Print

Mál nr. 114/2001

Lykilorð
  • Kröfugerð
  • Aðild
  • Skipulag
  • Byggingarleyfi
  • Grennd
  • Stjórnsýsla
  • Stjórnvaldsúrskurður
  • Gjafsókn

Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. september 2001.

Nr. 114/2001.

Sólveig Þorsteinsdóttir

Gunnar Valtýsson

Björg Jóna Birgisdóttir

Már Vilhjálmsson

Elín Dóra Þórarinsdóttir

Vilhjálmur Kjartansson

Olga Gísladóttir

Sigurður Sigurðsson og

Edith Nicolaidóttir

(Sigurbjörn Magnússon hrl.

Jóhannes R. Jóhannsson hdl.)

gegn

Guðmundi Ó. Eggertssyni

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

Halldór Þ. Birgisson hdl.

og gagnsök

 

Kröfugerð. Aðild. Skipulag. Byggingarleyfi. Grennd. Stjórnsýsla. Stjórnvaldsúrskurður. Gjafsókn.

 

Að kröfu S o.fl., nágranna G, felldi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála úr gildi byggingarleyfi sem borgarráð hafði veitt fyrir viðbyggingu við húseign í eigu G. Í úrskurði nefndarinnar var jafnframt lagt fyrir byggingarnefnd að hlutast til  um að hin umdeilda viðbygging yrði fjarlægð og húsið fært til fyrra horfs innan ákveðins frests. G höfðaði dómsmál til ógildingar úrskurðarins. Hlutaðeigandi nágrannar G stefndu R fyrir Hæstarétt til réttargæslu, en samkvæmt 2. mgr. 21. gr. laga nr. 91/1991 var vísað frá dómi þeim kröfum þeirra sem hefðu, ef teknar til greina, mælt fyrir um skyldu til framkvæmda af hálfu R. G hafði áður fengið leyfi til að bæta við hús sitt og eftir þá viðbót var nýting lóðar hans komin verulega fram yfir það sem almennt hafði verið ákveðið fyrir aðliggjandi byggð. Með hinu umdeilda byggingarleyfi hefði nýting G á lóðinni aukist enn frekar, til óhagræðis a.m.k. fyrir næstu nágranna, sem taldir voru hafa mátt treysta því að ekki yrði ráðist í frekari stækkun húss G, án þess að unnið yrði deiliskipulag þar sem tekið yrði tillit til byggðamynsturs svæðisins. Var því talið að byggingaryfirvöld hefðu ekki mátt fara að undantekningarákvæði 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um ákvörðun sína um byggingarleyfið. Með hliðsjón af þessu, svo og því að framkvæmdir G við verkið voru taldar hafa verið unnar í heimildarleysi og ekki í góðri trú, var niðurstaða réttarins sú, að hinn umdeildi úrskurður úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála skyldi halda gildi sínu. 

 

 

Dómur Hæstaréttar.

          Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein.

          Aðaláfrýjendur skutu máli þessu til Hæstaréttar 26. mars 2001. Kröfugerð þeirra verður að skilja svo aðallega, að kröfu gagnáfrýjenda verði hafnað, en nái sú krafa ekki fram að ganga sé gerð sjálfstæð krafa til þess að ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. júní 2000, um að veita leyfi til byggingar 30 fermetra þakhæðar að Heiðargerði 76, sem staðfest var á fundi borgarráðs Reykjavíkur 11. júlí 2000, verði felld úr gildi og lagt fyrir byggingarnefnd að hlutast til um að umdeild viðbygging verði fjarlægð og húsið fært til fyrra horfs innan hæfilegs frests, sem byggingarnefnd ákveði. Í báðum tilvikum gera þeir kröfu um málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

        Málinu var gagnáfrýjað 3. maí 2001. Gagnáfrýjandi gerir þær kröfur að héraðsdómur verði staðfestur um annað en málskostnað og að aðaláfrýjendur greiði málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Aðilar hafa gjafsókn fyrir Hæstarétti.

Aðaláfrýjendur hafa stefnt íslenska ríkinu og Reykjavíkurborg til réttargæslu fyrir Hæstarétt. Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefndu og hafa þeir ekki sótt þing fyrir Hæstarétti. Gagnáfrýjandi stefndi Reykjavíkurborg til réttargæslu í héraði en ekki fyrir Hæstarétti. Hann gerði engar kröfur á hendur borginni í héraði en af hálfu borgarinnar var skilað greinargerð þar sem sjónarmið hennar koma fram. Þingsókn féll síðan niður af hálfu borgarinnar.

Mál þetta sætir flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

I.

Aðaláfrýjendur stefndu ekki Reykjavíkurborg í héraði og fyrir Hæstarétt stefna þeir borginni aðeins til réttargæslu. Þeir taka fram að engar kröfur séu gerðar á hendur réttargæslustefndu. Varakrafa þeirra og gagnkrafa í héraði, sem rétt þykir að skilja sem sjálfstæða kröfu á þann hátt, er að framan greinir, myndi að hluta til, ef tekin væri til greina, mæla fyrir um skyldu til framkvæmda af hálfu Reykjavíkurborgar. Samkvæmt 2. mgr. 21. gr. laga nr. 91/1991 verður slík krafa ekki gerð án þess að mál sé höfðað og rekið gegn borginni sem fullgildum aðila. Ber af þessum sökum að vísa kröfu aðaláfrýjenda frá dómi að þessu leyti. Verður málið því aðeins dæmt um gildi byggingarleyfis gagnáfrýjanda.

 

II.

Á árinu 1952 veitti byggingarnefnd Reykjavíkur leyfi til að byggja 80 fermetra einbýlishús með geymslurisi á lóðinni að Heiðargerði 76 í Reykjavík. Ári síðar var veitt leyfi fyrir kjallara og hækkun mænis um einn metra auk nokkurrar hækkunar á gólfplötu aðalhæðar hússins. Árið 1954 var samþykkt risbygging ásamt kvisti á norðurþaki hússins og samþykkt íbúð á rishæðinni. Var húsið endanlega byggt á þann veg og lokið sama ár. Árin 1962 og 1963 fékk gagnáfrýjandi leyfi til að byggja bílageymslu við húsið og byggja við það. Með þessum viðbyggingum var heildarflatarmál hússins orðið 343,1 fermetri og nýtingarhlutfall lóðarinnar orðið 0,71. Frá 1989 til 1994 sótti hann þrívegis um að fá að byggja ofan á áður samþykkta viðbyggingu, en var ætíð hafnað. Í öll skiptin hafði grenndarkynning farið fram og framkvæmdum verið mótmælt af hálfu nágranna.

Í máli þessu greinir aðila á um gildi byggingarleyfis, sem samþykkt var á fundi borgarráðs Reykjavíkur 11. júlí 2000, handa gagnáfrýjanda til þess að hækka þakið yfir syðri hluta hússins að Heiðargerði 76 og setja á það þrjá kvisti. Aðaláfrýjendur sem eiga næstu eignir kærðu þessa leyfisveitingu 25. júlí sama ár til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem starfar samkvæmt 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Felldi hún leyfið úr gildi með úrskurði sínum 10. nóvember 2000 og lagði fyrir byggingarnefnd að hlutast til um að hin umdeilda viðbygging yrði fjarlægð og húsið fært til fyrra horfs innan hæfilegs frests, sem byggingarnefnd myndi ákveða. Byggingarnefnd hafði ekki rökstutt veitingu byggingarleyfisins sérstaklega, svo sem henni var skylt samkvæmt 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga, en í umsögn skrifstofustjóra byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar 11. ágúst 2000 var byggingarleyfið á því reist að samkvæmt umsögn skipulags- og umferðarnefndar Reykjavíkurborgar hefði erindi gagnáfrýjanda verið í samræmi við staðfest aðalskipulag svo sem fyrir sé mælt í grein 11.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, sbr. einnig 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga. Þá hafi grenndarkynning farið fram eins og kveðið sé á um í grein 12.5 í byggingarreglugerð, sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga. Að uppfylltum öðrum ákvæðum greindrar reglugerðar og laga hafi erindið verið samþykkt. Nágrönnum, þar á meðal kærendum, hafi gefist kostur á að koma að athugasemdum sínum við nefndina. Mótmæli hafi borist frá mörgum þeirra og hafi nefndin fjallað um þau áður en erindið var afgreitt.

