- Kærumál
- Vitni
|
Mánudaginn 27. janúar 2014. |
Nr. 810/2013. |
Vilhjálmur
Bjarnason (Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.) gegn Vífli
Harðarsyni og (sjálfur) Björgólfi Thor
Björgólfssyni (Reimar Pétursson hrl.) |
Kærumál.
Vitni.
Kærður var úrskurður
héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi um skyldu vitnis,
héraðsdómslögmannsins VH, til að gefa skýrslu í héraði í tengslum við öflun VB
á sönnunargögnum án þess að mál hefði verið höfðað samkvæmt 2. mgr. 77. gr.
laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Fyrir Hæstarétti laut ágreiningur aðila
að tíu nánar tilgreindum spurningum sem VB beiddist að VH yrði gert skylt að
svara. Spurningarnar féllu í fjóra flokka. Þær vörðuðu í fyrsta lagi efni
skjals þar sem lýst var efni tiltekins fundar er fram fór árið 2005. Í öðru
lagi vörðuðu spurningarnar efni skjals þar sem skírskotað var til tilkynningar
sem VH sendi Fjármálaeftirlitinu snemma árs 2007 um breytt eignarhald
einkahlutafélags. Hæstiréttur vísaði til þess að fyrrgreindum spurningum væri
beint að VH vegna starfa hans í þágu N ehf. frá og með 1. júní 2007 og af þeim
sökum yrði ekki séð að hann gæti af eigin raun borið um þá atburði eða
staðreyndir sem spurningarnar lytu að. Var VH því talið óskylt að svara þeim. Í
þriðja lagi vörðuðu spurningarnar skjal, sem hafði að geyma tölvupóstsamskipti
tilgreindra félaga á fyrri hluta árs 2008. Hæstiréttur vísaði til þess að
síðastgreint skjal varðaði lögboðna upplýsingagjöf auk þess sem almennur
aðgangur væri að efni skjalsins samkvæmt fyrirmælum laga, með sama hætti og í
dómi Hæstaréttar 27. janúar 2014 í máli nr. 811/2013. Að þessu virtu taldi
rétturinn þagnarskylduákvæði laga nr. 77/1998 um lögmenn ekki standa því í vegi
að VH yrði gert skylt að svara þessari spurningu VB. Með sömu rökum var VH gert
skylt að svara hluta þeirra spurninga sem í fjórða lagi vörðuðu tilurð og efni
tveggja tilgreindra skjala sem VH ritaði og sendi Fjármálaeftirlitinu í nafni
tilgreinds einkahlutafélags í júní 2008. Rétturinn taldi á hinn bóginn eina
síðastgreindra spurninga lúta að atriðum sem VH hefði sem lögmanni verið trúað
fyrir eða hann komist að vegna þeirra starfa sinna, kynni hann svörin við þeim,
og var VH á grundvelli 22. gr. laga nr. 77/1998 og b. liðar 2. mgr. 53. gr.
laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála talið óskylt að svara þeirri spurningu.
Hvað síðastgreinda spurningu varðaði taldi Hæstiréttur þó á grundvelli
hagsmunamats samkvæmt 3. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 að VB hefði í ljósi
tilgangs gagnaöflunar sinnar verulega meiri hagsmuni af því að upplýst yrði um
þau atriði er spurningin varðaði en hagsmunir hlutaðeigandi af því að leynd
yrði haldið um sömu atriði, sbr. dóm Hæstaréttar 10. janúar 1996 í máli nr.
419/1995, sem birtur var í dómasafni réttarins 1996 á bls. 40. Var VH því og
gert skylt að svara þeirri spurningu.
Dómur
Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Benedikt Bogason, Helgi I. Jónsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. desember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. og 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2013 þar sem leyst var úr ágreiningi um skyldu varnaraðilans Vífils Harðarsonar til að gefa skýrslu í tengslum við öflun sóknaraðila á sönnunargögnum án þess að mál hafi verið höfðað samkvæmt 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 143. gr. þeirra laga. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir varnaraðilann Vífil að svara „spurningum nr. 4 til 13 á dómskjali nr. 91, en um er að ræða sömu spurningar og vitninu var talið óheimilt að svara samkvæmt hinum kærða úrskurði.“ Þá krefst sóknaraðili þess að ákvörðun héraðsdóms um ómaksþóknun verði felld úr gildi. Jafnframt krefst hann kærumálskostnaðar óskipt úr hendi varnaraðila.
Varnaraðilar krefjast hvor fyrir sitt leyti staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Með dómi Hæstaréttar 15. maí 2013 í máli nr. 259/2013 var sóknaraðila, sem telur sig hafa orðið fyrir tjóni þegar hlutabréf hans í Landsbanka Íslands hf. urðu verðlaus við fall bankans 7. október 2008, heimilað að leita sönnunar fyrir dómi samkvæmt XII. kafla laga nr. 91/1991. Um er að ræða heimild til öflunar sönnunargagna um tiltekin atriði sem sóknaraðili álítur að ráðið geti niðurstöðu um hvort hann láti verða af málshöfðun á hendur varnaraðilanum Björgólfi. Telur sóknaraðili að tjón sitt megi að minnsta kosti að hluta rekja til ólögmætra og saknæmra athafna í starfsemi bankans sem varnaraðilinn Björgólfur hafi stuðlað að eða átt þátt í og hafi að lokum leitt til þess að bankinn var tekinn til slita. Varnaraðilinn Vífill var eitt þeirra sextán vitna sem sóknaraðili hugðist leiða fyrir dóm til skýrslugjafar í framangreindu skyni og var hann boðaður á dómþing Héraðsdóms Reykjavíkur 7. nóvember 2013 með skriflegri kvaðningu þar um samkvæmt 2. mgr. 54. gr. laga nr. 91/1991. Þann dag voru á dómþingi lagðar fyrir þennan varnaraðila þrettán spurningar á lista lögmanns sóknaraðila en varnaraðilinn kvað sér með vísan til 22. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn óheimilt að svara spurningum nr. 4 til 13. Sóknaraðili krafðist þess þá að úrskurður gengi um skyldu varnaraðilans til þess að svara spurningunum. Varnaraðilinn Björgólfur tók undir sjónarmið varnaraðilans Vífils og mótmælti því að spurningarnar yrðu lagðar fyrir hinn síðarnefnda. Með hinum kærða úrskurði var varnaraðilanum Vífli talið óheimilt að svara umræddum spurningum sem eru orðrétt teknar upp í úrskurðinum.
