og sé sá maður í tengslum við húsasmiðju í Litháen. Þeir Tomas þekkist vel og hefði maðurinn komið og dvalist hjá Tomasi um jólin. Hann hefði keypt einhvern gjaldeyri fyrir fyrri ferðina en ekki þá síðari, eða aðeins smáræði. Þá hefði hann þrotið fé og þeir Jónas Ingi og Tomas þá þrisvar sinnum sent honum peninga út með milligöngu Western Union, einu sinni fyrir 60 þúsund krónur og í annað sinn 20 þúsund en ekki mundi hann hve þriðja sendingin var há. Þá kvaðst hann hafa farið til Litháen í október á síðasta ári að skoða sumarhús og sumarhúsasmiðjur, panel, stál og fleira með það fyrir augum að eiga arðsöm viðskipti. Í þessari ferð með honum hefði verið maður sem ákærði kvaðst halda að héti Kestis og hefði búið með Tomasi á Furugrund um skeið. Hefðu þeir Tomas verið frá sama bæ og kvaðst ákærði hafa dvalist hjá manni þessum þar ytra. Fyrir þessa ferð hefði hann keypt gjaldeyri fyrir um 100 þúsund krónur og hefði hann lagt til hluta þessarar fjárhæðar en þeir Tomas og Jónas Ingi hinn hlutann. Hefði hann verið með afgang þegar hann kom heim úr ferðinni. Kestis þessi hefði mikið reynt til þess að fá Tomas til þess að útvega sér dvalar- eða atvinnuleyfi hér á landi.
Ákærði kvaðst vita til þess að Jónas Ingi hefði millifært einhverja peninga til Litháen fyrir Tomas, fyrir 100 til 200 þúsund krónur, handa föður Tomasar.
Ákærði sagði aðspurður um símtöl Tomasar, sbr. fyrri skýrslu hans, að Tomas hefði talað litháísku í símann og virst taka þar við fyrirmælum. Ekki vissi hann frá hverjum eða hvaðan.
Ákærði sagði aðspurður að Vaidas hefði aldrei óskað eftir því að fá læknishjálp hér á landi heldur viljað fá hana erlendis. Hefði hann einungis beðið um verkjalyf. Á fimmtudeginum kvaðst ákærði hafa spurt Jónas Inga hvort ekki væri rétt að fá lækni handa manninum en hann þá svarað að hann þekkti til dæma um stíflu í meltingarvegi og væri slíkt ekki hættulegt. Hefði hann vakið máls á þessu aftur við Jónas Inga og spurt hvort hann þekkti ekki einhvern lækni hér sem gæti hjálpað en Jónas Ingi hefði sagt eftir umhugsun að hann þekkti engan og ekki þyrfti að hafa áhyggjur af þessari stíflu. Hún væri óþægileg en ekki hættuleg. Þá vissi hann að Tomas hefði einnig talað við Jónas Inga um þetta en fengið sömu svör. Hefðu þeir talað við Jónas Inga um þetta því hann virtist þekkja til þessara hluta þar sem fóstursonur hans væri stundum stíflaður.
Ákærði kvað Tomas hafa verið allan tímann með Vaidasi heima hjá sér og Jónas Ingi hefði komið nokkrum sinnum þangað á þessum tíma, þar á meðal á fimmtudagskvöldinu. Hefðu þeir því allir verið hjá manninum og rætt um hvernig skyldi bregðast við veikindum hans. Jónas Ingi tali dálítið í þýsku sem Vaidas hefði talað og hefði hann reynt að stappa stálinu í hann. Hefði það svo verið að morgni fimmtudagsins að ákveðið var að koma Vaidasi úr landi og undir læknishendur. Hefðu þeir þegar reynt að fá far þann dag en það ekki tekist og þá ákveðið að hann færi morguninn eftir til Litháen um Kaupmannahöfn, að ákærði hélt. Hefði Tomas verið í sambandi við einhvern í Litháen sem hefði ákveðið þetta og útvegaði lækni þar. Síðan hefði brottförinni enn verið frestað til 8. febrúar og það verið að beiðni Vaidasar sjálfs því hann hefði viljað fá nægan tíma til þess að skila frá sér efnunum.
Ákærði sagði að þegar leiðir þeirra hefðu skilið á föstudagsmorgninum hefðu þeir Jónas Ingi og Tomas ætlað að koma líkinu einhvers staðar fyrir og hefði Jónas Ingi talað um einhverja hraunsprunguna í því sambandi. Þeir hefðu svo verið í símasambandi föstudaginn og um kvöldið einnig. Fyrri hluta laugardags hefði Jónas Ingi lagt mikla áherslu á það að þeir Tomas kæmu alla leið til Neskaupstaðar og að þar myndu þeir allir koma líkinu fyrir. Hefði hann ekki tekið vel í það en hann minnist þess að hafa spurt móður sína þann dag hvort þeir hinir mættu gista þar. Það hefði því verið ákveðið á laugardeginum að svo skyldi vera.
Ákærði sagði þá Jónas Inga báða hafa hringt á hótel til þess að grennslast fyrir um gistingu fyrir Vaidas 2. febrúar en Tomas hefði svo sagt þeim að hætta við það því Vaidas myndi gista hjá honum.
Ákærði sagði, aðspurður um hringingu í norskt símanúmer, að líklega væri um að ræða símtal við kunningja hans í Osló varðandi möguleika á samstarfi um veitingahúsrekstur. Að öðru leyti sagðist hann hafa lánað Jónasi Inga símann sinn og gæti hann ekki upplýst um önnur númer sem hringt hefði verið í.
Ákærði var yfirheyrður aftur miðvikudaginn 10. mars sl. að viðstöddum verjanda sínum. Sagði hann að Tomas hefði gefið sér til kynna 4-8 dögum fyrir komu Vaidasar til landsins að hann ætti von á sendingu og sagðist hann hafa skilið þetta svo að um fíkniefnasendingu væri að ræða. Hefði Tomas sagst þekkja menn sem gætu flutt innvortis 3 500 grömm af fíkniefnum. Einum eða tveimur dögum síðar hefði hann spurt út í þetta og Tomas þá sagt að maður væri væntanlegur með amfetamín innvortis, en ekki sagt hversu mikið. Kvaðst hann hafa sagt Jónasi Inga þetta, líklega helgina á undan komu Vaidasar, en Jónas Ingi þá verið búinn að fá veður af þessu en ekki vitað um magnið. Kvað hann þá Jónas Ingi hafa rætt um það hvort þeir ættu að notfæra sér þetta tækifæri og græða á því að dreifa efninu. Ekkert hafi þó verið ákveðið um þetta. Nánar aðspurður sagði ákærði að Tomas hefði spurt sig hvort hann vildi taka þátt í því að dreifa efnunum. Kvaðst hann hafa gælt við þá hugmynd og rætt hana við Tomas en svo séð á þessu ýmsa meinbugi og sagt Tomasi þá. Einnig hefði hann rætt þessa hugmynd við Jónas Inga og þar komið tali þeirra að best væri að taka inn mikið magn í einu, jafnvel 100 grömm. Mætti nota hluta hagnaðarins til þess að halda gangandi fyrirtæki þeirra sameiginlegu, Menntastofunni ehf.
Ákærði sagði að hann hefði lítið getað talað við Vaidas vegna tungumálaerfiðleika. Hann sagði að eftir að Vaidas veiktist hefði hann sjálfur viljað komast til læknis sem hægt væri að borga beint og mætti treysta til þess að segja ekki frá fíkniefnunum. Kvaðst ákærði hafa rætt þetta við Jónas Inga sem ekki hefði vitað um slíkan lækni. Hefðu þeir sagt Vaidasi þetta og hann þá viljað komast úr landi svo hann gæti komist að hjá slíkum lækni ytra. Hefði það verið á miðvikudeginum að Vaidas nefndi slíkt í fyrsta sinn.
Ákærði sagði aðspurður að þegar þeir hinir komu akandi heim til hans með Vaidas á föstudagsmorgninum hefði hann setið í hnipri í aftursætinu og kveinkað sér. hefði hann umlað og ælt. Hann kvaðst ekki minnast þess að þá hefði komið fram hjá honum að hann vildi fara strax til læknis, en hann hefði að vísu ekki skilið nema takmarkað af því sem Vaidas sagði. Hann sagði þá hafa ekið rakleiðis að Furugrund 50 og hefðu þeir Jónas Ingi tekið hvor undir sinn handlegg hans og stutt hann upp stigana að íbúðinni og mætt manni á leiðinni upp. Hefði Vaidas átt bágt með að standa í fæturna og verið í kút. Eftir að þeir voru komnir upp hefðu þeir Jónas Ingi og Tomas þráttað um að fara á spítala með Vaidas og skilja hann þar eftir eða til læknis. Sjálfur hefði hann þá verið önnum kafinn við að sinna Vaidasi sem hefði verið mjög kvalinn og ekki átt þátt í þessu tali. Aðspurður hvort hann hefði ekki óttast að Vaidas væri að deyja, sagði hann að hann hefði ekki vitað það en benti á að Jónas Ingi hefði sagt fram að þessu að Vaidas væri örugglega með þarmastíflu eins og fóstursonurinn og væri slíkt ekki lífshættulegt. Þá sagðist hann ekki hafa þorað að fara með manninn á spítala en einnig hefði hann haldið að þetta myndi lagast.
Ákærði kvaðst hafa tekið eina töflu af contalgin eftir að Vaidas var dáinn og þeir hinir höfðu farið út og hafa getað gleymt sér um stund. Þá sagði hann að skömmu eftir að Vaidas var dáinn hefði borist í tal með þeim þremur hvort ætti að skera í líkið til þess að ná efnunum. Kvaðst hann strax hafa sagt að það kæmi ekki til greina. Hann kvaðst vita til þess að þeir hinir hefðu rætt þetta á leiðinni austur og hefði Jónas Ingi sagt sér eftir að þeir voru komnir austur á Neskaupstað að Tomas vildi gera þetta. Kvaðst hann hafa aftekið þetta.
Ákærði var enn yfirheyrður 18. mars að viðstöddum verjanda sínum. Kvaðst hann þá hafa hitt Vaidas fyrst á Loftleiðahótelinu eftir komuna til landsins. Ákærði var ennfremur spurður út í greiðslur hans inn á reikning Jónasar Inga 27. ágúst og 15. september sagði hann að hluti þeirra greiðslna, 134 þúsund krónur, hlyti að hafa verið eitthvað fyrir fyrirtækið Menntastofu, en greiðsla á 550 þúsund krónum hefði verið laun sem Jónas Ingi hefði unnið sér inn hjá Sæsilfri á Mjóafirði við að setja upp marglittugildrur. Hefðu þeir verið þrír við þetta og þetta væri hluti Jónasar Inga. Hann kvað Jónas Inga hafa séð um öll mál sem tengdust MMRO.
Ákærði var spurður út í símtengingar við farsímann í Litháen sem gerð er grein fyrir hér að framan. Hann kvaðst þekkja einn Kestas og væri það Kestutis Eidintas. Hann skýrði þessar tengingar svo að sími Tomasar hefði verið lokaður á þeim tíma og Tomasi fengið að hringja hjá honum.
Ákærði var ennfremur spurður út í skotvopn, hnífa og annað sem fannst við húsleit á heimili hans í Keldulandi 9. Hann kannaðist við að hafa haft þessa muni alla í vörslum sínum og að eiga loftriffilinn og skammbyssuna.
Ákærði kom fyrir dóm daginn eftir vegna kröfu um framhald gæsluvarðhalds yfir honum. Staðfesti hann þá lögregluskýrslurnar, 27. febrúar, 10. og 18. mars sl. Kvaðst hann þá hafa vitað þegar hann lagði af stað til Keflavíkur til þess að ná í Vaidas að hann hefði fíkniefni meðferðis og taldi Jónas Inga hafa vitað það líka. Hefðu þeir enda rætt um fíkniefnainnflutninginn tveimur kvöldum áður. Hefðu þeir vitað að Vaidas myndi flytja efnin innvortis en ekki nákvæmlega hvernig. Aftur á móti hefðu þeir aldrei rætt um fíkniefnainnflutninginn eða dreifingu efnanna þrír saman. Hann kvað það hafa verið skipun yfirboðara Tomasar og ósk Vaidasar sjálfs að hann færi til læknis erlendis og hefði þeim öllum verið kunnugt um þetta. Hefði hann margsinnis lagt til að Vaidasi yrði komið til læknis hér á landi en yfirboðarar Tomasar, sem hann kunni ekki deili á, hefðu bannað það.
Ákærði Tomas gaf skýrslu hjá lögreglu 4. mars sl., en ekki eru efni til þess að rekja fyrri skýrslur hans í málinu. Fór yfirheyrslan fram á ensku að viðstöddum verjanda ákærða og með löggiltum dómtúlki í ensku. Var það sérstaklega bókað eftir verjandanum að ákærði gæti skilið og talað ensku. Ákærði kvaðst hafa þekkt Vaidas frá fornu fari heima í Litháen. Um tveimur mánuðum fyrir þessa atburði hefði hann hringt í Vaidas og beðið hann um að flytja fíkniefni til Íslands. Hann hefði ákveðið að gera þetta þar sem hann hefði verið að mestu óvinnufær eftir bílslys fyrir um ári. Hefði hann séð í þessu von um skjótfenginn gróða. Hann hefði ekki greitt fyrirfram þessi fíkniefni. Hefði þetta verið hans fyrsta tilraun á þessu sviði og hefði hann einn staðið að innflutningnum. Ekki vissi hann hvernig Vaidas hefði orðið sér út um fíkniefnin í Litháen, en það væri mjög auðvelt. Þá skýrði ákærði frá því að mánudagskvöldið 2. febrúar hefði hann ekið með þeim Grétari og Jónasi Inga suður á Keflavíkurflugvöll til þess að taka á móti Vaidasi Juceviciusi sem hefði verið að koma frá Danmörku með fíkniefni innvortis. Þeir Grétar og Jónas Ingi hefðu ekið þeim Vaidasi heim til ákærða á Furugrund en ekki komið inn með þeim. Kvaðst ákærði hafa gefið Vaidasi fyrirmæli um að reyna að losa sig við fíkniefnin þessa nótt en það hefði ekki gengið. Daginn eftir hefði Vaidas fengið kviðverki og sagt að hann hefði áður átt að stríða við veikindi í maga og sýnt ör eftir skurðaðgerð. Hefði hann farið og keypt vítamín að beiðni Vaidasar en það hefði ekki gagnast honum. Hefðu þeir Vaidas því farið heim til Grétars og Vaidas beðið í bílnum á meðan ákærði fór inn. Hefðu þeir Vaidas farið í lyfjaverslun og keypt hægðalyf sem hefðu lítið hjálpað. Hefði Vaidas viljað fá að sofa en ákærði synjað um það og lagt að honum að hann reyndi að losna við efnin. Þeir hefðu farið aftur að kaupa hægðalyf en þau hefðu að engu gagni komið. Hefði Vaidasi versnað um daginn. Grétar hefði verið með þeim megnið af deginum og nóttina á eftir á Furugrund 50. Hefði Grétar sagt kærustu sinni að hann væri veikur á spítala. Þeir Grétar og Vaidas hefðu sofið mikið þennan tíma en sjálfur hefði hann horft á myndbönd. Daginn eftir hefði Vaidasi versnað enn og hann sagst vera stíflaður. Hefði hann litlu komið niður. Hefði hann viljað fá stólpípu og þeir farið og keypt hana. Kvaðst ákærði hafa hjálpað Vaidasi með hana eftir leiðbeiningum sem Grétar hefði fengið símleiðis frá lyfjabúðinni. Jónas Ingi hefði verið með þeim á Furugrund á þessum tíma og kvaðst ákærði hafa beðið þá Grétar að hjálpa sér þar sem hann var ósofinn og úrvinda og ráðalaus.
Ákærði kvaðst hafa sagt Vaidasi að fara til læknis hér, en
jafnframt gert honum grein fyrir því að ef hann færi til læknis kæmist upp um
þá. Hefði Vaidas þá ekki viljað fara til
læknis hér á landi. Þennan dag, að
hann áleit, hefði hann fengið Jónas Ingatil að breyta flugfarseðli Vaidasar.
