Print

Mál nr. 437/2017

LOB ehf. (Reimar Pétursson hrl.)
gegn
H96 ehf. (Baldvin Björn Haraldsson hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu L ehf. um að bú H ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta á þeim grundvelli að krafa L ehf. á grundvelli 1. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. yrði ekki byggð á árangurslausri kyrrsetningargerð sem fram fór eftir frestdag.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. júlí 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2017, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, LOB ehf., greiði varnaraðila, H96 ehf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 28. júní 2017

Krafa sóknaraðila, LOB ehf., kt. [...], Engjaási 2, Borgarnesi um að bú varnaraðila, H96 ehf., kt. [...], Áslandi 3, Mosfellsbæ, verði tekið til gjaldþrotaskipta, barst dóminum 22. febrúar sl.

Við fyrirtöku beiðninnar 22. mars sl. var sótt þing af hálfu beggja aðila. Varnaraðili mótmælti kröfunni og var þá þingfest ágreiningsmál þetta, sbr. 1. mgr. 168. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málinu var frestað til 5. apríl sl. til framlagningar greinargerðar af hálfu varnaraðila og var hún lögð fram af hans hálfu í þinghaldi þann dag. Málinu var þá frestað til 19. apríl sl. í því skyni að sóknaraðili gæti kynnt sér framkomin gögn. Í þinghaldi þann dag var málinu frestað til 3. maí sl. til framlagningar greinargerðar af hálfu sóknaraðila og var hún lögð fram af hans hálfu í þinghaldi þann dag.

Sóknaraðili krefst þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila.Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 15. júní sl.

I

Málsatvik

Krafa sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila er studd við 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 og byggir á árangurslausri kyrrsetningu sem fram fór hjá varnaraðila 2. desember 2016. Verulegur ágreiningur er um tilurð kröfunnar og málsatvik. Fyrir liggur að með verksamningi 18. mars 2014 milli SA Verks ehf., kt. 660213-0820, sem verkkaupa, og sóknaraðila, sem verktaka, tók sóknaraðili að sér að framleiða og reisa forsteyptar einingar í hótelbyggingu á fjórum hæðum og bílastæðakjallara við Hverfisgötu 103 í Reykjavík. Samkvæmt samningnum skyldi SA Verk ehf. greiða sóknaraðila 228.226.829 krónur fyrir verkið. Þar af skyldi greiða 15.000.000 króna innan 30 daga frá undirritun samnings en eftirstöðvarnar, að fjárhæð 213.226.829 krónur, skyldi greiða eftir framvindu verksins. Tekið var fram að samningsupphæðir tækju breytingum til hækkunar samkvæmt byggingarvísitölu, miðað við stöðu vísitölunnar í nóvember 2013, 119,0 stig. Tekið er fram í samningnum að við gerð hans hafi ekki legið fyrir fullunnar verkfræðiteikningar og séu magntölur áætlaðar.

Varnaraðili segir að verksamningnum hafi verið breytt í október 2014 og hafi umsamið verð þá verið samtals 240.919.789 krónur með virðisaukaskatti og að teknu tilliti til samningsafsláttar. Varnaraðili kveðst þegar hafa greitt sóknaraðila 238.496.830 krónur, en þar af séu um 7.000.000 króna vegna aukaverka og breytinga sem varnaraðili hafi samþykkt.

Að sögn sóknaraðila hafi drög að teikningum, sem lágu fyrir við gerð verksamningsins, tekið verulegum breytingum samkvæmt ákvörðun varnaraðila áður en framkvæmdir hófust og hafi kostnaður við verkið því orðið umtalsvert meiri en upphaflega hafi verið gert ráð fyrir. Einnig hafi miklar breytingar orðið á upphaflegri verkáætlun, sem skýrist fyrst og fremst af því að hönnun hússins, sem teikni- og verkfræðistofa á vegum SA Verks ehf. hafi haft umsjón með, hafi tekið mun lengri tíma en gert hafi verið ráð fyrir. Ferlið hafi einnig tafist vegna athugasemda skipulagsyfirvalda í Reykjavík. Varnaraðili kveður hins vegar að miklar tafir hafi orðið á verkinu vegna atvika er varði sóknaraðila. Illa hafi gengið að hanna teikningar samkvæmt fyrirliggjandi hönnunargögnum byggingarinnar og þær hafi ekki uppfyllt kröfur.

Samkvæmt samningnum áttu teikningar að vera klárar til að hefja einingaframleiðslu 1. apríl 2014 og uppsteypu átti að vera lokið 30. september sama ár. Takmarkað byggingarleyfi var að sögn sóknaraðila gefið út 29. júlí 2014 sem heimilaði uppsteypu á sökklum, botnplötu og lögnum í jörð, en byggingarleyfi hafi ekki legið fyrir fyrr en í janúar 2015. Þá fyrst hafi sóknaraðila verið mögulegt að hefja umfangsmestu verkþætti á verkstað og hafi verkinu miðað samkvæmt áætlun frá þeim tíma. Sóknaraðili staðhæfir einnig að uppsteypu og reisingu byggingarinnar hafi lokið 22. maí 2015 þegar þakplötur hafi verið steyptar og hafi verulegum hluta verksins þá verið lokið. Varnaraðili segir að verulega hafi tafist að hefja verkið sem jafnframt hafi tekið lengri tíma en umsamið hafi verið. Af þessum sökum hafi afhending verksins til varnaraðila dregist um rúma þrjá mánuði.

