Print

Mál nr. 32/2015

Lykilorð
  • Kærumál
  • Málshöfðunarfrestur
  • Frávísunarúrskurður staðfestur

                                     

Þriðjudaginn 10. febrúar 2015.

Nr. 32/2015.

Ólafur J. Bjarnason

Guðrún Gísladóttir

Halldór Jónsson

Einar E. Sæmundsen

Vilhjálmur Einarsson

Elín Björt Grímsdóttir

Sigurjón H. Sindrason

Jónína G. Einarsdóttir

Vilmundur Gíslason

Jón Bjarni Gunnarsson

Guðný Gísladóttir

Margrét Pálína Guðmundsdóttir

Kristján Helgi Guðmundsson

Ólafur G. E. Sæmundsen

Gerður Hannesdóttir

Hafliði Stefán Gíslason

Þórhallur F. Guðmundsson

Bernharður Guðmundsson

Sigríður H. J. Benedikz og

Vilborg Vilmundardóttir

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

gegn

Veiðifélagi Árnesinga

(Jörundur Gauksson formaður)

Kærumál. Málshöfðunarfrestur. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem máli Ó o.fl. á hendur VÁ var vísað frá dómi. á þeim grundvelli að málshöfðunarfrestur 7. mgr. 39. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði hefði verið liðinn er málið var höfðað. Var talið að ákvæðið tæki jafnt til stofnunar veiðifélags og deildar innan þess.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 30. desember 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. janúar 2015. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 18. desember 2014, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila fyrir Hæstarétti hefur Elín Björt Grímsdóttir tekið við aðild að málinu af dánarbúi Gríms Guðmundssonar, sem var meðal stefnenda fyrir héraðsdómi.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Ólafur J. Bjarnason, Guðrún Gísladóttir, Halldór Jónsson, Einar E. Sæmundsen, Vilhjálmur Einarsson, Elín Björt Grímsdóttir, Sigurjón H. Sindrason, Jónína G. Einarsdóttir, Vilmundur Gíslason, Jón Bjarni Gunnarsson, Guðný Gísladóttir, Margrét Pálína Guðmundsdóttir, Kristján Helgi Guðmundsson, Ólafur G. E. Sæmundsen, Gerður Hannesdóttir, Hafliði Stefán Gíslason, Þórhallur F. Guðmundsson, Bernharður Guðmundsson, Sigríður H. J. Benedikz og Vilborg Vilmundardóttir, greiði óskipti varnaraðila, Veiðifélagi Árnesinga, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 18. desember 2014.

            Mál þetta, sem dómtekið var 25. nóvember sl., er höfðað með stefnu birtri 29. apríl sl.

                Stefnendur eru eigendur Bergstaða í Bláskógabyggð, þau Ólafur J Bjarnason, kt. [...], Guðrún Gísladóttir, kt. [...], Halldór Jónsson, kt. [...], Einar E Sæmundsen, kt. [...], Vilhjálmur Einarsson, kt. [...],  Db. Gríms Guðmundssonar, kt. [...], Sigurjón H Sindrason, kt. [...], Jónína G Einarsdóttir, kt. [...], Vilmundur Gíslason, kt. [...], Jón Bjarni Gunnarsson, kt. [...], Guðný Gísladóttir, kt. [...], Margrét Pálína Guðmundsdóttir, kt. [...], Kristján Helgi Guðmundsson, kt. [...], Ólafur G. E. Sæmundsen, kt. [...], Gerður Hannesdóttir, kt. [...], Hafliði Stefán Gíslason, kt. [...], Þórhallur F. Guðmundsson, kt. [...], Bernharður Guðmundsson, kt. [...], Sigríður H. J. Benedikz, kt. [...] og Vilborg Vilmundardóttir, kt. [...].

            Stefndi er Veiðifélag Árnesinga, kt. [...], en formaður stjórnar þess er Jörundur Gauksson, kt. [...], Kaldaðarnesi 2, Árborg.

