- Líkamsárás
- Skýrslugjöf
- Ómerking héraðsdóms
- Heimvísun
|
Fimmtudaginn 13. desember 2007. |
|
Nr. 244/2007. |
Ákæruvaldið (Sigríður Elsa Kjartansdóttir, saksóknari) gegn X(Björn L. Bergsson hrl.) Y og(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.) Z(Páll Arnór Pálsson hrl.) |
|
Líkamsárás. Skýrslugjöf. Ómerking héraðsdóms. Heimvísun.
Héraðsdómur var ómerktur þar sem þess hafði ekki verið gætt við aðalmeðferð málsins að skýrslur vitna á íslensku væru túlkaðar fyrir sakborninga, sem ekki voru mæltir á íslenska tungu. Þótti þetta í andstöðu við 13. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. e. lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. apríl 2005 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingum ákærðu en þyngingar á refsingu og að ákærðu verði sameiginlega gert að greiða A 523.615 krónur, auk vaxta og dráttarvaxta eins og greinir í ákæru 5. maí 2006 og ákærðu X verði gert að greiða B 256.025 krónur, auk vaxta og dráttarvaxta eins og greinir í ákæru 14. nóvember 2006.
Ákærða X krefst aðallega frávísunar málsins frá héraðsdómi en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa vegna ákæruatriða samkvæmt ákæru 5. maí 2006 og sýknu af ákæru 14. nóvember 2006.
Ákærði Y krefst aðallega sýknu, en til vara að ætlað brot hans verði heimfært til 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og refsing felld niður, en að því frágengnu að ákvörðun refsingar verði frestað skilorðsbundið, en ella að hún verði milduð. Þá krefst hann aðallega frávísunar bótakröfu frá héraðsdómi, til vara sýknu, en að því frágengnu að bætur verði lækkaðar.
Ákærði Z krefst aðallega ómerkingar héraðsdóms og heimvísunar en til vara krefst hann sýknu. Þá krefst hann sýknu af skaðabótakröfu en ella að henni verði vísað frá dómi.
Aðalmeðferð fór upphaflega fram í máli þessu 24. október 2006 og var þá bókað í þingbók að nafngreindur túlkur sé mættur í dóminn og muni túlka fyrir ákærðu. Málið var þá dómtekið og boðað jafnframt til dómsuppsögu 10. nóvember 2006. Þann 3. nóvember var málið tekið fyrir að nýju að viðstöddum verjendum ákærðu, réttargæslumanni brotaþola og fulltrúa ákæruvalds. Var þá bókað eftirfarandi í þingbók: „Til þinghalds þessa var boðað til að taka upp mál þetta og boða til framhaldsaðalmeðferðar, þar sem dómurum þótti túlkun á framburði ákærðu við aðalmeðferð afar ónákvæm og á stundum villandi. Því er ákveðið að fá nýjan túlk til starfans og boða til nýrrar aðalmeðferðar sem háð verður fimmtudaginn 14. desember nk...“
Í þinghaldi 4. desember 2006 var mál vegna ákæru 14. nóvember 2006 á hendur ákærðu X sameinað hinu fyrra máli.
Aðalmeðferð málsins hófst að nýju 14. desember 2006 og var fram haldið í þinghöldum 20. og 21. desember og loks 9. janúar 2007 og voru endurteknar allar skýrslutökur af ákærðu og vitnum og málið síðan flutt munnlega að nýju. Í fyrsta þinghaldinu voru ákærðu mætt og bókað var að nafngreindur túlkur hefði verið fenginn til að túlka fyrir þau, en ekki hafði verið völ á löggiltum túlki til starfans. Í því þinghaldi var tekin skýrsla meðal annars af A, kæranda í málinu. Í málflutningi fyrir Hæstarétti héldu verjendur ákærðu því fram að framburður vitna á íslensku hafi ekki verið túlkaður fyrir ákærðu, hvorki jafnhliða skýrslugjöf né í lok hennar. Í þingbók er eins og fyrr segir einungis bókað í upphafi þinghalds að nafngreindur túlkur sé þar mættur til að túlka fyrir ákærðu.
Í 13. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála er kveðið á um skyldu til að kalla til túlk ef sakborningur, vitni eða annar sem gefur skýrslu fyrir dómi er ekki nægilega fær í íslensku. Ákvæði þetta ber að túlka til samræmis við e. lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, um að það séu lágmarksréttindi þess sem sökum er borinn um refsiverða háttsemi að hann fái ókeypis aðstoð túlks við málsmeðferð ef hann skilur hvorki né talar það mál sem notað er fyrir dómi. Hefur og verið talið að sé þessa ekki gætt teljist sakborningur ekki hafa notið réttlátrar málsmeðferðar í skilningi 1. mgr. 6. gr. sáttmálans. Af þingbók málsins verður ekki ráðið að skýrslur vitna á íslensku hafi verið þýddar fyrir sakborninga, hvorki jafnóðum né að þeim loknum og er þar á meðal skýrsla af kæranda málsins. Er málsmeðferð að þessu leyti í andstöðu við áðurnefnt ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og því óhjákvæmilegt að ómerkja meðferð héraðsdóms á málinu og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til meðferðar að nýju og endurtaka þær skýrslur vitna sem fram fóru á íslensku til þess að þær verði túlkaðar.
Ákvörðun um sakarkostnað bíður endanlegs dóms að öðru leyti en því að málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu fyrir Hæstarétti greiðast úr ríkissjóði og eru þau ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur er ómerktur og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til meðferðar að nýju og endurtaka þær skýrslur vitna sem fram fóru á íslensku til þess að þær verði túlkaðar fyrir ákærðu.
Ákvörðun sakarkostnaðar bíður endanlegs dóms að öðru leyti en því að málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu fyrir Hæstarétti, hæstaréttarlögmannanna Björns L. Bergssonar, Guðjóns Ólafs Jónssonar og Páls Arnórs Pálssonar, 311.250 krónur til hvers þeirra, greiðast úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. janúar 2007.
Mál þetta var höfðað með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 5. maí sl., á hendur X, [kt. og heimilisfang], Þ, [kt. og heimilisfang], Y, [kt. og heimilisfang], Z, [kt. og heimilisfang], Ö, [kt. og heimilisfang], og Æ, [kt. og heimilisfang] fyrir stórfellda líkamsárás með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 4. apríl 2004, í Þingholtsstræti í Reykjavík, í sameiningu ráðist að A, [kt.], með höggum og spörkum og ákærðu X og Z slegið hann í andlit og höfuð með glerflöskum með þeim afleiðingum að A hlaut fjögurra sm langan skurð á hægri augabrún, þriggja til fjögurra sm langan skurð á gagnauga vinstra megin, eins til tveggja sm langan skurð á hnakka og nefbrotnaði.
Ákæruvaldið telur þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 11. gr. laga nr. 82/1998, og krefst þess að ákærðu verði dæmd til refsingar.
Af hálfu A er krafist skaðabóta að fjárhæð 23.615 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 2.938 krónum frá 14. apríl 2004 til 11. júní 2004 og af 23.615 krónum frá 11. júní 2004 til greiðsludags, miskabóta að fjárhæð 500.000 krónur með vöxtum skv. 8. gr. vaxtalaga frá tjónsdegi til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar en síðan með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags, þjáningabóta að fjárhæð 29.008 krónur með vöxtum skv. 8. gr. vaxtalaga frá tjónsdegi til þess dags er mánuður var liðinn frá birtingu kröfunnar en síðan með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. Loks er gerð krafa um málskostnað vegna þóknunar lögmanns fyrir að halda uppi bótakröfu.
Önnur ákæra lögreglustjórans í Reykjavík ,útgefin 14. nóvember 2006, var gefin út á hendur X, [kt. og heimilisfang] ,,fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 5. júní 2005 á veitingastaðnum C, veist að B og slegið í andlitið með glasi og dregið niður á gólf með þeim afleiðingum að hún hlaut skurð yfir vinstra kinnbein og við vinstra eyra auk þess sem hún hlaut fjölda sára á andlit og útlimi, mar á brjóstkassa og tognun á hægri öxl“.
Ákæruvaldið telur þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og krefst þess að ákærðu verði dæmd til refsingar.
Af hálfu B, er krafist skaðabóta að fjárhæð 254.025 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 5. júní 2005, til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafan var birt sakborningi en dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi, til greiðsludags.
Af hálfu ákærðu Þ, Z, Ö og Æ er krafist sýknu. Af hálfu ákærðu, X og Y, er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefjast ákærðu þess að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara sýknu af kröfunni. Þá er krafist málsvarnarlauna til handa verjendum, og að allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.
Ákærða, X, krefst sýknu af ákæru frá 14. nóvember 2006. Þá krefst hún þess að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara sýknu af kröfunni. Þá krefst verjandi hennar málsvarnarlauna að mati dómsins.
Málsatvik varðandi ákæru Ríkissaksóknara frá 5. maí 2006.
Aðfaranótt sunnudagsins 4. apríl 2004 fóru lögreglumenn að skemmtistaðnum D á horni [...] vegna tilkynningar um að þar væri maður blóðugur utandyra, eftir líkamsárás. Á vettvangi veittu lögreglumenn athygli sjúkraflutningabifreið sem var í þá mund að aka af stað. Hittu lögreglumenn fyrir E sem sagðist hafa orðið vitni að því er sex menn, sem væru allir frá Tælandi, réðust að A, sambýlismanni E. Rætt var við A á slysadeild. Kvaðst hann hafa orðið fyrir árás Tælendinga sem hann ekki þekkti og hafa verið laminn með bæði flösku og glasi í höfuðið, sleginn og fengið í sig spörk. Þá var hann blóðugur og föt hans kámug af blóði. E kvaðst þekkja til árásaraðilanna, og vissi hún gælunöfn þeirra.
A lagði fram kæru hjá lögreglu 16. apríl 2004. Sagði hann svo frá að hann hefði farið út að skemmta sér ásamt unnustu sinni, E, og hefðu þau farið á veitingastaðinn C. Hefðu verið þar fyrir fimm karlmenn og ein kona sem höguðu sér þannig að A fannst að hann gæti átt von á einhverju illu frá þeim. Að sögn A héldu hann og E áfram í átt að miðbænum, en á leiðinni út af C sparkaði einhver úr hópnum í hægra læri A. Fóru þau E á veitingastaðinn D. Hópurinn af C kom inn á D á eftir þeim og hélt áfram að skipta sér af A. Kvaðst hann hafa rætt við tvo þeirra og taldi sig hafa náð samkomulagi við þá um að hann fengi að vera í friði, en ákvað samt að yfirgefa staðinn ásamt E. Lýsti A meintri árás svo að á horni Bankastrætis og Þingholtsstrætis hefði verið sparkað í bak hans og hefði það verið annar mannanna sem hann ræddi við, sá sami og hefði sparkað í hann á C. Kvaðst A hafa snúist gegn árásarmönnunum og fengið hjálp vegfaranda sem gekk á milli og sagði „Þið ráðist ekki allir á hann“! A kvaðst hafa reynt að hafa hemil á manninum er sparkaði í hann, en þá hafi hann fundið að glas brotnaði á höfði hans, og að hann var sleginn með flöskum og hefði önnur þeirra brotnað. Kvaðst A hafa vankast við þetta og hafa verið hættur að sjá vegna blóðs í andliti og vegna þess að gleraugun duttu af honum. Hefði hann verið sleginn á nefið vinstra megin þannig að það sneri út á hægri kinn, auk þess sem hann fékk fleiri högg. Fólkið hefði skyndilega haft sig í burtu og árásinni lokið.
