- Kynferðisbrot
- Skaðabætur
- Aðfinnslur
|
Fimmtudaginn 13. nóvember 2014. |
Nr. 355/2014.
|
Ákæruvaldið (Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari) gegn X (Ingi Tryggvason hrl. Pétur Kristinsson hdl.) (Helgi Jóhannesson hrl. réttargæslumaður) |
Kynferðisbrot. Skaðabætur. Aðfinnslur.
X var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn A með því að hafa á 12 mánaða samfelldu tímabili, að minnsta kosti í þrjú aðgreind skipti í hverjum mánuði, haft samræði við A með því notfæra sér andlega fötlun hennar þar sem hún gat ekki spornað við samræðinu eða skilið þýðingu þess vegna fötlunarinnar. Var brot X talið varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var refsing X ákveðin fangelsi í sex ár og honum gert að greiða A skaðabætur að fjárhæð 2.500.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. maí 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfu ákæruvaldsins, en til vara refsimildunar. Einnig krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hún verði lækkuð.
A krefst staðfestingar héraðsdóms um einkaréttarkröfu.
Eins og nánar greinir í héraðsdómi var ákærði í sambúð með dóttur brotaþola frá árinu 2007. Brotaþoli, sem er þroskaheft, hafði haldið heimili með föður sínum en vegna fötlunar sinnar þarf hún á aðstoð annarra að halda og getur ekki tekið ákvarðanir um eigin hagi. Eftir andlát föður hennar 2011 fluttu dóttir hennar og ákærði ásamt ungum syni sínum inn á heimili brotaþola.
Ákærði er í máli þessu sakaður um að hafa á tímabilinu febrúar 2012 til febrúar 2013 haft samræði við brotaþola að minnsta kosti þrisvar í hverjum mánuði og notfært sér andlega fötlun hennar. Upp um þetta komst 2. desember 2013, er dóttir brotaþola kom að móður sinni og ákærða þar sem hann var að hafa við hana mök. Ákærði hefur frá upphafi viðurkennt að hafa haft kynferðismök við brotaþola en neitað því að hafa notfært sér andlega fötlun hennar, mökin hafi alltaf átt sér stað með hennar vilja og vitund.
Eins og nánar er lýst í héraðsdómi var Brynjar Emilsson dómkvaddur til að gera sálfræðilegt mat á brotaþola. Taldi hann ljóst að hún væri verulega hömluð af þroskaskerðingu sinni, en hún mældist með 56 í greindarvísitölu. Þá hefði hún mjög takmarkaðan skilning á samskiptum fólks og þyrfti ekki að tala við hana nema í eina mínútu til að gera sér grein fyrir því hve skert hún væri. Hún væri áhrifagjörn, vildi þóknast fólki og auðvelt væri að fá hana til að gera hluti.
Ákærði bar fyrir dómi að hann hefði fyllilega gert sér grein fyrir því að brotaþoli væri þroskaheft, oft hefði hún verið eins og fjögurra ára barn. Kynmökin hefðu alltaf farið fram með hennar samþykki og oft að hennar frumkvæði.
Af því sem að framan er rakið um fötlun brotaþola er ljóst að ekki er unnt að leggja til grundvallar að hún hafi verið fær um að láta uppi gilt samþykki fyrir kynmökunum. Með vísan til forsendna héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, ber að staðfesta niðurstöðu hans um sakfellingu ákærða. Þegar litið er til þess að ákærði braut margoft kynferðislega gegn móður sambúðarkonu sinnar, sem honum var fullljóst að var andlega fötluð og ekki þess umkomin að gera sér grein fyrir aðstæðum, er refsing ákærða hæfilega metin í héraðsdómi.
Ákvæði héraðsdóms um miskabætur til handa brotaþola og um sakarkostnað verða staðfest. Ákærði verður jafnframt dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Í d. lið 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er boðið að í héraðsdómi skuli meðal annars greina svo stutt og glöggt sem verða má hver atvik sakamáls séu í aðalatriðum. Í hinum áfrýjaða dómi er atvikum málsins ekki lýst í samfelldu máli. Þess í stað er þar gerð grein fyrir tilefni þess að rannsókn málsins hófst og gangi hennar en að öðru leyti látið nægja að reifa í löngu máli og án sýnilegs samhengis skjöl og munnlegar skýrslur, sem flestar voru gefnar hjá lögreglu. Fer þessi háttur á samningu dóms ekki aðeins í bága við áðurgreint lagaákvæði, heldur leiðir af 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008, þar sem mælt er fyrir um að dómur skuli reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi, að því aðeins á að vísa til framburðar ákærða og vitna hjá lögreglu að þess sé þörf, svo sem vegna ósamræmis milli þess sem þar kemur fram og framburðar fyrir dómi. Á sama hátt fer það gegn umræddri meginreglu að vísa í dómsforsendum til munnlegra skýrslna sem gefnar hafa verið hjá lögreglu nema sérstök ástæða gefi tilefni til.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 1.108.663 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Inga Tryggvasonar hæstaréttarlögmanns, 878.500 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Helga Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 21. apríl 2014.
Mál þetta, sem dómtekið var 24. febrúar sl. er höfðað á hendur X, kennitala [...], óstaðsettum í hús, [...], með ákæru dagsettri 26. apríl 2013
„fyrir kynferðisbrot, með því að hafa á tólf mánaða samfelldu tímabili fram til febrúar 2013, að [...] í [...], að minnsta kosti í þrjú aðgreind skipti í hverjum mánuði, haft samræði við A, kt. [...], með því að notfæra sér andlega fötlun hennar þar sem hún gat ekki spornað við samræðinu eða skilið þýðingu þess vegna fötlunarinnar.