Hinn 27. maí 2015 mun sóknaraðili hafa tilkynnt SA Verki ehf. með tölvupósti um stöðvun framkvæmda við Hverfisgötu 103 þar sem síðarnefnda félagið hafi ekki greitt þrjá tilgreinda reikninga. Með bréfi, dags. 28. maí 2015, tilkynnti SA Verk ehf. sóknaraðila að félagið mótmælti greiðsluskyldu samkvæmt einum reikningi og teldi sig eiga skaðabótakröfu á hendur sóknaraðila til skuldajafnaðar við kröfu samkvæmt hinum tveimur reikningunum, sem væri til komin vegna vanefnda sóknaraðila. Með bréfi, dags. 10. júní 2015, mótmælti sóknaraðili þessum staðhæfingum.

Með kaupsamningi 25. júní 2015 keypti SA Verk ehf. alla hluti í H96 ehf. Hinn 29. júní 2015 mun SA Verk ehf. hafa lýst yfir riftun verksamnings við sóknaraðila. Sóknaraðili óskaði eftir kyrrsetningu hjá SA Verki ehf. fyrir kröfu að fjárhæð 96.252.677 krónur, en þar af var höfuðstóll kröfunnar 94.346.645 krónur. Hinn 27. júlí 2015 gerði sýslumaðurinn í Reykjavík kyrrsetningu fyrir kröfunni í rétti SA Verks ehf. til kaupsamningsgreiðslu samkvæmt þinglýstu kauptilboði þriðja aðila í fasteignina að Hverfisgötu 103, með fastanúmerið 200-3628, og til fasteignarinnar sjálfrar, félli kauptilboðið niður. Að því marki sem kaupsamningsgreiðsla næði ekki til lúkningar kröfu sóknaraðila voru kyrrsett hlutabréf SA Verks ehf. í H96 ehf. Hinn 1. október 2015 tók sýslumaður við greiðslu á 96.252.677 krónum og varðveitir sýslumaður hana í samræmi við 1. mgr. 19. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Sóknaraðili höfðaði mál á hendur SA Verki ehf. til greiðslu á sömu fjárhæð og staðfestingar á kyrrsetningunni. Stefna málsins var birt fyrir lögmanni stefnda 12. ágúst 2015 og þingfest 1. september 2015. Dómur mun ekki enn vera fallinn í málinu.

Á hluthafafundum SA Verks ehf. og H96 ehf. 3. maí 2016 var samþykktur samruni félaganna í samræmi við áður gerða samrunaáætlun. Við samrunann var H96 ehf. yfirtökufélag og var SA Verki ehf. slitið.

Fjárnám var gert 18. október 2016 að kröfu Landsbankans hf. hjá varnaraðila, H96 ehf., fyrir kröfu að fjárhæð 107.977.881 krónu. Að ábendingu varnaraðila var gert fjárnám í innstæðu þeirri sem sýslumaður varðveitir vegna ofangreinds kyrrsetningarmáls.

Sóknaraðili óskaði eftir kyrrsetningu hjá varnaraðila fyrir sömu kröfu. Beiðnin var móttekin hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu 25. nóvember 2016 og tekin fyrir 2. desember 2016 og var gerðinni lokið án árangurs.

Sóknaraðili kveður að ógreiddir séu 22 reikningar, samtals að fjárhæð 94.346.645 krónur. Uppreiknuð krafa með dráttarvöxtum sé 113.909.421 króna miðað við 25. nóvember 2016.

Hinn 14. nóvember 2016 barst dóminum beiðni sóknaraðila um að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli árangurslauss fjárnáms að hluta sem gert var hjá varnaraðila 18. október 2016. Varnaraðili tók til varna og með úrskurði dómsins 15. febrúar sl. í máli nr. X-33/2016 var kröfu sóknaraðila hafnað.

II

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili byggir kröfu sína um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta á ákvæði 1. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. en árangurslaus kyrrsetning hafi farið fram hjá varnaraðila 2. desember 2016. Með hliðsjón af orðalagi 1. mgr. 2. gr. laga nr. 21/1991 sé rétt að miða frestdag við 22. febrúar sl., en þann dag hafi beiðni sóknaraðila borist dóminum. Með þessu sé fallið frá þeirri kröfu sem gerð sé í þeirri beiðni um að frestdagur verði ákveðinn 14. nóvember 2016. Sóknaraðili kveðst þannig með þessu draga úr upphaflegum kröfum sínum og rúmist sú breyting vel innan þeirra málsástæðna sem séu settar fram í beiðni sóknaraðila. Allt að einu sé það í höndum dómara að leggja mat á það við hvaða tímamark skuli miða frestdag.

