Print

Mál nr. 9/2013

A og Vátryggingafélag Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.)
gegn
B (Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)
og gagnsök
Lykilorð
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Endurupptaka bótaákvörðunar
  • Fyrning

Líkamstjón. Skaðabætur. Endurupptaka bótaákvörðunar. Fyrning.

B lenti í umferðarslysi og tók við greiðslu vátryggingabóta úr hendi V hf. á árinu 2003 á grundvelli matsgerðar og áliti örorkunefndar, þar sem varanlegur miski B vegna slyssins var ákveðinn 15 stig og varanleg örorka 25%. B krafði nú V hf. og A um greiðslu frekari bóta á grundvelli matsgerðar sem hún hafði aflað á árinu 2010 en samkvæmt henni mátu matsmenn nú varanlegan miska B 25 stig og varanlega örorku hennar 35%. Talið var að B hefði sýnt fram á að ófyrirsjáanlegar breytingar hefðu orðið á heilsufari hennar frá fyrra mati í skilningi 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og að miska- og örorkustig væri verulega hærra en áður var talið. Þá var ekki talið að krafa B hefði verið fyrnd þegar málið var höfðað árið 2009, þar sem hún hefði fyrst fengið vitneskju um að ástand hennar myndi ekki breytast til batnaðar, þegar hún leitaði læknis sama ár. Voru V hf. og A því dæmd til að greiða B frekari bætur.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 7. janúar 2013. Þeir krefjast sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 19. mars 2013. Hún krefst staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað sem hún krefst í héraði og fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum. 

Málavöxtum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram slasaðist gagnáfrýjandi í umferðarslysi 13. nóvember 1999. Í málinu liggur fyrir matsgerð C læknis og D hæstaréttarlögmanns 11. apríl 2002 um að varanlegur miski gagnáfrýjanda vegna slyssins sé 15 stig og varanleg örorka hennar 25%. Þá liggur fyrir álitsgerð örorkunefndar 14. janúar 2003 þar sem komist var að sömu niðurstöðu um miskastig og varanlega örorku gagnáfrýjanda. Á grundvelli þessarar niðurstöðu var tjón hennar gert upp af hálfu aðaláfrýjandans Vátryggingafélags Íslands hf. 3. febrúar 2003. Í máli þessu krefst gagnáfrýjandi frekari bóta úr hendi aðaláfrýjenda samkvæmt matsgerð dómkvaddra manna, þeirra E læknis og F hæstaréttarlögmanns, 25. maí 2010. Með matsgerðinni telur hún sannað að skilyrðum endurupptöku á ákvörðun bóta sé fullnægt, því ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu hennar þannig að miskastig og örorkustig sé verulega hærra en áður var talið, sbr. 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Lýtur ágreiningur aðila að því auk þess sem aðaláfrýjendur telja að krafa gagnáfrýjanda sé fyrnd samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Af gögnum málsins er ljóst að gagnáfrýjandi hefur eftir slysið verið í umtalsverðri endurhæfingu sem ekki hefur skilað árangri. Meðal annars var hún frá 24. febrúar 2004 til 14. júlí sama ár í atvinnulegri endurhæfingu á Reykjalundi. Við útskrift þar kemur fram í vottorði G læknis að gert sé ráð fyrir að gagnáfrýjandi fari í sjúkraþjálfun, leiti sér að vinnu og að reiknað sé með að hún komist á vinnumarkaðinn í september. Af þessu má ráða að á þessum tíma hafi verið reiknað með að gagnáfrýjandi gæti náð frekari bata. Samkvæmt vottorði H, sérfræðings í heila- og taugaskurðlækningum, 7. nóvember 2009, sem ritað var að ósk lögmanns gagnáfrýjanda, var það niðurstaða læknisins að engar líkur væru þá á bata. Þrálátir verkir hafi sett djúp spor og viðvarandi þunglyndi og kvíði og afleiðingar stöðugra verkja, eins og minnistruflanir og einbeitingarskortur, dragi mjög úr starfsþreki. Hafi þessir þættir ekki verið metnir sem skyldi í fyrri matsgerðum. Verður ekki talið að fyrr en með þessu vottorði hafi gagnáfrýjandi fengið vitneskju um að ástand hennar myndi ekki breytast til batnaðar og því fyrst þá átt þess kost að leita fullnustu kröfu um frekari bætur. Var krafa hennar því ekki fyrnd þegar mál þetta var höfðað 6. nóvember 2009. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað en aðaláfrýjendum verður gert að greiða málskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi í héraði og fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð.

Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, sem ákveðin verður eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Aðaláfrýjendur, A og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði 1.400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð.

Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda, B, fyrir Hæstarétti, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 600.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. október 2012.

                Mál þetta er höfðað 6. nóvember 2009 og dómtekið 4. október sl.

                Stefnandi er B, […].

