- Skaðabætur
- Börn
- Viðurkenningarkrafa
- Málsástæða
A krafðist þess að viðurkennd yrði skaðabótaskylda Í vegna örorku og miska sem hún varð fyrir þegar hún var vistuð á meðferðarheimilinu Byrginu á árunum 2003 til 2005. Með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 334/2008 var forstöðumaður heimilisins sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn A og gert að greiða henni skaðabætur en A var 17 ára þegar brotin áttu sér stað. Í dómi Hæstaréttar kom fram að móðir A hefði komið henni til dvalar í Byrginu að höfðu samráði við hana sjálfa og hefði Barnaverndarstofa hvorki haft þar milligöngu né starfsmönnum hennar verið kunnugt um dvöl A þar. Yrði skaðabótaskylda Í því ekki reist á því að Barnaverndarstofa hefði samþykkt ráðstöfunina eða með einhverju móti brugðist eftirlitsskyldu sinni. Hefði Byrgið ekki haft heimild Barnaverndarstofu til að taka við börnum og henni því ekki borið að hafa eftirlit með starfseminni. Þá hefði landlæknir ekki heldur haft eftirlitsskyldu með heimilinu og yrði skaðabótaskylda Í því ekki reist á því að hann hefði ekki sinnt eftirliti með starfseminni. Loks var ekki fallist á það með A að Í bæri bótaábyrgð eftir reglu skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð, enda hefði hvorki Byrgið verið rekið af Í né forstöðumaður þess verið ríkisstarfsmaður. Var Í því sýknað af kröfu A.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. júní 2015. Hún krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna örorku og miska sem hún varð fyrir þegar hún var vistuð á meðferðarheimilinu Byrginu á árunum 2003 til 2005. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi átti áfrýjandi erfiða æsku meðal annars vegna andlegra veikinda og vímuefnaneyslu. Af þeim ástæðum var hún vistuð á meðferðarheimilum Barnaverndarstofu á tímabilinu 15. ágúst 2001 til 31. mars 2003. Einnig mun hún hafa dvalið um skamman tíma sumarið 2003 í neyðarvistun á vegum Barnaverndarstofu. Á þessu tímabili var áfrýjandi á aldrinum 14 til 16 ára.
Móðir áfrýjanda fór ein með forsjá hennar. Leitaði hún í gegnum tíðina ýmissa úrræða fyrir dóttur sína. Í því skyni ritaði hún bréf til landlæknis 11. ágúst 2003 og mætti með áfrýjanda á bráðamóttöku geðdeildar 17. september sama ár. Þá mun hún um þetta leyti hafa ritað grein í dagblað þar sem hún kvartaði yfir því að engin úrræði væru í boði fyrir dóttur sína. Í kjölfarið mun ónafngreind kona hafa haft samband við hana og bent henni á að leita til Byrgisins líknarfélags ses. um aðstoð fyrir áfrýjanda, en á þessum tíma rak Byrgið meðferðarheimili að Efri-Brú í Grímsnesi. Að höfðu samráði við áfrýjanda fór móðir hennar með hana til dvalar í Byrginu 1. október 2003 en þar mun hún hafa verið langdvölum, með hléum þó, allt fram á haustið 2006.
Með dómi Hæstaréttar 4. desember 2008 í máli nr. 334/2008 var forstöðumaður Byrgisins sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn þremur vistmönnum meðferðarheimilisins, þar á meðal áfrýjanda. Var sakfellingin miðuð við að brotin gegn henni hefðu verið framin á tímabilinu frá sumri 2004 til febrúar 2005 þegar hún var 17. Auk refsingar var forstöðumanninum gert að greiða brotaþolum skaðabætur en þær námu 800.000 krónum til áfrýjanda.
II
Áfrýjandi hefur höfðað mál þetta til viðurkenningar á því að stefndi beri skaðabótaskyldu á tjóni vegna þeirra kynferðisbrota sem hún sætti af hálfu forstöðumanns Byrgisins. Þessum málatilbúnaði er nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi. Fallist er á það með héraðsdómi að nægar líkur hafi verið leiddar að því að áfrýjandi hafi orðið fyrir tjóni af þessum sökum þannig að hún geti leitað viðurkenningardóms um bótaskylduna, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi teflt fram tveimur nýjum málsástæðum til stuðnings kröfu sinni. Annars vegar vísar hún til jafnræðisreglu og bendir á að sett hafi verið lög nr. 47/2010 um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007. Hins vegar telur hún að stefndi beri skaðabótaskyldu á tjóninu vegna þeirrar vanrækslu sinnar að stöðva ekki rekstur meðferðarheimilisins þar sem óheimilt hafi verið að setja á stofn og reka sjúkrahús án leyfis ráðherra, sbr. 1. mgr. 26. gr. þágildandi laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu. Þessar málsástæður áfrýjanda fá ekki komist að fyrir Hæstarétti, enda standa ekki til þess skilyrði 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991.
Svo sem áður er rakið kom móðir áfrýjanda henni til dvalar í Byrginu að höfðu samráði við hana sjálfa og hafði Barnaverndarstofa þar enga milligöngu. Jafnframt liggur ekki fyrir að starfsmönnum Barnaverndarstofu hafi verið kunnugt um dvöl hennar þar. Samkvæmt þessu verður skaðabótaskylda stefnda ekki reist á því að Barnaverndarstofa hafi samþykkt þessa ráðstöfun eða með einhverju móti brugðist eftirlitsskyldu sinni með högum áfrýjanda. Er þess þá að gæta að Byrgið hafði ekki heimild Barnaverndarstofu til að taka við börnum og bar henni því ekki að hafa eftirlit með starfseminni.
