- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
|
Föstudaginn 1. mars 2013. |
Nr. 116/2013.
|
Landsbankinn hf. (Ólafur Örn Svansson hrl.) gegn þrotabúi Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf. (Tómas Jónsson hrl.) Erni Erlingssyni og Gunnari Þórarinssyni (Jónas A. Aðalsteinsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti.
L hf. lýsti kröfu við gjaldþrotaskipti E ehf. sem skiptastjóri samþykkti sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Var afstaða hans kynnt kröfuhöfum á skiptafundi og sætti hún ekki andmælum. Í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 155/2011 tilkynnti skiptastjóri L hf. að hann væri horfinn frá fyrri afstöðu sinni til kröfunnar þar sem lánssamningur sá er krafa L hf. byggði á hefði að geyma lán í íslenskum krónum gengistryggt með ólögmætum hætti. Í málinu krafðist L hf. þess að skiptastjóri væri bundinn af fyrri afstöðu sinni um samþykki kröfunnar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt 3. mgr. 120. gr. áðurnefndra laga væri mælt svo fyrir að kæmu ekki fram mótmæli samkvæmt 1. mgr. sömu greinar gegn afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar á kröfu teldist afstaðan endanlega samþykkt. Frá þessu fortakslausa ákvæði væru engar undantekningar gerðar í lögum og ekki hefðu verið leidd viðhlítandi rök að því að heimild gæti staðið til að endurupptaka mál um viðurkenningu kröfu L hf. af þeim ástæðum sem um ræddi í þessu máli, ef dómur hefði gengið um það efni. Var því talið að krafa L hf. hefði endanlega verið samþykkt á skiptafundinum og að þrotabúið væri bundið af þeirri ákvörðun skiptastjóra.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. febrúar 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2013, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að skiptastjóri varnaraðilans þrotabús Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf. teldist bundinn „af ákvörðun sinni frá 29. júní 2010, að viðurkenna kröfu sóknaraðila nr. 6 á kröfuskrá sem almenna kröfu í þrotabúið á grundvelli 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., að fjárhæð kr. 21.339.723.“ Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili krefst þess að viðurkennt verði að skiptastjórinn sé bundinn af fyrrnefndri ákvörðun. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn þrotabú Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf. krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilarnir Örn Erlingsson og Gunnar Þórarinsson krefjast þess að málskostnaðarákvæði hins kærða úrskurðar verði staðfest og sóknaraðila gert að greiða þeim kærumálskostnað.
Bú Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 28. maí 2008. Kröfulýsingarfresti lauk 18. ágúst 2008, en sóknaraðili hafði 28. júlí sama ár lýst kröfu í búið að fjárhæð 21.339.723 krónur, sem skipað yrði í réttindaröð sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Skiptafundur var haldinn 29. júní 2010 og kemur fram í endurriti úr gerðabók skiptastjóra að boðað hafi verið til hans með auglýsingu í Lögbirtingablaði 7. sama mánaðar til að jafna ágreining um lýstar kröfur. Á fundinum samþykkti skiptastjóri fyrrgreinda kröfu sóknaraðila og var bókað í gerðabók að ekki væru gerðar athugasemdir við þá afstöðu skiptastjóra. Með tölvubréfi 14. júní 2011 tilkynnti skiptastjóri sóknaraðila að hann væri horfinn frá þessari afstöðu til kröfunnar í ljósi dóms Hæstaréttar 9. sama mánaðar í máli nr. 155/2011. Við það felldi sóknaraðili sig ekki og var ágreiningur um þetta lagður fyrir héraðsdóm með bréfi skiptastjóra 30. nóvember sama ár.
Í 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 er mælt svo fyrir að komi ekki fram mótmæli samkvæmt 1. mgr. sömu lagagreinar gegn afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar á kröfu teljist afstaðan endanlega samþykkt. Frá þessu fortakslausa ákvæði eru engar undantekningar gerðar í lögunum og hafa ekki verið leidd viðhlítandi rök að því að heimild gæti staðið til að endurupptaka mál um viðurkenningu kröfu sóknaraðila af þeim ástæðum, sem um ræðir í máli þessu, ef dómur hefði gengið um það efni. Samkvæmt því var krafa sóknaraðila endanlega samþykkt á skiptafundinum 29. júní 2010. Verður krafa hans í máli þessu því tekin til greina á þann hátt sem í dómsorði segir.
Eftir þessum málsúrslitum verður varnaraðilanum þrotabúi Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf. gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir, en rétt er að málskostnaður falli niður að öðru leyti.