Varnaraðilinn Björgólfur hefur með afskiptum sínum af rekstri málsins í héraði og fyrir Hæstarétti gengið inn í mál sóknaraðila og varnaraðilans Vífils þannig að jafna má til meðalgöngu í skilningi 20. gr. laga nr. 91/1991 og telst hann því aðili málsins.
II
Varnaraðilinn Vífill er héraðsdómslögmaður en honum var með bréfi Lögmannafélags Íslands 31. júlí 2007 veitt undanþága frá skyldum sem hvíla á lögmönnum eftir 1. mgr. 12. gr. laga nr. 77/1998 til að hafa skrifstofu opna almenningi, sérstakan fjárvörslureikning í viðurkenndri bankastofnun og gilda starfsábyrgðartryggingu. Var undanþágan veitt meðan varnaraðilinn starfaði hjá Novator eignarhaldsfélagi ehf. (Novator ehf.) Samkvæmt ráðningarsamningi, sem dagsettur er 15. apríl 2008 en gilti frá 1. júní 2007, var varnaraðilinn ráðinn „sem lögmaður/legal councel hjá [Novator ehf.] og heyrir beint undir framkvæmdastjóra þess. Hann skal í starfi sínu m.a: ... Veita þeim fyrirtækjum og einstaklingum ráðgjöf og þjónustu sem félagið felur honum á hverjum tíma ... Sinna þeim öðrum störfum sem framkvæmdastjóri felur honum á hverjum tíma ... Félagið greiðir aðildargjöld starfsmanns að Lögmannafélagi Íslands ... Starfsmaður skal gæta fyllsta trúnaðar um hvaðeina er hann verður áskynja um varðandi starfsemi félagsins, tengdra aðila, hluthafa félagsins og þau félög sem það vinnur fyrir á hverjum tíma. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af störfum.“
Þær tíu spurningar sem varnaraðilinn Vífill neitaði að svara falla í fjóra flokka. Þær varða í fyrsta lagi efni dómskjals nr. 21 sem er minnisblað dagsett 22. október 2005, ritað af Vigni Rafni Gíslasyni löggiltum endurskoðanda og ber fyrirsögnina: „Minnisblað vegna birtinga [á] upplýsingum við tengda aðila í reikningsskilum Landsbankans.“ Á þetta við um spurningu nr. 12 á lista sóknaraðila. Í öðru lagi varðar spurning nr. 13 á spurningalistanum efni dómskjals nr. 48 þar sem skírskotað var til tilkynningar sem lögmaður sendi Fjármálaeftirlitnu snemma árs 2007 um breytt eignarhald í Samson eignarhaldsfélagi ehf. (Samson ehf.). Í þriðja lagi varðar spurning nr. 11 dómskjal nr. 68 en þar er um að ræða ljósrit af tölvupóstsamskiptum starfsmanna Landsbanka Íslands hf., Novators ehf. og Samsonar ehf. á tímabilinu frá 15. febrúar 2008 til 28. júlí sama ár og vörðuðu beina og óbeina eignarhlutdeild varnaraðilans Björgólfs og föður hans Björgólfs Guðmundssonar í ýmsum hlutafélögum. Var einn þessara tölvupósta, sem dagsettur var 23. júlí 2008, frá regluverði Landsbanka Íslands hf. og honum beint til Sigþórs Sigmarssonar, varnaraðilans Vífils, Birgis Más Ragnarssonar, Andra Sveinssonar og Ársæls Hafsteinssonar. Í fjórða lagi varða aðrar spurningar sóknaraðila tilurð og efni dómskjala nr. 81 og 82. Bæði skjölin ritaði varnaraðilinn Vífill og sendi í nafni Samsonar ehf. til Fjármálaeftirlitsins undir fyrirsögninni: „Viðvarandi eftirlit með virkum eignarhlutum í Landsbanka Íslands hf.“ Fyrra bréfið var ritað 12. júní 2008 og hið síðara 27. sama mánaðar. Þau höfðu bæði að geyma svör við fyrirspurnarbréfi Fjármálaeftirlitsins 29. maí 2008 þar sem veittar voru upplýsingar „varðandi tiltekin atriði í tengslum við heimild Samsonar ehf. til þess að fara með virkan eignarhlut í Landsbanka Íslands hf.“
III
Sóknaraðili
reisir kröfu sína um að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi einkum á
því að varnaraðilanum Vífli beri á grundvelli 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991
skylda til að gefa skýrslu um þær spurningar sem lagðar voru fyrir hann í
héraði og að hann verði ekki með almennum hætti leystur undan þeirri skyldu með
skírskotun til 1. mgr. 22. gr. laga nr. 77/1998. Þá hafi varnaraðilanum
samkvæmt 5. mgr. 56. gr. laga nr. 91/1991 borið að leiða líkur að þeim
staðreyndum sem hann beri fyrir sig í því skyni að komast hjá skýrslugjöf.
Sóknaraðili telur að lög nr. 91/1991 hafi stöðu sérlaga gagnvart lögum nr.
