- Ökutæki
- Skaðabætur
- Slysatrygging
- Líkamstjón
- Tómlæti
- Gjafsókn
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. janúar 2015. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 4.260.077 krónur með 4,5% ársvöxtum af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 24. nóvember 2008 til 12. janúar 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir heldur áfrýjandi því fram að hún hafi orðið fyrir slysi við það að aka bifreiðinni […] aftan á jeppabifreið 24. nóvember 2008 í nánd við […] á Selfossi. Hafi jeppinn hemlað skyndilega og bifreiðin, sem hún hafi ekið, runnið stjórnlaust áfram í hálku og skollið á honum. Þar sem engar skemmdir hafi sést á jeppanum hafi ökumaður hans talið óþarft að tilkynna slysið til lögreglu eða fylla út tjónstilkynningu og kvaðst áfrýjandi ekki hafa mótmælt því, enda hafi hvorki hún né B, sem hafi verið farþegi í bifreiðinni, kennt sér meins. Að auki taldi áfrýjandi sig hafa verið í órétti.
Meðal gagna málsins er ódagsett yfirlýsing, undirrituð af áðurnefndri B, þar sem hún kvaðst hafa verið með áfrýjanda „í bíl þegar hún keyrði aftan á annan bíl. Þetta var í lok nóvember 2008 og það var hálka ... Vegna hálku gat hún ekki bremsað og bíllinn rann og skall aftan á jeppa.“ Þegar B bar vitni fyrir héraðsdómi við aðalmeðferð málsins 22. september 2014 sagðist hún muna mjög lítið eftir því sem átt hefði sér stað. Aðspurð kvaðst hún hafa lent í umferðarslysi og áfrýjandi verið ökumaður bifreiðarinnar. Minnti vitnið að þær hefðu verið á leið í skólann, en gat að öðru leyti ekki lýst því sem gerst hefði. Þegar fyrrgreind yfirlýsing var borin undir vitnið sagðist hún hafa skrifað hana sjálf. Þá liggur fyrir að hiti á Eyrarbakka umræddan dag var um eða rétt undir frostmarki og jörð frosin.
Í aðilaskýrslu fyrir dómi sagðist áfrýjandi ekki hafa fundið fyrir neinum líkamlegum einkennum strax eftir slysið. Síðan hafi sér verið „pínu illt í bakinu og hálsinum“ um kvöldið. Eins og rakið er í héraðsdómi leitaði áfrýjandi til Heilbrigðisstofnunar […] 26. nóvember 2008. Á samskiptaseðli, rituðum af nafngreindum lækni á stofnuninni, var meðal annars haft eftir henni: „Umferðarslys fyrir tveim dögum. Var ökumaður bifreiðar sem keyrði aftan á annan í hálku. Seinna sama dag verkur í hálsi sem hefur farið versnandi. Höfuðverkur. Leiðir niður í brjósthrygg.“ Eftir þetta leitaði áfrýjandi tvívegis til stofnunarinnar, 28. nóvember og 4. desember 2008. Í fyrra skiptið var greind „verulega skert hreyfigeta í hálsi“ og eymsli í herðum hennar. Hún hóf svo þjálfun hjá sjúkraþjálfara 19. febrúar 2009 og lauk þeirri meðferð 3. mars sama ár. Samkvæmt vottorði sjúkraþjálfarans 13. nóvember 2013 bar meðferðin jákvæðan árangur. Fyrir dómi kvað áfrýjandi að verkirnir, sem hrjáðu hana, hafi farið að aukast eftir því sem leið á sumarið 2009. Spurð hvenær hún hafi áttað sig á að einkennin vegna slyssins væru orðin varanleg svaraði áfrýjandi: „Ég held ég hafi áttað mig á því svona einhvern tímann í lok 2009, í byrjun 2010 ... ég bjóst aldrei við að ég tvítug stelpa væri alltaf með varanlega bakverki“. Eitthvað hefði sagt sér „að þetta væri ekki eðlilegt.“
Hinn 4. maí 2010 tilkynnti áfrýjandi stefnda um tjón af völdum slyss 24. nóvember 2008. Samkvæmt vottorði C læknis 6. september 2013 leitaði áfrýjandi til hans 8. september 2010 vegna bakverkja. Í vottorðinu kom fram að hún hafi sagst hafa fengið hnykk á háls í umferðarslysi í lok nóvember 2008. Hafi hún verið betri eftir meðferð hjá sjúkraþjálfara, en einkenni síðan komið fram á ný og aukist. Í október 2013 óskaði áfrýjandi eftir mati á afleiðingum slyssins. Í matsgerð tveggja sérfróðra manna 11. desember það ár sagði meðal annars að þeir teldu að orsakatengsl væru milli slyssins 24. nóvember 2008 og síðara slyss, sem áfrýjandi varð fyrir, og „tognunareinkenna í háls-, brjóst- og lendhrygg“ hennar. Þá litu matsmenn svo á að stöðugleikapunktur vegna fyrrgreinda slyssins teldist vera 3. mars 2009, við lok sjúkraþjálfunar, þegar ekki hafi verið að vænta frekari bata hjá tjónþola.
