Print

Mál nr. 752/2009

Lykilorð
  • Ávana- og fíkniefni

Fimmtudaginn 16. september 2010.

Nr. 752/2009.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson saksóknari)

gegn

Halldóri Magnússyni

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Ávana- og fíkniefni.

H var sakfelldur fyrir vörslur á 414,3 g af kannabislaufum, 204 kannabisplöntum og 53,03 g af kannabisstönglum og fyrir að hafa um nokkuð skeið staðið að ræktun plantnanna. Þá var H jafnframt dæmdur fyrir vopnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum lásboga. Samkvæmt matsgerð sem lá fyrir í málinu mátti ætla að plönturnar gætu gefið af sér frá um 12 kg af marihuana og 204 g af hassolíu, miðað við 60% innihald THC. Við ákvörðun refsingar H var einkum litið til þess að fíkniefnalagabrot hans var vel skipulagt og fól í sér framleiðslu fíkniefna. Þurfti H að koma sér upp sérútbúnu húsnæði og leggja mikla vinnu í ræktun þeirra plantna sem um ræddi auk þess sem ræktunin var umfangsmikil og vel á veg komin. Á hinn bóginn var litið til þess að H var einungis gefin að sök varsla fíkniefna og ræktun plantna án þess að það hafi verið í sölu- og dreifingarskyni. Þá hafði H játað brotin greiðlega. Brot þau er H var nú ákærður fyrir voru framin áður en hann gekkst undir sektargerð lögreglustjóra 4. maí 2009 vegna brota á umferðarlögum og var refsing hans því ákveðin með hliðsjón af 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var H dæmdur í 8 mánaða fangelsi, en að öllu virtu þóttu ekki efni til að skilorðsbinda refsingu hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason dómstjóri.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 1. desember 2009. Af hálfu ákæruvalds er krafist þyngingar á refsingu og þess að hún verði óskilorðsbundin. Jafnframt er krafist staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um upptöku.

Ákærði krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.

Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa sunnudaginn 12. apríl 2009 haft í vörslum sínum 414,3 g af kannabislaufum, 204 kannabisplöntur og 53,03 g af kannabisstönglum og að hafa um nokkuð skeið fram til þess dags ræktað greindar plöntur. Jafnframt var ákærði sakfelldur fyrir vopnalagabrot með því að hafa í vörslum sínum lásboga. Ákærði játaði brotin og var farið með málið samkvæmt 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Í gögnum málsins er að finna efnaskýrslu lögreglunnar um þær 204 plöntur sem haldlagðar voru, en þar er getið um hæð og þyngd þeirra. Einnig eru myndir í efnaskýrslu tæknideildar lögreglunnar af þeim plöntum sem haldlagðar voru. Í matsgerð Jakobs Kristinssonar dósents 4. maí 2009 kemur fram að rannsökuð hafi verið ein tilgreind planta. Þyngd plöntunnar hafi verið 113,78 g, en eftir þurrkun 29,74 g. Magn tetrahydrocannabinols í þurru sýni hafi verið 57 mg/g, sem samsvari 15 mg/g í sýninu fyrir þurrkun. Eftir að héraðsdómur gekk var Þóroddur Sveinsson, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands, dómkvaddur til að leggja mat á umfang ræktunarinnar. Í matsgerð hans 7. júní 2010 kemur meðal annars fram að hann dragi þá ályktun af fjölmörgum ljósmyndum lögreglu af plöntunum að þær hafi verið á mismunandi þroskastigi. Stór hluti þeirra hafi verið kvenkyns, en þær plöntur gefi meiri uppskeru en karlkyns plöntur. Búið hafi verið að fjarlægja neðstu blaðstilkana af sumum þeirra til að örva vöxt og hafi þær plöntur sem lengst voru komnar í vexti átt eftir um það bil einn mánuð við bestu skilyrði til að ná fullnaðarþroska með hámarksuppskeru. Á hinn bóginn sé af myndum ekki unnt að meta kyn margra annarra plantna en ætla megi að allt að þrír mánuðir hefðu þurft að líða áður en sumar þeirra næðu  fullnaðarþroska. Einnig kemur fram í matagerðinni að unnt hefði verið að nýta til fíkniefnaframleiðslu alla hluta plantnanna þegar á því þroskastigi sem þær voru við upptöku. Þá telur matsmaður að ætla megi að 204 fullvaxta kannabisplöntur geti gefið af sér frá um 12 kg af marihuana og 204 g af hassolíu, miðað við 60% tetrahydrocannabinols, THC.