77/1998 og því geti varnaraðilinn Vífill ekki vikist undan skýrslugjöf á
grundvelli síðargreindu laganna, auk þess sem hann hafi ekki fært sönnur á að
hafa starfað sem lögmaður Samsonar ehf. í merkingu 12. gr. sömu laga. Einnig
telur sóknaraðili að b. liður 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 eigi ekki við um
varnaraðilann, heldur d. liður 2. mgr. sömu greinar, enda hafi hann verið
almennur starfsmaður félagsins en ekki lögmaður þess, og standi það ákvæði ekki
í vegi því að varnaraðilinn svari þeim spurningum sem lagðar hafi verið fyrir
hann. Því til stuðnings bendir sóknaraðili á að Samson ehf. hafi hætt starfsemi
og verið tekið til gjaldþrotaskipta og því geti skýrslugjöf varnaraðilans ekki
skaðað hagsmuni félagsins á þann veg sem d. lið 2. mgr. 53. gr. sé ætlað að standa
vörð um. Jafnvel þótt fallist verði á að varnaraðilinn Vífill sé undanþegin
skyldu til að gefa skýrslu í málinu á grundvelli 2. mgr. 53. gr. laga nr.
91/1991 telur sóknaraðili hagsmuni sína í öllu falli verulega meiri af því að
upplýst verði um þau atriði sem borin hafa verið undir varnaraðilann, sbr. 3.
mgr. sömu greinar.
Varnaraðilar
krefjast sem fyrr greinir hvor fyrir sitt leyti staðfestingar hins kærða
úrskurðar. Varnaraðilinn Björgólfur kveður sóknaraðila vilja afla sér
upplýsinga um einkahagi og viðskiptaleyndarmál einstaklinga og lögaðila sem
eigi enga aðild að því dómsmáli sem hann hafi í hyggju að höfða og í því felist
skerðing á friðhelgi einkalífs þeirra sem njóti verndar stjórnarskrárinnar og
mannréttindasáttmála Evrópu. Varnaraðilinn vísar til þess að ákvæðum b. og d.
liðar 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 sé ætlað að vernda fyrrgreinda hagsmuni
og að varnaraðilanum Vífli sé á grundvelli 3. mgr. sömu greinar óskylt að svara
spurningum þeim sem sóknaraðili hefur lagt fyrir hann ef svör hans feli í sér
frásögn af einkahögum manna sem ekki eiga aðild að máli. Varnaraðilinn
Björgólfur bendir á að lögmenn beri ríka þagnarskyldu og að túlka verði ákvæði
2. mgr. 53. laga nr. 91/1991 með hliðsjón af þeim reglum sem gilda þar um, en
hafnar skilningi sóknaraðila þess efnis að lög nr. 91/1991 teljist sérlög
gagnvart ákvæðum laga nr. 77/1998. Varnaraðilinn telur allar sömu reglur gildi
um þagnarskyldu sjálfstætt starfandi lögmanna og lögmanna er starfa fyrir
fyrirtæki, svo og að lögmaður geti borið trúnaðarskyldu gagnvart mörgum
umbjóðendum í einu og að við mat á hvort þagnarskyldureglur lögmanna eigi við
um tilvik verði að líta til eðlis hlutaðeigandi starfa. Ljóst sé að
varnaraðilinn Vífill hafi starfað sem lögmaður Novator
ehf. á grundvelli 1. mgr. 12. gr. laga nr. 77/1998 og að hann hafi einnig borið
trúnaðarskyldu gagnvart öðrum sem hann veitti ráðgjöf. Þá telur varnaraðilinn
Björgólfur allar þær spurningar sem sóknaraðili hafi lagt fyrir varnaraðilann
Vífil falla undir trúnaðarskyldu hans. Loks hafnar varnaraðilinn Björgólfur því
að Samson ehf. njóti ekki verndar d. liðar 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 þar
sem félagið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta, enda sé ljóst að þótt svo sé
komið geti félagið haft hagsmuni af því að haldin séu leyndarmál um viðskipti
þess og að það beri dómara að meta með hliðsjón af fyrirmælum 3. mgr. sömu
greinar.
Varnaraðilinn
Vífill bendir á að þagnarskylda lögmanna sé rík og hvers kyns undantekningar
frá henni verði að túlka með þrengjandi hætti. Þá telur varnaraðilinn að hvað
sem líði því hvort hann hafi veitt Samson ehf. þjónustu sem lögmaður eða
lögfræðilegur ráðgjafi þá hafi félagið og aðrir sem hann veitti ráðgjöf mátt
treysta því að viðlíka trúnaðarskylda fylgdi samskiptum þeirra við
varnaraðilann og um væri að ræða samskipti við lögmann, þannig að upplýsingar
sem þeir tryðu varnaraðilanum fyrir yrðu ekki gerðar opinberar án samþykkis
þeirra.
IV
Í spurningu nr. 12 á spurningalista sóknaraðila er varnaraðilinn Vífill um það spurður hvort hann kannist við „þá fyrirætlun eða þau markmið af hálfu Samson sem fram kemur á minnisblaði á dómskjali nr. 21 að það sé fyrirætlan Samson að haga eignarhaldinu á Samson fyrir árslok þannig að eignarhlutur Björgólfs Thors fari niður í sama eða lægra hlutfall en það var í upphafi árs?“ Samkvæmt 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 er hverjum manni skylt að koma fyrir dóm sem vitni til að svara munnlega spurningum sem beint er til hans um málsatvik. Af þessu leiðir að sá sem er vitni í skilningi laganna kemur fyrir dóm til að svara spurningum um atburði eða staðreyndir sem tengjast sakarefninu og hann getur borið um af eigin raun. Varnaraðilinn Vífill hóf störf hjá Novator ehf. 1. júní 2007 en minnisblaðið er dagsett 22. október 2005 og ritað af Vigni Rafni Gíslasyni endurskoðanda hjá endurskoðunarfyrirtækinu PricewaterhouseCooopers ehf., en það fyrirtæki annaðist endurskoðun ársreikninga og árshlutareikninga Landsbanka Íslands hf. frá 1998 til 2008. Eins og spurningin er fram sett verður með hliðsjón af framansögðu ekki séð að varnaraðilinn Vífill geti af eigin raun borið um þá atburði eða staðreyndir sem spurningin lýtur að og er honum því óskylt að svara henni.