II
Í máli þessu krefst áfrýjandi bóta úr slysatryggingu ökumanns bifreiðarinnar […], sbr. 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, úr hendi stefnda, en bifreiðin var vátryggð hjá honum 24. nóvember 2008. Málsaðila greinir í fyrsta lagi á um hvort áfrýjandi hafi orðið fyrir slysi umræddan dag með þeim hætti sem að framan er lýst. Verði svo talið reisir stefndi sýknukröfu sína í annan stað á því að áfrýjandi hafi ekki gert kröfu á hendur sér innan þess tíma sem áskilinn er í 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga og þar með glatað rétti til bóta.
Samkvæmt gögnum málsins hefur áfrýjandi staðfastlega haldið því fram að hún hafi orðið fyrir slysi við það að bifreið, sem hún hafi ekið, hafi rekist aftan á aðra bifreið í hálku, en síðastnefnd lýsing hennar á aðstæðum virðist vera rétt miðað við veðurlýsingu í næsta nágrenni Selfoss. Jafnframt verða þær skýringar, sem hún hefur gefið á því að lögregla var hvorki kvödd til né tjónaskýrsla fyllt út í kjölfar árekstrarins, að teljast eðlilegar. Vitnisburður B fyrir dómi, þar sem hún kvaðst aðspurð hafa lent í slysi í bifreið sem áfrýjandi ók, bendir einnig til að frásögn þeirrar síðarnefndu sé rétt. Við þetta bætist að áfrýjandi leitaði til heilbrigðisstofnunar 26. nóvember 2008 þar sem hún sagðist hafa sem ökumaður bifreiðar orðið fyrir slysi tveimur dögum áður við það að aka aftan á aðra bifreið í hálku. Þá hafa tveir sérfróðir menn komist að þeirri niðurstöðu í matsgerð, sem ekki hefur verið hnekkt, að orsakatengsl séu milli þess slyss sem áfrýjandi kveðst hafa orðið fyrir og einkenna um tognun í háls-, brjóst- og lendhrygg hennar. Þegar til alls þessa er litið, svo og þess að héraðsdómari mat framburð áfrýjanda trúverðugan, verður að telja nægilega sannað að hún hafi orðið fyrir umferðarslysi 24. nóvember 2008 með þeim afleiðingum, sem gerð er grein fyrir í áðurnefndri matsgerð, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 14. nóvember 2013 í máli nr. 228/2013.
Í 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004 er meðal annars kveðið á um að sá sem á rétt til bóta samkvæmt slysatryggingu glati þeim rétti ef krafa er ekki gerð um bætur til vátryggingafélags innan árs frá því að hann fékk vitneskju um þau atvik sem hún er reist á. Í samræmi við orðanna hljóðan verður að skýra niðurlag þessa ákvæðis svo, þegar krafist er bóta vegna varanlegs líkamstjóns, að upphaf eins árs frestsins beri að miða við hvenær sá, sem orðið hefur fyrir slíku tjóni, hafi raunverulega gert sér grein fyrir að það hefði varanlegar afleiðingar fyrir hann, sbr. dóm Hæstaréttar 22. október 2009 í máli nr. 7/2009. Áfrýjandi greindi frá því í skýrslu sinni fyrir dómi að það hefði líklega verið í árslok 2009 eða byrjun árs 2010 sem hún hafi áttað sig á því að einkennin vegna slyssins væru orðin varanleg. Þessi skýring hennar samrýmist öðru því, sem fram er komið í málinu, svo sem vottorði sjúkraþjálfarans sem áður er getið. Að þessu virtu var ársfrestur sá, sem kveðið er á um í fyrrgreindu lagaákvæði, ekki liðinn þegar áfrýjandi tilkynnti stefnda um vátryggingaratburðinn 4. maí 2010.
Með vísan til þess sem að framan greinir verður krafa áfrýjanda á hendur stefnda tekin til greina, en ekki er tölulegur ágreiningur um hana.
Eftir þessum úrslitum verður stefnda gert að greiða málskostnað á báðum dómstigum sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir og rennur í ríkissjóð.
Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda í héraði er þess að geta að samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að ákveða í dómi fjárhæð þóknunar lögmanns gjafsóknarhafa, en að öðru leyti á ekki að taka þar afstöðu til þess hvað gjafsóknarhafa skuli greitt af kostnaði sínum af máli. Þóknun lögmanns áfrýjanda í héraði verður ákveðin 800.000 krónur þar sem ekki er tekið tillit til virðisaukaskatts af henni, en um gjafsókn í héraði fer að öðru leyti samkvæmt því sem í dómsorði segir. Þá fer um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fyrir Hæstarétti samkvæmt því sem þar greinir.
Dómsorð:
Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., greiði áfrýjanda, A, 4.260.077 krónur með 4,5% ársvöxtum af 799.320 krónum frá 24. nóvember 2008 til 3. mars 2009, af 4.260.077 krónum frá þeim degi til 12. janúar 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af síðastnefndri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði samtals 1.876.100 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem rennur í ríkissjóð.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda í héraði greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns áfrýjanda, 800.000 krónur.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns áfrýjanda, 800.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. október 2014.
Mál þetta, sem dómtekið var 22. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af A (kt. […]), til heimilis að […], gegn Tryggingamiðstöðinni hf., (kt. […]), Síðumúla 24, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 27. desember 2013.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 4.260.077 krónur ásamt 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, af 799.320 krónum frá 24. nóvember 2008 til 3. mars 2009 og af 4.260.077 krónum frá þeim degi til 12. janúar 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar auk virðisaukaskatts úr hendi stefnda eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu, auk þess sem stefndi krefur stefnanda um greiðslu málskostnaðar.
