Print

Mál nr. 441/2016

Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari)
gegn
X (Lúðvík Örn Steinarsson hrl., Unnsteinn Örn Elvarsson hdl. 1. prófmál)
, (Stefán Ólafsson réttargæslumaður )
Lykilorð
  • Kynferðisbrot
  • Brot gegn blygðunarsemi
  • Nauðgun
  • Börn
  • Tilraun
  • Skaðabætur
  • Sératkvæði
Reifun

X var í fyrri lið ákæru gefið að sök blygðunarsemisbrot samkvæmt 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og brot gegn 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 með því að hafa í gegnum samfélagsmiðla undir fölsku flaggi sem 17 ára drengur viðhaft kynferðislegt tal við B, er hann var 15 ára, og fengið hann til þess að senda sér mynd af kynfærum sínum. Þá var X í seinni lið ákæru gefin að sök tilraun til nauðgunar samkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga, með því að hafa daginn eftir hótað því að dreifa opinberlega samskiptunum og myndinni ef B hefði ekki kynferðismök við sig fyrir klukkan 23 þá um kvöldið. Með hliðsjón af játningu X að hluta og framburði B og gögnum málsins að öðru leyti var X sakfelldur samkvæmt fyrri lið ákæru. Að því er varðaði seinni lið ákæru var talið sannað að X hefði sett fram umræddar hótanir við B, sem hefði tekið þær alvarlega, og að hann hefði viðhaft þær í þeim tilgangi að knýja B til kynmaka við sig. Hefði X hótað B ítrekað og sett honum mjög skamman frest til að láta undan þessum hótunum. Þær hefðu verið settar fram til fullnaðar áður en X hefði, nærri lokum framangreinds frests, látið af háttsemi sinni eftir að móður B hefði orðið kunnugt um atvik og gripið inn í rás atburða. Með þessari háttsemi hefði X ótvírætt sýnt í verki einbeittan ásetning til að fremja til fullnaðar brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Hefði hann á þennan hátt gerst sekur um tilraun til brots gegn síðastgreindu lagaákvæði, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að brot X hefðu verið sérlega gróf og hann ætti sér engar málsbætur. Var refsing X ákveðin fangelsi í tvö ár auk þess sem honum var gert að greiða B 600.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 27. maí 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð.

B krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Málsatvikum og framburði ákærða og vitna er skýrlega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Staðfest verður með vísan til forsendna dómsins niðurstaða hans um fyrri lið ákæru, sem lýtur að broti gegn 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Í seinni lið ákæru er ákærða gefin að sök tilraun til nauðgunar með því að hafa 9. apríl 2015 hótað því að dreifa opinberlega tilteknum samskiptum sínum við brotaþola og mynd, sem sá síðarnefndi sendi honum deginum áður, ef brotaþoli hefði ekki kynferðismök við sig fyrir klukkan 23 þá um kvöldið. Staðfest verður sú niðurstaða héraðsdóms að sannað sé að ákærði hafi sett fram þær hótanir við brotaþola sem í ákæru greinir, að sá síðarnefndi hafi tekið þær alvarlega og að ákærði hafi viðhaft þær í þeim tilgangi að knýja brotaþola til kynmaka við sig. Eins og nánar er rakið í héraðsdómi hótaði ákærði brotaþola ítrekað og setti honum mjög skamman frest til að láta undan þessum hótunum. Þær höfðu verið settar fram til fullnaðar áður en ákærði lét nærri lokum þessa frests af háttsemi sinni eftir að móður brotaþola varð kunnugt um atvik og greip inn í rás atburða. Með þessari háttsemi sýndi ákærði ótvírætt í verki einbeittan ásetning til að fremja til fullnaðar brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Að þessu gættu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að ákærði hafi á þennan hátt gerst sekur um tilraun til brots gegn síðastgreindu lagaákvæði, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga.

Brotin, sem ákærði er sakfelldur fyrir, voru sérlega gróf. Hann kom fram undir tilbúnu nafni og þóttist vera mun yngri en hann var, en með því fékk hann brotaþola til að tjá sig um viðkvæm persónuleg málefni sín og senda nektarmynd af sér. Þessa aðstöðu notfærði síðan ákærði til að leitast við að knýja brotaþola til kynmaka við sig. Ákærði á sér ekki málsbætur. Hann verður að þessu virtu dæmdur til að sæta fangelsi í tvö ár og eru ekki efni til að binda þá refsingu skilorði að öllu eða nokkru.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt vottorð sálfræðings frá 2. september 2016 um líðan brotaþola. Þar kemur fram að ekki hafi gengið eftir vonir, sem bundnar voru við að hann kæmist fljótt yfir þá vanlíðan sem brot ákærða ollu honum. Hann hafi þjáðst lengur en ætlað var af streitu og vanlíðan og átt erfitt með að halda við félagslegum tengslum. Að þessu virtu verða miskabætur til brotaþola ákveðnar 600.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, svo og útlagðan kostnað réttargæslumannsins, allt eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í tvö ár.

Ákærði greiði brotaþola, B, 600.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað eru staðfest.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 1.553.798 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Lúðvíks Arnar Steinarssonar hæstaréttarlögmanns, 1.240.000 krónur, þóknun réttargæslumanns brotaþola, Stefáns Ólafssonar hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur, og útlagðan kostnað réttargæslumannsins, 100.000 krónur.

 

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar og

Viðars Más Matthíassonar

Við erum sammála meirihluta dómenda um annað en úrlausn á seinni lið ákæru í málinu. Þar er ákærða gefin að sök tilraun til nauðgunar með því að hafa fimmtudaginn 9. apríl 2015 hótað því að dreifa samskiptum sínum við brotaþola og myndinni sem brotaþoli sendi honum deginum áður opinberlega ef hann hefði ekki kynferðismök við sig fyrir klukkan 23 þá um kvöldið. Í ákærunni er þessi háttsemi talin varða við 1. mgr. 194. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við erum sammála meirihluta dómenda um að staðfesta þá niðurstöðu héraðsdóms að sannað sé að ákærði hafi sett fram þær hótanir við brotaþola sem í ákæru greinir og að sá síðarnefndi hafi tekið þær alvarlega. Loks að staðfesta skuli niðurstöðu dómsins um að ákærði hafi með framangreindri háttsemi sinni sýnt vilja til þess að ná fram kynferðismökum við brotaþola.

Í 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga er kveðið á um að hver sá sem tekið hefur ákvörðun um að vinna verk, sem refsing er lögð við í þeim lögum, og ótvírætt sýnt þann ásetning í verki, sem miðar eða er ætlað að miða að framkvæmd brotsins, hefur, þegar brotið er ekki fullkomnað, gerst sekur um tilraun til þess. Í 1. mgr. 194. gr. laganna er mælt fyrir um að hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun. Eins og áður greinir er sannað að ákærði beitti hótunum í því skyni að ná fram kynferðismökum við brotaþola. Þegar á hinn bóginn er tekið tillit til þess að samskipti ákærða og brotaþola fóru fram um samskiptamiðla á netinu og þeir voru þá staddir hvor í sínu húsi og undirbúningsaðgerðir ákærða fólust ekki í annarri háttsemi en lýst er í héraðsdómi, er því skilyrði 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga ekki fullnægt, að hann hafi ótvírætt sýnt þann ásetning í verki sem lýtur að annarri framkvæmd brots en hótuninni. Verður ákærða því ekki refsað fyrir það brot, sem hann er sakaður um í seinni lið ákæru, en hann var ekki ákærður til vara fyrir annað brot. Verður hann sýknaður af þessum lið ákærunnar, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 23. október 2008 í máli nr. 609/2007.

