Print

Mál nr. 796/2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Hildur Sunna Pálmadóttir aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Arnar Kormákur Friðriksson hdl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Nálgunarbann
Reifun

Staðfest var ákvörðun lögreglustjóra um að X skyldi sæta nálgunarbanni á grundvelli laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. desember 2017 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. desember 2017 þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 8. sama mánaðar um að varnaraðili sætti nánar tilgreindu nálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að nálgunarbanninu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Svo sem rakið er í hinum kærða úrskurði sætti varnaraðili brottvísun af heimili og nálgunarbanni gagnvart brotaþola í fjórar vikur með ákvörðun sóknaraðila 13. október 2017. Var sú ákvörðun staðfest með úrskurði héraðsdóms 18. sama mánaðar og dómi Hæstaréttar 23. þess mánaðar í máli nr. 663/2017. Með ákvörðun sóknaraðila 10. nóvember 2017 var varnaraðila áfram gert að sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni gagnvart brotaþola í fjórar vikur. Kröfu um staðfestingu þeirrar ákvörðunar var hafnað með úrskurði héraðsdóms 16. sama mánaðar, en sú krafa var tekin til greina með dómi réttarins 21. þess mánaðar í máli nr. 725/2017. Í nefndum dómum réttarins sagði að varnaraðili væri eftir gögnum málsins undir rökstuddum grun um að hafa beitt brotaþola líkamlegu ofbeldi þannig að varðaði við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Slíkt brot varðar fangelsi allt að sex mánuðum og allt að einu ári ef háttsemin er sérstaklega vítaverð.

Samkvæmt a. lið 4. gr. laga nr. 85/2011 er heimilt að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur leikur á að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola. Samkvæmt framansögðu er fullnægt þessu skilyrði til að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni. Þá er til þess að líta að ætluð brot varnaraðila eru gróf og ná yfir langt tímabil og verður því ekki talið sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðru og vægara móti, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 85/2011. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila, Arnars Kormáks Friðrikssonar héraðsdómslögmanns, fyrir Hæstaréttir, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 13. desember 2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun lögreglustjóra, dags. 8. desember 2017, um að X, kt. [...], skuli sæta nálgunarbanni skv. a. og b. lið 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili í 3 mánuði, þannig að lagt verði bann við því að hann komi á eða í námunda við lögheimili A, kt. [...], að [...] í Reykjavík á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með síma, í gegnum samfélagsmiðla eða með öðrum hætti.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að þann 18. október sl. hafi ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um nálgunarbann og brottvísun kærða af heimili verið staðfest með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-361/2017.  Hafi Hæstiréttur staðfest úrskurð héraðsdóms þann 23. október sl. (HR 663/2017) með þeim forsendum að kærði væri undir rökstuddum grun um að hafa beitt brotaþola líkamlegu ofbeldi þannig að varði við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.  Hafi Hæstiréttur talið nauðsynlegt að tryggja hagsmuni brotaþola með nálgunarbanni samhliða brottvísun af heimili, þar sem ekki hafi verið talið sennilegt að friðhelgi hennar yrði vernduð með öðrum vægari hætti.

Þann 10. nóvember sl. hafi lögreglustjóri tekið ákvörðun um að framlengja nálgunarbann og brottvísun af heimili á hendur kærða.  Héraðsdómur hafi hafnað þeirri ákvörðun með úrskurði í máli R-408/2017. Hafi úrskurður héraðsdóms grundvallast á framkomu brotaþola, þar sem hún hefði sjálf nálgast kærða og sett sig í samband við hann af fyrra bragði og því að kærði dveldi á [...].  Hafi Hæstiréttur snúið þeim úrskurði við með dómi frá 21. nóvember 2017 (HR 725/2017) og staðfest ákvörðun lögreglustjóra með sömu forsendum og í dómi réttarins nr. 663/2017 frá 23. október sl.