Sóknaraðili kveður óumdeilt að hann eigi lögvarða kröfu á hendur varnaraðila. Í greinargerð sinni til dómsins hafi varnaraðili viðurkennt að tilteknir framvindureikningar, sem sóknaraðili byggi kröfu sína á, séu réttmætir.

Sóknaraðili hafnar því að varnaraðili eigi skaðabótakröfu á hendur honum, sem hann hafi skuldajafnað gegn kröfum sóknaraðila. Í fyrsta lagi byggi varnaraðili á drögum að verksamningi frá október 2014 sem hafi að geyma breytingatillögur og yfirstrikanir yfir tiltekin samningsákvæði. Það sé rangt að aðilar hafi gert með sér nýjan verksamning í október 2014. Unnið hafi verið að uppfærslu á verksamningnum, en þau drög hafi aldrei verið kláruð. Þá sé ljóst af samanburði á skjalinu sem unnið hafi verið með í október 2014 og hinum undirritaða verksamningi að fyrst og fremst hafi aðilar verið að bæta við verk- og kostnaðarliðum sem mönnum hafi orðið ljósir frá vori fram á haust 2014. Ódagsett og óundirrituð drög að verksamningi milli aðila hafi ekkert sönnunargildi um efnisatriði málsins. Þvert á móti verði að byggja á undirrituðum verksamningi aðila frá mars 2014. Þar sé í grein 4 gerður fyrirvari um endanlega fjárhæð verksins og í grein 5 sé gerður fyrirvari um afhendingu þar sem teikningar frá aðalhönnuði hússins hafi ekki legið fyrir, en hönnun hússins hafi verið á ábyrgð varnaraðila.

Í öðru lagi kveðst sóknaraðili mótmæla því að hann beri ábyrgð á töfum á verkinu. Umræddar tafir hafi orðið vegna þess hve hönnun hússins tók langan tíma, vegna athugasemda skipulagsyfirvalda Reykjavíkurborgar og vegna þess hversu seint byggingarleyfi hafi verið gefið út. Ekki sé deilt um að byggingarleyfi hafi ekki verið gefið út fyrr en í janúar 2015. Ekki hafi verið samið um afhendingu í október 2014, líkt og varnaraðili byggi á.

Sóknaraðili kveðst ekki hafa átt aðkomu að samningi varnaraðila og þriðja aðila um kaup á fasteigninni að Hverfisgötu 103 í Reykjavík, né heldur hafi hann nokkuð haft um það að segja að þessir aðilar hafi samið um dagsektir vegna afhendingardráttar. Aðilar þessa máls hafi ekki samið um dagsektir og sé áhætta varnaraðila af ákvæði um dagsektir í kaupsamningi við þriðja mann um framangreinda fasteign því alfarið á ábyrgð varnaraðila. Hið sama megi segja um lánssamninga varnaraðila við lánveitendur sína. Sóknaraðili hafi ekki átt aðkomu að þeim samningum og geti því ekki borið ábyrgð á meintu tjóni varnaraðila vegna fjármagnskostnaðar sem sé til kominn vegna afhendingardráttar, sem sóknaraðili beri ekki ábyrgð á. Með hliðsjón af þessu byggir sóknaraðili á því að hann hafi ekki orðið skaðabótaskyldur vegna afhendingardráttar.

Í þriðja lagi andmæli sóknaraðili því að vankantar séu á þeim reikningum sem hann byggi kröfur sínar á. Allir reikningarnir séu lagðir fram, þeir séu sundurliðaðir og járnamagn hafi verið reiknað niður á hverja einingu að beiðni verkkaupa.

Í fjórða lagi sé skuldajöfnuður, hvað sem öðru líði, ekki tækur í málinu þar sem varnaraðili eigi ekki gilda, skýra og ótvíræða gagnkröfu á hendur sóknaraðila.

Í fimmta lagi eigi varnaraðili ekki lengur meinta skaðabótakröfu á hendur sóknaraðila. Krafan hafi verið framseld til Víghóls ehf., en eigandi þess félags sé jafnframt eigandi varnaraðila. Einu gildi þótt við umrætt framsal hafi verið tekið mið af fyrrnefndum skuldajöfnuði. Kröfur sóknaraðila séu mun hærri en sem nemi þeim kröfum sem varnaraðili hafi beinlínis viðurkennt sem réttmætar. Mál sé nú rekið fyrir Héraðsdómi Vesturlands vegna ágreinings um þær kröfur, sem og um hina meintu skaðabótakröfu varnaraðila sem hann hafi nú framselt. Þá veki athygli að í ársreikningi varnaraðila fyrir árið 2016 virðist hin meinta skaðabótakrafa hans eignfærð í heild sinni, án tillits til þess skuldajöfnuðar sem varnaraðili telji að hafi farið fram. Samkvæmt öllu þessu hafi varnaraðili ekki sýnt fram á að kröfur sóknaraðila séu þegar greiddar.

