Mál nr. 558/2015
- Rangar sakargiftir
- Sakarefni
- Saknæmi
- Einkaréttarkrafa
X var sakfelld fyrir brot gegn 1. mgr. 148. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa með rangri kæru og röngum framburði hjá lögreglu leitast við að átta manns yrðu sakaðir um kynferðisbrot, líkamsárás, hótanir og ólögmæta nauðung en X hafði greint frá því að þau hefðu í sameiningu veist að henni með ofbeldi og hótað henni og fjölskyldu hennar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að við ákvörðun refsingar við broti gegn 148. gr. laga nr. 19/1940 skyldi hafa hliðsjón af því hversu þung refsing væri lögð við broti því sem sagt hefði verið eða gefið til kynna að viðkomandi hefði drýgt. Var refsing X ákveðin fangelsi í 18 mánuði en fullnustu refsingar var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var X gert að greiða brotaþolum hverju fyrir sig 500.000 krónur í miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. júlí 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að hennar verði þyngd.
Ákærða krefst aðallega sýknu, til vara að sér verði ekki gerð refsing, en að því frágengnu að hún verði milduð. Þá krefst hún þess aðallega að einkaréttarkröfum verði vísað frá dómi, til vara að hún verði sýknuð af þeim, en að því frágengnu að þær verði lækkaðar.
Brotaþolar, A, B, C, D, E, F, G og H krefjast staðfestingar héraðsdóms um einkaréttarkröfur sínar og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Af gögnum málsins er ljóst að þrír þeirra brotaþola, sem ákærða bar þeim sökum er í ákæru greinir, voru ekki í samkvæmi því sem hér um ræðir og heldur ekki nokkur vitni, sem ákærða sagði hafa verið þar.
Samkvæmt 115. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála metur dómari sönnunargildi framburðar ákærða, þar á meðal trúverðugleika hans, við úrlausn máls. Skal í því sambandi meðal annars hugað að ástandi og hegðun ákærða við skýrslugjöf og stöðugleika í frásögn hans. Ekki eru efni til að vefengja mat fjölskipaðs héraðsdóms á trúverðugleika framburðar ákærðu, sbr. 3. mgr. 208 gr. laga nr. 88/2008. Þá eru heldur ekki forsendur til að draga í efa það mat dómsins, sem skipaður var geðlækni, að fullnægt sé saknæmisskilyrðum. Brot ákærðu, sem er sakhæf í skilningi 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, var fullframið við lok yfirheyrslu hjá lögreglu 8. mars 2012. Samkvæmt þessu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærðu og heimfærslu til refsiákvæðis.
Samkvæmt 148. gr. almennra hegningarlaga skal við ákvörðun refsingar fyrir brot gegn lagagreininni hafa hliðsjón af því hversu þung refsing er lögð við broti því, sem sagt er eða gefið til kynna að viðkomandi hafi drýgt. Svo sem lýst er í ákæru sakaði ákærða brotaþola um ýmis alvarleg brot gegn almennum hegningarlögum, þar á meðal kynferðisbrot eftir 1. mgr. 194. gr. og líkamsárás samkvæmt 2. mgr. 218. gr., en brot þessi geta varðað allt að 16 ára fangelsi. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til refsiforsendna héraðsdóms er refsing ákærðu ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Vegna hins langa tíma sem liðinn er frá því brotið var kært og með því að ákærða hefur ekki áður gerst sek um refsivert brot þykir mega binda refsinguna skilorði eins og í dómsorði greinir.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um miskabætur og málskostnað brotaþolum til handa verða staðfest. Þá verður ákærðu gert að greiða hverjum brotaþola um sig 50.000 krónur í málskostnað við að halda kröfum sínum fram hér fyrir dómi, sbr. 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest.
Ákærða verður dæmd til greiðslu alls áfrýjunarkostnaðar málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærða, X, sæti fangelsi í 18 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að öðru leyti skal héraðsdómur vera óraskaður.
Ákærða greiði brotaþolum, A, B, C, D, E, F, G og H hverju um sig, 50.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Ákærða greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 1.040.004 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Hróbjarts Jónatanssonar hæstaréttarlögmanns, 992.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2015.
Mál þetta, sem dómtekið var 19. júní sl., er höfðað af ríkissaksóknara með ákæru 3. nóvember 2014 á hendur X, kennitala [...], [...], Garðabæ, fyrir rangar sakargiftir, með því að hafa með rangri kæru og röngum framburði þann 16. febrúar 2012 og 8. mars 2012 við skýrslutöku á lögreglustöðinni á Hverfisgötu og Lögregluskóla ríkisins að Krókhálsi 5, Reykjavík, og með skriflegum athugasemdum, leitast við að A, kennitala [...], B, kennitala [...], C, kennitala [...], D, kennitala [...], E, kennitala [...], F, kennitala [...], G, kennitala [...] og H, kennitala [...], yrðu sökuð um kynferðisbrot, líkamsárás, hótanir og ólögmæta nauðung en ákærða greindi frá því að þau hafi í sameiningu veist að henni með ofbeldi og hótað henni og fjölskyldu hennar. Hafi A sett hana í kalda sturtu, B hafi tekið hana hálstaki, kastað henni í gólf, stungið fingri upp í endaþarm hennar og leggöng og kippt í getnaðarvarnarlykkju svo hún hafi nær því misst meðvitund, einnig stungið sprautunál í andlit hennar og leggöng og sagt að hún væri núna smituð af lifrarbólgu C, að C hafi ítrekað troðið ofan í hana parkódín forte og rohypnol, afklætt hana, tekið hana hálstaki og skellt henni upp við vegg, gengið yfir hana þar sem hún lá á gólfinu, farið með fingur í leggöng hennar, látið hana ganga nakta um götur [...], D hafi tekið hana hálstaki og þrengt svo að öndunarvegi hennar að henni sortnaði fyrir augum, einnig hafi hann rifið hana upp úr gólfinu þar sem hún lá og tekið hana aftur hálstaki og fleygt henni í gólfið. Þá hafi F látið hana ganga nakta um götur [...] og snúið henni á kviðinn þar sem hún lá á gólfinu og spurt hver vildi ríða á vaðið. G hafi staðið með annan fót á kvið hennar og farið með fingur í leggöng hennar. E hafi stungið fingri í endaþarm hennar og sagt að svona yrði gert við sex ára gamlan son hennar er hann færi á sambýli og tekið af henni hreyfimynd þar sem hún var nakin. Loks greindi hún frá því að H hafi afklætt hana og slegið.
Með þessu kom ákærða því til leiðar að lögregla hóf rannsókn málsins og var A yfirheyrð sem sakborningur í málinu. Þá kom ákærða því til leiðar að F missti vinnu sína vegna málsins.
