Print

Mál nr. 22/2016

Lykilorð
  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Kröfulýsing
  • Verðtrygging

                                     

Fimmtudaginn 28. janúar 2016.

Nr. 22/2016.

LBI hf.

(Kristinn Bjarnason hrl.)

gegn

Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda

(Bjarni Þór Óskarsson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Kröfulýsing. Verðtrygging.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem krafa S að fjárhæð 80.217.448 kr. var viðurkennd við slit LBI hf. í réttindaröð sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskiptaskipti o.fl. S lýsti kröfu við slit LBI hf. á grundvelli skuldabréfs. Deildu aðilar um það hvernig reikna skyldi verðbættan höfuðstól skuldabréfsins. S vildi notast við vísitölu neysluverðs þann 1. apríl 2009 en LBI hf. vildi notast við dagvísitölu neysluverðs þann 22. apríl 2009. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, kom meðal annars fram að ófrávíkjanleg ákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og reglna Seðlabankans nr. 492/2001 heimiluðu ekki útreikning með þeim hætti sem LBI hf. hafði leitast eftir að byggja á við útreikning kröfu S. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. desember 2015 en kærumálsgögn bárust réttinum 12. janúar 2016. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 2015, þar sem krafa varnaraðila að fjárhæð 80.217.448 krónur var viðurkennd við slit sóknaraðila í réttindaröð sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.  Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að krafa varnaraðila verði viðurkennd sem almenn krafa að fjárhæð 79.886.054 krónur. Þá krefst hann málskostnaður í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar, auk málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og getur því ekki komið til álita að dæma honum frekari málskostnað en gert var með hinum kærða úrskurði.

Fyrir Hæstarétti byggir sóknaraðili meðal annars á því að „samkvæmt 1. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki leiði dómsúrskurður um að fjármálafyrirtæki sé tekið til slita ekki sjálfkrafa til þess að kröfur á hendur því falli í gjalddaga.“ Þess vegna sé ekki fært að leysa úr ágreiningi aðila á þeim grundvelli að nýr gjalddagi hafi stofnast á úrskurðardegi „þar sem í tilgreindu ákvæði er sérstaklega verið að koma í veg fyrir sjálfkrafa gjaldfellingu krafna á hendur fjármálafyrirtækjum sem sæta slitameðferð eftir XII. kafla laga nr. 161/2002.“ Á þessari málsástæðu var ekki byggt í héraði. Er því um að ræða nýja málsástæðu sem er of seint fram komin, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991. Kemur hún því ekki til álita við úrlausn málsins.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur með þeim hætti sem í dómsorði greinir.

Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Krafa varnaraðila, Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda, að fjárhæð 80.217.448 krónur, er viðurkennd við slit sóknaraðila, LBI hf., með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 500.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 2015.

I.

Máli þessu, sem er ágreiningsmál um slitameðferð varnaraðila, var beint dómsins 27. júní 2014 með bréfi slitastjórnar LBI hf. með vísan til 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti. Málið var tekið til úrskurðar 18. nóvember 2015.

                Sóknaraðili er Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda, Borgartúni 29, 105 Reykjavík.  Sóknaraðili krefst þess að krafa hans nr. 4074 í kröfuskrá varnaraðila verði tekin til greina eins og henni var lýst í kröfulýsingu, dags. 28. október 2009. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

                Varnaraðili krefst þess að öllum dómkröfum sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði ákvörðun varnaraðila að viðurkenna kröfu sóknaraðila við slitameðferð varnaraðila að fjárhæð kr. 79.886.054, sem almenna kröfu, sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar.

II.

Með innköllun sem birt var í Lögbirtingablaðinu þann 30. apríl 2009 skoraði slitastjórn LBI hf. á alla þá, sem ættu kröfur á hendur bankanum, að lýsa kröfum sínum fyrir slitastjórninni. Var því beint til kröfuhafa að í kröfulýsingu kæmi fram staða kröfu þann 22. apríl 2009, en sá dagur skyldi teljast upphafsdagur kröfumeðferðar samkvæmt efni innköllunarinnar.  Í innkölluninni kom jafnframt fram að kröfuhafar skyldu lýsa kröfum sínum innan sex mánaða frá fyrri birtingu innköllunarinnar.

Með kröfulýsingu dags. 29. október 2009 lýsti sóknaraðili kröfu vegna skuldabréfaflokks STOL – 1. flokkur 1997 að fjárhæð kr. 83.431.321, en upphaflegur höfuðstóll kröfunnar var kr. 95.000.000. Slitastjórn tók við kröfulýsingunni 30. október 2009.