Sóknaraðili byggi á því að varnaraðili sé ófær um að standa skil á gjaldföllnum skuldbindingum sínum. Sóknaraðili vísar til þess að kyrrsetning á eigum varnaraðila hafi verið árangurslaus. Væri varnaraðili raunverulega gjaldfær hefði honum verið í lófa lagið að afstýra gerðinni með því að leggja fram tryggingu, sbr. 10. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Þá hafi Landsbankinn hf., sem virðist vera stærsti kröfuhafi varnaraðila, gert fjárnám hjá varnaraðila í október 2016 vegna gjaldfallinnar kröfu.

Niðurstaða ársreiknings varnaraðila fyrir árið 2016 veki ekki von um að varnaraðili geti staðið í skilum með skuldbindingar sínar, eða muni geta það innan skamms tíma. Þannig hafi rekstur varnaraðila á árinu 2016 skilað hagnaði upp á einungis um 100.000 krónur en árið 2015 hafi afkoman verið neikvæð um tæpar 100.000.000 króna. Samkvæmt efnahagsreikningi varnaraðila hafi eignir hans í árslok 2016 numið 217.000.000 króna. Varnaraðili hafi, að því að virðist, kosið að eignfæra meinta skaðabótakröfu sína á hendur sóknaraðila að fullu leyti, eða sem nemi tæpum 84 000.000 króna, án tillits til þess skuldajöfnuðar sem varnaraðili kveði að hafi farið fram. Athygli veki að umrædd krafa hafi ekki komið fram í reikningum varnaraðila fyrir árið 2015. Þá hafi hin meinta skaðabótakrafa nú verið framseld til tengds aðila, en ekki hafi verið upplýst hvort og þá hvaða gagngjald hafi fengist fyrir hana. Á sama tíma séu bókfærðar skammtímaskuldir varnaraðila talsvert hærri en eignir hans, eða rúmlega 234.000.000 króna. Ekki sé unnt að greina út frá reikningnum hvort á skuldahliðinni hafi verið tekið tillit til kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila. Samkvæmt þessu sé varnaraðili ófær um að standa í skilum með gjaldfallnar skuldbindingar sínar auk þess sem skuldir séu umtalsvert hærri en eignir.

Sóknaraðili byggi enn fremur á því að varnaraðili sé ekki fær um að standa við skuldbindingar sínar innan skamms tíma. Þau verkefni varnaraðila sem hann lýsi í greinargerð sinni verði þess hvorki valdandi að hann teljist gjaldfær nú eða verði það innan skamms tíma. Lóðinni við Desjamýri 9 hafi Víghóll ehf. skilað í desember 2016 og þriðji aðili hafi óskað eftir að fá lóðinni úthlutað. Hvað varði hin tvö verkefnin þá sé Víghóll ehf. eigandi/lóðarhafi að Desjamýri 8 og SA Byggingar ehf. hafi fengið gefið út takmarkað byggingarleyfi að Hverfisgötu 94-96. Í báðum tilvikum sé varnaraðili einungis skráður byggingarstjóri en hægur leikur sé að skipta um byggingarstjóra og verktaka á síðari stigum, þannig að meintur ábati af þessum verkefnum renni annað en til varnaraðila. Varnaraðili, Víghóll ehf. og SA Byggingar ehf. séu öll í eigu sama aðila. Fyrirsvarsmönnum þessara félaga hafi hingað til ekki þótt tiltökumál að selja verkefni og lóðir sín á milli, til tjóns fyrir kröfuhafa sína. Jafnvel þótt meintur ábati myndi renna til varnaraðila sé með öllu óljóst hvort og þá hversu mikill hagnaður verði af umræddum verkefnum. Yfirlýsingar endurskoðanda og byggingartæknifræðings, sem varnaraðili hafi aflað einhliða, geti ekki talist sönnun þar um. Ef marka megi málatilbúnað varnaraðila sé auk þess ljóst að slíks ábata sé ekki að vænta fyrr en seint á árinu 2017 og um mitt ár 2018. Varnaraðili hafi samkvæmt þessu ekki sýnt fram á að hann verði gjaldfær innan skamms tíma.

