- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Föstudaginn 20. júní 2012. |
Nr. 504/2012. |
Lögreglustjórinn
á höfuðborgarsvæðinu (Stefán Eiríksson lögreglustjóri) gegn X (Stefán Karl Kristjánsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X
skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr.
88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Greta Baldursdóttir hæstaréttardómari og Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson settir hæstaréttardómarar.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. júlí 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júlí 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt þar til dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 15. ágúst 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna
hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur
miðvikudaginn 18. júlí 2012.
Lögreglustjórinn
á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að
kærða, X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi
gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til
miðvikudagsins 15. ágúst 2012, kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur
fram að með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur frá 20. júní í máli nr. R-324/2012
hafi kærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 18. júlí 2012 á
grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 vegna
auðgunarbrota sem framin hafi verið á tímabilinu frá lok apríl til 19. júní.
Gefin
hafi verið út ákæra, dagsett 13. júlí 2012, á hendur kærða og öðrum meðkærðu
sem send hafi verið héraðsdómi Reykjavíkur sama dag, en þar sé kærði ákærður
fyrir 12 auðgunarbrot þar á meðal innbrot í íbúðarhúsnæði, einn og einnig í
félagi með öðrum, frá apríl til 19. júní sl. Um sé að ræða um 12 tilvik og séu
flest þessara brota játuð og sé kærði því undir sterkum grun um brot er varða
við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19. 1940.
Kærði
hlaut þann 29. júní sl. þriggja mánaða fangelsisdóm í máli nr. S-1577/2011 við
héraðsdóm Reykjavíkur fyrir líkamsárás og þjófnað. Kærða hafi verið birtur
dómurinn hinn 3. júlí og hafi hann tekið sér frest á meðan á áfrýjunarfrestur
varir. Sá dómur sé því ekki fullnustuhæfur.
Það sé
mat lögreglu að hér sé um að ræða afbrotahrinu sem nauðsynlegt sé fyrir
lögreglu að stöðva og að ljúka málum á kærða. Brotaferill kærða hafi verið
samfelldur frá því í lok apríl sl. en kærða hafi verið gert að sæta
gæsluvarðhaldi frá 25. maí til 29. maí sl. á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr.
sakamálalaga nr. 88/2008 en hann hafi verið tekinn við innbrot hinn 24. maí sl.
Með
vísan til brotaferils kærða á undanförnum vikum, sé það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi
líkur séu á því að kærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða
sinna og það sé brýnt fyrir lögreglu að geta lokið þessum málum á kærða fyrir
dómi. Það sé mat lögreglu að sakborningur muni ekki fá skilorðsbundinn dóm,
vegna fjölda málanna og alvarleika brotanna. Ákæruvaldið muni nú hraða málum
hans og mun ákæra væntanlega verða þingfest fyrir héraðsdómi á allra næstu
dögum.
Með
vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88,
2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og
hún er sett fram.
Fyrir liggur
að lögregla hefur til meðferðar mál á hendur kærða vegna gruns um aðild að
fjölda þjófnaðarbrota, sem mörg hver eru innbrot í íbúðarhúsnæði, og hefur
ákæra verið gefin út á hendur honum ásamt meðkærðu. Þar kemur fram að kærða er
gefið að sök að hafa framið eftirtalin þjófnaðarbrot, ýmist einum eða í félagi
við aðra, með því að hafa:
- Mánudaginn 23. apríl, brotist
inn í íbúðarhúsnæði við [...], með því að spenna upp glugga og stolið
þaðan áfengi og tveimur fartölvum.
Mál nr. 007-2012-[...]
- Föstudaginn 27. apríl, brotist
inn í íbúðarhúsnæði við [...], með því að spenna upp glugga og stolið
þaðan Blacberry farsíma, tveimur Nokia farsímum,
Toshiba fartölvu, áfengi, myndavélatösku, Canon myndavélalinsu, fjarstýringu, minniskorti,
myndavél og mynt 90.000 kr.
Mál nr. 007-2012-[...]
- Sunnudaginn 20. maí, brotist inn
í íbúðarhúsnæði við Dverghamra 48, með því að spenna upp hurð og stolið
þaðan Philips rakvél, hárklippuvél, 32“ flatskjá
og Philips heyrnartólum.
