Print

Mál nr. 176/2017

Ákæruvaldið (Einar Tryggvason saksóknari)
gegn
X (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)
, (Helgi Birgisson réttargæslumaður )
Lykilorð
  • Manndráp
  • Tilraun
  • Kynferðisbrot
  • Líkamsárás
  • Frelsissvipting
  • Skilorðsrof
  • Skaðabætur
Reifun

X var sakfelldur fyrir tilraun til manndráps, nauðgun, sérstaklega hættulega líkamsárás og frelsissviptingu með því að hafa haldið barnsmóður sinni A nauðugri í íbúð hennar í allt að tvær klukkustundir og á meðan frelsissviptingunni stóð veist að henni með margvíslegu ofbeldi, þvingað hana til samfara, endaþarms- og munnmaka og tekið hana hálstaki og hert að þannig að hún náði ekki andanum og missti meðvitund um stund. Var háttsemi X talin varða við 211. gr., sbr. 20. gr., 1. mgr. 194. gr., 2. mgr. 218. gr. og 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að umrædd brot hefðu verið mjög alvarleg og lægju við hverju þeirra þung fangelsisrefsing. Þá hefði X með brotum sínum rofið skilorð eldri dóms þar sem hann var sakfelldur fyrir líkamsárásir í garð A og var dómurinn því tekinn upp og honum gerð refsing í einu lagi fyrir öll brotin samkvæmt 60. og 77. gr. almennra hegningarlaga. Að þessu gættu og með hliðsjón af 1., 3. og 5. tölulið 1. mgr. og 3. mgr. 70. gr. og c. lið 195. gr. sömu laga var refsing X ákveðin fangelsi í tíu ár. Með vísan til þess að X hefði með framferði sínu umrætt sinn, sem hefði verið sérstaklega hrottafengið, brotið gróflega gegn persónu og frelsi A var honum gert að greiða henni 3.500.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Markús Sigurbjörnsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. febrúar 2017 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, en að því frágengnu að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð.

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 3.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi er ákærða gefin að sök tilraun til manndráps, nauðgun, frelsissvipting og sérstaklega hættuleg líkamsárás í garð brotaþola að morgni 24. júlí 2016. Í ákæru er síðastgreinda brotið talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þar er líkamsárás meðal annars lýst sem sérstaklega hættulegri vegna þeirrar aðferðar, þar á meðal tækja, sem notuð eru, þótt ekki hljótist stórfellt líkams- eða heilsutjón af árásinni. Svo sem greinir í  héraðsdómi kom fram í læknisvottorði, sem staðfest var fyrir dómi, að áverkar á brotaþola samrýmdust þeirri frásögn hennar, sem lögð var til grundvallar úrlausn málsins í héraði, að ákærði hafi skorið hana í höku með hnífi. Samkvæmt því og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða og heimfærslu brota hans til refsiákvæða, svo og um sakarkostnað.

Brot þau, sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir, eru öll mjög alvarleg. Samkvæmt 211. gr. almennra hegningarlaga varðar manndráp þyngstu refsingu, sem lög mæla fyrir um, þar á meðal er lágmarksrefsing fyrir brotið 5 ára fangelsi þótt dæma megi lægri refsingu fyrir tilraun, sbr. 2. mgr. 20. gr. laganna. Sá sem gerist sekur um brot á 1. mgr. 194. gr. sömu laga skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum og sama hámark refsingar liggur við broti á 2. mgr. 218. gr. laganna. Þá varðar frelsissvipting samkvæmt 1. mgr. 226. gr. þeirra fangelsi allt að 4 árum. Við ákvörðun refsingar ákærða ber ennfremur að líta til c. liðar 195. gr. laganna og 5. töluliðar 1. mgr. 70. gr. þeirra, en með dómi þeim, sem vísað er til í héraðsdómi, var hann meðal annars sakfelldur fyrir líkamsárásir í garð brotaþola í [...] og [...] 2014. Þegar horft er til alls þessa og þeirra atriða annarra, sem greinir í hinum áfrýjaða dómi, verður ákærða gert að sæta fangelsi í 10 ár. Samkvæmt 76. gr. almennra hegningarlaga skal draga frá þeirri refsingu gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt óslitið frá 24. júlí 2016.

Með framferði sínu umrætt sinn, sem var sérstaklega hrottafengið, braut ákærði gróflega gegn persónu og frelsi brotaþola, sbr. b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Að því virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður tekin til greina krafa hennar um miskabætur að fjárhæð 3.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 10 ár. Til frádráttar kemur gæsluvarðhald hans frá 24. júlí 2016.

Ákærði greiði A 3.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað eru staðfest.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 975.469 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Helga Birgissonar hæstaréttarlögmanns, 248.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 31. janúar 2017.

Mál þetta, sem tekið var til dóms 15. desember síðastliðinn, er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 1. september 2016, á hendur X, kennitala [...], [...], [...], „fyrir neðangreind hegningarlagabrot gegn barnsmóður sinni, [A], framin á heimili [A] í íbúð [...] að [...] í [...], að morgni sunnudagsins 24. júlí 2016:

  1. Frelsissviptingu, með því að hafa svipt [A] frelsi sínu frá því um klukkan 5:30 til 8 en ákærði hélt [A] nauðugri í íbúðinni, beitti hana ofbeldi og hótunum eins og lýst er nánar í ákæruliðum 2 og 3 og varnaði því að hún kæmist út úr íbúðinni þar til lögregla kom á vettvang.

Telst þetta varða við 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

  1. Nauðgun og sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa víðsvegar í íbúðinni, meðal annars í svefnherbergi og á baðherbergi, haft samfarir og endaþarmsmök við [A] og þvingað hana til að hafa við sig munnmök, með því að beita hana ofbeldi og hóta henni lífláti og líkamsmeiðingum. Ákærði tók [A] meðal annars nokkrum sinnum kverkataki og herti að, kýldi hana margsinnis í andlit, höfuð og líkama, hótaði henni með því að þrýsta hnífi að hálsi hennar og hótaði að stinga hana með hnífnum ef hún ekki þegði. Þá barði hann höfði hennar utan í vegg í sturtu á baðherbergi, skar eða reif af henni hár með hnífnum og skar hana í hökuna. Af þessu hlaut [A] fjögurra cm langan skurð á höku sem sauma þurfti saman, mar og eymsli á vinstri kinn og eymsli á hægri kinn, sár við hægra munnhol og inn í munnhol, sár innanvert á efri og neðri vinstri vör og inn á slímhúð, tannafar innanvert á kinn, útbreidda áverka, svo sem mar, roða, eymsli og roðalínur á búk og útlimi, sár á báða olnboga og á vinstra hné, sprungna hljóðhimnu vinstra megin og sprungur á svæðinu frá endaþarmi og að spöng.

Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

  1. Tilraun til manndráps, með því að hafa í anddyri íbúðarinnar tekið [A] hálstaki og hert að þannig að hún náði ekki andanum og missti meðvitund stutta stund. Hálstakið var það þétt að [A] hlaut talsverðar blæðingar undir slímhúð beggja augna og útbreidda áverka framan á hálsi og rispur til hliðanna.

Telst þetta varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Í málinu krefst A, kennitala [...], þess að ákærði verði dæmdur til að greiða henni 3.500.000 krónur í miskabætur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 24. júlí 2016 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærða verði gert að greiða þóknun réttargæslumanns að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði krefst aðallega sýknu og að bótakröfu brotaþola verði vísað frá dómi, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að bótakrafan verði lækkuð. Loks er gerð krafa um að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda ákærða.  

I

A

Sunnudaginn 24. júlí 2016, klukkan 07:58, var lögregla send að [...], íbúð [...],  vegna ofbeldis, jafnvel nauðgunar sem þar hefði átt sér stað. Tilkynning til lögreglu kom frá þriðja aðila sem sagði brotaþola vera á vettvangi. Í frumskýrslu lögreglu segir að brotaþoli hafi verið á vettvangi og vísað á ákærða liggjandi í sófa í stofunni. Sagði brotaþoli ákærða hafa beitt sig miklu ofbeldi og meðal annars nærri drepið hana með því að herða að hálsi hennar. Bæði voru með áverka að sjá, brotaþoli skurð á höku og rauðþrútinn háls, en ákærði var með sár á hálsi. Var ákærði handtekinn og fluttur á slysadeild þar sem gert var að sárum hans. Þaðan var hann fluttur á lögreglustöðina við Hverfisgötu til vistunar í fangaklefa. Áður var gerð á honum tæknirannsókn. Um ástand ákærða segir að hann hafi verið rólegur og hugsanlega í annarlegu ástandi, en erfitt væri að leggja mat á það á vettvangi. Brotaþoli var flutt á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis.

Um vettvang segir í skýrslunni að um sé að ræða tveggja herbergja íbúð. Komið sé inn í lítið anddyri, þar innaf sé lítið herbergi eða geymsla, þá opið rými, eldhús og stofa. Úr stofu sé gengið út á svalir. Var svalahurð opin við skoðun íbúðarinnar. Úr holi sé gengið inn í svefnherbergi og lítið baðherbergi með sturtu. Svefnherbergið var að sjá illa um gengið, mikið af fötum á gólfi og víðar. Þá segir að íbúðin hafi borið merki um átök, húsmunir hafi verið úr stað, blóð á gólfum og blóðkám á veggjum. Einnig að töluverð bleyta hafi verið á baðherbergisgólfi. 

Í skýrslu lögreglu er haft eftir brotaþola að ákærði hafi komið um kl. 05:00 með vini sínum og viljað gista hjá brotaþola. Brotaþoli hafi ekki viljað leyfa ákærða að gista, en ákærði hafi viljað að brotaþoli svæfi hjá þeim báðum. Hafi brotaþoli sagt ákærða að fara, enda hafi hún ekki viljað hafa þá. Þeir hafi farið skömmu síðar og þá hafi hún farið upp í rúm. Ákærði hafi komið aftur og viljað hafa við hana samfarir, en hún hafi tjáð honum að það væri ekki í boði. Hann hafi þá sagt að hann ætti nú [...]. Þau hafi verið uppi í rúmi og hafi ákærði káfað á henni, en hún ekki viljað það. Hafi ákærði nauðgað brotaþola, bæði í rúminu og inni á baði. Kvaðst brotaþoli hafa margítrekað beðið hann um að hætta, en það hafi ekki haft nein áhrif á hann. Hann hafi ítrekað lamið höfði hennar utan í vegg í sturtunni og sagt henni að stynja. Hún muni eftir sér frammi í anddyri íbúðarinnar að reyna að opna hurðina til að kalla á hjálp, en þá hafi ákærði tekið hana hálstaki og „kyrkt“ hana þangað til að brotaþoli missti meðvitund í einhvern tíma. Þá hafi hún haldið að þessu væri lokið, hann myndi drepa hana. Sagði brotaþoli ákærða hafa verið með hníf og notað hann til að hóta henni. Hann hafi ítrekað hótað brotaþola líkamsmeiðingum, otað hnífnum að henni, skorið hár af höfðinu á henni með hnífnum og sagst ætla að skalla hana. Hafi brotaþoli verið með áverka á hökunni, en ekki verið viss um það hvort það væri eftir hnífinn eða þegar ákærði barði höfði hennar utan í vegg. Hún hafi tekið fram að atburðarásin sé lítillega á reiki þar sem hún hafi dottið út eða misst meðvitund. Ákærði sé barnsfaðir hennar og eigi þau [...] börn saman. Haft er eftir ákærða að brotaþoli hafi verið með hnífinn, en að öðru leyti tjáði hann sig lítið um málið.

Loks segir að brotaþoli hafi fundið símann sinn og sent skilaboð í 112 og vinkonu sinni snapchat-skilaboð. Þá hafi lögregla komið á vettvang. Sagði brotaþoli lögreglu að þetta hefði staðið yfir í tvær klukkustundir, eða frá klukkan 05.30 og þar til lögreglan kom. Á vettvangi ræddi lögregla við vinkonu brotaþola, B, sem greindi frá því að brotaþoli hefði sent henni snapchat-skilaboð um að B ætti að hringja í Neyðarlínuna og að sér hefði verið nauðgað og reynt hefði verið að drepa hana. Hún hefði því hringt í 112.

Meðal rannsóknargagna er skýrsla lögreglu um vettvangsrannsókn, rannsókn tæknideildar lögreglu og ljósmyndir af vettvangi. Í skýrslunum segir að sjá hefði mátt greinileg ummerki um að átök hefðu átt sér stað innan dyra. Blóðslettur hefðu verið á gólfi í forstofu sem voru klesstar líkt og einhver hefði legið á gólfinu og hreyft sig. Þá hafi blóðug munnvatnssletta verið á vegg í forstofunni. Í rými á milli stofu, svefnherbergis og baðherbergis voru blóðslettur á gólfi. Í vaski á baðherbergi fannst hnífur með blóði á. Á gólfi í svefnherbergi fannst töluvert af hári og blóðslettur á gólfi í stofu. Þá liggur fyrir skýrsla tæknideildar 7. október 2016 um fingrafaraleit á hnífi sem fannst á vettvangi. Þar segir að um sé að ræða IKEA eldhúshníf með blóði á sem lagt var hald á til lífssýnaleitar. Niðurstaða rannsóknarinnar var að ekki fundust samanburðarhæf fingraför á hnífnum.

