Print

Mál nr. 465/2017

Ákæruvaldið (Einar Laxness aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Viðar Már Matthíasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. júlí 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. júlí 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 15. ágúst 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að varnaraðila verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var ákæra á hendur varnaraðila þingfest fyrir héraðsdómi 7. júlí 2017 og hefur aðalmeðferð í máli hans verið ákveðin 15. ágúst sama ár. Að þessu gættu verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.  

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                        

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 18. júlí 2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess fyrir dóminum í dag að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, allt til þriðjudagsins 15. ágúst 2017, kl. 16:00.

Ákærði mótmælir kröfu lögreglustjóra og krefst þess að henni verði hafnað.

I

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu er til þess vísað að ákærði hafi verið handtekinn 27. mars 2017 og degi síðar verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 4. apríl sl. á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Þann dag hafi gæsluvarðhaldsvist ákærða verið framlengd á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærði hafi sætt gæsluvarðhaldi á þeim grunni síðan, sbr. nú síðast dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 401/2017.

Lögreglustjóri segir ákærða undir sterkum grun um mörg auðgunarbrot. Í kröfu lögreglustjóra er vísað til mála lögreglu nr. 007-2017-[...], 008-2017- [...], 007-2017-[...], 007-2017-[...]. 007-2017-[...], 007-2017-[...], -[...], 007-2017-[...], 007-2017-[...], 007-2016-[...], -[...], 319-2015-[...] og 007-2015-[...]. Í kröfunni eru atvik í málum þessum reifuð svo sem þau horfa við lögreglustjóra og vísað til þeirra brota sem ákærði er grunaður um. Lögreglustjóri segir meint auðgunarbrot ákærða varða við 247. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í tilvitnuðum málum hafi ákærði meðal annars verið í tölvu-, net- og símasamskiptum við kærendur, þar sem hann hafi beitt blekkingum. Þannig hafi ákærði meðal annars lofað að greiða til baka þær greiðslur sem málin varði. Svo virðist sem skipulega hafi verið gengið til verks af hálfu ákærða.

Lögreglustjóri telji sterkan rökstuddan grun vera um að ákærði hafi haft fé af fjölda aðila með ólögmætum og refsiverðum hætti og hann meðal annars svikið út fé með blekkingum. Um sé að ræða fjársvika- og fjárdráttarbrot sem beinist að fólki sem oft hafi verið í erfiðri aðstöðu vegna erfiðs leigumarkaðar. Að mati lögreglustjóra sé um að ræða brotahrinu sem þurfi að stöðva og því sé nauðsynlegt að ákærði sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur liggur fyrir í máli hans. Tekur lögreglustjóri sérstaklega fram að ákærði hafi áður komið við sögu lögreglu í tengslum við fjársvik og hann hlotið dóma vegna fjársvika, bæði hér á landi og í Danmörku.

Með vísan til brotaferils ákærða á undanförnum vikum og mánuðum sé það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að ákærði muni halda áfram brotastarfsemi, fari hann frjáls ferða sinna. Nauðsynlegt sé að ljúka þeim málum sem til meðferðar séu hjá  lögreglu og dómstólum sem fyrst. Ákæra hafi verið gefin út á hendur ákærða vegna framangreindra mála. Mikilvægt sé að ákærði sæti gæsluvarðhaldi á meðan sakamál hans sé til meðferðar fyrir dóminum, en aðalmeðferð í málinu muni fara fram um miðjan næsta mánuð. Með vísan til framangreinds og fyrirliggjandi rannsóknargagna sé brýnt og nauðsynlegt að ákærða verði með vísan til c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 15. ágúst nk., kl. 16.00.

II

Samkvæmt framangreindu og fyrirliggjandi rannsóknargögnum er ákærði undir rökstuddum grun um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við.

Fyrir liggur að ákæra hefur verið gefin út á hendur ákærða fyrir fjárdrátt og fjársvik, sbr. 247. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Sakamál á grundvelli ákærunnar, sem fékk númerið S-229/2017 hér fyrir dómi, var þingfest 7. júlí sl. Ákærði neitar sök og hefur aðalmeðferð í málinu verið ákveðin 15. ágúst nk. Saksókn á grundvelli tilvitnaðra hegningarlagaákvæða er ekki háð kröfu þess sem misgert er við.

Eins og vísað er til í kafla I hér að framan eru í greinargerð lögreglustjóra rakin þau meintu brot ákærða sem voru tilefni höfðunar áðurnefnds sakamáls hendur honum. Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 401/2017, sem kveðinn var upp 26. júní sl., var ákærða gert að sæta gæsluvarðhaldi vegna brotanna á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Að hinum meintu brotum ákærða virtum og þess sem fyrir liggur um sakaferil hans þykir ákvæði 3. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 ekki standa því í vegi að fallist verði á kröfu lögreglustjóra. Þá þykir verða að fallast á það með lögreglustjóra að ætla megi að ákærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna. Samkvæmt því og öðru framangreindu er fullnægt skilyrðum c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að ákærða verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi. Verður krafa lögreglustjóra því tekin til greina með þeim hætti sem hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 15. ágúst 2017, kl. 16:00.