Hefði Vaidas ætlað út 6. febrúar en
vegna vandræðanna hefði hann viljað
fresta brottförinni til 8. febrúar. Síðar hefðu þeir ákveðið að breyta
farseðlinum aftur þannig að hann kæmist í flug á fimmtudagsmorgni, 5.
febrúar. Það hefði hins vegar reynst mögulegt þegar Jónas Ingi hefði athugað
með það og því verið pantað far fyrir hann morguninn eftir. Hefði Vaidas ætlað
heim aftur með fíkniefnin innvortis og leita þar læknis. Á fimmtudaginn hefði líðan hans haldið áfram að
versna. Hann hefði komið litlu niður og verið mjög slæmur í maga. Ákærði
segir þessa daga renna saman í eitt fyrir sér og
gæti hann því ekki gert nákvæma grein fyrir hverjum degi fyrir sig. Aðfaranótt
föstudagsins hefði Grétar verið hjá
þeim á Furugrund 50 og þeir lagt
snemma af stað þá nótt með Vaidas út á flugvöll. Hefðu þeir komið við heima hjá Jónasi Inga að
Gljúfraseli og sótt hann. Kvaðst hann sjálfur hafa ekið og hefði Vaidas setið í
framsætinu, en þeir Jónas Ingi og
Grétar aftur í. Grétar hefði farið úr bílnum á Dalvegi í Kópavogi við
bensínstöð og ætlað heim.
Vaidas hefði þá ekki getað setið lengur í framsætinu og fært sig í aftursætið.
Þeir Jónas Ingi hefðu ætlað áfram á Keflavíkurflugvöll með Vaidas, sem hefði
verið mjög illa haldinn
þegar hér var komið sögu. Hann hefði að vísu getað gengið en lítið getað hreyft
búkinn vegna mikilla
verkja. Þegar þeir hefðu verið komnir vel áleiðis til Keflavíkurflugvallar
hefði honum snöggversnað og hann sagt að hann væri kannski að deyja. Hefðu þeir
þá verið komnir að Grindavíkurafleggjaranum og strax snúið til baka og tekið stefnuna
aftur til Reykjavíkur. Hefði Vaidas kastað
upp í bílnum og verið mjög illa haldinn. Þeir Jónas Ingi hefðu hringt í Grétar
og sagt honum hvað væri að gerast og að Vaidas þyrfti að komast til
læknis strax. Hefði Vaidas hins vegar ekki viljað fara til læknis. Hefði verið ákveðið að þeir sæktu
Grétar heim til hans í Kelduland og færu aftur í Furugrundina. Þegar þangað komið hefði Vaidas verið svo illa haldinn að hann hefði varla getað gengið
og þeir Jónas Ingi og Grétar því stutt hann upp í íbúðina. Hefðu þeir þá
rekist á einn íbúa í fjölbýlishúsinu sem hefði séð þá bera Vaidas upp í
íbúðina. Þeir hefðu lagt Vaidas í rúm ákærða
og hefði Vaidas verið mjög kvalinn. Hefði
honum hrakað mjög hratt og hann sagst vera hættur að finna fyrir fótunum. Hann
hefði haldið áfram að kasta upp og
kastað upp blóði í rúmið og einu sinni á gólfíð og sagt að hann væri að deyja. Skömmu síðar hefði hann oltið
úr rúminu og dáið mjög skyndilega.
Ákærði sagði þá alla hafa velt því fyrir sér
hvað þeir ættu að gera við líkið af Vaidasi. Hefðu þeir verið sammála um að koma líkinu fyrir því þeir gætu ekki farið í
fangelsi. Kvaðst ákærði hafa brotið GSM-síma sem
Vaidas hafði fengið hjá honum og hent í ruslið. Jónas Ingi hefði sagt við hann að
vera rólegur og að þeir myndu “redda” þessu. Kvaðst ákærði hafa stungið upp á
því að grafa Vaidas í kirkjugarði en það
hefði ekki getað gengið vegna þess að jörð var frosin. Þá hefði hann
lagt til að aka með líkið að einhverri lögreglustöð og skilja það eftir við
útidyrnar. Hefði Grétar þá spurt hvort hann væri að spauga. Hann sagði þá
jafnframt hafa velt því fyrir sér hvort þeir ættu að skera líkið upp og ná í fíkniefnin, en enginn viljað gera það og sjálfur
hefði hann ekki getað hugsað sér það
að þeir gerðu slíkt. Kvaðst hann hafa
verið í mikilli geðshræringu og ekki getað snert á líkinu. Hefði Jónas Ingi
tekið á sig rögg og byrjað að þrífa ælu og blóð af gólfunum en Grétar hefði
hringt símtal. Eftir það hefði hann sagt þeim að hann ætlaði með flugi
til móður sinnar, en hún hefði verið búin að bjóða honum til sín. Hefði hann
jafnframt lagt til að þeir færu með líkið austur á Neskaupstað og kæmu því þar fyrir. Á meðan hefði Jónas Ingi þrifíð svefnherbergið þar sem Vaidas lést. Þá
hefði Jónas Ingi sett líkið í tvo
svarta stóra ruslapoka sem hefðu verið til hjá ákærða. Mikill ódaunn hefði
verið í íbúðinni og honum legið við uppsölu af honum. Þeir hefðu allir samþykkt tillögu Grétars og kvaðst ákærði hafa stungið
upp á því að þeir leigðu bílaleigubifreið - jeppa til að flytja líkið. Hefðu
þeir Jónas Ingi hefðu farið á bílaleigu, en Grétar hefði orðið eftir. Þar hefðu
þeir tekið á leigu Pajero-jeppa og ekið að heimili Jónasar Inga í Gljúfraseli
og skilið bílinn sem þeir höfðu farið á eftir í bifreiðastæði þar. Hefði Jónas Ingi talað stuttlega við Guðnýju, sambýliskonu
sína en þeir svo farið á jeppanum í BYKO þar
sem þeir keyptu teppi, límband og bönd, sem þeir hafi komið fyrir í jeppabifreiðinni. Þaðan hefðu þeir farið í
Rúmfatalagerinn og keypt handklæði, vettlinga og húfur eða hárbönd. Handklæðin hefðu þeir keypt gagngert
til að nota við að þrífa íbúðina í Furugrund, en vettlingana og húfurnar hefðu þeir keypt til ferðarinnar austur. Þeir
hefðu svo farið og fengið sér að borða á veitingastað og haft með sér þaðan mat
handa Grétari, sem beið þeirra á Furugrund. Hefðu Grétar og Jónas Ingi vafið líkinu inn í teppið og
búið um það fyrir flutninginn en hann hefði sjálfur ekki getað snert á
líkinu og ekki tekið þátt í þessu og ekki fylgst með því en þeir hafi gert
þetta á forstofugangi íbúðarinnar. Þeir hefðu sett líkið út í jeppann þannig
Grétar hefði tekið það upp á öxlina og þeir
hinir haldið hvor um sinn enda teppisstrangans. Hefðu þeir lagt niður
farþegasætið aftan við bílstjórasætið og komið líkinu fyrir í bílnum um afturdrnar. Hefði stranginn með líkinu
náð frá sætisbaki bílstjórasætis aftur að afturhurðinni. Hann sagðist hafa sett allt sem tilheyrði Vaidasi
í ruslapoka sem þeir ætluðu að henda. Grétar hefði flogið austur en þeir Jónas Ingi þegar
ekið af stað og haldið áleiðis austur á Neskaupstað að hitta Grétar þar.
Fljótlega eftir að þeir lögðu af stað hefði
farið að snjóa og veður versnað og haldið áfram að versna á leiðinni með
mikilli snjókomu. Á leiðinni hefðu þeir þurft að aðstofa tvær stúlkur vegna
ófærðar og þá hefði þar borið að bræður sem voru á austurleið, frændur
Grétars, sem ákærði þekkti. Hefðu þeir haldið áfram austur í samfloti vegna
ófærðarinnar. Þeim hefði miðað hægt áfram vegna veðurs og hefði hann óttast það
að bræðurnir kæmust að því hvað þeir væru að flytja en Jónas Ingi hefði stappað
í hann stálinu. Vegna ófærðarinnar hefðu þeir allir orðið að taka sér gistingu
á hóteli á Djúpavogi þegar þeir náðu þangað
seint um kvöldið. Hefði Jónas Ingi haldið áfram að stappa í hann stálinu. Morguninn
eftir, laugardaginn 7. febrúar s.l., hefi verðrið enn verið slæmt og allt ófært. Hefðu þeir loks komist heim til Grétars
síðdegis á sunnudeginum, þar sem þeir fengu að borða. Að því loknu hefðu þeir farið af stað á Pajero jeppabifreiðinni
og Grétar ekið. Hann kvað þá Grétar báða hafa verið með hníf á sér. Þeir
hefðu ekið bæði um Norðfjörð og Eskifjörð.
Hefði þeim orðið það ljóst að ekki væri hægt að grafa líkið í jörð, vegna
fannfergis og frosts í jörðu. Þeir hefðu því ákveðið að varpa líkinu í
sjóinn og leitað að heppilegum stað til þess. Einnig hefðu þeir leitað að
einhverjum þungum hlutum sem þeir gætu notað til að þyngja líkið. Um kveldið
hefðu þeir ákveðið að varpa líkinu í höfnina
við Netagerðarbryggjuna og þegar komið var fram undir miðnætti hefðu þeir sótt
bönd í skúr hjá foreldrum Grétars. Kvaðst ákærði hafa látið Grétar fá
hníf sinn og þeir ekið niður að
netagerðarbryggjunni, Grétar undir stýri. Þar hefði hann bakkað inn á bryggjuna en sjálfur hefði hann farið úr
bílnum og við akbrautina að
bryggjunni og staðið þar á verði. Þeir Grétar og Jónas Ingi hefðu séð um
það að varpa líkinu í höfnina. Kvaðst ákærði ekki hafa séð hvernig þeir bjuggu
um líkið áður en því var varpað í höfnina. Grétar hefði svo sagt honum að þeir hefðu stungið í
líkið til að ná lofti úr því. Þá
kvaðst hann vita að Grétar hefði kastað hnífnum í höfnina út frá netagerðarbryggjunni. Eftir að þeir hinir höfðu varpað líkinu í höfnina hefði teppið verið
sett aftur í jeppann og þeir farið heim til foreldra Grétars að sofa.
Daginn eftir hefðu þeir Jónas Ingi haldið aftur suður og hann ekið en Jónas
Ingi sofið megnið af leiðinni. Hefðu þeir keypt hreinlætisvörur á Hvolsvelli og
einnig á Selfossi til þess að þrífa íbúðina.
Þar hefðu þeir einnig fleygt teppinu og öðru dóti, sem þeir voru með, í
ruslagám. Seint um kvöldið hefðu þeir
komið til Reykjavíkur og hann ekið Jónasi Inga að Gljúfraseli. Hann
hefði svo þrifið íbúðina rækilega og eins hefði bíllinn, sem þeir ætluðu á til
Keflavíkur, verið þrifinn. Einnig hefðu þeir losað sig við eigur Vaidasar á
ýmsum stöðum. Þegar sagt hefði verið frá líkfundinum í fréttum hefðu þeir losað
sig við það sem eftir var af eigum hans, lyklakippu og farsímabrot í læk í
Heiðmörk. Hann kannaðist við að hnífur sá sem fannst í höfninni á Neskaupstað
væri hnífurinn sem hann hefði látið Grétar
fá.
Ákærði gaf fleiri skýrslur hjá lögreglu eftir þetta. Verða þær ekki raktar hér í heild en vikið að nokkrum atriðum úr þeim yfirheyrslum.
Í skýrslu 11. mars var ákærði spurður út í það að hann hefði hringt 7 sinnum í Kestutis Eidintas eftir kl. 23.17 að kvöldi 2. febrúar sl. þegar Vaidas Jucevicius átti að vera kominn út úr flugstöðinni. Sagðist hann vera í mjög nánu sambandi við Kestutis en það hefði ekkert með Vaidas að gera eða fíkniefnainnflutninginn. Hann segir Kestutis hafa búið hjá sér á Furugrund og kvaðst treysta honum eins og hann væri faðir hans, enda eldri og lífsreyndari. Hefði hann því oft ráðfært sig við hann, þ. á m. um veikindi Vaidasar eftir að þau komu upp.
Ákærði var yfirheyrður 17. mars, m. a. um peningagreiðslur og reikningsfærslur sem gerð hefur verið grein fyrir. Hann neitaði því að þær hefðu nokkuð með fíkniefni að gera og kvað hann Jónas Inga hafa séð um slíkt fyrir hann þar sem honum hefði gengið illa í bönkunum vegna tungumálaerfiðleika. Um notkun á greiðslukorti ákærða í Litháen 7. nóvember til 1. desember sl. sagði ákærði að þær væru ekki tengdar fíkniefnaviðskiptum en af persónulegum ástæðum vildi hann ekki tjá sig um þær. Greiðsluna frá MMRO til flugleiða 24. nóvember að fjárhæð 53.760 krónur kvaðst hann ekki geta skýrt en Jónas Ingi ætti að geta það þar sem hann væri stjórnandi þess fyrirtækis. Um greiðsluna til Kestudis Eidintas, rúmar 50 þúsund krónur sagðist hann ekki muna þetta alveg en gat þess að hann hefði oft beðið Kestudis að kaupa fyrir sig hluti í Litháen, einkum þegar hann vissi að ferð félli þaðan. Um húsaleigugreiðsluna sagðist hann hafa afhent Jónasi Inga peningana til þess að greiða húsaleiguna fyrir sig. Jónas Ingi hlyti að hafa gert það í gegn um fyrirtækið. Um greiðsluna til Arunas Ignotas sagði ákærði að hún væri greiðsla á skuld og hefði Jónas Ingi Tekið að sér að sjá um hana. Þeir Arunas væru frá sama bæ en hann neitaði að skýra frekar tengsl þeirra. Millifærsluna sem Jónas Ingi hefði annast fyrir hann til Birute Eidintiene neitaði hann að skýra en sagði hana ekki tengjast fíkniefnum. Hann var auk þess spurður út í símasamskiptin. Hann kannaðist við það að litháíska símanúmerið sem komið hefur við sögu í málinu tilheyri Kestutis Eidintas. Á hinum tíðu tengingum við það númer á tímabilinu 30. janúar til 2. febrúar, gaf hann þá skýringu að þeir Kestutis hefðu verið að ræða um “græna kortið”, þ. e. landvistarleyfi. Þegar á hann var gengið sagði hann þá einnig hafa rætt saman um sumarhús. Um símtöl Grétars við þann mann sagðist hann ekki vita en benti á að Grétar hefði verið áhugasamur um innflutning sumarhúsa og sífellt verið að spyrja sig um Kestutis. Kvaðst hann hafa sagt honum að hringja sjálfur í Kestutis. Um tíðar hringingar í þetta númer allt til 11. febrúar sagði hann að mjög mikið hefði verið að gerast í kring um þessi sumarhús. Hann sagði “Sigurjón í Bortækni” hafa mikið spurt út í þessi sumarhús sem og vildi hefja viðskipti við Kestutis. Þá sagði hann dóttur Kestutis vera hrifna af sér og hann því stundum hringt í þennan síma að tala við hana. Hann kvaðst ekki hafa heyrt í Kestutis eftir 11. febrúar.
Ákærði kom fyrir dóm 19. mars sl. vegna kröfu um framhald gæsluvarðhalds. Bornar voru undir hann fjórar lögregluskýrslur, dags. 10., 11., 16. og 17. mars sl. og staðfesti hann þessar skýrslur. Hann kvað Grétar hafa vitað þegar þeir fóru að sækja Vaidas út á Keflavíkurflugvöll að hann hefði fíkniefni meðferðis en kvaðst ekki viss um að Jónas Ingi hefði vitað það í upphafi ferðarinnar. Jónas Ingi hefði þó fengið vitneskju um það á leiðinni og vitað þetta þegar hann fór inn flugstöðvarbygginguna. Hann kvað þá ekki hafa vitað hvernig Vaidas flutti efnin inn.
