Mál nr. 527/2017
- Líkamstjón
- Vinnuslys
- Frávísunarkröfu hafnað
- Skaðabætur
- Eigin sök
A krafðist viðurkenningar á rétti til skaðabóta úr ábyrgðartryggingu B ehf. hjá S hf. vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í vinnuslysi hjá B ehf. á Keflavíkurflugvelli í ágúst 2010. Var A að vinna í farmrými vöruflutningaflugvélar við hleðslu og tók þar við fiskpökkum af færibandi og raðaði í farmrýmið. Hönd A klemmdist milli færibands og járnkeflis þegar hann hefði verið að reyna að ná taki á fiskpakka sem dottið hafði af færibandinu og til að losa sig hafði hann fengið samstarfsmanns sinn til að breyta um snúningsátt á færibandinu. Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að ósannað væri að A hefði sótt öryggisnámskeið vegna starfa á flughlaði en í skýrslu fyrir dómi hefði fyrirsvarsmaður B ehf. kveðið engan eiga að starfa þar án þess að hafa lokið slíku námskeiði. Þá hefði A ekki fengið neina kennslu eða þjálfun til þeirra verka sem hann var að sinna á slysdegi en á B ehf. hefði hvílt skylda til að annast það, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og 8. gr. reglugerðar nr. 367/2006 um notkun tækja. Þá var talið að þótt viðbrögð A hefðu ef til vill ekki verið rétt yrði hann ekki með hliðsjón af aldri hans og öðrum atvikum látinn bera hluta af tjóni sínu sjálfur, sbr. 1. mgr. 23. gr. a skaðabótalaga nr. 50/1993. Var krafa A því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason og Ásmundur Helgason landsréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. ágúst 2017. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hann verði sýknaður af kröfu stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Krafa áfrýjanda um frávísun málsins er á því reist að lýsing í stefnu til héraðsdóms á málsástæðum og öðrum atvikum, sem gera þurfi grein fyrir til að samhengi málsástæðna verði ljóst, sé svo óskýr og villandi að hún fullnægi ekki fyrirmælum e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Nánar tiltekið hafi því verið lýst í stefnunni að stefndi hafi fest hægri hönd sína í færibandi, slasast við það, en fengið svo samstarfsmann sinn til þess að breyta um snúningsátt á færibandinu svo það gengi í öfuga átt. Áfrýjandi kveður þessa lýsingu ekki bera með sér að um mikilvægt atriði í málinu hafi verið að ræða. Síðar hafi þó komið í ljós að við það að láta færibandið ganga í öfuga átt hafi hönd stefnda orðið fyrir mestum skaða. Í hinum áfrýjaða dómi sé og á því byggt að slysið hafi orðið er færibandinu var snúið til baka. Þótt stefndi hafi búið yfir vitneskju um þetta, þegar málið var höfðað, hafi ekkert verið vikið að þessu í stefnu og skorti þar því umfjöllun um mikilvægasta þátt málsins, sjálfan tjónsatburðinn. Það hafi ekki verið fyrr en við skýrslutökur að upplýsingar um þetta hafi komið fram. Áfrýjandi telur að sá grundvöllur sem stefndi hafi byggt mál sitt á frá upphafi hafi verið ,,í verulegu ósamræmi við það sem lagt var upp síðar í málinu.“ Þar sem stefnda hafi verið um þessi atriði kunnugt sé ekki unnt að miða við annað en að hann hafi höfðað málið á grundvelli forsendna sem hann vissi að væru rangar. Málið hafi því frá upphafi verið reist á óskýrum og röngum grundvelli og það verið í andstöðu við meginreglu réttarfars um glöggan og skýran málatilbúnað.
Stefndi höfðaði mál þetta fyrir héraðsdómi 1. nóvember 2016 og krafðist viðurkenningar á rétti til skaðabóta úr ,,ábyrgðartryggingu APA ehf.“ hjá áfrýjanda vegna líkamstjóns sem hann hafi orðið fyrir í vinnuslysi hjá því fyrirtæki á Keflavíkurflugvelli 3. ágúst 2010. Í stefnu var lýst atvikum að slysinu og aðstæðum á vinnustað stefnda. Þar kom meðal annars fram að stefndi hafi við störf sín í farmrými flugvélar flækst með höndina í færibandi, sem hafi fært honum fiskpakka til hleðslu inni í rýminu. Hönd hans hafi klemmst milli færibands og járnkeflis sem tilheyrði búnaði þess. Til þess að losa sig hafi hann þurft að fá ,,samstarfsmann sinn til að breyta um snúningsátt á færibandinu svo það snerist í öfuga átt. Við breytingu á snúningsátt losnaði hönd“ stefnda. Í framhaldinu var svo gerð grein fyrir líkamstjóni stefnda og í því sambandi vitnað í læknisvottorð og lýst niðurstöðu annars læknis í álitsgerð hans um það hver hafi verið tímabundin og varanleg læknisfræðileg örorka stefnda vegna slyssins. Loks var leitast við að rökstyðja hvers vegna talið væri að áfrýjandi ætti að bera ábyrgð á greiðslu bóta vegna líkamstjónsins.