Í spurningu nr. 13 á spurningalista sóknaraðila segir að í dómskjali nr. 48 komi fram „að lögmaður Samson hafi sent tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins snemma árs 2007 þar sem FME er tilkynnt um breytingar á eignarhaldi Samson. a) Kannast þú við þessa tilkynningu um breytingu á eignarhaldi Samson á árinu 2007? b) Ert þú tilvísaður „lögmaður Samson“? c) Ef ekki hver er þessi lögmaður?“ Í ljósi þess að varnaraðilinn Vífill hóf störf hjá Novator ehf. 1. júní 2007, en umrædd tilkynning var samkvæmt því sem segir í spurningunni send snemma það ár, verður ekki séð að varnaraðilinn Vífill geti, eins og spurningin er fram sett, af eigin raun borið um þá atburði eða staðreyndir sem hún lýtur að. Er honum því óskylt að svara spurningunni.
Í spurningu nr. 11 á spurningalista sóknaraðila segir að á dómskjali nr. 68 sé að finna „samskipti milli starfsmanna Samson og Novators m.a. um eignatengsl eigenda Samson og ert þú þátttakandi í hluta af þessum samskiptum. a) Kannastu við þessi samskipti? b) Voru samskipti með þessum hætti algeng?“ Umrædd tölvupóstsamskipti, sem eru milli starfsmanna Landsbanka Íslands hf., Novators ehf. og Samsonar ehf., liggja frammi í málinu á dómskjali nr. 68 og bera það með sér að varnaraðilinn Vífill var þátttakandi í hluta þeirra. Eins og nánar er rakið í dómi Hæstaréttar í máli nr. 811/2013, sem kveðinn var upp fyrr í dag, fékk Samson ehf. á árinu 2003 heimild Fjármálaeftirlitsins til þess að fara með virkan eignarhlut í Landsbanka Íslands hf. Til að fá slíka heimild þurftu eigendur Samsonar ehf. að veita eftirlitinu ítarlegar upplýsingar samkvæmt VI. kafla laga nr. 161/2002, þar á meðal um eignarhald félagsins og tengsl þess við aðra lögaðila. Jafnframt hvíldi sú viðvarandi skylda á Samson ehf. og eigendum þess að veita Fjármálaeftirlitinu allar upplýsingar um breytingar á eignarhaldinu og atriði sem að því lutu. Inntaki þeirrar upplýsingaskyldu, sjónarmiðum að baki henni og reglum um aðgengi að þeim upplýsingum, sem til verða á grundvelli upplýsingaskyldunnar, er nánar lýst í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 811/2013.
Af fyrrgreindum tölvupóstsamskiptum má ljóst vera að þau fóru fram til undirbúnings því að hægt væri að rækja þá lögbundnu og viðvarandi skyldu sem hvíldi á eigendum Samsonar ehf. að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um allar breytingar á eignarhaldi félagsins og tengslum þess við aðra lögaðila. Þá ber einn tölvupósturinn það með sér að samskiptin fóru að einhverju leyti fram í tengslum við gerð ársreiknings Landsbanka Íslands hf. Þar sem umrædd samskipti voru til undirbúnings því að aðilar sem fóru með virkan eignarhluta í Landsbanka Íslands hf. sinntu lögboðinni og viðvarandi tilkynningarskyldu gagnvart opinberum eftirlitsaðila, og upplýsingarnar gátu eftir atvikum ratað inn í ársreikning bankans sem almennur aðgangur var að, getur varnaraðilinn Vífill ekki vikist undan því með vísan til 1. mgr. 22. gr. laga nr. 77/1998 að svara umræddri spurningu. Verður honum því með vísan til meginreglu 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 gert skylt að svara spurningunni.
Allar aðrar spurningar á spurningalista sóknaraðila, spurningar nr. 4 til 10, varða dómskjöl nr. 81 og 82. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 3. febrúar 2003 var samþykkt umsókn Samsonar ehf. um að eignast virkan eignarhlut í Landsbanka Íslands hf. Til þess að fá slíka heimild þurfti félagið sem áður segir að veita ítarlegar upplýsingar um eignarhald félagsins og tengsl þess við aðra lögaðila. Varnaraðilinn Vífill ritaði bréfin á dómskjölum nr. 81 og 82 og sendi í nafni Samsonar ehf. til Fjármálaeftirlitsins undir fyrirsögninni: „Viðvarandi eftirlit með virkum eignarhlut í Landsbanka Íslands hf.“ Fyrra bréfið var ritað 12. júní 2008 og hið síðara 27. júní sama ár. Þau höfðu bæði að geyma svör við fyrirspurnarbréfi Fjármálaeftirlitsins 29. maí 2008 þar sem veittar voru upplýsingar „varðandi tiltekin atriði í tengslum við heimild [Samsonar ehf.] til þess að fara með virkan eignarhlut í Landsbanka Íslands hf.“ Við úrlausn þess hvort varnaraðilanum Vífli sé skylt að svara umræddum spurningum er fyrst til þess að líta að bréfin ritaði hann í nafni Samsonar ehf. til þess að fullnægja þeirri lögbundnu og viðvarandi upplýsingaskyldu sem á eigendum félagsins hvíldi að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um allar breytingar á eignarhaldi í félaginu og tengslum þess við aðra lögaðila. Spurningar nr. 4, 5, 6, 7, 8 og 10 á spurningalista sóknaraðila lúta að atriðum sem tengjast nánari framkvæmd þeirrar upplýsingaskyldu með sama hætti og spurning nr. 11. Upplýsingar þær sem þessar spurningar lúta að varða ekki trúnaðarsamband lögmanns og skjólstæðings og verður varnaraðilanum Vífli því með vísan til meginreglu 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 gert skylt að svara þeim spurningum.
