Mál nr. 51/2019
- Viðskiptabréf
- Skuldabréf
- Skuldaraskipti
- Kröfuhafaskipti
- Tómlæti
- Skipting sakarefnis
Ágreiningur aðila laut að því hvort A ehf. bæri greiðsluskyldu gagnvart L ehf. vegna ofgreiddra vaxta af skuldabréfi, sem S ehf. hafði upprunalega gefið út til D hf., en A ehf. síðar eignast og L ehf. tekið að sér greiðslu með skuldskeytingu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að við framsal viðskiptabréfa væri gerð undantekning frá þeirri meginreglu kröfuréttar við kröfuhafaskipti að framsalshafi öðlist ekki betri rétt á hendur skuldara en framseljandi átti. Skuldari viðskiptabréfs geti þannig glatað mótbáru gegn grandlausum framsalshafa, ef hún kemur ekki fram á bréfinu, en markmið reglunnar er að auðvelda viðskipti með viðskiptabréf og gera réttarstöðu framsalshafa tryggari en almennar reglur kröfuréttarins mæla fyrir um. Í ljósi þess að reglurnar um viðskiptabréf fela í sér veruleg frávik frá almennum reglum verði að gera þann áskilnað að ótvírætt sé að krafa sé viðskiptabréfskrafa. Taldi Hæstiréttur að til þess að þessu skilyrði væri fullnægt hefði hinn nýi skuldari þurft að lýsa því yfir einhliða og skilyrðislaust að hann lofaði að greiða kröfuna og hefði sú skriflega yfirlýsing þurft að koma fram á bréfinu sjálfu til þess að það gæti talist skuldabréf eftir skuldaraskiptin. Var ekki talið nóg að L ehf. hafi undirritað sérstaka yfirlýsingu á öðru skjali þess efnis að hann gengist undir öll ákvæði viðkomandi bréfs og skuldbindingar samkvæmt því. Af þessum sökum var talið að krafan hafi breyst við skuldaraskiptin úr því að vera krafa samkvæmt viðskiptabréfi í almenna fjárkröfu. Var L ehf. því ekki talinn hafa glatað mótbárum við framsal kröfunnar og gat þar af leiðandi haft uppi frekari kröfur vegna ofgreiðslu vaxta af skuldabréfinu gagnvart A ehf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Greta Baldursdóttir, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. nóvember 2019. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar á öllum dómstigum.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Mál þetta lýtur að því hvort áfrýjandi sé greiðsluskyldur gagnvart stefnda vegna ofgreiðslna á grundvelli skuldabréfs útgefnu af Suðurhlíð ehf. 10. nóvember 2010 til Dróma hf. en það skuldabréf kom í stað fyrra skuldabréfs sem útgefið var 28. desember 2007 af Suðurhlíð ehf. til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. Síðarnefnda bréfið var ólögmætt gengistryggt lán sem greiddist upp með hinu nýja skuldabréfi. Með skilmálabreytingu 15. janúar 2012 var höfuðstóll nýja skuldabréfsins lækkaður úr 11.843.004 krónum í 5.394.595 krónur í samræmi við endurútreikning á grundvelli 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Stefndi tók að sér greiðslu skuldarinnar með skuldskeytingu 18. febrúar 2014 og hefur greitt hana að fullu. Telur hann að samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar um þýðingu fullnaðarkvittana við greiðslu lána sem bundin voru ólögmætri gengistryggingu hafi verið óheimilt að krefja skuldara um vexti aftur í tímann með þeim hætti sem hér hafi verið gert. Nemur krafa stefnda þeirri fjárhæð sem hann telur hafa verið ofgreidda. Sakarefni málsins var skipt þannig að einungis er nú til umfjöllunar krafa stefnda um viðurkenningu á greiðsluskyldu áfrýjanda gagnvart sér.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 26. nóvember 2018 var áfrýjandi sýknaður af endurgreiðslukröfu stefnda með vísan til aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í hinum áfrýjaða dómi var komist að gagnstæðri niðurstöðu og viðurkennt að áfrýjandi væri greiðsluskyldur gagnvart stefnda. Áfrýjunarleyfi var veitt á þeim grunni að í málinu reyni á álitaefni varðandi túlkun viðskiptabréfsreglna.
II
Suðurhlíð ehf. gaf út skuldabréf til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 28. desember 2007 að jafnvirði 5.000.000 króna, en lánið var til helminga í svissneskum frönkum og japönskum jenum. Til tryggingar skuldinni var fasteign stefnda að Gagnheiði 59 í Árborg sett að veði með 1. veðrétti. Með skilmálabreytingum 30. mars 2008 og 6. nóvember 2009 var endurgreiðslu lánsins frestað.
Fjármálaeftirlitið tók þá ákvörðun 21. mars 2009 að víkja stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis frá og skipaði skilanefnd yfir sjóðinn. Á grundvelli ákvörðunarinnar stofnaði bráðabirgðastjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hlutafélagið Dróma sem samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins tók við öllum eignum og tryggingaréttindum sparisjóðsins.
Suðurhlíð ehf. gaf út nýtt veðskuldabréf 10. nóvember 2010 til Dróma hf. að fjárhæð 11.843.004 krónur með 1. veðrétti í fyrrgreindri fasteign stefnda. Skuldabréfið kom í stað skuldabréfsins 28. desember 2007 sem taldist uppgreitt að fullu með hinu nýja skuldabréfi. Skilmálum nýja skuldabréfsins var breytt 13. janúar 2012 á þeim grunni að hið fyrra skuldabréf hefði verið ólögmætt gengistryggt lán og var lánið endurreiknað í samræmi við 18. gr. laga nr. 38/2001 og höfuðstóllinn lækkaður úr 11.843.004 krónum í 5.394.595 krónur. Var skuldabréfið áritað um þessa skilmálabreytingu og vísað til hennar sem viðauka vegna erlends láns.
Með yfirlýsingu um skuldaraskipti og endurskoðun vaxtakjara 18. febrúar 2012 tók stefndi að sér greiðslu skuldarinnar samkvæmt skuldabréfinu 10. nóvember 2010 frá og með gjalddaga þess 1. mars 2012. Skuldaraskiptin voru samþykkt af Arion Banka hf. fyrir hönd kröfueigandans Dróma hf. og var áritað um þau á skuldabréfið. Þá sagði í yfirlýsingu Arion banka hf. að hann staðfesti fyrir hönd kröfueiganda „að fyrirvari um betri rétt skuldara framselst með kröfunni til Línulagna ehf.“
Drómi hf. framseldi svo skuldabréfið til Hildu ehf. 31. desember 2013 sem síðan framseldi það áfrýjanda 31. ágúst 2016.
