Print

Mál nr. 502/2009

Lykilorð
  • Kynferðisbrot
  • Líkamsárás
  • Hæfi
  • Ákæruvald
  • Málshöfðunarfrestur

                                                        

Miðvikudaginn 12. maí 2010.

Nr. 502/2009.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir

settur saksóknari)

gegn

X

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

(Þórdís Bjarnadóttir hrl.

réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Líkamsárás. Hæfi. Ákæruvald. Málshöfðunarfrestur.

X var ákærður fyrir endurteknar líkamsárásir gegn þáverandi sambúðarkonu sinni, A. Var honum meðal annars gefið að sök að hafa „í október 2006 til júní 2007“ á heimili þeirra í Danmörku veist ítrekað að henni með barsmíðum og veitt henni áverka. Talið var að staðfesting lægi fyrir um allmörg ákveðin tilvik og gæti ónákvæm tímasetning endurtekinna brota í þessum lið ákærunnar ekki staðið því í vegi að X yrði sakfelldur samkvæmt verknaðarlýsingu í ákæru. Þá var X jafnframt sakfelldur fyrir þrjár aðrar líkamsárásir gagnvart A. Voru brot hans heimfærð undir 1. mgr. 217. gr. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. X var hins vegar sýknaður af ákæru um að hafa veist að föður sínum, B. Foreldrar X gáfu hvorki skýrslu fyrir lögreglu né héraðsdómi, en nágranni þeirra, sem kom á vettvang eftir að hafa orðið var við háreysti frá húsi þeirra um nóttina, kom á hinn bóginn fyrir dóm. Var talið að gegn neitun X nægði framburður þessa eina vitnis ekki til að ákæruvaldið fullnægði sönnunarbyrði, sem það ber samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og gætu ljósmyndir af B, sem sýndu ákomur í andliti hans, ekki bætt þar úr. Þá var X sakfelldur fyrir ítrekuð kynferðisbrot með því að hafa neytt A með hótunum um ofbeldi eða annars konar ólögmætri nauðung til samræðis og annarra kynferðismaka með öðrum körlum, en X ýmist ljósmyndaði kynmökin eða tók þau upp á myndband og tók iðulega þátt í þeim. Var háttsemi X talin varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. X mótmælti því að sakargiftir, þó taldar yrðu sannaðar, yrðu færðar undir framangreint refsiákvæði. Fallist var á þá skýringu ákæruvaldsins að ekkert gæti skýrt háttsemi X annað en það að þessi kynmök annarra hefðu haft kynferðislegt gildi fyrir hann og komið í staðinn fyrir eða bætt upp hefðbundið samræði, jafnvel þótt hann hefði sjálfur iðulega tekið þátt í þessum athöfnum. Athæfið, sem hann neyddi A til að taka þátt í, félli því undir önnur kynferðismök í merkingu ákvæðisins. Við ákvörðun refsingar var meðal annars litið til þess að X hefði gerst sekur um fjölmargar líkamsárásir og sérlega gróf og alvarleg kynferðisbrot gegn þáverandi sambúðarkonu sinni. Brotin stóðu yfir um árabil og afleiðingar þeirra fyrir A væru alvarlegar. Var X gert að sæta fangelsi í átta ár. Þá var hann jafnframt dæmdur til að greiða A 3.000.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. ágúst 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist að sakfelling samkvæmt héraðsdómi verði staðfest og refsing ákærða þyngd.

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 4.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara krefst hann sýknu og að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi. Að því frágengnu krefst hann þess að refsing verði milduð og skaðabætur til A samkvæmt hinum áfrýjaða dómi lækkaðar.

I

Sakargiftir á hendur ákærða lúta annars vegar að ítrekuðum líkamsárásum á þáverandi sambúðarkonu hans, A, en hins vegar kynferðisbrotum gegn henni, svo sem nánar greinir í héraðsdómi. Að auki er honum gefin að sök líkamsárás á föður sinn. Um fyrstnefndu brotin var fjallað í A. kafla, 1. til 5. lið ákæru, árás á föður ákærða í B. kafla, 6. lið, en kynferðisbrotin í C. kafla, 7. til 12. lið. Undir rekstri málins féll ákæruvaldið frá sakargiftum samkvæmt 1. lið ákæru.

Aðalkrafa ákærða um frávísun málsins var einnig höfð uppi fyrir héraðsdómi, en með úrskurði 19. febrúar 2009 var henni hafnað. Krafa um að málinu verði í heild vísað frá héraðsdómi er reist á því að ríkissaksóknari hafi verið vanhæfur til að höfða mál gegn ákærða. Rannsókn málsins hafi farið fram hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og eiginkona ríkissaksóknara, sem sé lögfræðingur í kynferðisbrotadeild og aðstoðarsaksóknari við embætti lögreglustjórans, stýrt rannsókninni og tekið þátt í henni að undanskilinni rannsókn vegna 4. og 6. liðar ákæru. Meðal annars hafi hún óskað eftir að gert yrði sálfræðimat á brotaþola og komið fram sem sakflytjandi, meðal annars þegar gæsluvarðhalds var krafist yfir ákærða. Þá hafi hún 7. apríl 2008 sinnt málflutningi vegna ágreinings fyrir héraðsdómi um kröfu ákæruvaldsins um frestun aðalmeðferðar í máli, sem lögreglustjóri hafði höfðað gegn ákærða vegna sakargifta, sem nú eru í 4. og 6. lið ákæru í þessu máli. Ríkissaksóknari hafi einnig verið vanhæfur til að höfða þetta mál þar sem settur saksóknari við embætti hans, sem undirritaði ákæruna, sé dóttir yfirmanns kynferðisbrotadeildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Vísar ákærði til e. og g. liða 1. mgr. 6. gr., sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála um ætlað vanhæfi ríkissaksóknara í málinu. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti var af hálfu ákæruvaldsins vísað til dóms réttarins 21. október 1999 í máli nr. 265/1999 varðandi tengsl ákæruvaldsins lögum samkvæmt við þá, sem fara með rannsókn sakamála.

Í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 88/2008 er mælt fyrir um að ríkissaksóknari skuli víkja sæti ef hann væri vanhæfur sem dómari til að fara með mál samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Í síðastnefndu lagaákvæði segir í e. lið að dómari víki sæti ef hann tengist eða hefur tengst fyrirsvarsmanni sakbornings eða brotaþola eða málflytjanda með þeim hætti sem segir í d. lið sömu greinar. Eiginkona ríkissaksóknara hefur ekki komið fram í þessu máli sem málflytjandi og valdið með því vanhæfi ríkissaksóknara. Hún hefur ekki heldur tekið ákvarðanir um meðferð ákæruvalds í umboði yfirmanns síns, lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sem kærðar hafa verið til ríkissaksóknara. Vanhæfi ríkissaksóknara á grundvelli e. liðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 er því ekki fyrir hendi. Sem aðstoðarsaksóknari fór eiginkona ríkissaksóknara ekki með ákæruvald í málinu og gaf ekki út ákæru í því, en hún var lögreglu til aðstoðar við rannsókn þess og gat í þeim tilgangi mælt fyrir um einstakar rannsóknaraðgerðir, svo sem hún gerði. Ekkert er heldur fram komið um að aðstoðarsaksóknarinn hafi átt hagsmuna að gæta í málinu. Ríkissaksóknari fer með ákæruvald í málinu en ekki lögreglustjóri. Þau tengsl aðstoðarsaksóknarans og ríkissaksóknara, sem um ræðir, fela að þessu virtu ekki í sér aðstæður, sem eru til þess fallnar að draga óhlutdrægni ríkissaksóknara með réttu í efa, og verður samkvæmt því einnig hafnað að hann sé vanhæfur til að gefa út ákæru í málinu á grundvelli g. liðar 1. mgr. 6. gr. áðurnefndra laga. Ekki verður heldur fallist á að ríkissaksóknari hafi á grundvelli sama lagaákvæðis orðið vanhæfur til að gefa út ákæru vegna tengsla setts saksóknara í málinu og yfirmanns kynferðisbrotadeildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og gildir þá einu þótt fram sé komið að umræddur lögreglumaður hafi haft afskipti af afmörkuðum þáttum í rannsókn málsins.

Aðalkrafa ákærða er í annan stað á því reist að mál vegna sömu sakargifta og um ræðir í 4. og 6. lið ákæru hafi áður verið höfðað gegn honum, en með úrskurði héraðsdóms 10. apríl 2008 hafi því verið vísað frá dómi. Síðara málið, sem hér sé til úrlausnar, hafi ekki verið höfðað fyrr en 15. janúar 2009. Í 3. mgr. 153. gr. laga nr. 88/2008 sé kveðið á um að hafi máli verið vísað frá dómi eða það fellt niður verði nýtt mál um sama sakarefni ekki höfðað síðar en þremur mánuðum frá því að fyrra málinu var endanlega vísað frá dómi eða það fellt niður. Þetta síðara mál hafi ekki verið höfðað fyrr en löngu eftir að sá frestur var liðinn.

Málið á hendur ákærða, sem vísað var frá dómi 10. apríl 2008, var höfðað af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 14. desember 2007 og tók svo sem fram er komið til sömu sakargifta og um ræðir í 4. og 6. lið ákæru í þessu máli. Úrskurðurinn um frávísun þess máls gekk meðan enn voru í gildi lög nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, en í þeim voru því ekki sett tímamörk að mál yrði höfðað að nýju eftir að fyrra máli um sama sakarefni hafði verið vísað frá dómi eða það fellt niður. Í ákvæðum til bráðabirgða í lögum nr. 88/2008, sem varða tengsl þeirra við eldri lög, er ekki vikið að þeirri stöðu að máli hafi verið vísað frá dómi í tíð eldri laga og ný ákæra ekki gefin út við gildistöku þeirra nýju. Ákvæði 3. mgr. 153. gr. laga nr. 88/2008 um málshöfðunarfrest ber að skýra á þann veg að hafi úrskurður um frávísun gengið í gildistíð eldri laga skuli nýtt mál um sama sakarefni höfðað áður en þrír mánuðir voru liðnir frá gildistöku laga nr. 88/2008, sem var 1. janúar 2009. Krafa ákærða um frávísun, sem á þessari ástæðu er reist, verður samkvæmt þessu ekki tekin til greina.

II

Í 2. lið ákæru er ákærða gefið að sök að hafa „í október 2006 til júní 2007“ á heimili sínu og A í Danmörku veist ítrekað að henni með barsmíðum og veitt henni áverka eins og þar er lýst nánar. Í hinum áfrýjaða dómi voru þessi brot talin sönnuð og ákærði sakfelldur fyrir þau.

Tímasetning ætlaðra brota samkvæmt þessum lið ákæru er ekki nákvæm, heldur vísað til þess að þau hafi gerst ítrekað á allt að níu mánaða tímabili. Í skýrslu A fyrir dómi kom fram að líkamsárásir ákærða á hana hafi aukist mjög um haustið 2006 og hafi slíkt gerst á þessu tímaskeiði að lágmarki í annarri hverri viku. Hún kvaðst aldrei hafa náð að jafna sig á milli og alltaf verið svört af mari á handleggjunum af völdum ákærða. Ofbeldi hans hafi einkum verið fólgið í hnefahöggum á líkama hennar, útlimi og höfuð, en einnig hafi hann sparkað ítrekað í hana og hrint henni til. Lýsing hennar fyrir dómi var í raun þess efnis að ofbeldi ákærða hafi staðið yfir óslitið allt tímabilið sem um ræðir, en nokkur tilvik voru þó í framburði hennar tímasett með nokkurri nákvæmni eða í október og nóvember 2006 og janúar 2007. Með ljósmyndum af A og framburði annarra vitna hafa ofbeldisverk ákærða gegn henni verið tímasett með vissu í þeim mánuðum, sem hún tiltók sérstaklega, en einnig í byrjun og lok mars 2007 og maí sama ár. Vitni hafa einnig borið að A hafi í nokkur skipti á þessu tímabili staðfest við þau að sjáanlegir áverkar, sem hún þá bar, væru af völdum ákærða. Samkvæmt þessu liggur fyrir staðfesting um allmörg ákveðin tilvik og getur ónákvæm tímasetning endurtekinna brota í 2. lið ákæru samkvæmt þessu ekki staðið því í vegi að ákærði verði sakfelldur samkvæmt verknaðarlýsingu í ákæru.

Með framangreindum athugasemdum verður með vísan til forsendna héraðsdóms staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða af sakargiftum samkvæmt A. kafla, 2. til 5. lið ákæru, að báðum liðum meðtöldum. Brot hans samkvæmt þessum kafla eru réttilega heimfærð til refsiákvæða í hinum áfrýjaða dómi.

III

Í B. kafla, 6. lið ákæru, er ákærða gefið að sök að hafa aðfaranótt 23. september 2007 veist að föður sínum, B, snúið upp á handlegg hans, slegið hann margsinnis, tekið hann hálstaki og ítrekað hótað honum lífláti. Við þetta hafi B hlotið nánar tilgreinda áverka í andliti og á líkama. Með héraðsdómi var ákærði sýknaður af þeim hluta sakargifta í þessum lið, sem laut að líflátshótunum, en sakfelldur fyrir önnur ákæruefni. Ákæruvaldið krefst staðfestingar á þeirri niðurstöðu héraðsdóms, en ákærði neitar sök og krefst sýknu.

Eins og rakið er í héraðsdómi tengjast ákæruefni samkvæmt 4. og 6. lið ákæru þannig að brot ákærða gagnvart föður sínum eiga að hafa orðið í beinu framhaldi af ofbeldi hans gegn A eftir að faðir ákærða kom að íbúð þeirra og reyndi að stöðva atlögur sonar síns gegn henni. Ákærði á eftir það að hafa elt föður sinn upp á efri hæð hússins, þar sem atvik samkvæmt 6. lið ákæru eiga að hafa gerst.

A bar fyrir dómi að hún hafi ekki orðið vitni að atvikum, sem greinir í 6. lið ákæru, en hún hafi orðið eftir í íbúð sinni og ákærða þegar sá síðastnefndi og faðir hans fóru um nóttina upp á eftir hæð hússins. Lögreglumaður kom hins vegar á vettvang næsta dag og gerði upplýsingaskýrslu um það, sem hann hafði eftir foreldrum ákærða og nágranna þeirra, O, um atvik sem gerðust um nóttina. Skýrslan var ekki undirrituð af öðrum en lögreglumanninum, sem gerði hana, en í hinum áfrýjaða dómi er greint frá efni hennar.

Foreldrar ákærða gáfu hvorki skýrslu fyrir lögreglu né héraðsdómi, en áðurnefndur nágranni þeirra, sem kom á vettvang eftir að hafa orðið var við háreysti frá húsi þeirra um nóttina, kom á hinn bóginn fyrir dóm. Þar minntist hann ekki atvika í þeim mæli eða á þann veg, sem haft var eftir honum í upplýsingaskýrslu lögreglu. Hann gat ekki heldur staðfest að ákærði hefði hótað föður sínum lífláti. Gegn neitun ákærða nægir framburður þessa eina vitnis ekki til að ákæruvaldið fullnægi sönnunarbyrði, sem það ber samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008, og geta ljósmyndir af föður ákærða, sem sýna ákomur í andliti hans, ekki bætt þar úr. Verður ákærði samkvæmt því sýknaður af sakargiftum samkvæmt þessum lið ákæru.

IV

Í C. kafla ákæru eru ákærða gefin að sök ítrekuð kynferðisbrot með því að hafa neytt sambúðarkonu sína með hótunum um ofbeldi og annars konar ólögmætri nauðung til samræðis og annarra kynferðismaka með öðrum körlum, eins og nánar er rakið í 7. til 12. lið ákærunnar, en ákærði hafi ýmist ljósmyndað kynmökin eða tekið þau upp á myndband og iðulega tekið þátt í þeim. Ákærði játar að öll þau atvik hafi gerst, sem greinir í umræddum ákæruliðum, en krefst á hinn bóginn sýknu á þeim grunni að sambúðarkona hans hafi í öllum tilvikum verið samþykk því að kynmökin færu fram með þeim hætti, sem í ákæru greinir, og stundum átt frumkvæði að þeim.

Í hinum áfrýjaða dómi er ítarlega greint frá lýsingum A á því hvernig sambúð hennar og ákærða hafi breyst fljótlega eftir að hún hófst og ofbeldi hans og harka gagnvart henni aukist stig af stigi og einkennt loks allt samband þeirra. Samhliða hafi komið í ljós kynlífsórar hans, sem hafi lýst sér í hugmyndum og síðan kröfum um að fleiri karlar skyldu kallaðir til þátttöku í kynlífi þeirra. Hún kvaðst í byrjun hafa átt erfitt með að trúa að alvara byggi að baki þessu af hálfu ákærða, en látið svo nauðug undan til að þóknast honum. Síðan hafi komið í ljós, og endanlega í mars 2006, að skýr tengsl hafi verið á milli líkamlegs ofbeldis ákærða við hana og óvilja hennar til að taka þátt í athöfnum af þessum toga. Óttinn við enn meira ofbeldi hafi ráðið því að hún hafi iðulega látið undan kröfum hans um kynlíf með þátttöku annarra, enda hafi hún aðeins átt tveggja kosta völ, annaðhvort að samþykkja þetta eða sæta ella ofbeldi. Samhliða þessu hafi hún farið að misnota mjög áfengi í viðleitni til að fjarlægja sig þeim veruleika, sem hún hafi búið við. Hún kvað ákærða hafa í tveimur tilvikum lagt fyrir hana að hringja í nafngreinda karlmenn til að fá þá til þátttöku í kynlífi með þeim og hann mælt fyrir um hvað hún skyldi segja við þá, en í öllum öðrum tilvikum hafi hann gefið sig fram við aðra með slík erindi Hún sagðist engum hafa skýrt frá því kynferðislega ofbeldi, sem hún hafi búið við, fyrr en á síðari hluta árs 2007 þegar hún hafi gengist undir meðferð hjá sérfræðingi við svokallaða áfallamiðstöð Landspítala-háskólasjúkrahúss. Vinkona A, sem bjó í Danmörku samtímis henni og ákærða, bar á hinn bóginn fyrir dómi að þær hafi hist um vorið 2007 og A þá greint henni frá kynferðislegu ofbeldi, sem hún hafi sætt í ferð með ákærða til Spánar skömmu áður, en hún hefði ekki vitað fyrirfram að ferðin hafi gagngert verið farin til kynlífsathafna með öðrum körlum. Vinkonan kvaðst hins vegar hafa vitað alllöngu áður af öðru ofbeldi, sem A hafi sætt af hendi ákærða. Áfengisneysla A hafi aukist mikið eftir Spánarferðina og persónuleiki hennar breyst.

Fyrir héraðsdómi gáfu skýrslu fjölmörg vitni, þar á meðal systkini A og vinkonur, sem kváðust hafa leitast við að halda tengslum við hana á þeim tíma, sem hér um ræðir, eftir því sem aðstæður hennar hafi leyft og þrátt fyrir viðleitni ákærða til að einangra hana frá fjölskyldu og vinum. Þá eru fram komnar skýrslur margra sérfræðinga um andlegt ástand og atgervi ákærða og A, svo sem ítarlega er rakið í héraðsdómi. Meðal annars liggur fyrir sú niðurstaða þeirra að ákærði sé afar skapríkur og stjórnsamur, en A aftur á móti óvenju undirgefin og með lágt sjálfsmat. Þetta hafi meðal annars birst í því að hún hafi verið reiðubúin til að leggja allt í sölurnar fyrir hann. Héraðsdómur mat framburð A trúverðugan og stöðugan og að innbyrðis samræmi hafi verið í frásögn hennar frá upphafi, auk þess sem vísað var til þess að ekki yrði séð að hún hafi reynt að gera hlut ákærða verri en efni stæðu til. Frásögn ákærða var jafnframt talin að ýmsu leyti ótrúverðug. Fallist verður á með héraðsdómi að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að sú ógn, sem A stóð af ákærða og líkamlegt ofbeldi hans, hafi legið því til grundvallar að hún hafi tekið þátt í þeim kynlífsathöfnum með öðrum körlum, sem greinir í ákæru. Verður því staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að sannað sé að ákærði hafi neytt A með hótunum um líkamlegt ofbeldi til þeirra athafna.

Í C. kafla ákæru er háttsemi ákærða talin varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eins og ákvæðinu var breytt með 3. gr. laga nr. 61/2007, og var fallist á þá heimfærslu til refsiákvæðis í hinum áfrýjaða dómi. Ákærði mótmælir að sakargiftir, þótt taldar yrðu sannaðar, verði færðar undir framangreint refsiákvæði. Samkvæmt orðalagi þess teljist það nauðgun að eiga samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ólögmætri nauðung og þurfi að beina ákæru að þeim, sem brotalýsing ákvæðisins tekur til. Telur ákærði að skilja verði ákæru svo að brot, sem þar greinir, felist í því að hann hafi neytt A til samræðis með öðrum körlum en sér. Ekkert sé fram komið um að hún hafi verið andvíg kynlífi með honum eða að ákæra taki til þess að hann hafi einnig haft mök við hana í umrædd skipti og sé hann heldur ekki ákærður fyrir hlutdeild í brotum annarra, en af þeim sökum geti ákvæði 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga ekki átt hér við. Af hálfu ákæruvaldsins er mótmælt að ákvæðið verði skýrt svo þröngt sem ákærði heldur fram og breyti engu þótt hin ólögmæta nauðung, sem hann beitti, hafi haft að markmiði að knýja A til kynmaka við aðra en hann.

Við úrlausn um heimfærslu framangreindra brota ákærða til refsiákvæða verður að líta til þess að með lögum nr. 40/1992 og 61/2007 var ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga um kynferðisbrot breytt verulega meðal annars með því markmiði að tryggja svo sem kostur væri virðingu fyrir kynfrelsi hvers manns og réttarvernd handa þolendum slíkra brota. Þær breytingar hafa ekki síst snúið að 194. gr. laganna, en hugtakið nauðgun í ákvæðinu hefur verið rýmkað verulega og tekur nú til háttsemi, sem áður varðaði vægari viðurlögum. Þá hafa svonefnd önnur kynferðismök verið lögð að jöfnu við samræði og er hvort tveggja nú fellt undir ákvæðið. Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi sem varð að lögum nr. 40/1992, sagði um hugtakið önnur kynferðismök að í því fælist kynferðisleg misnotkun á líkama annars manns, sem komi í stað hefðbundins samræðis eða hafi gildi sem slíkt. Þetta séu athafnir sem veiti geranda kynferðislega fullnægingu eða séu almennt til slíks fallnar. Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi sem varð að lögum nr. 61/2007, voru nefnd ýmis dæmi um háttsemi, sem teldist falla undir þetta hugtak. Ákærði neyddi sambúðarkonu sína með hótunum og beinu ofbeldi til kynmaka við aðra karla, ljósmyndaði athæfi þeirra og tók upp á myndband. Af hálfu ákæruvaldsins er því haldið fram að ekkert geti skýrt þessa háttsemi ákærða annað en það að þessi kynmök annarra hafi haft kynferðislegt gildi fyrir hann og komið í staðinn fyrir eða bætt upp hefðbundið samræði, jafnvel þótt hann hafi sjálfur iðulega tekið þátt í þessum athöfnum. Athæfið, sem hann neyddi sambúðarkonu sína til að taka þátt í, falli því undir önnur kynferðismök í merkingu 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Fallist verður á þessa skýringu ákæruvaldsins og eru brot ákærða samkvæmt 7. til 12. lið ákæru því réttilega heimfærð þar til refsiákvæðis.

V

Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til þess að hann hefur gerst sekur um fjölmargar líkamsárásir og sérlega gróf og alvarleg kynferðisbrot gegn þáverandi sambúðarkonu sinni. Brotin stóðu yfir um árabil og afleiðingar þeirra fyrir hana eru alvarlegar, eins og nánar greinir í héraðsdómi. Þá verður við ákvörðun refsingar litið til ákvæða 77. gr. og 1., 2., 3., 6. og 7. töluliðar 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Með 1. gr. laga nr. 27/2006, sem tóku gildi 3. maí 2006, var bætt nýrri 3. mgr. við 70. gr. almennra hegningarlaga. Verður tekið mið af þeirri breytingu við ákvörðun refsingar ákærða fyrir háttsemi hans eftir gildistöku þeirra laga. Þá verður jafnframt litið til b. og c. liða 195. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Að öllu virtu verður niðurstaða héraðsdóms um ákvörðun refsingar ákærða staðfest.

A krefst þess að ákærði verði dæmdur til að greiða sér 4.000.000 krónur með nánar tilgreindum vöxtum á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með áorðnum breytingum. Hafið er yfir vafa að ákærði hefur með brotum sínum valdið henni miklum miska, en um hann liggja fyrir upplýsingar í skýrslum lækna og annarra sérfræðinga eins og ítarlega er rakið í héraðsdómi. Að öllu virtu eru miskabætur til hennar ákveðnar 3.000.000 krónur, sem ákærði verður dæmdur til að greiða með vöxtum eins og ákveðið var í héraðsdómi, en við ákvörðun bótanna er meðal annars litið til þess að óvíst er hvort A kunni að auki að eiga kröfu til bóta fyrir varanlegan miska eða varanlega örorku samkvæmt öðrum ákvæðum skaðabótalaga.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákvæði héraðsdóms um refsingu ákærða, X, og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði A 3.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júní 2007 til 21. mars 2008, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 1.242.865 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 627.500 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júlí 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var 10. júní sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 15. janúar 2009 á hendur X, kennitala […], […], […], fyrir hegningarlagabrot sem hér greinir:

A.