Ákærði, Þ, gaf skýrslu hjá lögreglu 4. júní 2004. Hann kvaðst ekki hafa tekið þátt í árásinni, en hafa farið að skilja á milli þegar A veittist að konu hans, X. Þegar Þ kom að slagsmálunum hefði A verið orðinn blóðugur. Hann kvaðst ekki telja að neinir af áverkunum væru af sínum völdum.
Ákærða, X, sagði svo frá hjá lögreglu 4. júní 2004 að þegar hún kom út af veitingastaðnum D hefði glasi verið fleygt í átt að henni, sem hefði splundrast á vegg þannig að hún meiddist á vinstri hendi. Hefði hún talið að A hefði kastað glasinu, reiðst við það, tekið flösku og slegið A aftan á hnakkann með henni. Hefði ákærði, Þ, þá gengið á milli, haldið A frá og dregið X af vettvangi.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu 20. desember 2005 kvaðst ákærða ekki muna hvort flaskan sem hún sló A með hefði brotnað. Kvaðst hún ekki treysta sér til að lýsa þætti hvers og eins í átökunum.
Ákærði, Y, sagði svo frá hjá lögreglu 8. júní 2004 að hann hefði ekki sparkað í A fyrir utan skemmtistaðinn, heldur hefði hann farið að A og reynt að tala við hann og spyrja hvað hann hefði átt við er þeir ræddu saman inni á salerni skemmtistaðarins. A hefði þá hrint honum og hefði hann þá sparkað í rassinn á A. Hópur Íslendinga hefði komið og reynt að róa fólkið en ákærði, Ö, staðið hjá og beðið. Annar hópur Íslendinga hefði veist að Ö og þannig hafist áflog. Vinir ákærða hefðu komið út af D. Ákærði kvaðst hafa reynt að aðstoða Ö, en hann kvaðst ekki hafa ráðist að A hvorki með hnúum né flöskum, heldur aðeins hafa sparkað í rassinn á honum.
Þá gaf ákærði skýrslu fyrir lögreglu 28. desember 2005. Sagði hann frá með svipuðum hætti og áður, að A hefði sett hendurnar upp eins og hann ætlaði að fara að slást þegar Y kom að honum fyrir utan D. Kvaðst hann því hafa sparkað einu sinni í rassinn á A. Einhverjir hefðu þá verið að ráðast á ákærða, Ö vin hans, og hann farið þangað. Þá hefði hann reynt að slá A einu sinni en ekki vitað hvort hann hitti. Þarna hefði verið hópur af Íslendingum og Tælendingum, en hann hefði ekki séð neinn nota flösku á A. Þó hefði hann heyrt eitthvað brotna. A hefði verið blóðugur í framan þegar lögreglan kom. Ákærði, Y, kvaðst ekki telja að áverkar á A gætu verið eftir sig.
Ákærði, Z, sagði þannig frá við skýrslutöku hjá lögreglu 9. júní 2004 að hann hefði verið síðastur út af D ásamt konu sinni, F, og þá séð að vinahópur hans hefði lent í einhverjum átökum. Hefði verið þvaga af Íslendingum þarna ásamt vinahóp ákærða, Z. Átökin hefðu verið yfirstaðin er þau komu út. Þau hafi því farið af vettvangi ásamt vinum sínum. Z kvaðst ekki hafa tekið sérstaklega eftir A á staðnum. Z kvað ekki rétt að hann hefði slegið A í höfuðið með flösku. Hann kvaðst ekki telja að neinir áverkar A gætu verið eftir sig.
Ákærði, Ö, gaf skýrslu 10. júní 2004 og sagðist ekki hafa komist að A, og sagðist ekki hafa séð að vinir hans kæmust að honum eða að þeir hafi veitt honum áverka. Ö kvaðst ekki telja að áverkar á A gætu verið eftir sig.
Ákærði, Æ, sagði svo frá hjá lögreglu 11. júní 2004 að ákærða, X, hefði verið blóðug á hendinni er hann kom út af skemmtistaðnum D. Hann hefði fylgt vinahópnum af vettvangi. Kvaðst ákærði muna eftir að hafa séð A blóðugan en sagði ekki rétt að allur hópurinn hefði ráðist á A. Hópur Íslendinga hefði verið í kringum A. Hann kvaðst ekki telja að áverkar á A gætu verið eftir sig.
Vitnið, E, gaf skýrslu hjá lögreglu 2. júní 2004. Kvað hún þau ákærða hafa ákveðið að yfirgefa D, en þau hefðu verið vöruð við því að þau lentu í vandræðum ef þau færu ekki. Er þau komu út af staðnum hefði ákærði, Ö, og ákærði, Y, beðið hinum megin við götuna og komið á eftir þeim er þau gengu niður Bankastrætið. Árásin hefði hafist á því að Y sparkaði aftan á læri A, A hefði reynt að halda Y frá sér og vegfarandi haldið Ö frá. Mágur ákærðu, X, hefði þá komið og slegið A aftan á hnakkann með flösku, og teygt sig eftir annarri flösku. Hefði svo allur hópurinn komið út af D og ráðist á A. E kvað árásina hafa verið stutta, alla hafa tekið þátt í henni, þannig að sumir hefðu slegið með hnefa eða flösku og aðrir hefðu sparkað. Kvaðst hún hafa séð ákærðu, X, slá A í höfuðið með flösku. Hefði árásinni lokið skyndilega og hópurinn látið sig hverfa.
Þá gaf E skýrslu hjá lögreglu 21. desember 2005. Hún sagði frá með sama hætti og áður en kvaðst ekki hafa séð þegar ákærði, Y, sparkaði fyrst í A. Hún sagðist þó hafa séð þá ákærðu, Y og Ö, sparka einhvers staðar í A, og [...] (sem er gælunafn Æ) kýla hann, þá hefði hún séð Þ sparka í A. Þegar ákærða, X, kom og sló A með flösku í höfuðið hefði flaskan brotnað. Einhverjir Íslendingar hefðu komið og reynt að stöðva slagsmálin en þá hefði hópurinn hætt árásinni á A, og lögreglan komið á staðinn stuttu síðar.
Vitnið, F, gaf skýrslu 9. júní 2004, og sagðist hafa verið á D umrædda nótt ásamt manni sínum, ákærða Z. Þegar þau komu út af D hefði hún séð að vinahópur þeirra hefði lent í einhvers konar átökum. Hún hefði beðið Z að skipta sér ekki af þessu og þau farið af vettvangi ásamt vinahópnum enda hefðu átökin verið afstaðin.
Í málinu liggur frammi læknisvottorð, dagsett 12. maí 2004, undirritað af Birgi Briem lækni. Þar kemur fram að A hafi komið á slysadeild aðfaranótt 4. apríl 2004. Var hann þá með fjögurra sm skurð á hægri augabrún sem hafi verið lokað með fimm sporum. Á gagnaugasvæði var hann með þriggja til fjögurra sm langan skurð í gegnum höfuðleður sem var lokað með fimm sporum. Aftan á hnakka var eins til tveggja sm skurður og var eitt spor sett þar. Sári á nefi var lokað með plástri. Tíu dögum seinna, 14. apríl, leitaði A á háls- nef -og eyrnadeild. Litu skurðirnir allir vel út og saumar voru teknir úr þeim. Það þreifaðist innkýlt nefbrot vinstra megin, bæði var stallur í beininu og nefið vísaði yfir til hægri. Var A hvellaumur yfir nefinu þeim megin. Þá var hann aumur yfir kinnbeininu vinstra megin en það reyndist ekki brotið. Gerð var nefrétting og mjög góð lega fékkst á nefbrotinu. A leitaði aftur á háls- nef- og eyrnadeild 19. apríl og hafði nefbrotið þá sigið aftur á sinn stað. Var hann því svæfður og nefbrotinu lyft upp, góð lega var á brotinu í eftirliti 23. apríl 2004 og hafði hann ekki leitað á göngudeild aftur er vottorðið var ritað.
Með bréfi lögreglustjórans í Reykjavík frá 20. apríl 2005 var tilkynnt um að mál þetta væri fellt niður, sbr. 112. gr. laga nr. 19/1991. Lögmaður brotaþola óskaði eftir skriflegum rökstuðningi fyrir niðurfellingu málsins með bréfi 26. apríl 2005. Rökstuðningur lögreglustjórans kemur fram í bréfi frá 11. maí 2005, en lögmaður brotaþola kærði ákvörðun lögreglustjórans með bréfi 19. maí 2005 til ríkissaksóknara. Með bréfi ríkissaksóknara, 20. júní 2005 var ákvörðun lögreglustjórans í Reykjavík um að fella málið niður felld úr gildi og lagt fyrir lögreglustjórann í Reykjavík að taka málið til frekari rannsóknar. Ákæra ríkissaksóknara var svo gefin út, eins og fyrr greinir, 5. maí 2006.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærða, X, skýrði svo frá að hún hafi slegið A með flösku í höfuðið vegna þess að hann hafi tekið glas og hent að henni og hafi brot úr glasinu hitt hana í höndina. Hún kvaðst ekki vita hvers vegna A hefði brotið glasið. Hún hafi verið að koma frá D og á gangstétt fyrir utan D hafi hann hent glasinu að henni. Hafi margir komið þar að og kærasti hennar hafi dregið hana út úr þvögunni. Hún kvaðst hafa tekið flöskuna sem hún sló A með, á gangstéttinni. Hún kvað flöskuna hafa lent aftan á hnakka A, en hún hafi ekki brotnað. Hún kvaðst ekki telja að áverkar A, 4 cm langur skurður á hægri augabrún eða 3-4 cm langur skurður á gagnauga vinstra megin, væru af sínum völdum, þar sem flaskan hafi ekki brotnað. Þá kvaðst hún telja ólíklegt að hún ætti sök á áverkum á hnakka A. Hún kvaðst ekki hafa séð ákærða, Þ, gera neitt. Hann hafi einungis verið að reyna að fá hana til að hætta og viljað fara með hana heim. Hún kvaðst ekki hafa séð ákærða, Y, slá A og sagðist ekki hafa tekið neitt sérstaklega eftir þar sem hún hafi verið rifin í burtu. Hún kvaðst ekki hafa séð ákærða, Z, eða ákærða, Ö, gera neitt. Hún kvað nokkra Íslendinga hafi komið að og ráðist að Ö. Fullt af fólki hafi þust að þegar þetta gerðist. Hún kvaðst hafa verið í hóp með öðrum ákærðu og síðan hafi hópur af Íslendingum komið þarna að. Hún gæti ekki sagt nákvæmlega hve margir, því að hún hafi verið í uppnámi. Kvað hún Tælendingana sem voru með henni hafa verið F, Þ, G og einhverja fleiri og einnig kvað hún alla ákærðu hafa verið með henni í hópi. Hún kvaðst hafna bótakröfu A.