Loks kveðst sóknaraðili vísa til þess að skilyrðum 1. töluliðar 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 sé ekki fullnægt. Þeir fjármunir sem hafi verið kyrrsettir að kröfu sóknaraðila og vistaðir á reikningi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu verði að óbreyttu ekki til staðar til tryggingar á kröfum sóknaraðila, þar sem Landsbankinn hf. hafi gert fjárnám í þeim. Þetta sé varnaraðila fullljóst, en í skýringu 4 í ársreikningi varnaraðila fyrir árið 2016 komi fram að skuld við bankann verði gerð upp með útgreiðslu á geymslufé hjá sýslumanni. Varnaraðili sé ógjaldfær og handveð í hlutum hans geti því ekki talist fullnægjandi í skilningi 1. töluliðar 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Í greinargerð varnaraðila sé fullyrt að kaupverð vegna sölu byggingarréttar við Laugaveg 77 í Reykjavík til tengds aðila hafi verið að fullu greitt með reiðufé, en þetta hafi varnaraðili ekki sannað.

Þegar allt framangreint sé haft í huga kveðst sóknaraðili telja ljóst að skilyrði laga nr. 21/1991 til þess að gjaldþrotaskipti fari fram á búi varnaraðila séu uppfyllt. Sóknaraðili eigi kröfu á varnaraðila og varnaraðili hafi ekki sýnt fram á að hann sé gjaldfær eða verði gjaldfær innan skamms tíma. Þá sé krafa sóknaraðila ekki tryggð með öðrum hætti. Því beri að fallast á kröfu hans um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila.

III

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili mótmælir því að krafa um gjaldþrotaskipti verði byggð á árangurslausri kyrrsetningu sem fram hafi farið 2. desember 2016. Með úrskurði dómsins í máli nr. X-33/2016, sem hafi verið rekið um sama ágreiningsefni, hafi dómurinn hafnað því að krafa um gjaldþrotaskipti yrði byggð á slíkri gerð sem greinir í 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sem fram hafi farið eftir frestdag. Þessi niðurstaða sé eðlileg og rökrétt, enda sé kröfuhöfum ekki stætt á að krefjast gjaldþrotaskipta áður en þeir afli heimildar fyrir þeirri kröfu sinni. Óumdeilt sé að frestdagur teljist í máli þessu vera 14. nóvember 2016, en beiðni sóknaraðila hafi borist innan mánaðar frá því að fyrri kröfu hans var hafnað, sbr. 4. mgr. 2. gr. laga nr. 21/1991, líkt og sóknaraðili hafi farið fram á í beiðni sinni. Orðalag ákvæðisins verði ekki skilið á neinn annan hátt.

Varnaraðili kveðst byggja á því að sóknaraðili eigi ekki ógreidda kröfu á hendur varnaraðila. Sóknaraðili telji sig eiga kröfu á hendur varnaraðila að fjárhæð um 94.000.000 króna á grundvelli 22 reikninga. Reikningarnir hafi flestir verið gefnir út 9. júní 2015, eftir að varnaraðili hafði lýst yfir skuldajöfnuði við ógreidda framvindureikninga sóknaraðila og sóknaraðili hafði lýst yfir stöðvun verkframkvæmda.

Reikningarnir eigi flestir sammerkt að vera útgefnir vegna kostnaðar sóknaraðila sem ýmist eigi að vera innifalinn í samningsverði verksins eða vegna kostnaðar sem eigi sér ekki stoð í verksamningi aðila. Varnaraðili hafi aldrei fengið fregnir af þessum viðbótarkröfum fyrr en í júní 2015. Sóknaraðila beri samkvæmt meginreglum verktakaréttar um viðbótarkröfur að sanna rétt sinn. Ekkert liggi fyrir í gögnum málsins sem renni stoðum undir réttmæti viðbótarkrafna sóknaraðila, hvorki fyrirmæli varnaraðila um tiltekin verk né yfirlýsingar sóknaraðila um aukinn kostnað vegna slíkra verka. Þá fylgi reikningunum engar skýringar, sundurliðanir eða upplýsingar um hvenær eða hvernig stofnað hafi verið til kostnaðarins.

Sóknaraðili vísi til þess að kostnaður vegna verksins hafi orðið umtalsvert meiri en upphaflega hafi verið gert ráð fyrir. Niðurstaða dómkvadds matsmanns hafi verið sú að teikningar hafi ekki tekið verulegum breytingum. Breytingarnar hafi ekki verið þess eðlis að réttlætt gæti verulegan viðbótarkostnað.

Varnaraðili kveðst árétta að aðilar hafi unnið eftir samningi frá október 2014. Í þeim samningi hafi verið tekið tillit til ýmissa atriða sem ekki hafi verið gert í upphaflegum samningi aðila. Ýmsum verkþáttum hafi verið bætt við og einingaverð og magn lagað að breyttum forsendum. Þá hafi samningsverð verið hækkað úr 228.000.000 króna í 240.000.000 króna. Mestu máli skipti að í samningnum hafi verið áætlað að verkinu yrði lokið í febrúarlok 2015. Þegar sóknaraðili hafi lýst yfir stöðvun verkframkvæmda í lok maí 2015 hafi verkinu þó ekki enn verið lokið. Því hafi verið að minnsta kosti þriggja mánaða tafir á verkframkvæmdum sem hafi valdið varnaraðila verulegu tjóni. Þrátt fyrir að undirritaður samningur liggi ekki fyrir renni gögn og athafnir sóknaraðila stoðum undir þá staðreynd að samningur hafi verið í gildi milli aðila og eftir honum hafi verið unnið. Varnaraðili vísi í þessu sambandi til reikninga sem sóknaraðili hafi gefið út og verkfundargerða.