Þegar áfrýjandi dvaldi í Byrginu hafði meðferðarheimilið ekki leyfi ráðherra til að reka sjúkrahús, sbr. 1. mgr. 26. gr. þágildandi laga nr. 97/1990. Af því leiðir að landlæknir hafði heldur ekki eftirlitsskyldu með starfseminni, sbr. 3. gr. laganna og þágildandi reglugerð nr. 411/1973 um landlækni og landlæknisembættið. Af þeim sökum verður skaðabótaskylda stefnda ekki reist á því að áfrýjandi hafi orðið fyrir tjóni vegna þess að landlæknir hafi ekki sinnt eftirliti með heimilinu.
Loks verður ekki fallist á það með áfrýjanda að stefndi beri bótaábyrgð á tjóninu eftir reglu skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð, enda var hvorki Byrgið rekið af stefnda né forstöðumaður þess, sem braut gegn áfrýjanda, ríkisstarfsmaður. Í því tilliti breytir engu þótt Byrgið hafi um árabil fengið framlag úr ríkissjóði til að reka meðferðarheimilið.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 2015.
Mál þetta sem dómtekið var 10. febrúar 2015 var höfðað 18. desember 2013 af hálfu A, [...], [...] á hendur íslenska ríkinu, til viðurkenningar á bótaskyldu.
Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði bótaskylda stefnda vegna örorku og miska sem stefnandi varð fyrir þegar hún var vistuð á meðferðarheimilinu Byrginu frá 1. október 2003 til 28. febrúar 2005, frá 25. september 2005 til 1. október 2005, frá 7. júlí til 19. júlí 2006, frá 24. júlí til 29. júlí 2006 og frá 26. september til 26. október 2006. Stefnandi krefst málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Stefndi krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Samkvæmt lýsingum aðila á málavöxtum og gögnum málsins eru málavextir þeir að meðferðarheimilið Byrgið naut fjárstyrks frá íslenska ríkinu á árunum 1999 til og með árinu 2006, samtals um 188 milljóna króna samkvæmt athugun Ríkisendurskoðunar í janúar 2007, en félagsmálaráðuneytið hafði óskað eftir athugun Ríkisendurskoðunar á því hvernig fjárstuðningi sem ríkið veitti í rekstur kristilega líknarfélagsins Byrgisins væri varið. Starfsemi Byrgisins var í upphafi á varnarsvæðinu í Rockville, Sandgerði. Á árinu 2002 gerði D sálfræðingur úttekt á starfseminni, húsakosti o.fl. fyrir varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Í úttekt hans kemur fram að meðferð Byrgisins sé langtímameðferð og byggi á hugmyndafræði Biblíunnar. Byrgið virðist hafa komið til móts við hóp einstaklinga sem aðrar meðferðarstofnanir hafi í mörgum tilfellum gefist upp á. Kosta þurfi nokkru til að koma húsakosti í nothæft ástand og afla vátrygginga. Forsenda þess að ríkið styrki Byrgið sé að það skili uppgjörum á hálfs árs fresti, árituðum af endurskoðanda og stuðningur ríkisins þurfi að vera 27 milljónir á ári að lágmarki. Matsmaður studdi álit viðmælenda sinna í úttektinni um að þörf væri á Byrginu og mælti með því að Byrginu yrðu gefnir átta mánuðir til að bæta úr annmörkum. Til að svo megi vera þurfi aðstoð ríkisins að koma til að uppfylltum skilyrðum.
Stofnfundur sjálfseignarstofnunarinnar Byrgisins líknarfélags ses var haldinn 30. júní 2003 í Rockville. Í samþykktum stofnunarinnar segir að heimilisfang hennar sé að Ljósafossi Grafnings- og Grímsneshreppi. Í 3. gr. þeirra segir að tilgangur hennar sé að aðstoða vímuefnaneytendur til þess að ná bata, aðstoða aðstandendur vímuefnaneytenda og annast forvarnir og kynningarstarf varðandi neyslu vímuefna og afleiðingar hennar. Í 4. gr. samþykktanna segir að aðalstarfsemi stofnunarinnar sé að reka sjúkrastofnun, meðferðar- og endurhæfingarheimili og áfangaheimili fyrir vímuefnaneytendur og starfsemi því tengd. Starfsemi félagsins byggist á kristinni trú.
Heilbrigðiseftirlit Suðurlands gaf út starfsleyfi fyrir starfsemina á Efri-Brú í Grímsnesi þann 15. júlí 2003 til fjögurra ára. Þar var Guðmundar Jónssonar getið sem starfsleyfishafa vegna vímuefnameðferðarheimilis og að leyfið væri veitt í samræmi við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, lög um matvæli nr. 93/1995 og reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002.
Félagsmálaráðherra undirritaði yfirlýsingu um áframhaldandi fjárstuðning ríkisins, til Byrgisins líknarfélags ses, sem rekstraraðila meðferðarheimilisins Byrgisins, 21. október 2003, gegn nánar tilgreindum skilyrðum. Í 3. gr. yfirlýsingarinnar segir að gegn greiðslu styrks sé rekstraraðili skuldbundinn til að veita að jafnaði í mánuði hverjum 55 einstaklingum skjól og aðstoð í Byrginu. Um sé að ræða tímabundið athvarf fyrst og fremst fyrir heimilislausa vímuefnaneytendur og aðra þá sem þurfa aðstoð/stuðning í daglegu lífi. Í 5. gr. yfirlýsingarinnar er tekið fram að rekstraraðili beri alla faglega og rekstrarlega ábyrgð á starfseminni. Vistmenn voru að meðaltali 25 til 30 eftir að starfsemi þess var flutt að Efri-Brú á árinu 2003. Stefndi hætti að styrkja Byrgið með fjárframlögum eftir athugun Ríkisendurskoðunar á starfseminni í janúar 2007.