Telst þetta varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Í málinu gerir A, kt. [...], kröfu um miskabætur að fjárhæð kr. 2.500.000, auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 8. febrúar 2013 til 17. maí sama ár, en með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags, auk greiðslu þóknunar við réttargæslu að mati dómara eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts á réttargæsluþóknun.“
Ákærði viðurkenndi þegar við þingfestingu máls þessa að hafa haft kynferðismök við A í nokkur skipti en neitaði því að hann hafi notfært sér andlega fötlun hennar enda hafi mökin átt sér stað með hannar vilja. Hann hafnar bótakröfu.
Mál þetta hefur dregist mjög en fyrir því eru þær ástæður að jafnframt rannsókn á brotum ákærða gagnvart brotaþola rannsakaði lögregla ætluð brot annarra tiltekinna manna gagnvart brotaþola og var mál þetta látið bíða niðurstöðu þeirrar rannsóknar sem felld var niður með ákvörðun ríkissaksóknara hinn 28. nóvember sl.
Föstudaginn 8. febrúar 2013 kom B, sálfræðingur Félags- og skólaþjónustu [...] á lögreglustöðina í [...] og tilkynnti ætlað kynferðisbrot ákærða gegn A, sem er þroskahömluð og er skjólstæðingur félags- og skólaþjónustunnar. Hafi dóttir brotaþola sagt lækni frá ætluðu kynferðisbroti ákærða gegn brotaþola. Hafi B boðað C og lækninn til fundar á skrifstofu sinni og C sagt honum að hún hafi í desember s.l. komið að ákærða og A í samförum á heimili þeirra.
Mánudaginn 11. febrúar 2013 var tekin skýrsla af C á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í Reykjavík. Hún kvaðst hafa haft grun um að ákærði sambýlismaður hennar hefði misnotað móður hennar kynferðislega, en hún kvaðst ekki hafa haft neitt til að staðfesta það fyrr en 2. desember, en þá hafi þau farið á jólahlaðborð og hún hafi farið heim fyrr eða fyrir miðnætti. Hún kvaðst hafa heyrt að ákærði hafi komið heim síðar um nóttina. Hann hafi verið talsverða stund að athafna sig í íbúðinni, en síðan hafi hann lokað herbergisdyrum að svefnherbergi hennar og hún hafi síðan heyrt að hann fór inn í herbergi móður hennar. C kvaðst hafa beðið nokkra stund, en síðan farið fram og opnað hurðina að herbergi móður sinnar og þá séð að ákærði var þar inni að hafa mök við móður hennar. Hún kvaðst ekki haf séð að þetta hafi verið á móti vilja brotaþola. Hún kvaðst hafa kveikt ljós í herberginu og tekið af þeim sængina og séð að ákærði var að hafa samfarir við móður hennar. Aðspurð um húnæðið að [...] þar sem þau búa sagði hún það eign móður hennar en húsið sé raðhús. Hún sagði þau búa þar hjá henni, en hún geti ekki búið ein. Hún sé mjög skert í þroska, sé t.d. ekki læs, en gæti gert ýmislegt með höndunum, en hún sé í léttri vinnu í athvarfi fyrir fatlaða. C sagðist telja að þetta hefði gerst a.m.k. tvisvar eftir að hún stóð þau að verki. Hún kvaðst hafa spurt hana og hún sagt frá. Hún nefndi atvik í janúar, en þá hafi þau verið í hestamennsku og verið búin að fá sér bjór og hann farið fyrr heim. Hún kvaðst hafa komið heim um miðnætti og þá vaknað grunur um að eitthvað hafi verið í gangi. Hún lýsti því að móðir hennar væri feitlaginn og til að hlífa henni við núningi bæri hún barnapúður á magann á henni. Þarna kvaðst hún hafa séð eitthvað hvítt á buxum X og talið víst að það væri púðrið. Hún kvaðst hafa farið inn í herbergi móður sinnar og spurt hana. Hún hafi í fyrstu þrætt fyrir að eitthvað hafi gerst, en síðan sagt að X hefði haft samfarir við hana inni á klósetti. Hún kvaðst hafa spurt hana hvar sonur þeirra 4 ára hefði verið á meðan og hún hafi sagt: „bara frammi". C kvaðst síðan hafa rætt þetta síðar við son hennar, sem hafi sagt henni að pabbi hans hefði farið með ömmu inn á klósett og hann hafi verið einn frammi á meðan. Hún kvaðst hafa spurt hann daginn eftir og hann neitað. Loks nefndi hún annað atvik þar sem hún hafði fundið þvottapoka sem var notaður. Hún hafi spurt móður sína og gengið á hana og hún þá sagt að hún hefði þrifið sig að neðan eftir að X hafi viljað fara með hana inn í herbergi. Hún sagði þetta atvik hafi verið nú fyrir skömmu á fimmtudegi. C kvaðst líta á þetta sem kynferðisbrot, þar sem móðir hennar er mjög fötluð. X sé að misnota hana og bregðast trausti. Hún lýsti vilja sínum til þess að málið verði rannsakað og X látinn sæta ábyrgð.