                Stefndu eru A, […] og Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík

                Stefnandi krefst þess, að stefndu verði óskipt dæmd til að greiða henni skaðabætur að fjárhæð 3.789.084 krónur, ásamt 4,5% ársvöxtum frá 6. nóvember 2005 til 19. september 2010, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmd til að greiða máls­kostnað.

                Stefndu krefjast sýknu og greiðslu málskostnaðar. 

                Laugardaginn 13. nóvember 1999 var jeppabifreiðinni M ekið norður […] móts við […] og var stefnandi farþegi í framsæti bifreiðarinnar. Úr gagnstæðri átt kom fólksbifreiðin N og vörubifreið stefnda, A, O. Var O ekið aftan á N, sem hægt hafði á sér. Við áreksturinn kastaðist N yfir á öfugan vegarhelming í veg fyrir M. Tókst ökumanni M ekki að stöðva í tæka tíð þrátt fyrir hemlun og hafnaði á bifreiðinni M. Við áreksturinn slasaðist stefnandi, en hún var í bílbelti við áreksturinn. Var hún strax flutt á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur. Þar var hún greind með mar á brjóstkassa og mar og yfirborðsáverka á hné. Var hún að lokinni skoðun útskrifuð heim með teygjusokk á hnéð og almennar ráðleggingar. Á slysdegi var stefnandi 18 ára að aldri og starfaði á lager í […]. O var skylduvátryggð hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf. Í kjölfar slyssins var stefnandi í eftirliti hjá Heilbrigðisstofnun […] og sótti sjúkra­þjálfun á vegum stofnunarinnar. Stefnandi var á Reykjalundi til endurhæfingar á tímabilinu frá 30. apríl til 6. júlí 2001. Lögmaður stefnanda fór þess á leit 3. október 2001 við C lækni og D hæstaréttarlögmann að þeir myndu, á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993, meta líkamstjón stefnanda af völdum bílslyssins 13. nóvember 1999.  Er mat þeirra dagsett 11. apríl 2002. Mátu matsmenn varanlegan miska stefnanda af völdum slyssins 15% og varanlega örorku 25% auk tímabundins atvinnutjóns og þjáninga.  Stöðugleikapunkt mátu þeir vera 6. júlí 2001.

                Stefndi, Vátryggingafélag Íslands, óskaði 21. desember 2001 eftir áliti örorkunefndar á afleiðingum slyssins. Stóðu að áliti örorkunefndar I endurhæfinga­rlæknir, J bæklunarlæknir, og K hæstaréttarlögmaður. Er álit nefndar­innar dagsett 14. janúar 2003. Telur örorkunefnd að heilsufar stefnanda hafi verið orðið stöðugt í skilningi skaðabótalaga 13. mars 2000 og mat varanlegan miska hennar af völdum slyssins 15% og varanlega örorku 25% auk tímabundins atvinnutjóns og þjáninga.  Á grundvelli álits örorkunefndar var 3. febrúar 2003 gengið til skaðabóta­upp­gjörs á líkamstjóni stefnanda af völdum slyssins og tók stefnandi við bótunum úr hendi stefnda, Vátryggingafélags Íslands, án fyrirvara.  

                Að kröfu stefnanda voru F hæstaréttarlögmaður og E taugalæknir dómkvaddir 19. febrúar 2010 til þess að meta varanlegan miska og varanlega örorku stefnanda vegna umferðarslyss sem hún lenti í þann 13. nóvember 1999. Í matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna, dagsettri 25. maí 2010, er umfjöllun um núverandi einkenni stefnanda. Er niðurstaða dómkvaddra matsmanna sú að varanlegur miski stefnanda vegna líkamlegra og andlegra afleiðinga slyssins sé 25 stig, þar af 20 stig vegna líkamlegra einkenna og 5 stig vegna andlegra einkenna. Varanlega örorku stefnanda vegna afleiðinga slyssins telja matsmenn vera 35% og leggja til grundvallar að starfsgeta til líkamlegrar vinnu sé mikið skert en stefnandi eigi að geta unnið flest létt störf þó með allmörgum takmörkunum sem leiða af afleiðingum slyssins.        

                Stefnandi telur hækkun um 10 stiga varanlegan miska og 10% varanlega örorku óbætt. Í máli þessu er ágreiningur um hvaða niðurstöðu eigi að leggja til grundvallar við útreikning bóta, auk þess sem ágreiningur er um hvort fullnægt sé því skilyrði 11. gr. laga nr. 50/1993 að breytingar á heilsufari stefnanda hafi verið ófyrirsjáanlegar og verulegar.

                Málsástæður og lagarök stefnanda.