Skuldabréfaflokkurinn sem um ræðir var gefinn út 10. september 1997 af Stofnlánadeild landbúnaðarins til Búnaðarbankans Verðbréfa. Var nafnverð hvers skuldabréfs í flokknum kr. 5.000.000,- og var þar kveðið á um að útgefandi skyldi endurgreiða verðbættan höfuðstól skuldarinnar með 20 árlegum afborgunum skuldabréfinu 1. mars ár hvert út lánstímann, í síðasta sinn þann 1. mars 2018.  Samkvæmt skilmálum skuldabréfsins var höfuðstóll skuldarinnar bundinn neysluvísitölu með grunnviðmiðun 180,6 stig í september 1997. Var þar jafnframt kveðið á um að höfuðstóll skuldarinnar breyttist í hlutfalli við breytingar á neysluvísitölu til hvers gjalddaga og að höfuðstóll skuldarinnar skyldi reiknaður út á gjalddaga áður en vexti og afborganir væru reiknuð.

Þann 18. september 1997 voru öll skuldabréf flokksins, 19 talsins, framseld sóknaraðila, sbr. áritanir á skuldabréfin þar um. Með lögum nr. 68/1997 var Lánasjóður landbúnaðarins stofnaður og tók hann við öllum eignum, réttindum, skuldum og skuldbindingum Stofnlánadeildarinnar, frá og með 1. janúar 1998, sem um leið var lögð niður, sbr. 13. gr. laganna. 

Með samningi dags. 4. október 2005, milli ríkissjóðs og Landsbanka Íslands hf. yfirtók bankinn tilgreindar eignir og skuldir Lánasjóðs landbúnaðarins og voru skuldir samkvæmt umræddum skuldabréfaflokki þar á meðal. Eins og að framan greinar var upphafsdagur . ts. iða honum motaskipti. Mað leysa.  greiða mess að stefnandi sætti gæsluvarðhaldi Ágreiningslaust er með aðilum máls þessa að kröfulýsingunni sem deilt er um í máli þessu sé réttilega beint gagnvart LBI hf.

Eins og að framan greinar var upphafsdagur kröfumeðferðar varnaraðila samkvæmt áðurnefndri innköllun slitastjórnar hans 22. apríl 2009. Á þeim degi var í gildi vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands birti þann 1. apríl s.á., þ.e. 336,5 stig, en næst birti Hagstofan vísitölu neysluverðs þann 1. maí 2009, sem þá var 334,5 stig.

Sóknaraðili miðaði útreikning kröfu sinnar vegna skuldabréfaflokksins á hendur varnaraðila við þá opinberu vísitölu sem í gildi var á upphafsdegi kröfumeðferðarinnar. Varnaraðili hafnaði hins vegar þeim útreikningi sóknaraðila og samþykkti kröfuna endurútreiknaða miðað við það sem varnaraðili kallaði dagsvísitölu, sem þýddi nokkra lækkun frá þeirri kröfu sem sóknaraðili hafði lýst. Sóknaraðili var ekki tilbúinn að fallast á þá lækkun.

  Málsaðilum ber að öðru leyti saman um málsatvik. Í síðasta þinghaldi fyrir aðalmeðferð málsins lýstu aðilar því yfir að ágreiningur þeirra afmarkaðist við hvort notast skuli við dagvísitölu neysluverðs þann 22. apríl 2009 eða við vísitölu neysluverðs þann 1. apríl 2009. Ekki væri ágreiningur um forsendur að baki útreikningum vísitölunnar sem slíkrar.

III.

Sóknaraðili telur að varnaraðila hafi verið óheimilt að beita dagvísitölu neysluverðs við útreikning á kröfu sóknaraðila samkvæmt kröfulýsingu hans miðað við 22. apríl 2009. Vísar sóknaraðili í því sambandi til þess að samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sé heimilt að verðtryggja sparifé og lánsfé samkvæmt 13. gr. laganna ef vísitala neysluverðs, sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt þeim lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingarblaðinu, er grundvöllur verðtryggingarinnar. Þá segir þar jafnframt að vísitala sem reiknuð sé og birt í tilteknum mánuði gildi um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár frá fyrsta degi þar næsta mánaðar. 

Sóknaraðili bendir á að í 2. mgr. 15. gr. laga nr. 38/2001 segi jafnframt að Seðlabankinn setji nánari reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Í reglum Seðlabanka Íslands um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár nr. 492/2001 sé heimilað að nota svokallaða dagsvísitölu í ákveðnum tilvikum, en sú heimild hafi verið sett sett inn í reglurnar með reglum bankans nr. 278/2010 um breytingu á reglum 492/2001, sbr. 4. mgr. 4. gr. reglnanna.