Fyrir ítrekaðar líkamsárásir gegn þáverandi sambýliskonu sinni, A, kennitala […], eins og hér er rakið:

1.                       [...]

2.                       Í október 2006 til júní 2007 á heimili þeirra í […], […], veist ítrekað að A og slegið hana með flötum lófa í höfuð og með krepptum hnefum í upphandleggi, búk og læri. Í einhverjum tilvikum einnig sparkað í líkama hennar. Við þetta hlaut A glóðarauga og marbletti víðsvegar um líkamann.

3.                       Í júlí 2007 á heimili þeirra að […], […], í íbúð á jarðhæð hússins, hent henni á rúm og barið hana með krepptum hnefa nokkur högg í vinstri upphandlegg með þeim afleiðingum að hún hlaut þar stóran marblett.

4.                       Aðfaranótt 23. september 2007 á sama stað, tekið um upphandleggi A og hrist hana, slegið hana með flötum lófa á kinn svo hún missti meðvitund, komið henni síðan fyrir á botni sturtuklefans í baðherbergi íbúðarinnar og sprautað yfir hana köldu vatni, þá hrint henni á gólfið í gangi íbúðarinnar og þar margsparkað í höfuð hennar, búk og læri. Af atlögunni hlaut A mar og bólgu hægra megin á höfði frá gagnauga og niður á háls, mar og bólgu á hægra eyra og rof á hljóðhimnu, yfirborðsáverka á höfði, marbletti á útlimum og rifbeinsbrot á 9. rifi vinstra megin.

5.                       Aðfaranótt föstudagsins 21. desember 2007 á heimili þeirra að […], slegið A föstu höggi í hægri síðu, slegið hnefahöggi á hægra handarbak hennar, slegið hana einu sinni með flötum lófa ofan á höfuð hennar og slegið hana ítrekað með krepptum hnefa hægri handar í hægri upp- og framhandlegg og framan á hægra læri. Við þetta hlaut A eymsli og mar á brjóstkassa hægra megin, mar og bólgu yfir grunnliðum II. og III. fingurs hægri handar og marbletti á hægri upp- og framhandlegg.

Auk þeirra afleiðinga sem tilgreindar eru í ofangreindum ákæruliðum hefur A orðið fyrir stórfelldu heilsutjóni vegna líkamsárása ákærða.

Er háttsemi ákærða talin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

B.

6.                       Síðar sömu nótt og á sama stað og lýst er í ákærulið 4, veist að föður sínum, B, kennitala […], í forstofu og stofu á efri hæð hússins, snúið upp á handlegg hans, slegið hann margsinnis, tekið hann hálstaki og ítrekað hótað honum lífláti. Við þetta hlaut B áverka á andliti, skurði á nefi og áverka á líkama.

Er þetta talið varða við 1. mgr. 217. gr., sbr. 10. gr. laga nr. 21/1981, og 233. gr. laga nr. 19/1940.

C.

Fyrir ítrekuð kynferðisbrot á sambúðartíma þeirra A með því að hafa neytt hana, með hótunum um ofbeldi og annars konar ólögmætri nauðung, til samræðis og annarra kynferðismaka með öðrum mönnum eins og rakið er hér að neðan. Ákærði ýmist ljósmyndaði kynmökin eða tók þau upp á myndband og var iðulega þátttakandi í þeim.

7.                       Í október 2006 til júní 2007 í […]:

a.                       Með óþekktum dönskum manni í eitt skipti. Maðurinn hafði samræði við A og hún hafði munnmök við hann.

b.                      Með óþekktum tveimur dönskum karlmönnum í eitt skipti. Mennirnir sleiktu kynfæri A og höfðu samræði við hana. Ennfremur hafði hún við þá munnmök.

c.                       Með óþekktum dönskum karlmanni í þrjú skipti. Maðurinn hafði samræði við A og hún hafði munnmök við hann og ákærða. Þá hafði ákærði samræði við A.

d.                      Með óþekktum litháískum eða úkraínskum karlmanni í þrjú skipti. Maðurinn hafði samræði við A og hún hafði munnmök við hann og ákærða. Þá hafði ákærði samræði við A.

8.                       Í apríl eða maí 2007, á hótelherbergi í Madrid á Spáni, með tveimur óþekktum karlmönnum í eitt skipti. Mennirnir og ákærði höfðu samræði við A og hún hafði við þá munnmök.

9.                       Í október til desember 2007, í […], […], með C, kennitala […], í þrjú skipti. C hafði samræði við A og sleikti kynfæri hennar og hún hafði munnmök við hann og ákærða.

10.                    Í nóvember eða desember 2007 í […], […], með óþekktum karlmanni í eitt skipti. A fróaði manninum og hafði munnmök við hann. Þá höfðu maðurinn og ákærði samræði við hana.

11.                    Í lok desember 2007 í […], [...], með D, kennitala […]. D nuddaði kynfæri A og hún hafði munnmök við ákærða.

12.                    Aðfaranótt laugardagsins 5. janúar 2008 í […], […], með E, kennitala […]. E og ákærði höfðu samræði við A og hún hafði við þá munnmök. Þá hafði ákærði endaþarmsmök við hana.

Er háttsemi ákærða talin varða við 1. mgr. 194. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007.

Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu A er krafist miskabóta að fjárhæð 4.000.000 króna auk vaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. maí 2005 til 21. mars 2008, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. laga sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði neitar sök. Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

Mál á hendur ákærða var upphaflega höfðað hér fyrir dóminum með ákæru 14. desember 2007. Með úrskurði dómsins frá 10. apríl 2008 var því máli vísað frá dómi þar sem láðst hafði að gera kröfu um refsingu í ákæru. Mál var síðan aftur höfðað á hendur ákærða með ákæru þeirri sem hér er til meðferðar. Verjandi ákærða krafðist frávísunar málsins frá dómi, en með úrskurði dómsins frá 19. febrúar sl. var frávísunarkröfu verjanda ákærða hafnað.

Fimmtudaginn 11. janúar 2008 var ákærði úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknar málsins allt til föstudagsins 25. janúar 2008. Var sá úrskurður héraðsdóms staðfestur í Hæstarétti Íslands 16. janúar 2008 með dómi í máli nr. 20/2008 þó þannig að gæsluvarðhaldi var markaður tími til 22. janúar 2008. Með úrskurði héraðsdóms 22. janúar var ákærða gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi til 25. janúar 2009. Með úrskurði héraðsdóms 31. janúar 2008 var ákærða gert að sæta nálgunarbanni í 6 mánuði gagnvart A. Var úrskurður héraðsdóms staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands 7. febrúar 2008 í máli nr. 58/2008. Með úrskurði héraðsdóms 31. júlí 2008 var kröfu um áframhaldandi nálgunarbann hafnað í héraðsdómi. Var sá úrskurður staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands 7. ágúst 2008 í máli nr. 423/2008. 

Við aðalmeðferð málsins ákvað ákæruvald að leiða barnsmóður ákærða fyrir dóminn sem vitni. Verjandi ákærða mótmælti þeirri vitnaleiðslu. Með úrskurði héraðsdóms undir aðalmeðferð málsins 28. apríl 2009 var fallist á kröfu ákæruvaldsins um vitnaleiðsluna. Verjandi ákærða skaut úrskurði héraðsdóms til Hæstaréttar Íslands sem með dómi sínum 5. maí 2009 í máli nr. 209/2009 synjaði kröfu ákæruvalds um vitnaleiðsluna. 

Í upphafi aðalmeðferðar málsins lýsti ákæruvald yfir að fallið væri frá ákæruefni samkvæmt 1. tl. A. kafla ákæru.

Almennt.

Fimmtudaginn 10. janúar 2008 mætti A á lögreglustöð og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir ítrekuð líkamsárásar- og kynferðisbrot gagnvart henni á árunum 2006 til 2008. Greindi A frá atvikum málsins í skýrslutöku hjá lögreglu þann dag og framhaldsskýrslutökum 17. , 19. og 22. janúar 2008 og loks í skýrslutöku 19. maí 2008. Þá greindi hún frá atvikum málsins fyrir dómi við aðalmeðferð málsins.

Ákærði var í fyrsta sinn yfirheyrður hjá lögreglu vegna málsins föstudaginn 11. janúar 2008, en hann var handtekinn að kvöldi 10. janúar 2008 er lögregla framkvæmdi húsleit á heimili hans vegna framkominnar kæru í málinu. Var hann í framhaldinu yfirheyrður af lögreglu 1., 4. og 21. febrúar 2008 og 6. ágúst 2008. Þá gaf hann skýrslu við aðalmeðferð málsins.

Ákærði hefur borið á þann veg að hann hafi kynnst A á Þorláksmessu árið 2004. Hafi hann næst hitt hana annan dag jóla 2004. Hafi ákærði verið heillaður af A en ákærði hafi verið í stuttu fríi á Íslandi um jólin 2004. Hafi hann í þeirri ferð m.a. verið að hitta unga dóttur sína sem búið hafi á Íslandi. A hafi ákveðið að flytja til ákærða út til Noregs og hún komið þangað í febrúar 2005. Hafi það komið ákærða á óvart að A hafi viljað flytja út til hans þetta fljótt. Hafi hún sett íbúð sína á Íslandi í sölu og flutt út. Ákærði hafi á þessum tíma búið á stúdentagörðum í Osló þar sem t.a.m. hafi ekki verið netaðgangur. Á fyrstu vikunum eftir að A kom út hafi hún tekið upp samskipti við föður sinn, en hún hafi ekki verið í samskiptum við hann áður. Þannig hafi í apríl 2005 myndast tengsl á milli hennar og föðurfjölskyldu hennar. Samskipti hennar við fósturmóður hennar hafi hins vegar verið erfiðari. Hafi ákærða fundist hann fremur hvetja til samskipta þeirra á milli. Á þessum tíma hafi A ekki verið komin með neitt fast í hendi varðandi atvinnu í Noregi. Ákærði hafi verið í skóla í Osló og A farið með honum í skólann fyrstu vikurnar. Hafi hún síðan leitað fyrir sér með atvinnu og haft nokkrar áhyggjur af atvinnuleysi. Hún hafi síðan fengið vinnu úti. Að frumkvæði A hafi ákærði viljað fara úr vaktavinnu í dagvinnu og leitað fyrir sér um slíka vinnu í Noregi. Hafi hann síðan horft yfir til Svíþjóðar í því efni og verið boðaður í atvinnuviðtal þar. Þar hafi hann fengið ráðningu. Hafi ákærða boðist að vera fréttaritari fyrir Stöð 2 og Bylgjuna í Svíþjóð. Hafi það ekki gengið sérstaklega vel. Eftir nokkra dvöl í Svíþjóð hafi þau síðan flutt aftur yfir til Noregs. Í september 2006 hafi þau síðan flutt til [...] í Danmörku eftir nokkuð flakk þar á undan. Ekki væri rétt sem A héldi fram að ákærða hafi gengið illa að fá atvinnu. Hafi hann viljað fara frá Svíþjóð til Noregs þar sem hann hafi fengið tilboð um atvinnu í Noregi. Á þessu tímabili, eða árabilið 2005 til 2007, hafi samband ákærða og A verið mjög gott. Bæði hafi þau tekist á herðar flutningar og m.a. keypt hús í Noregi sem þau hafi gert upp. Það hafi kostað mikil átök. Aldrei hafi komið upp á þessu tímabili að þau hafi velt fyrir sér að hætta saman. Kvaðst ákærði einu sinni hafa misboðið A á þessu tímabili. Hafi hún þá farið frá honum og dvalið á hóteli í Keflavík. Hafi þau þrátt fyrir það verið í sambandi en hún viljað flytja aftur til útlanda. Hafi þetta verið síðla árs 2007, en þau hafi þá verið flutt heim til Íslands. Þau hafi sent hvoru öðru tölvupóst þar sem þau hafi skipst á skoðunum varðandi búsetu. Í febrúar 2006 komi m.a. fram að hún hafi viljað flytja til Íslands. Hafi það verið vilji ákærða að þau stæðu í þessu saman. A hafi farið í áfengismeðferð til Íslands vorið 2007. Hafi hún og ákærði verið í reglulegum tölvupóstssamskiptum á meðan, auk þess sem hún hafi hringt í ákærða á hverjum degi. Afrit af slíkum samskiptum komi fram í rannsóknargögnum málsins á skjölum merkt II/5.3 og II/5.4. Um þetta leyti hafi orðið talsverðar breytingar á högum þeirra sem hafi verið sérstaklega íþyngjandi fyrir A. Hafi hún m.a. séð um fjármál þeirra, sem hafi verið henni mikil byrði en það sæi ákærði nú. Þau hafi hins vegar átt eðlileg skoðanaskipti. Þau hafi ekki rifist með neinum látum þó svo þau hafi sjálfsagt hækkað róminn bæði tvö.   

Að því er varðaði sambúðartímann með A hafi hún verið að takast á við átröskun og veikindi verið henni erfið undanfarin tvö ár. Hafi hún af þeim ástæðum verið í veikindaleyfi. A hafi átt við áfengisvandamál að stríða er þau hafi byrjað að búa saman. Hafi ákærði áttað sig á því eftirá. Er A hafi átt 30 ára afmæli hafi ákærði keypt ferð fyrir þau til Kanaríeyja. Hafi þau áformað að dvelja hjá vinum og vera þannig í fríu húsnæði. Ekki hafi verið hægt að vekja A að morgni ferðadagsins vegna undanfarandi áfengisdrykkju. Atvikið hafi verið í maí 2005. Þá hafi ákærða orðið ljóst að um væri að ræða hluta af eldra áfengisvandamáli. Hafi ákærða þótt tilvikið leiðinlegt. Hafi hann farið út í skóla og gengið frá ferð til Grikklands. Þangað hafi þau síðan farið næsta dag. Er ákærði hugsi til baka til sambúðartímans finnist honum sem áfengið hafi verið talsvert vandamál á sambúðartímanum. Hafi þau oft drukkið bjór á stúdentagörðum í Noregi. Þá og síðar hafi ákærða fundist óþægilegt að finna áfengi um allt hús, en hann hafi rekist á það. Þegar ákærði hafi rætt við A um að minnka áfengisdrykkjuna hafi farið af stað feluleikur með það. Síðan hafi hún átt til að kasta upp. Hafi ákærði í fyrstu ekki áttað sig á því hvað væri í gangi. Hafi hún m.a. verið með magalyf. Hafi ákærði fengið illan bifur á þessu er þau hafi búið í Svíþjóð. Hafi ákærði viljað fara aðrar leiðir varðandi vandamálið en að A tæki lyf. Hún hafi alltaf verið með einhverjar gamlar pillur en í ljós komið að önnur lyf virkuðu betur. Það lyf sem hún hafi notað hafi verið notað til að hreinsa mat úr líkamanum. A hafi átt það til að brotna saman undan álagi. Er hún hafi byrjað að vinna á háskólasjúkrahúsinu í Osló hafi hún haft á orði að ætla sér að taka inn skaðlegar töflur. Hafi hún einfaldlega ekki verið í jafnvægi þegar komið hafi að átröskun hennar.  

A skýrði þannig frá atvikum að hún hafi kynnst ákærða 23. desember 2004 en á þeim tíma hafi hún verið að vinna við bátasmíði hjá bróður sínum. Samskipti hennar og ákærða hafi í upphafi verið góð. Hafi þau stofnað til sambands í framhaldinu. Ákærði hafi á þeim tíma verið búsettur í Osló í Noregi þar sem hann hafi verið í námi. Hafi hann farið aftur út til Noregs 9. janúar 2005. Hafi þau ákveðið að A myndi flytja út til ákærða og hún gert það 18. febrúar 2005. Hafi sambúðin í Noregi í upphafi gengið vel. Eftir um tveggja mánaða veru ytra hafi farið að bera á skapgerðareinkennum hjá ákærða sem A hafi verið hrædd við. Hafi henni fundist ákærði skapmikill og harður í öllum samskiptum. Þau hafi búið á stúdentagörðum ytra og A ákveðið að panta sér annað herbergi á stúdentagörðum þegar farið hafi að bera á þessum skapgerðareinkennum hjá ákærða. Hafi það verið í apríl 2005 og hún þá verið búin að ákveða að slíta samvistum við ákærða. Hún hafi frá þessum tíma reynt að leiða hjá sér skapgerðareinkenni ákærða. Hafi hún jafnframt verið farin að telja sér trú um að hugsanlega væri eitthvað í hennar fari sem orsakaði það hvernig ákærði brygðist við. Hafi hún því reynt að gera sem minnst úr vandræðum tengdu skapi ákærða.

Kynlíf þeirra hafi í upphafi sambúðarinnar verið mjög gott. Í apríl 2005, eða um það leyti er farið hafi að bera á skapgerðareinkennunum, hafi farið að bera á kynlífsórum hjá ákærða. Hafi hún umborið þessa óra ákærða, en ekki litist á þegar ákærði hafi verið farinn að tala um að framkvæma þessa óra sína. Kynlífsórar ákærða hafi snúist um ýmislegt en þó að mestu um að aðrir þátttakendur kæmu inn í kynlíf þeirra. Þessir kynlífsórar hafi alfarið verið órar ákærða, en þá hafi A ekki verið með. Órarnir hafi bæði gengið út á að það kæmi karlmaður inn í kynlíf þeirra eða kvenmaður. Síðar hafi þeir gengið meira út á að það væri karlmaður sem kæmi inn í kynlífið. Þessir órar ákærða hafi komist á framkvæmdastig er ákærði hafi í skólanum farið inn á einkamálasíðu til að finna karlmann til að vera þátttakandi í kynlífi þeirra. Þessir atburðir hafi verið í lok mars eða byrjun apríl 2005. Á þessari einkamálasíðu hafi ákærði fundið karlmann sem hafi verið til í að vera þriðji aðili í kynlífi. Hafi A fengið sjokk þegar ákærði hafi gert þetta þar sem hún hafi litið svo á að einungis væri um óra hjá ákærða að ræða sem hann myndi ekki framkvæmda. Fyrsta tilvikið af þessum toga þar sem órarnir hafi verið framkvæmdir hafi síðan átt sér stað í Grikklandi í lok maí 2005. Á þeim tíma hafi ákærði reyndar verið búin að finna ákveðna karlmenn til slíkra athafna í Osló í Noregi án þess að til athafna hafi leitt. Í þessum kynlífsathöfnum í Grikklandi hafi A verið mjög hrædd og ekki talið óhætt að gera þessa hluti. Hafi hún verið mjög óörugg. Ákærði hafi á hinn bóginn verið mjög ákveðinn og tekið þátt í kynlífinu. Í því tilviki hafi þau hitt mann annað hvort á skemmtistað eða á því hóteli er þau hafi dvalið á. Hafi ákærði haft tal af manninum. Sá hafi samþykkt að koma með þeim á hótelherbergið. A kvaðst hafa verið drukkin umrætt sinn. Eftir að atvikið hafi verið búið hafi hún varla getað trúað því að þetta hafi átt sér stað. Er hún hafi vaknað hafi hún verið í það miklu sjokki að hún hafi drukkið áfengi þegar í stað. Hafi hún verið ákaflega hrædd við kynsjúkdóma og fleira.

Eftir tveggja mánaða samband við ákærða hafi A verið farin að óttast skap ákærða. Hafi hún séð hvernig ákærði hafi verið blíður, hlýr og góður er hann hafi talað um þessa kynlífsóra sína. Hafi hún fundið hvernig hann hafi áfram verið hlýr og góður ef hún hafi tekið þátt í þessum órum hans. Að öðrum kosti hafi hann orðið harður og reiður við hana. Af ótta við skap ákærða hafi hún því tekið þátt í þessum órum hans. Ákærði og A hafi flutt á milli Noregs og Svíþjóðar í nóvember eða desember 2005. Þá hafi staðan verið orðin sú að ákærði hafi verið farinn að leggja hendur á A og beita hana líkamlegu ofbeldi. Þá hafi hlutirnir verið farnir að ganga þannig að ef hún framkvæmdi kynlífsóra ákærða hafi hún fengið viðurkenningu frá honum, en að öðrum kosti hafi hann lagt hendur á hana. Í fyrsta sinn sem það hafi gerst hafi ákærði kastað henni til inni í eldhúsi í íbúð þeirra. Hafi hann ekki lamið hana í það sinnið. Hafi þetta verið eftir að þau hafi komið heim af skemmtistað og A ekki viljað taka þátt í kynlífi með öðrum manni. Hafi hún ekki áttað sig á því hvað ákærði hafi verið að biðja um í því tilviki en þau hafi verið stödd á skemmtistað. Í janúar til febrúar 2006 þegar þau hafi búið í Svíþjóð hafi ákærði byrjað að tuska A meira til. 

Ákærði og A hafi flutt til […] í Noregi í mars 2006. Eftir að þangað kom hafi hún fyrst séð hin afdráttarlausu tengsl á milli ofbeldis ákærða og undirlátssemi A gagnvart kynlífsórum ákærða. Í mars 2006 hafi þau einu sinni verið á skemmtistað og hitt tvo stráka. Hafi A ekki viljað fá þá heim. Hafi ákærði síðar þá nótt dregið A heim til sín og lamið hana þar. Hafi komið skýrt fram hjá ákærða að hún hafi átt að hafa mök við drengina. A kvaðst ekki hafa átt við áfengisvandamál að stríða áður en hún hafi flutt út til ákærða. Eftir að ákærði hafi kastað henni til í nóvember eða desember 2005 í Svíþjóð hafi hún vaknað öll sár og aum í skrokknum. Þá fyrst hafi komið upp í huga hennar að hana langaði í bjór. Upp úr því og sumarið 2006 hafi drykkja hennar aukist jafnt og þétt. Það sumar hafi hún farið að drekka bjór til að verða tilfinningalega flöt og minnka hinn líkamlega sársauka er hún hafi fundið til. A kvaðst hafa átt við átröskun að stríða áður en hún hafi kynnst ákærða. Er þau hafi kynnst í desember 2004 hafi hún 8 mánuðum áður verið búin að ljúka meðferð vegna sjúkdómsins. Hafi hún því ekki verið virkur átröskunarsjúklingur er þau hafi byrjað saman. Frá sumrinu 2006 hafi sjúkdómurinn hins vegar tekið sig upp annað slagið. Að hennar mati hafi samskipti hennar við ákærða verið orsök þess. Hafi hún aldrei náð að verða reið eftir samskiptin við ákærða en átröskunarsjúkdómurinn, búlimía eða lotugræðgi, losað ákveðna spennu. Hafi hún aldrei getað beitt skapi sínu gegn ákærða. Ákærði hafi ekki búið við áfengisvandamál fyrr en síðasta árið í sambandi þeirra, en sambandi þeirra hafi lokið 10. janúar 2008.

Er A hafi stofnað til sambúðarinnar með ákærða hafi hún verið búin að eiga mjög gott samband við fjölskyldu sína. Hafi samband hennar við fósturforeldra verið mjög gott sem og þrjú eldri systkini. Þá hafi samband hennar við þrjár vinkonur verið mjög gott, þær F, G og H. Þá hafi samband hennar við I einnig verið ágætt. Samband A við fjölskyldu og vini hafi þurrkast út eftir að hún hafi kynnst ákærða. Hafi ákærði, er frá leið, fylgst með símtölum A og tölvupóstssamskiptum hennar. Hafi honum ekki verið vel við fjölskyldu hennar og vini. Hafi það reitt ákærða til reiði ef hún var í samskiptum við fjölskyldu sína og vini. Til að halda ákærða góðum hafi hún því brugðið á það ráð að minnka samskipti sín við fjölskylduna og vinina.

