Mál nr. 816/2016
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. desember 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til föstudagsins 6. janúar 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að honum verði gert að sæta farbanni.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með dómi Hæstaréttar 14. nóvember 2016 í máli nr. 759/2016 var því slegið föstu að uppfyllt væru skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að varnaraðila yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli ákvæðisins. Er ekkert fram komið í málinu um að skilyrði ákvæðisins séu ekki lengur uppfyllt. Þegar af þeirri ástæðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2016.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi til föstudagsins 6. janúar nk. kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að laugardaginn 5. nóvember síðastliðinn hafi verið óskað eftir aðstoð lögreglu að [...] í [...] vegna hnífstunguárásar. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi strax mátt sjá blóðslóð frá útidyrum húsnæðisins að stofu sem sé á annarri hæð og svo blóðslóð frá stofu upp á salerni á þriðju hæð. Í stofunni hafi einnig mátt sjá ummerki um átök, sjónvarp hafi legið á hvolfi á gólfi, borðstofustólar hafi verið brotnir og blóð um gólf og á veggjum. Fyrir utan húsnæðið hafi lögregla hitt fyrir kærða, X, sem hafi setið við inngang húsnæðisins. Hafi hann verið með skurð á enni sem blætt hafi úr og stungusár á baki og síðu. A hafi setið blóðugur, í baðherbergi á þriðju hæð hússins, með stungusár á vinstri síðu. Sjúkraflutningsmenn hafi verið að hlúa að honum. Hópur manna hafi verið á heimilinu og fyrir utan það og hafi þeir allir bent á kærða sem geranda í málinu. Illa hafi gengið að fá upplýsingar um hvað hefði gerst að öðru leiti og hafi kærði ásamt öðrum aðila, B, verið handtekinn vegna málsins en kærði hafi í framhaldi verið fluttur á slysadeild ásamt A.
Kærði hafi fyrst verið yfirheyrður þann 6. nóvember sl. Sagðist hann þá hafa setið að drykkju í [...] með brotaþolanum A og fleiri mönnum sem hann hafi ekki þekkt. Segði kærði að til rifrildis hafi komið milli hans og brotaþola og í framhaldi af því hafi verið ráðist á hann, hann laminn, skorinn og einhver hafi hent í hann stól en við það hafi hann misst meðvitund. Segðist kærði ekki hafa þekkt mennina sem hafi ráðist á hann. Þegar framburður brotaþola hafi verið borinn undir kærða hafi hann neitað því að hafa ráðist á brotaþola og ekki kannast við að hafa verið með hníf. Segðist hann einungis hafa gripið til varnar eftir að ráðist hafi verið á hann. Þegar kærði hafi verið yfirheyrður aftur þann 10. nóvember sl og aftur þann 5. desember sl. hafi hann lýst atvikum með svipuðum hætti og í fyrri skýrslutöku en sagt þá að hann hefði lent í átökum við B, C og A umrætt sinn. Þá hafi hann einnig kannast við að í átökunum hafi hann gripið til hnífs sem hafi legið á borðstofuborði í stofunni en það hafi hann gert til að verjast árásarmönnunum og hræða þá. Hafi kærði ekki kannast við að hafa stungið brotaþoli né hafi hann haft ásetning um að stinga hann en hafi ekki neitað því að hnífurinn gæti hafa stungist í brotaþola í átökunum.
Brotaþolinn A hafi lýst því bæði í skýrslutöku hjá lögreglu 6. og 8 nóvember sl. og í skýrslutöku fyrir dómi 10 nóvember sl. að hann ásamt kærða og fleiri mönnum hafi setið að drykkju í [...] þegar hann, B og C hafi farið að skammast í kærða eftir að þeir hafi orðið þess varir að hann væri að fela bjór sem þeir ættu inn á sér. Kærði hafi tekið illa í athugasemdir þeirra og orðið reiður og farið og sótt sér hníf inn í eldhús íbúðarinnar sem hann hafi komið með aftur inn í stofuna. Hafi hann haldið hnífnum ógnandi og verið æstur. Brotaþoli hafi farið að kærða ásamt C í þeim tilgangi að reyna að ná hnífnum af kærða en þeir hafi óttast það að hann væri með hnífinn. Brotaþoli hafi sparkað í kærða í eitt skipti til að reyna að ná hnífnum af honum en það hafi ekki gengið og því hafi brotaþoli tekið í hendi kærða til að reyna að ná hnífnum af honum. Það hafi hinsvegar endað með því að kærði hafi stungið hann í síðuna. Brotaþoli lýsir því að hafa dottið í gólfið en síðan hlaupið inn á baðherbergi á efri hæðinni þar sem hann hafi verið þar til sjúkraflutningamenn komu á svæðið og gerðu að sárum hans. Aðspurður sagði brotaþoli að eftir í stofunni hafi þá verið kærði, B og C og hann viti ekki hvað hvað hafi gerst á milli þeirra eftir að hann hafi farið. Segðist brotaþoli ekki hafa orðið þess var fyrr en hann kom inn á baðherbergið að hann hefði verið stunginn tveimur stungum. Hafi brotaþoli verið spurður um hnífinn sem kærði hafi verið með og hafi hann lýst honum sem nokkuð stórum eldhúshníf með hvítu og gráu skefti.
