Print

Mál nr. 311/2006

Lykilorð
  • Virðisaukaskattur
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Skilorð

Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. júní 2007.

Nr. 311/2006.

Ákæruvaldið

(Björn Þorvaldsson, settur saksóknari)

gegn

Gísla Hjartarsyni

(Helgi Jóhannesson hrl.)

 

Virðisaukaskattur. Staðgreiðsla opinberra gjalda. Skilorð.

G var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Fyrir lá að G greiddi fyrir útgáfu ákæru upp í hluta þeirra gjaldföllnu skattskulda sem ákæra tók til og var við ákvörðun refsingar litið til þess, sbr. 1. og 3. gr. laga nr. 134/2005. Brot G voru talin meiri háttar í skilningi 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Refsing G þótti hæfilega ákveðin skilorðsbundið fangelsi í 2 mánuði og var honum einnig gert að greiða sekt að fjárhæð 9.200.000 krónur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Árni Kolbeinsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. maí 2006 og krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að refsing verði felld niður, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur.

Af hálfu ákæruvaldsins hefur verið lagt fyrir Hæstarétt yfirlit þar sem gerð er grein fyrir ráðstöfun innheimtumanns ríkissjóðs á greiðslum ákærða uppi í skuldir vegna vanskila á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna hans. Í greinargerð ákæruvaldsins segir að vangoldinn virðisaukaskattur vegna fimm þeirra tímabila sem ákæra lýtur að hafi verið greiddur að fullu eða verulegu leyti. Verður samkvæmt því miðað við að undanþága frá lágmarki fésektar samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sem tekin var upp með 3. gr. laga nr. 134/2005, eigi við um skuldir vegna tímabilanna júlí-ágúst 1999, janúar-febrúar og mars-apríl 2000, svo og vegna maí-júní og nóvember-desember 2001, samtals að fjárhæð 3.972.494 krónur. Um skuldir vegna tímabilanna nóvember-desember 1999, svo og september-október og nóvember-desember 2000, sem nema samtals 4.361.711 krónum, gildir hins vegar sektarlágmark 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988. Af yfirlitinu verður ráðið að skuld vegna staðgreiðslu opinberra gjalda, að höfuðstól 592.003 krónur, hafi verið að fullu greidd þegar greiðsla á álagi vegna fyrri tímabila hefur verið metin sem innborgun á höfuðstól skuldarinnar og á undanþága frá lágmarki fésektar samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, sem tekin var upp með 1. gr. laga nr. 134/2005, við um alla skuldina.

Samkvæmt framangreindu verða viðurlög vegna vanskila að fjárhæð 4.564.497 krónur ákveðin í samræmi við fyrrgreindar undanþágur 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 frá lágmarki fésektar. Á hinn bóginn gildir sektarlágmark greinanna um vanskil að fjárhæð 4.361.711 krónur. Að því virtu verða brot ákærða talin meiri háttar og varða þannig við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ásamt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987. Að því virtu að ákærði hefur ekki sætt refsingu svo að máli skipti og þegar horft er til ákvæða 70. gr. almennra hegningarlaga, er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 2 mánuði og verður hún skilorðsbundin eins og í dómsorði greinir. Þá verður ákærða gert að greiða sekt að fjárhæð 9.200.000 krónur, en um vararefsingu fer samkvæmt því, sem í dómsorði segir.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Ákærði verður dæmdur til greiðslu áfrýjunarkostnaðar og eru þar meðtalin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, sem tiltekin eru með virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Gísli Hjartarson, sæti fangelsi í 2 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum 2 árum frá uppsögu dóms þessa, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði 9.200.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan 4 vikna frá uppsögu þessa dóms, en sæti ella fangelsi í 5 mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest.

Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, 277.295 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Helga Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.

                                                                                                                 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. apríl 2006.

Málið er höfðað með ákæru útgefinni 13. janúar 2006 á hendur:

,, Gísla Hjartarsyni, kt. 150460-3369

Neshömrum 7, Reykjavík

fyrir eftirtalin skatta- og hegningarlagabrot framin í  sjálfstæðum rekstri hans á árunum 1999 til 2001, en bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum þann 9. apríl 2003.

I.   Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.

Með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Tollstjóranum í Reykjavík skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í sjálfstæðri atvinnustarfsemi hans á árunum 1999, 2000 og 2001, samtals að fjárhæð kr. 8.550.612 og sundurliðast sem hér segir: 

Uppgjörstímabil:

Árið  1999

júlí-ágúst

kr. 2.457.137

 

nóvember-desember

kr.    546.060

kr. 3.003.197

Árið 2000

janúar-febrúar

kr.      57.144

 

mars-apríl

kr.     123.679

 

september-október

kr.  1.915.587

 

nóvember-desember

kr.  1.900.064

kr. 3.996.474

Árið 2001

maí-júní

kr.      687.167

 

nóvember-desember

kr.      863.774

kr. 1.550.941

 

 

 

Samtals:

 

kr. 8.550.612

Telst þetta varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50, 1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42, 1995 og 3. gr. laga nr. 134, 2005, og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.   