Sóknaraðili lítur svo á að það að Seðlabankinn hafi ákveðið sérstaklega að heimila notkun svokallaðrar dagsvísitölu, í sérgreindum tilvikum, megi túlka þannig að fram til þess tíma hafi notkun hennar verið óheimil, þar sem hún gangi gegn megininntaki reglnanna sem finna má í 1. gr. þeirra. 

Sóknaraðili telur enn fremur að gildandi reglur Seðlabankans um dagvísitölu heimili ekki beitingu dagvísitölu með þeim hætti sem varnaraðili hefur staðið að í máli þessu. Þannig segi í 4. mgr. 4. gr. reglna nr. 492/2001, eftir að þeim var breytt með reglum nr. 278/2010, að heimilt sé að semja svo um í fjármálagerningum, sem skráðir séu á skipulegum verðbréfamarkaði, sbr. lög nr. 110/2007, um kauphallir, að á útborgunardegi láns og greiðsludegi afborgana og vaxta miðist verðbætur innan mánaðar við daglega línulega breytingu á vísitölu neysluverðs, þ.e. milli gildis hennar á fyrsta degi mánaðar og gildis hennar á fyrsta degi næsta mánaðar þar á eftir. 

Sóknaraðili bendir á að skuldabréfaflokkurinn STOL – 1. flokkur 1997 hafi samkvæmt skilmálum sínum verið skráður á Verðbréfaþingi Íslands, sem síðar varð Kauphöll Íslands, og teljast skuldabréfin því fjármálagerningar sem skráðir voru á skipulegum fjármálamarkaði. Í skilmálum skuldabréfaflokksins kemur fram að höfuðstóll bréfanna sé verðbættur þannig að höfuðstóll skuldarinnar sé bundinn vísitölu neysluvísitölu með grunnviðmiðun í september 1997 og skuli höfuðstóll skuldarinnar breytast í hlutfalli við breytingar á neysluvísitölu frá grunnvísitölu til hvers gjalddaga. Í skilmálum skuldabréfanna komi hins vegar ekkert fram um það að nota eigi þá aðferð sem kveðið er á um í 4. mgr. 4. gr. reglna nr. 492/2001, sbr. reglur 278/2010, við útreikning afborgana samkvæmt þeim eða við gjaldfellingu þeirra. Vegna þessa telur sóknaraðili að heimild reglnanna til að nota dagvísitölu um tiltekna gerð fjármálagerninga sé ekki fyrir hendi í þessu máli. Hvorki hafi verið sérstaklega kveðið á um að þá aðferð skyldi nota við útreikning á verðbótum höfuðstóls í skilmálum skuldabréfanna né hafi verið samið svo um með öðrum hætti. Þá vísar sóknaraðili jafnframt til þess að heimild í reglum nr. 492/2001 til útreiknings verðtryggingar tiltekinnar gerðar fjármálagerninga hafi ekki verið fyrir hendi fyrr en löngu eftir útgáfu skuldabréfanna og geti því ekki átt við.

Þar sem framangreind undanþága í reglum Seðlabanka Íslands nr. 492/2001 gildi ekki um skuldabréfin telur sóknaðili að almenn ákvæði reglnanna hljóti að gilda um verðtryggingu kröfu sinnar. Í 1. gr. reglnanna sé kveðið á um að verðtrygging sparifjár og lánsfjár miðað við innlenda verðvísitölu skuli miðast við vísitölu neysluverðs eins og Hagstofa Íslands auglýsir hana mánaðarlega, sbr. ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001.

Í 3. gr. laga um vísitölu neysluverðs nr. 12/1995, sbr. l. 27/2007, segi enn fremur að vísitala neysluverðs skuli reiknuð í hverjum mánuði miðað við verðlag í um það bil vikutíma um miðjan hvern mánuð en heimilt sé að safna verðupplýsingum yfir lengra tímabil ef verðlag vöru breytist ört. Miðað við orðalag 3. gr. laga nr. 12/1995 verði formleg vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar út ekki reiknuð með lögmætum hætti frá degi til dags þar sem Hagstofan þarf að miða við verðlag í um það bil vikutíma hið minnsta um miðjan hvern mánuð til að safna þeim verðupplýsingum sem hún þarf til að geta framkvæmt útreikninginn. Þó sé heimilt að miða við lengra tímabil samkvæmt lagatextanum.