Þann 10. febrúar 2004 barst landlæknisembættinu erindi forstöðumanns líknarfélagsins Byrgisins ses, þar sem óskað var eftir afstöðu embættisins til reksturs sérstakrar aðhlynningardeildar, þar sem afeitrun skjólstæðinga Byrgisins færi fram, áður en eftirmeðferðin, á meðferðaheimili að Efri Brú í Grímsnesi, gæti hafist. Í svarbréfi landlæknisembættisins til forstöðumanns félagins, dags. 12. febrúar 2004, var vísað til IV. kafla þágildandi laga um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990 og fram kom að samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna væri óheimilt að setja á stofn eða reka sjúkrahús nema með leyfi ráðherra. Sama gilti um hvers konar aðra starfsemi sem talin sé vera í lækningaskyni. Byrgið sótti ekki um leyfi til ráðherra til að mega reka aðhlynningardeild og virðast áform sjálfseignarstofnunarinnar um rekstur slíkrar deildar hafa runnið út í sandinn.
Stefnandi er fædd í [...] 1987. Hún hefur átt við fíkniefnavanda að stríða frá því að hún var 11 ára gömul. Stefnandi varð sjálfráða árið 2005 en laut fyrir þann tíma forsjá móður sinnar sem leitaði að sögn stefnanda allra mögulegra úrræða til þess að koma dóttur sinni til hjálpar og ná henni út úr fíkn sinni. Stefnandi var vistuð á nokkrum meðferðarheimilum á vegum Barnaverndarstofu, frá 15. ágúst 2001 til 31. mars 2003 og var í neyðarvistun á Stuðlum um tíma sumarið 2003.
Móðir stefnanda leitaði til landlæknisembættisins um úrræði til hjálpar dóttur sinni með bréfi 11. ágúst 2003. Í áliti landlæknis 10. febrúar 2004, í tilefni af bréfinu, kemur fram að umkvartanir móður virðist snúast um að erfitt hafi verið að koma stefnanda í meðferð hjá BUGL. Þar var hún í göngudeildarmeðferð frá nóvember árið 2000 þar til henni lauk 9. nóvember 2001, en þá var stefnandi nýkomin úr meðferð á Stuðlum, meðferðarheimili Barnaverndarstofu. Engin samskipti hafi verið skráð eftir það þar til 27. júlí 2003 þegar móðir hafði samband og var stefnandi þá í neyðarvistun á Stuðlum eftir að hafa strokið þaðan sex sinnum. Daginn eftir kom stefnandi til mats á BUGL, en innlögn á unglingageðdeild var ekki möguleg þar sem deildin var full. Úr varð að stefnandi fór aftur á Stuðla þar sem hún hitti barnageðlækni 5. ágúst 2003 og að nýju 13. ágúst s.á. Niðurstaða barnageðlæknisins var lyfjameðferð, innlagnarbeiðni var rituð á unglingageðdeildina og endurkoma ákveðin 3. september 2003. Stefnandi var þá byrjuð í sálfræðiviðtölum á vegum Foreldrahúss í gegnum félagsþjónustuna og hafði farið á AA fundi. Stefnandi kom ekki í bókaðan tíma 3. september 2003, en mun þann dag hafa verið lögð inn á bráðamóttöku vegna ofneyslu lyfja.
Í áliti landlæknis segir að yfirlæknir á BUGL telji að það sé ekki rétt sem fram komi í bréfi móðurinnar að nákvæmlega engin úrræði séu fyrir hana. Þvert á móti hafi ýmis úrræði verið reynd og ekki verði annað séð en að brugðist hafi verið fljótt við beiðni um athugun á sl. sumri eða á innan við sólarhring. Innlögn á unglingageðdeild hafi ekki verið möguleg en stefnandi hafi þá verið í öruggu skjóli neyðarvistunar auk þess sem boðið hafi verið upp á göngudeildarmeðferð. Í samantekt og áliti landlæknis segir að móðir hafi kvartað yfir takmörkuðum meðferðarmöguleikum. Við athugun hafi komið í ljós að heilbrigðiskerfið auk félagsþjónustunnar hafi boðið upp á ýmsa meðferðarmöguleika en meðferðir hafi hingað til runnið út í sandinn að því er virðist fyrst og fremst vegna hegðunarvanda stúlkunnar.
Samkvæmt bakvaktarskýrslu félagsráðgjafa Barnaverndar Reykjavíkur var stefnandi ásamt móður sinni stödd á bráðamóttöku geðdeildar 17. september 2003 til þess að biðja um aðstoð. Móðir stefnanda taldi í samtali við félagsráðgjafann neyðarvistun ekki vera neina lausn fyrir dóttur sína, hún færi bara út eftir nokkra daga eða færi út þegar heim kæmi. Úr hafi þó orðið að félagsráðgjafinn athugaði með pláss á Stuðlum, en þar hafi verið fullt. Samkvæmt gögnum málsins mun móðir stefnanda hafa átt bókað viðtal á embætti landlæknis 25. september 2003.
Blaðagrein um að móðir stefnanda teldi að engin úrræði til hjálpar væru í boði mun hafa birst í [...] um þetta leyti. Í kjölfarið hafði ónafngreind kona samband við móður stefnanda og hvatti hana til að leita til Byrgisins um aðstoð, en konan hafði sjálf dvalið þar. Móðir stefnanda leitaði þá til forsvarsmanna Byrgisins, sem kváðust geta veitt stefnanda, sem þá var 16 ára gömul, viðeigandi meðferð og þá meðferð vildi stefnandi þiggja. Fór stefnandi í Byrgið til vistunar og dvaldi þar frá 1. október 2003 til 28. febrúar 2005, auk þess frá 25. september 2005 til 1. október 2005 og 7. til 19. júlí, 24. til 29. júlí og 26. september til 26. október 2006.
Í meðferðaráætlun á grundvelli 23. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, sem starfsmaður Miðgarðs, þjónustumiðstöðvar Grafarvogs og Kjalarness, stefnandi og móðir hennar undirrituðu 19. febrúar 2004 er ekki minnst á vistun stefnanda í Byrginu, en þar kemur fram að markmið áætlunar sé að stefnandi noti ekki fíkniefni og aðstoða hana í viðeigandi úrræði þegar hún verði tilbúin til að nýta sér meðferð. Hlutur Miðgarðs í áætluninni er stuðningur og ráðgjöf við mæðgurnar og að sækja um og liðka fyrir meðferðar- og/eða stuðningsúrræðum þegar stefnandi verði tilbúin til þess að þiggja aðstoð. Hlutur foreldris í áætluninni var m.a. að sinna stefnanda og vera til samvinnu við starfsmann Miðgarðs um meðferðar- og/eða stuðningsúrræði þau sem stefnandi væri tilbúin að þiggja. Móðir stefnanda leitaði eftir og fékk á þessum tíma fjárstuðning í Miðgarði til þess að greiða reikninga vegna húsaleigu í Byrginu.
