Mál nr. 652/2017
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. október 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. október 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 31. janúar 2018 klukkan 16. Kæruheimild er í b. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að honum verði gert að sæta vægari úrræðum, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. október 2017.
Héraðssaksóknari hefur krafist þess fyrir dóminum í dag að X, fæddum [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi áfram, á meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti Íslands, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 31. janúar 2018, klukkan 16.
Varnaraðili mótmælir kröfunni.
Í greinargerð með kröfunni kemur fram að höfðað hafi verið sakamál á hendur ákærða með ákæru, útgefinni 12. júní 2017, fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, framið miðvikudaginn 22. mars 2017. Í ákæru hafi ákærða verið gefið að sök að hafa staðið að innflutningi á samtals 1.950 ml af kókaíni, sem hafi haft 69% styrkleika, ætluðum til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Fíkniefnin hafi ákærði flutt til Íslands, sem farþegi með flugi [...] frá Amsterdam í Hollandi til Keflavíkurflugvallar og hafi tollverðir fundið þau í fjórum snyrtivörubrúsum í farangri ákærða við komu hans til landsins. Í ákæru hafi brot ákærða verið talið varða við 173. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974, sbr. 1. gr. laga nr. 32/2001, og hafi þess verið krafist að hann yrði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá hafi verið gerð krafa um að áðurgreind fíkniefni yrðu gerð upptæk.
Með dómi héraðsdóms Reykjaness 19. júlí sl. hafi ákærði verið sakfelldur fyrir framangreinda háttsemi og honum gert að sæta fangelsi í þrjú ár og sex mánuði. Ákærði hafi áfrýjað þeim dómi til Hæstaréttar Íslands. Ákærði sé erlendur ríkisborgari sem hafi engin tengsl við landið og hafi komið hingað í þeim eina tilgangi að flytja inn fíkniefni, háttsemi sem hann hafi nú verið sakfelldur fyrir. Með hliðsjón af framangreindu telji ákæruvaldið að veruleg hætta sé á að hann reyni að koma sér undan frekari meðferð málsins gegn honum og fullnustu refsingar gangi hann laus. Því telji ákæruvaldið lagaskilyrði uppfyllt til að hann sæti gæsluvarðhaldi þar til endanlegur dómur gengur í máli hans.
Ákærði hafi sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 23. mars sl., fyrst á grundvelli a- og b-liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. úrskurði Héraðsdóms Reykjaness í málum nr. [...] og [...], en frá 4. maí sl. á grundvelli b-liðarins, sbr. úrskurði í málum nr. [...],[...],[...] og [...]. Í kjölfar uppkvaðningar framangreinds dóms hafi ákærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi áfram til dagsins í dag á grundvelli b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála, sbr. 3. mgr. 97. gr. sömu laga, sbr. úrskurð héraðsdóms Reykjaness í málinu nr. [...].
Með vísan til framanritaðs telji héraðssaksóknari að skilyrði b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála, sbr. 3. gr. 97. gr. sömu laga, séu uppfyllt og þess því krafist að héraðsdómur fallist á kröfu þessa eins og hún er fram sett.
Eins og að framan greinir var dómfelldi hinn 19. júlí sl. dæmdur til þriggja ára og sex mánaða fangelsisrefsingar fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot og hefur dómfelldi áfrýjað dómnum til Hæstaréttar. Gögn málsins voru send ríkissaksóknara í gær.
Dómfelldi er erlendur ríkisborgari sem hefur engin tengsl við Ísland svo vitað sé. Á það verður að fallast með héraðssaksóknara að ætla megi að dómfelldi muni reyna að komast úr landi, leynast eða koma sér með öðrum hætti undan frekari meðferð málsins eða fullnustu refsingar fari hann frjáls ferða sinna. Skilyrðum b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála telst því fullnægt í málinu. Samkvæmt því og með vísan til 3. mgr. 97. gr. sömu laga verður dómfellda gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi og er krafa héraðssaksóknara því tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki verður talið að vægari úrræði komi að gagni eins og hér háttar til.
Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Dómfelldi, X, fæddur [...], sæti gæsluvarðhaldi áfram, á meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti Íslands, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 31. janúar 2018, klukkan 16.