Print

Mál nr. 88/2012

Lykilorð
  • Frávísun frá héraðsdómi
  • Vanreifun
  • Aðfinnslur

                                     

Fimmtudaginn 20. september 2012.

Nr. 88/2012.

Piotr Grzegorz Krystoszyk

(Halldór Þ. Birgisson hrl.)

gegn

Verði tryggingum hf.

(Björn L. Bergsson hrl.)

Frávísun frá héraðsdómi. Vanreifun. Aðfinnslur.

P krafði V hf. um skaðabætur vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í starfi sínu hjá H hf. er hann var að hluta niður ketil úr járni með logskurði. H hf. var með ábyrgðartryggingu hjá V hf. Þegar ketillinn losnaði í sundur féll annar helmingur hans á vinstra læri P með þeim afleiðingum að hann hlaut slæmt lærbrot. Atvik þóttu óljós er tjónsatburðurinn varð og skorti mjög á lýsingu í stefnu um hvernig staðið var að verkinu. Taldi Hæstiréttur málatilbúnað áfrýjanda svo óglöggan og óljósan, án þess að úr því hefði verði bætt undir rekstri málsins í héraði, að óhjákvæmilegt væri að vísa málinu frá héraðsdómi án kröfu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. febrúar 2012. Hann krefst þess aðallega að stefndi greiði sér 10.042.731 krónu með 4,5% vöxtum af 1.308.900 krónum frá 19. febrúar 2008 til 19. ágúst sama ár, af 11.517.643 krónum frá þeim degi til 15. febrúar 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 17. mars sama ár, en af 10.726.245 krónum frá þeim degi til 19. október 2011, en frá þeim degi af 10.042.731 krónu til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að stefndi greiði sér 6.153.988 krónur með 4,5% vöxtum af 1.308.900 krónum frá 19. febrúar 2008 til 19. ágúst sama ár, af 7.628.900 krónum frá þeim degi til 15. febrúar 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til 17. mars sama ár, en af 6.837.502 krónum frá þeim degi til 19. október 2011, en frá þeim degi af 6.153.988 krónum til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málavextir eru þeir að áfrýjandi, sem er pólskur, kom hingað til lands árið 2007 og réði sig til starfa hjá Hringrás hf. Eftir að hafa starfað um skeið á Reyðarfirði kom hann til Reykjavíkur og hóf störf á athafnasvæði fyrirtækisins að Klettagörðum 9. Fyrsti starfsdagur áfrýjanda þar var 19. febrúar 2008, en þá var honum falið ásamt samstarfsmanni sínum, Sylwester Adamczyk, sem einnig er pólskur, að hluta niður ketil úr járni með logskurði. Ketillinn, sem var sívalur að lögun, var mikill að umfangi og þungur. Þegar verkið var unnið lá ketillinn á hliðinni á jörðinni og var skorinn í tvennt eftir endilöngu. Við verkið slasaðist áfrýjandi þegar ketillinn losnaði í sundur og annar helmingur hans féll á vinstra læri áfrýjanda með þeim afleiðingum að hann hlaut slæmt lærbrot. Aflað var matsgerðar um líkamstjón áfrýjanda en niðurstöður hennar eru raktar í hinum áfrýjaða dómi. Vinnuveitandinn var með ábyrgðartryggingu hjá stefnda og er krafa áfrýjanda á hendur honum reist á 1. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga.

Í stefnu til héraðsdóms segir að áfrýjandi og samstarfsmaður hans hafi verið að skera ketilinn þegar slysið varð. Einnig segir að áfrýjandi hafi þurft að færa sig og ganga milli ketilsins og stæðu af járnplönkum án þess að ráðið verði með vissu af þessari lýsingu hvort áfrýjandi hafi verið að logsjóða þegar slysið varð. Um þetta eða nánari tildrög slyssins var áfrýjandi ekki spurður þegar hann gaf aðilaskýrslu fyrir dómi. Aftur á móti kom fram í vætti Sylwester Adamczyk að áfrýjandi hefði verið að logsjóða þegar slysið varð. Í hinum áfrýjaða dómi er lagt til grundvallar, í samræmi við það sem sagður er málatilbúnaður áfrýjanda, að hann hafi verið á gangi meðfram katlinum. Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi mótmælt því að þessi grundvöllur hafi verið lagður að málinu í stefnu. Til viðbótar við þessa ónákvæmni skortir mjög á lýsingu í stefnu hvernig nánar var staðið að verkinu. Í þeim efnum skiptir meðal annars máli hvort áfrýjandi hafi mátt vita að samstarfsmaðurinn hafði lokið sínu verki þannig að ketilinn hafi aðeins hangið saman á því hafti sem áfrýjandi átti eftir að sjóða í sundur. Þá kemur ekki fram hvort ketillinn hafi brotnað vegna eigin þunga eða hvort áfrýjandi hafi lokið við að sjóða hann í sundur. Að öllu þessu virtu var málatilbúnaður áfrýjanda svo óglöggur og óljós, án þess að úr því hafi verið bætt undir rekstri málsins í héraði, að óhjákvæmilegt er að vísa málinu frá héraðsdómi án kröfu.

Samkvæmt e. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal í forsendum dóms greina helstu málsástæður aðila og réttarheimildir sem þeir byggja á. Er þetta í samræmi við þá meginreglu sem kemur fram í 3. mgr. sömu greinar að dómar eigi að vera stuttir og glöggir. Í hinum áfrýjaða dómi er látið við það sitja að taka upp í heild sinni stefnu og greinargerð í stað þess að dómari lýsi sjálfur málsástæðum aðila. Þannig hafa ratað inn í dóminn orðréttar tilvitnanir í skráðar reglur og fræðirit. Þetta fer í bága við fyrrgreindar lagareglur um hvernig standa beri að samningu dóma og er aðfinnsluvert.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.  

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2011.

I

         Mál þetta, sem dómtekið var föstudaginn 28. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Piotr Grzegorz Krystoszyk, kt. 170768-2569, Miðholti 13, Mosfellsbæ, með stefnu, birtri  8. desember 2010, á hendur Verði tryggingum hf., kt. 441099-3399, Borgartúni 25, Reykjavík.

         Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndi greiði stefnanda kr. 10.042.731, með 4,5% vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, af kr. 1.308.900 frá 19. febrúar 2008 til 19. ágúst s.á., en af kr. 11.517.643 frá þeim degi til 15. febrúar 2010, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til 17. marz 2010, en af kr. 10.726.245 frá þeim degi til 19. október 2011, en af kr. 10.042.731 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara gerir stefnandi þær kröfur, að stefndi greiði stefnanda kr. 6.153.988, með 4,5% vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, af kr. 1.308.900 frá 19. febrúar 2008 til 19. ágúst s.á., en af kr. 7.628.900, frá þeim degi til 15. febrúar 2010, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til 17. marz 2010, en af kr. 6.837.502 frá þeim degi til 19. október 2011, en af kr. 6.153.988 frá þeim degi til greiðsludags.  Í báðum tilvikum er krafizt málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, ásamt virðisaukaskatti af málflutningsþóknun.

         Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hið stefnda félag, Vörður tryggingar hf., verði sýknað af öllum kröfum stefnanda, en til vara, að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.  Í báðum tilvikum er þess krafizt, að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.

II

Málavextir

Málavextir eru þeir að stefnandi var að vinna hjá Hringrás hf., kt. 420589-1319, að Klettagörðum 9 í Reykjavík þann 19. febrúar 2008. Var þetta fyrsti vinnudagur hans á starfsstöð Hringrásar við Klettagarða, en hann hafði áður starfað á starfsstöð fyrirtækisins á Reyðarfirði. Þennan dag var hann, ásamt samstarfsmanni sínum, að skera í sundur stóran ketil með logskurði. Stefnandi lýsir katlinum svo, að hann hafi verið mikill umfangs, hringlaga og vegið um 4-6 tonn. Hafi ketillinn legið á hliðinni, þegar þeir voru að vinna. Við hliðina á katlinum hafi verið stór stæða af stálplönkum og hafi gangvegurinn á milli stálplankanna og ketilsins því verið mjög þröngur. Kveður stefnandi starfsmann á lyftara hafa ítrekað verið beðinn um að fjarlægja stálplankastæðuna, en án árangurs. Hafi stefnandi og samstarfsmaður hans, Sylwester Adamczyk, verið að skera ketilinn eftir endilöngu, þegar slysið varð. Stefnandi kveðst hafa þurft að færa sig til, og hafi hann orðið að ganga á milli ketilsins og stálplankastæðunnar. Þegar hann var að ganga á milli ketilsins og stæðunnar, hafi ketillinn losnað í sundur, og hafi efri hlutinn fallið á vinstra læri hans með þeim afleiðingum að hann hafi hlotið mjög kurlað lærbrot.

Stefnandi var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild LSH í Fossvogi, þar sem hann gekkst undir aðgerð daginn eftir, en gert var að brotinu með mergnagla og skrúfum. Kveðst stefnandi hafa legið á sjúkrahúsi vegna þessa í 7-10 daga.

Aðilar málsins stóðu sameiginlega að því að afla matsgerðar. Afleiðingar slyssins voru metnar með matsgerð Guðna Arinbjarnar læknis og Arnar Höskuldssonar hrl., dags. 7. janúar 2010. Tímabundið atvinnutjón stefnanda var talið vera frá slysdegi og fram til 17. ágúst 2008 og þjáningatímabil 6 mánuðir, en þar af hafi stefnandi verið rúmliggjandi í 8 daga. Varanlegur miski var talinn 12 stig og varanleg örorka 15%.

Vinnuveitandi stefnanda var með slysatryggingar launþega og ábyrgðartryggingu hjá stefnda. Greiddar hafa verið bætur úr slysatryggingu launþega, en bótaskyldu úr ábyrgðartryggingu hefur verið hafnað. Stefnandi skaut höfnun stefnda á bótaskyldu til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, sem staðfesti niðurstöðu stefnda. Greinir aðila á um bótaskyldu stefnda, en kröfu á hendur honum byggir stefnandi á ákvæði 1. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga.

III

Málsástæður stefnanda

Stefnandi kveður höfnun stefnda með öllu ótæka, enda hvíli rík skylda á vinnuveitanda að tryggja, að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað. Af málsatvikum sé ljóst, að kröfum laga nr. 46/1980 um fullnægjandi öryggisaðstæður á vinnustöðum hafi ekki verið fullnægt í starfsemi Hringrásar ehf. Hafi því verið um að ræða óforsvaranlegar vinnuaðstæður.

Til stuðnings málatilbúnaði stefnanda sé vísað til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Samkvæmt 13. gr. skuli atvinnurekandi tryggja, að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað.

Samkvæmt 14. gr. skuli atvinnurekandi gera starfsmönnum sínum ljósa slysa- og sjúkdómshættu, sem kunni að vera bundin við starf þeirra. Atvinnurekandi skuli að auki sjá um, að starfsmenn fái nauðsynlega kennslu og þjálfun í að framkvæma störf sín á þann hátt, að ekki stafi hætta af.

Í 37. gr. sömu laga, sbr. einnig 42. gr., komi fram, að vinnu skuli haga og framkvæma þannig, að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Fylgja skuli viðurkenndum stöðlum, ákvæðum laga og reglugerða, svo og fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins, að því er varði aðbúnað, hollustuhætti og öryggi.

Stefnandi bendi einnig á, að verkstjóri á vinnustað beri mikilvægar skyldur samkvæmt lögum nr. 46/1980. Samkvæmt 21. gr. laganna sé verkstjóri fulltrúi atvinnurekanda og beri honum að sjá til þess, að allur búnaður sé góður og öruggt skipulag sé ríkjandi á þeim vinnustað, sem hann hafi umsjón með. Í 1. mgr. 23. gr. sé einnig kveðið á um, að verkstjóri skuli beita sér fyrir, að starfsskilyrði innan þess starfssviðs, sem hann stjórni, séu fullnægjandi að því er varði aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Hann skuli sjá um, að þeim ráðstöfunum, sem gerðar séu til þess að auka öryggi og bæta aðbúnað og hollustuhætti sé framfylgt. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skuli verkstjóri jafnframt tryggja, að hættu sé afstýrt, verði hann var við einhver þau atriði, sem leitt geti til hættu á slysum eða sjúkdómum. Ketillinn, sem unnið hafi verið við, hafi vegið 4-6 tonn og því ljóst, að því vinnufyrirkomulagi, sem stuðzt hafi verið við, hafi fylgt mikil slysahætta. Hægt hefði verið að koma fyrir öryggisbúnaði til að draga úr þeirri hættu. Hafi það verið í verkahring vinnuveitanda að tryggja viðhlítandi öryggisráðstafanir.