Þriðjudaginn 12. febrúar 2013 var tekin skýrsla af X á lögreglustöðinni á Akranesi. Aðspurður um samskipti hans við A sagði hann að hann hafi ásamt sambýliskonu sinni, dóttur A og fjögurra ára syni þeirra flutt inn á heimili A þegar faðir hennar dó fyrir u.þ.b. tveimur árum. Hann sagði að allt hefði gengið ágætlega í fyrstu. Hann sagði að þegar frá leið hafi þau byrjað að vera saman, sagði að aðdragandinn hafi verið sá að einhver neisti myndaðist á milli þeirra, þannig að þau hafi verið farin að vera meira saman en hann og kona hans. Hann sagði að þetta hafi byrjað fyrir 8 mánuðum eða einu ári síðan. Hann sagði aðspurður að hann hefði átt samfarir við hana í fleiri skipti en konu sína. Hann skýrði frá því að það hafi ekki verið neitt ofbeldi. Þau hafi átt samfarir ýmist þegar hún bað um það eða hann. Þetta hafi byrjað fyrir átta til tólf mánuðum síðan. Hann var spurður um hvað samfarirnar hafi verið oft og hvort það hafi verið í hverri viku, svaraði hann að það hafi oft liðið ein og hálf vika á milli. Hann sagði að kynferðissambandið hafi verið samfellt í þennan tíma. Hann var spurður um atvik í byrjun desember á síðasta ári þar sem C kom að þeim í samförum. Hann kvaðst muna eftir því. Þá kvaðst hann muna eftir því að C sambýliskona hans hafi grunað þetta áður. Hann kannaðist við að C hafi rætt þetta við hann, en hann hafi haldið þessu leyndu. Frekar aðspurður um tíðni samfara þeirra sagði hann að þær hafi verið svona 3 til 4 sinnum í viku, Endurtók aðspurður að hann hefði lifað oftar með brotaþola, en sambýliskonu sinni. Hann sagðist aðspurður gera sér vel grein fyrir þroskahömlun brotaþola og þekkja hana vel. Hann var beðinn um að lýsa andlegum þroska hennar og sagði að hún hefði þroska á við barn. Hann lýsti þroska hennar við þroska fjögurra ára sonar síns. Hann lýsti síðan frekar aðspurður að eftir að faðir brotaþola hafi fallið frá hafi þau C flutt inn til brotaþola og að C hafi verið nokkurs konar forsjáraðili móður sinnar, þar sem það þyrfti að hafa aga á henni eins og barni. Hann kvaðst sjálfur hafa borið þar ábyrgð og kvaðst gera sér grein fyrir því að hann hafi brugðist því trausti með því að vera í kynferðissambandi við hana. Þegar ákærði var frekar spurður um samband hans við brotaþola orðaði hann það þannig að þau hefðu byrjað saman og það hafi verið tilfinningar. Hann endurtók að hann hefði gert sér grein fyrir því að hún er þroskaheft. Aðspurður sagði ákærði að samfarir þeirra hafi oftast verið á daginn, þegar C var ekki heima. Ákærði kvað samfarir þeirra ávallt hafa verið á heimili þeirra og með hennar samþykki. Þá kvaðst hann telja að brotaþoli hafi ekki gert sér grein fyrir því að hann var að gerast brotlegur gagnvart sambýliskonu sinni. Þá sagði hann að brotaþoli hafi sagt dóttur sinni frá, eftir að C gekk á hana.
Hinn 15. febrúar 2013 var tekin skýrsla af brotaþola á lögreglustöðinni á Akranesi
Þar lýsti hún því að þegar ákærði hafi komið heim fullur hafi hann bara ætt inn í herbergi hennar og viljað bara nauðga henni og hún hafi verið alveg í vandræðum. Hann hafi sett niður um hana buxurnar og allan pakkann. Hann hafi sett typpið beint inn í hana á meðan hún svaf. Þetta hafi fyrst gerst á [...] dögum árið 2011. Er þetta hafi gerst í fyrsta sinn hafi hún beðið hann um að hætta en hann hafi bara ekki gegnt henni. Hún hafi ekki barist á móti en hafi liðið alveg hræðilega illa á eftir. Síðan sagði hún frá atvikum 2. desember 2012 þegar dóttir hennar hafi komið að þeim ákærða uppi í rúmi. Hann hafi komið blindfullur inn í herbergi hennar og hún verið sofandi. Hann hafi farið inn í rúm hennar og dregið niður um hana buxurnar. Svo hafi hann stungið tittlingnum inn í píkuna á henni og bara fengið sæði úr sér inn í hana. Hún hafi legið á bakinu og hann ofan á henni. Þá sagði hún að er dóttir hennar hafi verið að koma heim úr vinnu eitthvert sinn hafi ákærði verið að reyna að setja tittlinginn inn í píkuna á henni og „allt í volli“. Þetta hafi verið einhvern tíma í nóvember. Hún sagði að sér hefði liðið hræðilega illa á eftir þetta hafi verið hryllingur sko. Hún hafi ekki vilja sjá þetta. Hún kvað ákærða hafa sagt að þetta væri leyndarmál og ef upp kæmist um það myndi hann ekki setja neitt inn í hana og allt í volli. Hún sagði eftir að hafa svarað því játandi að þetta hefði gerst nokkrum sinnum að henni hafi fundist þetta alveg hryllilegt hún hafi fengið svo hryllilega klígju að hún hefði verið alveg að farast. Hún hefði ekki sagt frá þessu af því að ákærði hefði beðið hana um að gera það ekki, þetta væri eitthvað hryllilegt leyndarmál en hún ekki vitað hvað það var.