Í úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála er það rakið að lóðum í svokölluðu smáíbúðahverfi hafi verið úthlutað á nokkru tímabili eftir 1950 með þeim skilmálum að á þeim mætti byggja smáíbúð. Hafi upphaflegur grunnflötur húsa á svæðinu yfirleitt verið á bilinu 80–100 fermetrar. Ekki sé kunnugt um að nýtingarhlutfall hafi verið ákveðið fyrir hverfið þegar skipulag þess var upphaflega unnið en sé litið til byggingarskilmála megi ætla að það hefði að jafnaði ekki farið mikið yfir 0,50 á einstökum lóðum. Almenn ákvæði um nýtingarhlutfall hafi fyrst komið fram í aðalskipulagi Reykjavíkur, sem unnið var eftir 1960, en skipulagið hafi verið samþykkt í borgarstjórn 1965 og staðfest af félagsmálaráðherra 1967. Hafi þar verið almennt ákvæði um að nýtingarhlutfall íbúðarhverfa mætti mest vera 0,30-0,50, en ekki hafi verið gerð grein fyrir mismunandi nýtingarhlutfalli eftir gerðum húsa. Aðalskipulag þetta hafi verið fyrst tekið til endurskoðunar 1984 og hafi verið unnið að henni til 1987. Með endurskoðuðu aðalskipulagi, sem staðfest hafi verið af ráðherra 1988, hafi verið tekinn upp sá háttur að ákveða nýtingarhlutfall einstakra reita. Um reitanýtingu í nýjum íbúðarhverfum hafi verið miðað við hlutfallið 0,20-0,35 fyrir einbýlishúsareiti en 0,50-0,80 þar sem um væri að ræða sambýlishús (2-5 íbúðir). Með endurskoðuðu aðalskipulagi Reykjavíkur 1990-2010 hafi verið fallið frá því fyrirkomulagi að ákveða nýtingarhlutfall einstakra reita en í þess stað tekið upp viðmiðunarhlutfall fyrir mismunandi hverfi eða svæði. Hafi þessari framsetningu verið haldið óbreyttri við gerð núgildandi aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016.

Úrskurðarnefndin leitaði umsagnar Skipulagsstofnunar um kæruefni máls þessa. Í umsögn stofnunarinnar segir að samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 skuli viðmiðunarhlutfall á íbúðarsvæðum vera 0,2-0,4 fyrir einbýlishús en 0,5-0,8 fyrir sambýlishús (2-5 íbúðir). Ekki sé í gildi samþykkt eða staðfest deiliskipulag af viðkomandi svæði. Samkvæmt þeim gögnum, sem fylgt hafi kærunni, sé nýtingarhlutfallið á lóðinni nr. 76 við Heiðargerði 0,71 eftir framkvæmdirnar 1964, en verði 0,77 ef af framkvæmdum verði samkvæmt kærðu byggingarleyfi. Í gögnum frá borgarskipulagi Reykjavíkur komi fram að meðalnýtingarhlutfall í viðkomandi „botnlanga” sé um 0,4. Þá komi þar einnig fram að breytingin sé ekki í samræmi við byggðamynstur svæðisins og auki skuggamyndun á aðliggjandi lóðum. Í umsögnum borgarskipulagsins um veitingu byggingarleyfisins komi fram að með fyrirhugaðri breytingu verði vikið enn frekar frá yfirbragði og nýtingarhlutfalli á nærliggjandi lóðum en þegar væri orðið. Því yrði ekki mælt með erindinu. Ekki komi fram í gögnum málsins að forsendur umsóknar hafi breyst frá fyrri umsóknum, sem hafnað hafi verið, og ekki sé rökstutt hverju breytt afstaða borgaryfirvalda sæti. Það var mat Skipulagsstofnunar að til að heimila enn frekara frávik frá yfirbragði viðkomandi hverfis en þegar var orðið um húseignina Heiðargerði 76, hefði skipulagsyfirvöldum í Reykjavík borið að auglýsa tillögu að deiliskipulagi. Ekki hafi mátt, gegn mótmælum nágranna, heimila breytingar á húsinu eins og gert var í byggingarleyfinu.

III.

Í máli þessu kvað úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála upp úrskurð að liðnum þremur mánuðum og fimmtán dögum frá því að kæra barst nefndinni, sem er í andstöðu við 4. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga. Þótt telja verði drátt á uppkvaðningu úrskurðar annmarka á meðferð málsins ber að fallast á það með héraðsdómi að sá annmarki einn og sér eigi ekki að leiða til ógildingar úrskurðarins.

Í skipulags- og byggingarlögum er ekki að finna sérstakar takmarkanir á endurskoðunarheimild úrskurðarnefndarinnar, en til hennar má skjóta ágreiningsmálum á sviði skipulags- og byggingarmála. Um stjórnvaldsákvarðanir á því sviði gilda stjórnsýslulög nr. 37/1993 með þeim viðbótum og breytingum sem af sérreglum skipulags- og byggingarlaga kunna að leiða. Bar nefndinni því að endurskoða þau atriði sem ákvörðun byggingaryfirvalda var reist á og var ekki bundin við athugasemdir kærenda við byggingarleyfið, sbr. 7. og 10. gr. greindra laga. Hefur gagnáfrýjandi ekki sýnt fram á hnökra á málsmeðferð nefndarinnar að öðru leyti en þegar er fram komið.

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga með síðari breytingum sem og 9. gr. og 43. gr. sömu laga verður byggingarleyfi að eiga sér stoð í deiliskipulagi. Frá þeirri meginreglu er að finna undantekningu í 3. mgr. 23. gr. laganna, um heimild sveitarstjórnar til að veita leyfi til framkvæmda í þegar byggðum hverfum að undangenginni grenndarkynningu. Við afmörkun undantekningarreglunnar gagnvart meginreglunni ber að skýra ákvæðin til samræmis við 1. og 2. mgr. 26. gr. sömu laga þar sem segir að fara skuli með breytingu á deiliskipulagi eins og um nýtt skipulag sé að ræða nema breytingar séu óverulegar. Samkvæmt því ber að deiliskipuleggja byggð hverfi áður en byggingarleyfi eru veitt, nema þau leiði til óverulegrar breytingar á byggðamynstri hverfisins. Áður er því lýst að á árunum 1962 og 1963 hafði gagnáfrýjandi fengið leyfi til að bæta verulega við hús sitt. Á þessum tíma hafði ekkert verið ákveðið um töluleg gildi nýtingar lóða. Eftir þessa viðbót var nýting lóðar hans komin verulega fram yfir það sem almennt hafði verið ákveðið fyrir aðliggjandi byggð, sem að stofni til er einbýlishúsahverfi. Með umdeildu byggingarleyfi yrði þessi nýting hans á lóðinni aukin enn frekar. Af gögnum málsins má ráða að af þessari stækkun húsnæðisins stafar óhagræði að minnsta kosti fyrir eigendur Heiðargerðis 74 og 78. Hafa þeir ásamt öðrum nágrönnum mótmælt veitingu leyfisins, en þeir eiga hlut að málsókn þessari. Miðað við heildarsvip hverfisins og almenna nýtingu lóða þar máttu þeir treysta því að ekki yrði ráðist í frekari stækkun hússins að Heiðargerði 76 án þess að unnið yrði deiliskipulag þar sem tekið yrði tillit til byggðamynsturs svæðisins. Í aðalskipulagi segir um íbúðarhverfi varðandi þetta atriði: „Í flestum íbúðarhverfum í borginni er byggð nokkuð fastmótuð. Þar er einungis að vænta minni háttar breytinga.” Máttu byggingaryfirvöld í Reykjavík því ekki fara að undantekningarákvæði 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga, sbr. 7. tl. 43. gr. sömu laga, um ákvörðun sína um byggingarleyfið.

Gagnáfrýjandi réðst í breytingar á húsnæðinu áður en fullnægt var skilyrðum 44. gr. skipulags- og byggingarlaga um útgáfu byggingarleyfis og skilyrðum 19. gr. byggingarreglugerðar um skil séruppdrátta. Þá var honum kunnugt um andstöðu nágranna sinna við fyrirhugaðar framkvæmdir og mátti vita að þeir gátu kært samþykkt byggingarnefndar til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála innan eins mánaðar frá því þeim varð ákvörðunin kunnug, svo sem þeir gerðu. Verður að líta svo á að allar framkvæmdir hans við verkið hafi verið unnar í heimildarleysi og ekki í góðri trú. Getur það því ekki haft áhrif á niðurstöðu máls þessa að byggingin er langt komin.

Samkvæmt framansögðu ber að hafna öllum kröfum gagnáfrýjanda í málinu og skal niðurstaða úrskurðarnefndar um skipulags- og byggingarmál frá 10. nóvember 2000 halda gildi sínu.

Málskostnaðarákvæði héraðsdóms er staðfest. Hver aðili skal bera sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Gjafsóknarkostnaður aðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Kröfum gagnáfrýjanda, Guðmundar Ó. Eggertssonar, er hafnað og skal úrskurður úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í málinu nr. 42/2000, sem kveðinn var upp 10. nóvember 2000, halda gildi sínu.

Málskostnaðarákvæði héraðsdóms er staðfest. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjenda fyrir Hæstarétti, Sólveigar Þorsteinsdóttur, Gunnars Valtýssonar, Bjargar Jónu Birgisdóttur, Más Vilhjálmssonar, Elínar Dóru Þórarinsdóttur, Vilhjálms Kjartanssonar, Olgu Gísladóttur, Sigurðar Sigurðssonar og Edith Nicolaidóttur, greiðist úr ríkissjóði þar með talin málflutningslaun lögmanns þeirra, 300.000 krónur.

Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin málflutningslaun lögmanns hans, 300.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 6. mars 2001:

I.

   Mál þetta, sem dómtekið var hinn 8. febrúar sl., að loknum munnlegum mál­flutn­ingi, var höfðað af Guðmundi Ó.  Eggertssyni, kt. 270631-4529, Heiðargerði 76, Reykjavík á hendur Sólveigu Þorsteinsdóttur, kt. 230247-7819, Heiðargerði 74, Reykjavík, Gunnari Valtýssyni, kt. 071145-7869, Heiðargerði 74, Reykjavík, Björgu Jónu Birgisdóttur, kt. 240257-5999, Heiðargerði 78, Reykjavík, Vilhjálmi Kjartans­syni, kt. 020157-5269, Heiðargerði 88, Reykjavík, Má Vilhjálmssyni, kt. 180656-4219, Heiðargerði 78, Reykjavík, Elínu Dóru Þórarinsdóttur, kt. 220956-2539, Sigurði Sigurðs­syni, kt. 071224-4069, Heiðargerði 90, Reykjavík, Edith Nicolaidóttur, kt. 240323-2149, Heiðargerði 92, Reykjavík, Árna Sófussyni, kt. 300320-3929, Heiðar­gerði 94, Reykjavík, Katrínu Eðvaldsdóttur, kt. 020129-2639, Heiðargerði 94, Reykjavík og Reykjavíkurborg, kt. 530269-7609 til réttargæslu og Sólveigu Þorsteins­dóttur, kt. 230247-7819, Heiðargerði 74, Reykjavík, Gunnari Valtýssyni, kt. 071145-7869, Heiðargerði 74, Reykjavík, Björgu Jónu Birgisdóttur, kt. 240257-5999, Heiðar­gerði 78, Reykjavík, Vilhjálmi Kjartanssyni, kt. 020157-5269, Heiðargerði 88, Reykjavík, Má Vilhjálmssyni, kt. 180656-4219, Heiðargerði 78, Reykjavík, Elínu Dóru Þórarinsdóttur, kt. 220956-2539, Sigurði Sigurðssyni, kt. 071224-4069, Heiðar­gerði 90, Reykjavík, Edith Nicolaidóttur, kt. 240323-2149, Heiðargerði 92, Reykjavík, Árna Sófussyni, kt. 300320-3929, Heiðargerði 94, Reykjavík, og Katrínu Eðvalds­dóttur, kt. 020129-2639, Heiðargerði 94, Reykjavík gegn Guðmundi Ó.  Eggertssyni, kt. 270631-4529, Heiðargerði 76, Reykjavík og íslenska ríkinu  til réttargæslu.

 

Dómkröfur í aðalsök.

   Dómkröfur aðalstefnanda eru þær, að felldur verði úr gildi úrskurður úr­skurð­ar­nefndar skipulags- og byggingarmála í málinu nr. 42/2000, sem kveðinn var upp 10. nóvember 2000.  Einnig að viðurkennt verði að ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykja­vík frá 6. júní 2000 um að veita stefnanda leyfi til byggingar 30m² þakhæðar að Heiðargerði 76, Reykjavík, sem staðfest var á fundi borgarráðs Reykjavíkur, hinn 11. júlí 2000, hafi fullt gildi.  Þá krefst aðalstefnandi málskostnaðar, að skaðlausu, úr hendi aðalstefndu, ásamt virðisaukaskatti.

   Dómkröfur aðalstefndu eru þær aðallega, að þau verði sýknuð af kröfum aðal­stefn­anda, en til vara, að ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. júní 2000, um að veita leyfi til byggingar 30 fermetra þakhæðar að Heiðargerði 76, sem staðfest var á fundi borgarráðs Reykjavíkur hinn 11. júlí 2000, verði felld úr gildi og lagt fyrir bygg­ingarnefnd að hlutast til um að hin umdeilda viðbygging verði fjarlægð og húsið að Heiðargerði 76 verði fært til fyrra horfs innan hæfilegs frest, sem byggingarnefnd ákveður.  Í báðum tilvikum krefjast aðalstefndu málskostnaðar að skaðlausu úr hendi aðal­stefnanda, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

   Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda, Reykjavíkurborg.

 

Dómkröfur í gagnsök.

   Dómkröfur gagnstefnanda eru þær, að ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. júlí 2000 um að veita leyfi til byggingar 30 fermetra þakhæðar að Heiðargerði 76, sem staðfest var á fundi borgarráðs Reykjavíkur hinn 11. júlí 2000, verði felld úr gildi og lagt fyrir byggingarnefnd að hlutast til um að hin umdeilda viðbygging verði fjar­lægð og húsið að Heiðargerði 76 verði fært til fyrra horfs innan hæfilegs frests, sem byggingarnefnd ákveður.  Þá krefjast gagnstefnendur málskostnaðar úr hendi gagn­stefnda, samkvæmt málskostnaðarreikningi.

   Dómkröfur gagnstefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum gagn­stefnanda og að gagnstefnendum verði gert að greiða honum málskostnað, að skað­lausu, ásamt 24,5% virðisaukaskatti.

   Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda, íslenska ríkinu.

   Mál þetta sætir meðferð samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einka­mála.

 

II.

   Lóðinni nr. 76 við Heiðargerði í Reykjavík var úthlutað á árinu 1952 til föður aðal­stefnanda.  Byggingarnefnd veitti leyfi til að byggja á lóðinni 80 fm. einbýlishús með geymslurisi og ári síðar var veitt leyfi fyrir kjallara og hækkun mænis um einn metra auk nokkurrar hækkunar á aðalplötu hússins.

   Á árinu 1953 var samþykkt risbygging ásamt kvisti á norðurþaki hússins og sam­þykkt íbúð á rishæðinni.

   Á árunum 1962 og 1963 fékk aðalstefnandi leyfi til þess að byggja bílageymslu við húsið og til að byggja við húsið.  Með þessum viðbyggingum var heildarflatarmál húss­ins orðið 343,1 fm. og nýtingarhlutfall lóðarinnar orðið 0,71.

   Árið 1989 sótti aðalstefnandi um leyfi til þess að byggja ofan á áður samþykkta við­byggingu við húsið og hækka risið að hluta.  Byggingarnefnd hafnaði þessari um­sókn aðalstefnanda á fundi nefndarinnar hinn 31. ágúst 1989.  Aðalstefnandi ítrekaði um­sókn sína, eftir að hafa breytt fyrri teikningum, en var synjað af byggingarnefnd, hinn 30. apríl 1992.  Umsókn aðalstefnanda sama efnis var aftur synjað af bygg­ing­ar­nefnd hinn 4. júlí 1994.

   Allar þessar umsóknir aðalstefnanda um breytingar á húsnæðinu, sem honum var synjað um leyfi á, sættu mótmælum nágranna hans.

   Hinn 25. júlí 1999 sótti aðalstefnandi um það til byggingarnefndar Reykjavíkur að fá leyfi til þess að hækka þakið yfir syðri hluta hússins og setja þrjá kvisti á húsið.  Bygg­ingarnefnd vísaði umsókninni til skipulags- og byggingarnefndar og fór um­sókn­in einnig til umsagnar borgarskipulags Reykjavíkur.  Í febrúar og mars árið 2000 fór fram grenndarkynning og bárust mótmæli við fyrirhugðar breytingar á húsnæði aðal­stefnanda.

   Hinn 8. maí 2000 var umsókn þessi tekin fyrir að nýju hjá skipulags- og um­ferð­ar­nefnd, þar sem niðurstaðan varð sú, að ekki yrðu gerðar athugasemdir af hálfu nefnd­arinnar um veitingu byggingarleyfis til handa aðalstefnanda vegna fyrirhugaðra breytinga.

   Hinn 13. júní 2000 samþykkti byggingarfulltrúi byggingarleyfið í umboði byggi­ng­arnefndar fyrir viðbyggingu við fasteign aðalstefnanda að Heiðargerði 76 og var sú ákvörðun staðfest á fundi borgarráðs Reykjavíkur hinn 1. júlí 2000.

   Hinn 25. júlí 2000 kærðu gagnstefnendur framkvæmdirnar til úrskurðarnefndar skipu­lags- og byggingarmála.

   Hinn 10. nóvember 2000 var byggingarleyfi aðalstefnanda fellt úr gildi með úr­skurði nefndarinnar.  Var aðalstefnanda jafnframt gert að færa fasteign sína að Heiðar­gerði 76 til fyrra horfs.

 

III.

Málsástæður aðalstefnanda í aðalsök.

   Aðalstefnandi byggir kröfur sínar á því, að hann hafi uppfyllt öll formskilyrði íslensks réttar til að öðlast hið umþrætta byggingarleyfi.  Samkvæmt umsögn skipu­lags- og umferðarnefndar hafi erindið verið í samræmi við aðalskipulag samkvæmt gr. 11.2. í byggingarreglugerð nr. 441/1998, sbr. einnig 2. mgr. 43. gr. skipulags- og bygg­ingarlaga nr. 73/1997 og hafi verið grenndarkynnt eins og heimilt sé samkvæmt 2. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997 og gr. 12.5. byggingarreglugerðar, sbr. einnig 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.