Er háttsemi ákærðu talin varða við 148. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Er þess krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu A er þess krafist að ákærða verði dæmd til að greiða henni bætur að fjárhæð kr. 500.000 með vöxtum, skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 16. febrúar 2012 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags. Verði brotaþola ekki skipaður réttargæslumaður gerir hún auk þess kröfu um að ákærða verði dæmd til greiðslu málskostnaðar vegna lögmannsaðstoðar brotaþola að skaðlausu að meðtöldum virðisaukaskatti samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram á síðari stigum málsins eða samkvæmt mati dómsins.
Af hálfu B er þess krafist að ákærða verði dæmd til að greiða honum bætur að fjárhæð kr. 500.000 með vöxtum, skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 16. febrúar 2012 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags. Verði brotaþola ekki skipaður réttargæslumaður gerir hann auk þess kröfu um að ákærða verði dæmd til greiðslu málskostnaðar vegna lögmannsaðstoðar brotaþola að skaðlausu að meðtöldum virðisaukaskatti samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram á síðari stigum málsins eða samkvæmt mati dómsins.
Af hálfu C er þess krafist að ákærða verði dæmd til að greiða henni bætur að fjárhæð kr. 500.000 með vöxtum, skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 16. febrúar 2012 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags. Verði brotaþola ekki skipaður réttargæslumaður gerir hún auk þess kröfu um að ákærða verði dæmd til greiðslu málskostnaðar vegna lögmannsaðstoðar brotaþola að skaðlausu að meðtöldum virðisaukaskatti samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram á síðari stigum málsins eða samkvæmt mati dómsins.
Af hálfu D er þess krafist að ákærða verði dæmd til að greiða honum bætur að fjárhæð kr. 500.000 með vöxtum, skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 16. febrúar 2012 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags. Verði brotaþola ekki skipaður réttargæslumaður gerir hann auk þess kröfu um að ákærða verði dæmd til greiðslu málskostnaðar vegna lögmannsaðstoðar brotaþola að skaðlausu að meðtöldum virðisaukaskatti samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram á síðari stigum málsins eða samkvæmt mati dómsins.
Af hálfu E er þess krafist að ákærða verði dæmd til að greiða henni bætur að fjárhæð kr. 500.000 með vöxtum, skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 16. febrúar 2012 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags. Verði brotaþola ekki skipaður réttargæslumaður gerir hún auk þess kröfu um að ákærða verði dæmd til greiðslu málskostnaðar vegna lögmannsaðstoðar brotaþola að skaðlausu að meðtöldum virðisaukaskatti samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram á síðari stigum málsins eða samkvæmt mati dómsins.
Af hálfu F er þess krafist að ákærða verði dæmd til að greiða honum bætur að fjárhæð kr. 500.000 með vöxtum, skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 16. febrúar 2012 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags. Verði brotaþola ekki skipaður réttargæslumaður gerir hann auk þess kröfu um að ákærða verði dæmd til greiðslu málskostnaðar vegna lögmannsaðstoðar brotaþola að skaðlausu að meðtöldum virðisaukaskatti samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram á síðari stigum málsins eða samkvæmt mati dómsins.
Af hálfu G er þess krafist að ákærða verði dæmd til að greiða honum bætur að fjárhæð kr. 500.000 með vöxtum, skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 16. febrúar 2012 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags. Verði brotaþola ekki skipaður réttargæslumaður gerir hann auk þess kröfu um að ákærða verði dæmd til greiðslu málskostnaðar vegna lögmannsaðstoðar brotaþola að skaðlausu að meðtöldum virðisaukaskatti samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram á síðari stigum málsins eða samkvæmt mati dómsins.
Af hálfu H er þess krafist að ákærða verði dæmd til að greiða henni bætur að fjárhæð kr. 500.000 með vöxtum, skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 16. febrúar 2012 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags. Verði brotaþola ekki skipaður réttargæslumaður gerir hún auk þess kröfu um að ákærða verði dæmd til greiðslu málskostnaðar vegna lögmannsaðstoðar brotaþola að skaðlausu að meðtöldum virðisaukaskatti samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram á síðari stigum málsins eða samkvæmt mati dómsins.
Ákærða neitar sök. Af hálfu verjanda er þess krafist að ákærða verði sýknuð af kröfum ákæruvalds, að skaðabótakröfum verði vísað frá dómi og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði. Til vara er gerð krafa um vægustu refsingu og sýknu af bótakröfum.
Samkvæmt gögnum málsins mætti X, ákærða í máli þessu, á lögreglustöðina við Hverfisgötu í Reykjavík 16. febrúar 2012 og lagði fram kæru vegna kynferðisbrots sem hún kvaðst hafa orðið fyrir í húsi í [...], þar sem hún hefði verið gestkomandi aðfaranótt [...] 2012. Lýsti hún því að hún og eiginmaður hennar hafi farið til [...] á þorrablót sem haldið var [...] 2012. Þau hafi gist hjá vinafólki sínu A og F. Á þorrablótinu hafi þau hitt fjölda fólks. Eftir þorrablótið hafi þau farið í ,,eftirpartý“ heima hjá A og F, þar sem ákærða og eiginmaður hennar hafi átt gistingu. Eftir að hafa drukkið áfengi í samkvæminu hafi ákærðu liðið illa og farið að sofa. Skyndilega hafi hurð að herbergi hennar verið hrundið upp af húsráðandanum F. Maður hennar hafi haldið áfram að sofa í rúminu. Fólk í samkvæminu hafi ásakað ákærðu um að vera ,,pilluæta, óhæf móðir“ og gefið í skyn að það væri henni að kenna að lyf hefðu horfið af elliheimili þar sem hún hefði verið að vinna. D hafi tekið ákærðu hálstaki og þrengt svo að hálsi hennar að henni hafi sortnað fyrir augum.
Næst myndi ákærða eftir því að hún hafi verið komin upp í rúm til sín og þá í fötum. C hafi komið að henni og sagt að ákærða væri vond mamma. Einhverju hafi verið troðið ofan í kok hennar og hafi C sennilega gert það. Ákærða hafi farið fram á gang. Illa hafi verið talað um hana og fólk verið að ,,hrauna“ yfir hana. Áður en hún vissi af hafi verið búið að afklæða hana og hún staðið nakin fyrir framan allt fólkið. Sennilega hafi C, H ásamt einni konu til, staðið fyrir því. Áfram hafi fólk talað illa um ákærðu. C hafi komið að henni og tekið hana hálstaki framan frá og skellt henni upp að vegg. E hafi stungið fingri inn í endaþarm hennar. Þá hafi B komið að og einnig stungið fingri inn í endaþarm ákærðu. B hafi sömuleiðis stungið fingri upp í leggöng hennar. Hafi hann kippt í eitthvað sem sennilega hafi verið lykkjan hennar.