Dómsorð:
Varnaraðili, þrotabú Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf., er bundið af þeirri ákvörðun skiptastjóra 29. júní 2010 að viðurkenna kröfu sóknaraðila, Landsbankans hf., að fjárhæð 21.339.723 krónur sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Varnaraðili, þrotabú Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf., greiði sóknaraðila samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað, en að öðru leyti fellur málskostnaður niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2013.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 15. janúar sl., barst dóminum með bréfi skiptastjóra þrotabús Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf., mótteknu 30. nóvember 2011.
Endanlegar dómkröfur sóknaraðila, Landsbankans hf., eru að viðurkennt verði með dómi að skiptastjóri Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf. (áður Hydra ehf.), sé bundinn af ákvörðun sinni frá 29. júní 2010, að viðurkenna kröfu sóknaraðila nr. 6 á kröfuskrá sem almenna kröfu í þrotabúið á grunvelli 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., að fjárhæð kr. 21.339.723.
Þá gerir sóknaraðili kröfu um að varnaraðilum verði gert að greiða honum málskostnað að viðbættum 25,5% vsk.
Dómkröfur varnaraðila, þb. Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf., eru aðallega þær að staðfest verði sú afstaða varnaraðila að hafna öllum kröfum sóknaraðila.
Varnaraðili krefst þess til vara að kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðila verði lækkaðar.
Þá er þess krafist að sóknaraðili verði dæmdur til þess að greiða varnaraðila málskostnað.
Ekki eru gerðar kröfur á hendur varnaraðilunum Erni Erlingssyni Gunnari Þórarinssyni.
Varnaraðilarnir Örn og Gunnar gera kröfu um málskostnað.
I
Þann 28. maí 2008 var bú varnaraðila tekið til gjaldþrotaskipta. Frestdagur við skiptin er 14. s.m. en kröfulýsingarfresti lauk þann 18. ágúst 2008.
Með kröfulýsingu sóknaraðila í þrotabúið, dags. 28. júlí 2008, var lýst kröfu að fjárhæð 21.333.498 kr., auk ritunar kröfulýsingar 6.225 kr., eða alls samtals 21.339.723 kr. Var kröfunni lýst sem almennri kröfu, sbr. 113. gr. l. nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Krafan er til komin vegna lánasamnings nr. 0142-36-003372, dags. 27. júlí 2005, sem ber yfirskriftina „ISK 80.000.000,- LÁNSSAMNINGUR“ og í texta hans segir að hann sé um fjölmyntalán til 5 ára að jafnvirði 80.000.000 kr., í GBP 100 prósent, með vöxtum jafnháum LIBOR vöxtum á hverjum tíma auk 2,25% vaxtaálags.
Sóknaraðili kveður varnaraðila hafa óskað eftir láni í breskum pundum þar sem varnaraðili hafi verið rekinn frá Skotlandi og einkum haft tekjur í GBP.
Lánið skyldi greiðast með 20 afborgunum á þriggja mánaða fresti. Fyrsti gjalddagi afborgana og vaxta var 10. september 2005. Samkvæmt gr. 1.2. gat varnaraðili lagt fram beiðni um að lánsfjárhæðin yrði lögð inn á tiltekinn reikning.
Til tryggingar skilvísri greiðslu gengust þeir aðilar, sem tilgreindir eru í gr. 10.1, í sjálfsskuldarábyrgð (pro rata) fyrir þeirri fjárhæð sem þar greinir en ábyrgðarfjárhæðin er tilgreind í GBP.
Sóknaraðili kveður varnaraðila hafa með beiðni til bankans, dags. 27. júní 2005, óskað eftir útborgun lánsins í samræmi við gr. 1.2. Lánið hafi verið greitt út þann 4. ágúst 2005. Þar sem lántakandi hafi óskað eftir því við bankann að lánsfjárhæðin yrði greidd inn á reikning nr. 0142-05-002028 hafi gjaldeyrir verið seldur fyrir félagið og keyptar krónur, sbr. kaupnótu dagsett þann sama dag. Í kaupnótunni segi:
Gjaldeyrisviðskipti Upphæð Myndtengi Samtals
Þú Seldir GBP 697.585,84 113,4900 ISK 79.200.000
Viðauki var gerður við lánasamninginn 1. nóvember 2006. Þar segi að eftirstöðvar lánsins þann 11. september 2006 hafi verið:
ISK 12.695.404
GBP 528.680,94
Í viðaukanum kemur fram að grein 2.1 skuli framvegis vera svohljóðandi: „Þann 25.03.2007 skal lántaki greiða bankanum 12.695.404 IKR og 89,184 GBP, sem skal ráðstafa til greiðslu áfallinna vaxta og lækkunar höfuðstóls. Þegar framangreind greiðsla hefur átt sér stað myndast nýr höfuðstóll lánsins í breskum sterlingspundum sem ber að endurgreiða að fullu með 13 jöfnum afborgunum á þriggja mánaða fresti, fyrst þann 25. júní 2007.“
Þá var nýr viðauki gerður við samninginn 22. nóvember 2007. Þar kemur fram að eftirstöðvar lánsins þann 25. október 2007 hafi verið eftirfarandi:
Eftirstöðvar lánsins GBP 551.934,87
Gjaldfallnar afborganir ISK 11.722.422
Samkvæmt viðaukanum skyldi bankinn endurfjármagna lánið í GBP gegn greiðslu 21.189,64 GBP og 1.019.701 IKR en umsaminn lánstími var 3 ár með 10 jöfnum afborgunum á þriggja mánaða fresti.