            Dómkröfur stefnenda eru þær að ógild verði ákvörðun aðalfundar Veiðifélags Árnesinga um stofnun Tungufljótsdeildar Veiðifélags Árnesinga sem tekin var á aðalfundi Veiðifélags Árnesinga þann 21. apríl 2009. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt yfirliti.

            Dómkröfur stefnda eru þær samkvæmt greinargerð hans að hann verði sýknaður af kröfum stefnenda í málinu og þá er krafist málskostnaðar. Við upphaf aðalmeðferðar málsins gerði stefndi hins vegar þær kröfur aðallega að máli þessu yrði vísað frá dómi en til vara krafðist hann sýknu. Í báðum tilvikum krafðist hann málskostnaðar samkvæmt yfirliti.

            Stefnendur mótmæla frávísunarkröfunni og telja hana of seint fram komna.

Málavextir.

            Stefnendur eru eigendur jarðarinnar Bergstaða  í Bláskógabyggð í Árnessýslu og á jörðin land að Tungufljóti og einnig að Hvítá. Stefndi, Veiðifélag Árnesinga, var stofnað árið 1938 og er það félag veiðiréttarhafa á vatnasvæði Ölfusár og Hvítár. Svæðið nær frá ósum Ölfusár að Þingvallavatni í vestri og að Gullfossi í norðri. Tungufljót, sem tilheyrir efri hluta þessa vatnasvæðis, á upptök sín á Haukadalsheiði norðan Geysis og sameinast Hvítá rétt norðan við Laugarás í Biskupstungum. Í gildandi arðskrá stefnda frá árinu 1963 er Tungufljót skráð með 13 arðseiningar af 10000 og mun þeim skipt niður á 8 aðila.

            Deilur munu hafa staðið um veiðirétt í Tungufljóti frá árinu 2003. Sérstakt veiðifélag, Faxi, mun  hafa verið stofnað fyrir árið 1972 um Tungufljót ofan við fossinn Faxa sem þar mun vera í miðju fljótinu. Hafi því verið tvö veiðifélög um sama straumvatn ofarlega á vatnasvæðinu sem stefnendur telja afar óvenjulegt. Nýr laxastigi hafi verið opnaður 24. maí 1975 í fossinum fyrir atbeina Stangveiðifélags Reykjavíkur en hann hafi aldrei virkað eins og til hafi verið ætlast. Þann 6. júlí 2003 hafi nokkrir landeigendur við Tungufljót gert samning f.h. Faxa veiðifélags við leigutakann Tungufljót um útleigu stangveiðiréttar í öllu fljótinu, bæði ofan og neðan við fossinn. Stefnendur hafi ekki komið að þeim samningi og hvorki hafi verið haft samráð við þau né hafi þau notið góðs af honum. Svæðið neðan við fossinn Faxa tilheyri hins vegar Veiðifélagi Árnesinga sem ekki hafi verið aðili samningsins. Í janúar 2011 hafi komið í ljós að Faxi veiðifélag, sem gert hefði samninginn á sínum tíma, hefði verið fellt úr fyrirtækjaskrá í ágúst 1990, þ.e. þrettán árum áður en samningurinn hafi verið gerður fyrir hönd þess. Í nóvember 2008 hafi verið boðað til fundar með veiðiréttarhöfum við Tungufljót neðan Faxa í þeim tilgangi að vinna að stofnun deildar í Veiðifélagi Árnesinga. Hafi verið samþykkt á fundinum með 14 atkvæðum gegn 6 tillaga um að óska eftir að stofna deild í Veiðifélagi Árnesinga, að fengnu samþykki aðalfundar félagsins. Aðalfundur félagsins hafi verið haldinn 21. apríl 2009 og hafi stjórnin borið fram tillögu um að samþykkt yrði stofnun veiðideildar við Tungufljót neðan Faxa. Þá segi að í samræmi við samþykktir veiðifélagsins nr. 991 frá 10. október 2008, lög nr. 61/2006 og lög nr. 58/2006 muni veiðifélagið eftir sem áður annast fiskrækt á svæði deildarinnar og ákvarði aðalfundur veiðifélagsins veiðifyrirkomulag ár hvert. Mótmæli hafi komið fram af hálfu stefnandans Vilhjálms Einarssonar og þriggja annarra en frávísunartillaga þeirra hafi verið felld. Hafi tillaga stjórnarinnar verið samþykkt á aðalfundinum með 18 atkvæðum gegn 5.