Líkt og staðfest sé í matsgerð hafi hönnun og framleiðsla eininga getað hafist 22. ágúst 2014. Þá hafi vinna við byggingu sökkla botnplötu og kjallaraveggja getað hafist 3. september 2014, svo fremi sem hönnun, jarðvinnu og annarri undirbúningsvinnu hafi verið lokið fyrir þann tíma. Þessi vinna hafi hins vegar ekki hafist fyrr en í nóvember 2014 vegna atvika sem varði sóknaraðila, sérstaklega vegna tafa á hönnun og framleiðslu eininga.

Þær tafir sem urðu á verkinu hafi valdið varnaraðila tjóni. Afhending byggingarinnar til kaupanda hennar hafi átt að fara fram 15. maí 2015. Sú afhending hafi miðast við að varnaraðili fengi bygginguna afhenta úr hendi sóknaraðila í febrúar 2015. Við gerð kaupsamnings í janúar 2015 hafi afhendingu verið seinkað til 1. júní 2015 vegna tafa sem þá höfðu þegar orðið á verkinu en eftir þann dag hafi varnaraðili átt að greiða kaupanda tafabætur. Afhending hafi farið fram 1. október 2015, fjórum mánuðum eftir umsaminn afhendingardag. Hluta tafanna megi rekja til kyrrsetningargerðar sóknaraðila sem hafi farið fram í júlí 2015. Kaupsamningsgreiðslur hafi verið kyrrsettar sem hafi verulega tafið uppgjör kaupverðsins. Því hafi tafabætur verið greiddar frá 1. júní 2015 til 1. september 2015.

Vegna tafa á afhendingu byggingarinnar til kaupanda hafi varnaraðili ekki getað greitt framkvæmdalán sem hafi verið á gjalddaga 1. maí 2015. Varnaraðili hafi verið neyddur til að framlengja gjalddaga lánsins til 1. september 2015 með tilheyrandi vaxtakostnaði. Tjón varnaraðila nemi 8,45% ársvöxtum af 828.710.650 krónum frá 1. maí 2015 til 1. september 2015. Auk þess hafi varnaraðili orðið fyrir tjóni vegna aukins kostnaðar aðalhönnuðar við leiðréttingar á einingateikningum sóknaraðila, ásamt því að varnaraðili hafi þurft að fjarlægja byggingarkrana sóknaraðila af byggingarlóðinni.

Skaðabótakrafa varnaraðila nemi 85.801.378 krónum, miðað við 1. september 2015 og sé sundurliðuð með eftirfarandi hætti:

 

Greiddar tafabætur

55.662.500 krónur

Vaxtagjöld af fjármögnun

23.342.017 krónur

Vinna við einingateikningar

4.408.000 krónur

Niðurtekt byggingarkrana

2.388.861 króna

Samtals

85.801.378 krónur

 

Varnaraðili hafi lýst yfir skuldajöfnuði við kröfur sóknaraðila, fyrst með bréfi, dags. 28. maí 2015, og aftur í gagnstefnu og greinargerð í máli nr. E-90/2015 sem sé rekið milli aðila fyrir Héraðsdómi Vesturlands.

Í úrskurði dómsins í máli nr. X-33/2016 segi að varnaraðili hafi að mati dómsins ekki sýnt nægilega fram á að hann eigi skaðabótakröfu á hendur sóknaraðila, en ekki kæmi fram með skýrum hætti hve há sú krafa væri eða gögn henni til stuðnings. Hefði varnaraðili því ekki sýnt fram á að krafa sóknaraðila samkvæmt tveimur framvindureikningum væri greidd. Varnaraðili byggi á því að með ofangreindri umfjöllun og framlögðum gögnum hafi hann sýnt fram á með fullnægjandi hætti að hann eigi kröfu á hendur sóknaraðila sem sé töluvert hærri en krafa sóknaraðila samkvæmt ógreiddum framvindureikningum. Yfirlýsing um skuldajöfnuð hafi þau áhrif að báðum kröfum ljúki og þær falli niður samtímis um leið og yfirlýsing sé komin til móttakandans. Krafa sóknaraðila sé því að fullu greidd. Framsal kröfunnar til Víghóls ehf. hafi ekki áhrif á greiðslu kröfu sóknaraðila með áðurnefndum yfirlýsingum um skuldajöfnuð, enda hafi framsalið tekið mið af því að hluta kröfunnar hafi verið ráðstafað með þeim hætti.

