- Útivist
- Ómerking héraðsdóms
|
Fimmtudaginn 7. maí 2015. |
Nr. 732/2014.
|
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari) gegn X (Kristján Stefánsson hrl.) |
Útivist. Ómerking héraðsdóms.
Héraðsdómur í máli ákæruvaldsins á hendur X var ómerktur og málinu vísað heim í hérað til nýrrar meðferðar þar sem ekki voru uppfyllt skilyrði til að fella dóm á málið eftir ákvæðum 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, svo sem gert hafði verið.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 27. október 2014. Af hálfu ákæruvaldsins er þess aðallega krafist að ákærði verði sakfelldur og dæmdur til refsingar, en til vara að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað.
Ákærði krefst þess, sæti mál ekki „án kröfu, ómerkingu og frávísun frá dómi eða heimvísun“, að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.
I
Málið var höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi 9. september 2013 þar sem ákærða var gefið að sök nánar tilgreint brot gegn lögum nr. 49/2005 um fullnustu refsinga með því að hafa smyglað inn í fangelsið að Litla-Hrauni þremur lyfjatöflum er innihéldu ávana- og fíkniefnið Oxazepam. Í ákæru var háttsemi ákærða heimfærð undir 81. gr., sbr. 1., 3. og 4. tölulið 1. mgr. 52. gr. fyrrgreindra laga, sbr. 1. mgr. 8. gr. reglna fangelsa nr. 54/2012 og 3. gr., sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. fylgiskjal I með reglugerð nr. 76/2010 um breytingu á reglugerð nr. 233/2001.
Héraðsdómari gaf út fyrirkall til ákærða 16. september 2013 þar sem hann var kvaddur til að mæta á dómþing 17. október sama ár klukkan 11, en þá yrði málið þingfest. Í fyrirkallinu var meðal annars tekið fram að sækti ákærði ekki þing að forfallalausu mætti hann búast við því að fjarvist hans yrði metin til jafns við að hann viðurkenndi að hafa framið það brot sem honum væri gefið að sök og dómur yrði lagður á málið að honum fjarstöddum. Í áritun á fyrirkallið um birtingu var þess getið að ákærði óskaði eftir að Stefán Karl Kristjánsson héraðsdómslögmaður yrði skipaður verjandi sinn.
Ákærði sótti ekki þing þegar málið var þingfest en mætt var af hálfu ákæruvaldsins. Í bókun í þingbók kom fram að fyrrgreindur lögmaður hefði haft samband við dóminn og óskað eftir fresti þar sem ákærði væri í meðferð. Var lögmaðurinn skipaður verjandi ákærða að ósk hans og málinu frestað til 31. október 2013 með samþykki ákæruvaldsins. Þegar málið var þá tekið fyrir var sótt þing af hálfu ákæruvaldsins en ekki af hálfu ákærða og færði dómari til bókar að verjandi hefði ekki haft samband við dóminn. Því næst bókaði dómari að hann teldi framlögð gögn nægjanleg og ekki þörf á að færa fram frekari sönnunargögn í málinu. Var málið því dómtekið að kröfu ákæruvaldsins á grundvelli 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var síðan kveðinn upp dómur 5. desember 2013 þar sem ákærði var sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.
Með dómi Hæstaréttar 18. júní 2014 í máli nr. 122/2014 var fyrrgreindur dómur héraðsdóms ómerktur og málinu vísað heim í hérað með vísan til þess að ekki lægi fyrir að ákærði eða verjandi hans hefðu verið boðaðir til þinghaldsins 31. október 2013, sem ákveðið hefði verið eftir að málinu var frestað við þingfestingu þess 17. sama mánaðar. Var málið síðan tekið fyrir að nýju 9. júlí 2014 og var þá mættur verjandi ákærða. Upplýsti hann að ákærði, sem væri búsettur í Vestmannaeyjum, gæti ekki sótt þing vegna veikinda. Þá tilkynnti hann að ákærði hygðist neita sök í málinu. Málið var síðan tekið fyrir að nýju 25. júlí 2014. Ekki var sótt þing af hálfu ákærða en skipaður verjandi hans hafði haft samband við dómara og upplýst að hann hefði ekki náð sambandi við ákærða. Afstaða hans til ákærunnar væri hins vegar óbreytt. Var málinu því frestað með samþykki ákæruvaldsins. Er málið var næst tekið fyrir18. september 2014 sótti ákærði ekki þing en verjandi hans, sem var mættur, upplýsti að hann hefði ekki náð í ákærða. Á grundvelli fyrri samtala við ákærða gæti hann þó staðfest að ákærði gerði ekki athugasemdir við verknaðarlýsingu í ákæru, en teldi háttsemina ekki refsiverða. Var málið í kjölfarið dómtekið á grundvelli 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 og dómur kveðinn upp 15. október 2014 þar sem ákærði var sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.