Sem kunnugt sé, hafi Vinnueftirlit ríkisins og lögregla komið á vettvang vegna slyssins. Í umsögn Vinnueftirlits ríkisins komi fram, að engar ráðstafanir hafi verið gerðar til að koma í veg fyrir, að ketillinn ylti. Sökum lögunar hans hafi hlutar hans auðveldlega getað oltið í sundur hver í sína áttina. Varðandi aðstæður á slysstað segi í umsögninni, að vinnusvæðið hafi verið blautt eftir rigningu og leysingar síðustu daga. Þar af leiðandi hafi svæðið, sem ketillinn stóð á, verið hált og hættulegra en ella. Vinnuaðstæður hafi jafnframt verið erfiðar vegna þess að þennan dag hafi verið dimmt og hvasst. Í umsögn Vinnueftirlitsins komi enn fremur fram, að fyrirtækið hafði ekki farið í áhættumat í samræmi við XI. kafla laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Samkvæmt 65. gr. a beri atvinnurekandi ábyrgð á, að gert sé sérstakt áhættumat, þar sem meta skuli áhættu í starfi með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og áhættuþátta í vinnuumhverfi. Í 65. gr. a segi nánar tiltekið:

65. gr. a. Atvinnurekandi ber ábyrgð á að gert sé sérstakt áhættumat þar sem meta skal áhættu í starfi með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og áhættuþátta í vinnuumhverfi. Við gerð áhættumatsins skal sérstaklega litið til starfa þar sem fyrirsjáanlegt er að heilsu og öryggi þeirra starfsmanna sem sinna þeim sé meiri hætta búin en öðrum starfsmönnum.

2. mgr. Þegar áhættumat á vinnustað gefur til kynna að heilsu og öryggi starfsmanna er hætta búin skal atvinnurekandi grípa til nauðsynlegra forvarna í þeim tilgangi að koma í veg fyrir hættuna eða, þar sem þess er ekki kostur, draga úr henni eins og frekast er unnt.

Vinnueftirlitið hafi talið, að meginástæðu slyssins mætti rekja til þess, að engar ráðstafanir hafi verið gerðar til að koma í veg fyrir, að hringlaga ketillinn, sem verið var að hluta í sundur eftir endilöngu, gæti oltið auðveldlega, þegar hann losnaði í sundur. Bleytan á vinnusvæðinu gæti einnig hafa átt einhvern þátt. Meðvirkandi orsök hafi verið sú, að ekki hafi verið unnið eftir reglugerð nr. 920/2006, er varði skyldur atvinnurekanda um áhættumat, fræðslu og þjálfun til starfsmanna. Í 25. gr. reglugerðarinnar segi eftirfarandi:

Atvinnurekandi skal tryggja að hver starfsmaður fái nægilega þjálfun að því er varðar aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustað, meðal annars með upplýsingum og tilsögn sem sniðin er að vinnuaðstæðum hans og starfi, í eftirfarandi tilvikum:

a) um leið og starfsmaður er ráðinn til starfa,

b) ef starfsmaður er fluttur á annan stað eða í annað starf,

c) ef nýr búnaður er tekinn í notkun eða búnaði er breytt,

d) ef ný tækni er innleidd.

Þjálfunina skal laga að nýjum eða breyttum áhættuþáttum og nýrri þekkingu og endurtaka reglulega ef þörf er á. Þegar áhætta í starfi er mikil samkvæmt áhættumati skulu vera til skriflegar verklagsreglur um hvernig starfið skuli framkvæmt.

Atvinnurekandi skal gera viðeigandi ráðstafanir sem tryggja að einungis þeir starfsmenn sem hlotið hafa nægilega tilsögn hafi aðgang að svæðum þar sem alvarleg og sérstök hætta er á ferðum.

Atvinnurekandi skal greiða kostnað við þjálfun skv. 1.–2. mgr. og skal þjálfunin fara fram á vinnutíma.

Stefnandi vísi einnig til reglugerðar nr. 367/2006 um notkun tækja, en þar segi m.a. í grein 2.6 í I. viðauka:

Þegar öryggi og heilbrigði starfsmanna krefst þess skal tryggja stöðugleika tækja eða hluta þeirra með festingum eða á annan viðeigandi hátt.

Til hliðsjónar sé vísað til 5. gr. reglugerðarinnar:

Atvinnurekandi skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að tæki sem starfsmönnum er ætlað að nota innan fyrirtækisins hæfi verkinu sem inna skal af hendi eða sé hæfilega lagað að verkinu, þannig að starfsmenn geti notað tækið án þess að öryggi þeirra eða heilsu sé hætta búin.

Við val á tæki skal atvinnurekandi hafa til hliðsjónar þau sérstöku vinnuskilyrði, aðstæður og áhættu sem fyrir hendi er innan vinnustaðar, þar á meðal áhættu á vinnusvæði og þá áhættu sem notkun viðkomandi tækis hefur í för með sér.

Þegar ekki er að fullu unnt að tryggja að starfsmenn geti notað tæki án þess að öryggi og heilsu þeirra sé hætta búin, skal atvinnurekandi gera nauðsynlegar ráðstafanir til að draga úr áhættunni eins og kostur er.

Í 8. gr. reglugerðarinnar segir, að atvinnurekandi skuli sjá um, að starfsmenn fái nauðsynlega kennslu og þjálfun við að framkvæma störf sín á þann hátt, að ekki stafi hætta af.

Varðandi fyrirmæli um úrbætur segi í umsögn Vinnueftirlitsins, að samkvæmt lögum nr. 46/1980 skyldi atvinnurekandi tryggja, að fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar væri gætt. Einnig skyldi tryggja stöðugleika tækja með festingum eða á annan viðunandi hátt, enda ljóst, að slíkt hafi verið vanrækt af hálfu Hringrásar ehf., auk þess sem ekkert áhættumat hafi legið fyrir.

Stefndi hafi haldið því fram, að samstarfsmaður stefnanda hafi varað hann við því að ganga, þar sem ljóst væri, að kerið myndi falla, en hann hafi ekki hlustað. Þessari fullyrðingu sé alfarið hafnað af hálfu stefnanda, enda með öllu ósannað. Þá sé rétt að árétta, til að koma í veg fyrir allan vafa, að stefnandi hafi ekki verið búinn að vinna í ár hjá fyrirtækinu, heldur einungis í nokkra mánuði, þ.e. frá 28. ágúst 2007. Hann hafi því einungis verið búinn að starfa hjá fyrirtækinu í um tæplega 6 mánaða skeið. Einnig sé bent á, að stefnandi hafi fengið sérstök fyrirmæli frá yfirmanni sínum, Sigurði Kristni Baldurssyni, um að vinna verkið en hafi ekki tekið þá ákvörðun að eigin frumkvæði, enda hafi hann lotið boðvaldi vinnuveitanda síns.

