Mál nr. 225/2017
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Þorgeir Ingi Njálsson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. apríl 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. apríl 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 5. maí 2017 klukkan 16 eða þar til dómur fellur í máli hans. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími, en að því frágengnu að varnaraðili verði látinn sæta farbanni.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. apríl 2017.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til föstudagsins 5. maí 2017, kl. 16:00, eða þar til dómur fellur í málum hans, S-105/2017 og S-106/2017 við Héraðsdóm Reykjaness, falli hann fyrir það tímamark, sbr. 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008.
Í greinargerð með kröfunni segir að ákærði hafi verið handtekinn 9. febrúar sl., klukkan 22:10 vegna gruns um að hafa stolið matvöru, plasthnífapörum og handgerileyði, samtals að söluverðmæti 3.284 krónur, úr verslun Hagkaups við Litlatún, sbr. mál lögreglu nr. [...]. Þá háttsemi flest annað sem ákærði sé grunaður um í neðangreindum málum lögreglu, hafi hann játað við skýrslutöku hjá lögreglu. Auk framangreinds máls sé ákærði grunaður um eftirfarandi brot framin á undanförnum vikum og mánuðum:
Líkamsárás:
Mál nr. [...] - Laugardaginn 20. ágúst 2016 ráðist á A í Mjóddinni og slegið hann hnefahöggum í andlit þannig að A hafi fallið á gólfið og í kjölfarið sparkað í A liggjandi. Afleiðingarnar af árásinni urðu þær að A hlaut alvarlega áverka sem leiddu til rifbeinsbrots og loftbrjósts á vinstra lunga, tveimur og fjórum dögum eftir árásina, þannig að A þurfti bráðainnlögn á brjóstholsskurðdeild til dren innlagnar 25. ágúst 2016. Ákærði hafi játað sök í skýrslutöku hjá lögreglu en háttsemin er talin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Mál nr. [...] - Mánudaginn 29. ágúst 2016 í Garðabæ í verslunarmiðstöðinni Garðatorg veist að B, og kýlt í andlitið með þeim afleiðingum að B hlaut skurð á vinstri kinn, eymsli í nefi og rispu og roða undir vinstra auga. Ákærði hafi játað sök í skýrslutöku hjá lögreglu.
Mál nr. [...] - Laugardaginn 15. október 2016 í Hafnarfirði, í kjölfar þess að hafa stolið vörum úr versluninni Fjarðarkaup og lagt á flótta undan öryggisverði verslunarinnar, C, veist að C við Hraunhóla og kýlt hann í andlitið með þeim afleiðingum að C hlaut yfirborðsáverka á nef, vör, munnhol og á öðrum hlutum höfuðs. Ákærði hafi játað þjófnaðinn í skýrslutöku hjá lögreglu en neitað líkamsárás.
Þjófnaður:
Mál nr. [...] - Laugardaginn 8. október 2016 í Garðabæ stolið gönguskóm, peysu og buxum, allt að óþekktu verðmæti, úr sameign Lyngmóa 3. Ákærði hafi játað sök í skýrslutöku hjá lögreglu.
Mál nr. [...] - Laugardaginn 15. október 2016 í Hafnarfirði stolið tveim léttbjórum, skyrdrykk, epli, hamborgara, langloku, svitalyktareyði, sokkapari og hníf, allt að óþekktu verðmæti, úr versluninni Fjarðarkaup við Hólshraun. Ákærði hafi játað sök í skýrslutöku hjá lögreglu.
Mál nr. [...] - Þriðjudaginn 18. október 2016 í Kópavogi stolið tveim langlokum og pastabakka, að samtals söluverðmæti 1.585 krónur úr versluninni Kostur við Dalveg 10. Málið hafi verið afgreitt með vettvangsskýrslu þar sem ákærði játaði sök.
Mál nr. [...] - Mánudaginn 7. nóvember 2016 í Reykjavík stolið hamborgara og gosdrykk að samtals söluverðmæti 788 krónur úr verslun Hagkaups í Kringlunni. Málið hafi verið afgreitt með vettvangsskýrslu þar sem ákærði játaði sök.
Mál nr. [...] - Fimmtudaginn 10. nóvember 2016 í Kópavogi stolið orkudrykk, handspritti og samloku að samtals söluverðmæti 1.757 krónur úr verslun Hagkaups í Smáralind. Ákærði hafi játað sök í skýrslutöku hjá lögreglu.