II
Þrátt fyrir kröfugerð ákæruvaldsins kemur málið ekki til úrlausnar að efni til ef á málinu eru þeir annmarkar sem valdið geta því að héraðsdómur verði ómerktur, enda er hér um að ræða atriði sem dómurinn gætir að af sjálfsdáðum.
Líkt og fyrr greinir kom ákærði ekki fyrir héraðsdóm í áðurgreindum þinghöldum 9. júlí 2014, 25. sama mánaðar og 18. september sama ár. Hins vegar mætti skipaður verjandi hans í þinghöld 9. júlí og 18. september 2014. Af þeim sökum varð ekki útivist af hálfu ákærða og þegar af þeirri ástæðu voru ekki skilyrði til að fella dóm á málið eftir ákvæðum 161. gr. laga nr. 88/2008, sbr. dóm Hæstaréttar 18. desember 2014 í máli nr. 259/2014. Verður því að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og leggja fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.
Ákvörðun sakarkostnaðar í héraði bíður nýs efnisdóms, en allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.
Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 248.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 15. október 2014.
Mál þetta, sem upphaflega var þingfest 17. október 2013 og dómtekið 31. október 2013 er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi dagsettri 9. september 2013 á hendur X, kt. [...],[...],[...]
„fyrir brot á lögum um fullnustu refsinga
með því að hafa laugardaginn 2. mars 2013 smyglað inn í fangelsið að Litla Hrauni á Eyrarbakka þremur lyfjatöflum er innihéldu ávana- og fíkniefnið Oxazepam með því að henda töflunum yfir öryggisgirðingu fangelsisins og ætlað sér þannig að afhenda ótilgreindum fanga/föngum umræddar lyfjatöflur á ólögmætan hátt.
Telst háttsemi ákærða varða við 81. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 49, 2005 sbr. 1., 3. og 4. tl. 1. mgr. 52. gr. sömu laga sbr. 1. mgr. 8. gr. reglna fangelsa nr. 54/2012 sem birtar voru í B-deild Stjórnartíðinda þann 26. janúar 2012 og 3. gr., sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. fylgiskjal I með reglugerð nr. 789/2010 um breytingu á reglugerð nr. 233/2001.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Mál þetta var, svo sem fyrr greinir, þingfest 17. október 2013 og dæmt 5. desember 2013. Var dómi héraðsdóms áfrýjað til Hæstaréttar og með dómi réttarins í máli nr. 122/2014, uppkveðnum 18. júní 2014, var hinn áfrýjaði dómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.
Var málið tekið fyrir á ný þann 9. júlí 2014 og kom þá skipaður verjandi ákærða fyrir dóminn og upplýsti að ákærði væri búsettur í Vestmannaeyjum og gæti ekki sótt þing vegna veikinda, en ákærði hygðist neita sök í málinu. Var málið aftur tekið fyrir 25. júlí 2014 og var ekki sótt þing vegna ákærða en skipaður verjandi haft samband við dómarann og upplýst að hann hafi ekki náð sambandi við ákærða sem væri við óreglu í Vestmannaeyjum, en óbreytt væri sú afstaða ákærða að neita sök. Var málinu enn frestað með samþykki sækjanda. Enn var málið tekið fyrir 18. september 2014, enn án þess að ákærði kæmi fyrir dóminn og upplýsti verjandi ákærða, sem mættur var í þinghaldið, að hann hafi ekki náð í ákærða en kvað jafnframt á grundvelli fyrri samtala sinna við ákærða að ákærði hafi ekki athugasemdir við verknaðarlýsingu í ákæru og telji hana vera rétta, en telji háttsemina ekki refsiverða. Var þá farið með málið skv. 161. gr. laga nr. 88/2008 og það dómtekið eftir að sækjanda og skipuðum verjanda hafði verið gefinn kostur á að tjá sig. Af hálfu skipaðs verjanda var krafist þóknunar og ferðakostnaðar.