Í skýrslutöku þann 25. júlí sl. hafi A lýst langvarandi grófu líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi X í sinn garð. Kvaðst hún hafa kynnst X árið 2007 og þau átt í ástarsambandi. Upp úr því hafi slitnað en þau hafi aftur tekið upp þráðinn árið 2011 og hafið ástarsamband að nýju en í kjölfarið hafi ofbeldið byrjað. Þau hafi átt í sambandi síðan en með hléum. Hafi hún lýst  ítrekuðu ofbeldi X í sinn garð frá árinu 2011 fram til júlí sl. bæði hérlendis og erlendis. Kvað hún hann hafa hlotið eins árs fangelsisdóm í [...] fyrir ofbeldi gegn henni auk þess sem honum hafi verið gert að sæta nálgunarbanni. Hafi hún lagt fram gögn úr málinu frá [...]. Kvað hún X síðast hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi í júlí sl. og síðast líkamlegu ofbeldi í júní sl. er þau hafi verið í fríi á [...]. Kvaðst hún hafa farið á slysadeild um leið og hún hafi komið heim eða þann 17. júní sl. Meðal gagna málsins sé áverkavottorð vegna komu A á slysdeild umrætt sinn og skv. því hafi hún verið með dreifða marbletti um allan líkamann. A hafi lýst því jafnframt að hún óttist X og þori ekki að sofa með opinn glugga þar sem hann gæti komist inn auk þess sem hún væri vör um sig ef það kæmi bíll að húsinu. Þá kvaðst hún vera búin að skipta um símanúmer vegna hótana frá X bæði í garð hennar og sonar hennar. A hafi gefið skýrslu þann 16. október sl. vegna málsins og lýst miklu andlegu og kynferðislegu ofbeldi af hálfu X frá því að hún hafi gefið skýrslu í júlí sl. Kvað hún X hafa flutt inn á heimili hennar árið 2015 og dvalist þar. Hann hafi flutt út síðastliðið sumar en þau hafi tekið aftur saman 13. ágúst sl. og hann flutt aftur inn á heimilið í kjölfarið.

Lögregla hafi aflað sakavottorðs X og skv. því hlaut hann eins árs fangelsisdóm þann [...] 2014 hjá [...] í [...] fyrir líkamsárás, hótun og ölvunarakstur.

Skv. málaskrákerfi lögreglu hafi verið tilkynnt um ofbeldi X í garð A gegnum árin, sbr. eftirfarandi mál:

Mál lögreglu nr. 007-2011-[...], dags. [...] 2011: Bókað að nafnlaus tilkynning hafi borist frá þriðja aðila um að kona sem hafi búið að [...], A, sé þolandi heimilisofbeldis. Bókað að áðan hafi hún sætt ofbeldi af hálfu sambýlismanns síns, grunur um að þetta hafi gerst áður. Bókað að farið hafi verið og rætt við X og A vegna málsins. Þau hafi kvaðst hafa verið að deila en engu líkamlegu ofbeldi hafi verið beitt. Hafi þau rifist sín á milli og verið læti í þeim.

A hafi verið spurð út í þetta mál í skýrslutöku þann 25. júlí sl. og kvaðst hún þá muna eftir þessu. Hafi hún kveðið að barsmíðar hafi verið byrjaðar en hún hafi ekki verið með sýnilega áverka. Hún hafi sagst hafa sagt að engu líkamlegu ofbeldi hefði verið beitt þar sem hún hafi ekki verið með áverka og X hafi verið orðinn rólegri.

Mál lögreglu nr. 007-2011-[...], dags. [...] 2011: Bókað að A hafi óskað aðstoðar vegna heimilisofbeldis. Bókað að X og A eigi í miklum deilum um allt á milli himins og jarðar. Bókað að umrætt sinn hafi þau átt í deilum en án ofbeldis.

A hafi verið spurð út í þetta mál í skýrslutöku þann 25. júlí sl. og hafi kvaðst muna eftir þessu. Hafi hún kveðið að það hafi verið búnar að vera barsmíðar og henni farið að líða ofboðslega illa. Hún hafi verið komin með brjóstverk. Kvaðst hún hafa óskað eftir aðstoð lögreglu þar sem þessu hafi þurft að linna.

Mál lögreglu nr. 007-2012-[...], dags. [...] 2012: Bókað að X og A hafi verið ölvuð og hefði staðið í deilum. Bókað að A hafi sagt að X hafi reynt að slá sig. Bókað að X hafi sagt A ölvaða og hafa skálda upp atvik.