                Stefnandi kveður málsókn sína á hendur stefndu reista á ákvæðum umferðarlaga nr. 50/1987, og ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993. Deila stefnanda við stefnda, Vátryggingafélag Íslands hf., varði það hvort skilyrðum 11. gr. laga nr. 50/1993 um endurupptöku ákvörðunar bóta fyrir varanlegan miska og varanlega örorku sé fullnægt. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði þurfi að fullnægja tveimur skilyrðum svo krafa um endurupptöku nái fram að ganga. Í fyrsta lagi þurfi að vera fyrir hendi ófyrirsjáanlegar breytingar á heilsu tjónþola frá því sem áður var talið. Í öðru lagi þurfi hinar ófyrirsjáanlegu breytingar að leiða til þess að miskastigið eða örorkustigið sé verulega hærra en áður var talið. Stefnandi telji sig með framlagningu matsgerðar dómkvaddra matsmanna hafa fært fram fullnægjandi sönnun um að skilyrðum 11. gr. laga nr. 50/1993 sé fullnægt. 

                Til rökstuðnings því að fyrrnefnda skilyrðinu sé fullnægt vísi stefnandi til matsgerðar dómkvaddra matsmanna. Í matsgerðinni séu borin saman líkamleg einkenni stefnanda þegar skoðun örorkunefndar fór fram og núverandi einkenni, og þau sögð vera talsvert meiri nú en þá. Það sé því ljóst að breytingar hafi orðið á heilsufari stefnanda á þeim tíma sem liðinn sé frá skoðun örorkunefndar og uppgjöri á grundvelli álitsgerðar nefndarinnar. Þessar breytingar verði ótvírætt raktar til umferðarslyssins. Þá hafi þær verið ófyrirsjáanlegar, ella hefði þeirra séð stað í umfjöllun og niðurstöðu örorkunefndar. Þetta komi berlega í ljós þegar borin sé saman umfjöllun um læknisskoðun og heilsufarsleg einkenni í álitsgerðinni annars vegar og matsgerð dómkvaddra matsmanna hins vegar. Í álitsgerð örorkunefndar komi fram að ekki hafi komið fram sjóntruflanir hjá stefnanda, hún hafi ekki dofatilfinningu í höndum og minni hafi ekki breyst. Við frambeygju vanti tvo fingur uppá að haka nái bringubeini, snúningshreyfing í hálsi til vinstri sé 80 gráður, hliðarhalli höfuðs sé 40 gráður í hvora átt, og 20 cm vanti uppá að fingur nái í gólf við frambeygju. Í matsgerð dómkvaddra matsmanna komi einnig fram að vægar sjóntruflanir fylgi höfuðverkjaköstum. Stefnandi sé stundum með dofa í höndum og finni fyrir minnistruflunum. Við frambeygju á hálsi vanti fjóra fingur á að haka nái bringubeini, snúningshreyfing í hálsi til vinstri sé 70 gráður, vangavelta (hliðarhalli höfuðs) sé 30 gráður í hvora átt og 25 cm vanti uppá að fingur nái í gólf við frambeygju. Upptalningin sýni svo ekki verður um villst að heilsufar stefnanda hafi breyst mjög til hins verra frá því að skoðun örorkunefndar og mat fór fram.

                Hvergi, hvorki í læknisfræðilegum gögnum sem legið hafi fyrir þegar mat örorkunefndar hafi farið fram síðla árs 2002, né í álitsgerð nefndarinnar sé að finna ábendingu um að afleiðingar umferðarslyssins verði meiri síðar, eins og raun hafi orðið á. Frekar geri nefndin ráð fyrir að einkenni gangi til baka með betri heilsu og aukinni vinnugetu og vinnufærni stefnanda aukist frá því sem verið hafi við skoðun 30. október 2002. Hin auknu einkenni sem stefnandi búi nú við hafi því verið ófyrirsjáanleg þegar gengið hafi verið frá uppgjöri á grundvelli álitsgerðar örorkunefndar. Það séu þessar ófyrirsjáanlegu breytingar á heilsufari stefnanda, aukin einkenni, sem leiði til þess að varanlegar afleiðingar slyssins séu meiri nú en áður hafi verið talið. Varanlegur miski og varanleg örorka hennar vegna afleiðinga slyssins séu því hærri nú en áður hafi verið talið.

                Stefnandi telji að 10 stiga hækkun á miska- og örorkustigi vegna afleiðinga slyssins fullnægi skilyrði 11. gr. laga nr. 50/1993 um verulega hækkun. Samkvæmt dómaframkvæmd eigi ekki að líta til þess hve hækkunin sé mikil hlutfallslega séð, eða hvort hún sé ofarlega eða neðarlega í 100 stiga kvarða, heldur skuli litið til þess um hve mörg stig miskinn eða örorkan hækki. Telja verði að 10 stiga hækkun, bæði varanlegs miska og varanlegrar örorku, fullnægi skilyrðinu um verulega hækkun. Um þetta megi vísa til umfjöllunar í dómi Hæstaréttar í máli nr. 516/2009.

                Skaðabótakrafa stefnanda taki mið af niðurstöðu mats dómkvaddra matsmanna og ákvæðum laga nr. 50/1993. Aðeins sé gerð krafa vegna þeirrar hækkunar sem orðið hafi á varanlegum miska og varanlegri örorku stefnanda vegna slyssins.