Þegar ákærða hafi rankað við sér hafi G staðið yfir henni þar sem hún hafi legið nakin á gólfinu og búið hafi verið að glenna klof hennar sundur. G hafi verið með annan fótinn á kvið hennar en einnig verið með fingurna í leggöngum hennar. Þá hafi D rifið ákærðu upp af gólfinu og sagt að það þyrfti að þrífa hana. A hafi farið með hana inn á baðherbergi, sett hana í sturtu og sprautað yfir hana köldu vatni. Ákærðu hafi í framhaldi verið hent út og í snjóskafl þar sem hún hafi legið og ekki getað hreyft sig. Þau hafi síðan farið inn. C hafi um nóttina troðið pillum ofan í ákærðu. Hafi þær sennilega verið úr lyfjaumbúðum merktum rophypnol. C hafi spurt D hvort hann vildi ekki kveðja ákærðu. D hafi þá aftur tekið ákærðu hálstaki og fleygt henni í gólfið. Þar hafi hún legið á maganum allsber og fólk gengið yfir hana og traðkað á henni. I, sem verið hafi á staðnum, hafi komið henni til aðstoðar. I hafi klætt ákærðu í föt og komið henni í rúmið. Er hún hafi vaknað næsta dag hafi hún verið veik og kastað upp til klukkan 15.00 á sunnudeginum. Eiginmaður hennar hafi vaknað um kl. 11.00 þennan morgun og verið mjög slappur. Ákærða og eiginmaður hennar hafi ekki farið í bæinn fyrr en eftir kl. 15.00 á sunnudeginum. Ákærða mætti á lögreglustöð 16. febrúar 2012 og 8. mars 2012 og gaf hún þá aftur skýrslu um atvik.Var framburður hennar á sama veg og áður en nákvæmari um tiltekin atriði málsins.
Ákærða og eiginmaður hennar mættu á neyðarmóttöku vegna nauðgunar [...]. febrúar 2012. Í skýrsluna hefur hjúkrunarfræðingur fært að eiginmaður ákærðu hafi haft samband við Stígamót, sem vísað hafi ákærðu á neyðarmóttöku. Fram kemur að við komu hafi henni og eiginmanni hennar liðið illa. Ákærða hafi verið frekar ör en eins og dottið aðeins út á milli þegar hún hafi rifjað upp atburði. Hafi hún tjáð sig um óraunveruleikakennd og að allt væri eins og í þoku. Í lýsingu áverka kemur fram að ákærða lýsi þreifieymslum í vinstri mjöðm og verkjum við gang. Þá sé hún með marblett á vinstri framhandlegg. Hún sé með eymsli yfir vöðvum á hálsi en mest á milli herðablaða. Í niðurstöðu læknis kemur m.a. fram að ákærða komi á neyðarmóttöku um tveimur og hálfri viku eftir atburðinn. Hafi hún átt við vanlíðan og svefnleysi að stríða eftir hann. Líði henni betur við komu á neyðarmóttöku. Hún lýsi óraunveruleikakennd, lítilsvirðandi athugasemdum og hótunum. Hún greini einnig frá því að hún hafi í þrígang verið tekin hálstaki, henni hent í gólf og traðkað hafi verið á mjóbaki hennar. Engir áverkar séu á kynfærum. Ekki sjáist í lykkjuenda í legopi.
J læknir hefur ritað tölvupóst, sem er á meðal gagna málsins, um skoðun á ákærðu í framhaldi af beiðni hjúkrunarfræðings og læknis á neyðarmóttöku. Fram kemur að ómskoðun hafi sýnt eðlilegt leg og lykkju rétt staðsetta í legi.
Samkvæmt gögnum frá neyðarmóttöku hafði ákærða aftur samband við Neyðarmóttöku 15. febrúar 2012 til að fá myndatöku af áverkum sem komnir væru fram eftir árásina. Fram kemur að við komu á neyðarmóttöku sjáist greinilega tveir ca 1,5 x 1,5 cm marblettir á mjaðmarkambi, gulleitir og vel afmarkaðir. Aftan á báðum lærum séu marblettir. Á vinstra læri sé um 3 x 4 cm gulleitur marblettur, afmarkaður en að dofna. Eymsli hafi verið þar undir. Á hægra læri hafi verið tveir greinilegir gulleitir marblettir, annar um 2 x 5 cm og hinn um 1,5 x 1,5 cm. Þessir marblettir hafi ekki verið sýnilegir við fyrstu komu, [...]. febrúar 2012.
A, einn brotaþola í máli þessu, var yfirheyrð af lögreglu sem sakborningur 9. mars 2012. Þá var E, einnig brotaþoli í máli þessu, yfirheyrð sama dag. Þá voru fjölmörg vitni, þ. á m. eiginmaður ákærðu, yfirheyrð vegna málsins á tímabilinu 24. febrúar 2012 til 21. mars 2012.
Í tengslum við rannsókn málsins ritaði ákærða lista yfir þá sem voru heima hjá A og Fí samkvæmi eftir þorrablótið í [...] aðfaranótt [...] 2012. Samkvæmt listanum voru í samkvæminu, auk brotaþolanna í máli þessu, K, L, M, N, O, P, Q, R, S, T, U, V, Þ og Æ.
Sýslumaðurinn á Selfossi ákvað 23. mars 2012, með vísan til 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að hætta rannsókn málsins. Með kæru 23. apríl 2012 kærði verjandi ákærðu þá ákvörðun til ríkissaksóknara, sem með ákvörðun 4. júní 2012 staðfesti ákvörðun sýslumanns. Með kærum 25. júní og 17. júlí 2012 kærðu brotaþolar í máli þessu, ákærðu til lögreglu, vegna rangra sakargifta.