            Samkvæmt 1. gr. samþykkta veiðifélagsins frá 10. október 2008 sé heimilt að félagið starfi í deildum og í 13. gr. samþykktanna segi að heimilt sé að félagið starfi í deildum ef aðalfundur veiðifélagsins samþykki og þess sé getið í fundarboði að stofna eigi deild. Skulu starfssvæði deilda ákveðin á aðalfundi félagsins á sama hátt. Verkefni deilda sé að ráðstafa veiði og annast framkvæmdir á starfssvæðum sínum samkvæmt ákvörðun aðalfundar veiðifélagsins um veiðifyrirkomulag ár hvert.  Þann 26. maí 2009 hafi verið haldinn fundur með landeigendum við Tungufljót um stofnun veiðideildar í veiðifélaginu fyrir Tungufljót. Hafi verið samþykkt með 17 atkvæðum gegn 5 tillaga um að veiðiréttarhafar í Tungufljóti frá fossinum Faxa að ármótum Hvítár (26 jarðir) stofnuðu veiðideild (Tungufljótsdeild) í veiðifélaginu. Ekki hafi á þessum fundi náðst samþykki 2/3 hluta atkvæðisbærra félagsmanna fyrir samþykktum veiðideildarinnar og hafi þær því verið felldar. Á fundi þann 30. júní 2009 hafi samþykktir fyrir Tungufljótsdeildina verið samþykktar með 18 atkvæðum gegn 7, en stefnendur telja fundarboðun fyrir báða ofangreinda fundi hafa verið áfátt ef miða eigi við ákvæði laga nr. 61/2006. Nokkrir stefnenda hafi kært stofnun deildarinnar til Fiskistofu en með úrskurði 19. janúar 2010 hafi öllum kröfum kærenda hafnað, en í úrskurðinum segi að víkja beri til hliðar þeim efnisatriðum fundarins 26. maí 2009 er  víki að stofnun veiðideildar þar sem stofnunin hafi þegar átt sér stað með formlegum hætti af þar til bærum aðila, þ.e. Veiðifélagi Árnesinga á aðalfundi þess 21. apríl 2009. Hafi stjórn deildarinnar síðan gert samning við Tungufljót ehf. þann 10. apríl 2010 um útleigu stangveiðiréttar í Tungufljóti neðan Faxa til 10 ára. Hafi Agn ehf. selt út stangveiðirétt í Tungufljóti allt frá árinu 2003, í umboði Tungufljóts ehf. að því er stefnendur telja án aðildar ýmissa landeigenda neðan Faxa að samningnum.

            Lögreglustjórinn á Selfossi hafi þann 3. nóvember 2010 gefið út ákæru á hendur tveimur landeigendum Bergstaða fyrir að hafa stundað stangveiði í landi annars manns, þ.e. Tungufljóti án þess að hafa til þess leyfi, þar sem Tungufljótsdeild hafi leigt út veiðiréttinn. Þann 10. júní 2011 hafi landeigendurnir Ólafur Bjarnason og Ása Einarsdóttir verið sakfelld fyrir brot gegn 1. mgr. 50. gr. laga nr. 61/2006. Áfrýjunarleyfi hafi ekki fengist. Samþykktir Tungufljótsdeildar hafa verið samþykktar af Fiskistofu og gefnar út í B-deild Stjórnartíðinda.

Málsástæður og lagarök stefnenda.