                Að því er varði varanlegan miska skv. 4. gr. laga nr. 50/1993, sé miski stefnanda vegna afleiðinga slyssins samkvæmt niðurstöðu dómkvaddra matsmanna varanlega nú metinn 25 stig, sem sé 10 stiga hækkun frá því sem lagt hafi verið til grundvallar fyrra uppgjöri. Krafan taki mið af lánskjaravísitölu í september 2010, 7141,8. Krafa stefnanda vegna varanlegs miska sé því: 10% x 8.704.000,- =  870.400 krónur.

                Að því er varði varanlega örorku skv. 5.-7. gr. laga nr. 50/1993, sé varanleg örorka stefnanda vegna afleiðinga slyssins samkvæmt niðurstöðu dómkvaddra matsmanna nú 35%, sem sé 10 prósentustiga hækkun frá því sem lagt hafi verið til grundvallar fyrra uppgjöri.Við útreikning kröfunnar séu notaðar sömu forsendur og í fyrra uppgjöri. Krafa stefnanda sé því 1.602.000,- x 18.129 x 10% = 2.918.684 krónur. Samtals nemi skaðabótakrafan því 3.789.084 krónum.

                Matsgerð dómkvaddra matsmanna, sem kröfur stefnanda byggjist á, hafi verið send stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., í tölvupósti 19. ágúst 2010 og óskað greiðslu samkvæmt matinu. Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hafi neitað greiðslu í tölvupósti 14. október s.á. Aftur hafi stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., verið krafið um greiðslu 6. apríl 2011 og m.a. vísað til fyrrnefnds dóms Hæstaréttar í málinu nr. 516/2009. Með bréfi stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf.,frá 26. maí s.á. hafi kröfunni verið synjað.

                Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., telji kröfu stefnanda fyrnda samkvæmt 99. gr. laga nr. 50/1987. Sú krafa sé órökstudd enda eigi ákvæði þeirrar lagagreinar ekki við um atvik þessa máls. Sú krafa sem stefnandi hafi upp í þessu máli sé til komin með mati dómkvaddra matsmanna dagsettu 25. maí 2010. Þá fyrst hafi stefnandi fengið „vitneskju um þessa kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar“ eins og segi í niðurlagi 99. gr. Hér gildi almennur 10 ára fyrningarfrestur skaðabótakrafna. Fyrningarfrestur hafi verið rofinn með birtingu stefnu 6. nóvember 2009, 7 mánuðum áður en matsgerðin hafi legið fyrir. Áður hafði stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., neitað stefnanda um framlengingu á 10 ára fyrningarfresti kröfunnar. Ekkert hafi stefndi þá minnst á fjögurra ára fyrningarfrest málsins samkvæmt 99. gr. laga nr. 50/1987. Þau andmæli séu því of seint fram komin. Krafist sé 4,5% ársvaxta frá því 4 árum fyrir stefnubirtingu í málinu. Dráttarvaxta sé krafist frá 19. september 2010 eftir að stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hafi fengið matsgerðina senda. Í stefnu hafi verið gerður áskilnaður um kröfugerð, þ. á m. vaxtakröfu, þegar frekari gögn lægju fyrir.

                Krafist sé málskostnaðar að mati dómsins með hliðsjón af framlögðum málskostnaðarreikningi. Sú krafa sé byggð á 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyld og því sé nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar.

                Málsástæður og lagarök stefndu.

                Stefndu kveða sýknukröfu í fyrsta lagi á því byggða að ekki sé sannað með matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna eða á annan hátt, að ófyrirsjáanleg og veruleg breyting til hins verra hafi orðið á heilsu stefnanda frá því bótauppgjörið 3. febrúar 2003 fór fram, þannig að skilyrðum 11. gr. laga nr. 50/1993 til endurupptöku bótauppgjörsins  sé fullnægt. Því til stuðnings sé bent á eftirfarandi atriði.

                Matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna, sem skipuð hafi verið einum lækni og lögfræðingi, hafi sem slík ekki meira sönnunargildi en matsgerð örorkunefndar, sem skipuð hafi verið tveimur læknum og lögfræðingi. Við samanburð á lýstum einkennum stefnanda í álitsgerð örorkunefndar og matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna verði ekki séð að önnur eða ný heilsufarsleg ein­kenni hafi komið fram hjá stefnanda eftir að mat örorkunefndar hafi verið gert, né að einkenni stefnanda hafi  versnað verulega síðan þá. Sé í báðum matsgerðum lýst sömu eða svipuðum einkennum, eymslum og óþægind­um, og hreyfigeta við skoðun verið svipuð. Kveði stefnandi enda að einkenni sín hafi farið „heldur versnandi frá því að mat örorkunefndar fór fram“, eins og segi í matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna og að einkennin séu „breytileg“ og versni við álag. Það sem helst sé tíundað í matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna sem aukin einkenni séu „mun meira áberandi“ eymsli í vöðvum og vöðvafestum og að verkir versni í kulda. Þá segi að hálshreyfingar og mjóbakshreyfingar séu „heldur lakari en þær voru á árinu 2002“. Einnig sé „til staðar svefntruflun“. Ekkert nýtt sé í þessu. Hafi stefnandi þjáðst meira og minna af svefntruflunum allt frá slysi. Sama gildi um verkjaeinkenni hennar, sem verið hafi breytileg allt frá slysi og versnað við álag. Um eiginlegar og ófyrirsjáanlegar  breytingar á heilsu sé því ekki að ræða. Þá sé ekki rétt sem stefnandi haldi fram, að örorkunefnd geri frekar ráð fyrir að einkenni stefnanda gangi til baka. Ekkert slíkt sé að finna í áliti örorkunefndar.