Þótt lýsing á atvikum, og málsástæðum á þeim reistum, í stefnu til héraðsdóms hefði mátt vera gleggri um hvenær og hvernig líklegt hafi verið að líkamstjónið hefði einkum orðið er þess að gæta að atvikum var þar lýst í heild og tíundaðar þær málsástæður sem leiða ættu til skaðabótaábyrgðar. Auk stefnu og skrár um framlögð gögn lagði stefndi fram 17 skjöl við þingfestingu málsins. Meðal þeirra var skýrsla Vinnueftirlits ríkisins 3. ágúst 2010 og skýrsla lögreglu 6. sama mánaðar, ásamt fjölda ljósmynda. Í báðum þessum skjölum er leitt að því getum hvenær líkamstjón stefnda hafi einkum orðið. Þá voru jafnframt lögð fram læknisfræðileg gögn um áverka og afleiðingar líkamstjónsins. Ágallar þeir á málatilbúnaði stefnda, sem áður greinir, komu með engum hætti í veg fyrir að áfrýjandi gæti frá upphafi haldið uppi þeim vörnum sem þurfti. Loks er þess að geta að við aðalmeðferð málsins voru teknar skýrslur af stefnda, samstarfsmanni hans þegar slysið varð og fyrirsvarsmanni APA ehf., vinnuveitanda stefnda á slysdegi. Að því búnu var málið nægilega upplýst og héraðsdómara ekkert að vanbúnaði að dæma málið svo sem gert var. Er ekki tilefni til að fallast á að slíkir annmarkar hafi verið á málatilbúnaði stefnda að frávísun gæti varðað samkvæmt e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
II
Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi var stefndi 19 ára á slysdegi. Hann var ráðinn tímabundið til starfa hjá APA ehf. frá 25. maí til 31. ágúst 2010 og vann í vöruskemmu félagsins á Keflavíkurflugvelli. Vegna manneklu var hann beðinn um að vinna við hleðslu vöruflutningaflugvélar. Við þá vinnu var hann í farmrými vélarinnar þar sem þrengsli voru og tók þar við fiskkössum af færibandi og raðaði í farmrýmið. Samstarfsmaður stefnda stjórnaði færibandinu og verður að telja að hann hafi stýrt framkvæmd vinnunnar á staðnum. Ósannað er að stefndi hafi sótt öryggisnámskeið vegna starfa á flughlaði en í skýrslu fyrir dómi kvað fyrirsvarsmaður APA ehf. engan eiga að starfa á flughlaði án þess að hafa lokið slíku námskeiði. Stefndi hafði heldur ekki fengið kennslu eða þjálfun til þeirra verka sem hann var sendur til að sinna 3. ágúst 2010, en á vinnuveitanda hans hvíldi skylda til að annast það, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og 8. gr. reglugerðar nr. 367/2006 um notkun tækja. Þegar stefndi hafði fest hönd sína í færibandinu og búið var að stoppa það var því snúið til baka til að losa hönd stefnda. Voru engin verkfæri tiltæk til að losa höndina með öðrum hætti. Ákvörðun um að snúa færibandinu til baka var ekki, þrátt fyrir beiðni stefnda, á hans ábyrgð eins og aðstæður voru. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um saknæma háttsemi sem APA ehf. ber ábyrgð á samkvæmt reglunni um vinnuveitandaábyrgð og leiðir til greiðsluskyldu áfrýjanda sem ábyrgðartryggjanda félagsins.
Slys stefnda var með þeim hætti að hann flæktist í færibandi og klemmdist þegar hann var að sinna starfi sínu hjá APA ehf. Leggja verður til grundvallar við úrlausn málsins frásögn hans um að hann hafi verið að reyna að ná taki á fiskpakka, sem dottið hafði af færibandinu, til þess að forða honum frá skemmdum. Þótt viðbrögð stefnda hafi ef til vill ekki verið rétt verður hann ekki með hliðsjón af aldri hans og öðrum atvikum látinn bera hluta af tjóni sínu sjálfur, sbr. 1. mgr. 23. gr. a. skaðabótalaga nr. 50/1993. Verður því einnig staðfest niðurstaða héraðsdóms um það efni.
