- Opinberir starfsmenn
- Ráðningarsamningur
- Uppsögn
|
Mánudaginn 29. mars 1999. |
Nr. 391/1998. |
Bjarni Jónasson (sjálfur) gegn íslenska ríkinu (Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.) |
Opinberir starfsmenn. Ráðningarsamningur. Uppsögn.
B krafði íslenska ríkið um skaða- og miskabætur vegna uppsagnar hans sem framkvæmdastjóra verndaðs vinnustaðar. B hafði verið ráðinn tímabundið og átti ráðningu hans að ljúka sjálfkrafa 31. desember 1987. Honum var sagt upp störfum 13. október 1987 með þriggja mánaða fyrirvara, og var síðasti starfsdagur hans 31. janúar 1988. Talið var talið að uppsögn samningsins hefði verið óþörf og leitt til þess eins að B var lengur við störf en þurft hefði að vera. Þótti ekki hafa verið brotið gegn lögvörðum rétti B með uppsögninni. Talið var að ekki hefði verið sýnt fram á að skilyrðum 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 væri fullnægt til að B ætti rétt á miskabótum. Þá þóttu ákvæði um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins ekki geta leitt til bótaskyldu ríkisins, eins og starfslokum hans var háttað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. september 1998. Hann krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.806.904 krónur í skaða- og miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 18. janúar 1998 til greiðsludags. Til vara er krafist vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 9. september 1998 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Atvikum málsins er lýst í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram var áfrýjandi framkvæmdastjóri Kertaverksmiðjunnar Heimaeyjar í Vestmannaeyjum, en verksmiðjan er verndaður vinnustaður, sem nú er rekinn á grundvelli laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra. Áfrýjandi var frá upphafi 1984 ráðinn af stjórn vinnustaðarins með tímabundnum ráðningarsamningum til eins árs í senn. Síðasti ráðningarsamningur hans gilti frá 1. janúar til ársloka 1987. Stjórnin sagði áfrýjanda upp störfum með bréfi 13. október 1987 með þriggja mánaða fyrirvara miðað við 1. nóvember 1987 og var síðasti starfsdagur hans hjá verksmiðjunni 31. janúar 1988. Í bréfinu voru ekki tilgreindar ástæður uppsagnarinnar.
Samkvæmt ráðningarsamningnum skyldi ráðningu áfrýjanda ljúka sjálfkrafa 31. desember 1987. Vinnuveitandi þurfti ekki að tilgreina sérstakar ástæður þess, ef ákveðið yrði að framlengja ekki samninginn. Við þær aðstæður, sem fyrir hendi voru, var uppsögn samningsins með öllu óþörf og leiddi til þess eins, að áfrýjandi var lengur við störf en þurft hefði að vera. Það veitti honum þó ekki rýmri rétt gagnvart vinnuveitanda en verið hefði, ef samningurinn hefði verið látinn renna skeið sitt á enda án sérstakra aðgerða, en áfrýjandi heldur því ekki fram, að samningurinn hafi verið endurnýjaður með einhverjum hætti. Með uppsögninni var því ekki brotið gegn lögvörðum rétti áfrýjanda og var hún lögmæt.
Fébótakröfur áfrýjanda eru einungis að hluta í tengslum við þá uppsögn, sem hér er deilt um. Að einhverju leyti eiga þær rætur að rekja til ágreinings um afhendingu gagna, sem um var dæmt með dómi Hæstaréttar 29. júní 1995, H.1995.1890. Í málatilbúnaði áfrýjanda eru ekki skýr skil hér á milli.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður að telja, að áfrýjandi hafi ekki sýnt fram á, að skilyrði séu til bótaábyrgðar stefnda samkvæmt þágildandi 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en lagaákvæði um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins geta ekki leitt til bótaskyldu, eins og starfslokum áfrýjanda var háttað.
Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða héraðsdóms staðfest um annað en málskostnað.