Sóknaraðili lýsti hinni umþrættu kröfu í þrotabúið með kröfulýsingu dagsettri 28. júlí 2008. Á fylgiskjali með kröfulýsingunni, „Staða láns“ frá 8. september 2008, má sjá að kröfufjárhæðin er miðuð við að gengi GBP sé 157,02 kr. Ekki verður hins vegar ráðið hvort eða hvenær það myntgengi var í gildi. Skráð sölugengi GBP á úrskurðardegi skipta 28. maí 2008 var 145,26 kr.
Við kröfulýsinguna var krafan færð úr GBP í ISK í samræmi við heimild í gr. 11.2. í lánasamningnum og 3. mgr. 99. gr. gþl. Sóknaraðili sendi leiðréttingu á kröfunni þann 15. september s.á. þar sem kröfunni var lýst að fjárhæð 21.333.498 kr.
Kröfunni var lýst sem almennri kröfu í búið, sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991. Afstaða skiptastjóra var sú að samþykkja kröfuna, eins og henni var breytt þann 15. september 2008, þó með fyrirvara um endanlega fjárhæð kröfunnar vegna greiðslna ábyrgðarmanna. Þessi afstaða var kynnt kröfuhöfum á skiptafundi þann 29. júní 2010 og sætti ekki andmælum.
Þann 9. júní 2011 var í Hæstarétti kveðinn upp dómur í máli nr. 155/2011, Landsbankinn hf. gegn þrotabúi Motormax hf. Í málinu komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að lánasamningur sá er málið snerist um væri um skuldbindingu í íslenskum krónum og hefði því að geyma ólögmæta gengisbindingu. Skiptastjóri komst að þeirri niðurstöðu að dómurinn hefði fordæmisgildi að því er varðar kröfu sóknaraðila. Forsendur fyrir þeirri afstöðu skiptastjóra að samþykkja kröfuna, með fyrirvara um endanlega fjárhæð vegna greiðslna ábyrgðarmanna, breyttust því. Telur skiptastjóri ekki útilokað í ljósi niðurstöðu réttarins að krafan sé uppgerð en í öllu falli sé fjárhæð kröfunnar ekki hin sama.
Með bréfi skiptastjóra, dags. 23. júní 2011, var sóknaraðili upplýstur um að skiptastjóri hefði breytt fyrri afstöðu sinni til kröfunnar í ljósi niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 155/2011.
Í kjölfarið reyndi skiptastjóri að jafna ágreininginn en án árangurs. Í tölvupósti þann 7. október sl. lýsti lögmaður sóknaraðila þeirri skoðun sinni að hann teldi lánasamninginn snúast um skuldbindingu í erlendri mynt; sóknaraðili héldi sig því við kröfufjárhæðina.
Þann 3. nóvember 2011 sendi skiptastjóri öllum kröfuhöfum varnaraðila erindi ásamt uppfærðri skrá um lýstar kröfur og frumvarp til úthlutunar að hluta úr þrotabúinu.
Var kröfuhöfum tilkynnt um ágreining um afstöðu skiptastjóra til kröfu sóknaraðila og boðað að ágreiningsmál yrði sent Héraðsdómi Reykjavíkur. Á skiptafundi 25. nóvember 2011 var frumvarpið samþykkt sem úthlutunargerð úr búinu. Jafnframt var bókað um ágreiningsmálið. Engar athugasemdir komu fram við þessa aðferð skiptastjóra á fundinum. Þann 30. nóvember 2011 var ágreiningsmál þetta sent héraðsdómi.