Þá var tekin skýrsla af ákærða 17. apríl 2013. Ákærða var gerð grein fyrir því að komið hafi fram misræmi hjá honum og brotaþola varðandi hvar kynferðisbrot hans hafi byrjað. Komið hefði fram að fram að brotaþoli segði að það hafi fyrst gerst þegar hann og C hafi búið á [...]. Ákærði kvaðst vera 99% viss um að það hafi ekki byrjað þar. Hann sagði að C hafi reyndar einhvern tíma verið með ásakanir um að hann hafi verið að gera eitthvað við brotaþola þegar þau bjuggu fyrir norðan. Hafi kynferðissamband hans við brotaþola ekki byrjað fyrr en á [...]. Ákærði sagði að öll þau skipti sem hann hafi haft samfarir við brotaþola hafi það gerst að [...]. Oftast í herbergi hennar, en einu sinni á salerninu. Þá endurtók hann að hann hefði á tímabili haft oftar samfarir við brotaþola en sambýliskonu sína. Ákærði tók það fram að í öll skiptin hafi brotaþoli verið samþykk og notið samfaranna.
Við skýrslutökuna var kærða kynnt krafa um skaðbætur framlagða af Maríu Magnúsdóttur hdl. Krafan er að fjárhæð 2.500.000 auk vaxta og málskostnaðar. Hafnaði hann kröfunni á þeim grundvelli að þessi kynferðissamskipti hafi farið fram með samþykki brotaþola. Hann var í framhaldi spurður um hvort hann hefði ekki gert sér grein fyrir því að brotaþoli er mjög þroskaskert. Hann kvaðst hafa gert sér grein fyrir því.
Fyrir liggur matsgerð D geðlæknis vegna ákærða frá 18. mars 2013 þar sem segir í niðurstöðukafla:
„6. Álit.
6.1. Ekkert bendir til annars en að matsþoli hafi verið sakhæfur á meintri verknaðarstund.
6.2. Ekki sjást nein merki geðveiki, andlegs vanþroska eða hrörnunar, rænuskerðingar eða annars samsvarandi ástands sbr. 15. grein laga nr. 19/1940, sem gert gæti matsþola ófæran um að stjórna gerðum sínum á þeim tíma er meint afbrot eiga að hafa verið framin.
6.3. Ekki sést neitt það skv. 16. grein laga nr. 19/1940 sem komið gæti í veg fyrir að refsing bæri árangur.
6.4. Í ljósi takmarkaðs skilnings matsþola á alvarleika meints brots og þess hvernig hann talar um meintan brotaþola, verður að telja nokkrar líkur á því að meintur brotaþoli sé í hættu af áframhaldandi misneytingu, verði matsþoli og meintur brotaþoli ein án eftirlits.“
E var til skýrslutöku á lögreglustöðinni á Akranesi hinn 15. febrúar 2013. Hún kvaðst vera þroskaþjálfi og vinna í [...] sem er dagþjónusta fyrir fatlað fólk. Brotaþoli starfaði þar og sagðist E hafa með henni umsjón. Hann sagði að brotaþoli væri greind með væga þroskahömlun og væri flogaveik. Yfirleitt væri hún kát og hress en ætti til að vera skapstygg og þá jafnvel lemdi hún í borðið, en að jafnaði væri hún hlý, góð og glaðlynd og hefði mikinn áhuga á karlmönnum. Henni væri mikið í mun að þóknast karlmönnum. Um daglegt líf brotaþola sagði E að brotaþoli kæmi vel fyrir í fyrstu og bæri ekki með sér að hún væri þroskahömluð og það kæmi ekki í ljós fyrr en byrjað væri að tala við hana. Brotaþoli sé ólæs og hafi ekki neitt skyn á verðgildi eða peninga og væri þar af leiðandi ekki fær um að bjarga sér nema með einaldar athafnir eins og að ganga til og frá vinnu, en þroski hennar væri á við ungt barn á flestum sviðum, en hún væri svipuð að þroska og barnabarn hennar, barn C og ákærða. E sagði að brotaþoli hefði eitt sinn borið upp við hana að menn gætu alveg átt tvær konur og að ákærði gæti alveg átt hana og C. Þegar reynt hefði verið að útskýra fyrir henni að það gengi ekki en þá hefði brotaþoli haldið því fram að það væri alveg hægt, því mamma hennar hefði búið með tveimur mönnum á sama tíma. E sagði eftir á að hyggja hefði brotaþoli verið að segja henni eitthvað um það sem var í gangi á heimilinu en hún hefði bara ekki tengt það við neitt óeðlilegt annað en þroskahömlun brotaþola. E sagði að brotaþoli talaði alltaf mikið um ákærða og væri greinilega mjög hrifinn af honum og vildi allt fyrir hann gera. E sagðist aðspurð hafa rætt við brotaþola um þetta mál af því tilefni að hún átti að fara með brotaþola á lögreglustöðina á Akranesi í skýrslutöku. Hanna sagði að á leiðinni á Akranes hefði hún rætt við brotaþola sem hefði byrjað að segja að þetta væri allt kjaftæði og lygi. Hanna sagðist þá hafa sagt brotaþola að hún þyrfti að segja satt, það væri ómögulegt að fara alla leiðina á Akranes til að segja lögreglunni ósatt. Þá hefði brotaþoli þagað í góða stund og síðan sagt að þetta hefði alltaf gerst þegar hann hafi verið fullur og þá hefðu þau farið í rúmið og haft samfarir. Hefði hún talað um að þetta hefði gerst fyrst í sveitinni rétt hjá [...], þegar hún hafi verið þar hjá ákærða og C. E sagði það væri mjög auðvelt að koma vilja sínum fram við hana því hún vildi þóknast öllum og henni væri sérstaklega mikið í mun að þóknast karlmönnum. Hún ætti meira að segja til að segja strákunum á vinnustaðnum að þeir megi alveg hafa við hana samfarir ef þeir vilji því það væri allt í lagi því það væri búið að taka hana úr sambandi. Taldi hún að karlmenn sem hefðu áhuga á að eiga við brotaþola kynlíf ættu mjög auðvelt með að sannfæra hana um að leyfa þeim að eiga við hana samfarir.