I.
Stefnandi lýsir málavöxtum svo að hún hafi lent í umferðarslysi 24. nóvember 2008 í grennd við […] á Selfossi þegar hún hafi ekið bifreiðinni […] í átt að skólanum eftir matarhlé, en þá hafi verið mikil hálka. Með stefnanda í för hafi verið B, kt. […], farþegi í framsæti. Jeppabifreið, sem hafi ekið fyrir framan bifreiðina, hafi hemlað skyndilega og hafi stefnandi þá einnig reynt að hemla, en bifreiðin þá runnið stjórnlaust áfram í hálku og skollið aftan á jeppann. Um allharðan árekstur hafi verið að ræða og kveðst stefnandi hafa kastast fram og aftur í sætinu við áreksturinn, en hún hafi þó verið í bílbelti. Stefnandi kveðst hafa farið út úr bifreiðinni eftir slysið og talað við ökumann jeppabifreiðarinnar sem hafi ekki kennt sér meins eftir slysið. Skemmdir hafi orðið á bifreið stefnanda, en engar á jeppabifreiðinni, en hún hafi verið útbúin dráttarkrók þar sem ákoman varð. Þar sem engar skemmdir hafi sést á jeppabifreiðinni hafi ökumaður hennar talið óþarft að tilkynna slysið til lögreglu eða fylla út tjónstilkynningu og hann því yfirgefið vettvang eftir samtalið. Stefnandi kveðst ekki hafa mótmælt þessu enda hafi hvorki hún né B kennt sér meins þá þegar eftir slysið. Stefnandi hafi auk þess talið sig í órétti við slíka aftanákeyrslu, en bifreiðin […] hafi ekki verið tryggð með húftryggingu. Fyrir liggur að skráður umráðamaður […], er umferðaróhappið átti að hafa átt sér stað, var móðir stefnanda en stefnandi varð skráður umráðamaður frá 5. desember 2011. Í ljósi þessa var lögregluskýrsla ekki gerð og atvikið ekki tilkynnt til stefnda þá þegar í kjölfar þess sem vátryggjanda ökutækisins, en stefnandi hafi haldið för áfram í skólann.
Þegar líða tók á daginn og þá um kvöldið kveðst stefnandi hafa byrjað að finna fyrir verkjum í hálsi og í höfði, með leiðni niður í bak, sem hafi ágerst daginn eftir. Tveimur dögum eftir slysið hafi verkirnir verið orðnir það slæmir að stefnandi hafi leitað á Heilbrigðisstofnun […] ([…]) þar sem hún var greind með hálstognun auk þess sem bókað er að tilefni komu hafi verið umferðarslys fyrir tveimur dögum. Í samskiptaseðli D læknis, 26. nóvember 2008, segir eftirfarandi: „Umferðarslys fyrir tveim dögum. Var ökumaður bifreiðar sem keyrði aftan á annan í hálku. Seinna sama dag verkur í hálsi sem hefur farið versnandi. Höfuðverkur. Leiðir niður í brjósthrygg. Ekki lent í áverka á hálshrygg áður. […] Við skoðun er hreyfanleiki í hálshrygg nokkuð góður þó skertur snúningur efst og neðst mest til hæ. Þreyfieymsli yfir hryggjartindum mest efsta og neðsta þriðjung hálhryggjar og efri helm. brjósthryggjar. Hreyfigeta í brjósthrygg góð. Ítarleg taugaskoðun er eðlil.“
Þar sem þessi einkenni hafi enn tekið að aukast leitaði stefnandi aftur á […] 28. nóvember 2008. Í samskiptaseðli E læknakandidats, dags. 28. nóvember 2008, kemur fram að stefnandi hafi verk í hálsi og herðum eftir bílslys fyrir fjórum dögum. Skoðun hafi leitt í ljós verulega skerta hreyfigetu í hálsi og eymsli í herðum og yfir hálsliðum. Einnig hafi verið skert fráfærsla í öxlum en röntgenmynd hafi þó ekki sýnt brot eða liðhlaup. Fékk stefnandi verkja- og bólgueyðandi lyf en myndu verkir halda áfram yrði að reyna meðhöndlun með sjúkraþjálfun. Stefnandi leitaði svo í þriðja sinn á […] 4. desember 2008 og fékk þá áfram greininguna hálstognun og var henni þá ráðlagt að nota mjúkan hálskraga. Þann 17. febrúar 2009 leitaði hún enn á […] og fékk þá skrifaða beiðni um sjúkraþjálfun. Í beiðninni kemur fram að stefnandi hafi lent í umferðarslysi í lok nóvember 2008 og fengið slink á háls. Stefnandi hóf sjúkraþjálfun hjá F, sjúkraþjálfara á […], 19. febrúar 2009. Í fyrirliggjandi skýrslu sjúkraþjálfarans, dags 13. nóvember 2013, kemur fram að stefnandi hafi komið þrisvar til meðferðar á tímabilinu frá 19. febrúar 2009 til 3. mars 2009. Hafi hún kvartað um verki í hálsi, brjóstbaki og mjóbaki, en mestir hafi verkirnir verið í hálsi og brjóstbaki. Í skýrslunni kemur einnig fram að stefnanda hafi verið vísað til sjúkraþjálfarans vegna afleiðinga umferðarslyss. Þá kemur einnig fram að árangur af sjúkraþjálfun á tímabilinu 19. febrúar til 3. mars 2009 hafi verið góður.