            Stefnendur telja að stofnun Tungufljótsdeildar Veiðifélags Árnesinga hafi ekki verið lögmæt þar sem tilskilinn fjöldi atkvæðisbærra félagsmanna í veiðifélaginu hafi ekki verið að baki samþykkt þeirri um stofnun deildarinnar sem samþykkt hafi verið á aðalfundi 21. apríl 2009. Í 4. mgr. 39. gr. laga nr. 61/2006 segi að í samþykktum megi ákveða að félag skuli starfa í deildum, enda taki hver deild yfir tiltekið veiðivatn eða hluta vatns. Hver deild ráðstafi þá veiði í sínu umdæmi með þeim skilyrðum sem aðalfundur félagsins setji. Í 5. mgr. 39. gr. segi að atkvæði 2/3 hluta allra atkvæðisbærra félagsmanna þurfi til þess að samþykktir séu löglega gerðar eða þeim breytt. Sé fundarsókn ekki næg skuli boða til annars fundar með sama hætti og að framan greini og ráði þar afl atkvæða. Stefnendur telja að með hliðsjón af því hvar framangreindum ákvæðum sé skipað í lögunum skuli gera sömu kröfur til stofnunar veiðifélags og til stofnunar veiðideildar. Sé þeim í reynd ætlað sambærilegt hlutverk og feli stofnun veiðideildar innan veiðifélags í sér breytingar á samþykktum veiðifélagsins. Ekkert komi fram um það í fundargerð frá 21. apríl 2009 hve margir félagsmenn veiðifélagsins hafi setið aðalfundinn og af henni verði ekki ráðið annað en að þeir hafi í mesta lagi verið 42. Sé því ljóst að því fari fjarri að 2/3 hlutar þeirra félagsmanna sem sannanlega hafi setið fundinn hafi samþykkt tillögu um stofnun deildarinnar. Í raun hafi tillagan verið samþykkt af minna en helmingi þeirra sem samkvæmt fundargerð hafi verið á fundinum. Eftir því sem næst verði komist séu atkvæðisbærir félagsmenn í veiðifélaginu a.m.k. 300 og miðað við þá forsendu þurfi samkvæmt eðlilegri lögskýringu á ákvæði 5. mgr. 39. gr laga nr. 61/2006 atkvæði ríflega 200 atkvæðisbærra félagsmanna til að samþykkja breytingar á samþykktum veiðifélagsins, þ.m.t. samþykkt sem lúti að því að heimila stofnun deildar innan veiðifélagsins. Hafi ákvörðun aðalfundar félagsins frá 21. apríl 2009 verið ólögmæt af þessari ástæðu.

 Ekki hafi verið boðað til annars fundar skv. 5. mgr. 39. gr. laga nr. 61/2006, sem hefði þó verið mögulegt til að fá lögmæta ákvörðun.

            Stefnendur byggja á því að 13. gr. samþykkta veiðifélagsins geri ekki ráð fyrir að hægt sé að stofna deild öðru vísi en þannig að félagssvæðinu sé öllu skipt upp í deildir. Hafi stofnun deildarinnar því ekki verið í samræmi við 13. gr. samþykktanna. Stefnendur telja að engin heimild sé í lögum nr. 61/2006 til að stofna deildir og hafi aldrei verið. Hið rétta sé að lagaheimildin varði deildarskiptingu veiðifélags en ekki stofnun einstakra deilda innan þess. Stefnendur benda á álit Karls Axelssonar hrl. sem hann hafi skilað til Landssambands veiðifélaga 26. mars 2012 þar sem fram komi það álit hans að við túlkun heimildar samkvæmt 4. mgr. 39. gr. laga nr. 61/2006 verði að hafa í huga að aðild að veiðifélagi sé skyldubundin að lögum og feli lagareglan um heimild til stofnunar deilda í sér undantekningu frá þeirri meginreglu að veiðifélag starfi sem ein heild um það fiskihverfi eða veiðivatn sem um sé að ræða. Hann telji að til þess að stofna til heimildar af þessum toga þurfi undir öllum kringumstæðum og sem endranær við gerð og breytingu samþykkta atbeina 2/3 hluta atkvæðisbærra félagsmanna, sbr. 5. mgr. 39. gr. laganna. Þá telji hann að sú tilhögun að hafa almenna heimild til stofnunar deildar í samþykktum standist ekki fyrirmæli laga nr. 61/2006, heimild sem síðan yrði nýtt til að stofna deild sem eftir það lifði sjálfstæðu lífi.