Verði umdeildar kröfur sóknaraðila á hinn bóginn samþykktar í heild eða hluta með dómi kveðst varnaraðili vera fullfær um að standa skil á skuldbindingum sínum við sóknaraðila, sbr. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Á síðasta hluta ársins 2016 hafi tvö ný verkefni hafist hjá varnaraðila. Annað sé bygging um það bil 1.800 m2 iðnaðarhúsnæðis við Desjamýri 8 í Mosfellsbæ. Áætluð verklok þess verkefnis séu í ágúst 2017. Hitt verkefnið sé bygging um 5.000 m2 íbúða- og verslunarhúsnæðis við Hverfisgötu 94-96 í Reykjavík. Áætluð verklok þar séu í maí 2018. Varnaraðili sé byggingarstjóri og aðalverktaki við bæði verkin. Þá sé þriðja verkefnið í undirbúningi sem sé bygging um 2.600 m2 byggingar við Desjamýri 9 í Mosfellsbæ. Áætlað sé að framkvæmdir hefjist við verkið vorið 2017 og ljúki um áramótin 2017/2018. Varnaraðili verði byggingarstjóri og aðalverktaki við það verk. Fyrstu tvö verkin séu metin á ríflega 1,3 milljarða króna og þar af sé áætluð framlegð um 235.000.000 króna. Framangreint sé staðfest í yfirlýsingu skoðunarmanns og verkfræðings. Samkvæmt upplýsingum í ársreikningi varnaraðila fyrir árið 2016 hafi varnaraðili verið með sex manns í vinnu á árinu 2016. Rekstrarafkoma varnaraðila hafi verið jákvæð, öfugt við neikvæða rekstrarafkomu á árinu 2015. Neikvætt eigið fé hafi lækkað um rúmlega 80.000.000 króna og sé nú um 18.000.000 króna. Staða varnaraðila fari því batnandi og verði betri með hverjum mánuði sem líði, nú þegar ofangreind verkefni séu komin vel af stað.

Þá sé krafa sóknaraðila nægilega tryggð, enda hafi hlutir í varnaraðila verið kyrrsettir til tryggingar á ætlaðri kröfu sóknaraðila. Sú trygging standi óhögguð eftir sameiningu varnaraðila og SA Verks ehf. undir kennitölu þess fyrrnefnda. Samruninn hafi með engu móti rýrt verðmæti hins kyrrsetta hlutafjár. Eins og fyrr greini hafi varnaraðili tekið að sér verkefni sem muni skila umtalsverðum verðmætum til félagsins. Sala byggingarréttar hafi verið óhjákvæmileg, enda hafi ekki fengist lánsfjármögnun til byggingaframkvæmda á lóðinni vegna kyrrsetningargerðar sóknaraðila. Kaupverðið sé 603.000.000 króna og sé það eðlilegt og sanngjarnt endurgjald fyrir lóðina. Kaupverðið hafi að fullu verið greitt með fégreiðslu. Sóknaraðili fullyrði að kaupverð fyrir byggingarrétt sem varnaraðili seldi SA Byggingum ehf. hafi að mestu verið greitt með yfirtöku skulda sem hafi tilheyrt hinu eldra SA Verki ehf. og hafi samruni félaganna leitt til þess að eigið fé varnaraðila hafi verið þurrkað út. Hið rétta sé að þær skuldir sem SA Byggingar ehf. hafi ætlað að yfirtaka hafi tilheyrt H96 ehf., líkt og lánssamningur beri með sér. Bankinn hafi hins vegar neitað að skuldskeyta láninu vegna kyrrsetningargerðar sóknaraðila og hafi lánið því verið greitt upp. Því sé ekki rétt að greitt hafi verið fyrir eignina með skuldum sem ekki hafi tilheyrt H96 ehf.

Jafnframt varðveiti sýslumaður rúmar 96.000.000 króna inni á reikningi til tryggingar meintum kröfum sóknaraðila. Landsbankinn hf. hafi fengið fjárnám gert í þessum fjármunum en sóknaraðili hafi skotið gildi þeirrar gerðar til dóms. Samkvæmt þessu sé hin meinta krafa sóknaraðila því nægilega tryggð, sbr. 1. tölulið 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991.

IV

Niðurstaða

Í máli þessu krefst sóknaraðili gjaldþrotaskipta á búi varnaraðila á grundvelli 1. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. vegna árangurslausrar kyrrsetningar sem fram fór hjá varnaraðila 2. desember 2016. Samkvæmt því ákvæði getur lánardrottinn krafist þess að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta ef kyrrsetning, löggeymsla eða fjárnám hefur verið gert hjá skuldaranum án árangurs að einhverju leyti eða öllu á síðustu þremur mánuðum fyrir frestdag, enda sýni skuldarinn ekki fram á að hann sé allt að einu fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær koma í gjalddaga eða verði það innan skamms tíma.