Með bréfi 30. september 2015 til Hildu ehf., þáverandi eiganda bréfsins, óskaði stefndi þess að lánið yrði endurreiknað í samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar um gildi fullnaðarkvittana við greiðslu ólögmætra gengistryggðra lána. Með tölvubréfi 22. desember sama ár hafnaði Hilda ehf. þeirri ósk stefnda.
Eftir að áfrýjandi hafði eignast umdeilt skuldabréf fékk stefndi löggiltan endurskoðanda til að endurreikna lánið og í samræmi við niðurstöðu hans greiddi hann áfrýjanda 1.417.714 krónur 10. janúar 2017 og skoraði á áfrýjanda með tölvubréfi 6. febrúar sama ár að afhenda frumrit skuldabréfsins til aflýsingar af fasteigninni að Gagnheiði 59. Áfrýjandi varð ekki við því og greiddi stefndi eftirstöðvar kröfunnar 21. mars 2017 með fyrirvara um réttmæti greiðsluskyldu.
Með bréfi 6. apríl 2017 krafði stefndi áfrýjanda um það sem hann taldi ofgreitt af kröfunni að fjárhæð 2.888.215 krónur auk vaxta og kostnaðar. Áfrýjandi varð ekki við því og höfðaði stefndi mál þetta 2. maí sama ár.
Í þinghaldi 1. nóvember 2017 tók héraðsdómari að beiðni aðila ákvörðun um að skipta sakarefni málsins með þeim hætti að fyrst yrði leyst úr því hvort áfrýjandi væri greiðsluskyldur gagnvart stefnda þannig að ekki yrði fjallað um fjárhæð endurkröfunnar væri hún fyrir hendi.
III
Íslensk lög hafa ekki að geyma almenna reglu um hvaða bréf teljast viðskiptabréf en af tilskipun 9. febrúar 1798 um áritun afborgana á skuldabréf er ljóst að skuldabréf teljast viðskiptabréf. Þannig eru öll skuldabréf viðskiptabréf nema skýrlega sé kveðið á um annað í bréfinu sjálfu. Hugtakið skuldabréf er ekki skilgreint í lögum, en í réttarframkvæmd hefur verið lagt til grundvallar að með því sé átt við einhliða, óskilyrta og skriflega viðurkenningu á peningaskuld. Af því leiðir að skuldabréf er skjal sem hefur að geyma skriflega yfirlýsingu sem efnislega verður að geta staðið sjálfstætt. Þá felur skuldabréf ávallt í sér loforð um greiðslu peninga og koma verður fram með undirskrift eða á annan sambærilegan hátt frá hverjum hið skuldbindandi loforð stafar.
Við framsal viðskiptabréfa er gerð undantekning frá þeirri meginreglu kröfuréttar við kröfuhafaskipti að framsalshafi öðlist ekki betri rétt á hendur skuldara en framseljandi átti. Þannig getur skuldari viðskiptabréfs glatað mótbáru gegn grandlausum framsalshafa, ef hún kemur ekki fram á bréfinu, en markmið þessarar viðskiptabréfsreglu er að auðvelda viðskipti með viðskiptabréf og gera réttarstöðu framsalshafa tryggari en almennar reglur kröfuréttarins mæla fyrir um. Nægir því framsalshafa að rannsaka viðskiptabréfið sjálft og má almennt leggja til grundvallar að krafa sé þess efnis sem viðskiptabréfið ber með sér. Fela sérreglur um viðskiptabréf það í sér að grandlaus framsalshafi getur öðlast meiri rétt en framseljandinn átti gagnvart skuldara. Með því að reglurnar um viðskiptabréf fela í sér veruleg frávik frá almennum reglum verður að gera þann áskilnað að ótvírætt sé að krafa sé viðskiptabréfskrafa.
Eins og að framan er rakið tók stefndi að sér að greiða kröfu þáverandi eiganda kröfunnar, Dróma hf., með yfirlýsingu um skuldaraskipti 18. febrúar 2012. Samkvæmt því skjali lýsti stefndi því yfir að hann hefði „kynnt sér eftirstöðvar skuldarinnar, öll ákvæði skuldabréfsins/veðskuldabréfsins/lánasamningsins og að hann undirgangist allar skuldbindingar samkvæmt því.“ Þá kom fram í skjalinu að Arion banki hf. fyrir hönd Dróma hf. samþykkti skuldaraskiptin og jafnframt að bankinn staðfesti „fyrir hönd kröfueiganda að fyrirvari um betri rétt skuldara framselst með kröfunni til Línulagna ehf.“
Skuldabréfið var áritað um skuldaraskiptin af Arion banka hf. fyrir hönd Dróma hf. Til að fullnægt væri framangreindum skilyrðum þess að um skuldabréf væri að ræða hefði hinn nýi skuldari þurft skriflega að lýsa því yfir einhliða og skilyrðislaust að hann lofaði að greiða kröfuna og hefði sú skriflega yfirlýsing þurft að koma fram á bréfinu sjálfu til þess að það gæti talist skuldabréf eftir skuldaraskiptin. Var því ekki nóg að stefndi undirritaði sérstaka yfirlýsingu á öðru skjali þess efnis að hann gengist undir öll ákvæði viðkomandi bréfs og skuldbindingar samkvæmt því og skiptir í því sambandi ekki máli þótt bréfið hefði verið áritað um skuldaraskiptin. Þá er þess að geta að kröfuhafinn samþykkti skuldaraskiptin með fyrirvara um að betri réttur skuldara framseldist með kröfunni til stefnda, en þar með fullnægði krafan ekki þeim áskilnaði að vera einhliða svo um skuldabréf væri að ræða. Samkvæmt þessu breyttist krafa þáverandi eiganda bréfsins við skuldaraskiptin úr því að vera krafa samkvæmt viðskiptabréfi í almenna fjárkröfu. Fer því um hana samkvæmt almennum reglum kröfuréttar um kröfuhafaskipti. Af því leiðir að stefndi glataði engum mótbárum við framsal kröfunnar en á því er málatilbúnaður hans reistur.
