Print

Mál nr. 568/2014

Lykilorð
  • Dómari
  • Ómerking héraðsdóms

Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 18. júní 2015.

Nr. 568/2014.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Dómarar. Ómerking héraðsdóms.

Dómur héraðsdóms um sakfellingu X var ómerktur, enda var ekki farið að niðurlagsákvæði 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála um að sé héraðsdómur ómerktur skuli þrír héraðsdómarar skipa dóm í máli við nýja meðferð þess í héraði og að þeir megi ekki vera hinir sömu og áður fóru með það.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 25. ágúst 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er aðallega krafist ómerkingar hins áfrýjaða dóms og þess að málinu verði vísað heim í hérað, en til vara að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara ómerkingar héraðsdóms og að málinu verði vísað aftur heim í hérað. Að þessu frágengnu krefst hann sýknu, en að því frágengnu refsimildunar.

Mál þetta var upphaflega höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi 12. nóvember 2012 og þingfest 13. desember sama ár. Ákærða er gefið að sök að hafa 23. júní 2012 ekið bifreiðinni [...] vestur Biskupstungnabraut skammt frá Skálholtsvegi í Bláskógabyggð, án þess að hafa gild ökuréttindi og óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa tetrahýdrókannabínólsýru. Við þingfestingu málsins játaði ákærði akstur bifreiðarinnar en neitaði sök að öðru leyti. Í héraðsdómi kemur fram að hann hafi einnig við meðferð málsins játað að hafa ekki haft gild ökuréttindi umrætt sinn.

Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði kvöldið áður en aksturinn átti sér stað fengið far með bifreið sem í hafi verið þrír menn og hefðu þeir reykt kannabis í bifreiðinni. Hann kveðst ekki hafa tekið þátt í þeim reykingum og ekki hafa neytt fíkniefna frá því á árinu 2008. Tveir starfsmenn á rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði gáfu skýrslu fyrir dómi um rannsókn á efnum í þvagi ákærða. Í framburði þeirra beggja kom fram að styrkur tetrahýdrókannabínólsýru í þvagi ákærða umrætt sinn hafi verið svo mikill að niðurstaðan gæti ekki samrýmst frásögn hans heldur væri efnið til komið í þvaginu vegna eigin neyslu hans. Héraðsdómur taldi þó ekki sannað að umrætt efni hefði í þessu tilviki verið í þvagi ákærða af þeim ástæðum. Segir meðal annars í dóminum að ,,Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið verður ekki talið sannað að ákærði hafi vitað eða mátt vita að dvöl hans í bifreið þar sem neytt var kannabisefnis með reykingum leiddi til þess að í þvagi hans yrðu leifar ávana- og fíkniefna skömmu síðar. Verður akstur hans á þeim tíma, sem fór í bága við 45. gr. a umferðarlaga, því ekki talinn honum saknæmur og verður hann því sýknaður af þessum lið ákærunnar.“ Ákærði var á hinn bóginn sakfelldur fyrir akstur án þess að hafa haft ökuréttindi og dæmdur til þess að greiða 5.000 krónur í sekt.

Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar af hálfu ákæruvalds. Í dómi réttarins 28. nóvember 2013 í máli nr. 395/2013 var talið að mat héraðsdómara á sönnunargildi vitnaframburðar áðurnefndra tveggja starfsmanna rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði væri að líkindum rangt svo að máli skipti um málsúrslit. Auk þess væri í héraðsdómi vísað til stuðnings niðurstöðunni í vitnaskýrslu sem gefin hafi verið í öðru máli og væri ekki meðal gagna þessa máls. Væri með því brotið gegn meginreglu sem fram kæmi í 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í dómi Hæstaréttar segir síðan: ,,Með vísan til þess sem að framan greinir verður ekki komist hjá því að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008, til þess að aðalmeðferð geti farið fram á ný og dómur verði aftur felldur á það.“ 

Í 3. málslið 3. mgr. 208. gr. síðastnefndra laga segir svo: ,,Sé héraðsdómur ómerktur samkvæmt þessu skulu þrír dómarar skipa dóm í málinu við nýja meðferð þess í héraði og mega þeir ekki vera hinir sömu og áður fóru með það.“

Þrátt fyrir þessi skýru fyrirmæli tók sami héraðsdómari, og dæmt hafði málið áður, það til meðferðar á nýjan leik og boðaði til aðalmeðferðar sem fram fór 6. júní 2014 án þess að þrír dómarar skipuðu dóm í málinu. Kvað sami héraðsdómari, að gættu ákvæði 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008, upp hinn áfrýjaða dóm 1. ágúst 2014.