Þess beri að geta, að stefnandi hafi gert athugasemdir við yfirmenn sína vegna ásigkomulags verkfæra, sem nota þurfti við verkið, en ekki hafi verið hlustað á athugasemdir hans. Einnig verði að átelja það, að raunverulega hefðu þrír menn átt að vinna verkið saman, en yfirmaður stefnanda hafi einungis látið tvo menn vinna verkið í umrætt sinn. Eftir slysið hafi þrír menn hins vegar verið látnir vinna sambærileg verk. Stefnandi veki jafnframt athygli á því, að í greinargerð stefnda til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum bendi stefndi á, að Vinnueftirlitið hafi aldrei kynnt sér með hvaða hætti staðið hafi verið að þjálfun stefnanda, þegar hann hóf störf hjá Hringrás ehf. Virðist stefndi því telja, að rannsókn lögreglu og Vinnueftirlits hafi verið ábótavant að þessu leyti, en stefndi hafi þó ekkert aðhafzt í því skyni að hlutast til um frekari rannsókn á þessu atriði. Í þessu samhengi sé lögð áherzla á, að vinnuveitanda beri að hlutast til um fullnægjandi rannsókn á aðdraganda og tildrögum vinnuslysa. Þó svo að lögregla og Vinnueftirlit ríkisins komi á vettvang og framkvæmi rannsókn, firri það vinnuveitanda ekki þeirri skyldu að tryggja fullnægjandi og upplýsandi rannsókn, sbr. Hrd. frá 19. mars 2009 í máli nr. 363/2008. Af þessum dómi og fleiri dómum Hæstaréttar sjáist glögglega, að vinnuveitandi beri hallann af því, ef um er að ræða óljós atriði, sem leiða hefði mátt í ljós með nákvæmari og betri rannsókn.

         Stefnandi geti með engu móti fallizt á, að hann hafi sýnt af sér gáleysi við verkið. Bent sé á, að reynsla starfsmanns ein og sér geti ekki firrt hann bótarétti, þegar ljóst sé, að aðstæðum á vinnustað og þjálfun hafi verið áfátt. Jafnframt sé minnt á, að stefnandi hafi aðeins starfað hérlendis í örfáa mánuði og á svæði Hringrásar við Klettagarða í einn dag. Þá beri einnig að líta til þess, að vinnuveitandi beri höfuðábyrgð á öryggi vinnuaðstæðna og verkstjórn, og starfsmenn vinni á ábyrgð vinnuveitenda sinna.

Telji stefnandi, að verkstjóri Hringrásar ehf. hafi brugðizt þeim ríku skyldum, sem á honum hafi hvílt samkvæmt framangreindum ákvæðum. Ekki verði fallizt á, að skylda verkstjóra til að sinna verkstjórn og eftirliti falli niður eða minnki, þótt um reynda starfsmenn sé að ræða, sbr. 21. og 23. gr. laga nr. 46/1980 og til hliðsjónar Hrd. frá 16. september 1999 í máli nr. 46/1999. Beri verkstjóri skylda að lögum til að tryggja viðunandi öryggi á vinnustað og af skýrslu Vinnueftirlits ríkisins sé ljóst, að aðstæðum á vinnustað hafi verið ábótavant. Hafi verkstjóra að verkinu borið skylda að lögum til að tryggja viðunandi aðbúnað á verkstað. Slíkt eftirlit hafi ekki verið í höndum stefnanda, heldur verkstjóra. Verkstjóri, eða yfirmaður stefnanda á vettvangi, hafi mælt fyrir um framkvæmd verksins, og geti vinnuveitandi þar af leiðandi ekki firrt sig ábyrgð á vinnuaðstæðum.

Megi hér vísa til rits Viðars Más Matthíassonar, Skaðabótaréttur, bls. 377:

Með vísan til þeirra ríku skyldna, sem í IV. kafla laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, eru lagðar á vinnuveitanda (atvinnurekanda) á öllum aðbúnaði á vinnustað og öryggi starfsmanna við framkvæmd starfs, getur vart verið um það að ræða, að slík ábyrgð verði lögð á starfsmanninn, jafnvel þótt hann hafi starfað við ófullnægjandi aðstæður um langa hríð.

Gera verði þær kröfur til vinnuveitenda, að þeir komi nauðsynlegum leiðbeiningum til starfsmanna sinna með þeim hætti, að starfsmennirnir skilji í raun, hvað átt sé við og hvað beri að varast. Í lögregluskýrslu komi skýrt fram, að ekki hafi náðst að ræða við stefnanda á vettvangi, þar sem hann hafi hvorki verið mælandi á íslenzku né ensku. Vegna þessara tungumálaörðugleika hafi yfirmönnum stefnanda borið sérstaklega að gæta þess, að leiðbeiningar vegna verksins kæmust örugglega til skila. Hér verði að hafa í huga, að vinnuveitandi hafi frjálst val um, hvort hann ráði til sín erlent starfsfólk. Ákveði vinnuveitandi á annað borð að ráða til sín slíkt starfsfólk, verði hann að undirgangast þær lagaskyldur, sem almennt hvíli á honum, til þess að tryggja starfsöryggi starfsmanna sinna. Væri með öllu ótækt og óeðlilegt, ef „veittur yrði afsláttur“ af þeirri kröfu, þegar í hlut ætti erlent starfsfólk, sem hvorki skilji íslenzku né ensku.

Stefnandi telji ljóst, að atvinnurekandi hans og verkstjóri hafi vanrækt þær skyldur, sem á honum hvíli varðandi öryggi á vinnustöðum. Að hans mati hafi þær reglur, sem raktar séu að framan, verið þverbrotnar af vinnuveitanda hans og standi því engin rök til þess að láta stefnanda bera tjón sitt alfarið sjálfur. Með hliðsjón af framangreindu og þeirri staðreynd, að brotið hafi verið gegn fjölda skráðra hátternisreglna, sem á starfssviðinu gildi, telji stefnandi, að stefndi (sic í stefnu) og starfsmenn hans, þ.á m. verkstjóri á vinnusvæðinu, hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi og að vanbúnaður hafi verið á vinnusvæðinu. Á grundvelli hinnar ólögfestu meginreglu íslenzks skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð telji stefnandi, að um sé að ræða bótaskylda háttsemi, og því eigi hann rétt á greiðslu úr ábyrgðartryggingu Hringrásar ehf. hjá stefnda.

Afleiðingar slyssins, þ.e. tjón stefnanda, hafi verið staðfestar með matsgerð, svo sem fyrr sé rakið.