Þá erum við sammála meirihluta dómenda um að brot það sem ákærði er sakfelldur fyrir í fyrri lið ákæru hafi verið sérlega gróft af þeim ástæðum sem þeir tilgreina. Við teljum því, þrátt fyrir að sýkna eigi ákærða af seinni ákæruliðnum, að ekki sé tilefni til að hreyfa við þeirri refsingu sem honum var dæmd í héraðsdómi og að hana eigi að skilorðsbinda á sama hátt og þar er gert.

Við teljum, með vísan til 1. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að dæma eigi ákærða til að greiða helming alls áfrýjunarkostnaðar málsins eins og hann er tilgreindur af meirihluta dómenda.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 6. maí 2016.

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð föstudaginn 11. mars, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 20. nóvember 2015, á hendur X, kt. [...], [...], [...], fyrir

„neðangreind hegningar- og barnaverndarbrot, framin í [...] á árinu 2015:

1. Fyrir blygðunarsemisbrot og brot á barnaverndarlögum, með því að hafa miðvikudaginn 8. apríl sett sig í samband við B, fæddan [...] 1999, í gegnum samskiptaforritið snapchat með notendanafninu [...] og þóst vera 17 ára strákur frá [...]. Ákærði viðhafði kynferðislegt tal við B gegnum snapchat, meðal annars um að hann langaði að hafa við hann munnmök, láta drenginn hafa við sig munnmök og hafa við hann endaþarmsmök og spurði drenginn hvort hann runkaði sér. Þá fékk ákærði B til að senda sér eina mynd af kynfærum sínum, reyndi að fá hann til að senda fleiri myndir af sér nöktum og sendi drengnum mynd af kynfærum sínum.

Telst þetta varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

2. Fyrir tilraun til nauðgunar, með því að hafa daginn eftir, fimmtudaginn 9. apríl, hótað því að dreifa samskiptum sínum við B og myndinni sem drengurinn sendi honum deginum áður, opinberlega, ef hann hefði ekki önnur kynferðismök við sig fyrir klukkan 23 þann dag.

Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu C, kennitala [...], f.h. ólögráða sonar hennar, B, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða brotaþola bætur að fjárhæð kr. 1.500.000 auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um [vexti] og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 9. apríl 2015 til þess dags er mánuður er liðinn frá því bótakrafa var kynnt ákærða, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þess er krafist lögmannsþóknunar úr hendi ákærða, brotaþola að skaðlausu samkvæmt mati dómsins eða síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisauka­skatti.“

Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Til vara krefst hann þess að ákvörðun refsingar verði frestað en til þrautavara vægustu refsingar sem lög leyfi. Hann krefst þess að bótakröfu verði vísað frá dómi. Verjandi hans krefst málsvarnarlauna úr ríkissjóði.

Málavextir

Er atvik málsins urðu áttu ákærði og brotaþoli báðir heima í [...].

Samkvæmt lögregluskýrslu hafði C, móðir brotaþola, samband við lögreglu klukkan 22:48 hinn 9. apríl 2015 og tilkynnti að aðili, sem notaði notandanafnið „[...]“ í forritinu „snapchat“ hefði haft samband við brotaþola á svonefndum snapchat-aðgangi hans. Í framhaldinu ræddi lögregla við brotaþola sem tjáði henni að „[...]“ hefði haft samband við sig og eftir samtöl þeirra tveggja hefði brotaþoli sent aðilanum tvær myndir, aðra af andliti sínu en hina af kynfærum sínum. Í einu samtala þeirra brotaþola og „[...]“ hefði „[...]“ spurt hvort ekki væru laglegir samkynhneigðir karlmenn í [...] og hefði brotaþoli þá nefnt að hann vissi til þess að ákærði væri samkynhneigður. Hefðu samskipti brotaþola og „[...]“ haldið áfram, bæði gegnum „snapchat“ og vefsíðuna „facebook“. Hefði „[...]“ bæði hótað brotaþola og hvatt hann til að hafa samband við ákærða. Hefði „[...]“ gefið brotaþola þá kosti að hitta ákærða fyrir klukkan 23 þetta kvöld og hafa við hann samfarir en ella myndi „[...]“ birta á netinu þær myndir sem brotaþoli hefði sent. Ákærði hefði í framhaldinu haft samband við brotaþola á vefsíðunni „facebook“.

Í málinu eru ákæruvaldið og ákærði á einu máli um að það hafi verið ákærði sem tjáði sig undir notendanafninu „[...]“.

Í málinu liggja fyrir útprentuð svokölluð skjáskot sem munu vera af samtölum ákærða og brotaþola með forritinu „snapchat“. Samkvæmt upplýsingaskýrslu lögreglu tók móðir brotaþola skjáskot af þeim er hún skoðaði síma brotaþola og eru þau komin til lögreglu frá henni og brotaþola.

Til einföldunar verður sendandinn „[...]“ hér nefndur Vignir.

Snemma í samtölum sem fóru fram 8. apríl spyr brotaþoli Vigni hvernig hann hafi „fundið [hann] á snapchat“ og fær það svar að Vignir hefði skrifað rangt nafn þegar hann hefði verið „að adda“. Tal þeirra berst fljótlega að [...] og Vignir spyr hvort séu „sætir hommar í [...]“. Því svarar brotaþoli játandi og að þeir séu „saman“. Eftir stutt samtal um það spyr Vignir um heiti þeirra og bætir síðar við: „Eg veit um einn homma sem er þybbinn og hann er svo sætur og svo fkn skemmtilegur“ og sé það „X [...]“. Brotaþoli staðfestir að sá sé annar þeirra sem hann hafi talað um og Vignir segir að „X“ sé „sætur og skemmtilegur þo hann se sma feitur“ og að allir segi „að hann se fkn goður í rumminu haha“. Í næstu skilaboðum sínum segir Vignir að X þekki sig ekki, en þeir hafi talað einu sinni saman „á djamminu“ og X sé „bara æði sko“. Þeir ræða stuttlega kynni brotaþola af X í [...] en því næst spyr Vignir brotaþola hvort hann sé með „kulurass“. Brotaþoli svarar með orðunum „Ætli það ekki :/“ og Vignir svarar: „Mmm nice Mig langar að totta þig og lata þig totta mig og riða þer svo i rassinn hehe :$“ Brotaþoli svarar með skilaboðunum „Jaaaaá Saaaaæææll :/ Hvernig er fullnæging i rass?“. Því svarar Vignir með orðunum: „Besta fullnæing i heiminum fuck fæ boner að hugsa um það hehe“. Því svarar brotaþoli með orðunum: „Nice Þetta hljomar gott Kannski eg se til i að profa, ef þu sendir mer mynd af þer“. Vignir leggur þá til að þeir spjalli áfram saman og segir að hann haldi að brotaþola „langi rosa mikið að profa hehe“. Brotaþoli óskar þá aftur eftir mynd en Vignir segist eiga „mjog erfitt að treysta“ og vill ekki senda mynd. Vignir stingur upp á að brotaþoli „eyði“ sér þá bara og bætir við: „En ef þu heldur að eg se bara fake þa mattu allveg eyða mig en eg er ekki fake Er bara saklaus strakur i [...] sem vantar bolfelaga og eg addaði bara vitlaust og kynntist þer :/“. Því svarar brotaþoli með þeim orðum að hann treysti Vigni, sem svarar: „Eg vill miklu frekar senda þer typpamynd en andlit sko hehe En bara þegar þu ert einn :$ Eyddiru mer? Okai bæ þá :(“.