Vegna umfjöllunar um vísitölu neysluverðs bendir sóknaraðili að lokum á að þar sem reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. séu ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. laganna, verði ekki samið um grundvöll verðtryggingar lána, sem ekki sé stoð fyrir í lögum. Sóknaraðili telur að reglur 14. gr. laga nr. 38/2001 geri ráð fyrir því að sú vísitala neysluverðs sem heimilt sé að nota til verðtryggingar á sparifé og lánsfé sé sú vísitala sem reiknuð sé af Hagstofu Íslands, í samræmi gildandi lög þar um, og sé birt einu sinni í mánuði í Lögbirtingablaðinu. Enga stoð sé að finna í lögum fyrir öðrum grundvelli verðtryggingar lánsfjár og heimild sú sem 2. mgr. 15. gr. laga nr. 38/2001 veita Seðlabankanum til að setja nánari reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár telur sóknaraðili að veiti Seðlabankanum aðeins heimild til þess að útfæra með nánari hætti framkvæmd verðtryggingar miðað við þá lögmæltu vísitölu neysluverðs sem er í gildi lögum samkvæmt. Hins vegar sé engin heimild í lögunum til handa Seðlabankanum til að leggja í reglum sínum grunn að nýrri vísitölu eða nýjum útreikningi verðbóta. Telur sóknaraðili því að umrætt ákvæði í reglum bankans sé ekki aðeins án lagastoðar heldur brjóti það beinlínis gegn ákvæðum laga nr. 38/2001 um verðtryggingu lánsfjár. Með vísan til þess telur sóknaraðili að varnaraðila hafi ekki verið heimilt að beita umræddri aðferð við að reikna niður kröfur sóknaraðila samkvæmt hinni umþrættu kröfulýsingu. 

Sóknaraðili vísar að lokum til þess að skuldabréf þau sem kröfu var lýst vegna með hinni umþrættu kröfulýsingu séu viðskiptabréf. Samkvæmt þeim meginreglum sem um viðskiptabréf gildi séu skuldabréf þess efnis sem þau beri með sér. Þess vegna hafi sóknaraðili mátt treysta því að kröfur skv. skuldabréfunum væru þess efnis sem bréfin báru með sér er hann fékk þau framseld. Skoða verði umrædd skuldabréf með framangreinda meginreglu í huga. Stefnandi bendir jafnframt á það að skuldabréfum sé ætlað að skapa rétt eftir orðanna hljóðan í samræmi við traustkenningu samningaréttarins og þess vegna eigi að túlka þau með hlutlægum hætti. Í samræmi við traustkenninguna telur stefnandi því að skuldbinding varnaraðila skv. skuldabréfunum sé verðtryggð í samræmi við gildandi lög og reglur um verðtryggingu láns- og sparifjár eins og skuldabréfin gefi skýrt til kynna.

Með vísan til framangreinds krefst sóknaraðili þess að varnaraðila beri að samþykkja kröfulýsingu sína frá 29. október 2009.

Málsástæður og lagarök varnaraðila.

Af hálfu varnaraðila er á því byggt að skilmálar skuldabréfsins komi í veg fyrir að útreikningsaðferð sóknaraðila verði beitt, enda komi fram lokamálslið fyrstu málsgreinar skilmála skuldabréfsins að óheimilt sé að krefjast samningsvaxta fyrir tímabilið 1. til 22. apríl 2009 án þess að verðbæta höfuðstól, en þar segi að höfuðstóll skuldarinnar skuli reiknaður út á gjalddaga áður en vextir og afborganir séu reiknaðar. Varnaraðili telur að sóknaraðili hafi í kröfugerð sinni litið framhjá þessu orðalagi sem og grundvallarsambandi raunvaxta og verðbólgu.

Varnaraðili telur málatilbúnað sóknaraðila ekki verða skilin öðruvísi en svo að verðbætur falli einungis á skuldabréfið 1. hvers mánaðar. Er á því byggt af hálfu varnaraðila að hið sama eigi þá við vexti. Slík niðurstaða fæli í sér lægri fjárhæð en þá sem varnaraðili hefur viðurkennt. Telur varnaraðili að krafa sóknaraðila að gefnum þessum forsendum geti ekki verið önnur en um verðbættan höfuðstól miðað við 1. apríl 2009 auk áfallinna vaxta til sama dags.

Með því að reikna dagvexti án þess að verðbæta höfuðstól er ljóst að sóknaraðili skekkir útreikninga vaxta og verðbóta innan mánaðar en aðferðarfræði sóknaraðila felur í sér ofmat verðbóta og vaxta. Mismunurinn í útreikningum aðila, útskýrist að mestu út frá mismuninum á verðbótum á höfuðstól sem leiðir til ofmats á vöxtum sem er þó lítils háttar miðað við verðbótaþáttinn.

Af hálfu varnaraðila er byggt á að eina takmörkun laganna á útreikningsaðferðum er sú að útreikningar á afborgunum, vöxtum og verðbótum á gjalddaga skuli miða við fyrsta hvers mánaðar. Þetta fyrirkomulag feli ekki í sér að verðbætur falli ekki á bréfið á öðrum dögum en fyrsta hvers mánaðar. Af hálfu varnaraðila er mótmælt öllum málsástæðum sóknaraðila að slíka reglu megi leiða af 14. gr. laga nr. 38/2001.