Þar sem ekki var gætt fyrirmæla 3. málsliðar 3. mgr. 208. gr. áðurnefndra laga er óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og meðferð málsins frá og með þinghaldi 6. júní 2014 og vísa því enn á ný heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur ásamt meðferð málsins frá og með þinghaldi 6. júní 2014 og er málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda ákærða, 620.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 1. ágúst 2014.

                Mál þetta er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi dagsettri 12. nóvember 2012 á hendur ákærða, X, kt. [...], til heimilis að [...], [...].

fyrir umferðarlagabrot

með því að hafa, síðdegis laugardaginn 23. júní 2012 ekið bifreiðinni [...] vestur Biskupstungnabraut skammt frá Skálholtsvegi í Bláskógabyggð, án þess að hafa gild ökuréttindi og óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa tetrahýdrókannabínólsýru.

 Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 48. gr. og 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga. 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 með áorðnum breytingum  og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

                Ákærði mætti við þingfestingu málsins 13. desember 2012 og játaði að hafa ekið bifreiðinni en neitaði sök að öðru leyti. Aðalmeðferð málsins fór fram þann 5. mars 2013 og viðurkenndi ákærði að hafa ekki haft gild ökuréttindi við aksturinn. Verjandi ákærða krafðist vægustu refsingar fyrir það brot en sýknu af ákæru fyrir brot gegn 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga. Dómur var kveðinn upp í málinu þann 30. apríl 2013 og var niðurstaðan sú að ekki var talið sannað að ákærði hafi vitað eða mátt vita að dvöl hans í bifreið þar sem neytt var kannabisefnis með reykingum leiddi til þess að í þvagi hans yrðu leifar ávana- og fíkniefna skömmu síðar. Var akstur hans á þeim tíma, sem fór í bága við 45. gr. a umferðarlaga, því ekki talinn honum saknæmur og var hann því sýknaður af þessum lið ákærunnar. Ákærði var hins vegar sakfelldur fyrir að hafa ekki haft gild ökuréttindi þegar hann ók bifreiðinni og var hann dæmdur til greiðslu 5.000 króna sektar. Dómi þessum var áfrýjað til Hæstaréttar Íslands og með dómi réttarins uppkveðnum 28. nóvember 2013 var hinn áfrýjaði dómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný. Sú aðalmeðferð fór fram þann 6. júní sl. og við upphaf hennar lagði ákærði fram svofellda yfirlýsingu: „Að mati ákærða felur dómur Hæstaréttar í máli nr. 395/2013, uppkveðinn 28. nóvember 2013, í sér brot gegn meginreglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 11. gr. sml., 1. mgr. 70. gr. stjskr. og 1. mgr. og d-lið 3. mgr. 6. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Með nýrri málsmeðferð þar sem Hæstiréttur hefur gefið héraðsdómi forskrift að því hvernig dæma skuli málið og sakfella ákærða er brotið gegn rétti ákærða til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi sem nýtur verndar stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu. Ákærði mun því ekki láta málið til sín taka við nýja málsmeðferð í héraði að öðru leyti en því að krefjast frávísunar málsins frá héraðsdómi vegna framangreindra formgalla og rökstyðja hana og gera kröfu um sýknu og málsvarnarlaun.“

Málavextir.