Hún kvað A hafa verið fyrir utan skemmtistaðinn þegar þau komu út og kvaðst hún hafa komið út með vinkonu sinni, G. Hún kvað ekki hafa liðið langan tíma áður en ákærði, Þ, eiginmaður hennar, dró hana úr átökunum. Áður en hann dró hana í burtu vissi hún ekki að hann væri á staðnum. Hún kvaðst hafa séð E þar sem hún stóð við götuna.
Ákærði, Y, kvaðst ganga undir gælunafninu [...]. Hann kvaðst kannast við þáverandi unnustu A, E. Þetta kvöld hefði hann fyrst farið á C og þar hefðu A og E verið. Hafi hann farið að spjalla við E og ekki vitað að hún væri kærastan hans. A hafi þá orðið afbrýðisamur. Þeir hafi eitthvað verið að tuskast hvor í öðrum út af þessu inn á staðnum. Hann kvaðst síðan hafa farið á D og þegar hann hafi verið að dansa hafi hann verið kallaður inná klósett. Þar hafi A gripið í skyrtuna hans og sagst vilja berja hann og sagt honum að hunskast heim. Síðan hafi hann farið þaðan ásamt Ö. Þegar þeir komu út, hafi þeir hitt A og kvaðst ákærði hafa sparkað í rassinn á A. Það hafi 4-5 Íslendingar komið að og farið að slást við meðáærða, Ö. Margir hafi verið á götunni og á gangi þar fram hjá. Hann kvaðst ekki hafa tekið eftir þegar meðákærða, X, sló A í höfuðið með flösku en kvaðst hafa heyrt glas brotna. Ákærði kvað að eftir að ákærða, X, sló A með flöskunni hafi allir Tælendingarnir verið þarna saman komnir.
Ákærði kvaðst ekki hafa veitt A áverkana sem hann fékk og aðeins sparkað í rassinn á honum. Hann hafi heldur ekki séð þegar hann fékk þessa áverka og kvaðst ekki vera viss um hver hafi veitt honum áverkana, því þarna hefði verið fjöldi manns. Hann kvaðst hafa slegið hann en kvaðst ekki vera viss hvar höggið lenti, á A eða einhverjum öðrum. Hann kvaðst ekki telja að hann væri valdur að áverkum A og hafnar bótakröfu hans. Hann taldi sig ekki hafa staðið að árás að A í sameiningu eða félagi við aðra heldur hafi þetta verið slagsmál sem hafi brotist út. Hann kvaðst ekki vera viss um hvort hann hafi slegið A í höfuðið eða andlitið en kvaðst þó vita að hann hafi kýlt einu sinni en kvaðst ekki vera viss um hvern hann hefði hitt, þar sem þarna var margt fólk. Hann kvað meðákærða, Ö, ekki hafa sparkað í A eða kýlt hann og hafi ákærði, Ö, staðið fyrir aftan hann. Síðan hafi 4-5 Íslendingar komið að sem hafi ráðist að Ö og slegið hann í andlitið með flösku. Ö hafi ekkert komist í átökin við A. Ákærði sagðist ekki hafa tekið neinn þátt í þeim átökum sem Ö átti í við hópinn. Hann kvað að eftir að hann sparkaði í A hafi þeir þrír staðið þarna saman og ekki hafi liðið langur tími þar til hópur Íslendinga hafi komið að. Hann kvaðst ekki vita hvort Íslendingarnir hafi ráðist á einhvern annan en ákærða, Ö.
Ákærði kvaðst ekki hafa tekið eftir því hvort meðákærði, Z, kom út af veitingastaðnum fyrir eða eftir að átökin áttu sér stað og kvaðst ekki hafa séð Z brjóta flösku á höfði A. Hann kvaðst hafa séð eiginkonu ákærða, Z, F á staðnum.
Ákærði kvað meðákærða, Æ, hafa verið inni á klósettinu á D og hafi hann verið að stilla til friðar og túlka á milli. Hann kvaðst ekki hafa séð meðákærða, Æ, slá eða sparka í A og kvaðst ekki heldur hafa séð meðákærða, Þ, slá til A.
Ákærði, Þ, kvaðst hafa kannast við A og E fyrir þetta atvik en hann hafi ekki tekið þátt í árás á A fyrir utan D. Hann kvaðst hins vegar hafa séð A þarna og þegar hann hafi komið að hafi A og meðákærða, X, eiginkona hans, verið að slást. Hann hafi þá rifið í hana og sagt henni að koma heim. Hann kvaðst hafa verið á C fyrr um kvöldið og hringt hafi verið í hann þar og honum sagt að meðákærða, X, ætti í vandræðum við einhverja útlendinga og hann ætti að fara með hana heim. Hafi hann þá farið strax á D, en ekki séð hana þar. Honum hafi verið sagt að hún væri farin. Er hann hafi farið út, hafi hann séð þau A vera að slást. Hann hafi dregið meðákærðu út úr slagsmálunum. Ákærði kvað A hafa verið með flösku í hendinni. Hann kvað þetta hafa verið einu samskipti hans við A þetta kvöld og kvaðst hvorki hafa sparkað né slegið í A. Kvaðst hann ekki hafa veitt því athygli hvort A hafi þá verið blóðugur. Hann hafi hins vegar tekið eftir áverka á hendi X og hafi þar verið eitthvert blóð. Ákærði kvaðst hafa séð meðákærða, Ö, í slagsmálum við þrjá Íslendinga. Hafi hann legið á götunni og einhverjir Íslendingar verið að berja á honum. Hann kvaðst ekki hafa séð meðákærða, Ö, í átökum við A. Það hafi verið fullt af fólki þarna og hann væri ekki alveg með það á hreinu hverjir aðrir voru þar. Meðákærði, Y, hafi verið í þessum hópi og allir ákærðu hafi verið þarna, en hver gerði hvað eða hvað var í gangi gæti hann ekki sagt nákvæmlega. Hann hafi séð þegar meðákærði, Z, hafi komið út af staðnum en kvaðst ekki hafa séð hvað hann gerði eða hvort hann hafi verið kominn út þegar átökin áttu sér stað. Hann kvað sér ekki hafa fundist ákærðu vera að lúskra á A í sameiningu. Hann kvaðst hafna fram kominni bótakröfu.
Ákærði Z, kvaðst ganga undir gælunafninu [...]. Hann kvaðst ekki þekkja A eða E og þegar hann hafi komið út af D, með konunni sinni F, hafi slagsmálin verið yfirstaðin. Hann kvaðst ekki hafa slegið A með flösku í höfuðið. Hann hafi hins vegar séð að meðákærði, Ö, var með sár og kvaðst hafa séð blóð leka úr sárinu. Hann kvaðst ekki hafa séð A fyrir utan. Aðrir ákærðu hafi verið komnir út á undan honum. Hann kvaðst hafna fram kominni bótakröfu.
Ákærði, Æ, kvaðst ganga undir gælunafninu [...]. Hann kvaðst ekki þekkja A, en hafi kannast við E á þessum tíma. Hann kvað að inni á klósetti á D hafi A tekið um hálsinn á meðákærða, Y, og hafi hann reynt að stilla til friðar og róa báða niður. Hann kvað A hafa sagt að ef ákærðu vildu slást þá myndi hann senda þá alla á spítala. Hann hafi svo farið að dansa. Hann kvaðst ekki hafa átt frekari samskipti við A þetta kvöld. Þegar hann svo hafi komið út af D hafi slagsmálin verið yfirstaðin og lögreglan verið að koma að. Hann kvaðst ekki vita hvers vegna A hafi verið reiður út í þá. Hann viti ekki hvernig A hafi fengið áverkana og kvaðst ekki hafa tekið eftir hvort hann hafi verið blóðugur. Hann kvaðst ekki hafa sparkað í A eða slegið hann. Hann kvaðst ekki hafa verið hræddur við A.
Hann kvaðst hafa tekið eftir því að ákærða, X, hafi verið blóðug á hendinni. Hann kveðst ekki hafa tekið eftir því hvenær meðákærði, Z, kom út af staðnum, en eiginkona hans, F hafi verið með þetta kvöld. Hann kvaðst hafna bótakröfu A.
Ákærði, Ö, neitaði sök við þingfestingu málsins. Hann gat ekki borið vitni við aðalmeðferð málsins vegna veikinda.