B

Í læknisvottorði C, sérfræðings á slysa- og bráðadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss, 13. september 2016 segir að brotaþoli hafi leitað á slysa- og bráðadeild spítalans 24. júlí 2016 vegna líkamsárásar eftir skoðun á vegum neyðarmóttöku. Um meðferð hennar segir að sár á höku hafi verið saumað og hafi fallið vel. Vegna eyrnaáverka hafi verið fengið álit háls-, nef- og eyrnalæknis sem staðfesti að hljóðhimna vinstra megin sé sprungin. Heyrnarmæling sýni minnkaða heyrn á vinstra eyra. Þá séu einnig staðfestar punktblæðingar á hægri hljóðhimnu. Hafi brotaþoli fengið sýklalyf og við eftirlit 5. ágúst sama ár hafi gangur sprungnu hljóðhimnunnar verið eðlilegur og þann 8. september sama ár hafi hljóðhimnan verið gróin og full heyrn komin. Er álit og niðurstaða læknisins sú að brotaþoli sé með sár á höku sem geti samrýmst því að hún hafi verið skorin með beittu áhaldi. Punktblæðingar sjáist í augum og eyrum og auk þess roði vinstra megin á hálsi sem geti samrýmst því að hún hafi verið tekin kverkataki sem geti valdið punktblæðingum í augum og hljóðhimnum og víðar á höfði ef mikið sé hert að of lengi. Gatið á hljóðhimnunni geti samrýmst því að hún hafi fengið högg á eyrað, þó að engin merki sjáist um slíkt á ytra eyranu sjálfu en högg yfir eyrað geti valdið þrýstingi á hljóðhimnu þannig að hún rofni. Þannig geti áverkar þeir sem brotaþoli beri samrýmst þeirri sögu sem brotaþoli gefi, að hún hafi verið skorin með hníf á höku og hafi orðið fyrir höggum og auk þess tekin kyrkingartaki. Loks segir að áverkar þeir sem brotaþoli beri við skoðunina séu ekki alvarlegs eðlis. Hljóðhimnan hafi gróið og full heyrn verið komin á um það bil mánuði síðar og blæðingar og mar ætti að hverfa á viku til 10 dögum. 

Í læknisvottorði D, sérfræðings í lyf- og bráðalækningum á slysa- og bráðadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss, 30. september 2016 segir að ákærði hafi komið á bráðamóttöku LSH í Fossvogi í fylgd lögreglu þar sem hann hafi verið með skurð á hálsi. Óljóst sé hvað hafi gerst, en lögregla hafi verið kölluð til vegna heimilisofbeldis þar sem sjúklingur liggi undir grun. Ekki hafi verið hægt að fá nánari upplýsingar frá sjúklingi sem hafi verið undir áhrifum og talað samhengislaust. Við skoðun hafi sjúklingur verið með tvo grunna eins sentimetra langa skurði sitt hvorum megin á hálsi framanvert sem hafi seytlað úr. Voru sárin hreinsuð og límd með sáralími og plástrað yfir. Var sjúklingur útskrifaður en ráðlögð endurkoma eftir þörfum.

Samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði var brotaþoli hvorki undir áhrifum áfengis né ólöglegra ávana- og fíkniefna. Matsgerð sömu rannsóknarstofu sýndi á hinn bóginn að ákærði var undir áhrifum áfengis þegar sýni úr honum voru tekin vegna málsins. Mældist alkóhólmagn í blóði 1,18% og 1,70% í þvagi. Umbeðin lyf og ólögleg ávana- og fíkniefni voru ekki í mælanlegu magni í sýnunum.

C

Að beiðni verjanda ákærða var E réttarmeinafræðingur dómkvaddur í þinghaldi í málinu 26. október 2016 til þess að framkvæma réttarmeinafræðilega rannsókn á áverkum ákærða og brotaþola sem þau hlutu 24. júlí 2016, það er nánar tiltekið að svara spurningum um það, annars vegar hvort áverkar á hálsi og í andliti ákærða væru eftir hníf og hvort ákærði hafi valdið áverkunum sjálfur eða hvort einhver annar hafi valdið þeim. Hins vegar hvort áverkar á höku brotaþola væru eftir hníf og hvort brotaþoli hafi valdið áverkunum sjálf eða hvort einhver annar hafi valdið þeim. Í matsgerð hans segir að áverkar á hálsi ákærða séu dæmi um egghvassa áverka sem kunni að hafa verið veittir með hnífi eða öðrum egghvössum hlut. Beri áverkarnir öll merki þess að hafa verið veittir af eigin völdum, og því beri að ganga út frá því af mjög miklum líkindum. Áverkinn á höku brotaþola beri merki egghvass áverka og líklegast hafi hann verið veittur með hnífi. Að öllu samanlögðu beri hér að gera ráð fyrir áverka af annars völdum, en að áverkinn sé af eigin völdum verði þó ekki útilokað að öllu leyti.

Meðal málsgagna er skýrsla F, sérfræðings í réttarmeinafræði, dagsett 11. október 2016, sem ákæruvaldið óskaði eftir með bréfi 6. október sama ár. Í skýrslunni er lýst áverkum á brotaþola og ákærða og réttarmeinafræðilegt mat á áverkunum sem byggt er á ljósmyndum. Um skurð vinstra megin á höku brotaþola segir að áverkinn hafi greinilegar skurðbrúnir og væri mjög líklega eftir beittan oddmjóan hníf. Af staðsetningu og einkennum áverkans sé líklegast að hann hafi orðið vegna lárétts og síðan lítillega skáhalls skurðar frá miðhluta höku í átt að vinstri hlið kjálka. Hafi áverkinn engin dæmigerð einkenni sjálfsáverka og því megi álykta að skurðurinn sé af völdum annars aðila. Áverkinn sé þó á stað sem brotaþoli geti auðveldlega náð til og því sé ekki alfarið hægt að útiloka sjálfsáverka. Þá segir í skýrslunni að á hálsi brotaþola hafi verið óreglulegur roði á hörundi ásamt svæðum með grunnum skrámum sem séu dæmigerð fyrir kyrkingu með höndum. Að auki hafi mátt greina blettblæðingar í slímhúð augnhvítu beggja augna sem sé dæmigert fyrir mikla æðastíflu sem verði við harkalega kyrkingu með höndum. Orðrétt segir: „Miðað við staðsetningu handanna á hálsinum sem og samfellu og afl sem beitt var þarf viðeigandi tímaramma til að svona áverkar verði. Í þessu máli er líklegt að [A] hafi verið kyrkt í allmargar sekúndur allt að mínútu, jafnvel lengur.“ 

Hvað ákærða varðar segir í sömu skýrslu að hann hafi verið með margar grunnar rispur báðum megin á hálsi sem samsvari aflbeitingu á háls með beittu oddmjóu áhaldi, t.d. hnífi. Staðsetningin, samhliða skipan og einkum einsleitni smávægilegra sára gefa sterklega til kynna sjálfsáverka. Þeir samanstandi af beinum samhliða grunnum rispum, sem hafi greinilegar útlínur og nái sjaldnast gegnum efstu húðlög. Engin svæði á líkamanum sem séu sérlega viðkvæm fyrir sársauka, varir, nef eða augu, voru með áverka og engir varnaráverkar voru greinilegir. Um áverka á ákærða segir að auki að þeir séu allir á svæði sem ákærði nái auðveldlega til, þeir hafi allir verið minni háttar og engin merki um að þeir hafi verið lífshættulegir.

 

D

Í samantekt í vottorði G sálfræðings 7. desember 2016 segir að brotaþola hafi verið vísað í sálfræðilegt mat og áfallahjálp hjá sálfræðiþjónustu neyðarmóttökunnar eftir meinta líkamsárás og kynferðisbrot 24. júlí 2016. Hún hafi hitt brotaþola fimm sinnum í viðtölum á tímabilinu 26. júlí til 21. september 2016 þar sem henni hafi verið veittur sálrænn stuðningur og áfallahjálp auk þess sem unnið hafi verið greiningarmat á afleiðingum meintrar árásar. Sýni niðurstöður endurtekins greiningarmats að brotaþoli þjáist af áfallastreituröskun í kjölfar meintrar árásar. Sálræn einkenni hennar í kjölfar áfallsins samsvari einkennum sem séu þekkt hjá fólki sem hafi upplifað alvarleg áföll eins og líkamsárás, nauðgun, stórslys eða hamfarir. Hafi niðurstöður sjálfsmatskvarða samsvarað vel frásögnum brotaþola í viðtölum. Hún hafi ávallt virst hreinskilin, trúverðug og samkvæm sjálfri sér. Loks segir í vottorðinu að ekki sé hægt að segja til um hvort eða hvenær bati náist, en ljóst þyki að atburðurinn hafi haft víðtæk áhrif á líðan brotaþola.

 

II

Ákærði skýrði frá því að hann hefði verið í miklum samskiptum við brotaþola í gegnum snapchat og hafi þau verið búin að tala saman um kvöldið. Brotaþoli hefði óskað ákærða til hamingju með [...] og um kl. 22.00 hafi hún sent mynd sem væri í gögnum málsins. Ákærði kvaðst hafa verið með vinum sínum í bænum en síðan farið í [...]. Þá hafi ákærði talað við brotaþola í síma og sagt við félaga sinn að hann ætlaði til brotaþola og fengið hann til þess að koma með. Brotaþoli hafi tekið á móti þeim og hún og hann farið upp í rúm að kyssast og að káfa á hvort öðru. Vinur ákærða hafi verið frammi á meðan, en séð aðeins inn í herbergið. Hann hafi komið inn í herbergið og lagst við hliðina á brotaþola og spurt hvort þau væru ekki til í þrísome. Það hafi farið í taugarnar á brotaþola þannig að þau hafi staðið upp og farið fram í sófa og haldið áfram að kyssast þar. Þá hafi brotaþoli spurt hvort vinur ákærða gæti bara ekki farið heim til sín og farið aftur upp í rúm. Ákærði kvaðst síðan hafa farið með vini sínum til dyra og kvatt hann. Þá hafi ákærði farið til brotaþola upp í rúm og hafi þau stundað kynlíf. Kynlífið hafi verið harkalegt eins og það væri venjulega hjá þeim. Það hafi verið „kyrkingar“ og þá hafi þau slegið hvort annað utan undir. Eftir það hafi þau gert hlé og farið í sturtu og verið þar saman í góða stund. Á meðan hafi flætt upp úr sturtunni. Eftir sturtuna hafi brotaþoli farið í síma ákærða og komist að því að hún hafi ekki beint verið eina stelpan sem hann hefði haft samskipti við þetta kvöld. Brotaþoli hafi ekki tekið vel í það, brjálast og farið inn í eldhús. Kvaðst ákærði hafa verið að þurrka gólfið þegar brotaþoli hafi komið til baka og ráðist á hann með hníf og sagt að hann væri helvítis hálfviti, krypplingur og alveg eins og hann hafi verið, en hann skyldi ekki komast upp með það. Hafi brotaþoli otað hnífnum í hann og skorið fyrst í hökuna. Það hafi verið lítill skurður og hafi hann ekki mikið kippt sér upp við það og hlegið að þessu því að honum hafi fundist þetta fyndið, enda hafi brotaþoli gert þetta við hann áður. Á meðan hafi brotaþoli verið sturluð yfir því sem gerst hafi og stungið hann aftur. Þá hafi stungan verið djúp og hafi hann orðið smeykur og séð skurð hægra megin í andlitinu. Þá kveðst ákærði hafa spurt brotaþola: „Ertu klikkuð, ætlar þú að reyna að drepa mig?“ Hún hafi hlegið og sagt að þetta væri ekkert og í einhverri geðshræringu hafi hún slegið hnífnum í hökuna á sér og við það óvart fengið skurð. Brotaþoli hafi haldið áfram að rífast við ákærða sem hafi klætt sig í buxur og peysu og farið að útidyrahurðinni. Brotaþoli hafi ekki verið með hnífinn og togað í höndina á ákærða og sagt honum að hann væri ekki að fara neitt. Hafi brotaþoli togað svo fast í höndina á honum að hún hafi runnið aftur fyrir sig og dottið. Brotaþoli hafi ætlað að hrækja á ákærða en hrækt upp í loftið þannig að hrákinn lenti á henni sjálfri. Kvaðst ákærði hafa vorkennt brotaþola á þessari stundu og því hætt við að fara, lokað útidyrahurðinni og sagt brotaþola að hann skyldi vera hjá henni ef hann fengi þá að vera í friði. Sagðist ákærði ætla að sofa í sófanum. Þegar hann hafi gengið í áttina að baðherberginu til að huga að sárum sínum hafi hann fengið hnífinn í sig vinstra megin í andlitið. Kvaðst ákærði hafa beðið brotaþola að hætta þessu rugli og þá hafi brotaþoli sleppt hnífnum og kvaðst ákærði halda að hún hafi lagt hann í eldhúsvaskinn frekar en baðherbergisvaskinn. Eftir það hafi hann heyrt bankað og lögreglan þá verið komin. Hafi hann verið handtekinn og fluttur á slysadeild þar sem skurðunum hafi verið lokað og hann skoðaður og lífsýni tekið af typpinu á honum.