   Aðalstefnandi byggir kröfur sínar á því, að við veitingu byggingarleyfis hafi verið gætt allra lagaskilyrða.  Byggingafulltrúinn í Reykjavík hafi í tvígang upplýst um af­stöðu sína vegna byggingarleyfisins bæði með útgáfu byggingarleyfis og með bréfi til úr­skurðarnefndar, dagsettu 9. ágúst 2000.  Aðalstefnandi telur niðurstöðu bygging­ar­full­trúans rétta, enda innan heimildar 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997.  Vísar hann í því sambandi til álits umboðsmanns Alþingis í málinu nr. 2556/1998, enda sé um óverulega breytingu á byggingarmynstri hverfisins að ræða.

   Byggir aðalstefnandi á því, að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hafi með úrskurði sínum brotið skráðar formreglur, farið út fyrir valdmörk sín og mis­túlkað lagareglur og aðalskipulag Reykjavíkur 1996-2016.

   Aðalstefnandi telur úrskurðarnefndina hafa farið fram yfir lögboðinn frest sem sé við afgreiðslu kæru.  Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum sé kveðið á um að úr­skurð skuli kveða upp svo fljótt sem auðið sé og eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að mál berist í hendur nefndarinnar.  Frestur til uppkvaðningar úrskurðar geti aldrei orðið lengri en þrír mánuðir.  Nefndinni hafi borist kæra aðalstefndu hinn 25. júlí 2000 og hafi úrskurður verið kveðinn upp 10. nóvember sama ár, eða 15 dögum eftir loka­frest laganna, sem sé óundanþægur.

   Þá byggir aðalstefnandi á því, að úrskurðarnefndinni hafi verið óheimilt að kveða upp úrskurð á grundvelli nábýlissjónarmiða, þar sem þakbygging aðalstefnanda hafi hlotið lögmælta og fullkomna grenndarkynningu, samkvæmt 2. mgr. 23. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Aðalstefndu hafi fengið að koma sjónarmiðum sínum að við grenndarkynninguna, en þau sjónarmið hafi ekki verið talin standa því í vegi að aðalstefnandi fengi byggingarleyfi.  Nefndinni sé óheim­ilt að endurskoða hin matskenndu sjónarmið nábýlisréttarins, sem legið hafi til grund­vallar ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík.  Einnig mótmælir aðal­stefn­andi því, að umdeildar framkvæmdir við hús hans hafi áhrif á útsýni aðalstefndu, nema þá aðeins að litlu leyti.  Aðeins geti komið til greina að bygging hans hafi lítils­háttar áhrif á útsýni íbúa að Heiðargerði 74, en sú skerðing sé svo takmörkuð að íbúar þar verði að þola þá skerðingu á grundvelli sjónarmiða nábýlisréttarins.  Þá telur aðal­stefn­andi að þakbygging hans valdi ekki skuggamyndun.  Aðalstefnandi hafi látið teikna skuggamyndir á grundvelli upplýsinga um sólstöður, sem sýni glöggt fram á, að fyrir­huguð breyting á húsnæði hans valdi aðeins 1 fm.  skuggamyndun á ná­granna­lóð­inni nr. 78 við Heiðargerði, að öðru leyti valdi byggingin ekki skuggamyndun á lóð­um aðalstefndu.  Teikningar þessar hafi fylgt umsókn hans um byggingarleyfi.  Telur aðalstefnandi að teikning þessi sé fullnægjandi og gerð eftir viðurkenndum að­ferð­um og skuggamyndun mæld á þeim tímum sem algengast sé að mæla. 

   Aðalstefnandi kveður fyrirhugaða breytingu á húsnæði hans, þ.e.a.s. að hækka þak hússins, verða til þess að húsið stækki um eitt herbergi.  Sú aukning geti varla leitt til aukinnar umferðar í hverfinu.  Þá beri að líta til þess að allt frá því að húsið Heiðar­gerði 76 var byggt hafi verið tvær íbúðir í húsinu, en fyrirhuguð breyting muni ekki fjölga íbúðum í því.

   Aðalstefnandi telur það ekki vera á sína ábyrgð að afsanna þau sjónarmið, sem fram komi í kæru aðalstefndu eða sanna frekar þær ástæður sem liggi að baki bygg­ing­arleyfi, sem honum hafi verið veitt. 

   Aðalstefnandi byggir á því, að taka verði dómkröfu hans til greina, þar sem nefndin hafi farið út fyrir þær málsástæður sem aðalstefndu hafi lagt til grundvallar kæru sinni.  Nefndinni hafi verið óheimilt að taka kæruna til skoðunar á grundvelli ann­arra málsástæðna en kæran byggi á, þ.á m. reglna um viðmiðunarnýtingarhlutfall, þar sem ekki sé byggt á þeim reglum í kærunni sjálfri.  Könnun nefndarinnar á öllum hlið­um leyfisveitingarinnar og allsherjarskoðun á leyfinu brjóti í bága við meginreglu réttar­fars um forræði aðila á málsástæðum sem krafa byggi á og því, að málsástæðu skuli hafa upp jafnskjótt og tilefni sé til ella sé hún of seint fram komin.  Úr­skurð­ar­nefndin hafi það hlutverk að fjalla um ágreining tveggja aðila, en ekki ágreining ein­stakl­ings við stjórnvöld.  Slík skoðun byggingarleyfis sé afar ósanngjörn gagnvart þeim örfáu sem fái byggingarleyfi sem kært sé í samanburði við öll þau bygg­ing­ar­leyfi, sem ekki séu kærð og þurfi þar af leiðandi ekki að sæta endurskoðun.  Bygg­ing­ar­leyfið sé eign í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 627/1994.  Leyfið njóti því friðhelgi, sem felist í slíkum eignarréttindum og beri að tryggja einstaklingnum rétt til réttlátrar máls­meðferðar gegn handahófskenndum ákvörðunum eða aðgerðum handhafa ríkis­valds­ins sem leggi einstaklingsbundna eða óhóflega byrði á einstaklinga.

   Aðalstefnandi byggir og á því að niðurstaða úrskurðarnefndarinnar um nýt­ing­ar­hlut­fallið sé röng.  Í umsögn skipulagsnefndar ríkisins, dagsettri 21. ágúst 2000, sé m.a. fjallað um viðmiðunarnýtingarhlutfall á íbúðarsvæðum, sem byggi á aðal­skipu­lagi Reykjavíkur fyrir árin 1996-2016.  Þar segi að viðmiðunarnýtingarhlutfall á íbúðar­svæðum skuli vera 0,2-0,4 fyrir einbýlishús, en 0,5-0,8 fyrir sambýlishús, en þar sé átt við hús með tvær til fimm íbúðir.  Nýtingarhlutfallið á lóð aðalstefnanda sé 0,71 en verði 0,77 eftir lok framkvæmdanna.  Á fundi byggingarnefndar hinn 15. júní 1954 hafi verið samþykkt að húsið að Heiðargerði 76 yrði gert að tvíbýli.   Samkvæmt áður­greindu aðalskipulagi megi nýtingarhlutfall íbúðarhúss aðalstefnanda vera allt að 0,8 og sé því breytingin vel innan leyfilegra marka.  Þá hafi flestir ef ekki allir aðal­stefndu flutt í hverfið eftir að aðalstefnandi hafi breytt húsnæðinu árið 1954 og því mátt vera ljóst, að um stærð hússins giltu reglur um tvíbýli bæði varðandi nýt­ing­ar­reglur og reglur aðalskipulags. 

   Aðalstefnandi mótmælir og þeirri aðferð skipulagsstofnunar að líta aðeins til meðal­nýtingarhlutfalls í „botlanga” málsaðila, eins og gert sé í umsögn stofn­un­ar­inn­ar.  Nýtingarhlutfall sé m.a. 0,70 í fjórum húsanna við Háagerði og hæsta nýt­ing­ar­hlutfall í hverfinu sé 0,85, en það sé í Hlíðargerði.  Telur aðalstefnandi það vera brot á 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að koma í veg fyrir að aðalstefnandi byggi við hús sitt þannig að það nái ekki einu sinni því nýtingarhlutfalli sem viðgangist í hverfinu.

   Einnig byggir aðalstefnandi á því, að byggingaryfirvöld hafi þegar fallist á fyrr­greinda túlkun aðalstefnanda um hvaða viðmiðunarnýtingarhlutfall skuli leggja til grund­vallar vegna stækkunarinnar, er heimiluð var stækkun húss aðalstefnanda árið 1963, en með þeirri stækkun hafi byggingarhlutfallið orðið 0,71.  Bersýnilega hafi þá verið miðað við að húsið væri ekki einbýli heldur tvíbýli.  Með því að leggja til grund­vallar aðra túlkun reglnanna nú en gert hafi verið þá fái ekki staðist almennar reglur stjórn­sýsluréttarins, þ.á m. þær grundvallarreglur sem gildi um ívilnandi stjórn­sýslu­ákvarð­anir og ógildingu eða afturköllun þeirra.  Reglur aðalskipulags um nýting­ar­hlut­fall hafi ekki verið brotnar þar eð um hús aðalstefnanda gildi reglur um ein­býl­is­hús, þrátt fyrir að húsið sé tvíbýli.