Með hliðsjón af því, að uppsögn ráðningarsamningsins var óþörf, eins og að framan greinir, og þeim erfiðleikum, sem hún kann að hafa skapað áfrýjanda, þykir rétt að láta málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti falla niður.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur á að vera óraskaður um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júlí 1998.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 23. júní sl., að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað af Bjarna Jónassyni, kt. 041037-4909, Brekkugötu 1, Vestmannaeyjum, gegn félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, Arnarhvoli, Reykjavík, með stefnu birtri 9. desember 1997.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi fjármálaráðherra verði f.h. ríkissjóðs dæmdur til að greiða stefnanda 1.706.904 krónur í skaðabætur, eða aðra hæfilega fjárhæð að mati dómsins, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 18. janúar 1998. Einnig að stefndi fjármálaráðherra verði samkvæmt 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 dæmdur til greiðslu 1.100.000 króna miskabóta, eða annarrar hæfilegrar fjárhæðar að mati dómsins, vegna þjáninga, hneisu, óþæginda og röskunar á stöðu og högum, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 18. janúar 1998. Og loks að stefndi fjármálaráðherra verði f.h. ríkissjóðs dæmdur til að greiða stefnanda hæfilegan málskostnað að mati dómsins auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá tveimur vikum eftir dómsuppsögu til greiðsludags.
Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að þeim verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins. Til vara er þess krafist að stefnukröfurnar verði stórlega lækkaðar og að í því tilviki verði málskostnaður látinn niður falla.
Yfirlit yfir málsatvik og ágreiningsefni.
Í gögnum málsins kemur fram að stjórn Verndaðs vinnustaðar í Vestmannaeyjum ákvað að ráða stefnanda sem framkvæmdastjóra Kertaverk-smiðjunnar Heimaeyjar í janúar 1984. Í verksmiðjunni unnu nokkrir fatlaðir starfsmenn auk stefnanda og verkstjóra. Síðar var ráðinn vélgæslumaður til að annast vélar og leiðbeina starfsmönnum við kertaframleiðsluna.
Á árinu 1987 kvartaði fatlaður starfsmaður undan samskiptaörðugleikum við stefnanda og framkomu hans í garð fatlaðra starfsmanna. Einnig kvartaði hann undan launum. Málið var tekið fyrir á fundi Svæðisstjórnar Suðurlands um málefni fatlaðra sem haldinn var í Vestmannaeyjum þann 3. júní 1987. Stjórn Verndaðs vinnustaðar í Vestmannaeyjum kom á fundinn. Þar var kynnt skýrsla framkvæmdastjóra og yfirfélagsráðgjafa hjá Svæðisstjórninni sem voru í Vestmannaeyjum dagana 12. og 13. maí það ár vegna framangreindrar kvörtunar. Þeir höfðu rætt við stefnanda, verkstjóra kertaverksmiðjunnar, fatlaða starfsmenn, stjórn vinnustaðarins og fleiri í Vestmannaeyjum. Niðurstaða þeirra var sú að fatlaðir starfsmenn væru fremur óánægðir og óvissir um stöðu sína. Óljóst virtist vera á hvaða forsendum hver og einn þeirra væri í verksmiðjunni og hvert væri markmið með dvölinni þar. Ekki væri nein festa eða regla í mati eða endurmati á stöðu fatlaðra einstaklinga, hópa eða varðandi framleiðsluna. Fatlaðir starfsmenn flyttust ekki á milli starfa. Mikill fjöldi véla til kertagerðar væri enn ónotaður og engin tilraun hefði verið gerð til að láta á það reyna hvort hinir fötluðu starfsmenn gætu á einn eða annan hátt annast stjórn og umsjón vélanna, með eða án leiðsagnar. Síðan segir í niðurstöðum að vantraust og óánægja brytist áberandi fram gagnvart stefnanda sem ekki virtist hafa tekist að virkja hóp hinna fötluðu til samstöðu og samstarfs. Þá kemur þar fram að gagnkvæmt vantraust virtist vera milli stefnanda og stjórnar, sem hvorki virtist hafa fylgst með sem skyldi né veitt stefnanda það aðhald og stuðning sem hann hafi þurft í upphafi við að marka vinnustaðnum verksvið og markmið. Gerðar voru ákveðnar tillögur til úrbóta þar sem m.a. var lagt til að fengnir yrðu sálfræðingur og félagsráðgjafi eða félagsmálastjórinn í Vestmannaeyjum til að vera ráðgefandi um innra starf, bæði varðandi samskipti almennt milli starfsmanna og yfirmanna og við mat og endurmat á störfum fatlaðra og markmiðum með dvöl þeirra á vinnustaðnum. Bent var enn fremur á að stjórn Verndaðs vinnustaðar yrði að gera skýrari verklýsingu á störfum stefnanda og verkstjóra, svo og á ábyrgð þeirra hvors gagnvart öðrum, gagnvart stjórninni og gagnvart fötluðum starfsmönnum. Ástæða virtist til að ráða starfsmann til að annast vélar og viðhald þeirra. Þannig gæti stefnandi betur einbeitt sér að sölustarfi og markaðsöflun. Á fundinum óskaði stjórn Verndaðs vinnustaðar eftir stuðningi Svæðisstjórnarinnar og var fallist á að veita hann.