Mál lögreglu nr. 007-2012-[...], dags. [...] 2012: Bókað að A hafi komið á lögreglustöðina í Kópavogi til að tilkynna um ofbeldi sem hún hafi orðið fyrir af hendi X en þau standi í skilnaði. Hún eigi húsið en hann hafi neitað að yfirgefa það. Hann hafi hótað henni lífláti og að taka húsið af henni. Þá hafi hún sagt að hann hafa hrist hana til og talað til hennar með ókvæðisorðum. Hún hafi óttast um sitt öryggi og einnig um föður sinn sem búi á neðri hæð hússins en hann sé að verða áttræður. Bókað að hann hafi komið með henni á stöðina og sagt að X hafi neglt aftur hurð að sameign. Bókað að A hafi hringt og sagt að X hafa ráðist á hana þegar hún hafi farið inn í íbúð sína, og hann hafi ítrekað slegið hana. Bókað að hún hafi sagst hafa komist undan á hlaupum inn til föður síns þar sem hún hafi beðið lögreglu.

Mál lögreglu nr. 007-2012-[...]: Þann [...] 2012 hafi A lagt fram kæru á hendur X fyrir líkamsárás og þjófnað í [...] þann [...] 2012. Í málinu hafi legið fyrir áverkavottorð en A hafi leitað á slysadeild við heimkomu. Hafi hún verið greind með mar og húðrispur á hægri fótlegg og einkenni frá hægri síðu sem hafi bent til tognunar. X hafi neitað sök í skýrslutöku hjá lögreglu. Rannsókn málsins hafi verið hætt hjá lögreglu.

Mál lögreglu nr. 007-2017-[...], dags. [...] 2017: Bókað að A hafi komið í Bjarkarhlið, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, og sagt frá miklu ofbeldi er hún hafi þurft að þola af hálfu sambýlismanns. Hann hafi m.a. hlotið árs fangelsisdóm í [...] vegna heimilisofbeldis. Hún hafi sagt nýjasta ofbeldið hafa átt sér stað á [...] og hafi hún komið heim og farið á slysadeild sl. laugardag vegna áverka. 

Mál lögreglu nr. 007-2017-[...], dags.  [...] 2017:  A hafi tilkynnt um óæskilegan mann í íbúð sinn, X, sem hafi veitt henni áverka. Lögregla hafi farið á staðinn og hafi verið tekin skýrsla af A á vettvangi. Í framburði sínum hafi hún kveðið X hafa kýlt hana með gosdós í hægra augað og að hann hafi hlaupið út er hún hafi hringt á lögregluna. Aðspurð hafi A sagt að þetta hafi ekki verið í fyrsta skiptið sem X hafi lagt á hana hendur, það hefði hann oft gert og væri mál í gangi hjá LRH vegna ofbeldisins. A hafi jafnframt sagt að hún vildi losna við X en hann væri búinn að halda til í íbúðinni hennar í [...] í tvær vikur með henni en hann væri ekki með skráð lögheimili þar og ætti ekki neitt þar inni nema leðurjakka og eina tölvu sem hún hefði reyndar greitt fyrir.

Í greinargerðinni kemur fram að A hafi mætt til skýrslutöku á lögreglustöð þann 10. nóvember sl.  Hafi hún lýst því að X hafi haldið áfram að áreita hana eftir að hann hafi verið úrskurðaður í nálgunarbann og brottvísun af heimili í október sl. Hann hafi stjórnað henni á ýmsan hátt og m.a. neytt hana til að skila neyðarhnappi sem henni hafi verið  úthlutaður. Hafi hún lýst því að hann hefði sagt henni að mæta í framangreinda skýrslutöku og afturkalla kæru á hendur honum. Þá hafi hann komið með áfengi til hennar og fengið hana til að drekka það.  Hann hafi einnig beitt hana andlegu og kynferðislegu ofbeldi frá því hann var úrskurðaður í nálgunarbann og brottvísun af heimili.  Hafi hann m.a. kallað hana aula og ef hún setti á sig varalit þá hafi hann sagt henni að hún væri hóra.  Þá hafi hann hafið samræði við hana í tvígang er hún svaf og hafi þá sagst hafa tilkall til hennar líkama. Hafi hún lýst því að í þessi tvö skipti hafi hún læst sig inn á baðherbergi þar sem hún hafi óttast að hann gerði henni eitthvað meira.  Þá hafi hann nuddað hana í þrígang með olíu sem hafi endað með því að hann fór með fingurna í leggöng hennar.  Sagðist hún hafa reynt að vera máttlaus á meðan á því hafi staðið, en þegar hún hefði beðið hann um að hætta þá hefði hann lagst við hliðina á henni og sagt ljóta hluti við hana.  Hafi hún lýst því að henni liði illa yfir því hvernig hann hafi náð heljargreipum á henni og að hún óttaðist hann.