II.   Fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Með því að hafa látið undir höfuð leggjast að standa skil á skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda vegna tímabilanna febrúar og mars 2001 og hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Tollstjóranum í Reykjavík skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna hans á árunum 2000 og 2001, samtals að fjárhæð kr. 592.003 og sundurliðast sem hér segir:

Greiðslutímabil:

Árið 2000

janúar

kr.    30.400

 

febrúar

kr.    30.400

 

mars

kr.    30.400

 

apríl

kr.    30.400

 

maí

kr.    30.400

 

júní

kr.    30.400

 

júlí

kr.     64.192

 

ágúst

kr.     64.192

 

september

kr.     64.192

 

október

kr.     64.192

 

nóvember

kr.     64.192

 

desember

kr.     64.192

kr.   567.552

Árið 2001

febrúar

kr.     21.626

 

mars

kr.       2.825

kr.     24.451

 

 

 

Samtals:

 

kr.   592.003

Telst þetta varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45, 1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. gr. laga nr. 134, 2005, og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“

Undir rekstri málsins lækkaði ákæruvaldið fjárhæðir í I. kafla ákæru þannig að ákærufjárhæð vegna uppgjörstímabilsins maí-júní 2001 lækki úr 687.167 krónum í 532.329 krónur og vegna uppgjörstímabilsins nóvember-desember 2001 lækki úr 863.774 krónum í 802.774 krónur. Til samræmis við þetta lækkar ætlað brotaandlag vegna ársins 2001 í 1.334.534 krónur og heildarandlag I. kafla ákærunnar verður samkvæmt þessu 8.334.205 krónur.

Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og málsvarnarlauna að mati dómsins.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins að hann  hafi gerst sekur um háttsemi þá sem í ákæru greinir og eru brot hans þar rétt færð til refsiákvæða utan það að brotin varða ekki við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga eins og síðar verður vikið að.

Skírskotað er til ákærunnar um lýsingu málavaxta.

Frá því ákærði framdi brot sín hefur refsilöggjöf breyst, sbr. lög nr. 134/2005. Með 1. mgr. 3. gr. laganna var bætt við nýjum málsliðum við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 og 1. mgr. 4. gr. laga nr. 50/1988. Eru þessir liðir efnislega samhljóða varðandi frávik frá fésektarlágmarki við tilteknar aðstæður. Nýju lögunum er beitt hér, sbr. meginreglu 2. gr. almennra hegningarlaga en réttilega er vísað til laganna í báðum köflum ákæru.

Ákærði greiddi 1.970.163 krónur eftir eindaga einstakra greiðslutímabila virðisaukaskatts og þá greiddi hann 4.074.255 krónur í álag, dráttarvexti og kostnað. Ekki verður ráðið af gögnum málsins hvernig síðastgreinda fjárhæðin sundurliðast. Þykir því rétt að láta hana koma til lækkunar á höfuðstól vanskila. Að þessu virtu er  ljóst að heildargreiðslur ákærða eftir eindaga nema svo háu hlutfalli heildarvanskila virðisaukaskatts samkvæmt I. kafla ákæru að fésektarlágmark samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 á ekki við, sbr. lög nr. 134/2005, en refsilækkunarsjónarmið sem þar greinir eiga við eins og hér stendur á.

Öll afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda sem lýst er í II. kafla ákæru var greidd eftir lögboðna eindaga. Að því virtu og dómaframkvæmd er svona stendur á er ljóst að fésektarlágmark, sem kveðið er á um í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, á ekki við, sbr. lög nr. 134/2005, en refsilækkunarsjónarmið sem þar greinir eiga við, eins og hér stendur á.

Sakaferill ákærða hefur ekki áhrif á refsiákvörðun. Ákærði  hefur játað brot sín hreinskilnislega og er það virt honum til refsilækkunar.

Að teknu tilliti til brotaandlags í hvorum ákærulið um sig, og að teknu tilliti til sjónarmiða sem lágu til grundvallar lögum nr. 134/2005, þykja brot ákærða ekki meiri háttar í skilningi 262. gr. almennra hegningarlaga. Verður ákærða því ekki ákveðin fangelsisrefsing. Bú ákærða var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði uppkveðnum 9. apríl 2003 og ekkert liggur fyrir um að ákærði hafi auðgast á vanskilum sem urðu í sjálfstæðum rekstri hans. Mjög langur tími er liðinn frá framningu brotanna. Að öllu ofanrituðu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákvörðuð 1.000.000 króna sekt í ríkissjóð og komi þriggja mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði greiði 149.900 krónur í málsvarnarlaun til Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns að meðtöldum virðisaukaskatti. Þóknunin er fyrir vinnu verjandans á rannsóknarstigi málsins og undir dómsmeðferð.

 Björn Þorvaldsson, fulltrúi ríkislögreglustjóra, flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði, Gísli Hjartarson, greiði 1.000.000 króna í sekt í ríkissjóð og komi þriggja mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði greiði 149.900 krónur í málsvarnarlaun til Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns.