Mál nr. 738/2016
- Kærumál
- Réttarkrufning
Krafa lögreglustjóra um heimild til að framkvæma réttarkrufningu á líki óþekkts einstaklings var tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. október 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. október 2016, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um heimild til að framkvæma réttarkrufningu á líki óþekkts einstaklings. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að áðurgreind krafa hans verði tekin til greina.
Svo sem greinir í beiðni sóknaraðila er ekki unnt að útiloka að dauðsfall hins látna verði rakið til refsiverðrar háttsemi og af þeim sökum sé nauðsynlegt að kryfja lík viðkomandi einstaklings. Þá hefur sóknaraðili staðhæft í greinargerð til Hæstaréttar að ekki sé ljóst af hvaða einstaklingi þær líkamsleifar sem um ræðir séu. Sóknaraðili vísar meðal annars um grundvöll kröfu sinnar til 87. gr. laga nr. 88/2008 og eru skilyrði hennar uppfyllt. Ber því að fallast á kröfu sóknaraðila.
Dómsorð:
Sóknaraðila er heimilað að framkvæma réttarkrufningu á líki óþekkts einstaklings.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. október 2016.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að heimilt verði að framkvæma réttarkrufningu á líki óþekkts einstaklings.
Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að kl. 04:46 aðfaranótt miðvikudagsins 26. október, hafi neyðarsendir farið í gang skammt austur af [...]. Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar (LHG) hafi fundið neyðarsendinn en hann beri númerið [...] og sé merktur [...]. Samkvæmt upplýsingum frá LHG sé [...] kallmerkið [...] og EMO númerið [...]. Skipstjóri skútunnar [...], sem hafi verið einn um borð, [...], [...], muni hafa ætlað að sigla skútunni til [...] og koma þangað 16. júlí 2016. Þann 18. júlí hafi [...] tilkynnt að skútan hefði ekki skilað sér í land og muni vera lögreglurannsókn [...] vegna týndu skútunnar. Síðast hafi sést til skútunnar 5. september þegar flutningaskip hafi siglt framhjá skútunni 720 mílur austur af Nýfundnalandi. Þá muni segl hennar hafa verið rifið og enginn sýnilegur uppi á dekki. Vegna veðurs hafi enginn frá flutningaskipinu farið um borð. Skútan hafi verið gul að lit og samkvæmt upplýsingum frá LHG hafi þyrluáhöfn séð gult brak, á ströndinni um það bil 1 km hvora átt frá þeim stað sem neyðarsendirinn hafi fundist.
Við birtingu hafi hópur frá [...] farið og gengið eftir ströndinni. Skömmu síðar hafi fundist hægri fótleggur og síðar um daginn fundist búkur. Vinstri fóturinn hafi ekki fundist. Við leit á ströndinni hafi fundist smávægilegt brak og einhverjir smámunir. Þá hafi fundist lyfjaspjald merkt [...].
Kennslanefnd hafi komið á vettvang og við fyrstu skoðun réttarmeinafræðings á hægri fótleggnum virðist fótleggurinn hafa legið í sjó í einhverjar vikur. Ekki hafi reynst unnt að bera kennsl á hinn látna.
Með vísan til framangreinds telur lögreglustjórinn á Suðurnesjum að ekki sé unnt að útiloka að dauðsfall hins látna verði rakið til refsiverðrar háttsemi og nauðsynlegt sé því að kryfja lík mannsins án tafar til að koma í veg fyrir að síðar vakni grunsemdir um að dauðsfallið megi rekja til refsiverðs verknaðar.
Vísað sé til framlagðra gagna auk ofangreinds og jafnframt til 6. og 7. gr. laga nr. 61/1998 um dánarvottorð, krufningar o.fl. og 87. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Samkvæmt því sem rakið hefur verið er rökstuddur grunur um að um sé að ræða lík [...]. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 61/1998 um dánarvottorð, krufningar o.fl. skal lögregla kynna nánasta venslamanni nauðsyn réttarkrufningar og leita samþykkis hans. Samþykki nánasti venslamaður ekki réttarkrufningu skal lögregla leita úrskurðar dómara um hana, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Í 87. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála segir einnig að leita skuli úrskurðar um réttarkrufningu nema nánasti venslamaður eða nánustu venslamenn samþykki að hún fari fram. Ekkert liggur fyrir um að leitað hafi verið samþykkis venslamanns og að hann hafi ekki samþykkt réttarkrufningu. Er beiðni lögreglustjóra því hafnað.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum um heimild til að framkvæma réttarkrufningu er hafnað.