Stefnandi hóf að sækja viðtöl hjá forstöðumanni Byrgisins í febrúar 2004 en sumarið 2004 þegar stefnandi var 17 ára fóru þau að hittast utan slíkra viðtala þar sem forstöðumaðurinn hafði falast eftir vinskap hennar. Á því tímabili sem stefnandi var vistuð í Byrginu kom forstöðumaður þess því þannig fyrir að hún yrði sér háð og var stefnandi látin halda að á milli þeirra ríkti trúnaðarsamband. Svo fór að stefnandi var gróflega misnotuð kynferðislega af forstöðumanni Byrgisins Guðmundi Jónssyni. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 334/2008 var hann sakfelldur fyrir að hafa haft samræði og önnur kynferðismök við þrjár konur sem voru vistmenn þar og sóttu meðferðarviðtöl hjá honum. Misnotaði hann þannig freklega þá aðstöðu að konurnar voru honum háðar sem skjólstæðingar hans í trúnaðarsambandi. Í VII. kafla dómsins eru rakin þau brot Guðmundar gagnvart stefnanda sem hann var sakfelldur fyrir, en þau brot voru öll framin utan meðferðarheimilisins. Var Guðmundi gert að greiða stefnanda 800.000 krónur í miskabætur í dómi Hæstaréttar. Guðmundur er ógjaldfær en stefnandi fékk 600.000 krónur greiddar úr bótasjóði stefnda fyrir brotaþola.
Stefnandi höfðar mál þetta til viðurkenningar á bótaskyldu stefnda vegna örorku og miska sem hún hafi hlotið og séu afleiðingar af vistun hennar á meðferðarheimilinu Byrginu árin 2003 til 2006, sem þá hafi notið ríkulegs fjárstuðnings frá ríkisvaldinu. Misnotkunin sem stefnandi hafi orðið fyrir hafi haft mikil og varanleg áhrif á sálarlíf hennar og leitt til þess að hún hafi ekki náð heilsu og þjáist af alvarlegri áfallastreituröskun, sé haldin kvíða og fleiri greindum kvillum og þurfi að ganga í gegnum síendurtekin þunglyndistímabil, hún sé óvinnufær og á örorkubótum frá Tryggingastofnun ríkisins.
Stefndi hafnar bótaskyldu þar sem rekstur Byrgisins líknarfélags ses og dvöl stefnanda þar séu stefnda með öllu óviðkomandi.
Stefnandi kom fyrir dóm við aðalmeðferð málsins en einnig gáfu þar skýrslur móðir hennar, B, og vitnin C geðlæknir og D sálfræðingur.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi hafi orðið fyrir gríðarlega miklu tjóni af vistun og meðferð þeirri sem forstöðumaður Byrgisins hafi viðhaft. Stefnandi byggi kröfu sína um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda á því að varanleg örorka hennar sé bein afleiðing þeirrar meðferðar sem hún, þá ólögráða barn, hafi orðið fyrir við vistunina í Byrginu og að stefndi eigi sök á því að hún hafi verið vistuð þar og jafnframt því að meðferð sú sem stefnandi hafi sætt hafi verið látin viðgangast. Um þá starfsemi sem fram hafi farið í Byrginu sé vísað til HRD: 334/2008 ákæruvaldið gegn Guðmundi Jónssyni, þar sem skýrt komi fram hvað stefnandi hafi mátt þola þegar hún hafi verið í Byrginu til lækningameðferðar. Byggt sé á því að yfirvöld hafi brugðist í þessu máli með því að vanrækja eftirlit með svo mikilvægri starfsemi sem meðferðarheimili af þessum toga hafi haft með höndum.
Byrgið og forsvarsmaður þess séu ógjaldfærir aðilar og haldlaust sé að beina bótakröfu að þeim. Á því sé byggt að íslenska ríkið beri ábyrgð á því tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir í samræmi við 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Bótaskylda ríkisins grundvallist á neðangreindu:
Í fyrsta lagi sé byggt á því að Barnaverndarstofa sem rekin sé á ábyrgð ríkisins hafi samþykkt að stefnandi væri vistuð í Byrginu. Samþykki þetta hafi verið veitt þrátt fyrir að stefnandi hafi einungis verið 16 ára gömul og þannig ekki náð þeim aldri sem áskilinn hafi verið um vistun á meðferðarstofnun af þessu tagi sem ætluð hafi verið fyrir fullorðna einstaklinga. Með þessari ákvörðun hafi starfsmenn Barnaverndarstofu sýnt af sér vítavert gáleysi sem íslenska ríkið beri alla sök og ábyrgð á.
