- Kærumál
- Vitni
|
Miðvikudaginn 14. júní 2006. |
Nr. 318/2006. |
Ákæruvaldið(Sigurður Tómas Magnússon settur ríkissaksóknari) gegn X og (Gestur Jónsson hrl.) Y(Jakob R. Möller hrl.) |
Kærumál. Vitni.
Ekki var fallist á kröfu X og Y um að settur ríkissaksóknari og dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur yrðu kallaðir fyrir dóm sem vitni við málflutning um kröfu þeirra X og Y um frávísun opinbers máls á hendur þeim.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 12. júní 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júní 2006, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um Helga I. Jónssyni, dómstjóra í Reykjavík, og Sigurði Tómasi Magnússyni, settum ríkissaksóknara í málinu, yrði gert að koma fyrir dóm sem vitni við meðferð kröfu um frávísun þess. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðilar krefjast þess að fyrrgreindum mönnum verði gert að koma fyrir dóm til að gefa skýrslu sem vitni.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði höfðaði settur ríkissaksóknari mál þetta á hendur varnaraðilum og Z með ákæru 31. mars 2006. Við þingfestingu málsins 27. apríl sama ár kröfðust allir ákærðu að því yrði vísað frá dómi. Í þinghaldi 23. maí 2006 var greint nánar frá helstu röksemdunum, sem þeir reistu þessa kröfu á. Að því er varðar varnaraðila var því í fyrsta lagi borið við að í sex nánar tilteknum atriðum væri málsóknin í andstöðu við ákvæði 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 með áorðnum breytingum. Í öðru lagi hafi með áðurnefndri ákæru á þrjá vegu verið raskað grundvelli máls frá því, sem var samkvæmt fyrri ákæru frá 1. júlí 2005, en máli samkvæmt henni var vísað frá héraðsdómi, sbr. dóm Hæstaréttar 10. október sama ár í máli nr. 420/2005. Í þriðja lagi hafi rannsókn málsins verið haldin annmörkum af fjórum tilgreindum ástæðum þegar ákæran 31. mars 2006 var gefin út. Meðal þeirra sex atriða, sem varnaraðilar töldu valda því að málsóknin væri andstæð 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, var að settur ríkissaksóknari hafi skipt sér af skipan dóms í máli þessu og væri það „sérstakt brot á 1. mgr. um sjálfstæði dómstóla“, svo sem komist var að orði í bókun um þetta í þingbók. Til stuðnings því, sem þessi röksemd laut að, lögðu varnaraðilar fram í sama þinghaldi afrit bréfs síns til dómstjórans í Reykjavík, bréfs hans til þeirra og tveggja bréfa sinna til setts ríkissaksóknara. Í hinum kærða úrskurði er rakið efni þessara bréfa, svo og svarbréfs þess síðastnefnda, sem lagt var fram í þinghaldi 9. júní 2006. Við það tækifæri kröfðust varnaraðilar að dómstjórinn og settur ríkissaksóknari yrðu kvaddir til vitnisburðar við fyrirhugaða meðferð kröfu um frávísun málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 15. og 16. þessa mánaðar. Þessu hafnaði héraðsdómari með hinum kærða úrskurði.
Af málatilbúnaði varnaraðila virðist mega ætla að þeir telji vitnisburð dómstjórans í Reykjavík og setts ríkissaksóknara geta leitt í ljós að þeir síðastnefndu hafi átt eitt eða fleiri samtöl áður en ákæra í máli þessu og gögn af hendi ákæruvaldsins bárust héraðsdómi. Þar hafi meðal annars komið fram að dómstjórinn hygðist fela málið nafngreindum dómara, sem hafi farið með fyrra mál ákæruvaldsins á hendur varnaraðilum og fleirum, en settur ríkissaksóknari þá greint frá því að hann hygðist leiða tiltekið vitni í væntanlegu máli, sem stæði í þeim tengslum við þann dómara að til vanhæfis hans kæmi. Hafi þá dómstjórinn horfið frá fyrirætlan sinni og falið öðrum dómara málið. Ekki verður annað séð en að um þetta liggi þegar fyrir nægar upplýsingar í þeim bréfum, sem áður var getið. Jafnvel þótt varnaraðilar teldu að skýrslur vitnanna, sem þeir óska eftir, gætu leitt í ljós frekari atriði í þessu sambandi, gætu röksemdir, sem á þessu væru reistar, ekki orðið til þess að málinu yrði vísað frá dómi. Þegar af þeirri ástæðu og með vísan til 4. mgr. 128. gr. laga nr. 19/1991 verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júní 2006.