Þar sem stefnandi hafði enn ofangreinda verki einu og hálfu ári eftir slysið ákvað hún að leita til lögmanns og tilkynnti þá fyrst slysið til stefnda með tjóns- tilkynningu 4. maí 2010, en bifreiðin […] var vátryggð hjá stefnda á slysdegi.
Þann 8. september 2010 leitaði stefnandi síðan til C bæklunarskurðlæknis. Í læknisvottorði hans, dags. 6. september 2013, segir m.a. eftirfarandi: „[A] leitaði í fyrsta sinn á stofu til undirritaðs þann 08.09.2010 vegna bakverkja. Fram kom við komu að sjúklingur sagðist hafa verið ökumaður í bifreið sem lenti í umferðarslysi í lok nóvember 2008. Kvaðst hafa ekið í hálku aftan á aðra bifreið sem hafði bremsað. Kveðst hafa fengið hnykk á háls og af þeim sökum leitað strax á Heilsugæsluna á […] og verið þar mynduð.“ Stefnandi leitaði aftur til C þann 17. ágúst 2011. Samkvæmt fyrrgreindu læknisvottorði C ber stefnandi merki um að hafa hlotið væga tognun í hálsi og mjóbaki.
Með bréfi, dags 27. janúar 2011, hafnaði stefndi bótaskyldu úr slysatryggingu ökumanns og eiganda bifreiðarinnar […] þar sem ósannað væri að stefnandi hefði lent í árekstri á henni í nóvember 2008. Stefnandi vísaði málinu til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum þann 17. febrúar 2011. Þann 21. mars 2011 gaf nefndin það álit að stefnandi ætti ekki rétt á bótum úr slysatryggingu ökumanns hjá stefnda þar sem ekki lægju fyrir nauðsynleg gögn sem sýndu fram á að atburðurinn hefði gerst eða orðið með þeim hætti sem stefnandi héldi fram. Í áliti nefndarinnar segir m.a: „Ekki liggja fyrir nauðsynleg gögn sem sýna fram á að sá atburður hafi gerst eða orðið með þeim hætti sem [A] heldur fram. Með hliðsjón af því verður að meta ódagsetta yfirlýsingu stúlku sem segist hafa verið farþegi í […] í umrætt sinn. [A] hefur ekki lagt fram nauðsynleg gögn sem sýna að sá atburður hafi orðið sem hún byggir kröfu sína á. Af þeim ástæðum á […] ekki rétt á bótum úr slysatryggingu ökumanns hjá V.“
Stefnandi óskaði eftir mati G bæklunarlæknis og H hrl., á afleiðingum slyssins. Þar sem stefnandi lenti einnig í umferðarslysi 12. október 2011 voru afleiðingar þess slyss þá einnig metnar í matinu. Niðurstaða örorkumatsins er sú að varanlegur miski stefnanda vegna slyssins 24. nóvember 2008 væri 8 stig, varanleg örorka 8%, en stöðugleikapunktur væri 3. mars 2009. Vegna slyssins 12. október 2011 var varanlegur miski stefnanda metinn 4 stig og varanleg örorka 4%. Matsmenn töldu orsakatengsl vera á milli slysanna og tognunareinkenna í háls,- brjóst- og lendhrygg. Í niðurstöðu matsins segir meðal annars: „Í slysinu þann 24. nóvember 2008 hlaut A tognun í háls-, brjóst- og lendhrygg. Líta matsmenn til þess að hún leitaði á heilsugæslu tveimur dögum síðar, lýsti þá slysinu og kvartaði þá um einkenni í hálsi er leiddu niður í brjósthrygg. Við skoðun voru eymsli í hálsi og efsta hluta brjósthryggjar. Henni var ráðlögð sjúkraþjálfun og kvartaði við komu til sjúkraþjálfara um verki í hálsi, brjóstbaki og mjóbaki. Þá leitaði hún einnig til bæklunarlæknis vegna áframhaldandi einkenna [...]. Framangreind einkenni hafa reynst viðvarandi þann tíma sem liðinn er frá slysunum og telja matsmenn um varanlega áverka að ræða. Telja matsmenn með vísan til þess sem að framan er rakið orsakatengsl vera milli slysanna og tognunareinkenna í háls-, brjóst- og lendhrygg.“
Lögmaður stefnanda gerði kröfu á hendur stefnda vegna slyssins, dags 12. desember 2013, á grundvelli ofangreindrar matsgerðar. Stefndi hafnaði hins vegar bótaskyldu úr slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með bréfi dags 27. janúar 2001, með vísan til þess að ósannað væri að stefnandi hefði lent í árekstri á bifreiðinni […] í nóvember 2008. Stefnanda hafi því verið nauðsyn að höfða málið, en hún fékk gjafsókn vegna málshöfðunar, dags 2. júlí 2013.
II.