Fyrir liggur matsgerð Brynjars Emilssonar sálfræðings frá 27. mars 2013 en í kafla hans um niðurstöður kemur fram að um sé að ræða sálfræðilegt mat á fimmtugri þroskaskertri konu sem hefur lýst kynferðislegu sambandi sínu við tengdason sinn og [...] Matsmaður kvað brotaþola hafa verið áhugasöm í viðtölum og prófum. Hugræn geta hafi verið mjög slök. Hún hafi þó getað nefnt ágætar staðreyndir eins og heimilisfangið sitt, fæðingardag og einnig verið áttuð á stað og stund. Hún hafi getað nefnt hvar á landinu hún var og hverjir helstu kaupstaðir væru nálægt. Aðspurð hafi hún þó sagst vera 22 ára og getað illa lesið og skrifað. Hún hafi getað farið með stafrófið en átt erfitt með að telja afturábak. Farið hafi verið yfir sögu hennar og átti brotaþoli greinilega í erfiðleikum með að koma með rétt ártöl. Hún hafi áttað sig á að hún hafi farið frá [...] til móður sinnar og unnið við ræstingar en hún telji sig hafa unnið þar í mörg ár og að hún hafi unnið síðan í [...]. Þegar hún hafi síðan verið spurð aftur um hvenær hún hafi byrjað í [...] hafi hún getað svarað því. Brotaþoli var greindarprófuð og mældist hún með 56 í greindarvísitölu (IQ). Ekki kom fram munur milli mállegrar og verklegrar getu sem auki áreiðanleika greindarprófsins. Best skori brotaþoli á þáttum er reyni á sjónrænt langtímaminni og sjónræna skipulagningu en lægst á þáttum er reyna á vinnsluminni. Niðurstöður eru því sambærilegar og á greindarprófi frá 1971. Mælist því brotaþoli á bili miðlungs til vægrar þroskaskerðingar samkvæmt ICD-10 greiningarviðmiðum alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO). Ljóst sé að A sé verulega hömluð af þroskaskerðingu sinni. Hafi það áhrif á alla hennar færni og getu til sjálfsbjargar. Aðlögunarfærni brotaþola er einnig verulega skert og þurfi hún því stöðugleika í umhverfínu. Varðandi hugræna getu sé ljóst að hún eigi í erfiðleikum með allt sem tengist vinnsluminni og getu til að vinna með tölur. Talnageta hennar sé einnig verulega skert sem hafi áhrif á til dæmis að muna tímasetningar, ártöl og slíkt. Almennt megi segja að minni hennar sé að einhverju leiti skert en atburðaminni og sjónrænt langtímaminni sé sæmilegt þó það sé verra en hjá fólki á hennar aldri. Athygli sé ágæt hjá brotaþola sem og einbeiting en flogaveikin geti skert færni hennar varðandi það. Flogaveiki geti orsakast af mörgum þáttum meðal annars heilablæðingu í æsku og geti til lengri tíma orsakað skerðingu á hugrænni færni eins og minni, sérstaklega ef flog byrji á unga aldri þegar þróun heilans sé á viðkvæmu stigi. Hins vegar, varðandi brotaþola, geti verið erfitt að sjá hvort flogaveiki sé stór áhrifaþáttur í skerðingu á taugasálfræðilegum þáttum vegna hennar almennu þroskaskerðingu. Allur almennur skilningur hjá brotaþola sé skertur. Hún skilji ágætlega mjög einföld samskipti en eigi í verulegum erfiðleikum með flóknari samskipti og aðstæður. Hún eigi í erfiðleikum með að skilja afleiðingar gjörða sinna og þó að hún skilji að einhverju leiti hvað er rétt og hvað er rangt sé ljóst að almennt geti hún átt í erfiðleikum með að greina þar á milli. Brotaþoli viti muninn á sannleika og lygi en aðrir þættir geti haft þar áhrif eins og að hún er áhrifagjörn og vilji þóknast fólki. Auðvelt geti því verið að hafa áhrif á hvað hún telji að sé sannleikur eða lygi til skemmri tíma en til lengri tíma ætti hún að vita hvað er sannleikur og hvað er lygi varðandi atburði sem hún hefur upplifað. Þar sem brotaþoli ruglist á hlutum t.d. ártölum og slíku geti hún haldið einhverju fram þó það sé ekki rétt en í skýrslum og í mati komi fram að hún sé fljót að hætta við ef henni sé bent á að hún sé að ruglast. Brotaþoli hafi mjög takmarkaðan skilning á samskiptum fólks þó hún hafi lært ákveðnar samskiptareglur og hegðun. Öll samskipti sem séu flóknari reynist henni erfið og vegna þroskaskerðingar sinnar geti hún ekki nema að mjög takmörkuðu leiti skilið afleiðingar hegðunar sinnar varðandi samskipti. Brotaþoli skilji einfalda hluti eins og að hún megi ekki stela eða ljúga en allt flóknara en það eigi hún í erfiðleikum með. Varðandi minnið sé ljóst að brotaþoli ruglist á tíma. Í skýrslum og í viðtölum matsmanns komi fram að allt í sambandi við ártöl eigi brotaþoli erfitt með að skilja og greina frá. Hún eigi í erfiðleikum með að greina frá hvort atburðir hafi gerst þegar hún var barn eða þegar hún var fullorðin. Hins vegar virðist hún geta gert sér grein fyrir hvaða atburðir gerðust nýlega og hvaða atburðir gerðust fyrir löngu síðan. Ljóst er að atburðarminni er nægjanlega áreiðanlegt til að hægt sé að taka mark á lýsingum hennar varðandi atburði sem hún hafi upplifað. Matsmaður telur einnig ólíklegt að brotaþoli hafi hugræna getu til að skálda slíkar lýsingar upp og í raun væri mun líklegra að hún myndi ekki hluti sem hefðu gerst. [...]. Varðandi tilfinningalegt ástand brotaþola þá sé erfitt að meta það út frá hennar eigin frásögn. Hún hafi lítinn skilning á eigin tilfinningum og eigi erfitt með að tjá tilfinningar sínar í orðum. Helst sé það hegðun hennar sem gefi til kynna hvernig henni líði. Samkvæmt þroskaþjálfa sé brotaþoli yfirleitt glöð og ekki hafi borið á breyttri hegðun eða tilfinningum eftir að þessi mál hafi komið upp. Erfitt sé því að meta afleiðingar meintra kynferðisbrota ákærða á brotaþola. Hún virðist mest vera ósátt og leið yfir að ákærði sé farinn og þau fái ekki að vera saman frekar en að hún hafi verið ósátt við hin meintu kynferðisbrot. Hins vegar þurfi að skoða forsöguna hjá brotaþola varðandi túlkun hennar á kynferðislegu sambandi sínu við ákærða.