Í spurningu nr. 9 á spurningalista sóknaraðila er vitnað til þess að á mynd sem fylgdi dómskjali nr. 81 komi ekki fram upplýsingar um „hver eigi 5% hlut í Givenshire Equities á móti Valhamar Group heldur að hann sé á svonefndum „nominee account“ í Landsbankanum Lux.“ Í framhaldinu er fjölmörgum spurningum beint til varnaraðilans Vífils, það er hvort hann viti hver hafi verið eigandi að hlutnum, af hverju leynd hafi hvílt yfir eignarhaldinu, hvort varnaraðilinn hafi séð gögn um eignarhaldið, af hverju Fjármálaeftirlitið hafi ekki verið upplýst um hver réði yfir þessum hlut, hvort Landsbanki Íslands hf. hafi verið upplýstur um það hver réði yfir hlutnum, hvort Landsbanki Íslands hf. hafi fengið gögn sem staðfestu eignarhaldið á þessum hlut, hvort varnaraðili kannist við að hafa átt í samskiptum við Landsbanka Íslands hf. þar sem bankinn sé að leita eftir upplýsingum um það hver sé eigandi að umræddum hlut og hvort varnaraðilinn viti í dag hver hafi átt hlutinn.
Þegar varnaraðilinn Vífill ritaði bréfin á dómskjölum nr. 81 og 82 í nafni Samsonar ehf. starfaði hann sem lögmaður Novators ehf. Í samræmi við starfsskyldur hans, sem áður eru raktar, gátu fyrirsvarsmenn Novators ehf. falið varnaraðila að veita þeim fyrirtækjum og einstaklingum ráðgjöf og þjónustu sem félagið tók ákvörðun um hverju sinni. Samkvæmt þessu verður að líta svo á að umrædd bréf á dómskjölum nr. 81 og 82 hafi varnaraðilinn samkvæmt fyrirmælum Novators ehf. ritað sem lögmaður Samsonar ehf. Kunni varnaraðilinn svör við þeim efnisatriðum sem fram koma í spurningu nr. 9 hefur honum sem lögmanni verið trúað fyrir þeim eða hann komist að þeim vegna þeirra starfa sinna. Er hann því bundinn þagnarskyldu um þau atriði samkvæmt 22. gr. laga nr. 77/1998. Þá leiðir einnig af b. lið 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 að án leyfis þess sem í hlut á er varnaraðilanum sem lögfræðingi óheimilt að svara spurningum um einkahagi manns sem því hefur verið trúað fyrir eða það hefur komist að á annan hátt í starfi sínu. Orðin „einkahagi manns“ í upphafi ákvæðisins verða skýrð á þann veg að lögpersóna á borð við hlutafélög njóti einnig verndar ákvæðisins og að undir hana falli hagsmunir af fjárhags- eða viðskiptalegum toga. Þá er þagnarskyldan ekki bundin við atriði sem vitni hefur verið trúað fyrir heldur nær hún jafnframt til þess sem viðkomandi hefur komist að í starfi sínu.
Sóknaraðili heldur því meðal annars fram að jafnvel þótt talið yrði að undantekningar frá vitnaskyldu samkvæmt b. lið 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 geti átt við um varnaraðilann Vífil séu hagsmunir sóknaraðila verulega meiri af því að varnaraðili svari spurningunum en að leynd um þær verði haldið, sbr. 3. mgr. 52. gr. síðastnefndra laga. Eru sjónarmið hans í þeim efnum áður rakin. Samkvæmt gögnum málsins var bú Samsonar ehf. tekið til gjaldþrotaskipta 12. nóvember 2008 og er skiptum ekki lokið. Samkvæmt heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Bankanum var eftir það veitt heimild til greiðslustöðvunar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember sama ár. Með lögum nr. 44/2009, þar sem breytt var nokkrum ákvæðum áðurnefndra laga, var bankinn síðan tekinn til slita og skyldi upphaf þeirra miðast við 22. apríl 2009 þegar lögin öðluðust gildi. Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði 29. sama mánaðar slitastjórn sem annast meðal annars meðferð krafna á hendur bankanum. Slitameðferð félagsins er ekki lokið.
Þar sem bú Samsonar ehf. hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta og skuldaskil Landsbanka Íslands hf. eru í því horfi sem áður greinir, eru með hliðsjón af þeim sjónarmiðum, sem fram koma í dómi Hæstaréttar 10. janúar 1996 í máli nr. 419/1995 og birtur er í dómasafni réttarins 1996 á bls. 40, ekki sömu hagsmunir og annars hefðu verið tengdir þeim trúnaðarupplýsingum sem spurning nr. 9 varðar og varnaraðilinn Vífill kann að búa yfir vitneskju um. Þá er einnig til þess að líta að upplýsingar sem varða eignarhald á Samson ehf. og Landsbanka Íslands hf. og tengjast efni spurningar nr. 9 hafa meðal annars birst í opinberum gögnum eins og rannsóknarskýrslu Alþingis. Sóknaraðili leitast við í máli þessu að afla sönnunargagna í þeim tilgangi sem nánar getur í kafla I hér að framan. Þegar til þess er litið sem hér var rakið, verður á það fallist með sóknaraðila að hann hafi í ljósi tilgangs gagnaöflunar sinnar verulega meiri hagsmuni af því að upplýst verði um þau atriði sem spurning nr. 9 lýtur að en hagsmunir hlutaðeigandi af því að leynd verði haldið um sömu atriði, sbr. 3. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt þessu verður varnaraðilanum Vífli gert skylt að svara 9. spurningu sóknaraðila.