Spurður sagði ákærði að brotaþoli hefði leyft honum að koma til sín. Hann hafi beðið vin sinn að koma með sér og sagt við hann að þau gætu bara farið í þrísome. Þau hefðu oft gert það áður. Kvaðst ákærði hafa fylgt vini sínum til dyra en ekki farið út enda hafi ekki staðið til að hann færi með honum. Spurður um áverka á brotaþola og hvort þetta væri venjulegt svona eftir harkalegt kynlíf þeirra sagði ákærði svo vera og vísað til þess að 24. apríl á þessu ári hefðu brotaþoli, hann og fjórar aðrar manneskjur stundað hópkynlíf. Þar hafi verið ein stúlka sem sagði ákærða að hún liti út eins og eftir bílslys eftir ákærða. Var brotaþoli með mikla áverka eftir kvöldið. Ákærði kvaðst aðspurður aldrei hafa bannað brotaþola að fara út úr íbúðinni og hafi hún aldrei reynt það. Hún hafi farið frjáls ferða sinna um íbúðina og farið út á svalir. Þá kvaðst ákærði hafa slegið brotaþola utan undir, bæði hægra megin og vinstra megin með flötum lófa og kallað hana óþekka druslu eða hóru. Eitt höggið hafi lent á kjálkanum á brotaþola. Spurður kvaðst ákærði hafna niðurstöðu tveggja réttarmeinafræðinga um að langmestar líkur væru á því að áverkar á ákærða hafi verið af hans eigin völdum, enda vissi hann hver hefði skorið hann með hnífnum. Þá neitaði ákærði því að hafa hótað brotaþola með hnífnum. Sagði hann það rétt að hann hefði haft samræði við brotaþola um leggöng og munnmök, en neitaði því aðspurður að hann hefði haft endaþarmsmök við brotaþola. Þá samþykkti ákærði að hafa tekið brotaþola kverkataki og að hafa slegið hana flötum lófa. Ekki hafi verið stundað kynlíf í sturtunni, en þau hafi aðallega verið að kyssast þar. Hafi brotaþoli fróað honum og hann puttað hana en ekki mikið meira en það. Neitaði ákærði því að hafa barið höfðinu á brotaþola utan í vegg í sturtunni. Kannaðist ákærði ekki við það að hafa skorið hárið á brotaþola og taldi að hún hefði gert það sjálf, enda hefði hún gert það áður til að fella sök á ákærða. Spurður sagði ákærði að hann hefði tekið brotaþola kverkataki með báðum höndum og hefðu þumalfingurnir verið á framanverðum hálsinum. Hefði það verið fast og í langan tíma. Þá hefði verið losað og síðan hert aftur. Brotaþoli hefði beðið um meira og meira. Hefði brotaþoli gert það sama við ákærða þegar hún hefði verið ofan á honum. Þá hefði blætt inn á auga hans og væru áverkar hans þeir sömu. Þá kom fram hjá ákærða að hann og brotaþoli hefðu verið saman í átta ár, en hætt saman 2014, en frá því alltaf hist öðru hvoru og sofið saman og mjög oft sumarið 2016, en þá hafi þau hist reglulega, borðað saman og gert eitthvað með börnunum, en þau eigi [...] börn, [...] og [...] ára. Þeirra kynlíf hafi verið mjög óhefðbundið og greinilega langt yfir öllum velsæmismörkum, það er kynlíf með svipum, dildóum, bindingum, hálsól, kúlu upp í munni og anal plögg. Umrætt kvöld hefðu þau notað tvö dildó, það brúna sem brotaþoli eigi sem hún hafi sett á gólfið og hossast á því á meðan hún tottaði ákærða. Þá hafi brotaþoli notað dildó sem hún hafi nuddað við snípinn á meðan ákærði var aftan á henni. Spurður sagði ákærði að litla dildóið hafi farið upp í endaþarminn á brotaþola. Ákærði sagði að kynlíf hans og brotaþola hafi alltaf verið harkalegt og „kyrkingar“ algengar og reglulegar hjá þeim. Kynlíf þeirra hefði alltaf verið gott og væri það ástæðan fyrir því að þau hefðu aldrei slitið sambandi sínum að fullu og öllu þrátt fyrir að sambúðinni lyki.

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 24. júlí og 27. júlí 2016. Neitaði ákærði öllum sakargiftum og lýsti sig saklausan. Fram kom hjá ákærða seinni daginn að eftir að vinur hans hafði farið hefðu ákærði og brotaþoli stundað harkalegt kynlíf. Það væri eðlilegt hjá þeim að vera með áverka eftir kynlíf, þar með talið för eftir kyrkingar. Þau hefðu farið saman í sturtu og haft gaman. Brotaþoli hefði séð að stelpa sendi ákærða snapchat-skilaboð og hafi brugðist illa við því og orðið æst. Hefði brotaþoli bannað honum að fara og togað í hann. Hann hefði þá ýtt við henni og hún dottið og legið á gólfinu og sagt við hann: „helvítis aumingi,“ og ætlaði að hrækja á ákærða en ekki hitt. Einnig kom fram hjá ákærða að brotaþoli hefði sótt eldhúshníf og otað honum í ákærða með þeim afleiðingum að hann hefði skorist á hálsi. 

  

III

Vitnið A, brotaþoli, gaf skýrslu fyrir dómi og greindi frá því að hún hefði óskað ákærða til hamingju með [...] á Snapchat og hann hefði reynt að fá hana til að koma í bæinn þar sem hann var að djamma með vinum sínum, en hún hafi sagt að hún vildi það ekki og væri að fara að sofa. Um klukkan 05.00 hefði vitnið vaknað við hringingu frá ákærða sem sagðist vera á leiðinni til þess og vanti stað til að vera á. Vitnið kvaðst hafa sagt ákærða að hann væri ekki velkominn en ákærði hafi skellt á. Vitni hefði reynt að ná í ákærða til að segja honum að hann væri ekki velkominn. Stuttu síðar hefði ákærði komið inn, en íbúðin var ólæst, og H með honum. Vitnið kvaðst hafa verið á náttfötunum, orðið brjálað og farið að rífast við ákærða og segja honum að hann væri ekki velkominn. Á endanum hefði vitnið leyft þeim báðum að gista á sófanum og sjálft farið inn í herbergi. Þeir hefðu svo komið á nærbuxunum inn í svefnherbergið, lagst upp í rúm hjá vitninu, káfað á því og reynt að kyssa vitnið. Vitnið kvaðst hafa orðið brjálað og reynt að losna við þá. Þeir hefðu verið út úr dópaðir. Á endanum hafi hún farið fram í sófa og ákærði komið á eftir henni og sagt að hann ætti [...] og ætti skilið að fara í þrísome með vitninu. Vitnið kvaðst hafa sagt þeim að drulla sér út, það væri ekki að fara að gerast. Hefðu þeir báðir farið út úr íbúðinni og kvaðst vitnið halda að þeir væru báðir að fara, en eftir um tvær mínútur hefði ákærði komið aftur og bankað á dyrnar. Vitnið hafi opnað fyrir honum af því að það hefði talið að hann hefði gleymt símanum sínum. Ákærði hefði beðið vitnið um gistingu og sagt að hann hefði engan stað til að vera á, þrátt fyrir að hafa sent vin sinn í burtu á bíl ákærða í annað hús rétt hjá heimili vitnisins.

Á endanum hefði vitnið leyft honum að sofa á sófanum og sagt ákærða að hún nennti engu kjaftæði, hún ætlaði að fara að sofa. Ákærði hefði þrátt fyrir það komið upp í rúm og byrjað að káfa á vitninu og kyssa. Vitnið kveðst hafa neitað og ákærði þá sagt að vitnið væri að gera lítið úr honum af því að hann ætti [...]. Vitnið vanvirði ákærða með því að vilja ekki sofa hjá honum. Hefði ákærði alltaf reynt meira og meira og orðið ágengari og ágengari þannig að vitnið hefði ætlað að setjast upp í rúminu, en þá hefði ákærði komið og rifið í vitnið og tekið í hálsinn á því og byrjað að vera ágengur og haldið vitninu niðri. Vitnið kvaðst þá hafa áttað sig á því að ekki væri allt með felldu og hafa sagt ákærða að hætta en það hafi ákærði ekki gert. Vitnið kvaðst hafa orðið hrætt. Ákærði hefði haldið vitninu niðri og byrjað að taka það úr fötunum og byrjaði „að sofa hjá vitninu“ með því að beita vitnið ofbeldi. Vitnið kvaðst hafa áttað sig á því að þetta væru aðstæður sem það yrði að koma sér út úr þannig að það hafi hugsað um að hlaupa út og kalla á hjálp. Vitnið kvaðst hafa ætlað að fara úr rúminu en þá hefði ákærði tekið í höndina á vitninu og snúið því við, tekið í hálsinn á vitninu og tekið vitnið þannig niður í gólfið og haldið fast. Vitnið kvaðst þó hafa náð að losa sig og hlaupa fram á gang og opna útidyrahurðina, en vegalengdin sé svo stutt að ákærði hefði strax náð vitninu og snúið það niður með hálstaki fyrir utan útidyrahurðina. Vitnið kvaðst hafa reynt eins og það gat að sparka og klípa í punginn á ákærða og losna. Þetta hafi staðið svo lengi og endað þannig að vitnið hefði ekki náð að streitast lengur á móti. Vitnið kvaðst ekki hafa getað barist um lengur og fundist að það væri að deyja. Það eina sem vitnið muni af þessu sé að það hafi hætt að geta hreyft sig og hristist í fótunum og það hafi verið eins og vitnið hafi dottið út. Það næsta sem vitnið muni er að það hefði rankað við sér í rúminu og þá hefði ákærði verið kominn með hníf og haldið í hálsinn á vitninu og hótaði að nauðga vitninu og lemja það. Hann hefði hótað að drepa vitnið ef það hætti ekki að gráta. Ákærði hefði haldið vitninu niðri og beitt það miklu ofbeldi. Það hefði verið í nokkurn tíma og kvaðst vitnið hafa hugsað hvað það gæti gert til að koma sér út úr þessum aðstæðum. Kvaðst brotaþoli hafa spurt ákærða hvort opna mætti glugga og hvort vitnið mætti fara í sturtu til að geta komist út úr herberginu. Ákærði hefði þá fært vitnið með valdi inn á klósett og í sturtu. Þar hefði ákærði hrint vitninu í gólfið og nauðgað henni aftan frá og ýtt vitninu upp að vegg og tekið það hálstaki. Eftir það hefði ákærði tekið vitnið úr sturtunni og fram á gang. Þá hefði ákærði verið með hníf sem hann hafi geymt í vaskinum á meðan vitnið var í sturtunni, en þegar ákærði ætlaði að fara með vitnið á ný inn í herbergið hefði ákærði hótað vitninu með hnífnum og skorið í andlit þess. Eftir það hefði ákærði farið með vitnið inn í herbergið og nauðgað vitninu og sagst ætla að stinga það til dauða ef vitnið myndi ekki stynja fyrir hann. Þá hefði ákærði einnig hrint vitninu á magann í rúminu og nauðgað því í rassinn. Vitnið kvaðst hafa öskrað en þá hefði ákærði lamið vitnið í kjálkann og hótað vitninu með hníf. Þetta hefði tekið mjög langan tíma og hefði ákærði hótað að drepa brotaþola og sjálfan sig. Það hefði ekki breytt neinu þó að brotaþoli hefði farið að tala við ákærða um börnin þeirra. Hann hefði bara ætlað að drepa vitnið, það hefði sést á honum. Eftir þetta hefði ákærði farið með vitnið aftur inn á bað, en brotnað niður og farið að gráta og sagt að vitninu væri drullusama um hann. Þá sagði hann vitnið geta hringt á lögregluna. Hann vildi bara deyja. Hann hefði síðan tekið upp hnífinn og reynt að fá vorkunn hjá vitninu og sagst ætla að drepa sjálfan sig og byrjað að skera í hálsinn á sér. Eftir allt sem hann hefði gert hefði hann byrjað að gráta og ætlast til að fá vorkunn hjá vitninu. Ákærði hefði farið inn í stofu, lagst í keng og grátið. Vitnið kvaðst þá hafa farið inn í herbergið og nýtt tækifærið og sent SMS á lögregluna og snapchat-skilaboð á vinkonu sína. Eftir það kvaðst vitnið hafa beðið eftir lögreglunni.

Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa getað komist út úr íbúðinni áður en lögreglan kom á staðinn. Vitnið bar að það hefði horft á lyklana allan tímann en ekki þorað að hlaupa í burtu og ekki þorað að taka áhættuna af því að ákærði myndi ná vitninu. Vitnið kvaðst hafa reynt það, en ákærði hefði náð vitninu við útidyrnar og tekið það hálstaki. Eftir það kvaðst vitnið ekki hafa þorað út úr íbúðinni. Kvaðst vitnið hafa orðið svo hrætt um líf sitt að það hafi ekki þorað annað en að gera það sem ákærði vildi. Þá bar vitnið að ákærði hefði haft samfarir við vitnið um leggöng og endaþarmsmök. Þá hefði ákærði látið vitnið hafa við sig munnmök. Þá sagði vitnið að ákærði hefði barið vitnið í kjálkann, í bakið með krepptum hnefa, einu sinni eða tvisvar, tekið vitnið hálstaki og sagði vitnið að ofbeldið hefði staðið allan tímann. Spurt um það hvort vitnið hafi misst meðvitund kvaðst vitnið halda að svo hefði verið því að vitnið kvaðst hafa rankað við sér í rúminu eftir að ákærði hefði „kyrkt“ vitnið. Ákærði hefði „kyrkt“ vitnið það lengi að vitnið gat ekki lengur barist um og mundi ekki meira og ekki annað en að vitnið væri að deyja. Spurt um andlega líðan kvaðst vitnið hafa verið hjá sálfræðingi. Hún hefði verið greind með áfallastreituröskun og myndi halda áfram að hitta sálfræðinginn. Þá kvaðst vitnið ekki hafa getað búið lengur í sama húsi og þurft að flytja og hætta við að byrja háskólanám sem vitnið hafi verið spennt fyrir. Þetta hefði verið erfitt fyrir vitnið vegna barna þess og ákærða og myndi hafa áhrif á líf vitnisins í framtíðinni. Kynlífið í umrætt sinn hefði ekki verið með samþykki vitnisins og þó að þau hefðu stundað harkalegt kynlíf áður þá hefði það ekki verið með ofbeldi. Ákærði hefði tekið um háls vitnisins en ekki meitt hana. Þau hefðu aldrei verið að meiða hvort annað og áverkar hefðu aldrei verið með viðlíka hætti. Það væri röng lýsing hjá ákærða. Þá neitaði vitnið því að hafa otað hníf að ákærða og einnig því að þau hefðu notað kynlífshjálpartæki. Spurt af verjanda ákærða kannaðist vitnið við það að hafa tekið þátt í hópkynmökum í apríl 2016 og þá verið „kyrkt“ af kærasta einnar stúlkunnar. Kvaðst vitnið ekki hafa fílað það og hefði ákærði séð það og beðið viðkomandi að hætta. Þá sagði vitnið að það hefði komið fyrir að þau stunduðu harkalegt kynlíf, en það hefði verið af því að ákærði vildi það. Ekki hefði verið hefðbundið hjá þeim að beita kyrkingartökum, en ef það hefði verið gert, hefði það ekki verið fast. Ákærði hefði í þeirra kynlífi tekið vitnið hálstaki. Spurt um það hvort hún hefði reynt að kalla á hjálp svarði vitnið því að það hefði hún gert þegar hún hafi reynt að flýja.

Brotaþoli gaf skýrslu hjá lögreglu 24. júlí 2016 og greindi meðal annars frá því að ákærði hefði í umrætt sinn verið að káfa á henni, haldið henni og kysst hana. Hún hafi ekki viljað það og staðið upp úr rúminu, en þá hafi ákærði tekið um hálsinn á brotaþola og byrjað að vera „aggressífur“ og tekið hana úr fötunum, haldið henni niðri og haft samfarir við hana í leggöng. Brotaþoli kvaðst hafa orðið hrædd og ætlað að hlaupa út og öskra á hjálp. Við útidyrnar hafi ákærði komið aftan að brotaþola og tekið hana mjög föstu kverkataki sem hún hafi ekki getað losað sig úr. Ákærði hafi haldið svo lengi að brotaþoli hafi haldið að hún væri að deyja. Líkaminn hafi byrjað að hristast og hún hafi fengið kippi í fæturna og dottið út af súrefnisskorti. Eftir það hafi hún rankað við sér í svefnherberginu. Þar hafi ákærði haft við hana samfarir og hótað brotaþola, meðal annars því að ef hún hætti ekki að gráta þá myndi hann stinga hana og drepa. Þá kom fram hjá brotaþola að ákærði hefði lamið hana mjög fast í kjálkann út af því að hún hætti ekki að gráta. Einnig hafi ákærði viljað hafa endaþarmsmök við brotaþola og látið typpið inn í rassinn á brotaþola sem kvaðst hafa öskrað af sársauka. Lýsti brotaþoli frekara ofbeldi af hálfu ákærða, meðal annars í sturtunni, þar sem ákærði hefði tekið hana hálstaki og hrint henni upp að vegg og hafði við hana samfarir aftan frá. Eftir það hafi ofbeldið haldið áfram í svefnherberginu og það í heild staðið í 1½ - 2 klukkutíma. Kvaðst brotaþoli ekki hafa þorað að streitast á móti og gefist upp á því að veita mótspyrnu.

Í skýrslu læknis um réttarlæknisfræðilega skoðun er haft eftir brotaþola að hún hafi reynt að flýja undan ákærða, en hann hafi haldið henni niðri og reynt að kyrkja hana. Hún hafi haldið að hún væri að deyja og rankað við sér uppi í rúmi hágrátandi. Hafi ákærði haft við hana samfarir. Hann hafi gefið henni högg á kjálka og verið með hníf og hótað að drepa hana ef hún myndi ekki stynja. Þá er haft eftir brotaþola að ákærði hafi kýlt hana oft um allan líkamann og haft samfarir við brotaþola um munn, leggöng og endaþarm. Þetta hafi staðið í frekar langan tíma og hafi hún ekki náð að kalla á hjálp.

Vitnið I, móðir brotaþola, greindi frá því að hún hefði hitt brotaþola daginn eftir atvikið heima hjá vinkonu brotaþola. Brotaþoli hefði verið niðurbrotin, illa farin, ólík sjálfri sér og í miklu áfalli. Augun í brotaþola hefðu verið blóðdeplótt og hún með skurð á hökunni. Atvikið hefði haft mikil áhrif á líf brotaþola. Henni hefði þótt erfitt að vera í íbúðinni, hún hefði verið vör um sig og í hálfgerðu losti.

J lögreglumaður, sem vann vettvangsskýrslu í málinu, greindi frá því fyrir dómi að hann hefði séð blóðbletti og kám á gólfi íbúðarinnar og hárflygsur hér og þar og því hefði hann dregið þá ályktun sem kæmi fram í skýrslunni að átök hefðu verið í íbúðinni. Sum húsgögn í stofu hefðu verið færð til. Þá hefði hnífur fundist í íbúðinni með hári og blóði á hnífsblaðinu og stór hárflygsa hefði fundist á gólfi í svefnherbergi fyrir innan dyrnar. 

Vitnið K lögreglumaður greindi frá því að hann hefði komið á vettvang, tekið við ákærða í anddyri íbúðarinnar og flutt hann á slysadeild þar sem hann hefði verið saumaður. Eftir það hefði ákærði verið fluttur á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Vitnið kvaðst ekki hafa farið inn í íbúðina. Ákærði hefði verið með áverka á hálsi. Ekki hefði verið áfengislykt af ákærða, hann hefði verið rólegur allt þar til kom að sýnatöku við læknisfræðilega skoðun á ákærða á lögreglustöðinni. Ákærði hefði æst sig verulega og hótað að taka kylfuna af vitninu og berja alla. Skoðunin hafi verið ítarleg og tímafrek og hefði ákærði frekar viljað fara að sofa en láta skoða sig.

Vitnið L lögregluvarðstjóri skýrði frá því að hann hefði verið fyrstur á vettvang. Hann hefði tekið eftir því að hurðin að íbúðinni hefði verið örlítið opin og hurðarstafurinn brotinn. Brotaþoli hefði verið fyrir innan og látið vita af ákærða sem hefði verið hálfsitjandi í sófa innst í stofunni. Vitnið sagði brotaþola hafa verið í miklu uppnámi og með sár í andliti. Hún hefði verið beðin um að fara inn í herbergi. Greinilegt var að eitthvað mikið hafði gerst í íbúðinni. Hurð út á svalir stóð opin. Blóð og hárlufsur mátti sjá á gólfi og blóðkám á veggjum. Ákærði hefði fylgt fyrirmælum lögreglu og verið tilkynnt að hann væri handtekinn, settur í handjárn og færður burt af vettvangi. Brotaþoli hefði greint vitninu frá því í upphafi hvers vegna hún hefði óskað eftir aðstoð lögreglu. Sagði hún að ákærði hefði nauðgað henni og beitt hana miklu ofbeldi. Þegar lögregla hafi áttað sig á því að þarna hefði hugsanlega átt sér stað saknæmur atburður þá var reynt að tryggja það að brotaþoli fengi sem skjótasta aðstoð á spítala. Ákærði sagði þegar hann var leiddur út úr íbúðinni að brotaþoli hafi reynt að stinga hann.

Vitnið M lögreglumaður skýrði frá því að hún hefði komið til aðstoðar á vettvangi. Ákærði hefði þá verið fluttur af vettvangi, en brotaþoli enn verið á staðnum. Vitnið kvaðst hafa flutt brotaþola á bráðamóttöku til skoðunar og verið viðstödd þegar brotaþoli ræddi við hjúkrunarfræðing og lögreglu sem þangað kom. Augljós merki um átök voru í íbúðinni og var brotaþoli í mjög miklu uppnámi og sagði frá því sem hefði gerst. Hún var með sjáanlega áverka á hálsi og höku og augu blóðhlaupin.

Vitnið N, sérfræðingur í tæknideild lögreglunnar, var spurður um hár sem fundust á vettvangi, á gólfi, á úri og á hnífi. Vitnið sagði hár á gólfi, úri og á hnífnum hafi öll verið sams konar að útiliti og samanburðarhár af brotaþola. Meira væri ekki um það að segja. Flest háranna voru þannig að þau hefðu fallið eðlilega úr hársverði, en inn á milli voru hár sem báru einkenni þess að vera slitin og hár sem voru með lengri rót sem báru merki þess að hafa verið toguð eða rifin úr hársverðinum. Spurt um hár sem fundust í sturtu sagði vitnið að þau hefðu fallið eðlilega úr hársverði. Vitnið kannaðist aðspurt við að hafa rannsakað hníf sem fannst á vettvangi. Hárflóki hefði verið í kringum hnífinn og blóðkám á báðum hliðum hnífsins. Ekki hafi verið leitað eftir fingraförum á hnífnum, reynslan sýndi að ekki væru miklar líkur á því að finna fingraför á hnífum vegna þess að mikil uppsöfnuð fita væri á handfanginu.

Vitnið B gaf skýrslu fyrir dómi og greindi frá því að brotaþoli hefði sent vitninu skilaboð á facebook um að ákærði hefði hringt í brotaþola og sagt henni að hann væri á leiðinni til hennar. Þá kvaðst vitnið hafa sagt brotaþola að hringja á lögregluna, enda hefði ákærði verið leiðinlegur en brotaþoli hefði sagt að hún ætlaði ekki að gera það nema ákærði yrði með einhver læti. Vitnið kvaðst hafa fengið sent frá brotaþola að ákærði væri kominn til hennar með vini sínum. Hefði brotaþoli sagt vitninu að hún vildi ekki stunda kynlíf með ákærða. Eftir þetta hefði vitnið ekki heyrt neitt í brotaþola fyrr en um morguninn þegar vitnið hefði fengið sent frá brotaþola „hringdu á lögguna“ og að ákærði hefði nauðgað brotaþola. Þá hefði brotaþoli sent henni myndir af áverkum á sér. Vitnið kvaðst hafa hringt strax á lögregluna og farið heim til brotaþola eftir vinnu sem hefði verið um kl. 08.00. Þá var búið að fjarlægja ákærða. Brotaþoli var sjokkeruð, en vitnið kvaðst ekki hafa náð að tala við hana. Spurð um áverka á brotaþola sagði vitnið að brotaþoli hefði verið með skurð á hökunni, rauð og bólgin í augum og marin á líkamanum.