Brot ákærða eru réttilega heimfærð til refsiákvæða. Brot gegn ákvæðum laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni geta varðað allt að 6 ára fangelsi, sbr. 5. gr. laganna, en brot gegn vopnalögum nr. 16/1998 allt að fjögurra ára fangelsi, sbr. 1. mgr. 36. gr. þeirra laga. Við ákvörðun refsingar ákærða er einkum litið til þess að fíkniefnalagabrot hans var vel skipulagt og fól í sér framleiðslu fíkniefna. Þurfti ákærði að koma sér upp sérútbúnu húsnæði og leggja mikla vinnu í ræktun þeirra plantna sem um ræðir, en ræktunin var umfangsmikil og vel á veg komin. Á hinn bóginn verður að hafa í huga að ákærða er einungis gefin að sök varsla fíkniefna og ræktun plantna án þess að það hafi verið í sölu- og dreifingarskyni. Einnig  játaði ákærði brotin greiðlega.

            Ákærði gekkst undir sektargerð lögreglustjóra 4. maí 2009 vegna brota á umferðarlögum. Brot þau sem hann er nú sakfelldur voru framin áður en hann gekkst undir þau viðurlög. Því ber að tiltaka refsingu ákærða samkvæmt 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður refsing hans ákveðin fangelsi í 8 mánuði, en að öllu virtu þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsingu hans.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Halldór Magnússon, sæti fangelsi í 8 mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins 250.406 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 225.900 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2009

Mál þetta, sem dómtekið var 9. nóvember sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglu­stjóranum á höfuðborgarsvæðinu 29. september 2009 á hendur Halldóri Magnússyni, Leirubakka 8, Reykjavík, fyrir eftirtalin brot framin sunnudaginn 12. apríl 2009, að Bíldshöfða 16 í Reykjavík:

1.  Fíkniefnalagabrot, með því að hafa haft í vörslum sínum samtals 414,3 g af kannabislaufum, 204 kannabisplöntur og 53,03 g af kannabisstönglum og hafa um nokkurt skeið fram til þessa dags ræktað greindar plöntur.

Þetta er talið varða við 2. gr. sbr. 4., 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr. sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

2.  Vopnalagabrot, með því að hafa haft í vörslum sínum lásboga, sem lögreglumenn fundu við leit.

Þetta er talið varða við f- lið 2. mgr. 30. gr. sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.  Þá er þess krafist að gerð verði upptæk 414,3 g af kannabislaufum, 204 kannabisplöntur og 53,03 g af kannabisstönglum sem hald var lagt á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.  Jafnframt er krafist upptöku á 13 hitalömpum, 3 loftræstikössum, 206 blómapottum og einu vatnskerfi til ræktunar, samkvæmt 7. mgr. 5. gr. sömu laga.  Ennfremur er þess krafist að gerður verði upptækur ofangreindur lásbogi sem hald var lagt á, sbr. 1. mgr. 37. gr. vopnlaga nr. 16/1998.

Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa. Verði dæmd fangelsisrefsing er þess krafist að hún verði bundin skilorði. Þá er krafist hæfilegrar verjandaþóknunar.

Farið var með mál þetta samkvæmt 1. mgr. 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. 

Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði gekkst ákærði undir að greiða sekt vegna fíkniefnalagabrots á árinu 2002. Eftir það hefur ákærða í tvígang verið gert að greiða sektir vegna umferðarlagabrota, í seinna skiptið með lögreglustjórasátt hinn 4. maí 2009. Brot þau sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir voru framin áður en ákærði gekkst undir framangreinda lögreglustjórasátt og verður refsing hans því ákveðin sem hegningarauki við hana, með vísan til 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt þessu, og einnig með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 90 daga, en fresta skal fullnustu refsingar og hún falla niður að þremur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Upptæk eru gerð 414,3 g af kannabislaufum, 204 kannabisplöntur, 53,03 g af kannabisstönglum, 13 hitalampar, 3 loftræstikassar, 206 blómapottar, eitt vatnskerfi til ræktunar og lásbogi, með vísan til þeirra lagaákvæða sem vísað er til í ákæru.

Ákærði greiði 90.907 krónur í útlagðan sakarkostnað samkvæmt yfirliti lögreglustjóra og þóknun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hdl., 48.430 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Halldór Magnússon, sæti fangelsi í 90 daga, en fresta skal fullnustu refsingar og hún falla niður að þremur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Upptæk eru gerð 414,3 g af kannabislaufum, 204 kannabisplöntur, 53,03 g af kannabisstönglum, 13 hitalampar, 3 loftræstikassar, 206 blómapottar, eitt vatnskerfi til ræktunar og lásbogi.

Ákærði greiði 139.337 krónur í sakarkostnað, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hdl., 48.430 krónur.