Ábyrgðarmenn að kröfunni, þeir Örn Erlingsson og Gunnar Þórarinsson, lýstu skilyrtum kröfum í þrotabúið vegna ætlaðrar ábyrgðar sinnar á kröfu bankans.
II
Með kröfulýsingu sóknaraðila í þrotabúið, dags. 28. júlí 2008, var lýst kröfu að fjárhæð 21.333.498 kr., auk ritunar kröfulýsingar 6.225 kr., eða alls samtals 21.339.723 kr. Var kröfunni lýst sem almennri kröfu, sbr. 113. gr. l. nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þann 29. júní viðurkenndi skiptastjóri varnaraðila kröfuna sem almenna kröfu í þrotabúið á grundvelli 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Á því er byggt af hálfu sóknaraðila að varnaraðili sé bundinn af afstöðu sinni til hinnar lýstu kröfu. Nánar segi í 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991; ,,Að því leyti sem mótmæli koma ekki fram skv. 1. mgr. gegn afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar kröfu telst afstaðan endanlega samþykkt við skiptin.“
Fyrir liggi að skiptastjóri samþykkti kröfuna og að engar athugasemdir komu fram um þá afstöðu. Það sé fyrst ári eftir skiptafundinn þann 29. júní 2010, sem skiptastjóri upplýsir að hann hafi breytt afstöðu sinni og muni vísa málinu til héraðsdóms. Hin breytta afstaða til kröfunnar fái ekki stoð í lögum enda réttaráhrif samþykkis kröfunnar þau að skiptastjóri sé bundinn af afstöðu sinni. Með sama hætti séu kröfuhafar bundnir af afstöðu skiptastjóra enda ekki höfð uppi andmæli við henni.
Sóknaraðili byggir kröfu sína á lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, einkum 120. gr. laganna. Kröfu um málskostnað styður hann við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
III
Varnaraðili byggir á að „Staða láns“ frá 8. september 2008, sýni að kröfufjárhæðin sé miðuð við að gengi GBP sé 157,02 kr. Ekki verði hins vegar ráðið hvort eða hvenær það myntgengi hafi verið í gildi. Skráð sölugengi GBP á úrskurðardegi skipta 28. maí 2008 hafi verið 145,26 kr. Hafi krafa sóknaraðila verið í erlendum gjaldmiðli hafi borið að miða við það gengi, sbr. 3. mgr. 99. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili hafi hins vegar lýst kröfunni í íslenskum krónum án þess að geta um eftirstöðvar í GBP eða tilgreina myntgengi í kröfulýsingu. Bendi það eindregið til þess að sóknaraðili telji að um sé að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum.
Í dómi Hæstaréttar uppkveðnum þann 9. júní 2011, í máli nr. 155/2011, Landsbankinn hf. gegn þrotabúi Motormax hf., hafi verið til umfjöllunar lánssamningur nær samhljóða þeim lánssamningi sem krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila byggist á. Hæstiréttur hafði áður dæmt gengistryggingu á grundvelli núgildandi vaxtalaga nr. 38/2001 ólögmæta en þeir dómar vörðuðu samninga um bifreiða- og fasteignalán. Í máli nr. 155/2011 hafi aftur á móti verið tekist á um lánssamning til fjármögnunar á rekstri. Algengt sé að fyrirtæki geri slíka samninga við banka og séu þeir jafnan með ítarlegri skilmálum heldur en lán til bifreiða- eða fasteignakaupa. Í málinu hafi verið um að ræða fjölmyntalán sem sóknaraðili hafi veitt Motormax ehf. til 5 ára að jafnvirði 150.000.000 króna í nánar tilgreindum myntum og hlutföllum. Í dómi Hæstaréttar komi fram að eina tilgreiningin í samningnum á fjárhæð lánsins væri í íslenskum krónum, en hvergi væri getið um fjárhæð skuldarinnar í hinum erlendu gjaldmiðlum, heldur aðeins hlutföll þeirra og viðmiðun við virði íslensku krónunnar á tilteknum degi fyrir útborgun lánsins. Fjárhæð lánsins væri þannig í grunninn tiltekin í íslenskum krónum. Bankinn hafi ekki gefið viðhlítandi skýringar á því hvers vegna fjárhæð lánsins hafi á þennan hátt verið miðuð við íslenskar krónur ef um lán í erlendum gjaldmiðlum hefði verið að ræða. Þá hafi rétturinn horft til þess að báðir samningsaðilar skyldu efna meginskyldur sínar samkvæmt lánssamningnum með greiðslum í íslenskum krónum og hefðu gert það í raun. Enn fremur hafi verið litið til þess að Hæstiréttur hefði áður tekið afstöðu til þess að lánssamningar, sem hefðu að geyma sömu skilmála og fram kæmu í lánssamningnum í málinu, hefðu verið um skuldbindingar í íslenskum krónum. Hafi Hæstiréttur því litið svo á að um væri um að ræða lán sem ákveðið væri í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla.