Stefnandi byggir á því að samkvæmt XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 92. gr., skuli hver ökumaður sem ökutæki stjórni tryggður sérstakri slysatryggingu, enda hafi hann ekki notað ökutækið í algeru heimildarleysi, sbr. 2. mgr. 90. gr. laganna. Ökutækið […], sem á slysdegi hafi verið í eigu I, móður stefnanda, hafi verið vátryggt hjá stefnda. Stefnandi eigi því rétt til bóta úr framangreindri vátryggingu og beinist kröfur stefnanda að stefnda sem vátryggjanda bifreiðarinnar við tjónsatburð. Stefnandi hafi orðið fyrir líkamstjóni í umferðarslysinu 24. nóvember 2008. Stefnandi hafi verið ökumaður bifreiðarinnar og því eigi hún rétt á bótum fyrir líkamstjón sitt samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 úr slysatryggingu ökumanns- og eiganda bifreiðarinnar […] hjá stefnda.
Bæði stefndi og úrskurðarnefnd í vátryggingamálum hafi byggt á að ósannað væri að slysið hafi orðið með þeim hætti sem lýst hafi verið. Stefndi hafi byggt á að ósannað væri að stefnandi hafi lent í árekstri á bifreiðinni […] í nóvember 2008, og úrskurðarnefndin á að ekki lægju fyrir nauðsynleg gögn til sönnunar á málsatvika- lýsingu stefnanda. Stefnandi hafni því alfarið að málsatvik séu ósönnuð og bendi á að vitnið B, kt. […], hafi verið farþegi í bifreiðinni er slysið hafi átt sér stað og geti staðfest málsatvik, líkt og hún hafi gert í fyrirliggjandi yfirlýsingu. Þá hafi stefnandi leitað til læknis, 26. nóvember 2008, tveimur dögum eftir slysið, og samkvæmt samskiptaseðli D hafi stefnandi lýst slysinu svo að hún hafi verið ökumaður bifreiðar sem keyrði aftan á aðra bifreið í hálku.
Stefnandi hafi verið ökumaður á bifreiðinni […] þegar slysið varð 24. nóvember 2008. Bifreiðin hafi verið skráð í eigu móður stefnanda, I, frá 3. ágúst 2007 til 5. desember 2011, en þá hafi stefnandi eignast bifreiðina. Þótt bifreiðin hafi verið skráð í eigu móður stefnanda á slysdegi hafi stefnandi verið meðumráðamaður enda hafi hún notað hana daglega. Bifreiðin […] hafi því verið eina bifreiðin sem stefnandi hafi haft til afnota á slysdegi. Telji stefnandi því fullsannað, eða a.m.k. að miklar líkur séu fyrir því, að bifreiðin […] hafi verið sú bifreið sem stefnandi hafi ekið þegar hún hafi lent í slysinu í nóvember 2008.
Engin ástæða hafi verið til að tilkynna áreksturinn til lögreglu eða fylla út tjónstilkynningu á slysstað. Bifreiðin […] hafi ekki verið tryggð húftryggingu og því ljóst að munatjón á bifreiðinni fengist ekki bætt, enda hafi hún verið í órétti í árekstrinum. Þá hafi engar skemmdir orðið á jeppanum vegna dráttarkróksins. Þá hafi hvorki stefnandi né ökumaður jeppabifreiðarinnar fundið fyrir áverkum þá þegar eftir slysið. Sömu sögu sé að segja um farþega bifreiðarinnar […], B. Þá er líða hafi tekið á daginn og að kvöldi slysdags kveðst stefnandi fyrst hafa fundið fyrir verkjum í hálsi og höfði, með leiðni niður í bak, vegna slyssins. Einkennin hafi síðan versnað og hún því leitað á […] tveimur dögum eftir slysið. Hafi stefnandi litið svo á og vonað að einkenni sem hún hafði í kjölfar slyssins myndu hverfa með tímanum en svo hafi ekki orðið. Stefnandi hafi ekki gert ráð fyrir að þurfa að sækja rétt sinn úr slysatryggingu bifreiðarinnar […] fyrr en henni hafi orðið ljóst að afleiðingar slyssins yrðu varanlegar og beri að taka tillit til þess við mat á sönnun. Engin ástæða sé til að draga framburð stefnanda í efa, enda sé hann trúverðugur og í fullu samræmi við gögn málsins, og þá sérstaklega atvikalýsingar í læknisfræðilegum gögnum málsins.
Stefnandi byggi á að framburður hennar um slysið fái stoð í samskiptaseðli D dags 26. nóvember 2008, samskiptaseðli E dags 28. nóvember 2008, samskiptaseðli J dags 4. desember 2008, beiðni um sjúkraþjálfun dags 17. febrúar 2008, vottorði C dags 6. september 2013 og skýrslu F sjúkraþjálfara, dags. 13. nóvember 2013.
Þá byggi stefnandi á því að fyrirliggjandi vottorð um veður frá Veðurstofu Íslands staðfesti að hiti hafi verið undir frostmarki á slysdegi og jörð frosin. Vottorðið staðfesti því frásögn stefnanda um færð á slysdegi og um að hálka hafi verið á vegum.