Lögregla hafi haftsamband við A þann 7. desember sl. Sagðist hún ekki ætla að leggja fram beiðni um áframhaldandi nálgunarbann.  Þann 8. desember hafi  lögregla haft samband við X. Sagði hann A reglulega hafa samband við sig og þá oft með hótanir um sjálfsvíg.  Í þau skipti hafi hann haft samband við hana til baka þar sem hann vildi ekki hafa sjálfsvíg hennar á samviskunni og sagðist vera hræddur um hana þar sem hann vissi til þess að hún hafi áður reynt sjálfsvíg.

Með vísan til framangreinds sé X undir rökstuddum grun um refsiverða háttsemi í garð A. Þau gögn sem lögregla hafi undir höndum beri með sér að A stafi mikil ógn af X og að hún hafi sætt ofbeldi og ógnunum af hans hálfu og hann valdið henni mikilli vanlíðan og ónæði.  Þá hafi hann ekki virt nálgunarbannið og brottvísun af heimili, samkvæmt ákvörðun lögreglustjóra frá 13. október sem staðfest hafi verið með úrskurði héraðsdóms og dómi Hæstaréttar. Sé því hætta talin á að hann haldi háttseminni áfram með því að raska friði hennar í skilning 4. gr. laga nr. 85/2011, njóti hann fulls athafnafrelsis. Sé ekki talið sennilegt að friðhelgi hennar verið vernduð  með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa.

Með vísan til framangreinds og framlagðra gagna teljist skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann uppfyllt og ítrekað að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða:

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun lögreglustjóra, dags. 8. desember 2017, um að X, kt. [...], skuli sæta nálgunarbanni skv. a. og b. lið 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili í 3 mánuði, þannig að lagt verði bann við því að hann komi á eða í námunda við lögheimili A, kt. [...], að [...] í Reykjavík á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með síma, í gegnum samfélagsmiðla eða með öðrum hætti

        Heimild er til að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að viðkomandi hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða hætta er á því að viðkomandi brjóti þannig gegn brotaþola, sbr. 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Þessu úrræði verður þó aðeins beitt þegar ekki þykir sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti, sbr. 6. gr. laga nr. 85/2011, og skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.

        Fram kemur í greinargerð lögreglustjóra að Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að þann 18. október sl. hafi ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um nálgunarbann og brottvísun kærða af heimili verið staðfest með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-361/2017.  Hafi Hæstiréttur staðfest úrskurð héraðsdóms þann 23. október sl. (HR 663/2017) með þeim forsendum að kærði væri undir rökstuddum grun um að hafa beitt brotaþola líkamlegu ofbeldi þannig að varði við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.  Hafi Hæstiréttur talið nauðsynlegt að tryggja hagsmuni brotaþola með nálgunarbanni samhliða brottvísun af heimili, þar sem ekki hafi verið talið sennilegt að friðhelgi hennar yrði vernduð með öðrum vægari hætti.

Þann 10. nóvember sl. hafi lögreglustjóri tekið ákvörðun um að framlengja nálgunarbann og brottvísun af heimili á hendur kærða.  Héraðsdómur hafi hafnað þeirri ákvörðun með úrskurði í máli R-408/2017. Hafi úrskurður héraðsdóms grundvallast á framkomu brotaþola, þar sem hún hefði sjálf nálgast kærða og sett sig í samband við hann af fyrra bragði og því að kærði dveldi á [...].  Hafi Hæstiréttur snúið þeim úrskurði við með dómi frá 21. nóvember 2017 (HR 725/2017) og staðfest ákvörðun lögreglustjóra með sömu forsendum og í dómi réttarins nr. 663/2017 frá 23. október sl. staðfesti Hæstiréttur ákvörðun lögreglustjóra á þeim forsendum að varnaraðili væri undir rökstuddum grun um að hann hefði beitt brotaþola líkamlegu ofbeldi.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að skv. málaskrákerfi lögreglu hafi marg ítrekað verið tilkynnt um ofbeldi X í garð A gegnum árin og eru þau rakin í greinargerð. Í framlögðum gögnum er lýst langvarandi heimilisofbeldi, andlegs-, líkamlegs- og kynferðislegs, frá árinu 2011 allt 13. október. Í gögnum málsins liggja fyrir  ítarlegar skýrslur af brotaþola frá 27. júlí 2017 og 13. október 2017 þar sem brotaþoli gerir grein fyrir því grófa ofbeldi sem hún hefur mátt þola. Meðal gagna málsins eru áverkavottorð.