Varnaraðili hafnar því að sú afstaða skiptastjóra að samþykkja kröfu sóknaraðila, með fyrirvara um endanlega fjárhæð vegna greiðslna ábyrgðarmanna, sem var kynnt á skiptafundi 29. júní 2010, girði fyrir að kröfunni verði hafnað síðar.
Í kjölfar umrædds dóms Hæstaréttar 9. júní 2011 hafi brostið grundvöllur fyrir fjárhæð kröfu sóknaraðila. Óhjákvæmilegt hafi því verið að taka aðra afstöðu til kröfunnar.
Ákvæði 3. mgr. 120. gr. gþl. verði ekki túlkað svo að það hafi þau réttaráhrif að breyting á afstöðu skiptastjóra sé útilokuð. Ákvæðinu sé fyrst og fremst ætlað að tryggja skjóta meðferð krafna á hendur þrotabúi þannig að kröfuhafar geti ekki valdið uppnámi með síðbúnum mótmælum.
Íslensk réttarfarslöggjöf geri ráð fyrir að endurupptaka megi mál, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, þrátt fyrir að þau hafi verið munnlega flutt eða í þeim hafi verið dæmt, sbr. 104., 167. og 168. gr. laga nr. 21/1991 um meðferð einkamála, sbr. XXXII. og XXXIII. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sjónarmið um að öðru máli gegni um afstöðu skiptastjóra sem ekki hefur verið mótmælt - að hún sé endanleg og bindandi - sé í ósamræmi við þá framkvæmd. Ákvæði 3. mgr. 120. verði ekki túlkað sem einangruð eind heldur verði að túlka ákvæðið í samræmi við ákvæði framangreindra réttarfarslaga. Þess vegna verði að ætla skiptastjóra ákveðið svigrúm til að breyta áðurtekinni afstöðu bresti afstöðuna lagagrundvöll eða forsendur breytist í verulegum atriðum.
Þann 16. júní 2010, í hæstaréttarmálum nr. 92/2010 og 153/2010, hafi fallið fyrstu dómar réttarins um ólögmæti gengistryggingar á grundvelli núgildandi laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Með dómunum hafi verið skorið úr um það að gengistrygging sé ólögmæt að því er varðar þær skuldbindingar sem falla undir VI. kafla núgildandi vaxtalaga. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 155/2011, Landsbankinn gegn Motormax hf., uppkveðnum 9. júní 2011, hafi verið til skoðunar lánssamningur því sem næst samhljóða þeim lánssamningi sem krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila byggist á. Hæstiréttur hafði áður dæmt gengistryggingu á grundvelli núgildandi vaxtalaga nr. 38/2001 ólögmæta en þeir dómar vörðuðu samninga um bifreiða- og fasteignalán. Í máli nr. 155/2011 var aftur á móti tekist á um lánssamning til fjármögnunar á rekstri. Algengt er að fyrirtæki geri slíka samninga við banka og eru þeir jafnan með ítarlegri skilmálum en lán til bifreiða- eða fasteignakaupa. Í málinu var um að ræða fjölmyntalán sem Landsbankinn veitti Motormax ehf. til 5 ára að jafnvirði 150.000.000 króna í nánar tilgreindum myntum og hlutföllum. Í dómi Hæstaréttar komi fram að eina tilgreiningin í samningnum á fjárhæð lánsins sé í íslenskum krónum, en hvergi væri getið um fjárhæð skuldarinnar í hinum erlendu gjaldmiðlum, heldur aðeins hlutföll þeirra og viðmiðun við virði íslensku krónunnar á tilteknum degi fyrir útborgun lánsins. Fjárhæð lánsins sé þannig í grunninn tiltekin í íslenskum krónum. Bankinn hefði ekki gefið viðhlítandi skýringar á því hvers vegna fjárhæð lánsins hefði á þennan hátt verið miðuð við íslenskar krónur ef um lán í erlendum gjaldmiðlum hefði verið að ræða. Þá horfði rétturinn til þess að báðir samningsaðilar skyldu efna meginskyldur sínar samkvæmt lánssamningnum með greiðslum í íslenskum krónum og hefðu gert það í raun. Enn fremur var litið til þess að Hæstiréttur hefði áður tekið afstöðu til þess að lánssamningar, sem hefðu að geyma sömu skilmála og fram kæmu í lánssamningnum í málinu, hefðu verið um skuldbindingar í íslenskum krónum. Leit Hæstiréttur því svo á að um væri um að ræða lán sem ákveðið væri í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla.