Loks er að geta skýrslu sem ákærði gaf hjá lögreglu 15. apríl sl. en þá var hann yfirheyrður um peningafærslurnar, sbr. hér að framan. Kvaðst hann ekki muna að skýra greiðsluna til Kestudis Eidintas. Hugsanlega hafi hann átt þessa peninga og Jónas Ingi verið að senda þá fyrir hann. Kestudis hafi notað féð til þess að kaupa sumarbústaði til þess að flytja til Íslands.
Ákærði Jónas Ingi gaf sig fram við lögreglu 16. febrúar eftir að hann hafði heyrt lýst eftir mönnum í sambandi við líkfundinn. Var hann þá beðinn um að skýra frá ferðum sínum frá og með fimmtudeginum 5. febrúar. Hann kvaðst hafa verið heima hjá sér þann dag en fyrir hádegi daginn eftir hefði hann tekið á leigu jeppa fyrir vin sinn Tomas Malakauskas. Eftir það hefðu þeir ákveðið að fara á bílnum austur að Gullfossi og Geysi. Eftir að hafa skoðað þá staði hefði Tomas viljað skoða Skaftafell og þeir því ekið áfram austur. Á leiðinni hefðu þeir um kvöldmatarleytið ekið fram á stúlkur sem þeir hjálpuðu að losa bíl úr festu. Í því hefðu komið að bræður frá Neskaupstað á jeppa sem þeir voru að flytja þangað fyrir móður sína. Hefðu þeir Tomas ákveðið að fylgja þeim austur enda veður orðið slæmt og þeir gætu þá hjálpast að í ófærðinni. Þeir hefðu orðið að gista á Djúpavogi vegna veðurs og orðið veðurtepptir þar fram á sunnudagsmorgun að þeir héldu ferðinni áfram. Hefðu þeir komið til Neskaupstaðar síðdegis og haldið rakleiðis heim til Grétars. Þar hefðu þeir fengið að borða og eins hefðu þeir skoðað fjósið og farið í bíltúr. Hefðu þeir ekið um bæinn, m. a. niður á bryggju. Auk þessa hefðu þeir farið ásamt Grétari að reyna jeppann í ófærðinni og í þeirri ferð ekið um jarðgöng yfir í annan fjörð og í þorp sem þar er og festu þar bílinn, m. a. Þá hefðu þeir fengið að aka snjósleða annars bræðranna á Neskaupstað, sem fyrr eru nefndir, og heimsótt þar verkstæði föður þeirra. Eftir það hefðu þeir farið heim til fjölskyldu Grétars og gist þar um nóttina. Daginn eftir, um hádegisbilið, hefðu þeir Tomas lagt af stað suður og ekið sömu leið til baka. Hefði Tomas ekið honum heim og hann farið fljótlega að sofa.
Ákærði kvaðst hafa kynnst Tomasi síðsumars 2003, líklega í gegn um starfa sinn sem væri að útbúa pappíra fyrir atvinnu- og dvalarleyfisumsóknir útlendinga, eða þá í gegn um annan Litháa, sem hann nafngreindi. Grétar hefði hann þekkt í 5 6 ár og væru þeir góðir vinir og hefðu nánast dagleg samskipti.
Í yfirheyrslu 15. mars. sl. sem fram fór að viðstöddum verjanda ákærða sagði hann frá því að um mánaðamótin janúar-febrúar hefðu þeir Tomas farið suður á Keflavíkurflugvöll að sækja þangað mann að nafni Vaidas sem var að koma með flugi. Geti verið að Grétar hafi verið með þeim í för, en minntist þess ekki sérstaklega að svo hefði verið. Þegar þangað komið hefði hann stillt sér upp í komusal flugstöðvarinnar og haldið þar á spjaldið af stærðinni A4, sem hann hefði skrifað nöfnin Jónas og Vaidas, enda þekktust þeir Vaidas ekki í sjón. Eftir nokkra bið í komusalnum hefði hann haldið að Vaidas hefði ekki skilað sér með fluginu. Hefði hann farið út í bíl til Tomasar og hefði náðst símsamband við Vaidas. Tomas hefði talað við Vaidas á litháísku og kveðst Jónas Ingi hafa skilið eitt og eitt orð af því sem Tomas sagði í símann en þó ekki samhengið. Eftir að Tomas hafði talað við Vaidas hefði hann talað sjálfur við Vaidas, sem hefði sagt að hann væri kominn til landsins og að Jónas Ingi þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur af honum, því vinir Vaidasar myndu sjá um hann. Hefði hann álitið að Vaidas ætti þar við portúgalska vini sína hér á landi. Hefði Vaidas sagt að hann vildi hitta hann síðar til að ræða um væntanlegan innflutning á sumarhúsum og einingahúsum frá Litháen og einnig um möguleika á atvinnu- og dvalarleyfi fyrir hann hér á landi. Þá hefði hann einnig óskað eftir því að Jónas Ingi hlutaðist til um það að fá flugfarseðli sínum breytt þannig að hann færi á laugardag. Hefði hann beðið ákærða að leggja út fyrir kostnaðinum af því og myndi hann endurgreiða þetta þegar þeir hittust. Kvaðst ákærði hafa samþykkt að gera þetta fyrir hann. Hefðu þeir svo slitið talinu. Þeir Tomas hefðu haldið aftur til Reykjavíkur. Á leiðinni hefðu þeir Vaidas og Tomas talað aftur í síma og hefðu hann og Vaidas einnig talað saman. Þá hefði Vaidas viljað láta breyta farinu til sunnudagsins. Hann kvaðst hafa sofið í aftursætinu á leiðinni til Reykjavíkur og hafa rumskað við það að vinur Tomasar hefði komið í bílinn og sest í framsætið. Ekki vissi hann deili á þeim manni og reyndar ekki getað séð framan í hann. Hefðu Tomas og maðurinn talað saman litháísku. Hefði hann kynnt sig fyrir manni þessum sem hefði sagt til nafns en ekki mundi ákærði hvaða nafn það var og kannski hefði maðurinn ekki sagt til nafns heldur. Maðurinn hefði farið úr bílnum heima hjá Tomasi á Furugrund en Tomas hefði ekið ákærða heim í Gljúfrasel 3. Hugsanlegt væri þó að Grétar hefði ekið honum þangað, hefði hann á annað borð verið í þessari ferð en það mundi ákærði ekki.
Það hefði svo verið að degi til, fimmtudaginn 5. febrúar að Tomas sótti ákærða í Gljúfrasel og síðar þennan sama dag kvaðst hann minnast þess að þeir þrír, hann, Grétar og Tomas hefðu setið á spjalli í stofunni á Furugrund. Hefðu þeir hinir spurt hvort Vaidas hefði haft samband við ákærða þessa viku en hann svarað því neitandi. Hefðu þeir þá ákveðið að hætta við öll viðskipti við Vaidas, úr því hann hagaði sér svona. Kvaðst hann hafa hringt í Flugleiði, síðla þennan dag og beðið um að breytingin á farseðli Vaidasar yrði afturkölluð. Þá hefði honum verið sagt að enn þyrfti að borga breytingargjald í viðbót við hið fyrra og hann þá hætt við að staðfesta þessa breytingu. Auk þessa hefðu þeir farið að tala um hægðalyf, því Tomas hefði sagt að hann ætti í erfiðleikum á því sviði. Tomas hefði vitað að ákærði hefði verið kvæntur lyfjafræðingi um tíma og kvaðst ákærði hafa sagt honum það sem hann vissi um stíla, laxerandi lyf, trefjar og annað sem lyti að meltingu. Að öðru leyti hefði hann bent Tomasi á að hafa samband við apótek til þess að fá ráðleggingar. Hefði hann hringt í Lyfju fyrir Tomas og þar verið mælt með tilteknu lyfi sem Tomas reyndist þá eiga. Þeir hefðu haldið áfram að tala saman um lyf og nú hefði verið rætt um verkjalyf, bólgueyðandi lyf, sljóvgandi lyf, hliðarverkanir og önnur áhrif lyfja. Þar hefði hann ekki lagt mikið til málanna nema reynslu sína af kódímagnil forte, íbúfen og íbúkód.
Ákærði sagði er hér var komið skýrslunni að nokkrum dögum fyrir mánudaginn 2. febrúar s.l. hefði
Tomas sagt honum að Lithái að nafni Dónce væri væntanlegur með morgunfluginu 6.
febrúar. Tómas hefði verið með frekari upplýsingar um þann mann en
sjálfur hefði hann ekki vitað um erindi hans til landsins. Hefði staðið til að
þeir Tomas færu að sækja þennan Dónce suður á
Keflavíkurflugvöll að morgni föstudagsins. Hann hefði auk þess viljað hitta
Dónce þar eð Tomas hefði talað um að maðurinn vildi kanna með dvalar- og atvinnuleyfi á Íslandi. Tomas hefði svo vakið hann snemma morguns
föstudaginn 6. febrúar s.l. og kvaðst ákærði hafa tekið með sér skjalatösku, blað með nöfnunum Dónce og Jónas.
Samferða þeim hefði verið litháískum vinur Tomasar sem ákærði hafði ekki
séð áður og vissi ekki hvað hét. Hefði maðurinn virst veiklulegur. Á leiðinni út á
Keflavíkurflugvöll hefði þessi vinur Tomasar farið að hósta og kúgast og hefði
hann heyrt þá litháana tala um að snúa við. Hefði Tomas numið staðar og maðurinn stigið úr bílnum. Hefði hann komið inn aftur
eftir að hafa jafnað sig einhverju leyti. Hefði Tomas sagt að vinur hans
væri veill í maga og yrðu þeir að snúa við og aka aftur til Reykjavíkur. Hefði
hann einnig sagt að hann skyldi hringja í Dónce,
sem átti að sækja út á flugvöll, og sjá um það mál. Hefði hann látið þess getið
að allt eins væri líklegt að Dónce
kæmi ekki með fluginu, þar sem hann hefði verið á báðum áttum hvort hann
ætti að koma. Kvaðst ákærði hafa hringt í Grétar og sagt honum frá veikindum
mannsins og spurt hvort hann ætti verkjalyf. Hefði Grétar reynst eiga slík lyf,
líklegast bólgueyðandi lyf, íbúfen eða
íbúkód og þeir komið við heima hjá honum og fengið lyfin. Sjálfur hefði hann
áður þurft að fá þessi lyf hjá Grétari vegna bakmeiðsla. Að því búnu hefðu þeir
ekið heim til Tomasar á Furugrund og Grétar með þeim. Minnti hann að þeir Grétar hefðu stutt veika manninn upp stigana
inn í íbúð Tomasar, sem lauk upp fyrir þeim. Hefði verið búið um manninn í rúmi
Tomasar. Hefðu þeir Tomas og veiki maðurinn rætt saman stutta stund en
Tomas svo komið fram í stofu til þeirra Grétars. Kvaðst hann hafa spurt hvort
það væri ástæða til að kalla til lækni eða hvort hann gæti orðið að frekara lið varðandi þessi veikindi. Hefði
Tomas sagt að veiki maðurinn teldi
þetta mundu ganga yfír og þyrfti ekki læknis við. Væri maðurinn sofnaður
og best væri að hann fengi að sofa í friði. Hefði Tomas litið inn til mannsins
nokkrum sinnum meðan þeir Grétar stóðu við. Þegar
líða tók á morguninn hefðu þeir Tomas og Grétar farið meira út á svalir að
reykja, en höfðu fram að því reykt í
íbúðinni. Kvaðst ákærði hafa setið í stofunni og horft á myndbandsspólur sem
hann hafði deginum áður leigt fyrir Tomas. Einhverju sinni sem Tomas og Grétar
hefðu komið inn í stofuna hefði Tomas
sagt að hann ætlaði að leyfa veika manninum að jafna sig í íbúðinni um helgina og myndi hann sjálfur fara eldsnemma morguninn eftir í heimsókn til vina og kunningja á Selfossi. Hefði
hann spurt hvort ákærði gæti leigt fyrir hann bíl, helst jeppa, þar sem útlit
væri fyrir snjókomu. Kvaðst hann hafa tekið vel í þetta og lagt til að þeir
færu saman að skoða Gullfoss og Geysi og að Grétar slægist í förina. Grétar
hefði hins vegar sagt að hann ætlaði austur á Neskaupstað að heimsækja
fjölskyldu sína þar. Kvaðst ákærði hafa lagt til að þeir byðu Arvydasi,
sameiginlegum kunningja, að koma með þeim og Tomas samþykkt það. Tomas hefði
ætlað að hjálpa ákærða við múrbrot á heimili hans helgina á eftir og lagt til
að þeir keyptu teppi til þess að hlífa gólfunum. Hefðu þeir tekið jeppa á leigu
og hefði Tomas afhent honum 50 þúsund krónur fyrir leigunni. Þeir hefðu komið
við heima hjá ákærða í Gljúfraseli þar sem þeir skildu eftir hinn bílinn. Við
fyrri yfirheyrslu hafði ákærða minnt að þeir hefðu keypt teppið áður en þeir fóru í Gljúfrasel og borið
það við vegginn á heimilinu. Við nánari athugun kveðst hann hafa áttað sig á
því að þeir komu við í Gljúfraseli áður en teppið var keypt. Þá kvaðst hann hafa spurt
Tomas hvort hann mætti taka með rusl úr ógangfærum bíl sem þarna hefði
verið á bílastæði við Gljúfrasel og Tomas
samþykkt það. Hefði hann tekið rusl úr bílnum og sett í jeppann og þeir svo
farið á jeppanum.
Þar sem þeir voru á leið austur fyrir fjall hefði hann viljað kaupa húfur og vettlinga á bensínstöð en Tomas hefðí fremur viljað fara í Rúmfatalagerinn, því þar væri betra úrval, auk þess sem hann gæti þá keypt handklæði og annað í leiðinni, sem hann hefði vanhagað um. Þá væri hann orðinn leiður á rúminu sínu og því tilvalið að líta á rúm þar í leiðinni. Hefðu þeir farið í Rúmfatalagerinn, annað hvort í Skeifunni eða Smáranum, og keypt þar ennisbönd, vettlinga og skíðavettlinga. Einnig hefði Tomas keypt þar nokkur handklæði. Þá hefðu þeir farið í byggingavöruverslun BYKO og keypt fíltteppi af þeirri stærð og gerð sem Tomas hefði talið hæfilegt. Þá hefði hann sagt að þeir þyrftu mismunandi gerð af límbandi til að festa teppið og keypt tvær mismunandi rúllur af límbandi. Þá hefði Tomas sagt gott væri að hafa snæri við hendina til þess að auðvelda flutning teppisins eftir framkvæmdirnar, því að reikna mætti með því að teppið myndi þyngjast nokkuð af ryki, vatni og drullu. Hefðu þeir því gripið með sér snæris- eða snúrurúllu. Þeir hefðu svo fengið sér að borða á veitingastað og keypt matarskammt handa Grétari. Þar næst hefðu þeir komið við á Furugrund þar sem Grétar hafði lagt sig. Hefði hann verið vaknaður þegar þeir komu þangað. Hefðu þeir sest í stofuna og spjallað saman. Þeir Grétar og Tomas hefðu reykt svo mikið að hann hefði lagt til við þá að þeir færu út í göngutúr að fá sér frískt lofit. Þessu hefðu þeir tekið fálega, enda Tomas sagt að hann þyrfti að taka til í íbúðinni og væri ekki vanþörf á þar sem mikið drasl hefði verið þar inni. Hefði hann þá farið sjálfur í göngutúr og tekið sér 45 mínútur í það, jafnvel meiri tíma. Þegar hann kom aftur hefðu þeir hinir verið búnir lofta út og laga til, nokkuð ánægðir með störf sín - sveittir en glaðir í bragði. Allt hefði verið orðið hreint og því ekkert að vanbúnaði að halda af stað úr bænum. Kvaðst hann halda að klukkan hefði verið á milli eitt og tvö þegar þeir lögðu af stað úr bænum. Hefði Tomas þá sagt að hann hefði bætt við rusli í bílinn, þar sem þeir ætluðu hvort sem er koma við í Sorpu á leiðinni út úr bænum. Jónas Ingi kveðst ekki muna það nú hvort þeir hafi skutlað Gétari heim, eða hvort hann hafi komið sér þangað sjálfur. Tómas hefði viljað koma við í Sorpu á leiðinni út úr bænum, en ákærði viljað halda strax af stað út úr bænum, til að komast sem fyrst til baka í faðm fjölskyldunnar. Hefði hann sagt Tomasi að Sorpa yrði lokuð þegar þeir kæmu til baka um kvöldið, en verða opin snemma daginn eftir, þ.e. laugardag og að hann hlyti að geta losað ruslið einn í Sorpu morguninn eftir á leið sinni á Selfoss. Í raun hefði hann ekki vitað hvenær Sorpa myndi opna á laugardeginum og aðeins viljað losna við að þurfa að henda þessu rusli sjálfur. Tomas hefði ekki verið ánægður með þetta, en ákærði kvaðst hafa haft sitt fram og þeir haldið af stað austur yfir heiði. Þeir hefðu komið við í Hveragerði og keypt sér gos og sælgæti. Þar hefði komið fram hjá Tomasi að hann vildi miklu fremur fara að Skaftafelli heldur en Gullfossi og Geysi. Kvaðst hann hafa bent honum á að það væri mun lengri ferð og að vegna snjókomu og myrkurs myndi að öllum líkindum ekki sjást mikið af landinu þar. Tomas hefði þá sagt að hann væri búinn að sjá Gullfoss og Geysi og vildi fremur sjá eitthvað sem hann ætti eftir að sjá. Kvaðst ákærði hafa látið þetta eftir Tomasi eftir að þeir höfðu þæft þetta með sér einhverja stund. Hann kvaðst að öðru leyti vísa til skýrslu sinnar 16. febrúar um ferðalagið austur.