Vitnið H skýrði frá því að hann hefði verið með ákærða umrætt kvöld að skemmta sér. Ákærði hefði verið graður og haft samband við brotaþola og boðið vitninu að koma með til að fara í þrísome með brotaþola sem ákærði hefði ýjað að. Vitnið kvaðst ekki vita til þess að ákærði hefði rætt það við brotaþola en það gæti verið. Þegar komið var heim til brotaþola hafi hún boðið þeim inn. Ákærði og brotaþoli hefðu farið inn í herbergið og kvaðst vitnið hafa elt þau. Þau hefðu verið að kyssast og káfa á hvort öðru. Vitnið kvaðst hafa farið fram. Þau hefðu svo komið fram, legið hvort ofan á öðru í sófanum og verið að kyssast. Það hefði verið með fullu samþykki brotaþola eftir því sem vitnið best vissi. Brotaþoli hefði beðið þá um að fara og þá hefði vitnið farið út og beðið ákærða að koma. Á leiðinni út hefði ákærði sagt vitninu að fara og snúið sjálfur við og farið aftur til baka. Þeir hefðu þá verið á stigaganginum fyrir utan íbúðina. Ákærði hefði ekki sagt hvað hann ætlaði að gera, en sagt vitninu að fara. Spurt sagði vitnið að brotaþoli hefði ekki verið til í þrísome.   

Vitnið O heimilislæknir skýrði frá því að það hefði skoðað brotaþola í beinu framhaldi af atvikinu. Brotaþoli hefði verið dofin og greinlega í losti. Líkamlega hafi brotaþoli verið með mikla sýnilega áverka, með opinn skurð á hökunni, sem var saumaður. Þá var brotaþoli marin á kinnbeinum og áverkar á hálsi, roði og rispur, og rauð í augum. Þá hefði líkaminn allur verið í marblettum og rispum og roða. Sár á báðum hnjám og áverkar á kynfærum, með rispu frá endaþarmi og upp að leggöngum. Þetta væri rifa í holdi sem kæmi ekki af venjulegum samförum, en þó væri alltaf spurning hvað væru eðlilegar samfarir. Frásögn sjúklings í því vottorði sem vitnið ritaði hefði verið skráð niður beint eftir brotaþola. Spurt svaraði vitnið því að áverkar á brotaþola gætu samrýmst þeirri lýsingu sem gefin hefði verið á atvikum. Brotaþoli hefði lýst kyrkingu og kverkataki sem hefði valdið því að hún hefði aðeins dottið út eftir það. Brotaþoli hefði verið með mikla áverka á hálsi og blæðingar í augunum sem samrýmast því mjög vel. Slíkar blæðingar gætu komið við litla áverka og jafnvel af því að hósta, en þrýstingur og blæðingar í augum væru velþekkt við kyrkingar. Lýsingar brotaþola á því að hún hefði misst meðvitund samrýmdust því mjög vel að hún hefði dottið út og súrefnismettunin hefði fallið mjög langt niður og mögulega hefði brotaþoli verið mjög hætt komin. Þá hefðu áverkar í andliti að öðru leyti verið út af ítrekuðum höggum í andlitið, til dæmis á kinnbeinum. Þá hefðu verið skurðáverkar mögulega eftir hníf.

Vitnið P hjúkrunarfræðingur greindi frá því að hún hefði tekið á móti brotaþola á bráðamóttöku. Brotaþoli hefði verið í miklu uppnámi og grátandi, öll blóðug og endurtók oft „Ég hélt hann myndi drepa mig, ég hélt að ég myndi deyja“. Vitnið kvaðst hafa kallað út lækni, hjúkrunarfræðing og réttargæslumann af því að brotaþoli hefði greint frá því að hún hefði verið beitt kynferðislegu ofbeldi. Brotaþoli hefði sagt vitninu frá því sem gerst hefði um nóttina. Sýnilegir áverkar voru á hálsi, skurður á höku og augun blóðug eftir sprungnar æðar. Brotaþoli hefði ekki verið undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. 

Vitnið Q gaf skýrslu fyrir dómi og greindi frá því að hún hefði hitt brotaþola á bráðamóttökunni. Brotaþoli hefði verið í losti og dofin og óttaðist um líf sitt. Hún hefði verið með áverka úti um allt og lýsing hennar á atvikum hefði passað við áverka þá sem vitnið sá á brotaþola. Fram kom hjá vitninu að brotaþoli hefði verið með mikla verki í eyra og hefði reynst vera með sprungna hljóðhimnu. Vitnið staðfesti þá skýrslu sem það vann vegna brotaþola.

Vitnið C læknir gaf skýrslu fyrir dómi. Vitnið kvaðst hafa sinnt brotaþola á bráðamóttöku vegna áverka á eyra. Þá hefði sár á höku verið saumað. Hljóðhimnan hefði verið sprungin. Vitnið sagði högg á eyra sem veldur þrýstingsbylgju inn í eyra valda því að hljóðhimnan, sem er þunn og viðkvæm, springur. Ekki væri hægt að segja til um afl höggsins, en það færi eftir því hvernig þrýstingsbylgjan myndast. Það þurfi minna högg ef höggið er velheppnað með flötum lófa og lendir beint á eyra, lokar fyrir og veldur þannig þrýstingsbylgju inn eyrnaganginn. Brotaþoli var ekki aðeins með punktblæðingar á þessari hljóðhimnu heldur var blæðing einnig undir slímhimnu vinstra auga nefmegin og auk þess punktblæðingar á hvítunni þar fyrir utan. Það benti til og styður þá sögu að brotaþoli hafi verið tekin kverkataki af því að punktblæðingar myndast við kverkatak sem stöðvar blóðrás niður úr höfðinu og einnig upp í höfuð og öndun. Slíkar punktblæðingar verða meira áberandi þegar frá líður. Þær ályktanir má draga að kverkatakið, ef blæðingarnar orsakast af því, sem sé langlíklegast, hafi verið umtalsvert kverkatak sem hefur valdið blóðrásartruflunum af þessu tagi og þessar punktblæðingar geta orðið meiri þegar frá líður, en brotaþoli var skoðuð stuttu eftir atvikið. Þannig að þetta er umtalsvert kverkatak sem hefur haft veruleg áhrif á starfsemi höfuðsins og æða, til dæmis inn í heila. Það gefi augaleið að hefði kverkatakið staðið lengur hefði það getað orsakað dauða. Spurt um það hvort brotaþoli hafi misst meðvitund um tíma bar vitnið að svo gæti verið og væri það líklegt. Vitnið staðfesti framlagt vottorð sem það vann vegna brotaþola.

Vitnið F gaf skýrslu fyrir dómi og skýrði frá því að miðað við þær ljósmyndir sem vitninu voru sendar hafi eftirgreinda áverka verið að sjá á ákærða: Beggja vegna á hálsi voru grunnir, samsíðaliggjandi skurðáverkar sem orsakast af valdbeitingu eins og um hníf eða hnífsodd væri að ræða. Staðsetning áverkanna samrýmast áverkum af eigin völdum. Þetta byggist á því að í átökum megi gera ráð fyrir því að gerandi hafi ekki fulla stjórn á því hversu djúpir áverkarnir verða. Ef um er að ræða tvo aðila sem eru á hreyfingu þá er ólíklegt að fram komi áverkar eins og sjá má á hálsi ákærða. Við slíkar aðstæður er ekki við því að búast að áverkar séu af því tagi og með því útliti sem myndirnar sýna. Ekki hafi verið hægt að sjá áverkana í heild af myndunum því að hluti af þeim var hulinn plástri.

Aðspurt um áverka á höku brotaþola sagði vitnið að um öðruvísi áverka væri að ræða. Áverkinn byrjaði grunnt en dýpkaði svo og grynnkaði svo aftur og væri opinn. Um væri að ræða djúpan skurð hjá brotaþola, en grunna áverka ákærða. Áverkinn á brotaþola væri dæmigerður fyrir áverka sem er af völdum annars, þó með þeim fyrirvara að staðurinn á þolandanum er aðgengilegur og því væri ekki hægt að útiloka áverka af eigin völdum en það væri ólíklegt. Hvað varðaði áverka á hálsi, augum og eyrum brotaþola gætu þeir vel verið merki um kyrkingu án þess að hægt væri að segja til um með hvaða afli. Vísbending um afl sem veitt var má ráða af augunum. Þegar um er að ræða kyrkingu með berum höndum lokast fyrst fyrir bláæðar og við þær aðstæður berst ennþá blóð til höfuðsins um slagæðarnar sem nær ekki að renna til baka um bláæðarnar og því eykst þrýstingurinn í höfðinu sem leiðir til þess að æðarnar fara að springa. Slíkar afleiðingar má sjá í tilviki brotaþola og þar af leiðandi má draga þá ályktun að í þessu tilviki hafi verið beitt á hálsinn töluverðu afli um tiltölulega langan tíma. Vandinn við að meta aflið sjálft og tímann eru margar breytur sem taka þyrfti tillit til við líkamsárás. Um leið og kyrkingartaki er sleppt, annaðhvort vegna þess að þolandi losnar eða takinu er sleppt, þá eru æðarnar aftur opnar um stuttan tíma og við næsta kyrkingartak byrjar hringrásin upp á nýtt og því er eingöngu hægt að gefa almenn svör og ekki nákvæm í hverju tilviki fyrir sig. Kvaðst vitnið því ekki geta sagt til um hversu lengi eða hvaða afli beitt var. Spurt um afleiðingar af því að taka um háls með því afli og í þann tíma sem um var að ræða sagði vitnið það vera lífshættulegt athæfi vegna þess að þegar kyrkingartak er með höndunum verður aflinu ekki stýrt. Það fyrsta sem gerist er að súrefnisskortur verður í höfði og meðvitundarleysi fer að segja til sín sem getur kallað fram lífshættulegar aðstæður.

Vitnið E réttarmeinafræðingur, dómkvaddur matsmaður, gaf skýrslu fyrir dómi og greindi frá niðurstöðu sinni varðandi þá áverka á ákærða sem hann skoðaði af myndum. Ennisáverki væri ekki eftir hníf, heldur eftir bitlausan hlut. Ekki væri hægt að greina á milli þess hvort um slys væri að ræða að áverka af eigin völdum. Lýsti vitnið þeim áverkum sem hann hafi skoðað af myndum og sagði grunnar rispur og áverka ekki vera tilkomnar eftir átök, enda hefði þolandinn þá þurft að vera grafkyrr á meðan. Þessar grunnu rispur væru því ekki tilkomnar í átökum. Á hægri hlið höku væri um áverka að ræða eftir bitlausan hlut. Af myndinni að dæma er um húðhrufl að ræða og óreglulega blóðrönd. Allt eru það merki um bitlausan áverka. Ekki væri hægt að greina hvort um væri að ræða áverka af eigin völdum eða af slysni. Heildarmyndin væri sú að svona áverkar, grunnir og samsíða liggjandi væru dæmi um bitlausa áverka af eigin völdum. Sár á vinstri hlið höku brotaþola væri metið sem skurðsár. Sjá megi fituvef undirhúðar, þannig að skurðurinn hafi verið djúpur. Af staðsetningunni megi ráða hvort hér sé um áverka af eigin völdum að ræða eða ekki, en miðað við legu, dýpt og annað útlit sé frekar um áverka af völdum annars að ræða. Í matinu verður þó alltaf að taka tillit til heildarmyndar áverkanna. Sjá má ummerki um alvarlega áverka sem veittir voru á háls brotaþola. Skurðsárið á hökunni sé væntanlega eftir hníf og valdbeitingu. Við mat á heildarmyndinni er gert ráð fyrir áverkum af völdum annars, en ekki er með fullu öryggi hægt að útiloka áverka af eigin völdum. Spurt um það hvort áverkar á ákærða geti verið komnir til með þeim hætti að þriðji maður hafi veitt honum áverkana án þess að hann veitti mótspyrnu sagði vitnið að áverkinn ætti þá að vera misdjúpur. Annar maður gæti hafa veitt honum áverkana ef hann hefði staðið algerlega grafkyrr. Varðandi áverkana á brotaþola væri fræðilega ekki útilokað að hún hefði rekið hnífinn óvart í sig, en þá hefði hún þurft að halda á hnífnum með mjög sérstökum hætti til að geta valdið svona sári. Vitnið staðfesti þá skýrslu sem það vann í málinu.

Vitnið G sálfræðingur gaf skýrslu fyrir dómi og skýrði frá því að hún hefði hitt brotaþola fimm sinnum. Brotaþoli hefði í byrjun sýnt mikil einkenni áfallastreitu sem metin hefði verið í hvert sinn. Brotaþoli fyllti út sjálfsmatkvarða og eftir sex vikur hafi brotaþoli uppfyllt öll greiningarviðmið fyrir áfallastreituröskun. Meðferð væri ekki lokið og myndi halda áfram eftir dómsmálið. Brotaþoli hefði talað mikið um endurminningar frá atburðinum, sérstaklega frá því þegar meintur gerandi hafi tekið hana kverkataki. Þá hafi brotaþoli lýst ofsahræðslu, hjálparleysi og mikilli lífshættu. Þá hafi hún greint frá forðun og forðaðist allt sem minnti á áfallið og vildi ekki hugsa um það eða tala um það eða að vera á stöðum sem minntu hana á áfallið. Brotaþoli væri dofin og reið og sýndi há kvíða og þunglyndiseinkenni. Þá hafi brotaþoli hætt í skóla og upplifði sig óörugga í skólanum. Aðspurt sagði vitnið að brotaþoli hefði greint frá öðrum tilvikum þar sem sami gerandi hafði beitt hana líkamlegu ofbeldi. Vitnið staðfesti framlagt vottorð sem það vann vegna brotaþola.