Stefnandi byggi á því að fyrirliggjandi ljósmyndir, sem hún hafi tekið af bifreiðinni […], á árinu 2010, sýni þær skemmdir sem hafi orðið á bifreiðinni í árekstrinum 24. nóvember 2008 og staðfesti frásögn hennar um tjónsatburðinn. Hafi stefnandi tilkynnt slysið til stefnda 4. maí 2010 og gagnaöflun og samskipti við stefnda þá hafist. Eftir að í ljós hafi komið að stefndi hafi talið sönnunargögn um atburðinn af skornum skammti hafi stefnandi tekið ljósmyndir af bifreiðinni. Myndirnar hafi því ekki verið teknar fyrr en um sumar eða haust 2010, enda hafi stefnandi fram að þeim tíma enga ástæðu haft til að taka myndir af skemmdunum. Myndirnar sýni skemmdir á bifreiðinni sem án nokkurs vafa komi heim og saman við lýsingar stefnanda á tildrögum slyssins. Staðhæfingar í gögnum málsins þess efnis að einhver í fjölskyldu stefnanda hafi gert við bifreiðina eftir slysið séu rangar og byggðar á misskilningi.
Stefndi hafi hlotið varanlegt líkamstjón í umferðarslysinu 24. nóvember 2008. Samkvæmt fyrirliggjandi mati G, læknis og sérfræðings, í mati á líkamstjóni og H hrl., hafi varanlegur miski stefnanda vegna slyssins verið metinn 8 stig og varanleg örorka 8%. Í samantektar- og álitskafla matsins komi fram að matsmenn líti til þess að stefnandi hafi leitað á heilsugæslu tveimur dögum eftir slysið og lýst því þar og hafi kvartað um einkenni í hálsi er leiddu niður í brjósthrygg. Matsmenn hafi talið orsakatengsl vera milli slyssins og tognunareinkenna í háls,- brjóst- og lendarhrygg. Stefnandi byggi á því að fyrirliggjandi matsgerð sýni fram á að stefnandi hafi hlotið varanlegar afleiðingar í slysinu og staðfesti auk þess þá málsatvikalýsingu sem stefnandi hafi haldið fram frá upphafi.
Stefnandi hafi frá byrjun borið um að hún hafi verið ökumaður bifreiðarinnar […] er hafi keyrt aftan á aðra bifreið í hálku. Vitni, farþegi í bifreiðinni, hafi og staðfest þá frásögn. Stefnandi hafi lagt fram læknisfræðileg gögn sem sýni fram á komur til lækna vegna slyssins er styðji við málsatvikalýsingu stefnanda. Þá liggi fyrir myndir af skemmdum sem bifreiðin hafi orðið fyrir í árekstrinum sem komi heim og saman við lýsingu stefnanda. Vottorð um veður frá Veðurstofu Íslands staðfesti hálku á vegum á slysdegi. Það bendi því ekkert til að efast megi um frásögnina um slysið og aðdraganda þess. Stefnandi telji, með vísan til framangreinds og framlagðra gagna, að sýnt hafi verið fram á að slysið hafi orðið með þeim hætti er hún hafi lýst frá upphafi.
Dómkröfur stefnanda um bætur séu á því byggðar að stefnda beri að greiða stefnanda fullar skaðabætur vegna líkamstjóns hennar og skuli skaðabætur taka mið af matsgerð G læknis og H hrl., þar sem fram komi að varanleg örorka stefnanda vegna slyssins sé 8% og varanlegur miski 8 stig. Dómkröfur stefnanda sundurliðist þannig að varanlegur miski samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sé 8 stig, eða 799.320 krónur eða 8% af 9.991.500 krónum. Varanleg örorka samkvæmt 5. gr. laga nr. 50/1993 sé 8% eða 3.460.757 krónur. Miðað sé þá við árslaun 2.417.000 krónur * 17,898 * 8% eða heildarbætur 4.260.077 krónur. Bætur fyrir varanlegan miska séu reiknaðar á grundvelli 4. gr. laga nr. 50/1993, sbr. 15. gr. sömu laga. Bætur fyrir varanlega örorku séu reiknaðar á grundvelli lágmarkslauna samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Útreikningur kröfu vegna varanlegrar örorku taki mið af margföldunarstuðli 6. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Gerð sé krafa um greiðslu 4.5% vaxta samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993, vegna varanlegs miska frá tjónsdegi 24. nóvember 2008 til 3. mars 2009 þegar stöðugleikatímapunkti hafi verið náð og vegna varanlegrar örorku frá stöðugleika- tímapunkti til 12. janúar 2014, þegar mánuður hafi verið liðinn frá því krafa stefnanda hafi verið send stefnda. Þá sé krafist dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, vegna allra bótaliða frá 12. janúar 2014, þegar mánuður hafi verið liðinn frá þeim degi er krafa stefnanda hafi verið send stefnda, og til greiðsludags. Krafist sé málskostnaðar samkvæmt reikningi eða að mati réttarins, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Þá sé krafist virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Um bótaábyrgð sé vísað til umferðarlaga nr. 50/1987, einkum XIII. kafla og 92. gr. laganna. Þá vísi stefnandi til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993 og laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Um aðild stefnda vísist til þess að lögboðin slysatrygging samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 hafi verið keypt hjá stefnda og sé stefndi því greiðsluskyldur vegna tjóns stefnanda. Eigandi ökutækisins, sem hafi verið annar en stefnandi á slysdegi, hafi uppfyllt sína skyldu til að kaupa slysatryggingu samkvæmt 1. mgr. 93. gr., sbr. 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og sé því ekki greiðsluskyldur. Um aðild stefnda vísist og til III. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum 16. og 17. gr. laganna. Um málskostnað vísist til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt byggist á ákvæðum laga nr. 50/1988. Um varnarþing vísist til 33. gr. laga nr. 91/1991, en stefndi eigi varnarþing í Reykjavík. Um vexti og dráttarvexti á dómkröfu sé vísað til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sem og til skaðabótalaga nr. 50/1993.