Við komu á slysadeild hafi brotaþoli reynst með stungusár á vinstri síðu og með loftbrjóst. Jafnframt hafi hann verið með stungusár á kinn sem hafi gengið í gegnum kinnina og inn í munnholið og þá hafi hann einnig verið tannbrotinn. Hafi brotaþoli í framhaldi verið fluttur á bráðamóttöku Landspítalans en í vottorði sem ritað hafi verið vegna komu brotaþola þangað hafi komið fram að brotaþoli hafi hlotið áverka á vinstra brjóstholi eftir hníf sem hafi stungist það djúpt að gat hafi komið á lungað. Í vottorðinu komi einnig fram að áverkinn hafi verið lífshættulegur og brotaþola hefði getað blætt út ef hnífurinn hefði farið ögn dýpra í lungað eða í hjartað.
Við skoðun á slysadeild hafi kærði einnig verið talsvert slasaður en hann hafi verið með tilfært brot á höfuðkúpu, með grunnan skurð á enni og þrjá skurði á síðu og baki.
Framburður brotaþola fái stoð í framburði vitnisins C sem lýsi því að kærði hafi stungið brotaþola með hnífi sem hann hafi sótt í eldhúsið í kjölfar rifrildis milli þeirra, brotaþola og B. Fram hafi komið hjá vitninu að eftir að brotaþoli hafi flúið inn á baðherbergi eftir hnífstunguna hafi vitnið kastað borðstofustól í kærða en í framhaldi af því hafi vitnið hlaupið upp á baðherbergið til brotaþola og ekki séð hvað gerðist eftir það milli kærða og B. B hafi upphaflega verið handtekinn vegna málsins og hafi sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Í framburði hans komi fram að hann, brotaþoli, kærði og C hafi setið saman í stofunni umrætt sinn. Einhver átök hafi átt sér stað en hann hafi ekki séð hver átti upphafið að þeim eða hverjir tóku þátt í þeim. Hann hafi orðið var við það að brotaþoli hafi verið stunginn. B hafi eftir þetta fylgt kærða út úr húsinu og ætlað að halda honum þar til lögreglan kæmi að handtaka hann en kærði hafi barist um og því hafi B sleppt honum og farið að huga að brotaþola. Hafi B neitað því að hafa valdið kærða þeim áverkum sem hann hafi verið með við komu á slysadeild.
Kærði hafi þann 6. nóvember sl. verið úrskurðaður í gæsluvarðahald á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 og b- liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. [...]/2016 til 11. nóvember 2016 en hafi frá þeim tíma sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. [...]/2016 sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 759/2016.
Kærði liggi samkvæmt framansögðu undir sterkum grun um brot gegn 211. gr. sbr. 20 gr. hegningarlaga en til vara gegn 2. mgr. 218. gr. sömu laga með því að hafa ráðist á brotaþola og stungið hann með hnífi í andlitið og ofarlega í síðuna með þeim afleiðingum að hnífurinn hafi annarsvegar farið í gegnum kinn brotaþola og brotið í honum tönn og hinsvegar með þeim afleiðingum að hnífurinn hafi farið í brjósthol brotaþola og gert gat á lunga hans. Brot kærða sé talið geta varðað 16 ára fangelsi.
Sé það mat lögreglu og læknis sem hafi annast brotaþola á bráðadeild Landspítalans að beiting vopnsins og staðsetning áverkans sé lífshættuleg og hafi kærða mátt vera það ljóst. Af framangreindu og með tilliti til almannahagsmuna sé það mat lögreglustjóra að brot kærða sé þess eðlis að nauðsynlegt sé að tryggja að hann gangi ekki laus meðan mál hans sé til meðferðar hjá lögreglu og dómstólum.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Niðurstaða:
Með vísan til fyrirliggjandi gagna málsins og greinargerðar lögreglu fellst dómurinn á að sterkur grunur sé um að kærði hafi framið brot sem varðað getur við 211. gr., sbr. 20. gr., eða 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kærði er grunaður um alvarlega atlögu að brotaþola með hnífi og það er mat lögreglu og læknis sem annast brotaþola á sjúkrahúsi að beiting hnífsins og staðsetning áverka sé lífshættuleg og að kærða hafi mátt vera það ljóst. Brot kærða, ef sannast, getur varðað allt að 16 ára fangelsi. Með tilliti til almannahagsmuna verður á það fallist með lögreglustjóra að brotið sé þess eðlis að nauðsynlegt sé að tryggja að kærði gangi ekki laus á meðan mál hans er til meðferðar, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Vegna alvarleika brots þykir ekki fært að verða við kröfu verjanda um að kærði verði úrskurðaður í farbann í stað gæsluvarðhalds. Verður því orðið við kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi til föstudagsins 6. janúar nk. kl. 16:00.