Málskostnaðarákvörðun héraðsdóms verður staðfest.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði stefnda, A, 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2017
Mál þetta höfðaði A, […] með stefnu birtri 1. nóvember 2016 á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík. Málið var dómtekið 9. maí sl.
Stefnandi krefst þess að viðurkenndur verði réttur hans til skaðabóta úr ábyrgðartryggingu APA ehf. hjá stefnda vegna líkamstjóns sem stefnandi hlaut í vinnuslysi á Keflavíkurflugvelli þann 3. ágúst 2010. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar.
Stefnandi vann hjá APA ehf. á Keflavíkurflugvelli sumarið 2010, þá 19 ára gamall. Var hann í vöruskemmu félagsins. Þann 3. ágúst var hann vegna manneklu settur í að vinna við hleðslu vöruflutningavélar Bláfugls. Í skýrslu sinni fyrir dómi kvaðst hann ekki áður hafa verið látinn vinna úti á flughlaði. Hann hafi annars verið í vöruskemmu, tekið við fiski og sett á bretti.
Stefnandi sagði að umræddur dagur hefði verið mjög annasamur. Hann hefði verið inni í flugvélinni að taka við fiskikössum af færibandi og handraða í vélina, en Haraldur Magnússon hefði sett á bandið. Kassarnir hefðu komið of ört og hann hefði ekki ráðið við þetta. Einn kassinn hefði dottið af bandinu og hann gripið hann og þrýst upp undir bandið svo hann færi ekki. Við þetta hafi hægri höndin fest í bandinu. Hann hafi þá ýtt á stöðvunarrofann. Haraldur hefði reynt að losa hann. Síðan hefðu þeir spólað bandið til baka. Læknar hefðu sagt sér að mesti skaðinn hefði orðið þegar spólað var til baka. Hann kvaðst ekki muna hvort hann hefði beðið Harald að spóla til baka.
Stefnandi sagði að það hefði alltaf verið tönnlast á því að kassarnir mættu ekki skemmast.
Stefnandi kvaðst hafa farið á námskeið um flugöryggi, en hann hefði misst af námskeiði um öryggi á flughlaði. Hann sagði að aðstæður í vélinni hefðu verið erfiðar og hann hefði ekki fengið hnépúða, svo hann gæti verið á hnjánum. Hann hafi verið alveg í keng við þessa vinnu.
Vitnið Haraldur Magnússon kom fyrir dóm og gaf skýrslu. Hann kvaðst hafa verið almennur starfsmaður í fraktskemmu, en hafa unnið talsvert lengur en stefnandi. Þeir hafi verið að hlaða aftari lest í vélinni. Hann kvaðst ekki vita af hverju stefnandi hafi verið í þessu, en hann hafi yfirleitt ekki verið úti á flughlaði. Stefnandi hafi verið að ná í kassa sem var að falla niður af bandinu og kvaðst Haraldur hafa heyrt að bandið fór að hökta og þá hafi hann séð að höndin á stefnanda var föst á milli bandsins og tveggja kefla, sem halda því strekktu. Stefnandi hafi ekki getað hreyft sig. Þeir hafi ekki haft nein verkfæri til að klippa á bandið. Hann kvaðst hafa spurt stefnanda hvort hann gæti beðið á meðan hann sækti verkfæri, en stefnandi hafi sagt að hann gæti það ekki. Þá hafi þeir snúið bandinu til baka. Haraldur kvaðst ekki muna hvort stefnandi hefði beðið um að bandinu yrði snúið til baka. Hann hafi heyrt brothljóð þegar bandið sneri til baka.
Haraldur sagði að sá sem væri inni í vélinni stjórnaði hraðanum á bandinu, hann stöðvaði það þegar hann þyrfti, stýrði álaginu.
Haraldur sagði að stefnandi hefði verið sumarstarfsmaður í vöruhúsi, hann hefði ekki áður verið úti á flughlaði.
Í skýrslu Sigþórs Kristins Skúlasonar, framkvæmdastjóra APA, kom fram að engin gögn væru lengur til um námskeið sem stefnandi sótti, svo langt væri síðan þessi atvik gerðust. Sérstakt námskeið væri haldið fyrir starfsmenn á flughlaði. Hann kvaðst ekki muna eftir því að Vinnueftirlitið hefði gert einhverjar athugasemdir.