Við þingfestingu málsins 27. apríl sl. kröfðust ákærðu þess að því yrði vísað frá dómi. Ákærðu, X og Y byggja kröfu sína m.a. á því að settur ríkissaksóknari hafi haft afskipti af skipan dómsins og sé það brot á 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Krefjast þeir þess að dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur og settur ríkissaksóknari verði kvaddir fyrir dóm sem vitni til að gefa skýrslu þegar frávísunarkröfur verða fluttar 15. júní nk. Settur ríkissaksóknari hefur mótmælt því að nefndir menn verði kvaddir til skýrslutöku. Var málið flutt um þennan ágreining 9. júní sl.
Forsaga þessa ágreinings, sem hér er til úrskurðar, er sú að 15. mars sl. gekk dómur í málinu nr. S-1026/2005, en það var höfðað á hendur framangreindum ákærðum og fjórum öðrum. Dómsformaður var Pétur Guðgeirsson héraðsdómari og annar meðdómenda var dómari þessa máls.
Settur ríkissaksóknari gaf út ákæru í þessu máli 31. mars sl. Í bréfi sem verjendur framangreindra ákærðu rituðu dómstjóranum í Reykjavík 27. apríl sl. segir orðrétt: “Við undirritaðir, sem og skjólstæðingar okkar, urðum undrandi þegar við fréttum að sú breyting hefði verið gerð frá fyrra máli að Pétur Guðgeirsson væri ekki lengur í sæti dómara. Með bréfi þessu viljum við leita staðfestingar þinnar á þeim atvikum sem urðu til þess að Pétur Guðgeirsson er ekki dómari í nýja málinu. Skilningur okkar á atvikunum byggist á símtali sem undirritaður Gestur Jónsson átti við þig 3. apríl sl., þar sem m.a. var leitað skýringa á því að Pétur væri ekki dómari í málinu. Skilningur Gests á símtalinu var sá að þann 31. mars sl. hafi Sigurður Tómas Magnússon komið á þinn fund með nýju ákæruna gegn skjólstæðingum okkar. Gefa þurfti út fyrirkall og ákveða dag til þingfestingar. Sigurður Tómas hafi þá gert þér grein fyrir því að hann teldi að Pétur Guðgeirsson gæti ekki verið dómari í málinu vegna þess að ákæruvaldið hygðist leiða vitni í málinu sem tengdist Pétri fjölskylduböndum. Um væri að ræða endurskoðanda hjá Deloitte endurskoðun sem unnið hefði ýmsa sérfræðivinnu fyrir ákæruvaldið í tengslum við rannsókn málsins. Þú hafir fallist á þessi sjónarmið Sigurðar Tómasar og því valið Arngrím Ísberg dómara í nýja málinu.”
Dómstjórinn svaraði bréfi verjendanna 28. apríl sl. Í upphafi þess getur dómstjórinn þess að ekki hafi verið sjálfgefið að Pétur Guðgeirsson yrði dómari í málinu nr. S-514/2006 þótt hann hafi verið dómsformaður í málinu S-1026/2005. Síðan segir: “Aðdraganda þess að Arngrími Ísberg héraðsdómara var úthlutað máli nr. S-514/2006 er rétt lýst í bréfi yðar að öðru leyti en því að sérstakur ríkissaksóknari, Sigurður Tómas Magnússon, hafði, skömmu áður en ákæra var gefin út, samband við mig og skýrði frá því að vitni það, sem getið er um í bréfi yðar, væri á vitnalista ákæruvaldsins og yrði klárlega kvatt fyrir dóm. Lægi því fyrir að Pétur Guðgeirsson héraðsdómari væri vanhæfur til að fara með málið vegna tengsla hans við vitnið. Upplýsingar af þessu tagi berast dómstjóra af og til. Þegar atvikum er svo háttað, sem að framan greinir, er máli ekki úthlutað til dómara sem er fyrirsjáanlega vanhæfur til meðferðar þess.”
Verjendurnir rituðu settum ríkissaksóknara bréf 8. maí sl. þar sem þeir rekja efni bréfs síns til dómstjórans og svarbréfs hans. Síðan segir: “Bréf okkar til dómstjórans afhentum við honum persónulega á skrifstofu hans 27. apríl sl. Fórum við yfir efni bréfsins og skýrðum þá ósk okkar að fá vitneskju um aðdraganda þess að ákvörðun var tekin um að Pétri Guðgeirssyni var ekki úthlutað málinu þrátt fyrir að hann hafi verið dómsformaður í máli S-1026/2005. Dómstjóri greindi okkur frá því að hann hefði tjáð þér a.m.k. viku áður en ákæra var gefin út að hann hefði ákveðið að úthluta nýju máli til Péturs Guðgeirssonar. Gat hann þess að mikilvægt væri að festa og samfella væri í meðferð mála. Þeirri ákvörðun hefði hann breytt eftir að hafa fengið frá þér upplýsingar þær sem getið er um í bréfi dómstjórans. Það er krafa skjólstæðinga okkar að upplýst verði að fullu um öll samskipti sem þú hefur átt við dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur um val dómara í þessu máli. M.a. er þess óskað að þú upplýsir (1) hvenær Helgi I. Jónsson upplýsti þig um að hann hefði ákveðið að Pétri Guðgeirssyni yrði úthlutað málinu og (2) af hvaða tilefni hann gaf þér þær upplýsingar. Þá er þess óskað að þú upplýsir um (3) hvenær og (4) með hverjum hætti þú upplýstir dómstjórann um það vitni sem þú virðist telja að hafi gert Pétur Guðgeirsson vanhæfan sem dómara í málinu.”