Þar sem varnaraðilinn Vífill hefur samkvæmt framansögðu ekki fullnægt vitnaskyldu sinni eru ekki efni til að ákveða honum ómaksþóknun samkvæmt 2. mgr. 58. gr. laga nr. 91/1991.
Eftir þessum málsúrslitum verður varnaraðilum gert að greiða kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Það athugast að í hinum kærða úrskurði er ítrekað rætt um vitnastefnanda og vitnastefnda en þessi hugtök eiga sér ekki stoð í réttarfarslögum eftir gildistöku laga nr. 91/1991.
Dómsorð:
Varnaraðilanum Vífli Harðarsyni er óskylt að svara spurningum nr. 12 og 13 á spurningalista sóknaraðila, Vilhjálms Bjarnasonar, á dómskjali nr. 91 en skylt að svara spurningum nr. 4 til 11 á sama spurningalista.
Varnaraðilar, Vífill og Björgólfur Thor Björgólfsson, greiði óskipt sóknaraðila 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2.
desember 2013.
Með beiðni, móttekinni í Héraðsdómi
Reykjavíkur 21. september 2012, fór vitnastefnandi, Vilhjálmur
Bjarnason, Hlíðarbyggð 18, Garðabæ, þess á leit við dóminn að honum yrði
heimilað, á grundvelli 2. málsliðar 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð
einkamála, með vitnaleiðslu og öflun skjala fyrir dómi, að leita sönnunar um
atvik sem vörðuðu lögvarða hagsmuni hans og gætu ráðið úrslitum um málshöfðun
á hendur Björgólfi Thor Björgólfssyni, 55 Clarendon Road, Notting Hill, London, Bretlandi.
Við þingfestingu málsins 29. október
2012 krafðist vitnastefndi þess að beiðni vitnastefnanda yrði hafnað. Með dómi
Hæstaréttar Íslands 15. maí sl. í máli nr. 259/2013 féllst rétturinn á að
vitnastefnanda væri heimilt að leita sönnunar samkvæmt XII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um
þau atriði sem kröfugerð hans tæki til, að því undanskildu að vitnastefnda yrði
ekki gert að gefa skýrslu fyrir dómi.
Vitnið Vífill Harðarson, kt. 310575-3569, var með vitnakvaðningu, útgefinni 18.
október sl., kvaddur fyrir dóm 4. nóvember sl. kl. 15:15 til að gefa skýrslu í
þessu máli. Við skýrslugjöfina neitaði vitnið að svara spurningum lögmanns
vitnastefnanda með vísan til 22. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, b- og d-liða
2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991, 70. og 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins
Íslands nr. 33/1944 og 6. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr.
62/1994. Vitnið neitaði að svara spurningum nr. 4 til 13 á lista yfir
spurningar til vitnisins sem er á dómskjali nr. 91. Um er að ræða eftirfarandi
spurningar:
,,4.
Kannast þú við bréf í dómskjölum nr. 81 og 82, sem þú ritar undir, þar sem þú
ert að veita Fjármálaeftirlitinu upplýsingar um eignarhald Samson og
upplýsingar sem tengjast mat þess á viðvarandi hæfi Samson til að fara með
virkan eignarhlut í Landsbankanum?
5. Hvernig kom það til að þú sinntir því verkefni að skrifa bréfin í
dómskjölum nr. 81 og 82?
6. Hver bað þig um að
skrifa bréfin í dómskjölum nr. 81 og 82?
7.
Hvaðan fékkstu þær upplýsingar sem þú veittir Fjármálaeftirlitinu með bréfunum
í dómskjölum nr. 81 og 82 og snéru að persónulegu eignarhaldi eigenda Samson á
félaginu?
8.
Hvaðan komu upplýsingarnar sem fram koma á myndinni í dómskjali nr. 81 um
tilhögun á eignarhaldi Björgólfs Thors?
9.
Á myndinni í dómskjali nr. 81 koma ekki fram upplýsingar um það hver eigi 5%
hlut í Givenshire Equities
á móti Valhamar Group heldur segja að hann sé á
svonefndum „nominee account“
í Landsbankanum Lux. a) Hver var eigandi að þessum
hlut? b) Veistu af hverju leynd var yfir því hver ætti þennan hlut? c) Hefur þú
séð einhver gögn um þetta eignarhald? d) Af hverju er Fjármálaeftirlitið ekki
upplýst um það hver réði yfir þessum 5% hlut? e) Var Landsbankinn upplýstur um
það hver réði yfir þessum 5% hlut? f) Fékk Landsbankinn gögn sem staðfestu
eignarhaldið á þessum 5%? g) Kannastu við að hafa átt í samskiptum, s.s.
tölvupóstsamskiptum, við Landsbankann þar sem bankinn er að leita eftir
upplýsingum um það hver sé eigandi að umræddum 5% hlut í Givenshire? h) Veistu það í dag hver átti þennan hlut á
þessum tíma?
10.
Í bréfinu í dómskjali nr. 82 kemur fram að engar breytingar hafi orðið á
eignarhaldi Samson eignarhaldsfélags frá því að það fékk leyfi til útvíkkunar á
starfssemi sinni þann 2. júní 2006. a) Hvaðan
fékkstu þessar upplýsingar? b) Kannast þú við að Hersir ráðgjöf og þjónusta
ehf. hafi verið hluthafi árið 2006?
11.