Þá kemur fram að A hafi mætt til skýrslutöku á lögreglustöð þann 10. nóvember sl. og lýst því að X hafi haldið áfram að áreita hana eftir að hann hafi verið úrskurðaður í nálgunarbann og brottvísun af heimili í október sl. Hann hafi stjórnað henni á ýmsan hátt og m.a. neytt hana til að skila neyðarhnappi sem henni hafi verið  úthlutaður. Hafi hún lýst því að hann hefði sagt henni að mæta í framangreinda skýrslutöku og afturkalla kæru á hendur honum. Þá hafi hann komið með áfengi til hennar og fengið hana til að drekka það.  Hann hafi einnig beitt hana andlegu og kynferðislegu ofbeldi frá því hann var úrskurðaður í nálgunarbann og brottvísun af heimili.  Þá hafi hann hafið samræði við hana í tvígang er hún svaf og hafi þá sagst hafa tilkall til hennar líkama. Hafi hún lýst því að í þessi tvö skipti hafi hún læst sig inn á baðherbergi þar sem hún hafi óttast að hann gerði henni eitthvað meira.  Þá lýsti hún frekara kynferðislegu ofbeldi og lýst því að henni liði illa yfir því hvernig hann hafi náð heljargreipum á henni og að hún óttaðist hann.

Lögregla hafi haft samband við A þann 7. desember sl. Sagðist hún ekki ætla að leggja fram beiðni um áframhaldandi nálgunarbann.  Þann 8. desember hafi  lögregla haft samband við X. Sagði hann A reglulega hafa samband við sig og þá oft með hótanir um sjálfsvíg.  Í þau skipti hafi hann haft samband við hana til baka þar sem hann vildi ekki hafa sjálfsvíg hennar á samviskunni og sagðist vera hræddur um hana þar sem hann vissi til þess að hún hafi áður reynt sjálfsvíg. Fram kom hjá réttargæslumanni brotaþola að hún væri í sambandi við brotaþola og síðast í morgun hafi varnaraðili náð að setja sig í samband við hana með því að nota annan síma en sinn eigin. Þá kvað hún brotaþola hafa tjáð sér að sér stæði mikil ógn af varnaraðila.

   Með vísan til framangreinds verður fallist á með lögreglu að X sé undir rökstuddum grun um refsiverða háttsemi í garð A. Þau gögn sem lögregla hafi undir höndum beri með sér að A stafi mikil ógn af X og að hún hafi sætt ofbeldi og ógnunum af hans hálfu og hann valdið henni mikilli vanlíðan og ónæði.  Þá hafi hann ekki virt nálgunarbannið og brottvísun af heimili, samkvæmt ákvörðun lögreglustjóra frá 13. október sem staðfest hafi verið með úrskurði héraðsdóms og dómi Hæstaréttar. Því er fallist á að hætta sé á að hann haldi háttseminni áfram með því að raska friði hennar í skilning 4. gr. laga nr. 85/2011, njóti hann fulls athafnafrelsis. Þá verður ekki talið sennilegt að friðhelgi hennar verið vernduð  með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa. Dómari telur að þrátt fyrir að varnaraðili dvelji nú á [...] komi það ekki í veg fyrir að varnaraðili geti raskað friði brotaþola í skilningi 4. gr. laga nr. 85/2011.

Með vísan til framangreinds og framlagðra gagna verður talið að skilyrði a liðar 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann uppfyllt og verður ákvörðun Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 8. desember sl. staðfest eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila Arnar Kormáks Friðrikssonar, hdl. 200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011. Þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Elvu Daggar Ásudóttur Kristinsdóttur hdl. 200.000 krónur, greiðist einnig úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 48. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011. Virðisaukaskattur er innifalinn í þóknun.

Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Staðfest er ákvörðun lögreglustjóra, dags. 8. desember 2017, um að X, kt. [...], skuli sæta nálgunarbanni skv. a-lið 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili í 3 mánuði, þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við lögheimili A, kt. [...], að [...] í Reykjavík á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með síma, í gegnum samfélagsmiðla eða með öðrum hætti.

Þóknun verjanda varnaraðila, Arnars Kormáks Friðrikssonar hdl. 200.000 kr.  og réttargæslumanns brotaþola, Elvu Daggar Ásudóttur Kristinsdóttur hdl., 200.000 kr. skal greidd úr ríkissjóði.