- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Miðvikudaginn 14. apríl 2010. |
Nr. 233/2010. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Kristján Stefánsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur, en gæsluvarðhaldstíminn styttur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. apríl 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. apríl 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 23. desember 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um gæsluvarðhald varnaraðila með þeim hætti sem í dómsorði greinir.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 18. júní 2010 klukkan 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. apríl 2010.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X, kt. [...], til að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á meðan áfrýjunarfresti stendur, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 4. maí 2010 kl. 24.
Er krafa þessi var tekin fyrir á dómþingi nú í dag gerði fulltrúi lögreglustjóra kröfu um að dómfelldi sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti en ákærði lýsti því í þinghaldinu að hann áfrýjaði dómi. Gerir fulltrúinn nú kröfu um að dómfelldi sæti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 23. desember nk. kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglustjórans kemur fram að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í dag í máli nr. S-213/2010 var dómfelldi dæmdur í 10 mánaða fangelsi fyrir auðgunarbrot. Frá refsingunni dregst óslitið gæsluvarðhald frá 23. febrúar 2010.
Dómurinn er ekki fullnustuhæfur þar sem dómfelldi tók sér frest til ákvörðunar um áfrýjun til Hæstaréttar Íslands.
Við rannsókn mála dómfellda hafi komið í ljós að hann hafi verið í mikilli neyslu vímuefna og virtist framfleyta sér með afbrotum.
Það sé mat lögreglustjóra að dómfelldi muni halda áfram afbrotum verði hann látinn laus. Nauðsynlegt sé því að honum verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan á fresti til áfrýjunar stendur.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 95. gr. og 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafa þessi nái fram að ganga.
Með vísan til c-liðar 1. mgr. 95. gr. og 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 er skilyrðum fyrir gæsluvarðhaldi dómfellda fullnægt og verður krafa sækjanda um gæsluvarðhald tekin til greina svo sem kveðið er á um í úrskurðarorði.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Dómfelldi, X, kt. [...], skal sæta áfram gæsluvarðhaldi þó eigi lengur en til fimmtudagsins 23. desember 2010 kl. 16.00.