Sóknaraðili krafðist þess upphaflega að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta með beiðni sem barst dóminum 14. nóvember 2016. Varnaraðili tók til varna gegn þeirri kröfu og með úrskurði dómsins 15. febrúar sl. í máli nr. X-33/2016 var kröfu sóknaraðila hafnað. Í því máli byggði sóknaraðili meðal annars á áðurnefndri sömu árangurslausu kyrrsetningu sem fram fór hjá varnaraðila 2. desember 2016. Dómurinn hafnaði því að krafa um gjaldþrotaskipti yrði byggð á þeirri gerð með eftirfarandi rökum: ,,Krafa sóknaraðila um töku bús varnaraðila til gjaldþrotaskipta barst dóminum 14. nóvember 2016. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 21/1991 telst sá dagur vera frestdagur í máli þessu. Í 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 kemur skýrt fram að kyrrsetning, löggeymsla eða fjárnám geti einungis verið grundvöllur að töku bús skuldara til gjaldþrotaskipta að slík gerð hafi farið fram án árangurs að einhverju leyti eða öllu á síðustu þremur mánuðum fyrir frestdag. Engin lagaheimild er fyrir því að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta vegna slíkrar gerðar sem farið hefur fram án árangurs eftir frestdag.“

Eins og fyrr greinir byggir krafa sóknaraðila í þessu máli, um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta, á sömu árangurslausu kyrrsetningargerð frá 2. desember 2016. Beiðni sóknaraðila barst dóminum 22. febrúar sl., eða viku eftir uppkvaðningu úrskurðar dómsins í málinu nr. X-33/2016. Í beiðninni kom fram að með vísan til 4. mgr. 2. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. væri þess krafist að frestdagur væri ákveðinn 14. nóvember 2016, sbr. dagsetningu fyrri kröfu um gjaldþrotaskipti, enda væri hin nýja krafa sett fram innan mánaðar frá því að fyrri kröfu var hafnað. Í greinargerð sóknaraðila til dómsins segir hins vegar að með hliðsjón af orðalagi 1. mgr. 2. gr. laga nr. 21/1991 sé rétt að miða frestdag við 22. febrúar sl., þann dag er beiðni sóknaraðila barst dóminum. Sóknaraðili dragi þannig úr upphaflegum kröfum sínum og rúmist sú breyting vel innan þeirra málsástæðna sem séu settar fram í beiðni sóknaraðila. Allt að einu sé það í höndum dómara að leggja mat á það við hvaða tímamark skuli miða frestdag.

Ákvæði um frestdag koma fram í 2. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. telst frestdagur vera sá dagur sem héraðsdómara berst beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða krafa um gjaldþrotaskipti, svo og dánardagur manns ef farið er með dánarbú hans eftir lögunum, en komi fleiri en einn þessara daga til álita teljist sá fyrsti þeirra frestdagur, sbr. þó ákvæði 2. til 4. mgr. greinarinnar. Í 4. mgr. 2. gr. laganna segir að sá dagur sem héraðsdómara berist krafa um gjaldþrotaskipti teljist frestdagur, þótt krafan sé afturkölluð eða henni hafnað, ef honum berst ný krafa um gjaldþrotaskipti eða beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings innan mánaðar frá því það gerðist.

Þessi ákvæði 1. og 4. mgr. 2. gr. laga nr. 21/1991 eru skýr og afdráttarlaus og gefa, að mati dómsins, ekki tilefni til annarrar túlkunar en eftir orðanna hljóðan. Frestdagur ræðst samkvæmt þessum ákvæðum alfarið af því hvenær beiðni eða krafa berst héraðsdómara og er það ekki á forræði dómara að ákveða frestdag á annan veg en fyrirmæli áðurnefnds ákvæðis gera ráð fyrir. Krafa sóknaraðila í þessu máli barst innan mánaðar frá því fyrri kröfu hans var hafnað og af 4. mgr. 2. gr. laga nr. 21/1991 leiðir því að frestdagur telst vera sá sami og í hinu fyrra máli, eða 14. nóvember 2016. Með vísan til hinna tilvitnuðu raka í úrskurði dómsins í máli nr. X-33/2016 verður krafa sóknaraðila ekki byggð á hinni árangurslausu kyrrsetningargerð frá 2. desember 2016. Verður kröfu sóknaraðila því hafnað þegar af þessari ástæðu. Vegna þessarar niðurstöðu gerist þess ekki þörf að taka afstöðu til þess hvort sóknaraðili eigi lögvarða og ógreidda kröfu á hendur varnaraðila eins og málið liggur nú fyrir dóminum.

Með vísan til úrslita málsins, og með hliðsjón af málatilbúnaði aðila, verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila 550.000 krónur í málskostnað og er þá litið til umfangs málsins og reksturs þess fyrir dóminum.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Eva Halldórsdóttir hdl. en af hálfu varnaraðila Sara Rut Sigurjónsdóttir hdl.

Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 22. mars sl.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfu sóknaraðila, LOB ehf., um að bú varnaraðila, H96 ehf., verði tekið til gjaldþrotaskipta, er hafnað.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 550.000 krónur í málskostnað.