Mál nr. 688/2017
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. nóvember 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. nóvember 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 8. nóvember 2017 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. nóvember 2017.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 8. nóvember 2017 kl. 16:00 og að honum verði gert að sæta einangrun á meðan gæsluvarðhaldsvistinni stendur.
Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess aðallega að henni verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Í greinargerð lögreglustjórans kemur fram að lögreglu hafi borist tilkynning frá Tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar 31. október 2017 um að kærði hefði verið stöðvaður á tollhliði vegna gruns um að hann hefði fíkniefni falin innvortis. Hafi kærði verið að koma frá [...] með flugi númer [...]. Í viðræðum við tollverði mun kærði hafa viðurkennt að hafa fíkniefni falin innvortis. Viðurkenndi hann það jafnframt við lögreglu við handtöku. Hafi kærði verið færður á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem framkvæmd var sneiðmyndataka. Reyndist kærði hafa aðskotahluti innvortis í maga og í endaþarmi.
Rannsókn málsins sé á frumstigi. Ekki sé ljóst hve mikið eða hvaða efni kærði hafi innbyrgt. Hann hafi sjálfur borið um að það séu um 30 pakkningar. Kærði sæti eftirliti lækna. Rannsaka þurfi aðdraganda ferðar kærða til og frá landinu. Þá þurfi ennfremur að rannsaka tengsl við hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi og eða erlendis auk annarra atriða en kærði hafi borið um að hafa flutt efnin inn fyrir annan aðila sem hann vilji ekki nafngreina. Innflutningur fíkniefnanna þyki eindregið benda til þess að hin meintu fíkniefni hafi verið ætluð til sölu og dreifingar og að háttsemi hans kunni að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk ákvæða laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Lögregla telji að að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus.
Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, laga nr. 65/1974 um ávana og fíkniefni, telji lögreglustjóri brýna hagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 8. nóvember 2017 kl. 16.00. Þess er krafist að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi samkvæmt b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Samkvæmt framangreindu og rannsóknargögnum málsins er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Rannsókn málsins er skammt á veg komin og því ljóst að kærði getur, haldi hann óskertu frelsi sínu, torveldað rannsókn málsins með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni. Er þannig fullnægt skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Að virtum rannsóknarhagsmunum ber að fallast á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. Samkvæmt þessu verður fallist á kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Jón Höskuldsson héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 8. nóvember 2017 kl. 16:00.
Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldsvistinni stendur.