Dómkröfur stefnanda byggi á áðurnefndri matsgerð og sundurliðist þannig:

Aðalkrafa:

1.      Bætur skv. 3. gr. skbl.                                                                                          

         172 x (700 x (7033/3282))                                                    kr.                 258.000

         8 x (1.300 x (7033/3282))                                                      kr.                   22.300

2.      Bætur skv. 4. gr.                                                                                       kr.           1.028.600                

         4.000.000 x (7033/3282) x 12%

3.      Bætur skv. 5-7. gr. skbl.                                                                          kr.             10.208.743

         (5.436.000 x 1,08) x (350,4/319,1) = 6.446.745

         6.446.745 x 10,557 x 15%

4.      Greiðsla úr launþegatryggingu                                                              kr.           -     791.398

5.      Eingreiðsla frá Sjúkratryggingum                                         kr.           -     683.514

         Samtals                                                                                                     kr.              10.042.731

Kröfugerð stefnanda miðist við matsgerð Guðna Arinbjarnar læknis og Arnar Höskuldssonar hrl., um afleiðingar slyssins. Sé tekið mið af skaðabótalögum nr. 50/1993 eins og þau voru á slysdeginum.

Krafa stefnanda um þjáningabætur byggist á 3. gr. skbl. Séu þjáningabæturnar reiknaðar með hliðsjón af matsgerðinni. Samkvæmt því reiknist þjáningabætur í alls 172 daga, þar af hafi stefnandi verið rúmliggjandi í 8 daga. Séu fjárhæðir síðan uppfærðar miðað við lánskjaravísitölu í janúar 2010, sbr. 15. gr. laganna.

Krafa stefnanda um miskabætur byggist á 4. gr. skaðabótalaganna og áðurgreindu mati um 12 stiga varanlegan miska. Fjárhæð bótanna taki mið af grunnfjárhæðinni, kr. 4.000.000, uppfærðri, miðað við lánskjaravísitölu í janúar 2010, sbr. 15. gr. skbl.

Krafa um bætur vegna varanlegrar örorku taki einnig mið af framangreindri matsgerð og 5.-7. gr. skbl. Hafi varanleg örorka verið talin hæfilega metin 15% og miðist kröfugerð stefnanda við þá niðurstöðu.

Við ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku hafi ekki verið talið unnt að taka mið af tekjum stefnanda samkvæmt skattframtölum síðustu þrjú almanaksár fyrir slysið, og því sé miðað við 2. mgr. 7. gr. skbl.

Hafa verði í huga, að óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi í skilningi ákvæðisins. Stefnandi hafi lokið námi 27 ára, en hann sé rafvélavirki að mennt. Hann hafi unnið við þá iðju um áralangt skeið í Póllandi. Stefnandi hafi síðan komið hingað til lands í ágúst 2007 og farið að vinna sem bifvélavirki. Af þessum sökum sé ekki unnt að taka mið af tekjum hans síðustu þrjú árin fyrir slys í samræmi við meginreglu 1. mgr. 7. gr. skbl. Miklar breytingar hafi átt sér stað á högum hans árið 2007, er hann flutti til Íslands og hóf störf hérlendis. Skilyrðum 2. mgr. 7. gr. um óvenjulegar aðstæður sé því fullnægt í tilviki stefnanda.

Líta beri til athugasemda með frumvarpi því, er varð að skaðabótalögum nr. 50/1993, en þar segi m.a., að þegar óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi, t.d. breytingar á tekjum eða starfi, skuli fjárhæð árslauna þó metin sérstaklega. Óvenjulegar aðstæður séu meðal annars fyrir hendi í skilningi ákvæðisins, þegar breytingar hafi orðið á starfshögum tjónþola skömmu fyrir slys. Þá hafi ákvæði skaðabótalaga um bætur fyrir varanlega örorku það að markmiði að tryggja tjónþola fullar bætur fyrir framtíðartekjumissi. Í sérstökum athugasemdum með 6. gr. í frumvarpi því, er varð að lögum nr. 37/1999, segi:

Launatekjur liðinna ára eru hins vegar ekki góður mælikvarði ef breytingar höfðu orðið á högum tjónþola skömmu áður en slys varð eða þegar fullyrða má að slíkar breytingar standi fyrir dyrum. Má nefna sem dæmi að tjónþoli hafi skipt um starf þannig að breyting hafi orðið á tekjum eða látið af starfi og hafið töku lífeyris.

Með hliðsjón af framangreindu telji stefnandi, að rétt sé að meta sérstaklega mögulegar framtíðartekjur hans, og því beri að styðjast við 2. mgr. 7. gr. skbl., en skilyrði lagaákvæðisins hafi verið rýmkuð verulega með lögum nr. 37/1999. Í sérstökum athugasemdum með frumvarpi því, er varð að lögum nr. 37/1999, segi enn fremur:

Þá er gerð tillaga um að 2. mgr. 7. gr. verði rýmkuð þannig að mati verði beitt í þeim tilvikum þegar viðmiðun við síðustu þrjú tekjuár fyrir slys þykir af einhverjum ástæðum ekki réttmæt.

Að teknu tilliti til framangreinds geri stefnandi aðallega kröfu um, að miðað verði við meðaltekjur iðnaðarmanna árið 2007, samkvæmt launatöflum Hagstofu Íslands, en stefnandi hafi, sem kunnugt sé, unnið sem iðnaðarmaður hjá Hringrás ehf. Sú launaviðmiðun sé svo uppfærð miðað við launavísitölu við stöðugleikapunkt. Stefnandi telji, að þessi launaviðmiðun sé raunhæf í hans tilviki, enda í samræmi við menntun hans og reynslu.

Krafist sé 4,5% vaxta skv. 16. gr. skbl. vegna þjáningabóta og varanlegs miska frá slysdegi, þann 19. febrúar 2008, fram að stöðugleikatímapunkti, þann 19. ágúst 2008, en frá þeim degi einnig af bótum vegna varanlegrar örorku, skv. 16. gr. skbl., fram til 15. febrúar 2010, er mánuður var liðinn frá því að kröfubréf var sent, en dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af þeirri fjárhæð frá þeim degi og fram til greiðsludags.

Varakrafa:

1.      Bætur skv. 3. gr. skbl.                                                                                          

         172 x (700 x (7033/3282))                                                    kr.                 258.000

         8 x (1.300 x (7033/3282))                                                      kr.                   22.300

2.      Bætur skv. 4. gr.                                                                                       kr.           1.028.600                

         4.000.000 x (7033/3282) x 12%

3.      Bætur skv. 5-7. gr. skbl.                                                                          kr.               6.320.000

         2007: (3.365.157 x 1,08) x (350,4/319,1) = 3.990.860

         3.991.000 x 10,557 x 15%

        

4.      Greiðsla úr launþegatryggingu                                                              kr.           -     791.398

5.      Eingreiðsla frá Sjúkratryggingum                                         kr.           -     683.514

         Samtals                                                                                                    kr.               6.153.988

Varðandi skýringu á hverjum kröfulið fyrir sig vísist til umfjöllunar um aðalkröfu. Enn fremur vísist til fyrri umfjöllunar varðandi 2. mgr. 7. gr. skbl.

