Print

Mál nr. 682/2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Guðrún Sveinsdóttir aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Brynjólfur Eyvindsson hdl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. október 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 13. nóvember 2017 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og honum ekki gert að sæta einangrun meðan á því stendur.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur mánudaginn 30. október 2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 13. nóvember nk. kl 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Í greinargerð sækjanda kemur fram að í gærkvöldi hafi brotaþoli, A, kt. [...], komið á lögreglustöð með 2 ára gamla dóttur sína með sér og óskað aðstoðar lögreglu vegna langvarandi heimilisofbeldis af hálfu sambýlismanns síns X, kt. [...]. Kvað hún að henni hefði tekist að flýja heimilið fyrr um daginn og farið á gistiheimili.

          Í skýrslutöku hafi brotaþoli lýst langvarandi líkamlegu, kynferðislegu og andlegu ofbeldi kærða í hennar garð. Kvað hún kærða síðast hafa ráðist á sig daginn áður er hún hafi reynt að flýja og þá veitt henni þá áverka sem hún var með. Hafi hún verið í miklu uppnámi og grátið mikið. Kvað hún þau hafa verið saman í 6 ár og hafa búið á Íslandi í 4 ár. Kvað hún ofbeldið hafa byrjað fyrir um 3 árum með hnefahöggum en það hefði svo ágerst og orðið grófara. Lýsti hún því að hann tæki hana kverkataki, sparkaði í höfuð hennar, kýldi hana auk þess að hafa lamið hana með rim úr rúmgrind. Lýsti hún því einnig að hann hefði ítrekað sett ýmsa hluti upp í leggöngin á henni, t.d. vítamínsglös og leikfangagítar, og neytt hana til munnmaka. Þá hafi hún lýst miklu andlegu ofbeldi og frelsissviptingu. Lýsti hún því að hann stýrði henni í einu og öllu og stjórnaði fjármálum hennar. Hann tæki alla peninga hennar þó hún fengi eigin laun. Þá hafi hann bannað henni að fara heim til fjölskyldu sinnar í [...]  og tekið öll skilríki hennar og vegabréf af henni. Kvað hún kærða hafa bannað sér að fara til læknis en hún hafi tvisvar farið á slysadeild vegna áverka sem kærði hafi veitt henni. Lýsti hún því að tveggja ára dóttir þeirra hefði orðið vitni af ofbeldinu og hann hefði ógnað henni með öskrum og grimmilegri framkomu og talað illa um brotaþola við hana. Kvað hann kærða hafa lamið systur hennar fyrir um það bil 3 vikum en hún væri búin að vera í heimsókn hjá þeim. Auk þess hafi hann lamið vin hennar, B, sem hafi reynt að hjálpa henni. Hann hefði ekið með hann út úr bænum og ráðist á hann.

          Teknar hafi verið ljósmyndir af áverkum sem brotaþoli hafi verið með er hún hafi komið á lögreglustöð í gær. Um mar á handleggjum sé að ræða en hún muni undirgangast ítarlega læknisskoðun á neyðarmóttöku í dag vegna málsins.

          Framkvæmd hafi verið húsleit á heimili brotaþola og kærða  að [...] í Reykjavík fyrr í dag og hafi þar verið haldlögð brotin fjöl undan rúmgrind og vítamínsglös.

          Í nótt hafi B kært kærða fyrir líkamsárás, frelsissviptingu og hótanir, sbr. mál lögreglu nr. [...]. Lýsti hann því að hann að þann 23. október sl. hefði kærði farið með hann í bíltúr bak við [...]. Þeir hafi verið að spjalla saman þar þegar hann hafi allt í einu fengið hettu yfir höfuðið og síðan hafi verið sparkað í líkama hans og höfuð í nokkurn tíma. Kærði hafi hótað honum að ef hann myndi ekki hætta að skipta sér af málum brotaþola þá myndi hann ,,taka hann út“, þ.e. drepa hann. Kvað hann að þegar hettan hafi verið sett á hann hafi verið tveir menn að verki. Kvað B kærða einnig hafa eitt sinn ráðist á sig með skóflu og hafi verið vitni að því.

          Í skýrsluna af B sé bókað af rannsakanda að á meðan skýrslutökunni stóð hafi B borist hótanir í smáskilaboðum frá aðila tengdum kærða.

          Kærði hafi verið handtekinn í nótt og við handtöku hafi hann verið með skilríki brotaþola meðferðis ásamt piparúðavopni. Við yfirheyrslu í dag hafi kærði neitað að hafa beitt brotaþola kynferðislegu ofbeldi. Varðandi líkamlegt ofbeldi kvað hann m.a. að til átaka hefði komið milli þeirra eftir neyslu áfengis þegar hún hefði hótað honum. Kvað hann að ef hann gerði ekki það sem hún vildi ögraði hún honum til þess að slá sig. Kvað hann að hún hefði líka ráðist á sig. Kvað hann að hann myndi aldrei ráðast á konu að engu tilefni. Eitt sinn er þau hafi verið í átökum hefði olnbogi hans óvart farið í andlit hennar og hún þá fengið skurð við augað. Kærði hafi alfarið neitað að hafa tekið hana kverkataki en mögulegt sé að hann hafi kýlt hana í átökum þeirra í milli.

Að mati lögreglu sé fram kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi beitt sambýliskonu sína langvarandi líkamlegu, kynferðislegu og andlegu ofbeldi, m.a. fyrir framan barn þeirra. Auk þess sé hann undir rökstuddum grun um árás á vin hennar og systur. Séu brotin talin varða við 1. og 2. mgr. 218. gr. b., 1. mgr. 194. gr., 2. mgr. 218. og 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og geta varðað allt að 16 ára fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins sé á frumstigi og telji lögreglustjóri ljóst að rannsóknarhagsmunir krefjast þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Það liggi fyrir að taka þurfi aðra skýrslu af brotaþola en hún hafi lagt áherslu á í skýrslutöku í gær að ekki væri allt komið fram af hennar hálfu. Vegna þreytu brotaþola og barnsins hafi verið ákveðið að taka ítarlegri skýrslu af henni síðar. Hafa þurfi upp á vitnum sem brotaþoli nefnir og taka skýrslur af þeim. Einnig þurfi að taka skýrslu af vitninu B og hafa upp á og taka skýrslur af systur brotaþola og öðrum fjölskyldumeðlimum. Þá þurfi að hafa uppi á mögulegum samverkamanni vegna meintrar árásar á B. Einnig þurfi að taka aðra skýrslu af sakborningi. Jafnframt þurfi að afla og yfirfara símagögn og læknisfræðileg gögn. Mál þetta sé því á það viðkvæmu stigi að hætt sé við því að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins með einhverjum hætti gangi hann laus.

Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða:

Eins og rakið hefur verið var kærði handtekinn í gær vegna rökstudds gruns um nauðgun, alvarlega líkamsárás og hótanir, en öll þessi brot geta varðað fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er á frumstigi og telja verður að kærði geti torveldað rannsókn málsins með því að koma sönnunargögnum undan eða hafa áhrif á framburð samseka fari hann frjáls ferða sinna.

Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti gæsluvarðhaldi. Þess er krafist að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur þar sem annars sé ekki unnt að koma í veg fyrir að kærði torveldi rannsókn málsins, s.s. með því að komast í síma, tölvu eða koma skilaboðum áleiðis í gegnum aðra fanga. Að þessu virtu og með vísan til b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 er fallist á að kærði sæti einangrun.

                Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.                                                                          

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 13. nóvember nk. kl 16:00. Þá skal kærði sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.