Tal þeirra Vignis og brotaþola berst að [...] og Vignir segist munu eiga erindi þangað með foreldrum sínum sem muni hugsanlega kaupa sér þar hús: „Samt litið land bara þu værir bi eða langaði að profa þa gætum við gert það þegar eg er að koma og svona þarna ef þau kaupa ser hehe“. Því svarar brotaþoli með orðunum: „Sko vandmalið er að eg er eiginlega 99mdl Hehe“.

Í einum skilaboðum til brotaþola segir Vignir að hann sé „meira fyrir stelpur“ en langi „bar að profa að vera með straki hehe“ og bætir því við síðar að brotaþoli megi „eyða“ honum. Því svarar brotaþoli með því að hann sé „alveg til í að kynnast, just friends then ;)“ og spyr hvort Vignir geti sent honum mynd. Því svarar Vignir með orðunum: „Hehe ja eg er samt meira svona að finna mér að ríða“. Því svarar brotaþoli með „Hahaha“. Eftir stuttar samræður þeirra segir Vignir: „Matt senda mer 100 myndir af þer noktum [og þeim orðum fylgir mynd af hjarta] Bara eins og þu villt:***“. Næsti texti sem frá brotaþola kemur er orðin: „Hope i dont dissapoint u“. Því svarar Vignir með orðunum: „Það var svo litil birta :( Geturðu haft meiri birtu ? :** Og mer langar rosa að sja rassinn þinn :$“. Því svarar brotaþoli með orðunum „Eg veit og myndavelin og siminn sökkar og er pottþett til i að sökka þig :)“. Því svarar Vignir með „hehe“.

Samtal þeirra heldur áfram og fljótlega skrifar brotaþoli: „Hvernig heldurðu að framhaldið verði, eg a við eftir þetta dúlleri okkar :)?“ og Vignir svarar: „Afhverju tjekkarðu ekki a X hvort hann vilji riða og eh þegar þú ert graður svo þu verðir með goða reynslu a að sofa hja kk þegar við hittumst ? :** [því næst birtist mynd af tveimur hjörtum]. Hehe vonandi að við bara verðum að dullast lengi og kanski bara par eða riðufelegar.“ Því svarar brotaþoli með orðunum: „Hann er 25 ara , 16 og 25 ara , eg held ekki“. Vignir svarar því með orðunum: „Er hann ekki 23 ara eg held það :o fæddur 1991 Eg var að sofa hja gaur sem var 13 arum eldri en eg til að fa reynslu, læra og svona það var best hehe“. Brotaþoli svarar og segir X vera [...], vera „a fostu, so many reasons Og mig langar helst að biða eftir þer :*“ Þessu svarar Vignir með skilaboðum, en í gögnum málsins eru aðeins læsileg upphafsorðin „Hehe kanski langar honum í felaga til að“. Þeim skilaboðum svarar brotaþoli með orðunum: „Þu getur bara kennt mer“ en Vignir svarar: „Væri samt betra fyrir mig og þig sæti ef þu værir buinn að profa eitthvað með eitthverjum sem hefur mikla reynslu :o og þu ert með fkn sætan traustan homma sem byr a sama stað og þu :o Ættir að nota það :o Hehehe jaae [svo birtist mynd af hjarta] Bara öruggara að fa reynslu fra mun eldri en eh sem er næstum jafngamall .. seiga það allir i þessu gaysexi að bryja að sofa hja eh veeeel reyndum og læra og eh svona bla bla“. Því svarar brotaþoli með orðunum: „Æjj eg veit ekk eg verð bara að fa að sofa a þessu i nott og svi verð eg að vera ferskur a morgun, það er skoli“. Vignir svarar: „Hehe ætlaði að seiga að þu gætir örugglega ef hann vildi fengið að rida nuna hahaha Viltu að eg finni snappið hans og sp hvort hann myndi halda framhja og eh sætii ?? :**“. Þessu neitar brotaþoli. Vignir svarar með því að skrifa „Okai :/“ en framhald skeytisins sést ekki í gögnum. Brotaþoli svarar skeytinu með annarri neitun. Henni svarar Vignir: „Okai :/ Ekki vera bitur ;o Runkaðiru þer ?“ Þessu fylgja samtals fimm skilaboð milli þeirra um annað en svo segir Vignir: „Ja nakvæmlega Runkaðiru þer ?“ Brotaþoli svarar því neitandi og Vignir svarar: „Þangað til eg leyfi þer að runka þer ? Ma eg sja rassinn og meira af typpinu?“ Því svarar brotaþoli með skeytinu: „Shuyy Shure& Shure*& Fokk“ en Vignir svarar: „Eg er svoooo graður i þig :$ :*“. Því svarar brotaþoli: „Biddu aðeins“ og Vignir spyr: „Ertu að hætta að vera skotinn i mer? :/“. Brotaþoli svarar: „Eg veit ekki eg held eg þurfi bara sma tima til að hugsa :/“. Vignir svarar: „Okaai :/ En fæ eg að sja rassinn og meiri naked myndir? Matt allveg senda mer margar :p“. Brotaþoli svarar: „Okei ertu einhver rassfikill ;) Biddu bara rolegur“. Vignir svarar: „Hehe sendu mer bara naked myndir af þer im soo horny :o Annars mattu bara eyða mer ef þu hefur ekki ahuga lengur :/“. Brotaþoli svarar með orðunum: „Okei þarna misti eg matarlistina“ og Vignir spyr hverju það sæti. Brotaþoli segist verða að „finna sjálfan [sig]“ einhvern veginn. Vignir spyr: „Og hvað meinarðu u sert buinn i bili ?“ og brotaþoli segist hafa bara tekið þannig til orða. Vignir spyr þá: „Ætlarðu þa ekki að senda mer naked ?“ og brotaþoli svarar: „Ekki i bili“. Vignir spyr þá: „Fannst þer svona ogeðslegt að sja typpið a mer ? Hehe“. Þessu svarar brotaþoli í frekar löngu máli, án þess að víkja sérstaklega að efni spurningar Vignis, á þá leið að hann sé „búinn að missa matarlistina“, telji sig hafa verið spenntan að reyna eitthvað nýtt og hafi alveg gleymt sér. Hann viti ekki hvað honum finnist og þurfi lengri tíma til að hugsa. Þeir geti þó örugglega spjallað síðar. Eftir þetta kveðjast þeir vinsamlega.