Krafa varnaraðila byggist á því að lán sóknaraðila til handa varnaraðila, að fjárhæð 80.000.000 kr. samkvæmt lánssamningi nr. 3375 undirrituðum 27. nóvember 2011 hafi verið í íslenskum krónum með gengistryggingu í GBP. Varnaraðili byggir á því að dómur Hæstaréttar í máli nr. 155/2011 hafi ótvírætt fordæmisgildi í þessu máli.
Þýðingarmestu atriði lánssamningsins, sem leiði í ljós að um skuldbindingu um lán í íslenskum krónum sé að ræða, séu eftirfarandi helst:
- Á forsíðu lánasamningsins komi skýrt fram að lánið sé í íslenskum krónum. Hvergi sé minnst á erlenda gjaldmiðla. Hefði það verið ætlun sóknaraðila að veita lán í erlendum gjaldmiðlum hefði hann átt að taka það fram á forsíðu samningsins.
- Í upphafi lánssamningsins segir að um sé að ræða „fjölmyntalán til 5 ára að jafnvirði kr. 80.000.000,- Krónur áttatíumilljónir 00/100 ...“. Þannig er lánsfjárhæðin í íslenskum krónum bæði tilgreind í tölustöfum og bókstöfum. Hvorki þar né annars staðar í lánssamningnum sé á hinn bóginn að finna ákvæði um hversu há lánsfjárhæðin sé í erlendri mynt. Það sé að mati varnaraðila grundvöllur þess að lánið teljist í erlendum gjaldmiðlum. Sé þess aðeins getið að lánið sé í „hlutföllum: GBP 100%“. Þá segi enn fremur að fjárhæð hvers gjaldmiðils ákvarðist ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgunardag lánsins. Skuldin verði þá eftirleiðis tilgreind með fjárhæð þeirra erlendu mynta eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum. Tilgangur þessa ákvæðis sé að binda skuldbindinguna, sem sé í íslenskum krónum, við gengi gjaldmiðlanna á þeim tiltekna degi. Í framangreindum atriðum felist staðfesting á því að lánið sé veitt í íslenskum krónum en ekki erlendum gjaldmiðlum.
- Lánið hafi verið greitt út í íslenskum krónum inn á reikning hins gjaldþrota félags nr. 0142-05-2028 í íslenskum krónum í bankanum. Sé augljóst af þeirri staðreynd að lánið hafi verið veitt í íslenskum krónum en ekki erlendum gjaldmiðlum.
- Í 2. gr. lánssamningsins er fjallað um lánsfjárhæð, endurgreiðslu og uppgreiðslu. Þar segir í 2. gr. að reikningur hins gjaldþrota félags, nr. 0142-26-787, verði skuldfærður fyrir afborgunum og/- eða vöxtum. Um hafi verið að ræða íslenskan tékkareikning en ekki gjaldeyrisreikning. Hafi endurgreiðsla lánsins því farið fram með greiðslu í íslenskum krónum en ekki erlendum gjaldmiðlum. Sé það eindregin viðurkenning af hálfu sóknaraðila að um íslenskt lán hafi verið að tefla. Í 2. gr. samningsins sé hvergi vikið að því að lánið sé í erlendum gjaldmiðlum.
- Í gr. 4.1. í lánssamningnum sé kveðið á um myntbreytingarheimild. Þar segi að „sé skuldin í skilum geti lántaki óskað eftir því við bankann á vaxtagjalddaga að myntsamsetningu lánsins verði breytt, þannig að eftirstöðvar skuldarinnar miðist að öllu leyti eða að hluta við aðrar erlendar myntir eða mynteiningar, eina eða fleiri, og í öðrum hlutföllum en upphaflega var um samið“. Tilgangur þessa ákvæðis sé bersýnilega að gengistryggja lán í íslenskum krónum. Tekið sé fram að eftirstöðvar skuldarinnar „miðist“ við aðrar erlendar myntir eftir myntbreytingu. Óskiljanlegt sé hvers vegna þörf sé á að skuld samkvæmt lánssamningi miðist við aðra gjaldmiðla ef lánið hefur verið veitt í þeim gjaldmiðlum í raun. Hafi lánið verið í erlendum gjaldmiðlum hefði heimildarákvæði um myntbreytingu ekki kveðið á um breytingu á viðmiðum heldur sölu þess gjaldmiðils sem var lánaður og kaup annars. Í greininni sé jafnframt útfært með hvaða hætti skuli staðið að málum komi til myntbreytingar. Þar segi m.a.: „Við myntbreytingu skal við umreikning nota sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt er að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis skal miða við, samkvæmt gengisskráningu Landsbanka Íslands hf., á íslensku krónunni ...“ Staðfestir þetta orðalag að höfuðstóll lánsins sé ávallt hugsaður í íslenskum krónum og lánið því gengistryggt.