Að mati A hafi hún og ákærði ekki verið jafningjar. Ákærði hafi verið stjórnsamur á meðan hún hafi verið eftirgefanleg og viljað aðlagast hlutunum. Hafi þau því verið með mjög ólík hlutverk. Hafi hún haft tilhneigingu til að vera hlýðin. Hafi þau á sambúðarárum flutt talsvert á milli landa. Þannig hafi þau flutt frá Osló í Noregi til Svíþjóðar þar sem ákærði hafi ekki fengið vinnu í Osló. Eftir að þau hafi flutt til Svíþjóðar hafi A þegar fengið vinnu. Ákærði hafi leitað fyrir sér með vinnu í Svíþjóð í sex mánuði en ekki fengið neina vinnu. Hafi A þá gefist upp á verunni þar með ákærða atvinnulausan og þau flutt aftur til Noregs þar sem ákærða hafi boðist vinna. A hafi strax fengið vinnu í Noregi og ákærði ráðið sig í smíðavinnu. Þannig hafi hlutirnir gengið í nokkurn tíma eða allt þar til þau hafi flutt til […] í Danmörku, en þangað hafi þau bæði farið í mastersnám. Í […] hafi þau búið að […]. Einu sinni á þessu tímabili, eða í febrúar eða mars 2006, hafi A viljað fara út úr sambandinu og farið til Íslands. Hafi hún þá fengið samastað hjá fósturforeldrum sínum á Íslandi. A kvaðst aldrei hafa vikið að ofbeldinu við ákærða. Hafi það aldrei verið rætt þeirra á milli. A kvaðst hafa farið í seinna skiptið frá ákærða 28. mars 2007. Þá hafi hún flutt inn til bróður síns J á Íslandi. Hafi hún flúið ákærða vegna hins líkamlega og andlega ofbeldis. Hafi hún þurft mikinn kjark til að flýja. Hafi henni fundist sem hún þyrfti að halda ákærða góðum og hafi hún ekki vitað hvað biði ef hún myndi yfirgefa hann. Hafi hún ekki getað ímyndað sér hvað myndi gerast eftir að hún var búin að yfirgefa hann. Allt hafi verið óútreiknanlegt. Hafi hún einfaldlega ekki þorað að halda til streitu að vera frá honum því hún hafi ekki vitað hvað myndi gerast. Hafi hana einfaldlega skort kjark til að halda hlutunum til streitu. Hafi hún fundið hve hrædd hún hafi orðið við að fara frá honum. Hafi hræðslan einfaldlega orðið kjarkinum yfirsterkari.  

A staðfesti að hafa greint frá því hjá lögreglu að hún hafi haft ákveðnar grunsemdir um að ákærði hafi brotið kynferðislega gagnvart dóttur sinni. Umrætt sinn hafi dóttir ákærða gist hjá þeim og sofið í sama rúmi og ákærði og A. Er A hafi farið að sofa hafi hún verið undir áhrifum áfengis. Er A hafi vaknað um morguninn hafi hún orðið vör við blóð í rúminu, sem ekki hafi stafað frá henni. Hafi hún einfaldlega ekki þorað öðru en að gera viðvart um tilvikið. A kvað líðan sína hafa verið mjög slæma eftir að hún hafi lagt fram kæru á hendur ákærða. Hafi hún verið meira og minna á meðferðarstofnunum eftir kæruna. Er aðalmeðferð málsins hafi farið fram hafi hún enn verið á slíkum stofnunum. 

J, bróðir A, kvaðst hafa átt góð samskipti við systur sína í gegnum árin. Hafi þau verið náin og leitað til hvors annars með hlutina. Hafi þau verið í daglegu sambandi í 3 ár fram að því er A hafi kynnst ákærða, en hún hafi unnið hjá J við bátasmíði. Samband þeirra hafi síðan breyst eftir að A hafi kynnst ákærða og flutt út til hans í janúar 2005, en þá hafi hún líka hætt að vinna hjá J. Hafi þau verið í lítilsháttar sambandi fyrstu tvo mánuði á eftir en það hafi síðan alveg slitnað. Hafi J fundist sem systir hans hafi breyst mjög fljótlega eftir að hún hafi byrjað sambúðina með ákærða. Hafi J fundist sem eitthvað hafi komið fyrir A. Hafi hann reynt að nálgast hana og sent henni póst. Hafi hann engin svör fengið til baka. Hafi honum fundist þetta allt mjög furðulegt. Er J hafi náð af systur sinni hafi ákærði alltaf verið við hlið hennar. Hafi J haft það á tilfinningunni að ákærði væri að beita systur hans ofbeldi. Hafi I, vinkona A sem þá var búsett í Danmörku, sagt við J að hann yrði að gera eitthvað í málum systur sinnar. Hafi I sent J myndir þar sem fram hafi komið áverkar er systir hans hafi verið með. Í febrúar 2006 hafi A komið til Íslands. Hafi hún ætlað að fara að vinna aftur á Íslandi og slíta samvistum við ákærða. Hafi J gengið á systur sína með hvað væri að og hún sagt að það væri eitthvað mjög slæmt. Hafi þau systkinin rætt saman á laugardegi en ákærði komið til landsins næsta sunnudag eða mánudag. Á miðvikudegi hafi ákærði og A farið aftur saman út. Eitt sinn hafi sími J hringt um miðja nóttu en það hafi verð í mars á árinu 2007. Hafi J svarað og heyrt köll í A þar sem hún hafi sagt að hún vildi fá fötin sín. Hafi ákærði svarað á móti að þau fengi hún ekki. Hafi verið greinilegt að A hafi vælt í ákærða með það. Hafi J í beinu framhaldi hringt í systur sína og beðið hana um að hringja í lögregluna í Danmörku því J hafi heyrt að ákærði hafi verið að gera A eitthvað. Hafi A síðar sagt J að hún hafi náð að hringja í hann þessa nótt í þann mund sem ákærði hafi ráðist á hana. Eftir þessa uppákomu hafi J reynt að nálgast systur sína. Hafi hann margsinnis hringt og sent henni tölvupóst. Hafi hann reynt að finna tækifæri til að ræða einslega við A. Í apríl á árinu 2007 hafi A hringt og sagt að hún þyrfti að komast strax í burtu frá ákærða. Hafi J hringt í K systur sína sem búið hafi í Danmörku. Hafi K farið strax til systur sinnar. Hafi J frétt það frá K að hún hafi gengið á A við þetta tækifæri og A sagt að hún gæti ekki sagt systur sinni hvað væri að. Hafi K sagt við J að hana grunaði að verið væri að beita systur þeirra ofbeldi. J kvaðst ekki hafa vitað til þess að A hafi átt við áfengisvandamál að stríða áður en hún hafi tekið upp sambúð með ákærða. Hafi hún nánast aldrei farið á skemmtistaði og oft unnið bæði á laugardögum og sunnudögum hjá J. Hafi það því komið J mjög á óvart á árinu 2006 er fram hafi komið að hún ætti við áfengisvandamál að stríða og að hún drykki nánast daglega. A hafi alla tíð verið veik fyrir og viljað þóknast öðrum. Í ljósi þeirra eiginleika hennar hafi J fundist hún í hættu. A væri langt í frá að vera stjórnsöm og frek. Væri hún bæði dugleg og klár. Eftir að hafa byrjað sambúð með ákærða hafi J fundist sem systir hans væri önnur manneskja. Væri hún illa brotin eftir sambúðina og væri erfitt að ræða við hana. Væri hún bæði hrædd og óttaslegin og byggi við mikla vanlíðan. Fyrir sambúðina með ákærða hafi A búið við búlimíu og hún lýst henni fyrir J.

K, systir A, kvaðst hafa búið í […] í Danmörku á árinu 2007. Á sama tíma hafi systir hennar búið í […]. Einu sinni hafi J bróðir hennar hringt um miðja nóttu og sagt að A væri lokuð úti. Hafi ákærði átt að hafa hent fötum hennar fram af svölum og lokað A úti. Hafi K hringt í lögregluna vegna málsins og fylgst með því sem gerst hafi í framhaldinu. Hafi hún ekki farið sjálf á staðinn í þetta skiptið. Atburðurinn hafi verið í mars á árinu 2007. Hafi hún frétt að lögregla hafi farið á staðinn en ekki farið inn í húsnæðið. Áður en þetta tilvik kom upp hafi K reynt að hringja í systur sína og bjóða henni heim til sín í Horsens. Hafi henni fundist sem hún gæti aðstoðað systur sína og ákærða og skaffað þeim ýmsa hluti. Hafi hún boðið þeim í mat en þau aldrei komið. Hafi A afsakað það með ýmsum hætti. Allt hafi verið sérkennilegt. Til að mynda hafi K átt að hringja í síma ákærða til að ná sambandi við A. Þetta hafi verið rætt innan fjölskyldunnar og allir verið sammála um að ekki væri allt með felldu. Hafi þau grunað að ákærði væri að stjórna A. Þær systur hafi áður umgengist mikið en lokað hafi verið á allt slíkt eftir að hún hafi tekið upp sambúðina með ákærða. Hafi K viljað reyna að komast inn hjá þeim til að skoða hvers kyns væri. Það hafi ekki tekist. Hafi A samþykkt að hitta systur sína á kaffihúsi. Hafi K brugðið við að sjá systur sína. Hafi hún litið illa út. Hafi K reynt að finna út hvers kyns væri en það ekki gengið vel. Hafi A lítið viljað gefa upp nema að sér liði ekki vel. Hafi K einfaldlega ekki náð til systur sinnar. Í eitt sinn hafi henni þó tekist að heimsækja ákærða og A á […]. Þau hafi setið í stofu og ákærði einn talað. Hafi þetta verið á árinu 2007 áður en þeir atburðir hafi gerst að J hafi hringt um miðja nóttu. Á þessum tíma hafi K verið orðin hrædd um systur sína og reynt að hafa samskipti við hana. Hafi hún boðið A að koma til Íslands og fara í áfengismeðferð. Á þeim tíma hafi A verið búin að viðurkenna að hún ætti við áfengisvandamál að stríða. A hafi hins vegar ekki verið til í neina meðferð. Í mars 2007 hafi A hins vegar hringt og viljað þiggja boðið. Það yrði að vera strax því hún gæti komist frá ákærða. Hafi A þá verið uppi í skóla í […]. Hafi K farið strax til [...] og hitt systur sína á lestarstöðinni í [...]. Þá hafi A verið slösuð og mjög hrædd. Hafi hún viðurkennt að eitthvað alvarlegt hafi gerst. Hafi K spurt út í áverka systur sinnar. A hafi þurft að fara heim til sín til að ná í tölvu. Hafi K reynt að fá systur sína ofan af því en að niðurstöðu orðið að K færi á heimili A til að ná í tölvuna. Hafi hún fengið lykla til þess frá A. Eftir að það hafi tekist hafi A tekið lestina til Kaupmannahafnar og flogið til Íslands. Eftir að til Íslands kom hafi hún farið í meðferð á Vogi. Hafi K verið í sambandi við systur sína á þeim tíma og hún þá áttað sig á því hve illa hafi verið komið fyrir systur sinni. Hafi A sagt að ákærði beitti sig ofbeldi. Er K hafi hitt systur sína á lestarstöðinni í […] hafi hún verið haltrandi og með skrámur í andliti. Hafi hún sagt að ákærði væri hættulegur og að hún óttaðist um líf sitt. 

L, fósturmóðir A, kvað dóttur sína hafa komið til Íslands í febrúar 2006. Hafi A þá komið inn á heimili L. Þá hafi A verið búin að búa í eitt ár með ákærða ytra. Hafi A sagt við L að hún væri að flýja sambandið við ákærða og að hún þyrfti hjálp. Ótækt væri að búa með ákærða þar sem hann vildi ráða svo yfirgengilega yfir A. Þá væri hann ekki góður við hana. Hafi A hins vegar ekki sagt móður sinni eins mikið um atburði þessa tíma eins og L viti í dag eftir að málið hafi komið upp. Samskipti A við móður sína hafi alltaf verið náin. Þau hafi hins vegar breyst eftir að hún hafi tekið upp sambúðina með ákærða. Áður hafi hún alltaf verið einlæg, dugleg og ábyggileg. Allt hafi hins vegar breyst eftir að hún hafi farið út. Ef L hafi ætlað að ná af dóttur sinni hafi ákærði alltaf svarað í símann. Hafi hann fylgst með öllu, en þannig hafi L upplifað hlutina. Af þessum ástæðum hafi samband L og A minnkað mikið á tímabilinu. L kvað A ekki hafa átt við áfengisvandamál að stríða fyrir sambúðina með ákærða. Eftir sambúðina hafi hins vegar allt breyst. Hafi A eftir það verið taugaveikluð. L kvaðst hafa heyrt í dóttur sinni er hún hafi verið í áfengismeðferðinni á Vogi á árinu 2007. Það hafi verið í apríl og hún átt símtal við dóttur sína. A hafi farið aftur út til ákærða. Hafi A tjáð móður sinni að ákærði hafi keypt flugmiða fyrir A út og að hún þyrði ekki annað en að fara með honum út. Um jólin 2007 hafi A og ákærði verið flutt heim til Íslands. Hafi L boðið þeim til sín í mat. Þau hafi ekki þegið það. Þau hafi rétt komið inn fyrir dyrnar og farið svo. Atvikið hafi allt verið ákaflega sorglegt.

A. kafli ákæru.

2. tl. A. kafla ákæru.

A lagði fram kæruskýrslu hjá lögreglu 10. janúar 2008 þar sem hún greindi frá líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi ákærða gagnvart sér. Voru í framhaldinu teknar skýrslur af henni hjá lögreglu. Greindi hún þá frá ítrekuðu líkamlegu ofbeldi sem ákærði hefði beitt hana m.a. á þeim tíma þegar þau bjuggu að […].

Lögregla hefur undir rannsókn málsins leitað upplýsinga frá lögreglu­yfirvöldum í Danmörku um hvort lögreglu hafi borist tilkynningar um heimilisofbeldi á heimili ákærða og A í Danmörku. Á skjali merkt IX/1 í rannsóknargögnum málsins er svar lögregluyfirvalda í Danmörku 30. apríl 2008. Samkvæmt því var m.a. tilkynnt um heimiliserjur 13. mars 2007 á heimili ákærða og A að […]. Þá hafi verið skráð að ákærði og A hafi verið þátttakendur í ófrið á almannafæri eða heimiliserjum í […] 24. september 2006.

Á meðal rannsóknargagna málsins merkt VII/10.1 er afrit af tölvupósti sem I hefur sent J 6. mars 2007, um leið og hún hefur sent J myndir. Á skjölum merkt VII/10.2 eru fjórar ljósmyndir. Sýnir fyrsta og sú síðasta þeirra upphandlegg á einstaklingi sem þakinn er marblettum. Sú næsta sýnir áverka á hálsi A. Sú þriðja sýnir marbletti á hné.

Á meðal rannsóknargagna málsins merkt IV/2.1 er lögregluskýrsla rituð 15. janúar 2008. Er skýrslan rituð í tilefni af skoðun sjö ljósmynda sem vistaðar voru á tölvu A. Á mynd nr. 1 má m.a. sjá allstóran marblett á hægri upphandlegg A og innanverðu læri. Mynd nr. 2 sýnir m.a. sömu marbletti. Á mynd nr. 3 má m.a. greina mar á hægri rasskinn A. Á mynd nr. 4 má m.a. sjá nokkuð stóran marblett á vinstri upphandlegg A. Á mynd nr. 5 má m.a. sjá að A er með glóðarauga á vinstra auga.  

Við aðalmeðferð málsins lagði ákæruvald til dómsins tvær ljósmyndir. Er önnur þeirra dagsett 18. október 2006 en hin 2. nóvember 2006. Eru báðar myndirnar teknar af A í kynferðislegum athöfnum. Á myndinni 18. október má m.a. sjá að A er dökk undir vinstra auga. Á mynd 2. nóvember má m.a. sjá að A er með glóðarauga á vinstra auga. 

Ákærði kvað ýmsar skýringar vera á því af hverju A hafi verið með marbletti og fleiri áverka á þeim tíma sem þau hafi búið að […]. Hafi A m.a. átt það til að falla á þessum tíma og hafi einu sinni þurft að sauma hana á enni vegna slíks falls. Hafi ákærði orðið vitni að því er hún hafi einu sinni staðið upp af salerni og fallið í baðkarið. Sá atburður hafi reyndar gerst á meðan þau hafi búið í Noregi og verið fyrir þann tíma sem 2. tl. tekur til. Þá hafi ölvunarástand A oft orðið til þess að hún hafi fallið og meitt sig. Í ölvunarástandi hafi A fljótt orðið illa ölvuð. Hafi hún átt það til að slaga og gera órökrétta hluti. Hafi hún oftast ekki munað síðar hvað hafi gerst. Hafi hún m.a. dottið í flughöfninni í Keflavík er þau hafi verið á leið til Danmerkur um áramótin 2006 til 2007. Hafi A þá verið meinað að fara um borð í flugvélina. Þá hafi hún einu sinni verið að koma með lest frá flugvelli til [...]. Hafi ákærði beðið eftir henni á lestarstöðinni. Þegar A hafi ekki skilað sér hafi ákærði farið inn í lestina og komið að henni sofandi þar áfengissvefni. Hafi hún þá verið að koma úr áfengismeðferð á Íslandi. A hafi átt við það mikinn áfengisvanda að stríða að ákærði hafi sótt fundi á meðan þau hafi búið í Danmörku sem hafi verið fyrir aðstandendur áfengissjúklinga. Hafi A skorað á ákærða að sækja slíka fundi. 

Að því er varði áverka á upphandlegg og innan á læri á ljósmynd í rannsóknargögnum merkt IV/2.2 kvaðst ákærði kannast við þá áverka. Kvaðst hann ekki muna sérstaklega eftir því hvernig A hafi fengið þá áverka. Þá viti ákærði ekki hvort um sjálfsáverka hafi verið að ræða en A kunni að hafa veitt sér einhverja áverka sjálf. Þá hafi áverkar getað tengst þeirri átröskun sem hún hafi búið við. Ákærði kvaðst ekki hafa veitt A þá áverka sem vísað væri til. Þá kvaðst ákærði ekki sjá að A væri með glóðarauga á mynd merkt IV/2.2 nr. 5. Að því er varði mynd frá 2. nóvember 2006 kvaðst ákærði ekki muna eftir að hafa séð A með glóðarauga. Hafi hún oft verið dökk undir augum og það átt rætur að rekja til vannæringar af hennar hálfu. Þá kvaðst ákærði ekki kannast við áverka á rassi A á mynd nr. IV/2.2. nr. 3. Kvaðst ákærði ekki hafa sparkað í A, svo sem hún héldi fram. Ákærði kvaðst á þessum árum tvisvar eða þrisvar sinnum hafa hitt I vinkonu A. Hafi ákærði nefnt við I hvort A ætti við áfengisvandamál að stríða. Geti verið að I hafi á sama tíma spurt ákærða hvort hann væri að leggja hendur á A. Ákærði kvaðst kannast við að I hafi komið á heimili þeirra eftir áramótin 2006 til 2007 á meðan þau bjuggu í […] og að hún hafi ætlað að sækja A. Atvikið hafi átt sér stað síðla kvölds. A hafi hins vegar sagt ákærða að hún hafi heyrt í I og að I ætlaði að líta við. I hafi komið þetta kvöld. Ekki hafi ákærði tekið sérstaklega eftir því hvort I hafi verið í náttfötum í þetta skiptið. Hafi ákærði staðið í þeirri trú að I væri komin til að gista hjá þeim, en I hafi búið í um klukkustundar akstursfjarlægð frá ákærða og A.

Að því er varði myndir í rannsóknargögnum merktar nr. VII/10.2 kvaðst ákærði ekki kannast við þann framburð I að hún hafi sýnt ákærða þessar myndir og borið á hann að hafa beitt A ofbeldi. Kvaðst ákærði eiga bágt með að trúa því að A og I væru trúnaðarvinkonur. Hafi A einhverju sinni sagt við ákærða að I hafi komið illa aftan að sér. Þeir áverkar sem fram komi af þessum myndum séu ekki af völdum ákærða. Þá kvaðst ákærði ekki kannast við að hafa hent fötum A fram af svölum íbúðar sem þau hafi búið í og að bróðir A, J, eigi að hafa heyrt í þeim í gegnum síma á sama tíma. Umrædda nótt geti svo sem hafa komið til orðaskaks á milli ákærða og A en atvik hafi ekki verið á þeim nótum sem J vísi til.

A greindi frá því að um hafi verið um að ræða nokkur tilvik á meðan ákærði og A hafi búið að […] þar sem ákærði hafi veist að A og valdið henni líkamlegum áverkum. Tilvikin hafi verið keimlík. Ástæða fyrir þessum tilvikum hafi jafnan verið sú, að ákærði hafi farið að yfirheyra A um fyrrverandi kærasta hennar. Hafi það verið í þeim tilvikum að A hafi ekki viljað að heim til þeirra kæmu karlmenn til að stunda kynlífsathafnir með þeim. Þá hafi ákærði einnig sífellt verið að kvarta undan því að A borðaði ekki nægjanlega mikið. Hafi hann reiðst snögglega. Þau hafi setið saman í sófa og ákærði lamið með olnboga í A og höggið komið í síðu hennar. Í framhaldi hafi hann staðið á fætur og slegið með flötum lófa í höfuðið og höggið komið í andlit hennar. Þá hafi hann slegið hana með krepptum hnefa í upphandlegg og læri. Hafi hann kastað henni til í sófa. Í eitt skiptið hafi ákærði hent fötum A út af svölum íbúðarinnar og rekið hana út. A kvaðst á þessum tíma oft hafa verið svört af marblettum á handleggjum og lærum. Lögregla hafi komið að heimili þeirra einu sinni vegna þessara líkamsárása. Hafi A tjáð lögreglu að allt væri í lagi, en hún hafi ekki þorað annað. Í einu tilviki hafi nágranni þeirra hringt í lögreglu vegna barsmíða í íbúðinni. Líkamsárásir af hálfu ákærða hafi átt sér stað að lágmarki aðra hverja viku. Hafi A aldrei náð að jafna sig á milli. Hafi ákærði bannað henni að fara ein til læknis af ótta við að málið kæmist upp. Í eitt skiptið hafi hún fengið lungnabólgu og ákveðið að fara ein til læknis. Hafi það valdið mikilli reiði hjá ákærða. Í einu tilviki hafi ákærði sparkað á eftir A og sparkið komið í rass hennar. Í eitt skiptið hafi hún fengið stórt glóðarauga þannig að hafi vel sést. Hafi ákærði hjálpað til við að hylja augað. Á þessum tíma hafi A verið í meistaranáminu og orðið að hætta því vegna spurninga frá samnemendum sínum. Það tilvik hafi sennilega verið í lok október eða byrjun nóvember 2006. Á myndum í rannsóknargögnum málsins undir IV/2.2 komi fram mynd af leifum af einu þessara glóðarauga. Það hafi sennilega verið glóðarauga sem hún hafi fengið í nóvember 2006. Á mynd undir IV/2.2 sjáist áverkar á lærum. Á mynd megi sjá áverka frá í október 2006. Á öllum þessum myndum megi sjá áverka af völdum ákærða. Þessir áverkar hafi ekki komið vegna þess að hún hafi fallið drukkin, svo sem ákærði haldi fram. Ástæðan fyrir öllum þessum barsmíðum hafi alltaf verið sú sama. Ákærði hafi orðið reiður þar sem hann hafi talið A vera að halda fram hjá sér eða að hún borðaði ekki nægjanlega mikið eða að hún vildi ekki kynlíf með þriðja aðila. Þá væri það rangt sem ákærði héldi fram að glóðaraugað væri vegna vannæringar af hálfu A. A kvaðst engum hafa greint frá því ofbeldi sem átt hafi sér stað í […]. Þá hafi hún aldrei sagt neinum frá því kynferðisofbeldi sem ákærði hafi beitt hana.

Kvöld eitt hafi A farið með vinkonu sinni á billjarðstofu í […], en um hafi verið að ræða I sem þá hafi búið í […] í Danmörku, í um 30 til 40 mínútna akstursfjarlægð. Hafi A tjáð I að þeir líkamlegu áverkar sem hún væri með væru tilkomnir vegna ákærða. Þær hafi hist í október eða nóvember 2006. Hafi I tekið myndir af áverkum A og væru það fjórar myndir í rannsóknargögnum málsins merkt VII/10. Hafi I gengið á A með hvað væri að og A þá tjáð henni hvers kyns væri. Hafi þetta verið í fyrsta sinn sem A hafi gert einhverjum grein fyrir því ofbeldi sem ákærði beitti hana. Sennilega hafi A einnig tjáð I eitthvað um ofbeldi af hálfu ákærða er hún hafi komið í heimsókn vorið 2007. A kvaðst aldrei hafa gripið til þeirra ráða að skaða sjálfa sig. Væri framburður ákærða í þá veruna rangur. A kvaðst muna eftir því er hún hafi farið í áfengismeðferð á Vog á árinu 2007 að hafa tjáð bróður sínum að ákærði væri ofbeldisfullur við hana. Þá kvaðst A aldrei hafa leitað til læknis í Danmörku vegna ofbeldisins eða hafa lagt þar fram kæru vegna þess.

J, bróðir A, kvaðst hafa fengið myndir af A þar sem hún hafi verið illa leikin eftir barsmíðar. Myndirnar væru í rannsóknar­gögnum málsins merktar VII/10.1 en þær hafi komið frá I vinkonu A. Þær hafi komið í tölvupósti frá I og væri pósturinn í gögnum málsins undir sama númeri.