                Þá segi í matsgerðinni að stefnandi fullnægi nú greiningarskilyrðum fyrir greininguna vefjagikt. Ekki sé þó fullyrt né rökstutt í matsgerðinni að vefjagiktin sé afleiðing slyssins. Komi enda fram í matsgerðinni að stefnandi hafði farið til giktarlækna og gengist þar undir rannsóknir, sem hafi getað bent til vefjagiktar, en samkvæmt læknabréfi frá L giktarsérfræðingi hafi sérfræðingurinn talið óljóst hvort tengja mætti þetta við bílslysið 10 árum áður. Í matsgerðinni sé enn fremur miðað við að áverkinn í líkams­árás 8. mars 2003 hafi ekki valdið neinum varanlegum einkennum, né önnur þau bílslys sem stefnandi hafi lent í.  Séu öll stoðkerfiseinkenni stefnanda að rekja til umferðarslyssins 13. nóv. 1999. Það sé umdeilanlegt. Liggi fyrir að stefnandi hafi verið metin til 75% örorku hjá TR vegna þriggja bílslysa. Þá liggi engin læknagögn fyrir um það að sá hluti af fyrirliggjandi [... ] stefnanda, sem rekja megi til slyssins, hafi aukist frá því mat örorkunefndar hafi verið gert, en þar sé getið [...] stefnanda, sem reyndar megi rekja allt aftur til 13 ára aldurs hennar. Þegar framangreint sé virt fari því fjarri að ófyrirsjáanleg og veruleg breyting til hins verra hafi orðið á heilsu stefnanda frá því mat örorkunefndar hafi legið fyrir 14. janúar 2003 og bótauppgjörið farið fram þann 8. mars sama ár. Nemi munur á miskastigi og örorku­stigi samkvæmt mati hinna dómkvöddu matsmanna og álitsgerð örorkunefndar enda aðeins tíu stigum, en breyting um aðeins tíu stig geti sem slík ekki talist veruleg breytinga í skilningi 11. gr. laga nr. 50/1993. Í því efni sé og á það að líta að miska- og örorkumöt séu ekki nákvæmnisvísindi, heldur háð huglægu mati hinna einstöku matsmanna, sem eðli máls samkvæmt sé ekki nákvæmlega það sama hjá öllum. Sé tíu stiga frávik eða mismunur á niðurstöðu hjá mismunandi matsmönnum við mat á sömu eða svipuðum einkennum ekki óeðlilegt.

                Þá sé sá megingalli á mati hinna dómkvöddu matsmanna að ekki hafi verið óskað eftir mati á því hvort breyting hefði orðið á varanlegum afleiðingum slyssins frá því álitsgerð örorku­nefndar lá fyrir 14. janúar 2003 og ef svo væri, hvort um væri að ræða ófyrirsjáanlega breytingu og þá í hverju sú breyting væri fólgin og hverju hún  næmi í stigum talið, heldur hafi stefnandi óskað eftir heildarmati á varanlegum afleiðing­um slyssins. Sé mats­gerðin eftir því. Sé matsgerðin því ekki nein sönnun þess að orðið hafi í reynd ófyrirsjáanleg og veruleg breyting til hins verra á heilsu stefnanda frá því álitsgerð örorkunefndar hafi legið fyrir þannig að skilyrðum 11. gr. laga nr. 50/1993 til endurupptöku sé fullnægt. Hafi heldur ekki verið sýnt fram á það á annan hátt. Beri því að sýkna stefndu þegar af þeirri ástæðu.