Segir síðan í matsgerðinni:
„Til að svara spurningum í matsbeiðni eru því teknar helstu niðurstöður hér fyrir neðan ásamt öðrum niðurstöðum úr matinu.
1. A er kona með miðlungs til væga þroskaskerðingu sem hefur áhrif á allan hennar skilning, aðlögun og sjálfsbjörg.
2. Matsmaður telur ljóst að A, vegna þroskaskerðingar sinnar, hafi enga getu til að skilja afleiðingar hegðunar sinnar á fjölskyldu sína.
3. Matsmaður telur að A hafi á engan hátt skilning á sambandi sínu við X eða getað metið það samband í tengslum við sínar aðstæður og umhverfi. Skilningur A á kynferðislegu sambandi er mjög takmarkaður og ber hún lítið sem ekkert skynbragð á hvað er eðlilegt í þeim efnum.
4. Allur framburður varðandi tíma (ártöl, tímaröð og slíkt) hjá A er mjög brothættur og varasamt að notast við slíkan framburð.
5. Framburður A varðandi atburði sem hún hefur upplifað telur matsmaður vera marktækan þó ýmis smáatriði geta verið óskýr hjá henni. A getur gleymt hlutum og atburðum en ólíklegt verður að telja að hún hafi greindarfarslega getu til að skálda upp þær lýsingar sem koma fram í skýrslum. Matsmaður telur að lýsingar hennar á kynferðislegum samskiptum séu nokkuð áreiðanlegar en þó getur hún ruglast hvenær hlutirnir gerðust.
6. Tilfinningaleg áhrif kynferðissambands við tengdason sinn virðast að mestu tengjast því að hún er ósátt og leið yfir að hann sé farinn og að þau hafi ekki mátt vera saman. Matsmaður telur að önnur meint kynferðisbrot stjúpföður hafi haft töluvert meiri neikvæð áhrif á hana, bæði varðandi hegðun og tilfinningar. A virðist nokkuð glöð núna og ekki ber á alvarlegu tilfinningalegu uppnámi hjá henni en ljóst er að mál þetta og rót í kringum það veldur henni tilfinningalegum óróleika.“
Í skýrslu ákærða fyrir dómi kom fram að hann hefði kynnst dóttur brotaþola 2006 eða 7 og eftir að faðir brotaþola sem bjó ásamt henni að [...] í [...] hafi fallið frá hefðu þau flutt þangað. Hann kvaðst hafa farið að finna tilfinningar til brotaþola og hafa farið að gefa sig að henni. Fyrsta skipti þegar þau hafi verið saman hafi þetta bara gerst einn daginn. Bara heima þau hafi verið heima og verið búin að vera að fíflast og kjafta og það bara gerst. Öll þeirra kynferðislegu samskipti hefðu farið fram í íbúðinni. Mál hefðu þróast þannig að þau hafi tengst meira og meira gagnvart þessum hlutum. En þetta tímabil sem þetta hafi staðið yfir hafi engu breytt á milli ákærða og brotaþola. Hann hafi haldið áfram að vera við hana eins og hann var vanur og keyra hana í vinnuna og hjálpa henni ef eitthvað þurfti. Spurður um hverjum augum hann hafi litið þetta samband, hvernig hann hafi upplifað það sem var í gangi, sagði ákærði að það hafi komið svona þessi hrifningartilfinning, bara ástartilfinning hjá honum. Spurður um hvort þau hafi átt þarna í ástarsambandi sem væri á jafningjagrundvelli sagði ákærði „Nei, ég geri mér náttúrlega alveg grein fyrir því að hún er þroskaheft.“ og kvaðst hafa vitað að hann væri ekki að gera rétt og hafi vitað það allan tímann. En hann væri alveg sannfærður um það og viti það að brotaþoli viti nákvæmlega hvað hún sé að gera varðandi kynlíf og karlmenn. Hann sagði að honum hefði auðvitað ekki liðið vel með þetta hann hefði fundið til sektarkenndar, hvað hann væri að hugsa og hvaða leið hann væri að fara. En þau hafi verið farin að togast svolítið að hvort öðru. Spurður um hvort sektarkenndin stafaði að einhverju leyti af meðvitund hans um að hún væri þroskahömluð svaraði hann því játandi en einnig syni hans og konu. Hann bar á móti því að hann að hafi sagt við brotaþola að þetta væri bara leyndarmál. Hann hefði bara sagt að þau væru að gera ranga hluti gagnvart konu hans. Í skýrslunni kom fram að hann hafði samræði við hana á öllum tímum dags þegar þau, hann og brotaþoli voru ein í íbúðinni. Hann kvað þroska hennar hafa verið á við barn og staðfesti það sem fram kom í skýrslu hans hjá lögreglu að hann hafi talið að þroski hennar væri á við fjögurra ára barn. Hann sagði það hafi bara verið komnar þessar tilfinningar hjá honum til brotaþola. Hann geti ekkert lýst því neitt öðruvísi það hafi bara verið þannig og hann hafi allan tíman gert sér grein fyrir því að þetta væri þroskaheftur einstaklingur og að hann væri að gera rangt.