III.
Af hálfu stefnda er sýknukrafa í fyrsta lagi byggð á því að engin frambærileg gögn liggi fyrir um að stefnandi hafi lent í umferðaróhappi 24. nóvember 2008. Ódagsett yfirlýsing B, sem kvaðst hafa verið farþegi í bifreið undir stjórn stefnanda þegar stefnandi hafi ekið aftan á jeppabifreið í lok nóvember 2008, upplýsi ekkert um tjónsatvikið. Ekkert liggi fyrir um hvar umferðaróhappið hafi átt sér stað annað en að það hafi verið í nágrenni […] á Selfossi. Engin lögregluskýrsla sé til um óhappið. Ekkert komi fram um það hvort óhappið hafi átt sér stað á akbraut, hvort það hafi verið á gatnamótum eða hvort þar hafi verið stöðvunarskylda eða biðskylda. Ekkert liggi fyrir um bifreiðina sem ekið hafi verið aftan á, ekkert sé vitað um skráninganúmer þeirrar bifreiðar, eða hver ökumaður hennar hafi verið. Málsatvik, eins og stefnandi lýsi þeim, séu ekki studd neinum þeim gögnum sem gera verði kröfu til svo fjalla megi efnislega um kröfur stefnanda.
Í framlögðum tölvupóstum frá 2010 komi fram að myndir hafi verið teknar af bifreiðinni og að einhver í fjölskyldu stefnanda hafi gert við hana en í stefnu sé nú haldið fram að engin viðgerð hafi átt sér stað. Lagðar hafi verið fram myndir sem sýni skemmdir á bifreiðinni […]. Um sé að ræða bifreið af árgerð 2006, en á myndunum sé hún með skoðunarmiða 2011, sem þýði að myndirnar hafi verið teknar eftir júní 2009, sbr. upplýsingar á heimasíðu umferðarstofu og þar af leiðandi sanni umræddar myndir ekki að skemmdir séu vegna áreksturs í nóvember 2008. Að öllu framgreindu virtu sé tjón stefnanda með öllu ósannað og beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna.
Stefndi byggi sýknukröfu í öðru lagi á 124. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004, en þar sé kveðið á um að sá er eigi rétt til bóta samkvæmt slysatryggingu, sjúkratryggingu eða heilsutryggingu, með eða án uppsagnarréttar, glati þeim rétti ef krafa hefur ekki verið gerð um bætur til tryggingarfélagsins innan árs frá því að hann hafi fengið vitneskju um þau atvik sem hún sé reist á. Hæstiréttur Íslands hafi í dómum sínum miðað fresti við það tímamark þegar heilsufar tjónþola hafi orðið stöðugt eða þegar tjónþola hafi verið vísað til sérfræðings, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 661/2010 og nr. 615/2007. Stefndi telji rétt, með hliðsjón af framansögðu, að miða beri upphaf frests til tjónstilkynningar við það tímamark er stefnandi hafi lokið sjúkraþjálfun eða þann 3. mars 2009, sem sé sama dagsetning og matsmenn miði stöðugleikapunkt við. Ekki verði af gögnum máls, læknisvottorðum sem fyrir liggi og matsgerð, annað ráðið en að sjúkraþjálfunin á árinu 2009 hafi verið eina meðferð sem stefnandi hafi fengið í kjölfar þess umferðaróhapps er stefnandi hafi talið að hafi átt sér stað árið 2008. Tjónstilkynning hafi borist stefnda 4. maí 2010, en meðferð hjá sjúkraþjálfara hafi lokið þann 3. mars 2009 þannig að tjónstilkynning hafi borist rúmu ári eftir að meðferð hafi lokið og hafi frestur til að krefjast bóta þá verið liðinn, enda hafi stefnanda þá átt að vera ljós þau atvik sem bótakrafan yrði reist á.
Stefndi vísi til laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004, skaðabótalaga nr. 50/1993 og til umferðarlaga nr. 50/1987. Enn fremur vísi stefndi til meginreglna skaðabótaréttarins og almennra reglna kröfuréttar. Málskostnaðarkrafa stefnda byggist á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV.
Í málinu gerir stefnandi kröfu um bætur á grundvelli slystryggingar ökumanns, sbr. 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, en ágreiningslaust er að tryggingataki bifreið- arinnar […] hafi haft slíka tryggingu hjá stefnda á ætluðum tjónsdegi 24. nóvember 2008. Þá liggur enn fremur fyrir í málinu að engin ágreiningur er um útreikning á dómkröfu stefnanda miðað við miskastig og varanlega örorku, sem byggi á matsgerð.
Ágreiningur aðila í máli þessu afmarkast alfarið við þær tvær málsástæður sem stefndi byggir sýknukröfu sína á. Annars vegar byggir stefndi á því að fullnægjandi gögn liggi ekki fyrir sem staðreyni að stefnandi hafi sannanlega lent í umferðaróhappi 24. nóvember 2008, á bifreiðinni […], með þeim hætti sem stefnandi haldi fram. Hins vegar byggir stefndi á því að stefnandi hafi ekki gert kröfu um vátryggingabætur innan tilskilins frests, sbr. 124. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004.