Þá liggur í málinu skjáskot af „snapchat“-skilaboðum sem ákærði sendi brotaþola í eigin nafni 9. apríl: „Hann var að senda mer að við hofum til half 11 til ad akveda hvad vid gerum annars byrjar hann ad senda utum allt þetta sem eg sagdi Og svo sendir hann þitt Hvað eigum við að gera ? ??? Okai hann sagdi nuna að við hefðum til korter i 11 U gone ? [B]? Come one, talaðu við mig :o Mer lyður allveg jafn illa yfir þessu og þer :(“.

Þá er í málinu annað skjáskot af „snapchat“-skilaboðum Vignis til brotaþola 9. apríl: „Eða a eg að byrja að dreifa þvi um allt að vinur þinn se barnaperri og svona afþvi hann ætlaði að hjalpa þer Og svo dreifa spjallinu okkar um allt Eða ætlarðu að lata hann riða þer ? Hvað ætlarðu að gera i þessu ? Ætlarðu að gera þetta? 10 minutur og eg byrja að rusta lifi vinar þins.“

Í málinu liggja útprentuð „facebook“-samskipti sem munu hafa farið þannig fram að ákærði tjáði sig frá sínum „facebook“-aðgangi en frá „facebook“-aðgangi brotaþola tjáðu sig ýmist brotaþoli eða móðir brotaþola. Samskiptin urðu að kvöldi 9. apríl 2015, hin fyrstu klukkan 22:26 en hin síðustu rúmri klukkustund síðar.

Klukkan 22:26 skrifar ákærði „Chek snap !“ en frá aðgangi brotaþola er svarað kl. 22:51: „farinn að sofa“. Mínútu síðar skrifar ákærði: „Þu þa eða ?“ og á sömu mínútu er svarað játandi frá aðgangi brotaþola. Klukkan 10:58 skrifar ákærði: „Ertu ekki brjaluð ? Er það þá ekki fint ?“ og á sömu mínútu er svarað frá aðgangi brotaþola: „það er mjög einfalt!“ Mínútu síðar skrifar ákærði: „Haha jæja, held þu ættir að send a mig af þinu eigin fb. Ekki sonar þins. Og ætla að vera brjaluð uti mig se eg ekki astæðu fyrir.“ Annarri mínútu síðar er svarað af aðgangi brotaþola: „nú! hvað þarftu að tala við [B] ?“ Mínútu síðar skrifar ákærði meðal annars: „Eg skil þig ekki, og fullorðna konu .. Eg held eg hafi bars uppa þer a mrg og ræði þetts við þig þar. Ekki i gegnum internetið. En getur sagt [B] að þurfa ekki að spa meira i þessum snap aðgangi það var tekið niður.“ Klukkan 23:39 skrifar ákærði: „Þú mátt samt allveg seiga mér afhverju mamma þín varð svona brjáluð útí mig? [brostákn] Og sástu líka , að ég gat komið þessum [...] í burt , og snappinu hans var eytt“. Þessu er svarað af aðgangi brotaþola kl. 23:42: „Ja flott hjá þér að eyða snappinu þinu“. Ákærði svarar á sömu mínútu: „Really, heldurðu að ég hafi sjálfur átt þetta snap [brostákn] Það er rosalega ágætt að vita það.“

Þá liggja í málinu útprentuð „facebook“-samskipti brotaþola og annarra einstaklinga. Skal þess hér getið að hinn 9. apríl kl. 22:13 skrifar brotaþoli nafngreindum einstaklingi og segir: „þér gætu boris grunsamlegar myndir á morgun. ef þú færð þær ekki láta þér bregða heldur skalltu lát mig vita okei“. Viðtakandinn spyr hvað teljist grunsamlegar myndir og brotaþoli svarar: „þú kemst bara að því“.

Í málinu liggur vottorð D sálfræðings, dagsett 6. janúar 2016. Þar segir að brotaþoli hafi komið í þrjú viðtöl til sálfræðingsins í júní 2015. Í viðtölunum hafi hann lýst „ágengum hugsunum varðandi upplifað brot“ sem haft hafi áhrif á daglegt líf hans. Hann hafi lýst „endurupplifun atviks“ og hafi hugsanir hans valdið hjá honum kvíða og ótta um eigið öryggi og hefði hann einangrað sig. Honum hafi fundist hann óöruggur í heimabæ sínum og óttast að rekast þar á „meintan geranda“. Brotaþola hafi í upphafi verið mikið niðri fyrir vegna málsins en hann hafi nýtt viðtölin mjög vel, verið áhugasamur og lagt sig fram um að fylgja eftir þeirri meðferðarvinnu sem fram hafi farið. Honum hafi gengið vel að „ná tökum á sinni líðan“ og náð góðum árangri í að stýra hugsunum sínum. Loks hafi brotaþoli komið í eitt viðtal til sálfræðingsins í nóvember 2015. Hann hafi þá látið vel af líðan sinni og virst hafa aðlagast vel lífi á nýjum slóðum. Hann hafi sagst „upplifa enn stöku hugsanir um atburðinn en hann væri meðvitaður um sína styrkleika og því hefðu þær hugsanir ekki mikil áhrif á hans líðan.“ Ekki hefðu verið ákveðin frekari viðtöl.

Skýrslur fyrir dómi

Ákærði kvaðst hafa kynnst brotaþola sumarið 2014 er ákærði hefði verið [...] en brotaþoli verið einn þriggja nemenda þar. Hann kvaðst hafa vitað aldur brotaþola. Í [...] hefði kynhneigð verið mikið rædd en allir hefðu vitað um samkynhneigð ákærða og að hann ætti maka. Brotaþoli hefði skorið sig úr og ákærði fundið að hann væri „í pælingum“ eins og eðlilegt væri á þessum aldri. Sjálfur hefði ákærði farið í gegnum „rosalega langt og strangt ferli“ þegar hann hefði verið að „finna sjálfan [sig] og endaði í allskonar ógöngum“ í öllu því ferli. Hefði hann ekki getað hugsað sér að nokkur annar þyrfti að ganga í gegnum slíkt. Sjálfur hefði ákærði ákveðið á sínum tíma að verða öðrum til halds og trausts sem hvergi gætu leitað stuðnings. Kvaðst hann hafa talið sig ekki geta rætt þessi mál við brotaþola í eigin persónu og hefði því ákveðið „að vera þessi þriðji aðili“ ef svo mætti segja. Ákærði hefði vorkennt brotaþola en aldrei haft neinn áhuga á honum „sem slíkum“.

Ákærði sagðist einn hafa haft aðgang að „[...]“ og enginn annar hefði vitað um það.

Ákærði lýsti aðdraganda „snapchat“-samskiptanna þannig að hann hefði fengið „vinabeiðni“ frá tilteknu notendanafni og hefði þá spurt [...] hvort það væri á vegum brotaþola. Hún hefði neitað því en gefið sér upp notendanafn hans. Hefði ákærði þá ákveðið að „adda honum“, hann hefði fengið „þá flugu í hausinn að hérna tékka á þessu“. Þeir brotaþoli hefðu talað saman „á þessu snapchati“ og hefði ákærði margboðið brotaþola að „fjarlægja mig út af listanum hjá sér“. Brotaþoli hefði spurt sig „margra spurninga í sambandi við þessa hluti“ og sýnt „hálf óþægilega mikinn áhuga“. Ákærði kvaðst hafa gert þetta „þannig séð að brjóta mér leið til þess að geta svo talað við hann sem ég sjálfur.“ Hefði hann í framhaldi af samtölum „[...]“ og brotaþola haft samband við brotaþola í eigin nafni og sagst hafa „heyrt af þessu frá þessum einstakling“.