Að teknu tilliti til framangreinds geri stefnandi til vara kröfu um, að miðað verði við tekjur ársins 2007, uppreiknaðar til heils árs, en árið 2007 hafi stefnandi einungis unnið í 5 mánuði. Sé þetta gert í samræmi við Hrd. í máli nr. 646/2009. Umrædd launaviðmiðun sé svo uppfærð miðað við launavísitölu við stöðugleikapunkt. Stefnandi telji, að þessi launaviðmiðun sé raunhæf í hans tilviki í ljósi aðstæðna.

Kröfur stefnanda styðjist við skaðabótalög nr. 50/1993, með síðari breytingum og almennar ólögfestar reglur íslenzks réttar um skaðabætur, þ.á m. sakarregluna og regluna um vinnuveitandaábyrgð. Einnig vísi stefnandi, kröfum sínum til stuðnings, til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Jafnframt sé vísað til reglugerðar nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum og reglugerðar nr. 367/2006 um notkun tækja. Um vaxtakröfuna vísi stefnandi sérstaklega til 16. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, og um dráttarvaxtakröfuna til 1. mgr. 6. gr. og 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Um málskostnað sé vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili skv. lögum nr. 50/1988 og beri því nauðsyn til að tekið verði tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar.

Málsástæður stefnda

Stefndi gerir athugasemdir við stefnu málsins og telur hana brjóta gegn grundvallarreglu einkamálaréttarfars um munnlega málsmeðferð, sbr. 101. gr. laga nr. 91/1991. Þá sé stefnan í brýnni andstöðu við e. lið 80. gr. sömu laga þar sem kveðið sé á um, að lýsing málsástæðna og annarra atvika skuli vera gagnorð. Stefna máls þessa, sem fjalli um einn stakan einfaldan atburð, sé 10 blaðsíður og hafi að geyma ítarlega endursögn á laga- og reglugerðarákvæðum auk beinna tilvitnana í slíkar heimildir. Þá sé vitnað orðrétt til fræðirita og lögskýringargagna og svo vísað til dóma. Þessi framsetningarmáti standist ekki, að mati stefnda, og sé í andstöðu við fyrrgreind lagafyrirmæli.

Aðalkrafa

Í máli þessu krefji stefnandi stefnda um greiðslu bóta vegna metins líkamstjóns á sakargrundvelli, annars vegar vegna skorts á verkstjórn starfsmanna Hringrásar hf.  og hins vegar vegna óforsvaranlegra vinnuaðstæðna. Engri slíkri saknæmri háttsemi af hálfu starfsmanna Hringrásar hf. sé til að dreifa, sem leitt geti til ábyrgðar á þeim fjárkröfum, sem stefnandi haldi fram.

Á því sé byggt af hálfu stefnda, að slysið verði eingöngu rakið til gáleysis stefnanda sjálfs, eða óhappatilviljunar, enda algjörlega að tilefnislausu sem stefnandi hafi fært sig til með framangreindum afleiðingum. Stefnandi hafi verið rétt tæplega fertugur, þegar slysið átti sér stað, og sé menntaður iðnaðarmaður, rafvélavirki. Samkvæmt staðhæfingum stefnanda hafi hann unnið við þá iðngrein í 13 ár, eftir að hann lauk prófi og þar til hann slasaðist. Jafnframt sé upplýst af hans hálfu, að hann hafi áður unnið sambærileg störf og þau, sem hann vann, er slysið varð. Við logskurðarverkefni sem þetta, sem sé í eðli sínu ekki flókið verkefni, sýnist einboðið, að það falli í hlut starfsmannsins sjálfs að meta aðstæður hverju sinni, t.d. hvenær þess megi vænta, að logskurði sé að ljúka og hluturinn, sem verið sé að skera, fari í sundur. Slík tímamót í verki sem þessu séu augljós. Þá muni stefnandi jafnframt hafa verið varaður við að ganga þá leið, sem hann fór, án þess að hann hafi tekið mark á þeim orðum.

Stefndi mótmæli þeirri fullyrðingu stefnanda, að slysið megi rekja til ófullnægjandi verkstjórnar, og að skyldur þær, sem á verkstjóra hvíli lögum samkvæmt, hafi verið vanræktar. Tjónþoli hafi fengið þjálfun hjá starfsmönnum Hringrásar á þeim tíma, sem hann starfaði fyrir fyrirtækið á starfsstöð þess í Fjarðarbyggð. Starfsemi fyrirtækisins fyrir austan sé eðlislík þeirri starfsemi, sem fram fari við Klettagarða. Viðkomandi verk hafi verið mjög einfalt og ekki þarfnazt nákvæmra leiðbeininga, og hefði stefnandi sjálfur mátt gera sér grein fyrir, að varhugavert gæti verið að ganga í veg fyrir fallandi hlut, sem hann hafði sjálfur skorið í sundur.

Það eitt, að fyrirtækið hafi ekki farið í áhættumat samkvæmt 65. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, leiðir alls ekki sjálfkrafa til þess, að skilyrði saknæmis séu uppfyllt. Auk þess hafi ekki verið sýnt fram á, af hálfu stefnanda, að starfsmenn Hringrásar hf. hafi ekki unnið eftir efnisreglum þeim, er reglugerð nr. 920/2006 kveði á um og varði skyldur atvinnurekanda um áhættumat, fræðslu og þjálfun til starfsmanna.

Því fari fjarri, að stefnda verði lagt til lasts, svo sakarábyrgð varði, að verkstjórn hafi ekki verið með þeim hætti, að staðið hafi verið yfir stefnanda. Stefnanda, sem fagmenntuðum manni á miðjum starfsaldri, hafi mátt treysta til þess að framkvæma við annan mann svo einfalt verk sem logskurður þessi hafi verið. Málsástæða stefnanda um óforsvaranlega verkstjórn sé þannig, að mati stefnda, algerlega ósönnuð, auk þess sem ekkert liggi fyrir um, á hvern hátt óforsvaranleg verkstjórn hafi leitt til slyss stefnanda.