Stefnandi hefur staðfastlega staðhæft að hún hafi sem ökumaður bifreiðarinnar […] lent í umræddum árekstri þann 24. nóvember 2008, við ókunna jeppabifreið á akbraut á Selfossi, í grennd við […], þegar hún hafi verið á leið í skólann, ásamt með B sem hafi þá verið farþegi í bifreiðinni. Enn fremur liggur fyrir að stefnandi fór tveimur dögum síðar til læknis og síðan endurtekið eftir það og virðist þá jafnan hafa tekið fram að hún hafi lent í slíkum árekstri.
Engin lögregluskýrsla, eða önnur skrifleg gögn eða tilkynningar, liggja hins vegar fyrir um hið ætlaða umferðaróhapp stefnanda 24. nóvember 2008. Fátt er vitað um þá bifreið sem stefnandi kveðst hafa lent í árekstri við. Stefnandi hefur þó borið að um hafi verið að ræða jeppabifreið með krók, en engar upplýsingar liggja fyrir um skráningarnúmer eða önnur auðkenni þeirrar bifreiðar, auk þess sem ekkert er vitað um ökumanninn. Þá eru lýsingar stefnanda á vettvangi tjónsins afar takmarkaðar, en fyrir dómi lýsti hún því þó að áreksturinn hefði átt sér stað á […] á Selfossi nálægt göngubraut, en bifreiðin […] sem hún hafi þá ekið hafi þá runnið í hálku á akbrautinni þegar hún reyndi að hemla og lent aftan á jeppabifreiðinni, en ákoman hafi orðið þar sem dráttarkrókurinn á þeirri bifreið hafi verið. Stefnandi hefur staðfastlega haldið því fram að hún hafi verið ökumaður og ekið á bifreiðinni […] í greint sinn. Af hálfu stefnanda hafa enn fremur verið lagðar fram myndir af bifreiðinni […] sem sýna nokkra ákomu framan á bifreiðinni, sem hún segir afleiðingar þessa áreksturs, en fyrir liggur að þessar ljósmyndir voru teknar nokkru síðar eða árið 2010.
Vitnið B kom fyrir dóminn og kvaðst muna eftir að hafa lent í umferðaróhappi þar sem stefnda hafi verið ökumaður á bifreið sinni en kvaðst að öðru leyti lítið muna eftir atvikum, en hún hafi ekki kennt sér meins eftir áreksturinn.
Eins og málið liggur fyrir verður að taka mið af því að afar takmörkuð gögn eru til um umferðaróhappið og á litlu öðru að byggja varðandi málsatvik en staðhæfingum stefnanda sjálfs um að hún hafi verið ökumaður á umræddri bifreið […] þegar árekstur við aðra bifreið hafi átt sér stað þann 24. nóvember 2008. Þó svo að stefnandi verði að teljast hafa verið bæði nokkuð staðföst og trúverðug í sínum framburði, eins langt og hann nær, um það að hún hafi lent í árekstri á umræddu ökutæki, verður engu að síður að miða við að það eitt og sér verði við svo búið að teljast ófullnægjandi grundvöllur til að fella ábyrgð á stefnda, er hafnar bótaskyldu. Verður þá meðal annars að líta til þess að ljósmyndir sem virðast sýna nokkrar skemmdir á bifreiðinni […] eru teknar allt að tveimur árum eftir að atburðirnir eiga að hafa átt sér stað og ekki liggur fyrir skýr vitnisburður annarra en stefndu um að hún hafi þá ekið á umræddri bifreið. Enn fremur liggur fyrir að ekki hafi verið gerðar tilraunir af hálfu stefnanda til að hafa upp á ökumanni jeppabifreiðarinnar sem hún kveðast hafa lent í árekstri við.
Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er, eins og hér stendur á, ekki unnt að fallast á með stefnanda að færð hafi verið fullnægjandi sönnun fyrir ábyrgð stefnda, á grundvelli 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, og með vísan til alls ofangreinds verður því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af dómkröfum stefnanda í máli þessu.
Eins og málið liggur fyrir þykir þó rétt að málskostnaður falli niður, en gjafsóknarkostnaður stefnanda, það er útlagður kostnaður, 276.100 krónur, og þóknun lögmanns hennar, Bergrúnar Elínar Benediktsdóttur hdl., 1.000.000 króna að teknu tilliti til virðisaukaskatts, eða alls 1.276.100 krónur, greiðist úr ríkissjóði, en í málinu liggur fyrir gjafsóknarleyfi til stefnanda til höfðunar máls þessa, dags 2. júlí 2013.
Málið flutti Erling Daði Emilsson héraðsdómslögmaður, í umboði Bergrúnar Elínar Benediktsdóttur héraðsdómslögmanns, fyrir hönd stefnanda, en Hjörleifur Kvaran hæstaréttarlögmaður, fyrir hönd stefnda.
Pétur Dam Leifsson, settur héraðsdómari, kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð
Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., skal vera sýkn af dómkröfum stefnanda, A, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður, en gjafsóknarkostnaður stefnanda, og þar með talin þóknun lögmanns hennar, Bergrúnar Elínar Benediktsdóttur héraðsdómslögmanns, alls 1.276.100 krónur, greiðist úr ríkissjóði.