Vitnið A, skýrði svo frá að hann og kærasta hans, E, hafi komið á C umrætt kvöld. Hún hafi ætlað að hitta nokkra af kunningjum sínum þar. Honum hafi ekki litist á sig þar og hafi beðið hana um að koma frekar á D. Á leiðinni út hafi tveir eða þrír menn verið á eftir þeim og gert tilraun til að ráðast á hann. Dyravörður hafi stoppað það og hafi þau farið á D. Þegar þau hefðu dvalist þar í um það bil hálftíma hafi þau tekið eftir að sama fólkið og hafði verið á C var komið þangað. Hafi þau farið að elta hann og ganga utan í hann. Hann kvaðst aldrei hafa séð þetta fólk áður. Þegar hann hitti nokkra af þessum mönnum inni á klósetti hafi hann reynt að fá útskýringar á því hvað væri að. Honum hafi skilist að einhver misskilningur væri á ferð og þetta mál væri búið. Hann kvaðst ekki hafa haft í hótunum við mennina. Síðan hafi konan í hópnum skvett glasi yfir hann og hann hafi þá sagt við kærustuna sína að hann vildi fara. Þegar þau hafi verið komin út og gengið smáspöl í Bankastrætinu, hafi verið sparkað aftan í hann. Hafi hann séð tvo menn sem hafi komið á eftir honum út og hafi annar þeirra verið sá sami og sparkaði í hann fyrir utan C. Hafi þeir gert sig líklega til þess að ráðast á hann en vitnið kvaðst ekki geta sagt til um það hvor þeirra sparkaði í hann. Hann hafi heyrt útundan sér kallað frá Íslendingi: ,,Þið ráðist ekki báðir á hann.“ Hafi Íslendingurinn tekið annan þeirra sem elti hann, í burtu, en vitnið kvaðst ekki hafa séð hann meir. Kvað vitnið að sér hafi gengið ágætlega að halda manninum sem veittist að honum frá sér, en þá hafi verið hent flösku í hausinn á honum. Hafi vitninu verið sagt að það hafi verið karlmaður sem það gerði. Hafi hann svo reynt áfram að halda þessum mönnum frá sér, en þá hafi hann fundið aðra flösku eða glas brotna á höfði sínu. Hann kvaðst þá hafa misst af sér gleraugun og því séð mjög lítið, auk þess sem blóð hafi runnið yfir andlit hans. Í kjölfarið hafi nefið á honum verið kýlt út á kinn. Barsmíðarnar hafi svo haldið áfram í skamma stund en þá hafi hann fundið fyrir sársauka aftan í hnakka og tekið þá eftir að kvenmaðurinn í hópnum hélt á flösku sem hún hafi slegið hann með og verið með ógnandi tilburði en flaskan hafi þó ekki brotnað. Vitnið kvað að um 5-6 manns hafa staðið að árásinni. Hann kvaðst aldrei hafa fengið neina skýringu á árásinni. Hann neitaði því að hafa kastað einhverju glasi í vegg, kvaðst ekki hafa haft neina möguleika á því þar sem hann hafi ekki séð neitt og ekki verið með glas í hendinni.
Vitnið kvaðst ekki vera búinn að jafna sig á árásinni og kvaðst vera með skurði í andliti og hnakka og hefði þurft að gangast undir aðgerð. Nefbeinið sé nú orðið beint en ekki brjóskið þannig að í raun þyrfti hann að gangast undir þriðju aðgerðina á nefi. Hann kvaðst ekki vera með neina verki en væri með stíflur í nös.
Vitnið kvaðst ekki kannast við að hópur Íslendinga hafi komið þarna að og kvaðst aðeins hafa orðið var við þennan eina Íslending sem dró einn árásarmanna í burtu í byrjun slagsmálanna. Vitnið kvaðst ekki vita hvað hafi orðið af honum. Vitnið kvað að sér hefði verið boðnar skaðabætur ef hann væri tilbúinn til að falla frá kæru í málinu. Hafi hann hafnað því.
Vitnið, F, skýrði svo frá fyrir dómi að hún kannaðist við E en þær væru ekki vinkonur. Hún kvaðst ekki hafa þekkt brotaþola, A. Hún kvaðst hafa verið með manni sínum, Z, og fleirum á D umrætt kvöld. Hún kvaðst hafa séð hóp manna í slagsmálum fyrir utan D í svolítilli fjarlægð en ekki séð hverjir voru að slást. Margt fólk hefði verið þar, en vitnið kvaðst ekki geta sagt til um hvort einhverjir ákærðu voru þar. Hún kvað þó að einhverjir Íslendingar hefðu verið þar. Er hún var spurð um það hvernig hún gat greint það, úr því að hún hefði séð þetta svo illa, hvarf hún frá þeim framburði. Hún kvað ákærða, Z, ekki hafa verið í slagsmálunum, þar sem hann hafi verið með henni.
Vitnið, E, kvaðst umrætt kvöld hafa farið með A á C. Hún kvaðst ekki vita mikið um hvað gerðist þar, en einhver leiðindi hefðu orðið milli A og Y. Vinkona hennar hafi sagt vitninu að fara eitthvað annað. Því hafi hún farið með A á D kaffi. Þá hafi ákærði, Y og allir hans vinir komið þangað. Vinkona hennar hafi því enn á ný bent henni á að fara eitthvað annað og þau A hafi farið af D. Þá hafi ákærði, Y, beðið fyrir utan veitingastaðinn. Þar hafi einnig verið mágur X, (ákærði Z). Hafi ákærði, Y, sparkað í A, aftanvert á kálfa. Þá hafi ákærði, Ö, komið að og slegið A, en vitnið kvaðst ekki vita hvar höggið lenti. Þá hafi komið að Íslendingar og stöðvað ákærða, Ö. Vinir ákærða, Y, hafi drifið að. Vitnið kvaðst ekki muna nákvæmlega hvað ákærði Y, gerði frekar á hlut A. Vitnið kvaðst hafa séð ákærðu, X, hafa komið síðast að slagsmálunum og hafi hún slegið A í höfuðið með flösku og hafi flaskan brotnað. Vitnið kvaðst hafa séð ákærða, Z, hafa barið A í höfuðið með flösku, en flaskan hafi ekki brotnað. Vitnið kvað ástæðu slagsmálanna hafa verið afbrýðisemi. Vitnið kvaðst ekki hafa séð A gera neitt á hlut ákærðu. Vitnið kvaðst hafa staðið nálægt A meðan á slagsmálunum stóð. Vitnið kvaðst hafa séð Íslendingana slá Tælendingana sem voru þarna.
Nánar spurð, kvaðst vitnið hafa séð ákærðu, Y, sparka í A. Ákærða, X, hafi slegið A með flösku í höfuðið og hafi flaskan lent ofan á höfðinu og brotnað. Vitnið kvaðst hafa séð ákærða, Z, henda flösku í höfuð A, en flaskan hafi ekki brotnað. Vitnið kvað Ö hafa gert mjög lítið, en kvaðst halda að hann hafi kýlt A í andlitið. Hún kvaðst þó ekki vera viss. Vitnið kvað ákærða, Þ, ekki hafa gert neitt, hann hefði bara stoppað konuna sína af. Vitnið kvað ákærða, Æ, hafa slegið A með berum höndum, en kvaðst ekki muna nákvæmlega hvar höggið lenti. Vitnið kvað A hafa verið blóðugan fyrir ofan auga í kjölfar árásarinnar, þá hefði verið skurður hægra megin á höfði, ofanvert og nef hans hafi verið brotið. Vitnið kvað engin tengsl vera milli þeirra A í dag, en þau hafi verið kærustupar. Langt sé síðan þau hættu saman.
Vitnið kvaðst hafa drukkið mjög lítið umrætt kvöld, kannski eitt til tvö glös, en hún kvað A hafa verið undir áhrifum áfengis.
Vitnið, Arnþór Davíðsson, lögreglumaður greindi svo fyrir dómi að honum hafi verið tilkynnt um slagsmál við D og þegar þeir komu að var sjúkrabíll um það bil að fara og árásarmennirnir farnir. Hann hafi fengið upplýsingar um árásamennina frá vitnum annað hvort á slysadeild eða vettvangi. Vitnið kvaðst hafa farið á slysadeild og rætt við A. Vitnið kvaðst ekki muna hvort hann var ölvaður.
Vitnið, H, greindi svo frá fyrir dómi að stór hópur fólks, bæði Tælendingar og Íslendingar, hefði verið að slást fyrir utan D umrætt kvöld, en kvaðst ekki vera viss um hver hefði gert hvað. Hún kvað erfitt hafa verið að sjá hverjir voru að horfa á og hverjir tóku þátt í slagsmálunum. Hún hafi verið með einni vinkonu sinni og nokkrum af ákærðu. Hún hafi hins vegar verið drukkin og ekki verið viss um hvort þau hafi tekið þátt í slagsmálunum og þau hafi verið það langt frá að hún hafi átt erfitt með að sjá almennilega til.
Hún kvaðst ekki hafa séð hvenær ákærði, Z, hafi komið út af D en taldi hann hafa farið út á svipuðum tíma og hún.
Niðurstaða.
Ákærða, X, neitar sök að öðru leyti en því að hún viðurkennir að hafa slegið A með flösku í höfuðið og kvaðst hafa tekið flösku sem lá gangstéttinni upp og slegið A í hnakkann. Flaskan hafi ekki brotnað. Hún kvaðst ekki hafa séð meðákærðu veitast að A, en margt fólk hafi verið samankomið þarna, þar á meðal hafi allir meðákærðu verið þarna. Hafi kærasti hennar dregið hana út úr ,,þvögunni”.
Ákærði, Y, sem gengur undir gælunafninu [...], neitar sök að öðru leyti en því að hann kvaðst hafa sparkað í rass A. Hann kvað margt fólk hafa verið þarna samankomið og kvaðst ekki vera viss um hver hefði veitt A áverkana. Hann kvaðst ekki hafa staðið að árás á A í félagi með öðrum, heldur hafi þetta verið slagsmál sem brutust út. Hann kvaðst ekki vera viss um hvort hann hefði slegið A í höfuð eða andlit, en kvaðst vita að hann hefði kýlt einu sinni, en þó ekki vera viss um hvern hann hefði hitt. Við þingfestingu málsins kvaðst hann hafa kýlt A í höfuðið nálægt eyra.
Ákærði, Ö, neitaði sök við þingfestingu málsins og kvað hann nokkra Íslendinga, sem voru saman komnir, þarna hafa veist að sér.
Ákærði, Þ, neitar sök. Hann kvaðst hafa komið að slagsmálunum er A og ákærða, X, hafi verið að slást og kvaðst einungis hafa dregið eiginkonu sína, X, út úr slagsmálunum. Hann kvað alla ákærðu hafa verið þarna í hópi, en hann gat ekki sagt hver gerði hvað eða hvað var í gangi.
Ákærði, Z, neitar sök og kvað slagsmálin hafa verið yfirstaðin er hann kom út af D umrætt sinn.
Ákærði, Æ, neitar sök og kvaðst ekki vara valdur að þeim meiðslum sem A hlaut í átökunum.
Af því sem fram hefur komið í framburði ákærðu og vitna fyrir dómi brutust út slagsmál er brotaþoli, A, og þáverandi unnusta hans, E, voru á leið niður Bankastræti umrætt kvöld. Brotaþoli, A, hefur verið staðfastur í framburði sínum um atburðarás, frá því að hann skýrði fyrst frá fyrir lögreglu og er hans fyrsti framburður í meginatriðum í samræmi við framburð hans fyrir dómi. Framburður hans er þó því marki brenndur að hann þekkir ekki nöfn meintra árásarmanna, auk þess sem hann lýsti því fyrir dóminum að í árásinni hefði hann misst gleraugu sín og blóð runnið niður andlit hans og byrgt honum sýn.
Vitnið, E, þáverandi unnusta A, þekkir hins vegar nöfn meintra árásarmanna, eða gælunöfn þeirra, enda var hún kunnug nokkrum af ákærðu.