Í dómskjali nr. 68 er að finna samskipti milli starfsmanna Samson og Novators m.a. um eignatengsl eigenda Samson og er þú
þátttakandi í hluta af þessum samskiptum. a) Kannastu við þessi samskipti? b)
Voru samskipti með þessum hætti algeng?
12.
Kannast þú við þá fyrirætlun eða þau markmið af hálfu Samson sem fram kemur á
minnisblaði á dómskjali nr. 21 að það sé fyrirætlan Samson að haga eignarhaldinu
á Samson fyrir árslok þannig að eignarhlutur Björgólfs Thors fari niður í sama
eða lægra hlutfall en það var í upphafi árs?
13. Í greininni í dómskjali nr. 48 kemur fram að lögmaður Samson hafi
sent tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins snemma árs 2007 þar sem FME er tilkynnt um breytingar á eignarhaldi Samson. a)
Kannast þú við þessa tilkynningu um breytingu á eignarhaldi Samson á árinu
2007? b) Ert þú tilvísaður „lögmaður Samson“? c) Ef ekki, hver er þessi
lögmaður?“
Lögmaður vitnastefnanda krafðist
þess að vitnið svaraði spurningunum. Lögmaður vitnastefnda tók undir mótmæli
vitnisins. Krafan var tekin til úrskurðar í þinghaldinu eftir að lögmenn aðila
og vitnið höfðu tjáð sig.
Niðurstaða
Samkvæmt
1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 gildir sú meginregla í íslensku
einkamálaréttarfari að hverjum manni, sem er orðinn 15 ára, lýtur íslenskri
lögsögu og er ekki aðili máls eða fyrirsvarsmaður aðila, sé skylt að koma fyrir
dóm sem vitni til að svara munnlega spurningum sem er beint til hans um
málsatvik. Þessi skylda er þó ekki fortakslaus því að í 52. gr. sömu laga er
mælt fyrir um aðstæður þar sem vitni er óskylt að svara spurningu og í 53. gr.
laganna er lýst aðstæðum þar sem vitni er óheimilt að svara spurningu.
I
Samkvæmt b-lið 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 er vitni óheimilt
án leyfis þess sem á í hlut að svara spurningum um einkahagi manns sem því
hefur verið trúað fyrir eða það hefur komist að á annan hátt í starfi sem m.a.
lögfræðingur. Orðin ,,einkahagi manns“ eru ekki skýrð í athugasemdum við
frumvarp sem varð að lögum nr. 91/1991. Sambærilegt ákvæði er í b-lið 2. mgr.
119. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og fram kemur í athugasemdum við
frumvarp sem varð að þeim lögum að fyrirmynd
þeirra er sótt til b-liðar 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991. Í dómi
Hæstaréttar Íslands 8. október sl. í máli nr. 408/2013 var tekin afstaða til
skýringar b-liðar 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008. Í dómi réttarins var því
slegið föstu að undir ákvæðið gæti
fallið einka-, fjárhags- og viðskiptamálefni
einstaklinga jafnt sem lögpersóna, að því tilskildu að þeim sérfræðingum, sem
taldir séu upp í ákvæðinu eða gegna öðrum störfum er jafn rík trúnaðarskylda
fylgi, hafi verið trúað fyrir slíkum upplýsingum í starfi þeirra. Að mati dómsins verður að skýra hugtakið
,,einkahagi manns“ í b-lið 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 og b-lið 2. mgr.
119. gr. laga nr. 88/2008 með sama hætti. Því verður að túlka ákvæði b-liðar 2.
mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 á þann veg að það nái líka yfir einkahagi
lögaðila. Í dómi Hæstaréttar var því einnig slegið föstu að við skýringu á b-lið 2. mgr. 119.
gr. laga nr. 88/2008, sem feli í sér
undantekningu frá vitnaskyldu, verði að líta til þess að því sé ætlað að vernda
trúnaðarsamband sérfræðings og skjólstæðings, sem til hans leitar, þannig að
skjólstæðingurinn geti almennt treyst því að upplýsingar, sem hann lætur
sérfræðingnum í té um einkahagi sína, verði ekki síðar notaðar gegn honum í
sakamáli án hans vilja. Að mati dómsins eiga sömu sjónarmið við um skýringu
b-liðar 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991.
Í
d-lið 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 er mælt fyrir um að vitni sé óheimilt án
leyfis þess sem á í hlut að svara spurningum um leyndarmál
um viðskipti, uppgötvanir eða önnur slík verk sem það hefur komist að í starfi.
Fyrir liggur að vitnið er starfandi
héraðsdómslögmaður. Það leiðir af 4. tl. 1. mgr. 6.
gr. laga nr. 77/1998 að allir lögmenn eru jafnframt lögfræðingar og falla
lögmenn því undir b-lið 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991. Fram kom við
skýrslutöku yfir vitninu að hann hefði sumarið 2007 verið ráðinn sem lögmaður
hjá Novator og hefði hafið störf í júní og hefði
starfað hjá félaginu þar til í apríl 2010. Vitnið hefði veitt Novator ráðgjöf og öðrum félögum sem tengdust vitnastefnda.
Vitnið hefði á þeim tíma verið með undanþágu frá rekstri lögmannsstofu.
Spurningar nr. 4 til 10 varða allar
efni skjala sem bera það með sér að vitnið hafi undirritað þau fyrir hönd
Samsonar eignarhaldsfélags. Að mati dómsins er hér um að ræða spurningar sem
varða einkahagi þess félags sem vitnið hefur komist að í starfi sem lögmaður í
skilningi b-liðar 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991. Að mati dómsins varðar
spurning nr. 11 upplýsingar um einkahagi Björgólfs Guðmundssonar, sem vitnið
hefur komist að í starfi sem lögmaður í skilningi b-liðar 2. mgr. 53. gr. laga
nr. 91/1991. Að mati dómsins varðar spurning nr. 12 upplýsingar um einkahagi
vitnastefnda og Samsonar eignarhaldsfélags, sem vitnið hefur komist að í starfi
sem lögmaður í skilningi b-liðar 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991. Að mati
dómsins varðar spurning nr. 13 upplýsingar um einkahagi Samsonar
eignarhaldsfélags, sem vitnið hefur komist að í starfi sem lögmaður í skilningi
b-liðar 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991.