Ákærði kvaðst hafa byrjað samskipti við brotaþola sem „[...]“ „til þess að spjalla um kynhneigðir“ og til þess að brotaþoli „hefði þá þennan einstaking í rauninni til þess að leita til á þessu snapchatti“, en sér hefði svo fundist þetta rangt og ákveðið að „færa mig yfir sem ég sjálfur“. Ákærði sagði þá hafa rætt kynferðislega hluti en kvaðst ekki muna hvor hefði átt frumkvæði að því. Ákærði hefði hins vegar engar kynferðislegar langanir haft til brotaþola og ekki haft áhuga á að hitta hann í kynferðislegum tilgangi.

Ákærði kvaðst ekki kannast við að hafa fengið senda mynd af kynfærum brotaþola. Að minnsta kosti hefði hann ekki skoðað slíka mynd, hafi hann fengið hana senda. Sjálfur hefði hann ekki sent brotaþola slíka mynd af sér.

Ákærði kvaðst kannast við að hafa daginn eftir hótað brotaþola því, sem „[...]“, að birta samskipti þeirra og myndir ef brotaþoli hefði ekki önnur kynferðismök við sig, ákærða. Það hefði hann gert „til þess að benda honum á að internetið væri ekki save place fyrir hvern sem er til að tala við hvern sem er.“ Ákærði kvaðst hafa farið af stað „sem [...] og tala við hann þarna heilan dag, margbýð honum að fjarlægja mig af vinalistanum, bendi honum á X og fara yfir þau mál. Hvernig sem ég bendi honum á að tala við sjálfan mig á „facebook“ er kannski ekki rétt aðferð, já ég náttúrulega hóta honum sem [...] og ætla ekkert að skafa af því og veit það“.

Ákærði sagðist sjálfur hafa orðið fyrir því, þegar hann hefði verið ungur og leitandi, að hafa kynnst einstaklingi sem hefði talið sér trú um að hann gæti aðstoðað ákærða, en hefði svo misnotað ákærða líkamlega. Hann hefði viljað hjálpa brotaþola til þess að lenda ekki í sömu aðstæðum sjálfur síðar. Hefði hann talið það öruggt þar sem hann hefði ekki haft neinar langanir til brotaþola.

Ákærði var spurður um „facebook“-samskipti þeirra brotaþola lokakvöldið þar sem ákærði skrifaði til brotaþola að henn hefði getað „komið þessum [...] í burt. Snappinu hans var eytt“ og brotaþoli svaraði „Já flott hjá þér að eyða snappinu þínu“. Ákærði var spurður hvers vegna hann hefði þá ekki gengist við því að standa sjálfur á bak við „[...]“ og sagðist hann ekki hafa séð ástæðu til þess, en hann hefði ætlað að viðurkenna það fyrir brotaþola síðar.

Ákærði var sérstaklega spurður um verknaðarlýsingu í ákæru. Hann staðfesti að hann hefði viðhaft við brotaþola það kynferðislega tal sem rakið er í ákærunni. Hann neitaði hins vegar að hafa fengið brotaþola til þess að senda sér mynd af kynfærum hans, reynt að fá hann til að senda fleiri myndir og að hafa sent brotaþola mynd af eigin kynfærum. Hann kvaðst viðurkenna að hafa, sem „[...]“, hótað brotaþola að dreifa samskiptum þeirra ef hann hefði ekki önnur kynferðismök við ákærða fyrir kl. 23:00 þann dag.

Ákærði sagði að þegar viðtakandi vistaði myndir sem sendar væru með „snapchat“ kæmi tilkynning um vistunina og hefði brotaþoli þannig mátt vita að myndir sem hann hefði sent hefðu ekki verið vistaðar.

Ákærði sagði kynferðislegt tal þeirra brotaþola hafa verið frá þeim báðum komið, sjálfur hefði hann ekki átt meira frumkvæði en brotaþoli en kannski verið „full opinn að tjá mig um það við hann.“

Ákærði sagðist hafa sagt brotaþola að hann væri búinn að loka reikningi „[...]“ áður en móðir brotaþola hefði skorist í leikinn. „Facebook“-skilaboð um það hefðu verið ítrekun fyrri skilaboða um það til brotaþola.

Brotaþoli sagðist hafa kynnst ákærða sumarið 2014 er ákærði hefði verið [...]. Þeir hefðu ekki átt í samskiptum utan þess á þeim tíma en ákærði hefði þó „addað“ honum á „facebook“.

Brotaþoli lýsti upphafi þessa máls þannig að á samskiptaforritinu „snapchat“ hefði sér verið „addað af notanda sem kallaði sig [...]“. Brotaþoli, sem hefði ekki vitað að ákærði hefði verið þessi notandi, hefði átt í „mjög kynferðislegum samskiptum“ við þennan „[...]“, en daginn eftir hefði sá aðili hótað „að birta myndir af mér sem ég hafði sent honum og hann vildi sem sagt að ég og þessi X myndum stunda kynlíf fyrir klukkan tólf [...] og myndum senda honum myndir af því.“

Brotaþoli sagði að spjall þeirra „[...]“ hefði verið skemmtilegt en sífellt orðið grófara. Spurður hvor þeirra hefði átt frumkvæði að því svaraði brotaþoli: „Ég mundi segja að það væri hann, en ég var alveg samþykkur að, þú veist, að þetta væri í gangi, en undir lokin þá var ég kominn með nóg og vildi ekki meira.“ Þetta hefði þá ekki verið skemmtilegt lengur „og þetta var ekki eitthvað sem ég vildi gera“.

Brotaþoli var spurður hvers vegna hann hefði ekki tekið „[...]“ á orðinu og eytt honum úr forriti sínu. Hann sagði að sér hefði fundist samtalið spennandi og á þeim tíma viljað halda því áfram.

Brotaþoli sagði að strax daginn eftir hefði þessi aðili verið „byrjaður að reyna að ná í mig í gegnum þennan samskiptavef og hér og er strax farinn að hóta mér einhverju, eða já, daginn eftir er hann byrjaður að hóta mér að birta þessar myndir í rauninni. En fyrst þarna fyrst hefur X sjálfur samskipti við mig í gegnum facebook.“ Þau samskipti hefðu verið að frumkvæði ákærða og hafist um fjögurleytið þann dag.

Brotaþoli kvaðst hafa sent ákærða, sem Vigni, mynd af kynfærum sínum. Sér hefði fundist „það bara eitthvað spennandi. Mér datt í hug að það gæti orðið, myndi auka spennuna, en það í rauninni að mínum hluta þá fannst mér það ekki hjálpa til.“ Spurður hver hefði átt frumkvæði að þessu svaraði brotaþoli: „Ég held ég hafi gert það að eigin frumkvæði, en hann var að ýta svolítið undir það, myndi ég segja.“ Sjálfur hefði brotaþoli fengið sendar þrjár myndir af getnaðarlimi ákærða.