Nánar aðspurður um dvöl þeirra á Neskaupstað sagði ákærði að þeir hefðu byrjað á því að heilsa upp á fjölskyldu Grétars. Eftir það hefðu þeir farið í jeppaferð um svæðið og Grétar þá með í för og líklega ekið jeppanum. Þeir hefðu m.a. farið að dekkjalager við verkstæði sem er í eigu foreldra bræðranna, sem höfðu orðið þeim samferða, og hitt þar annan þeirra og fengið að prófa vélsleða. Þeir hefðu snætt kvöldverð hjá móður Grétars og einnig farið í fjósið þar og skoðað þar vélsleða í skemmu. Seinna um kvöldið hefðu þeir farið aftur í jeppaferð, m.a. yfir í næsta fjörð. Þegar þeir komu aftur úr jeppaferðinni hefðu þeir aftur hitt annan bróðurinn við verkstæðið og skoðað verkstæðið. Að því loknu hefðu þeir farið heim til Grétars og sofnað, um eða rétt uppúr miðnætti. Hann sagði þá hafa farið um bryggjusvæðið á Neskaupstað. Hann segist hafa orðið viðskila við þá hina í þrjú skipti meðan þeir voru á Neskaupstað. Í eitt skipti hefði það verið þegar þeir stöðvuðu jeppann í 15-20 mínútur niður við höfn eftir kvöldmatinn og þeir Grétar og Tomas fengu sér að reykja. Kvaðst ákærði þá hafa gengið að húsi sem heiti Steinninn og hafi þetta verið eftir kvöldmat. Í annað skiptið hefði það viljað þannig til að þeir höfðu fest jeppann í skafli við einhverja vinnslustöð niður við sjó. Kvaðst hann hafa farið að leita eftir stöng til þess að vega upp bílinn úr skaflinum og þetta hefði einnig verið eftir kvöldmat. Loks hefði hann orðið viðskila við þá þegar þeir hinir fóru á bak við söluturn til þess að reykja, en hann skoðað myndbandsspólur á meðan sem þar voru til útleigu.
Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 18.
mars sl. að viðstöddum verjanda sínum. Sagði hann þá að á leiðinni suður hefðu þeir komið við á Hvolsvelli og keypt ræstingavörur fyrir íbúð Tomasar.
Þegar þeir hefðu farið að nálgast Selfoss hefði Tomas viljað losna við að
þurfa að fara í Sorpu daginn eftir, þar sem
að hann þyrfti hugsanlega að greiða gjald fyrir atvinnusorp í staðinn fyrir heimilissorp. Sjálfur hefði hann
álitið Tomas nennti ekki að fara einn með þetta rusl í Sorpu. Tomas hafi
jafnframt viljað henda filtteppinu í leiðinni og sagt að hann hefði betri lausn
í huga varðandi múrbrotin heima hjá ákærða. Hefðu þeir fundið ruslagám á bak við einhverja bensínstöð
á Selfossi og hent þar öllu ruslinu úr
jeppanum, þ.m.t. fíltteppinu. Hefði Tomas séð um það að mestu leyti. Tomas
hefði svo ekið áfram til Reykjavíkur og ákærða heim til sín. Dagana á eftir
hefðu þeir Tomas tekið sig til og þrifíð íbúðina á Furugrund þar sem Tomas hefði
ætlað að heimsækja móður sína í Ameríku og leigja íbúðina út á meðan, í u.þ.b. 3 mánuði. Hefðu þeir þrifið alla
íbúðina með hreinsiefnunum sem þeir keyptu á Hvolsvelli, m.a. bletti á
veggjum og fleira. Þá hefði bíll Tomasar verið settur í hreingerningu þar sem
Tomas ætlaði að selja hann. Hann kannaðist við að hafa farið með Tomasi upp í
Heiðmörk á með Tomasi miðvikudaginn 11. febrúar s.l. Hefði Tomas sagst þurfa að
brenna bílapappíra -"car papers"-
þegar þeir voru í bíltúr. Hefði hann brennt einhverja pappíra í grilli sem
þarna er. Þá hefði Tomas hafa stöðvað bílinn á leiðinni til baka við einhvern læk og farið þar úr bílnum. Ekki vissi hann til hvers og þegar hann spurði
hann út í það hefði hann engu viljað svara.
Ákærði kom fyrir dóm 11. mars og voru þá bornar undir hann skýrslurnar sem hann hafði gefið hjá lögreglu. Hann staðfesti þá þessar skýrslur. Hann neitaði því að hafa vitað að Vaidas væri að koma til landsins með fíkniefni 2. febrúar eða að hafa átt nokkurn þátt í því. Hann kannaðist við að hafa sent peninga til Litháen fyrir Tomas en það fé hefði ekki verið til neinna fíkniefnakaupa, eins og hann hefði áður sagt. Hefði aldrei borist í tal að þeir Grétar myndu selja fíkniefni hér á landi. Ástæða þess að hann sótti Vaidas suður á flugvöll hefði verið sú að hann hefði ætlað að kynna honum möguleika á að selja sumarhús hér á landi og eins vildi hann ræða um dvalar- og atvinnuleyfi hér á landi. Hefði hann kynnst Vaidasi töluvert löngu áður í gegnum einhvern þeirra Litháa, sem hann hefði verið að vinna fyrir varðandi sumarhús. Hefðu samskiptin við Vaidas farið í gegnum þennan millilið og hefði hann átt við hann símtalsbrot í eitt skipti. Ekki kvaðst hann muna hvort það var í gegnum milliliðinn eða hvort það kom fram í símtalinu að Vaidas væri að koma og hvenær. Hann hefði ekki vitað að Vaidas hafði fíkniefni innvortis og ekki orðið þess áskynja eftir á heldur. Hann hefði haldið út á flugvöll að sækja hann og beðið hans með spjald í töluverðan tíma en Vaidas ekki komið. Hefði hann skotist út í bíl til Tomasar að athuga hvernig málin stæðu og þá hefði Tomas talað við Vaidas í farsímann sinn. Hefði hann verið kominn og væri á vegum vina sinna og þyrfti ákærði ekki að hafa áhyggjur af honum. Ekki myndi hann hvort Vaidas hafi beðið hann þá eða seinna að breyta flugmiðanum. Á leiðinni í bæinn hefði Tomas sagt að hann ætlaði að koma við og skutla félaga sínum. Hann hefði svo sofnað og rumskað þegar þessi vinur Tomasar sté inn í bílinn. Ákærði kannaðist við að hafa komið á Furugrund vikuna eftir komu Vaidasar en ekki hafa orðið var við gestagang þar fyrr en á föstudagsmorgni og ekki hefði verið minnst á hann. Hann segir Vaidas hafa tvisvar beðið um það í síma í þessari viku að farseðli hans yrði breytt og brottför seinkað. Fyrst til laugardags og svo til sunnudags. Kvaðst ákærði hafa farið á skrifstofu Flugleiða einhvern daginn til þess að láta breyta farseðlinum í seinna skiptið. Ekki mundi hann hver lagði út fyrir kostnaðinum við þetta, hann eða Tomas.
Að morgni föstudagsins 6. febrúar sagði ákærði að hafi átt að sækja Dónce, kunningja Tomasar, út á flugvöll og í leiðinni að aka þangað öðrum Litháa, vini Tomasar. Hefði Tomas sótt hann eldsnemma þennan morgun og minnti ákærða að vinur Tomasar hefði verið í bílnum, fremur veiklulegur maður sem ákærði kannaðist ekki við í sjón. Á leiðinni út á flugvöll hefði maður fengið ægilegt hóstakast og jafnvel farið að kúgast. Tomas og þessi maður hefðu rætt heilmikið saman og greinilega ákveðið snúa við en ákærði skildi orð og orð af því. Hafi Tomas stöðvað bílinn og maðurinn stigið út til þess að jafna sig. Bílnum hefði svo verið snúið við og haldið til baka. Kvaðst hann hafa hringt í Grétar og hann sagst eiga verkjalyf handa manninum. Hefðu þeir því komið fyrst við hjá Grétari og fengið þar contalgin eða eitthvað annað verkjalyf, kannski ibúfen eða íbúkód. Þaðan hefðu þeir haldið heim til Tomasar og Grétar með þeim. Hefðu þeir stutt manninn upp í herbergi og Tomas búið um hann í rúminu sínu. Þeir hefðu sest fram í stofu og verið þar eitthvað fram eftir morgni á tali. Þeir hinir hefðu reykt heilmikið en hann horft á myndbönd sem hann hafði tekið á leigu fyrir Tomas daginn áður. Þeir hinir hefðu verið “heilmikið út á svölum að reykja og inn í eldhúsi”. Þegar var liðið á morguninn hefði Tomas spurt hvort ákærði gæti ekki tekið fyrir hann bíl á leigu, því hann hefði hug á að líta inn hjá vinum sínum á Selfossi á laugardeginum. Kvaðst ákærði hafa tekið vel í það. Ákærði kvaðst ekki hafa orðið var við manninn, enda verið lokað inn til hans. Tomas hefði sagt að hann ætlaði að leyfa manninum að hafa íbúðina yfir helgina meðan hann væri hjá vinum sínum á Selfossi. Ákærði neitaði því að hafa orðið þess áskynja að maðurinn hefði dáið þarna um nóttina eða morguninn og ekki vita til þess að ákveðið hefði verið að flytja lík til Neskaupstaðar.
Um ferð þeirra Tomasar austur sagði ákærði að Tomas hefði viljað leigja bílinn á föstudeginum þar sem hann ætlaði að leggja af stað snemma að morgni laugardagsins og fannst ákærða “synd að nýta ekki bílinn” og því lagt til að þeir færu að Gullfoss og Geysi þennan dag. Grétar hefði ætlað austur til móður sinnar og fósturföður og hvíla sig í nokkra daga. Kvaðst ákærði hafa lagt til að Arvidas, félagi þeirra, færi með þeim. Eftir að þeir voru búnir að leigja bílinn hefðu þeir komið við heima hjá ákærða og tekið nokkra svarta plastpoka með rusli úr bíl ákærða. Einnig hefði hann mælt fyrir teppinu sem átti að hlífa gólfinu, sbr. hér að framan. Þá muni þeir hafa farið í byggingavöruverslun og keypt teppið, límrúllur og snæri, allt vegna múrbrotsins. Ákærði kvaðst aðspurður vera nokkuð viss um að hafa hent teppi í gám á Selfossi á leiðinni að austan. Reyndar hefði hann minnt upphaflega að þeir hefðu “farið á Sorpu með þetta en þannig er mál með vexti að þegar við vorum á leið í bæinn að þá varð Tomas það að orði að hann vildi losna við teppið strax. Ég var búinn að leggja reyndar til, ef ég útskýri af hverju teppinu var ekki hent strax, á föstudeginum þá vildi ég leggja af stað strax úr bænum. Hann vildi koma við í Sorpu á leiðinni út úr bænum. Ég vildi bara vera kominn fyrst heim. Þannig að þetta fór með allt draslið. Á leiðinni til baka þá vildi hann spara sér kostnað í Sorpu daginn eftir plús það að þurfa þá ekki að bíða eftir að hún opnaði. Óttaðist að þetta yrði flokkað sem atvinnusorp en ekki heimilissorp og vildi frekar bara henda þessu einhvers staðar í gám á leiðinni og við fundum þarna gám á Selfossi. Hann byrjaði að aflesta bílinn, ég kláraði súkkulaðistykkið mitt, kom svo út og hjálpaði honum þannig að já, ég lestaði drasl þarna út. Hvort það var nákvæmlega teppið eða ruslið sem ég henti ég þori ekki að fara með það.”
Í skýrslu sem ákærði gaf 19. mars var hann spurður út í greiðslur og reikningsfærslur sem gerð hefur verið grein fyrir hér á undan. Hann taldi greiðslurnar frá Grétari ýmist vera kostnað vegna fyrirtækis þeirra, “Menntastofu”, varða stofnun “MMRO” gætu verið “laun úr Mjóafirði” eða “kostnaðargreiðsla frá Menntastofu, eða þá að þetta gæti tengst uppgjöri við skuldheimtumenn Grétars, sem hann hefði sinnt fyrir hann. Skýrði hann greiðsluna inn á reikning Tomasar 7. nóvember þannig að hann hefði verið á leið í banka og Tomas því beðið hann um að leggja þetta inn hjá sér. Greiðsluna 24. nóvember skýrði hann á sama veg. Greiðsla til Flugleiða af reikningi MMRO 24. nóvember kvaðst hann halda að væri fyrir farseðil fyrir Tomas. Hann kvaðst ekki hafa hreyft þennan reikning nema með samþykki Tomasar, enda væru þetta hans peningar og hans fyrirtæki. Um greiðsluna til Kestudis Eidintas 2. desember sagði ákærði að hún hefði verið gerð að beiðni Tomasar, en ekki vissi hann um ástæðuna. Ákærði sagðist, að beiðni Tomasar, hafa séð um allt sem viðkom fjármálum MMRO, þar eð Tomas vantreysti sér þegar kom að bönkum og skjölum. Um greiðsluna til Arunas Ignotas 2. desember sagði ákærði að hún hefði verið að beiðni Tomasar en hann vissi ekki um ástæðuna. Sömu skýringu gaf ákærði á greiðslunni til Birute Eidintiene. Þá kannaðist ákærði aðspurður við það að hafa hringt og spurst fyrir um hótelherbergi 2. febrúar sl. handa þeim sem átti að sækja til Keflavíkurflugvallar.
Í yfirheyrslu hjá lögreglu 15. apríl var ákærði spurður út í greiðslurnar um Western Union til Litháens í desember og janúar. Hann kvaðst hafa gert þetta fyrir Tomas en ekki geta skýrt greiðsluna til Kestudis en um greiðsluna til Arturas Packauskas minni hann að hún hafi verið fyrir flugfargjaldi. Þeir þrír ákærðu hefðu verið í sambandi við þann mann vegna sumarbústaðakaupa.
Verður nú gerð grein fyrir því sem fram er komið í meðferð málsins fyrir dómi.
