Print

Mál nr. 291/2009

Lykilorð
  • Umferðarlagabrot
  • Þjófnaður
  • Nytjastuldur
  • Eignaspjöll
  • Tilraun
  • Líkamsárás
  • Játningarmál

Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. október 2009.

Nr. 291/2009.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir settur saksóknari)

gegn

Agnari Davíð Stefánssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Umferðarlagabrot. Þjófnaður. Nytjastuldur. Eignaspjöll. Tilraun. Líkamsárás. Játningarmál.

 

A var sakfelldur fyrir fjölmörg hegningar- umferðar- og fíkniefnalagabrot og dæmdur í 15 mánaða fangelsi auk þess sem hann var sviptur ökurétti í 4 mánuði. Í málinu, sem áfrýjað var að beiðni A til mildunar refsingar, hélt hann því fram að þar sem krafa ákæruvalds um þyngingu refsingar hefði ekki komið fram fyrr en í greinargerð þess fyrir Hæstarétti 10. júlí 2009, en hann hafði þá fjórum dögum fyrr skilað greinargerð af sinni hálfu, hefði hann ekki átt þess kost að verjast kröfum ákæruvalds um þyngingu refsingar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt 4. mgr. 199. gr. laga nr. 88/2008 væri öðrum en þeim sem áfrýjar máli ávallt heimilt að gera kröfu fyrir Hæstarétti um breytingar á niðurstöðum héraðsdóms, án þess að áfrýja fyrir sitt leyti, en áskilið væri að sú krafa kæmi fram í greinargerð hans. Samkvæmt athugasemdum sem fylgdu frumvarpi laganna var umrædd regla nýmæli og til einföldunar. Í reglunni fælist það hagræði að aðrir aðilar máls þyrftu ekki að standa að sérstökum aðgerðum til áfrýjunar ef gagnaðili hefði fyrir sitt leyti skotið málinu til Hæstaréttar. Mætti sá sem áfrýjaði dómi því búast við að í greinargerð gagnaðila kæmu fram kröfur um að héraðsdómi yrði breytt honum í óhag. Þá ætti sá sem áfrýjaði máli kost á því samkvæmt 3. mgr. 203. gr. laganna að leggja fram gögn fyrir Hæstarétti allt þar til vika væri til flutning málsins auk þess að halda uppi vörnum við munnlegan málflutning. Var því ekki fallist á að þessi skipan færi gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

 

                        Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.  

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 27. maí 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða en refsing hans þyngd.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð og að hún verði bundin skilorði.

Eins og greinir að framan var málinu skotið til Hæstaréttar samkvæmt yfirlýsingu ákærða til endurskoðunar á viðurlögum í því skyni að refsing sem honum var dæmd í héraðsdómi yrði milduð, sbr. 2. mgr. 199. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í samræmi við þetta er í áfrýjunarstefnu gerð grein fyrir því að ákærði sé áfrýjandi málsins og hvaða kröfu hann geri, sbr. c. lið 2. mgr. 201. gr. laga nr. 88/2008. Í áfrýjunarstefnu eru ekki tilgreindar kröfur ákæruvalds í málinu, en þær koma fram í greinargerð þess. Fyrir Hæstarétti hefur ákærði haldið því fram að þar sem krafa ákæruvalds um þyngingu refsingar hafi ekki komið fram fyrr en í greinargerð 10. júlí 2009, en hann hafi þá fjórum dögum fyrr skilað greinargerð af sinni hálfu, hafi hann ekki átt þess kost að verjast kröfu ákæruvalds í sinni greinargerð. Eigi hann þess aðeins kost við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti. Telur hann að þetta samrýmist ekki jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og beri því þegar af þessari ástæðu að hafna kröfu ákæruvalds um þyngingu refsingar. Samkvæmt 4. mgr. 199. gr. laga nr. 88/2008 er öðrum en þeim, sem áfrýjar máli, ávallt heimilt að gera kröfu fyrir Hæstarétti um breytingar á niðurstöðum héraðsdóms, án þess að áfrýja fyrir sitt leyti, en áskilið er að sú krafa komi fram í greinargerð sem hann skilar samkvæmt 203. gr. laganna. Í skýringum við 199. gr. í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi því er síðar varð að lögum nr. 88/2008, kemur fram að þessi regla sé nýmæli og hún sé til einföldunar. Í reglunni felist það hagræði að aðrir aðilar máls þurfi ekki að standa að sérstökum aðgerðum til áfrýjunar ef gagnaðili hefur fyrir sitt leyti skotið málinu til Hæstaréttar. Í þessu felst, að sá sem áfrýjar dómi má við því búast að í greinargerð gagnaðila komi fram kröfur um að héraðsdómi verði breytt honum í óhag. Hann á þess að auki kost samkvæmt 3. mgr. 203. gr. laga nr. 88/2008 að leggja frekari gögn fyrir Hæstarétt allt þar til vika er til flutnings málsins og halda uppi vörnum við munnlegan flutning þess. Verður ekki fallist á að þessi skipan laga nr. 88/2008 fari í bága við meginreglur um jafnræði málsaðila.