Vitnið R gaf skýrslu fyrir dómi og greindi frá því að hann hefði hitt ákærða fljótlega eftir að hann hafi losnað úr einangrun. Málið hefði haft mikil áhrif á ákærða, mikil depurð og reiði væri yfir því að sitja inni vegna ásakana sem hann teldi ekki réttar. Hefði ákærði lítillega sagt vitninu frá málinu og sagt að ákærði og brotaþoli hefðu haft samfarir af fúsum og frjálsum vilja og af og frá sé að um nauðgun hafi verið að ræða. Vitnið kvaðst hafa spurt ákærða út í harðræði í samförum þeirra og verið sagt að þetta væri eitthvert norm sem hefði þróast hjá þeim. Hefði ákærði strax upplýst vitnið um þetta, en sambúð þeirra og samskipti hefðu verið mjög stormasöm.

Vitnið S kom fyrir dóm og greindi frá því að hún þekkti ákærða og brotaþola í málinu. Vitnið og ákærði hefðu verið vinir í smátíma og æft saman í [...]. Brotaþola hefði vitnið kynnst í gegnum ákærða á [...] brotaþola í [...]. Þau hafi verið sex saman og stundað kynlíf saman eftir að hafa verið saman á veitingastað. Það hefði verið harkalegt og harkalegra en venjulegt kynlíf, mikið að gerast og mikill hraði. Gengið hafi verið eins langt og mögulegt var. Mikið um flengingar og mikið slegið að ósk kvennanna, en ekkert var gert sem þær ekki vildu, en þær væru fyrir meiri hörku heldur en sumar aðrar konur. Brotaþoli var á staðnum og var mikið fyrir niðurlægingu. Það var skyrpt framan í hana og hún skreið mikið á gólfinu og sóttist í að láta taka vel á sér, vera slegin og flengd og láta taka utan um hálsinn sem kallast „breathplay“, en þá er haldið fyrir súrefni bæði um háls og stundum fyrir nef og munninn. Á meðan er stundað kynlíf og þá sleppt og þá kemur súrefnið aftur. Sumir vilja láta líða yfir sig á meðan á kynlífinu stendur. Brotaþoli var tekin hálstaki og haldið lengi um hálsinn. Það hafi sést á þeim, marblettir á öllum pörtum líkamans. Ákærði og maður vitnisins tóku utan um hálsinn á brotaþola. 

Vitnið T rannsóknarlögreglumaður gaf skýrslu fyrir dómi og skýrði frá því að hann hefði komið á vettvang þar sem merki hefðu verið um átök, blóðslettur víðs vegar um íbúðina og hár sums staðar í íbúðinni, meðal annars á vegg í sturtu. Greinilegt var að eitthvað hafði átt sér stað, trúlega átök. Hárin litu þannig út að þau hefðu verið rifin úr hársverði. Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa séð hjálpartæki ástarlífsins í íbúðinni.

Vitnið U læknir kom fyrir dóm til skýrslugjafar og skýrði frá því að hann hefði framkvæmt nokkuð ítarlega líkamsskoðun á ákærða. Allur líkami ákærða hefði verið skoðaður, allt yfirboð líkamans, munnur, kynfæri, en ekki endaþarmur. Tilgreindir áverkar væru tæmandi. Þá hefði lögregla tekið myndir af áverkunum. Ákærði hafi verið með sár og rispur á hálsi sem lokað hafði verið á slysadeild áður. Ekki alvarlegir áverkar, en samt í gegnum húðina án þess að sauma þyrfti áverkana. Vitnið kvaðst ekki muna eftir öðrum áverkum á hálsi og ekki eftir blæðingum í augum. Vitnið kvaðst ekki hafa lýst inn í augnbotn og ekki séð punktblæðingar í augum. Það hefði verið bókað í skýrslunni. Yfirborðshúðrispur á handleggjum og herðablaði væru eftir klór. Þær væru þess eðlis. Vitnið staðfesti þá skýrslu sem það vann í málinu.

Vitnið V læknir kom fyrir dóminn og greindi frá því að hann hefði skoðað ákærða sem hefði komið í fylgd lögreglu og verið undir áhrifum. Ákærði hefði verið með tvo grunna skurði á hálsi sem blætt hefði úr. Vitnið kvaðst hafa skoðað ákærða en nánari upplýsingar hefði ekki verið hægt að fá frá ákærða þar sem hann hefði verið undir áhrifum. Gert hafi verið að sárum hans, þau límd með vefjalími og sett stripp yfir. Um grunna skurði hefði verið að ræða sem lokuðust vel þannig að ekki þurfti að sauma skurðina.

 

IV

A

Ákærði neitar sök, en í málinu er hann borinn sökum um tilraun til manndráps með því að hafa í íbúð brotaþola að morgni sunnudagsins 24. júlí 2016 tekið brotaþola hálstaki og hert að þannig að hún náði ekki andanum og missti meðvitund stutta stund með þeim afleiðingum sem lýst er í ákærunni. Ákærða er einnig gefin að sök nauðgun og sérstaklega hættuleg líkamsárás gagnvart brotaþola víðsvegar í íbúðinni og að hafa í umrætt sinn svipt brotaþola frelsi í um tvær og hálfa klukkustund, haldið henni nauðugri og beitt hana ofbeldi og hótunum sem nánar er lýst í ákærunni.

Framburður ákærða er á þann veg að hann hefði verið að skemmta sér um nóttina, en komið á heimili brotaþola í umrætt sinn ásamt vini sínum til þess að stunda kynlíf með brotaþola. Brotaþoli hefði ekki viljað stunda kynlíf með þeim báðum og viljað að vinur hans færi af vettvangi. Hann hefði farið og eftir það hefðu ákærði og brotaþoli stundað harklegt kynlíf með hennar samþykki. Þá kom fram hjá ákærða að brotaþoli hefði reiðst honum vegna annarrar stúlku og þá veist að honum með hnífi og valdið áverkum á honum í andliti og á hálsi. Þá hefði hún einnig veitt sjálfri sér áverka og skorið hár af höfði sínu, en það hefði hún gert áður og með því fellt sök á ákærða.

Framburður brotaþola er á hinn bóginn á þann veg að ákærði og vinur hans hefðu komið óboðnir á heimili hennar í umrætt sinn og ekki sinnt boði hennar um að þeir færu, enda vildi hún ekki stunda kynlíf með þeim. Vinur ákærða hefði farið og að því er virtist þeir báðir, en ákærði hefði komið aftur og beitt hana miklu ofbeldi, hótað henni og notað til þess hníf, haft við hana samræði í leggöng og endaþarm með því að halda henni og neitt hana til þess að hafa við sig munnmök. Hún hefði sloppið frá ákærða og farið að útidyrunum til að kalla á hjálp, en ákærði hefði náð henni og tekið brotaþola hálstaki sem hefði staðið svo lengi að hún hefði ekki náð að streitast lengur á móti og fundist að hún væri að deyja. Atlaga ákærði hefði staðið í um 1 ½ eða 2 klukkustundir og kvaðst brotaþoli ekki hafa þorað öðru en að hlýða ákærða í einu og öllu og ekki getað komist út úr íbúðinni.

Samkvæmt skýrslum lögreglu sem raktar eru í kafla I voru greinileg ummerki um átök í íbúð brotaþola, húsmunir úr stað, blóðkám á veggjum, blóðslettur á gólfi íbúðarinnar, þar með talið á gólfi í forstofu, blóð sem var klesst eins og einhver hefði legið þar á gólfinu. Þá fannst hnífur í vaski á baðherbergi og hárflygsur víðsvegar og bleyta á baðherbergisgólfi.

Að mati dómsins er að sínu leyti ekki ótrúverðugur sá framburður ákærða að hann og brotaþoli hafi á sambúðartíma þeirra, og einnig eftir að sambúð þeirra lauk, stundað harkalegt kynlíf og að það hafi verið með samþykki brotaþola, enda ber þeim saman um það að nokkru leyti. Í ljósi þess sem fram er komið í málinu verður framburður ákærða um það að hann og brotaþoli hafi stundað harkalegt kynlíf í íbúð brotaþola 24. júlí 2016, með vilja og samþykki brotaþola, metinn afar ótrúverðugur og verður ekki á honum byggt við úrlausn málsins. Sama á við um framburð ákærða um önnur atvik málsins og samskipti hans og brotaþola umrædda nótt. Á það við um þann framburð ákærða að brotaþoli hafi skorið hár af höfði sínu til að fella sök á hann og að brotaþoli hafi veitt honum áverka á hálsi með hnífi. Að áliti réttarmeinafræðinganna E og F voru yfirgnæfandi líkur á því að áverkar á ákærða hafi verið af eigin völdum, en áverkar á brotaþola voru taldir veittir af öðrum en henni.

Brotaþoli hefur greint frá atvikum með sama hætti hjá lækni á neyðarmóttöku, hjá lögreglu og fyrir dómi og verið einlæg og trúverðug í mjög ítarlegri frásögn af atvikum, þar á meðal því að ákærði hefði beitt hana miklu ofbeldi og tekið hana „kyrkingartaki“ með svo miklu afli að hún hefði misst meðvitund stutta stund. Einnig því að ákærði hefði nauðgað henni og beitt hana miklu líkamlegu ofbeldi og hótað henni með hnífi. Dómurinn metur framburð brotaþola trúverðugan svo sem nánar er rakið undir stafliðum B-D hér á eftir og telur ekki minnstu ástæðu til að efast um trúverðugleika hennar, enda fær stöðugur og greinargóður framburður brotaþola stoð í læknisvottorði C sérfræðings og vætti hans fyrir dóminum, niðurstöðu O læknis við réttarfræðilega skoðun á brotaþola og vætti hennar fyrir dómi og í öðrum sérfræðigögnum, þar á meðal framlögðum skýrslum fyrrnefndra réttarmeinafræðinga. 

 

B

Ákærða er í 3. tölulið ákærunnar gefin að sök tilraun til manndráps, með því að hafa í anddyri íbúðarinnar tekið brotaþola hálstaki og hert að þannig að hún náði ekki andanum og missti meðvitund stutta stund, með þeim afleiðingum sem lýst er í ákærunni. Háttsemin er talin varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.

Krafa ákærða um sýknu af sakargiftum samkvæmt þessum tölulið er byggð á því að ákærða hafi skort ásetning til manndráps og því verði hann ekki sakfelldur fyrir brot gegn 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga, enda hafi hann sjálfur sleppt hálstakinu án utanaðkomandi afskipta. Fyrir dómi greindi ákærði frá því að hann hefði ekki bannað brotaþola að fara út úr íbúðinni og hefði hún aldrei reynt það. Hún hefði farið frjáls ferða sinna um íbúðina og meðal annars farið út á svalir. Fyrir dómi kannaðist ákærði þó við að hafa tekið brotaþola kverkataki með báðum höndum, á meðan þau höfðu kynmök, og hefðu þumalfingurnir verið að framanverðu. Hefði kverkatakið verið fast og í langan tíma. Þá hefði hann losað, en síðan hert aftur. Hefði brotaþoli beðið um meira og meira og gert það sama við hann þegar hún hafi verið ofan á honum.

Fyrir dómi greindi brotaþoli svo frá að hún hefði náð að losa sig frá ákærða þegar þau voru uppi í rúmi í svefnherberginu og hlaupa fram á gang og opna útidyrahurðina en ákærði hefði strax náð henni og snúið hana niður með hálstaki. Kvaðst brotaþoli hafa reynt eins og hún gat til að losna og hafa sparkað og klipið í punginn á ákærða, en á endanum hefði hún ekki getað streist lengur á móti. Henni hefði fundist hún vera að deyja, fæturnir hefðu hrists og hún ekki getað hreyft sig, líkt og hún hefði dottið út.

Í skýrslu lögregluvarðstjóra, sem kom fyrstur á vettvang eftir að lögregla var kölluð til, er haft eftir brotaþola að ákærði hafi beitt brotaþola miklu ofbeldi og nærri því drepið hana með því að herða að hálsi hennar. Nánari lýsing brotaþola á þessum atvikum í skýrslunni er sú að ákærði hafi frammi í forstofu „reynt að kæfa“ brotaþola og þá hafi hún haldið að þessu væri lokið, hann myndi drepa hana. Loks segir í skýrslunni að ákærði hafi beitt brotaþola miklu ofbeldi síðastliðið ár, „en þetta hafi verið það alversta og svo mikið að hún hafi verið þess viss að hann dræpi sig.“ Í skýrslu annars lögreglumanns segir um atvikið að brotaþoli muni eftir sér í anddyri íbúðarinnar að reyna að opna hurðina til að kalla á hjálp en þá hafi ákærði tekið hana hálstaki og „kyrkt“ hana þangað til að brotaþoli „missti meðvitund í einhvern tíma.“ Svipuð lýsing á atvikinu er höfð eftir brotaþola í skýrslu O læknis á Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisbrota.