            Stefnendur telja að við mat á lögmæti þeirra aðgerða stefnda að breyta aðild  hans að veiðifélaginu beri að líta til þess að ákvæði VI. kafla laga nr. 61/2006 skerði um margt stjórnarskrárvarin réttindi veiðiréttareigenda. Lögin geymi ákvæði um félagsskyldu sem stríði gegn meginreglunni um félagafrelsi. Þessi félagsskylda hafi verið talin réttlætanleg og lögleg í ljósi 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar in fine, sem mæli fyrir um að heimilt sé að skylda menn til aðildar að félagi ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra. Þá byggja stefnendur á því að ákvæðið í samþykktum veiðifélagsins um stofnun deildar standist ekki ákvæði laga um deildir og aldrei hafi verið breytt samþykktum veiðifélagsins með löglegum hætti á þann veg að félagið starfi í deildum eins og áskilið sé í lögum.

            Stefnendur benda á að lög nr. 61/2006 geri ekki ráð fyrir að veiðifélag geti ekki haft nema eina arðskrá innan sinna vébanda. Í gildi sé arðskrá fyrir veiðifélagið frá árinu 1963. Einstök veiðifélagsdeild geti ekki upp á sitt eindæmi sett sér sérstakar samþykktir eða sérstaka arðskrá. Samþykktin á aðalfundi stefnda sem gerð hafi verið um stofnun Tungufljótsdeildar virðist hafa verið kveikjan að þeirri lögleysu sem á eftir komi og sé brýn nauðsyn að fá henni hnekkt. Ekkert í lögunum heimili stofnun einstakra deilda innan veiðifélags heldur þurfi að skipta öllu veiðifélaginu upp í deildir. Með því að heimila slíkar einstakar sjálfstæðar deildir væri verið að auka atkvæðisrétt veiðiréttarhafa innan þeirra á kostnað annarra sem standi utan deilda þar sem þeir tækju ákvörðun um ráðstöfun veiði á sínu svæði án aðkomu þeirra sem standi utan deilda, en mættu líka á fundi veiðifélagsins og tækju þátt í ráðstöfun veiða á öðrum svæðum. Þá byggja stefnendur á því að í reglugerð nr. 1024/2006 sé gert ráð fyrir því að deildir veiðifélags séu taldar upp í samþykktum þess og þá þurfi að tilgreina hvaða jarðir tilheyri hverri deild.

            Stefnendur telja að flestar ákvarðanir sem teknar hafi verið innan Tungufljótsdeildarinnar hafi skort lagastoð og séu þar að auki ekki samrýmanlegar samþykktum veiðifélagsins. Sé útilokað fyrir stefnendur að elta uppi hverja aðgerð til ógildingar og því sé Tungufljótsdeildinni ekki stefnt í máli þessu. Stefnendur líti svo á að deildin sé í raun ekki til þar sem hún hafi ekki verið stofnuð með lögmætum hætti. Deildaskiptingin sé hjá stefnda og þar hafi hún ekki farið fram með lögmætum hætti.

            Stefnendur vísa um lagarök til laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði, einkum VI. kafla laganna um veiðifélög. Þá er vísað til 72. og 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. og 1. gr. 1. viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Málsástæður og lagarök stefnda.

             Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á því að liðinn sé sá 6 mánaða frestur sem gefinn sé frá stofnfundi skv. 7. mgr. 39. gr. laga nr. 61/2006 til að vefengja lögmæti stofnunar veiðifélags. Ákvæðið taki til veftengingar á lögmæti stofnunar veiðifélaga en það liggi í hlutarins eðli að sömu frestir hljóti að eiga við um deildir. Um frestinn vísar stefndi til þess sem komi fram í dómi Héraðsdóms Suðurlands í máli nr. S-521/2010.