Vegna þessa var ákveðið að fá Önnu Karin Júlíussen félagsráðgjafa og Brynjar Eiríksson sálfræðing, sem bæði voru starfsmenn Vestmannaeyjabæjar, til að gera úttekt á samskiptum á vinnustaðnum og líðan öryrkjanna sem þar unnu. Ræddu þau við yfirmenn og starfsmenn og greindu vandann. Þau skiluðu tveimur skýrslum um það til stjórnar Verndaðs vinnustaðar með bréfum dagsettum 15. júlí og 6. október 1987 ásamt viðtölum við starfsmenn. Í fyrra bréfinu er tekið fram að öryrkjum, sem rætt var við, verkstjóra og framkvæmdastjóra hafi verið gefið loforð um að viðtölin yrðu hvergi birt opinberlega. Í fyrri skýrslunni kemur m.a. fram að fötluðum starfsmönnum virtist almennt líða illa. Þeir byggju við miklu lakari kjör en almennir launþegar og þeir hefðu ekki verið upplýstir um réttindi sín. Að auki þyrftu þeir að búa við verulegt álag vegna streitu milli stefnanda og verkstjóra. Voru lagðar til ákveðnar úrbætur þar að lútandi. Í síðari skýrslunni er því lýst að hvaða leyti tillögur þeirra til úrbóta höfðu komið til framkvæmda. Ekki hafði tekist að færa til betri vegar togstreitu yfirmanna á vinnustaðnum. Að áliti skýrsluhöfunda yrði líðan fatlaðra starfsmanna óbreytt með óbreyttu mannahaldi sem leiddi til skerðinga á heilsu, náms- og starfsgetu þeirra.
Stefnanda var sagt upp störfum með bréfi stjórnar Verndaðs vinnustaðar í Vestmannaeyjum dagsettu 13. október 1987. Samkvæmt bréfinu var stefnanda sagt upp með þriggja mánaða umsömdum uppsagnarfresti frá 1. nóvember 1987 og var síðasti vinnudagur stefnanda því 31. janúar 1988.
Í málinu er deilt um lögmæti uppsagnarinnar. Af hálfu stefndu er því haldið fram að ekki hafi þurft að vera fyrir hendi nokkrar ástæður fyrir uppsögninni enda hafi stefnandi verið ráðinn tímabundið til starfans. Einnig er ágreiningur um réttmæti miskabótakröfu stefnanda sem hann byggir á 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi heldur því fram að honum hafi að ástæðulausu verið sagt upp starfi því er hann gegndi sem framkvæmdastjóri Verndaðs vinnustaðar í Vestmannaeyjum. Ástæðan sem stefnanda hafi verið gefin fyrir uppsögninni, þ.e. að hann hafi ekki viljað kenna vélgæslumanni á framleiðsluna og að hann hafi neitað að gefa upp uppskriftir og formúlur að litablöndun, sem þó sé eign kertaverksmiðjunnar, sé tilhæfulaus og uppsögnin því ólögmæt. Stefnandi heldur því fram að hann hafi kennt vélgæslumanninum að búa til kerti og hafi hann enn fremur farið í einu og öllu eftir starfslýsingu þeirri er til hafi verið um starfið. Í lýsingunni hafi ekki verið gert ráð fyrir að vélgæslumaðurinn lærði að blanda liti enda hafi nægar birgðir verið til. Þá hafi engar uppskriftir fylgt verksmiðjunni þegar hún hafi verið keypt á sínum tíma en blöndun lita byggi á aðferðafræði og verklegri þjálfun sem ekki sé hægt að miðla nema við frið og góðar aðstæður, sem hafi ekki verið til staðar á þessum tíma á vinnustaðnum.
Fjárhæð skaðabótakröfu stefnanda er miðuð við laun í tvö ár og er krafan þannig sundurliðuð: laun, föst yfirvinna og orlof 71.121 krónur x 24 mánuðir = 1.706.904 krónur.