Varnaraðili byggir á því að tilgangur 14. gr. laga nr. 38/2001 sé að lögfesta grundvöll verðtryggingarinnar þ.e. við hvaða vísitölu verðtryggð lán skuli miðuð, hver eigi að reikna þá vísitölu, hvernig eigi að reikna hana, hvenær skuli að birta hana og hvenær vísitala neysluverðs komi til verðtryggingar. Varnaraðili hafnar því að í orðalaginu „Vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildir um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár frá fyrsta degi þar næsta mánaðar“ felist sú regla að verðbætur á grundvelli vísitölu neysluverðs falli ekki jafnt á yfir hvern mánuð. Hefði löggjafinn ætlað sér að setja slíka reglu hefði honum verið í lófa lagið að kveða skýrt á um hana. Þau lögskýringargögn sem fylgja lögum nr. 51/2007 bera með sér að lögunum sé ætlað að bregðast við nýjum verðsöfnunartíma vísitölu neysluverðs vegna innleiðingar á reglugerð frá Evrópusambandinu sem samræmir tímabil fyrir söfnun verðupplýsinga fyrir hina samræmdu neysluverðsvísitölu EES-svæðisins. Í breyttu fyrirkomulagi fólst að Hagstofunni var gert að safna verðlagsupplýsingum um miðjan mánuð, í stað fyrstu tveggja daga hvers mánaðar og birta í lok mánaðar. Af þessari breytingu leiddi að birting Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs gildir fyrir verðtryggingu þar næsta mánuði á eftir í stað næsta mánaðar eins og áður hafði verið, til þess að bankar og aðrar lánastofnanir hefðu tíma til þess að senda út greiðsluseðla með réttum upplýsingum um áfallnar verðbætur.

Varnaraðili mótmælir fullyrðingum sóknaraðila um að óheimilt hafi verið að nota svokallaða dagvísitölu við útreikning á virði kröfu, fyrir 29. mars 2010 þegar Seðlabankinn bætti við sérstakri heimild í reglur nr. 492/2001 um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár, sbr. reglur nr. 278/2010. Sóknaraðili bendir á að slíkir útreikningar hafi tíðkast lengi hérlendis. Þá telur varnaraðili að reglan taki ekki til þess tilviks sem þetta mál varðar, óháð lögmæti hennar.

Varnaraðili telur að tilgangur reglunnar sé í fyrsta lagi, að heimila útreikninga dagvísitölu og vaxta við útborgun eða afborgun láns. Við útborgun yrði grunnvísitala skuldabréfs sett á á annað gildi en upphafsgildi vísitölu neysluverðs þann mánuð sem skuldabréf er gefið út, þ.e.a.s. að skuldari fái greitt það sem hann raunverulega skuldar. Þannig verði útreikningar á afborgunum þar sem gjalddagi er annar en fyrsti hvers mánaðar tengdir við dagvísitölu, þ.e.a.s. að skuldari greiði afborganir af því sem hann raunverulega skuldar. Væri þessari aðferð beitt hér þá hefði varnaraðili reiknað dagvísitölu 10. september 1997, sem er útgáfudagur skuldabréfsins, og lagt hana til grundvallar ekki vísitölu neysluverðs 1. september 1997 sem sé grunnviðmið skuldabréfsins. Það liggur fyrir í málinu að við útreikninga sína miðaði varnaraðili við vísitölu neysluverðs 1. september 1997. Varnaraðili telur ekki vera ágreining um þennan þátt málsins, en reynist svo vera áskilur varnaraðili sér rétt til þess að koma að nýjum málsástæðum og frekari vörnum er varða þann þátt. Hvað varðar síðar hluta reglunar þá leggur varnaraðili áherslu á að ekki var verið að reikna út afborgun á gjalddaga heldur virði kröfu sóknaraðila þann 22. apríl 2009, þó svo að aðferðirnar kunni að virðast svipaðar.

Í ljósi þess sem hér að framan hefur verið rakið telur varnaraðili ljóst að sett lög taka ekki sérstaklega á sakarefninu í þessu máli þar sem ekki er verið að reikna verðbætur á afborgun. Byggir varnaraðili því á að eðli máls leiði til þess að sú aðferðafræði sem hann beitti við útreikninga á virði kröfu sóknaraðili sé allt í senn hagkvæm, réttlát og sanngjörn. Varnaraðili telur aðferðafræðina hagkvæma þar sem hún sé þekkt á fjármálamörkuðum og í samræmi við skilmála skuldabréfsins. Hún er réttlát og sanngjörn þar sem að í henni felst að sóknaraðili fær viðurkennda þá kröfu sem hann sannarlega átti þann 22. apríl 2009.