   Aðalstefnandi mótmælir og þeim fullyrðingum að breytingar á húsi hans muni breyta yfirbragði hverfisins.  Um sé að ræða lítilsháttar breytingu á húsinu, sem gerð sé með það í huga að samræmi fáist bæði við húsið sjálft og umhverfi þess og falli húsið betur að yfirbragði hverfisins eftir breytinguna.

   Samkvæmt meginreglum eignaréttarins, sbr. m.a. 72. gr. stjórnarskrárinnar, hafi menn rétt til að hagnýta sér eign sína.  Þegar taka eigi ákvörðun um heimild til hag­nýt­ingar eignar verði annars vegar að vega hagsmuni þess sem óskar leyfis til að nýta sér eign sína og hins vegar hagsmuni nágranna.  Slíkt mat hafi farið fram af hálfu leyfis­veitanda, að undangenginni lögboðinni grenndarkynningu, þar sem aðalstefndu hafi verið gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.  Niðurstaða leyfis­veit­anda hafi m.a. byggst á umsögnum, sem kveðið hafi á um ríkari hagsmuni aðal­stefnanda.

Aðalstefnandi kveður löggjöf, þar sem æðra sett stjórnvald, eins og úr­skurð­ar­nefnd skipulags- og byggingarmála, geti svipt einstakling eignarrétti hans með stjórn­sýslu­úrskurði eftir að lægra sett stjórnvald hafi veitt einstaklingnum þá eign, sem sé bygg­ingarleyfi, brjóta í bága við 6. gr., sbr. 1. samningsviðauka við mann­rétt­inda­sátt­mála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. og 72. gr. stjórnarskrárinnar.  Einkum og sér í lagi sé löggjöfin brot á framangreindu ákvæði, þar sem eignasvipting geti átt sér stað eftir að byggingarleyfishafinn hafi hafið framkvæmdir.  Til þess að fyrrgreind lög­gjöf standist ákvæði mannréttindasáttmálans og eignarréttarákvæði stjórn­ar­skrár­innar verði slíkur stjórnsýsluúrskurður að liggja fyrir áður en ákvörðun sé tekin um bygg­ingarleyfi.

   Þá byggir aðalstefnandi á almennum reglum stjórnsýsluréttarins um afturköllun eða ógildingu stjórnsýsluákvarðana.  Byggingarleyfi sé ívilnandi stjórnsýsluákvörðun og um slíkar ákvarðanir gildi ákvæði 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Samkvæmt orð­um ákvæðisins eigi það við um afturköllun stjórnsýsluhafa, sem veitt hafi leyfið, en samkvæmt sömu sjónarmiðum eigi ákvæðið einnig við um afturköllun æðri stjórn­sýslu­hafa eða stjórnsýsluúrskurðaraðila.  Ekki sé lagaheimild til þess að fella úr gildi leyfi byggingarfulltrúa er staðfest hafi verið í borgarráði.

   Samkvæmt grundvallarsjónarmiðum, sem búi að baki 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1991 og grundvallarreglum eignaréttarins um viðskeytingu og smíði, beri að taka dóm­kröfur aðalstefnanda til greina, þar sem framkvæmdir hans samkvæmt leyfinu séu langt komnar.  Kostnaður við niðurrif að viðbættum þegar útlögðum kostnaði og kostn­aði við að koma húsinu aftur í fyrra horf kosti á fjórðu milljón króna.  Í for­sendum úrskurðarnefndarinnar sé ekki tekið tillit til þeirrar verðmætaröskunar, sem felist í því að fella leyfið úr gildi.  Aðalstefnandi telur afstöðu úrskurðarnefndarinnar, um að hann hafi ekki mátt hefja framkvæmdir fyrr en séruppdrætti hefði verið skilað og því hafi hann ekki verið í góðri trú, vera fráleita enda hefðu skil á séruppdráttum engin áhrif haft á stærð byggingarinnar eða aðrar framkvæmdir samkvæmt þegar út­gefnu leyfi.  Auk þess hafi enga nauðsyn  borið til að skila fyrrgreindum sér­upp­drátt­um fyrr en við úttekt á byggingunni samkvæmt 19. gr. byggingarreglugerðar, nr. 441/1998.  Þá kveður aðalstefnandi það frekar vera reglu en undantekningu að hefja fram­kvæmdir áður en séruppdráttum sé skilað.  Aðalstefnanda kveður sér hafa verið það ómögulegt að skila séruppdrætti fyrr en eldra þak hússins hefði verið rifið til þess að unnt hefði verið að gera heildarburðarteikningu af húsinu og þakinu.  Eftir það hafi verið opið niður á neðri hæð hússins og því verið nauðsynlegt að halda framkvæmdum áfram.

   Á grundvelli ofangreindra röksemda sé niðurstaða úrskurðarnefndar skipulags- og bygg­ingarmála röng.  Aðalstefnandi hafi uppfyllt öll skilyrði sem sett séu fyrir bygg­ing­arleyfi auk þess sem hagsmunir hans af leyfinu séu verulega meiri en hagsmunir aðal­stefndu.

   Aðalstefnandi kveðst stefna Reykjavíkurborg til réttargæslu þar sem niðurstaða dóms­máls þessa geti skipt borgina máli að lögum bæði vegna gjörða bygg­ing­ar­full­trúans í Reykjavík, borgarráðs, sem og nefnda á vegum borgarinnar, sem að málinu hafi komið.

   Um lagarök vísar aðalstefnandi til skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, eink­um 8., 23. og 43. gr. laganna og til byggingarreglugerðar nr. 441/1998, einkum gr. 11.2. og gr. 12.5.  Þá vísar aðalstefnandi til reglugerðar um úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarlaga nr. 621/1997, einkum 3. gr.  Einnig vísar aðalstefnandi til stjórn­sýslu­laga nr. 37/1993, einkum 11. gr., 12. gr. og 25. gr. laganna, stjórnarskrár lýð­veld­isins Íslands, einkum 72. gr. auk mannréttindasáttmála Evrópu, lög nr. 62/1994, einkum 6. gr. og 1. samningsviðauka sáttmálans.

   Kröfu um málskostnað byggir aðalstefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um með­ferð einkamála, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra laga.

   Um réttargæsluaðild réttargæslustefnda vísar aðalstefnandi til 21. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

 

IV.

Málsástæður aðalstefndu í aðalsök.

   Sýknukröfu sína byggja aðalstefndu á því að úrskurður úrskurðarnefndarinnar skuli standa samkvæmt forsendum hans og niðurstöðu.

   Aðalstefndu byggja í fyrsta lagi á því, að hið umdeilda byggingarleyfi sé ólög­mætt, þar sem það samrýmist ekki skilmálum aðalskipulags Reykjavíkur, m.a. um nýt­ing­arhlutfall og því hafi ekki við samþykki byggingarleyfisins verið gætt þess skil­yrðis 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, um að framkvæmdir skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag.  Í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur sé kveðið á um það, að við ákvarðanir um nýtingarhlutfall skuli hafa töflu, sem þar sé birt til viðmiðunar.  Samkvæmt þeirri töflu skuli nýtingarhlutfall einbýlishúsa vera á bilinu 0,2-0,4.  Í greinargerð með aðalskipulaginu komi fram, að meðal þátta sem áhrif hafi á nýtingarhlutfall sé umfang húsa og nýtingarhlutfall á aðliggjandi lóðum.  Aðal­stefndu mótmæla þeirri fullyrðingu aðalstefnanda, að við ákvörðun á nýtingarhlutfalli skuli miða við nýtingarhlutfall sambýlishúsa, sem sé á bilinu 0,5-0,8, þar sem tvær íbúðir hafi verið samþykktar í húsi aðalstefnanda.  Vísa aðalstefndu til rökstuðnings í um­deildum úrskurði varðandi nýtingarhlutfall.

   Þá byggja aðalstefndu á því, að hin umdeilda viðbygging skerði hagsmuni þeirra með ólögmætum hætti, þar sem viðbyggingin spilli útsýni, valdi skuggamyndun, dragi úr sól og valdi ósamræmi í útliti götunnar.  Húsið Heiðargerði 76 sé nú þegar bæði stærra en almennt gerist í hverfinu og nýtingarhlutfall á lóðinni mun meira en á öðrum lóð­um og hafi því viðbygging í för með sér verulega skerðingu á hagsmunum aðal­stefndu.  Telja aðalstefndu, að framlögð teikning aðalstefnanda, sem sýna eigi skugga­mynd­anir hússins Heiðargerðis 76, gefi villandi mynd af þeim skugga, sem við­bygg­ing á húsi aðalstefnanda varpi á aðliggjandi hús.