Að sama skapi sé á því byggt af hálfu stefnda, að slys stefnanda verði ekki með nokkrum hætti rakið til aðstæðna á vinnustað. Í því sambandi vísist til skýrslu Vinnueftirlits ríkisins, þar sem fram komi, að meginorsök slyssins hafi verið sú, að engar ráðstafanir hafi verið gerðar til að koma í veg fyrir að hringlaga ketillinn, sem verið var að hluta í sundur eftir endilöngu, gæti oltið auðveldlega, þegar hann losnaði í sundur. Af hálfu stefnda sé því haldið fram, að hættan af því, að ketillinn færi í sundur, hafi verið svo augljós, að stefnanda hafi verið, eða hefði mátt vera hún ljós. Það, að svo tækist til, að hann færi í sundur, hafi verið beinlínis ætlunin með því logskera ketilinn. Rétt sé í þessum efnum að árétta, að stefnandi hafi ekki verið nýgræðingur í starfinu eða vinnumarkaði, heldur verði að ætla, að hann hafi haft aldur og reynslu til að leggja mat á hættueiginleika umhverfis síns á hverjum tíma og hvernig hann gæti bezt gengið fram á öruggan hátt, bæði í vinnunni og í frítíma. Ekkert liggi fyrir um það, á hvern hátt Hringrás hf. geti borið saknæma og bótaskylda ábyrgð á því, að stefnandi hafi fært sig þangað, sem ljóst hafi verið, að ketillinn myndi falla, þrátt fyrir aðvaranir starfsfélaga síns.

Í stefnu sé vísað til reglugerðar nr. 367/2006 um notkun tækja og vísað til greinar 2.6 í I. viðauka og til hliðsjónar 5. gr. í því sambandi. Ekkert hafi komið fram í gögnum málsins sem bendi til þess, að orsök slyssins verði rakin til þess tækjabúnaðar, sem stefnandi notaði til verksins. Slíku sé alfarið mótmælt sem röngu og ósönnuðu.

Á hvern hátt vinnustaðnum hafi verið svo áfátt að öðru leyti sé ekki upplýst af hálfu stefnanda, heldur látið nægja að rekja almenn sjónarmið í þessum efnum, án tengsla við sakarefni máls þessa. Engar ályktanir verði dregnar af því, að blautt hafi verið á vinnusvæðinu. Ekkert liggi fyrir um, að stefnanda hafi skrikað fótur, né liggi neitt fyrir um, að ketillinn, sem verið var að skera, hafi hreyfzt úr stað. Allt slíkt sé ósannað.

Þeirri staðhæfingu stefnanda sé mótmælt sem rangri og ósannaðri, auk þess sem það hafi efnislega enga þýðingu í máli þessu, að stefnandi hafi gert athugasemdir við yfirmenn sína vegna ásigkomulags verkfæra, sem nota þurfti við verkið. Ekkert verkfæri hafi bilað. Þá sé þeirri fullyrðingu stefnanda, að raunverulega hefðu þrír menn átt að vinna verkið saman, mótmælt sem ósannaðri.

Tungumálakunnátta stefnanda hafi engin áhrif haft á, að slys stefnanda hafi átt sér stað. Þvert á móti liggi upplýst fyrir, að samstarfsmaður hans, sem vann með honum við þetta verkefni, sé af pólsku bergi brotinn, eins og stefnandi, og því þess umkominn að ræða við stefnanda, bæði almennt, sem og um einstakar athafnir, í sambandi við framkvæmd vinnunnar. Enda sé ósannað, að orsakatengsl séu á milli þess og slyss stefnanda.

Þeirri staðhæfingu í málsatvikalýsingu í stefnu sé mótmælt sem rangri og ósannaðri, að við hliðina á fyrrefndum katli hafi verið stór stæða af stálplönkum, sem starfsmaður á lyftara hafi ítrekað verið beðinn um að fjarlægja.

Þá skuli áréttað, að sönnunarbyrði á tildrögum slyssins hvíli á stefnanda sem slíkum, en við stefnda, Vörð tryggingar hf., verði ekki sakazt um skort á upplýsingum, enda bæði Vinnueftirlit og lögregla kölluð á staðinn í samræmi við skyldur Hringrásar ehf. sem atvinnurekanda.

Varakrafa

Á því sé í fyrsta lagi byggt af hálfu stefnda, að telji stefnandi sig með réttu eiga lögvarða kröfu til bóta, þá beri að líta til þess, að framganga stefnanda hafi stappað nærri stórfelldu gáleysi. Slíkt gáleysi sé ekki þesslegt, að aðrir en stefnandi verði að bera ábyrgð á því. Um málsástæður þessarar kröfu vísist til málsástæðna aðalkröfu að breyttu breytanda.

Þá sé því mótmælt, að forsendur útreiknings kröfugerðar stefnanda fái staðizt. Stefnandi byggi á því að beita eigi 2. mgr. 7. gr. laga nr. 59/1993. Því sé mótmælt af hálfu stefnda, þar sem viðhlítandi sönnunargögn liggi ekki fyrir því til stuðnings, að hugtaksskilyrðum lagaákvæðisins sé fullnægt. Stefnandi beri sönnunarbyrði þessara staðhæfinga sinna. Því sé mótmælt sem röngu, að unnt sé að leggja viðmiðunartölur Hagstofunnar um meðallaun iðnaðarmanna til grundvallar kröfugerð. Þar sé ólíku saman að jafna. Eins fari um þá kröfugerð að miða við nokkra starfsmánuði stefnanda á árinu 1997. Slíkt viðmið sé ótækt án mun dýpri greiningar á því, hvað það sé, sem stefnandi hafi verið að sýsla við, og hvernig laun hans fyrir þá vinnu hafi verið samsett. Á meðan gögn, svo sem launaseðlar fyrir þessa mánuði, liggi ekki fyrir, sé réttmæti beitingar 2. mgr. 7. gr. ósannað.

Loks, komi til þess, að Hringrás hf. eigi að bera einhvern hluta ábyrgðarinnar, sé á því byggt, að frá slíkri dómkröfu beri að draga þegar greiddar bætur vegna slysatryggingar launþega, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993. Sú fjárhæð, kr. 976.555, komi tvímælalaust til frádráttar fjárkröfum stefnanda á hendur stefnda, Verði tryggingum hf.

Stefndi vísi til áðurgreindra lagaraka er varðar sýknukröfu, sem og ákvæða laga nr. 50/1993. Krafa um málskostnað styðjist við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 en jafnframt sé krafizt álags á málskostnað, er nemi virðisaukaskatti, en stefndi reki ekki virðisaukaskattskylda starfsemi og beri því nauðsyn til að fá dæmt álag er þeim skatti nemi á hendi stefnanda.