Í öðru lagi sé byggt á því að Byrgið hafi verið sjúkrastofnun sem fallið hafi undir ákvæði þágildandi laga um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990 og þannig eftirlitsskyldu landlæknisembættisins. Stefndi hafi þarna brugðist í eftirlitshlutverki sínu. Um þetta sé vísað til 1. og 4. mgr. 3. gr., sbr. 7. tölul. 24. gr. laganna, sbr. og 4. og 5. gr. reglugerðar nr. 411/1973 um landlækni og landlæknisembættið sem í gildi hafi verið þegar stefnandi hafi verið til lækninga í Byrginu. Ríkisvaldið hafi veitt gríðarlegum fjármunum til Byrgisins þegar stefnandi hafi verið vistuð í Byrginu og byggt sé á því að einstaklingar sem þar hafi verið vistaðir hafi átt að geta treyst því að meðferðin þar væri forsvaranleg og undir eftirliti, enda sé það skýrt í 26. gr. laganna að óheimilt hafi verið að setja á stofn eða reka sjúkrahús skv. 24. gr. nema með leyfi ráðherra. Íslenska ríkið hafi því borið ábyrgð á rekstri Byrgisins meðan stefnandi hafi dvalið þar. Jafnframt segi í 28. gr. að heilbrigðisyfirvöld skuli eiga greiðan aðgang til eftirlits með stofnunum samkvæmt lögunum sem árétti það ríka eftirlitshlutverk sem stefndi hafi haft með starfseminni en það eftirlit hafi verið algerlega vanrækt meðan stefnandi hafi dvalið í Byrginu. Vanræksla íslenska ríkisins og starfsmanna stofnana og ráðuneyta hafi verið sérstaklega vítaverð þegar haft sé í huga að þegar stefnandi hafi verið vistuð í Byrginu hafi hún verið barn að aldri.
Í þriðja lagi sé byggt á því að stefnandi hafi verið barn að aldri þegar hún hafi fyrst verið vistuð í Byrginu og að hún hafi af þeim sökum átt að njóta verndar samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002. Stefnandi hafi orðið 18 ára [...] 2005, þá hafi hún þegar dvalið frá 1. október 2003 með hléum í Byrginu. Barnaverndaryfirvöld sem starfi á ábyrgð stefnda hafi ákveðið að vista stefnanda þegar hún hafi verið ólögráða einstaklingur sem þurft hafi á hjálp að halda, á meðferðarheimili sem ekkert eftirlit hafi verið haft með. Barnaverndarstofa hafi þannig ekki rækt skyldu sína samkvæmt 79. gr. laganna til þess að sjá stefnanda fyrir forsvaranlegri sérhæfðri meðferð heldur hafi stefnandi verið látin sæta meðferð sem verið hafi gersamlega óforsvaranleg og til þess fallin að valda henni tjóni. Þá hafi barnaverndarstofa vanrækt eftirlitshlutverk sitt sem kveðið sé á um beinum orðum í 2. mgr. 79. gr. laga nr. 80/2002. Jafnframt sé vísað til 1. gr. reglugerðar nr. 264/1995 um barnaverndarstofu, sem rekin sé á kostnað og ábyrgð ríkisins, þar sem kveðið sé á um það að eitt af verkefnum stofunnar sé að hafa yfirumsjón og eftirlit með stofnunum og heimilum sem ríkið reki eða styrki fyrir börn og ungmenni sem vistuð séu á grundvelli 4. mgr. 51. gr. eldri laga um vernd barna og ungmenna nr. 58/1992. Beri stefnda því að bæta stefnanda það tjón fyrir varanlega örorku sem sé afleiðing af háttsemi starfsmanna Byrgisins. Ljóst sé að ríkið beri ábyrgð á þessu eftirliti og því til stuðnings sé bent á greinargerð með lögum nr. 80/2011 en þar segi um 42. gr. í 3 mgr.: Í núgildandi lögum er lögð áhersla á að ríkið beri ábyrgð á sérhæfðum úrræðum fyrir börn í tilteknum vanda, þ.e. úrræðum fyrir börn í bráðatilvikum til að tryggja öryggi þeirra vegna meintra afbrota eða alvarlegra hegðunarerfiðleika, úrræðum til að greina vanda þeirra barna sem talin eru þurfa sérhæfða meðferð og úrræðum til að veita börnum sérhæfða meðferð vegna alvarlegra hegðunarerfiðleika, vímuefnaneyslu og meintra afbrota.
Í fjórða lagi byggi stefnandi viðurkenningarkröfu sína á því að íslenska ríkið beri sem vinnuveitandi ábyrgð á því tjóni sem starfsmenn í störfum hjá íslenska ríkinu valdi. Telja megi að í þessu tilfelli hafi forstöðumaður Byrgisins verið starfandi á ábyrgð, kostnað og í skjóli ríkisvaldsins þar sem meðferðarheimilið hafi notið fjárframlags og haft leyfi frá íslenska ríkinu í störfum sínum þegar hann hafi tekið að sér vistun stefnanda í Byrginu.
Stefnandi krefjist viðurkenningar á skaðabótaskyldu en samkvæmt meginreglum á því sviði beri að gera tjónþola eins settan og hin bótaskylda athöfn hefði ekki átt sér stað. Ljóst sé að um gríðarlega mikið tjón stefnanda sé að ræða. Óskað verði eftir nánari útreikningum á tjóni stefnanda þegar bótaskylda íslenska ríkisins hafi fengist viðurkennd í samræmi við 25. gr. laga nr. 91/1991.
Almenn regla gildi vegna slíkra viðurkenningarmála um að krafa um bætur fyrnist á fjórum árum, en upphafstími fyrningarfrests sé frá þeim tíma þegar tjónþoli fái vitneskju um afleiðingar. Þessa vitneskju hafi stefnandi ekki fengið fyrr en í janúar 2010 og geti fyrningarfrestur því ekki hafa hafist fyrr en þá.
Um aðild vísi stefnandi til áralangrar venju að stefna íslenska ríkinu vegna ráðuneyta og stofnana sem heyri undir þau og sé í fullu samræmi við 5. tl. 17. gr. laga nr. 91/1991.
Krafan sé byggð á almennum reglum skaðabótaréttar, s.s. sakarreglunni og vinnuveitendareglunni, skaðabótalögum nr. 50/1993, barnaverndarlögum nr. 80/2002, lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990, lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007 og lögum um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007. Málsmeðferðin styðjist við almenn einkamálalög nr. 91/1991. Krafan um málskostnað styðjist við 129. gr. til 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing vísist til 33. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi mótmæli öllum málatilbúnaði stefnanda sem röngum.
