- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
- Aðfinnslur
Mánudaginn 9. júlí 2012. |
|
Nr. 477/2012. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Guðmundur St. Ragnarsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Aðfinnslur.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. júlí 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 11. júlí 2012 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Það athugist að ekki verður ráðið af gögnum málsins að tekin hafi verið formleg skýrsla af varnaraðila hjá lögreglu áður en gæsluvarðhalds var krafist yfir honum. Eins og atvikum var háttað hefði átt að gera það, meðal annars til að fram kæmi, svo ekki færi á milli mála, hvaða brot hann hefði játað að hafa framið. Þá lét héraðsdómari farast fyrir að spyrja varnaraðila að því sama þegar gæsluvarðhaldskrafan var tekin fyrir á dómþingi. Er þetta hvort tveggja aðfinnsluvert.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 6. júlí 2012.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði á grundvelli a.liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 13. júlí, nk. kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að í gær kl. 09.18 hafi lögreglu borist tilkynning um að hurð hafi verið sparkað upp í [...] í [...], nánar tiltekið íbúð [...]. Samkvæmt skýrslum lögreglu hafi hurð íbúðarinnar verið sparkað upp og manni ógnað með hamri og hafi hann verið neyddur út úr íbúðinni og í útibú [...]banka þar sem hann hafi tekið út peninga, en málið virðist tilkomið vegna peningaskuldar. Lögregla hafi verið stödd á vettvangi að ræða við vitni þegar kærði og meðkærði ásamt brotaþola hafi komið þar að. Hafi þeir verið handteknir í framhaldinu og færðir á lögreglustöð vegna rannsóknar málsins.
Í gær hafi lögreglu borist tilkynning um að sést hafi til manna bera muni inn að [...] og hafi lýsingin passað við kærðu. Lögregla hafi í kjölfarið framkvæmt húsleit þar sem fundist m.a. flatskjáir, verkfæri, borðsniðsög, hjólsög, slípirokkar, mótorhjólahjálmar, föt, hlífar og fleiri munir.
Í greinargerðinni kemur fram að í gær hafi máli nr. s-353/2012, á hendur kærða, verið þingfesti í Héraðsdómi Reykjavíkur, en í málinu sé hann ákærður, í félagi við aðra, um 5 auðgunarbrot.
Þá hafi embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu haft til rannsóknar óvenju mörg mál sem tengist innbrotum og þjófnuðum í [...] í júní og það sem af er júlí. Innbrotahrina þessi og þjófnaðir hafi hafist skömmu eftir að kærði og meðkærði fluttu í íbúð á [...] við [...],[...], ásamt tveimur öðrum aðilum. Enn séu til rannsóknar eftirtalin mál sem lögregla hafi rökstuddan grun um að kærði eigi aðild að.
Kærði hafi játað aðild að nokkrum innbrotum 1. júlí 2012, í samræðum við rannsóknarlögreglumenn, en þýfi hafi fundist í fórum kunningja kærða er hann hafi verið handtekinn og hafi sá aðili sagst hafa fengið þýfið hjá drengjum úr [...], en ekki viljað nafngreina þá. Innbrot í bifreið við [...] í [...], júlí sl. og var stolið þaðan GPS leiðsögutæki ásamt fylgihlutum. Lögregla kveður að brotist hafi verið inn í húsbíl við Arnartanga 19 í Mosfellsbæ og þaðan stolið sjónvarpi, GPS leiðsögutæki og fatnaði og einnig hafi verið brotist inn í bifreið við [...] í [...] og stolið þaðan radarvara, sjónauka og útvarpssendi fyrir iPod. Ekki hafi verið tekin formleg skýrsla af kærða vegna þessara mála.
Lögreglan rannsaki einnig innbrot og þjófnað í bílskúr að [...] í [...] hinn 2. júlí 2012, þar sem stolið hafi verið mótorkrosshjóli af gerðinni Honda CRF 250 R og tveimur mótorhjólahjálmum og öðrum búnaði, en lögregla bíði eftir myndbandsupptökum í tengslum við rannsókn málsins.
Lögregla kveður að tilkynnt hafi verið um tilraun til innbrots og eignaspjöll í [...],[...] í [...], 3. júlí sl., en verið sé að kanna með myndbandsupptöku af atburðinum. Reynt hafi verið að spenna upp hurð á vesturhlið hússins og við það hafi hurðarkarmur skemmst. Hurðarkarmurinn sé styrktur að innanverðu með járni og því hafi ekki tekist að opna. Stór rúða sem sé hægra megin við hurðina hafi verið brotin en þar fyrir innan sé gluggagatinu lokað með krossvið. Teknar hafi verið myndir af vettvangi og þar megi sjá skófar á krossviðspjaldinu sem sé í hurðinni.