            Sýknukrafa stefnda er á því byggð að ákvörðun aðalfundar veiðifélagsins sé í samræmi við ákvæði 4. mgr. 39. gr. laga nr. 61/2006. Stefndi vekur sérstaklega athygli á því að í málinu krefjist stefnendur aðeins að ógilt verði ákvörðun aðalfundar veiðifélagsins um stofnun Tungufljótsdeildar og komi því ekki til kasta dómsins hvort að öðru leyti hafi verið staðið rétt að stofnun deildarinnar. Byggi ákvörðun aðalfundarins um að samþykkja stofnun deildar við Tungufljót á skýrri heimild 4. mgr. 39. gr. laganna, en þar sé kveðið á um að í samþykktum veiðifélags megi ákveða að félag skuli starfa í deildum. Hafi reglan fyrst verið lögfest í lögum nr. 53/1957 og frá upphafi hafi ákvæðið verið skýrt þannig að hún gæfi veiðifélögum  heimild til þess að setja í samþykktir sínar að félag skuli starfrækja deild, eina eða fleiri. Í kjölfar þeirra laga hafi stefndi sett sér samþykktir þar sem tekin hafi verið upp heimild laganna til að starfa í deildum. Hafi verið stofnuð sérstök deild við Stóru-Laxá árið 1961 sem hafi verið eina starfandi deild á félagssvæði stefnda þar til Tungufljótsdeildin hafi verið stofnuð. Engar athugasemdir hafi verið gerðar við stofnun Stóru-Laxárdeildar og í úrskurði landbúnaðarráðuneytisins frá 1979 komi fram að gera mætti sérstaka arðskrá fyrir Stóru-Laxá á grundvelli þess að deild hefði verið stofnuð og hlutverk hennar væri að skipta arði milli veiðiréttarhafa við ána. Allt frá gildistöku laganna frá 1957 hafi veiðifélög nýtt sér heimild laganna til þess að starfrækja deildir og séu dæmi um að vatnasvæði veiðifélags hafi öllu verið skipt upp í deildir. Löggjafinn hafi ekki séð ástæðu til að endurskoða, breyta eða skýra lagaákvæði um deildir. Þau hafi haldist óbreytt að efni til við endurskoðun laganna og hljóti að vera hafið yfir vafa að löggjafinn hafi fest í sessi þann skilning sem lagður hafi verið í ákvæði um deildir allt frá árinu 1957 og byggt hafi verið á um allt land. Hafi enginn fram að þessu haldið því fram að óheimilt væri að stofna stakar deildir. Með tímanum hafi tilhneiging sumra deilda verið sú að taka sér vald til að sinna lögboðnum verkefnum veiðifélaga og með því farið á svig við einfalt, afmarkað og skýrt orðalag og efni ákvæðis laganna um deildir. Lögin feli deildum aðeins eitt verkefni og það sé að ráðstafa veiði, t.d. með útleigu til stangveiðifélags og þarf af leiðandi að skipta arði á milli félagsmanna í viðkomandi deild. Í lögum nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði hafi verið ákvæði í c-lið 1. mgr. 45. gr. þar sem fram hafi komið að félagssvæði veiðifélags gæti tekið yfir hluta af veiðivatni, þar sem sérstaklega hagi til um veiði eða vatnskosti. Sé þessi tilvísun án efa grundvöllur heimildarinnar um að starfrækja megi deild innan veiðifélags og gefið veiðiréttarhöfum kost á við sérstakar aðstæður að sameinast í deild til þess að geta ráðstafað veiði sameiginlega í því skyni að auka arðsemi, sérstaklega þegar um fjölbreytt vatnasvæði sé að ræða. Lagt hafi verið fram frumvarp á 141. löggjafarþingi Alþingis þar sem lögð var til sú breyting á lögum nr. 61/2006 að í samþykktum mætti kveða svo á um að veiðifélag skyldi starfa í deildum, enda tæki skiptingin til alls félagssvæðisins. Hafi þarna verið gerð tilraun til breytinga á gildandi lögum sem falið hafi í sér að ekki mætti lengur stofna eða starfrækja stakar deildir, en frumvarp þetta hafi ekki orðið að lögum.