Við þingfestingu málsins var það bókað eftir Grétari að hann neitaði sök að því er varðaði I. og II. kafla ákærunnar en gengist við sakargiftum í III. kafla hennar að öðru leyti en því að hann hefði stungið Vaidas þrisvar sinnum en ekki fimm sinnum. Þá neitaði hann sök samkvæmt 1., 2., 4. og 5. lið IV. kafla ákærunnar en hann gengist við sakargiftum í 3. lið að því er varðar annan lásbogann, því hinn lásboginn hafi verið skrautgripur.
Ákærði Grétar hefur sagt í aðalmeðferð málsins að hann hafi lítið vitað um erindi Vaidasar þegar þeir fóru að sækja hann á flugvöllinn. Hann segir þó að einhvern tíma fyrir atburðina hafi Tomas sagt að hann ætti von á manni til landsins. Hafi hann látið skína í það að maðurinn væri með fíkniefni. Hafi þeir svo farið saman út á flugvöll að sækja manninn og þá Tomas sagt það fullum fetum að maðurinn væri með fíkniefni. Kveðst ákærði þá hafa skilið það sem Tomas hefði ýjað að áður um þetta eða fengið þá um þetta fullvissu. Ekki hafi þeir beinlínis rætt um dreifingu efnanna hér en hann hafi íhugað með sjálfum sér hvort ekki væri hægt að hagnast á þessu. Hafi Tomas sagt hvað maðurinn væri með mikið af fíkniefnum, rúm 200 grömm, en það atriði hefði ekki verið rætt áður milli þeirra. Tomas hafi ekki boðið honum að taka þátt í að dreifa efnunum. Hann segist hafa rætt við Jónas Inga tveimur kvöldum fyrir komu Vaidasar hvort hægt væri að gera sér peninga úr fíkniefnum. Hann hafi þá ekki haft þetta tilvik í huga, því hann hefði ekki haft “vitneskju beina” um að efnin væru á leiðinni. Ekkert hafi orðið úr þessu tali, enda Jónas Ingi lítið viljað tala um slíkt eða um það vita. Hann kveðst að vísu hafa ráðfært sig við Jónas Inga um það hvernig best væri að standa að dreifingu efnanna ef hann tæki slíkt að sér. Hann kannast við að Jónas Ingi hafi spurt hvort ekki væri hægt að finna einhvern sem vildi kaupa 50 100 grömm. Ekki hefði verið rætt um hvernig ætti að verja ágóða af þessu, nema að hann hefði hugsað sér að grynnka á skuldum. Fyrirtæki þeirra Jónasar Inga komu ekki til tals í því sambandi, nema í gamni og sem “sprell” frá hans hlið. Hlutverk Jónasar Inga í ferðinni hafi verið að taka á móti Vaidasi en engin sérstök ástæða fyrir því að hann gerði það, nema þá að hann væri “kannski minna áberandi” en þeir hinir. Hann segist ekki hafa vitað um ástæðuna fyrir komu mannsins fyrr en á leiðinni suður á flugvöll. Þeir hinir hafi virst vera búnir að ræða sín á milli um það að Jónas Ingi tæki á móti manninum “og ekkert með það”. Ákærði segist hafa fengið lánaðan eyðslugrannan bíl til ferðarinnar þar sem hans bíll eyddi svo miklu bensíni, en hann sjálfur blankur. Jónas Ingi hafi svo farið inn í flugstöðina og haft með sér spjaldið sitt. Svo hafi komið í ljós að þeir höfðu farist á mis og þeir sótt manninn út á Loftleiðahótelið en þangað hafði hann komið í rútunni. Kveðst ákærði hafa ekið þeim Tomasi og Vaidasi á Furugrund en Jónasi Inga hafi hann ekið upp í Breiðholt og svo farið heim til sín. Daginn eftir hafi hann farið til þeirra á Furugrund en maðurinn þá ekki orðinn veikur. Hafi maðurinn beðið um að fá hægðalosandi lyf þar sem fíkniefnin létu á sér standa. Hafi verið “reynt að arransjera því og græja það” en ekkert hafi gerst þrátt fyrir það fyrstu tvo dagana. Ákærði kveðst ekki vera dómbær á það hvenær maðurinn hafi byrjað að veikjast, en hann hafi ekki farið að bera sig illa fyrr en þeir sneru við með hann á föstudagsmorguninn 6. febrúar. Ákærði kannast við að Tomas hafi hringt í hann á þriðjudagskvöldið og beðið hann að koma því maðurinn væri orðinn slappur. Hann hafi farið í Lyfju og keypt hægðalosandi efni. Manninum hafi ekki liðið illa um nóttina og þá hafi ekki verið rætt um að fá lækni handa manninum. Miðvikudagurinn hafi verið “allt í lagi” og maðurinn sagt að ekki væri ástæða til þess að hafa áhyggjur, efnin myndu skila sér. Hann kannast við að hafa keypt stólpípu þennan dag og að hún hafi verið notuð, en án árangurs. Vaidas hafi verið kominn með vott af hita og verið slappur er hér var komið sögu. Ekki muni hann hvort iðrakrampa hafi verið farið að gæta þennan dag eða hvort það var daginn eftir. Hann hafi annars munað þetta allt betur þegar hann gaf skýrslur sínar hjá lögreglunni. Komi þar annað fram um þessi atriði, sé það satt og rétt sem þar standi. Þeir hafi farið að ræða um að koma manninum til læknis erlendis en ekki hafi fengist far fyrir hann fyrr en á föstudagsmorgni. Hann kannast við að á miðvikudeginum hafi bókun Vaidasar verið seinkað frá föstudegi til sunnudags. Hafi það verið að beiðni hans sjálfs því hann hafi viljað láta reyna á það hvort efnin skiluðu sér ekki. Á fimmtudagsmorgun hafi Tomas hringt og sagt sér að koma og líta á manninn. Hann segist ekki hafa álitið að maðurinn væri illa haldinn en töfin hafi verið orðin löng. Vaidas hafi verið hughraustur, sagt að ekki væri ástæða til þess að hafa áhyggjur og beðið um verkjalyf, sem ákærði segist hafa keypt fyrir hann á svörtum markaði. Farmiðanum hafi svo verið breytt og bókað far á föstudagsmorgninum svo að hann gæti þá komist til læknis. Ákærði kveðst hafa verið allan þennan dag hjá þeim og nóttina einnig. Dagurinn hafi verið “ósköp tíðindalítill”, maðurinn hafi kastað upp og verið orðinn “kannski slappur, karlinn”. Blóð hafi ekki verið í uppsölunni fyrr en um kvöldið. Um nóttina hafi svo sem ekkert gerst fyrr en þeir fóru að tygja sig út á völl. Kviðurinn á Vaidasi hafi verið þembdur. Á leiðinni hafi hann farið úr bílnum, enda ósofinn og dauðþreyttur en þeir Tomas og Jónas Ingi haldið áfram með Vaidsai. Kveðst ákærði hafa tekið leigubíl og látið aka sér aftur á Furugrund og tekið þar bíl sinn, ekið heim og sofnað. Þeir hafi svo hringt og sagst hafa snúið til baka því maðurinn treysti sér ekki í flug. Þeir hafi komið og hann farið í bílinn til þeirra. Hafi hann séð að manninum hafði hrakað og hafði hann selt upp rauðlitu slími í bílinn. Hafi hann ekki viljað fara á spítala heldur heim á Furugrund og leggjast þar fyrir. Þeir hafi rætt það sín á milli að koma manninum undir læknishendur en hann ekki viljað það. Segir hann það vera mestu mistökin að hafa hlustað á það. Hafi þeir farið með hann á Furugrund og þeir Jónas Ingi stutt hann upp í íbúð, þótt hann hefði “faktískt” getað gengið óstuddur. Kveðst ákærði svo hafa ætlað að gefa honum verkjalyf. Hafi hann ekki getað haldið lyfinu niðri. Þegar hann gekk út frá manninum hafi hann heyrt eins og “mikla skvettu” á gólfið að baki sér. Hafði hann þá dottið á gólfið og ælt upp miklu blóði og gefið upp öndina. Hann kveðst eftir fremsta megni að lífga manninn við, bæði með því að blása í hann og hnoða hann en það ekki borið árangur. Hafi ekkert lífsmark verið með honum en meira blóð hafi gengið upp úr honum. Hann kveðst álíta að Vaidas hafi verið orðinn ósjálfbjarga 4 til 5 mínútum áður en hann dó og ákærði ætlaði að gefa honum lyfið. Aðspurður segir ákærði að ástæðan fyrir því að ekki var farið með Vaidas til læknis hafi verið sú að hann hafi þvertekið fyrir það. Þá segir hann að ekki hafi hvarflað að honum að maðurinn væri í lífshættu fyrr en síðustu 5 mínúturnar áður en hann dó. Kveðst ákærði hafa álitið að maðurinn vissi hvað hann væri að gera. Ákærði segist hafa óttast mjög um örlög sín og sinna, enda ekki þekkt inn á baksviðið. Aðspurður segist hann eiga við rússnesk-litháísku mafíuna. Ákærði segir Jónas Inga hafa komið endrum og sinnum á Furugrundina meðan á þessu gekk, kannski 4 sinnum. Hann segir að Jónas Ingi kunni að hafa dvalið þarna dagparta miðvikudag og fimmtudag og hafi hann dvalist þarna allt frá kortéri upp í þrjá tíma. Þeir Jónas Ingi og Vaidas hafi nánast engin samskipti haft á þessum tíma. Þó kannast hann aðspurður við að þeir hafi talað saman á þýsku. Hann kveðst hafa spurt Jónas Inga út í iðrastíflur og Jónas Ingi þá sagt að fóstursonur hans væri vangæfur með þess háttar. Hafi hann sagt að slíku fylgdu miklar kvalir en ekki væri ástæða til þess að hafa áhyggjur af því, því strákur skilaði alltaf sínu. Hann vísar í skýrslu sína um það hvenær þetta var talað.
Ákærði segist hafa haldið lífgunartilraunum áfram þar til maðurinn var farinn að stífna. Þá hafi þeir hinir verið farnir úr íbúðinni. Hann kveðst hafa dregist fram og lagt sig í sófann, enda alveg farinn á taugum og úrvinda. Kveðst hann hafa getað gleymt sér í nokkrar mínútur og muna næst eftir sér þegar hinir voru komnir aftur og höfðu með sér ýmislegan varning úr byggingavörubúðinni. Þeir Jónas Ingi hafi strokið mesta blóðið af líkinu og sett utan um það tvo poka, annan til höfuðs og hinn til fóta, og vafið því svo inn í teppi sem ákærði batt utan um. Hann segir þá þrjá ekki hafa rætt hvað gera skyldi við líkið áður en þeir hinir fóru út. Hann hafi hins vegar sagt við þá meðan þeir bjuggu um líkið að hann vildi ekki skipta sér af framhaldinu eða vita neitt um það. Hann segir þá hina hafa lyft upp líkinu og sett á öxl honum. Hafi hann borið það á öxlinni út í jeppa sem þeir hinir höfðu komið til baka á. Hafi aftursætin verið lögð niður og stranganum smeygt inn á ská. Hafi annar endi líksins risið upp við hægra framsætisbakið. Þar hafi hann skilið við þá og flogið austur á land að jafna sig. Hafi ekki komið til tals þá að þeir hinir kæmu á eftir honum. Hann kveðst svo hafa heyrt frá þeim að þeir voru að verða veðurtepptir á Djúpavogi þar sem þeir hafi orðið að gista tvær nætur. Hafi þeir talað nokkrum sinnum saman í síma meðan þeir dvöldu þar og annar þeirra að endingu spurt hvort þeir ættu ekki að fylgja bræðrunum áfram austur þar sem ófært væri til baka en fært áfram austur. Hafi það orðið úr og segist ákærði hafa gert sér grein fyrir því að þeir voru enn með líkið í bílnum. Um hádegið á sunnudeginum hafi þeir komið til Neskaupstaðar og hann farið í bílinn og þeir ekið um, karpað og rifist. Að endingu hafi verið ákveðið að eitthvað yrði að gera við líkið. Hafi þeir ekið um, m. a. yfir á Eskifjörð að leita að hentugum stað fyrir líkið. Að lokum hafi þeir valið Netagerðarbryggjuna og þar hafi líkinu verið hent um miðnæturleytið. Hann kveðst hafa ekið bílnum og bakkað niður á bryggjuna. Hafi þeir opnað skottið tekið líkið úr bílnum og úr teppinu. Hafi þeir farið með það fram á brúnina, fest við það sökku, bobbing og keðjubút. Hann hafi stungið þrjú göt á líkið með hnífi sem Tomas lét hann fá og þeir Jónas Ingi sökkt líkinu í sjóinn. Tomas hafi hins vegar vafið saman teppinu og komið því fyrir í bílnum. Hann segist hafa stungið í sitt hvort lungað og í magann til þess að hleypa úr því lofti, þrjár stungur. Hann segir skurðinn á hálsi líksins líklegast vera eftir grannt garn sem hafi verið notað til þess að binda sökkurnar við líkið. Hann segist ekki geta skýrt það að fimm göt hafi verið á líkinu og reyndar ekki get séð þess stað á ljósmyndunum. Ákærði segir Tomas hafa vakið máls á því að opna líkið og ná úr því efnunum en hann kveðst hafa reiðst mjög við það og það þá ekki verið nefnt aftur. Ákærði segir að það hafi verið af hræðslu að hann aðstoðaði þá hina með líkið. Hafi verið illt að vera með látinn mann í höndunum og honum ekki liðið vel með það.
Ákærði segir enga starfsemi hafa verið byrjaða í fyrirtækjum þeirra Jónasar Inga þegar þetta gerðist, Menntastofunni og MMRO. Hann kannast við að hafa verið undir gjaldþrotaskiptum á þessum tíma. Peningafærslur á vegum MMRO sem Jónas Ingi stóð að kveðst hann ekki geta skýrt. Hann kannast við að hafa verið í Litháen í nóvember desember á síðasta ári. Hafi þetta verið 10 daga ferð og hann skoðað sumarhús, einingahús, húsgögn og timbur, parkett. Hann kannast við að hafa fengið senda peninga frá Jónasi Inga þegar hann hafi verið í Noregi, enda blankur, og komið með mikinn hluta þess aftur. Noregsferðin hafi verið farin til þess að athuga hvort hægt væri að flytja sumarhús til Noregs og selja þar. Hafi þeir “allir” verið að skoða þetta í sameiningu. Þetta skýrir hann svo að Tomas hafi komið ákærða í samband við þessa menn sem voru í “þessum húsabransa” og “við Jónas náttúrulega gerðum allt saman”.
Um vopnin sem eru í málinu segir hann, að þar sem talað sé um skammbyssu í málinu sé um að ræða eftirlíkingu af sjóræningjabyssu sem hann hafði keypt í Kolaportinu. Haglabyssurnar séu í eigu fósturföður og móður en hnífunum hafi hann safnað frá barnsaldri. Hann segist krefjast þess að fá alla munina aftur nema annan lásbogann sem hann sé búinn að afsala sér.
Ákærði segist hafa álitið að það myndi vera hættulegt ef kæmist upp um fíkniefnainnflutninginn. Þá segir hann að almennt tal þeirra tveggja um fíkniefnainnflutning, sbr. hér að ofan, hafi verið löngu, löngu áður en þeir kynntust Tomasi. Hann segist ekki vita til þess að Tomas hafi sagt Jónasi Inga frá fyrirhuguðum innflutningi fíkniefna. Hann kveðst ekki hafa sagt Jónasi Inga frá því eftir að Vaidas kom til landsins, “en hann náttúrulega var með okkur í bílnum”. Hann sagðist halda að um klukkutími hafi liðið frá því að þeir komu í íbúð Tomasar með Vaidas þar til honum snöggversnaði og hann dó. Jónas Ingi hafi ekki vitað um það að manninum snöggversnaði rétt fyrir andlátið. Hann kveðst hafa ákveðið það einn að setja líkið í höfnina. Ákærði segir að Tomas hafi staðið á verði töluverðan spöl frá þeim hinum eftir að hann hafði sett teppið í bílinn aftur eftir að líkið hafði verið tekið úr því.