Við meðferð málsins fyrir Landsrétti var því lýst yfir af hálfu áfrýjanda að óumdeilt væri að krafa vegna oftekinna vaxta, sem stefndi telur sig eiga á hendur áfrýjanda, hafi í upphafi stofnast. Þegar stefndi gekkst undir skuldbindinguna með yfirlýsingunni 18. febrúar 2012 var það með fyrirvara um betri rétt skuldara, en með skilmálabreytingu 13. janúar sama ár hafði krafa samkvæmt skuldabréfinu 10. nóvember 2010 verið lækkuð vegna ólögmætrar gengistryggingar. Af þessu leiðir að stefndi gat gagnvart eiganda bréfsins haft uppi frekari kröfur vegna ofgreiðslu og þeim rétti glataði hann ekki gagnvart áfrýjanda við framsalið til hans samkvæmt því sem hér hefur áður verið rakið. Þá verður heldur ekki talið að stefndi hafi glatað þessum rétti vegna tómlætis, en hann hafði haft uppi andmæli bæði við fyrri eiganda bréfsins með bréfi 30. september 2015 og áfrýjanda með tölvubréfi 6. febrúar 2017. Að því virtu sem nú hefur verið rakið verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur að niðurstöðu til.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Það athugist að eins og mál þetta er vaxið verður ekki séð að sú ákvörðun héraðsdómara að verða við beiðni aðila að skipta sakarefni þess á grundvelli undantekningarákvæðis 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 hafi haft í för með sér hagræði fyrir úrlausn málsins.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, ALM fjármögnun ehf., greiði stefnda, Línulögnum ehf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Landsréttar
Mál þetta dæma landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson og Eiríkur Jónsson og Sigríður Ingvarsdóttir, settur landsréttardómari.
Málsmeðferð og dómkröfur aðila
1 Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 20. desember 2018. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 26. nóvember 2018 í málinu nr. E-1684/2017.
2 Áfrýjandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi „að stefndi beri greiðsluskyldu gagnvart áfrýjanda vegna ofgreiðslna á grundvelli skuldabréfs, dags. 10. nóvember 2010, sem Suðurhlíð ehf. gaf upphaflega út til Dróma hf., en áfrýjandi tók við sem skuldari þann 22. febrúar 2012“. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti.
3 Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Landsrétti.
Niðurstaða
4 Málsatvikum og málsástæðum aðila er lýst í hinum áfrýjaða dómi.
5 Málið höfðaði áfrýjandi til greiðslu á 2.888.215 krónum úr hendi stefnda. Byggist krafan á þeirri forsendu að vextir hafi verið ofgreiddir af veðskuldabréfi sem áfrýjandi tók við sem skuldari í febrúar 2012 og greiddi upp í mars 2017. Telur áfrýjandi að samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar um þýðingu fullnaðarkvittana við greiðslu lána sem bundin voru ólögmætri gengistryggingu hafi verið óheimilt að krefja skuldara um vexti aftur í tímann með þeim hætti sem hér hafi verið gert. Nemur krafa áfrýjanda þeirri fjárhæð sem hann telur hafa verið ofgreidda í vexti. Á móti byggir stefndi, sem eignaðist veðskuldabréfið í ágúst 2016, einkum á því að samkvæmt reglum um viðskiptabréf hafi veðskuldabréfið að geyma þann rétt sem það beri með sér. Vísar stefndi meðal annars til þess að áritun um mótbáru á viðskiptabréf verði að vera það skýr að hana megi skilja. Áfrýjandi hafi enga kröfu átt á hendur stefnda en ef svo hafi verið sé krafan fallin niður vegna tómlætis.
6 Í þinghaldi í héraði 1. nóvember 2017 ákvað dómari að verða við beiðni málsaðila um að skipta sakarefni málsins með þeim hætti að fyrst yrði fluttur sá þáttur málsins sem lyti að viðurkenningu greiðsluskyldu, það er um annað en fjárhæðir málsins. Í hinum áfrýjaða dómi sýknaði héraðsdómur stefnda af kröfu áfrýjanda um viðurkenningu á greiðsluskyldu. Byggði héraðsdómur þá niðurstöðu sína á stöðu veðskuldabréfsins sem viðskiptabréfs. Stefndi hafi ekki getað talist grandsamur um „betri rétt“ þannig að áhrif gæti haft á niðurstöðu málsins og stefndi hefði mátt treysta því að skuldabréfið færði honum þann rétt sem það sjálft hefði borið með sér. Þegar af þessum ástæðum bæri að sýkna stefnda af viðurkenningarkröfunni og því væri ekki þörf á að taka afstöðu til annarra málsástæðna stefnda, svo sem um tómlæti. Þá taldi héraðsdómur að af framangreindri niðurstöðu leiddi sjálfkrafa að ágreiningur um fjárhæð dómkröfu áfrýjanda gæti ekki komið til frekari umfjöllunar. Því bæri, þrátt fyrir áðurgreinda skiptingu sakarefnis, að sýkna stefnda af dómkröfu áfrýjanda í heild.
7 Samkvæmt framangreindu virðist sem fyrri áfangi málsins, eftir skiptingu sakarefnis, hafi einkum lotið að því hvort reglur um viðskiptabréf og eftir atvikum tómlæti gætu komið í veg fyrir að áfrýjandi hefði uppi þá kröfu sem hann gerir á hendur stefnda. Ekki var fjallað um það í hinum áfrýjaða dómi hvort umrædd krafa hefði stofnast í upphafi. Með hliðsjón af dómum Hæstaréttar 4. júní 2019 í málum nr. 5/2019 og 6/2019 var lögmaður stefnda inntur eftir því, við aðalmeðferð í Landsrétti, hvort óumdeilt væri að krafa vegna oftekinna vaxta, sem áfrýjandi telur sig geta gert á hendur stefnda, hafi stofnast í upphafi. Kvað lögmaður stefnda svo vera. Í ljósi þeirrar yfirlýsingar er ekki ástæða til að ómerkja hinn áfrýjaða dóm á þeim grunni að niðurstaða málsins feli í sér getsakir um kröfuréttindi sem ekki hefur verið staðreynt hvort orðið hafi til.
8 Kemur þá til athugunar hvort áfrýjandi geti haft framangreinda kröfu uppi á hendur stefnda. Sem fyrr segir byggir stefndi á því að reglur um viðskiptabréf leiði til þess að áfrýjandi geti ekki vegna mótbárumissis haft kröfuna uppi og á það var fallist í hinum áfrýjaða dómi. Áfrýjandi byggir hins vegar meðal annars á því að reglur viðskiptabréfsréttar um mótbárutap skuldara eigi ekki við í málinu.
9 Samkvæmt 3. gr. tilskipunar 9. febrúar 1798 um áritun afborgana á skuldabréf gilda viðskiptabréfsreglur um mótbárutap skuldara ekki um vaxtagreiðslur af viðskiptabréfi. Krafa sú sem áfrýjandi hefur uppi er um endurgreiðslu vegna oftekinna vaxta af skuldabréfi. Verður samkvæmt því að fallast á með áfrýjanda að fyrrnefndar viðskiptabréfsreglur eigi ekki við í málinu. Breytir engu í því sambandi þótt áfrýjandi hafi ekki vísað til framangreinds ákvæðis tilskipunarinnar í málatilbúnaði sínum, enda er um að ræða heimfærslu dómsins til lagareglna á þeirri niðurstöðu að viðskiptabréfsreglur um mótbárutap eigi ekki við, en þeirri málsástæðu hélt áfrýjandi skýrlega fram við aðalmeðferð og var henni eigi mótmælt sem of seint fram kominni.