            Stefndi byggir á því að stofnun Tungufljótsdeildar byggist á núgildandi samþykktum stefnda en Stóra-Laxárdeild byggi á samþykktum veiðifélagsins frá 1961. Hafi ákvæði núgildandi og eldri laga um lax- og silungsveiði verið skýrð þannig að til þess að aðalfundur gæti samþykkt að stofna megi deild hafi þurft að vera fyrir hendi almenn heimild til deildarstofnunar í samþykktum viðkomandi félags, sbr. stofnun Stóru-Laxárdeildar, en þá hafi legið fyrir almenn heimild í samþykktunum frá 1961. Til að samþykktir teljist löglega gerðar eða breytingar á þeim, t.d. ef taka eigi upp almenna heimild til deildarstofnunar, þurfi samkvæmt lögum nr. 61/2006 atkvæði 2/3 hluta allra atkvæðisbærra félagsmanna. Sé fundarsókn ekki næg skuli boða til annars fundar og ráði þá afl atkvæða sem einnig sé meginreglan, sbr. 8. gr. 40. gr. laganna. Hafi núgildandi samþykktir stefnda verið gerðar í samræmi við þetta og þær staðfestar af Fiskistofu 10. október 2008. Hafi veiðiréttarhafar engar athugasemdir gert á löglega boðuðum aðalfundi stefnda árið 2007 við ákvæði samþykktanna um deildir og hafi þær verið samþykktar samhljóða á framhaldsfundi.

            Stefndi telur niðurstöðu Karls Axelssonar hrl. í andstöðu við framkvæmd ákvæða um deildir allt frá því þau hafi verið lögfest árið 1957, en byggt hafi verið á almennri heimild samþykkta við stofnun deilda. Stefndi áréttar að deildir hafi aðeins það verkefni að ráðstafa veiði. Vald deilda til ráðstöfunar á veiði sé mjög skilyrt en deild þurfi ávallt að sæta þeirri ákvörðun sem aðalfundur veiðifélags taki ár hvert um tilhögun veiði og veiðitíma.

            Stefndi byggir á því að á aðalfundi stefnda þann 21. apríl 2009 hafi verið samþykkt að félagsmönnum við Tungufljót væri heimilt að stofna deild. Hafi heimildin verið samþykkt með 18 atkvæðum á móti 5 og því í samræmi við regluna um að afl atkvæða ráði, sbr. 8. mgr. 40. gr. laga nr. 61/2006. Byggi ákvörðun aðalfundarins á heimild í lögum og heimild í staðfestum samþykktum félagsins og hafi þeim heimildum verið fylgt í hvívetna á aðalfundinum.

            Krafa  um málskostnað er byggð á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991.

Niðurstaða.

            Stefnendur gera í máli þessu þá kröfu að ógild verði ákvörðun aðalfundar Veiðifélags Árnesinga, stefnda í máli þessu, um stofnun Tungufljótsdeildar stefnda sem tekin var á aðalfundi stefnda þann 21. apríl 2009. Stefndi gerði þá kröfu í greinargerð að hann yrði sýknaður af kröfum stefnenda í málinu, en við upphaf aðalmeðferðar málsins gerði stefndi hins vegar þær kröfur aðallega að máli þessu yrði vísað frá dómi en til vara krafðist hann sýknu. Í greinargerð stefnda var sýknukrafan þannig rökstudd að liðinn væri sá 6 mánaða frestur sem gefinn væri frá stofnfundi til að vefengja lögmæti stofnunar veiðifélags, sbr. 7. gr. 39. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Augljóst er að verði á það fallist að stefnendum hafi borið að bera framangreindan ágreining undir dómstóla innan þess frests sem settur er samkvæmt framangreindu lagaákvæði, varðar það frávísun málsins en ekki sýknu. Stefnendur hafna því að frávísunarkrafan komist að í máli þessu þar sem hún sé of seint fram komin. Þessi ágalli á kröfugerð stefnda kemur þó að mati dómsins ekki í veg fyrir að tekin verði afstaða til þess hvort málinu verði vísað frá dómi.