Í lýsingu héraðsdóms á sakarferli ákærða hefur láðst að geta þess að hann var dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi 19. mars 2003 fyrir brot gegn 248. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með þessari athugasemd verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Agnar Davíð Stefánsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins 213.210 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundasonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. maí 2009.

                Árið 2009, miðvikudaginn 6. maí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Ragnheiði Harðardóttur, settum héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 462/2009: Ákæruvaldið gegn Agnari Davíð Stefánssyni, sem tekið var til dóms í þinghaldi hinn 5. sama mánaðar.

                Málið er höfðað með ákæru Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 29. apríl 2009, á hendur ákærða, Agnari Davíð Stefánssyni, kennitala 190579-5069, Höfðabakka 1, Reykjavík, fyrir eftirtalin hegningar-, umferðar- og fíkniefnalagabrot:

I. (007-2009-4573)

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa að morgni laugardagsins 24. janúar 2009 ekið bifreiðinni KG-Z12, óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (metýlfenídat í blóði 200 ng/ml) frá Skúlagötu 64 í Reykjavík að Stórhöfða, uns lögregla stöðvaði aksturinn við Gullinbrú.

Telst þetta varða við 1. og 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.

II. (007-2009-17717)

Fyrir þjófnað, með því að hafa föstudaginn 27. febrúar 2009 í verslun EJS við Grensásveg 10 í Reykjavík, stolið fartölvu að verðmæti 284.900 kr. með því að klippa á þjófavörn fartölvunnar og fara með hana út úr versluninni, innan klæða, án þess að greiða fyrir hana.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

III. (007-2009-14662)

Fyrir þjófnað, með því að hafa sunnudaginn 8. mars 2009 í verslun Elkó við Lindir í Kópavogi, stolið fartölvu að verðmæti 114.995 kr. með því að taka fartölvuna og ganga með hana út úr versluninni án þess að greiða fyrir hana.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

IV. (007-2009-14287)

Fyrir þjófnað, með því að hafa mánudaginn 9. mars 2009 í versluninni Tölvutek að Borgartúni 33 í Reykjavík, stolið rafhlöðu að verðmæti 29.900 kr. með því að taka rafhlöðuna og ganga með hana út úr versluninni án þess að greiða fyrir hana.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

V. (007-2009-16549)

Fyrir þjófnað, með því að hafa föstudaginn 20. mars 2009 á Hótel Hilton við Suðurlandsbraut í Reykjavík, stolið gosdrykkjum og áfengi að verðmæti 5.050 kr. með því að fara inn á hótelherbergi og neyta drykkjanna og fara út af hótelinu án þess að greiða fyrir þá.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

VI. (007-2009-20698)

Fyrir þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 2. apríl 2009 í verslun Max í Kauptúni í Garðabæ, stolið fartölvu að verðmæti 137.989 kr. með því að taka fartölvuna og ganga með hana út úr versluninni án þess að greiða fyrir hana.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í máli þessu gerir A, kt. [...], öryggisfulltrúi Haga, þá kröfu f.h. Max raftækja að ákærði verði dæmdur til að greiða skaðabætur að fjárhæð kr. 137.989, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá tjónsdegi, en svo dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

VII. (007-2009-20549)

Fyrir nytjastuld og eignaspjöll, með því að hafa að kvöldi mánudagsins 6. apríl 2009 tekið bifreiðina UL-935 í heimildarleysi, til eigin nota, frá bifreiðastæði við bílaleiguna Aka að Vagnhöfða 25 í Reykjavík og ekið henni aðfaranótt þriðjudagsins 7. apríl um götur höfuðborgarsvæðisins og með ásetningi inn í ýmsar verslanir á höfuðborgarsvæðinu með þeim afleiðingum að mikið tjón varð á bifreiðinni.

Telst þetta varða við 1. mgr. 259. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í máli þessu gerir Aka ehf. kt. 650470-0289, þá kröfu að ákærði verið dæmdur til að greiða skaðabætur að fjárhæð kr. 545.000, sem nemur andvirði tjónsins á bifreiðinni, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá tjónsdegi, en svo dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

VIII. (007-2009-20550)

Fyrir nytjastuld og þjófnað, með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 7. apríl 2009 tekið bifreiðina MZ-U79 í heimildarleysi, til eigin nota, frá M 18 í Reykjavík og með því að hafa stolið úr bílskúr á sama stað sólgleraugum, að verðmæti kr. 25.000, tveimur pör af hönskum að verðmæti kr. 5000, peningaveski með 5000 kr. reiðufé og Shoel mótorhjólahjálmi.