                Í annan stað sé sýknukrafa stefndu byggð á því að umstefnd krafa stefnanda sé fyrnd samkvæmt fjögurra ára fyrningarreglu 99. gr. laga nr. 50/1993. Eins og fram komi í matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna hafi stefnandi strax gert athugasemdir við mat örorkunefndar frá 14. janúar 2003 á varanlegum afleiðingum slyssins og talið afleiðingar þess meiri en þar hafi verið metið. Þá kvað hún „einkenni sín hafa farið heldur versnandi frá því mat örorkunefndar fór fram“. Sam­kvæmt læknisvottorði á dskj. 19 hafi stefnandi á árinu 2004 farið á Reykjalund til atvinnulegrar endurhæfingar án þess að verkjavandamál hafi lagast. Einnig komi fram í mats­gerðinni að vegna verri stoðkerfiseinkenna og þunglyndis­einkenna og vegna svefntruflunar hafi stefnandi farið að taka verkjalyf í óhófi og þurft að fara í meðferð á Vog og Vík haustið […].  Þá komi fram á dskj. 24 að stefnandi sé metin til 75% varanlegrar örorku hjá TR 22. júlí 2005 og síðan eftir að hafa verið á endurhæfingarlífeyri hjá TR allt frá 2001. Liggi þannig fyrir að ef og að því leyti sem um frekari bótakröfu sé að ræða en bætt hafi verið með bótauppgjörinu 3. febrúar 2003 á grundvelli álits örorku­nefndar frá 14. janúar 2003, þá hafi stefnandi haft vitneskju um þá kröfu sína og átt þess  kost að leita fullnustu hennar allt frá þeim tíma. Hafi krafan því fallið niður fyrir fyrningu eigi síðar en í árslok 2004 samkvæmt 4 ára fyrningareglu 99. gr. laga nr. 50/1987, en stefna í málinu sé ekki birt fyrr en 6. nóvember 2009. Breyti engu um fyrningu kröfunnar samkvæmt 4 ára fyrningarreglunni þó stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hafi ekki minnst á 4 ára fyrningar­frestinn þegar félagið hafi synjað beiðni stefnanda um framlengingu á 10 ára fyrningar­frestinum, svo sem stefnandi  haldi fram.      

                Ekki sé gerður tölulegur ágreiningur um fjárhæð bóta vegna varanlegs miska og varanlegrar örorku, en kröfu um dráttarvexti sé andmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi, en ella 15. janúar 2012 eða mánuði eftir að stefnandi hafi endanlega lagt fram tölulega og sundurliðaða  dómkröfu.

                Niðurstaða: 

                Í máli þessu er hvorki ágreiningur um bótaskyldu stefndu né tölulegan útreikning á kröfu stefnanda. Ágreiningur einskorðast við hvort leggja eigi niðurstöðu örorkunefndar eða matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna til grundvallar niðurstöðu, en ef fallist verði á að leggja beri hina síðarnefndu til grundvallar er jafnframt ágreiningur um hvort fullnægt sé skilyrðum 11. gr. laga nr. 50/1993 um að ófyrirsjáanleg og verulega breytingu til hins verra hafi orðið á heilsu stefnanda frá því bótauppgjörið 3. febrúar 2003 fór fram. Að auki bera stefndu fyrir sig að skaðabótakrafan sé fyrnd. Loks er ágreiningur um upphafsdag vaxta. 

                Í  þrígang hefur verið lagt mat á miska- og örorkustig stefnanda í kjölfar slyssins 13. nóvember 1999. Í fyrsta sinn var það gert er stefnandi fór þess á leit við C lækni og D hæstaréttarlögmann að þeir mætu líkamstjón stefnanda. Skiluðu þeir mati 11. apríl 2002. Áður en niðurstaða þeirra lá fyrir fór stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., þess á leit við örorkunefnd 21. desember 2001 að nefndin léti í té álit sitt á afleiðingum slyssins. Er álit nefndarinnar dagsett 14. janúar 2003. Í báðum þessum tilvikum var varanlegur miski stefnanda vegna slyssins metin 15% og varanleg örorka 25%, auk tímabundins atvinnutjóns og þjáninga. Loks óskaði stefnandi eftir dómkvaðningu matsmanna 7. janúar 2010 til að meta varanlegan miska og varanlega örorku stefnanda vegna slyssins 13. nóvember 1999. Voru E taugalæknir og F hæstaréttarlögmaður dómkvaddir til starfans. Lá matsgerð þeirra fyrir 25. maí 2010. Hinir dómkvöddu matsmenn mátu varanlegan miska 25% og varanlega örorku 35%, eða 10% stigum hærri en fyrri álit. Byggir stefnandi dómkröfur sínar í máli þessu á hækkun á miska- og örorkustigi samkvæmt matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna.

                Dómstólar hafa á liðnum árum dæmt um tilvik þar sem mati örorkunefndar og mati dómkvaddra matsmanna ber ekki saman í skaðabótamálum. Í dómi Hæstaréttar frá árinu 1999 á blaðsíðu 1668 í dómasafni réttarins frá því ári segir að ekki sé í lögum girt fyrir að afla megi annarra sönnunargagna um miskastig og örorkustig en álits örorkunefndar. Það sé meðal annars unnt að gera með matsgerð dómkvaddra matsmanna. Sé slíkra gagna aflað til viðbótar við álitsgerð örorkunefndar verði dómstólar að skera úr um sönnunargildi þeirra eftir almennum reglum, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991, enda leiði engar réttarreglur til þeirrar niðurstöðu að meira hald sé til sönnunar í öðru hvoru, matsgerð dómkvaddra manna eða álitsgerð örorkunefndar. Í hinu tilvitnaða máli hagaði eins til og í þessu máli að fyrst var leitað álitsgerðar örorkunefndar um miskastig og örorkustig. Í málinu þótti niðurstaða dómkvaddra matsmanna um miskastig síður rökstudd en niðurstaða örorkunefndar um sama efni. Þótti hún því ekki nægja til að hrinda sönnunargildi álitsgerðar örorkunefndar.