            Samkvæmt 1. gr. samþykktar fyrir Veiðifélag Árnesinga frá 10. október 2008 er heimilt að félagið starfi í deildum. Þá segir í 13. gr. sömu samþykktar að heimilt sé að félagið starfi í deildum ef aðalfundur Veiðifélags Árnesinga samþykkir og þess sé getið í fundarboði að stofna eigi deild. Skulu starfssvæði deilda ákveðin á aðalfundi Veiðifélags Árnesinga á sama hátt. Þá segir að verkefni deilda sé að ráðstafa veiði og annast framkvæmdir á starfssvæðum sínum samkvæmt ákvörðun aðalfundar Veiðifélags Árnesinga um veiðifyrirkomulag ár hvert. Þessi ákvæði eru byggð á 4. mgr. 39. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði, en þar segir að í samþykktum megi ákveða að félag skuli starfa í deildum, enda taki hver deild yfir tiltekið veiðivatn eða hluta vatns. Hver deild ráðstafi þá veiði í sínu umdæmi með þeim skilyrðum sem aðalfundur félagsins setur.

            Í máli þessu tefla stefnendur fram þeirri málsástæðu að stofnun Tungufljótsdeildar Veiðifélags Árnesinga hafi ekki verið lögmæt þar sem tilskilinn fjöldi atkvæðisbærra félagsmanna í veiðifélaginu hafi ekki verið að baki samþykkt þeirri um stofnun deildarinnar sem samþykkt hafi verið á aðalfundi 21. apríl 2009. Einn stefnenda, Vilhjálmur Einarsson, auk nokkurra annarra landeigenda, óskuðu eftir því með kæru dagsettri 29. júlí 2009, að Fiskistofa úrskurðaði fundi veiðideildar  Tungufljóts, sem haldnir voru dagana 26. maí og 30. júní 2009, ólögmæta og jafnframt að felldar yrðu úr gildi allar ákvarðanir sem þar hafi verið teknar, s.s. samþykkt samþykkta veiðideildarinnar. Til vara var þess krafist að Fiskistofa felldi úr gildi samþykktir veiðideildarinnar við Tungufljót. Niðurstaða Fiskistofu var að hafna öllum kröfum kærenda en tekið var fram að veiðideildin hefði þegar verið stofnuð með lögmætum hætti á fundinum 21. apríl 2009. Samkvæmt framansögðu laut kæran til Fiskistofu ekki að lögmæti stofnunar deildarinnar og freista stefnendur þess fyrst nú með þessari málsókn að sú ákvörðun verði ógilt. Samkvæmt 7. mgr. 39. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði getur sá sem vefengja vill lögmæti stofnaðs veiðifélags borið ágreining þar að lútandi undir dómstóla innan sex mánaða frá stofnfundi. 

            Þegar litið er til ákvæða 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 þar sem því er lýst að mönnum sé skylt að hafa með sér félagsskap um skipulag veiði í hverju fiskihverfi og með vísan til 4. mgr. 39. gr. sömu laga þar sem kveðið er á um heimild til deildaskiptingar og jafnframt að hver deild taki yfir tiltekið veiðivatn eða hluta vatns og ráðstafar veiði í sínu umdæmi og jafnframt höfð hliðsjón af þeirri afstöðu stefnenda að gera verði sömu kröfur til stofnunar veiðifélags og stofnunar veiðideildar, verður að telja vafalaust að ákvæði 7. mgr. 39. gr. laganna eigi jafnt við um stofnun veiðifélags og deildar innan þess. Þar er áskilið að bera verði ágreining um lögmæti stofnaðs veiðifélags undir dómstóla innan sex mánaða frá stofnfundi. Samkvæmt framansögðu var Tungufljótsdeildin stofnuð á aðalfundi stefnda þann 21. apríl 2009 og þar sem málshöfðunarfrestur sá er gefinn er í 7. mgr. 39. gr. laganna var löngu liðinn er mál þetta var höfðað verður ekki hjá því komist að vísa því frá dómi.

            Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

            Hjörtur O. Aðalsteinsson  dómstjóri kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

                Máli þessu er vísað frá dómi.

                Málskostnaður fellur niður.