Varnaraðili telur að það gildi almennt að ef höfuðstóll á verðtryggðum kröfum er ekki verðbættur nema fyrsta hvers mánaðar þá feli slíkir útreikningar í sér vanmat réttmætum verðbótum kröfuhafa á framsalsdegi, þegar verðlag er að hækka á milli mánaða, og ofmat á réttmætum verðbótum þegar verðlag lækkar á milli mánaða eins og við á í þessu tilviki. Þetta eigi við bæði um höfuðstól og vexti. Ef kröfuhafi reiknar bara verðbætur til fyrsta hvers mánaðar en reiknar vexti ofan á kröfu daglega þá fela slíkir vaxtaútreikningar í sér vanmat á verðbótum á sem falla á vextina, þegar verðlag er að hækka, og ofmat á vöxtum þegar verðlag er lækka á milli mánaða. Skekkjan er í samræmi við hlutfallslega áfallna verðbólgu innan mánaðarins. Mismunur á útreikningum sóknaraðila og varnaraðila stafi einmitt af þessu. Þar sem höfuðstóll er aðeins verðbættur til 1. apríl 2009 þá eru áfallnar verðbætur á höfuðstól ofmetnar í útreikningum sóknaraðila. Að auki eru vextir sem reiknaðir eru ekki verðbættir sem felur í sér ofmat á vöxtum ef vextir eru reiknaðir til sama dags hjá sóknar- og varnaraðila.

Þá leggur varnaraðili áherslu á að sú aðferðafræði sem sóknaraðili leggur til grundvallar útreikningum sínum sé óréttlát og ósanngjörn þegar svo háttar til að verðhjöðnun er innan eða á milli mánaða. Með því að reikna dagvexti af óverðbættum höfuðstól áskilur sóknaraðili sér aukinn rétt en kemur í veg fyrir að höfuðstóll og vextir lækki til samræmis við hlutfallslega verðhjöðnun. Þetta gerir sóknaraðili þvert á orðalag 4. gr. reglna 492/2001 og skilmála skuldabréfsins, sem hvort um sig tilgreina að höfuðstóll skuli breytast áður en vextir séu reiknaðir.

Að lokum vísar varnaraðili til þessa að honum sé ekki kunnugt um annað en að ábyrgðarmaður skuldabréfsins, sbr. 2. gr. laga nr. 68/2005, haldi því í skilum. Telur varnaraðili að önnur aðferð en sú sem varnaraðili leggur til grundvallar, þá sérstaklega sú sem sóknaraðili vill beita, myndi óhjákvæmilega raska kröfuréttarlegu sambandi milli kröfuhafa, aðalskuldara og ábyrgðarmanns þannig að ekki verður samræmi í rétti kröfuhafa gangvart aðalskuldara annars vegar og endurkröfurétti ábyrgðarmanns hins vegar, færi það svo að ábyrgðarmaður leysti til sín kröfuna, að fullu eða að hluta, með greiðslu.

IV.

Niðurstaða                                            

Ágreiningur aðila málsins snýst um þá ákvörðun slitastjórnarinnar að miða útreikning á samþykktri kröfu sóknaraðila við svokallaða „dagsvísitölu neysluverðs“ þann 22. apríl 2009, sem var upphafsdagur kröfumeðferðar samkvæmt innköllun varnaraðila sem birt var 30. apríl 2009, í stað þeirrar vísitölu neysluverðs sem Hagstofa Íslands gaf út til verðtryggingar þann 1. apríl 2009, í samræmi við 1. gr. laga nr. 12/1995 um vísitölu neysluverðs, sbr. lög nr. 27/2007. Eins og rakið er hér að framan er krafa sóknaraðila gerð á grundvelli skuldabréfa, en samkvæmt skilmálum þeirra er höfuðstóll skuldarinnar bundinn neysluvísitölu með grunnviðmiðun 180,6 stig í september 1997. Er þar jafnframt kveðið á um að höfuðstóll skuldarinnar breytist í hlutfalli við breytingar á neysluvísitölu til hvers gjalddaga og að höfuðstóll skuldarinnar skuli reiknaður út á gjalddaga áður en vextir og afborganir eru reiknuð

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu gilda lögin um vexti af peningakröfum á sviði fjármunaréttar og á öðrum sviðum réttarins, eftir því sem við getur átt, svo og um annað endurgjald sem áskilið er eða tekið fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar. Þá segir í 2. mgr. sömu greinar að lögin gildi einnig um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Ótvírætt er því að lögin eiga efni sínu samkvæmt við um skuldabréf þau sem krafa sóknaraðila er byggð á í þessu máli.