Ákærði Jónas Ingi hefur skýrt frá því að nokkru áður en Vaidas kom til landsins hafi frést að hann hefði áhuga á því að eiga viðskipti með sumarhús og fleira. Hafi maðurinn, eftir því sem hann vissi, verið “sóttur í þeim tilgangi að kanna með þau viðskipti”. Hann segist á þessum tíma hafa haft atvinnu af því að útvega dvalarleyfi handa útlendingum og því hafi ekki verið talið óeðlilegt að hann kæmi að þessu. Hann kvaðst hafa heyrt í manninum einu sinni eða tvisvar í síma áður en hann kom fyrir tilstilli Tomasar en um eiginleg samskipti hafi ekki verið að ræða. Hann segir þá Grétar hafa verið saman í að velta fyrir sér viðskiptatækifærum og Tomas hafi blandast í það þar sem hann hafði tengsli út. Hafi verið ákveðið að ákærði tæki á móti manninum í flugstöðinni og hann haft með sér þangað inn skilti með nöfnum þeirra tveggja sem hann hafði útbúið. Þegar maðurinn gaf sig ekki fram kveðst hann hafa farið út í bílinn til þeirra hinna og sagt þeim það. Hann hafi svo lagt sig í aftursætið á leiðinni til Reykjavíkur og sofið á þeirri leið. Hann hafi þó orðið var við að einhver kom í bílinn, þegar stoppað var á Loftleiðum, og settist í framsætið svo að hann sá ekki framan í hann. Hafi svo verið ekið heim til Tomasar þar sem maðurinn fór út en sér hafi svo verið ekið heim. Hann segist ekki muna til þess að Grétar hafi ekið bílnum en gögnin beri með sér að svo hafi verið. Hann kveðst ekki hafa heyrt frá Vaidasi og haft orð á því nokkrum dögum síðar. Hafi hinir þá sagt að rétt væri að slíta samskiptum við manninn og finna einhvern annan tengilið. Ákærði kannast við að hafa breytt farseðli Vaidasar á fimmtudeginum. Hefði verið talað um að reyna að fá farseðil hans ógiltan og endurgreiddan. Hafi hann hringt í flugfélagið til þess að reyna að hafa upp á manninum. Hann segir ennfremur að á mánudagskvöldið, eftir að Tomas hafði talað við Vaidas í síma, hafi hann tekið að sér að breyta farseðlinum þannig að brottförin yrði á sunnudag. Hafi Tomas lagt út fyrir þessu en hann tekið að sér að koma þessu í framkvæmd. Hafi það verið þessi breyting sem hann gerði á fimmtudeginum, til þess að ná kostnaðinum af fyrri breytingunni aftur. Það hafi hins vegar komið í ljós að ekkert fengist endurgreitt og að ein breyting til myndi hafa í för með sér viðbótarkostnað. Hafi hann þá látið fresta þessu.
Um veru sína í íbúðinni þessa viku segir ákærði að hann hafi litið inn öðru hvoru í mislangan tíma, kortér, hálftíma, klukkutíma eða tvo eða þrjá tíma í senn. Skiptin hafi verið fjögur en ekki muni hann hvaða daga eða nákvæmlega hvenær dagsins þetta var. Hann hafi ekki séð aðra í íbúðinni en þá Grétar og Tomas eða ummerki um fleiri gesti. Þeir hafi setið í stofunni og spjallað.
Um föstudaginn 6. febrúar segir ákærði það að til hefði staðið að fara út á flugvöll að sækja Litháa að nafni Dónce sem hafi verið koma frá útlöndum. Tomas hefði sagt að maðurinn vildi athuga með atvinnuleyfi og kveðst ákærði hafa séð þarna viðskiptatækifæri. Hann segir þá hafa komið að sækja sig, Tomas og litháískur vinur hans, ekki muni hann sérstaklega eftir Grétari þarna. Hafi þeir landarnir talað saman lítið eitt á sinni tungu, sem ákærði kveðst skilja eitthvað í. Þegar ferðin hafi verið hálfnuð eða svo hafi maðurinn hóstað ógurlega fyrir aftan ákærða. Hafi Tomas spurt manninn hvort hann vildi ekki fara á spítala en maðurinn þvertekið fyrir það. Kveðst ákærði einnig hafa skilið að þeir töluðu um að snúa við og hafi Tomas ákveðið að snúa við. Hafi verið fyrst komið við hjá Grétari og sótt hann eftir að hafa talað við hann í síma, annað hvort ákærði eða Tomas. Hafi svo verið ekið að Furugrund og maðurinn þar verið studdur upp í íbúð Tomasar. Hefði maðurinn vel getað gengið þetta sjálfur “en þetta verið bara kurteisi af okkar hálfu”. Hafi maðurinn lagst inn á sitt flet en sjálfur hefði hann gengið til stofu og hinkrað. Þegar sá sem annaðist manninn inni í herberginu kom fram hafi ákærða skilist að allt væri í lagi, manninum liði betur og vildi ekki frekari aðstoð. Þegar leið á morguninn og þeir Tomas og Grétar höfðu reykt mikið kveðst ákærði hafa brugðið sér í göngutúr í 20 45 mínútur, en þeim hinum verið kunnugt að ákærði þoldi illa reykinn frá þeim. Þegar hann kom aftur hafi allt verið með felldu. Grétar hafi talað um að hann vildi fara austur að hvíla sig eftir raflost og hælbrot sem hann hafði mátt þola. Hafi Tomas spurt sig hvort hann vildi leigja fyrir sig bíl þar sem hann langaði að hitta vini sína á Selfossi daginn eftir. Kveðst ákærði hafa sagt að leigan opnaði seint á laugardagsmorgninum og væri betra að taka bílinn þennan dag. Gætu þeir þá farið að skoða landið. Hafi Tomas tekið “ofsalega vel í það”. Ákærði getur þess að Tomas hafi ætlað að hjálpa honum við að brjóta gat á vegg fyrir dyr og væri rétt að taka næstu helgi í það og hafi Tomas minnt ákærða á það. Þeir hafi rætt um hvað þyrfti til verksins og þá sagt að gott væri að hafa teppi til þess að hlífa gólfinu. Þeir hafi tekið jeppann á leigu, farið í Byko og keypt teppið og fleira til verksins. Hafi þeir komið við heima hjá ákærða og hirt þar sorp úr bíl ákærða. Sorp þetta hafi verið í svörtum plastpokum og kveðst hann hafa séð sér leik á borði þar sem þeir voru með stóran jeppa. Þetta hafi verið illa lyktandi og ekki við hæfi að geyma það í fjölskyldubílnum. Þeir hafi farið í ferðina eftir að hafa keypt ýmislegt til ferðarinnar. Ákærði kveðst ekki muna hvort farþegasæti í jeppanum hafi legið niðri eða ekki en heldur þó ekki. Þeir hafi upphaflega ætlað sér að fara að Gullfossi og Geysi en í Hveragerði hafi Tomas sagt að hann vildi halda lengra því hann væri búinn að sjá Gullfoss og Geysi. Muni hann hafa nefnt Skaftafell í þessu sambandi. Einhvers staðar á leiðinni hafi þeir ekið fram á tvær stúlkur sem þeir hafi hjálpað í ófærðinni. Í því hafi komið þar að tveir bræður, frændur Grétars á leið til Neskaupstaðar. Veðrið hafi verið mjög vont þegar hér var komið sögu. Hafi þeir séð að réttast væri að hafa samflot við bræðurna fremur en að snúa við. Veðrið hafi enn versnað og þeir orðið að gista tvær nætur á Djúpavogi. Þeir hafi getað haldið áfram austur á sunnudeginum og komið þangað samdægurs. Þar hafi verið farinn einhver “jeppatúr” og þeir svo borðað hjá foreldrum Grétars. Eftir kvöldmatinn hafi þeir farið í annan “jeppatúr” og ekið um allt nágrennið fram að miðnætti. Þá hafi menn farið að sofa. Hann kveðst hafa orðið viðskila við þá hina í 3 eða 4 skipti þetta kvöld. Eitt sinn hafi hann farið í sjoppu, annað skipti að sækja skóflu, og í það skipti, sem ráða megi af gögnum málsins að skipti hér máli, hafi hann fengið sér göngutúr í átt að húsi sem heiti Steinn. Daginn eftir hafi þeir Tomas haldið til Reykjavíkur. Þeir hafi enn verið með ruslið í bílnum. Þeir hafi komið við á Hellu og Hvolsvelli og keypt ræstingarvörur til þess að gera hreina íbúð Tomasar, en hann hefði ætlað að leigja hana út. Á Selfossi hafi þeir losað sig við ruslið í gám, þar á meðal teppið. Þeir hafi svo ekið heim.
Um félagið MMRO og peningafærslurnar á vegum félagsins segir ákærði að félagið hafi verið stofnað til þess að geta útvegað Litháum dvalar- og atvinnuleyfi og til þess að vera með fyrirtækjarekstur. Peningafærslurnar hafi verið látnar renna um bankareikning félagsins til þess að búa til veltu á honum. Hafi þetta verið gert í samráði við Tomas því færslurnar hafi verið í hans þágu. Kveðst ákærði hafa annast allar bankafærslurnar fyrir Tomas til Litháen. Hafi hann einskis spurt í sambandi við þessar greiðslur. Hann kveðst þó muna að Tomas hafi í eitt sinn sagst vera að senda föður sínum peninga. Þá kannast hann við að hafa annast greiðslur fyrir Tomas í gegn um fyrirtækið Western Union. Um greiðslurnar til Grétars þegar hann var í Noregi segir ákærði þær hafa verið fyrir ferðakostnaði hans.
Ákærði segir að Tomas hafi aldrei gefið það í skyn við hann að til stæði að flytja fíkniefni hingað til lands. Slíkt hafi heldur aldrei verið gefið í skyn eftir að Vaidas var kominn til landsins. Ákærði kveðst kunna hrafl í þýsku.
Ákærði Tomas segist hafa vitað að Vaidas var með fíkniefni innvortis og höfðu þeir talað saman um það áður. Hann segir þá hafa þekkst lengi, enda frá sömu borg í Litháen. Hafi þeir verið kunningjar. Hann kveðst ekki muna hvað þeir höfðu ákveðið um þátt hans í innflutningnum, en þeir hefðu skipulagt innflutninginn saman. Þá muni hann ekki hvaða efni hafi verið rætt um. Hann hafi þó vitað að um amfetamín væri að ræða. Hann hefði verið búinn að ræða um þetta við Grétar en man ekki að greina frá þeim viðræðum. Hann vísar til lögregluskýrslunnar sem hann gaf um þetta. Hann kveður þá Grétar hafa rætt um það hvort Grétar gæti aðstoðað hann við dreifingu á þessum efnum. Hafi Grétar svarað því til að hann myndi hjálpa ákærða að selja efnin. Jónas Ingi hafi ekki vitað hvað bjó að baki komu Vaidasar, nema þá það sem hann kynni að hafa haft frá Grétari. Hann kveður þá alla þrjá hafa haldið suður til Keflavíkur að taka á móti Vaidasi. Hann kveðst ekki muna nákvæmlega hvers vegna það kom í hlut Jónasar Inga að fara inn í flugstöðina að taka á móti Vaidasi. Hann geti ekki sagt hvort það hafi verið vegna þess að það vekti minni eftirtekt vegna atvinnu Jónasar Inga. Hann muni þetta ekki. Hann segist ekki hafa rætt við Jónas Inga að Vaidas væri að koma hingað með fíkniefni. Hann muni ekki hvort þetta hafi verið rætt á leiðinni út á flugvöll, en það geti hafa verið. Hann kveðst halda að Jónas Ingi hafi ekki vitað að Vaidas væri að koma með fíkniefni. Hann viti ekki hvernig fíkniefnakaupin hafi verið fjármögnuð, en ef til vill hafi Vaidas greitt fyrir þau sjálfur. Ekki hafi þeir verið búnir að setja niður fyrir sér hvað Vaidas átti að hafa upp úr krafsinu. Jónas Ingi hafi ekki hitt á Vaidas inni í flugstöðinni og sjalfur hafi hann fengið sms-skilaboð frá Vaidasi að hann væri á leiðinni með rútunni. Hafi þeir svo sótt hann á Loftleiðahótelið og farið í búðina á Furugrund. Eftir að þeir komu þangað hafi Vaidas sagt að sér liði ekki vel og vildi leggja sig. Hann segist annars ekki muna nákvæmar tímasetningar og vísar til lögregluskýrslunnar sem hann gaf um þetta. Hann kveðst muna eftir því að Vaidas hafi, þegar eitthvað var liðið á dvöl hans, sýnt ákærða ör sem hann var með á maganum. Ákærði kveðst hafa vitað að Vaidas hafði lent í slysi fyrir mörgum árum. Hann segir að Vaidas hafi verið við góða heilsu fyrst eftir að hann kom. Hann hafi svo farið að finna fyrir magaverkjum þar sem fíkniefnin gengu ekki niður. Hann kveðst aðspurður muina hvort verkirnir ágerðust. Hann geti ekki nákvæmlega lýst líðan Vaidasar en honum hafi ekki liðið vel. Kveðst ákærði hafa viljað koma Vaidasi á sjúkrhús en Vaidas ekki viljað þetta. Hafi þeir rætt þetta en ekki muni hann hvenær þetta var. Hann kannast við það sem Grétar hefur sagt um kaup á hægða- og verkjalyfjum. Þegar verkjalyfið var keypt hafi það verið að beiðni Vaidasar. Þegar leið á fimmtudaginn hafi Vaidasi liðið illa og kastað upp. Ekki muni hann nákvæmlega hvenær hann kastaði upp. Hann kannast við að uppsalan hafi verið blóðlit. Þá kannast hann við að maginn á Vaidasi hafi blásið upp, kannski ekki eins mikið og á ófrískri konu eins og haft er eftir honum hjá lögreglu. Þá hafi verið rætt við Vaidas að hann yrði að fá læknishjálp en Vaidas ekki viljað það. Sé það vegna andstöðu Vaidasar að ekki var leitað læknishjálpar fyrir hann. Hann segir Jónas Inga hafa komið í íbúðina meðan Vaidas dvaldi þar en ekki muni hann hvort hann hafi komið oft eða sjaldan. Um ferðina á flugvöllinn á föstudagsmorgun segir hann að þegar þeir voru komnir á móts við afleggjarann að Bláa lóninu hafi Vaidas verið orðinn mjög þjáður og viljað fara úr bílnum til að ganga um smástund. Hafi þeir ákveðið að snúa við vegna þess hve illa Vaidasi leið. Á leiðinni til baka kveðst ákærði hafa spurt Vaidas hvort hann vildi ekki fara til læknis en Vaidas aftekið það. Hann kveður Vaidas hafa kastað upp í bílnum. Þeir hafi komið við hjá Grétari og ekið með hann á Furugrund. Hann segist hafa farið á undan upp stigann en hinir þrír fylgt á eftir. Þegar þeir komu upp í íbúðina hafi Vaidasi liðið mjög illa en hann kveðst ekki hafa verið í sama herbergi og Vaidas og því ekki fylgst nákvæmlega með líðan hans. Aðspurður hvort hann hafi orðið vitni að því þegar Vaidas lést segir hann að erfitt sé að muna þetta eftir svo langan tíma. Ákærði segir að þeir Jónas Ingi hafi farið að taka bíl á leigu. Hann segir líkið hafa verið sett í poka og teppi og sett inn í bílinn. Hafi aftursætin verið lögð niður í þessu skyni. Ákærði segist hafa viljað grafa líkið í jörðu en Grétar hafi sagt að hann ætlaði að fljúga til Neskaupstaðar og skyldu þeir ákærði og Jónas Ingi aka líkinu austur og yrði þá allt tilbúið þegar þeir kæmu. Ekki hafi verið talað um að opna líkið til þess að ná fíkniefnunum. Hann segist annars ekki muna samræður þeirra eftir svo langan tíma. Hann segist hafa ekið eftir fyrirsögn Jónasar Inga. Hann kannast við að þeir hafi rekist á tvo pilta og slegist í för með þeim. Hafi piltarnir ekki vitað neitt um tilganginn með ferð þeirra Jónasar Inga. Ákærði kannast við að þeir hafi orðið veðurtepptir á Djúpavogi og að þungfært hafi verið til Neskaupstaðar. Um atburðarásina á Neskaupstað segir hann að veður hafi verið vont, jörð freðin og þeir ekki átt annarra kosta völ en að varpa líkinu í sjóinn. Segir hann að kannski hafi það verið um miðnætti á sunnudagskvöldið að þeir gerðu þetta. Hann kveðst hafa staðið afsíðis á verði meðan líkinu var komið í sjóinn. Hann segir Grétar hafa átt hnífinn sem notaður var til þess að stinga í líkið, enda hafi Grétar átt marga hnífa. Hann kveðst ekki hafa séð þegar líkið var látið í sjóinn. Daginn eftir hafi þeir haldið suður og kannast hann við að á leiðinni suður hafi þeir keypt hreingerningarvörur til þess að gera hreint í íbúðinni eftir Vaidas. Rusl hafi verið í bílnum, þ. á m. teppið. Þetta hafi þeir losað sig við á leiðinni. Ákærði kannast ekki við að neitt rusl á vegum Jónasar Inga hafi verið með í ferðinni. Ákærði segir tal um hótanir frá litháísk-rússneskri mafíu sé þvættingur, mafían sé bara í bíómyndum. Um peningafærslur Jónasar Inga segir hann að þær standi ekki í tengslum við þetta mál.