Miskabótakröfuna sundurliðar stefnandi þannig:
vegna þjáninga |
kr. 200.000 |
vegna hneisu vegna óþæginda vegna röskunar á stöðu og högum |
kr. 200.000 kr. 200.000 kr. 500.000 |
Varðandi kröfu stefnanda um bætur vegna þjáninga vísar hann til þess að það hafi valdið sér mikilli andlegri þjáningu og hugarangri að hafa þurft að berjast við fólk í þjónustu félagsmálaráðherra í nærri 10 ár fyrir þeim sjálfsögðu réttindum að fá að kynna sér hvað um hann var sagt. Stefnandi vísar í því sambandi til álits umboðsmanns Alþingis frá 30. júní 1989 í máli nr. 25/1989 og til úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. A-28/1997 frá 10. nóvember 1997.
Kröfu um bætur fyrir hneisu byggir stefnandi á því að það hafi verið mjög niðurlægjandi fyrir hann að vera rekinn úr starfi með skömm vegna tilbúinna ástæðna og að fá ekki tækifæri til að verja hendur sínar. Vísar hann í því sambandi til 10. og 11. gr. laga nr. 31/1976 með síðari breytingum.
Þá er krafa stefnanda um bætur fyrir óþægindi studd þeim rökum að hann hafi haft af því mikið ómak hve mikillar tregðu hann hafi mætt þegar hann hafi reynt að fá réttindi sín viðurkennd og enn standi mál þannig að félagsmálaráðuneytið komi sér hjá að fara að úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál um að afhenda honum þau skjöl sem hann eigi rétt á að fá.
Krafa um bætur fyrir röskun á stöðu og högum er byggð á því að stefnandi hafi hvergi fengið vinnu við sitt hæfi vegna þeirrar miklu og neikvæðu umfjöllunar sem brottrekstur hans hafi fengið í litlu samfélagi. Þessa umfjöllun megi rekja til fólks í þjónustu þáverandi félagsmálaráðherra. Vísar stefnandi í því sambandi til blaðagreinar í Fréttum 2. febrúar 1988 svo og til ummæla Vilhjálms Árnasonar um geðveiki stefnanda og starfsmanns um ofsóknaræði hans. Þetta ástand hafi haldist í rúm þrjú ár og eimi enn eftir af því.
Stefnandi vísar til III. kafla laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, einkum 10. og 11. gr. Þá vísar hann til núgildandi laga nr. 70/1996 og 150/1996. Enn fremur vísar hann til jafnræðisreglu, álits umboðsmanns Alþingis dags. 30. júní 1989, úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál dags. 10. nóvember 1997 og loks til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennra reglna skaðabótaréttarins.
Málsástæður og lagarök stefndu.
Af hálfu stefndu er málatilbúnaði og bótakröfum stefnanda eindregið vísað á bug. Í greinargerð stefndu komi fram að stefnandi krefjist bóta vegna ætlaðrar ólögmætrar uppsagnar úr starfi sem framkvæmdastjóri Verndaðs vinnustaðar í Vestamannaeyjum. Miði hann kröfur sínar við tveggja ára laun auk þess sem hann krefjist miskabóta og málskostnaðar. Hann byggi á því að honum hafi ekki verið gefinn kostur á að tala máli sínu áður en ákveðið hafi verið að segja honum upp starfi og að hann telji uppsögnina brjóta í bága við 10. og 11. gr. þágildandi laga um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna nr. 38/1954.
Stefndu vísa til þess að í viðtölum þeirra Eggerts Jóhannessonar framkvæmdastjóra Svæðisstjórnar Suðurlands og Sævars Bergs Guðbergssonar við stefnanda og stjórn Verndaðs vinnustaðar í Vestmannaeyjum þann 12. og 13. maí 1987 hafi báðir þessir aðilar greint frá því að ekki hafi ríkt traust milli stefnanda og stjórnarinnar. Óánægja stjórnarinnar með störf stefnanda hafi bæði varðað atriði er lotið hafi að því að skort hafi á að hann gæfi stjórninni greinargóða og skýra mynd af fjárhagsstöðunni og að hann hafi ekki skráð niður litaformúlur og kertablöndur þannig að aðrir starfsmenn gætu annast slíkt í fjarveru hans. Þá hafi framkoma hans við fatlaða starfsmenn verið særandi. Stjórnin hafi ekki á því stigi ákveðið endanlega hvernig hún ætti að bregðast við en þá þegar hafi verið rætt um þann möguleika að segja stefnanda upp eða fá hann til að segja upp.