Í VI. kafla laga nr. 38/2001 er kveðið nánar á um hvernig verðtryggingu sparifjár og lánsfjár skuli háttað. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laganna gilda ákvæði VI. kafla þeirra um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar. Óumdeilt er í þessu máli að þau skuldabréf sem liggja til grundvallar kröfulýsingu sóknaraðila eru verðtryggð með vísan til vísitölu neysluverðs.

Í 1. mgr. 13. gr. segir síðan nánar að með verðtryggingu í VI. kafla sé átt við „breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu“. Þá segir þar að um heimildir til verðtryggingar fari samkvæmt 14. gr. laganna nema lög kveði á um annað.

Um hvers konar vísitala eða önnur viðmiðun geti legið til grundvallar verðtryggingu er síðan mælt nánar fyrir um í 14. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 51/2007, en þar segir:

„Heimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. Vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildir um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár frá fyrsta degi þar næsta mánaðar. 
Í lánssamningi er þó heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi.“ 

                Ákvæði 14. gr. laga nr. 38/2001 er ófrávíkjanlegt, eins og aðrar reglur VI. kafla laganna, sbr. 2. gr. laganna. Af því leiðir að ekki er heimilt að semja um aðra vísitölu í lánaviðskiptum sem mælir breytingar á verðlagi en þá vísitölu neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum nr. 12/1995, og birtir mánaðarlega í Lögbirtingarblaði. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 12/1995 skal Hagstofan reikna vísitölu neysluverðs í hverjum mánuði miðað við verðlag í um það bil vikutíma um miðjan hvern mánuð. 

Eins og rakið er í 2. málslið 14. gr. laga nr. 38/2001 gildir vísitala sem er reiknuð og birt í tilteknum mánuði um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár frá fyrsta degi þar næsta mánaðar. Samkvæmt ákvæðinu gildir því vísitala neysluverðs sem reiknuð er út og birt í júlí vegna verðtryggingar í ágúst.

 Í 2. mgr. 15. gr. er Seðlabanka Íslands veitt heimild til að setja nánari reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Á grundvelli þessarar heimildar hefur bankinn sett reglur nr. 492/2001, um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár.

Í ákvæði 1. gr. þeirra reglna er tekið fram að verðtrygging sparifjár og lánsfjár miðað við innlenda verðvísitölu skuli miðast við vísitölu neysluverðs eins og Hagstofa Íslands auglýsir hana mánaðarlega, sbr. ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001, nema lög kveði á um annað. Í því sambandi er í 1. gr. reglnanna vísað til ákvæðis 5. gr. reglnanna, en þar er kveðið sérstaklega á um að í lánssamningum sé þó heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna, ef þær vísitölur mæla ekki breytingar á almennu verðlagi.

Í 4. og 5. gr. reglna 492/2001 er síðan fjallað sérstaklega um verðtryggð útlán. Þegar reglurnar voru fyrst settar hljóðaði ákvæði 4. gr. reglnanna svo: 

„Verðtrygging láns með ákvæði um að höfuðstóll þess miðist við vísitölu neysluverðs er því aðeins heimil að lánið sé til fimm ára hið minnsta.

Höfuðstóll láns breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs frá grunnvísitölu til fyrsta gjalddaga og síðan í hlutfalli við breytingar á vísitölunni milli gjalddaga. Skal höfuðstóll láns breytast á hverjum gjalddaga, áður en vextir og afborgun eru reiknuð út. Grunnvísitala skal vera vísitala sú, sem í gildi er þegar lán er veitt, nema samningur eða eðli máls leiði til annars.

Gjalddagar láns skulu allir vera á sama degi mánaðar, þannig að tímabilið milli gjalddaga teljist í heilum mánuðum. Sé gjalddagi láns á einhverjum öðrum degi mánaðar en lánveiting á sér stað, skal til leiðréttingar reikna dagvexti með sérstökum verðbótum, fyrir frávikið innan lánveitingarmánaðar (mest 29 dagar). Við útborgun láns greiðir lánþegi dagvextina, ef gjalddagi er síðar í mánuði en lánveiting, en lánveitandi greiðir, ef gjalddagi er fyrr.