Hún bar fyrir dómi að þau A hafi þurft að yfirgefa C vegna einhverra leiðinda milli A og ákærða, Y. Þau hafi því farið á skemmtistaðinn D, en þangað hafi þá allir ákærðu komið á eftir þeim. Þau hafi því ákveðið að yfirgefa D. Þegar út var komið hafi ákærði, Y, og ákærði, Z, verið þar fyrir utan. Hafi ákærði, Y, sparkað í A, aftanvert á kálfa. Ákærði, Ö, hafi þá komið að og slegið A, en hún kvaðst ekki vita hvar það högg lenti. Þá hafi komið þar Íslendingur sem hafi stöðvað ákærða, Ö, en vini ákærða, Y, hafi drifið að. Hún kvaðst hafa séð ákærðu, X, slá A í höfuðið og hafi flaskan brotnað. Þá hafi hún einnig séð ákærða, Z, slá A í höfuð með flösku, en flaskan hafi ekki brotnað við það. Ítrekað spurð um þátt ákærða, Ö, í árásinni, kvaðst hún ekki vera viss um hvort hann hefði kýlt A í andlitið. Hún kvað ákærða, Þ, ekki hafa gert neitt annað en að stoppa konuna sína, ákærðu, X, af. Þá kvaðst hún hafa séð ákærða, Æ, slá A með berum höndum, en kvaðst ekki hafa séð hvar höggið lenti. Vitnið bar á sömu lund fyrir lögreglu, er hún sagði að ,,[...]“ hefði kýlt A, en ,,[...]“ er gælunafn ákærða Æ. Þá lýsti vitnið áverkum A eftir árásina og samrýmist sú lýsing þeim áverkum sem lýst er í áverkavottorði.
Þessi frásögn E samrýmist í meginatriðum frásögn hennar fyrir lögreglu og einnig samrýmist frásögn hennar framburði brotaþola, þó þannig að hann taldi flösku sem ákærða, X, sló hann með, ekki hafa brotnað.
Við mat á trúverðugleika framburðar vitnisins E ber að líta til þess að hún er eina vitnið að árásinni, sem ekki tengist ákærðu á nokkurn hátt. Hún bar fyrir dómi að hún hefði verið lítið undir áhrifum áfengis. Hún er fyrrverandi unnusta brotaþola, en sambandi þeirra er lokið fyrir nokkru. Þá hefur hún verið staðföst í framburði sínum, bæði fyrir lögreglu og fyrir dómi, og hún hefur haft góða yfirsýn yfir það sem gerðist, auk þess sem hún þekkti ákærðu með nafni eða gælunafni. Þegar framangreint er virt er það mat dómsins að framburður vitnisins E sé trúverðugur.
Saksókn í málinu byggist á því að ákærðu hafi í sameiningu ráðist á A með höggum og spörkum, þau X og Z þar á meðal með því að berja A með flöskum. Ákærða, X, kvaðst ekki hafa séð aðra ákærðu veitast að honum en segir að þarna hafi verið þvaga fólks og allir meðákærðu þar á meðal. Ákærði, Y, bar á sama veg og sagði margt fólk hafa verið þarna og slagsmál hafi brotist út. Ákærði, Þ, sagðist hafa dregið ákærðu, X, út úr slagsmálum við A. Aðrir ákærðu hafi verið þarna í hóp en hann ekki getað séð hvað gerðist þarna að öðru leyti. Ákærðu Ö, Z og Æ hafa ekki borið sérstaklega um þetta atriði að öðru leyti en því að ákærði, Ö, sagði hóp af Íslendingum hafa veist að sér. Vitnið, E, hefur skýrt frá því að þegar þau A fóru af C og yfir á D hafi ákærðu öll komið á eftir þeim. Lýsti hún því hvernig ákærðu hvert um sig veittust að A, þau Y, Ö, Z, X og Æ. Þá hefur A lýst aðdraganda árásarinnar þannig að hann hafi lent í útistöðum við fólk á C sem síðan hafi elt þau E yfir á D og eftir að þau fóru út þaðan aftur hafi hann fyrst orðið fyrir árás tveggja manna en síðan hafi hópur af fólki, fimm til sex manns, þar á meðal kona, veist að honum. Loks hefur vitnið, H, sagt að stór hópur fólks, bæði Tælendingar og Íslendingar, hafi slegist fyrir utan D umrætt sinn. Dómurinn telur sannað af því sem hér hefur verið rakið, þrátt fyrir það að X, Þ og Y hafi borið sérstaklega á móti því og aðrir ákærðu hafi ekki borið um þetta atriði, að hópur fólks hafi veist að A, barið í hann og sparkað í hann rétt hjá skemmtistaðnum D. Af því sem fram er komið í trúverðugum framburði vitnisins E, sem samrýmist framburði A sjálfs, tóku engir Íslendingar þátt í árás á A. Samkvæmt læknisvottorði sem liggur frammi í málinu hlaut A mikla áverka í kjölfar árásarinnar og er þá ekki öðrum til að dreifa en ákærðu, eða hluta þeirra, sem gætu hafa verið valdir að þeim. Verður hér á eftir fjallað um þátt hvers ákærðu fyrir sig í þessari árás.
Ákærða, X, hefur játað að hafa slegið A með flösku í höfuðið. Þá segir meðákærði, Þ, að hún hafi verið í slagsmálum við A. Ákærði, Y, sagðist ekki hafa séð X slá með flöskunni en hann hafi heyrt glas brotna. Ákærði, Þ, hefur sagt að hann hafi dregið X út úr slagsmálum við A. A hefur borið að hann hafi fengið högg í hnakkann og þá séð að konan í hópnum hélt á flösku. Loks hefur vitnið, E, sagt að ákærða, X, hafi slegið A í höfuðið með flösku. Er sannað með játningu ákærðu og þessum framburðum meðákærðu og vitnanna að ákærða sló A í höfuðið með flösku og ber hún, ásamt öðrum sakfelldu, fulla refsiábyrgð á árásinni á hann og öllum áverkum sem af hlutust.
Ákærði, Þ, neitar því að hafa átt þátt í árásinni á A og hefur sagt að hann hafi ekki gert annað en að draga konu sína, meðákærðu X, úr slagsmálunum. Hefur hún borið á sama veg um þetta. Ákærði, Y, hefur sagt að hann hafi ekki séð ákærða gera á hlut A og vitnið, E, hefur sagt að ákærði hafi ekkert gert A, heldur þvert á móti dregið konu sína úr slagnum. Aðrir hafa ekki borið sérstaklega um þátt þessa ákærða. Verður því að telja ósannað að ákærði hafi átt þátt í árásinni á A og sýkna hann af ákærunni.
Ákærði, Y, hefur viðurkennt að hafa sparkað í rass A eftir að út var komið af D og einnig að hafa slegið til hans með hnefanum en kvaðst ekki vita hvort höggið kom á A eða einhvern annan. Ákærði játaði við þingfestingu málsins að hafa kýlt A í andlitið og hafi höggið lent nálægt eyra hans. Meðákærði, Þ, kvaðst hafa séð ákærða í þvögunni en ekki geta sagt hvað hann gerði. Vitnið, E, hefur borið að ákærði hafi sparkað í aftanverðan kálfa A en hún muni ekki nákvæmlega hvað ákærði gerði frekar á hlut hans. Aðrir hafa ekki borið sérstaklega um þátt ákærða í árásinni. Dómurinn telur sannað með játningu ákærða og vætti E að ákærði sparkaði í A og sló hann, eða til hans, og ber, ásamt öðrum sakfelldu, fulla refsiábyrgð á árásinni á hann og öllum áverkum sem af hlutust.
Ákærði, Z, hefur neitað því að hafa gert nokkuð á hlut A og kveður átökin hafa verið yfirstaðin þegar hann kom út af D. Meðákærða, X, hefur sagt að hún hafi ekki séð ákærða gera neitt á hlut A og meðákærði, Y, hefur borið að hann hafi ekki tekið eftir því hvort ákærði kom út af D fyrir eða eftir átökin og hann hafi ekki séð ákærða brjóta flösku á höfði A. Ákærði, Þ, kvaðst hafa séð hann koma út af D en ekki hafa séð hvað hann gerði eða hvort þetta hafi verið á undan átökunum. Þá hefur ákærði, Æ, sagt að hann hafi ekki tekið eftir því hvenær ákærði kom út af skemmtistaðnum. Vitnið, E, hefur borið að ákærði hafi barið með flösku í höfuð A eða kastað henni í höfuð hans. A hefur borið að karlmaður hafi kastað flösku í höfuð honum og verður ráðið af frásögn hans að það hafi verið áður en konan sló hann. Aðrir hafa ekki borið sérstaklega um þátt ákærða í árásinni. Dómurinn telur vera sannað með framburði þessara vitna og þrátt fyrir neitun ákærða, að hann hafi slegið eða kastað flösku í höfuð A og ber hann ásamt ákærðu, X og Y, fulla refsiábyrgð á árásinni á hann og öllum áverkum sem af hlutust.
Ákærði, Ö, neitar sök. Meðákærða, X, hefur sagt að hún hafi ekki séð ákærða gera neitt á hlut A. Ákærði, Y, hefur sagt það um þátt ákærða að þeir hafi farið saman út af D. Þar fyrir utan hafi veist að ákærða fjórir eða fimm Íslendingar og slegið hann í höfuðið með flösku. Kvaðst ákærði, Y, auk þess hafa staðið á milli ákærða og A og ákærði ekki komist í átökin við hann. Ákærði, Þ, bar um þátt ákærða, Ö, að hann hafi verið í slagsmálum við Íslendinga, ákærði legið í götunni og þeir barið hann þar sem hann lá. Hann hafi ekki séð ákærða í átökum við A. Ákærði, Z, kvaðst hafa séð ákærða með sár sem blóð lagaði úr. Vitnið, E, hefur sagt að hún hafi séð ákærða slá A en viti ekki hvar höggið kom á hann. Haldi hún að það hafi komið í andlitið en kvaðst ekki vera viss og þetta verið lítils háttar atlaga. Hafi þá komið að Íslendingar og hindrað ákærða í að gera fleira. Aðrir hafa ekki borið sérstaklega um þátt ákærða í árásinni. Aðeins eitt vitni hefur borið sakir á ákærða og er sú frásögn auk þess nokkuð óljós. Þykir vera ósannað gegn neitun ákærða að hann hafi átt þátt í árásinni á A og ber að sýkna ákærða af ákærunni.
Ákærði, Æ, neitar því að hafa veist að A og segir að átökin hafi verið afstaðin þegar hann kom út af D og viti hann ekki hvernig maðurinn fékk áverkana. Meðákærði, Y, segist hvorki hafa séð ákærða slá né sparka í A. Vitnið, E, sagði ákærða hafa slegið A en ekki muna hvar höggið kom á hann. Aðrir hafa ekki borið sérstaklega um þátt ákærða í árásinni. Aðeins eitt vitni hefur borið sakir á ákærða og er sú frásögn auk þess nokkuð óljós. Þykir vera ósannað gegn neitun ákærða að hann hafi átt þátt í árásinni á A og ber að sýkna ákærða af ákærunni.