Brotaþoli var yfirheyrð fyrir dómi í sérútbúnu herbergi í Dómhúsinu í Reykjavík hinn 24. febrúar sl. Ekki þykir þörf á að rekja allar lýsingar hennar á samlífi þeirra ákærða sem eru í samræmi við frásögn hennar hjá lögreglu og skýrslur ákærða hjá lögreglu og fyrir dómi. Hún kvað ákærða ekki alltaf hafa verið drukkinn er hann hafði við hana samræði, stundum hefði hann verið bláedrú. Hún sagði að stundum hefði hún ekki haft frið fyrir ákærða og hún hafi ekki viljað að hann færi upp á hana og kvaðst hafa sagt honum bara í guðanna bænum að hætta þessu og hann hafi aldrei hætt. Hún hafi reynt að slást á móti, ýtt á öxlina á honum en hann bara rifið í öxlina á henni og sagt henni að fara úr buxunum og leggjast á bakið. Spurð um líðan sína þegar ákærði var að eiga við hana samfarir sagði brotaþoli að henni hafi fundist að það væri ekkert svo skemmtilegt, henni hafi fundist það hræðilegt. Stundum hafi hún meitt sig og liðið alveg hræðilega illa stundum ætlað að fara að æla bara af því að ákærði hefði tekið harkalega á þessu. Henni líði miklu betur núna af því að hann hafi ekkert farið upp á hana nýlega.
Niðurstaða
Ákærða er gefið að sök að hafa á tólf mánaða samfelldu tímabili fram til febrúar 2013, að [...] í [...], að minnsta kosti í þrjú aðgreind skipti í hverjum mánuði, haft samræði við A, kt. [...], með því að notfæra sér andlega fötlun hennar þar sem hún gat ekki spornað við samræðinu eða skilið þýðingu þess vegna fötlunarinnar.
Við rannsókn málsins hjá lögreglu viðurkenndi ákærði háttsemi sína og lýsti henni í samræmi við ákæru. Fyrir dómi hefur framburður ákærða verið í samræmi við ákæru en ákærði þó neitað því að hafa haft samræði við brotaþola eftir 2. desember 2012. Þá gaf brotaþoli skýrslu við rannsókn málsins svo og fyrir dómi. Hefur framburður hennar verið í samræmi við játningu ákærða. Miðað við framburð ákærða og brotaþola svo og vitna hjá lögreglu og fyrir dómi telur dómurinn sannað að atvik hafi verið með þeim hætti sem í ákæru greinir þó þannig að ekki er sannað gegn neitun ákærða fyrir dómi að hann hafi átt mök við brotaþola eftir 2. desember 2012.