Þessu bréfi og ítrekunarbréfi sem sent var 23. maí sl. svaraði settur ríkissaksóknari með bréfi 29. maí sl. Þar segir: “Í aðdraganda að útgáfu ákæru átti settur ríkissaksóknari stutt samtal við Helga I. Jónsson dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur um mögulega útgáfu nýrrar ákæru og væntanleg samskipti vegna afhendingar hennar og útgáfu fyrirkalls. Á þessum tímapunkti hafði endanleg ákvörðun um útgáfu ákæru ekki verið tekin og því ekkert tilefni til ákvörðunar um úthlutun málsins. Dómstjórinn lét þess getið að ef ákæra yrði gefin út kæmi bæði til greina að málinu yrði úthlutað til sömu dómara og fóru með málið nr. S-1026/2005 og að því yrði úthlutað nýjum dómarahópi.” Síðan er í bréfinu lýst vinnu löggilts endurskoðanda í þágu rannsóknar málsins og þess getið að hann hafi m.a. unnið tvær álitsgerðir í febrúar og mars sl. sem séu á meðal þýðingarmestu gagna málsins. Þá segir að í lok vinnufundar um viku fyrir útgáfu ákæru hafi endurskoðandinn sérstaklega vakið athygli setts ríkissaksóknara á tengslum sínum við Pétur Guðgeirsson. Loks segir í bréfinu: “Skömmu áður en ákæran var gefin út hafði settur ríkissaksóknari aftur samband við dómstjórann í Héraðsdómi Reykjavíkur í því skyni að tilkynna honum um afhendingu ákæru og gríðarlegs magns málsskjala og stuðla að því að samskiptin yrðu með þeim hætti að upplýsingar um útgáfu ákæru bærust ákærðu á undan utanaðkomandi aðilum. Settur ríkissaksóknari taldi eðlilegt að upplýsa dómstjórann um framangreind tengsl í þessu samtali.”
II
Hér að framan var það rakið að verjendurnir rituðu dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur bréf og áttu með honum fund þar sem fjallað var um aðdraganda þess að valinn var dómari til að dæma þetta mál. Þá var gerð grein fyrir svari dómstjórans. Það er meginregla opinbers réttar að öllum er skylt að koma fyrir dóm á varnarþingi sínu og bera þar vitni, sbr. 1. mgr. 49. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Í 52. gr. sömu laga segir að embættis- og sýslunarmönnum sé óskylt að koma fyrir dóm til þess að vitna um atvik sem gerst hafa í embætti þeirra eða sýslan og leiða megi í ljós með vottorði úr embættisbók eða öðru opinberu skjali. Framangreint svarbréf dómstjórans er hvorki vottorð úr embættisbók né annað opinbert skjal. Það er hins vegar á það að líta að með bréfinu svaraði dómstjórinn spurningum verjendanna og hafa þeir ekki óskað eftir því við hann að hann svaraði þeim frekar. Að mati dómsins hefur því ekki verið sýnt fram á að þörf sé á að dómstjórinn komi fyrir dóm til að bera vitni um samskipti sín við settan ríkissaksóknara. Samkvæmt þessu og með vísun til 4. mgr. 128. gr. laga um meðferð opinberra mála er hafnað kröfu verjendanna um að dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur verði kvaddur fyrir dóm til að bera vitni.
Settur ríkissaksóknari er ákærandi málsins. Sem ákærandi gaf hann út ákæruna og við undirbúning þess vann hann þau störf og tók þær ákvarðanir sem til þurfti. Við rekstur málsins fyrir dómi svarar ákærandinn fyrir störf sín sem málflytjandi en ekki sem vitni. Hvergi í lögum er að finna heimild til þess að ákærandinn geti, í sama máli sem hann flytur, þurft að bera um störf sín við undirbúning og rekstur málsins sem vitni. Slíkt er í engu samræmi við stöðu hans sem ákæranda og málflytjanda. Kröfu verjendanna um að settur ríkissaksóknara gefi vitnaskýrslu er þar af leiðandi hafnað.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð
Hafnað er kröfu verjenda ákærðu, X og Y, um að dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur og settur ríkissaksóknari verði kvaddir fyrir dóminn sem vitni.