Undir ákærða er borið það sem segir í lögregluskýrslu 10. mars um aðdragandann að komu Vaidasar að þeir Jónas Ingi hefðu rætt saman um fíkniefnin en Jónas Ingi ekki viljað vita meira um þau og sagt að þetta væri mál þeirra Grétars. Ennfremur að hann hefði ætlað að selja efnin sjálfur og kannski Grétar. Segir hann að þetta hafi kannski verið svo. Þá er borið undir hann að Vaidas hafi kastað upp blóði í bílnum. Hann hafi ekki séð þetta þar sem hann hafi ekið en svo hafi hann séð blóð í bílnum.
Ákærði segist hafa munað atburðina betur þegar hann gaf skýrslur sínar hjá lögreglu heldur en nú. Ákærði segist hafa viljað hjálpa Vaidasi, lina þjáningar hans og koma honum til læknis. Vaidas hafi ekki viljað fara til læknis. Vaidas hafi spurt hvort hægt væri að finna lækni sem múta mætti til þess að þegja en ákærði kveðst hafa sagt honum að slíkt væri ekki hægt hér á landi. Þess vegna hafi Vaidas ekki viljað lækni. Ákærði segist ekki hafa óttast um líf Vaidasar á þeim tíma sem hann dvaldi hér, þar til hann dó. Hann kveðst ekki hafa búið um líkið á Furugrund og hafa verið staddur inni í herbergi á meðan, enda hafi hann ekki getað horft upp á þetta. Þeir hinir muni hafa verið á ganginum við þetta. Ákærði segir Grétar hafa átt hnífinn en ákærði verið með hann og afhent hnífinn Grétari fyrr um kvöldið, þarna á Neskaupstað. Hann muni ekki lengur nánar hvers vegna, hvar né hvenær það var.
Undir hann er borið það sem segir í lögregluskýrslunni 10. mars að hann og Vaidas hefðu undirbúið fíkniefnainnflutninginn. Segir hann það vera rétt. Hafi Grétar engan þátt átt í fjármögnun eða undirbúningi innflutningsins, enda ekki vitað um hann fyrr en tveimur dögum fyrir komu Vaidasar. Hann sagðist ekki vera viss hvort hann sagði Grétari það á leiðinni á flugvöllinn til móts við Vaidas, að Vaidas væri með fíkniefni innvortis. Aftur á móti hefði hann verið búinn að segja honum þetta tveimur dögum áður og hefði hann sagt Grétari það hreint út. Hefði Grétar átt að hjálpa ákærða við að selja efnið. Undir hann er þá borið það sem hann segir í lögregluskýrslunni að Grétar hefði “kannski” ætlað að selja efnin með honum. Segir hann að erfitt sé að muna þetta og geti þetta verið rétt. Grétar hafi sagt að hann myndi hjálpa ákærða að selja fíkniefnin. Grétar hefði vitað allt sem var á seyði. Þeir hafi verið vinir, þeir Grétar, og Grétar sagt að hann myndi hjálpa ákærða við þetta. Hann segist hafa munað atburðina betur þegar hann gaf lögregluskýrslurnar heldur en nú, enda séu liðnir sjö mánuðir. Sé lýsing hans á þeim í lögregluskýrslunum rétt.
Ákærði segist ekki hafa séð hvort Grétar reyndi að lífga Vaidas við. Hann gæti þó hafa gert það. Hann kveðst ekki hafa séð blóð á andliti Grétars.
Undir ákærða er borið það sem haft er eftir honum í lögregluskýrslu 16. mars að hann hefði aldrei rætt við Jónas Inga um fíkniefnainnflutning fyrir komu Vaidasar. Hann vissi til þess að Jónas Ingi vildi ekki hafa með slík mál að gera og því hefði hann ekki viljað blanda honum í málið. Þá vissi hann ekki hvort Grétar hefði sagt Jónasi Inga það sem ákærði hafði sagt honum um málið. Ákærði kveður þetta vera rétt eftir sér haft. Hann segir aðspurður að Grétar gæti hafa sagt Jónasi Inga hvernig í pottinn væri búið. Hann segist sjálfur aldrei hafa sagt Jónasi Inga að Vaidas væri með fíkniefni innvortis.
Ákærði segir Vaidas hafa treyst sér til þess að fara í flug á fimmtudeginum og föstudagsmorgninum. Þá segir ákærði aðspurður að Jónas Ingi hafi ekki talað við Vaidas meðan Vaidas dvaldi á Furugrund. Hafi Jónas Ingi heldur engin afskipti haft af Vaidasi eftir að þeir höfðu snúið til baka á föstudagsmorgninum. Hann kveðst ekki hafa hjálpað Jónasi Inga að bera rusl á milli bílanna við heimili Jónasar Inga. Hann segist ekki hafa tekið eftir því hvort Jónas Ingi hafi fært rusl á milli bílanna.
Ákærði segir að kvöldið sem Vaidas kom til landsins hafi hann verið þreyttur og viljað hvíla sig. Það hafi verið daginn eftir að honum fór að líða illa. Hann segir Vaidas hafa verið rólfæran allan tímann sem hann dvaldi hjá ákærða og allan tímann með meðvitund.
Þorkell Sævar Guðfinnsson, sem býr á Furugrund 50, hefur skýrt frá því að hann hafi umræddan föstudagsmorgun, um áttaleytið, verið að fara heiman frá sér til vinnu og þá mætt tveimur ókunnugum mönnum sem héldu á þeim þriðja á milli sín. Hafi einn mannanna þá sagt: “Svona er að drekka einum of mikið!” Vitnið áleit manninn vera ofurölvi og ófæran til gangs. Hann kveðst ekki geta sagt hvort maðurinn dró fæturna eða hvort hann gat sett þá fyrir sig. Vitnið kveðst ekki hafa séð Tomas í þetta sinn.
Hákon Guðröðarson, hálfbróðir ákærða Grétars, hefur skýrt frá því að Jónas Ingi hafi, mánudaginn 2. febrúar, verið staddur heima hjá Grétari, þar sem vitnið dvaldi þá, og verið að hringja í hótel til þess að athuga með gistingu fyrir mann sem væri að koma til landsins síðdegis.
Dagur Sveinsson, annar bræðranna, sem fyrr eru nefndir, hefur skýrt frá því að þegar þeir óku fram á ákærðu, hafi ákærðu sagt að þeir væru í skoðunarferð. Þegar þeir komu til Hafnar hafi ákærðu ákveðið að halda áfram með þeim austur. Þeir hafi umgengist talsvert meðan þeir biðu á Djúpavogi. Ekki kvaðst hann hafa greint neitt óvenjulegt í fari þeirra. Hann kveðst hafa séð að farþegasætið í jeppa ákærðu hafði verið lagt niður. Þá hafi hann séð svarta plastpoka í bílnum. Hann segir ákærðu hafa komið á verkstæðið í heimsókn sunnudaginn. Hafi Jónas Ingi þá sagt að þeir væru að leita að báti að sigla á. Um kvöldið hafi Grétar hringt í vitnið og þeir hist á verkstæðinu. Hafi hann viljað sýna Tomasi verkstæðið. Seinna, á mánudeginum, þegar Grétar ók þeim bræðrum upp á Egilsstaði kveðst hann hafa séð upprúllað ljósblátt gólfteppi ofan á draslinu í bílnum. Hann kveðst hafa fundið mikinn óþef í bílnum og haft orð á því Grétar, sem hafi sagt að hann væri af draslinu. Væri draslið úr íbúð sem þeir hefðu verið að gera upp.
Hlynur Sveinsson, hinn bróðirinn, hefur skýrt frá því að hann hafi lánað Grétari bíl sinn, á miðvikudagskvöldi, að því er hann minni, en þó geti það hafa verið á mánudagskvöldinu 2. febrúar. Hafi Grétar átt bensínfrekan bíl og því fengið bíl vitnisins lánaðan. Um ferðalagið austur segir vitnið að þegar þeir voru komnir til Hornafjarðar hafi ákærðu haft samband við Grétar sem hafi endilega viljað fá þá til Neskaupstaðar og mættu þeir gista í bændagistingu sem móðir hans stæði fyrir. Hafi þá verið haldið áfram og þeir brotist áfram. Hann kveðst hafa tekið eftir því að aftursætisbökin í jeppa ákærðu lágu niðri. Þá hafi verið mikið af rusli í bílnum. Hann kveðst ekki hafa merkt neitt óeðlilegt í fari ákærðu meðan á samfloti þeirra stóð. Hann hafi þó þóst finna inn á það að þeir, eða Jónas Ingi hafi ekki kært sig um að vera í símsambandi við neinn þennan tíma, og haft slökkt á farsímanum sínum. Hafi Grétar beðið vitnið að skila því til ákærðu að þeir hefðu samband við hann. Á leiðinni frá Djúpavogi til Neskaupstaðar, þegar þeir biðu eftir að vegarkafli yrði ruddur, kveðst hann hafa haft orð á því við ákærðu að þeir væru með mikið rusl í bílnum og þeir þá sagt til skýringar að þeir hefðu verið að brjóta niður vegg í íbúð Jónasar Inga. Hefði verið búið að loka í Sorpu þegar þeir ætluðu að losa sig við ruslið. Hann kveðst muna eftir einhverjum stranga aftur í bílnum. Hann segir Grétar hafa hringt á sunnudeginum og viljað sýna verkstæðið og Dagur farið og sinnt því.
Þóra Steffensen réttarmeinafræðingur hefur sagt að samvextirnir í mjógirni Vaidasar Juceviciusar hafi stafað frá kviðarholsaðgerð sem hann hafði gengist undir. Sé ávallt hætta á slíku eftir aðgerðir en mismikil eftir einstaklingum. Ekki sé hægt að segja hvenær þessi aðgerð var framkvæmd en a.m.k. séu liðnar 3-4 vikur síðan. Samvextir þessir hamli eðlilegri hreyfingu garnanna innan kviðarhols. Yfirleitt skipti þetta litlu máli fyrir viðkomandi en þegar aðskotahlutur fari um garnirnar verði til fyrirstaða af því að garnirnar séu límdar saman í skarpar lykkjur og geti ekki hreyft sig innan kviðarholsins. Ef ekki hefðu verið þessar samgróningar hefðu pakkningarnar mjög líklega gengið niður af manninum. Stífla í mjógirni hafi í för með sér mjög sára og kveisukennda verki, mistíða eftir því hversu hátt stíflan er í görninni. Þegar á líður verði verkirnir stöðugri og þyngri. Uppköst fylgi þessu og kviðurinn þenjist út, einnig sé það komið undir staðsetningu stíflunnar hversu fljótt þetta komi fram -því fyrr sem stíflan sé ofar. Fyrir ofan stífluna safni görnin í sig vökva úr blóðrásinni og valdi þetta truflunum á blóðsöltum og vökvajafnvægi líkamans. Blóðþrýstingurinn lækki því þegar á líði og görnin sogi til sín vökva úr blóðrásinni. Geti þetta leitt til nýrnabilunar. Haldi blóðþrýstingurinn áfram að falla leiði þetta til losts og dauða. Að maðurinn hafi kastað upp blóði megi rekja til þess að magaslímhúðin í honum var orðin mjög rauð og “létt-blæðandi”. Efsti hluti slímhúðarinnar hafi rofnað eða núist af, líklega af völdum pakkninganna við endurteknar uppsölur, ekki þó svo að sár myndaðist.
Læknirinn segir mjög erfitt að fullyrða um lífslíkur mannsins en ætla megi að þær hafi verið 94% 99% ef gripið hefði verið inn í áður en fór að blæða frá maganum en eftir það hafi þær verið eitthvað lægri, þ.e. á föstudagsmorgun. Þá hefði þurft að koma til neyðaraðgerð, sem hefði með í för 10% - 50% dánartíðni eða 50% -90% lífslíkur.
Um stungusárin á líkinu segir læknirinn að vinstra megin á brjóstkassa hafi verið tvö sár mjög nálægt hvort öðru og gætu þau hafa hlotist af sama laginu, en hnífurinn færst til vegna plastumbúðanna. Hnífsstungurnar í líkið hafi þannig verið a. m. k. fjórar. Sárið á hálsinum sé eins og hin sárin, með skarpa barma og sé eftir eggvopn.
Læknirinn segir það hafa verið seint í sjúkdómsferlinum að maðurinn varð ósjálfbjarga og missti meðvitund. Hafi hann líklega verið með meðvitund þar til mest blóð gekk upp úr honum á föstudeginum. Við það hafi hann tapað enn meiri vökva og sjúkdómsferlið hafi hert á sér og maðurinn orðið rænulaus. Þar á undan hafi maðurinn verið orðinn illa haldinn af kvölum, máttfarinn og í keng, með svima og vart getað staðið undir sér og þurft stuðning síðustu klukkustundirnar.
Niðurstaða
I. kafli ákærunnar
Ákærði Jónas Ingi hefur harðneitað því að hafa nokkuð vitað um atvik að dauða Vaidasar Juceviciusar eða þá að hann hafi vitað að lík hans hafi verið meðferðis í ferð þeirra Tomasar á jeppanum austur á Neskaupstað og því komið í höfnina þar. Það liggur þó fyrir að hann kom nokkrum sinnum í íbúð Tomasar á Furugrund í vikunni sem Vaidas dvaldist þar, var með í ferðinni áleiðis til Keflavíkur á föstudagsmorgun, studdi Vaidas upp í íbúðina á Furugrund ásamt Grétari, sem hann segir hafa verið kurteisisbragð, var í íbúðinni meðan Vaidas háði dauðastríð sitt og átti mestan þátt í undirbúningnum að ferðinni austur. Staðhæfing hans að hann hafi ekki vitað um dauða mannsins eða líkflutninginn, svo og skýringar hans á atburðarásinni, eftir að komið var aftur með Vaidas á Furugrund að morgni föstudagsins, og einstökum atriðum í henni eru svo fráleitar að engu tali tekur. Þá eru þær í ósamræmi við skýrslur meðákærðu í málinu, eins og rakið hefur verið hér að ofan. Verður að hafna staðhæfingu hans og skýringum alfarið og telja sannað með framburði meðákærðu, sem studdur er fjölmörgum rannsóknargögnum, að ákærða hafi ekki einasta verið fullkunnugt um dauða Vaidasar og að lík hans var með í jeppanum austur, heldur einnig að hann hafi ásamt Grétari búið líkið til flutnings, komið því út í bílinn og flutt það austur ásamt Tomasi til þess að losa sig þar við það.