                Stefndu halda því fram að stefnanda hafi ekki tekist sönnun þess að önnur eða ný heilsufarsleg einkenni hafi komið fram hjá stefnanda eftir að álit örorkunefndar var gert, né að einkenni stefnanda hafi versnað verulega síðan þá. Einnig hafi stefnandi ekki óskað eftir því að matsmenn legðu mat á hvort um verulega breytingu væri að ræða á varanlegum afleiðingum slyssins frá áliti örorkunefndar, sem hafi verið ófyrirséð. Sé matið gallað að þessu leyti. Við aðalmeðferð málsins komu fyrir dóminn til skýrslugjafar hinir dómkvöddu matsmenn. Staðfestu þeir matsgerð sína og greindu nánar frá einstökum atriðum tengdum matinu. Kváðu þeir báðir breytingu hafa orðið á heilsufari stefnanda frá því að álit örorkunefndar hafi legið fyrir en það byggi matsmenn á greiningu matsmanna sjálfra miðað við fyrirliggjandi gögn málsins og upplýsingar um heilsufar stefnanda og síðan skoðun á stefnanda. Gerður hafi verið ítarlegur samanburður við fyrri möt á miska. Að því er varði tölur um hreyfiferla hafi núverandi tölur verið bornar saman við fyrri tölur hjá örorkunefnd. Þá hafi matsmenn komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi fullnægi nú greiningarskilyrðum fyrir vefjagigt. Það hafi verið breyting á líðan frá áliti örorkunefndar. Líkamleg einkenni stefnanda vegna slyssins hafi verið talsvert meiri en áður.   

                Svo sem fram kemur í matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna tóku þeir til skoðunar atvik er urðu eftir slysið, en um er að ræða tilvik er stefnandi var snúin niður á árinu 2003 og fall í hálku í janúar 2004. Töldu matsmenn ekki hægt að sýna fram á að þessi tilvik hafi valdið varanlegum afleiðingum. Þá lágu einnig fyrir matsmönnum upplýsingar um önnur umferðaróhöpp er stefnandi lenti í. Við mat sitt studdust matsmenn bæði við fyrri álitsgerðir um mat á heilsufari stefnanda og báru saman við nákvæma skoðun á stefnanda, auk þess sem þeir studdust við gögn er þeir sjálfir öfluðu og stafa frá árunum eftir álit örorkunefndar. Eins og mál þetta liggur fyrir dóminum er til úrlausnar hvort einhverjar þær breytingar hafi orðið á heilsufari stefnanda frá því álit örorkunefndar lá fyrir. Eðli máls samkvæmt er matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna í reynd eina sönnunargagnið um þau atriði, en hinir dómkvöddu matsmenn hafa lýst því hvernig núverandi heilsa stefnanda hafi verið borin saman við fyrri álit. Í matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna eru tilgreind atriði, sem áður komu ekki fram. Nú staðreyndu matsmenn í fyrsta sinn [...] einkenni er metin voru til miska. Þau matsgögn er fyrir matsmönnum lágu sýna að matsmenn hafi meðal annars haft undir höndum skýrslur vegna endurhæfingar stefnanda á Reykjalundi á árinu 2004. Í matsgerð er vísað til þessa um [...] einkenni stefnanda. Þá er einnig vísað til þess að stefnandi hafi leitað til [...] Landspítala, en upplýsingar úr rafrænni sjúkraskrá stefnanda á Landspítala var í höndum matsmanna. Í annan stað sannreyndu matsmenn í fyrsta sinn vefjagigt hjá stefnanda. Er niðurstaða um það atriði rökstudd sérstaklega í matsgerðinni og vísað í samanburð á líkamlegri færni stefnanda í október 2002. Loks er hér að nefna að matsmenn tilgreina sérstaklega minni hreyfigetu miðað við bakfettu, snúningshreyfingu og hliðarhalla í hálsi. Í ljósi þessa og þess að matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna er almennt ítarleg um matsefnið og ályktanir vel rökstuddar, bæði að því er varðar varanlegan miska og varanlega örorku, er það niðurstaða dómsins að með henni hafi stefnanda tekist sönnun þess að heilsufar stefnanda hafi breyst frá því álit örorkunefndar lá fyrir og að varanlegur miski stefnanda sé nú 25% og varanleg örorka 35%. Er hér að ófyrirséðar breytingar á heilsufari stefnanda að ræða, þar sem þeirra sér ekki stað í fyrri álitum á heilsufari stefnanda og þar af leiðandi ekkert tillit til þeirra tekið.