Ö geðlæknir hafði með höndum geðrannsókn á ákærðu og er skýrsla hans frá 11. júní 2013. Í samantekt kemst geðlæknirinn að þeirri niðurstöðu að í viðtölum og gögnum málsins komi ekkert fram þess efnis að ákærða hafi eða hafi haft neitt af þeim einkennum sem upp séu talin í 15. gr. laga nr. 19/1940, sem gætu orsakað stjórnleysi hennar. Hafi læknirinn ekki getað fundið nein einkenni geðrofs í viðtölum við ákærðu. Að mati læknisins sé framburður ákærðu ekki eingöngu ótrúlegur heldur einnig ótrúverðugur. Í byrjun hafi vaknað sú spurning hvort ákærða hefði ,,black-out“ í kjölfar áfengisdrykkju á þorrablótinu. Í raunverulegu ,,black-out“ af völdum áfengis eða lyfja séu atburðir ekki skráðir í minnisstöðvar heilans og minnið komi því ekki til baka eins og í tilviki ákærðu. ,,Black-out“ komi því ekki til greina í hennar tilviki. Samkvæmt gögnum málsins sé ljóst að skynjun hennar og upplifun á því sem gerst hafi eftir þorrablótið sé með allt öðrum hætti en aðrir segi. Í viðtölum hafi ekkert komið fram um að ákærða sé með meðvituðum hætti að segja rangt frá eða skrökva. Hennar upplifun sé eins og hún hafi sagt en hún hafi upplifað aðstæður sem nauðung. Ekki sé hægt að skýra þetta með einföldum hætti. Meira en hugsanlegt sé að hluti af framburði ákærðu sé réttur. Það eigi ekki síst við um samræður hennar og annarra kvenna eftir þorrablótið. Ytri aðstæður hafi verið með þeim hætti að þau hjónin hafi verið í varnarstöðu gagnvart mörgum í [...]. Hvort það hafi orðið til þess að upplifun hennar sé með þeim hætti, sem hún lýsi, sé ómögulegt að segja til um.
Við þingfestingu málsins 4. desember 2014 óskaði verjandi ákærðu eftir því að dómkvaddir yrðu matsmenn til að framkvæma geðrannsókn á ákærðu. Geðlæknarnir AB og AC voru dómkvödd, til að framkvæma geðrannsókn á ákærðu, í þinghaldi 10. desember 2014. Í geðheilbrigðisrannsókn geðlæknanna, sem er frá 24. apríl 2015, segir að rannsóknin hafi tekið langan tíma vegna þess að ítarlega hafi þurft að fara yfir lýsingar ákærðu á atburðinum og skoða vel minni, persónuleikavarnir og útiloka geðrofssjúkdóm. Ákærða sé örugglega sakhæf, sbr. 15. gr. laga nr. 19/1940 og geti refsing borið árangur, sbr. 16. gr. sömu laga. Ákærða hafi fengið rangar minningar og í kjölfarið hafi komið afvegaleiddar ranghugmyndir sem séu vel skiljanlegar út frá aðstæðum. Í eiginlegu geðrofi séu ranghugmyndir strax óskiljanlegar, fáránlegar, líkist rökþvælu frá byrjun og sjaldnast tengdar kveikju í umhverfi. Vísbendingar séu um að hugsanir ákærðu hafi verið hvattar af umhverfi hennar. Ákærða sé enn í dag sannfærð um að minningar hennar séu sannar. Sjái hún sig enn sem árásarþola í málinu. Telji matsmenn að aðstæður og bakgrunnur málsins útskýri vel það undirlag sem leitt hafi til kæru á marga einstaklinga í [...]. Erfiðara sé að útskýra hvernig rangar minningar kvikni en kvíði hennar eftir minnisleysi eftir þorrablótið geti hafa stuðlað að því. Einnig geti minni ákærðu og tilhneiging til að búa til orð útskýrt atburðarásina. Varnarhættir hennar geti svo einnig útskýrt hvernig málið hafi þróast út í væniskenndar samsæriskenningar.
Í tengslum við geðrannsókn AB og AC fóru geðlæknarnir fram á við AD, sérfræðing í klínískri sálfræði, að hann framkvæmdi sálfræðilegt mat á ákærðu. Mat sálfræðingsins frá 30. mars 2015 liggur fyrir í málinu. Í niðurstöðu lýsir læknirinn því að í ljósi prófa sem lögð voru fyrir ákærðu séu vísbendingar um að hún hafi ekki munað eftir hlutum og í framhaldi hafi ,,trigger“ vakið upp hugsanlega falskt minningarbrot og í framhaldi hafi hugurinn haldið áfram að fylla inn í eyðurnar og tengja hluti saman. Hugsanlega geti hún því hafa leitað skýringa á orsökum atburða og upplifað tortryggnihugmyndir sem lítill fótur hafi virst fyrir.
Ákærða hefur fyrir dóminum lýst atvikum svo að þau hjón hafi farið til [...] á þorrablót, [...] 2012. Þau hafi gist hjá vinum sínum, A og manni hennar, F. Heima hjá A og F hafi þau drukkið fordrykk fyrir blótið. Á þorrablótinu hafi ákærða drukkið rauðvín með matnum og fengið sér bjór á barnum eftir það. Eitthvað af sterku áfengi hafi hún drukkið úr pela síðar á dansleiknum. Er dansleiknum lauk hafi ákærða verið orðin dofin og eitthvað skrýtin. Á leið af þorrablótinu heim til A og F hafi ákærða og samferðafólk hennar gengið fram hjá lögreglubifreið. Í gamni hafi hún blásið í áfengismæli hjá lögreglunni.
A og F hafi verið með samkvæmi heima hjá sér eftir þorrablótið. Er í samkvæmið kom hafi ákærða sest í hornsófa í stofunni. Eiginmaður hennar hafi setið fyrir framan hana. Talsvert af fólki hafi verið í stofunni, þar á meðal þær C, H og M. C hafi komið með pela af áfengi og gefið ákærðu sopa. Eitthvað þykkt hafi verið í pelanum. Skömmu síðar hafi ákærðu fundist sem hún væri að líða útaf og hafi ætlað inn í herbergi að sofa. Þá hafi C og H farið að tala illa um ákærðu og fjölskyldu hennar og hafi M sagt ákærðu að forða sér og fara að sofa. C hafi komið að ákærðu og troðið töflu ofan í kok hennar. C hafi sagt að um væri að ræða parkodin forte. Ákærða hafi farið á salernið og síðan inn í rúm. Hún hafi verið alklædd.
F komið inn í herbergið og hent ákærðu út úr herberginu. Eiginmaður ákærðu hafi verið sofandi á meðan á þessu gekk og ekki vaknað við atganginn. Hún hafi reynt að grípa í hann til að vekja hann en hann hafi ekki vaknað við það. Farið hafi verið með ákærðu fram í stofu þar sem fólk hafi ,,hraunað“ yfir hana. Síðan hafi ákærða verið komin inn í eldhús þar sem hún hafi setið á kolli. D hafi komið að henni og rifið hana upp á hálsinum og lyft henni upp. Ákærða hafi séð svart. Í framhaldi hafi D hent henni í gólfið. C hafi rifið hana upp og þær H verið með athugasemdir sem snertu ákærðu. Mikil læti hafi verið og ýmsir ,,pikkað“ í hana. Fólk hafi síðan byrjað að afklæða hana. F hafi ,,pikkað“ í hana og spurt hana hvar föt hennar væru. Þessir atburðir hafi átt sér stað í eldhúsinu. Ráðist hafi verið á ákærðu úr öllum áttum. Þar hafi komið að máli C, H og fleiri. Ákærða hafi staðið við vegg og reynt að skýla sér.