A hlaut verulega áverka í árásinni og flöskuhöggin í höfuð hans voru sérstaklega hættuleg. Ákærðu, X, Z og Y eru samkvæmt framansögðu sakfelld fyrir þá háttsemi sem að ofan greinir og varðar athæfi þeirra við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
Í ákæru greinir að árásin hafi átt sér stað í Þingholtsstræti, en af framburði kæranda má ráða að hún hafi átt sér stað í Bankastræti. Með vísan til 117. gr. laga nr. 19/1991 breytir það engu um sakfellingu ofangreindra ákærðu.
Refsiákvörðun.
Ákærða, X, hefur ekki áður verið fundin sek um refsivert brot. Verður um refsingu hennar fjallað síðar í dómi þessum, þar sem önnur ákæra á hendur henni er til umfjöllunar í máli þessu.
Ákærði, Y, gekkst undir 80.000 króna sekt og sviptingu ökuréttar í tíu mánuði 26. mars 2003 fyrir ölvunarakstur. Þá var honum gerð 160.000 króna sekt og hann sviptur ökurétti í tvö ár 30. júní 2004 fyrir ölvunarakstur. Hinn 9. september 2004 gekkst ákærði undir 100.000 króna sekt vegna aksturs sviptur ökurétti, og sama dag gekkst hann undir 120.000 króna sekt fyrir of hraðan akstur og akstur sviptur ökurétti. Brot þessi hafa ekki áhrif á ákvörðun refsingar. Í máli þessu hefur hann verið fundinn sekur um stórfellda líkamsárás, sem unnin var í félagi við aðra. Var árásin sérlega fólskuleg og hættuleg. Þegar framangreint er virt er refsing hans ákveðin fangelsi í 4 mánuði. Langt er um liðið frá því að atburðir áttu sér stað og verður ákærða ekki um kennt hversu mjög málsmeðferð dróst, en það var að hluta vegna þess að málið var í fyrstu fellt niður og síðar endurupptekið og að hluta vegna þess að endurtaka þurfti aðalmeðferð í málinu vegna túlkunarörðugleika. Þegar litið er til framangreinds er rétt að fresta fullnustu refsingar ákærða og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði, Z, hefur ekki áður verið fundinn sekur um refsivert brot. Í máli þessu hefur hann verið fundinn sekur um stórfellda líkamsárás, sem unnin var í félagi við aðra og beitti ákærði að auki flösku við árásina. Var árásin sérlega fólskuleg og hættuleg. Þegar framangreint er virt er refsing hans ákveðin fangelsi í 5 mánuði. Langt er um liðið frá því að atburðir þeir sem ákært er fyrir áttu sér stað og verður ákærða ekki um kennt hversu mjög málsmeðferð dróst, en það var að hluta vegna þess að málið á hendur honum var í fyrstu fellt niður og síðan endurupptekið og að hluta vegna þess að endurtaka þurfti aðalmeðferð í málinu vegna túlkunarörðugleika. Þegar litið er til framangreinds er rétt að fresta fullnustu refsingar ákærða og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði, Ö, er sýknaður af kröfu ákæruvaldsins.
Ákærði, Æ, er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.
Ákærði, Þ, er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins
Bætur og málskostnaður.
A hefur lagt fram bótakröfu, samtals að fjárhæð 552.623 krónur, auk dráttarvaxta og lögmannsþóknunar. Sundurliðast krafan þannig samkvæmt framlögðum gögnum:
Skaðabótakrafa að fjárhæð 23.615 krónur er útlagður kostnaður af læknisþjónustu, samkvæmt því sem fram kemur í kröfu brotaþola.
Af hálfu A er krafist dráttarvaxta af 2.938 krónum frá 14. apríl 2004 til 11. júní 2004, en af 23.615 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Krafist er miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga, að fjárhæð 500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga frá tjónsdegi þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Þá er krafist þjáningabóta samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga að fjárhæð 29.008 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga frá tjónsdegi þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar en frá þeim tíma með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga.
Loks er krafist málskostnaðar vegna þóknunar lögmanns við að halda bótakröfunni uppi.
Bótakrefjandi telur skilyrði 26. gr. skaðabótalaga uppfyllt, þar sem ásetningur ákærðu hafi verið augljós. Árásin hafi verið fólskuleg og tilefnislaus og hafi hann liðið andlegar og líkamlegar þjáningar vegna hennar.
Krafa um þjáningabætur er studd þeim rökum að brotaþoli hafi verið rúmfastur fyrstu þrjá dagana eftir árásina og einnig fyrstu þrjá dagana eftir aðgerð þá sem hann fór í 21. apríl 2004. Því sé krafist fullra þjáningabóta fyrir tímabilið 4.-6. apríl annars vegar og 21.-23. apríl hins vegar. Fyrir tímabilið 7.-21. apríl er krafist þjáningabóta vegna veikinda brotaþola í samræmi við 3. gr. skaðabótalaga.
Fallist er á með bótakrefjanda að árás þeirra ákærðu sem sakfelld hafa verið í málinu hafi verið sérlega fólskuleg og hættuleg þar sem þau réðust mörg á einn mann. Af því sem að framan er rakið á brotaþoli rétt á miskabótum samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með hliðsjón af þeim alvarlegu áverkum sem brotaþoli hlaut og lýst er í læknisvottorði þykja þær hæfilega ákveðnar 400.000 krónur. Þá er fallist á kröfu um útlagðan kostnað að fjárhæð 23.615 krónur.
Kröfulið vegna þjáningabóta er vísað frá dómi, þar sem ekki nýtur við gagna í málinu um að kærandi hafi legið rúmfastur eins og í bótakröfu greinir.
Niðurstaða þessa er því sú að ákærðu, X, Z og Y greiði in solidum brotaþola, A, skaðabætur að fjárhæð 423.615 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu af 2.938 krónum frá 14. apríl til 11. júní 2004 og af 23.615 krónum frá 11. júní 2004 til 26. júlí 2006, er mánuður var liðinn frá þingfestingardegi, en með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna af 423.615 krónum til greiðsludags. Þá verða ákærðu dæmd til að greiða brotaþola málsvarnarþóknun skipaðs réttargæslumanns, Soffíu Ketilsdóttur héraðsdómslögmanns, og telst hún hæfilega ákveðinn 249.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk lögmannskostnaðar Steinars Þórs Guðgeirssonar héraðsdómslögmanns, sem gerði bótakröfu, sem telst hæfilega ákveðinn 62.250 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Bótakröfu á hendur öðrum ákærðu, þeim Þ, Æ og Ö, sem sýknaðir hafa verið, er vísað frá dómi.
Um sakarkostnað ákærðu, X, verður fjallað síðar í dómi þessum
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Ö, Brynars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, sem eru ákveðin 449.196 krónur, greiðast úr ríkissjóði.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Æ, Ingimars Ingimarssonar héraðsdómslögmanns, sem eru ákveðin 449.196 krónur, greiðast úr ríkissjóði.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Þ, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, sem eru ákveðin 449.196 krónur, greiðast úr ríkissjóði.
Þar sem endurtaka þurfti aðalmeðferð málsins vegna túlkunarörðugleika og ákærðu verður ekki um það kennt að kostnaður verjenda ákærðu jókst af þeim sökum, verður ríkissjóður látinn bera hluta málsvarnarlauna eins og hér greinir.
Ákærði, Y, greiði 2/3 hluta málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Guðjóns Ólafs Jónssonar hæstaréttarlögmanns, sem eru ákveðin 449.196 krónur, en 1/3 hluti þeirra greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði, Z, greiði 2/3 hluta málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar héraðsdómslögmanns, sem eru ákveðin 449.196 krónur, en 1/3 hluti þeirra greiðist úr ríkissjóði.
Ákæra frá 14. nóvember 2006.
Málsatvik.
Þriðjudagsmorguninn 7. júní 2005 kom B á rannsóknardeild lögreglunnar í Reykjavík og kvaðst vilja kæra líkamsárás sem hún hafi orðið fyrir á veitingastaðnum C aðfaranótt 5. júní 2005. Lýsti B meintri árás svo að hún hafi verið gestur á C ásamt kunningjum sínum, þeim I, J og K sem hafi setið til borðs með henni og orðið vitni að atvikum. Kvaðst hún hafa drukkið einn bjór og pantað annan, þegar ákærða, X, tróð sér til borðs með þeim. X hafi sest við hliðina á henni og byrjað að toga í hana og segja henni að koma með sér til viðræðna. Kvaðst B hafa hafnað því þar sem hún hafi ekkert þekkt til X og hafi ekki vitað til þess að hún ætti neitt vantalað við hana. Þeim hafi ekkert farið á milli áður. Skyndilega hafi X slegið hana í höfuðið með bjórglasi og hafi höggið komið á vinstra kinnbein. Glasið hafi brotnað við þetta fyrsta högg. Að sögn B reif ákærða, X, svo í hárið á henni og sveigði höfuð hennar að borðinu, þar sem hún hafi haldið áfram að berja á henni með hnefum sínum. Kveðst hún hafa fallið í gólfið, þar sem ákærða hafi haldið áfram að berja á henni. Árásinni hafi svo lokið þar sem I hafi slitið ákærðu af henni. Eftir þetta segist B hafa leitað á barinn til eiganda, sem heiti L, og beðið hann um síma til að kalla á lögreglu. Hann hafi talið það óþarfa og haldið því fram að B hafi byrjað að slá ákærðu. B kvaðst hins vegar halda að L hafi ekki verið á barnum og haft aðstöðu til að sjá árásina, þegar hún varð. Hún telji að einhver aðstoðarstúlka hafi verið þar þá.
Ákærða, X, gaf skýrslu hjá lögreglu 27. febrúar 2006. Að sögn hennar fór B að tala við hana á C og fljótlega fóru þær að rífast. Ákærða kvaðst ekki vita hvor þeirra hafi byrjað en allt í einu hafi þær verið farnar að ýta hvor við annarri sem hafi svo endað með því að þær fóru að slá til hvor annarrar. Hún kvaðst ekki hafa slegið B með bjórglasi. Glas hafi brotnað í átökunum og hafi B skorið sig á höndunum við að falla í gólfið. I sé kærasti B og því sé hann að skrökva til að hjálpa henni.