Mál nr. [...] - Föstudaginn 16. desember 2016 í Kópavogi stolið mat út salatbar, frönskum kartöflum, ávexti og hnífapörum, allt að samtals söluverðmæti 1.523 krónur úr verslun Hagkaups í Smáralind. Málið hafi verið afgreitt með vettvangsskýrslu þar sem ákærði játaði sök.
Mál nr. [...] - Fimmtudaginn 9. febrúar 2017 í Garðabæ stolið matvöru, plasthnífapörum og handgerileyði, að samtals söluverðmæti 3.284 krónur, úr verslun Hagkaups við Litlatún.
Húsbrot:
Mál nr. [...] - Sunnudaginn 1. janúar 2017 í heimildarleysi ruðst inn í hjólageymslu [...] og neitað að fara þaðan er íbúi þar hafi skorað á hann að gera það.
Mál nr. [...] - Þriðjudaginn 10. janúar 2017 í heimildarleysi ruðst inn í stigagang að [...] og synjað að fara þaðan er íbúar þar hafi skorað á hann að gera það.
Mál [...] - Miðvikudaginn 11. janúar 2017 í heimildarleysi ruðst inn í þvottahús á Hótel Hafnarfirði, Reykjavíkurvegi 72 þar sem lögregla hafði síðar afskipti af honum.
Mál nr. [...] - Sunnudaginn 22. janúar 2017 í Garðabæ í heimildarleysi ruðst inn í stigagang [...] og í kjölfarið farið inn í geymslu sem innangegnt var frá sameigninni þar sem hann hafi lagst til svefns uns lögregla hafði afskipti af honum.
Brot á áfengis- og/eða lögreglulögum:
Mál nr. [...] - Laugardaginn 13. ágúst 2016 í Reykjavík á Eiðistorgi verið ölvaður og með óspektir á almannafæri og í kjölfar afskipta lögreglu af honum neitað að hlýða fyrirmælum hennar um að yfirgefa svæðið.
Mál nr. [...] - Sunnudaginn 13. nóvember 2016 í Hafnarfirði verið ölvaður og með óspektir á almannafæri í verslunarmiðstöðinni Firði og neitað að verða við fyrirmælum starfsmanna um að yfirgefa miðstöðina heldur læst sig inni á salerni og í kjölfar afskipta lögreglu barist um með látum gegn því að vera fjarlægður.
Mál nr. [...] - Mánudaginn 14. nóvember 2016 í Hafnarfirði verið ölvaður og með óspektir á almannafæri og þannig ekki geta staðið óstuddur sökum ölvunar og sofnað í stigagangi fjölbýlishúss að [...] þar sem lögregla hafði afskipti af honum.
Mál nr. [...] - Laugardaginn 26. nóvember 2016 í Hafnarfirði verið ölvaður og með óspektir á almannafæri og sofnað í stigagangi fjölbýlishússins að [...] og er lögregla hafði afskipti af honum ekki verið viðræðuhæfur sökum ölvunar.
Mál [...] - Sunnudaginn 27. nóvember 2016 í Hafnarfirði verið ölvaður og með óspektir á almannafæri og sofnað í stigagangi fjölbýlishússins að [...] og er lögregla hafði afskipti af honum ekki verið viðræðuhæfur sökum ölvunar.
Mál nr. [...] - Fimmtudaginn 29. desember 2016 í Hafnarfirði verið ölvaður og með óspektir á almannafæri og barið á rúður fyrirtækisins Actavis að Reykjavíkurvegi 76 ásamt því að hafa óstöðugt jafnvægi og ruglingslegt málfar er lögregla hafði afskipti af honum.
Mál nr. [...] - Laugardaginn 31. desember 2016 í Garðabæ verið ölvaður og með óspektir á almannafæri og þannig ruðst í heimildarleysi inn á sameign fjölbýlishússins að [...] og lagst þar til svefns.
Mál nr. [...] - Miðvikudaginn 18. janúar 2017 í Hafnarfirði verði ölvaður og með óspektir á almannafæri og farið inn á salernisaðstöðu með aðgengi fyrir fatlaða í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og lagst þar til svefns uns lögregla vakti hann og handtók.
Mál nr. [...] - Mánudaginn 2. janúar 2017 í Hafnarfirði verið ölvaður og með óspektir á almannafæri og ruðst í heimildarleysi inn í [...] og synjað að fara þaðan er húsráðendur hafi beðið hann um það heldur brugðist við með æsingi og ógnunum og verið óviðræðuhæfur sökum ölvunar.