                Laugardaginn 23. júní 2012 um kl. 17:22 hafði lögreglan afskipti af ákærða þegar hann ók bifreiðinni [...] vestur Biskupstungnabraut skammt frá Skálholtsvegi. Ákærði framvísaði ökuskírteini en við uppflettingu í ökuskírteinaskrá mun hafa komið í ljós að hann átti eftir að endurtaka ökupróf, en hann hafði verið sviptur ökurétti. Ákærði veitti samþykki sitt fyrir því að gefa þvagsýni vegna gruns um að hann væri undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Við prófun með ToxCup kom jákvæð svörun á THC og var honum því tekið blóð- og þvagsýni í þágu rannsóknar málsins. Í matsgerð rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði dagsettri 11. júlí 2012 segir að tetrahýdrókannabínól hafi ekki verið í mælanlegu magni í blóðinu en tetrahýdrókannabínólsýra hafi fundist í þvagi. Segir í matsgerðinni að það efni sé í flokki ávana- og fíkniefna sem óheimil séu á íslensku yfirráðasvæði og teljist ökumaðurinn því hafa verið óhæfur til þess að stjórna ökutæki örugglega þegar sýnið var tekið.

                Tekin var lögregluskýrsla af ákærða samdægurs og kvaðst hann þá ekki hafa neytt fíkniefna í mörg ár.

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi við fyrri aðalmeðferð.

                 Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að kvöldið áður hefði hann fengið far með þremur strákum og hefðu þeir reykt kannabis í bifreiðinni. Hann kvað þá hafa tjáð sér þeir væru að reykja þetta efni og hefðu þeir boðið sér það en hann hefði neitað. Hann kvaðst ekki hafa áttað sig á því að viðvera hans í bifreiðinni þar sem piltarnir voru að reykja kannabis myndi leiða til þess að efnið fyndist í þvagi hans. Það hafi verið ástæða þess að hann hafi ekki minnst á þetta atriði við lögreglumennina. Hann kvaðst ekki hafa neytt fíkniefna síðan árið 2008.

                Vitnið A varðstjóri skýrði svo frá fyrir dómi að hún hefði haft afskipti af ákærða umrætt sinn. Hann hafi verið reiðubúinn að veita þvagsýni og þegar það hafi reynst jákvætt hafi hann verið færður á Selfoss til töku blóð- og þvagsýnis. Hún kvaðst ekki hafa getað séð að ákærði hafi verið undir áhrifum, hann hafi verið stressaður í upphafi en hann hafi róast.

                Vitnið B, deildarstjóri rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, skýrði svo frá fyrir dómi að þegar þvag væri rannsakað væru gerðar mótefnamælingar þar sem notaður væri tiltekinn mæliþröskuldur. Ef mælingarnar væru undir ákveðnum mæliþröskuldi væri ekki meira að gert, en þegar þær næðu ákveðnum styrk væri farið með þær í sértæk tæki sem væru mjög örugg. Væri þá eingöngu mæld tetrahýdrókannabínólsýra sem væri umbrotsefni virka efnisins í kannabis, en það er tetrahýdrókannabínól. Við mælingarnar væri notast við mjög örugga aðferð sem viðurkennd væri um allan heim. Þegar gefið væri út að tetrahýdrókannabínólsýra mældist í þvagi væri „100% öruggt“ að sá sem í hlut ætti hafi sjálfur neytt efnisins. Spurð hvernig hún gæti fullyrt það svaraði B að það væri einfaldlega út frá styrk sýrunnar sem mælst hafi. Í þessu tilviki hafi styrkur hennar verið langt yfir viðmiðunarmörkum.  

                Vitnið C, sérfræðingur á rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, skýrði svo frá fyrir dómi að niðurstaða álitsgerðarinnar um styrk tetrahýdrókannabínólsýru í þvagi ákærða gæti ekki samrýmst því að kannabis hafi komist í líkama hans vegna kannabisreykinga annarra manna í bifreið sem ákærði hefði verið í. Við slíkt myndi sýran aldrei ná þeim styrk sem gæti verið „staðfest í okkar fagi.“ Allar rannsóknir, sem gerðar hafi verið á áhrifum kannabisreykinga á þá er ekki hafi reykt, hafi sýnt að styrkur sýrunnar hafi ekki verið nálægt þeim mörkum sem rannsóknastofan setti sér. Ekki væri hægt að útiloka neitt, en hins vegar væri þetta afar ólíklegt samkvæmt þeim rannsóknum sem miðað væri við.