Stefndu byggja á því að ráðning stefnanda sem framkvæmdastjóra hafi frá upphafi verið tímabundin til eins árs í senn, svo sem framlagðir ráðningarsamningar á dskj. 36 og 37 beri með sér. Síðastgildandi ráðningarsamningur hafi náð yfir tímabilið frá 1. janúar til 31. desember 1987. Samkvæmt ákvæðum hans hafi gagnkvæmur uppsagnarfrestur verið þrír mánuðir og hafi ekki þurft að koma til sérstakrar uppsagnar til þess að ráðningu lyki sjálfkrafa. Engin laga- eða samningsskylda hafi staðið til endurráðningar stefnanda. Uppsögnin, sem hafi verið með þriggja mánaða fyrirvara miðað við 31. janúar 1988, hafi því í reynd verið óþörf til að binda endi á ráðningu stefnanda.
Samkvæmt framangreindu hafi stefnandi ekki verið skipaður ótímabundið til starfans svo sem málatilbúnaður hans geri ráð fyrir. Reglur í 10. og 11. gr. laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins hafi því ekki átt við. Samkvæmt 5. gr. samþykkta fyrir Verndaðan vinnustað í Vestmannaeyjum ráði stjórnin framkvæmda-stjóra. Stjórnin hafi því í hvívetna verið innan lagalegra heimilda sinna er hún hafi sagt stefnanda upp störfum með bréfi frá 13. október 1987. Ekkert í efni þess bréfs geti heldur skoðast sem móðgandi eða meiðandi í garð stefnanda.
Því er eindregið mótmælt af hálfu stefndu að ástæður er þágildandi 264. gr. almennra hegningarlaga hafi kveðið á um hafi ráðið viðbrögðum stefndu til afhendingar gagna sem stefnandi hafi fengið án óþarfa dráttar eftir því sem lög hafi staðið til og vísa stefndu í því sambandi til dskj. nr. 10, 15, 20 og dóms Hæstaréttar í máli stefnanda frá 29. júní 1995. Ekki fáist reyndar séð að dráttur á slíku geti að lögum varðað áfalli miskabóta. Af hálfu stefnanda hafi síðan verið hafðar uppi frekari kröfur um gögn með bréfi 27. ágúst sl. Stefnandi hafi án tafar fengið frekari gögn í fullu samræmi við úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 10. nóvember 1997. Engum þeim atvikum sé þannig til að dreifa varðandi uppsögnina, framkvæmd hennar eða síðari ákvarðanir tengdum afhendingu gagna varðandi skýrslur Önnu Karenar Júlíussen og Brynjars Eiríkssonar til stjórnar vinnustaðarins, sem hafi verið afhentar sumarið og haustið 1987, er varðað geti stefndu bótaskyldu að lögum.
Þá séu bótakröfur byggðar á ólögmætri uppsögn nú löngu fallnar niður fyrir tómlæti og fyrningu, sbr. 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda.
Í stefnu reisi stefnandi kröfur sínar um miskabætur við ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993 en þau lög hafi öðlast gildi 1. júlí 1993 og geti því ekki átt hér við. Ekki sé heldur rökstutt í stefnu og framlögðum skjölum hvernig ástæður, sem byggt er á til stuðnings miskabótakröfu stefnanda, tengist máli þessu eða geti grundvallað kröfugerð á hendur stefndu. Verði reyndar ekki annað séð en að um þessi atriði hafi þegar verið dæmt í þeim dómsmálum sem stefnandi hafi höfðað á undanförnum áratug, annars vegar á hendur stefndu, sbr. Hrd 1995:1890, og hins vegar í einkarefsimálum sem stefnandi hafi höfðað þar sem bótakröfur hafi verið hafðar uppi á hendur Arnmundi Þorbjörnssyni, sbr. Hrd. 1993:932, og Vilhjálmi Árnasyni, sbr. Hrd. 1994:1823.
Kröfum stefnanda er til vara mótmælt sem allt of háum með vísan til þess sem hér að framan greinir. Krafist er stórkostlegrar lækkunar þeirra, fari svo að dómurinn hafni sýknukröfu stefndu.