Við birtingu ákæru og fyrirkalls 7. október 2013 var þess getið í fyrirkalli að fjarvist ákærða kynni að verða metin til jafns við það að hann viðurkenndi að hafa framið brot það sem hann væri ákærður fyrir og dómur yrði lagður á málið að honum fjarstöddum. Sem fyrr segir hefur ákærði aldrei komið fyrir dóminn vegna málsins.
Í rannsóknargögnum kemur fram að í lögregluskýrslu hafi ákærði kannast við að hafa hent nefndum töflum inn á lóð fangelsisins og hafi töflurnar verið ætlaðar ótilgreindum föngum. Kemur jafnframt fram að töflurnar hafi verið efnagreindar hjá Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði og hafi þær að útliti verið áþekkar sérlyfinu Sobril 10 mg sem innihaldi oxazepam. Hafi greinst í töflunum efnið oxazepam sem sé virka efnið í Sobril sem sé skráð sérlyf á Íslandi. Sé það lyfseðilsskylt og teljist til ávana- og fíkniefna sbr. fylgiskjal I með reglugerð nr. 789/2010 um (6.) breytingu á reglugerð nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, en það teljist þó ekki til ávana- og fíkniefna sem óheimil séu á íslensku yfirráðasvæði.
Um málavexti vísast að öðru leyti til ákæruskjals og þykir nægilega sannað að ákærði hafi hent umræddum töflum yfir téða girðingu á þeim stað og stund sem greinir í ákæru.
Niðurstaða
Í ákæru er háttsemi ákærða talin varða við 81. gr. laga nr. 49/2005, sbr. 1., 3. og 4.tl. 1. mgr. 52. gr. sömu laga sbr. 1. mgr. 8. gr. reglna fangelsa nr. 54/2012 og 3. gr., sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. fylgiskjal I með reglugerð nr. 789/2010 um breytingu á reglugerð nr. 233/2001.
Í 81. gr. laga nr. 49/2005 segir að „Sá sem smyglar eða reynir að smygla til fanga munum eða efnum sem getið er í 1. mgr. 52. gr. og hann veit eða má vita að fanga er óheimilt að hafa í fangelsi skal sæta sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.“
Í 1. mgr. 52. gr. laganna segir að „Forstöðumaður fangelsis tekur ákvörðun um leit í klefa fanga ef grunur leikur á að þar sé að finna muni eða efni sem: 1. refsivert er að hafa í vörslum sínum, 2. hafa orðið til við refsiverðan verknað, 3. smyglað hefur verið inn í fangelsið, 4. fanga er óheimilt að hafa í vörslum sínum eða í klefa samkvæmt reglum fangelsis.”
Í refsiákvæði því sem vísað er til í ákærunni, þ.e. 81. gr. laga nr. 49/2005 er ekki efnisregla um að refsivert sé að smygla í fangelsi lyfjum eða öðrum tilgreindum hlutum, eða henda þeim yfir girðingu umhverfis fangelsi. Efnislega vísar ákvæðið um innihald sitt til 52. gr. laganna.
Ekki er heldur að finna slíka reglu í 1., 3. eða 4. tl. 1. mgr. 52. gr. laga nr. 49/2005, sem vísað er til í ákæru og í 81. gr. laganna.
Í 1. tl. 52. gr. er vísað til hluta sem refsivert er að hafa í vörslum sínum. Fyrir liggur að lyfið oxazepam er ekki efni sem fortakslaust er bannað og refsivert að hafa í vörslum sínum á íslensku yfirráðasvæði. Verður ákærða því ekki refsað á grundvelli þessa ákvæðis.