Ofangreind atriði lánssamningsins varpi hvert og eitt, og til samans, skýru ljósi á þá staðreynd að skuldbinding hins gjaldþrota félags var í íslenskum krónum en ekki erlendum gjaldmiðlum. Þar sem lán sóknaraðila til handa hinu gjaldþrota félagi hafi verið gengistryggt sé ljóst að ógreiddar eftirstöðvar lánsins séu engar eða mun lægri.
Verði ekki fallist á framangreint sé til vara á því byggt að krafan nemi lægri fjárhæð en þeirri sem sóknaraðili geri kröfu um. Sóknaraðili hafi ekki lagt fram upplýsingar um frekari greiðslur ábyrgðarmanna inn á kröfuna.
Burtséð frá greiðslum ábyrgðarmanna nemi krafa sóknaraðila í öllu falli ekki meira en 19.735.726 kr. Á úrskurðardegi 28. maí 2008 hafi skráð sölugengi GBP verið 145,26 en ekki 157,02 GBP eins og sóknaraðili miði við. Krafan sé því a.m.k. lægri sem þessum gengismun nemi.
Um lagarök vísar varnaraðili til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 13. og 14. gr. laganna, sem og almennra reglna kröfuréttarins.
Krafa varnaraðila um málskostnað byggist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr. þeirra.
IV
Með kröfulýsingu sóknaraðila í þrotabúið, dags. 28. júlí 2008, var lýst kröfu að fjárhæð samtals 21.333.498 kr. Var kröfunni lýst sem almennri kröfu, sbr. 113. gr. l. nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Afstaða skiptastjóra var sú að samþykkja kröfuna, eins og henni var breytt þann 15. september 2008, þó með fyrirvara um endanlega fjárhæð hennar vegna greiðslna ábyrgðarmanna. Þessi afstaða var kynnt kröfuhöfum á skiptafundi þann 29. júní 2010 og sætti ekki andmælum.
Í kjölfar dóms Hæstaréttar í málinu nr. 155/2011, Landsbankinn hf. gegn Motormax, sem upp var kveðinn 9. júní 2011, breytti skiptastjóri afstöðu sinni til kröfunnar.
Ágreiningsefni máls þessa er það hvort skiptastjóri sé bundinn af fyrrgreindri afstöðu sinni til kröfunnar, þ.e. afstöðunni sem kynnt var á skiptafundinum 29. júní 2010.
Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili sé bundinn af afstöðunni og vísar til þess að í 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 segi ,,Að því leyti sem mótmæli koma ekki fram skv. 1. mgr. gegn afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar kröfu telst afstaðan endanlega samþykkt við skiptin.“ Hin breytta afstaða til kröfunnar fái því ekki stoð í lögum enda réttaráhrif samþykkis kröfunnar þau að skiptastjóri sé bundinn af afstöðu sinni.
Varnaraðili byggir hins vegar á því að dómur Hæstaréttar í málinu nr. 155/2011, hafi fordæmisgildi í málinu og að honum föllnum hafi brostið grundvöllur fyrir fjárhæð kröfu sóknaraðila og ekki sé útilokað í ljósi niðurstöðu réttarins að krafan sé uppgerð en í öllu falli sé afstaða til kröfunnar ekki hin sama. Því hafi verið óhjákvæmilegt að taka aðra afstöðu til kröfunnar.
Með bréfi dagsettu 3. nóvember 2011 sendi skiptastjóri hlutaðeigendum uppfærða skrá um lýstar kröfur í þrotabú varnaraðila. Í bréfinu er tekið fram að skiptastjóri telji að lánasamningur hins gjaldþrota félags og bankans hafi að geyma ólögmæta gengisbindingu og því verði að endurreikna kröfufjárhæðina skv. ákvæðum 18. gr. laga 38/2001. Í frumvarpi því til úthlutunar sem fylgdi bréfinu kemur fram að 6.373.959 kr. sé haldið eftir vegna hinnar umþrættu kröfu.