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi við síðari aðalmeðferð.

                Ákærði óskaði ekki eftir því að tjá sig um málið og vísaði til framangreindrar yfirlýsingar sinnar sem hann lagði fram við upphaf aðalmeðferðar.

                Maki ákærða, D, kom fyrir dóm en skoraðist undan vitnisburði með heimild í a-lið 1. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008.

                Vitnið A lögregluvarðstjóri skýrði í meginatriðum frá atvikum fyrir dómi á sama hátt og við fyrri aðalmeðferð.

                Vitnið B, deildarstjóri rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, skýrði svo frá fyrir dómi að niðurstaða matsgerðarinnar hefði verið sú að tetrahýdrókannabínól hefði ekki mælst í blóði en tetrahýdrókannabínólsýra hefði mælst í þvagi, en það efni væri umbrotsefni tetrahýdrókannabínóls, eða það efni sem skiljist út í þvagi eftir að kannabisefna hefði verið neytt. Vitnið taldi útilokað að þetta efni hefði komist í líkama ákærða vegna óbeinna kannabisreykinga. Hún kvað það vinnureglu að gefa ekki upp styrk efnisins í þvagi en í þessu tilviki kvaðst hún gera undantekningu og kvað hún eftir forpróf að mælst hefði 135. Síðan hafi mælingin verið staðfest og þá hafi mælst yfir 500 ng/ml., en það sé hæsti staðall. Hún kvað hafa verið gerðar prófanir vegna áhrifa óbeinna kannabisreykinga í bifreið á fólk og þá hefði enginn mælst yfir 15 ng/ml. í þvagi.

                Vitnið C, sérfræðingur á rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, skýrði svo frá fyrir dómi að niðurstaða matsgerðarinnar hefði verið sú að tetrahýdrókannabínól hefði ekki mælst í blóði en tetrahýdrókannabínólsýra hefði mælst í þvagi, en það efni væri umbrotsefni tetrahýdrókannabínóls, eða það efni sem skiljist út í þvagi eftir að kannabisefna hefði verið neytt. Vitnið taldi varla hægt að gera ráð fyrir að þetta efni hefði komist í líkama ákærða með öðrum hætti en með beinum reykingum en styrkurinn í þvagi ákærða hefði mælst yfir 500 ng/ml., en það sé hæsti staðall. Hún kvað hafa verið gerðar prófanir vegna áhrifa óbeinna kannabisreykinga og væri mældur styrkur í þvagi í þeim tilvikum að meðaltali um 10 ng/ml.

Niðurstaða.

 Ákærða er í máli þessu gefið að sök að hafa ekið bifreið án þess að hafa gild ökuréttindi og óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa tetrahýdró- kannabínólsýru.  Við fyrri aðalmeðferð málsins kannaðist ákærði við að hafa ekki haft gild ökuréttindi þegar hann ók bifreiðinni og telst sú háttsemi hans því sönnuð og rétt færð til refsiákvæða í ákæru. Hann kannaðist hins vegar ekki við að hafa verið óhæfur til að stjórna bifreiðinni vegna áhrifa tetrahýdrókannabínólsýru og kvaðst ekki hafa neytt fíkniefna síðan árið 2008. Hann hafi hins vegar verið í bifreið með piltum sem reyktu kannabis og hljóti það að vera skýring þess að umrætt efni hafi fundist í þvagi hans. Hann hafi hins vegar ekki áttað sig á þessum möguleika þegar hann gaf skýrslu hjá lögreglu og því ekki minnst á þetta atriði þá.

   Ákærði hefur lýst því yfir við hina nýju málsmeðferð að hann muni ekki láta málið til sín taka að öðru leyti en því að krefjast frávísunar málsins frá héraðsdómi og gera kröfu um sýknu og málsvarnarlaun. Þrátt fyrir þessa afstöðu ákærða þykir rétt að taka afstöðu til þess hvort mögulegt sé að umrætt efni hafi komist í líkama ákærða vegna óbeinna kannabisreykinga.