I gaf skýrslu hjá lögreglu 23. febrúar 2006. Kvaðst hann hafa setið við borðið á C ásamt B, J og K þegar ákærða, X, hafi komið og sagt við B að þær þyrftu að tala saman. Að sögn I tók ákærða í hálsmálið á B þegar hún sagði þetta. B hafi reynt að losa sig frá ákærðu en þá hafi ákærða slegið hana með bjórglasi sem hafi brotnað og svo dregið hana niður á gólf. I kvaðst þá strax hafa gengið á milli B og ákærðu og slitið hana frá B. Ákærða hafi svo látið sig hverfa út af staðnum. I kvaðst hafa séð skurð í andliti B og einnig hafi verið mörg smásár á handleggjum og því hafi hún verið töluvert blóðug. I kveðst ekki hafa hugmynd um hvers vegna X hafi ráðist á B og þekki hana ekki.
Í málinu liggja frammi upplýsingaskýrslur lögreglu, þar sem fram kemur að tælenski túlkurinn M hafi verið beðin að afla upplýsinga um vitnið N. Tjáði hún túlkinum í símtali 22. febrúar 2006, að hún gæti engar upplýsingar gefið um málið, hún hafi ekki séð hvað gerðist og aðeins verið beðin um að hringja á lögreglu. Sams konar upplýsingaskýrsla liggur fyrir um vitnið ,,K“, en túlkurinn fékk þær upplýsingar um hana að hún væri flutt til Ítalíu og ekki væntanleg til landsins aftur. Þá liggur frammi upplýsingaskýrsla um vitnið ,,J“, þar sem vitnið tjáði túlkinum símleiðis 22. febrúar 2006 að hún hefði ekkert um málið að segja og ætlaði sér ekki að mæta til lögreglu og gefa skýrslu vegna þess.
Þá liggur frammi í málinu dagbókarfærsla lögreglu frá 5. júní 2005, þar sem fram kemur að kl. 03:07 hafi verið tilkynnt að kona hafi verið lamin með glasi á C. Hafi lögregla komið á vettvang og ekið fram á aðra konuna í þessu máli. Hafi hún sagt að hún hefði verið lamin með glasi.
Í málinu liggur frammi læknisvottorð, dagsett 21. september 2005, undirritað af Þorsteini Bergmann. Þar kemur fram að B hafi komið á slysadeild aðfaranótt 5. júní 2005 eftir líkamsárás. Var hún þá með fjölmargar smáskrámur bæði í andliti og útlimum. Í læknisvottorði er því lýst að hún hafi verið með lítinn skurð neðan og utanvert á hægri sköflungi. Þá hafi hún verið með skurð yfir vinstra kinnbeini og skurð ofarlega við vinstra eyra. Ofan við vinstra brjóst hafi hún verið með 10 cm langa grunna rispu. Einnig hafi hún verið með þreifieymsli og verk í hægri öxl, mest aftan til og í kringum herðablaðið. Jafnframt hafi verið 2 mm lítill skurður á vinstra enni og nokkrar litlar rispur og smáskurðir á báðum höndum. Mest allt hafi þetta verið grunnar rispur sem lokað var með húðlími. Jafnframt hafi hún verið með tognunaráverka á hægri öxl. Í vottorðinu segir að þetta hafi allt verið grunnir áverkar sem ættu að geta gróið vel á 2-3 vikum. Ekki væri þó útilokað að hún fengi einhver ör í andlit eftir þetta. Jafnframt væri erfitt að meta hvort um langvarandi afleiðingar eða tognunaráverka á öxl yrði að ræða en axlarliðurinn væri viðkvæmur liður og áverki á honum valdi oft langvarandi einkennum. Þá leitaði sjúklingur aftur á slysadeildina í eftirlit vegna þessa áverka.
Með bréfi lögreglustjórans í Reykjavík frá 2. maí 2006 var mál þetta fellt niður með hliðsjón af 112. gr. laga nr. 19/1991. Ákvörðun um niðurfellingu var kærð með bréfi 30. maí 2006 til ríkissaksóknara og var felld niður ákvörðun lögreglustjóra um niðurfellingu málsins með bréfi ríkissaksóknara 26. júní 2006 og lagt fyrir lögreglu að taka málið til áframhaldandi rannsóknar. Ríkissaksóknari gaf svo út ákæru í málinu 14. nóvember 2006, eins og að framan greinir.
Verður nú rakinn framburður ákærðu og vitna fyrir dómi.
Ákærða, X, greindi svo fyrir dómi að hún hafi farið út að skemmta sér með vinum sínum og hafi setið nálægt barnum með þeim. Í þeim hópi hafi m.a. verið O, P og Q. Hún kvaðst ekki hafa þekkt B en hafa heyrt um hana getið. B hafi svo komið þar að ásamt kærasta sínum og hafi farið að tala við vini sína sem sátu líka við sama borð. Kærasti hennar settist við borðið en B hafi hins vegar ekki sest við borðið heldur staðið hinum megin við borðið. Hún kvað hana hafa starað illilega á sig og hafi hún verið drukkin. Ákærða kveður sig þá hafa starað illilega á móti. Hún hafi þá spurt B hvers vegna hún væri að stara svona á sig. Hún hafi þá svarað dónalega á móti. Þær hafi svo farið að rífast í framhaldi af því. Síðan hafi þær farið að togast á yfir borðið, en svo dottið í gólfið í slagsmálunum. Hún kvaðst ekki muna hvernig þetta hafi þróast eða hvor þeirra hafi togað hina niður. Hún hafi verið búin að drekka u.þ.b. 2-3 flöskur af Breezer og kvaðst hafa verið drukkin. Þær hafi svo byrjað að slást, en hún kvaðst ekki viss um hvor hafi svo átt upptökin á slagsmálunum. Glös hafi þá dottið af borðinu og niður á gólf. Maður B hafi reynt að stilla til friðar en það hafi ekki gengið. Þær hafi endað á gólfinu í slagsmálunum. Síðan hafi maður B gripið í hana og dregið hana úr slagsmálunum. Ákærða kvaðst ekki hafa slegið B með glasi í andlitið og kvaðst ekki hafa tekið eftir áverkum á B. Hún kvað lögreglu ekki hafa komið á staðinn. Hún kvaðst sjálf hafa verið með verki í hálsinum á eftir og smá skrámur en það hafi ekki verið neitt alvarlegt.
Vitnið, Þorvaldur Sigmarsson lögreglumaður, greindi svo frá fyrir dómi að hann kannaðist við það hafa sinnt útkalli þessa nótt samkvæmt upplýsingum úr dagbók sinni. Vitnið kvaðst ekki muna eftir að hafa hitt þarna konu með áverka og telji það víst að annar bíll hafi hitt á hana og farið með hana burt. Vitnið kvaðst ekki hafa farið inn á C.
Vitnið, B, greindi svo fyrir dómi að þetta kvöld hafi hún verið að fara í afmæli á veitingastaðinn R. Hún kvaðst hafa farið á C til þess að sækja lykla. Þegar þangað var komið hafi vinkona hennar beðið hana að bíða aðeins því að hún ætlaði að klára úr glasinu. Hún hafi því farið á barinn og keypt tvö glös, eitt fyrir vin sinn og eitt handa sjálfri sér. Vitnið kvaðst hafa sest við hlið ,,[...]“, vinkonu sinnar, sem hafi setið innst við borðið. Á móti henni hafi K setið, og I hafi setið á móti vitninu við borðið. Þegar vitnið hafi verið búin að drekka u.þ.b. hálft glasið hafi ákærða komið til þeirra, og staðið til hliðar við vitnið. Hún neitaði því að hafa borið hjá lögreglu að ákærða hafi sest til borðs með þeim. Hún kvað ákærðu hafa staðið og slegið til [...] og beðið hana um pening fyrir áfengi. Hún kvaðst hins vegar ekki vita hvort þær hafi þekkst. Hún kvað að sér hefði ekki litist á þetta og beðið vinkonu sína að drífa sig með henni í burt. Hún kvaðst ekki hafa átt í neinum orðaskiptum við ákærðu en ákærða hafi þá rifið í hana og síðan tekið upp glas og slegið vitnið utan undir með því í andlitið svo að glasið brotnaði. Síðan hafi hún dregið sig niður á gólf í slagsmál. Ákærða hafi svo legið ofan á vitninu en I hafi rifið ákærðu ofan af vitninu og hafi vinkona hennar þá hringt á lögregluna sem hafi komið á staðinn. Vitnið kveðst hafa talað við eiganda staðarins, L, sem hafi ekki viljað hringja á lögregluna og staðfesti vitnið framburð sinn í lögregluskýrslu þess efnis að L hafi talið vitnið hafa átt upptökin. Lögreglan sem kom fyrst hafi elt ákærðu uppi og ákærða hafi svo verið handtekin við [...]. Vitnið kvaðst hafa fengið áverka bæði á andliti og á fæti. Áverkana á fæti hafi hún fengið við að skera sig á gleri þegar hún datt á gólfið. Hún kvaðst nú hafa jafnað sig andlega, en fyrst á eftir hafi hún verið hrædd. Vitnið kom aftur fyrir dóm 20. desember 2006 og var spurð um samband sitt við vitnið I. Kvað hún þau einungis vera vini. Kvaðst hún vera gift öðrum manni og kvað það ekki rétt að hún og I væru kærustupar, eins og nokkur vitni hefðu borið. Hún kvað eiginmann sinn kannast við I og viti að þau séu kunningjar.
Vitnið, I, bar fyrir dómi að hann og B væru vinir og kvað þau aldrei hafa verið kærustupar. Hann kvað þau B hafa komið á staðinn C til þess að sækja lykla. Þau hafi ákveðið að setjast niður með vinkonu sinni og fá sér bjór. Hann kveðst ekki muna hvað sá heitir sem sat við hliðina á honum en B hafi setið á móti honum og [...] hafi setið inn í horninu. Þá hafi ákærða komið til þeirra og sest við borðið við hliðina á B í augnablik, sagt eitthvað við hana og svo ráðist strax á hana og dregið hana niður á gólfið. Hann kvaðst hafa séð þegar ákærða sló B með glasinu í kinnina þannig að glasið brotnaði. Glös hafi dottið á gólfið og glerbrot hafi farið út um allt. Hann hafi dregið ákærðu ofan af B og reynt að stilla til friðar en vitnið kvaðst ekki þora að fullyrða neitt um hvort aðrir hafi komið að eða gert eitthvað. Ákærða hafi þá farið út af staðnum en hann sjálfur hafi þá farið að hjálpa B. Hann kom aftur fyrir dóm 20. desember 2006 og ítrekaði að þau B væru einungis vinir og kvað samband þeirra ekki vera kynferðislegt. Hann kvað þau hafa kynnst skömmu áður en atvikið átti sér stað. Eftir atvikið hafi þau hins vegar verið vinir. Kvað hann þau B hafa komið saman inn á C umrætt kvöld.