10 Um aðilaskipti að hinni umdeildu kröfu fer því samkvæmt almennum reglum kröfuréttar en í þeim felst meðal annars sú meginregla að skyldur skuldara aukast ekki við framsal og skuldari heldur mótbárum sínum við kröfuhafaskipti. Samkvæmt því hindra þau kröfuhafaskipti sem fyrir liggja í málinu ekki þá kröfu sem áfrýjandi hefur uppi. Þá eru fyrirliggjandi skjöl um þá skuldskeytingu sem varð skýr um að henni hafi verið ætlað að hafa þau réttaráhrif að krafa af umræddum toga tilheyrði hinum nýja skuldara bréfsins, áfrýjanda.
11 Stefndi byggir einnig á því að krafa áfrýjanda sé niður fallin sökum tómlætis. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og vitnaskýrslum hafði áfrýjandi gert athugasemdir við fyrri eiganda skuldabréfsins og farið fram á endurútreikning á grundvelli þeirra sjónarmiða sem hann hefur uppi í máli þessu. Þá viðurkennir stefndi að hann hafi kynnt sér skilmálabreytinguna sem gerð var 13. janúar 2012 og skuldskeytinguna 22. febrúar 2012 en þessi skjöl báru með sér að um gengistryggt lán hefði verið að ræða og að hugsanlegur betri réttur væri til staðar sem tilheyrði áfrýjanda. Verður í ljósi þessa að leggja til grundvallar að stefndi hafi verið grandsamur um tilvist kröfunnar er hann eignaðist skuldabréfið í lok ágúst 2016 en mál þetta var höfðað á hendur honum vorið 2017. Verður því ekki talið að krafa áfrýjanda sé niður fallin sökum tómlætis.
12 Samkvæmt öllu framansögðu verður viðurkenningarkrafa áfrýjanda tekin til greina svo sem hún er fram sett. Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Viðurkennt er að stefndi, ALM Fjármögnun ehf., beri greiðsluskyldu gagnvart áfrýjanda, Línulögnum ehf., vegna ofgreiðslna á grundvelli skuldabréfs 10. nóvember 2010, sem Suðurhlíð ehf. gaf upphaflega út til Dróma hf. en áfrýjandi tók við sem skuldari 22. febrúar 2012.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur mánudaginn 26. nóvember 2018
Mál þetta, sem dómtekið var 29. október 2018, höfðuðu Línulagnir ehf., Fossvegi 6, Selfossi, hinn 2. maí 2017 á hendur ALM Fjármögnun ehf., Sundagörðum 2, Reykjavík „til endurgreiðslu ofgreiddrar kröfu“.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi greiði stefnanda 2.888.215 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá málshöfðunardegi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu af öllum dómkröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar.
Að sameiginlegri beiðni aðila var ákveðið að skipta sakarefni málsins, sbr. 31. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, með þeim hætti að fyrst yrði fluttur sá þáttur málsins sem lýtur að viðurkenningu greiðsluskyldu, þ.e. um annað en fjárhæðir.
Undirritaður héraðsdómari tók við málinu 2. janúar 2018 og hafði engin afskipti haft af meðferð þess fram að því. Málið var fyrst dómtekið að lokinni aðalmeðferð 21. mars 2018, en sökum embættisanna dómarans tókst ekki að leggja dóm á málið innan lögbundins frests. Var munnlegur málflutningur því endurtekinn 29. október 2018, í samræmi við 2. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en að því búnu var málið dómtekið að nýju.
I
Málsatvik
Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um endurgreiðslu fjár sem hann kveðst hafa ofgreitt vegna skuldar samkvæmt skuldabréfi. Byggir hann á því að hann eigi rétt til endurgreiðslu á grundvelli dómaframkvæmdar Hæstaréttar Íslands um fullnaðarkvittanir í gengislánamálum.
Stefnandi byggir á því að skuldin hafi upphaflega verið samkvæmt skuldabréfi útgefnu 2007, með ólögmætri gengistryggingu, og að ekki hafi verið um nýtt lán að ræða heldur í reynd skilmálabreytingu þegar gefið var út nýtt skuldabréf í íslenskum krónum vegna lánsins á árinu 2010. Stefndi byggir aftur á móti á því að uppgreidd skuld stefnanda við hann hafi verið samkvæmt skuldabréfi útgefnu 2010 og að eldri lögskipti stefnanda eða upphaflegs skuldara og fyrri kröfuhafa hafi enga þýðingu í málinu.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum gaf Suðurhlíð ehf. út skuldabréf til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 28. desember 2007 „að jafnvirði“ 5.000.000 króna, en lánið var til helminga í svissneskum frönkum (CHF 50%) og japönskum jenum (JPY 50%). Skyldi lánið endurgreiðast á 18 mánuðum með sex afborgunum. Til tryggingar skuldinni var sett að veði með 1. veðrétti tiltekin fasteign stefnanda þessa máls [...]. Veðskuldabréfinu var þinglýst samdægurs á hina veðsettu eign. Með skilmálabreytingu 30. mars 2008 og aftur 6. nóvember 2009 var endurgreiðslu lánsins frestað.
Eins og rakið er í stefnu vék Fjármálaeftirlitið stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis frá 21. mars 2009 og skipaði skilanefnd yfir sparisjóðinn. Um leið tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um að stofna sérstakt hlutafélag, Dróma hf., til að taka við öllum eignum og tryggingaréttindum sparisjóðsins.
Hinn 10. nóvember 2010 gaf Suðurhlíð ehf. út skuldabréf til Dróma hf., að fjárhæð 11.843.004 krónur, með veði í fyrrgreindri fasteign stefnanda með samþykki hans sem veðsala. Skuldin skyldi endurgreiðast á 25 árum. Skuldabréfið var innfært í þinglýsingabækur 19. nóvember 2010, ásamt skjali sem ber yfirskriftina „Lán á milli sömu aðila (sama kennitala)“. Í því skjali kemur fram að hið nýja skuldabréf að fjárhæð 11.843.004 krónur komi í stað fyrrgreinds skuldabréfs sem útgefið var 28. desember 2017, en uppgreiðslufjárhæð þess sé að sömu fjárhæð. Samhliða þinglýsingu skuldabréfsins var þinglýst veðleyfi sem Arion banki hf. gaf út samkvæmt umboði og heimild í samningi milli bankans og skilanefndar SPRON.