Vinnuveitandi stefnanda, APA ehf., hafði ábyrgðartryggingu hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum.
Vinnueftirlitnu var tilkynnt um slysið og fór starfsmaður þess þegar á vettvang. Eftirlitið gerði engar sérstakar athugasemdir, en rannsókn þess var sýnilega ekki ítarleg.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Í stefnu er byggt á því að slysið verði rakið til vanbúnaðar og saknæmrar og ólögmætrar háttsemi sem vinnuveitandi stefnanda, APA ehf. beri ábyrgð á. APA hafi haft ábyrgðartryggingu hjá stefnda.
Stefnandi bendir á að hann hafi einungis verið 19 ára gamall og ekki áður unnið í farmrými flugvélar. Þá hafi hann ekki lokið námskeiði um öryggi á flughlaði. Vinnuveitandi stefnanda hafi brotið gegn eigin vinnureglum með því að senda hann til vinnu á flughlaði, án þess að hafa lokið öryggisnámskeiði.
Stefnandi telur að verulega hafi skort á leiðbeiningar til hans og þjálfun. Vísar stefnandi hér til skyldu vinnuveitanda samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 46/1980.
Stefnandi vísar til þess að fram komi í skýrslu lögreglu að engar hlífar hafi verið á færibandinu til að koma í veg fyrir að einhver festist á milli færibandsins og járnstangarinnar undir því. Þetta telur stefnandi að hafi verið óforsvaranlegt.
Stefnandi byggir einnig á því að nauðsynlegt hefði verið að verkstjóri væri nærstaddur, vegna ungs aldurs síns og reynsluleysis. Telur stefnandi að verkstjóri hafi brugðist öllum skyldum sínum.
Stefnandi mótmælir því að hann hafi sjálfur átt sök á slysinu. Bendir hann á að vinnuveitandi beri höfuðábyrgð á því vinnuumhverfi sem hann búi starfsmönnum sínum. Þá vísar stefnandi til 23. gr. a skaðabótalaga, en bætur vegna vinnuslysa skerðist ekki vegna eigin sakar nema hinn slasaði hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir á því að vinnuveitandi stefnanda beri ekki hlutlæga ábyrgð á slysinu og að hann eigi ekki sök á því.
Stefndi byggir á því að slysið verði rakið til óhappatilviljunar eða athafna stefnanda sjálfs. Ekki hafi verið sýnt fram á að öryggiskröfum hafi ekki verið fullnægt.
Stefndi segir að ekki hafi verið neitt að færibandi því sem notað var. Vinnueftirlitið hafi ekki gert neinar athugasemdir við ástand þess. Þá hafi verk stefnanda verið einfalt og ekki kallað á sérstakar leiðbeiningar. Á flugvellinum gildi strangar öryggiskröfur sem öllum, sem hafi aðgangsheimild að vellinum, beri að kynna sér. Stefnandi hafi haft slíka aðgangsheimild.
Stefndi bendir á þá niðurstöðu Vinnueftirlitsins að orsök slyssins hafi verið sú að stefnandi fór með höndina inn á sjálft klemmusvæðið meðan færibandið var í gangi. Orsök slyssins hafi því verið athafnir stefnanda sjálfs. Þá byggir stefndi á því að sönnunarbyrðin hvíli alfarið á stefnanda.
Stefndi ber fyrir sig reglu 51. og 124. gr. laga nr. 30/2004. Stefndi segir að stefnanda hafi verið synjað um bætur þann 7. janúar 2011. Frestur til að höfða mál eða leggja málið fyrir Úrskurðarnefnd hafi verið 12 mánuðir frá þeim degi. Stefnandi hafi borið málið undir nefndina og hún skilað áliti 21. mars 2011. Stefndi byggir á því að lög nr. 14/1905 gildi um slit á frestum samkvæmt 124. gr. laga nr. 30/2004. Því hafi nýr 12 mánaða frestur byrjað að líða 21. mars 2011. Stefnandi hafi ekkert aðhafst innan frestsins.
Þá byggir stefndi á því að samkvæmt gögnum hafi stöðugleikapunktur verið fjórum mánuðum eftir slysið, þ.e. þann 3. desember 2010. Samkvæmt vottorði dags. 12. desember 2011 hafi óþægindi verið horfin. Því hafi meira en fjögur ár liðið frá því að stefnanda hafi orðið ljós hugsanleg krafa án þess að hann leitaði viðurkenningar hennar.