Ákærði neitaði því að hafa tálmað för brotaþola út úr íbúðinni þegar hún hugðist kalla á hjálp og lýsing ákærða að framan á kverkataki því sem hann tók brotaþola tengist harkalegu kynlífi þeirra sem þau hafi bæði tekið þátt í, meðal annars með því að „kyrkja“ hvort annað. Þannig ber mikið á milli í frásögn brotaþola og ákærða. Var frásögn brotaþola fyrir dómi nákvæm og ítarleg og í samræmi við lýsingar brotaþola á atvikum hjá lögreglu við upphaf rannsóknar málsins og lýsingar hennar fyrir þeim sérfræðingum sem skoðuðu brotaþola í kjölfar árásarinnar.

Samkvæmt staðfestu læknisvottorði C sérfræðings og vætti hans fyrir dómi styðja áverkar sem voru á hálsi brotaþola við skoðun á bráðamóttöku þann 24. júlí 2016 frásögn brotaþola um að hún hafi verið tekin kverkataki. Vitnið sagði að auk punktblæðinga á hljóðhimnu hefði einnig verið blæðing undir slímhimnu vinstra auga og punktblæðingar á hvítunni þar fyrir utan. Vitnið sagði að draga mætti þá ályktun af blæðingunum að langlíklegast væri að um umtalsvert kverkatak hefði verið að ræða sem hefði valdið blóðrásartruflunum og verulegum áhrifum á starfsemi höfuðsins og æða, til dæmis inn í heila. Það gæfi augaleið að hefði kverkatakið staðið lengur hefði það geta orsakað dauða. Þá væri líklegt að brotaþoli hefði misst meðvitund við kverkatakið.  

F réttarmeinafræðingur lagði að beiðni ákæruvaldsins mat á þá áverka sem brotaþoli var með á hálsi og í augum og eyrum, með tilliti til þess með hvaða hætti væri líklegt að áverkarnir væru tilkomnir og hvort þeir gætu samrýmst því að hún hefði verið tekin kverkataki. Ef svo væri yrði einnig lagt mat á hversu miklu afli hafi verið beitt og hve lengi takið hafi staðið. Í álitsgerð hans segir að á hálsi brotaþola hafi verið óreglulegur roði á hörundi ásamt svæðum með grunnum skrámum sem séu dæmigerð fyrir kyrkingu með höndum. Greina hafi mátt blettablæðingar í slímhúð augnhvítu beggja augna. Þetta sé dæmigert fyrir mikla æðastíflu sem verði við harkalega kyrkingu með höndum. Þá segir að miðað við staðsetningu handanna á hálsinum sem og samfellu og afl sem hafi verið beitt þurfi viðeigandi tímaramma til að svona áverkar verði. Líklegt sé að brotaþoli hafi verið kyrkt í „allmargar sekúndur allt að mínútu, jafnvel lengur.“ Enn fremur að vísbendingar séu um rænuleysi og miklar punktlaga og dreifðar, blettóttar punktblæðingar í slímhúð augnhvítu sem séu sterkar vísbendingar um að brotaþoli hafi mögulega verið í lífshættu. Ásamt þrýstingu handa á hálsæðar og líkamlegar afleiðingar þess séu ákveðin viðbrögð, svo sem sinusviðbragð hálsæða, sem geti orsakað sterk viðbrögð koktauga og leitt til endanlegs hjartastopps, en gerandi geti ekki haft áhrif á þessi viðbrögð.

Dómurinn metur nákvæma, ítarlega og stöðuga frásögn brotaþola af atvikum trúverðuga, enda fær framburður brotaþola fyrir dómi sem fyrr segir stuðning í læknisvottorði C sérfræðings og vætti hans fyrir dóminum, álitsgerð F og vætti hans fyrir dómi og öðrum sérfræðigögnum málsins. Samkvæmt því og í ljósi þeirra upplýsinga sem fram koma í fyrrnefndum sérfræðigögnum um þá háttsemi ákærða að „kyrkja“ brotaþola með báðum höndum þannig að þumlarnir snéru framanvert að hálsi brotaþola og áhrifa háttseminnar og afleiðinga hennar á brotaþola verður talið sannað með framburði brotaþola fyrir dómi að brotaþoli hafi náð að losna frá ákærða þegar þau voru inni í svefnherbergi og flýja en ákærði hafi stöðvað för hennar út úr íbúðinni þegar hún reyndi að flýja undan ofbeldinu með því að taka brotaþola hálstaki og hert þannig að öndunarvegi brotaþola að hún hafi ekki megnað að streitast á móti og „hafi dottið út“, það er misst meðvitund um stund með þeim afleiðingum sem lýst er í ákæruskjali héraðssaksóknara. Ákærði hafi látið sér afleiðingar af þessari háttsemi sinni í léttu rúmi liggja, en svo sem fram er komið lýsti brotaþoli því fyrir dómi að hún hefði ekki megnað að streitast lengur á móti og „hafi dottið út“. Vætti C læknis og F staðfesta mikil líkindi þess að brotaþoli hafi misst meðvitund við hálstakið. Sá síðarnefndi bar um það fyrir dómi að þrýstingur handa á hálsæðar geti orsakað sterk viðbrögð koktauga og leitt til hjartastopps og geti gerandi ekki haft áhrif á þessi viðbrögð. Samkvæmt þessu og með vísan til alls þess sem að framan er rakið telur dómurinn sannað með trúverðugum og greinargóðum framburði brotaþola, gegn neitun ákærða, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í 3. tölulið ákærunnar og þannig brotið gegn 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 20. gr. sömu laga. Er brot ákærða réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæruskjali héraðssaksóknara.

 

C

Í 2. tölulið ákærunnar er ákærða gefin að sök nauðgun og sérstaklega hættuleg líkamsárás með því að hafa víðs vegar í íbúðinni haft samfarir og endaþarmsmök við brotaþola og þvingað hana til þess að hafa við sig munnmök með því að beita hana ofbeldi og hóta henni lífláti og líkamsmeiðingum eins og nánar er lýst í ákærunni, en með þeim afleiðingum meðal annars að brotaþoli hlaut fjögurra sentimetra langan skurð á höku, mar og eymsli á vinstri kinn og eymsli á hægri kinn, sár við hægra munnhol og inni í munnholi, útbreidda áverka, svo sem mar, roða, eymsli og roðalínur á búk og útlimi, sprungna hljóðhimnu vinstra megin og sprungur á svæðinu frá endaþarmi og að spöng. Í ákærunni er brotið talið varða við 1. mgr. 194. gr. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði neitar sök. Hann fullyrti að hann hefðu stundað harkalegt kynlíf í umrætt sinn með vilja og samþykki brotaþola. Fyrir dómi greindi ákærði frá því að eftir að hann hefði fylgt vini sínum til dyra og kvatt hann hefði hann farið til brotaþola upp í rúm og hefðu þau stundað kynlíf. Það hefði verið harkalegt eins og það væri venjulega hjá þeim. Það hefðu verið „kyrkingar“ og þá hefðu þau slegið hvort annað utan undir. Eftir það hefðu þau gert hlé og farið í sturtu og verið þar saman góða stund. Brotaþoli hefði komist í síma ákærða og komist að því að hún væri ekki eina stelpan sem ákærði hefði haft samskipti við um kvöldið. Brotaþoli hefði brjálast, farið inn í eldhús og komið til baka og ráðist á hann með hnífi. Hefði brotaþoli otað hnífnum að honum og skorið hann, fyrst í hökuna, en það hefði verið lítill skurður og hefði hann ekki kippt sér upp við það, hlegið að þessu því honum hafi fundist þetta vera fyndið, enda hefði brotaþoli gert þetta áður. Fram kom hjá ákærða að brotaþoli hefði verið sturluð yfir því sem gerst hefði og stungið hann aftur. Þá hafi stungan verið djúp. Hann hafi séð skurð hægra megin í andlitinu, orðið smeykur og spurt brotaþola að því hvort hún væri klikkuð og ætlaði að drepa hann. Hann hefði beðið brotaþola að hætta þessu rugli og þá hafi hún sleppt hnífnum. Þá gekkst ákærði við því aðspurður að hafa slegið brotaþola utan undir, bæði hægra megin og vinstra megin, með flötum lófa og hafi eitt höggið lent á höku brotaþola. Þá kvaðst ákærði hafa haft samræði við brotaþola um leggöng og munnmök, en neitaði því að hann hefði haft endaþarmsmök við brotaþola. Neitaði ákærði því að hann hefði haft samræði við brotaþola í sturtunni. Þar hefði ekki verið stundað kynlíf, þau hafi aðallega verið að kyssast þar. Brotaþoli hefði fróað honum og hann puttað hana, en ekki meira en það. Þá neitaði ákærði því að hafa barið höfðinu á brotaþola utan í vegg í sturtunni. Þá kannaðist ákærði ekki við það að hafa skorið hár brotaþola og taldi að hún hefði gert það sjálf, enda hefði hún gert það áður til að fella sök á ákærða.

Brotaþoli greindi frá því að hún hefði vegna mikils þrýstings frá ákærða ætlað að leyfa honum að gista á sófa í íbúð sinni, en sagt ákærða að hún ætlaði að fara að sofa. Þrátt fyrir það hafi ákærði komið  upp í rúm og byrjað að kyssa brotaþola og káfa á henni. Kvaðst brotaþoli hafa sagt honum að hætta, en þá hefði brotaþoli orðið ágengari og ágengari og reynt meira og meira. Hefði brotaþoli reynt að losna frá ákærða og flúið fram á gang til að kalla á hjálp, en ákærði hefði strax náð brotaþola, snúið hana niður með hálstaki fyrir utan útidyrahurðina. Hálstakið hefði verið svo fast að hún hafi „dottið út“ og muni það næst að hún hafi rankað við sér í rúminu og þá hafi ákærði verið kominn með hníf, haldið um hálsinn á brotaþola og hótað að nauðga brotaþola og drepa ef hún hætti ekki að gráta. Hefði ákærði haldið brotaþola niðri og beitt það miklu ofbeldi og fært brotaþola með valdi inn á baðherbergi og í sturtu. Þar hefði ákærði hrint brotaþola í gólfið og nauðgað henni aftan frá, ýtt henni upp að vegg og tekið hana hálstaki. Eftir það hafi ákærði farið með brotaþola inn í svefnherbergið á ný og nauðgað brotaþola og kvaðst ætla að stinga brotaþola til dauða ef brotaþoli myndi ekki stynja fyrir hann. Hefði ákærði hrint vitninu á magann í rúminu og nauðgað henni í rassinn. Brotaþoli hefði öskrað en þá hefði ákærði lamið hana í kjálkann og hótað henni með hnífi. Þetta hefði tekið mjög langan tíma og hefði ákærði hótað að drepa brotaþola og sjálfan sig. Skömmu síðar hafi ákærði brotnað niður og farið að gráta. hann hafi tekið hnífinn, reynt að fá vorkunn hjá brotaþola og byrjaði að skera sjálfan sig í hálsinn. Spurð sagði brotaþoli að kynlífið í umrætt sinn hefði ekki verið með hennar samþykki og þó að þau hefðu stundað harkalegt kynlíf hefði það ekki verið með ofbeldi. Ákærði hefði þá tekið um háls brotaþola, en ekki meitt hana. Þau hefðu aldrei verið að meiða hvort annað og áverkar hefðu aldrei verið með viðlíka hætti.     

Í frumskýrslu lögregluvarðstjóra, sem kom fyrstur á vettvang eftir að lögregla var kölluð til, segir að bæði brotaþoli og ákærði hafi verið á vettvangi þegar lögregla kom að og voru þau bæði að sjá með áverka, brotaþoli með skurð á höku og ákærði með sár á hálsi. Bað brotaþoli lögreglu um að koma ákærða út þar sem hann hefði beitt hana miklu ofbeldi og nærri drepið hana með því að herða að hálsi hennar. Einnig er haft eftir brotaþola að ákærði hefði nauðgað henni, bæði í rúminu og inni á baði. Hún hafi ítrekað beðið hann að hætta en það hafi ekki haft nein áhrif. Hann hafi ítrekað lamið höfði brotaþola utan í baðvegginn inni í sturtunni og sagt henni að stynja. Hafi ákærði verið með hníf sem hann hafi notað til að hóta brotaþola. Sagði brotaþoli ákærða ítrekað hafa hótað henni líkamsmeiðingum, otað hnífnum að henni og sagst ætla að skalla hana. Þá er haft eftir brotaþola að ákærði hefði oft beitt hana ofbeldi síðastliðið ár, en þetta hefði verið það alversta og svo mikið að hún hefði verið þess viss að hann dræpi hana. 