Skilmálum þessa skuldabréfs var breytt 13. janúar 2012, „í samræmi við endurreikning á grundvelli ákvæðis 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu“. Afrit skuldabréfsins, sem liggur fyrir í málinu, var áritað um þessa skilmálabreytingu og er í árituninni vísað til viðauka „v/ endurr. erl. láns“.
Skuldabréfið er einnig áritað um að nýr skuldari, þ.e. stefnandi, hafi tekið við láninu 22. febrúar 2012. Enn fremur er skuldabréfið áritað um framsal þess frá Dróma hf. til Hildu ehf. 31. desember 2013 og svo aftur frá Hildu ehf. til stefnda 31. ágúst 2016, en stefndi mun hafa eignast skuldabréfið við kaup í söluferli lánasafns Hildu ehf. sem opið var fjármálafyrirtækjum.
Stefnandi sendi þáverandi eiganda skuldabréfsins, Hildu ehf., beiðni 30. september 2015 um endurútreikning lánsins í samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar Íslands um gildi fullnaðarkvittana við greiðslu ólögmætra gengistryggðra lána. Vísaði stefnandi til þess að um gengistryggt lán hefði verið að ræða sem breytt hefði verið í óverðtryggt íslenskt lán 10. nóvember 2010. Þeirri beiðni var hafnað af hálfu Hildu ehf. með tölvupósti 22. desember s.á.
Eftir að stefndi hafði eignast skuldabréfið á árinu 2016 fékk stefnandi löggiltan endurskoðanda til að endurreikna lánið. Í samræmi við niðurstöðu endurskoðandans greiddi stefnandi stefnda 1.417.714 krónur 10. janúar 2017 og skoraði í framhaldinu á stefnda að afhenda sér frumrit veðskuldabréfsins til aflýsingar af hinni veðsettu fasteign. Stefndi varð ekki við því og greiddi stefndi þá, 20. mars 2017, eftirstöðvar lánsins, sem nam stefnufjárhæðinni, með fyrirvara og áskildi sér rétt til endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar ásamt vöxtum og kostnaði.
II
Málsástæður stefnanda
Stefnandi kveðst byggja aðild sína til sóknar í málinu á framsali, dags. 18. febrúar 2012, frá upphaflegum skuldara, Suðurhlíð ehf., sem undirritað hafi verið í tilefni af skuldaraskiptum þann dag. Um aðild stefnda til varnar sé byggt á yfirlýsingu stefnda og greiðslukvittunum sem frá honum stafa sem kröfueiganda lánsins. Stefndi leiði kröfurétt sinn frá lánveitanda í gegnum Dróma hf. og Hildu ehf. og beri því skyldur lánveitanda og framseljenda gagnvart stefnanda sem skuldara og veðsala. Stefnda hafi verið fullkunnugt um að keypt krafa á hendur stefnanda væri upphaflega ólögmætt gengistryggt lán sem hefði verið endurreiknað á grundvelli ákvæðis 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Lán það sem Suðurhlíð ehf. hafi tekið hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis þann 28. desember 2007 hafi falið í sér ólögmæta gengistryggingu. Samkvæmt 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, eins og greininni hafi verið breytt með 1. gr. laga nr. 151/2010, skuli upphaflegur höfuðstóll skuldar ólögmæts gengisláns vaxtareiknaður þannig að miðað sé við að lán beri vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laganna. Fyrirmæli ákvæðisins eigi rætur að rekja til dóms Hæstaréttar frá 16. september 2010 í málinu nr. 471/2010.
Krafa stefnda á hendur stefnanda hafi verið endurreiknuð þann 13. janúar 2012 með vísun í 18. gr. laga nr. 38/2001. Endurútreikningur sá miðist við endurreikning 5.000.000 króna frá stofndegi, 28. desember 2007, með vöxtum skv. 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 í samræmi við fyrirmæli 3. og 5. mgr. 18. gr. laganna. Þannig hafi stefndi talið sig eiga kröfu aftur í tímann um vexti skv. 4. gr. laga nr. 38/2001 vegna gjalddaga sem stefnandi eða sá sem hann leiði rétt sinn frá hafði þegar greitt umsamda vexti á og fengið fullnaðarkvittun fyrir.
Stefnandi telji sér óskylt að bera þann vaxtamun sem felist í mismun á greiddum vöxtum samkvæmt samningi aðila annars vegar og hins vegar þeim vöxtum sem endurreiknaðir hafi verið vegna sama tímabils skv. 4. mgr. laga nr. 38/2001. Stefnandi byggi kröfu sína á því að hver og ein vaxtagreiðsla skuldara sé fullnaðargreiðsla sem verði ekki endurskoðuð síðar með því að höfuðstóllinn verði uppreiknaður með aðferð sem aðilar sömdu ekki um.
Stefnandi byggi kröfur sínar á því að kröfueigandi geti ekki krafið stefnanda um viðbótargreiðslur vegna mismunar á umsömdum vöxtum, sem þegar höfðu verið greiddir af láni í íslenskum krónum með ólögmætu ákvæði um gengisviðmiðun, og þeim vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001.
Með opinberum yfirlýsingum af hálfu Dróma hf. hafi stefnandi, sem og fyrri skuldari, verið upplýstir og sannfærðir um að engar aðgerðir, s.s. skuldbreytingar eða undirritanir og samþykki endurútreikninga, firrtu skuldara og veðsala betri rétti sem þessir aðilar ættu og kynni að koma í ljós síðar. Síðari dómafordæmi hafi leitt í ljós betri rétt skuldara en fyrri endurútreikningur gaf til kynna. Þá hafi ekki annað falist í undirritun á nýtt skuldabréf til Dróma hf. þann 10. nóvember 2010 en skilmálabreyting gengistryggðs láns, enda hafi ekkert lán verið greitt upp af því tilefni og ekkert nýtt lán verið veitt.
Stefnandi byggi á því að ekki eigi við í málinu sú meginregla kröfuréttar að kröfuhafi sem fengið hefur minna greitt en hann átti rétt til eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt er. Þess í stað séu uppfyllt skilyrði undantekningar sem valdi því að kröfuhafi glati kröfu sinni.
Stefnandi byggi í fyrsta lagi á því að vextir hafi ávallt verið greiddir í góðri trú. Skuldari og stefnandi sem veðsali hafi hvorki vitað né mátt vita að vaxtagreiðslur væru ófullnægjandi er þær voru inntar af hendi. Í öðru lagi byggi stefnandi á því að milli aðila hafi verið sá aðstöðumunur að það réttlæti að hafna beri viðbótarkröfu stefnda og annarra kröfueigenda, en lánveitandi hafi verið fjármálafyrirtæki sem veitti neytendum sérfræðiþjónustu á lánamarkaði þar sem ýmis kjör voru í boði, þar með talin kjör sem reyndust ólögmæt. Í þriðja lagi byggi stefnandi á því að það standi stefnda og lánveitanda nær að bera áhættu af þeim mistökum sem leiddu til meintra vangreiðslna, en stefnandi og skuldari hafi jafnan greitt í samræmi við greiðslutilkynningar lánveitanda og stefnda. Sem fjármálafyrirtæki hafi það staðið stefnda nær að gæta að því að lánið væri í samræmi við heimildir laga nr. 38/2001. Fyrir lánveitanda, sem stefndi leiði rétt sinn frá, hefði ekki átt að vera flókið að gæta að lögmæti samningsákvæða, en það sama eigi ekki við um stefnanda.