                Er þá fyrir að leysa úr hvort hækkun um 10% stig, bæði að því er varðar varanlegan miska og varanlega örorku, fullnægi því skilyrði 11. gr. laga nr. 50/1993 að um verulega breytingu til hækkunar sé að ræða. Hæstiréttur hefur með dómi í máli nr. 516/2009 slegið föstu að ekki eigi að líta til þess hve hækkun sé mikil hlutfallslega séð, eða hvort hún sé ofarlega eða neðarlega í 100 stiga kvarða, heldur skuli litið til þess um hve mörg stig miskinn eða örorkan hækki. Þetta ákvæði skaðabótalaga styðjist meðal annars við þau efnisrök að þar sem niðurstaða um varanlega örorku hljóti ávallt að vera matskennd séu ekki efni til að taka bótaákvörðun upp að nýju nema breyting á örorkustigi sé meiri en svo að hún geti eingöngu ráðist af matskenndum atriðum. Hinn matskenndi þáttur örorkumats sé síst minni við lægstu stig örorku en þegar örorkustig sé hærra. Var talið, í ljósi fordæma Hæstaréttar, að hækkun um 5% stig teldist ekki veruleg í þessum skilningi. Svo sem áður sagði nemur hækkunin í því máli sem hér er til meðferðar 10% stigum, bæði að því er varðar varanlegan miska og varanlega örorku. Er um talsverða hækkun að ræða, enda niðurstaða matsmanna að líkamleg einkenni af völdum slyssins séu ,,talsvert meiri“ hjá stefnanda nú en þegar mat örorkunefndar lá fyrir. Verður því að telja ótvírætt að hækkun matsins ráðist af öðru en einungis matskenndum atriðum. Með hliðsjón af þessu er niðurstaða dómsins sú að hér sé um verulega breytingu til hækkunar að ræða, sem fullnægi því skilyrði 11. gr. laga nr. 50/1993 að heimilt sé að taka fyrri bótaákvörðun upp.

                Svo sem áður greinir er ekki ágreiningur um fjárhæð skaðabóta. Stefndu byggja sýknu hins vegar á því að skaðabótakrafan sé fyrnd og vísa um það til 99. gr. laga nr. 50/1997. Samkvæmt nefndu ákvæði fyrnast allar bótakröfur samkvæmt XIII. kafla laganna, bæði á hendur þeim sem ábyrgð ber og vátryggingafélagi, svo og endurkröfur vátryggingafélags, á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Kröfur þessar fyrnast þó í síðasta lagi á tíu árum frá tjónsatburði. Stefnandi tók við bótum á grundvelli álits örorkunefndar 3. febrúar 2003. Þó svo hún kunni að hafa verið ósátt við fyrri ákvörðun á varanlegum miska og varanlegri örorku er ljóst að breytingar á heilsufari hennar á árunum þar á eftir urðu til þess að stefnandi öðlaðist frekari skaðabótarétt á hendur stefndu. Tjón þetta varð ekki sannreynt fyrr en með mati  hinna dómkvöddu matsmanna 25. maí 2010. Var krafan því ekki fyrnd er mál þetta var höfðað 6. nóvember 2009.

                Stefnandi hefur uppi kröfu um 4,5% ársvexti frá 6. nóvember 2005 til 19. september 2010, en dráttarvexti samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Stefndu staðhæfa að þau hafi fyrst fengið í hendur frá stefnanda tölulega sundurliðun á dómkröfum í þinghaldi 15. desember 2011. Fyrir liggur þó að matsgerð dómkvaddra matsmanna, sem kröfur stefnanda byggjast á, var send stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., í tölvupósti 19. ágúst 2010. Með vísan til þessa tölvupósts neitaði stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiðslu í tölvupósti 14. október s.á. Samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 bera skaðabótakröfur dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta. Af tölvupósti stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., 14. október 2010 verður ráðið að stefndi telji sig hafa haft nægar upplýsingar um kröfuna til að geta tekið afstöðu til hennar, enda útreikningur kröfunnar ekki flókinn. Verður samkvæmt því að telja stefnanda hafa lagt fram þær upplýsingar er þörf var á í tölvupóstinum 19. ágúst 2010. Samkvæmt því ber fjárhæðin dráttarvexti frá 19. september 2010.  

   Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar sem verður ákveðin eins og í dómsorði greinir. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Gjafsóknin takmarkast við réttargjöld, þóknun lögmanns og undirmatsgerð.

Af hálfu stefnanda flutti málið Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður, en af hálfu stefndu Hákon Árnason hæstaréttarlögmaður.

                Dóminn kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

                                                                               D ó m s o r ð:

                Stefndu, A og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði óskipt stefnanda, B, skaðabætur að fjárhæð 3.789.084 krónur, ásamt 4,5% ársvöxtum frá 6. nóvember 2005 til 19. september 2010, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

   Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda að því er varðar réttargjöld og matsgerð greiðist úr ríkissjóði, sem og þóknun lögmanns hennar, 803.200 krónur.