Hún hafi farið á salernið og komið fram aftur. Þá hafi nýtt fólk verið komið í samkvæmið, m.a. G, E og B. Ákærðu hafi verið hent í gólfið. G hafi farið með hendi inn í kynfæri hennar og togað í lykkjuna. Einhver hafi sagt að G skyldi passa sig því ákærðu gæti blætt út. Hún hafi verið rifin upp. B hafi stungið fingri inn í leggöng hennar. E hafi þá sagt að svona yrði gert við son ákærðu, þegar hann væri kominn á sambýli. Einhver hafi sagt að ákærða væri ógeðsleg og að það væri skítafýla af henni. Einhver hafi þá spurt hvort ekki þyrfti að þrífa hana. A hafi sett ákærðu í sturtu og sprautað köldu vatni á hana þar. Fullt af fólki hafi verið viðstatt. A hafi tekið handklæði sem hún hafi virst ætla að láta ákærðu fá en sagt að handklæðið fengi hún ekki. Farið hafi verið með ákærðu nakta út á götu og út [...]. Hún myndi eftir því að hafa heyrt sjávarnið.
Þau hafi síðan farið til baka og að heimili A og F. Ákærðu hafi verið plantað á gólfið í íbúðinni. C hafi troðið töflu ofan í hana og sagt að þetta væri rohypnol. Hún hafi heyrt B segja að komnar væru mjaltir. Við það hafi fólk staðið á fætur. Ákærða hafi legið á gólfinu og endalausar athugasemdir verið gerðar gagnvart henni. Einhver hafi lyft henni þannig að rass hennar hafi staðið út í loftið og F hafi spurt hver vildi byrja. Einhver hafi ýtt rassi hennar niður aftur. A hafi rifið hana á fætur og sett hana inn í herbergi. Hún hafi kastað fötum í ákærðu. I hafi hjálpað ákærðu að klæðast. Ákærða kvaðst hafa sofnað og rumskað er maður hennar hafi farið á fætur næsta dag. Hafi hann sett sæng yfir hana og hafi hún sofnað aftur og vaknað um kl. 15.00. Hafi hún verið mjög veik, kastað mikið upp og vart getað staðið í fæturna. Þau hjónin hafi farið í bæinn síðar um daginn.
Síðar í vikunni, á þriðjudegi eða miðvikudegi, hafi smátt og smátt rifjast upp fyrir ákærðu hvað komið hefði fyrir í samkvæminu. Hún hafi þá munað eftir hálstaki sem hún hafi verið tekin og athugasemdum sem hún hafi fengið. Ákærða kvaðst ekki muna eftir líkamlegum einkennum eftir þau hálstök er hún hafi verið tekin í samkvæminu. Hún hafi fengið marbletti sem komið hafi í ljós á neyðarmóttöku síðar. Hún hafi spurt eiginmann sinn á miðvikudeginum hvort hann myndi eftir blótinu og hafi hann sagt að hann myndi lítið. Hún hafi þá sagt honum frá einhverju af því sem hún var farin að muna. Eiginmaður ákærðu hafi sagt föður sínum frá þessu, en faðirinn hafi dvalið á Spáni á þessum tíma. Í framhaldi þessa hafi atburðir rifjast enn frekar upp fyrir henni.
Næsta sunnudag hafi ákærða farið í skemmtigarð þar sem mikil læti hafi verið. Þá hefðu fleiri minningar gert vart við sig og myndin tekið að skýrast. Hún hafi sagt manni sínum frá því og farið að rita atburði niður á blað. Þetta hafi verið 29. janúar 2012. Eiginmaður hennar hafi sagt föður sínum frá þessu líka. Eiginmaður hennar hafi hringt í Stígamót til að fá ráð og hafi honum verið ráðlagt að fara á neyðarmóttöku. Er tengdafaðir hennar kom til landsins hafi ákærða farið á neyðarmóttöku.
Tengdafaðir ákærðu hafi verið með jörð í nágrenni við [...] þar sem hann hafi verið með hesta. F hafi verið [...] hjá tengdaföður hennar fyrir [...]. Eiginmaður ákærðu og tengdafaðir hafi, fljótlega eftir að atvik rifjuðust upp fyrir henni, farið [...] til að ræða við Fvegna þessa máls. Hafi tengdafaðir ákærðu ekki talið að unnt væri að láta F vera með lyklavöld fyrir [...] á meðan málið væri í rannsókn. Ákærða hafi ekki ráðið þessu eða beðið um að F yrði rekinn úr starfi.
Brotaþolarnir A, F, C, D, B, E, G og H komu öll fyrir dóminn og lýstu málsatvikum.
A lýsti því að hún hafi verið í nefndu samkvæmi eftir þorrablótið. Hún hafi fengið vitneskju um eftirmála er maður hennar, F, hafi verið rekinn úr starfi vegna ætlaðra brota gagnvart ákærðu í samkvæminu. Fjöldi fólks hafi verið í umræddu samkvæmi. A hafi farið að sofa um kl. 7.00 um morguninn. Enginn hafi brotið gegn ákærðu með þeim hætti er fram hafi komið í kæru ákærðu til lögreglu á sínum tíma. Kæran hafi haft töluverð áhrif á A en rætt hafi verið um málið fyrir [...]. A sagði að þau E, B, G, R og Q hefðu ekki verið í samkvæminu.
F kvaðst hafa verið í samkvæminu. Hann hafi farið að sofa um kl. 8.00 um morguninn. Þá hafi ákærða verið sofnuð, sem og eiginmaður hennar. Það hafi ekki á nokkurn hátt verið brotið gegn ákærðu í þessu samkvæmi. G hafi ekki verið í nefndu samkvæmi. F kvað tengdaföður ákærðu hafa rekið sig úr starfi eftir þetta atvik vegna brota sem hann hafi átt að hafa framið gegn ákærðu. Hann hafi verið kallaður á fund með eiginmanni ákærðu og föður hans þar sem honum hafi verið gefinn kostur á að rita nafn sitt á blað, þar sem ákærða hafði skráð lýsingar á brotum gegn sér. Ef F vildi ekki rita undir gæti hann ,,tekið pokann sinn“. F kvaðst ekki hafa viljað rita undir og því legið í augum uppi að hann væri rekinn úr starfi. Málið hafi verið erfitt fyrir þau sem borin hafi verið sökum. Samfélagið væri ekki stórt fyrir [...] og sagan borist um.