Telst þetta varða við 244. gr. og 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í máli þessu gerir B kt. [...], þá kröfu að ákærði verði dæmdur til að greiða skaðabætur að fjárhæð kr. 60.776, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá tjónsdegi, en svo dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

IX. (007-2009-20532)

Fyrir tilraun til þjófnaðar, með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 7. apríl 2009, í auðgunarskyni, reynt að brjótast inn í verslunina Tölvuvirkni við Hlíðarsmára 13 í Kópavogi, með því að aka bifreiðinni UL-935 á útidyrahurð verslunarinnar, en horfið á braut, þar sem honum tókst ekki að brjóta niður hurðina.  

Telst þetta varða við 244. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

X. (007-2009-20541)

Fyrir þjófnað, með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 7. apríl 2009, brotist inn í verslunina Fotoval, við Skipholt 50b í Reykjavík, með því að aka bifreiðinni UL-935 á útidyrahurð verslunarinnar og stolið þaðan myndavél af gerðinni Olympus E-520.

Telst þetta varða við 244. gr. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

XI. (007-2009-20544)

Fyrir þjófnað, með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 7. apríl 2009, brotist inn í verslunina Att.is, við Bæjarlind 1-3 í Kópavogi, með því að aka bifreiðinni UL-935 á útidyrahurð verslunarinnar og stolið þaðan tölvu af gerðinni Toshiba og heyrnatólum af gerðinni Sennheiser.

Telst þetta varða við 244. gr. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.

Í þinghaldi 5. maí sl. var sakamálið nr. 510/2009 sameinað máli þessu, en í því máli er ákærða gefin að sök með ákæru Ríkissaksóknara, útgefinni 30. apríl 2009, sérstaklega hættuleg líkamsárás, með því að hafa, laugardaginn 24. janúar 2009, í íbúð að Skúlagötu 64, Reykjavík, slegið C, kt. [...], í höfuðið með hamri, með þeim afleiðingum að hann hlaut 2,5 sm skurð aftan á hnakka.

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa og að bótakröfum verði vísað frá dómi.

Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt færð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur í maí 1979. Á hann að baki talsverðan sakaferil, allt aftur til ársins 1995. Það ár var ákærði dæmdur í 45 daga skilorðsbundið varðhald fyrir nytjastuld og réttindaleysisakstur. Árið 1996 og 1998 hlaut ákærði skilorðsbundna fangelsisdóma fyrir þjófnaðarbrot. Árið 2003 var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir þjófnaðarbrot og árið 2007 í 8 mánaða fangelsi fyrir skjalafals, þjófnað, nytjastuld og fjársvik.

Í máli þessu er ákærði sakfelldur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, 9 þjófnaðarbrot, nytjastuld í tvö skipti, eignaspjöll og umferðarlagabrot. Verður refsing ákærða ákveðin eftir reglum 77. gr. almennra hegningarlaga. Þá hafa eldri dómar fyrir auðgunarbrot ítrekunaráhrif í málinu, sbr. 71. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga. Telst refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði. Óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 8. apríl 2009 til dagsins í dag komi til frádráttar refsingu.

Ákærði er sviptur ökurétti í 4 mánuði frá dómsbirtingu að telja.

Skaðabótakröfur sem greinir í ákæru og hafðar eru uppi af hálfu Max Raftækja ehf., kennitala 571006-1460, Aka ehf., kennitala 650470-0289, og B, kennitala [...], fullnægja ekki skilyrðum 2. mgr. 173. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Verður kröfunum vísað frá dómi.

Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, vegna vinnu á rannsóknarstigi og við meðferð málsins fyrir dómi, 180.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði greiði 112.276 krónur í annan sakarkostnað.

Af hálfu ákæruvalds flutti málið Karl Ingi Vilbergsson aðstoðarsaksóknari.

Ragnheiður Harðardóttir settur héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Agnar Davíð Stefánsson, sæti fangelsi í 15 mánuði. Gæsluvarðhald ákærða frá 8. apríl 2009 komi til frádráttar refsingu.

Ákærði er sviptur ökurétti í 4 mánuði frá dómsbirtingu að telja.

Skaðabótakröfum Max Raftækja ehf., kennitala 571006-1460, Aka ehf., kennitala 650470-0289, og B, kennitala [...], er vísað frá dómi.

Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 180.000 krónur, og 112.276 krónur í annan sakarkostnað.