Ákærði Grétar hefur haldið því fram að hann hafi viljað þvo hendur sínar af málinu og haldið austur á Neskaupstað á föstudeginum til þess að hvíla sig og að ekki hafi komið til tals með þeim þremur að líkið yrði flutt austur áður en þeir skildu. Hafi hann ekki frétt af líkflutningnum fyrr en þeir voru komnir á Djúpavog. Þetta er í andstöðu við framburð Tomasar sem hefur haldið því fram að Grétar hafi sagt þeim að flytja líkið austur og að hann yrði búinn að undirbúa komu þeirra þangað. Þegar það er haft í huga að ákærðu lögðu í langt ferðalag um hávetur og brutust í ófærð alla leið til Neskaupstaðar með líkið þykir ekki varhugavert að byggja á frásögn Tomasar um það að Grétar hafi verið með í ráðum um flutning líksins austur þangað í því skyni að þeir gætu þar losað sig við það.
Ákærði Tomas játar sök að því er varðar innflutning fíkniefnanna og kveður þá Vaidas hafa skipulagt innflutninginn saman. Hann kveður hlut meðákærða Grétars í máli þessu hafa verið þann að samþykkja að hjálpa til við að dreifa efnunum hér á landi og hafi Grétari verið kunnugt um hvað til stæði nokkrum dögum fyrir komu Vaidasar. Um vitneskju Jónasar Inga hefur hann verið óstöðugur og ýmist sagt að hann hafi ekki talað um þetta við hann eða þá að hann hafi imprað á því, en Jónas Ingi ekkert viljað vita af því og sagt þetta vera mál þeirra Grétars. Skýringar ákærða á peningafærslum og -greiðslum, sem hann snerta, svo og á linnulausum hringingum í Kestutis Eidintas hljóta að teljast tortryggilegar. Þá hlýtur allt tal hans um viðskipti með sumarhús frá Litháen einnig að teljast mjög ótrúverðugt. Annars má segja það að skýrslur hans hjá lögreglu um atburðarásina sjálfa eru yfirleitt greinargóðar og trúverðugar og voru auk þess gefnar að viðstöddum verjanda. Fyrir dómi hefur frásögn hans hins vegar verið treg og hann hefur heldur dregið úr því sem hann hafði sagt um þátt meðákærðu í málinu. Með vísan til játningar ákærða, sem fær stuðning af öðrum gögnum málsins, telst hann vera sannur að því að hafa staðið að innflutningi fíkniefnanna til landsins. Hefur hann orðið sekur um brot gegn þeim lagaákvæðum sem tilfærð eru við þennan kafla ákærunnar.
Sem fyrr segir neitar ákærði Jónas Ingi allri vitneskju um fíkniefnainnflutninginn og það sem meðákærðu segja um aðild hans að þeim þætti varðar ekki fjármögnun eða undirbúning þessa fyrirtækis, heldur einungis það að hann hafi vitað eða kunni að hafa vitað hvað til stóð skömmu fyrir komu Vaidasar til landsins. Þessi neitun ákærða er þó ekki trúverðug í ljósi þess sem vitað er um athafnir hans fyrir og eftir komu Vaidasar til landsins. Þannig tók hann að sér, m. a., að hringja á gistihús til þess að útvega Vaidasi hótelgistingu fyrir komu hans, hélt út á Keflavíkurflugvöll margnefndan mánudag með þeim hinum að taka á móti honum, hafði útbúið spjald með nöfnum þeirra tveggja og beið komu Vaidasar með spjaldið í flugstöðinni, fór með þeim hinum og sótti Vaidas og flutti hann á Furugrund eftir að þeir höfðu farist á mis, var þar tíður og þaulsætinn gestur dagana á eftir, meðan Vaidas var þar veikur, sá um að breyta farmiða Vaidasar, lagði á ráðin um losandi lyf handa Vaidasi og gerði sér ómak í þeim efnum og var með í förinni þegar Vaidasi var ekið áleiðis til Keflavíkur snemma um föstudagsmorguninn. Skýringar þær sem ákærði hefur gefið á þessu öllu þykja vera fráleitar og að engu hafandi. Þá þykir það sem ályktað var hér að framan um þátt ákærða í líkflutningnum benda sterklega til þess að hann hafi átt þátt í því að flytja fíkniefnin til landsins. Loks er á það að líta að ákærði greiddi umtalsverðar fjárhæðir inn á reikninga Tomasar og annarra Litháa, bæði hér á landi og í Litháen, næstu mánuði á undan, en skýringar hans á þeim ráðstöfunum þykja tortryggilegar. Þá hlýtur allt tal hans um viðskipti með sumarhús og fleira frá Litháen einnig að teljast mjög ótrúverðugt. Loks er þess að geta að Grétar hefur borið að ákærði hafi vitað það fyrir að Vaidas kæmi með fíkniefni. Þegar allt þetta er haft í huga þykir ekki varhugavert að telja sannað að ákærði hafi staðið að því að flytja inn fíkniefnin sem um ræðir í málinu og á þann hátt sem lýst er í ákærukaflanum. Hefur hann orðið sekur um brot gegn þeim lagaákvæðum sem tilfærð eru við þennan kafla ákærunnar.
Eins og fram er komið neitar ákærði Grétar því að hafa staðið að innflutningnum á fíkniefnunum með Tomasi. Hann kannast þó við að hafa vitað um hvað til stóð nokkrum dögum áður og að hafa velt því fyrir sér hvort hann gæti hagnast á því að taka þátt í því að dreifa efnunum. Sú staðhæfing ákærða að hann hafi ekki staðið að innflutningnum þykir þó ekki vera trúverðug í ljósi þess sem upplýst er um athafnir hans, eins og það að undirbúa komu Vaidasar, sækja hann suður á Keflavíkurflugvöll með þeim hinum, útvega honum verkja- og hægðalyf og annað því tengt, dveljast meira og minna á Furugrund hjá þeim Tomasi og Vaidasi, eins og rakið er, taka að sér að búa líkið til flutnings og bera það út í jeppann. Þá bendir það sem ályktað var hér að framan um þátt ákærða í því að ákveða að líkið skyldi flutt austur á Neskaupstað, svo og atbeini hans að því að koma því þar fyrir, sterklega til þess að hann hafi átt þátt í því að flytja fíkniefnin til landsins. Þá hlýtur allt tal hans um viðskipti með sumarhús frá Litháen einnig að teljast mjög ótrúverðugt svo og skýringar hans á hringingunum í númerið í Litháen. Þegar þetta er allt metið, svo og það sem þeir Tomas hafa þó borið um fyrir fram vitneskju ákærða um innflutninginn, þykir ekki varhugavert að telja sannað að ákærði hafi staðið að því að flytja fíkniefnin til landsins. Hefur hann orðið sekur um brot gegn þeim lagaákvæðum sem tilfærð eru við þennan kafla ákærunnar.
II. kafli ákærunnar.
Ákærðu Grétari og Tomasi ber saman um það að Vaidas Jucevicius hafi ekki viljað hætta á það að leita læknis hér á landi, eftir að honum varð ljóst að þá kæmist upp um hann. Hefur ekkert komið fram í málinu sem hnekkir þessari frásögn þeirra. Þá verður það ráðið af skýrslum ákærðu að Vaidas hafi verið með fullri rænu og ráði lengst af og fær það stuðning af skýrslu Þóru Steffensen, réttarmeinafræðings. Telja verður að ákærðu hafi allir hlotið að gera sér það ljóst, þegar á leið og farið var að ræða um að koma Vaidasi undir læknishendur, að hann gæti ekki sjálfur skilað af sér fíkniefnunum. Hlaut þeim að vera ljóst að hann gæti á endanum dáið af þessum vandræðum ef ekki yrði gripið til aðgerða. Verður það bæði ráðið af frásögn Grétars og Tomasar og því að reynt var að fá brottför mannsins flýtt, miðvikudaginn 5. febrúar, að þann dag hafi þeim öllum orðið þetta ljóst. Þeim tveim ber saman um það að daginn eftir hafi Vaidas farið að kasta upp. Álítur dómurinn að þá hafi ákærðu, einnig Jónas Ingi, sbr. það sem ályktað var hér að ofan um vitneskju hans um líðan mannsins og komur hans og setur í íbúðinni á Furugrund, hlotið að gera sér ljóst að maðurinn var í lífshættu. Í 221. gr. almennra hegningarlaga er manni lögð á herðar sú skylda að koma þeim manni til hjálpar sem staddur er í lífsháska, enda stofni hann sér ekki sjálfum eða öðrum í lífsháska með því. Í refsirétti hefur verið talið, að þegar svo stendur á, skipti samþykki þess sem í hlut á ekki máli. Voru ákærðu því skyldir til þess, að viðlagðri refsiábyrgð, að taka ráðin af Vaidasi þegar á fimmtudeginum og koma honum sjálfir á sjúkrahús eða kalla til sjúkralið og lögreglu. Enda þótt fallist yrði á þá viðbáru Grétars að hann hafi haft ástæðu til þess að óttast um velferð sína eða sinna af hendi einhverra ótiltekinna manna, ef hann ljóstraði upp um innflutninginn, getur það ekki leyst hann undan sök. Þá leysir það heldur ekki undan sök þótt ákærðu þættust sjá fram á það að þeim yrði refsað fyrir innflutning efnanna, þegar kæmist upp um þá. Samkvæmt þessu ber að sakfella ákærðu alla fyrir brot gegn 221. gr. almennra hegningarlaga.
III. kafli ákærunnar.
Hér að framan hefur það verið rakið ítarlega hvernig búið var um lík Vaidasar Juceviciusar eftir að hann lést í íbúðinni á Furugrund og hvernig það var flutt austur á Neskaupstað og ennfremur verið ályktað um þátt hvers ákærðu um sig í því tiltæki. Ákærði Grétar hefur auk þess gert grein fyrir því hvernig leitað var að stað fyrir austan til þess að losna við líkið og fyrir því hvernig farið var með líkið á bryggjunni, festar á það sökkur og hvernig hann stakk á það göt með hnífi, sem Tomas lét hann hafa, svo það ekki flyti upp og loks hvernig líkinu var sökkt í sjóinn. Hann kveður Jónas Inga hafa tekið þátt í þessu með sér en Tomas hafi sett teppið í bílinn á eftir. Frásögn ákærða Tomasar er í meginatriðum í samræmi við frásögn Grétars. Kveðst hann hafa rétt Grétari hnífinn en gengið afsíðis og staðið á verði meðan Jónas Ingi og Grétar gengu frá líkinu og sökktu því. Framburður Jónasar Inga er frábrugðinn skýrslum hinna um þátt hans í því sem gerðist eftir að austur var komið, eins og um þátt hans í málinu að öðru leyti. Hann hefur kannast við að hafa ekið um í Norðfirði og nágrenni með þeim hinum en sagt að þetta hafi aðeins verið “jeppatúrar”. Þá kveðst hann hafa fengið sér göngutúr og því ekki getað vitað um það að líkinu var sökkt í höfnina. Framburður ákærða um þessi atvik er með sama ótrúleikablæ og framburður hans um annað í málinu og rekst auk þess á skýrslur meðákærðu. Verður að hafna honum alfarið og byggja á frásögn meðákærðu um atburðina á Neskaupstað, sem hefur stuðning af öðru í málinu. Með hliðsjón af framburði ákærða Grétars um hnífsstungurnar, sem að nokkru styðst við álit Þóru Steffensen réttarmeinafræðings, er ósannað að hann hafi stungið oftar en þrisvar sinnum í líkið. Verður hér engu slegið föstu um það hver hafi stungið í háls líksins. Það er álit dómsins að meðferðin á líkinu frá og með því að því var pakkað inn á Furugrund og til og með því að því var sökkt í höfnina á Neskaupstað teljist vera ósæmileg í skilningi 124. gr. almennra hegningarlaga og brot gegn þeirri grein. Ber að sakfella ákærðu óskipt fyrir meðferðina alla.
IV. kafli ákærunnar.
Ákærði Grétar kannast við að eiga og/eða að hafa haft í vörslum sínum alla þá muni sem tilgreindir eru í IV. kafla ákærunnar.
Skammbyssu þá sem um ræðir álítur dómurinn vera hættulausan skrautgrip og getur hún ekki talist vopn í skilningi skotvopnalaganna. Hið sama á við um minni lásbogann af tveimur. Þá eru sex af hnífunum bitvopn með styttra blaði en 12 sm, sbr. a-lið 2. mgr. 30. gr. vopnalaga. Ber þegar að sýkna ákærða af ákærunni að því er varðar þessa muni.
Í málinu eru sjö stórir hnífar sem telja verður að séu einnig bitvopn en ekki stunguvopn, eins og í ákæru segir, sbr. b-lið 2. mgr. 30. gr. vopnalaga. Eru þeir allir með lengra blaði en 12 sm, þar af eru fimm með mun lengra blaði. Hefði borið að geta þessa í ákærunni og þess jafnframt, að hnífarnir væru hvorki ætlaðir til vinnu né heimilishalds, svo að að sakfella mætti fyrir þá, sbr. a-lið 2. mgr. 30. gr. Ber því að sýkna ákærða af ákærunni að þessu leyti.
Að öðru leyti hefur hann með því að eiga og hafa í vörslum sínum önnur vopn, sem talin eru upp í ákærunni, tvær haglabyssur og riffil án þess að hafa fengið skotvopnaleyfi, lásboga, kylfu, 6 fall- og fjaðurhnífa og kasthníf, gerst sekur um brot gegn 12. og 30. gr. vopnalaga. Það athugast að gripur, sem sagður er vera loftriffill í ákærunni, er í raun sjálfvirkur riffill.
Viðurlög og sakarkostnaður
Ákærðu hafa ekki áður gerst sekir um refsilagabrot. Brot þeirra eru hins vegar sérlega ámælisverð. Fíkniefnabrot ákærðu beinist gegn mikilsverðum almennum hagsmunum. Þá hlýtur það að teljast einkar kaldrifjað af þeim, eftir að Vaidasi hafði snöggversnað í ferðinni út á Keflavíkurflugvöll, að þeir skuli þá ekki hafa ekið honum rakleiðis á sjúkrahús, t.a.m. í Keflavík sem var skammt undan þegar þeir sneru við, en þá gat þeim ekki dulist að Vaidasi var bráður lífsháski búinn. Þá álítur dómurinn að það hafi verið smánarlegt tiltæki hjá ákærðu, vegna fjölskyldu og ástvina Vaidasar Juceviciusar, að reyna að láta lík hans hverfa sporlaust. Loks var meðferð þeirra á líkinu hraksmánarleg. Refsing hvers ákærðu um sig þykir hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Frá refsingu ákærðu ber að draga frá 32 daga gæsluvarðhaldsvist sem þeir hafa sætt vegna málsins.
Dæma ber ákærðu til þess að þola upptöku á 223,67 grömmum af metamfetamíni, með heimild í þeim lagaákvæðum sem tilfærð eru í ákærunni.
Dæma ber ákærða Grétar til þess að þola upptöku á riffli, lásboga, kylfu, 6 fall- og fjaðurhnífum og kasthníf, en tvær haglabyssur sem fundust hjá ákærða eru, samkvæmt gögnum málsins, lögmæt eign annarra. Ber að sýkna ákærða af upptökukröfunni hvað þær varðar.
Dæma ber hvern ákærðu um sig til þess að greiða verjanda sínum 500.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun, Brynjari Níelssyni, Sveini Andra Sveinssyni og Björgvin Jónssyni, hæstaréttarlögmönnum. Þá ber að dæma ákærðu til þess að greiða óskipt annan sakarkostnað í málinu.
Héraðsdómararnir Pétur Guðgeirsson, Greta Baldursdóttir og Sigurður Hallur Stefánsson kváðu upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærðu, Grétar Sigurðarson, Jónas Ingi Ragnarsson og Tomas Malakauskas, sæti hver um sig fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Frá refsingu ákærðu dregst 32 daga gæsluvarðhaldsvist.
Ákærðu þoli upptöku á 223,67 grömmum af metamfetamíni.
Ákærði Grétar þoli upptöku á riffli, lásboga, kylfu, 6 fall- og fjaðurhnífum og kasthníf.
Ákærðu greiði hver um sig verjanda sínum 500.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun, Brynjari Níelssyni, Sveini Andra Sveinssyni og Björgvin Jónssyni, hæstaréttarlögmönnum. Annan sakarkostnað í málinu greiði ákærðu óskipt.