C kvaðst hafa verið í samkvæminu. Hafi hún stoppað stutt og verið farin um kl. 4.00 um nóttina. Hún hafi verið í samfloti með D og H. Enginn hafi brotið gegn ákærðu á meðan C hafi verið í samkvæminu. G, B og E hafi ekki verið í nefndu samkvæmi. Mál þetta hafi haft mikil áhrif fyrir [...].
D kvaðst hafa verið í samkvæminu umrædda nótt. Hafi D farið að sofa um kl. 7.00 um morguninn. Hann hafi séð ákærðu sitja í sófa í stofunni á meðan hann hafi staldrað við í samkvæminu, en það hafi ekki verið nema í 15 til 30 mínútur. Enginn hafi brotið gegn ákærðu á meðan hún hafi verið vakandi í samkvæminu. Kæra í málinu hafi komist í hámæli fyrir [...]. Þar þekktu allir alla.
B, E og G kváðust ekki hafa verið í samkvæminu þessa nótt. Lýstu þau því öll að mál þetta hafi haft áhrif á þau, en um mjög alvarlegar sakir hafi verið að ræða. E kvaðst hafa verið ófrísk á þessum tíma og tekið allt mjög nærri sér. Hún hafi orðið kvíðin og þurft að glíma við þunglyndi í kjölfarið og þurft að leita sér aðstoðar vegna þess.
H kvaðst hafa komið í umrætt samkvæmi, en stoppað stutt. Hafi hún komið um kl. 3.00 en verið farin fyrir kl. 4.00. Enginn hafi brotið gegn ákærðu í samkvæminu. Kvaðst H ekki muna eftir að hafa hitt hana þar. Málið hafi haft mikil áhrif á H. Hún hafi gegnt trúnaðarstörfum fyrir [...] og málið verið óþægilegt vegna þess.
AE, eiginmaður ákærðu, lýsti atvikum þannig að hann og eiginkona hans hafi farið á þorrablót í [...] [...] 2012. Þau hjónin hafi gist hjá vinafólki fyrir [...], A og F. Þau hafi drukkið fordrykk heima hjá gestgjöfum fyrir þorrablótið. Eftir þorrablótið, á leið heim til gestgjafa, hafi þau stoppað hjá lögreglu þar sem ákærða hafi blásið í áfengismæli. Það hafi verið í gamni gert. Í samkvæmi eftir þorrablótið hafi verið töluvert gestkvæmt. Ákærða hafi skyndilega virst eins og hún væri út úr heiminum og AE ákveðið að koma henni í rúmið. AE myndi síðan ekki eftir því að hafa lagst á koddann. Er hann hafi vaknað næsta morgun, um klukkan 11.00, hafi ákærða verið fullklædd í rúminu við hlið hans. AE hafi verið einkennilegur eftir nóttina og ekki liðið vel. Ákærða hafi vaknað og þá verið mjög veik og kastað mikið upp. Þau hafi farið í bæinn síðar á sunnudeginum.
AE hafi fundist ákærða vera fjarræn næstu daga. Hún hafi fyrst sagt sér að brotið hafi verið gegn henni í samkvæminu, einhverjum dögum síðar. Hún hafi sofið illa og stundum setið uppi í rúminu um nætur. AE kvaðst hafa sent föður sínum lýsingar ákærðu á atburðum næturinnar. Faðir hans hafi þá verið á Spáni. AE kvaðst hafa hringt til Stígamóta til að fá ráðleggingar um hvernig bregðast skyldi við aðstæðum. Hafi honum verið ráðlagt að leita til neyðarmóttöku. Faðir hans hafi komið til landsins og AE og ákærða þá leitað til neyðarmóttöku.
Næsta dag hafi AE og faðir hans farið við fjórða mann á jörð föður AE fyrir [...]. Þar hafi F verið [...]. AE og faðir hans hafi spurt F hvort atvik hafi verið með þeim hætti er ákærða bæri. Í huga AE hafi málið verið þannig að það kæmi vart annað til greina en að F skilaði lyklum á meðan málið væri í rannsókn. Hafi faðir hans gert F grein fyrir því. AE kvað þá feðga hafa rætt mál ákærðu og verið sammála um að hún kæmist ekki upp úr málinu nema með því að kæra það til lögreglu. Hafi það að lokum verið sameiginleg ákvörðun þeirra, ákærðu og AE, að kæra málið.
AE kvaðst vera sannfærður um að frásögn ákærðu af atburðum væri rétt. Hann hafi sjálfur ekki orðið var við neitt en sofið um nóttina. Hafi hann vaknað upp einu sinni er F hafi komið við þriðja mann inn í herbergið og reynt að fá hann til að drekka af pela og koma fram í samkvæmið. Það hafi hann ekki viljað, heldur sofið áfram. AE kvað föður sinn hafa staðið í málum fyrir [...]. Hann hafi m.a. óskað eftir úttekt á skólanum, sem mælst hafi illa fyrir hjá heimafólki. Eins hafi faðir A lagt flísar fyrir föður AE. Flísalögnin hafi tekist illa, flísar hafi losnað upp og ágreiningur orðið um reikning vegna verksins.
I kvaðst hafa verið í samkvæmi heima hjá A og F eftir þorrablótið. Hún hafi farið úr samkvæminu á milli klukkan 5 og 6 um morguninn og dvalið þar í um 40 mínútur. Ekki hafi verið brotið gegn ákærðu í samkvæminu þannig að I sæi til. Ákærða hafi verið nokkuð drukkin í samkvæminu.
M kvaðst hafa verið í samkvæminu. Er hún hafi yfirgefið samkvæmið um kl. 5.30 hafi ákærða og maður hennar setið í sófa. Hún hafi ekki séð að brotið væri gegn ákærðu í samkvæminu. Ákærða hafi verið drukkin.
N kvaðst hafa verið í samkvæminu. Hafi hann komið þangað um kl. 5.00. Ákærða og eiginmaður hennar hafi setið í stofunni. Ekki hafi verið brotið gegn ákærðu á meðan N hafi verið í samkvæminu.
O kvaðst hafa verið í samkvæminu. Á meðan hann hafi verið þar hafi enginn brotið gegn ákærðu.
P kvaðst hafa verið í umræddu samkvæmi. Hafi hann setið með F til að verða 7.00 um morguninn. Er á morguninn leið hafi fólk tekið að tínast úr samkvæminu. Ekki hafi verið brotið gegn ákærðu á meðan P hafi verið í samkvæminu. P myndi ekki eftir því er ákærða og eiginmaður hennar hafi farið að sofa.