IV

Forsendur og niðurstaða

Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi, sem og vitnin, Sylwester Adamczyk og Sigurður Baldursson, verkstjóri hjá Hringrás.

Stefnandi byggir kröfur sínar einkum á því, að aðstæður á vinnustað hafi brotið gegn lögum nr. 46/1980 um öryggi og góðan aðbúnað á vinnustað, og verði slysið rakið til þess. Þá hafi skort á verkstjórn við verkið, sem og þjálfun til starfans. Af málatilbúnaði stefnanda er helzt að skilja, að öryggisreglur hafi verið brotnar með því að ekki hafi verið til staðar búnaður til þess að festa ketilinn, sem stefnandi var að skera, auk þess sem ekki hafi verið sinnt óskum stefnanda og samstarfsmanns hans um að fjarlægja stæðu með stálplönkum, sem var við hliðina á katlinum og þrengdi þar með gangveginn fram hjá katlinum.

Stefnandi skýrði svo frá fyrir dómi, að hann hefði gengið í iðnskóla og tækniskóla í Póllandi þar sem hann hefði lært rafvélavirkjun og vélaviðgerðir. Einnig hefði hann lært logskurð í iðnskólanum, en aldrei starfað við það fyrr en hann hóf störf hjá Hringrás á Reyðarfirði í september eða október 2007. Í Póllandi hefði hann einkum unnið sem bílstjóri og viðgerðarmaður. Hann kvaðst hafa unnið við logskurð á Reyðarfirði, en ekki áður unnið við að skera svona stór stykki eins og ketilinn. Hann kvað fyrirmæli til sín frá verkstjóranum, Sigurði Baldurssyni, hafa komið frá strák á verkstæðinu, sem tali ensku, auk þess sem Sylwester, sem vann með honum við logskurðinn, hafi einnig talað ensku. Hann kvað engan búnað til þess að styðja við ketilinn hafa verið á svæðinu. Þá hafi Sylwester margbeðið lyftaramann um að fjarlægja stálplankastæðuna, sem var við ketilinn, án árangurs. Hann kvað rangt, að Sylwester hefði varað sig við að færa sig á þann stað, þar sem ketillinn var um það bil að falla.

Eins og stefnandi lýsir atvikinu í stefnu var hann að ganga á milli ketilsins og stálplankastæðunnar, þegar ketillinn losnaði í sundur og féll á læri hans. Samkvæmt framburði Sylwesters Adamczyk fyrir dómi höfðu þeir nánast lokið skurðinum, en stefnandi hafi átt eftir að skera um hálfan meter, og hafi hann verið við þá vinnu, þegar ketillinn féll á hann. Er sá framburður ekki í samræmi við lýsingu stefnanda, sem segist hafa verið að ganga fram hjá katlinum, svo sem að framan greinir. Verður að leggja lýsingu stefnanda til grundvallar, þegar málsatvik eru virt, en vitnið Sylwester sá ekki sjálfan atburðinn gerast. Stefnandi hefur lagt fram svarthvít ljósrit af ljósmyndum, sem teknar voru á vettvangi. Eru ljósritin dökk og ógreinileg, en þó má greina, að enda þótt gangvegurinn væri þröngur milli stálstæðunnar og ketilsins, hafi verið nægilegt rými fyrir stefnanda til þess að komast fram hjá katlinum, án þess að eiga á hættu að verða undir, ef hann félli niður, eins og raunin varð. Með því að málatilbúnaður stefnanda ber hvorki með sér, að stefnandi hafi verið við logskurð, þegar slysið varð, né hefur því verið haldið fram, að hann hafi, vinnu sinnar vegna, þurft að standa við ketilinn, þar sem hann féll fram, verður að fallast á með stefnda, að stefnandi hafi sýnt gáleysi, þegar hann gekk svo nærri katlinum, sem hann gerði. Er þá litið til þess, að stefnandi var menntaður í logskurði og hafði auk þess öðlazt nokkra starfsreynslu, þegar slysið varð, og mátti gera sér grein fyrir þeirri hættu, sem gat verið á því, að ketillinn færi í sundur, þar sem skurðinum var nánast lokið. Á hinn bóginn verður ekki horft fram hjá því, að með þar til gerðum öryggisbúnaði hefði mátt draga úr hættunni á því að ketillinn félli fram, og verður þá að skoða hvort skortur á slíkum búnaði hafi verið saknæmur, þannig að bótaskyldu varði.

Stefnandi hélt því fram fyrir dómi, að enginn búnaður hefði verið á svæðinu til þess að styðja við ketilinn. Sigurður Baldursson, verkstjóri hjá Hringrás, hélt því fram fyrir dómi, að krani hefði verið á staðnum, sem hefði mátt kalla til, til þess að hífa hlutinn og laga hann til, en það hefði bara þurft að kalla hann til. Vitnið Sylwester skýrði svo frá, að stundum, þegar þeir hefðu beðið um hjálp, hefði komið lyftari til þess að hjálpa þeim að halda hlutnum, sem verið var að skera, en svo hefði ekki verið í þetta sinn, því þeir hefðu ekki verið tilbúnir með verkið, þannig að þeir hefðu þurft á hjálp að halda, svo það hefði ekki verið nein ástæða til þess að biðja um hjálp.

Framburður stefnanda stangast þarna á við framburð verkstjórans á staðnum, sem og framburð vitnisins Sylwesters, sem vann með stefnanda við stálskurðinn. Verður því að leggja til grundvallar, að til staðar hafi verið tæki, sem hefði getað stutt við ketilinn, hefði þess verið óskað. Verður að ætla, með hliðsjón af menntun stefnanda, starfsreynslu hans og þekkingu á því verki, sem hann var að vinna við, að hann hefði mátt gera sér grein fyrir þeim möguleika, að ketillinn kynni að falla í sundur, þegar skurðurinn var svo langt kominn, og að hann hefði átt að hafa frumkvæði að því að óska eftir því að fá aðstoð við að festa ketilinn. Þegar framangreint er allt virt, er ekki fallizt á, að vinnuveitandi stefnanda hafi ekki tryggt að viðhlítandi öryggisbúnaður væri á staðnum. Verður slys stefnanda því einungis rakið til gáleysis hans sjálfs, sem og óhappatilviks. Ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Eftir atvikum þykir rétt, að málskostnaður falli niður.

Stefnandi gerir kröfu í stefnu um greiðslu málskostnaðar, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. Ekki liggur fyrir gjafsóknarleyfi í skjölum málsins, og verður gjafsóknarkostnaður því ekki dæmdur í málinu.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Vörður tryggingar hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Piotr Grzegorz Krystoszyk.

Málskostnaður fellur niður.