   Einnig byggja aðalstefndu kröfu sína á því, að ekki hafi verið heimilt að gefa út bygg­ingarleyfið án þess að auglýsa fyrst tillögu um deiliskipulag, sbr. 2. mgr. og 7. mgr. 43. gr., sbr. 2. mgr. 23. gr. og 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Samkvæmt niðurstöðu Skipulagsstofnunar hafi skipulagsyfirvöldum í Reykja­vík borið að auglýsa tillögu að deiliskipulagi áður en unnt hafi verið að heim­ila enn frekara frávik frá yfirbragði viðkomandi hverfis en þegar sé orðið um húseign aðal­stefnanda.  Borgaryfirvöldum hafi verið óheimilt, gegn mótmælum nágranna, að heimila breytingar á húsinu eins og gert hafi verið með byggingarleyfinu og því hafi borið að fella leyfið úr gildi.  Í umsögn skipulagsstofnunar komi fram, að sú skipu­lags­meðferð, sem viðhöfð hafi verið í málinu, sé heimil vegna framkvæmda á svæð­um, þar sem deiliskipulag liggi ekki fyrir og fyrirhugaðar framkvæmdir samræmist þeirri byggð sem fyrir sé, svo sem varðandi yfirbragð, nýtingarhlutfall og notkun.  Ef víkja eigi frá þessu sé ekki heimilt að beita grenndarkynningu eins og gert hafi verið í þessu máli heldur verði slík heimild að eiga stoð í samþykktu deiliskipulagi.

   Aðalstefndu byggja á því, að úrskurðarnefndin geti byggt niðurstöðu sína á máls­ástæð­um um of hátt nýtingarhlutfall þó svo að sú málsástæða hafi ekki verið höfð uppi af hálfu kærenda.  Skýrt sé kveðið á um þetta í úrskurðinum, en þar komi fram að máls­forræðisreglu einkamálaréttarfars verði ekki beitt við málsmeðferð kærumála á sviði stjórnsýslunnar, heldur beri kærustjórnvaldi að leiðbeina málsaðilum og skýra mála­tilbúnað þeirra, sé þess þörf.  Líta beri á 3. gr. reglugerðarinnar nr. 621/1997 sem leið­beiningarreglu með hliðsjón af meginreglum stjórnsýsluréttarins og að mál­skots­réttur hagsmunaaðila til æðra stjórnvalds verði ekki skertur með þröngum form­skil­yrðum í reglugerð, án þess að hún hafi lagastoð.

   Á grundvelli þess að úrskurðarnefndinni hafi borið að fjalla um öll þau atriði sem varði lögmæti hinnar kærðu stjórnvaldsákvörðunar mótmæla aðalstefndu þeirri máls­ástæðu aðalstefnanda, að úrskurðarnefndinni hafi verið óheimilt að byggja úrskurð sinn á nábýlissjónarmiðum, þar sem þakbyggingin hafi hlotið grenndarkynningu.  Ekkert í lögum nr. 73/1997 takmarki umfjöllun nefndarinnar um ofangreind atriði auk þess, sem nauðsyn hafi borið til að samþykkja deiliskipulag áður en umrætt bygg­ing­ar­leyfi hafi verið veitt.

   Einnig mótmæla aðalstefndu því að fella beri úrskurðinn úr gildi, þar sem hann hafi ekki verið kveðinn upp innan þriggja mánaða eins og kveðið sé á um í 4. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997.  Ákvæðið verði ekki túlkað svo, að það leiði til ógildingar úr­skurðar þó svo að nefndin hafi lítillega farið fram úr fresti.  Sú túlkun verði hvorki ráðin af lagatexta né af ummælum í greinargerð.  Almenn sjónarmið í stjórnsýslurétti leiði til þess að málshraðareglan verði að víkja fyrir rannsóknarreglunni, enda sé tekið fram í úrskurðinum að uppkvaðning hans hafi dregist vegna anna nefndarmanna og nokkuð umfangsmikillar gagnaöflunar.

   Aðalstefndu byggja á því, að ákvæði skipulags- og byggingarlaga séu í fullu sam­ræmi við samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og 72. gr. stjórnarskrárinnar.  Aðalstefndu mótmæla og þeirri málsástæðu aðalstefnanda að úrskurður úrskurðarnefndarinnar brjóti í bága við samningsviðauka við mann­rétt­inda­sáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem bygg­ingarleyfið sé eign, sem einstaklingur verði ekki sviptur með úrskurði.  Þá mót­mæla aðalstefndu því og að fara eigi fram mat á hagsmunum aðila með tilliti til reglna eignar­réttarins um viðskeytingu og smíði og að ekki sé hægt að fella leyfið úr gildi þar eð byggingin sé að mestu leyti risin.  Samkvæmt því sem fram komi í úrskurðinum hafi allar framkvæmdir aðalstefnanda við húsið verið unnar í heimildarleysi, þar sem hann hafi hafist handa við bygginguna án þess að fullnægt væri skilyrðum 44. gr. laga nr. 73/1997 um útgáfu byggingarleyfis og ákvæðum 19. gr. byggingarreglugerðar um skil á séruppdráttum.  Byggingarleyfi sem ekki hafi öðlast gildi geti ekki talist eign í þröng­um skilningi eignaréttarins.  Slík eignarréttindi  takmarkist af þeim réttindum sem eignir nágranna njóti samkvæmt nábýlisrétti, sem staðfestar hafi verið í skipulags- og byggingarlögum.  Ákvæði skipulags- og byggingarlaga, þar á meðal ákvæði um úr­skurð­arnefndina, eigi að tryggja réttaröryggi einstaklinga í meðferð skipulags- og bygg­ingarmála og að eignaréttur þeirra verði ekki fyrir borð borinn við undirbúning mann­virkjagerðar.  Ákvæðin séu því í fullu samræmi við stjórnarskrána og mann­rétt­inda­sáttmála Evrópu.

   Aðalstefndu mótmæla því og að ákvæði 12. gr. og 26. gr. stjórnsýslulaga eigi við í málinu.  Aðalstefndu telja viðbyggingu aðalstefnanda ekki hafa verið nauðsynlega til þess að koma í veg fyrir leka frá þaki.  Hægt sé að beita margvíslegum aðferðum til þess að koma í veg fyrir leka frá flötum þökum.  Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar komi og fram að þakið á húsi aðalstefnanda hafi alls ekki verið flatt því að af um­merkjum og samþykktum teikningum megi ráða, að nokkur halli hafi verið á þakinu til norð­austurs.  Auk þess gæti ósamræmis hjá aðalstefnanda hvað þetta atriði varði, þar sem bílskúrsbyggingin við hlið hússins sé með flötu þaki og þar hafi ekki orðið vart við leka.

   Aðalstefndu stefna íslenska ríkinu til réttargæslu, þar sem stjórnvald á þess vegum hafi kveðið á um að tiltekin stjórnvaldsákvörðun sveitarfélags sé ólögmæt og hafi þannig tekið að sér að gæta almannahagsmuna.

   Aðalstefndu byggja kröfu sína um málskostnað á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 90/1991, um meðferð einkamála.

   Kröfu um virðisaukaskatt byggja aðalstefndu á lögum nr. 50/1988, um virðis­auka­skatt, en aðalstefndu séu ekki virðisaukaskattskyldir aðilar.

 

V.

Málsástæður í gagnsök.

   Gagnstefnendur telja þörf á að höfða gagnsakarmál.  Þar sem gagnstefndi hafi höfðað mál á hendur gagnstefnanda, þar sem þess sé krafist að úrskurður úr­skurð­ar­nefndar verði felldur úr gildi og byggi m.a. á þeirri málsástæðu að úrskurðarnefndin hafi með úrskurði sínum brotið formreglur sem henni hafi verið settar og þar með farið út fyrir valdmörk sín, sé nauðsynlegt að höfða gagnsakarmál, þar sem dómkrafan sé efnislega samhljóða niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar frá 10. nóvember sl.  Jafn­framt sé gagnsakarkrafan höfð uppi sem varakrafa í aðalsök verði úrskurður úr­skurð­ar­nefndarinnar felldur úr gildi á þeim forsendum að formreglur hafi verið brotnar eða nefndin farið út fyrir valdmörk sín.

   Gagnstefnendur byggja kröfur sínar í gagnsök á því, að hið umdeilda bygg­ing­ar­leyfi samrýmist ekki skilmálum aðalskipulags Reykjavíkur, m.a. um nýt­ing­ar­hlut­fall og því hafi við samþykkt byggingarleyfisins ekki verið gætt skilyrða 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, um að framkvæmdir skuli vera í sam­ræmi við staðfest aðalskipulag.  Einnig byggja gagnstefnendur á því, að hin umdeilda við­bygging skerði hagsmuni gagnstefnenda með ólögmætum hætti, þar sem bygg­ingin spilli útsýni, valdi skuggamyndun, dragi úr sól og valdi ósamræmi í útliti göt­unn­ar.  Í ljósi þess að bæði stærð hússins nr. 76 við Heiðargerði og nýtingarhlutfall á lóð­inni sé verulega meira en almennt gerist í hverfinu og þess byggingarmagns sem fyrir sé á lóðinni hafi viðbyggingin í för með sér verulega skerðingu á hagsmunum gagn­stefnenda.