Vegna síðastgreinds atriðis telur stefndi jafnframt að stefnandi hafi glatað kröfu sinni fyrir tómlæti. Þá skipti þessi dráttur máli við mat á sönnun, en á þessum langa tíma hafi möguleikar á sönnunarfærslu glatast vegna þess að gögnum hafi verið eytt.
Verði fallist á að vinnuveitandi stefnanda hafi átt einhverja sök á slysinu byggir stefndi á því að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að stinga hönd sinni undir keflið á færibandinu. Því geti hann ekki átt rétt á bótum.
Loks er mótmælt vöxtum af kröfu stefnanda, en ekki þarf að gera grein fyrir mótmælum þar sem stefnandi krefst ekki dóms fyrir vöxtum.
Niðurstaða
Atvik að slysi stefnanda eru að mestu óumdeild. Hönd stefnanda festist undir kefli á færibandi. Brugðist var við með því að snúa bandinu til baka og sennilega hefur sú aðgerð gert afleiðingar óhappsins alvarlegri.
Leggja verður til grundvallar að stefnandi hafi ekki áður unnið úti á flughlaði eða inni í flugvél við hleðslu. Það stoðar ekki fyrir stefnda að bera fyrir sig að gögn um námskeiðahald séu ekki lengur til staðar. Verður byggt á þeirri frásögn stefnanda að hann hafi ekki sótt neitt námskeið um öryggi á flughlaði.
Fram kom í skýrslum fyrir dómi að sá starfsmaður sem er inni í flugvélinni geti stýrt hraða bandsins og stöðvað það þegar kassar berast of ört inn í vélina. Fram kom í skýrslu stefnanda að kassarnir hefðu borist ört eftir bandinu og hann ekki ráðið almennilega við hraðann. Bendir þetta til þess að honum hafi ekki verið leiðbeint nægilega áður en verkið hófst eða að verkstjórn hafi verið ábótavant.
Þegar stefnandi hafði fest höndina undir bandinu kunnu hann og samstarfsmaður hans engin ráð til að losa hana án þess að spóla til baka. Verður talið að hér hafi skort á þjálfun þeirra og verkstjórn á vettvangi, sem hefði getað tryggt eðlileg og skjót viðbrögð við óhappinu. Ekki er að fullu upplýst hvort stefnandi eða samstarfsmaður hans ákvað að spóla til baka, en eins og hér stendur á þykir það ekki hafa úrslitaáhrif um niðurstöðu málsins.
Stefnandi hefur ekki valdið slysinu af stórfelldu gáleysi. Þótt talið yrði að hann hafi hvatt samstarfsmann sinn til að spóla færibandinu til baka væri það ekki stórkostlega gálaust af hans hálfu.
Vegna þess sem hér hefur verið rakið verður talið að slys stefnanda hafi orðið vegna atvika sem vinnuveitandi hans ber ábyrgð á.
Krafa stefnanda er um viðurkenningu bótaskyldu og er höfð uppi á hendur stefnda sem ábyrgðartryggjanda hins bótaskylda, sbr. 44. gr. laga nr. 30/2004. Regla 51. gr. sömu laga mælir fyrir um frest sem vátryggður í skaðatryggingum hefur til tiltekinna aðgerða að viðlögðum missi bótaréttar, en stefnandi hefur ekki stöðu vátryggðs gagnvart stefnda. Ákvæði 124. gr. sömu laga gildir aðeins í slysa-, sjúkra- og heilsutryggingum og verður henni því ekki beitt hér. Krafa stefnanda fyrnist á 10 árum samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að stefnandi hafi sýnt af sér tómlæti um að gæta réttar síns eða hafa kröfu sína uppi. Þótt langur tími líði án þess að mál sé höfðað felur það eitt ekki í sér tómlæti.
Vaxtakrafa verður ekki dæmd hér og verður því ekki leyst úr mótmælum við slíkri kröfu.
Samkvæmt framansögðu verður fallist á kröfu stefnanda um viðurkenningu réttar hans til greiðslu skaðabóta, án lækkunar vegna sakarskiptingar. Í samræmi við þá niðurstöðu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 1.000.000 króna í málskostnað. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, en lögmenn og dómari voru sammála um að endurflutningur væri óþarfur.
Dómsorð
Viðurkenndur er réttur stefnanda, A, til óskertra skaðabóta úr hendi stefnda, Sjóvár-Almennra trygginga hf., vegna líkamstjóns er hann varð fyrir í vinnuslysi á Keflavíkurflugvelli 3. ágúst 2010.
Stefndi greiði stefnanda 1.000.000 króna í málskostnað.