Ekki hefur komið fram að þeir aðilar
sem nefndir eru í fyrrnefndum spurningum hafi gefið vitninu leyfi til að svara
þeim. Vitninu er því óheimilt að svara spurningunum samkvæmt b- og d-lið 2.
mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991, nema skilyrði 3. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991
séu uppfyllt.
Í 3. mgr. 53. gr. er gerð sú
undantekning frá þessu banni að ef dómari telur hagsmuni aðila verulega meiri
af því að upplýst verði um atriði samkvæmt b- til d-lið 2. mgr. en hagsmuni
hlutaðeiganda af því að leynd verði haldið, geti hann þá eftir kröfu aðila lagt
fyrir vitni að svara spurningu þótt leyfi sé ekki veitt til þess, enda feli þá
svarið ekki í sér frásögn af einkahögum manns sem á ekki aðild að máli.
Fyrir liggur að bú Samsonar
eignarhaldsfélags hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta, en skiptum mun ekki
vera lokið. Þrotabúið er ekki aðili að þessu máli, né heldur Björgólfur
Guðmundsson. Svar við spurningum nr. 4 til 11, spurningu nr. 12, hvað varðar
Samson eignarhaldsfélag og spurningu nr. 13 varða eins og áður segir einkahagi
Samsonar eignarhaldsfélags og Björgólfs Guðmundssonar og er þegar af þeirri
ástæðu ekki heimild samkvæmt 3. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 fyrir því að
dómari leggi fyrir vitnið að svara þessum spurningum.
Hvað varðar spurningu nr. 12, hvað
varðar vitnastefnda, verður að líta til þess að vitnastefnandi hefur höfðað
þetta vitnamál í því skyni að afla gagna til mats á því hvort hann eigi kröfu
um skaðabætur á hendur vitnastefnda vegna falls Landsbanka Íslands hf., en
vitnastefnandi var á meðal hluthafa bankans. Vitnastefnandi rekur í beiðni
sinni að hann telji að aðaleigendur bankans, vitnastefndi og faðir hans,
Björgólfur Guðmundsson, hafi í gegnum Samson eignarhaldsfélag haft óeðlileg
áhrif á starfsemi bankans og þeir hafi með skipulögðum og ólögmætum hætti notað
þau áhrif til þess að leyna yfirráðum þeirra yfir bankanum og veita lán til
vitnastefnda og félaga í hans eigu umfram heimildir.
Í 1. mgr. 22. gr. laga nr. 77/1998
um lögmenn er mælt fyrir um þagnarskyldu lögmanns um hvaðeina sem honum er
trúað fyrir í starfi sínu. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laganna setur Lögmannafélag
Íslands lögmönnum siðareglur. Í 17. gr. siðareglna lögmanna (Codex ethicus) segir að lögmaður
skuli aldrei án endanlegs dómsúrskurðar, sem beint sé að honum sjálfum, eða
skýlauss lagaboðs, láta óviðkomandi aðilum í té gögn og upplýsingar, sem
lögmaður hefur fengið í starfi um skjólstæðing sinn eða fyrrverandi
skjólstæðing. Af þessum ákvæðum leiðir að lögmenn hafa ríka trúnaðarskyldu
gagnvart umbjóðendum sínum.
Þegar metið er hvort hagsmunir
vitnastefnanda séu verulega meiri af því að vitnið svari umræddri spurningu er
óhjákvæmilegt að mati dómsins að líta til þess að vitnastefnandi hefur ekki
haldið því fram að hann eigi kröfu um skaðabætur á hendur vitnastefnda, heldur
rekur hann þetta mál í því skyni að meta hvort hann eigi slíka kröfu. Þegar
virt er hin ríka trúnaðarskylda sem lögmenn hafa gagnvart umbjóðendum sínum er
það niðurstaða dómsins að slík gagnaöflun um óvissa kröfu geti ekki vikið til
hliðar trúnaðarskyldu lögmanna. Verður því að hafna kröfu vitnastefnanda um að
vitnið svari spurningunni.
II
Samkvæmt 2. mgr. 58. gr. laga nr.
91/1991 verður greiðsla til vitnis vegna útlagðs kostnaðar af rækslu
vitnaskyldu og þóknun fyrir atvinnumissi ekki ákveðin fyrr en að vitni hefur
fullnægt vitnaskyldu sinni. Þar sem niðurstaða dómara er á þá leið að vitninu sé
óheimilt að svara þeim spurningum sem vitnið hafði áður neitað að svara, er
ljóst að vitnið hefur fullnægt vitnaskyldu sinni. Verður vitninu því ákveðin
ómaksþóknun úr hendi vitnastefnanda. Ekki þykir fært að taka tillit til þess
tíma sem vitnið varð að bíða eftir að skýrslutaka hæfist, enda verður ekki séð
að vitnastefnandi hafi mátt sjá fyrir þær tafir sem urðu vegna neitunar vitna á
að svara spurningum. Að teknu tilliti til tímalengdar skýrslutökunnar þykir hún
hæfilega ákveðin 10.000 krónur.
Ásbjörn Jónasson,
settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Vitninu
Vífli Harðarsyni er óheimilt að svara spurningum nr. 4 til 13 á dómskjali nr.
91.
Ómaksþóknun til vitnisins úr hendi vitnastefnanda, Vilhjálms Bjarnasonar, er ákveðin 10.000 krónur.