Niðurstaða.
Í ráðningasamningi, sem stefnandi undirritaði þann 9. febrúar 1987 og ráðuneytið þann 19. sama mánaðar, kemur fram að stefnandi var ráðinn forstöðumaður Verndaðs vinnustaðar í Vestmannaeyjum frá 1. janúar 1987 þar til ráðningu skyldi ljúka sjálfkrafa þann 31. desember sama ár. Stefnandi var því ráðinn tímabundið til starfans. Honum var síðan sagt upp störfum, eins og hér að framan greinir, þann 13. október 1987 með þriggja mánaða uppsagnarfresti frá 1. nóvember sama ár og lauk starfstíma stefnanda samkvæmt því þann 31. janúar 1988. Ekki er um að ræða að stefnandi hafi hlotið skipun í starfið. Verður bótakrafa hans þegar af þeirri ástæðu ekki byggð á þeim réttarreglum sem eiga við um þá sem hlotið hafa skipun í starf samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 38/1954 sem þá giltu. Ákvæði 10. og 11. gr. laganna, sem stefnandi vísar til í málatilbúnaði sínum, eiga því ekki við um uppsögn stefnanda. Verður hvorki á þeim byggt varðandi skyldu stjórnar Verndaðs vinnustaðar í Vestmannaeyjum til að gefa upp ástæður fyrir uppsögninni né til að veita stefnanda kost á að tala máli sínu áður en sú ákvörðun var tekin.
Þegar stefnanda var sagt upp störfum var í gildi 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1994. Samkvæmt þeirri lagagrein má dæma þann sem hefur reynst sekur um refsiverða meingerð gegn persónu, friði eða æru annars manns eða aðra meingerð, sem telja má drýgða af illfýsi, til að greiða þeim sem misgert er við, fégjald fyrir þjáningar, hneisu, óþægindi, svo og fyrir röskun á stöðu og högum.
Eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar 1995 bls. 1891 var þeim sem félagsráðgjafi og sálfræðingur áttu viðtal við á Vernduðum vinnustað í Vestmannaeyjum heitið því að viðtölin yrðu trúnaðarmál þeirra og stjórnar vinnustaðarins. Þóttu hagsmunir þeirra eiga að ráða því að réttmætt væri að synja stefnanda um hin skráðu viðtöl. Stefnandi hefur hvorki sýnt fram á að erfiðleikar hans við að fá að kynna sér hvað um hann var sagt né óþægindi, sem hann telur sig hafa orðið fyrir við að fá rétt sinn viðurkenndan í því sambandi, verði rakin til þeirra atvika er 264. gr. almennra hegningarlaga tók á þeim tíma til.
Með vísan til þess sem fram hefur komið í málinu og hér að framan greinir verður hvorki á það fallist að stefnandi hafi verið rekinn úr starfi með skömm vegna tilbúinna ástæðna né að hann hafi ekki fengið að verja hendur sínar þannig að bótaábyrgð varði samkvæmt framangreindri lagagrein.
Þá þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að stefndu beri ábyrgð á, af þeim ástæðum sem tilgreindar eru í lagagreininni, að stefnandi fékk ekki vinnu eftir að honum var sagt upp störfum af stjórn Verndaðs vinnustaðar í Vestmannaeyjum.
Samkvæmt þessu verður að telja ósannað að uppsögn stefnanda megi rekja til atvika sem varða stefndu og 264. gr. almennra hegningarlaga tekur til. Kröfur stefnanda á hendur stefndu sem á því eru byggðar hafa því ekki lagastoð.
Samkvæmt 28. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eiga lögin ekki við um skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem varð fyrir gildistöku laganna en þau tóku gildi 1. júlí 1993. Verður ekki séð að 26. gr. laganna, sem stefnandi vísar til í málatilbúnaði sínum, geti átt við um sakarefnið.
Þar sem kröfur stefnanda í málinu skortir lagastoð ber að sýkna stefndu af þeim.
Rétt þykir með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 að stefnandi greiði stefndu málskostnað sem þykir hæfilegur 150.000 krónur.
Dóm þennan kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndu, félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, skulu vera sýknir af kröfum stefnanda, Bjarna Jónassonar, í máli þessu.
Stefnandi greiði stefndu 150.000 krónur í málskostnað.