   Kröfu um málskostnað byggja gagnstefnendur á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála og lögum nr. 68/1987.

   Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggja gagnstefnendur á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þar sem lögmönnum sé gert skylt að innheimta virðis­aukaskatt af þjónustu sinni og gagnstefnendur séu ekki virðisaukaskattskyldir.

   Gagnstefndi gerir þá athugasemd við kröfur gagnstefnenda í gagnsök, að kröfu­gerð­in sé ódómhæf undir þeim kringumstæðum að fallist verði á dómkröfur aðal­stefn­anda í aðalsök.  Af þeim sökum ætti að frávísa kröfu gagnstefnenda ef fallist yrði á dómkröfur aðalstefnanda í aðalsök, á þeim forsendum að búið væri að fjalla um kröfuna efnislega.

   Gagnstefndi byggir sýknukröfu sína í gagnsök á sömu sjónarmiðum og kröfu sína í aðalsök.

   Um lagarök vísar gagnstefnandi til skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, bygg­ingarreglugerðar nr. 441/1998, reglugerðar nr. 621/1997, um úrskurðarnefnd skipu­lags- og byggingarlaga, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1994 og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

   Kröfu um málskostnað í gagnsök byggir gagnstefndi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

   Réttargæslustefndu gera engar kröfur í málinu, enda engar kröfur gerðar á hendur réttar­gæslustefndu. 

 

VI.

   Eins og fram hefur komið var aðalstefnanda veitt leyfi til byggingar þakhæðar að Heiðar­gerði 76, Reykjavík og var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála með bréfi dagsettu 25. júlí 2000, sem barst nefndinni 27. sama mán­aðar. 

   Eins og áður hefur verið rakið hefur aðalstefnandi ítrekað sótt um byggingarleyfi til sams konar breytinga á húsnæði sínu og nú er deilt um, en því ætíð verið hafnað.  Sam­kvæmt gögnum málsins sótti aðalstefnandi fyrst um að byggja ofan á áður sam­þykkta viðbyggingu við húsið og hækka gamla risið að hluta á árinu 1989.  Aðal­stefn­andi ítrekaði umsóknir sínar á árinu 1992 og 1994 en umsóknunum um breyt­ingar á húsnæðinu var í öll þessi skipti synjað.  Var nágrönnum kynntar þessar um­sóknir og hafa þeir ætíð lýst sig mótfallna fyrirhugðum framkvæmdum.  Hinn 25. júní 1999 sótti aðalstefnandi enn um leyfi til að hækka þak og byggja við þakhæð eins og nánar greinir í umsókninni.  Erindið var fyrst tekið fyrir á fundi byggingarnefndar hinn 8. júlí 1999 og þá vísað til umsagnar skipulags- og umferðarnefndar.  Grennd­ar­kynn­ing fór fram í febrúar og mars 2000 og bárust allmargar athugasemdir frá nágrönnum á kynn­ingartímanum.  Eftir að umsögn borgarskipulags um fram komnar athugasemdir lá fyrir var málið tekið fyrir að nýju hjá skipulags- og umferðarnefnd og varð það nið­ur­staða nefndarinnar að hún gerði ekki athugasemdir við að veitt yrði byggingarleyfi á grundvelli kynntra teikninga.  Með vísan til þeirrar umsagnar samþykkti bygg­ing­ar­fulltrúinn í Reykjavík, í umboði byggingarnefndar, að veita leyfið og var ákvörð­un­in staðfest á fundi borgarráðs hinn 11. júlí 2000.  Er það sú ákvörðun sem var kærð til úrskurðarnefndarinnar með bréfi sem barst nefndinni 27. júlí 2000.  Úrskurðurinn var kveðinn upp 10. nóvember 2000.

   Samkvæmt 4. tl. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, skal úrskurðarnefnd skipu­lags- og byggingarmála kveða upp úrskurð um ágreining sem þennan, svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að henni berst mál í hendur.  Sé mál viða­mikið og fyrirsjáanlegt að afgreiðsla taki lengri tíma skal nefndin tilkynna hlut­að­eigandi það og tiltaka afgreiðslufrest sem aldrei skal þó vera lengri en þrír mánuðir.  Með setningu lagaákvæðis sem þessa felst skýr löggjafarvilji til þess að málsmeðferð taki eins skamman tíma og kostur er og að hraða beri afgreiðslu mála og ljúka af­greiðslu þeirra innan lögboðins frests.  Í lögunum er hins vegar ekki kveðið á um það hvernig með skuli fara ef farið er fram úr lögboðnum fresti til að kveða upp úrskurð.   Litið hefur verið á lagaákvæði um fresti, sem stjórnvöldum er veittur til afgreiðslu mála, sem verklagsreglu.  Í máli þessu kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð sinn að liðnum þremur mánuðum og fimmtán dögum frá því að kæra barst nefndinni.  Þó svo að telja verði drátt á uppkvaðningu úrskurðar sem annmarka á meðferð málsins verður ekki talið með hliðsjón af framanrituðu, að sá annmarki einn og sér eigi að leiða til ónýtis úrskurðar þess sem nefndin kveður upp, enda verður ekki heldur séð að sá dráttur, sem varð á meðferð málsins, hafi verið til þess fallinn að hafa áhrif á nið­ur­stöðu þess hjá úrskurðarnefndinni.

   Hvorki í byggingarlögum né í öðrum lögum er að finna takmarkanir á endur­skoð­unarheimild úrskurðarnefndarinnar í ágreiningi varðandi skipulags- og bygg­ing­ar­mál.  Var því nefndinni heimilt að endurskoða hið frjálsa mat, sem ákvörðun um veit­ingu byggingarleyfis til handa aðalstefnanda var byggð á.  Þá ber að fallast á að megin­reglur stjórnsýsluréttar eigi við um kæru gagnstefnenda, enda í fyrrgreindri 8. gr. laga nr. 73/1997 vísað í stjórnsýslulög nr. 37/1993 um málsmeðferð.  Var því úr­skurð­arnefndinni rétt að skýra kröfugerð og málatilbúnað gagnstefnenda við meðferð kærunnar.

   Úrskurðarnefndin leitaði eftir sjónarmiðum aðalstefnanda og gagnstefnanda auk um­sagnar byggingarnefndar um kæruefnið og fengin voru gögn frá bygg­ing­ar­yfir­völdum, er málið varðaði. 

   Í  úrskurðinum kemur fram, að í umsögn byggingarfulltrúans í Reykjavík um kæru­efnið sé á því byggt að samkvæmt umsögn skipulags- og umferðarnefndar hafi erindið verið í samræmi við staðfest aðalskipulag samkvæmt gr. 11.2 í bygg­ing­ar­reglu­gerð nr. 441/1998, sbr. einnig 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þá hafi það verið grenndarkynnt eins og kveðið sé á um í gr. 12.5. í bygg­ing­arreglugerð sbr. einnig 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Að upp­fyllt­um öðrum ákvæðum byggingarreglugerðar og skipulags- og byggingarlaga hafi af­greiðslu­fundur byggingarfulltrúa samþykkt erindið.  Við kynningu skipulags- og um­ferð­arnefndar á fyrirhugaðri viðbyggingu við húsið á lóðinni nr. 76 við Heiðargerði hafi nágrönnum, þ.á m. kærendum, gefist kostur á að koma athugasemdum sínum á fram­færi við nefndina.  Athugasemdirnar hafi borist frá mörgum nágrönnum, sem nefndin hafi fjallað um áður en tillagan hafi verið afgreidd.  Ekki verði séð að neitt nýtt komi fram í kærubréfi, sem breytt geti ákvörðun afgreiðslufundar bygg­ing­ar­full­trúa um að veita leyfi fyrir ofangreindum framkvæmdum.

   Í umsögn Skipulagsstofnunar til úrskurðarnefndarinnar um kæruefnið segir svo m.a.: „Samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 skal viðmiðunarhlutfall á íbúð­arsvæðum vera 0,2-0,4 fyrir einbýlishús en 0,5-0,8 fyrir sambýlishús (2-5 íbúðir).  Ekki er í gildi samþykkt eða staðfest deiliskipulag af viðkomandi svæði.

   Samkvæmt þeim gögnum sem fylgdu kærunni er nýtingarhlutfall á lóðinni nr. 76 við Heiðargerði nú 0,71 en verður 0,77 ef af framkvæmdum skv. hinu kærða bygg­ing­arleyfi verður.  Í gögnum frá Borgarskipulagi Reykjavíkur kemur fram að meðal­nýt­ingarhlutfall í viðkomandi „botlanga” sé um 0,4.  Þar kemur fram að hin kærða breyt­ing sé ekki í samræmi við byggingamynstur svæðisins og auki skuggamyndun á að­liggjandi lóðum.