Samkvæmt því sem nú er fram komið neitar ákærði öllum sakargiftum samkvæmt þessum tölulið ákærunnar og heldur því fram að hann og brotaþoli hafi stundað harkalegt kynlíf í umrætt sinn með vilja samþykki brotaþola. Brotaþoli hefur á hinn bóginn borið um það fyrir dómi að hún hafi ítrekað látið ákærða vita af því að hún vildi ekki hafa samfarir í umrætt sinn og ítrekað beðið ákærða um að hætta að káfa á sér, en við það hafi ákærði orðið ágengari. Þá hafi brotaþoli reynt að flýja undan ákærða og kalla á hjálp, en þá hafi ákærði beitt brotaþola miklu ofbeldi hafi hún rankað við sér uppi í rúmi þar sem ákærði var að hafa við hana samfarir. Ákærði kannast við að hafa tekið brotaþola hálstaki og hert að, en það hafi verið venjulegt þegar þau höfðu samfarir og hefði brotaþoli óskað eftir því og viljað meira og meira af því. Brotaþoli greindi frá því að samfarir þeirra hefðu verið harkalegar, en ekki með þannig að þau væru að meiða hvort annað. Samkvæmt þessu ber mikið á milli í frásögn brotaþola og ákærða af atvikum í íbúð brotaþola 24. júlí 2016. Frásögn brotaþola fyrir dómi af atvikum er að mati dómsins greinargóð og ítarleg og í öllum meginatriðum í samræmi við lýsingu hennar á atvikum hjá lögreglu og lýsingu hennar fyrir þeim sérfræðingum sem skoðuðu brotaþola í kjölfar árásarinnar.

Í skýrslu O læknis um réttarlæknisfræðilega skoðun á brotaþola í kjölfar árásarinnar segir að brotaþoli sé með útbreidd verksummerki ofbeldis um allan líkamann. Meðal annars skurð vinstra megin á höku. Eymsli og bólgu á báðum kinnbeinum. Talsverðar blæðingar undir slímhúð beggja augna. Mikinn roða framanvert á hálsi og rispur, roðabletti um allan líkamann og línur ásamt þreifieymslum víða. Mar og rispur víða og sár á báðum olnbogum og báðum hnjám. Áverka sem koma heim og saman við mikið ofbeldi og áverkar á hálsi sem passa við sögu um að hún hafi verið tekin hálstaki og legið við „kyrkingu“. Það styðji einnig blæðingar undir slímhúð beggja augna. Þá kvarti brotaþoli yfir því að heyra minna með vinstra eyra. Þá komi við skoðun fram áverkar á ytri og innri kynfærum, það er sprungur í húð á svæði frá endaþarmi og alveg fram í spöng. Það séu áverkar sem ekki komi fram við venjulegt kynlíf.

Þá kemur fram í staðfestu læknisvottorði C sérfræðings, sem skoðaði brotaþola á bráðamóttöku, og vætti hans fyrir dómi, að sár á höku brotaþola samrýmst því að hún hafi verið skorin með beittu áhaldi. Þá hafi hljóðhimnan verið sprungin eftir högg á eyra, sem valdi þrýstingsbylgju, en ekki verði sagt til um afl höggsins. Þá segir að áverkar þeir sem brotaþoli beri geti samrýmst þeirri sögu sem hún gefi að hún hafi verið skorin á háls með hníf og hafi orðið fyrir höggum og auk þess tekin kyrkingartaki. Séu áverkarnir ekki alvarlegs eðlis. Hljóðhimnan hafi gróið og full heyrn verið komin á um það bil mánuði síðar og blæðingar og mar ættu að hverfa á viku til 10 dögum.

Svo sem fyrr segir verður framburður ákærða um það að hann og brotaþoli hafi stundað harkalegt kynlíf í umrætt sinn, með vilja og samþykki brotaþola, metinn afar ótrúverðugur og verður ekki á honum byggt við úrlausn málsins. Hins vegar metur dómurinn nákvæma, greinargóðan og stöðugan framburð brotaþola af atvikum trúverðugan, enda fær hann stuðning í læknisvottorði C sérfræðings og vætti hans fyrir dóminum, niðurstöðu O læknis við réttarlæknisfræðilega skoðun á brotaþola og vætti hennar fyrir dómi og í öðrum sérfræðigögnum málsins. Samkvæmt þessu telur dómurinn sannað með trúverðugum, greinargóðum og stöðugum framburði brotaþola, gegn neitun ákærða, svo að ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærði hafi í umrætt sinn stöðvað för brotaþola út úr íbúðinni, þegar hún reyndi að flýja undan ofbeldinu, og eftir það, gegn vilja brotaþola, bæði í svefnherbergi og á baðherberginu, haft samfarir og endaþarmsmök við brotaþola og þvingað hana til munnmaka, með því að beita hana ofbeldi og hóta henni lífláti og líkamsmeiðingum svo sem nánar er rakið í ákæruskjali héraðssaksóknara. Með þeirri háttsemi sem lýst er í 2. tölulið ákærunnar braut ákærði gegn 2. mgr. 218. gr. og 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Eru brot ákærða réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæruskjali héraðssaksóknara.

 

D

Í 1. tölulið ákærunnar er ákærða gefin að sök frelsissvipting með því að hafa svipt brotaþola frelsi sínu frá því um klukkan 05:30 til klukkan 08:00 24. júlí 2016, haldið henni nauðugri í íbúð númer [...] að [...] í [...] og beitt hana ofbeldi og hótunum eins og nánar er lýst í ákæruskjali héraðssaksóknara.

Samkvæmt lögregluskýrslum var lögregla kvödd að [...] klukkan 07:58 vegna ofbeldis. Í lögregluskýrslu er haft eftir brotaþola að ákærði hafi komið á heimili hennar undir morgun, um klukkan 05:00 og að ofbeldið hafi staðið í tvær klukkustundir frá klukkan 05.30 og þar til lögreglan kom. Fyrir dómi greindi brotaþoli frá því að ákærði hefði vakið hana með símhringingu um klukkan 05:00 og sagst vera á leiðinni til hennar. Hefði hann komið skömmu síðar og vinur hans með honum.

Samkvæmt þessu er við það miðað að ákærði hafi komið á heimili brotaþola nokkru eftir klukkan 05:00, jafnvel um klukkan 05:30. Upplýst er í málinu að vinur ákærða kom með honum og dvaldi í íbúðinni í nokkra stund. Brotaþoli heldur því fram að hún hafi ítrekað vísað þeim á dyr og fær sá framburður brotaþola stoð í framburði vitnisins H, sem fór að fyrirmælum brotaþola og yfirgaf íbúðina. Kvaðst ákærði hafa fylgt vini sínum til dyra og kvatt hann. Eftir það hefði ákærði farið upp í rúm til brotaþola og þau stundað kynlíf. Af því sem upplýst er um tímaröð atvika verður að ætla að það hafi verið nokkrum mínútum eftir klukkan 05:30, jafnvel um klukkan 06:00. Fyrir liggja upplýsingar um eftirgreind SMS-skilaboð til Neyðarlínunnar varðandi beiðni um aðstoð að heimili brotaþola 24. júlí 2016 klukkan 07:49:10: „[...] strax nauðgun og ofbeldi er í hættu“. Sama dag, klukkan 07:57:50 sendir 112 eftirfarandi: „Það er aðstoð á leiðinni til þín.“

Fyrir dómi lýsti brotaþoli því að hún hefði náð að losa sig undan ofbeldi ákærða og hlaupa fram á gang og opna útidyrahurðina, en vegalengdin hefði verið svo stutt að ákærði hefði strax náð henni, snúið hana niður með hálstaki sem hefði staðið svo lengi að á endanum hafi brotaþoli ekki náð að streitast lengur á móti.

Að því virtu sem nú hefur verið rakið og að virtum öðrum atvikum málsins sem rakin eru í stafliðum B og C hér að framan telur dómurinn að það sé hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi svipt brotaþola frelsi og haldið henni nauðugri í íbúð hennar í allt að tvær klukkustundir, þegar hann beitti hana ofbeldi og hótunum með þeim hætti og afleiðingum sem lýst er í ákæruliðum 2 og 3. Breytir engu í þessum efnum þótt útidyrahurðin hafi verið ólæst og hafi ekki fallið að stöfum og heldur ekki þótt hurð út á svalir hafi verið opin, enda verður að líta svo á að ákærði hafi í umrætt sinn skapað þær aðstæður með ofbeldinu að brotaþoli hafi ekki verið frjáls ferða sinna í rúmlega eina og hálfa klukkustund, eða allt þar til hún um klukkan 07.49 sendi smáskilaboð til Neyðarlínunnar og snapchat-skilaboð til vinkonu sinnar og bað hana að kalla lögreglu á staðinn. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem greinir í 1. tölulið ákærunnar sem réttilega er heimfærð til 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

V

Ákærði, sem fæddur er í [...] 1991, á að baki nokkurn sakarferil. Við ákvörðun refsingar í máli því sem hér er til úrlausnar skiptir máli að ákærða var með dómi [...] 2015 gert að sæta fangelsi í fjóra mánuði, skilorðsbundið til þriggja ára, fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga og umferðarlögum. Með brotum þeim sem ákærði er nú sakfelldur fyrir hefur hann rofið skilyrði dómsins. Verður skilorðið nú tekið upp og refsing dæmd í einu lagi eftir ákvæðum 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brot ákærða eru alvarleg og ófyrirleitin og beindust að fyrrum sambýliskonu hans og barnsmóður. Með hliðsjón af því, sbr. 1. og 3. tölulið 1. mgr. og 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er refsing ákærða ákveðin fangelsi í átta ár. 

 

VI

Brotaþoli krefst miskabóta að fjárhæð 3.500.000 krónur. Með þeirri háttsemi sem ákærði er sakfelldur fyrir hefur hann bakað sér skyldu til að greiða brotaþola miskabætur, sbr. 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í málinu liggur fyrir vottorð G sálfræðings 7. desember 2016 þar sem fram kemur að brotaþoli hafi greint frá upplifun á ótta, hjálparleysi og lífshættu á meðan á árásinni stóð. Endurspegli upplifun og viðbrögð brotaþola þau viðmið sem lögð séu til grundvallar fyrsta viðmiðs í greiningu áfallastreituröskunar samkvæmt alþjóðlegum greiningarkerfum. Brotaþoli hóf viðtöl hjá sálfræðingnum tveimur dögum eftir árásina og rúmum sex vikum eftir árásina hafi áfallastreitueinkenni brotaþola enn verið metin alvarleg. Hafi formlegt greiningarviðtal sýnt að hún uppfyllti greiningarviðmið fyrir áfallastreituröskun eftir árásina. Hafi þá verið mælt með formlegri meðferð sem brotaþoli hafi afþakkað að sinni. Niðurstöður endurtekins greiningarmats sýni að brotaþoli þjáist af áfallastreituröskun eftir árásina. Sálræn einkenni hennar í kjölfar áfallsins samsvari einkennum sem séu þekkt hjá fólki sem hafi upplifað alvarleg áföll eins og líkamsárás, nauðgun, stórslys eða hamfarir og hafi niðurstöður sjálfsmatskvarða samsvarað vel frásögnum brotaþola í viðtölum. Loks segir í vottorðinu að ekki sé hægt að segja til um hvort og hvenær bati náist en ljóst þyki að atburðurinn hafi haft víðtæk áhrif á líðan brotaþola.

Við ákvörðun miskabóta verður litið til fyrrnefnds vottorðs sálfræðings, læknisvottorðs og annarra gagna sem styðja frásögn brotaþola um að hún hafi orðið fyrir andlegum þjáningum vegna háttsemi ákærða. Einnig er vísað til sjónarmiða sem rakin hafa verið vegna ákvörðun refsingar ákærða og þess að samkvæmt nefndu vottorði G sálfræðings hefur brotaþoli enn þörf fyrir sálfræðimeðferð vegna afleiðinga háttseminnar. Þykir rétt að dæma brotaþola miskabætur úr hendi ákærða, sem þykja hæfilega ákveðnar 2.500.000 krónur. Upphafstími vaxta skal vera 24. júlí 2016 eins og krafist er, en dráttarvextir, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, reiknast frá 9. október sama ár, þegar liðinn var mánuður frá birtingu kröfunnar við þingfestingu málsins. Að öðru leyti fer um vexti eins og í dómsorði greinir.

 

VII

Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað málsins. Um er að ræða þóknun skipaðra verjenda hans og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Þá greiði ákærði 470.276 krónur í annan sakarkostnað.

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Málið dæma héraðsdómararnir Jón Höskuldsson, sem dómsformaður, Kristinn Halldórsson og Ragnheiður Bragadóttir. Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

D ó m s o r ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í átta ár.

Ákærði greiði A 2.500.000 krónur í miskabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. júlí 2016 til 9. október 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði þóknun skipaðra verjenda sinna, Einars Huga Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns, 368.280 krónur og 13.200 krónur í aksturskostnað, og Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar, hæstaréttarlögmanns, 2.455.200 krónur og 36.300 krónur í aksturskostnað, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Sigurðar Freys Sigurðssonar, héraðsdómslögmanns, 572.880 krónur. Þá greiði ákærði 470.276 krónur í annan sakarkostnað.