Í 3. tl. 52. gr. segir að bannað sé að hafa í vörslum sínum hluti sem smyglað hefur verið inn í fangelsið, en fyrir liggur að nefndum töflum hafði ekki verið smyglað inn í fangelsið áður en ákærði henti þeim yfir girðinguna. Verður því ekki talið að ákærði hafi gerst brotlegur samkvæmt ákvæðinu.
Í 4. tl. 52. gr. er vísað til muna sem fanga sé óheimilt að hafa í vörslum sínum eða klefa samkvæmt reglum fangelsis. Í reglum fangelsa nr. 54/2010, sem settar eru af Fangelsismálastofnun ríkisins 10. janúar 2012, kemur fram í 1. mgr. 8. gr. að óheimilt sé fanga að afla sér, veita viðtöku eða aðstoða aðra fanga við að komast yfir hvað eina sem bannað sé að nota í fangelsinu svo sem m.a. lyf önnur en þau sem ávísað sé af fangelsislæknum og taka beri á lyfjatíma. Efnisinnihald ákvæðis 4. tl. 52. gr. laga nr. 49/2005 ræðst þannig í raun af reglum fangelsa. Það er álit dómsins að löggjafinn geti ekki framselt Fangelsismálastofnun ríkisins það vald að ákveða í raun hvaða háttsemi sé refsiverð. Breytir í þeim efnum engu að téðar reglur hafi verið birtar í B-deild Stjórnartíðinda. Er þannig ekki fyrir hendi gild refsiheimild sem byggja má á refsingu fyrir þá háttsemi sem lýst er í ákæru í málinu, sbr. 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. einnig 1. og 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en reglur fangelsa eru ekki gild refsiheimild.
Verður því að sýkna ákærða af því að hafa brotið gegn téðum ákvæðum laga nr. 49/2005.
Í ákæru er háttsemi ákærða jafnframt talin varða við 3. gr., sbr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. fylgiskjal I með reglugerð nr. 789/2010 um breytingu á reglugerð nr. 233/2001. Ekki er getið um það í ákæru hvaða málsgrein í téðri lagagrein háttsemi ákærða er talin varða við, en í 3. gr. laganna eru fjórar málsgreinar. Í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 65/1974 segir að „Inn- og útflutningur, sala, kaup, skipti, afhending, móttaka, framleiðsla, tilbúningur og varsla“ sé einungis heimil lyfsölum og öðrum sem hafa leyfi til slíks. Í 4. mgr. 3. gr. laganna segir að „Að öðru leyti er inn- og útflutningur, sala, kaup, skipti, afhending, móttaka, framleiðsla, tilbúningur og varsla þessara efna bönnuð.“ Ekki er í ákærunni, eins og hún er orðuð, lýst háttsemi sem er bönnuð samkvæmt téðum ákvæðum 3. gr. laga nr. 65/1974. Ekki er því heldur lýst í ákærunni að ákærði hafi ekki haft leyfi til varslna eða annarrar meðferðar taflnanna, en það er óhjákvæmilegur efnisþáttur í broti gegn téðum ákvæðum. Ekki verður ákærði heldur sakfelldur fyrir tilraun til að afhenda töflurnar ótilgreindum mönnum, enda tilraun hvorki nefnd né lýst í ákærunni. Er því jafnframt óhjákvæmilegt að sýkna ákærða af því að hafa brotið gegn tilvitnuðum ákvæðum laga nr. 65/1974.
Samkvæmt framansögðu ber að sýkna ákærða af öllum kröfum ákæruvalds í málinu.
Ber að fenginni þessari niðurstöðu að ákveða að allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, sbr. 218. gr. laga nr. 88/2008, en um er að tefla kr. 31.573 sem er kostnaður vegna matsgerðar og rannsóknar á lyfjum, auk þóknunar skipaðs verjanda sem þykir hæfilega ákveðin kr. 73.500 að meðtöldum virðisaukaskatti, auk ferðakostnaðar verjandans kr. 27.840.
Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærði, X, skal vera sýkn af öllum kröfum ákæruvalds í málinu.
Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda ákærða, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., kr. 73.500, auk ferðakostnaðar verjandans kr. 27.840.