Print

Mál nr. 625/2010

Lykilorð
  • Kærumál
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti

Föstudaginn 5. nóvember 2010.

Nr. 625/2010.

Ákæruvaldið

(enginn)

gegn

A

B

C og

D

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

Kærumál. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Kærður var úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur, þar sem vísað var frá dómi kröfu A, B, C og D um aðgang að gögnum í máli sem ákæruvaldið hafði höfðað á hendur þeim. Þar sem heimild brast til kæru úrskurðarins var málinu vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. október 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. nóvember 2010. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2010, þar sem vísað var frá dómi kröfu varnaraðila um að „settur ríkissaksóknari veiti [verjanda varnaraðila] aðgang að öllum sakargögnum sem aflað hefur verið í rannsókn málsins og varða það, en ekki hafa verið lögð fyrir dóminn ...“. Um kæruheimild vísa varnaraðilar til c. liðar 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þeir krefjast þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og þeim veittur aðgangur að öllum rannsóknargögnum málsins sem ekki hafa þegar verið lögð fram í héraðsdómi. Til vara krefjast þeir ómerkingar úrskurðarins.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Úrskurður héraðsdómara í máli þessu fellur ekki undir neina af kæruheimildum 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 og verður slík heimild heldur ekki fundin annars staðar í lögum. Brestur þannig heimild til kæru úrskurðarins og verður málinu því sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2010.

Verjandi A, B, C og D hefur í bréfi til dómsins krafist þess að úrskurðað verði að settur ríkissaksóknari veiti honum aðgang að öllum gögnum í málinu sem aflað hefur verið undir rannsókn þess og það varða en ekki hafa verið lögð fram fyrir dóminn.

Ákæruvaldið andmælir kröfu þessari.

Málavextir

Í skrifum til dómsins, dagsettum 17. og 27. september sl. og 7. október sl. hefur verjandi fjögurra fyrrnefndra ákærðu krafist þess fyrir hönd þeirra að settum ríkissaksóknara verði með úrskurði gert skylt að veita honum aðgang að þeim gögnum í málinu, sem lögregla hefur aflað við rannsókn í því og það varða, en ekki hafa verið lögð fyrir dóminn.  Verjandinn hefur verið inntur eftir því hvort hann viti um einhver gögn sem aflað hafi verið í rannsókn málsins en ekki verið lögð fram í því fyrir dómi.  Hann tekur þá fram að ákærðu hafi ekki átt þess kost að kanna hvort svo væri.  Viti hann ekki um tilvist tiltekinna gagna en getur þess að fleiri myndupptökur kunni vera til af atburðunum í þinghúsinu en þær sem lagðar hafi verið fram og að einhver vitni kunni að hafa verið þar, sem ekki er getið um í málinu.  Þá kveður hann vissan grun eða hugboð vera um það að frekari gögn séu til en þau sem lögð hafi verið fram.  Þegar á hann er gengið með þetta vísar hann til þess trúnaðar sem hann sé bundinn gagnvart skjólstæðingum sínum.

Settur ríkissaksóknari hefur lýst því yfir að hann hafi engin önnur gögn í málinu en þau sem lögð hafa verið fram í því og hafi verið spurst fyrir um það hjá lögreglu hvort þar væru frekari gögn varðandi málið.  Hafi því verið svarað til að öll sakargögn í því hefðu verið send ákæruvaldinu.

Niðurstaða

Í málinu er þess krafist að úrskurðað verði að ríkissaksóknari veiti verjanda fjögurra fyrrnefndra ákærðu aðgang að gögnum sem ekki er vitað um hver eða hvers eðlis eru.  Þá er  komið hjá verjandanum að fyrir tilvist slíkra gagna sé einungis hugboð hans eða ákærðu.  Loks liggur fyrir yfirlýsing setts ríkissaksóknara um það að hann hafi lagt fram í málinu öll þau gögn, sem hann hafði undir höndum þegar ákæra var ráðin í málinu, og að hann hafi auk þess gengið úr skugga um það með fyrirspurn til lögreglu að öll málsgögnin hefðu verið send þaðan til ákæruvaldsins. 

Telja verður kröfu verjandans, eins og hún liggur fyrir, vera svo óljósa og ómarkvissa að hún sé ekki dómtæk.  Ber því að vísa henni frá dómi.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá dómi framangreindri kröfu verjanda ákærðu A, B, C og D.