I kvaðst vera æskuvinkona A. Hafi þær jafnan haft töluvert samband og það einnig gilt þegar þær hafi báðar verið búsettar í Skandinavíu. Að hausti til, á árunum 2006 til 2007, hafi I verið búsett í […] í Danmörku en A hafi þá búið að […]. Í eitt skipti hafi hún séð áverka á A. Hafi ákærði verið viðstaddur þegar það hafi verið. Hafi I spurt að því hver væri ástæða fyrir áverkum A. Hafi A orðið skrýtin á svipinn og litið á ákærða. Hafi þau ekki viljað ræða málið neitt. Nokkrum dögum síðar hafi A hringt í I og viljað fá að hitta hana. Hafi þær hist og I þá séð áverka á henni. Þær hafi hist á kaffihúsi í […] og farið á snyrtinguna þar sem A hafi sýnt I áverkana. Hafi I verið með myndavél í símanum sínum og tekið myndir af áverkunum. Séu það myndir í rannsóknargögnum málsins merktar VII/10.1 en myndirnar hafi hún m.a. sent J bróður A. Hafi þær verið sendar J með tölvupósti 6. mars 2007. Þær hafi hins vegar verið teknar áður. Í þessu tilviki hafi A haft á orði að þetta gengi ekki lengur með ákærða. Nokkrum dögum eftir þetta hafi A haft samband á ný við I og beðið hana um að sækja sig. I hafi þá verið komin upp í rúm. Hafi hún farið á náttfötunum heim til A. Er I hafi komið til A hafi hún séð fleiri áverka í andliti A. Er I hafi sagt að hún væri komin til að sækja A hafi ákærði litið á A og spurt af hverju. Hafi A ekki farið með I. Í viðurvist ákærða hafi A sagt að hún hafi dottið og snúið útúr í umræðunni. Einu sinni í byrjun janúar 2007 hafi I hitt A. Hafi A þá verið mjög illa leikin í andliti. Ekki hafi I náð að taka myndir af henni í því tilviki. A hafi reynt að hylja þá áverka með andlitsfarða. 

   Nokkrum dögum eftir þetta hafi I ákveðið að ræða við nágranna A til að komast á snoðir um hvers kyns væri. Hún hafi m.a. rætt við strák sem hafi sagt að hann heyrði læti frá íbúð ákærða og A. Sá hefði í tvígang hringt á lögreglu vegna láta í íbúðinni. Þá hafi hún rætt við lögreglu sem hafi staðfest að hafa fengið upphringingar vegna íbúðarinnar. Í viðræðum við A hafi A afsakað sig og sagt að ákærði væri að reyna að bæta sig. Í einu tilviki hafi lögregla haft samband við I þar sem þá hafi vantað að fá uppgefið símanúmer A. Hafi viðkomandi lögreglumaður útskýrt það þannig að lögreglumenn í miðbæ […] hafi elt A heim vegna einhvers sem hafi gerst. Hafi ákærði átt að vera að eiga eitthvað við A í bænum. Hlutirnir hafi gengið svo langt að I hafi einu sinni farið að heimili A og setið fyrir utan íbúðina til að fylgjast með henni. Hafi hún reynt að horfa inn um glugga íbúðarinnar til að sjá hvort eitthvað væri í gangi. Í því tilviki hafi hún ekki orðið vör við neitt.

Gamlárskvöld fyrir þremur árum hafi I boðið A og ákærða að dvelja hjá sér. Ákærði og A hafi þá verið að koma frá Íslandi. Hafi þau ætlað að koma við. Er þau hafi ekki skilað sér hafi I margsinnis reynt að hringja án þess að ná sambandi við þau. Síðar hafi A sagt henni að þau hafi ekki komið vegna þess að þau hafi lent í innbyrðis slagsmálum. Hafi þeim verið meinaður aðgangur að flugvélinni. Þá hafi A tjáð henni að ákærði hafi sífellt farið inn í tölvupóstinn hennar og síma til að fylgjast með því við hverja hún væri í sambandi. Af þeim ástæðum hafi A farið að skrifa fólki úr tölvu í skólanum sem hún hafi verið í. Hafi I frétt að ákærða hafi einnig tekist að komast inn í póstinn hennar þar og lesa hann. Ákærði hafi verið mjög almennilegur gagnvart I, allt fram til þess tíma er hann hafi vitað af því að I vissi um það ofbeldi er hann beitti A. Áður en A hafi tekið upp sambúð með ákærða hafi hún ekki átt við áfengisvandamál að stríða. Hafi I verið vel kunnugt um það því þær hafi oft skemmt sér saman. Sé það mat I að A hafi breyst eftir sambúðina með ákærða. Sé hún hrædd og þori ekki að fara í bæinn eða vera á almannafæri. Reyni hún að bera sig vel, sé hreinskilin og segi jafnan satt og rétt frá hlutunum. Hafi henni fundist A jafnan hafa gengið vel í vinnu. Hún hafi hins vegar átt erfitt með vinnu þar sem þau hafi sífellt verið að flytja á milli staða þar sem hún hafi ekki getað mætt sama fólkinu vegna þess hvernig hún hafi litið út. Vorið 2007 hafi A síðan sagt I frá kynlífsathöfnunum. Hafi hún sagt henni frá atvikinu í Spánarferðinni í apríl eða maí 2007 og almennt frá kynlífsathöfnunum með öðrum mönnum en ákærða. 

M kvaðst búa að […]. Hafi hún verið nágranni ákærða og A en íbúðir þeirra hafi legið saman. Svalir þeirra hafi verið samliggjandi. Hafi hún einhverju sinni tekið eftir því að A hafi verið með marbletti. Þær hafi ekki rætt saman í því tilviki. Atvikið geti hafa verið í maí 2007. Marblettirnir hafi verið á upphandlegg og í andliti. Í einu tilviki hafi hún heyrt læti úr íbúð þeirra sem bent hafi til að ofbeldi væri í gangi. Það tilvik hafi verið á síðustu tveim til þrem mánuðunum sem þau hafi búið á [...], en þau hafi flutt þaðan 1. ágúst 2007. Hafi hún heyrt hávær hróp sem hafi verið óvenjulegt fyrir þau. Það hafi verið ákærði sem hafi öskrað en hún hafi heyrt hans rödd. M hafi búið í stórri íbúð og hafi hún yfirleitt haldið sig í þeim hluta íbúðarinnar sem hafi verið fjærst íbúð A og ákærða. Þrátt fyrir þetta hafi M haft það á tilfinningunni að ástandið hjá A og ákærða væri verra. Hafi M m.a. hitt A einu sinni að morgni dags kl. 5.00 þar sem A hafi ekki komist inn í íbúðina. Hafi þær spjallað saman til kl. 8.00 er þær hafi farið á lögreglustöð til að ná í lykla en A hafi verið lyklalaus en ákærði handtekinn af lögreglu. M kvaðst aldrei hafa hringt á lögreglu vegna gruns um ofbeldi úr íbúðinni. Hafi hún m.a. hitt nágranna þeirra sem hafi spurt hvað væri eiginlega í gangi í íbúðinni.     

Niðurstaða:

Ákærða er í 2. tl. A. kafla ákæru gefið að sök að hafa á tímabilinu október 2006 til í júní 2007 á heimili þeirra að [...]veist ítrekað að A og slegið hana með flötum lófa í höfuðið og með krepptum hnefa í upphandleggi, búk og læri. Í einhverjum tilvikum hafi ákærði einnig sparkað í líkama hennar. Við þetta hafi A hlotið glóðarauga og marbletti víðsvegar um líkamann. Ákærði neitar sök. Kveðst hann aldrei hafa veist að A og slegið hana eða sparkað í hana. Kveður hann ástæðu þess að ljósmyndir af A beri með sér að hún sé með marbletti þá að hún hafi sífellt verið að falla sökum áfengisneyslu. Þá hafi hún verið vannærð sem hafi verið afleiðing átröskunar sem hún hafi glímt við.

A hefur á hinn bóginn lýst því hvernig hún hafi búið við sífellt ofbeldi af hálfu ákærða á þeim tíma sem þau hafi búið að [...]. Hafi ástæða ofbeldisins verið ýmist að ákærði hafi orðið reiður þar sem hún hafi ekki viljað að heim til þeirra kæmu karlmenn til kynferðislegra athafna með henni eða að ákærði hafi verið að yfirheyra hana um gamla kærasta eða að ákærða hafi fundist hún ekki borða nægjanlega mikið. Hefur A staðfest að ljósmyndir í gögnum málsins merktar IV/2.2 og VII/10.2 sýni hluta þessara áverka sem og ljósmyndir sem lagðar voru fram undir meðförum málsins dagsettar 18. október og 2. nóvember 2006.

Þá liggur fyrir dóminum framburður I sem bjó nærri A og ákærða í […] á þessum tíma. Hefur hún m.a. staðfest að hafa tekið myndir af áverkum á A, en um sé að ræða myndir í gögnum málsins merktar VII/10.2. Hafi það einungis verið í eitt af þeim skiptum sem hún hafi séð áverka á A. Önnur tilvik hafi hún ekki myndað. Þá er að finna í rannsóknargögnum málsins fleiri myndir frá þessu tímabili en þær myndir eru merktar IV/2.2. Loks liggja fyrir dóminum myndir sem teknar voru 18. október og 2. nóvember 2006. Það er sammerkt öllum þessum myndum að A er með ýmsa sjáanlega áverka á myndunum. Er um að ræða marbletti á handleggjum, rass og læri, auk þess sem hún er með greinileg glóðaraugu. Styrkja myndir þessar framburð A um að ákærði hafi veitt henni áverka þar sem afar ólíklegt verður að telja að einstaklingur hljóti marbletti sem þessa við það að falla í gólf eða á hluti sökum ölvunar.

Þá liggur fyrir dóminum framburður nágranna ákærða og A sem bar að hafa séð líkamlega áverka á A og að hafa einu sinni heyrt slík læti úr íbúð ákærða og A að hún hafi talið að ákærði væri að beita A ofbeldi. Loks liggur fyrir dóminum staðfesting lögregluyfirvalda í Danmörku að þau hafi verið kölluð að [...]á heimili ákærða og A vegna tilkynningar um heimiliserjur. Öll framangreind atriði renna slíkum stoðum undir framburð A, sem dómurinn metur trúverðugan, að ákærði hafi ítrekað beitt hana líkamlegu ofbeldi á því tímabili sem ákæra tekur til að dómurinn metur það sannað lögfullri sönnun. Verður ákærði því sakfelldur fyrir líkamsárás samkvæmt ákæru, með því að hafa valdið A þeim áverkum sem ákæra miðar við. 

Í ákæru er háttsemi ákærða samkvæmt öllum töluliðum A. kafla ákæru talin varða við 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940, en fyrir utan líkamsárásir samkvæmt einstökum töluliðum er miðað við að A hafi orðið fyrir stórfelldu heilsutjóni vegna líkamsárása ákærða. Samkvæmt 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940 varðar það brot fangelsi allt að 16 árum hljótist stórfellt líkams- eða heilsutjón af árás eða brot er sérstaklega hættulegt vegna þeirrar aðferðar, þ.á.m. tækja, sem notuð eru, svo og þegar sá, er sætir líkamsárás, hlýtur bana af atlögu. Brot gegn líkama og lífi samkvæmt 217. og 218. gr. laga nr. 19/1940 eru tjónsbrot. Í réttarframkvæmd hefur hvert tilvik verið metið sérstaklega þegar kemur að því að ákveða undir hvert líkamsárásarákvæðanna fella beri háttsemi. Að mati dómsins eru ekki efni til að hverfa frá þessari lögskýringaraðferð í þessu máli. Verður hver töluliður A. kafla ákæru því metinn sérstaklega m.t.t. heimfærslu til refsiákvæða. Brot ákærða samkvæmt 2. tl. A. kafla ákæru á, í ljósi afleiðinganna, undir 1. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940.        

3. tl. A. kafla ákæru.

A lagði fram kæruskýrslu hjá lögreglu 10. janúar 2008 þar sem hún greindi frá líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi ákærða gagnvart sér. Voru í framhaldinu teknar skýrslur af henni hjá lögreglu. Kom þá fram um tiltekið tilvik af líkamlegu ofbeldi sem átt hafi sér stað á þáverandi heimili þeirra að [...] í [...], en atvikið hafi átt sér stað í júlí 2007. 

Á meðal rannsóknargagna málsins, á skjali merkt IX/3.1, er afrit af tölvupósti frá A til rannsóknarlögreglumanns sem dagsettur er 20. desember 2008. Í póstinum kemur fram að í viðhengi séu myndir sem vinkona A hafi tekið af henni. Ljósmyndirnar eru tvær og merktar IX/3.2, en um virðist vera að ræða sömu myndina. Ber myndin með sér að vera af A og sýnir hún stóran marblett á upphandlegg vinstri handar.

Á meðal rannsóknargagna málsins eru skjöl merkt IX/4.1 og IX/4.2. Fram kemur að A hafi haft samband við lögreglu og tjáð þeim að hún hafi dvalið á Hótel Keili, Hafnargötu 27, Keflavík 22. og 23. júlí 2007. Hafi hún jafnframt sent símbréf þar sem færslur á Mastercard greiðslukorti hennar sýni færslur vegna þessarar hóteldvalar. Á skjali merkt IX/4.2 er afrit af greiðslukortafærslum í nafni A. Af yfirlitinu koma fram tvær færslur merktar Hótel Keili ehf. Eru þær dagsettar 22. júlí og 23. júlí 2007. Sú fyrri er að fjárhæð 13.000 krónur en sú síðari 18.800 krónur.   

Ákærði kvað vin sinn, N, hafa átt 40 ára afmæli í júlí 2007. Hafi ákærði og A þá verið flutt til Íslands. Það kvöld sem um ræðir hafi ákærði, A og tveir kunningjar farið heim til hans. Hafi ákærði þetta kvöld haft samræði við konu að A viðstaddri og hafi ákærði misboðið A með því. A hafi orðið ósátt og farið heim til þeirra að [...]. Hafi hún tekið saman föggur sínar og farið til Keflavíkur. Ákærði kvað ekki vera rétt að hann hafi hitt A á heimili þeirra að [...] í [...] þessa nótt og að ákærði hafi veist að henni og valdið henni líkamsáverkum. Er ákærði hafi komið heim hafi A verið að dröslast með töskur og átt í orðaskaki við foreldra ákærða. Kvaðst ákærði ekki kannast við áverka á myndum í rannsóknargögnum málsins merktar IX/3.2. Hafi ákærði sótt A einhverjum dögum síðar til F. Á þessu tímabili hafi ákærði og A búið á efri hæð hússins að [...] í húsnæði foreldra ákærða.

A kvað tilvik samkvæmt 3. tl. A. kafla ákæru hafa átt sér stað 18. til 20. júlí 2007. Ákærði og hún hafi verið í samkvæmi hjá vini ákærða. Eftir það hafi þau farið heim til tiltekins kvenmanns. Hafi ákærði og konan farið saman upp í rúm og haft samfarir. Hafi A verið allri lokið, hún yfirgefið íbúðina og farið heim til sín að [...] í [...], en þangað hafi hún og ákærði flutt eftir að þau hafi komið að utan. Þar hafi hún pakkað niður föggum sínum. Ákærði hafi komið skömmu síðar. Hafi hann orðið reiður og lamið A nokkur högg og höggin komið á vinstri handlegg A. Hafi A þá farið í varnarstöðu. Atvikið hafi átt sér stað í herbergi á efri hæð hússins við hlið herbergis foreldra ákærða sem búið hafi að [...]. Ákærði hafi verið drukkinn þetta kvöld. A hafi yfirgefið íbúðina og farið með leigubifreið til Keflavíkur þar sem hún hafi dvalið á hótel Keili. Komi fram á skjali merkt IX/4.2 yfirlit um greiðslu fyrir hótelið. Þaðan hafi hún farið til vinkonu sinnar F í Kópavogi og dvalið hjá henni í einhverjar nætur. Hafi hún greint vinkonu sinni F frá atvikinu og F tekið myndir af áverkum A. Séu það myndir í rannsóknargögnum málsins merktar IX/3.2. Hafi F viljað að A færi til Danmerkur til að forðast ákærða. Yfir A hafi hins vegar hellst ótti um að ákærði myndi koma út til Danmerkur og finna hana. Hafi hún því ekki þorað að fara út og ákærði sótt hana.

F kvaðst hafa verið vinkona A. Í júlí 2007 hafi A komið til hennar og beðið hana um að taka myndir af áverkum á sér. Hafi A gist í nokkra daga hjá F í Kópavoginum. Hafi A sagt henni frá ákærða og hátterni hans og að hún ætlaði frá honum. Hafi hún ætlað ein út til Danmerkur. Hafi hún stuttlega lýst því ofbeldi sem hún hafi orðið fyrir af hálfu ákærða. Hafi hún sagt að það væri bæði líkamlegt og kynferðislegt. Hafi A tjáð henni að hún og ákærði hafi verið í samkvæmi. Þar hafi ákærði haft samfarir við aðra konu að A ásjáandi. Á meðan á þeirri dvöl stóð 27. júlí hafi F tekið myndir af áverkum A en þá hafi A verið búin að dvelja hjá henni í nokkra daga. Væru það myndir í rannsóknargögnum málsins merktar IX/3.2. F kvaðst hafa kvatt A að kvöldi til. Næsta dag hafi A sagt að hún væri hætt við að fara til Danmerkur en ákærði hafi hringt í hana og hún í framhaldinu skipt um skoðun.

Niðurstaða:

Ákærða er í 3. tl. A. kafla ákæru gefið að sök líkamsárás gagnvart A með því að hafa í júlí 2007, á þáverandi heimili þeirra að [...] í [...], hent henni á rúm og barið hana með krepptum hnefa nokkur högg í vinstri upphandlegg með þeim afleiðingum að hún hlaut þar stóran marblett. Ákærði neitar sök. Kveðst hann ekki hafa veist að A svo sem ákæra miði við.

Ákærða og A ber saman um tiltekinn hluta atvika umrætt sinn. Ber þeim saman um að þau hafi farið á stað þar sem ákærði hafi haft samræði við konu að A viðstaddri. Hafi A yfirgefið staðinn á undan ákærða og farið heim. Ákærði ber að er hann hafi komið heim hafi A verið með töskur í hendi og á leið á brott frá [...]. Hafi hún farið til Keflavíkur en ákærði hafi sótt hana einhverja næstu daga á heimili F.

A ber hins vegar að hún hafi farið heim og pakkað niður fötum sínum. Ákærði hafi komið heim skömmu síðar og veist að henni. Hafi hann valdið henni þeim áverkum sem ákæra greini frá. Hafi hún í framhaldinu farið með leigubifreið til Keflavíkur en hún hafi ætlað til Danmerkur. Hún hafi dvalið á Hótel Keili í tvær nætur en síðan farið til F vinkonu sinnar í Kópavogi. Hjá F hafi hún dvalið einhverjar nætur. Hafi F tekið myndir af áverkum A og séu það myndir á skjali merkt IX/3.2 í rannsóknargögnum málsins. Við aðalmeðferð málsins greindi F frá atvikum með sama hætti og A að því er varðar dvölina í Kópavogi og staðfesti að hafa tekið þær myndir sem liggja fyrir á skjali merkt IX/3.2. Hafi A lýst því að ákærði hafi veitt henni umrædda áverka. 

Með samhljóða framburði A og F telur dómurinn sannað að ljósmyndir á skjali í rannsóknargögnum málsins merkt IX/3.2 hafi verið teknar á heimili F eftir að A kom þangað í júlí 2007. Þá renna gögn um hótelgistingu A stoðum undir framburð hennar um að hún hafi gist þar í júlí 2007, svo sem hún sjálf heldur fram, og staðfesta í tíma hvenær atburðirnir áttu sér stað. Með vísan til myndar á skjali merktu IX/3.2 og með hliðsjón af trúverðugum framburði A telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi í júlí 2007 á heimili ákærða og A að [...] í [...] veist að A og barið hana með krepptum hnefa hnefahögg í vinstri upphandlegg. Með hliðsjón af umfangi áverkanna telur dómurinn sannað að höggin hafi verið nokkur. Afleiðingarnar voru þær að hún hlaut stóran marblett á vinstri upphandlegg, svo sem áðurnefnd mynd leiðir í ljós. Með hliðsjón af þessum athugasemdum verður ákærði sakfelldur samkvæmt 3. tl. A. kafla ákæru og á háttsemin undir 1. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940, en við aðalmeðferð málsins var málið m.a. reifað með hliðsjón af heimfærslu til refsiákvæða. Var vörn ákærða ekki áfátt af þeim sökum.     

4. tl. A. kafla og 6. tl. B. kafla ákæru.

Aðfaranótt sunnudagsins 23. september 2007 kl. 05.34 fékk lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tilkynningu um að fara að [...] í [...]. Í tilkynningunni kom fram að sonur á heimilinu hafi verið stjórnlaus og í miklum átökum við föður sinn. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu heyrðu lögreglumenn mikinn hávaða frá bakgarði heimilisins við komu á vettvang og héldu lögreglumenn þangað. Í bakgarðinum komu þeir að B, föður ákærða X, ásamt O, nágranna. Er lögreglumenn komu á vettvang héldu B og O ákærða í gólfi anddyris á heimili B. Fram kemur að þeir hafi báðir tjáð lögreglu að ákærði væri búinn að vera ,,alveg snarvitlaus“ og var óskað eftir því að lögregla færi með ákærða af heimilinu. Hafi ákærði orðið rólegri og B og O farið ofan af ákærða. Hafi B verið sjáanlega með áverka í andliti og skurð á nefi. Einnig hafi ákærði verið með sjáanlega áverka í andliti, sérstaklega í kringum munn og á höndum.

Fram kemur að rætt hafi verið við ákærða á staðnum. Hafi hann greint lögreglumönnum frá því að hann hafi verið að koma heim til sín eftir að hafa verið að skemmta sér. Hafi hann og A sambýliskona hans setið við drykkju ásamt kunningjum sínum. Um kl. 03.00 um nóttina hafi þau tekið leigubifreið að [...]. Fljótlega eftir að þau komu heim hafi B faðir ákærða komið niður og byrjað að berja á glugga og hurðir heimilis ákærða. Hafi ákærði farið til dyra og lent í orðaskaki og átökum við föður sinn. 

Í frumskýrslu kemur fram að á meðan lögreglumenn hafi rætt við ákærða hafi Bylgja Hrönn Baldursdóttir lögreglumaður rætt við foreldra ákærða. Í kjölfarið hafi hún greint lögreglumönnum frá því að hún ætlaði niður í íbúð til að aðgæta með sambýliskonu ákærða, A. Skömmu síðar hafi þeir lögreglumenn er rætt hafi við ákærða einnig farið niður ásamt ákærða. Hafi lögreglumaðurinn Vignir Stefánsson staldrað aðeins lengur við í íbúð foreldra ákærða. Hafi móðir ákærða verið í miklu uppnámi og sagt að faðir ákærða hafi ekki átt að vera að skipta sér af ,,alveg sama þó svo að X væri að drepa hana“. Bylgja Hrönn og Pétur Guðmundsson lögreglumenn hafi farið inn í svefnherbergi til A og hafi A legið uppi í rúmi. Skömmu síðar hafi Bylgja komið fram og óskað eftir því að sjúkrabifreið yrði kölluð til vegna áverka er A væri með. Hafi Bylgja tekið eftir því að jakki A var gegnblautur og spurt ákærða hvernig á því stæði. Hafi ákærði sagt að hann gæti engar skýringar á því gefið nema ef vera skyldi að það hafi sullast yfir hana bjór. Hafi lögreglumenn einnig veitt því athygli að buxur ákærða voru blautar á báðum skálmum. Ekki hafi ákærði getað gefið neinar skýringar á því. Ekki hafi neina bleytu verið að sjá í íbúðinni sem skýrt hafi getað ástand A og ákærða. Sjúkrabifreið hafi komið á vettvang og flutt A á slysadeild. Er ákærða hafi verið tjáð að verið væri að flytja A hafi ákærði óskað eftir því að lögregla færi með hann á deildina til að hann gæti fengið að hitta A. Hafi ákærða verið ráðlagt að reyna að sofa til að áfengisvíma rynni af honum. Hafi ákærði ekki viljað það og óskað eftir því að fá að ræða við varðstjóra á lögreglustöð. Hafi ákærði verið fluttur á lögreglustöð þar sem hann hafi verið látinn blása í áfengismæli. Hafi magn áfengis í útöndun mælst 1.65‰. Í viðtali við varðstjóra hafi komið fram að ákærði vildi fara á slysadeild til að hitta A. Hafi ákærða verið tjáð að hann væri frjáls ferða sinna og gæti farið hvert sem væri. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að [...] sé einbýlishús. Búið hafi verið að útbúa litla íbúð á neðstu hæð hússins. Ekki hafi verið hægt að sjá þess greinileg merki að átök hafi átt sér stað í íbúðinni en þó hafi mátt sjá að húsgögn hafi færst til í svefnherbergi ákærða og A. 