Q, R, S og T kváðust ekki hafa farið í samkvæmið hjá A og F þessa nótt. AF kvaðst hafa verið með Q umrædda nótt, og hvorki farið á þorrablótið né í samkvæmið.
AG kvaðst hafa farið í umrætt samkvæmi. Hafi hann ekki orðið var við að brotið hafi verið gegn ákærðu þessa nótt.
AH staðfesti að dóttir hennar, E og maður hennar, B, hefðu borðað kvöldmat hjá henni og farið heim til sín um miðnættið. Þau hafi ekki farið á þorrablótið eða í samkvæmi eftir það.
Hjúkrunarfræðingur á neyðarmóttöku staðfesti skýrslu um ákærðu, frá 12. febrúar 2012. Skýrslan er á meðal gagna málsins. Kvað hún eiginmann ákærðu hafa hringt og óskað eftir því að ákærða fengi að koma á neyðarmóttöku. Ákærða hafi verið skoðuð tvisvar sinnum. Í fyrstu skoðun hafi allur líkami hennar verið skoðaður. Ákærða hafi við síðari skoðun gert grein fyrir marblettum sem þá áttu að vera komnir fram. Þá hafi hún fyrst í síðari skoðun kvartað undan eymslum aftan í lærum.
Læknir á neyðarmóttöku, sem skoðaði brotaþola 8. febrúar 2012, staðfesti þau gögn sem frá honum stöfuðu og eru á meðal rannsóknargagna málsins. Brotaþoli hafi fyrst við síðari skoðun lýst marblettum aftan á lærum sem hafi átt að vera vegna kynferðisbrots. Erfitt væri að aldursgreina marbletti. Mjög ólíklegt væri að marblettir aftan á lærum séu tilkomnir vegna atviks [...] dögum áður, en þeir hefðu þá löngu átt að vera komnir fram. Læknirinn hafi athugað með spotta í lykkju ákærðu. Spottinn hafi greinilega verið stuttur þar sem hann hafi ekki sést við skoðun. Ákærða hafi lýst hálstaki. Ekki hafi verið sjáanlegir áverkar á hálsi ákærðu.
Læknir er framkvæmdi ómskoðun á ákærðu staðfesti skoðun sína. Lykkja ákærðu hafi verið á sínum stað. Ef spotti í lykkju væri stuttur væri erfitt að kippa í lykkjuna. Myndi læknirinn ekki eftir því að lykkja hafi verið tekin úr konu í kynferðisbroti. Marblettir væru misjafnlega lengi að koma fram. Sjaldgæft væri að marblettir kæmu fram viku eða 10 dögum eftir atburð.
Sálfræðingur á neyðarmóttöku staðfesti viðtöl við ákærðu. Kvað hún ákærðu hafa komið í fjögur viðtöl þar sem hún hafi greint frá atvikum málsins. Ákærða hafi verið í miklu uppnámi, kvíðin og búið við streitu. Hún hafi uppfyllt viðmið um áfallastreituröskun fyrst eftir atburðinn. Í viðtali 6. mars 2012 hafi einkenni ákærðu verið vægari. Hún hafi síðast hitt ákærðu 26. apríl 2012.
Ö geðlæknir staðfesti geðrannsókn á ákærðu og gerði grein fyrir einstökum atriðum í rannsókninni. Ákærða væri að sínu mati sakhæf og hafi Ö ekki getað fengið fram einkenni geðrofs. Gerði hún greinarmun á réttu og röngu. Um ákveðin varnarviðbrögð hjá henni hafi verið að ræða gagnvart samfélaginu í [...]. Frásögn ákærðu væri sennilega að hluta rétt. Þannig væri ekki ósennilegt að eitthvað hafi verið þjarmað að henni í samkvæminu. Síðan komi til aðrir hlutir sem ótrúlegt sé að hafi gerst og missi sagan þá fótanna.
Geðlæknarnir AB og AC, sem dómkvödd voru sem matsmenn, staðfestu geðheilbrigðisrannsókn á ákærðu og greindu nánar frá einstökum þáttum varðandi hana. Ákærða væri metin sakhæf og ekkert hefði komið fram sem gæti stutt einkenni geðrofs. Málið hafa verið sérlega erfitt og gríðarlega erfitt að skilja. Hið sérkennilega væri að eitthvað hafi vakið tilfinningar hjá ákærðu dögum eftir atburðinn, sem komið hafi öllu af stað. Þann þátt væri erfitt að skýra. Eftir það fari af stað atburðarás sem sé ,,væniskennd“. Kveikjan hafi hugsanlega tengst tortryggni og deilum varðandi tengdaföður ákærðu fyrir [...]. Frásögn ákærðu hafi þróast úr því að vera væg yfir í að vera grófari.
Sálfræðingur er framkvæmdi sálfræðilegt mat á ákærðu í tengslum við geðheilbrigðisrannsóknina gerði grein fyrir mati sínu.
Loks komu fyrir dóminn lögreglumenn er unnu að rannsókn málsins og staðfestu þátt sinn í henni.
Niðurstaða:
Ákærðu eru gefnar að sök rangar sakargiftir, með því að hafa með rangri kæru og röngum framburði 16. febrúar 2012 og 8. mars 2012, við skýrslutökur hjá lögreglu, og með skriflegum athugasemdum leitast við að brotaþolar í máli þessu yrðu sakaðir um kynferðisbrot, líkamsárás, hótanir og ólögmæta nauðung. Ákærða greindi frá því hjá lögreglu að brotaþolar hafi veist að sér aðfaranótt [...] 2012, í samkvæmi sem haldið var heima hjá brotaþolunum A og F, í framhaldi af þorrablóti í [...]. Ríkissaksóknari staðfesti ákvörðun lögreglu um niðurfellingu rannsóknar málsins 4. júní 2012. Hér fyrir dómi hefur ákærða gefið skýrslu, sem og eiginmaður hennar. Þá komu brotaþolar fyrir dóminn og vitni sem voru í samkvæminu að [...]. Eins komu fyrir dóminn vitni sem ákærða bar að hefðu verið í umræddu samkvæmi. Með vísan til allra þessara framburða hér fyrir dóminum verður slegið föstu að kæra ákærðu á hendur brotaþolum fyrir kynferðisbrot, líkamsárás, hótanir og ólögmæta nauðung, átti ekki við nein rök að styðjast.
Samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna er ákærða metin sakhæf. Á sama veg er niðurstaða Ö geðlæknis, sem einnig hefur komist að þeirri niðurstöðu að ákærða sé sakhæf. Eins eru geðlæknarnir sammála um að ákærða hafi engin merki um geðrofssjúkdóm. Loks eru geðlæknarnir á einu máli um að refsing geti borið árangur hvað ákærðu varði og eigi 16. gr. laga nr. 19/1940 ekki við um ákærðu. Með hliðsjón af þessum niðurstöðum verður ákærða metin sakhæf. Þá er ekki eins ástatt um hana og greinir í 16. gr. laga nr. 19/1940.
Í áliti hinna dómkvöddu matsmanna og Ö geðlæknis kemur fram að tæpast sé um ásetning að ræða hjá ákærðu og að skynjun ákærðu á því sem gerðist eftir þorrablótið sé með allt öðrum hætti en aðrir segi. Þrátt fyrir þessar staðhæfingar er það dómstóla að meta trúverðugleika framburða sem gefnir eru fyrir dóminum. Í því efni er til þess að líta að dómstóla er að meta hvort skilyrði refsilaga um saknæmi sé uppfyllt, með hliðsjón af þeim sönnunargögnum sem fyrir dóminum liggja og ætluðu refsilagaákvæði sem ákært hefur verið fyrir brot á, sem er til verndar tilteknum hagsmunum. Geðlækna, sem meta sakhæfi, er á hinn bóginn að meta hvort viðkomandi einstaklingur sé haldinn einhverjum þeim sjúkdómi sem leitt getur til þess að viðkomandi teljist ekki sakhæfur. Er hlutverk geðlækna því annað en dómsins þegar kemur að mati á sönnun og saknæmi.
Sakhæfur einstaklingur gerir greinarmun á réttu og röngu. Að mati dómsins er ákærða ekki trúverðug í framburði sínum. Í því efni er fyrst til þess að líta að ákærða hefur bæði hjá lögreglu og fyrir dóminum lýst hrottalegum hálstökum sem hún hafi verið tekin í samkvæminu. Hafi hún verið tekin á loft og henni sortnað fyrir augum. Ákærða lýsti því hér fyrir dómi að hún hafi ekki borið neina sérstaka áverka eftir þessi hálstök og kvartaði einna helst undan höfuðverk. Framburður ákærðu um þessi atriði er ótrúverðugur, þar sem ganga verður út frá því að viðlíka líkamsárás skilji eftir sig töluverða áverka.
Næst er til þess að líta að ákærða var skoðuð á neyðarmóttöku 18 dögum eftir ætluð brot og aftur 25 dögum eftir ætluð brot. Fyrir seinni skoðunina komu fram marblettir á aftanverðum lærum sem að sögn ákærðu voru afleiðing brotanna. Læknir á neyðarmóttöku lýsti því að mjög ólíklegt væri að marblettir sem komið hafi fram við síðari skoðun væru frá aðfaranótt 22. janúar 2012. Að mati dómsins stenst á engan hátt að marblettirnir á aftanverðum lærunum séu vegna atburða 22. janúar 2012. Er framburður ákærðu um þetta því ótrúverðugur.
Þá er til þess að lít að ákærða lýsti því að hún hafi drukkið sterkt áfengi í samkvæminu eftir þorrablótið, auk þess sem C hefði troðið ofan í hana töflu, sem C hafi sagt vera rohypnol. Ákærða bar að hún hafi nánast dottið út eftir þetta. Þrátt fyrir þetta bar ákærða síðan um einstök atriði atburðarásarinnar eftir þetta, með einkar nákvæmum hætti, þar sem einstökum atriðum var lýst. Fær það ekki staðist í ljósi fyrra ástands og lyfjainntökunnar. Ljóst verður einnig að telja af ofantöldu að ákærða hefði mátt gera sér grein fyrir að frásögn hennar af atburðinum, hlyti að vera röng í ljósi þess að áverkar í samræmi við frásögn hennar voru ekki til staðar og vegna þess hvernig og hvenær minningar hennar koma fram.
Loks er til þess að líta að ákærða var á allan hátt mjög hikandi í frásögn sinni hér fyrir dóminum og atburðarásin meira og minna sundurslitin.
Þegar allt ofangreint er virt er, eins og áður segir, niðurstaða dómsins að ákærða sé ótrúverðug í framburði sínum. Hafi henni ekki getað dulist við lögregluyfirheyrslur 16. febrúar 2012 og 8. mars s.á. að hún var með röngum framburði og rangri kæru að saka átta einstaklinga um refsiverða háttsemi. Brotaþolinn A var fyrir vikið yfirheyrð sem sakborningur í málinu. Þá leiddi hinn rangi framburður ákærðu til þess að brotaþolinn F missti vinnu sína. Þegar þessi atriði málsins eru virt verður ákærða sakfelld samkvæmt ákæru og er háttsemi hennar rétt heimfærð í ákærunni.
Ákærða er fædd í [...] 1977. Hún hefur ekki áður gerst sek um refsiverða háttsemi, svo kunnugt sé. Með hliðsjón af broti ákærðu, sem er alvarlegt, er refsing hennar ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Í ljósi þess tíma sem liðinn er frá því að mál þetta var kært til lögreglu eru efni til að skilorðsbinda refsingu ákærðu að fullu, svo sem í dómsorði er mælt fyrir um.
Af hálfu hvers brotaþola fyrir sig er þess krafist að ákærða verði dæmd til að greiða hverjum og einum skaðabætur að fjárhæð 500.000 krónur, auk vaxta og málskostnaðar. Með ólögmætri háttsemi sinni hefur ákærða valdið brotaþolum miskatjóni, sem hún ber skaðabótaábyrgð á. Er bótakröfum í hóf stillt miðað við þær afleiðingar sem hinar röngu kærur höfðu í för með sér. Verða þær teknar til greina að fullu. Þá verður ákærða dæmd til að greiða hverjum brotþola fyrir sig málskostnað, eins og nánar greinir í dómsorði.
Ákærða greiði sakarkostnað samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti og málsvarnarlaun skipaðs verjanda, svo sem í dómsorði greinir. Við ákvörðun málsvarnarlauna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari.
Símon Sigvaldason héraðsdómari, Pétur Guðgeirsson héraðsdómari og Kristinn Tómasson geðlæknir kveða upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærða, X, sæti fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum þrem árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærða greiði brotaþolunum A, B, C, D, E, F, G og H, hverju fyrir sig, 500.000 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 16. febrúar 2012 til 11. nóvember 2013, en með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laganna, frá þeim degi til greiðsludags. Þá greiði ákærða hverjum brotaþola fyrir sig 80.000 krónur í málskostnað.
Ákærða greiði 3.186.067 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Þórs Ólasonar héraðsdómslögmanns, 1.329.900 krónur.