Stefndi byggi sýknukröfu sína á því að hann sé ekki réttur aðili að kröfugerð stefnanda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi hafi aldrei haft með höndum rekstur meðferðarheimilisins Byrgisins. Þegar meint tjón stefnanda hafi orðið hafi meðferðarheimilið verið rekið af Byrginu líknarfélagi ses, sem sé sjálfseignarstofnun sem stundi atvinnurekstur, en stofnunin sé nú gjaldþrota.
Um rekstur sjálfseignarstofnunarinnar hafi farið samkvæmt lögum nr. 33/1999 um sjálfseignarstofnanir sem stundi atvinnurekstur. Í 1. mgr. 25. gr. þeirra sé tekið fram að stjórn sjálfseignarstofnunar fari með málefni hennar og annist um að skipulag og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi.
Í samþykktum sjálfeignarstofnunarinnar komi fram í 9. gr. að stjórn stofnunarinnar sé heimilt að ráða framkvæmdastjóra og ákveða laun hans og starfskjör. Annað starfsfólk hafi verið ráðið af framkvæmdastjóra ásamt stjórn sjálfseignarstofnunarinnar. Guðmundur Jónsson hafi verið í stjórn Byrgisins ses og ráðinn framkvæmdastjóri. Hann hafi ekki verið starfsmaður stefnda, né aðrir starfsmenn meðferðarheimilisins. Ekkert vinnuveitendasamband hafi verið á milli stefnda og forstöðumanns, stjórnar eða annarra starfsmanna Byrgisins ses. Stefndi beri því ekki húsbóndaábyrgð á verkum þeirra. Bótagrundvöllur sá sem liggi að baki kröfugerð stefnanda sé því ekki fyrir hendi og beri því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Þá sé meintur bótaréttur stefnanda á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993 vanreifaður og þar af leiðandi ósannaður. Skilyrði greiðslu bóta samkvæmt þeim lögum sé að ótvíræð bótaábyrgð liggi fyrir, sbr. 1. gr. laganna. Slík viðurkenning liggi ekki fyrir og stefndi sé að auki rangur aðili að kröfugerð stefnanda á þessum lagagrundvelli. Umfang tjóns stefnanda á grundvelli skaðabótalaga sé þar að auki með öllu vanreifað og þar af leiðandi ósannað.
Barnaverndarstofa hafi enga aðild átt að þeirri ákvörðun að vista stefnanda á meðferðarheimili því sem rekið hafi verið af Byrginu ses. Hvorki hafi verið leitað eftir samþykki Barnaverndarstofu né slíkt samþykki veitt og sé öndverðri málsástæðu stefnanda mótmælt sem rangri og ósannaðri. Afskiptum Barnaverndar Reykjavíkur af málefnum stefnanda hafi lokið á miðju ári 2003. Vistun stefnanda í Byrginu hafi því alfarið verið á vegum forsjáraðila hennar í samræmi við þær skyldur sem tilgreindar eru í 28. gr. barnalaga nr. 76/2003 og án vitneskju eða sérstaks samþykkis barnaverndaryfirvalda. Málefni stefnanda hafi verið til úrlausnar hjá Barnavernd Reykjavíkur sem rekin sé af Reykjavíkurborg. Sá rekstur sé ekki á ábyrgð stefnda.
Sú starfsemi sem fram hafi farið á vegum sjálfseignarstofnunarinnar Byrgisins hafi verið óviðkomandi Barnaverndarstofu, enda hafi sjálfeignarstofnunin hvorki haft leyfi Barnaverndarstofu til að taka einstaklinga undir 18 ára aldri til meðferðar né hafi Barnaverndarstofa haft eftirlitsskyldur með starfseminni, enda Byrgið ekki rekið samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002. Eftirlit Barnaverndarstofu lúti að störfum barnaverndarnefnda og fyrir liggi í málinu að Barnavernd Reykjavíkur hafi ekki veitt samþykki fyrir vistun stefnanda í Byrginu.
Byrgið hafi hvorki sótt um, né fengið leyfi ráðherra til reksturs heilbrigðisstofnunar. Málsástæða stefnanda þess efnis að Byrgið hafi verið sjúkrastofnun sem félli undir lög nr. 97/1990 sé því röng. Samkvæmt þágildandi lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990 hafi landlæknisembættið haft eftirlit með starfi og starfsaðstöðu heilbrigðisstétta. Í reglugerð nr. 411/1973 sé kveðið á um faglegt eftirlit landlæknis með öllum heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisstéttum. Það sé meginregla íslensks réttar að stjórnsýslan sé lögbundin. Af þeirri reglu leiði að stjórnvöld geti almennt ekki unnið önnur verkefni en lög mæli fyrir um að séu á verksviði þeirra. Byrgið hafi ekki sótt um og hafi ekki haft leyfi ráðherra til að reka heilbrigðisstofnun og því lögum samkvæmt utan lögsögu heilbrigðisyfirvalda. Þeir læknar sem munu hafa sinnt þeim sem dvalist hafi í Byrginu hafi gert það samkvæmt samkomulagi við stjórnendur Byrgisins. Landlæknir hafi eftirlit með læknum en ekkert liggi fyrir um að nokkuð hafi verið út á læknisverk þessara lækna að setja og því ekkert tilefni til afskipta landlæknis.