Að öllu þessu virtu og með vísan til þeirra viðmiða sem ítrekað hafi verið lögð til grundvallar í fordæmum Hæstaréttar byggi stefnandi á því að það standi stefnda nær en stefnanda að bera þann vaxtamun sem hlotist hafi af ólögmætri gengistryggingu. Stefnda sé því óheimilt að krefja stefnanda um viðbótargreiðslur vegna greiddra og gjaldfallinna vaxta.
Stefnandi geri kröfu um endurgreiðslu í samræmi við endurútreikning löggilts endurskoðanda á hinu umdeilda láni. Endurútreikningur miðist við að á þeim gjalddögum þar sem fullnaðarkvittun vaxta liggi fyrir séu vextir ekki endurreiknaðir afturvirkt, en að öðrum kosti séu þeir endurreiknaðir miðað við óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands. Þar sem allir gjalddagar hafi verið greiddir fari enginn eiginlegur vaxtaútreikningur fram afturvirkt og eftirstöðvar lánsins nemi því upprunalegum höfuðstól að frádregnum greiddum afborgunum á greiðslutímanum.
Þar sem krafa stefnda hafi verið endurreiknuð í samræmi við lög nr. 151/2010 þá miðist framlagður endurútreikningur endurskoðandans við sama dag og fyrri endurútreikningur 3. janúar 2012. Greiðsluröð skilmálabreytts láns í kjölfar endurútreiknings sé þá reiknuð upp á nýtt miðað við nýjar forsendur. Mismunur þess sem greitt hafi verið í vexti eftir að endurútreikningur fór fram og þess sem hefði átt að greiða miðað við nýjan endurútreikning sé færður til lækkunar á eftirstöðvum lánsins. Niðurstöður endurútreiknings, í samræmi við forsendur sem lýst sé að framan, séu að krafa stefnda á hendur stefnanda hafi numið 1.417.714 krónum þann 10. janúar 2017. Þann dag hafi stefnandi greitt þá fjárhæð til stefnda.
Krafa stefnanda á hendur stefnda nemi þeim eftirstöðvum sem stefndi hafi talið vera af kröfu sinni eftir að fullnaðargreiðsla hafði verið innt af hendi þann 10. janúar 2017. Þann 20. mars 2017 hafi stefnandi greitt stefnda 2.888.215 krónur, sem sé sú fjárhæð sem stefndi hafi talið vera eftirstöðvar af kröfu sinni. Stefndi hafi verið endurkrafinn um fjárhæðina með bréfi, dags. 6. apríl 2017, og sé krafist dráttarvaxta frá þeim degi er mál þetta sé höfðað.
Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna kröfu- og samningaréttarins, m.a. um efndir fjárskuldbindinga. Krafa um dráttarvexti styðjist við III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og upphafsdagur við 4. mgr. 5. gr. laganna. Krafan um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing sé vísað til 33. gr. laga nr. 91/1991.
III
Málsástæður stefnda
Í greinargerð stefnda eru málsatvik rakin samhliða málsástæðum, en stefndi telur málsatvikalýsingu stefnanda einhliða.
Stefndi bendir á að þann 31. ágúst 2016 hafi stefndi fengið framselt umrætt veðskuldabréf, útgefið af Suðurhlíð ehf. 10. nóvember 2010. Veðskuldabréfið hafi upphaflega verið að fjárhæð 11.843.004 krónur, en bréfið hafi verið áritað um skilmálabreytingu 13. janúar 2012 þar sem eftirstöðvar voru ákvarðaðar 5.394.595 krónur. Bréfið hafi einnig verið áritað um að skuldskeyting hefði átt sér stað þann 22. febrúar 2012 og að nýr skuldari þá hefði verið Línulagnir ehf., stefnandi máls þessa. Efni veðskuldabréfsins sé skýrt og ljóst og hafi krafa stefnda á hendur stefnanda byggt á því.
Umrætt veðskuldabréf sé viðskiptabréf sem geti gengið kaupum og sölum í viðskiptum, þ.e. kröfuhafaskipti geti átt sér stað án samþykkis stefnanda, enda sé ekki um gagnkvæman samning að ræða. Þetta eðli skuldabréfsins hafi verið upphaflegum skuldara ljóst við útgáfu bréfsins og síðar stefnanda er skuldaraskipti áttu sér stað.
Því sé mótmælt að kröfu stefnanda megi rekja til eldri lögskipta. Einfaldlega sé um að ræða kröfu samkvæmt veðskuldabréfi sem hafi verið gefið út í íslenskum krónum. Ekkert liggi fyrir um að útgáfa veðskuldabréfsins hafi verið með fyrirvara um réttmætar eftirstöðvar lánsins og lögmæti skilmála eins og greinir í stefnu. Veðskuldabréfið beri þetta ekki með sér með neinum hætti.
Rangt sé það sem stefnandi haldi fram í stefnu að stefndi hafi leitt kröfurétt sinn frá lánveitanda í gegnum Dróma hf. og Hildu ehf. og beri því skyldur lánveitanda og framseljanda gagnvart stefnanda. Hið rétta sé að réttindi og skyldur stefnda hafi takmarkast við veðskuldabréf það sem nú sé uppgreitt.
Skoðun á bréfinu sjálfu, skilmálabreytingu, skuldskeytingu og veðbókarvottorði hafi ekki gefið annað til kynna en að um væri að ræða hefðbundið veðskuldabréf í íslenskum krónum. Skuldabréfið virðist hafa verið gefið út til uppgjörs á eldri skuld á milli Dróma hf. og Suðurhlíðar ehf. Hafi því myndast ný sjálfstæð krafa við útgáfu bréfsins.
Vegna þess að um viðskiptabréf var að ræða hafi ekki hvílt skylda á stefnda til að skoða öll skjöl er þinglýst voru á hinni veðsettu eign, enda hafi þau ekkert með fjárhæð skuldarinnar að gera eða kröfuréttindin sem slík. Skuldabréfið beri með sér að það hafi verið innfært í þinglýsingabækur án athugasemda og hafi því engin ástæða verið til að skoða þinglýstar heimildir frekar. Skoðun á veðbókarvottorði hafi leitt í ljós að veðskuldabréfið var tryggt með þeim veðrétti sem það bar með sér.