Í skýrslu lögreglu kemur fram að starfsfólk slysadeildar Landspítala háskólasjúkrahúss hafi samband við lögreglu rétt um klukkan 10.00 að morgni 23. september 2007 og tilkynnt um veru ákærða á slysadeild. Hafi ákærði óskað eftir að fá að ræða við A sem þá var inniliggjandi. Var ákærði í framhaldi af því handtekinn af lögreglu og vistaður í fangaklefa. Tekin var skýrsla af ákærða eftir dvöl í fangaklefa. Skýrði ákærði þannig frá atvikum að hann og A hafi farið að skemmta sér á skemmtistaðnum Players kvöldið áður. Hafi þau stoppað fremur stutt á staðnum og tekið leigubifreið til baka heim. Er þangað kom hafi þau farið að skiptast á skoðunum. Í framhaldi af því hafi faðir ákærða farið að berja húsið allt að utan. Kvaðst ákærði muna eftir því að faðir hans hafi reynt að opna bakhurð að íbúðinni en ákærði haldið á móti þar til hurðarhúnn að innanverðu hafi brotnað. Hafi faðir ákærða verið með athugasemdir gagnvart því að ákærði og A væru með hávaða. Hafi ákærði á móti haft uppi athugasemdir um að faðir ákærða væri með aðfinnslur gagnvart einhverju sem honum kæmi ekki við. Upp úr þessu hafi sprottið átök á milli ákærða og föður hans. Inn í þau átök hafi A blandast, síðan móðir ákærða og að lokum nágranni. Í átökum á milli ákærða og föður hans hafi A orðið á milli. Hafi ákærði ýtt föður sínum út úr íbúðinni. Hafi ákærði síðan reynt að koma föður sínum inn í íbúðina á efri hæðinni en við það hafi átt sér stað átök á milli þeirra. Hafi móðir ákærða blandast inn í málið. Í framhaldi hafi nágranninn komið og síðan lögregla. Hafi ákærði síðar farið niður í íbúð sína og séð að A hafi komið sér fyrir uppi í rúmi og verið búin að breiða yfir sig sæng. Hafi hún verið eitthvað slösuð eftir lætin. Er undir ákærða var borin frásögn A af atburðum næturinnar kvaðst ákærði ekki hafa farið með A inn í sturtuklefa eða hafa sprautað yfir hana vatni. Engin líkamleg átök hafi orðið á milli þeirra. Fremur hafi verið um rifrildi að ræða þar sem þau hafi skipst á háværum orðum. Ákærði kvað buxur sínar ekki hafa verið blautar eftir sturtuferð. Fremur gætu þær hafa blotnað af bjór sem hellst hafi niður þegar átök við föður ákærða hafi byrjað. Er undir ákærða voru bornir áverkar á A samkvæmt áverkavottorði frá slysadeild Landspítala háskólasjúkrahúsi, bar ákærði að A hafi gengið á milli ákærða og föður hans, en þau hafi öll verið í þröngu herbergi. Ákærði kvaðst ekki áður hafa beitt A ofbeldi. Að því er átök við föður sinn varðaði og hvort hann hafi hótað föður sínum lífláti kvaðst ákærði ekki muna nákvæmlega hvað hann hafi sagt. Hafi ákærði verið orðljótur og geti vel verið að hann hafi hótað föður sínum lífláti í hita leiksins. Ákærði hafi ekki slegið föður sinn hnefahögg. Loks var borið undir ákærða að nágranni hafi séð ákærða elta föður sinn og að hafa séð til átaka þeirra á milli í stofunni. Hafi vitnið aðstoðað föður ákærða við að yfirbuga ákærða. Hafi vitnið heyrt ákærða hóta föður sínum lífláti. Kvaðst ákærði ekki gera athugasemdir við framburð þessa vitnis.  

Rituð hefur verið lögregluskýrsla eftir viðræður lögreglumanns við A á slysadeild sunnudaginn 23. september 2007. Í skýrslunni er tekið fram að A hafi legið á svonefndri gæsludeild. Hafi hún borið þess glögg merki að hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi, en hún hafi verið marin og þrútin víða í andliti, auk þess sem miklir marblettir hafi sést á handleggjum hennar. Hafi hún ekki verið því mótfallin að ræða við lögreglumenn, en lítið viljað tjá sig. Í viðræðum við hana hafi komið fram að hún og ákærði hafi búið saman í þrjú ár. Samband þeirra væri stormasamt og hún oft áður orðið fyrir ofbeldi af hans hálfu. Það hafi þó aldrei verið eins alvarlegt og það síðasta. Hafi þau rifist vegna einhvers eftir að heim var komið nóttina áður. Myndi hún vel eftir því að ákærði hafi hent henni inn í sturtuklefa og hafi hann sprautað þar vatni á hana. Myndi hún ekki vel eftir öðrum átökum og ekki hafa veitt athygli átökum á milli ákærða og föður hans. Væri hún ekki viss um hvort hún myndi vilja fylgja málinu eftir með kæru. 

Þórir Njálsson sérfræðingur á slysa- og bráðadeild Landspítala háskólasjúkrahúss hefur ritað læknisvottorð vegna komu A á deildina aðfaranótt 23. september 2007. Í vottorðinu kemur m.a. fram að við skoðun hafi A verið mjög meðtekin af verkjum í skrokknum og sérstaklega í hægri hluta andlits. Á höfði væri að finna mikið mar hægra megin sem næði frá gagnauga og niður á háls. Allt þar á milli væri stokkbólgið og auðsjáanlega talsverð blóðmassasöfnun þar undir í mjúkvefjum. Hún ætti erfitt með að opna munninn. Hún kvartaði frá neðri kjálka. Við frekari líkamsskoðun kæmu í ljós fleiri sjáanlegir áverkar og væru þeir að þessu sinni taldir eldri. Hún væri með fjöldann allan af marblettum og yfirborðsáverkum á handleggjum og lærum. Ekki gætu röntgenlæknar sýnt fram á beinbrot, hvorki í höfuðkúpu eða í andlitsbeinum. Hins vegar lýsi þeir mikilli bólgu hægra megin í andliti hennar og væri eyra og eyrnagangur allt meira og minna blátt og mjög þrútið. Greining væri yfirborðsáverki á öðrum hluta höfuðs, mar á öxl og upphandlegg, mar á læri, rifbrot og rof á hljóðhimnu hægra megin. Erfitt væri að ræða við A. Tjáði hún sig mest lítið, mest í einsatkvæðisorðum og væri auðsjáanlega mjög skelkuð. Í legu hafi uppgötvast hella í hægra eyra. Við þá skoðun hafi sést að hún væri með rof í hljóðhimnu og svolítið blóð utan við hljóðhimnuna en hins vegar virðist heyrn í lagi. Við skoðun hafi fundist að hún væri klínískt rifbrotin á neðri rifjum í ,,miðaxillar“ línu vinstra megin. Væri það álit læknisins að um hafi verið að ræða fólskulega árás með töluvert mikla yfirborðsáverka, rifbrot og sprungna hljóðhimnu. Hún væri einnig með gamla áverka á efri og neðri útlimum. Áverkar í andliti hægra megin og sprungin hljóðhimna bendi til að A hafi verið slegin a.m.k. nokkrum sinnum á þennan stað til að geta fengið svo mikla sjáanlega áverka.

Á meðal rannsóknargagna málsins eru ljósmyndir teknar af A sem sýna áverka þá sem hún var með við komu á slysadeild. Sýna myndirnar áverka framan í andliti, á hálsi fyrir aftan hægra eyra, á hægri upphandlegg og framhandlegg, á vinstri upphandlegg og á vinstra læri.

Þá eru á meðal rannsóknargagna málsins ljósmyndir er teknar hafa verið af B sunnudaginn 23. september 2007. Bera ljósmyndirnar með sér að B hefur verið með áverka í andliti, en hann er með bólgur á nefi og undir vinstra auga.

Lögreglumaður fór að [...] sunnudaginn 23. september 2007. Hefur hann ritað lögregluskýrslu um viðtal sitt við foreldra ákærða og nágranna þeirra O. Í skýrslunni kemur fram að gætt hafi verið ákvæða laga nr. 19/1991 um vitnaskyldu og vitnaábyrgð sem og 50. gr. laga nr. 19/1991 gagnvart foreldrum ákærða. Faðir ákærða hafi tjáð lögreglumanni að hann hafi vaknað upp við læti frá kjallaraíbúðinni. Um hafi verið að ræða skarkala frá húsgögnum og hróp í fólki. Hafi B þótt þetta óeðlilegt og því farið fram úr til að kanna þetta nánar. Hafi hann síðan vakið konu sína P og látið hana vita af þessu. Því næst hafi hann farið að svalahurð inn í íbúð í kjallara. Hafi hann bankað á hurðina en ekki hafi verið opnað fyrir honum. Hafi hann því barið á glugga. Því næst hafi hann tekið í svalahurð og kallað nafn sonar síns. Örskömmu síðar hafi ákærði rifið upp gluggatjöld og verið tryllingslegur á svipinn. Hafi hann verið mjög æstur og ásakað föður sinn um að stunda njósnir. Hafi B greint frá því að hann hafi lagt á flótta upp tröppur að íbúðinni á efri hæð og ákærði elt hann. Hafi ákærði náð föður sínum í forstofu og snúið þar upp á handlegg B auk þess að lemja hann ítrekað. Hafi þeir oltið um í stofunni og B dottið ofan í stofusófa og ákærði lent ofan á honum. Hafi ákærði ítrekað öskrað og hótað föður sínum að hann myndi drepa hann. Hafi B sagt að hann hafi reynt að verja sig um leið og hann hafi reynt að róa ákærða niður. Hafi það ekki borið árangur og ákærði ítrekað slegið til B. Hafi móðir ákærða P reynt að ganga á milli en án árangurs. Hafi ákærði verið vitstola af bræði og látið höggin dynja á föður sínum. Hafi móðir ákærða kallað eftir lögregluaðstoð. Þá hafi nágrannar vaknað upp við lætin og komið til aðstoðar. B hafi tjáð lögreglumanni að hann hafi ekkert séð til A á meðan á þessu stóð. Hafi hann því ekki orðið vitni að átökum á milli ákærða og A. Hafi lögreglumaður ljósmyndað áverka á B, en B hafi tjáð lögreglumanni að hann ætlaði ekki á slysadeild vegna þeirra. Þá ætlaði hann ekki að leggja fram kæru á hendur syni sínum.

Þá hafi verið rætt við P móður ákærða. Hafi hún greint frá því að hún hafi orðið vitni að heiftarlegum átökum á milli þeirra feðga í forstofu sem borist hafi inn í stofu. Hafi hún reynt að ganga á milli og tala við ákærða en án árangurs. Hafi ákærði verið trylltur af bræði. Hafi hún hringt á lögreglu auk þess sem nágranni þeirra O hafi vaknað upp og komið þeim til aðstoðar. Hafi B og O tekist að yfirbuga ákærða og reynt að halda honum fyrir utan íbúðina en ákærði hafi ítrekað ruðst aftur inn þar til lögregla hafi komið á vettvang. Er haft eftir P að ákærði hafi ítrekað hótað að drepa föður sinn á meðan á átökum hafi staðið. Hafi P lýst því að þetta væri ekki í fyrsta sinn sem ákærði réðist á föður sinn með þessum hætti. Ekki vissi P til þess að ákærði hafi beitt A ofbeldi áður, en hún hafi oft heyrt rifrildi og ágreining á milli þeirra eftir að þau hafi flutt til landsins í ágúst 2007 eftir að hafa verið búsett í útlöndum undanfarin ár.

Loks kemur fram að O hafi greint lögreglumanni frá því að hann hafi vaknað upp við rifrildi og talið það koma frá ákærða og A. Hafi O skömmu síðar staðið upp úr rúminu og litið yfir að [...]. Hafi hann þá séð B hlaupa upp tröppur og ákærða vera á eftir honum. Hafi O orðið undrandi á þessu. Er honum hafi verið litið inn um stofuglugga í framhaldinu hafi hann séð átök á milli feðganna og P vera þar á milli. Hafi hann séð ákærða leggjast ofan á föður sinn í sófa og virst sem hann væri að lemja hann. Hafi O ekki litist á þetta og hann drifið sig í föt og farið yfir götuna. Hafi hann aðstoðað B við að yfirbuga ákærða. Mikil heift hafi verið í ákærða og hann ítrekað hótað föður sínum lífláti. Eftir að þeim hafi tekist að koma ákærða út á stigapall hafi hann reynt að ryðjast aftur inn í íbúðina.

Rituð hefur verið lögregluskýrsla föstudaginn 12. október 2007 eftir símtal lögreglumanns við A. Fram kemur að A hafi ekki viljað leggja fram kæru í málinu og væri það einlægur vilji hennar að lögregla myndi ekkert aðhafast í málinu. Fram kom að A og ákærði væru að vinna saman í sínum málum og væri Margrét Blöndal hjúkrunarfræðingur að aðstoða þau við það. Væri A að sækja viðtöl hjá Margréti, en ákærði væri í viðtölum annars staðar fyrir karlmenn í ofbeldissamböndum. Væri A ekki reiðubúin að mæta til skýrslutöku vegna málsins af ótta við að það myndi spilla fyrir vinnunni við að bæta samskiptin.

Sama dag er rituð lögregluskýrsla í tilefni af símtali lögreglumanns við B föður ákærða. Hafi B lýst því að hann hygðist ekki fylgja málinu eftir með kæru enda um son sinn að ræða.

Föstudaginn 31. október 2008 mætti A á lögreglustöð og lagði fram kæru á hendur ákærða vegna líkamsárásar 23. september 2007. Greindi hún þannig frá atvikum að hún myndi vel eftir atburðinum umrætt sinn þrátt fyrir að hún hafi tjáð lögreglumönnum frá því á sínum tíma að svo væri ekki. Hafi það verið gert til að hlífa ákærða. Hún hafi að undanförnu unnið í sínum málum og væri nú reiðubúin að skýra frá atvikum málsins. Hafi hún og ákærði farið á skemmtistaðinn Players umrætt kvöld. Upp úr kl. 01.00 um nóttina hafi ákærði viljað fara heim. Hafi þau tekið leigubifreið frá Players að [...]. Á leiðinni heim hafi ákærði verið reiður á svip en ekki viljað gefa upp ástæðu fyrir því að vilja yfirgefa Players. Þau hafi bæði verið undir áhrifum áfengis þetta kvöld en ekki ofurölvi. Er heim var komið hafi ákærði ekki fyrr verið búinn að loka útihurðinni en ákærði hafi tjáð henni að þau hafi á Players hitt fyrir fyrrverandi kærasta hennar. Hafi ákærði haldið því fram að A hafi verið að horfa á manninn inni á staðnum. Hafi A tekið fram að umræddan mann hafi hún ekki séð inni á staðnum. Ákærði hafi orðið enn reiðari og byrjað að tuska hana til. Hafi hann um leið heimtað að hún viðurkenndi að hafa séð manninn á staðnum. Hafi ákærði staðið andspænis henni, gripið um báða upphandleggi hennar og hrist hana til. Hafi A ekki viðurkennt að hafa séð umræddan mann og ákærði þá gengið enn harðar fram. Hafi hann slegið hana mjög fast með flötum lófa hægri handar og höggið komið í vinstri kinn A. Höggið hafi verið það fast að A hafi rotast. Það næsta er hún muni hafi verið að hún hafi legið í botni sturtuklefa í íbúðinni undir kaldri vatnsbunu. Hafi hún verið fullklædd. Hafi ákærði staðið fyrir framan sturtuklefann. Hafi hún beygt sig saman og með erfiðismunum gengið fram hjá ákærða, inn í gegnum eldhús og fram á gang. Hafi ákærði farið á eftir henni og hrint henni fram fyrir sig. Hafi hún fallið í gólfið og lent á kviðnum. Hafi hún hniprað sig saman í varnarstöðu til að verjast frekari árásum frá ákærða. Hafi ákærði margsinnis sparkað í höfuð hennar, búk og læri. Hafi hún þá hrópað á hjálp því henni hafi liðið eins og ákærði ætlaði að drepa hana. Eftir skamma stund hafi faðir ákærða komið inn í íbúðina. Hafi B kallað á ákærða hvað hann væri að gera. Hafi ákærði hlaupið á eftir föður sínum, sem flúið hafi upp í íbúð á efri hæð hússins. Hafi hún heyrt hávaða sem borið hafi þess merki að vera vegna átaka berast þaðan. Kvaðst A hafa verið mjög hrædd en ekki þorað að hringja á hjálp þar sem hún hafi óttast að ákærði myndi drepa hana ef hún gerði það. Hafi hún með herkjum gengið að rúmi sínu og lagst í öllum fötum blautum undir sæng. Sængina hafi hún síðan breitt yfir höfuð sitt. Það næsta sem hafi gerst hafi verið að lögreglumaður hafi lýst með vasaljósi framan í hana. Hún hafi því næst verið flutt með sjúkrabifreið á slysadeild þar sem hún hafi undirgengist læknisskoðun. Hjúkrunar­fræðingur hafi tekið ljósmyndir af áverkum á henni. Ákærði hafi komið á slysadeild seinni part næsta dags. Hafi hann þá borið sig aumlega og haft á orði að það hafi verið leiðinlegt sem komið hafi fyrir hana. Hafi hann gefið í skyn að málið kæmi engum við og að þau myndu vinna úr því sjálf. Hafi hann viljað að hún kæmi heim sem fyrst. Starfsfólk spítalans hafi talið hana á að dvelja þar aðra nótt til eftirlits. A hafi ekki þorað að leggja fram kæru á hendur ákærða fyrr en í janúar 2008. Hafi hún fengið stuðning frá lögreglu og heilbrigðiskerfi, auk þess  sem hún hafi verið í vernduðu umhverfi hjá Kvenna­athvarfinu og Hlaðgerðarkoti. Í byrjun janúar 2008 hafi hún lagt fram kæru á hendur ákærða vegna málsins ásamt öðrum brotum fyrir kynferðislegt ofbeldi.

Við aðalmeðferð málsins greindi ákærði þannig frá atvikum málsins að á þessum tíma hafi ákærði og A verið flutt inn í kjallaraíbúð heima hjá foreldrum ákærða. Hafi foreldrar hans ítrekað kvartað undan því að stolið hafi verið bæði peningum og áfengi úr húsnæði foreldranna á efri hæðinni. Hafi foreldrarnir gefið það í skyn að það væri A sem væri að stela. Hafi ákærði orðið foreldrum sínum reiður af þessu tilefni og togstreita myndast á milli ákærða og A annars vegar og foreldra ákærða hins vegar. Þá hafi faðir ákærða sífellt verið að gefa í skyn að eitthvað væri bilað á neðstu hæðinni og viljað gera við. Hafi ákærða og A fundist þetta vera töluverð inngrip í fjölskyldulífið. Umrætt kvöld hafi vinir ákærða og A komið í heimsókn. Hafi þau farið á efri hæð hússins og drukkið þar áfengi. Síðar hafi þau farið á skemmtistað og komið til baka um nóttina. Komið hafi til orðaskaks á milli ákærða og A eftir að heim var komið. Síðar hafi faðir ákærða farið að berja á glugga í íbúðinni. Er ákærði hafi dregið frá glugga hafi faðir hans rifið upp hurð að íbúðinni. Hafi ákærði þá rifið í hurðina á móti og látið nokkur orð falla í garð föður síns. Í framhaldinu hafi faðir ákærða rokið í ákærða og átök orðið þeirra á milli. Í þeim átökum hafi allir slasast, þ.e. ákærði, faðir hans og A, sem orðið hafi á milli í átökunum en íbúðin væri lítil. Hafi ákærði því næst rekið föður sinn út og fylgt honum á eftir. Á efri hæðinni hafi ákærði staðið yfir föður sínum og ausið yfir hann skömmum. Lögregla hafi komið á staðinn í framhaldinu. Kvaðst ákærði muna eftir átökum við föður sinn er faðir ákærða hafi ætlað að koma inn í íbúðina. Um atvik síðar um nóttina væri ákærði ekki viss sökum óminnis. Þá væri ljóst að ljót orð hafi fallið frá ákærða í garð föður hans. Kvaðst hann efast um að hafa hótað föður sínum lífláti. Ákærði hafi ekki verið handtekinn um nóttina. Hafi hann farið á slysadeild um morguninn og viljað hitta A. Það hafi hann hins vegar ekki fengið. Skömmu síðar hafi lögregla komið á staðinn og handtekið ákærða. Hafi verið farið með hann á lögreglustöð. Að því er varði atvikin á heimilinu um nóttina kvað ákærði A sjálfsagt hafa haldið á bjórdós um nóttina. Geti það skýrt það hve blaut hún hafi verið er lögreglu hafi borið að garði. Það sama geti átt við um buxur ákærða.

Við aðalmeðferð málsins greindi A þannig frá atvikum að umrætt sinn hafi hún og ákærði verið á heimili foreldra ákærða að [...]. Þau hafi drukkið áfengi um kvöldið og farið upp til foreldra ákærða. Um nóttina hafi þau farið á skemmtistaðinn Players. Er þau hafi verið þar hafi ákærði skyndilega brjálast og viljað fara heim. Þau hafi farið heim í kjallaraíbúðina í [...]. Þar hafi ákærði sagt að fyrrverandi kærasti A hafi verið á svæðinu og A verið að horfa á hann. Ákærði hafi því næst slegið A með flötum lófa og hún vankast við höggið. Hafi hún rankað við sér í sturtuklefa. Sennilega hafi verið um að ræða sambland af ölvun og högginu sem hafi orsakað það að hún hafi dottið út. Hafi hún komist fram á gang þar sem hún hafi legið er ákærði hafi sparkað í líkama hennar. Hafi spörkin komið í læri, búk og andlit A. Spörkin í höfuðið hafi verið ítrekuð og A öskrað á hjálp þar sem henni hafi fundist sem ákærði gæti verið að drepa hana. Faðir ákærða hafi í framhaldinu opnað svalahurð að íbúðinni og öskrað inn hvað ákærði væri að gera. Ákærði hafi farið á eftir föður sínum og A heyrt lætin alla leið niður. Hafi hún klöngrast upp í rúmið sitt og breitt sæng yfir höfuð. Eftir að lætin hafi hætt hafi lögreglumaður skyndilega lýst með vasaljósi í andlit hennar. Í framhaldinu hafi verið hringt á sjúkrabifreið og A flutt á slysadeild. Á slysadeild hafi hún verið í einn og hálfan sólarhring. Hafi hún frétt af því að ákærði hafi komið á deildina. A kvaðst hafa átt erfitt með að hreyfa kjálka eftir atlöguna en það hafi sennilega verið vegna bólgna. Þá hafi hún verið mikið bólgin. A hafi verið bent á að fara í áfallahjálp hjá Margréti Blöndal hjúkrunarfræðingi. Á sama tíma hafi ákærða verið bent á að fara í aðstoð fyrir karlmenn í ofbeldissamböndum. Hafi ákærði farið tvisvar sinnum í slík viðtöl. Hafi honum í framhaldi verið vísað úr þeirri meðferð þar sem hann hafi viljað hafa A með sér í viðtölunum. A kvaðst hafa unnið í barnaskóla á þessum tíma en ekki getað farið í skólann um hríð vegna áverkanna. Hafi hún ekki rætt þetta atvik sérstaklega við ákærða þó svo ákærði hafi einu sinni sagt að þau gætu ekki haft hlutina með þessum hætti.

O kvaðst hafa heyrt læti aðfaranótt 23. september 2007 úr húsi handan götunnar. Hafi hann séð fólk á ferli. Hafi hann farið í fötin og gengið yfir götuna að húsinu, en foreldra ákærða hafi O þekkt vel. Er O hafi komið á staðinn hafi ákærði verið í stofu hjá foreldrum sínum og foreldrar hans setið í sófa. Heitar umræður hafi verið í gangi. Hafi ákærði verið reiður. Hafi ákærða lent saman við föður sinn og O hjálpað föður ákærða við að koma ákærða út. Kvaðst O hafa séð átök á milli ákærða og föður hans og hafi móðir ákærða orðið á milli.

Þórir Njálsson læknir staðfesti fyrir dómi læknisvottorð sitt vegna A. Kvað hann erfitt hafa verið að nálgast A í fyrstu. Hafi hún verið í sjokki og hrædd. Við skoðun hafi komið í ljós áverkar á líkama hennar. Hafi hún síðan lýst atvikum fyrir Þóri. A hafi verið bólgin og illa marin hægra megin í andliti. Hafi áverkar verið slíkir að talsverðan tíma hafi tekið að fá þá. Hafi áverkarnir komið heim og saman við að A hafi orðið fyrir árás. Væri ekki líklegt að þeir hafi komið við það að hún hafi orðið á milli í átökum manna. Miðað við reynsluna þyrfti fleiri en þrjú högg til að valda slíkum áverkum. Þórir hafi ritað tvö vottorð vegna A. Hafi það seinna verið ritað þar sem í ljós hafi komið eftir fyrstu skoðun rifbrot. Seinna vottorðið hafi verið ritað síðar sama dag.

Q kvaðst hafa verið yfirmaður A á [...] á meðan A hafi unnið þar. Hafi Q ráðið A til vinnu í ágúst 2007 í tengslum við skólaheilsugæslu. Hafi A byrjað að vinna í þeim mánuði. A hafi komið Q vel fyrir sjónir. Hafi hún vitað af því að A hafi átt við lystarstol að ræða sem hún hafi unnið á. A hafi lent á bráðamóttöku Landspítala háskjólasjúkrahúss eftir atvik aðfaranótt 23. september 2007. Hafi hún verið frá vinnu í rúma viku vegna áverkanna. Hafi Q heimsótt A á deildina. Í viðtali við A hafi hún sagt að orsök áverka sinna væri að henni hafi lent saman við sambýlismann sinn.