   Í gögnum málsins komi fram að þrívegis áður hafi verið sótt um byggingarleyfi fyrir þeim framkvæmdum sem heimilaðar voru með hinu kærða byggingarleyfi en um­sóknum verið synjað af byggingarnefnd þann 31. ágúst 1989 og þann 30. apríl 1992 og af skipulagsnefnd þann 4. júlí 1994.  Í öll skiptin hafi grenndarkynning farið fram og framkvæmdum verið mótmælt af hálfu nágranna.

   Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga skulu bygg­ing­ar­leyf­is­skyldar framkvæmdir vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deili­skipu­lag.  Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. sömu laga getur sveitarstjórn veitt heimild til fram­kvæmda í þegar byggðum hverfum þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir, að und­angenginni grenndarkynningu skv. 7. mgr. 43. gr. laganna.  Í nefndri 7. mgr. 43. gr. segir að þegar sótt sé um byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir skuli skipulagsnefnd láta fjalla um málið og láta fara fram grennd­ar­kynn­ingu áður en það hlýtur afgreiðslu byggingarnefndar.  Grenndarkynning felst í því að nágrönnum sem hagsmuna eiga að gæta sé kynnt málið og gefinn kostur á að tjá sig innan fjögurra vikna.  Að þeim fresti liðnum og þegar niðurstaða skipu­lags­nefndar liggur fyrir skuli byggingarnefnd taka málið til afgreiðslu.

   Skipulagsstofnun lítur svo á að umfjöllun skipulagsnefndar  og grenndarkynning skv. framangreindum ákvæðum sé skipulagsmeðferð sem heimil sé í þeim tilvikum sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar á svæðum þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir og fyrirhugaðar framkvæmdir samræmast þeirri byggð sem fyrir er, t.d. varðandi yfir­bragð, nýtingarhlutfall og notkun.  Ef víkja á frá því sé ekki heimilt að beita fram­an­greindum ákvæðum um grenndarkynningu heldur verði slíkar heimildir að eiga stoð í sam­þykktu deiliskipulagi, sbr. umfjöllun á bls. 20-21 í áliti umboðsmanns Alþingis í má­linu nr. 2556/1998.

   Í þeim umsögnum Borgarskipulags Reykjavíkur sem liggja fyrir í málinu og lágu til grundvallar töku hinnar kærðu ákvörðunar kemur fram að með fyrirhugaðri breyt­ingu verði vikið enn frekar frá yfirbragði og nýtingarhlutfalli á nærliggjandi lóðum en þegar er orðið.  Auk þess kemur fram að fyrirhugaðar breytingar auki skuggavarp frá húsinu nr. 76 við Heiðargerði á aðliggjandi lóðir.  Því sé ekki hægt að mæla með erindinu.

   Ekki kemur fram í gögnum málsins að forsendur umsóknar um hið kærða leyfi hafi breyst frá fyrri umsóknum og ekki er rökstutt hverju breytt afstaða borg­ar­yfir­valda til málsins sæti.

   Það er mat Skipulagsstofnunar að til að heimila enn frekara frávik frá yfirbragði við­komandi hverfis en þegar er orðið um húseignina að Heiðargerði 76 í Reykjavík hefði skipulagsyfirvöldum í Reykjavík borið að auglýsa tillögu að deiliskipulagi.  Ekki hafi verið heimilt, gegn mótmælum nágranna, að heimila breytingar á húsinu eins og gert var í hinu kærða byggingarleyfi.  Því beri að fella það úr gildi.”

   Auk fyrrgreindrar gagnaöflunar fór úrskurðarnefndin á vettvang og kannaði þar aðstæður.

   Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar byggir annars vegar á því, að hin umdeilda við­bygg­ing skerði hagsmuni gagnstefnenda með ólögmætum hætti á grundvelli grennd­ar­sjónarmiða og hins vegar að nýtingarhlutfall á lóð aðalstefnanda samræmist ekki ákvæðum aðalskipulags um nýtingarhlutfall og þéttleika byggðar.

   Í niðurstöðu nefndarinnar kemur fram, að umdeild viðbygging á húsi aðal­stefnanda geti vart talist stórfelld, en þegar litið sé til þess mikla byggingarmagns sem fyrir sé á lóðinni, er það mat hennar að samkvæmt grenndarsjónarmiðum séu hags­munir gagnstefnenda af því að ekki verði af umdeildri viðbyggingu ríkari en hags­munir aðalstefnanda af því að fá að reisa hana.  Niðurstaða nefndarinnar um þetta atriði virðist einungis byggð á mati nefndarmanna eftir vettvangsgöngu, en ekki á nýjum gögnum eða staðreyndum, sem ekki lágu fyrir við upphaflega ákvörðun um veit­ingu leyfis.  Verður ekki séð, að hið hárfína mat á hagsmunum málsaðila um þetta atriði verði, eftir útgáfu byggingarleyfis og eftir að ívilnandi ákvörðun hefur verið tekin af þar til bærum stjórnvöldum, breytt með þessum hætti af úrskurðarnefndinni.

   Ber þá að taka til skoðunar hvort hið umdeilda byggingarleyfi uppfylli skilyrði aðal­skipulags um nýtingarhlutfall.  Fyrir liggur og er óumdeilt, að tvær íbúðir hafa verið samþykktar í húsi aðalstefnanda.  Samkvæmt gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 skal byggt á svokölluðu viðmiðunarnýtingar-hlutfalli fyrir mismunandi hverfi eða svæði.  Segir þar jafnframt að við ákvarðanir um nýtingarhlutfall skuli hafa töflu, sem þar sé birt, til viðmiðunar.  Í þeirri töflu kemur fram, að við­mið­un­ar­nýt­ing­arhlutfall fyrir hús með 2-5 íbúðum skuli vera 0,5-0,8.  Þá segir í greinargerðinni, að meðal þátta sem áhrif hafa á nýtingarhlutfall sé umfang húsa og nýtingarhlutfall á að­liggjandi lóðum.  Hús aðalstefnanda er í svokölluðu smáíbúðahverfi í Reykjavík, þar sem lóðir eru fremur litlar.  Kemur fram í úrskurðinum að í upphafi, er lóðum þar var úthlutað í kringum 1950, hafi grunnflötur húsa þar verið á bilinu 80-100 fermetrar.  Síðan hefur verið byggt við mörg þessara húsa og kemur fram í gögnum málsins, að þó svo að nýtingarhlutfall í hverfinu sé að meðaltali um 0,5 þá hafa nokkur hús þar mun hærra nýtingarhlutfall.  Í 2. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 segir: „Framkvæmdir skv. 1. mgr. skulu vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deili­skipu­lag.”  Í hverfi því þar sem umrædd viðbygging á að rísa liggur ekki fyrir samþykkt deili­skipulag.  Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997, getur sveitarstjórn veitt heimild til framkvæmda í þegar byggðum hverfum, þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir, að undangenginni grenndarkynningu skv. 7. mgr. 43. gr. laganna.  Eins og áður greinir taldi úrskurðarnefndin að umdeild viðbygging myndi ekki hafa stórvægileg áhrif á næsta nágrenni.  Með hliðsjón af framansögðu og þar sem ekki liggur fyrir með óyggjandi hætti hvert nýtingarhlutfall skuli vera verður að telja að skilyrði laganna hafi verið uppfyllt með því að fram fór grenndarkynning áður en leyfið var veitt.  Með vísan til alls framanritaðs og litið til þess sem áður segir, að um ívilnandi stjórn­valds­ákvörð­un var að ræða voru ekki efni til að fella úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. júní 2000, um að veita umdeilt byggingarleyfi.  Verður því krafa aðalstefnanda tekin til greina í aðalsök.  Þar sem krafa aðalstefnanda er tekin til greina í aðalsök ber af sjálfu sér að sýkna gagnstefnda af kröfu gagnstefnenda í gagnsök.

   Rétt þykir að ákveða málskostnað í aðalsök og gagnsök í einu lagi.  Þegar litið er til málsatvika allra þykir rétt að hver aðili beri sinn kostnað af málinu.

   Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð :

    Felldur er úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í mál­inu nr. 42/2000, sem kveðinn var upp 10. nóvember 2000 og viðurkennt að ákvörð­un byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. júní 2000 um að veita aðalstefnanda leyfi til byggingar 30m² þakhæðar að Heiðargerði 76, Reykjavík, sem staðfest var á fundi borgarráðs Reykjavíkur, hinn 11. júlí 2000, hafi fullt gildi.

   Gagnstefndi, Guðmundur Ó. Eggertsson, er sýkn af kröfum gagnstefnenda, Sólveigar Þorsteinsdóttur, Gunnars Valtýssonar, Bjargar Jónu Birgisdóttur, Vilhjálms Kjartans­sonar, Más Vilhjálmssonar, Elínar Dóru Þórarinsdóttur, Sigurðar Sigurðs­sonar, Edith Nicolaidóttur, Árna Sófussonar og Katrínar Eðvaldsdóttur.

   Málskostnaður fellur niður.

  

                                                                                                   Hervör Þorvaldsdóttir.