Engin sönnun liggi fyrir um að meint tjón stefnanda sé að rekja til skaðabótaskyldrar háttsemi starfsmanna stefnda né að tjónið sé afleiðing þeirrar háttsemi. Til að knýja fram dóm um viðurkenningu á bótaskyldu þurfi stefnandi, auk þess að leiða sönnur á saknæmi og ólögmæti, að leiða í ljós að um orsakasamband sé að ræða, tjónið sé sennileg afleiðing af hinni ólögmætu athöfn og raskað hafi verið hagsmunum, sem verndaðir séu með skaðabótareglum. Engin slík sönnun liggi fyrir og beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Gera verði skýran greinarmun á opinberum fjárstuðningi við Byrgið ses og þeim kynferðisafbrotum sem framkvæmdastjóri Byrgisins hafi verið sakfelldur fyrir. Þannig skorti alfarið á orsakasamband milli þessa veitta fjárstyrks og þeirra kynferðisbrota sem stefnandi hafi mátt þola af hendi Guðmundar Jónssonar. Fjárstyrkurinn sem félagsmálaráðuneytið hafi veitt til Byrgisins ses hafi verið tímabundinn og ætlaður til að skjóta skjólshúsi yfir heimilislausa vímuefnaneytendur og aðra þá sem þurft hafi aðstoð eða stuðning í daglegu lífi. Í yfirlýsingu félagsmálaráðuneytisins, dags. 21. október 2003, komi skýrt fram að um styrk sé að ræða og að allur rekstur á þeirri starfsemi sem fram hafi farið á vegum sjálfseignarstofnunarinnar, bæði faglegur og rekstrarlegur, hafi verið á ábyrgð Byrgisins ses.
Meintum bótarétti stefnanda á grundvelli sakamálalaga nr. 88/2008, sem ámálgaður sé í málavaxtalýsingu í stefnu, sé mótmælt sem röngum og órökstuddum.
Stefndi vísi til áðurgreindra laga varðandi sýknukröfur. Krafa um málskostnað styðjist við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Niðurstaða
Upplýst er að forstöðumaður Byrgisins braut gegn stefnanda á þeim tíma sem hún dvaldi í Byrginu og hefur hann verið dæmdur til refsingar fyrir brot sín og til að greiða stefnanda miskabætur með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 334/2008. Með því hafa nægar líkur verið leiddar að því að hún hafi orðið fyrir tjóni til þess að hún geti haft uppi viðurkenningarkröfu í dómsmáli samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni af því að fá úr slíkri kröfu skorið hefur í dómaframkvæmd verið skýrður þannig að stefnandi verði að auki að gera grein fyrir því í hverju tjónið felist og hver tengsl þess séu við atvik máls. Stefnandi telur að auk miskans búi hún við varanlega örorku vegna dvalar í Byrginu og að á þeim atvikum að hún dvaldi þar beri stefndi ábyrgð. Ágreiningur aðila í máli þessu snýst um það hvort á stefnda, íslenska ríkið, verði lögð skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda og ber stefnandi sönnunarbyrði fyrir því að svo sé.
Stefnandi styður kröfu sína um viðurkenningu bótaskyldu íslenska ríkisins í fyrsta lagi við það að Barnaverndarstofa, sem rekin sé á ábyrgð ríkisins, hafi samþykkt að stefnandi væri vistuð í Byrginu. Stefnandi hefur ekki fært fram nokkur gögn til stuðnings þessari fullyrðingu. Í málinu liggur fyrir staðfesting Barnaverndarstofu á því að starfsemi Byrgisins væri með öllu óviðkomandi Barnaverndarstofu enda hafði Byrgið hvorki leyfi stofnunarinnar til að taka einstaklinga undir 18 ára aldri til meðferðar né hafði Barnaverndarstofa eftirlitsskyldur með starfsemi Byrgisins, sem ekki var rekið samkvæmt barnaverndarlögum. Þar kemur fram að stefnandi var vistuð á vegum Barnaverndarstofu á tímabilinu 15. ágúst 2001 til 31. mars 2003 en eftir þann tíma hafi Barnaverndarstofu ekki borist erindi vegna stefnanda. Vistun stefnanda í Byrginu var ekki fyrir milligöngu Barnaverndarstofu sem hafði enga vitneskju um dvöl hennar þar. Stefnandi hefur hvorki með gögnum né með öðrum hætti hnekkt þessum upplýsingum frá Barnaverndarstofu og verður þeirri málsástæðu, að dvöl stefnanda í Byrginu hafi verið að ákvörðun eða með samþykki Barnaverndarstofu, hafnað.
Í öðru lagi byggir stefnandi á því að Byrgið hafi verið sjúkrastofnun sem fallið hafi undir ákvæði þágildandi laga um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990 og því fallið undir eftirlit landlæknisembættisins, sem hafi brugðist í eftirlitshlutverki sínu. Stefnandi hefur leitt að því líkum, m.a. með vætti C geðlæknis, að starfsemi Byrgisins hafi ekki fullnægt kröfum um veitingu heilbrigðisþjónustu. Fyrir liggur að Byrgið var ekki sjúkrastofnun, sjálfseignarstofnunin hafði hvorki sótt um né fengið leyfi til að starfrækja heilbrigðisþjónustu eða heilbrigðisstofnun. Eftirlitsskylda landlæknis með heilbrigðisstofnunum, hvort sem litið er til núgildandi laga um landlækni eða þágildandi laga um heilbrigðisþjónustu, tók því ekki til starfsemi Byrgisins. Landlæknir hefur, og hafði þegar stefnandi dvaldi í Byrginu, eftirlit með starfi og starfsaðstöðu heilbrigðisstétta, sem tekur m.a. til sjálfstætt starfandi lækna. Einn sjálfstætt starfandi læknir mun hafa sinnt vistmönnum í Byrginu og ávísað þeim lyfjum, en ekkert er komið fram um að landlæknir hafi haft tilefni til athugasemda við læknisverk hans og stefnandi rekur tjón sitt ekki til þeirra. Þar sem Byrgið veitti ekki heilbrigðisþjónustu hafði landlæknir, þegar af þeirri ástæðu, hvorki heimildir né tilefni til að hlutast til um þá starfsemi sem þar fór fram. Þeirri málsástæðu stefnanda að landlæknir hafi vanrækt eftirlitshlutverk sitt með starfsemi sjálfseignarstofnunarinnar sem rak Byrgið, á grundvelli kristinnar trúar samkvæmt því sem greinir í samþykktum hennar, verður að hafna. Lagagrundvöllur fyrir slíkri eftirlitsskyldu er ekki fyrir hendi og verður bótaábyrgð stefnda ekki á því reist að landlæknir hafi gerst sekur um vanrækslu í því tilliti.