Í tilvituðum dómi komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að um væri að ræða lán í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla. Slík gengistrygging væri ólögmæt þar sem hún stríddi gegn ófrávíkjanlegum ákvæðum 13. gr. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001.
Krafa sóknaraðila í máli þessu byggist á lánasamningi sem kveður á um lán í íslenskum krónum. Í upphafi lánssamningsins segir að um sé að ræða „fjölmyntalán til 5 ára að jafnvirði kr. 80.000.000,- Krónur áttatíumilljónir 00/100 ...“ Hvergi í lánssamningnum er að finna ákvæði um hversu há lánsfjárhæðin sé í erlendri mynt. Hins vegar er tekið fram að lánið sé í „hlutföllum: GBP 100%“. Þá segir enn fremur að fjárhæð hvers gjaldmiðils ákvarðist ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgunardag lánsins. Skuldin verði þá eftirleiðis tilgreind með fjárhæð þeirra erlendu mynta eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum.
Þá var lánið greitt út í íslenskum krónum inn á reikning hins gjaldþrota félags nr. 0142-05-2028.
Í 2. gr. lánssamningsins er fjallað um lánsfjárhæð, endurgreiðslu og uppgreiðslu. Þar segir í 2. gr. að reikningur hins gjaldþrota félags, nr. 0142-26-787, verði skuldfærður fyrir afborgunum og eða vöxtum. Reikningurinn sé íslenskur tékkareikningur en ekki gjaldeyrisreikningur.
Í gr. 4.1 í lánssamningnum er kveðið á um myntbreytingarheimild. Þar segir að „sé skuldin í skilum geti lántaki óskað eftir því við bankann á vaxtagjalddaga að myntsamsetningu lánsins verði breytt, þannig að eftirstöðvar skuldarinnar miðist að öllu leyti eða að hluta við aðrar erlendar myntir eða mynteiningar, eina eða fleiri, og í öðrum hlutföllum en upphaflega var um samið. Í greininni er jafnframt útfært með hvaða hætti skuli staðið að málum komi til myntbreytingar. Þar segir m.a.: „Við myntbreytingu skal við umreikning nota sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt er að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis skal miða við, samkvæmt gengisskráningu Landsbanka Íslands hf., á íslensku krónunni ...“
Með hliðsjón af framanröktu er það niðurstaða dómsins að slík líkindi séu með lánasamningunum í máli þessu og í hinum tilvitnaða dómi að við það verði að miða að niðurstaða Hæstaréttar í málinu nr. 155/2010 kunni að hafa fordæmisgildi varðandi það að lánið sé íslenskt með ólögmætri gengistryggingu.
Skiptastjóri telur, og á því er byggt af hálfu varnaraðila, að í ljósi fordæmisgildis dómsins sé krafa sú er mál þetta varðar uppgerð eða í öllu falli ekki hin sama og samþykkt var og því hafi forsendur skiptastjóra fyrir afstöðu sinni til kröfunnar brostið.
Er það mat dómsins að við slíkar aðstæður geti skiptastjóri þrátt fyrir það ákvæði 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 að krafa teljist endanlega samþykkt við skiptin að því leyti sem ekki komi fram mótmæli skv. 1. gr., breytt fyrir skiptalok afstöðu sinni til kröfu enda ekki um að ræða afstöðu sem jafna megi til dómsúrlausnar. Önnur niðurstaða væri ótæk
Varnaraðilar, Örn Erlingsson og Gunnar Þórarinsson lýstu skilyrum kröfum í þrotabúið vegna ætlaðrar ábyrðgar sinnar á kröfu sóknaraðila. Ágreingur um kröfufjárhæðina snertir því þeirra ábyrgðarkröfur. Hafa þeir því hagsmuni af úrlausn málsins. Skilyrði meðalgöngu þeirra í málinu eru því uppfyllt, sbr.2. mgr. 21. gr. eml.
Eftir niðurstöðu málsins þykir rétt að málsaðilar beri sinn kostnað af málinu.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Hafnað er þeirri dómkröfu sóknaraðila, Landsbankans hf., að skiptastjóri Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf. (áður Hydra ehf.), sé bundinn af ákvörðun sinni frá 29. júní 2010, að viðurkenna kröfu sóknaraðila nr. 6 á kröfuskrá sem almenna kröfu í þrotabúið á grunvelli 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., að fjárhæð kr. 21.339.723.
Málskostnaður fellur niður.