R kvaðst hafa verið vinnufélagi A á [...]. Hafi þær byrjað að vinna saman í ágúst 2007, er A hafi komið til starfa. Í september 2007 hafi þær starfað saman sem skólahjúkrunar­fræðingar. Eftir atvikið 23. september 2007 hafi A mætt til vinnu öll marin og blá. Hafi hún sagt áverkana eftir sambýlismann sinn.

Lögreglumennirnir Vignir Stefánsson, Pétur Guðmundsson, Bylgja Hrönn Baldursdóttir og Þórður Geir Þorsteinsson komu fyrir dóminn og staðfestu þátt sinn í rannsókn málsins. Vignir kvaðst hafa ritað frumskýrslu lögreglu vegna málsins. Er lögreglumenn hafi borið að garði hafi ákærði, faðir hans og nágranni verið í átökum og ákærði á gólfinu. Þá hafi ákærði verið orðinn rólegur og lögreglumenn rætt við hann. Komið hafi í ljós að sambýliskona ákærða hafi verið í íbúð á neðri hæð hússins og lögreglumaður farið að aðgæta með hana. Í kjölfarið hafi verið kallað eftir sjúkrabifreið til að flytja hana á slysadeild. Í svefnherbergi í kjallaraíbúðinni hafi mátt sjá ummerki eftir átök. Áverkar hafi sést á föður ákærða, en hann hafi verið með roða í andliti. Ákærði hafi sjálfur verið með minniháttar áverka. Buxnaskálmar hans hafi verið blautar. Hafi Vignir heyrt móður ákærða segja við föður ákærða að faðirinn ætti ekki að skipta sér af ákærða og A jafnvel þó verið væri að drepa hana. Vignir kvaðst ekki hafa fundið bjórlykt af blautum fötum ákærða, en slíka lykt þekkti Vignir vel úr starfi sínu. Pétur Guðmundsson kvaðst hafa veitt því athygli að sturta í íbúð í kjallara hafi nýlega verið notuð. Hafi hann tekið eftir því að konan í íbúðinni hafi verið í blautum fötum. Bylgja Hrönn bar að hjónin á efri hæðinni hafi rætt um konu í íbúð í kjallara. Hafi Bylgja af þeim sökum farið niður í íbúðina. Þar hafi hún séð að eitthvað hafi gengið á. Hafi hún fundið konu uppi í rúmi með sæng yfir sér. Hafi konan verið í blautum fötum. Konan hafi hins vegar ekkert viljað segja en vafið sig þétt inn í sængina. Hafi allt verið blautt og konan ekki eðlileg. Hafi hún m.a. ekki viljað sýna áverka sem hún hafi verið með. Hafi Bylgja látið kalla á sjúkrabifreið fyrir konuna. Ekki hafi konan verið blaut af bjór því það hefði ekki leynt sér á lyktinni. Þórður Geir kvaðst hafa farið beint á slysadeild og rætt þar við A. Hafi hún lítið viljað ræða við lögreglu en sagt að einhver átök hafi átt sér stað á milli hennar og ákærða og hafi það ekki verið í fyrsta sinn. Hafi Þórður rætt málið við hana nokkru síðar en A ekki viljað fylgja málinu eftir þar sem A og ákærði væru að vinna í sínum málum. Hafi hún nafngreint hjúkrunarfræðing er hún væri hjá. Þórður kvaðst einnig hafa farið að [...]. Þar hafi hann rætt við föður ákærða, móður hans og nágranna um atvikið. Hafi þau lýst atvikum umrætt sinn og Þórður fært lýsingu þeirra í lögregluskýrslu. 

Niðurstaða:

Ákærða er í 4. tl. A. kafla ákæru gefið að sök líkamsárás með því að hafa veist að A á heimili þeirra að [...] í [...] aðfaranótt 23. september 2007. Er ákærða gefið að sök að hafa tekið um upphandlegg A og hrist hana, slegið hana með flötum lófa á kinn svo hún missti meðvitund, komið henni fyrir í botni sturtuklefa í baðherbergi íbúðarinnar og sprautað yfir hana köldu vatni. Þá að hafa hrint henni á gólfið í gangi íbúðarinnar og þar margsinnis sparkað í höfuð hennar, búk og læri. Af atlögunni á A að hafa hlotið mar og bólgu hægra megin á höfði frá gagnauga og niður á háls, mar og bólgu á hægra eyra og rof á hljóðhimnu, yfirborðsáverka á höfði, marblett á útlimum og rifbeinsbrot á 9. rifi vinstra megin. Ákærði neitar sök. Hefur hann staðhæft að A geti hafa fengið þá áverka sem í ákæru greinir við það að hafa orðið á milli í átökum ákærða við föður ákærða.

Í málinu liggur fyrir læknisvottorð sem lýsir áverkum A. Kemur lýsing hennar á atvikinu, sem er í samræmi við ákæru, heim og saman við áverka þá sem hún fékk þessa nótt að því er Þórir Njálsson læknir hefur staðfest. Hefur hann jafnframt borið að ólíklegt sé að A hafi getað fengið þessa áverka við það að verða á milli í átökum tveggja manna. Áverka á andliti hafi hún ekki getað fengið nema við endurtekin högg. A var blaut er lögreglumenn komu að henni. Þá voru báðar buxnaskálmar ákærða blautar samkvæmt því sem lögreglumenn hafa borið. Styður hvoru tveggja frásögn A af atburðinum. Hafa tilgátur ákærða um að A hafi blotnað við það að hella yfir sig bjór, ekki fengið stuðning í framburði þeirra lögreglumanna sem komu að A eða þeirra sem handtóku ákærða en lögreglumenn þessir hafa hafnað því að bjórlykt hafi verið af blautum fötum þeirra. Þá verður að telja einkar líklegt að ástæða þess að faðir ákærða fór á neðri hæð hússins þessa nótt hafi verið hávaði sem heyrst hafi úr íbúðinni vegna átaka á milli ákærða og A. Samrýmist það þeirri lýsingu A að hún hafi öskrað á hjálp þar sem hún hafi talið ákærða vera að drepa sig þar sem hann hafi ítrekað sparkað í höfuð hennar. Þegar framangreind atriði eru virt telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi valdið A þeim áverkum er í ákæru greinir og að atvik hafi verið með þeim hætti er hún hefur lýst og fram koma í ákæru. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt 4. tl. A. kafla ákæru. Ákærði hefur m.a. verið sakfelldur fyrir að hafa margsinnis sparkað í höfuð A þar sem A lá á gangi íbúðarinnar. Af þessum spörkum hlaut hún yfirgripsmikla áverka á höfði og hálsi og rof á hljóðhimnu. Sú háttsemi ákærða að sparka ítrekað í höfuð liggjandi konunnar var stórháskaleg og hefði getað valdið gríðarlega miklu líkamstjóni. Er um að ræða sérstaklega hættulega líkamsárás sem felld verður undir 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940.

Ákærða er í 6. tl. B. kafla ákæru gefið að sök líkamsárás með því að hafa sömu nótt og greinir í 4. tl. A. kafla ákæru veist að föður sínum í forstofu og stofu á efri hæð hússins að [...], snúið upp á handlegg hans, slegið hann margsinnis, tekið hann hálstaki og ítrekað hótað honum lífláti. Við atlöguna á B, faðir ákærða, að hafa hlotið áverka á andliti, skurð á nef og áverka á líkama. Ákærði neitar sök samkvæmt þessum ákærulið. Hefur hann ekki viljað útiloka að áverkar á föður sínum stafi frá ákærða. Þá kveður hann ósennilegt að hann hafi hótað föður sínum lífláti þó svo hann hafi látið ófögur orð falla í hans garð um nóttina.

Að því er sakarefni samkvæmt þessum lið ákæru varðar, liggur fyrir skýrsla lögreglumanns um það sem hann hefur eftir föður ákærða og móður. Kemur fram í skýrslunni að hann hafi leiðbeint þeim um að þau gætu skorast undan vitnaskyldu í ljósi tengsla við ákærða. Þau hafi að því búnu lýst fyrir lögreglumanninum að ákærði hafi veist að föður sínum með þeim hætti er í ákæru greinir. Þá hefur nágranninn O staðfest að ákærði hafi veist að föður sínum þessa nótt og að það hafi verið tilefni þess að O fór yfir götuna og til nágranna sinna. O gat ekki staðfest fyrir dóminum um hótanir ákærða í garð föður síns, en lögreglumaður hefur fært það í skýrslu sína eftir viðtal við O á vettvangi.

Þá liggur fyrir að ákærði hefur viðurkennt að hafa látið slæm orð falla í garð föður síns þessa nótt. Loks liggja fyrir í rannsóknargögnum málsins ljósmyndir er teknar voru af B næsta dag. Þær sýna B með áverka á nefi og undir vinstra auga. Þegar til þessara atriða er litið er að mati dómsins komin fram lögfull sönnun um að ákærði hafi veist að föður sínum, slegið hann margsinnis og að hafa veitt honum áverka á andliti og skurð á nefi. Þá verður hann, í ljósi afdráttarlausra yfirlýsinga foreldra ákærða og nágranna við lögreglumann og með hliðsjón af því að hafa lýst því yfir að hafa látið ljót orð falla í garð föður síns, sakfelldur fyrir að hafa hótað föður sínum lífláti. Með hliðsjón af þessum athugasemdum verður ákærði sakfelldur samkvæmt 6. tl. B. kafla ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

5. tl. A. kafla ákæru.

Sunnudaginn 20. janúar 2008 mætti A á lögreglustöð og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir líkamsárás aðfaranótt föstudagsins 21. desember 2007. Við skýrslugjöf hjá lögreglu þann dag skýrði hún frá atvikum málsins. Í skýrslunni kom m.a. fram að hún og ákærði hafi farið í bæinn fyrir miðnætti. Um nóttina hafi þau farið á Nonnabita í Hafnarstræti og keypt sér sitt hvorn bátinn. Þau hafi farið í leigubifreið heim í [...] þar sem þau hafi ætlað að borða matinn. Ákærði hafi horft á klámrás og A beðið hann um að slökkva. Hafi ákærði gert það en orðið pirraður og kvartað yfir því hve lítið hún hafi borðað. Hafi hann reiðst og slegið hana föstu höggi í hægri síðu. Þá hafi þau setið hlið við hlið í sófa. Hafi hún fundi fyrir miklum sársauka í síðunni. Hafi A þá beðið ákærða um að kveikja aftur á klámrásinni til að forðast frekari barsmíðar. Hafi hann neitað því. Hafi hún þá gripið í bátinn til að borða en ákærði þá slegið þéttingsfast ofan á hægri handarbak hennar. Hafi hún talið hönd sína brotna en hún hafi fundið fyrir miklum sársauka. Hafi ákærði tekið bátinn hennar og borðað hann. Eftir það hafi hann staðið á fætur, snúið sér að henni og farið að ganga í skrokk á henni. Hafi hún sett sig í varnarstellingu en það hafi hún gert með því að hnipra sig saman í sófa og snúið hægri hlið að ákærða. Hafi ákærði látið hnefahöggin dynja á henni. Hafi hann slegið hana með flötum lófa ofan á höfuðið og víðs vegar um hægri upp- og framhandlegg og framan á hægra læri. Hafi ákærði slegið hana með krepptum hnefa hægri handar. Höggin hafi verið minnst 8 eða 9 og verið föst. Árásin hafi staðið í um 20 mínútur. Í framhaldinu hafi ákærði rokið upp í rúm í fötunum og farið að sofa. Hafi A setið áfram í sófanum og ekki þorað að hreyfa sig. Hafi hún beðið eftir að ákærði sofnaði. Eftir að ákærði hafi sofnað hafi hún sofnað í sófanum. Næsta morgun hafi hún ekið ákærða í vinnuna. Hafi þau ekki rætt neitt um árásina. Hún hafi á þessum tíma starfað sem skólahjúkrunarfræðingur. Hafi hún farið í vinnuna og verið þar stutta stund. Hún hafi síðan ákveðið að fara á slysadeild og láta kanna áverkana. Hafi hún gert það á meðan ákærði hafi verið í vinnunni en hún hafi ekki viljað að hann vissi af því. Eftir skoðun á slysadeild hafi hún sótt ákærða í vinnuna. Hafi þau ekkert rætt málið.

Ólafur Ragnar Ingimarsson sérfræðingur á slysa- og bráðasviði Landspítala háskólasjúkrahúss hefur 28. janúar 2008, ritað læknisvottorð vegna komu A á deildina 21. desember 2007 kl. 10.20. Í vottorðinu er því lýst að hún hafi orðið fyrir barsmíðum af hálfu sambýlismanns. Hafi hún lýst því að sambýlismaðurinn hafi kýlt hana ítrekað í bringu, handlegg og höfuð. Við skoðun sjáist á hægri handlegg tveir marblettir annar 2 x 2 cm og hinn 4 x 4 cm. Á framhandlegg sé marblettur 2 x 4 cm og sé A aum þar yfir. Við skoðun á brjóstkassa sé hún mjög aum rétt fyrir neðan hægra brjóst.

Ákærði var yfirheyrður af lögreglu vegna málsins 4. febrúar 2008. Þá gaf hann skýrslu um atvikið við aðalmeðferð málsins. Ákærði kvaðst ekki kannast við atvik samkvæmt 5. tl. A. kafla ákæru eða þá lýsingu er A gæfi á atvikum umrætt kvöld. Finnist ákærða sem A hafi oftsinnis lýst einhverjum atvikum sem snúist hafi um mat. Þetta kvöld hafi ákærði verið farinn að sofa löngu á undan A en hann hafi verið mættur til vinnu kl. 7.30 næsta morgun. Kveðst ákærði ekki muna eftir að A hafi verið með marbletti á þessum tíma eða að hún hafi farið á slysadeild næsta dag. Kveðst ákærði ekki kannast við lýsingu í læknisvottorði í rannsóknargögnum málsins undir máli nr. 4809 sem merkt sé III/1. Finnist honum sem lýsing í vottorðinu fari um víðan völl. Þá kvaðst ákærði ekki kannast við að hafa tekið ljósmynd sem merkt sé í rannsóknargögnum málsins IV/5. Myndin sýni greinilega marbletti en ákærði kannist ekki við þá eða viti af hverju þeir hafi stafað.  

A bar með þeim hætti við aðalmeðferð málsins að umrætt kvöld hafi hún og ákærði verið á heimili þeirra að [...] í [...]. Ákærði hafi verið pirraður því A hafi ekki borðað nóg af mat. Ákærði hafi lamið í hægri síðu A með krepptum hnefa. Hafi hún þá ákveðið að borða meira. Í framhaldinu hafi ákærði lamið með krepptum hnefa og höggið komið ofan í handarbak A. Í framhaldinu hafi hann slegið með flötum lófa í höfuð hennar og með hnefa lamið hana í handlegg. Hafi árásin verið lík fyrri árásum ákærða og hún farið í varnarstöðu. Atlögunni hafi síðan lokið og ákærði farið að sofa. A kvaðst hafa verið hrædd á þessum tíma. Jól hafi nálgast sem hafi þýtt að langt frí væri framundan sem hún þyrfti að verja með ákærða. Hafi hún orðið mjög stressuð og óttast að allt myndi fara illa þar sem hún hafi búið við langvinnt ofbeldi. Hafi hún farið á slysadeild eftir atlöguna og fengið áverkavottorð. Hafi þetta verið í fyrsta sinn sem hún hafi hagað málum á þennan veg. Hafi hún verið hrædd á þessum tíma. Margrét Blöndal hjúkrunarfræðingur hafi haft samband við hana og viljað láta taka myndir af henni. Ákærði hafi tekið mynd af A í fríi um jólin 2007 og sé hún merkt IV/5 í rannsóknargögnum málsins. Þeir áverkar sem þar komi fram hafi komið í atlögunni 21. desember 2007.

Ólafur Ragnar Ingimarsson sérfræðingur á slysa- og bráðasviði Landspítala háskólasjúkrahúss staðfesti læknisvottorð vegna A frá 28. janúar 2008 vegna 5. tl. A. kafla ákæru. Áverkar A hafi ekki verið alvarlegir en hún samt sem áður fundið fyrir miklum verk í brjóstkassa. Þá hafi verið um fleiri áverka að ræða sem fram komi í vottorðinu. Hafi Ólafur séð ástæðu til að láta taka röntgenmynd af hendi og lungum því grunur hafi verið um klínískt rifbeinsbrot. Áverkarnir hafi samrýmst þeirri sögu sem A hafi gefið um ástæður áverkanna. Ástæða þess að sjúklingar væru látnir segja sögu sína væri sú að þá væri samhliða metið í hversu ítarlega rannsókn setja þyrfti viðkomandi einstakling.

Niðurstaða:

Ákærða er í 5. tl. A. kafla ákæru gefið að sök líkamsárás með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 21. desember 2007 á heimili ákærða og A að [...], slegið A föstu höggi í hægri síðu, slegið hana hnefahöggi á hægra handarbak, slegið einu sinni með flötum lofa ofan á höfuð hennar og slegið hana ítrekað með krepptum hnefa hægri handar í hægri upp- og framhandlegg og framan á hægra læri. Við þetta á A að hafa hlotið eymsli og mar á brjóstkassa hægra megin, mar og bólgur yfir grunnliðum II. og III. fingurs hægri handar og marbletti á hægri upp- og framhandlegg. Ákærði neitar sök. Kveðst hann ekki kannast við að hafa veitt A umrædda áverka. Kannast hann við undanfarandi atburði kvöldsins og næturinnar en kveðst hafa farið snemma að sofa þar sem hann hafi þurft að mæta til vinnu kl. 7.30 næsta morgun.

A hefur lýst atlögunni með þeim hætti er ákæra miðar við. Þá hefur hún staðhæft að hún hafi farið á slysadeild næsta dag þar sem hún hafi gengist undir læknisskoðun. Hafi hún við þá skoðun lýst atvikum málsins. Ákærði hafi tekið mynd af A um jólin 2007 og sé sú mynd í rannsóknargögnum málsins merkt IV/5. Á myndinni megi sjá eftirstöðvar áverkanna frá aðfaranótt 21. desember 2007.

Við mat á niðurstöðu er til þess að líta að framburður A um atvik hefur verið trúverðugur að mati dómsins. Sækir hann m.a. stoð í læknisvottorð sem gert hefur verið og tengist för hennar á slysadeild daginn eftir atlöguna. Samrýmast áverkar samkvæmt áverkavottorði lýsingu A á atvikinu samkvæmt framburði læknis er skoðaði A. Þá styrkir þessa niðurstöðu mynd í rannsóknargögnum málsins sem merkt er IV/5. Af þeirri mynd má sjá A en skráð er í lögregluskýrslu að myndin sé tekin 30. desember 2008. Víst má telja að þar sé um ritvillu að ræða þar sem lögregluskýrslan er rituð 8. september 2008. Á ártalið því að vera 2007. Ákærði hefur ekki viljað kannast við þessa mynd eða að hafa tekið hana. Er sá framburður ákærða ótrúverðugur í ljósi þess hvenær myndin er tekin og miðað við klæðaburð A á myndinni. Af myndum má sjá marbletti á hægri upphandlegg og hægri framhandlegg. Með hliðsjón af trúverðugum framburði A og í ljósi þeirra sönnunargagna sem hér hafa verið rakin og miðað við ótrúverðugan framburð ákærða telur dómurinn hafið yfir allan vafa að ákærði hafi veist að A og valdið henni áverkum sem ákæra miðar við. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt þessum tölulið ákæru. Á háttsemi ákærða undir 1. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940, en við aðalmeðferð málsins var málið m.a. reifað með hliðsjón af heimfærslu til refsiákvæða. Var vörn ákærða ekki áfátt af þeim sökum.  

7. til 12. tl. C. kafla ákæru.

Með úrskurði héraðsdóms 10. janúar 2008 var lögreglu heimiluð leit á heimili ákærða að [...] í [...]. Í skýrslu lögreglu sem merkt er VII/2.3 kemur fram að í framhaldi af kæru A á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot hafi að kvöldi 10. janúar 2008 verið farið að heimili ákærða að [...]. Hafi ákærði orðið fyrir svörum og honum afhent endurrit úrskurðar um heimild til húsleitar. Hafi ákærði verið handtekinn á sama tíma. Í skýrslunni er rakið um aðstæður á vettvangi og húsaskipan. Rituð hefur verið munaskýrsla lögreglu um haldlagningu sem fram hefur farið að [...] í [...] 10. janúar 2008. Samkvæmt skýrslunni hefur verið haldlagt Apple Macintosh fartölva, Olympus stafræn myndavél, Samsung Digimax stafræn myndavél, tveir minnislyklar, Seagate harður diskur, IBM fartölva, tveir Nokia 6120 farsímar, Nokia 1600 farsími og geisladiskur. Í skjali VIII/1 eru ljósmyndir tæknideildar lögreglu sem teknar voru við húsleitina að [...] og sýna aðstæður á vettvangi.

Rituð hefur verið lögregluskýrsla 13. janúar 2008 sem merkt er VII/18 í rannsóknargögnum málsins. Samkvæmt skýrslunni óskaði starfsmaður Kvenna­athvarfsins eftir því að lögregla væri viðstödd á meðan A næði í persónulega muni sína og fatnað í sinni eigu að [...] í [...]. Ástæða óska viðveru lögreglu hafi verið ótti við að ákærði kæmi á staðinn. Hafi starfsmenn Kvennaathvarfsins verið í fylgd með A. Fram kemur að ákærði hafi ekki verið heima og ekki komið á þeim 15 mínútum sem tekið hafi A að nálgast eigur sínar.   

Lögregla hefur ritað lögregluskýrslu 18. janúar 2008 sem merkt er IV/1.1. í rannsóknargögnum málsins vegna rannsóknar á gagnageymslum. Kemur fram að rannsakaðar hafi verið Apple Macintosh fartölva, Olympus stafræn myndavél, Samsung Digimax stafræn myndavél, tveir minnislyklar, Seagate harður diskur, IBM fartölva, tveir Nokia 6120 farsímar, Nokia 1600 farsími og geisladiskur. Í ljós hafi komið á Macintosh fartölvu 211 ljósmyndir sem sýnt hafi fullorðið fólk við kynlífsathafnir. Líklega væri alltaf um sömu konuna að ræða en fleiri en einn karlmaður kæmu við sögu. Við skoðun á Olympus myndavél hafi komið í ljós þrjú myndskeið sem sýnt hafi fullorðið fólk í kynlífsathöfnum. Á myndavél af gerðinni Samsung hafi fundist sextán myndskeið og 105 ljósmyndir. Allar ljósmyndirnar og myndskeiðin sýni sömu konuna í kynlífsstellingum. Í einu myndbandanna sjáist bregða fyrir karlmanni. Á minnislykli hafi fundist 58 ljósmyndir sem sýni fullorðið fólk í kynlífsathöfnum. Um sé að ræða sömu konuna í öllum tilvikum en fleiri en einn karlmann. Á Seagate hörðum diski hafi fundist 227 ljósmyndir sem sýni fullorðið fólk í kynlífsathöfnum. Í öllum tilvikum sé um sömu konuna að ræða en fleiri en einn karlmann. Á hörðum diski af IBM fartölvu hafi fundist 63 ljósmyndir sem sýni fullorðið fólk í kynlífsathöfnum. Í öllum tilfellum sé um sömu konu að ræða en fleiri en einn karlmann. Á myndskeiði í Nokia 6120 farsíma hafi verið eitt myndskeið sem sýni fólk í kynlífsathöfnum.

Rituð hefur verið lögregluskýrsla 15. janúar 2008 merkt IV/2.1 um skoðun mynda á Apple tölvu A. Kemur fram að myndirnar sýni ýmsa óþekkta karlmenn og ákærða eiga kynmök við A. Á sumum myndanna megi sjá A með áverka eins og eftir barsmíðar. Hafa sjö myndir verið prentaðar út og þær fengið númerin IV/2.2 1 til 7.

Rituð hefur verið lögregluskýrsla 22. janúar 2008 um afhendingu ljósmynda. Er skýrslan merkt IV/3.1. Með skýrslunni fylgja 6 ljósmyndir undir sama númeri merktar 1 til 6. Er tekið fram að A hafi farið til [...] í Noregi vikuna á undan þar sem hún og ákærði eigi íbúð. Hafi hún afhent lögreglu umræddar 6 ljósmyndir sem hún hafi komið með að utan. Hafi A lýst því að myndir nr. 1 og 2 sýni hana og ákærða með pari sem þau hafi hitt í Osló. Hafi hún skýrt frá samskiptum við parið í lögregluyfirheyrslu 17. janúar 2008 og komi skýringin fram á blaðsíðu 5 í endurritinu. Þá hafi hún greint frá því að myndir nr. 3 til 6 sýni athafnir sem fram hafi farið í Grikklandi vorið 2005 en frá þeim athöfnum hafi hún greint í lögregluyfirheyrslu 10. janúar 2008.