Í þriðja lagi byggir stefnandi á því að hún hafi verið barn að aldri þegar hún hafi fyrst verið vistuð í Byrginu. Barnaverndaryfirvöld sem starfi á ábyrgð stefnda hafi ákveðið að vista stefnanda, þegar hún hafi verið ólögráða einstaklingur sem þurft hafi á hjálp að halda, á meðferðarheimili sem ekkert eftirlit hafi verið haft með. Stefnandi hefur ekki fært fram nein gögn til stuðnings þeirri fullyrðingu að barnaverndaryfirvöld, sem þess utan eru aðeins að hluta til á forræði stefnda, hafi átt þátt í þeirri ákvörðun forsjármanns stefnanda að vista hana í Byrginu. Vísast til þess sem fyrr er rakið um aðkomu Barnaverndarstofu, sem ekki hafði vitneskju um dvöl stefnanda í Byrginu. Í þessu sambandi verður að horfa til þess að ábyrgð á velferð barna er fyrst og fremst í höndum forsjáraðila þeirra, sem lögð er rík ábyrgð á herðar í barnalögum, þar á meðal er skylda forsjárforeldris til að vernda barn sitt gegn hvers kyns ofbeldi og vanvirðandi háttsemi, sbr. 3. mgr. 28. barnalaga nr. 76/2003. Foreldrum ber að hafa samráð við barn sitt áður en málefnum þess er ráðið til lykta eftir því sem aldur og þroski barns gefur tilefni til og skal afstaða barns fá aukið vægi eftir því sem barnið eldist og þroskast. Samkvæmt gögnum málsins og framburði stefnanda og móður hennar fyrir dóminum var það sameiginleg ákvörðun þeirra tveggja að leita til Byrgisins. Mestu um þá ráðstöfun, að stefnandi færi til dvalar þar, réð jákvæð afstaða stefnanda sjálfrar til þess, en um hana var ekki haft samráð við barnaverndaryfirvöld. Þeir meðferðarmöguleikar sem heilbrigðiskerfið og félagsmálayfirvöld höfðu boðið stefnanda áður höfðu runnið út í sandinn, fyrst og fremst vegna hegðunarvanda stefnanda samkvæmt því sem greinir í áliti landlæknis 10. febrúar 2004.
Stefnandi telur einnig að stefndi hafi brugðist skyldum sínum með því að barnverndaryfirvöld hafi látið það óátalið að hún fór til vistunar í Byrginu. Ákvæði barnaverndarlaga nr. 80/2002 leggja barnaverndaryfirvöldum á herðar skyldu til að grípa inn í og taka fram fyrir hendur forsjármanna þegar tilefni er til, eftir atvikum með kröfu um að foreldri verði svipt forsjá barns síns. Það verður þó ekki gert nema vægari úrræði teljist fullreynd, svo sem með því að gera meðferðaráætlun á grundvelli 2. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga, eins og þá sem gerð var við stefnanda og móður hennar 19. febrúar 2004. Sú meðferðaráætlun ber með sér að sá starfsmaður Reykjavíkurborgar, sem að málinu vann, taldi að leit að viðeigandi meðferðarúrræðum sem stefnandi vildi þiggja væri yfirstandandi. Hafna ber málsástæðum stefnanda um að barnaverndaryfirvöld beri ábyrgð á þeirri ráðstöfun að stefnandi fór til dvalar í Byrginu og verður bótaábyrgð stefnda á atvikum þar ekki reist á þessum grundvelli.
Í fjórða lagi byggir stefnandi viðurkenningarkröfu sína á því að íslenska ríkið beri sem vinnuveitandi ábyrgð á tjóni sem starfsmenn þess valdi. Í þessu tilfelli hafi forstöðumaður Byrgisins verið starfandi á ábyrgð, kostnað og í skjóli ríkisvaldsins þar sem meðferðarheimilið hafi notið fjárframlags og haft leyfi frá íslenska ríkinu í störfum sínum. Ekki var um ráðningarsamband að ræða þannig að stefndi beri ábyrgð á störfum forstöðumanns Byrgisins eða lögbrotum sem vinnuveitandi hans. Hafnað er þeirri túlkun að fjárframlög stefnda til vinnuveitanda forstöðumannsins geti leitt til húsbóndaábyrgðar á skaðaverkum hans og verður bótaábyrgð stefnda ekki reist á þeim grundvelli. Starfsleyfi sem Heilbrigðiseftirlit Suðurlands gaf út fyrir starfsemina á Efri-Brú í Grímsnesi bakar stefnda enga ábyrgð að þessu leyti. Með fjárveitingum til sjálfseignarstofnunarinnar tók stefndi ekki á sig ábyrgð á rekstri Byrgisins eða þeirri starfsemi sem þar fór fram, þvert á móti er það sérstaklega tekið fram í yfirlýsingu um áframhaldandi fjárstuðning sem félagsmálaráðherra undirritaði 21. október 2003, að rekstraraðili beri alla faglega og rekstrarlega ábyrgð á starfseminni. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á orsakatengsl milli fjárstyrks ríkisins og brota forstöðumannsins gegn henni. Verður bótaábyrgð ekki lögð á stefnda á þessum grundvelli á tjóni sem leitt hafi af dvöl hennar í Byrginu.
Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á að grundvöllur sé fyrir hendi til þess að á stefnda verði lögð skaðabótaskylda vegna dvalar stefnanda í Byrginu og verður stefndi þegar af þeirri ástæðu sýknaður af viðurkenningarkröfu stefnanda í máli þessu.
Eftir atvikum þykja ekki, þrátt fyrir úrslit málsins, efni til að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað og verður hann felldur niður. Stefnandi nýtur gjafsóknar í málinu og greiðist því allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, sem þykir hæfilega ákveðinn 980.000 krónur, úr ríkissjóði. Við ákvörðun þóknunar hefur ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Dóminn kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, íslenska ríkið, er sýknað af kröfum stefnanda, A.
Málskostnaður fellur niður milli aðila.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 980.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.