- Kærumál
- Matsmenn
- Hæfi
|
Mánudaginn 25. ágúst 2014. |
Nr. 444/2014.
|
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari) gegn X (Björgvin Þorsteinsson hrl.) |
Kærumál. Matsmenn. Hæfi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfu X, um að dómkvöddum yfirmatsmönnum í máli ákæruvaldsins gegn honum yrði vikið frá, var hafnað. Í dómi Hæstaréttar kom fram að nánar tilgreind ummæli yfirmatsmannanna um X væru til þess fallin að hann hefði réttmæta ástæðu til að draga óhlutdrægni þeirra í efa. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að dómkveðja nýja yfirmatsmenn.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. júní 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2014 þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að yfirmatsmönnum yrði „vikið frá“ í máli sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og yfirmatsmönnum verði vikið frá störfum og dómkvaddir verði í þeirra stað þrír hæfir og óvilhallir matsmenn.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Samkvæmt 131. gr. laga nr. 88/2008 gilda ákvæði 128. til 130. gr. laganna um yfirmat. Eftir 2. mgr. 129. gr. sömu laga tilkynnir matsmaður aðilum svo fljótt sem verða má með sannanlegum hætti hvar og hvenær verði metið. Því til samræmis boðuðu yfirmatsmenn sækjanda, verjanda og réttargæslumann brotaþola til matsfundar 9. apríl 2014 með tölvupósti 20. mars sama ár. Verður fallist á það með héraðsdómi að verjandi hafi ekki getað skilið fundarboðið á annan hátt en að um væri að ræða matsfund þar sem aðilum yrði gefinn kostur á að skýra sjónarmið sín, enda getur matsmaður framkvæmt starf sitt þótt aðilar mæti ekki þegar metið er nema upplýsingar vanti sem þeir hefðu mátt veita, sbr. 4. mgr. 129. gr. laganna. Með tölvupósti 14. apríl 2014 boðuðu yfirmatsmenn öðru sinni til matsfundar 25. sama mánaðar. Í fundarboðinu kom fram að ætlast væri til að málsaðilar mættu „vilji viðkomandi skýra mál sitt.“
Þau orð sem yfirmatsmenn viðhöfðu í framhaldi af því að ljóst varð að ekki yrði mætt af hálfu varnaraðila á síðarnefnda matsfundinn og gerð er grein fyrir í hinum kærða úrskurði eru til þess fallin að varnaraðili hafi réttmæta ástæðu til að draga óhlutdrægni þeirra í efa. Er því fallist á kröfu varnaraðila á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Dómkvaddir skulu þar til hæfir og óvilhallir yfirmatsmenn í máli þessu í stað þeirra sem kvaddir voru til starfans á dómþingi 7. febrúar 2014.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2014.
Að kröfu ákærða voru þrír yfirmatsmenn dómkvaddir 7. febrúar síðastliðinn til að endurmeta þau atriði sem metin voru og koma fram í matsgerð er lögð var fram 20. janúar síðastliðinn. Með bréfi til dómsins 18. júní síðastliðinn krafðist ákærði þess að yfirmatsmönnunum yrði vikið frá þar eð þeir væru óhæfir til starfans, sbr. 6. mgr. 128. gr. laga nr. 88/2008. Krefst hann þess einnig að nýir yfirmatsmenn verði dómkvaddir, sbr. 133. gr. sömu laga.