Rituð hefur verið lögregluskýrsla 8. september 2008 merkt IV/6 vegna upplýsinga um ljósmynd. Er tekið fram að á mun samkvæmt munaskrá nr. 258644, sem er Macintosh fartölva, hafi fundist mynd. Samkvæmt skrá hafi myndin verið tekin 30. desember 2008. Á myndinni megi sjá stóra marbletti á hægri upphandlegg og á hægri framhandlegg A. Megi ætla að þeir séu til komnir vegna ofbeldis. Meðfylgjandi skýrslunni er umrædd mynd.

Á meðal rannsóknargagna málsins merkt VI/5.3. er staðfesting frá Samtökum áhugafólks um áfengis- og vímuefnavanda að A hafi verið innrituð á Sjúkrahúsið Vog 7. apríl 2007 og hafi hún dvalið þar til 17. apríl 2007. Hafi hún verið innrituð á Endurhæfingarheimilið Vík 19. apríl 2007 en yfirgefið stofnunina að eigin ósk 7 dögum síðar eða 25. apríl 2007.

Á meðal rannsóknargagna málsins er skjal merkt VI/6.2 en það er staðfesting frá Kvennaathvarfinu um að A hafi dvalið í athvarfinu vegna heimilisofbeldis 9. janúar til 13. febrúar 2008 og aftur frá 10. mars til 3. apríl 2008. 

Ákærði hefur fyrir dómi staðfest að þau tilvik sem fram koma í 7. til 12. tl. C. kafla ákæru hafi öll farið fram og með þeim hætti sem þar sé lýst. Ákærði kvaðst hins vegar ekki hafa neytt A til þessara kynferðisathafna með hótunum um ofbeldi eða annars konar ólögmætri nauðung. Hafi athafnirnar farið fram með fullu samþykki hennar. Um hafi verið að ræða fleiri tilvik en þau sem fram kæmu í ákæru. Í öllum tilvikum samkvæmt ákæru hafi athafnirnar farið fram að undirlagi A eða að hennar frumkvæði. Þegar ákærði væri að vísa til þess að þær hafi farið fram að hennar frumkvæði ætti ákærði við að hún hafi verið leiðandi. Með undirlagi ætti ákærði við að hún og ákærði hafi sammælst um hlutina. Í þeim tilvikum hafi í raun báðir aðilar átt frumkvæðið. Hafi ákærði sjálfur tekið þátt í einhverjum tilvikum. Þá kvaðst hann kannast við að hafa tekið þær myndir sem fram kæmu í rannsóknargögnum málsins varðandi atvikin.

Ákærði bar að áður en A hafi flutt út til ákærða á árinu 2005 hafi hún lýst því fyrir ákærða, bæði í símtölum og tölvupóstssamskiptum, að hún hafi átt vingott við giftan mann. Í þessum samtölum þeirra hafi borið á umræðu um kynlíf með þriðja aðila. Í ferð ákærða og A til Grikklands vorið 2005 hafi A síðan haft orð á þessu en í þeirri ferð hafi þau í fyrsta sinn stundað kynlíf með þriðja aðila. Ákærði og A hafi í öllum tilvikum verið undir áhrifum áfengis þegar athafnirnar hafi átt sér stað. Samskiptum við aðkomumennina hafi alltaf verið komið á í gegnum internetið og A í framhaldinu oft hringt í viðkomandi einstaklinga. Ákærði kvaðst vera þeirrar skoðunar að hann hafi gengið langt í því að halda A góðri og gera henni til hæfis. Sú hugmynd að taka athafnirnar upp á myndband hafi komið upp úr samtali ákærða og A. Hafi þau átt ljósmyndir frá því þau voru í Grikklandi vorið 2005 og það sennilega verið kveikjan að myndatökunum. Að mati ákærða hafi það ekki verið óeðlilegt fyrir þau að eiga kynlíf með þriðja aðila, þó svo það væri sennilega ekki normið í samfélaginu.  

Að því er varði einstaka töluliði kaflans kvaðst ákærði ekki kannast við að D samkvæmt 11. tl. ákæru hafi spurt ákærða að því hvort hann væri að drottna yfir A. Að því er varði ljósmynd í rannsóknargögnum málsins merkt IV/2.1 nr. 1 geti ákærði ekki svarað því af hverju A væri grátandi á myndinni. Hafi hún sjálfsagt viljað hætta í það sinnið og örugglega fengið það.

A staðfesti að þau tilvik sem rakin væru í C. kafla ákæru væru öll rétt. Hafi ákærði meira og minna sjálfur tekið þátt í hinum kynferðislegu athöfnum í kaflanum. Hafi ákærði í öllum tilvikum ákveðið að stofnað skyldi til hinna kynferðislegu athafna. Hafi val A staðið á milli þess að samþykkja athafnirnar eða verða að öðrum kosti fyrir líkamlegu ofbeldi. Kvaðst A alltaf hafa mótmælt þessum athöfnum og beðið ákærða um að hætta og halda ekki áfram þó svo búið hafi verið að finna tiltekna karlmenn til athafna. Þau tilvik sem fram komi í kaflanum hafi flest verið tekin upp. Á einhverjum myndum megi sjá hana brosa en það hafi verið þar sem hún hafi vandað sig mikið. Hafi hún reynt að halda öllum góðum. Atvikin hafi staðið yfir í misjafnlega langan tíma og allt upp í hálfan sólarhring. Eigi það við um tilvik samkvæmt 8. tl. Oft hafi tilvikin tekið 6 klukkustundir en stundum verið stutt. A kvaðst ekki hafa tjáð þeim mönnum sem átt hafi við hana kynferðislegar athafnir að þær færu fram gegn hennar vilja. Hafi hún ekki séð neinn tilgang í því að gera það þar sem ákærði hafi stjórnað för. Hafi hún óttast viðbrögð ákærða. Að því er varðaði tímabilið allt hafi hún oft beðið ákærða um að hætta þessum athöfnum. Hafi hún oft klætt sig upp fyrir ákærða og reynt að stuðla að kynlífi þeirra tveggja. Hafi það ekki gengið eftir þar sem ákærði hafi sífellt þurft eitthvað meira. A kvaðst hafa verið á meltingarlyfjum frá árinu 2001. Hafi hún mátt taka þau en ákærði hafi verið á móti lyfjatöku hennar. Hafi hún fengið verkjalyf í vinnunni til að gera ekki mikið úr áverkum sínum heima fyrir.    

Að því er varðaði einstaka töluliði kaflans kvaðst A staðfesta að hafa hringt í E samkvæmt 12. tl. kaflans. Hafi það verið samkvæmt ákvörðun ákærða. Hafi ákærði gefið henni fyrirmæli um hvað hún skyldi segja í símann í það sinnið. Það sama gildi um tilvik samkvæmt 9. tl. kaflans. A kvaðst vera þeirrar skoðunar að í sumum tilvikum hafi þeim mönnum sem haft hafi við hana kynferðisleg samskipti verið það ljóst að samskiptin færu fram gegn hennar vilja. Eigi það t.d. við um tilvik samkvæmt a. lið 7. tl. en sjá megi af mynd í rannsóknargögnum merkt IV/2.2 nr. 1 að hún gráti í því tilviki. Í c. og d. liðum 7. tl. hafi viðkomandi einstaklingar áttað sig á þessu í síðustu skiptin er þeir hafi komið. Ljósmynd í rannsóknargögnum málsins merkt IV/2.2 félli undir tilvik í a. lið 7. tl. en um væri að ræða óþekktan danskan mann. Svo sem myndin beri með sér hafi hún grátið því hún hafi ítrekað beðið um að það yrði hætt. Ekki hafi ákærði fallist á það. Hafi hún ekki lengur getað haldið andlitinu og því farið að gráta. Í 8. tl. hafi ákærði misst stjórn á aðstæðum og hinir erlendu menn stjórnað öllu. Í því tilviki hafi hún öskrað á ákærða að hjálpa sér. Þá kvaðst hún vera þeirrar skoðunar að í 9. tl. hafi C vitað í síðasta skiptið að ekki væri allt með felldu. Hafi A ekki getað haldið andlitinu. Hafi C orðað hlutina einhvern veginn þannig ,,ég skal fara“. Hinum óþekkta manni í 10. tl. hafi liðið illa og farið. Hafi hann sagt eitthvað eins og ,,þetta get ég ekki“. Um hafi verið að ræða útlending svartan á hörund sem talað hafi ensku. Þá kvaðst A telja að í 11. tl. hafi D vitað að ákærði væri að stjórna A því ákærði hafi gefið fyrirmæli um hvað ætti að gera. Hafi ákærði síðan viljað að D færi. A kvaðst ekki viss um hvernig til hafi háttað með E í 12. tl. kaflans. E hafi samt verið mjög þvingaður og viljað eyða þeim myndum sem teknar hafi verið. Hafi E ekki vitað af því að tilvikið væri tekið upp á myndband og krafist þess að ákærði myndi eyða myndunum. Í framhaldi af því hafi orðið átök á milli E og ákærða. Hafi þau endað úti á túni og A hringt á lögregluna. Að því er varði tímasetningu í tilviki í 8 tl. hafi A farið í áfengismeðferð á Vog um páskana 2007. Ferðin til Madrid á Spáni hafi verið farin fyrir þann tíma. Geti því verið að hún hafi verið farin í mars 2007 en tilvikið hafi verið áður en hún hafi flúið til Íslands. Að því er varði skjal í rannsóknargögnum málsins merkt IV/1.3, bls. 2 komi þar fram endurrit af myndskeiði sem tekið hafi verið milli jóla og nýárs 2007. Á myndskeiðum sjáist A vera að fróa sér en ákærði taki myndina. Í því tilviki hafi hún að beiðni ákærða verið að rifja upp tilvik þar sem þau hafi átt kynferðisleg samskipti við þriðja aðila. Hafi hún ekki þorað öðru en að leika leikinn af ótta við ákærða.

Q yfirmaður A á [...] kvaðst hafa ráðið A til vinnu í ágúst 2007 í tengslum við skólaheilsugæslu. Hafi A byrjað að vinna í þeim mánuði. A hafi komið Q vel fyrir sjónir. Hafi hún vitað af því að A hafi átt við lystarstol að ræða sem hún hafi unnið á. A hafi sinnt starfi sínu mjög vel. Hún hafi ekki verð mjög mannblendin og átt erfitt með að vinna innan um margmenni. Hafi vinnufélagar A haft áhyggjur af henni þar sem þeim hafi fundist þeir ekki ná sambandi við hana. Hafi hún alltaf verið sótt í vinnuna af sambýlismanni sínum og vinnufélögunum ekki tekist að draga hana inn í hópinn. Hafi A sagt að sambýlismaður hennar biði eftir henni og að hún gæti því ekki verið með samstarfsfélögunum. Q kvaðst einu sinni hafa heimsótt A í skólann. Á þeim tíma hafi A verið í viðtölum hjá Margréti Blöndal hjúkrunarfræðingi. Hafi A átt að taka þunglyndislyf en ekki getað tekið þau heima vegna sambýlismannsins sem ekki hafi viljað að A tæki lyfin. Einu sinni hafi A sagt við Q að Q gæti orðið fyrir ónæði af hálfu sambýlismannsins síns þar sem hún hafi gleymt að þurrka út úr síma sínum gsm. símasamskipti A við Q. Q hafi fundist A hraka í starfi og fundist henni líða mjög illa. Hafi A sagt að vinnan væri henni mjög mikilvæg og hennar eina haldreipi. Um jólin 2007 hafi síðan keyrt um þverbak.

A hafi sinnt öllu vel og verið eldklár. Hafi hún unnið eineltisáætlun fyrir skólann sem hún hafi starfað við. Hún hafi ekki mætt til vinnu síðasta dag fyrir jól sem hafi borið upp á 21. desember 2007. Hafi A tjáð Q að hún hafi lent upp á slysadeild. Eftir jólafrí hafi A verið mjög hrædd og búið við mikinn ótta. Hafi hún kastað upp í vinnunni og verið öll brotnari en áður. Hafi hún síðar viðurkennt fyrir Q að jólahátíðirnar 2007 hafi verið henni mjög erfiðar. Hafi A leitað til Q er hún hafi verið búin að ákveða að fara frá ákærða. Hafi Q farið með A heim til hennar til að hjálpa henni að pakka niður fötum og eigum. Í þeirri ferð hafi Q áttað sig á því að ofbeldið hafi ekki einungis verið líkamlegt heldur einnig kynferðislegt. Hafi A t.a.m. ekki viljað snerta tiltekin föt og muni. Fötin sem hún hafi ekki viljað snerta hafi hún sagt að væru ekki hennar föt heldur þau föt sem hún væri látin vera í. Þá hafi hún viljað taka ákveðnar myndbandsspólur með sér.

R, vinnufélagi A á [...], bar að A hafi greinilega liðið illa fljótlega eftir að hún kom til starfa. Hafi A öll verið til baka og ekki getað horft í augu þeirra sem hún ræddi við. Hafi R fundist hún taugaveikluð. Í viðræðum við A fyrir jólin 2007 hafi A nefnt önnur tilvik ofbeldis en tilvikið 23. september 2007. Þá hafi verið í gangi námskeið fyrir hjúkrunarfræðinga. Boðið hafi verið upp á mat í hádeginu en A ekki komið. Hafi sambýlismaður hennar sótt hana í því tilviki. Þá hafi A ekki mætt á jólahlaðborð hjúkrunarfræðinga og sagt að hún hafi ekki fengið leyfi til að mæta. A hafi átt til að kasta upp eftir máltíðir. Í nokkur skipti hafi R fundið áfengislykt af henni. A hafi alltaf farið meira og meira inn í sig. Hafi hún í lokin verið farin að mæta illa til vinnu.  

C kvaðst hafa komið á heimili pars í þrjú skipti og viðhaft kynferðislegar athafnir með parinu. Hafi hann komist í kynni við þau einkamálavef þar sem hann hafi séð auglýsingu frá þeim. Hafi þau óskað eftir þriðja aðila í leik. Hafi þau síðan ákveðið að hittast. Hafi þau byrjað á því að ræða saman til að athuga hvort þau væru stemmd í athafnirnar. Síðan hafi allt farið í gang. Erfitt sé að átta sig á hvernig frumkvæðið hafi verið. Hafi honum fundist þetta eðlilegt og konan ekki mótfallin athöfnunum. Hafi parið rætt um að þau hafi gert þetta áður á meðan þau hafi búið í útlöndum. Maðurinn hafi verið ágengur og stjórnað athöfnunum. Hafi hann sagt konunni að gera tiltekna hluti við C. Þau hafi oftar haft samband við C en í þessi þrjú skipti en C ekki komist. Hafi C fundist sem konan sýndi manni sínum meiri áhuga en C á flestan hátt. Hafi C á einhvern hátt fundist þetta óþægilegt og ákveðið að hitta parið ekki meir. Hafi hann haft það á tilfinningunni að þetta væri ,,ekki að gera sig“. Samt sem áður hafi hann ekki séð neinskonar þvinganir í gangi. Þau hafi drukkið bjór á meðan á þessu stóð þó svo þau hafi ekki verið ölvuð.  

D kvaðst hafa verið í neyslu á þeim tíma er atvik málsins hafi átt sér stað. Hafi hann komist í kynni við par á netinu. Þar hafi hann fengið uppgefið símanúmer og hringt í parið eða þau í hann. Þau hafi ákveðið að hittast og D heimsótt þau. Þau hafi byrjað á því að ræða saman. Hafi D m.a. spurt manninn að því hvort hann væri nokkuð að drottna yfir konunni. Hafi hann spurt að því þar sem honum hafi fundist maðurinn ráða öllu en hún engu. Hafi maðurinn ákveðið hvað yrði gert. Hafi hann skynjað einhvern ótta hjá konunni. Hafi hann séð marbletti á henni. Geti D ekki beint sagt að konan hafi mótmælt athöfnunum. Hún hafi a.m.k. ekki verið beitt nauðung.

E kvaðst hafa komist í kynni við par á vefsvæðinu einkamál.is. Hafi þau verið að leita að einstaklingi eða pari í kynlífsathafnir. Hafi E svarað auglýsingunni og gefið upp símanúmer sitt. Kona hafi síðan hringt og beðið E um að koma í heimsókn. Karlmaður hafi tekið á móti honum. Hafi þau þrjú verið saman. Hafi þau byrjað á því að ræða saman og drukkið áfengi. Konan hafi síðan staðið á fætur og farið að rúmi. Hún hafi verið léttklædd. Í framhaldinu hafi farið fram kynlífsathafnir. Hafi parið haft á orði að þetta væri bara þeirra mál. Konan hafi ekki verið mikið drukkin. Ákærði hafi einnig verið í kynlífsathöfnunum. Myndbandsupptaka hafi verið í gangi sem E hafi fyrst séð eftirá en hann hafi veitt því athygli er parið hafi farið að horfa á myndirnar. Hafi E óskað eftir því að myndunum yrði eytt. Hafi hann, til að árétta það, tekið myndavélina. Maðurinn hafi sennilega talið að E ætlaði að taka myndavélina á brott með sér. Atburðarásin hafi borist út og fólk verið farið að horfa á. Konan hafi beðið um að ekki yrðu nein slagsmál. Leigubifreið hafi komið á staðinn og E óskað eftir því að hringt yrði á lögregluna. Eftir að lögregla kom á staðinn hafi E sagt hvers kyns væri. Myndunum hafi verið eytt og vélinni skilað til mannsins. E kvaðst ekki hafa talið að konan hafi verið mótfallin kynlífsathöfnunum.   

Brynjar Emilsson sálfræðingur staðfesti sálfræðiskýrslu sína vegna ákærða á skjali merkt VI/3.2 í rannsóknargögnum málsins. Niðurstaða úr mati Brynjars hafi verið byggð á sálfræðilegum prófum sem lögð hafi verið fyrir ákærða og gögnum sem Brynjar hafi verið búinn að fá frá lögreglu vegna málsins. Um væri að ræða klínískt mat. Hafi það verið niðurstaða Brynjars að ákærði væri vel greindur og kæmi vel fyrir. Hafi hann komið vel út á sálfræðilegum prófum og virst án vandamála. Vel þekkt sé innan réttarsálfræðinnar að metinn sé trúverðugleiki einstaklinga sem til rannsóknar séu. Réttarsálfræðin sé undirgrein klínískrar sálfræði. Í skýrslum og viðtölum hafi komið fram misræmi í framburði á þann veg að framburður ákærða hafi að mati Brynjars ekki verið talinn trúverðugur. Þannig hafi persónuleiki ákærða ekki komið heim og saman við atvik málsins. Hafi verið ósamræmi milli þeirra og á hvern veg ákærði hafi útskýrt einstaka hluti. Líklegt sé að ákærði hagræði sannleikanum og fegri sig þar sem hann eigi verulegra hagsmuna að gæta í málinu. Þá hafi skýringar hans á samskiptum sínum við A verið metnar ótrúverðugar. Líkur séu á að ákærði eigi við vandamál að stríða tengdu áfengisdrykkju og reiði. Þá hafi verið litið á áhuga hans á afbrigðilegu kynlífi sem sé stórt vandamál fyrir hann og að á tímabilum hafi kynlífið stjórnað stórum hluta í hans daglega lífi. Þá hafi verið litið á málið þannig að ákærði hafi nýtt sér greind sína og hæfileika í samskiptum til að ná fram óskum sínum bæði dags daglega sem og í samskiptum sínum við sína nánustu og einnig í tengslum við völd og kynlíf. Hafi ákærði beitt stjórnun á fólk og umhverfi af yfirvegun. Þá hafi hann sjálfur lýst sér sem stjórnsömum einstaklingi. Hafi stjórnsemin m.a. lýst sér í því að ákærði hafi reynt að taka stjórnina í viðtali sínu við Brynjar. Að því er varði kynóra og kynlíf ákærða og A hafi það verið skoðun ákærða að hugmynd að kynlífsathöfnum þeirra með öðrum hafi alfarið verið komin frá A og þá í tengslum við fyrrverandi kærasta hennar. Í viðtalinu hafi komið fram hjá ákærða þörf fyrir að loka á fólk í kringum sig. Hafi það átt við um foreldra og systkini og ákærði ekki leyft að rætt yrði við neinn í fjölskyldunni. 

Anna Kristín Newton sálfræðingur staðfesti sálfræðiskýrslu sína vegna A sem í rannsóknargögnum málsins er merkt VI/2.3. Í vætti hennar kom m.a. fram að til grundvallar skýrslunni hafi legið viðtöl við A og sálfræðipróf sem Anna Kristín hafi lagt fyrir hana auk þess sem Anna Kristín hafi haft gögn málsins undir höndum sem og niðurstöður sálfræðiprófa sem lögð hafi verið fyrir A á árinu 2003. Tilgangurinn hafi verið að kortleggja persónuleika A, sögu hennar og geðræn einkenni sem og trúverðugleika. Fram hafi komið að A hafi verið lögð inn á Landspítala á árinu 2003 vegna átröskunar. Niðurstaða úr prófinu hafi verið sú að A hafi sýnt þann eiginleika að vera afbrigðilega þóknanagjörn og með lágt sjálfsmat. Hafi hún verið tilbúin að leggja allt í sölurnar fyrir ákærða. Þessi einkenni hennar um undanlátssemi hafi mátt greina hjá henni allt frá barnsaldri. Hafi niðurstöður Önnu Kristínar verið mjög í samræmi við mat A á sjálfri sér. Í lýsingu hafi komið fram hjá A að hún yrði mjög háð þeim einstaklingi sem hún væri í daglegum tengslum við. Fram hafi komið að ákærði væri ekki alfarið vondur maður. Hafi A talið upp tiltekna kosti hjá honum. Væri það mat Önnu Kristínar að A geti ekki hafa verið að skálda upp sakir á ákærða. A hafi greinst þunglynd og verið auðvelt að tengja þunglyndið við ákærða. Að því er varði kynhneigð hafi Anna Kristín ekki getað greint að hún hallaðist að kynlífi með öðrum mönnum. Hafi Anna Kristín ekki getað séð að A hafi getað átt frumkvæðið að kynlífi með þriðja aðila. Í ljósi rannsóknarinnar hafi það einfaldlega verið mjög ósennilegt, sérstaklega þegar haft væri í huga hve lítill frumkvöðull hún hafi almennt verið, feimin og með lágt sjálfsmat. Góð samfella hafi verið í frásögn A í viðtölunum og í skýrslugjöf hjá lögreglu þegar metin hafi verið trúverðugleiki A. Er rannsóknin hafi farið fram hafi líðan A verið slæm. Hafi hún nánast drukkið áfengi daglega og verið í slæmu líkamlegu ástandi. Hún hafi verið þunglynd, kvíðin, með sjálfsvígshugsanir, hrædd, búið við vonleysi og með miklar áhyggjur. Hafi hún verið farin að vinna í sínum málum en átt langt í land. A hafi áður glímt við andlega erfiðleika vegna átröskunar. Afleiðingar hennar geti verið kvíði, óöryggi o.fl. Er hún hafi lent í áfallaaðstæðum hafi getað kviknað aftur á hennar gömlu einkennum.

Margrét Blöndal hjúkrunarfræðingur við Áfallamiðstöð LSH staðfesti vottorð sitt í gögnum málsins merkt VI/1.3. Í tilviki A hafi Áfallamiðstöðin fengið tilvísun vegna gruns um heimilisofbeldi í tengslum við innlögn aðfaranótt 23. september 2007. Hafi Margrét rætt við A næsta dag eftir innlögn. Hafi komið fram í viðtölum við A að hún vildi áfram búa í aðstæðum með ákærða og viðtöl Margrétar og A því gengið út á að byggja upp öryggisnet hennar. Hafi komið fram að A væri hrædd við að fara frá ákærða. Það hafi hún áður reynt en í þeim tilvikum hafi ofbeldið versnað er hún hafi komið til baka. Atvikið í september 2007 hafi valdið A mikilli vanlíðan. Hafi búið um sig hræðsla sem hafi aukist stig af stigi. Hafi komið fram að ákærði hafi alltaf farið yfir síma hennar til að aðgæta hverja hún væri í samskiptum við. Hafi Margrét verið viðstödd tilvik þar sem A hafi rætt við ákærða í síma. Hafi persónuleiki hennar breyst í því tilviki og hún orðið mjög þóknunargjörn. Hafi A sagt við Margréti að hún yrði að hegða sér vel til að draga úr ofbeldinu, en ákærði hafi gefið henni til kynna að hún ætti von á ofbeldi. Á tímabilinu frá 23. september 2007 til áramóta hafi Margrét hitt A 10 sinnum og verið mikið í símasambandi við hana. Þær hafi rætt um leiðir fyrir A til að lifa við erfiðar aðstæður. Fram hafi komið að A drykki áfengi oft í slíkum mæli að hún drykki sig ,,til dauða“. A hafi verið fylgt heim í lögreglufylgd er hún hafi sótt dót sitt er hún hafi yfirgefið ákærða. Hafi Margrét þá fundið sterk áfallastreitueinkenni hjá henni. Hafi það komið sérstaklega í ljós þegar handleikin hafi verið tiltekin nærföt A. Hafi henni þá hryllt við. Hafi komið fram að viðkomandi hluti hafi A notað í kynlífsathöfnum sínum. A hafi hrist og skolfið við þetta og nánast farið í hugrof. Hafi komið fram hjá A að hún hafi reynt að deyfa sig sem mest í kynlífsathöfnum sínum með öðrum mönnum. Hafi hún gert það með því að drekka áfengi. Hafi hún lýst fyrir Margréti kynlífsathöfnum sínum með þriðja aðila. Margrét hafi rætt við A 19. desember 2008. Þá hafi A aftur farið nánast í hugrof en hún hafi óttast mjög réttarhöld í málinu. Hafi komið fram að upp hafi komið tilvik þar sem A hafi ekið eins og í leiðslu og áttað sig á því að skyndilega var hún komin að gamla heimili sínu og ákærða. Hugrof við slíkar aðstæður tengist áfallastreituröskun. Eftir sambúðarslitin hafi A farið að búa ein. Hún hafi orðið að fá þannig staðsetta íbúð að hún gæti séð yfir svæðið í nágrenni íbúðarinnar þannig að hún sæi hverjir væru að koma. Hafi hún hræðst mjög þá tilhugsun að hitta ákærða á nýjan leik. Er Margrét hafi unnið skýrslu sína um A hafi hún vitað af því að A hafi á árum áður búið við átröskun. 