Ákærði telur að dómur Hæstaréttar í máli nr. 395/2013 feli í sér brot gegn meginreglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu fyrir dómi og þá hafi rétturinn gefið héraðsdómi forskrift að því hvernig dæma skuli málið. Sé því brotið gegn rétti ákærða til réttlátrar málsmeðferðar sem njóti verndar stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu.

Með dómi Hæstaréttar í framangreindu máli nr. 395/2013 var hinn áfrýjaði dómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný. Sú niðurstaða getur ekki sætt endurskoðun af hálfu héraðsdóms og verður því að telja að dómurinn sé bundinn af framangreindum fyrirmælum æðri réttar og ber því að taka málið til efnismeðferðar. Með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 429/2012 ber að hafna því að brotið hafi verið gegn meginreglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu og þá verður ekki fallist á að Hæstiréttur hafi gefið héraðsdómi forskrift að niðurstöðu málsins, enda fer sönnunarfærsla fram á ný hér fyrir dómi og við mat á sönnunargildi munnlegs framburðar er dómarinn óbundinn af fyrri niðurstöðu. Ber því að hafna frávísunarkröfu ákærða í máli þessu.

   Samkvæmt áðurgreindri matsgerð rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði var tetrahýdrókannabínól ekki í mælanlegu magni í blóði ákærða en í þvagi hans fannst hins vegar tetrahýdrókannabínólsýra. Segir í vottorðinu að ökumaður teljist hafa verið óhæfur til þess að stjórna ökutæki örugglega en magn efnisins er ekki getið. Þá hafa tveir sérfræðingar á rannsóknastofunni, þær B og C, borið fyrir dómi við síðari aðalmeðferð málsins að miðað við þann styrk efnisins sem mældist í þvagi ákærða væri nánast útilokað að óbeinar hassreykingar hafi leitt til þess að efnið mældist í þvaginu. Styrkur efnisins í þvagi ákærða væri yfir hæsta mæliþröskuldi eða yfir 500 ng/ml. Þær greindu báðar frá prófunum sem gerðar hefðu verið á fólki vegna óbeinna kannabisreykinga og væri niðurstaðan að meðaltali sú að 10-15 ng/ml mældust í þvagi viðkomandi við þær aðstæður.   

Samkvæmt öllu framansögðu er því hafið yfir allan skynsamlegan vafa að ákærði hafi umrætt sinn verið óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega og hefur hann með þeirri háttsemi sinni brotið gegn þeim lagaákvæðum er í ákæru greinir.

Með sátt 16. júní 2006 gekkst ákærði undir greiðslu 50.000 króna sektar og sviptingu ökuréttar í tvo mánuði frá 1. apríl sama ár fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Þá var hann dæmdur 28. apríl 2008 til greiðslu 180.000 króna sektar og sviptingar ökuréttar í tvö ár frá 15. júlí sama ár fyrir brot gegn 1. og 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga. Auk þessa hefur ákærði tvívegis hlotið fangelsisdóm vegna fíkniefnalagabrota og tvisvar verið gerð fésekt fyrir umferðarlagabrot.

Ákærði hefur unnið sér til refsingar samkvæmt 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga. Þar sem um er að ræða ítrekað brot öðru sinni þykir refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin í samræmi við dómvenju fangelsi í 30 daga. Þá verður hann samkvæmt 1. mgr., sbr. 3. mgr. 101. gr. og upphafsákvæði 1. mgr. 102. gr. umferðarlaga sviptur ökurétti ævilangt frá uppkvaðningu dómsins að telja.  

Með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, þar með talinn útlagðan kostnað, 103.166 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., 350.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og aksturskostnað lögmannsins, 14.100 krónur.

 Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóm þennan. Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en dómari og málflytjendur töldu ekki þörf endurflutnings.

Dómsorð:

 Ákærði, X,  sæti fangelsi í 30 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá uppkvaðningu dómsins að telja.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talinn útlagðan kostnað, 103.166 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., 350.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og aksturskostnað lögmannsins, 14.100 krónur.