Lögregla rannsaki einnig innbrot og þjófnað í íbúðarhús að [...] í [...] hinn 1. júlí 2012, en hluti þýfisins hafi fundist í gær á víðavangi. Í innbrotinu hafi m.a. verið stolið 2 Playstation 3 leikjatölvum og talsvert af Playstation tölvuleikjum, seðlaveski með 35.000 kr. ásamt debetkorti, peningaskáp þar sem geymdir hafi m.a. skartgripi og vegabréf, sjónvarpsflakkara, myndavél, og 3 fartölvur.
Lögregla rannsaki og innbrot í [...],[...] í [...], hinn 29. maí 2012, þaðan sem stolið hafi verið símkortum og tóbaki, en meðkærði hafi játað aðild að þessu innbroti en ekki viljað greina frá því hverjir hafi verið með honum að verki, en þrír aðilar hafi staðið að þessu innbroti. Yfirheyra þurfi því fleiri vegna þessa máls, þar á meðal kærða.
Einnig sé verið að rannsaka innbrot í verkfærageymslu að [...] í [...] sem framið var hinn 2. júlí 2012, þar sem spenntur hafi verið upp hengilás og stolið tveimur slípirokkum, höggvél og hersluvél. Lögregla rannsaki einnig innbrot sem þar hafi verið framið daginn eftir, þar sem spennt hafi verið upp hurð og stolið tveimur höggborvélum.
Þá rannsaki lögregla þjófnað í bifreið á bifreiðastæði við [...] í [...] sem framið var hinn 1. júlí 2012, og stolið dælulykli frá [...]. Lögreglu hafi borist upptaka sem sýni mann, sem lögregla ætli að sé kærði, dæla bensíni á bifreið með stolnum eldsneytislykli úr innbrotinu.
Lögregla rannsaki og innbrot í hesthús að [...] í [...] hinn 20. maí 2012 þaðan sem stolið hafi verið tveimur reiðhnökkum að verðmæti um 3-400.000. kr.
Til rannsóknar sé og innbrot í hesthús að [...] í [...] hinn 29. júní 2012 þaðan sem stolið hafi verið reiðhnakk að verðmæti um 350.000 kr.
Innbrot í hesthús að [...] í [...] þann 7. júní 2012 þar sem stolið hafi verið reiðhjálmum. Reiðhjálmar úr þessu máli hafi fundist á heimili kærða og meðkærða að [...] í [...].
Innbrot í [...],[...] í [...] hinn 21. maí 2012 þar sem brotnar hafi verið rúður og stolið áfengi og skiptimynt.
Innbrot í íbúðarhús að [...] í [...] hinn 21. júní sl. þar sem brotist hafi verið inn um dyr á bakhlið hússins og rótað til í skúffum og lyfjaskáp.
Innbrot í bílskúr að [...] í [...] á tímabilinu 30. júní 5. júlí 2010 þar sem stolið hafi verið miklu magni af Mótorcross búnaði. Hluti munanna sem hafi fundist við húsleit lögreglu í gær, séu úr þessu innbroti.
Að mati lögreglu sé gæsluvarðhald nauðsynlegt til að unnt verði að vinna að rannsókn málanna, án þess að kærði nái að tala við ætlaða vitorðsmenn og spilla sönnunargögnum. Einnig eigi eftir að taka skýrslur af vitnum og frekari skýrslutöku af kærða og meðkærða og sé brýnt að þeir geti ekki haft áhrif hvor á annan með því að ræða saman. Rannsókn lögreglu sé á frumstigi og hætt sé við að kærði muni torvelda rannsókn málsins gangi hann laus. Lögreglan þurfi ráðrúm til að vinna að rannsókn málanna og að mati lögreglu séu miklir hagsmunir af því að orðið verði við kröfum hennar.
Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og loks með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. nr. 88/2008 sé þess farið á leit að krafan verði tekin til greina eins og hún er sett fram.
Eins og að framan greinir er kærði grunaður um fjölda innbrota í félagi við aðra. Með vísan til greinargerðar lögreglu og rannsóknargagna málsins þykir kominn fram rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing liggur við. Rannsókn málsins er á frumstigi. Fallist er á með lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu að skilyrði a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt. Er krafa um gæsluvarðhald því tekin til greina en rétt þykir að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma, eða til miðvikudagsins 11. júlí n.k. kl. 16.00. Með sömu rökum er fallist á að kærði sæti einangrun í gæsluvarðhaldinu.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 11. júlí, nk. kl. 16:00. Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.