Mál nr. [...] - Þriðjudaginn 24. janúar 2017 í Garðabæ verið ölvaður og með óspektir á almannafæri og ruðst í heimildarleysi inn í [...] og sofnað þar ölvunarsvefni og sökum ölvunar verið óviðræðuhæfur við lögreglu sem hafði afskipti af honum.
Mál nr. [...] - Mánudaginn 30. janúar 2017 í Garðabæ verið ölvaður og með óspektir á almannafæri og öskrað á börn við Hofstaðarskóla sem og aðra vegfarendur rétt við [...].
Ákærði hlaut tveggja mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir þjófnað, gripdeild, líkamsárás og nytjastuld þann [...] 2016 í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli nr. [...]. Dómurinn hafi verið birtur kærða þann 16. október 2016.
Þann 10. febrúar síðastliðinn var ákærða gert að sæta gæsluvarðhaldi til 10. mars með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness í málinu nr. [...]. Var úrskurðinn staðfestur af Hæstarétti Íslands með dómi í málinu nr. 98/2017. Þá var gæsluvarðhald ákærða framlengt með úrskurðaði 10. mars síðastliðinn til 7. apríl 2017, sbr. úrskurð Héraðsdóm Reykjaness í málinu nr. [...].
Þá hafi ákærur á hendur kærða vegna framangreindrar háttsemi verið gefnar út af embættum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og héraðssaksóknara 8. og 21 mars sl.
Með vísan til brotaferils kærða á undanförnum vikum og mánuðum er það mat lögreglustjóra að ákærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið töluverðan fjölda brota bæði gegn almennum hegningarlögum, lögreglu- og áfengislögum sem samtals muni leiða til þess að ákærði verði dæmdur í óskilorðsbundið fangelsi, hvort sem er í heild eða að hluta. Með hliðsjón af hegðun hans að undanförnu telji lögregla að hann hafi sýnt af sér einbeittan brotavilja og að ekkert lát virðist ætla að verða á brotastarfsemi hans. Þá megi jafnframt ráða af skýrslutökum af kærða að hann eigi við vímuefnavandamál að stríða, sé heimilislaus og atvinnulaus.
Með vísan til framangreinds er talið að skilyrði c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt þar sem ætla megi að ákærði haldi áfram að brjóta af sér gangi hann laus og er því þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Mál númer S-105/2017 og S-106/2017 á hendur ákærða voru þingfest hér fyrir dómi fyrr í dag. Ákærði, sem sætt hefur gæsluvarðhaldi frá 10. febrúar síðastliðinn, fékk frest til 18. apríl næstkomandi til að taka afstöðu til sakargifta samkvæmt ákærunum og til fara yfir málsgögnin með skipuðum verjanda sínum. Ljóst er af gögnum málsins að ákærði er undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um fjölmörg hegningarlagabrot og brot gegn áfengislögum. Þá hlaut ákærði dóm í september á síðasta ári fyrir þjófnað, gripdeild, nytjastuld, líkamsárás og var gert að sæta tveggja mánaða fangelsi sem var skilorðsbundið til tveggja ára. Í greinargerð lögreglustjóra er rakin brotastarfsemi ákærða frá 13. ágúst 2016 til og með 9. febrúar 2017 er ákærði var handtekinn fyrir þjófnað. Um er að ræða líkamsárásir, þjófnaði, húsbrot og brot gegn áfengislögum í alls 26 tilvika á því tímabili sem um ræðir. Við brotum þessum liggur fangelsisrefsing sannist sök og sem fyrr segir hafa ákærur verið gefnar út vegna þessara brota. Með vísan til greinargerðar lögreglustjóra og rannsóknargagna málsins þykir kominn fram rökstuddur grunur um að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing liggur við og ætla megi að ákærði muni halda áfram brotastarfsemi, fari hann frjáls ferða sinna. Er því fallist á það með lögreglustjóra að skilyrði c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála séu uppfyllt. Er krafa um gæsluvarðhald því tekin til greina svo sem nánar greinir í úrskurðarorði. Ekki þykja efni til að marka varðhaldinu skemmri tíma en krafist er.
Úrskurð þennan kveður upp Jón Höskuldsson héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Ákærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 5. maí 2017 kl. 16:00 eða þar til dómur fellur í máli hans nr. S-105/2017.