Vitnið, O, bar fyrir dómi að hún hafi farið á C umrætt kvöld til þess að dansa með vinum sínum. Hún kvaðst ekki hafa kannast við B. Þegar hún hafi komið að borðinu sínu hafi hún tekið eftir slagsmálum. Ákærða hafi legið í gólfinu og hafi hún heyrt að verið var að biðja einhvern um að hjálpa ákærðu á fætur, en þá hafi maður B verið búinn að hjálpa B upp úr af gólfinu. Er vitnið var spurð um það hvernig hún vissi að sá sem hefði hjálpað B upp af gólfinu væri maður hennar, kvaðst hún oft hafa séð þau á C og vissi að þau byggju saman. Hún kvaðst ekki hafa séð neinn slá glasi í neinn.
Vitnið, P, bar svo fyrir dómi að hún hafi verið drukkin á C þetta kvöld. Hún hafi ekki verið á sama borði og ekki séð slagsmálin heldur aðeins séð þegar eiginmaður B, I, hafi kippt ákærðu upp af gólfinu. Er vitnið var spurð betur kvaðst hún aðeins hafa séð til þegar búið var að draga þær upp af gólfinu og skilja þær í sundur. Hún kvaðst ekki hafa séð þær á gólfinu, en kvað I hafa verið að reyna að toga ákærðu frá þegar þær voru uppistandandi. Fyrri framburður hennar um að I hafi kippt ákærðu upp af gólfinu var talinn vera á misskilningi byggður vegna túlkunar.
Vitnið, L, bar fyrir dómi að hann hefði verið eigandi C. Hann kvaðst kannast við B og taldi sig vita hver X væri. Hann kvað ekki vera hægt að sjá yfir öll borðin á C frá barnum. Hann kvaðst ekki muna eftir umræddum slagsmálum.
Vitnið, Þorsteinn Bergmann, staðfesti læknisvottorð sem liggur frammi í málinu. Hann kvað áverka þá sem voru á brotaþola í andliti samrýmast þeirri sögu að hún hefði verið slegin með glasi eða flösku. Hún hafi verið með fjölmarga grunna áverka, bæði í andliti og á útlimum. Áverkar á líkama hafi getað samrýmst því að hún hefði lent í gólfi og rispast af glerbrotum. Áverkarnir hefðu allir verið grunnir, en nokkrir hefðu verið dýpri og hefðu þeir verið límdir saman með húðlími. Hefðu þeir aðallega verið í andliti brotaþola. Þeir áverkar hefðu verið það djúpir að þurft hafi að líma þá með húðlími. Nánar spurður kvaðst vitnið ekki geta fullyrt hvort brotaþoli hefði dottið á glerbrotahrúgu og fengið þá áverka sem lýst er, eða hvort hún hefði verið slegin í andlitið með flösku eða glasi.
Niðurstaða.
Ákærða hefur neitað sök í málinu, en viðurkennt að þær B hafi lent í slagsmálum umrætt kvöld, sem hafi lyktað með því að þær hafi dottið á gólfið í átökunum. Í átökunum hafi fallið glös á gólfið.
Framburður meints brotaþola er á annan veg og bar hún að ákærða hefði slegið hana í andlitið með glasi og síðan dregið hana niður á gólf. Brotaþoli hefur borið á sama veg frá upphafi málsins og samrýmist framburður hennar að öllu leyti framburði vitnisins I. Vitni þau sem fyrir dóminn komu og voru á veitingastaðnum umrætt kvöld gátu ekkert borið um atvik málsins, sem máli skiptir, annað en það að þau kváðust hafa séð slagsmál milli ákærðu og B. Ekkert liggur fyrir í málinu um áverka á ákærðu vegna slagsmálanna, en B hlaut töluverða áverka, eins og fram kemur í áverkavottorði. Vitnin kváðust vera þess fullviss að I og B væru annað hvort hjón eða kærustupar. Hafa bæði B og I borið það af sér fyrir dómi og kváðust einungis vera vinir. Er framburður þeirra um atburðarás að mati dómsins trúverðugur og ekkert fram komið í málinu sem rýrir trúverðugleika hans. Þá samrýmast áverkar þeir sem B hlaut umrætt sinn og lýst er í áverkavottorði framburði þeirra um atvik. Vitnið, Þorsteinn Bergmann læknir, kvað áverka í andliti B hafa verið það djúpa að þurft hafi að líma þá saman með húðlími og kvað áverkana geta samrýmst því að hún hefði verið slegin í andlitið með glasi. Nánar spurður gat hann þó ekki útilokað að hún hefði hlotið áverkana við það að lenda í gólfi með glerbrotum. Í frásögn hans fyrir dómi kemur jafnframt fram að hann teldi grynnri áverka á B á útlimum og líkama geta stafað af því að hún hafi rispast á glerbrotum á gólfi.
Vitni þau sem B tilgreindi í kæru sinni hafa ekki komið fyrir dóm, þ.e. þau J, K og N, en ekki er vitað hvort eitthvert vitna þessara gengur undir nafninu eða gælunafninu [...], sem B nefndi í skýrslu sinni fyrir dómi. Þrátt fyrir það að vitnisburður þeirra hefði án efa getað varpað skýrara ljósi á atburði, er að mati dómsins hafið yfir skynsamlegan vafa að atvik hafi verið með þeim hætti sem þau B og I hafa lýst fyrir dómi og að ákærða hafi gerst sek um þá háttsemi sem í ákæru greinir og að afleiðingar árásar hennar hafi verið þær sem þar greinir. Ákærða er því sakfelld fyrir þá háttsemi sem er í ákæru réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Refsákvörðun.
Samkvæmt sakavottorði ákærðu hefur hún ekki gerst sek um refsiverða háttsemi svo vitað sé. Hún hefur í máli þessu verið sakfelld fyrir tvær alvarlegar, fólskulegar líkamsárásir, þar sem hún meðal annars sló flösku í höfuð brotaþola og hins vegar glasi í andlit brotaþola. Þegar litið er til framangreinds og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, er refsing ákærðu ákveðin fangelsi í 7 mánuði. Langt er um liðið frá því að atburðir þeir sem ákært er fyrir áttu sér stað og verður ákærðu ekki um kennt hversu mjög málsmeðferð dróst, en það var að hluta vegna þess að málin á hendur henni voru í fyrstu felld niður og síðan endurupptekin og að hluta vegna þess að endurtaka þurfti aðalmeðferð í öðru málinu vegna túlkunarörðugleika. Þegar litið er til framangreinds er rétt að fresta fullnustu refsingar ákærða og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Í málinu liggur frammi skaðabótakrafa brotaþola, B, frá 12. janúar 2006. Gerð er krafa um miskabætur skv. 26. gr. skaðabótalaga að upphæð 200.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. júní 2005 fram til þess tíma að mánuður er liðinn frá því að krafan er kynnt sakborningi en með dráttarvöxtum skv. 6. gr sbr. 9. gr. vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er gerð krafa um að dráttarvextir leggist við höfuðstól miskabóta á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta, allt í samræmi við 12. gr. laganna.
Við mat á fjárhæð miskabóta beri að horfa til þess að árásin var hrottaleg og tilefnislaus. Áverkar hafi verið talsverðir og þá ekki síst sár á andliti sem leitt geti til varanlegs örs.
Þá var gerð krafa um greiðslu lögmannskostnaðar, 45.000 krónur auk virðisaukaskatts.
Ákærða hefur verið sakfelld fyrir stórfellda líkamsárás og var árás hennar fólskuleg og hættuleg. Brotaþoli á rétt á miskabótum samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga og verður dæmd til greiðslu miskabóta eins og krafist er, 200.000 króna, auk vaxta frá 5. júní 2005 til 4. janúar 2006, er mánuður var liðinn frá þingfestingu ákæru þessarar á hendur ákærðu, en með dráttarvöxtum skv. 6. gr sbr. 9. gr. vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. Þá greiði ákærða kostnað brotaþola sem hann hefur haft af því að halda fram kröfu sinni, sbr. 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991, að fjárhæð 56.025 krónur.
Þar sem endurtaka þurfti aðalmeðferð annars málsins á hendur ákærðu vegna túlkunarörðugleika og ákærðu verður ekki um það kennt að kostnaður verjanda ákærðu jókst af þeim sökum, verður ríkissjóður látinn bera hluta málsvarnarlauna eins og hér greinir.
Ákærða greiði 2/3 hluta málsvarnarlauna skipaðs verjanda hennar, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur héraðsdómslögmanns, sem eru hæfilega ákveðin 493.020 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, en 1/3 hluti þeirra greiðist úr ríkissjóði.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Katrín Hilmarsdóttir fulltrúi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.
Héraðsdómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Hervör Þorvaldsdóttir og Pétur Guðgeirsson kváðu upp dóminn.
D ó m s o r ð :
Ákærða, X, sæti fangelsi í 7 mánuði, en frestað er fullnustu refsingar ákærðu og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærða greiði 2/3 hluta málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur héraðsdómslögmanns, sem eru 493.020 krónur, en 1/3 hluti þeirra greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði Y, sæti fangelsi í 4 mánuði, en frestað er fullnustu refsingar ákærða og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði greiði 2/3 hluta málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Guðjóns Ólafs Jónssonar hæstaréttarlögmanns, sem eru 449.196 krónur, en 1/3 hluti þeirra greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði, Z, sæti fangelsi í 5 mánuði, en frestað er fullnustu refsingar ákærða og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði greiði 2/3 hluta málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar héraðsdómslögmanns, sem eru 449.196 krónur, en 1/3 hluti þeirra greiðist úr ríkissjóði.
Ákærðu, Æ, Ö og Þ eru sýknaðir af kröfum ákæruvalds og bótakröfu A á hendur þeim vísað frá dómi.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Æ, Ingimars Ingimarssonar héraðsdómslögmanns, 449.196 krónur greiðast úr ríkissjóði.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Ö, Brynars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 449.196 krónur, greiðast úr ríkissjóði.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Þ, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 449.196 krónur, greiðast úr ríkissjóði.
Ákærðu X, Y og Z greiði in solidum A 423.615 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu af 2.938 krónum frá 14. apríl til 11. júní 2004 og af 23.615 krónum frá þeim degi til 26. júlí 2006, en með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt. 6. gr. laganna af 423.615 krónum til greiðsludags. Þá greiði þau in solidum málsvarnarþóknun skipaðs réttargæslumanns, Soffíu Ketilsdóttur héraðsdómslögmanns, 249.000 krónur auk lögmannskostnaðar Steinars Þórs Guðgeirssonar héraðsdómslögmanns, 62.250 krónur.
Ákærða, X, greiði B 200.000 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá 5. júní 2005 til 4. janúar 2006, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Þá greiði ákærða brotaþola 56.025 krónur vegna lögmannskostnaðar hans.