Lögskipti milli stefnanda eða Suðurhlíðar ehf. við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis, Dróma hf. eða Hildu ehf. séu stefnda algjörlega óviðkomandi. Stefndi hafi fengið veðskuldabréfið framselt til sín í ágúst 2016 og byggt rétt sinn á efni þess. Allar opinberar yfirlýsingar upphaflegs kröfuhafa, Dróma hf., sem stefnandi vísi til séu stefnda óviðkomandi og breyti í engu skuldbindingargildi umrædds veðskuldabréfs.
Til stuðnings kröfu sinni vísi stefnandi m.a. til skilmálabreytingar, dags. 13. janúar 2012, sem fól í sér lækkun höfuðstóls. Rétt sé að taka fram að þá hafi skuldabréfið verið í eigu upphaflegs kröfuhafa og hafi honum verið frjálst að semja um lækkun skuldarinnar, þ.e. að krafa Suðurhlíðar ehf. á hendur honum vegna endurútreiknings kæmi sem innborgun á lánið. Þar með hafi verið samkomulag aðila um að eftirstöðvar yrðu lækkaðar í stað þess að greiða kröfuna. Samkomulag þetta sé stefnda óviðkomandi.
Lögskipti stefnanda gagnvart fyrri aðilum séu stefnda óviðkomandi með öllu. Stefndi hafi fengið framselt viðskiptabréf, veðskuldabréf í íslenskum krónum. Bréfið sjálft hafi verið hefðbundið veðskuldabréf og ekki borið með sér einhvern „betri rétt“ sem stefnandi byggi mál sitt á. Stefndi bendi á mikilvægi trausts í viðskiptum og að aðilar í viðskiptalífinu verði að geta treyst því að viðskiptabréfum fylgi sá réttur sem efni þeirra beri með sér.
Hafi einhver „betri réttur“ verið til staðar hafi stefndi verið grandlaus um hann. Það hvíli á stefnanda að sýna fram á annað, en stefndi ítrekar að ekki hafi verið um grandsemi af hans hálfu að ræða.
Stefndi hafi engar upplýsingar um greiðslur af lánum Suðurhlíðar ehf. hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis eða Dróma hf. og geti því ekki sannreynt grundvöll dómkrafna stefnanda. Greiðslur þessar séu stefnda óviðkomandi og eðli máls samkvæmt hafi stefndi aðeins upplýsingar um greiðslusögu þess skuldabréfs sem hann fékk framselt. Hafi stefndi því engan grundvöll til að yfirfara útreikninga stefnanda og sé þeim því mótmælt. Ekki liggi fyrir önnur gögn en útreikningur endurskoðanda ásamt Excel-útreikningum.
Af stefnu virðist ljóst að Suðurhlíð ehf. hafi gert upp og greitt skuld sína við Dróma hf. með útgáfu nýs skuldabréfs (viðskiptabréfs) sem gefið hafi verið út í íslenskum krónum og hafi vaxtakjör endurspeglað það.
Eins og upplýst hafi verið í framlögðum tölvupóstsamskiptum stefnanda við Hildu ehf. hafi stefnandi aldrei verið með gengistryggt lán hjá Dróma hf. eða Hildu ehf. Hafi stefnandi vísað til eldra láns sem hafi í upphafi verið bundið ólögmætri gengistryggingu en stefnandi hafi aldrei verið skuldari þess láns.
Stefnandi hafi tekið yfir með skuldskeytingu veðskuldabréf sem frá upphafi hafi verið í íslenskum krónum. Um veðskuldabréf sé að ræða sem hafi að geyma þau réttindi sem það beri með sér. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á neinn betri rétt sem hann telur sig eiga eða hvernig hann sé fundinn.
Stefnandi vísi til þess að hann eigi einhvern óskilgreindan „betri rétt“ sem leiða eigi til þess að dómkröfur hans verði teknar til greina. Í þessu sambandi sé rétt að horfa til þess hvernig staðan væri ef umrædd skuldskeyting hefði ekki átt sér stað og Suðurhlíð ehf. væri enn útgefandi veðskuldabréfsins. Ljóst sé að í því tilviki gæti útgefandi ekki borið fyrir sig önnur lögskipti við aðra aðila sem ekki tengist viðskiptabréfinu sem sé grundvöllur máls þessa.
Stefnandi bendi á að í skuldskeytingu sé áritun um að „betri réttur“ „framselst með kröfunni“. Ekki sé hægt að túlka þessa áritun með öðrum hætti en þeim að um sjálfstætt kröfuframsal sé að ræða sem ekki sé hluti af kröfu samkvæmt umræddu veðskuldabréfi. Þessi sjálfstæða krafa sé ekki á hendur stefnda og geti stefnandi því ekki beint kröfu á grundvelli hennar á hendur stefnda.
Stefndi telji því einnig að sýkna eigi hann á grundvelli aðildarskorts. Samkvæmt almennum reglum geti skuldari komið mótbárunni á framfæri við upphaflegan kröfuhafa þótt hann geti það ekki samkvæmt almennum viðskiptabréfareglum gagnvart kröfuhafa samkvæmt viðskiptabréfinu.
Stefndi telji að jafnvel þótt svo ólíklega vildi til að talið yrði að stefnandi hefði átt kröfu á hendur stefnda þá sé hún í öllu falli fallin niður vegna augljóss tómlætis. Hafi stefnandi talið sig eiga einhvern betri rétt á hendur kröfuhafa samkvæmt umræddu veðskuldabréfi þá hafi honum borið að fylgja rétti sínum eftir. Skuldaraskipti þau sem stefnandi byggi rétt sinn á hafi átt sér stað í febrúar 2012 en þá þegar hafi verið uppi ágreiningur um endurútreikning lána með ólögmætri gengistryggingu. Það hafi ekki verið fyrr en í september 2015 að stefnandi sendi þáverandi kröfuhafa beiðni um endurútreikning, sem var hafnað, og ekki fyrr en á árinu 2017 sem stefnandi hafi aftur haft uppi kröfur um endurútreikning. Engar skýringar séu á þeim verulegu töfum sem hafi orðið á því að stefnandi setti fram kröfur sínar. Við framsal umrædds veðskuldabréfs hafi stefndi því mátt gera ráð fyrir að allar kröfur um mögulegan endurútreikning, væru þær til staðar, væru til lykta leiddar.
Stefndi bendi einnig á að engar innheimtuaðgerðir hafi beinst að honum fyrr en með birtingu stefnunnar, en innheimtubréf það sem lagt sé fram í málinu sé ekki stílað á stefnda.
Almennt gildi sú regla að áritun um mótbáru á viðskiptabréf verði að vera það skýr að hana megi skilja.