Kröfu sína um brottvikningu yfirmatsmannanna rökstyður ákærði með því að þeir hafi með framkomu sinni sýnt af sér óvild og/eða andúð í sinn garð. Í greinargerð ákærða eru rakin samskipti yfirmatsmanna við verjanda allt frá því þeir boðuðu fyrst til matsfundar 20. mars síðastliðinn. Boðað var með tölvupósti og segir í honum að „yfirmatsmenn í ofangreindu máli boðum ykkur“ til yfirmatsfundar á tilteknum stað og tíma. Í greinargerðinni heldur ákærði því fram að í fundarboðinu hafi ekki verið minnst á sig. Hann sé búsettur erlendis og þurfi góðan tíma til að losna úr vinnu auk þess sem hann eigi börn á skólaaldri og dýrt sé að fljúga þaðan sem hann býr og til Íslands. Ákærði kveður verjanda sinn hafa mætt á matsfundinn en hvorki saksóknari né réttargæslumaður brotaþola hafi verið mættir, en mætt hafi verið fyrir þá. Það virtist hafa komið yfirmatsmönnum á óvart að ákærði hafi ekki mætt og komið til orðaskipta milli þeirra og verjandans. Hafi yfirmatsmenn talið það sjálfgefinn hlut að ákærði myndi mæta á fundinn. Síðan segir í greinargerðinni að „verjandi hafi reynt að útskýra fyrir þeim að það hefði alls ekki verið tilgreint í boðun til fundarins og að verjandi hefði talið það tilefni fundarins að ákveða hvernig staðið yrði að matsgerðinni og hvernig framhaldinu yrði háttað og þá hvenær ákærði kæmi til landsins til fundar.“ Í framhaldinu var reynt að finna nýjan tíma fyrir matsfund og samkvæmt því er segir í greinargerðinni var ákveðið að hann yrði haldinn 20. júní. Þessu mótmælti saksóknarinn og krafðist þess að matsfundur yrði boðaður hið fyrsta. Yfirmatsmenn boðuðu þá til fundar 25. apríl en því var mótmælt af verjandanum sem kvaðst hafa skýrt þeim frá því að hann færi af landi brott 22. apríl. Saksóknarinn hafi þá sent tölvupóst þar sem hafi sagt að þar sem ljóst væri að hvorki ákærði né verjandinn myndu mæta á matsfund í apríl yrði því að halda hann í júní eins og ákveðið hafði verið. Ákærði kveður viðbrögð yfirmatsmanna við þessu hafa verið „með hreinum ólíkindum“. Einn þeirra hafi sent svohljóðandi tölvupóst. „Er þetta svona sem þetta gengur fyrir sig. Geta þeir bara dregið málið eins lengi og þeim sýnist án afleiðinga?“ Annar hafi sent svohljóðandi tölvupóst: „Ólíðandi framkoma“. Þriðji yfirmatsmaðurinn hafi lýst sig sammála hinum tveimur. Það er á þessum skeytum sem ákærði byggir kröfu sína um að yfirmatsmönnunum verði vikið frá. Kveðst hann ekki geta treyst á hlutlægni þeirra við matið og ekki geta litið á þá sem hæfa og óvilhalla menn. Verjandi ákærða kveður skýringu þess að krafan hafi ekki komið fyrr fram vera þá að hann hafi farið af landi brott 22. apríl og ekki komið til baka fyrr en 18. maí. Hann hafi veikst þremur dögum síðar og verið rúmliggjandi nánast alfarið síðan.
Sækjandinn hefur mótmælt kröfu verjandans og krefst þess að henni verði hafnað.
Eins og fram er komið reyndu yfirmatsmenn ítrekað að boða til matsfundar. Ákærði, sem búsettur er erlendis mætti ekki á fundinn sem boðaður var 9. apríl með tölvupósti 20. mars. Það verður þó að telja að verjandi ákærða hafi ekki getað misskilið fundarboðið og haldið að um væri að ræða undirbúningsfund. Hér að framan var gerð grein fyrir viðbrögðum yfirmatsmanna við þessu. Er það niðurstaðan að réttmæt hneykslun þeirra á framferð verjandans geti ekki gefið tilefni til að ætla að þeir geti ekki rækt starfa sinn af þeirri hlutlægni sem lög um meðferð sakamála gera ráð fyrir. Kröfu ákærða um að yfirmatsmönnum verði vikið frá er því hafnað.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Kröfu ákærða um að yfirmatsmönnum verði vikið frá er hafnað.