Brotaþoli sem í dag er 53 ára gömul hefur búið við þroskaskerðingu frá frumbernsku, en hún veiktist mánaðargömul með krampaköstum. Þroskaframvinda hennar var því hæg í bernsku og á unglingsárum. Við mat á þroska árið 1971 þegar hún var 10 ára gömul var þroskaaldur metinn fimm og hálft ár og greindarvísitala um 50. Við 16 ára aldur var vitsmunaþroski aftur metinn og mældist greindarvísitala þá enn um það bil 50. Útkoma á verklegum prófþáttum var hærri en á munnlegum. Námsárangur var í samræmi við vitsmunaþroska, en brotaþoli stundaði fyrst nám í [...]skóla en síðar í [...]skóla. Hún náði ekki tökum á lestri, gat til dæmis aðeins lesið smáorð og skrifað einfaldan texta. Samkvæmt upplýsingum í fyrirliggjandi gögnum sálfræðings átti brotaþoli við hegðunarerfiðleika að stríða á unglingsárum og leitaði í óæskilegan félagsskap. Hún eignaðist dóttur árið 1982. Brotaþoli fór síðan til vistunar á [...] og var þar um tíma í sambúð. Upp úr þeirri sambúð slitnaði eftir að brotaþoli flutti með sambýlismanni sínum frá [...] til [...]. Hún flutti þá til móður sinnar í [...] og þaðan í eigin íbúð, einnig í [...]. Dóttir hennar ásamt ákærða og ungum syni þeirra fluttu síðar til hennar. Brotaþoli sækir vinnu á vernduðum vinnustað. Þegar brotaþoli er metin aftur með tilliti til greindar sbr. matsgerð dagsetta 27. mars 2013, þá mælist greind hennar 56. Hugræn geta hennar á prófinu var slök. Hún gat gert grein fyrir því hvar hún býr en gat ekki gert grein fyrir ártölum með áreiðanlegum hætti. Við prófunina kom fram að allur almennur skilningur brotaþola er skertur. Hún skilur einföld samskipti en á í erfiðleikum með flóknari samskipti og aðstæður. Skilningur á samskiptum fólks er takmarkaður en hún skilur hins vegar muninn á sannleika og ósannindum. Brotaþoli hefur atburðaminni og verður því að ætla að unnt sé að taka mark á lýsingum hennar varðandi þá atburði sem hún hefur upplifað. Þá kemur skýrt fram í framangreindri matsgerð að hún er áhrifagjörn og vill þóknast fólki. Einnig kemur fram að brotaþoli sé veik fyrir karlmönnum og lýsir hún samræði við nokkra karlmenn í gegnum tíðina. Hún virðist hins vegar ekki skilja eðli þeirra samskipta né eigin stöðu í þeim. Í framburði fyrir dómi kemur fljótt fram að brotaþoli er talsvert þroskaskert. Hún hefur mjög einfaldan frásagnarstíl, ruglast auðveldlega og fylgir spyrjanda með leiðitömum hætti. Þannig er framkoma hennar fyrir dómi í samræmi við lýsingu matsmanns á henni. Erfitt er að meta af nákvæmni áhrif þeirra ítrekuðu kynferðisbrota sem brotaþoli hefur mátt þola vegna fötlunar hennar. Þetta á einkum við vegna erfiðleika hennar við að tjá eigin líðan og tilfinningar. Ekki er þó unnt að draga í efa að þessir atburðar hafa haft mjög slæm og varanleg áhrif á líðan hennar eins og þekkt er þegar ófatlaðir eiga í hlut. Brotaþoli lýsti því til dæmis við skýrslutöku að henni hafi liðið hræðilega vegna þessara atburða en ekki getað veitt þeim kærða viðnám. Fötlun brotaþola hefur það meðal annars í för með sér að hún fer að líta á hegðun af því tagi sem kært er fyrir sem eðlilega. Brotin hafa því án efa haft áhrif á sjálfsmynd hennar sem fatlaðrar konu.
Samkvæmt þessu er hafið yfir allan vafa að brotaþoli er andlega fötluð en ákærði hefur viðurkennt að hann hafi gert sér grein fyrir þessari fötlun hennar og að hafa margoft haft við hann samræði. Sú vörn hans að brotaþoli hafi sjálf viljað eiga mök við hann er haldlaus þegar til þess er litið hvernig andlegri fötlun hennar er háttað. Verður með engu móti fallist á það með ákærða að brotaþoli hafi skilið þýðingu verknaðar ákærða. Er hann því fundinn sekur um að hafa brotið gegn 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga eins og honum er gefið að sök í ákæru.
Ákærði, sem ekki á sakarferil sem hér skiptir máli, á sér þær málsbætur einar að hann hefur játað sök. Hann hefur þráfaldlega brotið gegn andlega fatlaðri tengdamóður sinni sem hann hélt heimili með ásamt konu sinni og brugðist með því þeirri skyldu sinni að styðja hana og vernda vegna fötlunar hennar, þvert á móti hefur hann brotið gróflega gegn henni kynferðislega. Með vísan til alls þessa, sbr. og 1., 2., 6. og 7. tl. 1. mgr. og 3. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940 er refsing ákærða ákveðin fangelsi í sex ár.
Réttargæslumaður hefur krafist miskabóta að fjárhæð 2.500.000 krónur, auk vaxta. Er vísað til þess að brotaþoli hafi orðið fyrir kynferðisbroti af hálfu ákærða. Hafi verknaðurinn leitt til verulegs tjóns fyrir brotaþola. Um lagarök er vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með vísan til niðurstöðu um sakfellingu fyrir kynferðisbrot er það niðurstaða dómsins að framferði ákærða í greint sinn hafi valdið brotaþola miska. Á hún rétt á skaðabótum vegna háttsemi hans á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Í ljósi atvika málsins og dómvenju á réttarsviðinu þykja bætur þessar hæfilega ákveðnar 2.500.000 krónur. Fjárhæð dæmdra skaðabóta ber vexti eins og í dómsorði greinir.
Loks verður ákærða með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 gert að greiða sakarkostnað, samkvæmt yfirliti ákæruvalds, en málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola samkvæmt ákvörðun dómsins. Þær greiðslur þykja hæfilega ákveðnar að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem greinir í dómsorði. Jafnframt verður ákærða gert að greiða ferðakostnað verjandans og réttargæslumanns brotaþola.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Kristni Tómassyni, lækni og Tryggva Sigurðssyni, sálfræðingi.
Við uppkvaðningu dóms er gætt ákvæða 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í sex ár.
Ákærði greiði brotaþola miskabætur að fjárhæð 2.500.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 8. febrúar 2013 til 17. maí s.á., en með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 9. gr, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Inga Tryggvasonar hrl. 451.800 krónur, og ferðakostnað verjandans, 44.405 krónur. Þá greiði ákærði þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Maríu Magnúsdóttur, 313.750 krónur og ferðakostnað hennar að fjárhæð 25.984 krónur.
Ákærði greiði sakarkostnað samkvæmt yfirliti sækjanda að fjárhæð 642.600 krónur.