Mál nr. 007-2012-28142
- Þriðjudaginn 22. maí, brotist
inn í íbúðarhúsnæði við [...], með því að spenna upp glugga og stolið
þaðan fartölvu, tölvumús, sjónvarpsflakkara, þráðlausum heyrnartólum, Canon myndavél, Olympus
myndavél, skartgripum, Nokia farsíma, Kindle Touch lestölvu og vegabréfi, en hlaupið á brott með
þýfið er húsráðandi kom að þeim.
Mál nr. 007-2012- [...]
- Fimmtudaginn 24. maí, brotist
inn í íbúðarhúsnæði við [...], með því að spenna upp glugga og stolið
þaðan 42“ flatskjá, matvælum, 15 DVD myndum, áfengi, tóbaki og
rauðvínsopnara.
Mál nr. 007-2012-[...]
- Föstudaginn 25. maí, brotist inn
í bílskúr við íbúðarhúsnæði að [...], með því að spenna upp glugga og
stolið þaðan Bosh hleðsluskrúfvél.
Mál nr. 007-2012-[...]
- Laugardaginn 12. maí, brotist
inn í íbúðarhúsnæði að [...], með því að spenna upp svalahurð og stolið
þaðan fartölvutösku, fartölvu og 90.000 kr sem
voru ofan í fartölvutöskunni.
Mál nr. 007-2012-[...]
- Föstudaginn 1. júní, brotist inn
í íbúðarhúsnæði að [...], með því að spenna upp glugga og safnað saman
tölvu, þremur peningaveskjum, myndavél og skartgripum sem hann hugðist
stela, húsráðandi kom þar að ákærða og tókst að tefja um fyrir honum uns
lögregla kom á vettvang skömmu síðar.
Mál nr. 007-2012-[...]
- Föstudaginn 15. júní, brotist
inn í íbúðarhúsnæði að [...], með því að fara inn um þvottahúsdyr og
stolið þaðan 40“ Philips sjónvarpstæki,
flakkara, vegabréfi, greiðslukortum, Playstation
III leikjatölvu, Dell fartölvu og Blackhawk Skvass spaðatösku.
Mál nr. 007-2012-[...]
- Tilraun til þjófnaðar, með því
að hafa sunnudaginn 17. júní, í auðgunarskyni, brotist inn í íbúðarhúsnæði
að [...], með því að spenna upp glugga en horfið á braut þegar
öryggiskerfi fór í gang.
Mál nr. 007-2012-[...]
- Þriðjudaginn 19. júní, í
versluninni [...], [...], stolið borvél af gerðinni [...] SD 5000-A22.
Mál nr. 007-2012-[...]
- Þriðjudaginn 19. júní, brotist
inn í íbúðarhúsnæði að [...], með því að brjóta upp hurð, safnað saman í
tösku Canon myndavél, fatnaði, skóm, áfengi,
matvælum og verkfærum sem þeir hugðust stela en lögregla kom að ákærðu á
vettvangi og handtók þá.
Mál nr. 007-2012-[...]
Af
rannsóknargögnum verður ráðið að kærði játaði fyrir lögreglu aðild sína að
mörgum framangreindra brota. Hér fyrir dóminum kvaðst kærði ekki vilja tjá sig
um þau brot, sem honum hafa verið gefin að sök, en kvaðst síðar neita öllum
sakargiftum. Að virtum gögnum málsins er það mat dómsins að kærði sé undir
rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð
við. Kærði hefur verið í mikilli neyslu fíkniefna og er það ætlun lögreglu að
hann fjármagni þá neyslu sína með innbrotum. Í þessu ljósi og með hliðsjón af
sakarferli kærða verður að ætla að hann muni halda áfram brotum ef hann verður
leystur úr haldi. Skilyrði c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er því
fullnægt. Verður því krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um
áframhaldandi gæsluvarðhald kærða tekin til greina eins og nánar greinir í
úrskurðarorði. Þykja ekki efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en
krafist er.
Arnfríður
Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 15. ágúst 2012, kl. 16.00.