Stefndi hafi keypt veðskuldabréf og fengið það framselt til sín. Hafi hann mátt ganga út frá því að fullnægjandi væri fyrir hann að kanna viðskiptabréfið sjálft, skilmálabreytingu og skuldskeytingu til að staðreyna fjárhæðir, kjör og aðila. Hafi stefndi því mátt leggja til grundvallar að viðskiptabréfskrafan væri þess efnis sem viðskiptabréfið bæri með sér. Á þessu hafi stefndi byggt og því hafnað kröfum stefnanda sem virðist vera ranglega að honum beint.
IV
Niðurstaða
Við endurflutning málsins vakti lögmaður stefnda athygli á því að hann teldi dómkröfu stefnanda hugsanlega haldna annmörkum sem varðað gætu frávísun án kröfu vegna skorts á gögnum um fjárhæð kröfunnar. Í ljósi sakarefnisskiptingar eru engin efni til að vísa málinu frá dómi án kröfu af þeim ástæðum.
Eins og rakið hefur verið á dómkrafa stefnanda rót sína að rekja til uppgreiðslu hans á skuld samkvæmt veðskuldabréfi sem upphaflega var gefið út af Suðurhlíð ehf. til Dróma hf., 10. nóvember 2010, að fjárhæð 11.843.004 krónur. Aðila greinir í meginatriðum á um hvort lögskipti sem tengjast eldra veðskuldabréfi, sem rakin eru í kafla um málsatvik hér að framan, hafi þýðingu fyrir réttarsamband þeirra.
Þótt gögn málsins bendi til þess að ásamt framangreindu veðskuldabréfi frá 10. nóvember 2010 hafi verið þinglýst sérstöku skjali þar sem fram kemur að um sé að ræða „lán á milli sömu aðila“ sem komi „í stað“ veðskuldabréfsins sem Suðurhlíð ehf. gaf út 28. desember 2007, þá haggar það ekki þeirri staðreynd að þarna var gefið út nýtt skuldabréf, sem skuldara mátti vera ljóst að gæti gengið kaupum og sölum sem viðskiptabréf. Verður að hafna þeirri málsástæðu stefnanda að í reynd hafi einungis verið um „skilmálabreytingu“ gengistryggðs láns að ræða.
Veðskuldabréfið frá 10. nóvember 2010 fól í sér einhliða yfirlýsingu skuldara um að hann skuldaði kröfuhafa, eða þeim sem síðar kynni að eignast skuldabréfið á löglegan hátt, tilgreinda fjárhæð og að hann skuldbyndi sig til að endurgreiða hana með þeim fjölda afborgana og á þeim gjalddaga eða gjalddögum sem tilgreint væri í skuldabréfinu. Er bréfið ekki skilyrt með neinum hætti sem valdið getur því að það uppfylli ekki skilyrði til þess að teljast skuldabréf og þar með viðskiptabréf. Um slík bréf gilda óskráðar reglur kröfuréttarins um viðskiptabréf, þar á meðal sú meginregla að framsalshafi fær við framsal þann rétt sem bréfið sjálft bendir til að framseljandi þess eigi. Í því felst að framsalshafi þarf aðeins að rannsaka bréfið sjálft til að komast að því hvaða réttindi hann fær við framsalið. Að sama skapi kann skuldari að glata rétti til að bera fyrir sig gagnvart framsalshafa mótbárur sem hann hefði getað borið fyrir sig gagnvart framseljanda bréfsins.
Skuldabréfið hefur verið áritað um skuldaraskipti, tvenn kröfuhafaskipti og um skilmálabreytingu „v/ endurr. erl. láns“. Þótt síðastnefnd áritun hljóti að hafa gefið stefnda vísbendingu um að útgáfa skuldabréfsins ætti rót að rekja til eldra láns sem bundið var ólögmætri gengistryggingu, var ekkert í áritun þessari sem gaf til kynna að skuldabréfið sjálft hefði verið skilyrt með nokkrum hætti þannig að eðli þess sem viðskiptabréfs hefði breyst. Hið sama á við um áritun á bréfið um skuldaraskiptin. Þótt þinglýst gögn um skuldaraskiptin beri með sér staðfestingu Dróma hf. á því að „fyrirvari um betri rétt skuldara“ hafi verið framseldur til stefnanda við skuldaraskiptin, þá var skuldabréfið sjálft ekki áritað um neinn slíkan fyrirvara. Þá er ekkert fram komið sem bendir til annars en að viðskiptabréfareglur eigi við um þau kröfuhafaskipti er stefndi eignaðist veðskuldabréfið.
Samkvæmt framanrituðu uppfyllti veðskuldabréfið frá 10. nóvember 2010 þannig öll skilyrði til þess að teljast skuldabréf, og þar með viðskiptabréf, jafnt áður en sem eftir að það var áritað um skilmálabreytingu og aðilaskipti. Jafnvel þótt stefndi hefði kynnt sér efni þinglýstra skjala gæti hann ekki talist grandsamur um neinn „betri rétt“ stefnanda þannig að áhrif gæti haft á niðurstöðu þessa máls, enda mátti hann treysta því að skuldabréfið færði honum þann rétt sem það sjálft bar með sér. Hugsanlegri kröfu sem stefnandi byggir á að hann eigi vegna dómaframkvæmdar Hæstaréttar Íslands um fullnaðarkvittanir í gengislánamálum og framsals „betri réttar“ við skuldaraskiptin er þannig ekki réttilega beint að stefnda í máli þessu. Er því um aðildarskort að ræða sem leiðir til þess að sýkna ber stefnda af kröfu stefnanda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Þegar af framangreindum ástæðum ber að sýkna stefnda af þeirri viðurkenningarkröfu stefnanda sem til umfjöllunar er í þessum hluta málsins. Gerist þá ekki þörf á því að taka afstöðu til annarra málsástæðna sem stefndi teflir fram til stuðnings sýknukröfu sinni, s.s. tómlætis.
Af framangreindri niðurstöðu leiðir sjálfkrafa að ágreiningur um fjárhæð dómkröfu stefnanda getur ekki komið til frekari umfjöllunar. Ber því, þrátt fyrir sakarefnisskiptingu, að sýkna stefnda af dómkröfu stefnanda í heild, eins og hún er fram sett í stefnu.
Samkvæmt úrslitum málsins, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn með þeirri fjárhæð sem í dómsorði greinir og hefur þá verið tekið tillit til skyldu stefnda til greiðslu virðisaukaskatts af málskostnaði
Hildur Briem héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndi, ALM Fjármögnun ehf., er sýkn af öllum dómkröfum stefnanda, Línulagna ehf., í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda 850.000 krónur í málskostnað.