Guðlaug Þorsteinsdóttir geðlæknir staðfesti vottorð sitt um A í rannsóknargögnum málsins merkt VI/7.2. Fram kom að A hafi frá því í janúar 2008 verið í meðferð á geðdeild Landspítala háskólasjúkrahúss. Er hún hafi komið til meðferðar hafi hún nýlega verið búin að slíta sambandi sínu við ákærða. Hafi ástand hennar verið slæmt og hún verið til meðferðar á deild 33A. Í ljós hafi komið saga af vandamálum. Hafi hún verið nánast í samfelldri innlögn á árinu 2008. Sumarið 2008 og sama haust hafi meðferðin verið farin að ganga vel. Síðan hafi farið að halla undan fæti en það hafi verið í desember 2008 sem mikil einkenni áfallastreitu fóru að koma í ljós. Hafi hún alltaf verið á varðbergi. Tengist það sennilega því að A hafi átt erfiðan tíma í desember 2007 og minningar frá þeim tíma vaknað upp. Fram hafi komið hjá A að í desember 2007 hafi hún ekki haft neitt skjól fyrir ákærða því hún hafi verið í fríi frá vinnu. Aðkoma Guðlaugar að málum A hafi tengst því að reynt hafi verið að koma böndum á átröskun hjá A. Reynt hafi verið að koma reglu á mataræðið til að ,,stabilisera“ hana. Þurft hafi að byggja upp þrótt til að A gæti unnið með það áfall sem hún hafi verið búin að ganga í gegnum. Þá hafi í október og nóvember 2008 markvisst verið unnið með áfallastreituröskun A af hálfu Gyðu Eyjólfsdóttur sálfræðings. Guðlaug kvaðst hafa þekkt til A á árunum 2003 og 2004 en A hafi þá leitað til hennar vegna átröskunar. Hafi hún þá verið vannærð. Hafi verið ætlunin að koma á reglulegu mataræði hjá henni. Kvíði og depurð hafi verið fylgifiskur átröskunarinnar. Ekki hafi þá komið upp nein merki þess að A ætti í vandræðum með áfengi eða áfallastreituröskun. Hin gömlu einkenni A um átröskun hafi leitt til þess að A hafi í framhaldinu orðið veikari fyrir og haft meiri tilhneigingu til að þóknast öðrum. Oft sé ástæða fyrir átröskuninni svokölluð fullkomnunarárátta. Vilji viðkomandi ekki leita aðstoðar. Einkennin séu þekkt og hafi þau átt við um í tilviki A. Hafi það verið einkenni hennar að taka mikla ábyrgð á öðrum. Hafi hún einfaldlega ekki verið nægjanlega sterk fyrir er hún hafi kynnst ákærða. Þess vegna hafi hún orðið auðvelt fórnarlamb. Einstaklingar eins og A eigi oft erfitt með að standa með sjálfum sér. Þeir treysti ekki eigin dómgreind. Kafli um batahorfur í skýrslunni hafi verið ritaður í janúar 2009. Eftir það hafi A farið í linnulitla neyslu í mars og apríl 2009. Þurfi hún talsvert langan tíma að því er varði bata. Hafi A kviðið mjög fyrir meðferð sakamálsins. Í viðtölum hafi A lýst miklu andlegu ofbeldi og fangabúðavist. Hafi ákærði verið sem vörður sífellt vakandi yfir henni. Hafi það verið einna erfiðast, auk þess sem líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi hafi verið erfitt. Hafi hún búið við stöðugan ótta. 

Gyða Eyjólfsdóttir sálfræðingur staðfesti vottorð sitt á dskj. nr. 11. Kvað hún Margréti Blöndal hjúkrunarfræðing hafa haft samband 27. september 2007 og vísað A til sín. Fyrir hafi legið að A þyrfti á langvarandi meðferð að halda. Ekki hafi komið til meðferðar þá en Guðlaug Þorsteinsdóttir geðlæknir hafi síðan haft samband og beðið um meðferð fyrir A 6. janúar 2009. Hafi A komið í fyrsta viðtalið 21. janúar 2009. Í samtölum hafi A lýst reynslu sinni. Hafi leitað á hana myndir og hún öll titrað og skolfið. Hafi líf hennar einkennst af ofurárvekni sem væri einkenni áfallastreituröskunar. Hafi hún verið greind og niðurstaðan verið sú að hún bæri þessi einkenni en henni hafi fundist lífi sínu og velferð ógnað. Hún hafi verið hrædd við allar lyfjatökur þar sem þá dytti hún út, en hún hafi óttast að þá kæmi ákærði. Líðan A hafi verið mjög slæm í samanburði við aðra sjúklinga sem Gyða hafi haft til meðferðar á sama grundvelli. Hafi hún vitað um sögu A um átröskun. Í hennar tilviki hafi ekki verið hægt að rekja kvíðaröskun hennar til átröskunarinnar. Hafi Gyða hitt A nægjanlega oft til að greina áfallastreituröskun hennar.

Niðurstaða.

Í 7. til 12. tl. C. kafla ákæru er ákærða gefið að sök kynferðisbrot með því að hafa neytt A með hótunum um ofbeldi og annars konar ólögmætri nauðung til samræðis og annarra kynferðismaka með öðrum mönnum. Samkvæmt ákæru á ákærði ýmist að hafa ljósmyndað kynmökin eða tekið þau upp á myndband og iðulega verið þátttakandi í þeim. Eru tilvikin samkvæmt ákæru 15 talsins og mennirnir a.m.k. danskir, litháískir, úkraínskir og íslenskir. Við aðalmeðferð málsins upplýstist að brot samkvæmt 8. tl. gæti hafa átt sér stað í mars 2007. Kemur það ekki í veg fyrir sakaráfelli, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008.

Er háttsemi ákærða samkvæmt ákæru talin varða við 1. mgr. 194. gr. laga nr. 19/1940. Samkvæmt því ákvæði gerist sá sekur um nauðgun sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung. Skal sá sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum.

Ákærði neitar sök. Kveður hann tilvikin samkvæmt C. kafla ákæru öll hafa átt sér stað eins og ákæra lýsir þeim. Hafi athafnirnar farið fram með fullu samþykki A. Í öllum tilvikum hafi athafnirnar farið fram að undirlagi A eða að hennar frumkvæði. Þegar ákærði væri að vísa til þess að þær hafi farið fram að hennar frumkvæði ætti ákærði við að hún hafi verið leiðandi. Með undirlagi ætti ákærði við að hún og ákærði hafi sammælst um hlutina. Í þeim tilvikum hafi í raun báðir aðilar átt frumkvæðið.

A hefur lýst sambúð sinni með ákærða í þau tvö ár sem þau bjuggu saman. Hefur hún lýst því að snemma á sambúðartíma þeirra hafi farið að bera á kynlífsórum hjá ákærða. Hafi þeir gengið út á að fá þriðja aðila til að taka þátt í kynlífi hennar og ákærða. Lýsti A því hvernig hún hafi talið að órar þessir yrðu aldrei annað en hugmyndir en þegar ákærði hafi farið að leggja drög að því að hugmyndirnar yrðu framkvæmdar hafi hún orðið hrædd. Á þessum tíma hafi verið farið að bera talsvert á skapsveiflum hjá ákærða. Hafi hann ýmist verið blíður og góður við hana og þá verið ákaflega sjarmerandi. Hann hafi hins vegar á öðrum stundum orðið harður og kaldur við hana og farið að beita hana líkamlegu ofbeldi. Hafi A leitast við að halda ákærða góðum. Hafi hún jafnvel farið að leita að skýringum á skapsveiflum hans í sínum eigin gjörðum og eiginleikum. Skýr tengsl hafi síðan komið fram á milli ofbeldisins og kynlífsórana. Hafi ákærði orðið harður og kaldur við hana og beitt hana líkamlegu ofbeldi ef hún væri ekki til í að fá karlmenn á heimilið til kynlífsathafna. Ef hún hafi hins vegar fallist á það hafi hann verið blíður og góður við hana. A lýsti því að hún hafi ekki átt við áfengisvandamál að stríða áður en hún hafi byrjað í sambúðinni með ákærða. Hún hafi hins vegar farið að nota áfengið til að deyfa sig ýmist í kynlífsathöfnunum eða í sambandinu með ákærða þegar hann hafi beitt hana ofbeldi. Er frá leið hafi hún verið farin að óttast ákærða mjög. Hafi hún ekki þorað að yfirgefa hann þar sem hún hafi óttast að hann myndi finna hana og beita hana miklu líkamlegu ofbeldi. Hafi hún í tvígang reynt að yfirgefa ákærða en í báðum tilvikum hafi ofbeldið orðið verra er hún hafi komið til baka. 

A skýrði frá þeim atvikum sem liggja til grundvallar ákæru í málinu í fimm skýrslutökum hjá lögreglu. Þá skýrði hún frá atvikunum við aðalmeðferð málsins fyrir dómi. Að mati dómsins hefur framburður A verið trúverðugur. Hefur hann verið heildstæður og stöðugur og innbyrðis samræmi í frásögninni frá upphafi. Hefur frásögn hennar borið þess merki að hún leitast við að draga sem raunsannasta mynd upp af sambúðartíma hennar og ákærða og verður ekki séð að hún leitist við að gera hlut ákærða verri en efni standi til. Fær sú ályktun m.a. stoð í vætti Önnu Kristínar Newton sálfræðings sem kveður hana hafa lýst ákærða sem ekki alvondum manni. Skýrslutaka af A við aðalmeðferð málsins tók langan tíma þar sem málið er stórt að umfangi. Leyndi sér ekki að skýrslutakan fékk mjög á hana og átti hún erfitt með að rifja upp atvikin og sambúðartímann með ákærða.

Fyrir dóminn hafa komið fjölmörg vitni til að bera um sakarefni samkvæmt C. kafla ákæru. Með þeim vitnaleiðslum hefur ákæruvald leitast við að varpa ljósi á persónuleika ákærða og A og samband þeirra á sambúðartímanum til að varpa ljósi á trúverðugleika framburðar þeirra beggja. Þannig gerði J Emilsson sálfræðingur grein fyrir sálfræðiskýrslu sem hann hefur ritað eftir sálfræðilegt mat á ákærða. Með sama hætti gerði Anna Kristín Newton sálfræðingur grein fyrir sálfræðiskýrslu sem hún hefur ritað eftir sálfræðilegt mat á A. Guðlaug Þorsteinsdóttir geðlæknir í átröskunarteymi göngudeildar geðdeildar Landspítala háskólasjúkrahúss gerði grein fyrir vottorði sem hún hefur ritað vegna A en A var til meðferðar á geðdeild eftir að hún sleit sambúðinni við ákærða 10. janúar 2008. Þá gerði Margrét Blöndal hjúkrunarfræðingur við Áfallamiðstöð Landspítala háskólasjúkrahúss grein fyrir vottorði sem hún hefur ritað vegna A en A leitaði til Margrétar eftir líkamsárásina sem hún varð fyrir af hálfu ákærða aðfaranótt 23. september 2007. Hittust þær tíu sinnum í kjölfarið auk þess sem Margrét ræddi margoft við A í síma. Gekk samstarf þeirra að mestu út á að gera A kleift að búa áfram í ofbeldissambandi með ákærða og mynda öryggisnet fyrir A. Loks kom Gyða Eyjólfsdóttir sálfræðingur fyrir dóminn, en hún hefur haft A til meðferðar að undanförnu.

Sú mynd sem dómurinn hefur af sambandi ákærða og A, eftir að hafa hlýtt á framburð ákærða og A og þeirra vitna er komu fyrir dóminn, auk þess að hafa rannsóknargögn málsins undir höndum, er að A hefur, á tveggja ára tímabili, búið í mjög ofbeldisfullu sambandi með ákærða. Í A. kafla dómsins hér að framan hefur ákærði verið sakfelldur fyrir ítrekaðar líkamsárásir gagnvart A sem skilgreindar verða sem heimilisofbeldi. Hefur ofbeldið á köflum verið mjög mikið og tilvikin fleiri en ákært er fyrir. Þannig kemur fram í læknisvottorði Þóris Njálssonar læknis við komu A á slysadeild aðfaranótt 23. september 2007 að A hafi við skoðun verið með marga eldri áverka á líkamanum en um hafi verið að ræða margvíslega marbletti. Þær sálfræðiskýrslur sem ritaðar hafa verið vegna A staðfesta að A ber öll venjubundin sálræn einkenni þess að hafa búið við raunverulega ógn á sambúðartímanum. Hafi hún sýnt greinileg merki þess að hafa orðið fyrir áfalli og búið við þunglyndi og kvíða og önnur sálræn einkenni áfalla. Hafi hún verið greind með áfallastreituröskun sem eru dæmigerð einkenni áfalla. Hafa sérfræðingar þeir sem komu fyrir dóminn hafnað því að tengsl séu á milli þeirrar átröskunar er A bjó við áður en hún tók upp sambúð með ákærða og þeirrar áfallastreituröskunar er hún hafi greinst með. Þá liggja fyrir dóminum ýmis gögn um að A hafi ekki búið við áfengisvandamál áður en hún hafi kynnst ákærða en að vandamálið hafi byrjað á sambúðartímanum. Um þetta bera bæði fjölskylda og vinir A sem og Guðlaug Þorsteinsdóttir geðlæknir er þekkti vel sjúkrasögu A eftir að hafa meðhöndlað átröskunarsjúkdóm hennar á árunum 2003 og 2004.

Miklu skiptir fyrir niðurstöðu málsins ofangreindar skýrslur sálfræðinga um sálfræðimat á ákærða og A. Í skýrslu J Emilssonar kemur fram að ákærði hafi átt við vandamál að stríða tengdu áhuga á afbrigðilegu kynlífi og að á tímabilum hafi kynlífið stjórnað hluta af hans daglega lífi. Þá hafi ákærði beitt stjórnun á sitt nánasta umhverfi af yfirvegun og hafi það gengið svo langt að hann hafi reynt að taka stjórnina við gerð sálfræðiskýrslunnar. Þá hefur Anna Kristín Newton sálfræðingur lýst því að A hafi greinst afbrigðilega þóknunargjörn og með lágt sjálfsmat. Hafi hún verið tilbúin til að leggja allt í sölurnar fyrir ákærða. Þessi einkenni hennar um undanlátssemi hafi mátt greina hjá henni allt frá barnsaldri. Að því er varði kynhneigð hafi Anna Kristín ekki getað greint að A hallaðist að kynlífi með öðrum mönnum. Hafi Anna Kristín ekki getað séð að A hafi getað átt frumkvæðið að kynlífi með þriðja aðila. Í ljósi rannsóknarinnar hafi það einfaldlega verið mjög ósennilegt, sérstaklega þegar haft væri í huga hve lítill frumkvöðull hún hafi almennt verið, feimin og með lágt sjálfsmat.   

Framburður ákærða sjálfs er að mati dómsins að ýmsu leyti ótrúverðugur. Þannig hefur hann lýst því að kynlífsathafnir ákærða og A með þriðja aðila hafi verið að frumkvæði A eða að þau hafi sammælst um athafnirnar og þá bæði verið með frumkvæðið. Hafi ákærði aldrei einn átt frumkvæðið. Fær það vart staðist í ljósi ofangreindrar niðurstöðu sálfræðimats á ákærða en það leiðir í ljós vandamál hjá ákærða tengdu áhuga á afbrigðilegu kynlífi. Ákæruvald hugðist leiða fyrrverandi sambýliskonu ákærða fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins til að leiða í ljós kynferðislegar hvatir ákærða m.a. í ljósi þess hvort ákærði hneigðist að kynlífi með þriðja aðila. Um þetta atriði bar fyrrverandi sambýliskona ákærða í lögregluskýrslu 24. janúar 2008 er hún greindi frá því að ákærði hafi viljað kynlíf með fleirum en hún aldrei tekið það til greina. Hæstiréttur Íslands hafnaði því að þessi fyrrverandi sambýliskona kæmi fyrir dóminn til að bera vitni um þessar hvatir ákærða með dómi í máli nr. 209/2009 sem upp var kveðinn 5. maí 2009 þar sem synjað var kröfu ákæruvalds um vitnaleiðsluna. Dómurinn hefði kosið að eiga kost á því að horfa til framburðar þessa vitnis, en það skiptir þó ekki höfuðmáli fyrir niðurstöðu í málinu.

Þá hafa ýmsar skýringar komið fram hjá ákærða á áverkum er A hafi hlotið sem ekki eru trúverðugar. Hefur hann staðhæft að hún hafi hlotið áverka samkvæmt A. kafla ákæru við það að detta ölvuð á gólf eða hluti. Verður að telja það ósennilegt í ljósi þess um hvers konar áverka er að ræða. Þá hefur hann staðhæft að A hafi jafnvel sjálf valdið sér áverkum, en þá skýringu telur dómurinn fráleita. Einnig hefur ákærði ekki viljað kannast við að A beri áverka á tilteknum myndum í rannsóknargögnum málsins þar sem greina má augljósa marbletti á A. Loks hefur ákærði ekki viljað kannast við mynd í rannsóknargögnum málsins merkt IV/5. Er það að mati dómsins ekki trúverðugt í ljósi þess hvenær myndin er tekin og miðað við klæðaburð A.

Fyrir dóminum liggja framburðir systkina A, móður og vinkvenna. Er það sammerkt framburðum þeirra allra að A hafi ræktað vel samband sitt við fjölskyldu og vini áður en til sambúðar hennar og ákærða hafi verið stofnað. Eftir að þau hafi tekið upp sambúðina hafi ákærði skorið á öll samskipti hennar við sína nánustu. Hafi það gengið svo langt að ákærði hafi lesið yfir tölvupóstssamskipti A við aðra sem og athugað við hverja hún væri að tala með því að skoða síma hennar. Um þetta hafa borið bæði systkini hennar, sem og I vinkona og Q yfirmaður á [...], en Q bar að A hafi einhverju sinni sagt sér að hún gæti orðið fyrir ónæði af hálfu ákærða þar sem hún hafi ekki náð að eyða úr síma sínum samskiptum við Q. Allt þetta þykir ótvírætt sýna fram á að ákærði hafi markvisst skorið á öll samskipti A við aðra.

Þegar allt ofangreint er virt liggur að mati dómsins fyrir samband ákærða og A á árunum 2006 og 2007 þar sem ákærði beitti A miklu og langvarandi líkamlegu ofbeldi. Hann skar á öll tengsl hennar við aðra og sá til þess að hún gæti ekki verið í samskiptum við fjölskyldu, vini eða samstarfsfélaga. Hann var mjög stjórnsamur og með áhuga á afbrigðilegu kynlífi. A var aftur á móti óvenjulega undirgefinn einstaklingur og með lágt sjálfsmat. Sérfræðingar hafa borið að ólíklegt verði að telja að slíkur einstaklingur hafi haft frumkvæði að kynlífi með þriðja aðila. A hefur sýnt öll sálræn einkenni þess að hafa búið við raunverulega ógn og að hafa orðið fyrir miklu sálrænu áfalli. Hefur hún greinst með áfallastreituröskun. Þegar öll framangreind atriði eru virt og til þess litið að ákærði hefur viðurkennt að kynferðislegar athafnir A við aðra menn hafi átt sér stað samkvæmt 7. til 12. tl. C. kafla ákæru er að mati dómsins sannað að ákærði hafi neytt A með hótunum um líkamlegt ofbeldi til samræðis og annarra kynferðismaka með öðrum mönnum eins og rakið er í ákæru. Þessa niðurstöðu styðja jafnframt ljósmyndir í gögnum málsins sem sýna A grátandi í kynferðismökum við aðra menn en ákærða og framburðir D sem í ljósi aðstæðna kvaðst hafa spurt ákærða hvort hann væri að drottna yfir A og C sem kvaðst hafa haft á tilfinningunni að aðstaðan væri ekki eðlileg. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt öllum töluliðum C. kafla ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.      

Ákærði er fæddur í ágúst 1972. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi svo kunnugt sé. Ákærði hefur hér að framan verið sakfelldur fyrir fjölmargar líkamsárásir og fimmtán alvarleg kynferðisbrot gagnvart þáverandi sambýliskonu sinni. Stóð brotahrinan yfir nánast linnulítið í tvö ár. Þá hefur hann verið sakfelldur fyrir líkamsárás og hótanir gagnvart föður sínum. Brot ákærða eru slík að þau eiga sér enga hliðstæðu í réttarframkvæmd hér á landi. Braut ákærði markvisst niður mótstöðuafl sambýliskonu sinnar og gerði hana sér undirgefna. Af ótta við barsmíðarnar tók hún þátt í kynlífsathöfnum með fjölmörgum mönnum sem hún ekki þekkti. Var háttsemi ákærða einkar ófyrirleitin. Á ákærði sér engar málsbætur. Með vísan til alls þessa, sbr. og 1., 2., 3., 7. og 8. tl. 1. mgr. og 3. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940 er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 8 ár. Til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhald ákærða frá 11. til 24. janúar 2008. 

Réttargæslumaður hefur fh. A krafist skaðabóta úr hendi ákærða. Er krafist bóta að fjárhæð 4.000.000 króna, auk vaxta. Er vísað til þess að um sé að ræða mjög gróf ítrekuð kynferðis- og líkamsárásarbrot. Séu kynferðisbrot og langvarandi líkamlegt ofbeldi almennt til þess fallin að valda miskatjóni. Í tilviki A hafi verið um að ræða mjög alvarleg brot. Þá hafi sakarstig ákærða verið mjög hátt þar sem hann hafi notfært sér líkamlegan styrk sinn og hörku gegn undirgefni og veikleika A. Loks séu afleiðingar brotanna alvarlegar en þau hafi valdið A gífurlegu andlegu tjóni auk líkamlegra áverka. Eftir þetta langvarandi kynferðislega, líkamlega og andlega ofbeldi sé alls óvíst hvort A muni nokkurn tíma ná sér í framtíðinni. Um lagarök er vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Með vísan til þess er hér að framan er rakið, vottorða og vættis Gyðu Eyjólfsdóttur sálfræðings, Margrétar Blöndal hjúkrunarfræðings, Önnu Kristínar Newton sálfræðings og Guðlaugar Þorsteinsdóttur geðlæknis, sem og þess sem fram kom við meðferð málsins er það niðurstaða dómsins að framferði ákærða hafi valdið A miklum miska. Á hún rétt á skaðabótum vegna háttsemi hans á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Í ljósi atvika málsins og þá sér í lagi þeirra miklu líkamlegu áverka er hún hlaut og hins langvinna heimilis- og kynferðisofbeldis eru bætur þessar hæfilega ákveðnar 3.800.000 króna. Sú fjárhæð ber vexti eins og í dómsorði greinir en við ákvörðun upphafstíma vaxta er miðað við hvenær fyrstu brot ákærða voru í síðasta lagi framin.

Ákærði greiði allan sakarkostnað samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakar­kostnað ásamt tildæmdum málsvarnarlaunum og þóknun réttargæslumanns brotaþola, hvorutveggja að viðbættum virðisaukaskatti, sem í dómsorði greinir.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Hulda Elsa Björgvinsdóttir settur saksóknari.

Héraðsdómararnir Símon Sigvaldason, Allan V. Magnússon og Sigrún Guðmundsdóttir kváðu upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 8 ár. Til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhald ákærða frá 11. til 24. janúar 2008.

Ákærði greiði A, 3.800.000 króna í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. júní 2007 til 21. mars 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði 3.341.530 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 1.254.960 krónur, og þóknun til réttargæslumanns brotaþola, Gunnhildar Pétursdóttur héraðsdóms­lögmanns, 906.360 krónur.