Um kvöldmatarleyti hinn 9. apríl hefði ákærði farið að ræða við hann um hótanir „[...]“. „Hann hérna sagði mér að An.. Vignir eða sem sagt, það var þannig að sem sagt að X lét mig fyrst vita að hótanirnar væru að koma og síðan fóru þær að koma til mín í gegnum vini.“ Ákærði hefði sagt að „það væri best bara að hlýða honum. En hérna hann sagðist líka þekkja einhverja gaura sem að kynnu að hakka og eitthvað svoleiðis og [...] gætu komist að því hver þessi Vignir væri ef að þetta væri búið að gerast. Þeir væru ekki tilbúnir að fara að hakka nema þetta væri búið að gerast“, að brotaþoli og ákærði væru „búnir að stunda kynlíf og búnir að senda honum myndir, þá gætu þeir farið og hakkað hann og komist að hver þetta væri.“ Ákærði hefði einnig nefnt að kannski væri hægt að múta honum [...] að birta ekki þessar myndir og hann sagðist vera tilbúinn til að hérna borga honum pening ef að hérna hann, til að já hann myndi ekki birta myndirnar.“ Brotaþoli sagðist muna að „hann ítrekaði það við, að sem sagt hann sagði sérðu hvað ég er tilbúinn að gera fyrir þig, ég er tilbúinn til að borga pening til að þetta komi ekki fyrir þig“.

Brotaþoli sagðist hafa vitað að til væru forrit sem gætu opnað „snöppin aftur“. Hann hefði því ekki getað útilokað að „[...]“ væri með myndir og samtal undir höndum og gæti dreift. Brotaþoli sagðist hafa haft samband við tvo vini sína og sagt að láta sér ekki bregða ef þeim bærust „einhverjar myndir“, heldur láta sig strax vita. Hann hefði hins vegar ekki sagt hvers kyns myndirnar væru.

Brotaþoli var spurður hvort ákærði hefði sagst vera reiðubúinn til kynferðismaka með honum og sagði að „hann sendi það alveg rosalega oft að hann væri tilbúinn til þess. [...] ég man ekki alveg eftir þessu sko, en hann sagði allavega mjög ítrekað að hann væri tilbúinn til þess.“ Brotaþoli hefði harðneitað því og ekki haft neina löngun til þess. Frekar hefði hann leyft myndunum að fara sína leið.

Brotaþoli sagði að andlit sitt hefði ekki sést á þeirri mynd sem hann hefði sent af kynfærum sínum. Af myndinni hefði hins vegar verið hægt að þekkja herbergi hans og fatnað. Brotaþoli sagði að hótanirnar hefðu einnig snúist um að samtölin yrðu birt og þá myndi notendanafn hans líklega sjást. Væri notendanafn hans á margra vitorði.

Brotaþoli sagði að um ellefuleytið um kvöldið hefði hvarflað að sér að yfirgefa [...], „þannig að ég var að hugsa mér sko bara að fara að strjúka og ekkert, bara til að losna frá þessu, [...] ég ætlaði sem sagt bara að strjúka burt til að sleppa við hérna afleiðingarnar af myndunum, eða sem sagt ef að þær yrðu birtar.“ Hann kvaðst ekki hafa vitað hvert hann færi, bara burt. Um kvöldið hefði móðir hans hins vegar tekið eftir að hann væri eitthvað undarlegur og hefði hann sagt henni allt af létta. Þau hefðu svo haft samband við lögreglu. Móðir hans hefði fengið að skoða spjallið við „[...]“ en „ég lét hana ekki vita af spjallinu við X, nema hún tók eftir því sjálf að hann var að senda áfram á mig og vildi fá að sjá það sem X hefði sent, en hann hefði nú þegar beðið mig um að eyða parti af samtalinu þannig að mestallur mikilvægi parturinn af samtalinu er ekki til“. Hefði móðir hans sjálf tekið að svara ákærða gegnum aðgang brotaþola. Þannig hefði hún sagst, sem brotaþoli, vera gengin til náða.

Brotaþoli var spurður hvort ákærði hefði sagt sér, áður en móðir brotaþola hefði komist í spilið, að hann væri búinn að koma í veg fyrir birtingu myndanna. Því svaraði brotaþoli: „Já hann sendi skilaboð um það að sem sagt bara rétt fyrir að hérna sem sagt þegar hérna mamma fer að senda á hann þá einmitt fer hann að senda um að skil... þetta væri búið reddast og hann ætlaði ekkert að senda þessar myndir.“ Ákærði hefði sagt að „ég þyrfti ekkert að vera hræddur við þetta lengur.“ Nánar spurður hvort þetta hefði verið áður en móðir brotaþola hefði farið að spjalla við ákærða svaraði brotaþoli: „Eee nei svona á sama tíma mundi ég segja“. Hann kvaðst telja að þetta hefði komið fram í skilaboðum sem hefðu varðveist. Enn nánar spurður sagði hann ákærða hafa í „facebook“-samtali, sem móðir brotaþola hefði átt í við hann á reikningi brotaþola, sagt að brotaþoli þyrfti ekki að hugsa meira um þetta „snapaðgengi“ því það hefði verið tekið niður, og hefðu þau boð ekki komið frá honum áður. Brotaþoli hefði fylgst með yfir öxlina á móður sinni og þarna séð þessa staðhæfingu í fyrsta sinn.

Vitnið C, móðir brotaþola, sagði hann hafa sagt sér um kvöldið að hann hefði gert „hræðilegan hlut“. Hann hefði tekið af sér nektarmynd og sett á netið. Þetta hefði gerst í netspjalli við sautján eða átján ára gamlan pilt á [...], sem notaði nafnið „[...]“. Þá hefði sá aðili gert sér þá kosti „að ef hann myndi ekki hitta [ákærða] fyrir klukkan ellefu um kvöldið þá ætlaði hann að birta sem sagt myndirnar og hann átti að hitta hann til þess að stunda með honum kynlíf og sem sagt [ákærði] ætti að kenna honum hvernig ætti að stunda kynlíf, alvörukynlíf með karlmanni.“ Vitnið hefði haft samband við lögregluna, tölva brotaþola hefði verið opin „og í því þá opnast sko facebookið og það koma skilaboð frá [ákærða] inn á facebookið hans [brotaþola]“ og þá verði „eitthvað svona spjall“ en vitnið hefði þá ákveðið að svara ákærða og segjast farin að sofa. Hefði vitnið þóst vera brotaþoli en þá komið einhver svör frá ákærða sem vitninu hefðu fundist undarleg og hefði það furðað sig á ágengni ákærða. Vitnið hefði því haft samband við lögregluna að nýju og sagt henni að ákærði væri að reyna að nálgast brotaþola. Sig hefði farið að gruna að ákærði væri í raun „Vignir“ frá [...]. Fljótlega hefði vitnið kvatt ákærða á „facebook“ og þá undirritað með eigin nafni.

Vitnið sagði að brotaþoli hefði tekið málinu „rosalega alvarlega“, verið „rosalega hræddur“ og helst viljað „bara hverfa af jörðinni“.

Vitnið D sálfræðingur staðfesti vottorð sitt. Sama gerði vitnið E lögregluþjónn um skýrslu sína.

Vitnið F fv. rannsóknarlögreglumaður sagðist hafa farið ásamt félaga sínum G á heimili ákærða daginn eftir tilkynningu til lögreglu. Þar hefði verið lagt hald á tölvu ákærða og síma. Ákærði hefði strax áttað sig á erindi lögregluþjónanna og haft á orði að hann hefði ætlað að vera búinn að tala við „móðurina“ og „leiðrétta þetta eitthvað“ en af því hefði ekki orðið. Vitnið taldi að hugsanlega hefði ákærða ekki gefist tími til þess.

Vitnið G rannsóknarlögreglumaður sagðist hafa farið ásamt F á heimili ákærða og þar fundist tölva og tveir símar, annar glænýr. Hinn hefði fundist í ruslatunnunni.

Vitnið sagði að móðir brotaþola hefði tekið skjáskot í síma brotaþola. „Þannig er snapchat-forritið. Yfirleitt eyðir þetta spjalltextaboðum, stundum hanga þau inni í einhvern tíma en detta síðan út, það virðist ekki vera alveg nákvæmlega föst regla eftir ákveðinn tíma. Hún hafði tekið greinilega skjáskot þegar hún fékk símann fyrst í hendurnar, haft vit á því, en næst sem sagt þegar hún kíkti og við ætluðum að kíkja í hann, þá var allt horfið sko.“ Lögreglan hefði ekki verið viðstödd þegar móðir brotaþola hefði tekið skjáskotin og gæti því ekki staðfest tímasetningar þeirra. Móðirin hefði raðað skjáskotunum upp og kvaðst vitnið ekkert geta sagt um hvernig hún hefði gert það.

Vitnið sagði að ákærði hefði sagst ekkert hafa gert af sér.

Niðurstaða

Að mörgu leyti eru atvik málsins óumdeild. Þannig er óumdeilt að það hafi verið ákærði sem setti sig í samband við brotaþola undir notandanafninu „[...]“. Rakin hafa verið ýmis atriði úr samtali þeirra ákærða, undir nafninu „[...]“ og brotaþola. Þau eru tekin úr skjáskotum þeim sem móðir brotaþola mun hafa tekið, raðað upp og prentað út. Engin ástæða er til að draga efni þeirra í efa og verður miðað við hvor um sig hafi ritað þau orð sem gögnin benda til. Fyrir dómi kvaðst ákærði hafa viðhaft það kynferðislega tal sem sérstaklega er vitnað til í ákærunni og fær það stoð í gögnunum. Verður því slegið föstu. Viðhafði ákærði þar gróft kynferðislegt tal við brotaþola, sem var fimmtán ára gamall eins og ákærði vissi. Brotaþoli lýsti fyrir dómi að sér hefði þótt samtalið skemmtilegt og spennandi framan af, en hann taldi sig þá vera að tala við ókunnugan pilt, sér tveimur árum eldri. Hefur ákærði með þessari háttsemi brotið gegn 209. gr. almennra hegningarlaga og vegna aldurs brotaþola einnig gegn 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga svo sem honum er gefið að sök í fyrri ákærulið.

Brotaþoli segist hafa sent „[...]“ mynd af kynfærum sínum en ákærði kannast ekki við það og segist að minnsta kosti ekki hafa opnað myndina hafi hún verið send. Í samtali „[...]“ og brotaþola segir „[...]“: „Matt senda mer 100 myndir af þer noktum [mynd af hjarta] Bara eins og þu villt:***“. Næsti texti sem frá brotaþola kemur er orðin: „Hope i dont dissapoint u“. Því svarar „[...]“ með orðunum: „Það var svo litil birta :( Geturðu haft meiri birtu ? :** Og mer langar rosa að sja rassinn þinn :$“. Því svarar brotaþoli með orðunum „Eg veit og myndavelin og siminn sökkar og er pottþett til i að sökka þig :)“. Því svarar Vignir með „hehe“.

Af þessum hluta samtals þeirra verður ráðið að brotaþoli hafi sent „[...]“ mynd, eins og „[...]“ hafði nefnt. „[...]“ kvartar yfir lítilli birtu og óskar eftir að næst verði meiri birta. Annars staðar í samtali þeirra segir „[...]“ meðal annars: „Ma eg sja rassinn og meira af typpinu?“. Þykir í þessu ljósi ekki skynsamlegur vafi á því að brotaþoli hafi sent ákærða mynd af kynfærum sínum, svo sem brotaþoli segir. Það gerði brotaþoli í beinu framhaldi af þeim orðum „[...]“ að brotaþoli mætti senda honum hundrað nektarmyndir af sér, ef hann vildi. Í samtölum þeirra „[...]“ og brotaþola óskar „[...]“ ítrekað eftir fleiri nektarmyndum eins og rakið hefur verið. Er sannað að hann hafi reynt að fá brotaþola til að senda sér fleiri nektarmyndir, svo sem honum er gefið að sök í fyrri ákærulið.

Brotaþoli segist hafa fengið í samtölunum sendar þrjár myndir af kynfærum ákærða. Ákærði neitar því. Í samtölunum spyr „[...]“ á einum stað: „Fannst þer svona ogeðslegt að sja typpið a mer ? Hehe“. Þykir með þessu sannað að ákærði hafi sent brotaþola að minnsta kosti eina slíka mynd, svo sem honum er gefið að sök í ákæru.

Samkvæmt þessu er sök ákærða sönnuð samkvæmt ákærulið I og er háttsemi hans rétt færð til refsiheimilda.

Ákærði gengst við því að hafa, sem „[...]“, hótað brotaþola birtingu samtals þeirra og mynda, ef brotaþoli hefði ekki önnur kynferðismök við ákærða. Þetta segist hann hafa gert brotaþola til varnaðar en ekki til þess að ná fram kynferðismökunum. Hafi aldrei staðið til af sinni hálfu að þau færu fram. Lokamarkmið ákærða hafi verið að geta sjálfur átt samtöl við brotaþola, honum til stuðnings og ráðgjafar.

Ákærði setur sig í samband við brotaþola undir fölsku flaggi. Mjög fljótlega í samtalinu beinir ákærði talinu að kynferðismálum og sjálfum sér í eigin persónu. Sem „[...]“ hvetur hann brotaþola til að leita til ákærða, og tekur fljótt fram að ákærði sé sagður vera „fkn góður í rúminu“ og segir hann vera „bara æði“. Síðar í samtalinu hvetur „[...]“ brotaþola til að „tékka á“ ákærða og athuga hvort hann vilji hafa kynmök en þegar brotaþoli hafnar því ítrekar „[...]“ tillögu sína og hvetur hann til að nýta sér það að hafa „fkn sætan traustan homma sem býr á sama stað“. Öruggara sé að fá reynslu frá mun eldri manni en jafnöldrum. Þar á eftir býðst „[...]“ til að finna „snappið hans“ ákærða og spyrja hvort hann „myndi halda framhjá“. Hvetur ákærði, sem „[...]“, brotaþola þannig ítrekað til að nálgast ákærða, með kynlíf í huga.

Sannað er með framburði ákærða sjálfs, sem fær stoð í gögnum, að hann hafi sett fram umræddar hótanir við brotaþola. Þá þykir ljóst að hótanirnar hafi verið brotaþola mikið alvörumál, svo sem ákærða mátti vera ljóst. Hann og móðir hans bera bæði um að hann hafi velt fyrir sér að yfirgefa [...] tafarlaust seint um kvöld vegna yfirvofandi birtingar og hann hafði samband við að minnsta kosti einn vin sinn til þess að undirbúa fyrstu viðbrögð við hugsanlegri birtingu.