Á kvittunum skal jafnan gera nákvæma grein fyrir útreikningi greiðslu og áföllnum verðbótum.“

Með reglum nr. 278/2010 frá 29. mars 2010, um breytingu á reglum um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár nr. 492/2001, var bætt við nýrri málsgrein á eftir 3. mgr. 4. gr. framangreindra reglna en hún er svohljóðandi:

„Heimilt er auk þess að semja svo um í fjármálagerningum, sem skráðir eru á skipulegum verðbréfamarkaði sbr. lög nr. 110/2007 um kauphallir, að á útborgunardegi láns og greiðsludegi afborgana og vaxta miðist verðbætur innan mánaðar við daglega línulega breytingu á vísitölu neysluverðs, þ.e. milli gildis hennar á fyrsta degi mánaðar og gildis hennar á fyrsta degi næsta mánaðar þar á eftir.“

Í 2. gr. reglna nr. 278/2010 kemur fram að þær séu settar með tilvísun til ákvæða VI. kafla laga nr. 38/2001 og öðlist þegar gildi. Reglurnar voru birtar með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 31. mars 2010.

Af framangreindum ákvæðum laga nr. 38/2001, sbr. einkum 14. gr. laganna, er ljóst að löggjafinn hefur þar tekið þá afstöðu að verðtrygging láns skuli miðast við þá vísitölu neysluverðs sem Hagstofan birtir mánaðarlega í Lögbirtingarblaði. Af ákvæðum VI. kafla laganna, sem eru efni sínu samkvæmt ófrávíkjanleg, sbr. 2. gr. laganna, verður ekki ráðið að heimilt sé að miða útreikning verðtryggs láns við aðra vísitölu en þá sem Hagstofa Íslands birtir mánaðarlega í Lögbirtingarblaði, að frátöldum þeim undantekningum sem mælt hefur verið fyrir um í reglum Seðlabankans.

Engin þeirra undantekninga, sbr. 5. gr. reglna Seðlabankans, á hins vegar við um atvik þessa máls. Þá getur heimild sú sem innleidd var í í 4. mgr. 4. gr. sömu reglna með reglum Seðlabankans frá 29. mars 2010 efni sínu samkvæmt ekki átt við um þau lögskipti sem eru til umfjöllunar í þessu máli, enda átti þessi breyting á reglunum sér stað tæplega ári eftir að sóknaraðili hafi lýst kröfu sinni, auk þess sem hún var ekki í gildi þegar sóknaraðili eignaðist skuldabréfin.

                Að því er snertir þá málsástæðu varnaraðila að sömu sjónarmið verði að gilda um útreikning vaxta og verðbóta, ef fallist er á kröfu sóknaraðila um útreikning verðbóta, þá er sérstaklega kveðið á um að í 2. mgr. 4. gr. reglna Seðlabankans nr. 492/2001 að höfuðstóll láns skuli breytast á hverjum gjalddaga, áður en vextir og afborgun eru reiknuð út.

Samkvæmt þessu hefur með reglum Seðlabankans verið skilið á milli útreiknings vaxta og útreiknings verðbóta á höfuðstól. Í ljósi þess að reglur Seðlabankans eru settar á grundvelli 15. gr. laga nr. 38/2001, sem er ófrávíkjanlegt, eins og aðrar reglur VI. kafla laganna, verður ekki fallist á þá málsástæðu varnaraðila að sama regla skuli gilda um útreikning vaxta og dómurinn hefur komist að um útreikning verðtryggðs höfuðstóls hér að framan.

                Þar sem ófrávíkjanleg ákvæði laga nr. 38/2001 og reglna nr. 492/2001 heimila ekki útreikning með þeim hætti sem varnaraðili hefur leitast eftir að byggja á við útreikning kröfu sóknaraðila hafa málsástæður hans um hugsanlegt ofmat eða vanmat á verðbótum kröfuhafa á framsalsdegi ekki þýðingu, hvort sem er gagnvart framsalshöfum, framseljendum eða ábyrgðarmönnum. Ganga verður út frá því að kröfuhafar og skuldarar ráði slíkum atriðum til lykta með samningum, eftir því sem tilefni gefst til.

                Samkvæmt öllu framangreindu er því fallist á kröfu sóknaraðila um að krafa hans nr. 4074 í kröfuskrá varnaraðila verði tekin til greina eins og henni var lýst í kröfulýsingu sóknaraðila, dags. 28. október 2009.

 Með hliðsjón af þessum úrslitum málsins verður varnaraðili úrskurðaður til að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðin sú fjárhæð sem nánar greinir í úrskurðarorði.

Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð. Dómari tók við málinu 25. ágúst sl. en hafði fram að þeim tíma engin afskipti af meðferð þess.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Við slitameðferð varnaraðila, LBI hf., er viðurkennd krafa sóknaraðila Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda nr. 4074 í kröfuskrá varnaraðila, eins og henni var lýst í kröfulýsingu sóknaraðila, dags. 28. október 2009.

Varnaraðili greiði sóknaraðila, 750.000 krónur í málskostnað.