Ákærði talar í eigin nafni við brotaþola á „facebook“ um kvöldið, þegar skammt er eftir af fresti þeim, sem hann hefur sagt brotaþola að „[...]“ hafi sett þeim. Segir hann fyrst að þeir hafi frest til klukkan hálf ellefu en bætir svo við að „núna“ hafi „hann“ sagt að þeir hefðu frest til fimmtán mínútur í ellefu. „Hvað eigum við að gera ? ???“ spyr ákærði brotaþola. Þá berast brotaþola skilaboð frá „[...]“ um að tíu mínútur séu til stefnu. Er þarna settur mikill þrýstingur á brotaþola að hafa þegar kynmök við ákærða, ella muni „[...]“ „dreifa spjallinu okkar um allt“. Það er ekki fyrr en ákærða er ljóst að móðir brotaþola er byrjuð að svara honum á „facebook“ sem hann segir frá því að hættan sé liðin hjá og brotaþoli hafi ekkert að óttast.

Eins og rakið hefur verið byggir ákærði á því að fyrir sér hafi vakað að fræða og hjálpa brotaþola, sýna honum fram á þær hættur sem leynist á netinu og mikilvægi þess að treysta ekki öllum sem þar verða á vegi hans, og verða í framhaldinu í aðstöðu til að hjálpa honum frekar ef hann óskaði. Sú frásögn ákærða er ekki trúverðug og fær ekki stoð í gögnum málsins. Á fyrri degi samtalsins við brotaþola vísar „[...]“ fyrst og fremst á ákærða sem einstakling sem sé mjög „góður í rúminu“ og hvetur brotaþola mjög til að leita kynlífs með honum. Hefði þó verið nærtækara að mæla með ákærða sem hollum ráðgjafa og viðræðugóðum, ef það hefði verið raunverulegt markmið samtalsins.

Af framanrituðu er ljóst að ákærði, sem „[...]“, beinir tali þeirra brotaþola ítrekað að kynferðismálum og hvetur brotaþola ítrekað til að leita kynlífs með ákærða. Daginn eftir setur hann fram hótanir, sem brotaþoli tekur mjög alvarlega, um það sem gerast muni, hafi brotaþoli ekki kynferðismök við ákærða. Það er ekki fyrr en móðir brotaþola hefur komist að því hvernig komið er, sem ákærði segir brotaþola að hann þurfi ekki að láta undan hótununum. Þykir sannað að ákærði hafi haft vilja til að ná fram kynferðismökum með þessum hætti og ótvírætt sýnt þann ásetning í verki. Hefur hann með háttsemi sinni brotið gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga sbr. 20. gr. sömu laga svo sem honum er gefið að sök í síðari ákærulið.

Í samræmi við það sem hér hefur verið rakið er ákærði sannur að sök samkvæmt ákæru. Háttsemi hans beindist að fimmtán ára gömlum pilti sem ákærði hafði samband við undir fölsku flaggi og reyndi síðar með hótunum að fá til kynmaka við sig.

Í júlí 2015 var ákærði dæmdur til tveggja mánaða fangelsis fyrir þjófnað en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Að öðru leyti skiptir sakaferill ákærða ekki máli við ákvörðun refsingar. Þau brot sem ákærði er sakfelldur fyrir framdi hann fyrir uppsögu þess dóms og verður honum nú ákveðinn hegningarauki. Verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í fimmtán mánuði. Í málinu liggur greiningar- og meðferðarskýrsla meðferðarstöðvarinnar Stuðla um ákærða, dags. 14. mars 2006. Kemur þar fram að ákærði hafi tvívegis verið vistaður á [...] á árunum 2004 og 2005, alls í um níu vikur. Hafi hann í fyrri innlögn verið greindur með [...] en í síðari innlögn með [...]. Eru í skýrslunni raktir erfiðleikar sem við hafi verið að glíma og komi þar fram að [...]. Kemur fram í skýrslunni að ákærði hafi dvalist mikið á stofnunum, [...] og [...]. Hafi hann eftir útskrift vistast á fósturheimili. Þá er í skýrslunni greint frá alvarlegum [...].

Tilraun ákærða sem hann er sakfelldur fyrir fólst í orðum einum, þótt enginn vafi sé á að þau hafi vakið mikinn ótta hjá brotaþola. Þegar á allt er horft þykir fært að skilorðsbinda hluta refsingar ákærða, eins og í dómsorði greinir, en auk hins almenna skilyrðis 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955, skal ákærði sæta á skilorðstímanum sérstakri umsjón á vegum Fangelsismálastofnunar, sbr. 1. og 2. tl. 3. mgr. 57. gr. laga nr. 19/1940. Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari telur að vegna eðlis þeirra brota sem ákærði er sakfelldur fyrir séu ekki efni til að skilorðsbinda refsingu hans að neinu leyti.

Ákærði hefur framið ólögmæta meingerð gegn brotaþola og ber á henni bótaábyrgð. Engin ástæða er til að efast um að brotaþoli hefur verið í öngum sínum þegar hótanir fóru að berast honum og að málið hefur haft áhrif á hann, svo sem rakið er í vottorði sálfræðings. Á hinn bóginn verður að líta til þess að tiltölulega skammur tími leið frá því hótanir tóku að berast og þar til brotaþola varð ljóst hvernig í pottinn var búið. Af vottorði sálfræðingsins verður ráðið að brotaþoli hafi unnið vel úr málinu af sinni hálfu og það hafi nú minni áhrif á líðan hans. Verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola 300.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum eins og greinir í dómsorði en miðað er við að bótakrafa hafi verið kynnt ákærða 27. maí 2015. Ákærði verður dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Unnsteins Arnar Elvarssonar hdl., 995.410 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, áætlaðan ferðakostnað verjandans, 50.000 krónur og útlagðan kostnað verjandans 71.080 krónur, þóknun skipaðs réttargæslumanns, Jóns Stefáns Einarssonar Hjaltalíns hdl., 327.360 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og annan sakarkostnað sem samkvæmt yfirliti saksóknara nemur 94.480 krónum. Gætt var 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008.

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari fór með málið af hálfu ákæruvaldsins.

Málið dæma héraðsdómararnir Þorsteinn Davíðsson, Erlingur Sigtryggsson og Ólafur Ólafsson.

D Ó M S O R Ð

Ákærði, X, sæti fangelsi í fimmtán mánuði. Fullnustu tólf mánaða af refsingunni skal frestað og niður skal hún falla að liðnum þremur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Jafnframt sæti ákærði á skilorðstímanum sérstakri umsjón á vegum Fangelsismálastofnunar, sbr. 1. og 2. tl. 3. mgr. 57. gr. laga nr. 19/1940.

Ákærði greiði B 300.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. apríl 2015 til 27. júní 2015, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Unnsteins Arnar Elvarssonar hdl., 995.410 krónur, áætlaðan ferðakostnað verjandans, 50.000 krónur, útlagðan kostnað verjandans 71.080 krónur, þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Jóns Stefáns Einarssonar Hjaltalíns hdl., 327.360 krónur og 94.480 króna annan sakarkostnað.